Tag Archive for: Vogar

Vogar

Í bókinni „Strönd og Vogar“ fjallar  Árni Óla m.a. um „Karlshól“ í Vogum. Hóllinn er nú horfinn þrátt fyrir að hafa verið talinn álagablettur fyrrum:

Vogar

Karlshóll – loftmynd 1999 t.v..

„Karlshóll heitir í túninu á Norðurkoti í Vogum. Þetta er hraunhóll, en mjög gróinn og er talið, að þar muni vera bústaður huldufólks. Þau álög hvíla á hólnum, að hann má ekki slá, og hafa menn forðazt það. Ekki er vitað hvað við liggur, ef hóllinn er sleginn. En komið hefir það fyrir, hvað eftir annað, ef slegið var hærra í hólinn en vant var, að einhver ótjálga kom í kýrnar í Norðurkoti eða þá að þeim hlekktist eitthvað á.
Hefir það skeð í minnum þeirra manna, er enn em á lífi. En mörg ár em nú síðan svo hátt hefir verið slegið í hólinn, að það hafi getað valdið óhappi.“

Í Dagblaðinu-Vísi árið 2006 er fjallað um „Álfavandræði í Vogum“:

Vogar

Vogar – heimili eldri borgara 2020.

„Sveitarstjórn Voga á Vatnsleysuströnd leitaði nýlega til Erlu Stefánsdóttur álfasérfræðings og bað hana að koma og leysa vandamál í tengslum við byggingu fyrir eldri borgara. Á byggingarreit við Vogagerði, þar sem Búmenn ætla að reisa svokallað Stórheimili fyrir eldri borgara, stendur álfhóll. Sveitarstjórninni var umhugað um að styggja ekki álfana vegna framkvæmdanna við byggingu hússins og því var Erla fengin til að ræða við álfana og bjarga málinu.

Erla Stefánsdóttir

Erla Stefánsdóttir.

„Það er ekkert merkilegt við þetta,“ segir Erla. „Ég er oft fengin til að leysa svipuð vandamál víða um land.“ Að sögn Erlu fór hún einfaldlega með þuluna gömlu úr þjóðsögunum: „Fari þeir sem fara vilja og veri þeir sem vera vilja mér og mínum að meinalausu…“ Auk þess að biðja bæn.
Aðspurð um hvort hún hafi séð álfa á þessum umrædda bletti segir Erla svo vera og að þeir séu í raun lítt frábrugðnir fólki. Og klæðnaður þeirra hefur einnig fylgt tíðarandanum, margir þeirra hafi skipt vaðmálsbuxum út fyrir gallabuxur svo dæmi sé tekið.
Á vefsíðu sveitárfélagsins er greint frá þessu máli og undanfara þess en nokkrir íbúar sveitarfélagsins lýstu yfir áhyggjum sínum vegna röskunar á þessum forna álagabletti sem varðveittur hefur verið í margar kynslóðir. „Allt fram til dagsins í dag hafa verið til óskrifaðar reglur um það að háreisti barna og hvers konar rask sé ekki viðhaft á hólnum. Til eru sögur sem segja frá samskiptum íbúa hólsins við aðra Vogabúa, aðallega þó um hrakfarir þeirra síðarnefndu eftir að hafa átt við hólinn. Fleiri álagabletti er að finna í sveitarfélaginu Vogum og er Karlshóll sem stendur við Hafnargötu gott dæmi um farsælt sambýli álfa og manna,“ segir meðal annars á vefsíðunni.
Róbert RagnarssonÁ fundi skipulags- og byggingarnefndar í vor var ákveðið að kalla á Erlu til að ræða við íbúa hólsins um þær miklu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum. Á kvenréttindadaginn, þann 19. júní, kom Erla og ræddi við íbúana. „Álfarnir fullvissuðu Erlu um að þeir væru sáttir við það að á þessum stað yrði reist Stórheimili þar sem eldri borgarar í Sveitarfélaginu Vogum geta átt notalegt heimili með glæsilegu útsýni yfir Faxaflóann. Hólsins verður eflaust saknað en álfarnir hafa nú fundið sér annan samastað, en vildu ekki gefa hann upp.“ Segir á vefsíðunni.
Róbert Ragnarsson sveitarstjóri í Vogum segir að Erla hafi verið kölluð til sem sérfræðingur og að hún hafi fengið greitt í samræmi við það.
„Þetta var þó ekki há upphæð,“ segir Róbert. „Raunar ein hagstæðasta ráðgjöf sem við höfum keypt.““

Heimildir:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961, bls. 268.
-Dagblaðið-Vísir, 106. tbl. 30.06.2006, Álfavandræði í Vogum, bls. 70.

Vogar

Vogar – loftmynd frá 1954 sett yfir loftmynd frá 2020.

Borgarkot

Borgarkot eru tóftir býlis austan Bakka og Litlabæjar, skammt austan Kálfatjarnar. Talið er að Borgarkot hafi tilheyrt Viðeyjarklaustri um tíma, eins og svo margar jarðir aðrar á norðanverðum Reykjanesskaganum. Þá mun Krýsuvík um sinn hafa haft þar stórgripi í skiptum fyrir afnot af landi innar á skaganum.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

Að þessu sinni var ætlunin að fylgja svonefndri stórgripagirðingu til austurs eftir móunum frá hlöðnum görðum ofan við Litlabæ. Girðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar.
Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða borðuð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá einhverjum, sem kann skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu.
HÉR má sjá viðbótarfróðleik um girðinguna.

