Tag Archive for: Vatnsleysuströnd

Brunnastaðasteinninn

Í Fréttablaðinu föstudaginn 23. febrúar 2018 mátti lesa eftirfarandi frásögn: „239 ára grjót frá Vatnsleysu metið á hálfa milljón“.

Brunnastaðir

Virgill Scheving Einarsson.

„Danskur grjóthnullungur fannst við jarðvegsframkvæmdir á landi Efri-Brunnastaða á Vatnsleysuströnd fyrir nokkrum árum. Steinninn er frá 1779 og fornmunasali í Skotlandi metur hann á hálfa milljón íslenskra króna.
Þegar Virgill Scheving Einarsson, landeigandi á Efri-Brunnastöðum -Skjaldarkoti í Vogunum, erfði landareignina flutti hann heim frá Skotlandi, þar sem hann hafði búið í fimmtán ár, og réðist í heilmiklar framkvæmdir á eigninni.

„Það var skurðgröftur í gangi hérna fyrir þremur árum og ég fór eitthvað að skoða í jarðvegshauginn sem kom upp úr skurðinum og rek augun í sérkennilegan stein sem liggur þar,“ segir Virgill.

„Ég sá að það voru stafir á honum þannig að ég þurrkaði af honum og sé að öðru megin á honum stendur ártalið 1779 og hinum megin eru skrautskrifaðir upphafsstafir tveggja einstaklinga.“

Virgill telur víst að steininn hafi verið steyptur til minningar um brúðkaup, veglegur minnisvarði um tímamótaatburð í lífi löngu horfinna ábúenda. „Ofan á honum hefur verið klemma sem hefur brotnað af. Steininn hefur verið skraut.“

Með hjálp fornmunasala og sérfræðinga í Skotlandi komst Virgill að því að steininn kemur frá Danmörku. „Það voru tvíbýli hérna og einhverjir ábúendur hafa gift sig og látið steypa þetta í Danmörku.“

„Steinninn vegur um eitt kíló og Virgill segir hann ekki mikinn um sig, álíka stóran og „Neskaffi-krukku eða eitthvað þannig.“
Hann fór með steininn til Glasgow og sýndi hann fornsala þar í borg.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn – 1779.

„Karlinn hafði hann í viku, lét skoða hann og röntgenmynda til þess að komast að því hvað væri í honum. Niðurstaðan er að í honum er hart danskt granít, sennilega frá Jótlandi. Hann er vel steyptur. Það var ekki komið svona gott sement, eða steinlím eins og þeir kalla það hingað til lands á þessum tíma. Það kom allt frá Danmörku í þá daga. Hann bauð mér 500 þúsund kall í hann og sjálfsagt smyr hann einhverju á hann og selur hann áfram.“

Virgill byrjaði á að kanna áhugann á steininum hér heima en hann reyndist enginn. „Ég talaði við sveitarfélagið hérna og þeir sýndu mér afturendann. Þeir hafa nú ekki komið vel fram við mig hérna í Vogunum. Þeir hirtu líka nafnið af okkur og kalla þetta Voga. Ég á heima á Vatnsleysuströnd en ekki Vogum. Ég sýndi Minjastofnun hann líka og þar var enginn áhugi heldur.“

Virgill ætlar sér því að fara með steininn aftur til Glasgow og selja hann þar. Steinninn hafi í sjálfu sér ekkert gildi fyrir honum enda ekki frá forfeðrum hans kominn.

„Mitt fólk kom hingað úr Árnessýslu 1943 þannig að hann tengist því ekki þannig að ég er bara að spá í að fara með hann úr landi. Þeir segja að það sé ólöglegt en ég ætla bara að láta karlinn fá hann. Hann lætur mig þá fá hálfa milljón fyrir hann. Ég er ekki í neinu hallæri með peninga eða svoleiðis en finnst alveg eins gott að láta steininn bara fara þessa leið.“

Sjá meira um steininn HÉR.

Heimild:
-Föstudagur 23. febrúar 2018.

Brunnastaðasteinninn

Brunnastaðasteinninn.