Tag Archive for: vegagerð

Hafnarfjarðarvegur

Í Vísi 1915 er fjallað um Hafnarfjarðarveginn. Skömmu síðar sama ár skrifar B.B. um veginn. Skrifin eru áhugaverð, einkum í ljósi þess að umræða var þegar orðin um fyrirhugaða sporbraut (járnbraut) milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Byrjað var á járnbrautarsporalagningunni 1918, en frá henni var horfið skömmu síðar, eins og lýst er glögglega annars staðar á vefsíðunni. Hafnarfjarðarvegurinn, einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins, hefur sjaldnast fengið að njóta sín af verðleikum. Hann er bæði gömul saga og ný…

Hafnarfjarðarvegur

Vegurinn er merktur inn á kort af Reykjavík frá 1876 ( Benedikt Gröndal). En merktur sem „Gamli vegur“ á korti frá 1887 (Sveinn Sveinsson) en sem Gamli Hafnarfjarðarvegur á korti Benedikts Gröndals frá sama tíma.Vegurinn lá frá Arnarhóli um traðirnar að Traðarkoti og norðan í Skólavörðuholti og í átt að Öskjuhlíð. Vegurinn hefur verið aflagður að mestu árið 1887.Um 1887 er vegurinn merktu inn á kortið frá vegamótum Klapparstígs og Laugavegar, hann er þá aflagður og merktur sem Gamli vegur, hann hefur legið yfir Frakkastíg á milli Laugavegar og Grettisgötu, hefur síðan sveigt yfir Grettisgötu á móts við númer 32, legið síðan í átt að gatnamótum Njálsgötu og Vitastígs, yfir Bergþórugötu við húsnúmer 31 og yfir lóð Austurbæjarskóla og yfir Barónsstíg á móts við Heilsuverndarstöðina. Hann lá svo upp á Öskjuhlíðarveg vestan við Eskihlíð. Greinilegt er að Skólavörðustígur og Öskjuhlíðarvegur hafa leyst þennan veg af hólmi um 1870 en þá var hafist handa við að gera Öskjuhlíðarveg.

„Án efa er þessi vegur einn hinn allra fjölfarnasti vegarspotti á þessu landi. þótt hann sé ef til vill talinn lögum samkvæmt sýsluvegur, þá er hann í reyndinni sannkallaður þjóðvegur og því er það æði einkennilegt, að með fullum sanni má segja, að vegarkafli þessi — milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar — mun vera einn hinn ógreiðfærasti og óhentugasti til umferðar, allra lagðra vega landsins. Í fyrsta lagi, er hann frá upphafi hálfu mjórri en hann ætti og þyrfti að vera, og er það höfuðgalli. Svo mjór er hann víða, að alveg er ógjörningur að koma bifreið fram hjá öðrum vagni, sem hún mætir á veginum og vita allir hér um slóðir hvílík vagnaumferð er á þessari leið og sama máli gegnir um lestir, sem fara mjög um veginn bæði vor og haust.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforingjakorti 1919.

Af því, hve vegurinn er mjór, hafa fyr og síðar hlotist ýms slys og áföll og jafnvel hefir það orðið mönnum að bana. Í öðru lagi er það alveg óskiljanlegt hversu viðhaldið á þessum vegi er bágborið. Um hann allan eru djúpar gjótur og sumstaðar stærðar hnullungssteinar upp úr honum, svo það líkist meira óruddum „fjallabaksvegi“. Ennfremur eru brýrnar, sem bygðar hafa verið yfir lækina á leið þessari, þær ómyndir, að tæpíega er farandi yfir þær með bifreið eða flutningavagn. það eru handónýta fjalir, sem búast má við að hrynji, niður þá og þegar. Þar að auki eru þessar brúarmyndir alt of mjóar og ekki bætir það úr skák, að gleymst hefir að setja handrið fram með þeim eða við endana, svo í nokkru lagi sé.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Fossvogur.

Af þessum ástæðum, sem þegar eru nefndar, þykir það því nær ógerningur að halda uppi bifreiðaferðum um þennan veg. Bæði er það, að þeir, sem málinu eru kunnugir af reynslunni, telja það jafnvel lífshættu að aka bifreiðum um veginn suður í Hafnarfjörð og svo er hitt, að á meðan honum er svo illa haldið við, þá slitna hjólin og vagnarnir svo óbærilega mikið, að úthaldskostnaðurinn fer fram úr öllu hófi. En trúað gætum vér, að mörgum mundi bregða við, ef bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hættu með öllu, því það hefir reynslan sýnt, að þörfin á slíkum flutningatækjum er geysimikil á þessari leið.