Borgarkot

Borgarkot – steingirðing.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans. Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Fjaran er margbrotin og í henni margt að sjá. Á kafla er t.a.m. um fallega skeljaföru að ræða.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ofan við Borgarkot má sjá hlaðnar refagildrur, vatnsstæði og hlaðin gerði. Minkurinn hefur víða komið sér vel fyrir. T.a.m. mátti að þessu sinni sjá hann leggjast á sund frá fjöruborðinu áleiðis út í sker skammt utar þar sem fugl sat og átti sér einkis ills von. Sundhraði minksins var órtúlegur. Slóðir hans í grasinu voru augljósar sem og holur hans.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Gengið var um Kálfatjörn frá kirkjunni, brunnurinn skoðaður sem og sjóbúð og tjörnin sjálf. Skoðaðar voru minjar með ströndinni til vesturs, komið við í tóftum Goðhóls og fiskbyrgjunum neðan við Þórustaði og síðan haldið út með einni fegurstu sandströnd á norðanverðum Reykjanesskaganum, neðan Þórustaða og Landakots. Þá var stefnan tekin á Norðurkot, en tilfærsla þess kl. 16.00 þetta síðdegi var einmitt tilefni göngunnar. FERLIR hafði lofað góðu gönguveðri og einnig að í ferðinni myndu þátttakendur sjá aldargömlu húsi lyft af grunni sínum og það fært um set. Auðvitað trúði enginn þeirri lýsingu sem fyrri daginn – og því varð staðreyndin áhrifaríkari en ella.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Tilgangurinn með ferðinni var einnig að reyna að berja lóuna, vorboðann ljúfa, augum, en fréttir höfðu einmitt borist fyrr um daginn af ferðum hennar við Höfn í Hornafirði, tveimur dögum fyrr en venjulega. Það gefur von um gott vor.
Skoðaður var brunnurinn frá Kálfatjörn, en oft reynist erfitt að finna hann þegar líða tekur á sumarið vegna njóla og annars þróargróðurs. Ágætt kennileiti er þó eftir götu eða lögstum garði að honum út frá Víti til vesturs. Þar liggur gata vestan slóða niður að Kálfatjörninni sjálfri. Ef garðinum/götunni er fylgt að enda birtist brunnlokið. Tilraun var gerð til að finna brunninn síðsumars árið áður, en án árangurs. Þarna var hann hins vegar án þess að nokkuð skyggði á tilvist hans.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Gengið var með syðri hluta Rásarinnar að tóft sjóbúðar sunnan Kálfatjarnar, hún skoðuð, og síðan haldið niður að skiparéttinni ofan við sjávarmál. Þar eru og hleðslur gamallar sjóbúðar, sem ártalssteinn 17. aldar fannst hjá fáum misserum fyrr. Steinn sá er nú við safnaðarheimiðið norðan kirkjunnar. Kunnugir segja, en vilja ekki staðfesta skriflega, að þegar grunnur safnaðarheimilisins hafi verið gerður, hafi komið upp ýmsir steinar sem og reglulegar hleðslur, en þá hafi blinda augað komið sér vel hjá nærstöddum, enda kirkjugarðurinn og gamlar minjar eigi alllangt undan.
Rifjuð var upp sögnin af sækúnum í Kálfatjörn. Með tóftir hinnar gömlu hæðbúnu sjóbúðar að baki og kirkjuna í bakgrunni var ekki komist hjá upprifjun sjósókna fyrri alda sem og aðbúnaðar vermanna á þeim tímum. Rifjuðu var upp ferð um svæðið á liðnu ári með Ólafi Erlendssyni á Kálfatjörn, en þá lýsti hann vel og vandlega kotunum norðan og austan við kirkjuna.

KálfatjörnÁ Kálfatjörn var bær, kirkjustaður og prestsetur. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Sögu hennar og umhverfi hefur verið gerð góð skil í annarri FERLIRslýsingu.
Skoðaðar voru minjar Goðhólls, bæði gamla bæjarins og útihúsa auk garða, sem þar eru. Skammt norðvestar eru gamlar mógrafir frá Kálfatjörn. Hlið er sunnar og Tíðargerði vestan þess. Hvorutveggja eru gömul kot vestan við Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn í gömlu sjóhúsi.

En gömul kot geta orðið að gersemi sem og svo margt annað. Ekki er langt um liðið síðan sjá mátti síðanefnda kotið auglýst til sölu ásamt Norðurkoti, sem er þarna skammt vestar, á 40 milljónir króna. Stórhuga menn hafa haft áhuga á landinu, m.a. með fyrirhugaða sumarhúsabyggð og þróun golfvallarins að augnamiði. Staðreyndin er sú, hvað sem líður landkostum, að óvíða er fagurrra útsýni en á þessari, að því er virðist, flatneskjulegu strönd. Útsýnið er síbreytilegt og bæði ströndin og heiðin skammt undan eru tiltæk til uppbyggjandi gönguferða.
Lóan lét sjá sig, en erfiðara reyndist að ná mynd af henni. Það heyrðist hins vegar ágætlega í henni. Smánafna hennar, sandlóan, var hins vegar róleg þar sem hún stóð í hópum á skerjum, og leyfði góðfúslegar myndatökur. Lómur syndi utar og úmaði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær. Norðurkot lengst t.v.

Nú er Norðurkotið stekkur. Norðurkotið á Vatnsleysuströnd var flutt um set, í sólskinsblíðu, stafalogni og 12° hita. Húsið, sem að sögn var byggt árið 1903 sem skólahús, var híft á dráttarvagn og síðan ekið yfir að Kálfatjörn þar sem því verður ætlaður staður til frambúðar á fyrirhuguðum safnareit. Keilir lék baksviðs meðan á flutningnum stóð, en sólin umvafði þetta gamla hús geislum sínum er það notaði tækifærið og snéri sér í hring hangandi í kranavírunum. Andar genginna kynslóða fylgdust með. Fjórir svanir flugu yfir í fagurri fylkingu, snéru við og komu til baka, líkt og til að leggja áherslu á samþykkið að handan. Rifjað var upp minnistætt flug svananna 12 framan við áhorfendur á krirstnitökuhátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Þeir snéru einmitt við, líkt og þessir, og endurtóku flugið fyrir áhorfendur. Fæstir skyldu þó tilganginn, en aðrir, sem bæði vita og skilja, gerðu sér grein fyrir honum. Aldur Norðurkots er ekki fullviss af nákvæmni. Það gæti verið eitthvað eldra en frá 1903. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn segir t.d. að faðir hans, Erlendur Magnússon hafi gengið þar í skóla árið 1904 og að húsið gæti verið frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Það var Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps, sem lét flytja húsið með dyggri aðstoð verktaka. Það hrikti í vírum hífikranans við lyftinguna, en húsið hvorki æmti né skræmti þótt aldrað væri. Stoðir þess eru greinilega enn styrkar – og höfðu verið styrktar enn um betur að innanverðu af vönum verkmönnum.
Norðurkot var notað sem skólahús fram til 1910 eða ’11. Kennarahjón bjuggu þá á loftinu, en skólastofan var á jarðhæð. Hlaðinn kjallari var undir húsinu. Síðast mun húsið hafa verið notað til reglulegar íbúðar árið 1935.
Í húsinu voru fyrir merkar heimildir um skólahaldið, s.s. kennslubækur, ritgerðir og einkunnir einstakra nemenda. Þá hafði verið safnað í það ýmsum munum úr sveitinni, s.s. reiðtygum, veiðarfærum, handverkfærum o.fl. Eflaust mun eitthvað af því nýtast fróðleiksfúsum í framtíðinni. Afkomendur Erlendar Magnússonar frá Kálfatjörn gáfu Minjafélaginu húsið.
Uppgert Norðurkotið mun án efa setja svip sinn á hinn nýja safnareit við Kálfatjarnarkirkju í framtíðinni.
Til baka var gengið eftir gömlu kirkjugötunni að Kálfatjörn. Gatan hefur verið jöfnuð þar sem fyrir er golfvöllurinn nýmóðis, en kylfingarnir kunnu sig. Þeir lutu í lotningu fyrir göngufólkinu, sem gekk líkt og kirkjugestir vestan af Ströndinni forðum, áleiðis að Kálfatjarnarkirkju.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Ofar, við gömlu götuna vestur á Strönd, mátti sjá klöpp huldukonunnar, sem getið er í þjóðsögu og á að hafa gerts þar árið 1892. Heimasætan, nýfermd, dreymdi að hún væri stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: „Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp“, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Stúlkan bauð huldukonunni að þiggja hring ömmu hennar, sem ég er með á hendinni. Huldukonan baðst undan svo góðri gjöf en bað um flauelspjötlur, sem stúlkan hafði. „Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær“, sagði huldukonan. „Ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja“, bætti hún við. Var svo draumurinn ekki lengri.
Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.
Þarna eru sögur til um hvern hól og sérhverja tóft.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11. mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Staðarborg

