Tag Archive for: Vogar

Vatnsleysa

Gengið var um Keilisnesið og skoðuð refagildra, sem þar er, ein af nokkrum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Þá var haldið til Keflavíkur þar sem Sturlaugur Björnsson fylgdi FERLIR um Hjalla. Gerð var leit að Ásrétt innan Vallargirðingar, en mikil spjöll hafa verið unnin þar á varnasvæðinu og erfitt að sjá hvar réttin gæti hafa verið. Þó mátti giska á hvar bærinn Hjallatún hafi verið. Skoðaðar voru tóttir austan Flugstöðvarinnar og er ein þeirra greinilega gömul fjárborg (Keflavíkurborg).
Skoðuð var gömul rétt sunnan við Bergvötn, brunnur vestan við vötnin og hugsanlega gamlar seltóttir þar nálægt. Mjög gróið er í kringum Bergvötn. Sunnan þeirra lá gamla þjóðleiðin milli Keflavíkur og Leiru.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Í bakaleiðinni var komið við á landmælingavörðu á Stapa, en í henni er gamall koparskjöldur með merki Landmælinga Íslands þar sem segir m.a. að „Röskun varði refsingu“. Þá var komið við í Hrafnagjá og skoðuð áletrunin ofan við Magnúsarsæti (SJ-1888-ME) og loks var ákveðið að líta betur á letursteininn dularfulla við Stóru-Vatnsleysu. Sæmundur bóndi á Stóru-Vatnsleysu hafði beið FERLIR um að gera sér nú þann greiða að ráða letrið áður en hann færi yfir um. Það hefði alltaf verið leyndardómur á bænum og hann og fleiri hefðu lengi reynt að ráða í hvað stæði á steininum.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIRsfarar settu upp húfurnar máttugu og síðan var reynt að ráða gátuna, sem óleyst hefur verið í gegnum aldirnar þrátt fyrir margar tilraunir hinna hæfustu manna. Tvær gamlar sagnir eru til um stein þennan, en aldrei hefur tekist að lesa hvað á honum stendur – þangað til núna. Á steininn er klappað ártalið 1643 og á honum eru stafirnir GI er mætast í keltneskum krossi ofan við I-ið.
Galdurinn við ráðninguna var að lesa steininn „á röngunni“. Hann hefur einhvern tíman oltið um og snýr hann því einkennilega við mönnum þegar reynt er að lesa á hann. En sem sagt – þessi gáta er ráðin. Steinninn er því næst elsti ártalssteininn á Reykjanesi, sem enn er fundinn.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Skammt frá, nær íbúðarhúsinu á Vatnsleysu, var áður kirkja. Á rústum hennar var reist hús, en svo mikill draugagangur var þar að hurðir héldust ekki á hjörum. Það var síðan rifið. Ekki er ólíklegt að steinnin hafi verið grafsteinn eða til minningar um einhvern tiltekinn atburð eða ábúanda/fólk á svæðinu.
Frábært veður.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu.

Spákonuvatn

Genginn var hringur frá Rauðhól í Afstapahrauni, að Oddafelli og inn með því að Driffelli, með Keili og áfram niður að Rauðhól.

Núpshlíðarháls

Á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Keilir fjær.

Margt bar fyrir augu á þessari leið, sem jafnframt er að hluta til mikið notuð af fólki, sem gengur að og frá Keili. Gönguleið þessi er mjög auðveld, einkum með Oddafellinu og frá Keili niður að Rauðhól.

Á leiðinni upp að Rauðhól mátti sjá á hægri hönd, uppi á klapparbrúnunum utan við nýja hraunið, fallega hálffallna fjárborg, nefnd Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála og sá er sagður er hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesi.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Margir hafa gengið á Keili eða ætla sér það. Sumir fara bara til að ganga, en eins og sjá má er margt að skoða þegar gengið er á fjallið, hvort sem farið er frá Oddafelli eða Rauðhól.
Þegar gengið er til vesturs norðan Oddafells, um svonefndan Oddafellsselstíg, er ljóst að þar fyrir innan hafa verið að a.m.k. tvö sel eða sel frá mismunandi tímum. Selin, eða selið, voru frá Minni-Vatnsleysu.
Þau eru greinilega bæði mjög gömul. Gengið er yfir fyrsta stekkinn þegar komið er að vikinu eftir fyrstu hæðina. Sér þaðan inn að Höskuldarvöllum.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Skammt frá stekknum er tótt og síðan annar hlaðinn stekkur á bak við hraunhrygg. Innar sjást vel tvær tóttir, sem nefna má Oddafellssel nyrðra.
Þar við virðist vera gamall brunnur. Fjórir stígar liggja yfir hraunið, sá fyrsti skammt fyrir innan fyrstu tóttirnar. Hann er greinilega nýjastur syðst og mest farinn af fólki, sem gengur á Keili. Ef haldið er áfram inn eftir hraunkantinum eru greinilegar tóttir, sem nefna má Oddafellssel syðra.
Ofan þeirra eru fallega hlaðnar kvíar utan í hraunkantinum og svolítið ofar má sjá tvöfaldan hlaðinn stekk utan í kantinum. Ef farið er upp á hraunbrúnina ofan við fyrstu kvíina má glöggt sjá gamla stíginn í gegnum hraunið. Sá stígur norður yfir hraunið sameinast síðan stígnum, sem liggur yfir það framar og fyrst var komið að.

