Tag Archive for: Vogar

Stóra-Knarrarnes
Í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar„, úgt. 1961, er m.a. fjallað um leturstein hjá Stóra-Knarrarnesi á Vatnseysuströnd (bls. 216-229). Benjamín Halldórsson benti Árna Óla á steinninn í samtali, sem þeir áttu saman í herbergi 402 á Hrafnistu, dvalaraheimili aldraðra sjómanna, þ.e. „grágrýtisstein með áletrun“.

Knarrarnes

Árni Óla heimsótti síðan Ólaf Pétursson, bónda á Stóra-Knarrarnesi, sem vísaði á steininn við garðshliðið. Um var að ræða jarðfastan grágrýtisstein, um metri á lengd og toppmyndaður. Steinninn var allur þakinn skófum, sem voru samlitar honum. „Með aðgæzlu mátti þó lesa upphaf fyrstu línu: „17 HVNDRVD…“ og svo nafnið „HIARNE EIOLFSSON“ í neðstu línu. En þar á milli sá aðeins móta fyrir staf og staf“.
Í manntalinu 1703 er Bjarnir Eyjólfsson sagður búa að Stóra-Knarrarnesi, sem þá var einbýli.
Árni taldi sig loks hefa getað lesið eftirfarandi áletrun af steininum:

Knarrarnessteinninn17 HVNDRVD SEIAST
AR SEN ÞO FIOGUR RI
ETT I VON SO ÞA CIORDE
SEM HIER STAAR SA HIET
BIARNE EIOLFSSON.

Gísli Sigurðsson í Minni-Knarrarnesi hafði heyrt þetta vers í æsku sinni (f. 1850-60). Vísan hafi verið svona:

17 hundruð segjast ár,
senn þó fjögur rétt í von,
svo þá gjörði sem hér stár
sá hét Bjarni Eyjólfsson.

Áletrun þessi mun því vera um 300 ára gömul. Árið 1707 bjó Bjarni þessi enn á Stóra-Knarrarnesi, skv. þinggjaldabók, og ekki er ólíklegt að hann hafi einnig búið þar árið sem ártalið var klappað í „brúarsteininn“ (1790) á gamla kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (sjá Kálfatjörn – letursteinn (A°1790)).

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

 

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnseysuströnd. Hann var úti við þegar FERLIR bar að garði. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn við Stóru-Vatnsleysu.

Byrjað var að skoða letursteininn, sem er í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649. Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn. Sæmundur sagði að þarna hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti.

Vatnsleysa

Grafsteinn við Stóru-Vatnsleysu, skammt austan við fyrrum sögusviðið. Búið að velta steininum. Sæmundur fylgist með.

Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var yfirgefinn og hann síðan rifinn. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var.

Vatnsleysa

Áletrun á steininum.

Sæmundur var með gömul landamerkjakort. Kort frá 1906 sýndi landamerki Stóru-Vatnsleysu í Markhelluhól, sem er um 900 metrum ofan við Markhelluna við Búðarvatnsstæðið. Á Markhelluhól væru áletranir þriggja jarða, sem þar koma saman, en einhverra hluta hefðu landamerkin verið færð ofar. Sá, sem skráði lýsinguna, virðist þó hafa reiknað með “Markhellunni við Búðavatnsstæðið” (klettur, sem girðingarhornið kemur saman í við Búðarvatnsstæðið) því þannig eru mörkin skráð. Frá Markhelluhól liggja mörkin, skv. kortinu um Hörðuvallaklofa og um Grænavatnseggjar og áfram um Núpshlíðarhálsinn að Selvsvallafjalli. Þar mun hafa verið varða, en einhver ýtt henni fram af brúninni. Sjá mætti ummerki eftir hana ef vel væri að gáð.

Litla-Vatnsleysa

Stórgripagirðing við Litlu-Vatnsleysu.

Bað Sæmundur FERLIR um að líta eftir ummerkjunum næst þegar farið væri á Selsvallafjall. Þarna hafi verið gömul leið, sem þeir hafi oft farið fyrrum, eða a.m.k. tvisvar á ári, þ.e. upp með Sogseli, upp með Spákonuvatni og eftir hálsinum. Ofan við Spákonuvatn væri nær tveggja metra há klettur og væri hann á landamerkjunum. Önnur kort, s.s. frá 1892, kveða á um mörkin í Trölladyngjuöxlinni og þaðan yfir á Selsvallafjall, en einhverra hluta vegna hefði komist inn lýsing einhvers staðar, sennilega frá Kálfatjörn, að mörkin væru í vörðu á Oddafelli og eftir götu á fellinu. Þar væri um misskilning að ræða. Fremrahorn (Fremstahorn) á Selsvalafjalli hafi verið nefnt Vesturhorn frá Vigdísarvöllum, en ofan við það hafi varðan átt að vera,
Sæmundur sagði Stóru-Vatnsleysu hafa haft í seli í Rauðhól, en Minni-Vatnsleysa hafi haft í seli undir Oddafelli. Þar hefði verið vatn úr Sogalæk, en vatnsskortur hefði háð selsstöðunni við Rauðhól.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið var við skúta í Skógarnefi og hefði hann þó gengið nokkrum sinnum um það svæði við leitir. Greni væru hins vegar nokkur þarna í hraununum.
Sæmundur sagði að Akurgerði hafi verið hjáleiga í Kúagerði frá Stóru-Vatnsleysu. Afstaðahraunið hafi runnið yfir jörðina og bæinn skömmu eftir fyrstu árþúsundamótin. Þarna hlyti að áður að hafa verið sléttlent og talsverður gróður.
Skoðuð var áletrun (SJ-1888-ME) í Hrafnagjá norðvestan við Stóru-Vatnsleysuhúsið. Áletrunin er til minningar um Magnús nokkrun frá Stóru-Vatnsleysu er þarna hafði jafnan afdrep við drykkju sína. Segir sagan að þar hafi og barn komið undir, eins og svo víða annar staðar í sveitinni. Hið sérstæða við staðinn er að hann er á innanverðum gjárbakka, en ekki utanverðum.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti.