„Á manntalsþingi Vatnsleysustrandarhrepps 1961 var þinglesin eftirfarandi friðlýsing: – Í landi jarðarinnar Kálfatjarnar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, eru samkvæmt lögum um verndun fornminja, dags. 16. nóv. 1907, skrásettar og friðaðar fornminjar þessar:

Staðarborg

Fjárborg, sem kölluð er Staðarborg í Vatnsleysustrandar-heiði, 2 – 3 km frá bænum að Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju [eyktamörk á Kálfatjörn: Sól yfir Dyngjum kl. 9, yfir Keili kl. 10 og yfir innri enda Fagradalsfjalls kl. 12]. Þetta kunngerist eigöndum og ábúöndum greindra jarðar nú og eftirleiðis. Ber eiganda að varðveita friðlýsingarskjal þetta og sjá um að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.- [Hafa ber í huga að enginn ábúandi er lengur á Kálfatjörn svo ábyrgð laganna hefur væntanlega flust yfir á kirkjuhaldarann eða golfvallahaldarann, sem svo mjög sóttist eftir landinu til afnota].
Einn góðviðrisdag í sumar fór ég að skoða borg þessa og fékk Erlend bónda á Kálfatjörn til þess að fylgja mér þangað. Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni að þar hefir handlaginn maður verið að  verki. Borgin er hringlaga og eru veggirnir eingöngu hlaðnir úr grjóti, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en tylt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþyktin neðst er um 1 ½ metri, en 1 metri efst. Þvermál að innan er um 8 metra, ummál hringsins að innan um 23 metra, en 35 metra að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og Staðarborgbyggingar-meistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land. Segir í Íslenskum þjóðháttum að fram á 19. öld hafi það víða verið siður á Suðurlandi, að ekki voru til hús yfir sauði, önnur en jötunlausar fjárborgir. Borgir þessar voru venjulega kringlótt byrgi, hlaðin í topp og gátu verið 6 álna háar eða meira. Stundum var þó reft yfir þær og voru veggir þá ekki nema svo sem 2 álna háir. Dyr voru svo lágar, að fé var aðeins gegnt um þær, og engin hurð fyrir þeim. Inn í þessar borgir var fénu ætlað að hörfa í hríðum og ilviðrum, og stóðu þær því oft langt frá bæjum.
Þessi borg var öðru vísi, nema hvað hún er hringlaga. Hún er svo miklu stærri en aðrar fjárborgir, að henni svipar helst til hrossaborganna, sem fyrrum voru í Eyjafirði og Skagafirði. Dyrnar voru þó upphaflega svo lágar og þröngvar, aðeins 1 metri á hæð, að af því sést að þetta hefir verið sauðfjárborg en ekki hrossaborg. Einu sinni hafði þó tryppi [aðrir segja kálf] skriðið þar inn með einhverjum hætti, en komst ekki út sjálfkrafa og mönnum tókst ekki heldur að koma því út fyrr en dyrnar voru hækkaðar og ná þær nú upp úr tóftinni. En tveir stóri steinar, sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar, eru þar enn til sýnis, annar fyrir utan tóftina, en hinn við liggur á Staðarborgtveimur steinum innst við vegg inni í tóftinni og er þar eins og setubekkur.
Hleðslan að innan er mjög vandvirknislega af hendi leyst. Hafa verið valdir í hana aflangir steinar, með sléttum fleti á endanum, sem snúa inn í borgina. Víða eru smásteinar eða steinflísar hafðar til að skorða steina og yfirleitt er hleðslan slétt og holulítil. Ytri hleðslan er með nokkuð öðrum hætti. Þar hefir sýnilega verið kappkostað að binda hleðsluna sem bezt, þannig að hver steinn styddi annan. Þessi hleðsla er því ekki jafn slétt og hin. Stærst er grjótið neðst og skagar undirstaðan sums staðar nokkuð út úr veggnum og virðist svo sem hleðslumaður hafi ekki gætt nákvæmlega hringlögunarinnar þegar hann lagði undirstöðuna, en rétt það af á næsta hleðslulagi.
Enginn veit nú hve gömul þessi borg er og það mun sennilega reynast erfitt að kveða nokkuð á um aldur hennar. Sjálf veitir hún litlar upplýsingar um það, því að ekki hefir byggingameistarinn haft fyrir því að klappa ártal á stein til minningar um það hvenær hún var hlaðin, nema ef vera skyldi að hann hefði klappað það á klöppina inni í borginni. Hafi svo verið þá sést nú ekki fyrir því, vegna þess að taðskán þekur alla klöppina og hefðir fyllt upp allar ójöfnur, svo að gólfið er eggslétt. Er það nú allt grasi gróið og er mjög vistlegt þarna inni, enda er sagt, að þegar Stefán Thorarnesen var prestur á Kálfatjörn, þá hafi hann stundum farið með fólk sitt á sunnudögum upp í borgina og veitt því þar súkkulaði. Af því má ætla að þá hafi fyrir nokkru verið hætt að hýsa fé í borginni, þvía ð tæplega hefði presti þótt þar aðlaðandi ef ber taðskán hefði verið að sitja á. Gólfið hefir verið gróið. Inni í borginni er skjól fyrir öllum áttum og Staðarborgþað hefir ekki verið amalegt að liggja þar í grænu grasinu og njóta sólarylsins, eða fara í leiki. Hefir þá sjálfsagt oft verið glatt á hjalla þarna.
Sumir munu nú ef til vill segja að einhverjar upplýsingar um aldur borgarinnar mætti fá með því að rannsaka hve þykk taðskánin er þar inni. En það er afar hæpið, enda þótt hægt væri að grafa upp hvenær hætt var að nota borgina. Menn vita ekert um hve margt fé hefir verið þarna að staðaldri á vetrum, og svo eru miklar líkur til að þarna sé ekki öll sú taðskán, sem safnast hefir í borginni. Það er einmitt mjög líklegt að stungið hafi verið út úr henni hvað eftir annað. Vatnsleysustrandarbúar hafa frá ómunatíð verið í hraki með eldivið, og því er líklegt að prestarnir á Kálfatjörn hafi notað sér það tað, sem safnaðist í borgina.
En annað aldurseinkenni væri ef til vill tryggara. Það er mosinn og skófirnar, sem sezt hafa utan á steinana í hleðslunni. Nú veit ég ekki hvort hægt er að ákveða um aldur skófa, með því að rannssaka þær, en leystar hafa þó verið ýmsar gátur, er ekki sýndust auðráðnari.