Keilir

Keilir – stígur frá Oddafelli.

Enn ofar með Oddafellinu má sjá stíg liggja norður yfir hraunið í átt að Keili, en hann virðist vera nýrri en stígurinn frá seljunum og annar stígur, er liggur til norðurs skammt vestar, á móts við vikið áður en komið er að vestasta Oddafellinu, eða Fjallinu eina. Þar fyrir ofan er Hverinn eini. Hann var einn mesti gufuhver landsins um tíma, en nú er þar einungis litskrúðug lægð í hraunið og smá gufustrókur í henni miðri. Við hverinn er smágert hverahrúður í flögum við 4 eða 5 eldri hveraop.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá hvernum má sjá í suðaustri inn í Sogagíg þar sem Sogaselið er, nokkrar tóttir og fallega hlaðinn stekkur utan í norðurhlið gígsins. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Í suðri sér inn á Selsvellina, en suðvestast á völlunum eru ein þrjú sel og tveir hlaðnir stekkir. Skammt úti í hrauninu er enn ein tótt og lítil kví. Á ská á móti á völlunum austanverðum, undir hálsinum, eru þrjár tóttir eldra sels. Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Frá þessum stað er um klukkustunda sérstaklega greiðfær gangur inn eftir völlunum og til baka. Tveir lækir renna eftir völlunum. Einnig er auðvelt að ganga frá þessum stað upp í Sogagýg.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Efsti stígurinn norður yfir hraunið liggur í átt að norðausturhorni Driffells og er hann styttstur stíganna. Að honum gengnum og þegar komið er yfir hraunið er leiðin greið að uppgöngustíg á Keili.
Margir halda að Keilir sé gamalt eldfjall, en svo er ekki. Hann hefur aldrei gosið. Strýtumyndað fjallið varð til við gos undir jökli og er úr móbergi með dólerít-klöppum efst uppi. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans og eru þeir kallaðir Keilisbörn.

Ef gengið er austur eftir stígnum, sem liggur að uppgöngunni að Keili, er komið að vörðu.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Við hana má sjá gamlan stíg, Þórustaðastíg, sem liggur til norðurs niður að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd. Ef honum er fylgt kemur annar stígur inn á hann skammt norðar, Rauðhólsselsstígur. Liggur hann þar til austurs. Við hann er há og mjó varða. Stígurinn er vel greinilegur.
Þegar komið er niður grasbrekkur og að hraunkanti liggur stígurinn norður með kantinum.

Göngufólk á Keili styttir sér stundum leið með því að fara upp á hraunið þegar komið er að sléttri klöpp og ganga síðan áfram þar til austurs sunnan Rauðhóls.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ef hins vegar haldið er haldið áfram niður með hraunkantinum er gengið yfir gamlan stekk utan í sléttri skjólhellu og þaðan liggur leiðin niður að Rauðhólsseli. Það birtist í grashvammi undir hólnum.
Sel þetta var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagan segir að ekki hafi verið vært í selinu eftir sextándu vikur sumar vegna draugagangs. Ekki er að sjá neitt vatnsból við selið, en þar nálægt má vel finna aðalbláberjalyng í þröngum gjám. Í norðanverðum hvamminum er yngsta tóttin og önnur eldri í honum miðjum. Þaðan er hægt að fylgja stígnum áfram til austurs með norðanverðum Rauðhól að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók um 2 og 1/2 klst.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Haldið var Kálfatjörn og farið þar niður í fjöru með fyrrum leturstein (hornstein) úr sjóbúð þar í huga. Ofan við Kálfatjarnarvör hafði verið steinhlaðið sjóbyrgi, sem sjórinn hafði tekið. Í birginu átti að vera ártalssteinn með áletruninni 1677 skv. Ægi, 9. tbl. árg. 1936.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinn/hornsteinn í fjörunni.