Arnarnes

Arnarnes 1903 – herforingjaráðskort.

Vonandi sjá þeir, sem ráðin hafa og völdin í þessu máli, nauðsynina á því, að bæta úr þessum miklu brestum og ætti næsta sumar ekki að líða svo, að veginum verði ekki gjörbreytt og bættur sem þörf krefur. þessa mundi margur óska, því það eru ekki tugir, heldur hundruð, sem um veginn fara marga daga.
Vonandi hætta menn að kýta og metast um það, hverjir eigi að framkvæma verkið, en hefjast heldur handa sem allra fyrst að hægt er og svo að um muni.
Það er ábyrgðarhluti, að bíða eftir slysunum og hálf leiðinlegt að vera orsök í því, að menn þurfi um alla eilífð að ferðast um svo fjölfarinn veg eins og skrælingjar, og enginn búhnykkur er það fyrir þjóðfélagið, að tefja eða hefta för manna að óþörfu.“

Í Vísi í sama mánuði skrifar B.B. um „Veginn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar“:

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.

„Um hann var grein í »Vísi« 9. þ. m. Á þeirri tíð, er Gullbringu- og Kjósarsýsla var eitt sýslufélag, mun hafa verið ákveðinn sýsluvegur frá Rvík suður með sjó, og er kaflinn milli landa Ríkur og Hafnarfj. hluti af þeim vegi. Sýslan gerði á sínum tíma vegarspotta þennan akfæran, en bæði var þá afvanefnum að gera og miðað að eins við þörf tímans, sem þá var, og því er vegurinn að gerðinni eins og fyrnefnd grein lýsir honum.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.

Þegar sýslunni var skift, hlaut hver sýslan þann kafla til viðhalds, sem í henni lá. Kársnes, milli Fossvogs og Kópavogs, er syðsta horn Kjósarsýslu. Yfir það liggur vegur þessi, og hlaut Kjósarsýsla þann klafa. Honum hefir verið sæmilega við haldið, enda gleypti hann mesLalt vegafé sýslunnar árlega, (oftast 300—700 kr.) svo aðra vegi sýslunnar hefir orðið að vanrækja.
Er þessi vegur þó svona út úr sýslunni, og henni ekki fremur að notum, en hann lægi í öðru héraði.

En er umferð Heilsuhælisins og bílanna bættist á þenna mjóa og veikgerða veg, sá sýslunefnd Kjósarsýslu fram á, að henni var ókleift að halda honum í standi, og í eðli sínu óskylt, svo lítið sem sýslurnar nota hann. Var þessi kafli því numinn úr tölu sýsluvega Kjósarsýslu frá nýári 1915. En við hann var svo vel gert síðastl. sumar, að nú er kafli þessi skárstur af Hafnarfjarðarveginum.

Hafnarfjarðarvegur

Hafnarfjarðarvegur 1947 – Arnarneshæð.

Eitt af listaverkum aukaþingsins í fyrra var breyting á vegalögunum frá 1907, er ákveður að vera skuli flutningabraut frá Rvík til Hafnarfjarðar milli lögsagnarumdæmanna, en þess viðhaldi hennar sé ráðstafað á annan hátt, en lögin 1907 ákveða. Verri grikk var varla unt að gera hinni litlu Kjósarsýslu; því nú eru helst horfur á, að henni verði skipað að halda vegarkafla þessum við sem flutningabraut. En undir það getur hún ekki gengist, Á nýafstöðnum sýslufundi þar var ákveðið, að leita 1000 kr. láns fyrir sýslusjóð, til að bæta bráðustu viðgerðarþörf á sýsluvegum þar, sem legið hafa þar óbættir, af því alt féð lenti í viðhaldi hins óþarfa vegarkafla. Það horfir því til vandræða, ef þvinga ætti sýsluna til að taka á sig í viðbót þenna Kársnesskafla Hafnarfjarðarbrautarinnar, og er vonandi að til þeirra óyndisúrræða verði ekki að taka.

Hafnafjarðarvegur

Gamli Hafnafjarðarvegurinn 1971 – brú í Fossvogi. Fjær er Borgarpítalinn.

Vanhugsað væri að lappa upp á þenna veg til lengdar, eins og hann er. Eigi að fullnægja samgangnaþörfinni þarna, verður að byggja nýjan veg á öðrum stað, og yrði óvíða eða lítil not að þeim vegi, sem nú er, við þá vegargerð. Líklega væri skynsamlegast að leggja þarna sporbraut (járnbraut), og skal eg leyfa mér að láta í ljósi hugmynd mína um legu vegarins (eða sporbrautar), er fullnægja mundi framtíðarþörfinni.