Stærð borgarinnar gefur nokkra vísbendingu um að hún sé gömul. Borgin er á landi Kálfatjarnar og heitir Staðarborg, kennd við kirkjustaðinn. Hún er reist handa fé prestins á Kálfatjörn. Fyrir ofan hana er lægð í heiðina og nefnist Lágar. Þar hefir alla jafna verið bezta beitilandið, síðan sögur fara af. Hún er því sýnilega reist í þeim tilgangi, að útigangsfé prestins gæti leitað þar skjóls, eða verið rekið þar inn á kvödlin. En þá sést líka, að sá sem bjó á Kálfatjörn um þær mundir, hefir verið vel fjáreigandi og átt margt útigöngufé, því að hægt mun að koma á annað hundrað fjár inn í borgina. Stærð borgarinar hefir auðvitað verið miðuð við það, hve margt fé þurfti að hýsa í henni. Menn voru ekki að byggja stærri skýli fyrir fé sitt en þeir þurft nauðsynlega.
StaðarstekkurUm 1700 var sá prestur að Kálfatjörn er Oddur Árnason hét. Sauðfjáreign hans var þessi (samkvæmt Jarðabokinni): 14 ær, 4 sauðir tvævetrir, 7 sauðir veturgamlir, 2 hrútar og 6 lömb. Ekki hefir hann þurft á hinni stóru fjárborg að halda.
Skúli Magnússon segir frá því, að á árunum 1750-1766 hafi verið mikill hugur í mönnum að auka sauðfjáreign sína og hafi tala ær og sauða í allri Kálfatjarnarsókn þá komist upp í 1200. Skiftist þessi fjáreign á 18 jarðir og verða þá 66 kindur að meðaltali á jörð. Árið 1703 voru til jafnaðar 30 kindur á hverri jörð og hefir þá ekki verið meðal fjárbú hjá prestinum að Kálfatjörn. En hann hafði þá þó fram yfir aðra, að hann átti beitiland í Keilisnesi og þar gekk fé sjálfala allan veturinn.
Árið 1756 lét Friðrik V. konungur stofna kynbótabú sauðfjár að Elliðavatni og voru sendir þangað hrútar af ensku kyni bæði frá Noregi og Svíþjóð. Gekk sú tilraun vel. En árið 1761 voru fluttir þangað hrútar frá Holtsetalandi og með þeim barst fjárkláðinn hingað og breiddist óðfluga út. Árið 1778 var allt fé í Gullbringu- og Kjósarsýslu skorið niður vegna kláðans. Menn reyndu þó að koma sér upp fjárstofni aftur, en þremur árum seinna (1781) voru þó ekki nema 180 ær og sauðir í allri Kálfatjarnarsókn. Síðan hefir enginn prestur að Kálfatjörn átt svo margt fé, að hann hefði þurft að láta hlaða hina stóru borg, enda eru til munnmæli um það frá því um 1800 hvernig borgin hefði verið gerð.
PrestsvarðaÞessi munnmæli segja að maður sem Guðmundur hét hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjanarprest. Dró hann grjót víða að, enda eru þarna víða krosssprungnar klappir, þar sem gott var að fá hleðslusteina. Guðmundur byrjaði á því að raða grjótinu í langar raðir á holtið, þar sem borgin stendur og valdi svo úr þá steina, sem honum líkaði bezt að hafa í vegginn á hverjum stað. Er þetta til sannindamerkis um það hve vandvirkur og verkhygginn hann hefir verið, enda ber borgin þess vitni enn í dag. Guðmundur ætlaði að hlaða borgina upp í topp og var byrjaður á því að láta innvegginn hlaðast á sig. En prestur komst að þessu og harðbannaði honum það. Mun presti hafa litist það allt of mikið verk að hlaða þessa stóru borg upp í topp, enda hefði hún hlotið að verða geisihá með því móti og miklu tilkomumeira hús en sjálf kirkjan að Kálfatjörn. Guðmundur reiddist þessu svo að hann hljóp frá verkinu þar sem hann var kominn og fór frá presti.
Af þessu, sem nú hefir verið sagt, má sjá að mestar líkur benda til þess að leita verið nokkuð aftur í aldir ef ákveða skal aldur borgarinnar. Það verður að byrja á því að leita að þeim presti, er var svo fjármargur, að hann þurfti á svona stórri fjárborg að halda. Sá prestur hefur ekki verið þar seinustu 250 árin. Er því rétt að telja borgina til fornminja. Og sjálfsgat var að friða hana, enda þótt hún kunni að vera yngri en líkur benda til. Hún á það skilið vegna þess hve hún er merkilegt mannvirki.
Lyng við StaðarborgSkúli landfógeti segir í sóknarlýsingu sinni að Strandarheiði sé “eitthvað hið bezta land til sauðfjárræktar, það er eg hef séð á Íslandi.” Og telur það vera fjórar mílur á lengd og tvær á breidd, eða 8 fermílur. Í sóknarlýsingu Péturs Jónssonar 1840 er ekki kveðið jafn ríkt að orði, en þó segir þar að sums staðar í heiðinni sé sæmilegir hagar.
Nokkrar aðrar fjárborgir eru í nágrenni Staðarborgarinnar, bæði skráðar og óskráðar. Og um alla ofanverða heiðina eru rústir af gömlum seljum og bendir það til þess að fyrr á öldum hafi landbúnaður verið allmikill á þessum slóðum. Þar eru sel kennd við vissa bæi, svo sem Flekkuvíkursel, Auðnasel og Knarrarnessel. Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið aflögð fyrir löngu.

Staðarborg

Staðarborg.

Erlendur á Kálfatjörm er glöggur maður og mjög athugull. Hann sýndi mér hvernig eins og háttaði um þegar upp í heiðina dró, hvað gróður var miklu minni og beir berangur næst bæjunum. Þar segir enn til sín lyngrifið og mosatekjan fyrrum. Þó er þar allt að gróa upp nú. Hann sýndi mér stóra fláka, sem höfðu verið blásin leirflög fyrir nokkrum árum, en voru nú að safna gróðri. Fyrst kemur geldingahnappurinn og festir rætur á víð og dreif. Við rætur hans myndast smáir töðutoppar og svo kemur lyngið og tekur sér bústað þar. Er þess þá skammt að bíða að toddarnir stækki óðum og renni saman í samfelldar gróðurbreiður. Þar sem hraun er, hefir grámosinn einnig numið land að nýju, og þar fer eins, í skjóli hans festir annar gróður rætur.“
Ýmsar aðrar fornminjar tengdir Staðarborginni má efna, s.s. Prestsvörðuna ofan Kálfatjarnar og Staðarstekkinn, skammt norðnorðvestan borgarinnar.

