Tag Archive for: Víkursel

Nauthóll
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma og einn af sex bæja er byggðust út frá Skildinganesi. Hann var því hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og var hann þá brenndur. Tóftirnar sjást enn auk garða og fleiri mannvirkja er tilheyrðu.
Nauthóll

Nauthóll.

„Nauthóllinn, sem bærinn dró nafn sitt af, stendur enn óhreyfður þrátt fyrir að setuliðið hafi flatt flest út á þessum slóðum á stríðsárunum. Bærinn, umgirtur garði, stóð austan við hólinn.
Gamli bærinn á Skildinganesi var rifinn á árunum 1869-1870 og byggður nýr bær. Bærinn var byggður úr grjóti og torfi. Tvíbýlt var á Nesinu og stutt bil milli bæjanna. Á göflunum voru tveir gluggar en báðir bæirnir voru eins. Sex rúðu gluggi niðri en fjögurra rúðu gluggi uppi. Það var ekki hátt til lofts í nýja bænum. Niðri var varla manngengt og urðu stórir menn að ganga hálfbognir eftir göngunum.

Nauthóll

Nauthóll á korti frá 1903.

Á nesinu voru þrjár aðalvarir, austurvör, miðvör og vesturvör. Hafa bæirnir verið byggðir 140-150 faðma upp af vörunum. Í Austurvörinni lenti bóndinn í Austurbænum og vesturvörin var fyrir bóndann í Vesturbænum en miðvörin var fyrir kotin.
Á milli bæjanna var ekki nema tveggja faðma bil eða traðir og þessar traðir lágu áfram norður túnið að túngarðinum, en traðirnar voru hlaðnar upp til beggja handa til varnar túninu. Útihús voru nokkur.

Nauthóll

Nauthóll – matjurtargarður.

Auk aðalbýlanna á nesinu voru þar sex kot. Í túninu stóðu þessi kot. Margrétarkot, Harðarkot og Austurkot. Þetta voru smábýli og fylgdi hverju þeirra eitt kýrgras, nema Harðarkoti.
Margrétarkot var vestast í túninu og bjuggu Árni og Valgerður foreldrar Árna læknis á Akranesi þar.
Fjórða kotið var Nauthóll sem stóð austarlega á landinu, næstum því austur undir Öskjuhlíð, sem fyr var nefnt.
Fimmta kotið var Þormóðsstaðir. Sjötta býlið var Lambhóll sem stóð fast við landamerki Skildinganess og Grímstaðaholts niður við sjó.

Nauthóll

Minjar í bæjarstæði Nauthóls.

Árið 2006 vann Minjasafn Reykjavíkur fornleifaskráningu væntanlegrar lóðar Háskóla Reykjavíkur vestan Öskjuhlíðar að beiðni skipulagsfulltrúa Reykjavíkur vegna deiliskipulagsvinnu. Í henni er m.a. fjallað um jörðina Nauthól ofan Nauthólsvíkur.
„Nauthóll er ein af sex hjáleigum Skildinganess, og var hann kominn í byggð um 1850. Bærinn stóð skammt norður af samnefndri vík. Hann var við vegarslóða sem fyrrum var allfjölfarinn og lá hann með sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Um síðustu aldamót mun taugaveiki hafa stungið sér niður í Nauthóli og var hann þá brenndur að ráði Guðmundar Björnssonar landlæknis. Síðan hefur ekki verið búið þar.

Nauthóll

Nauthóll – útihús.

Ýmsar minjar eftir Nauthól hafa varðveist, bæði húsarústir, garðar og brunnar. Tvö kort eru til sem sýna hvernig Nauthóll var í stórum dráttum. Annað kortið er frá árinu 1903, hitt er frá 1933. Með hjálp þeirra er hægt að glöggva sig á rústunum. Hóllinn, Nauthóll, er einnig á sínum stað, þrátt fyrir tilhneigingu setuliðsins á árunum 1940-1945 til að slétta land á þessum slóðum. Kortinn sýna nánast það sama en síðari mælingin er nokkuð nákvæmari, bærinn er þá löngu farinn í eyði.“ Mógrafirnar voru fyrir norðan og norðvestan bæinn, nú jafnan fullar af vatni.

Nauthóll

Nauthóll  og nágrenni 1903.

Um bæjarhúsin í Nauthóli greinir Sigurður í Görðum svo frá í æviminningum sínum, en hann ólst upp í Skildinganesi. „Á Nauthóli var tvíbýli. Bæjarhúsin voru byggð hvort sínu megin við allmikið bjarg og myndaði bjargið sameiginlegan gafl húsanna. Á stríðsárunum, 1940-1945, setti setuliðið upp mastur með steyptri undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin höfðu staðið, svo að nær ekkert er eftir af tóftum þeirra.“ Bjargið sem Sigurður í Görðum minntist á enn á sínum stað.
„Á bæjarhólnum voru nokkur útihús og matjurtagarðar. Greinilegt er að rústunum hefur aðeins verið breytt, frá því að þær voru mældar upp 1933, og má trúlega rekja það til hersetunnar á svæðinu.“

Nauthóll

Nauthóll -Bæjarstæðið árið 1933.