Lambafellsklofi
Gengið var um Lambafellsklofa og Einihlíðar er liggja suðaustan við Mosa. Þetta eru lágar en gróðurríkar hlíðar sem snúa mót vestri [útnorðri] og liggja millum Lambafells og Mávahlíða.
Í LambafellsklofaEinihlíðabruni er ofan við Einihlíðar og á tveimur stöðum fellur hraunið í fossum niður hlíðarnar og sameinast þar öðrum hraunum, s.s. Eldborgarhrauni. Í ferðinni var og ætlunin að skoða svæðið vestan Mávahlíða. Leiðin lá m.a. yfir gróið snæviþakið hraun sem á ættir sínar að rekja til Krýsuvíkurelda 1150 – 1188. Ljóst er að þarna er enn víða að finna hita skammt undir yfirborðinu því á köflum var alger snjóleysa.
„Að Hvassahrauni liggur Vatnsleysa til vesturs, hafið til norðurs, Lónakot og Óttarsstaðir til austurs og Krýsuvík til suðurs. Hvassahrauns er getið í heimildum allt frá fyrri hluta 13. aldar.
Samkvæmt landamerkjabréfi Hvassahrauns og Vatnsleysu, dags. 15. júní 1889 og þingl. 17. júní 1889 eru merki Hvassahrauns til vesturs sögð frá ,,..Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í Afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland.” Landamerkjabréfið er áritað vegna Hvassahrauns og Vatnsleysu. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í gerðabók
fasteignamats 1916-1918 og þar segir að merki milli Hvassahrauns og Vatnsleysu séu miðuð við ,,… Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það að Krýsuvíkurl.” Síðasta örnefnið sem er tiltekið áður en línan er dregin að Krýsuvíkurlandi er Snókafell. Fellið liggur fyrir norðan Eldborgarhraun og er því nokkru fyrir neðan mörk Krýsuvíkur.
Afstapahraunið nýrra kom upp í sömu goshrinu og Nýjahraun/Bruninn (Kapelluhraun) og Ögmundarhraun (1151-1188). Fremst á því trjónir nú EinihlíðarAfstapavarðan.
„Einihlíðar liggja suðaustan við Mosa. Þetta eru lágar en gróðurríkar hlíðar sem snúa mót vestri [útnorðri] og liggja langleiðina suður að Lambafellum. Hægast er að finna Bögguklett frá Einihlíðum. Einihlíðabruni er ofan við einihlíðar og á tveimur stöðum fellur hraunið í fossum niður hlíðarnar og sameinast þar örðum hraunum, s.s. Eldborgarhrauni.“
Landsvæðið sem um ræðir er mjög flatt, láglent og einsleitt og er þakið misgömlum hraunlögum. Í hraunbreiðunum er nokkuð um dældir og skúta. Nyrst á landsvæðinu er mosavaxið Rjúpnadalshraun og liggur torfær Afstapahraunbreiðan vestan þess. Fyrir miðju landsvæðisins er Geldingahraun (einnig nefnt Afstapahraunið eldra, en rani þess nær alla leið niður í Selhraunin ofan við Gerði í Hraunum). Þar fyrir sunnan er hraunbreiða sem kallast Dyngnahraun/Dyngjuhraun og er hún nokkuð úfin. Norðaustarlega á Dyngnahrauni er stórt og rennislétt mosasvæði með nokkrum hólum eða klettum sem standa upp úr því og kallast þetta svæði Mosar. Sunnan Mosa liggja Einihlíðar en það eru lágar, langar en gróðurríkar hlíðar. Lambafell eru tvö fell, Eystra-Lambafell (182 m) og Vestra-Lambafell (162 m) og standa þessi tvö fell upp úr hraunbreiðunni. Um 2 km norðan Vestra-Lambafells stendur ávallt og gróðurlítið Snókafellið (143 m).

Einihlíðakarl

Ferðin hófst „við Afstapaþúfuna fremst á Afstapahrauni en þúfan er þar sem raninn er hæstur fast ofan við Reykjanesbraut og Kúagerði. Þúfan er á mörkum Hvassahrauns og Vatnsleysu. Árin 1953-4 lagði Þórður Jónasson (1895-1959) bóndi á Stóru-Vatnsleysu um 9 kílómetra langan Höskuldarvallarveg frá Kúagerði upp allt afstapahraun og að Höskuldarvöllum. Þórður hóf ræktun þar með stórt kúabú í huga en entist ekki aldur til þess að ljúka þeim áformum.“ Illu heilli var ofaníburðurinn í veginn tekið úr Rauðhólum (við Höskuldarvallaveg) og Eldborginni undir Trölladyngju. Um var að ræða eitt mesta umhverfisslys þess tíma.
Frá Eldborginni var gengið til norðurs áleiðis með austanverðu Eystra-Lambafelli, klofað upp á það og haldið sem leið lá niður misgengisgjána í því miðju. Bólstar í bergi eru þar óvíða greinilegri. Í Einihlíðum vakti steinkarl yfir undirlendinu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-SGG – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007.

Trölladyngja

Hlöðunessel

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur um Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, er getið um öll sel, sem þar er að finna.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vantsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. Árið 1703 var búfénaður á Brunnastöðum sem hér segir: 10 nautgripir, 27 kindur ásamt lömbum, 29 sauðir og 4 hestar. Heimilsfólk var 14 talsins. Hjáleigurnar voru 5 og þar 8 kýr og 7 kindur. Því má ætla að um aldamót 1700 hafi 10-12 kýr verið í Brunnastaðaseli og 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.
[Þess skal geti að höfundur hefur gengið mikið með Sesselju um selin ofan Vatnsleysustrandar og orðið margs áskynja. Eitt af merkilegri seljum þar er Gjásel. Það er undir Stóru-Aragjá og er sennilega eitt fyrsta “raðhúsið” hér á landi. Í einni keðju eru a.m.k. 7-8 hús undir gjárveggnum og tveir stekkir. Þarna hefur greinilega verið um einhvers konar samyrkjubúskap að ræða, sem fróðlegt væri að reyna að fá gleggri upplýsingar um].

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Í upphafi voru líklega bæði kýr og kindur hafðar í seli hér í hreppnum og afurðirnar, jafnvel ullin, unnar á staðnum. Selfarir lögðust trúlega endanlega af hér og víðar á landinu upp úr miðri nítjándu öldinni, og þá á bilinu 1850-1880. Selstæðin voru kennd við höfuðbýlin en hjáleigubændurnir höfðu líka afnot af þeim og víða voru því 4-6 búendur á sama selstæðinu.
Í heimildum um seljabúskap í Dalasýslu er sagt að sumir bæir hafi átt tvö sel og þrjú sel og notað a.m.k. tvö sama sumarið, þ.e. flutt búpeninginn á milli selja þegar beit var uppurin í því sem fyrst var flutt í. Ekki er getið um kýr í seljum þar vestra á 19. öldinni, aðeins kindur. Í ritinu segir: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra….sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Vogasel

Vogasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Líklega hefur seljabúskapurinn hér verið með svipuðu sniði og fyrir vestan en ekki er vitað til þess að býli hafi átt tvær selstöður. Hér í hreppi hefur verið meiri nauðsyn á að hafa kýr í seli en í Dölunum vegna þess hve heimahagarnir vorur rýrir.
Vatnsskorturinn í heiðinni er tíundaður í Jarðarbókinni 1703 og er sagt þar að fólk hafi þurft að flytja hem úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimidlir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til sömu nota. Það sama hefur eflaust gilt hvað varðar selstöðurnar hér og víðar þegar þurrviðrasamt var. Við nokkur selin í heiðinni eru smá vatnsstæði í klöppum og gamlar heimildir eru til um vatnsból við önnur en þau hafa ekki fundist þrátt fyrir mikla leit.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

[Selin á Vatnsleysustrandarheiði eru öll ofan Reykjanesbrautar]. Norðaustur og upp frá Pétursborg [á Huldugjárbarmi] en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegn um einn hólinn. Þarna hefur ólíklega verið sel enda engar húsarústir sjáanlegar. [Minjarnar í og við hólana benda til þess að þarna hafi verið sel. Ekki er útilokað að tjaldað hafi verið yfir gjána, en í henni eru hleðslur veggja].

