Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni, öðru nafni Kristrúnarborg, skammt sunnan við Reykjanesbraut ofan við Lónakot, og inn á Alfararleið. Landamerki Óttarsstaða og Lónakots eru þarna skammt vestar. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.
Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því var um tíma útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið). Í sprungu suðvestan í Smalaskálahæð var komið fyrir líki konu árið 2006 eftir að hún hafði verið myrt með hryllilegum hætti í íbúð í Reykjavík. Gerandinn flutti líkið á jeppabifreið suður í hraunið, komst í skjól fyrir annarri umferð og setti líkið ofan í sprunguna. Það fannst þar allnokkrum dögum síðar eftir að gerandinn hafði bent á staðinn. Á svipuðum slóðum var á sínum tíma leiða að líki manns, sem hvarf um 1976, en hefur enn ekki fundist. Talið var að manninum hefði verið komið fyrir í hrauninu. Ekki eru mörg misseri síðan morðingi kom fórnarlambi sínu fyrir í Arnarseturshrauni, en benti síðar á staðinn. Ljóst er af þessu að hraunin geta geymt marga „afleiðingu“ fyrri tíma.
Annars er hraunið þarna hluti Hrútargjádyngjuhrauns, sem rann fyrir 4500-5000 árum síðan. Allt, sem þá lifði, er löngu dautt. Nú skreytir hraunin bláberja- og krækiberjalyng, beitilyng, víðir, birki og fjalldrapi, auk margra annarra flórutegunda.
Frá fjárborginni er auðvelt að komast inn á Lónakotsselsstíginn skammt sunnar. Einnig Óttarsstaðaselsstíginn skammt norðar. Nóg er að ganga spölkorn til austurs og er þá komið inn á Alfaraleiðina, hina fornu þjóðleið millu Innesja og Útnesja. Draugadalir eru þar skammt norðar. Að þessu sinni var götunni fylgt til norðurs, að Draugadölum, enda ætlunin að fylgja Óttarsstaðasselstígnum áleiðis upp í selið, allt að Meitlum, en þar vestan við voru gatnamót stígsins og Skógargötunnar. Aðaltilgangur ferðarinnar var athuga hvort Skógargatan gæti hafa verið stök sem slík og þá legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, án þess þó að hafa verið hluti af honum, með áframhaldandi aðkomu niður á Straumsselsstíginn vestari. Jafnan hefur verið talað um Óttarsstaðaselsstíg, Skógargötu og Rauðamesstíg í einu orði. Í ljós átti hins vegar eftir að koma að um þrjá aðgreinda stíga hefur verið að ræða. Þannig virðist Skógargatan hafa legið þvert á Óttarsstaðaselsstíginn, sem lá upp með Smalaskálahæð og kom inn á Rauðamelsstíg neðan við Bekkina. Sá síðastnefndi lá þaðan áleiðis niður að Óttarsstöðum, þvert yfir Alfaraleiðina ofan við Brúnirnar og norðan við Rauðamel, stystu leið heim að Hraunabæjunum.
Eftir að hafa gengið Óttarsstaðaselsstíginn upp að Bekkjunum var ákveðið að kíkja í Bekkjaskjólið, mikla fyrirhleðslu fyrir skúta ofan við hálfopið jarðfall. Aðkoman að skjólinu er sérstök; um hraunklofa. Ofan og norðan í Bekkjunum er torfærarar hraun og nýrra, Afstapahraunið eldra. Um er að ræða tiltölulega mjóa hraunræmu á þessu svæði og því auðvelt yfirferðar – ef stígnum er fylgt í gegnum það.
Þegar komið var upp undir Meitlana sáust tvær fallnar vörður sunnan við götuna. Sunnan í þeim er fjárskjól, Meitlaskjól (Norðurskúti).
Þarna neðan við Meitlana, sunnan við Óttarsstaðasels-stíginn, eru tvær vörður. Liggur stígurinn til suðsuðvesturs upp landið og er varðaður áfram, a.m.k. upp í Skógarnef. Þarna er kominn svonefnd Skógargata (eða Skógarnefsgata), en Óttarsstaðaselsstígur hefur, sem fyrr sagði, stundum verið nefndur Skógargata og einnig Rauðamelsstígur.
Ætlunin var sem sagt að skoða hvort Skógargatan gæti hafa verið sjálfstæð eining í fornu gatnakerfi Almennings, eða hluti af öðrum götum. FERLIR hafði áður (oftar en eini sinni) fylgt Skógargötunni bæði upp og niður úr Skógarnefi. Þótt gatan sé ekki vel greinileg er hún vel vörðuð svo auðvelt er að fylgja henni á þeim kafla. Þegar staðið var við gatnamótin var ljóst að ekkert væri auðveldara en að fylgja henni áfram til norðurs, þvert á Óttarsstaðaselsstíginn. Eldra Afstapahraunið (4000-4500 ára gamalt) er vestar, en ofan (austan) þess er hraunið vel gróið og greiðfært. Skógargatan hefur fylgt Óttarsstaðaselsstígnum spölkorn til vesturs, en síðan tekið stefnuna yfir á Straumsselsstíginn vestari. Vörðubrot er á hraunhól skammt norðan gatnamótanna. Frá honum er haldið niður í enn grónara hraun og síðan gróningum fylgt áfram aflíðandi til norðurs, líkt og að ofanverðu. Tiltölulega stutt er yfir á Straumsselsstíginn. Þar, undir hraunbrúninni, er vörðubrot. Komið er inn á stíginn þar sem hann liðast upp á Eldra Afstapahraunið og þar eftir sléttu hrauni. Aðkoman inn á Óttarsstaðasels-stíginn er mjög svipuð, nema hvað ekki var hægt að greina tvö vörðubrot á seinni staðnum, einungis eitt.
Grunur leitendanna reyndist réttur. Skógargatan hefur verið notuð hvort sem er af þeim er fóru um Óttarsstaðaselsstíg eða Straumsselsstíg vestari – eins sjálfsagt og það gat verið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.