Í fornleifaskráningunni er auk þessa staðháttum lýstþars em m.a. er vitnað í Sigurð í Görðum: „Fjórða kotið á nesinu var Nauthóll. Hann stóð austarlega á landi Skildinganess, næstum því austur undir Öskjuhlíð. Kotið var byggt við hól nokkurn og mun hafa dregið nafn sitt af honum, hóllinn stóð vestur af bænum, en dálítill túnblettur var á milli.“
Jafnframt kemur fram að „…Nauthóll var austasti bærinn í Skildinganeslandi. Uppmæling á bæjarhúsunum er til á kortum frá 1903 og 1933. Bæjarhúsin eru syðst við Hlíðarfót að vestan, ekki langt frá bröggum sem eru á vegum Flugmálastjórnar, svæðið er grasi gróið og þýft og er búið að gróðursetja í hluta af svæðinu.

Nauthóll

Nauthóll – bæjarstæðið fyrrum.

Bæjarhúsin voru 11 x 8 m skv. korti síðan 1933. Veggir voru úr torfi og grjóti, um 1,0 – 1,2 m á breidd og 0,5 – 0,7 m á hæð. Húsið hefur verið með tvær burstir. Hólfin eru nú illgreinanleg.“
Þótt hvorki býlið né búskapur að Nauthóli geti varla talist sérstakrar frásagnar virði umfram önnur kot á svæðinu hefur Minjasafn Reykjavíkur unnið sína vinnu af samviskusemi enda runnið blóðið til skyldunnar þegar boð kom frá skipulagsfulltrúanum að skrá skyldi alla byggðina. Skýrslan um svæðið hefur að öllum líkindum kostað meira en sem samsvaraði kotinu á sínum tíma. Eftir stendur vitundin um minjarnar, sem væntanlega munu hverfa sjónum fólks innan skamms undir byggingar Háskóla Reykjavíkur.

Nauthóll

Nauthóll.

Reykjavíkurbærinn átti land að Skildinganesi. Margar minjarnar vestan Öskjuhlíðar tilheyrðu honum. Á mörkunum er Öskjuhlíðarselið, sem stundum hefur ranglega verið nefnt Reykjavíkursel eða Víkursel. Sú selstaða mun hafa verið við Selvatn þar sem Urðarlágarlækur rennur í vatnið. Sunnan við það voru Litlasel og Stórasel. Víkurselið er nú að mestu horfið í mýri, en þó má enn sjá hvar það var.
Skammt frá Öskjuhlíðarseli eru ýmsar minjar, s.s. fjárborg og stekkur.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Þótt selsheitið hafi í seinni tíð verið á aðstöðunni þarna undir hlíðinni er ekki fullvíst að hún hafi verið nýtt sem slík. Tóftirnar, sem nú hafa illu heilli verið lagðar undir trjárækt, gætu alveg eins gefið vísbendingu um fráfærur frá Skildinganesbæjunum, sem stóðu þeim næst.
Nauthólsvíkin og Nauthóll munu hins vegar standa vörð um Nauhólsbæjarnafnið enn um sinn þótt eggið hafi auðvitað komið á eftir hænunni. Víkin og bærinn drógu nöfn af hólnum. Þess vegna er hóllinn þar sem naut (þarfanaut til viðhalds lífi) komu fyrrum við sögu, og enn stendur, merkilegastur. Vonandi verður honum hlíft við væntanlegar framkvæmdir á svæðinu.“

Enn í dag (2024) má sjá leifar Nauthóls, s.s. úihúss, matjurtargarða og veggjarbrota, auk hólsins, þrátt fyrir að bænum hafi verið rutt um koll á síðari hluta fjórðaáratugs síðustu aldar.

Heimildir m.a.:
-http://reykjavikurborg.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/
skipulagsm_ /mal_kynningu/adalskipulag_2006/Vatnsmyri_vidauki3.pdf
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_nautholsvik.htm
-http://skildinganes.homestead.com/bok.html

Nauthólssvæðið

Öskjuhlíð

Í „Byggðakönnun; fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð“ frá árinu 2013 má lesa eftirfarandi um Víkursel:

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð – á kafi í gróðri.

„Vestan í Öskjuhlíðinni er merkilegur staður sem nefnist Víkursel. Nafngiftin bendir til seljabúsakapar þar. Helgi M. Sigurðsson sagnfræðingur rannsakaði sögu selsins og ritaði eftirfarandi:
Elsta ritaða heimild um seljabúskap Reykjavíkurbænda er eignaskrá, öðru nafni máldagi, frá 1379. Er selið þar sagt vera í Víkurholti, sem gæti verið eldra nafn á Öskjuhlíð en einnig eru getgátur um að það hafið verið Skólavörðuholt. Staðsetning selsins framan af er þannig óljós. Selin gætu raunar hafa verið fleiri en eitt og vísast hafa þau verið flutt til í aldanna rás.

Í máldögum frá 1397 og 1505 er ekki getið um selið. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir er mjög fáorðir um búskaparefni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, „fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband.“ Kona hans var Þórey Narfadóttir bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði. En hann hefur í raun ekki á miklu að byggja í því efni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru Öskjuhlíð sunnan- og vestanverð. Athyglisvert er að hér er talað um „gamla Víkursel.“ Það styður þá ályktun að löng hefð hafi verið fyrir selinu á þessum stað.

Víkursel

Víkursel – stekkur.