Undir Arahnúk [þar sem Stóra-Aragjá rís hæst] er Arahnúkasel eða Arasel. Ekki er vitað við hvern þennan Ara selið er kennt við, en getgátur hafa verið uppi um það, sem ekki verður fjallað nánar um hér. Selið dæmigert fyrir selin á Reykjanesskaganum; í skjóli fyrir austanáttinni.

Arasel

Arasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist.
[Þess ber að geta framangreindu til staðfestingar, að við leit að vatnsstæðum og vatnsbólum við sel á Reykjanesi sumrin 2002 og 2003 kom í ljós að sum þeirra höfðu þornað alveg upp miðsumars, enda um óvenjuhlý sumur að ræða.]

Fjárborgir eru margar hér enda hreppslandið talið gott sauðfjárland. Skúli Magnússon segir í landlýsingu sinni árið 1785 að Strandarheiðin sé “….eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar það sem ég hefi séð á Íslandi….”.
Merki um 10 fjárborgir eru sjánlegar og eru þær mismunandi heillegar, allt því að vera svo til óskemmdar niður í illgreinanlegar hringlaga grjóthrúgur.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Um síðustu aldarmót var t.d. setið yfir tugum sauða í Kálffelli [sunnarlega í Vogaheiðinni]. [Þar má bæði sjá hleðslur við fjárskjól á a.m.k. tveimur stöðum, stekk og hlaðið gerði. Auk þess er þar að finna helli Odds frá Grænuborg, en hann hélt til í honum um aldarmótin 1900]. Í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir síðustu aldamót og var frægasti sauðamaðurinn þar Oddur Stefánsson frá Grænuborg (d: 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.

Oddshellir

Oddshellir.

Oddshellir er í Brunnhól rétt sunnan við gígskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellisins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop og til þess að komast niður þurfum við að stökkva niður á nokkrar hellur sem hlaðnar hafa verið neðan dyranna. Líklega hefur Oddur í Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

[Nýjasel er austanvið Snorrastaðatjarnir. Þar mótar fyrri nokkrum tóftum og stekk undir lágreistum bjalla. Snorrastaðasel er norðan við Snorrastaðatjarnir. Um eina tóft er að ræða. Í hana hefur, af öllum stöðum, verið plantað grenitré. Talið er að Snorrastaðasel hafi verið kúasel].

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Nokkurn spöl vestan við [svonefnda] Viðaukahóla er nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin niður í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan við Reykjanesbrautar og rétt austan Vogaafleggjara heita Þórusel. Víst er að Þórunafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga, en í því átti að satnda höfuðból með átján hurðir á hjörum. Engar rústir eru sjánlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað, en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð.
[Rétt er að geta þess að þarna skammt vestar er gróinn hóll. Í honum má sjá marka fyrir hleðslum í klofi hans. Utan með er það gróið og enn utar það mikil eyðing, að erfitt er að sjá hvor þar geti verið hægt að finna heilleg mannvirki. Þó er það ekki útilokað]. Ein sögn er til að Þórusel hafi verið um tíma í Fornuseljum í Sýrholti.

Kvíguvogasel - SnorrastaðirUtan í Vogaholtinu að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel. Þar sjást þrjár gamalgrónar tóftir og ein nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 17003 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli. Ekkert vatnsból hefur fundist við Gamla-Vogasel.
[Í brekkunni suðaustan við Gömlu-Vogasel má sjá tóftir Nýju-Vogaselja. Þær eru nokkrar á a.m.k. tveimur stöðum; aðrar undir klapparhól og hinar skammt neðar utan í grónum hól. Ofar er stekkur og fleiri hleðslur].
Frá Gamla-Vogaseli, austur af Vogaholtinu, er Brunnastaðasel undir Brunnastaðaselsgjá og er um 15 mín. gangur á milli seljanna. Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru um Brunnastaðaselsvansstæði ofan við og sunnan selsins en það hefur ekki fundist enn svo óyggjandi sé.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggnirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltartíma.

Brunnastaðaselsstígur lá frá bæ í selið og þá líklega sami stígur og liggur um Gjásel og Brunnastaðasel.
Undir Hlöðunesskinn í lægð mót austri stóð Gamla-Hlöðunessel eða Hlöðunessel og þar sjáum við tvær mjög gamlar tóftir en túnið er svo til horfið vegna uppblásturs sem er mikill þarna. Í Jarðabókinni 1703 segir að selið í Hlöðunesi sé aflagt vegna vatnsskorts. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við selið.[Þegar Hlöðunessel var skoðað komu í ljós mjög gamlar tóftir á tveimur stöðum á torfu þeirri, sem enn er heil, en í kringum selið er mikill uppblástur, eins fram hefur komið, en þarna er greinilega um mjög gamalt sel að ræða, sem erfitt er að koma auga á].

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðarbókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni.
Selið sést vel frá Skrokkum og er stutt ganga að því. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt fyrir ofan hólinn að austanverðu er smá vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á legnd, um 2 m á breidd með grjóthleðslu í kring.
Fyrir ofan fornasel liggur Línuvegurinn. Ofan hans blasir Klifgjá við og framundan er bergveggur hennar hár og mikill, en lækkar til austurs og vesturs þegar fjær dregur.
Yfir gjána á þessum slóðum eru tveir stígar með nokkru millibili; Knarranesselstígur og Auðnaselsstígur nokkurn spöl norðaustar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan við Klifgjá og þar er flatlendast miðað við önnur selstæði í heiðinni. Selsstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnstæðið sem er um 100 m neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.
Selstæðið er stórt með mörgum tóftum enda höfðu líklega flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Næst er Auðnasel, en það er norðaustur af Knarranesseli innan við [Breiðagerðisslakka]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól. [Við leit að vatnsstæðinu sumarið 2003 kom í ljós að það er niðurgrafið undir nefndum klapparhól, skammt norðan vestustu tóftanna].
Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræsluflug. [Við skoðun á Sýrholti og Fornuseljum sumarið 2002 komu í ljós tóftir á tveimur stöðum. Tóftir eru norðvestan í holtinu. Þá eru tóftir nokkru norðar. Norðan þeirra, í gjá, er hlaðin kví].