Á göngunni kom í ljós „Steinninn“. Hann lá efst í fjörunni og hafði jarðýtu nýlega verið ekið yfir hann. Á steininum stóð áletrað „A° 1674. Hann var ljósmyndaður og birtist frásögn um þann merkilega fund í MBL. Þá var skoðaður ártals- og skósteinn í brú vestan Kálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera ártalið 1776, en á honum er áletrunin A°1790. Loks var skoðaður gamall fallega hlaðinn brunnur norðvestan við kirkjuna.
Frá Kálfatjörn var haldið á Vatnaheiði og síðan farið að Vesturbæ á Þórkötlustöðum.

Heródes

Heródes – álaga- og rúnasteinn.

Vestan við Vesturbæinn er álagasteinn, Heródes, sem þar hefur verið óhreyfður í margar kynslóðir. Á meðan hann fær að vera í friði er íbúunum óhætt.

Þá var haldið vestur fyrir Járngerðarstaði og skoðað fjárskjól við vegkantinn og loks haldið að Klifi þar sem Helgi Gamalíasson tók á móti hópnum. Leiddi hann hópinn um gamla Reykjanesveginn (sem ekki var vitað að væri til) að Básum þar sem leitað var að ævargamalli steinrefagildru. Þjálfað liðið fann gildruna í hraunkanti skammt ofan við ströndina. Um er að ræða einstakar og heillegar minjar.
Frábært veður.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinninn.

Sýrholt

Stefnan var tekin á Sýrholt. Norðvestan í horltinu eru gróðurtorfur og tóftir á þeim.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Um er að ræða a.m.k. tvö sel. Annað er á torfunum norðvestan í Sýrholtinu, tvær tóttir. Í norðnorðvestur frá því er annað sel, tótt í brekku og mjög gamall stekkur á holti. Bæði selin eru greinilega mjög gömul og því ekki að ástæðulausu sem þau eru nefnd Fornusel. Líklega er erfitt að ákvarða frá hvaða bæjum þau hafi verið gerð út. Á milli seljanna er hlaðinn stekkur á hafti í djúpri gjá, grasi gróinni. Svo virðist sem gengið hafi verið talsvert niður í enda gjárinnar og gæti þar vel hafa verið brunnur. Snór gæti hafa verið í henni fram eftir sumri.
Í bakaleiðinni var komið við hjá Tvíburum, tveimur vörðum við Flekkuvíkurselsstíginn. Ágætt veður hlémeginn við vindinn.
Á uppdrættinum hér til vinstri má sjá tóftirnar í holtinu neðst til hægri, stöku tóftina ofan við miðju og síðan stekkinn í gjánni miðsvæðis ofan við miðju. Uppdráttinn má einnig sjá stærri undir Uppdrættir á vefsíðunni.
Gangan tók um klukkustund.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornasel).

Skógfellavegur

Lagt var af stað frá Vogum og genginn 16 km langur Skógfellavegurinn til Grindavíkur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur og Vogavegur (notað af Grindvíkingum). Hluti hans var nefndur Sandakravegur eða Sandakradalsvegur. Skógfellaleiðin lagðist af um 1920 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur. Björn Gunnlaugsson skráði Sanakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfir Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr.
Gengið var framhjá Snorrastaðatjörnum, Nýjaseli, yfir Brandsgjá og að Litla-Skógfelli. Bæði er yfir grófara hraun að fara og gróið, en gatan er greið.

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

Leiðin frá Litla-Skógfelli að Stóra-Skógfelli er tiltölulega slétt helluhraun og er gatan mörkuð djúpu fari langleiðina. Hún er auk þess ágætlega vörðuð. Áður en komið er að fellinu er vörðubrot vinstra megin (en annars eru vörðurnar hægra megin á þessari leið). Vörðu ber við loft á hæð í suðri. Þarna liggur Sandakravegurinn áleiðis yfir að Slögu.
Vestan við Stóra-Skógfell taka Sundhnúkarnir við, en vestan þeirra hallar undan að Hópsheiði og áfram niður í Grindavík.
Veður var frábært, sól og hiti, svo og útsýni á leiðinni. Gangan tók nákvæmlega 4 klst.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Lynghólsborg

Farið var að Pétursborg og skoðað Hólssel, sem er u.þ.b. 1 km norðaustan hennar.

Pétursborg

Pétursborg

Pétursborg stendur á Huldugjárbarmi, heilleg og falleg aðkomu. Sunnan undir borginni eru fjárhústóftir. Frá Pétursborg er fallegt útsýni yfir heiðina að Hrafnagjá, Snorrastaðatjarnir og Háabjalla. Svæðið myndaðist á svipaðan hátt og Þingvellir, misgengi þar sem miðjan sígur á sprungurein og gliðnar um u.þ.b. 2 cm að jafnaði á ári.
Erfitt getur verið að finna Hólssel, en það er ofan gjárinnar í u.þ.b. kílómeters fjarlægð, sem fyrr sagði. Um er að ræða þrjá hraunhóla og í klofi eins þeirra eru hleðslur. Þá eru og hleðslur suðvestan undir hólnum.