Vegurinn, sem nú er, liggur yfir 6 hæðir (með lægðum á milli) og er víða of brattur. Ætti að leggja framtíðarveg um sama svæði, yrði að sneyða hæðirnar meira og jafnframt beygja inn í dalverpin, og hlyti það að lengja veginn mikið, til að fá hann sæmilega hallalítinn og hægan. Eg hygg því að vegurinn yrði ekki mikið lengri, þó valin væri önnur leið, er nú skal lýst.

Hafnarfjarðarvegurinn

Hafnarfjarðarvegurinn 1947 – malbikið orðið holótt.

Sé um sporbraut að ræða, skal nota hið mælda járnbrautarstæði upp að Blesugróf, ella austur veginn austur á móts við Bústaði, þá járnbrautarleiðina upp fyrir Blesugróf, þá austan við Digranessháls, um Fífuhvamm, Nónskarð, austan Hofstaðaholtið, vestan við Vífilstaði, um Hagakot, og síðan yfir hraunið til Hafnarfjarðar.
Á þessari leið er ein aðal-bugða, en færri lægða- og hæðabeygjur, en ef fara ætti gömlu hálsaleiðina; og heilsuhælið, sem svo mikið notar veginn, fær hann nær sér.
Þetta er a. m. k. þess vert að athuga það.“ – B.B.

Heimildir:
-Vísir, 119. tbl. 09.04.1915, Hafnarfjarðarvegurinn, bls. 1.
-Vísir, 126. tbl. 16.04.1915, Vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, bls. 2.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn í Hafnarfjarðarhrauni.

Krýsuvíkurvegur

Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:

Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um „Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegir 2021.

„Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.

Lægsta leiðin

Krýsuvíkurvegir

Krýsuvíkurvegir 1996.

Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.

Tvær torfærur

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.

Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.

Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.

Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.“

Kleifarvatn

Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.

Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog„.

Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni „Vanhugsað fálm„:

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.

„Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar“, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg“ — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.

Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa“ á grundvelli misskilnings og „rannsóknar“, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels“, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.

Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.

Seltún

Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.

Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður“ eitt).

Mælifell

Mælifell – gamla þjóðleiðin.

En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.“ – Janúar 1941; Þórir

Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.

Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, „Vanhugsað fálm“, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Fornleifaskráning

Í „Fornleifaskráning á Suðurlandi vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurlandsvegar“ – Unnið fyrir Vegagerðina, Bjarni F. Einarsson, desember 2008, er fátt um örnefni eða minjar á þessu svæði. Þó er a.m.k. getið tveggja, annars vegar „Hellisbrú“ og hins vegar „Kallþúfa“, sbr.:

Hellisbrú

Hellisbrú

Hellisbrú ofan Hellis.

Í Sunnlenskar byggðir segir að Páll Melsteð sýslumaður hafi látið gera Hellisbrú um 1840. Ekki er ósennilegt að gatan kunni a! hafa verið hlaðin upp á einhvern hátt mun fyrr en 1840. Til eru svokallaðir göngugarpar sem eru mjög gamlir, en þeir gátu m.a. legið yfir mýrar eða votlendi.
Vegir eins og Hellisbrú eru flestir sokknir í dag og því er Hellisbrú góður fulltrúi slíkra samgönguminja.“

Þjóðleið

Hellisbrú

Hellisbrú ofan Rima.

Leiðin (vegurinn) er upp hlaðinn þar sem hann fer yfir mýrar. Þar sem hann var skoðaður er hann 3 – 4 m breiður og 0,5 – 0,6 m hár (NV-SA). Hann er mjög vel gróin grasi.
Þegar leiðin kemur að Ferjuholtinu hefur stígur verið lagður ofan í hann að mestu leyti. Liggur leiðin svo niður að ánni og er neðsti kaflinn alsettur grenitrjám.
Líklega hefur leiðin svo legið með núverandi vegi að ferjustaðnum. Sagt er að skammt vestur af ferjustaðnum hafi hleðslur í veginum sést (Birna Lárusdóttir o.fl. 2004:20).

Hellisbrú

Hellisbrú.

Við þessa leið gæti Kallþúfa hafa verið! Skammt frá Kallþúfu var eyðibýlið Rimi. Einungis sést nú, í minningu þess, ein útihúsatóft.
Hellisbrúin er nú komin undir nýlegra vegstæði, en minningin um hana um lifa.

Heimild:
-Fornleifaskráning á Suðurlandi vegna mats á umhverfisáhrifum Suðurlandsvegar, Bjarni F. Einarsson, des. 2008.