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts, en norðan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það. Þeir Kálfatjarnarbræður Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.

Flekkuvíkursel

Selsvarða við Flekkuvíkursel.

Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestri-
Flekkuvíkurás og Nyrðri-Flekkuvíkurás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Þórustaðastígurinn liggur milli Selshálsins og Sýrholtsins, síðan yfir Grindarvíkurgjána og áfram upp í heiðina.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðan Flekkuvíkursels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman og heita Bræður.
Undir norðaustanverðum Rauðhól er Rauðhólssel, en það var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsból. Upp með hraunjaðrinum frá Kúagerði liggur Rauðhólsselsstígur, eða Rauðhólsstígur, upp í selið.
Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur frá Brennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel. Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tvennar tóftir af kofayrpingu, en kvíin er vestarlega í seltúninu. Austarlega á Selásnum er há varða sem sést víða að.
Jón Helgason frá Litlabæ á Vatnsleysuströnd (1895-1986) segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum, en hún lifði líklega fram á anna tug þessarar aldar”.

Arasel

Ara(hnúks)sel – Uppdráttur ÓSÁ.

Sé þetta rétt hafa a.m.k. tveir bæir í hreppnum haft í seli vel fram á 19. öldina; það eru Hvassahraun og Flekkuvík. Einnig er líklegt að ámóta lengi hafi verið selsbúskapur í Arahnúkaseli og Gjáseli því tóftir þar eru nokkuð nýlegar. Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans árið 1856, en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir eins og [áður] er getið um.
Hvassahraunsselstígur liggur frá bænum og upp í selið og er nokkuð greinilegur á köflum þó svo að við göngum ekki að honum vísum við Reykjanesbrautina. Líklega eru örnefnin Selskrínshæð og Hálfnaðarhæð við stíginn og þá Hálfnaðarhæðin fast hægra megin við hann sé gengið upp eftir. Örnefnið Selskrínshæð gefur til kynna að þangað hafi selfólkið farið með selskrínunarr og þær síðan verið sóttar á hæðina af heimafólki og eða skipt um ílát þar.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Selstígurinn liggur áfram langt upp úr austan við Selásana og fellur þar inn í Skógargötuna sem liggur úr Hafnarfirði um Óttarstaðasel og upp að fjallgarði. Gata þessi ber mismunandi nöfn: Í Hafnarfjarðarlandi heitir hún Rauðhólsstígur eða Óttarstaðaselsstígur, fyrir ofan Hvassahraun heitir hún Skógargatan og þegar ofar kemur heitir hún Mosastígur.
Heimildir geta um vatnsból við Hvassahraunssel og þá undir skúta, eiginlega beint austur af selinu, og er erfitt að finna það. Nokkur leit hefur verið gerð að vatnsstæðinu, en það hefur ekki fundist. [Gerð var leit að því sumarið 2003 og fannst það á nefndu stað skammt fyrir ofan selið. Þar eru nokkrir hraunbollar og í einum þeirra var greinilegt vatnsstæði undir].
Næst er fallegasta gróðursvæðið á öllum Reykjanesskaganum, en það eru Selsvellirnir, sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænuvatnseggjum af smá dalverpi eða gili, en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd, en aðeins rúmlega 0.2 km á breidd.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir í lýsingunni að Selsvellir séu “í Strandamannalandi eður fyrir norðan Grindavíkurlandamerkin”. Þrátt fyrir þess heimild og fleiri hafa bændur í Grindavíkurhreppi eignað sér Selsvellina í tugi ára og á kortum Landmælinga Íslands er línan alltaf Grindvíkingum í hag þó svo hún sé að vísu einatt skráð sem óviss mörk.
Tveir lækir, Selsvallalækir, ranna um sléttuna, en hverfa svo niður í hraunjaðarinn, sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili sunnan Kúalága, en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nokkuð nálægt Selsvallaseli.
Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti. Í bréfi frá séra Geir Backmann, Staðapresti, til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. [Þess ber að geta til glöggvunar að eldri seltóftir eru austan Selsvalla skammt norðar. Á milli þeirra liggur greinilegur stígur að nýrri selstóftunum. Kemur hann inn á selstíginn yfir hraunið, áleiðis til Grindavíkur, vestan þeirra. Stígurinn, sem reyndar greinist í fleiri stíga, er djúpt markaður á kafla eftir lappir og fætur liðinna kynslóða.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Handan við hraunkantinn að vestanverðu er Hraunsels-Vatnsfell. Uppi á því austanverðu er gígur með vatni í; vatnsstæði. Það hefur greinilega verið mikið notað í gegnum aldirnar, ef marka má hinn markaða stíg, sem þarna liggur á millum].

Heimild:
-Selin í Vatnsleysustrandarheiði – eftir Sesselju Guðmundsdóttur – “Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd”.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Knarrarnesholt

Í fyrri ferð um svæðið austan við Knarrarnesholt bar ýmislegt fyrir augu í skammdegisbirtunni. Nú var ætlunin að ganga um heiðina vestan við Knarrarnesholt að Brunnastaðalangholti, en svæðið þar fyrir vestan hafði áður verið skoðað.