Skýrasta lýsingin á staðsetningu Víkursels er frá upphafi 19. aldar, um það leyti sem það var lagt niður. Kona að nafni Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar í Hlíðarhúsum, var síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 var hún beðin að gefa vitnisburð um landamerki milli Reykjavíkur og Skildinganess og sagði þá meðal annars: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð…“ Þessi vitnisburður færir okkur talsvert áleiðis.

Víkursel

Víkursel.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur skráði í fornleifaskrá Reykjavíkur Víkursel, en hann taldi fornleifarnar vera ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr um hvort um sel væri að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu að þetta sé Víkursel eru umhverfisaðstæður, það er að segja lækurinn og beitilandið sem hefur verið gott þarna í kring, auk þess sem stekkur er ekki fjarri. Í dag (2013) er selið hulið barrtrjám sem þarf að fjarlægja.“

Sjá meira um Víkusel HÉR.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun – Reykjavík 2013, bls. 6-7.

Víkursel

Víkursel – fjárborg.

Árnakrókur

Ætlunin var að steðsetja Víkursel, Litlasel, Árnakrók og Stórasel austan við Selvatn.

Reykjavíkursel

Reykjavíkursel við Selvatn.

Árnakrókur er lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns hún fluttist í Hafravatnsrétt. Stórasel gæti hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti), en landamerki Elliðakots og Miðdals eru við lækjarsprænu, Sellæk, austast í Selvatni. Kort gefa misvísandi mynd af stöðu seljanna, en haft var hliðsjón af korti frá því um 1940, sem mun vera öllu réttar en seinni tíma kort af slíkum minjum. Þannig eru seljunum stundum víxlað á kortum og uppdráttum. Líklega hefur Stórasel verið norðar og Litlasel við Litluselsvík, sem er þar skammt sunnar við austanvert vatnið. Á báðum þessum stöðum eru nú sumarhús.
Gengið var austur með norðanverðu vatninu, að sumarbústað, sem þar er. Bústaður, Selbúð, er þar skammt vestar. Þegar komið var að bústaðnum tók á móti þátttakendum elskuleg hjón. Árni Kristinsson hafði orð fyrir þeim. Hann varð bæði hissa og glaður því enginn hafði fyrr sýnt neinn áhuga á rústum þessum. Hann taldi að hinar gömlu rústir væru skammt norðan við bústaðinn, á bakka Sellækjar. Sóttar voru loftmyndir, kort og aðrar upplýsingar, en kortin voru að vísu svolítið misvísandi. Sýndi Árni m.a. grein úr “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”, en í þeirri umfjöllun er lýst staðháttum, örnefnum og minjum á þessu svæði.

Árnakrókur

Árnakrókur.

Frúin, sem uppalin er á þessum slóðum, taldi sig og muna eftir tóftum austan við Árnakróka, í grösugri hlíð þar á mót suðvestri. Gæti verið forvitnilegt að skoða síðar. Boðið var bæði upp á vatn og meðlæti, en hvoru tveggja var afþakkað að þessu sinni. Markmiðið var að skoða nærtækar minjar.
Árni vísaði á minjarnar skammt norðan við sumarhúsið. Þar var að sjá mjög gamlar rústir. Sjá mátti þó móta fyrir þremur rýmum. Árni sagðist hafa heyrt að rústir þessar gætu hugsanlega hafa verið af seli frá gamla Víkurbænum. Af einhverju hefur Selvatn a.m.k. verið nefnt eftir. Aðstaðan þarna er hin ákjósanlegasta, í skjóli fyrir suðaustanáttinni, nægt vatn og nægir bithagar, skammt neðan við Mosfellsheiði. Sellækur rennur hjá rústunum og ofan við þær er Selásinn. Líklegt þykir að bæði hafi verið hærra í vatninu á öldum fyrrum og auk þess hafi gróðurfar við vatnið breyst í aldanna rás.

Árnakrókur

Hleðslur í Árnakrók.

Í máldögum 1397 og 1505 er ekki getið um Víkursel. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir eru mjög fáorðir um búskaparefni.
Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson (f. 1570, d. 1660), hálfbróðir Odds biskups, “fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband”. Kona hans var Þórey Narfadóttir (ein heimild nefnir hana Þórnýju) bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu, en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði.
Víkursel hefur í seinni tíð verið staðsett í Öskjuhlíð. Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: “Selstaða er jörðinni [REYKJAVÍK] eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn”.
Höfðinn ofan við selið við Seltjörn heitir Hríshöfði.

Árnakrókur

Árnakrókur.

Þá var gengið í Árnakrók. Um er að ræða lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns réttin færðist að Hafravatni. Árnakrókur er skammt austan við Selvatnið og hin merkilegasta mannvirku. Réttin er nokkuð heilleg og vel má sjá í henni almenning og dilka. Dilkarnir hafa verið 11 að tölu auk, tveggja minni. Þeir eru mismunandi stórir. Tækifærið var notað og GPS-punktar teknir og réttin rissuð upp.
Haldið var niður að svonefndu Stóraseli. Stór sheffer-hundur stökk að þátttakendum, sem fyrr voru hvergi bangnir. Enda kom í ljós að kjarkur hins stóra hunds var ekki meiri en hjá meðal hænu.
Gunnar Kristjánsson tók vel á móti þátttakendum. Hann kvaðst vera uppalinn á Gunnarshólma og þekkja nokkuð vel til á landssvæðinu. Elliðakot hafi undir það síðasta heyrt undir Gunnarshólma. Það hafi verið landmikil jörð og hafi landamerki þess náð allt að lækjarsprænunni austan í Selvatnið neðan við Litlasel og upp á Sandskeið. Helmingur Selvatnsins (austurhlutinn) hefði tilheyrt þessu landi.