Hellisbrú

Hellisbrú.

Hafnarfjörður

„Nýr konungsvegur til Hafnarfjarðar“ 

Hafnarfjörður 1903

Hafnarfjörður 1903.

„Hraunið ofan Hafnarfjarðar hefur löngum verið farartálmi, hvort heldur er fyrir mannfólk eða skepnur. Allt fram undir lok 19. aldar voru engar greiðar samgönguleiðir út frá hinum sívaxandi byggðarkjarna við Fjörðinn og þeir sem áttu erindi til eða frá Hafnarfirði, urðu að notast við troðna hraunstíga hvort heldur var út á Suðurnes um svokallaða Alfararleið, austur í sveitir um Selvogsgötu eða um illfæra hraunstíga norður ú bænum til innesja og Reykjavíkur.
Margar lýsingar eru til um þennan erfiða ferðamáta, ekki síst frá erlendum ferðamönnum sem sóttu Ísland heim fyrr á öldum. Skoski presturinn Ebenezer Hendersen sem kom ríðandi til Hafnarfjarðar frá Reykjavík sumarið 1814 segir í ferðalýsingu sinni að hann kenni mjög í brjósti um hestana sem þurfa að stika þessa ósléttu slóð yfir hraunið og ferðalangar þurfa að gæta varkárni til að hrufla sig ekki á fótleggjunum. Stígarnir dugðu vart til að komast um með klyfjaða hesta og vagnleiðir voru hvergi til staðar, enda þekktu landsmenn ekki til slíkst flutningsmáta fyrr en um aldamótin 199.

„Hafnarfjarðarvegabótasjóður“

Sjónarhóll

Sjónarhóll við Reykjavíkurveg.

Einn helsti framfarasinni í litla þorpinu við Hafnarfjörð á síðari hluta 19. aldar var Crristen Zimsen. Hann fluttist í Fjörðinn árið 1866 og gerðist verslunarstjóri við Knudtzonverslun og veitti henni forstöðu í tvo áratugi samhliða því sem hann stýrði verslunum í  bæði Reykjavík og Keflavík. Síðar rak hann sína eigin verslun þar til fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur árið 1892. Zimsen giftist Önnu Jurgensen kjör- og systudóttur Jes Th. Kristiansen, sem einnig var kaupmaður í Hafnarfirði á þessum tíma. Zimsen og Anna bjuggu lengstum sinn búskap í Hafnarfirði í húsi Bjarna Sívertsen. Þau eignuðust 10 börn. Þeirra á meðal var Knútur Zimsen síðar borgarstjóri Reykjavíkur.
Skömmu eftir að Zimsen kom í fjörðinn fór hann að huga að bættum samgöngum á landi, ekki síst við höfuðstaðinn í Reykjavík. Í árslok 1871 beitti hann sér fyrir stofnun sérstakst vegabótasjóðs til að gera úrbætur á þáverandi vegaslóða og fékk hann ýmsa aðila bæði í Hafnarfirði og nágrannabyggðum í lið með sér. Sjóðurinn var nefndur „Hafnarfjarðar vegabótasjóður“ og tilgangur hans að safna gjöfum og samskotum til að „gjöra almenningsveg yfir Garðahraun frá Hafnarfirði inn að Hraunsholti“ eins og sagði í stofnskrá sjóðsins. 

Mesti farartálminn í Hafnarfjarðarhrauni

Hafnarfjörður 1900

Hafnarfjörður 1900.

Undirtektir voru almennar og góðar og töluvert fé safnaðist í sjóðinn eða hátt í 900 ríkisdalir á hálfu öðru ári. Framkvæmdir hófust þegar sumarið 1872 og miðaði vel. Vegaslóðinn var upphækkaður og gerður 5-6 álnir á breidd. Lögð var áhersla á að hafa veginn sem beinastan og tókst þannig að gera hann þriðjungi styttri en hinn fyrri krókastíg.
Mikil umferð og sívaxandi var milli þessara stærstu byggðarkjarna á suðvesturhorninu jafnt um sumar sem vetur. Nokkuð greiðfært var lengstan hluta leiðarinnar en stígurinn í gegnum hraunið ofan Hafnarfjarðar var jafnan mikill farartálmi.
„Í hrauni þessu eru mjög fáar hellur, en víðast hvar eru klettadrungr hrúguð saman, og innan um þessi klungr eru djúpar lautir. Stígurinn hefir um aldr og æfi undist fram meðal kletta þessara. Hann er örmjór, svo að ferðamenn optlega hafa komist í hin mestu vandræði, þá er þeir mættu lest í stíginum eða lestir mættust. Um vetur fyltust allar lautir í hrauninu djúpum snjó, og varð þá hraunið alófært“, segir í frétt í blaðinu Víkverja sumarið 1873 þar sem fjallað var um vegaframkvæmdirnar.