Lynghólsborg

Lynghólsborg.

Nokkrar tóftir er umhveris hólinn sem og  í sprungunni, sem er vel gróin. Hins vegar er allnokkur landeyðing í kringum hólana.
Gengið var niður heiðina og komið var við í meintu Þóruseli, sem einnig er í háum grónum hraunhól. Í honum mótar fyrir tóftum.
Frá selinu var gengið ákveðið áfram norður heiðina að Lynghól. Undir honum er nokkuð stór fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg), vel gróin, en til suðurs frá henni liggur hlaðinn leiðigarður. Neðan við borgina er nokkur jarðvegseyðing.
Veður var frábært, lyngt og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Flekkuvíkursel

Skoðað var Flekkuvíkurselið.

Flekkuvíkursel

Stekkur í Flekkuvíkurseli.

Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.
Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.“

Bræður

Bræður – vörður við stíginn í Flekkuvíkursel.

Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.

Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2. mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Gvendarborg

Gengið var að Gvendarborg, um Þráinsskjaldarhraun að Rauðhólsseli.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Spurnir höfðu borist af tóftum í lítilli dalkvos nokkru suðvestan borgarinnar. Ekki er að sjá að þær hafi verið skráðar eða ljóst hvaða tilgangi þær hafi þjónað. Um er að ræða land frá Vatnsleysu svo líklegt má telja að þessi selstöð hafi tilheyrt þeim bæ. Nefndum hana Kolhólasel.
Eftir nokkra göngu fram og aftur um svæðið fundust minjarnar norðvestan undir hæðardragi. Gróið er undir hæðinni. Þrjár tóftir eru nokkuð þétt saman og enn ein skammt vestar. Hún gæti hafa verið stekkur, en hinar hús.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er ósennilegt að þarna hafi verið sel fyrrum, en það fallið í gleymsku. Þannig hefði og orðið um mörg hin selin í heiðinni ef ekki hafi komið til áhugi og dugnaður örfárra heimamanna við að leita uppi og varðveita staðsetningu þeirra.
Haldið var upp heiðina austan Þórustaðastígs með stefnu í Rauðhólssel. Það er frekar lítið sel frá Vatnsleysu. Í Jarðabókinni 1703 er þess getið að oft hafi ekki verið vært í því vegna draugagangs. Líklegt er einnig að vatnsskortur hafi háð búskapnum þarna í þurrkum.
Gengið var til baka um Rauðhólsselsstíg, norður með vestanverðum hraunkanti Afstapahrauns.
Bakaleiðin var og nýtt til berja, enda af nógu að taka.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Stapagata

Gengið var um Reiðskarð, gömlu Stapagötuna, sem er sérstaklega falleg á þessum kafla, og með Vogastapanum að Brekku. Þar eru fallegar hleðslur frá tíð gamla bæjarins og hlaðinn brunnur.

Stapi

Brekka undir Stapa.

Þaðan var gengið yfir að Stapabúð. Segja má að lítið þurfi annað en refta gömlu tóftirnar til að koma þeim í gagnið aftur. Utar er Hólmurinn. Enn má sjá minjar saltfiskverkunarinnar á honum, grunna og steinlagðar tröppur timburhúsa, gerði og garða. Utan í eiði sunnan við Hólmann lúrir gamall innrásarprammi.
Skoðaður var gamli brunnurinn norðan við Stapabúð sem og fjárhúsið. Hvönn og starir vaxa utangarðs og skammt undan landi syndir selur. Hvað er friðsælla en að setjast þarna niður um stund og virða fyrir sér haflífið og fagurt umhverfið.

Kerlingarbúðir

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Gengið var að Kerlingabúð, sem eru með elstu minjum á Suðurnesjum, en eitt húsanna hafði verið byggt þar utan í stóran klett ofan við fjöruborðið. Sjórinn hefur smám saman verið að brjóta undir sig minjarnar.
Svæði þetta er bæði stórbrotið og sagnaríkt af mannlífsverkum. Lokst var gengið um Brekkuskarðið upp á Stapann og spölkorn eftir gömlu Stapagötunni áleiðis að Grímshól, niður á gamla Keflavíkurveginn og eftir honum að upphafsstað. Í leiðinni var kíkt á leifarnar af herspítalanum, sem þarna var undir sunnanverðum Stapanum fram yfir stríðsárin.
Veður var með ágætum. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Stapinn

Stapabúð.