Hænur

Hænur við Stórasel.

Stórasel gæti því hugsanlega hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti). Handan (að norðanverðu) væri land Miðdals og Miðdalsheiði ofar. Landamerkin lægju svo til í gegnum mitt hjónarúm sumarhússins sunnan Litlasel. Gunnar er þarna með íslenskar hænur og sígalandi hana. Hann sagðist ekki muna eftir tóftum hins gamla Stórasels á þessum stað. Sjálfur hefði hann byggt sumarhús sitt (sem reyndar, líkt og mörg önnur “sumarhús” við vötnin á heiðinni eru heilsársbústaðir) upp úr gömum bústað. Líklegt megi telja að Stórasel hafi verið þarna á sléttu í hlíðinni, á þeim stað, sem bústaðurinn er nú. Svipast var um eftir hugsanlegum tóftum, en engar sáust. Lækur er sunnan bústaðarins og grassvæði neðst með honum. Af ummerkjum að dæma gæti selið hafa verið á hæðardraginu þar sem bústaðurinn er nú.
Við Selvatn býr bæði áhugasamt og frótt fólk um fyrri nytjar.
Ætlunin er að skoða svæðið austan við Selvatn og hugsanlegar tilteknar tóftir, sem þar eiga að vera utan í hlíðardragi. Í hlíðinni skammt frá á að vaxa stór og fallegur einir.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tík 1 klst og 11 mín.

Sjá nánari umfjöllun um svæðið í “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”.

Árnakrókur

Árnakrókur – uppdráttur ÓSÁ.

Nessel

Ætlunin var að skoða Kambsrétt undir Kambhól, ganga austur Seljadal og reyna að finna og skoða Nesselið, sem þar á að vera í þverdal í norðanverðum dalnum. Á gömlu korti er selið staðsett ofarlega í þverdalnum.

Seljadalur

Vegur um Seljadal.

Guðjón Jensson, margfróður Mosfellingur, hafði haft spurnir af ferðinni á vefsíðunni og sendi væntanlegum þátttakendum eftirfarandi upplýsingar um Kambsréttina:
“Þessi dalur hefur verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér enda ýmislegt að skoða þó ýmsu hafi verið raskað. Þarna í Dalnum var sel frá Viðeyjarklaustri og eg hef verið mikið að velta fyrir mér gegnum tíðina hvar það hafi verið. Klaustrið var rænt skömmu fyrir miðja 16. öld. Síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, endurreisti klaustrið og lagði lykkju á leið sína á flóttanum þaðan er hann frétti að kóngsmenn hyggðust ná honum. Ögmundur kom við í Viðeyjarseli, sjálfsagt til að líta eftir hvort allt væri ekki í besta standi. Hann var handsamaður nokkru síðar af Hjalla í Ölfusi sem kunnugt er.

Seljadalur

Ræsi á Seljadalsvegi.

Viðey nánast hverfur úr sögunni næstu tvær aldirnar. Eg hef leyft mér að draga eftirfarandi ályktun:
Undir Viðeyjarklaustur voru 132 jarðir sem kóngsmenn sölsuðu undir sig við siðskipti. Allar þessar jarðir voru leigðar út og var mikið kapp á að fá sem hæsta leigu út úr bændum, leiguafgjöld auk þess sem lagt var á karlana ýmsar óbærilegar kvaðir í þágu Bessastaðamanna. Nú varð ekki lengur jafn mikil þörf hjá leiguliðanum og kotungaanum í Viðey að koma lítilfjörlegum búsmala sínum frá sér og allar götur upp í Seljadal. Þar haslaði hins vegar bóndinn í Nesi, sbr. Nessel og í Örnefnalýsingu Þormóðsdals er sagt að þar í Dalnum hafi verið selför frá Gufunesi.
Eftir að starfsemin í Viðey leggst af, er þörfin á hinum miklu umsvifum klaustursins um vestanverða Mosfellsheiðina engin. Kóngsmenn hafa látið afskiptalaust þó bændur, leiguliðarnir byggðu sér fjárrétt úr grjótinu og einhver þægindi þarna í Dalnum, enda hefði það aftur betri möguleika að standa
í skilum með afgjald jarðanna.

Seljadalur

Kambsrétt.

Mér finnst liggja fremur ljóst fyrir, að Viðeyjarsel hafi fyrrum verið þar sem nú eru rústirnar af Kambsréttinni. Þar er t.d. mjög stutt í rennandi vatn en seljabúskapur byggðist á greiðum aðgangi að góðu vatni til að tryggja gæði afurðanna.
Í skriðunni skammt innan við Kambsréttina og undir Seljadalsbrúninni tjáði Jón á Reykjum mér fyrir löngu að þar væri tóugreni að finna. Aldrei hefi ég verið svo lánsamur að rekast á afkomanda frumbyggjans knáa á Íslandi, refinn í Dalnum en oft rekist á spor hans á vetrum á Heiðinni. Hins vegar hef eg talið mig hafa fundið stundum stæka lykt hingað og þangað um Dalinn enda merkir refurinn sér óðal sitt vel og vandlega.

Kambsrétt

Kambsrétt.