Koungur stráði silfurmynt á nýja veginn

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Strangata 27.

Alt kapp var lagt á að ljúka að mestu vegagerðinni áður en hátíðarhöld vegna 1000 ára afmælis byggðar í landinu færu fram sumarið 1874. Þá síðsumars kom Kristján IX konungur Danmerkur og Íslands færandi hendi með nýja stjórnarskrá og gerði sér m.a. dagsferð suður í Hafnarfjörð og var nokkurs konar óformleg vígsla hins nýja vegar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í bók sinni „Áður en fífan fýkur“ þeim merka degi er kóngur reið með föruneyti inn í Hafnarfjarðarhraun, en afi Ólafs, Ólafur Þorvaldsson í Ólafsbæ var verkstjóri vegagerðarmanna.
„Dag þann, sem kóngurinn kom til hafnarfjarðar, voru vegagerðarmenn að vinnu sinni. Þegar þeir sáu til ferða konungs og fylgdarliðs hans, röðuðu verkemennirnir sér upp báðum megin vegar og heilsuðu og fögnuðu konungi. Konungur stöðvaði hest sinn milli raða verkamanna, tók nokkrum sinnum handfylli af silfurmynt úr vösum sínum og stráði á veginn, þar sem hann var sléttur. Þegar konungur hélt ferð sinni áfram, varð nokkur handargangur við að ná í eitthvað af aurunum, sem meira var til minningar heldur en til nota.“

Enn frekari vegabætur
Nýi  vegurinn í gegnum Hafnarfjarðarhraun var mikil samgöngubót. Áfram var unnið næstu ár að frekari vegabótum og var verkið fullklárað árið 1878. Rúmum áratug síðar var enn á ný farið að huga að vegabótum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Var þá ráðist í að lagfæra enn frekar erfiðustu kafla leiðarinnar auk þess að breikka veginn og gera hann vagnfæran.“

Heimild:
-Samfylkingin í Hafnarfirði, jólablað 2013 – Lúðvík Geirsson tók saman, bls. 4-5.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefnakort (ÓSÁ).

Þingvellir

Fjölmargar fornar leiðir liggja um Þingvöllu – allt frá fyrstu tíð til þessa dags. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1880-1881 er m.a. fjallað um hinar fornu götur að og frá Þingvöllum fyrir þá tíð:

thingvellir-oxararfoss

„Eitt af því, sem þarf að gjöra grein fyrir, svo vel sem unnt er, er það, hverja vegi fornmenn hafi riðið á þing og af þingi, bæði þeir, er kómu norðan og vestan, austan og sunnan. Eg hefi talað hér að framan um veg þann, er norðan og vestanmenn munu hafa riðið; enn sunnanmenn eða þeir, sem kómu úr Kjalarnesþingi, hafa varla getað farið niðr Kárastaðastíg, sem nú er aðalvegrinn; sá vegr var ekki gjörðr vel fær fyrr enn hér um bil 1831; þá var sprengt úr klettunum og vegrinn lagðr, svo að nú má fara með klyfjahross, sem kunnugt er; áðr varð þar að eins farið með lausa hesta. Ef söðull var t. d. á hestinum, varð að halda sveifinni, að hún eigi rækist í klett, er stóð fram úr berginu, enn sá klettr var sprengdr í burtu, og svo var víðar. Sama er að segja um Langastíg, sem liggr norðr og upp af Völlunum efri upp úr Almannagjá; hann var gjörðr ári síðar.
Enn í fyrri daga var annar vegr á Þingvöll fyrir Sunnanmenn; lá hann frá Skálabrekku og austr yfir hraunið að Almannagjá niðr við vatnið; mótar þar víða fyrir fornum götum eða troðningum; er þá farið yfir Öxarárfarveginn gamla. Niðr við vatnið er Almannagjá orðin lítil, eða klofnar þar í smágjár og sprungur; þar hefir legið vegr yfir, og heitir Ferðamannaklif enn í dag. Þar virðist víða vera eins og mannaverk úr grjóti yfir gjárnar. Síðan lá vegrinn upp með berghallanum upp með vatninu og upp í þingið, sem nú er kallað, fyrir vestan ána, þar sem búðatóttirnar eru mestar. Þessi vegr var kallaðr Hallvegr; þá var vað á Öxará leirunum eða söndunum við vatnið fyrir framan túnið á Þingvelli, og svo lá vegrinn austr eftir nálægt Vatnskotsveginum, sem nú er kallaðr, og svo til Vellankötlu, og síðan austr til Gjábakka. Það er að segja: þá lá vegrinn ekki yfir Gjábakkastíg sem nú, því að hann var fyrst gjörðr 1832 eða 1833, heldr sunnar fyrir utan, þar sem Hrafnagjá endar eða er orðin nær að engu; síðan lá vegurinn austr á Hrafnabjargaháls. Þessi Hallvegr lagðist af í jarðskjálftanum 1789 eða einkannlega vaðið á Öxará fram við vatnið; þar sprakk í sundr og kómu álar, sem eigi var fært yfir, enda fóru þá af að mestu hólmarnir fram undan Þingvallartúni, sem hafði áðr verið engi töluvert. Þegar vaðið lagðist af á ánni, vóru gjörðar traðirnar gegnum Þingvallartún og austr úr, því að annars staðar varð þá eigi vel farið. Þetta sögðu mér gamlir menn í Þingvallarsveit eftir sínu foreldri, sem lifði í jarðskjálftanum.
Eprestastigur-221nn þá einn vegr liggr frá Armannsfelli eða af Hofmannafleti austr yfir hraunið undir Hrafnabjörg og hjá Raftahlíð, sem kölluð er, og þaðan austr á Hrafnabjargaháls. Þessi vegr var kallaðr Prestavegr eða Byskupavegr, það er auðsjáanlega þessi vegr, sem talað er um við þingreið Þorgils Oddasonar: „Ok hugsa nökkut fyrir sér ráðit ok þykkir eigi ólíklegt at þeir Hafliði myndi þar fyrir sitja ok gæta svo hvárrar tveggju leiðarinnar, er önnur liggr fram undir Ármannsfell ok hjá Sleðaási: en önnur liggr. leiðin austr yfir hraun undir Hrafnabjörg, ok undir Reyðarmúla til Gjábakka, ok svo austan um hraunit til búða“. Eigi mun þetta eiga að skiljast þannig, að Presta- eða Byskupavegrinn hafi verið hin vanalega leið, er Norðlendingar fóru á þing, því að hún var miklu lengri, enn hana mátti þó koma á þing, ef hin var varin.
Nafnið Bláskógaheiði er nú týnt þannig, að það er eigi viðhaft í daglegu máli, enn það er víst, að Bláskógaheiði hét yfír höfuð í fornöld allar heiðar og aðalvegir, er liggja fyrir norðan og vestan Bláskóga (Þingvallarsveit); er það og eðlilegt, að fjallvegrinn í heild sinni hafi dregið nafn af Bláskógum.
Einn er aðalvegrinn, þegar farið er norðr eða vestr af Þingvelli; liggr hann upp hjá Ármannsfelli, sem kunnugt er, og upp Klyftir og hjá Sandvatni og yfir Tröllaháls. Norðrvegrinn liggr upp á Kaldadal. Fyrir ofan Brunna, sem eru efstu grös á þeim vegi, eða þar sem menn á, er af Kaldadal er komið, þar skiftist vegrinn, og er það kallað að fara fyrir Ok, er þá komið ofan í Reykholtsdal (Reykjadal nyrðra) eða Hálsasveit.“
Síðan framangreint var skrifað af kostgæfni í Árbókina á fyrrgreindum tíma, þótt ekki sé langur tími um liðinn, hefur mikið vatn áa runnið til sjávar. Um framhaldið má lesa á næstunni í „Reykjavíkurleiðir“. Ritið mun birtast á vefsíðu Vegagerðarinnar, líkt og „Grindavíkurleiðir„. 

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. árg. 1880-1881, bls. 32-42.

Þingvellir

Þingvellir – Langistígur.