Heimild:
-Lesb. MBL, sunnudagur 20. júní 1952 – Árni Óla, bls. 357-360.

Stad

Stapinn
Lengi hefur verið deilt um landamerki Innri-Njarðvíkur og Voga (Vatnsleysustrandarhrepps) – og ekki að ástæðulausu.

Innri-Skora á Stapanum

Í þinglýstu landamerkjabréfi Innra-Njarðvíkurhverfis og Voga, I-226-27, dags. 25/6 1889, þinglýst 16/6
1890, segir m.a.: „…“Úr miðri innri Skoru á Stapa, beina línu í Arnarklett svokallaðann, sem stendur í hrauninu fyrir ofan Vatnsgjár,…“ Í öðru landamerkjabréfi Stóru- og Minni-Voga, I-219-20, dags.23/5 1890, þinglýst 16/6 1890, sem og H-56 og Imb.37-41, segir: „…“Vestan og sunnan frá herjanssæti (Kerjansfæti sbr.H-56 eða Kerjanssæti??), eða úr uppgöngunum úr Kolbeinsskoru, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan í klett er stendur norðan vert við Litlaskógfell“…“ Í þinglýstri lýsingu Jóns Daníelssonar, eiganda Stóru-Voga, Stóru- og Minni-Vogar, H-56, dags.20/8 1840, þinglýst 14/6 1887, segir: „…Vestan og sunnan: Frá Kerjansfæti, eður úr upp—Kolskoru, suður til Mörguvarða á gamla Stapavegi, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan—nyrðri—á Litla-Skógfelli…“
Í landamerkjabréfunum er hvergi talað um Kolbeinsvörðu, sú varða er engu að síður til. Brúnavarðan (sumir vilja meina að það sé Kolbeinsvarða) rétt ofan við gamla Keflavíkurveginn þar sem hann liggur við Innriskoru er mið af sjó, eins og Magnús í Halakoti hefur staðfest. Þegar varðan ber í Stapafell er komið út fyrir brún, (hraunbrún) nánar tiltekið út í leirinn þar sem varla bregst ýsudráttur. „Það hef ég margreint og gefist vel“.
Innriskora, Grynnriskora, Kolbeinsskora, Kolskora eru reyndar fjögur heiti á sama stað. Þótt sjónhending hafi jafnan verið tekin sem sjónlína millum tveggja staða, hefur í seinni tíð, segja lögfróðir, að skilgreina megi sem beina línu þó ekki sjáist á milli.
Fótur "Kolbeinsvörðu" á Njarðvíkurheiði Það sem Jón Daníelsson skrifaði árið 1840 og lætur þinglýsa 1887 gæti vel rímað við þá kenningu að merkjalínan hefur legið úr Innri-Skoru (Grynnriskoru) í Kolbeinsvörðu og úr henni í Arnarklett. Þar lá línan nefnilega um Mörguvörður, sem nú hafa verið fjarlægðar líkt og svo til allar vörður í heiðinni, sem til voru fyrir um 1940. Ein af þeim var Kolbeinsvarðan.
Þær vörður, sem nú hafa verið nefndar „Mörguvörður“ eru nokkrar litlar á sléttu klapparholti, nokkru vestar.
Vörðufótur „Kolbeinsvörðu“ sést hins vegar enn. Gróið er um hann. Frá henni er sjónhending að Arnarkletti. Sjóhending er og hlýtur að hafa verið sjónlína – hvað sem svo sem hinir nýtilkomnu dómarar Hæstaréttar segja. Ef menn hafa viljað hafa það línu, á sjónhendingar, hefðu þeir einfaldlega skrifað „í línu“ eða´“beina línu“. Kolbeinsvarðan er ofan við Kolbeinsskor í Innri-Skoru (Grynnriskoru). Önnur varða sem hefði verið beint ofan við brúnina gæti aldrei haft sjónhendingu í Arnarklett. Þar hlýtur að hafa þurft a.m.k. eina vörðu á millum til – þ.e. vörðu þá er Ólafur frá Knarrarnesi tilgreinir. Hann sagði að sú varða hefði staðið þarna í heiðinni, há og mikil, uns bryggjugerðarmenn í Vogum komu á vörubíl, sóttu hana og sturtuðu í bryggjugarðinn. Skv. því ætti Vogalandið að ná allnokkuð vestar en nú er. Telja má að þetta landssvæði hafi ekki verið hátt metið fyrrum, hvorki af Njarðvíkingum né Vogamönnum og því hafi menn verið svolítið kærulausir um mörkin, jafnvel svo kærulausir að þeir fjarlægðu eina merkið, sem þar var.

Fótur "Kolbeinsvörðu" á Njarðvíkurheiði

Nú mætti halda að „Kolbeinsvarðan“ hafi fyrst verið dregin inn á þessa línu þegar Gísli Sigurðsson skráði örnefnaskrá um Voga. Ekki er minnst á Kolbeinsvörðu í framangreindum þremur landamerkjabréfum frá 19. öld. Gísli tilgreinir fremst í örnefnaskránni tvö þessara bréfa og fer rétt með, að því er virðist, nema hvað hann breytir skoru í skor í báðum bréfunum. Síðar í sömu skrá, þegar hann hefur upptalingu örnefnanna og byrjar við Njarðvík, þá dregur Kolbeinsvörðuna þar inní, og segir svo: „Suður eftir Stapanum liggja landamerki milli Stóru-Voga og Innri-Njarðvíkur frá svonefndu Herjanssæti í Kolbeinsskor eða Kolaskor. Skora þessi er einnig nefnd Innriskor eða Grynnriskor. Héðan liggur línan í Kolbeinsvörðu og þaðan yfir Stapaveginn, Gamla- í vörður nokkrar þar suður af er nefnast Mörguvörður, aðeins sunnar er svo þjóðvegurinn.
Héðan liggur línan suður á Bjalla. Austur og upp af Kolbeinsskor eru Þrívörður og þar hærra vörður sem nefnast Strákar.“
Þjóðvegurinn sem Gísli nefnir svo hlýtur að vera gamli Keflavíkurvegurinn (skrifað á þeim tíma). En hvar var sá „gamli Stapavegur“ sem Jón Daníelsson talar um 1840? Ekki Keflavíkurvegurinn sem lagður var 1912. Varla heldur Stapagatan eða Almenningsvegurinn sem þá hlýtur að hafa verið aðalleiðin og því varla kölluð „gamli“ Stapavegur, eða hvað?
Getur verið að eldri gata hafi legið sunnar, jafnvel á líkum slóðum og Reykjanesbrautin er nú? Þá gæti fyrr kenning um Kolbeinsvörðuna (mörkin) átt við rök að styðjast.
Magnús Ágústsson segist hafa róið undir Stapann í 20 ár á sínum yngir árum. Hann talaði um um Dýpri- og Grynnri-skoru. Kannaðist líka við Ytri- og Innri, en ekki við skor. „Við töluðum alltaf um skoru“, sagði hann. Gísli Sigurðsson talar ávallt um skor, minnist aldrei á skoru. Í annarri örnefnaskrá um Voga, sem Ari Gíslason skráði eftir Árna Klemens Hallgrímssyni, Ólafi Péturssyni, Knarrarnesi, „einhverjum í Grænuborg“ og Þorsteini Bjarnasyni, er talað um Innriskoru, öðru nafni Kolbeinsskoru“, ekki minnst á skor. Annars skiptir ekki höfuðmáli hvort og hver eða hvort talað um „skoru“ eða „skor“.
Magnús talaði mikið um Brúnavörðu sem mið en minntist ekki á Kolbeinsvörðu. Brúnavarða finnst í hvorugri örnefnaskránni, aðeins Brúnir.