Fyrir innan Kambsrétt á móts við Nessel eru fornar brýr yfir mýrina. Sögn er um að hún hafi verið gerð í tilefni konungskomunnar 1874 en að öllum líkindum er hún mun eldri enda lág hin forna þjóðleið eftir Seljadalnum endilangum frá fornu fari, frá Reykjavík og austur á Þingvöll.
Svo er auðvitað ekki langt úr leið að skoða stuðlabergið í grjótnámunni sem vonandi fær nú að standa en miklu stærra og fegurra stuðlabergstál var brotið niður hérna um árið. Það þarf að láta verktakann ganga vel frá þessu námi þegar starfsemin hættir”.

Nessel

Nessel.

Sesselja Guðmundsdóttir hafði gengið í Nessel og skoðað það. Hún sendi þá eftirfarandi lýsingu.
“Nesselið er eitt flottasta ef ekki flottasta selstæði sem ég hef séð, í dalbotni sem snýr í suður, lokaður af af hálsum á þrjá kanta, kaldavermsl í bæjarhlaðinu, góður bæjarhóll og líklega stór hringlaga stekkur aðeins austan við, ekki þó fullvíst er svo vallgróinn. Stekkurinn óvenjustór, minnir frekar á fjárborg. Mannvirkin þarna að mestu úr torfi enda varla grjót að fá.”
Gengið var frá vegi norðan Silungatjarnar og eftir slóða áleiðis að Kambhól. Hóllinn er kambslaga og sést mjög vel. Handan hans er Seljadalur. Norðan við hólinn er Huldurhóll og sést hann einnig mjög vel. Á honum er varða. Hólar þessir eru greinilega úr stuðlabergi, en slík náma (sú sem Guðjón minntist á) er í hlíðinni ofan við Hulduhól.

Stuðlaberg

Stuðlaberg í Seljadal.

Gengið var upp í námuna og stuðlabergsmyndanirnar skoðaðar í návígi. Stuðlarnir voru ýmist láréttir eða lóðréttir í berginu.
Stuðlaberg myndast vegna samdráttar í kólnandi efni. Þegar basaltbráð kólnar er hún orðin fullstorkin við um 1000°C hita. „Eftir það kólnar bergið smám saman og dregst við það saman og klofnar í stuðla sem tíðum eru sexstrendir. Stuðlar standa ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Þeir standa því lóðréttir í hraunlögum og innskotslögum, láréttir í göngum en sem geislar út frá miðju í bólstrum.“ (Þorleifur Einarsson, Myndun og mótun lands).

Kambsrétt

Kambsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið á Hulduhól og síðan niður með honum. Þá blasti Kambsréttin við. Hún hefur verið nokkuð stór og fallega hlaðin. Réttin var lögrétt Mosfellinga, en lagðist af upp úr 1850. Þá var réttin flutt í Árnakróka austan við Selvatn (sjá FERLIR-735). Þar var hún til aldarmóta 1900 eða þangað til hún var flutt að Hafravatni. Þar er hlaðinn rétt austan við vatnið, fast við þjóðveginn.

Vegslóði gengur í gegnum miðja Kambsréttina. Hlaðinn er vegkantur með slóðanum og sennilega hefur grjótið verið tekið úr réttinni. Í raun er réttin sunnan undir Hulduhól, en Kambhóllinn blasir við skammt frá í suðvestri. Seljadalsáin rennur ljúf til vesturs sunnan hans. Ofan vegar eru tveir stórir dilkar, en neðan vegar er meginhluti réttarinnar. Vel sýnilegt er almenningur og dilkur, en neðan þeirra mótar fyrir gerði. Vestan almenningsins er lítill heillegur dilkur og vestan hans mótar fyrir gerði sem og hólfi sunnan þess. Líklegt er að þarna hafi verið mannvirki áður en réttin var hlaðin og ályktun Guðjóns um sel á þessum stað gæti hugsanlega staðist miðað við jarlægu minjarnar, sem þarna eru við réttina, einkum sunnan hennar og vestan. Teknir voru GPS-punktar og réttin rissuð upp.

Nessel

Nessel; dæmigert sel á Reykjanesskaga – uppdráttur ÓSÁ.

Kíkt var á urðina ofan við réttina, en líklegt er að skolli hafi ekki komið þangað um nokkurt skeið.
Þá var gengið inn með norðanverðum Seljadal. Dalurinn er sléttur og grasvænn. Hamraveggur lokar honum að sunnanverðu og Hrafnagil að austanverðu. Upp úr dalnum að norðanverðu gengur grösugur dalur. Framarlega í honum var komið að steinsteyptri stíflu í vænlegum læk. Svo virðist sem einhverjir hafi verið að reyna að stífla lækinn með það fyrir augum að fá þaðan gott vatn, en gefist upp við framkvæmdina. Í “stjórnhúsi” eru pípur og kranar. Stíflan gæti einnig hafa verið ætluð til fiskeldiseflingar í Seljadalsá. Neðar í ánni er manngert lón er bendir til þess sama.
Gengið var upp dalinn til norðnorðausturs, þvert á lækinn. Reyndar kemur lítill lækur ofan úr dalnum og sameinast þeim, sem fyrr var nefndur. Efst í grónum dal undir grónum grasbrekkum er Nessel, rétt merkt á hið gamla kort, sem haft var meðferðis. Selið er í skóli fyrir flestum áttum, enda hreyfðist ekki strá við það. Tóftin er þrjú rými, mjög greinileg. Lækur rennur sunnan við hana, en handan lækisins virðist vera eldri tóft. Hún gæti einnig hafa verið stekkurinn frá selinu, sbr. lýsingu Sesselju. Selið er á mjög fallegum stað og vel þess virði að ganga inn Seljadalinn og upp í selið. Þetta er u.þ.b. klukkustunda gangur frá Silungatjörn. Teknir voru GPS-punktar og selið rissað upp.