Knarrarnesholtsvarða

Enn sem fyrr hékk náttúruleg skammdegisljósadýrðin yfir heiðinni. Gengið var niður um Djúpudali, „djúpa grasbolla sem ganga inn í klapparholt eða hóla. Í Djúpudali var farið með kýrnar frá Stóra Knarrarnesi í tíð Ólafs Péturssonar bónda þar“.
Gróningarnir milli holtanna eru grasgefnir, enda hafa þeir verið hið ágætasta skjól í heiðinni. Drjúg leið er milli bæja og dalanna svo ætla mætti að einhvers staðar væri þar að finna smalaskjól, þótt lítið væri. Tveir staðir komu til greina, en þó annað öllu líklegra. Um var að ræða ferhyrnda gróna rúst í „anddyri“ dalanna. Sjá mátti grjót í veggjum, en ekki hefur afdrepið verið stórt, líkara varðskýli. Líklegt er að kýrnar hafi ekki leitað upp á holtin heldur ætlað heimleiðis um dalverpið þegar nóg var komið. Þá var skýlið vel staðsett. Leitað var að kúastekk á svæðinu, sem líklega er þarna einhvers staðar í eða við Djúpudali, en án árangurs að þessu sinni. Horfa til þess að skammdegisbirtan gaf ekki mikla möguleika eða kjörin tækifæri til uppgötvanna eftir að vinnu lauk þann daginn. Þá eru myndatökur með venjulegum tækjabúnaði við slíkar aðstæður mjög erfiðar.
KnarrarnesholtsvarðanNeðan og vestan við Djúpudali er Knarrarnesholt. „Þess er getið í landamerkjabréfum Knarrarness og Ásláksstaða. Holtið er lágt en formfallegt séð frá [Reykjanes]brautinni og á því er kubbslaga, lágreist en þó áberandi varða, u.þ.b. 1,5 m á hlið.“ Varðan er á áberandi stað, hvort sem horft er upp í heiðina heiman frá bæ eða niður hana af Knarrarnesselsstígnum þar skammt austar. Hæðin á vörðunni er ekki nema ca. 0,50 m, ferköntuð og fyllt í miðju. Ætla mætti að henni hafi verið ætlað að verða hærri (enda landamerkjavarða), en vegna þess hversu 
nægilega áberandi kennileiti hún var orðin svona lágreist hafi þetta verið látið duga. Skoðað var hvort varðan gæti einnig hafa verið ætluð sem refagildra, en engin merki þess sáust.
Afstapavarða„Suðvestur af Knarrarnesholti og Djúpudölum eru svo Ásláksstaðaklofningar eða Klofningar en það er hólaþyrping rétt neðan Reykjanesbrautar og utan við beitarhólfið sem þarna er enn.“
Ásláksstaðaklofningar eru lágir klapparhólar og litlir m.v. nágranna þeirra, grónir á millum. Gróin varða er á þeim, en tilefnið virtist óljóst.
Í bakaleiðinni var staðnæmst við norðurenda Afstapahrauns, ofan Kúagerðis. Þar er varða, hvorki gömul né ný, að því er virðist. Hún er hlaðin á efsta (fremsta) brunahólnum í þessu úfna apalhrauni. Ætla mætti við fyrstu hugsun að hún hafi verið hlaðin til dundurs af vegagerðarmönnum er lögðu akveginn fyrsta sinni milli Innnesja og Útnesja í kringum 1910 (1906-1912).
AfstapavarðaÍ örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir hins vegar: 

„Markavarða við Fögruvík; úr Markavörðu í Afstapavörðu, úr Afstapavörðu í Snókafell, úr Snókafelli um Lambafell, úr Lambafelli í landamerkjalínu Krýsuvíkur norðan Mávahlíðar.“ Varðan sú virðist skv. þessu vera svonefnd Afstapavarða á merkjum Hvassahrauns og Stóru-Vatnsleysu. Sbr. framangreint ætti einnig að vera landamerkjavarða á Einihlíðum norðan Mávahlíða.
Samkvæmt landamerkjabréfi Hvassahrauns og Vatnsleysu, dags. 15. júní 1889 og þingl. 17. júní 1889 eru merki Hvassahrauns til vesturs sögð frá ,,..Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland.”
LambafelLandamerkjabréfið er áritað vegna Hvassahrauns og Vatnsleysu. Merkjum er lýst með sambærilegum hætti í gerðabók fasteignamats 1916-1918 og þar segir að merki milli Hvassahrauns og Vatnsleysu séu miðuð við 

,,… Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það að Krýsuvíkurl”. Líklegt má telja að Afstapavarða hafi verið hlaðin við svonefnda Afstapaþúfu til áréttingar mörkunum. Síðasta örnefnið sem er tiltekið áður en línan er dregin að Krýsuvíkurlandi er Snókafell. Fellið liggur fyrir norðan Eldborgarhraun og er því nokkru fyrir neðan mörk Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-SGG – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007.

Knarrarnesheiði

Varða á Knarrarnesheiði.

Alafarleið

Alfaraleiðin er gamla þjóðleiðin milli Innnesja og Útnesja frá Hafnarfirði. Hún er vel mörkuð í landið og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni. Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðlsur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum.

Alfaraleið

Alfaraleiðin.

Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma. Þegar litið var í brunninn var ekki frá því að Gvendur sæist í honum ef vel var að gáð. Að minnsta kosti virtist hann alltaf gæjast fram þegar kíkt var ofan í brunninn.

Alfaraleiðin

Alfraleiðin – varða.

Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Þegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 2 klst.

Alafaraleið

Gvendarbrunnur.

Goðhóll

SGG ritaði grein í 6. tbl. Faxa 1993 er fjallaði um Kristmundarvörðu í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd.
Sesselja„Nú í sumar, árið 1993, endurhlóð Ragnar Ágústsson í Halakoti vörðuna og var það þarft verk og vel gert. Hún stendur á sléttri klöpp svo til beint upp af eyðibýlinu Vorhúsum á Bieringstanga, ca. 50 m ofan við gömlu götuna (eða hitaveitulögnina) og lætur ekki mikið yfir sér. Fast norðaustan við vörðuna er hóll með áberandi þúfu.“ Í raun er varðan rétt ofan við nefndan gamla veg í Voga. Leiðin sést vel ofan við „hitaveituveginn“ þar sem hún liggur framhjá vörðunni.
„Í smalamennsku 10. nóvember 1905 týndist maður í Strandarheiðinni sem hét Kristmundur Magnússon og var frá Goðhóli í Kálfatjarnarhverfi. Mikil leit var gerð að piltinum en án árangurs. Heimildum um atburðinn ber ekki saman og vík ég nánar að því síðar. Sérkennileg saga tengist líkfundinum og fer hún hér á eftir.“
Vilhjálmur, sonur Guðmundar Jónssonar frá Hreiðri í Holtum, mun hafa ferið á ferð um Ströndina þennan vetur á leið sinni, líklega í ver, í Leiru. Ólöf Árnadóttir frá Skammbeinsstöðum í sömu sveit átti þá von á barni með Guðmundi. Barnið reyndist drengur.
RagnarSamkvæmt kirkjubókum Kálfatjarnakirkju mun lík Kristmundar frá Goðhóli hafa fundist 13. nóv. 1905.
„Vilhjálmur kom við í Halakoti (hefur líklega gist þar), en hélt síðan áfram suður í Voga. Þegar hann var kominn spöl suður fyrir Halakot gekk hann fram á lík Kristmundar Magnússonar og lá það stuttan spöl ofan við götuna sem lá rétt við túngarða Bieringstangabæjanna. Vilhjálmur lét vita af líkfundinum og hélt síðan áfram suður úr. Stuttu eftir að Ólöf í Arnarstaðarkoti fæddi drenginn, sem fyrr er nefndur, dreymdi hana að Vilhjálmur kæmi til sín og segði: „Ég er hér með ungan mann sem heitir Kristmundur og mig langar til þess að biðja þig fyrir hann.“ Ólöf leit svo á að Vilhjálmur væri að vita nafns og þau hjónin ákváðu að skíra nýfædda drenginn Kristmund. veturinn leið og um vorið kom Vilhjálmur austur og þá fyrst fengu hjónin í Arnarstaðarkoti skýringu á draumanafninu.