Vogastapi ofanverður - Vogar fjær

Fyrst svolítið um Gísla. Hann setti óhemjumikið af upplýsingum á blað. Stundum hefur mátt heyra af „fótafúnu“ fólki að sumt af því hafi nú ekki verið alveg rétt. Reynsla þeirra, sem fylgt hafa skrifum Gísla, er hins vegar sú, eftir að hafa kannað og rakið það sem ekki á að hafa verið rétt, hefur reynst vera rétt. Málið er að það kannast ekki allir við öll örnefnanöfnin. Sumir þekkja þau undir öðrum nöfnum en aðrir, auk þess sem þau hafa tilhneigingu bæði til að breytast og færast til með tímanum. Þá breytast hljómyndanir og þar með nöfnin, sbr. hörsl og vik. Þá gátu jafnvel heilu fjöllin verið nefnd sitt hvoru nafninu, eftir því hvoru megin við það var spurt, sbr. fjöllin í Kjós. Þá er reynsla okkar, sem höfum gengið mikið um þetta svæði, að þótt reynt sé að ganga vandlega eftir lýsingum getur reynst mjög erfitt að staðsetja örnefnin, þótt ekki sé fyrir annað en að áttir fólks var misvísandi,“norður“ gat verið austur eða einfaldlega útnorður, „spölkorn“ gat verið langur gangur, „handan“ gat verið hvar sem var o.s.frv. Á Rosmhvalanesinu notuðu menn gjarnan Inn/Innri (suður) og Út/Ytri (norður).
Gísli vísaði gjarnan í heimildarmenn sína og gæti það gefið svar við misvísun á örnefnaheitum. Ýmislegt þurfti hann þó að leggja á minnið og skrá síðar, sbr. frásagnir starfsfélaga hans frá þessum tíma (sem FERLIR hefur haldið til haga). Eitt skemmtilegt nýlegt dæmi um ágreining um örnefnaheiti er vitinn á Þórkötlustaðanesi (sem þó er ekki örnefni). Þórkötlustaðabúar hafa aldrei nefnt vitann annað, enda á þeirra nesi. Landamerkin er í Markastein u.þ.b. 60 metrum vestar. Hópsmenn hafa löngum viljað teygja sig lengra inn á Nesið vegna reka og því ávallt kallað vitann „Hópsnesvita“, þrátt fyrir að hann sé alls ekki á Hópsnesi. Það nafn hefur þó ratað inn í gögn opinberra aðila, s.s. Vitamálastofunar. Svona getur þetta verið – ástæður nafngifta geta orðið af margvíslegum toga. Er núna að gera örnefnakort af Staðarhverfi í Grindavík. Þar er hóll, sem hefur heitið Holuhóll. Móakotsfólkið kallaði hann hins vegar Móakotshól.
Jæja – aftur að merkjunum. Stapagatan hefur varla verið kölluð Gamli-Keflavíkurvegur. „Gamli Stapavegur“, sem Jón Daníelsson talar um 1840, hefur að öllum líkindum verið Stapagatan. Grunur er um að vegarkafli (vagnvegur), sem enn sést hluti af austan við „Kolbeinsvörðu“, séu leifar af fyrsta akveginum, eða akslóðanum. Þegar bíllinn kom til landsins voru ekki til neinir vegir, einungis gamlar leiðir fyrir fólk og búfénað. Segja má að bíllinn hafi búið til fyrstu vegina, þ.e. ökumennirnir. Þeir fóru þá um svæði, sem líklegt væri að þeir kæmust áfram og greiðfærast var. Velta hefur um grjóti, en þeir hafa forðast miklar brekkur og líka gamlar djúpar götur. Ekki er ólíklegt að fyrsti slóðinn til Keflavíkur hafi myndast á þessum slóðum. Vegurinn 1912 hefur síðan tekið mið af nauðsynlegum breytingum og þörf á varanlegri gatnagerð.
Útsýni af Stapanum til VogaBrúnavarðan er, kv. ábendingu Magnúsar, varðan ofan við Innri-Skoru, rétt sunnan við Gamla-Keflavíkurveginn. Það að hún er ekki inni í örnefnalýsingu fyrir Innri-Njarðvík gæti bent til þess að hún hafi orðið til eftir gerð hennar, jafnvel sem mið, eins og Magnús lýsir. Vitað er þó að varðan hefur verið til a.m.k. frá því um 1940. Þá gæti hún hafa verið fjarlægð, en vegna mikilvægi hennar sem mið hafi hún verið endurhlaðin, eða einfaldlega hlíft af sömu ástæðu. Varðan er áberandi kennileiti frá sjó. Þar, eða skammt frá, gæti þess vegna hafa verið önnur varða fyrir, en verið fjarlægð. Mörg vörðubrot eru á Stapanum, en allflest eftir minni vörður.
Ekki er með öllu útilokað að „Kolbeinsvarðan“ gæti hafa verið varðan, sem Ólafur í Knarrarnesi sagði að hefði verið markavarða, „stór og mikil“ áður en hún var fjarlægð, allt nema neðsta lagið. Af ummerkjum þar virðist þessi varða ekki hafa verið í neinu samhengi við vörðuröð í heiðinni. Aftur á móti gæti hún líka hafa verið ónafngreindur „hornsteinn“ á mörkunum, því jafnan á að hafa verið „sjónhending“ milli merkja. Frá henni gæti hafa sést í næsta merki að austanverðu, Arnarklett, en það er ómögulegt frá vörðu ofan við Innri-Skoru. Ef þessi varða hefur verið landamerkjavarða verður það þó að teljast klaufalegt hjá Vogamönnum að fjarlægja hana við bryggjugerðina í ljósi ágreiningsmála er jafnan hafa verið um landamerki.
Skv. upplýsingum Sesselju Guðmundsdóttur hafði nefndur Ólafur heyrt framangreint frá föður sínum, Jóni G. Ben. Bendir hún á að í skrifum Jóns í Velvakanda 1983 segir Jón m.a.: Strandlengjan nær frá […] og að svonefnri Kolbeinsvörðu utanvert við Innri-Skor á Vogastapa“.  Sesselja telur að grjótið úr hinni einu sönnu Kolbeinsvörðu hafi svo alveg verið hreinsað burt á sínum tíma og er aðeins svarðgróinn grjóthringur eftir nú. Stóran varðan gæti hins vegar vel hafa verið á merkjum, en hún hafi aldrei heitið Kolbeinsvarða.Â
Ef „Kolbeinsvarða“ var á nefndum stað í Njarðvíkurheiði gæti það skipt sköpum, þótt ekki væri fyrir annað að nýtilkomið merki Reykjanesbæjar væri þá í landi Voga.
Þetta er að mörgu leiti áhugavert efni – og ekki víst
að allir verði sammála um allt – frekar en örnefnin. Hafa ber þó í huga framangreint; þótt einn telji eitthvað eitt vera hið rétta þarf það þó ekki að hafa verið hið eina rétta.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Staðarborg