Suðurnesjavegur

Skömmu eftir að fyrsta sjálfrennireiðin kom til landsins í júní árið 1904. Um var að ræða notaða þýska bifreið af gerðinni Cudell, sem Ditlev Thomsen kaupmaður keypti með 2.000 króna tilstyrk frá Alþingi, og var bíllinn samkvæmt því nefndur Thomsensbíllinn.
Skjól vegavinnumanna við gamla SuðurnesjaveginnÆtlunin með þessum kaupum var að sannreyna hvort að mótorvagnar kæmu að notum á Íslandi. Bíllinn var orðinn þriggja ára gamall þegar hann var fluttur til landsins og þá orðinn úreltur og líktist fremur hestvagni en bifreið. Vélin var neðantil að aftan og tannhjól notuð til að færa aflið frá vélinni út í hjólin.
Í Ingólfi mátti lesa eftirfarandi frásögn 26. júní árið 1904: „Mikil nýjung þótti það á þriðjudaginn var, þegar Thomsen kaupmaður tók að aka um götur bæjarins á bifreið sinni. Þyrptist að múgur og margmenni til þess að sjá þetta furðuverk og þreyttu götusveinar kappskeið við reiðina. Fór hún með braki og brestum og þótti mörgum sem Ásaþór mundi þar fara í kerru sinni og ætla í austurveg að berja tröll. En varla mundi jötnum hafa mikil ógn staðið af þessari kerru því henni gekk allskrykkjótt og varð seinast ekki sjálfbjarga, svo að draga varð hana heim með handafli.“
Á eftir fylgdu fleiri mótorvagnar – og síðan enn fleiri. Og á eftir vagni komSkjól vegavinnumanna við gamla Suðurnesjaveginn vegur – þótt því hefði auðvitað átt að vera öfugt farið. Vegavinnumenn hömuðust sumarlangt næstu árin og áratugina í að endurgera gamlar þjóðleiðir, gera nýja akvegi og síðan endurbæta þá með tilliti til þróunar og nýrra krafna.
Suðurnesjavegurinn var lagður frá Hafnarfirði út á Útnes, vestan við gömlu Alfaraleiðina. Vandað var til verksins, enda má enn sumsstaðar sjá veglegar kanthleðslur í vegstæðinu, þ.e.a.s. þess hluta sem ekki hefur farið undir nýju Reykjanesbrautina.
Vegagerðarmenn þurfu skjól. Þeir hlóðu sér byrgi skammt frá vegstæðinu með jöfnu millibili. Þökin færðu þeir á milli byrgjanna. Leifar af einu slíku byrgi má sjá ofan við gamla Suðurnesjaveginn í Smalaskálahæðum skammt  utan við Hafnarfjörð. Við gamla Grindavíkurveginn, sem lagður var á árunum 1913-1918, má einnig sjá byrgi á nokkrum stöðum – ef vel er að gáð.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Keflavíkurveginn.

 

Siglubergsháls

Þegar unnið var að undirbúningi Suðurstrandarvegar var framkvæmd fornleifaskráning á og við fyrirhugað vegstæði. Þetta var árið 1998. Árið 2000 var hlutaðeigandi skrásetjari sendur til baka um svæðið með skottið milli lappanna og gert að framkvæma aðra og betri fornleifaskráningu. Við það bættust ótal minjar, sem ekki virtust hafa verið til áður skv. fyrri skráningu.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Gerð var fyrirspurn um nokkrar fornminjar til viðbótar og kom þá í ljós að þær höfðu missést í yfirferðinni. Enn var spurt um tilteknar fornminjar, t.a.m. gamla vagnveginn yfir Siglubergsháls, en hans var ekki getið í hinum nýjustu skrám. Hann sást reyndar mjög greinilega á þremur stöðum í Siglubergshálsi, en fallegasti hluti vegarins var skammt ofan við Skökugil. Loks, svona til að friða áhyggjufulla, var kveðið úr um að menn þyftu ekki að hafa áhyggjur af þeim kafla vegarins – „hann væri utan við fyrirhugað vegstæði Suðurstrandarvegar“.
Í dag er búið að leggja þennan hluta Suðurstandarvegar – og þessi kafli gömlu þjóðleiðarinnar er jafnframt með öllu horfinn, ekki undir veginn heldur vegavinnuvélar þær er notaðar voru við vegargerðina. Þeim stjórnuðu menn, sem eflaust hefur aldrei verið sagt að gæta varúðar vegna hugsanlegra minja á þessu svæði. Þessi fallega gamla þjóðleið er ágætt (eða vont) dæmi um orð og efndir þegar að minjum og verndun þeirra kemur. En þannig hefur þessu líka verið varið – um allt of langt skeið.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Fyrrum voru ekki til launuð ráð og ábyrgar nefndir, sérstakar umsagnarstofnanir og aðhaldmiklir eftirlitsaðilar er gæta áttu að því að allt gengi eftir leyfum samkvæmt, líkt og nú á að vera raunin. Þrátt fyrir slíkar ráðstafanir var engu framangreindu til að heilsa á Siglubergshálsi árið 2006 – ekkert ráð, engin nefnd, engin stofnun og enginn eftirlitsaðili gætti að gömlu götunni, sem sést á meðfylgandi mynd. Öllum virtist svo nákvæmlega sama – enda var hún kannski ekki gatan þeirra. Þarna brugðust allir sem brugðist gátu – og enginn er ábyrgur.
Hvað um aðrar minjar á Skaganum? Eiga þær von á að verða fórnað vegna andvaraleysis, afskiptaleysis og jafnvel áhugaleysis þeirra er að eiga að gæta skv. lögum. reglum starfslýsingum, stofnanasamþykktum, árangursstjórnunarsammingum og öðru sem nafn hefur verið gefið í seinni tíð, en enginn veit hver tilgangurinn er með?
SVONA ER ÍSLAND í DAG. Þrátt fyrir allar ákvarðanir, ráð, nefndir, eftirlitsaðila og annað má reikna með að fleiri merkar minjar, hin áþreifanlegu tengsl landsmanna við fortíðina, fari forgörðum í framtíðinni, ein af annarri, ef vinnubrögðin eiga að vera eins og að framan greinir.