Kristmundarvarða

Sögu þessa sagði mér Ragnhildur Magnúsdóttir, f. 1913, frá Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd, en hún er gift Kristmundi þessum frá Arnarstaðarkoti.“
Þá er vitnað í örnefnalýsingu Sigurjóns Sigurðssonar frá Traðarkoti, f. 1902, um Brunnastaði: „Svo bar  til, að haustið 1907 eða 1908 var farið til smölunar í sveitinni. Einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundur Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“
KristmundarvarðaSigurjón lýsir því hvar varðan stendur og segir hana vera við gömlu leiðina nokkuð sunnar en Halakotsvarða Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar frá 1958 segir: „Skammt suður frá Töðugerði upp við veginn, gamla veginn, er varða sem heitir Kristmundarvarða, dregur hún nafn sitt af því að piltur að nafni Kristmundur frá Goðhól, 16-17 ára gamall, var að smala fé en villtist í slagviðri og fannst látinn þarna og hafði gengið sig inn í bein…
Guðríður Egilsdóttir frá Hliði í Kálfatjarnarhverfi, f. 1897, sagði í samtali 1992 að ungi maðurinn hafi týnst fyrri part vetrar, líklega rétt eftir að faðir hennar dó árið 1905 en þá var Guðríður 8 ára. Hún hélt að atburðurinn hafi átt sér stað í október því skólinn, sem þá var í Norðurkoti, hafi verið byrjaður. Henni var það minnistætt þegar menn báru lík piltsins um hlaðið á Hliði og niður að Goðhóli og inn í hlöðuna þar…
Í kirkjubókum Kálfatjarnarkirkju segir að Kristmundur Magnússon hafi verið 17 ára Halakotsvarðavinnumaður í Goðhóli og týnst við smalamennsku 10. nóv. 1905, fundist örendur 13. nóv. og verið jarðaður 24. nób. 1905.“
Í bréfi, sem fannst í gömlum kistli í húsi á Hofsvallagötunni í Reykjavík, segir frá atburðinum: „Goðhól… (dags. ólæsileg). Elsku Hjartkæra dóttir mín. Komdu ætíð marg blessuð og sæl….
Elskann mín góða, guð reindi okkur með því sorgar tilfelli að taka til sín okkar Elskulega son og ykkar bróður Kristmund (sál). Það vildi til með þeim hætti að við ljéðum hann í smalamennsku hjér uppí heiðina og voru þeir fjórir dreingir saman, allir á líku reki en hann var helst ókunnugur leitunum þegar þeir fóru til baka, nefninlega heimleið. Skildu þeir og áttu að reka ofaneftir skamt hvor frá öðrum. Veður var hvast á austann, landsunnan, með stór rigningar hriðjum enn þokulaust og marauð jörð.
En um kvöldið kom hann ekki. Þú gétur nærri hvað við Goðhóllhöfðum að bera, Elskann mín. Svo var gerð almenn leit með mannsöfnuði í þrjá daga og á þriðja degi fannst hann, en ekki af leitarmönnum. Maður sem var á ferð austann úr holtum varð til þess að finna hann og var hann mjög stutt frá bænum á milli voganna og strandarinnar, skamt frá alfaravegi. Þar lá hann andvana á sléttri klöpp með krosslagðar hendur á brjósti. Hann hefur því lagt sig sjálfur til í Hjartans auðmíkt undir Guðs blessaðan vilja… (ólæsilegt). Við erum sannfærð um það að hann hefur undir atlögu dauðans horft upp till himin ljósanna sem eynmitt þá leiftruðu svo skírt. Veður batnaði svo mjög og loftið varð ljétt svo túngl og stjörnur hafa því orðið fyrir hans deijandi augum.

Kristmundarvarða

Okkur er óhætt að hugga okkur við það að hann hefur gétað beiðið til guðs því hann kunni mikiða f góðu. En Engill dauðanns hefur flutt hans fresluðu sál til Guðs Eilífu ljóss heimkinna. Eftir öllum atvikum hefur hann andast 11. Nóvenber. Guðisjé lof fyrir að hann fanst svo við gátum búið hann til moldar og var hann jarð súnginn þann 24. sama mánaðar…. “ Undirskrift vantaði á bréfið.
Kristmundur var jarðsettur við suðurvegg Kálfatjarnarkirkju en enginn grafsteinn var settur á leiðið. Herdís Erlendsdóttir á Kálfatjörn man vel eftir hjónunum á Goðhóli og sorg þeirra þegar þau vitjuðu grafarinnar.
Nú er búið að leggja göngustíg yfir leiði Kristmundar og varðan í Djúpavogsheiðinni er það eina hér í hreppnum sem minnir á drenginn sem varð úti svo að sega við bæjardyr sveitunga sinna.
Einn lítinn hlekk vantar þó enn í söguna: Hver eða hverjir hlóðu Kristmundarvörðu?“
Það var Magnús í Halakoti, bróðir Ragnars, sem vísaði FERLIR á vörðuna síðdegis í haustsólinni. FERLIR hefur borist nokkrar ábendingar um staðsetningu Kristmundarvörðu, en til að taka af allan vafa eru hér gefin um hnitin af henni – [6359599-2222860].

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir – Faxi, 6. tbl., 53. árg., bls. 202-203.

Kristmundarvarða

Þyrluvarða

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“, segir m.a. um „Þyrluvörðuna„: „Næst höldum við suðvestur frá Strokkum, förum meðfram Reykjanesbrautinni að neðanverðu, yfir lægðina [Breiðagerðisslakka] sem þarna er og að Þyrluvörðunni svokölluðu“.