Á Vatnsleysuheiði, Kálfatjarnarheiði og ónefndu heiðunum þar vestur af ofan Vatnsleysustrandar-bæjanna má sjá leifar allnokkurra fjárborga, auk einnar uppgerðar, þ.e. Staðarborgarinnar.
LitlaborgFrá austri til vesturs má þarna m.a. sjá „Litluborg“ norðvestan Hafnhóla. Hún er nú gróin, en vel má sjá grjóthleðslur í henni. Vestar og norðvestar má sjá leifar tveggja borga á háum hraunhólum báðar í Þórustaðalandi. Norðan þeirra er svo Staðarborgin. Í Morgunblaðinu 1980 var varpað fram fróðleik um Staðarborgina, sbr.: „Á Íslandi eru fáar byggingar, sem teljast til fornminja, enda skiljanlegt, því það var ekki fyrr en um miðja 18. öld, sem Íslendingar fóru að reisa hús og aðrar byggingar úr varanlegu efni. Fram að þeim tíma, og raunar fram á þessa öld, var torfið og grjótið það byggingarefni, sem algengast var. 

Thorustadarborg-501

Þótt vel og vandvirknislega væri að unnið, þegar byggt var úr þessum efnum, skipti ekki síður máli að undirstaðan væri traust. En vel hlaðnir grjótveggir reistir á harðri klöpp, geta staðið áratugum saman án þess að þeir raskist. Slíkar hleðslur eru til og í þetta sinn skulum við skoða eitt slíkt mannvirki. Þá skreppum við suður á Vatnsleysustrandarheiði og skoðum Staðarborgina, en það er fjárborg, sem hlaðin var fyrir löngu síðan og stendur óhögguð enn. Gönguferðin er ekki löng að þessu sinni en ég vænti þess, lesandi góður, að þú teljir það ómaksins vert að skreppa þangað og skoða borgina.
Audnaborg 501Við ökum sem leið liggur áleiðis til Keflavíkur. Við Kúagerði greinast leiðir og skiptir engu hvor þeirra er valin. Ef við veljum gamla veginn meðfram ströndinni nemum við staðar ca. 3 km vestan við vegamótin. Þar förum við úr bílnum og göngum beint suður á hraunið. Næst veginum eru hæðir, sem skyggja á, en þegar yfir þær er komið blasir Staðarborgin við. Er þessi leið ekki nema tæpir 2 km alls. Hún er greiðfær, því hraunið er slétt og gróið víða.
En ef við höldum áfram upp á Strandarheiði Lyngholsborgblastir borgin við norður í hrauninu og ekki unnt að líta fram hjá henni, því hún ber þar við loft. Engin vandkvæði eru heldur, að nálgast hana úr þessari átt. Staðarborg er mikið mannvirki. Hún er eingöngu hlaðin úr völdum hleðslusteinum. Hæð veggjanna er um 2 m, þykkt þeirra um 1.5 m neðst. Borgin er hringlaga að innan. Þvermálið um 8 metrar og ummál hringsins að innan um 23 metrar. Að ofan eru veggirnir örlítið inndregnir, eins og byggingarmeistarinn hafi ætlað sér að hlaða hana upp í topp. Hleðsla steinanna og handbragðið allt er sannkallað meistaraverk og svo traust, að undrun sætir.
EnThorustadarborg-502 hvers vegna er þetta mannvirki hér langt uppi á heiði, fjarri öllum mannabyggðum? Fyrr á tímum var sauðfé ætlaðað bjarga sér á útigangi eins lengi og unnt var. Gripahús voru af skornum skammti heima við bæina, en skepnunum haldið þar til beitar sem best þótti hverju sinni.
Sauðamenn voru þá á flestum bæjum og var hlutverk þeirra að annast sauðféð og fylgjast með því dag og nótt, ef þurfa þótti. Til að spara húsbyggingar, voru hlaðnar borgir fyrir féð, þar sem það gat leitað skjóls í illviðrum og í þeim tilgangi hefur Staðarborgin verið byggð.

Refagildra-501

Gólfið í borginni er grasi gróið og bendir til þess að sauðfé hafi leitað þar skjóls eins og ætlað var. En hvenær var borgin byggð og hver vann það verk? Engar heimildir munu vera til um það aðeins munnmæli. Þar er sagt, að presturinn á Kálfatjörn hafi ráðið mann er Guðmundur hét til að hlaða borgina. Guðmundur valdi steinana af vandvirkni, dró þá víða að og raðaði þeim í langar raðir á holtinu, svo hann gæti betur áttað sig á því hvaða steinar ættu saman í hleðsluna. Síðan hóf hann verkið og ætlaði að hlaða borgina í topp, eins og snjóhús. Verkið sóttist vel og þar kom, að hann ætlaði að fara að draga veggina saman að innan. Þá kom Guðmundur prestur í heimsókn og leit á verkið. Sá hann þegar, að með því móti myndi fjárborgin verða stærra og myndarlegra hús en kirkjan á Kálfatjörn. Það gat hann ekki liðið og bannaði Guðmundi að fullkomna verkið. Við þetta bann reiddist Guðmundur heiftarlega, hætti á stundinni og gekk burtu. Enginn tók við af Guðmundi, svo borgin stendur nú, hálfkláruð eins og hann gekk frá henni. Enn í dag ber hún þessum óþekkta meistara sínum fagurt vitni um snilldar handbragð.
Skotbyrgi-501Staðarborgin var friðuð árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja. Engu má þar spilla á nokkurn hátt. Er þess að vænta að það verði virt um alla framtíð.“
Vestan Staðarborgarinnar er svo gróin Þórustaðaborg inni á milli hraunhóla. Þórustaðastígurinn liggur upp með henni. Vestar er Auðnaborgin eða Auðnastekkur. Sjá má leifar fjárborgarinnar á hól norðaustan stekksins (réttarinnar). Enn vestar er svo gróin Lynghólsborgin norðan undir Lynghól. Hún er greinilega mjög gömul, en enn má sjá hleðslur í veggjum og leiðigarð framan við opið mót suðri. Suðvestar er Hringurinn, allmiklar hleðslur, á lágum hól í hvylft á milli holta. Vestar er Gíslaborg. Henni hefur greinilega á einhverjum tíma verið breytt í gerði eða rétt á hól skammt austan iðnaðarhúsa ofan Voga. Vestan Vogavegar er svo Gvendarborg eða Gvendarstekkur.
Á allmörgum hólum milli fyrrnefndra fjárborga má bæði sjá leifar af hlöðnum refagildrum og nýrri skotbyrgjum eftir refaveiðimenn.