Siglubergsháls

Festarfjall.

Bringnavegur

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 má m.a. sjá eftirfarandi um „Tvær leiðir á Mosfellsheiði“ (Grh., 15. okt. B.B.):
Bringnavegur-225„Á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla veginn frá Korpúlfsstöðum).
Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá (fyrrum hjet vatnið Ölvesvatn (nú Þingvallavatn), og áin úr því Ölvesá, til sjávar; aðeins þrengslin milli (Þingvalla-), Ölvesvatns og Úlfljótsvatns hjet Sog. Nú er áin nefnd Sog, til þess er Hvítá kemur í hana, síðan Ölvesá) á Álftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfu, fyrir norðan Lykla-(Litla)-fell. sunnan Selvatn, um Sólheima. Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; þar skiftust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna. Það var ekki fyr en ca. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Seljadal. Syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. október 1930, bls. 334.

Seljadalur

Brú á hinum gamla Seljadalsvegi í Seljadal.

Frá fyrstu tíð voru vegir á Íslandi fyrir fótgangandi.
Á 19. öld var farið að huga að vegabótum. VagnvegurEftirfarandi um vegabætur má lesa í Ísafold árið 1884: „En um vegabæturnar sjálfar er það að segja, að einsætt er að snúa sem skjótast við blaðinu og hætta að leggja fjárgötur og hrossatroðninga, en hafa það reglulega vagnvegi, það lítið sem gert er af nýjum vegum, og þá auðvitað helzt í byggð, þar sem þjettbýlast er. Láta sjer að öðru leyti nægja að ryðja hina gömlu vegi svo, að þeir sjeu ekki alveg ófærir, eða viðlíka færir og þeir hafa lengst af verið. Þetta mun þykja mikið í munni. En hvaða forsjálni eða framsýni er það, að vita fyrir víst, að hjer hljóta að komast á vagnvegir með tímanum, ef landið leggst ekki í eyði von bráðar, og halda samt áfram að eyða stórfje í vegagjörðir, sem þá eru ónýtar? Eða hafa menn hins vegar gjört sjer glögga grein fyrir, hve ómetanleg hlunnindi er að vagnvegum?“

Heimild:
-Ísafold, 19. nóv. 1884, bls. 181.

Konungsvegurinn

Friðrik VIII og Hannes Hafstein á Kambabrún.

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Ísafold 1880: „Vegagjörð úr Grindaskörðum ofan við Hafnarfjörð“ –
Grindaskord-222Verði nokkuð úr því áformi brennisteinsfjelagsins enska, að gjöra að sumri komanda góða akbraut úr brennisteinsfjöllunum ofan í Hafnarfjörð, þá væri ekki illa til fallið, að Grindaskarðavegurinn, sem er einn af þeim fjallvegum, er landssjóður samkvæmt lögum, 15. okt. 1875, á að kosta, jafnframt yrði ruddur, þótt upphaflega væri tilætlazt, að aðrir vegir gengi fyrir. Myndi það þá geta orðið að minnstum kostnaði og á haganlegastan hátt. Vesturhluti Árnessýslu og suðurhluti Gnllbringusýslu eiga heimtingu á, að þetta komist í kring, sem fyrst auðið er. Skreiðar- og kaupstaðarferðir eru miklar á þessari leið milli Eyrarbakka, Þorlákshafnar, Selvogs, Krýsuvíkur, Grindavikur, Hafnarfjarðar og suður með öllum sjó. Enda er Grindaskarðavegurinn einn þeirra fjallvega milli sýslna, sem samkvæmt áliti amtsráðs suðuramtsins eiga að hvíla á landssjóði (stj.tíð. 1876 B, bls. 75).“

Heimild:
-Ísafold, 26. nóvember 1880, bls. 120.

Þríhnúkar

Kvöldsýn frá Grindaskörðum.