Þyrluvarðan

Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra. Lægðin mun vera hluti af svonefndum Breiðagerðisslakka.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – „Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins sunnan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina. Þrír ungir piltar úr Reykjavík voru sjónarvottar að slysinu og hefir einn þeirra skýrt frá því í smáatriðum í samtali við blaðið, sem birtist á öðrum stað.
Blaðamenn Mbl. fóru á slysstað þegar á laugardagskvöld, en var meinað að koma nær en sem svaraði 30-40 m. Var þá verið að bera lík hinna látnu úr flakinu, en þau voru mjög illa farin og nánast óþekkjanleg, enda mikið brunnin. Meðal þeirra sem fórust var Robert R. Sparks yfirmaður á Keflavíkurflugvelli, næstæðsti maður varnarliðsins. Hann hafði komið til Íslands síðari hluta ársins 1963 og tók þá við fyrrnefndri stöðu á Keflavíkurflugvelli.
Þyrlan var á leið ofan úr Hvalfirði. Þangað höfðu yfirmaður Vallarins, og yfirmaður landgöngulið flotans hér, A. E. House (44 ára), farið í eftirlitsferð. Aðrir í þyrlunni voru: Clinton L. Tuttle, liðsforingi (32 ára flugmaður þyrlunnar), John Brink (39 ára) og Billy W. Reynolds (27 ára sjóliði).
Frá slysstaðHingað er komin rannsóknarnefnd frá Wasington til að kanna orsök slyssins undir yfirstjórn Q. E Wilhemy. Nefndin getur ekki að svo komnu máli gefið upp ástæður slyssins, enda ekki líkur til að hún sé komin að niðurstöðu.“
Þá segir m.a. í fréttinni (bls. 3): „Um kl. 19.00 á laugardagskvöld 1 maí s.l. var hringt sunnan úr Vogum til lögreglunnar Í Hafnarfirði og henni tilkynnt að heyrzt hefði í flugvél upp af Landakoti og Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, en síðan sézt þaðan eldstólpi eins og vélin hefði hrapað og brunnið um leið.
Hafnarfjarðarlögreglan sneri sér til flugturnsins í Reykjavík og Keflavík. Fékk hún þau svör, að engrar flugvélar væri saknað úr fluumferðarstjórn Reykjavíkurturns, en aftur á móti var skýrt frá því á Keflavíkurflugvelli að þyra væri á leið þangað frá Hvalfirði og mundi hún vera á svipuðum slóðum og upp voru gefnar.
FórustReykjavíkurturn kallaði flugbjörgunar-
sveitina á vettvang, en þar sem þyrlan féll til jarðar rétt í vegarbrún hins nýja Keflavíkurvegar var engin þörf fyrir leit, nema að lausum hlutum úr vélinni, og ennfremur var gerð leit að einu líka hinna látnu, sem ekki fannst þegar í stað, enda hafði það lent undir flakinu.
Blaðamenn Mbl. komu á slysstað um kl. 22 á laugardagskvöld. Við okkur blasti rúst vélarinnar í hraunflákum vegbrúnarinnar en stél hennar og afturhluti lá inn á veginn með knosaðri stélkrúfu. Afturhlutinn var rauðmálaður og sást í hvíta stjörnu á bláum grunni, einkennismerki bandaríska flughersins, en að öðru leyti hvar brak vélarinnar í rúst og myrkur.
Við komumst að því meðan við stóðum við, hverjir hefðu verið um borð í þyrlunni og  fengum í stórum dráttum lýsingu á atburðinum. Var okkur þá m.a. sagt að orðið hefði vart bilunar í vélinni áður en slysið varð.“
Þyrluvarðan er reyndar ekki við slysstaðinn sjálfan. Hann er u.þ.b. 600 m norðar. Þar má enn sjá ummerki eftir slysið.

Heimild m.a.:
-Mbl. 4. maí 1965, bls. 1 og 3.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þyrluvarðan

Hringurinn

Stefnan var tekin á Brunnastaðalangholtin í Strandarheiðinni og næsta umhverfi.
GöngusvæðiðRétt ofan við þjóðveginn, ofan Brunnastaðahverfis, er varða sem hlaðin var er þar fannst dáinn piltur sem örmagnaðist í vonskuveðri, heitir Hermannsvarða{Kristmundarvarða}. Skammt þar frá eru Gilhólar og þar eru einnig Lágarnar eða Skjaldakotslágar. Þarna upp í heiðinni er Brunnhóll, þar er hola í klöpp og þrýtur þar aldrei vatn. Þar skammt frá er Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldakotslágum eru þrír hólar, kallast einu nafni Vatnshólar, nokkru ofar er Arnarbæli. Þar var huldufólkskirkja og sást þangað mikil kirkjuferð huldufólks. Þá er Lynghóll og tveir hólar, Klofningar, Klofningur, Neðri- og Klofningur, Efri-. Hringurinn, fjárborg eða -byrgi, einnig nefndur Langholtsbyrgi. Milli Klofninga og Kánabyrgis er jarðfall er nefnist Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, ól þarna barn á leið sinni um heiðina. Styrkir það stoðir undir að alfaraleið hafi fyrrum legið beina leið yfir Strandarheiðina milli Kúagerðis og Skógfellavegar. Freygerðisdalur er nú kominn undir Reykjanesbrautina. Í honum voru hlaðnar tröppur í jarðfallið svo fé kæmist þar upp af eigin rammleik. Á Syðri- og Nyrðri-Fögrubrekkum eru vörður, sú nyrðri stærri og fallegri en sú syðri. Örnefnalýsingar koma heim og saman, en sumar eru nákvæmari en aðrar.

Fögrubrekkuvarðan nyrðri

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaðahverfi má lesa eftirfarandi um miðheiðina: „Áður en lengra verður haldið hér skulum við bregða okkur aftur heim undir Traðarkot, þar upp af vegi eru klapparhólar sem heita Gilhólar og skammt austar ber í Keili frá bæ séð, heitir Skjaldarkotslágar, þar er nú ræktað tún og ofan við Gamlaveg skammt ofan Gilhóla er Brunnhóll, þar var hola niður í hraunklöpp sem sjaldan var þurr. Þar rétt norður af er stekkur, syðst og vestast í lágunum, nefndur Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldarkotslágum heita Vatnshólar. Þessir hólar eru þrír, upp undir gamla vegi. Skammt upp af þeim er grasivaxinn hóll sem heitir Arnarbæli og skammt sunnan hans er stekkur sem heitir Ásláksstaðastekkur.“ SGG segir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (2007) að gróin kvosin, sem stekkurinn stendur í, heiti Kúadalur. „Þar upp í sömu stefnu, heldur til austurs, er Lynghóll.“ Á sléttlendi neðan hólsins eru leifar fjárborgar. „Upp af Arnarbæli, miðja vegu upp að Hrafnagjá austur af Lynghól, eru tveir hólar sem heita Klofningar, eru með viki á milli. Mitt milli þeirra og Kánabyrgis er jarðfall sem nefnt er Freygerðardalur, þar er sagt að kona hafi borið út barn.“
Í örnefnalýsingu fyrir sama svæði segir Gísli Sigurðsson m.a.: „Eftirtalin örnefni er að finna á svæðinu milli þjóðvegarins og Hrafnagjár og verður þá byrjað syðst á landamerkjum. Úr Djúpavogi liggur landamerkjalínan upp sunnan Presthóla í Markavörðuna á Langholti sem einnig er kallað Brunnastaða-Langholt. Varðan er kölluð Langholtsvarða.“

Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða

Langholt er langt og tvískipt og áberandi í heiðinni. Á sitt hvourum enda þess eru vörður, Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvarða og Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða. Syðri varðan er fiskimið frá Gullkistunni undir Vogastapa, en Gullkistan ber örnefnið vegna þess að þar var „mokað“ upp þorski, t.d. á seinni hluta 19. aldar.  Eftir endilöngu holtinu er jarðsímastrengur. „Við Langholt er lægð en nefnist Langholtsdalur og þar er fjárbyrgi, nefnt Langholtsbyrgi eða Hringurinn. Úr Markavörðunni liggur línan í vörðuna Leifur Þórðar sem er á Hrafnagjárbarmi og nokkur hluti Hrafnagjár liggur um Brunnastaðaland.
Í suður frá Grænhól er Lambskinnshóll, á honum stendur SmalaskálavarðaLambskinnshólsvarða. Þar rétt hjá er svo Guðmundarstekkur. Nokkru nær þjóðveginum er borg sem nefnist Lúsaborg og þar rétt hjá er Lúsaborgarvarða. Þá koma Presthólar tveir og nefnast Presthóll, Neðri- og Presthóll, Efri-. Í hólum þessum var mikil huldufólksbyggð. Upp frá Langholti er klapparhryggur sem nefnist Smalaskáli og þar er Smalaskálavarða. Þar austur af eru fagrar, grónar brekkur, kallast Fögrubrekkur. Þá er getið um Kánabyrgi og Kánabyrgishól. Flestir telja að rétta nafnið á þessum stað sé Gangnabyrgi og Gangnabyrgishóll. Á þessum stað komu gangnamenn saman áður en skipað var í leitir að hausti til og þar af mun nafnið dregið, auk þess sem þarna var fjárbyrgi. Frá Halakoti lá stígur upp í heiðina, nefndist Kúastígur, lá upp í svonefnda Kúadali en þar sátu þeir kýr bræðurnir frá Halakoti.

Refagildra

Rétt ofan við þjóðveginn, ofan Brunnastaðahverfis, er varða sem hlaðin var er þar fannst dáinn piltur sem örmagnaðist í vonskuveðri, heitir Hermannsvarða {Kristmundarvarða}.“ Og „Svo bar til, að haustið 1907 eða 1908 var farið í smölun í sveitinni. einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundu Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“ Skv. upplýsingum SGG er Kristmundarvarða ofan Bieringstanga en ekki ofan Brunnastaðahverfis, sbr. lýsinguna. „Skammt þar frá eru Gilhólar og þar eru einnig Lágarnar eða Skjaldakotslágar. Þarna upp í heiðinni er Brunnhóll, þar er hola í klöpp og þrýtur þar aldrei vatn. Þar skammt frá er Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldakotslágum eru þrír hólar, kallast einu nafni Vatnshólar, nokkru ofar er Arnarbæli {ekki í landinu (S.S.)}. Þar var huldufólkskirkja og sást þangað mikil kirkjuferð huldufólks. Þá er Lynghóll og tveir hólar, Klofningar, Klofningur, Neðri- {er í Ásláksstaðalandi} og Klofningur, Efri-{er í Ásláksstaðalandi}.
Milli Klofninga og Kánabyrgis er jarðfall er Lynghólsborgnefnist Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, ól þarna barn á leið sinni um heiðina. Undir Hrafnagjárbarmi liggja Hrafnagjárflatir. Austasti hluti Huldugjár blasir við af Hrafnagjá. En svæðið milli gjánna nefnist Huldur vestast og síðan tekur við Margur brestur. Þá eru Hrútabrekkur, heimundir Hrafnagjá þar sem landamerkjalínan liggur er Inghóll í Inghólslágum.“
Í örnefnalýsingu Sigurjóns Sigurðssonar frá Traðarkoti segir: „Nokkuð fyrir ofan niðurlagða veginn, í suðaustur frá Skjaldarkotslágarhólnum, er klapparhóll með vörðu sem heitir Brunnhóll. Dregur nafn sitt af því að í klöpp rétt sunnan við vörðuna er svolítil hola ofan í klöppina, sem oft stendur í vatn. Í vestsuðvestur af Brunnhól er nokkuð flatlendi, sem heitir Tvívölulágar. Veit ekki af hverju þær draga nafn sitt.
Ofan og sunnan við HringurinnTvívölulágar er stekkur, sem heitir Guðmundarstekkur. Sunnan við stekkinn er langt klapparholt og allhátt, heitir það Stekkholt. Semsagt við norðurenda Stekkholtsins er Neðri-Presthóll og Efri-Presthóll, eru þeir rétt hvor hjá öðrum, liggja frá norðvestri til su[ð]austurs. Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn (opnir) og sést inn í hann (þá) og hafi þá prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari (þúfur eru á báðum hólunum). Í skarðinu milli hólanna og þar suður af sér fyrir vegslóða. Sennilega er það elzti vegur um Suðurnes. Vegur þessi ber nafnið Einingarvegur. Í suðaustur af Presthólum er langt og allhátt klapparholt, sem heitir Brunnastaðarlangholt. Holtið liggur frá norðaustri til suðvesturs. Vörður eru á sitthvorum enda holtsins og heita Nyrðri- og Syðri-Brunnastaðalangholtsvörður. 

Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvarða

Norðaustan við nyrðri vörðuna er dalur (lítil laut). Suðaustan í holtinu í suðaustur frá syðri vörðunni er dalur (lítil laut). Eru þessar lautir kallaðar Nyrðri- og Syðri-Langholtsdalir.
Skammt frá miðju Brunnastaðalangholtinu, í suðaustur, er hringlaga grjótbyrgi, sem heitir Hringurinn. Var það notað fyrir sauðfé (fjárbyrgi). Í suður frá Hringnum er alllangur klapparhryggur, sem liggur frá austri til vesturs. Vestast á honum er klapparhóll, sem heitir Smalaskáli. Á hólnum er varða.
Dagsbirtan

Í austur frá Smalaskála er alllangur klapparhryggur, sem heitir Fögrubrekkur. Á klapparhryggnum eru tvær vörður, Syðri- og Nyrðri-Fögrubrekkuvörður. Suðaustan við klapparhrygginn er dálítið leirflag með rofabörðum hér og hvar, hefir þarna sennilega verið allnokkur grasflöt og máski utan í klapparhryggnum og því hlotið nafnið Fögrubrekkur.
Í austsuðaustur frá Fögrubrekkum er jarðfall, sem heitir Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, á að hafa fætt þarna af sér barn á leið sinni um heiðina.
Í suðaustur frá Freygerðardal er klapparhóll, Kánabyrgi; á hólnum er varða (ekkert byrgi). Nafnið á hólnum gæti eins verið Gangnabyrgi. Alltaf var og er hvílt sig á þessum hól, þá gengið var og er til smölunar úr Brunnastaðahverfi. En allir eldri menn sögðu hólinn heita Kánabyrgi.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. 

Heimildir:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar – 1980.
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
-Örnefnaskrá Sigurjóns Sigurðssona.
-SGG – Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustarndarhreppi – 2007.

Birtan í heiðinni

Grímshóll

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum.

Grímshóll

Stapagata og Grímshóll á Vogastapa.

Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

Jón Árnason I 14

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.