Víkursel

Víkursel við Selvatn.

Í Sögu Reykjavíkur eftir Klemens Jónsson segir: „Að búskapur hefur verið mikill, má meðal annars sjá af því, að jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 1600, en hvar það sel hafi verið, er óljóst. Eptir sögninni um séra Gísla Einarsson, er síðar getur virðist svo sem selið hafi verið alllangt frá Vík, og hefur mjer helzt dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal, því þar átti Nes í seli.“

Svo kemur sögnin um séra Gísla: „Dóttir Narfa [Ormssonar í Rvík] ein hjet Þórey, hún átti séra Gísla prest í Vatnsfirði Einarsson, bróðir Odds biskups. „Þótti sú gipting af ransandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið (Þetta bendir til, að selið hafi þá legið allfjarri, og orðið ´Mosfellsheiði´ bendir á, að selið hafi legið undir henni, í Seljadalnum, sbr. það sem áður er sagt) heim um nóttina, sagði bónda gestakomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleiri í sæng dóttur sinnar, heldur en von átti á. Sýndist gestinum skást afráðið, að lofa eigin orði.“ Þessi skemmtilega saga er tekin úr Ættartölu Steingríms biskups.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var upp fyrir selið og austur með brúnum Grímmannsfells (Grímarsfells), svo til alveg inn að Hrafnagili. Þaðan er útsýni stórbrotið yfir umhverfið í fjærsuðri. Sjá mátti þar allan fjallahringinn frá Stapafelli (Súlum) að Skeggja.
Í flagi neðan við selið mátti sjá flaghnoðra er gaf honum lit. Ofar var þvílíkt fagurgrænn litur á mosanum undan kaldavermslauppsprettunum að hjarta sérhvers föðurlandsvinar myndi fyllast svo móðurlegri samkennd með landinu að hugleiðingar um sérhverja mögulega röskun myndi einungis vekja reiði. Lagfæra þarf umhverfi námusvæðisins.
Gengið var til baka niður að Nesseli og síðan til baka slóðann norðan við Seljadalsána. Þótt hún sé ekki mjög vatnsmikil er hún mjög falleg á köflum. Neðan við „Nesselsdalinn“ er jarðbrú yfir mýri. Hún er á veginum er lagður var til Þingvalla á ofanverðri 19. öld.
Stórkostlegt veður – sól, stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild um stuðlaberg er af
http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=796

Sel

Sel – tilgáta ÓSÁ.

Skálafell

B.B. í Grafarholti skrifaði eftirfarandi í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 undir fyrirsögninni „Saga Reykjavíkur“ – Hvar var Víkursel?
Vikursel-322„Bls. 9-10: „….jörðin átti sel, Víkursel, er var notað með vissu ennþá um 16OO, en hvar það sel hafi verið, er óljóst…. hefir mjer helst dottið í hug, að það hafi verið upp í Seljadal…. Víkursel er á einum stað (A. M.) nefnt „undir Undirhlíðum“, og kynni það að benda á Öskjuhlíð. Eftir (Oddgeirsmáldaga átti kirkjan Víkurholt með skóg og selstöðu. Virðist það geta bent á, að selið hafi verið í nánd við holtið.“
Bls. 17: (úr Jb. Á. M.): „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum. Sumir kalla það gamla Víkursel. Þar hefir jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“
Bls. 45: „Dóttir Narfa (Ormssonar bónda í Reykja-Vík) ein hjet Þórey; hún átti Gísla prest Einarsson, bróðir Odds biskups. „Þótti sú gifting af rasandi tilhlaupi sjálfs hans. Reið um Mosfellsheiði um sumarið, gisti í Víkurseli. Smalamaður reið heim um nóttina, sagði bónda gestkomuna. Hann brá skjótt við, kom að selinu óhentuglega, þótti fleira í sæng dóttur sinnar heldur en von átti á. Sýndist gestinum skárst afráðið, að lofa eiginorði. Síðan var hún sótt frá Skálholti til að læra siðu og sóma; veitti tregt, því samur er barns vani. —
Þetta síðasta er sjálfsagt prestatilbúningur frá þeim tíma: þeim hefir þótt bróðir biskupsins taka ógurlega niður fyrir Vikursel-323sig, að eiga selstúlkuna. En Þórey hefir verið mikilhæf, eins og hún átti kyn til snarráð og harðfylgin sjer).
Það kemur ekki til mála, sem höf. sögunnar þó virðist hugsa, að sel stórbýlisins Víkur hafi verið í heimalandi. Slík fjénaðarmörg bú, höfðu selin í nokkurri fjarlægð, þar sem sumarland var gott. Smærri býlin höfðu selin oft í útjöðrum heimalands, eins og að Hlíðarhús áttu sel sunnan undir Öskjuhlíð. En t. d. Se]tjarnar-Nes átti selið upp í Seljadal, fyrir ofan Kamb, þar sem heitir Nessel. Viðeyjarsel er enn svo nefnt við Fóelluvötn, uppi undir Lyklafelli (= Litlaf.). Esjuberg átti sel uppi við Svínaskarð, fyrir ofan Haukafell. Gufunes sel í Stardal, o. s. frv. Reykjavíkurkirkju-ítakið „Víkurholt með skógi og selstöðu“ hefir einnig verið í nokkurri fjarlægð. „Gamla Víkursel“ má telja víst að hafi verið þar sem enn heita Undirhlíðar (fornt. undir Hlíðum), sunnan Hafnarfjarðar, fyrir ofan hraun. Þar eru enn hrískjörr nokkur. Er líklegt, að kunnugir menn þar um slóðir geti vísað á seltóftirnar. Seljatófta er aðeins þar að leita, sem trygt vatnsból er í nánd. En Víkursel það hið yngra. eða síðari tíma sel Víkur — er Gísli gisti í, hefir verið selið við Selvatn, í vesturjaðri Mosfellsheiðar, milli Miðdals og Elliðakots.
Videyjarsel-321Það er eina selið nálægt þeim vegi, sem þá var farinn milli Skálholts og Inn-nesja (Álftaness og Seltjarnarness), 
annað en Grafarsel við Rauðavatn. Frá því Víkurseli (við Selvatn) er til Reykjavíkur ca. tveggja stunda reið, eins og vegurinn lá í þá daga. Það hefir því verið leikur einn fyrir Narfa, að ná Gísla í rúmi.
Þá, á ofanverðri 16. öld, lágu tveir vegir yfir Mosfellsheiði, hinn nyrðri nyrst um hana, úr Þingvallasveit um Vilborgarkeldu, Þrívörðuás, Moldbrekkur, Illaklif, sunnan Geldingatjarnar, niður með Köldukvísl, Langholt, Mosfollsdal, um Tjaldanes, um syðri Leirvogstungubakka, Hestaþingshól, og suður Mosfellssveit neðanverða (gamla voginn frá Korpúlfsstöðum).
Syðri Mosfellsheiðarvegurinn (Skálholtsmannaleið) lá: yfir Ölvesá á Álftavatnsvaði, upp eftir Grafningi, yfir Hengilhálsinn, um Sporhellu og Dyraveg, yfir Brekku og nyrðri Bolavelli, vestur heiðina hjá Sýsluþúfn, fyrir norðan Lykla- (Litla)-fell, sunnan Selvatn, um Sólheima, Hofmannaflöt, Hestabrekku, Almannadal, hjá Rauðavatni; þar skiftust leiðir eftir því, hvort fara skyldi til Hafnarfjarðar og Álftaness (þá farið hjá Vatnsenda, Vífilsstöðum) eða til Seltjarnarness og eyjanna.
Nessel-321Það var ekki fyr en ca. öld síðar, að nyrðri vegurinn var lagður um Seljadal. Syðri vegurinn var tíðfarinn fram á 18. öld.

Þórey Narfadóttir hefir verið eftirmynd föður síns, eftir því er sagan lýsir honum. Þegar hún varð þess vís, að Gísli ætlaði að gista í selinu hjá henni, hefir hún sjeð sér leik á borði að krækja þar í álitlegt gjaforð. En til þess hefir hún sjeð að nauðsynlegt var að hinn kappsfulli, harðdrægi karl faðir hennar kæmi til, og stæði Gísla að sök; því hefir hún sent smalamanninn. Og Narfi „brá við skjótt“ — og svo gekk alt eins og í sögu! Hún varð prófastsfrú í Vatnsfirði. — Einkennilegt er að sjá skapgerðareinkenni Narfa Ormssonar í Vík ósljófguð hjá afkomanda hans í 9. lið, þeim er sagan tilgreinir.
Þegar eftir útkomu „Sögu Reykjavíkur“, sendi jeg höfundinum athugasemdir um Víkursel og fleira, nokkru fyllri en hjer. En þar sem hann er nú látinn, býst ég ekki við, að þær komi þar til greina.“
Af framangreindu og að teknu tilliti til landræðilegra aðstæðna má ljóst vera að framangreint „Víkursel“ hafi verið Viðeyjarsel (Bessastaðasel) í Lækjarbotnum, sem hins vegar hefur fram að þessu ekki verið fornleifaskráð sem slíkt.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. október 1930, bls. 333-334.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel (Bessastaðasel) – uppdráttur ÓSÁ.

Selbrúnir

Í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006„, skráða af Þjóðminjasafni Íslands, segir eftirfarandi um sögu Miðdals:

Miðdalur

Miðdalur – kort 1908.

„Miðdalur hefur trúlega verið í eigu Viðeyjarklausturs en er fyrst getið í Fógetareikningum 1547-52 sem „Mýdall“ eða „Mijdall“, þá í eigu konungs. Árið 1704 er hún ennþá konungsjörð og ábúandi einn (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 289-91). Árið 1847 er Mið­dalur hins vegar kominn í bændaeign og býr eigandinn þar sjálfur (J. Johnsen).
Einhvern tíma á árunum 1938-57 var jörðinni skipt í Miðdal I og II. Skv. Fasteignabók 1957 er Miðdalur II þó í eyði og nýtt frá Dallandi en í Eyðijarðaskrá 1963 kemur fram að Dalland var myndað úr Miðdal II og nýtt af eiganda. Jarðaskrá Landnáms ríkisins staðfestir að Miðdalur II var ekki í ábúð þegar byrjað var að halda jarðaskrár 1958 og hefur ekki verið síðan. Miðdalur I er hins vegar ennþá í ábúð.

Búrfellskot

Búrfellskot.

Þess ber að geta að fyrr á öldum hafa margar hjáleigur heyrt undir Miðdal.
Flestar virðast þó hafa farið í eyði snemma, jafnvel fyrir 1700. Má þar nefna Miðdalkot, Sólheimakot, Borgarholt eða Borgarkot, Búrfellskot og Búrfell.
Loks má nefna að sögu­legur viðburður átti sér stað í Efri-Djúpadal í landareign Miðdals, við konungsheimsóknina árið 1907, og segir Tryggvi Einarsson bóndi frá því í Örnefna­lýsingu: „…sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonuns á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan“ (Tryggvi Einarsson).“

Í „Örnefnalýsingu fyrir Miðdal„, skráð af Tryggva Einarssyni Miðdal, segir um svæðið norðan og austan Selvatns:

Litla-sel

Tóft ofan við Litlu-Selsvík.

„Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.

Víkursel

Víkursel.

Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suðvestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin. Norðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norðvestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norðvestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. Norðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur. Sá konunglegi dalur, árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan.

Selbrúnir

„Borg“ í Selbrúnum.

Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur. Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir. Norðvestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lykklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots. Suðaustur af Urriðarlágarbotninum (svo) eru Vörðhólar. Vestan undir Vörðhólum er allstór dalur er Vörðhóladalur (heitir. Sunnan við Vörðhóla er greni með fallegu skotbyrgi. All langt norður af Lyklafelli eru Klettabrúnir sem Klettabelti heita, spölkorn austur af Klettabeltum er jarðfastur bergstöpull sem Litli-Klakkur heitir. Nokkru austar er stærri bergstöpull sem Stóri-Klakkur heitir.“

Selvatn

Selvatn – málverk Ásgríms Jónssonar 1956. Sjá myndina fyrir neðan.

Tryggvi Einarsson getur ekki um fjárborg í Selbrúnum. Borgarmynd er þó þarna í dag, árið 2021, ca. 15 metra frá sumarbústað, sem þar hefur verið byggður, allhrörlegur. Fjárborgin þessi kemur heldur ekki fram í „Skráning fornleifa í Mosfellsbæ“ 2006. Í Þjóðminjalögunum frá 2001 sagði í 11. grein: „Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað.“ Fjárborgin hefur ekki verið friðlýst. Hennar er heldur ekki getið í „Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006“, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.

Selvatn

Selvatn – steinn Ásgríms Jónssonar.

Í Minjalögum frá 2012 segir hins vegar í 22. grein: „Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið“. Sumarbústaðurinn hefur væntanlega verið byggður fyrir 2012.
Líklegasta skýringin á vanskráningu „fjárborgarinnar“ að hún hafi verið hlaðin eftir 2006. Handbragðið á hleðslunum bendir m.a. til þess. A.m.k. sést hún ekki á loftmynd af svæðinu frá 1954.

Árnakróksrétt

Árnakróksrétt.

Tryggvi Einarsson frá Miðdal skráði „Örnefni í landi Elliðakots í Mosfellssveit“. Þar getur hann um aðra fornleif skammt sunnar, þ.e. Árnakróksrétt: „Landamörk Elliðakots að norðan eru þar sem Dugguós rennur í Hólmsá.
Svo Dugguós í vesturenda Selvatn. Skammt vestan við mitt Selvatn eru stórgrýtisklettar, sem Veiðiklettar heita. Nokkru ofar við vatnið er Árnakrókslækur.
Austan við Sellækjarupptök er allstór klettahóll, sem Árnakrókshóll heitir. Austur af Árnakrókshól er allstór valllendiskriki, sem Árnakrókur heitir. Á klapparsvæði norður af Árnakrók er Árnakróksrétt (að mestu uppi standandi), var skilarétt Mosfellinga. Var flutt að Hafravatni um síðustu aldamót. Heitir nú Hafravatnsrétt. Árnakróksrétt var annáluð fyrir brennivínsþamb og hæfileg slagsmál. Sótti þar að fjölmenni úr Reykjavík og nágrenni og vakað alla réttanóttina.“ Í „Aldaskil“ eftir Árna Óla, á bls. 243, er minnst á tilurð nafnsins Árnakrókur. „Þarna fannst maður úr Laugardalum helfrosinn í Króknum svokallaða sem aftur breyttist í Árnakrók“.

Fossvallarétt

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna.

Fossvallarétt ofan Lækjarbotna  tók við af Hafravatnsrétt fyrir afrétt Seltjarnarneshrepps hins forna haustið 1986 eftir að Hafravatnsrétt hafði verið lögð niður en hún hafði verið lögrétt allt frá 1902 þegar Árnakróksrétt, skammt frá Selvatni, var aflögð (skömmu eftir aldarmótin 1900).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006, skráð af Þjóðminjasafni Íslands.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal – Tryggvi Einarsson.
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Tryggvi Einarsson.
-Þjóðminjalög 2001 nr. 107 31. maí.
-Minjalög frá 2012.

Selbrúnir

„Fjárborg“ í Selbrúnum.