Heimildir:
-Morgunblaðið 31. júlí 1980.

Staðarborg

Staðarborg.

Breiðagerðisslakki

Sveinn Þór Sigurjónsson, bjó í Traðarkoti í Brunnastaðahverfi, nú í Grindavík (73 ára). Þann 24. apríl 1943 var hann níu ára. Skömmu eftir hádegi þennan dag var hann skammt frá bænum er hann heyrði skyndilega hávaða og Brak í Breiðagerðisslakkamarga skýhnoðra á lofti yfir og nálægt Meeks-velli ofan við Keflavík. Loftvarnarbyssum Ameríkana hafði verið beint að þýskri flugvél, sem nálgast hafði völlinn. Síðan sá hann hvar þýskri flugvél var flogið lágt til austurs nokkru sunnar í Strandarheiðinni, nokkurn veginn í línu þar sem Reykjanesbrautin er nú. Eftir fylgdu tvær amerískar orrustuvélar. Frá þeim var skotið látlaust á þýsku vélina, sem beygt var til suðurs. Þá mun hún hafa lent í heiðinni, á stað sem Breiðagerðisslakki nefnist.
Hafsteinn Davíðsson og bróðir hans frá Ásláksstöðum fóru þá áleiðis upp í heiðina. Þar mættu þeir einum flugmanninum úr vélinni og aðstoðuðu hann niður að bæjum.
Þegar farið var á vettvangi í Breiðagerðisslakkanum var gengið svo til beint á brakið úr hinni þýsku flugvél. Um er að ræða Junkers 88 könnunarherflugvél. Samkvæmt skýrslum sást þýska flugvélin nálgast Keflavík um 13:52 þann 24.04.1943. Tvær bandarískar vélar voru sendar á móti henni, en flugmaðurinn reyndi að dyljast í skýjum. Það kom þó ekki í veg fyrir að vélin væri skotin niður. Þrír áhafnameðlimir létust, en einn komst lífs af, fjarskiptamaðurinn, Sgt. Anton Mynarek. Hann komst úr vélinni í fallhlíf áður en hún brotlenti í Gjáhrauni, en var tekinn til fanga af landgönguliðum.
Anton MynarekBræðurnir Hafsteinn og Þórir gengu fram á þýska flugmanninn við Arnarbæli og fylgdu honum niður á gamla Keflavíkurveginn þar sem landgönguliðar tóku hann til fanga. Sveinn sagðist hafa frétt að því að aðfarirnar hafi ekki beinlínis verið til fyrirmyndar. Ameríkanarnir hefðu öskað á þennan hættulega óvin sinn, miðað á hann byssum og skipað honum að leggjast í jörðina þrátt fyrir að hann hafi greinilega verið nokkuð meiddur.
Báðir hinir bandarísku flugmenn, sem eltu þá þýsku, voru sæmdir Silfurstjörnunni þann 30. apríl 1943 fyrir vikið. Þessi Þjóðverji var fyrsti flugliðinn sem Bandaríkjamenn handtóku í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin að Brautarholti á Kjalarnesi, en eftir stríð voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn.
Sá, sem bjargaðist, stg. Anton Mynarek, kom hingað til lands mörgum árum seinna. Lýsti hann fangavistinni í bragga við Elliðaár, en þar átti hann slæma vist fyrstu dagana í kulda og einangrun, en síðan rættist úr vistinni.
Talsvert er af braki úr vélinni við hraunhól í slakkanum, m.a. hluti af hjólastellinu, annað dekkið, vélarhlutar, slöngur og tannhjól. Álhlutar eru úr vélinni í slakkanum skammt norðvestar.

Brak

Stapinn

Af Stapadraugnum fara ekki miklar sögur. Sagnir herma að draugurinn hafi haldið sig í Vogastapa sem er milli Innri-Njarðvíkur og Voga á norðanverðum Reykjanesskaga. Hins vegar er ekki greint frá því hvernig hann hafi verið til kominn. Hann var sagður hafa hrellt ferðamenn og farið um þá óblíðum höndum. Í Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum sem Guðni Jónsson safnaði saman, er getið um eitt slíkt tilfelli. Sögnin er heldur óljós en atvikið virðist hafa átt sér stað á áttunda áratug 19. aldar.

Stapadraugurinn - eina ljósmyndin, sem náðst hefur af honum

Ónafngreindur maður úr Garði á Reykjanesi fannst nær dauða en lífi á Stapanum. Hann var borinn í Stapakot og var þar nokkurn tíma að jafna sig áður en hann fór heim. Þegar hann var spurður hvað fyrir hann hafði komið togaðist ekki upp úr honum nokkur skýring, en draugnum á Stapanum var kennt um það. Hans er líka getið í þætti af förumanninum Árna funa í sama safni, en ekki nema í framhjáhlaupi.
Að öðru leyti virðist segja heldur fátt af draugsa, en á hinn bóginn eru tvær sagnir um aðra reimleika þarna í grenndinni. Þeim sem ekki trúir á drauga þykir væntanlega fánýtt að velta því fyrir sér hvort það eru aðrar sögur af „sama“ draug, en frásagnirnar gætu samt verið tengdar.
Fyrst ber að nefna Vogadrauginn, sem svo er kallaður. Ólíkt Stapadraugnum státar hann af almennilegri upprunaskýringu og auk þess hélt hann sig á bæjum. Sagan segir að ferðalangur hafi beiðst gistingar í Vogum, en verið úthýst þaðan og lagt leið sína yfir Stapann til Njarðvíkur. Veðrið var heldur misjafnt og maðurinn ferðalúinn og svangur. Morguninn eftir fannst hann svo dauður rétt við Grímshól á Vogastapa. Hann var borinn heim á bæinn þar sem honum hafði verið meinað um gistingu og var grafinn skömmu síðar.
Í kjölfar þessa varð vart reimleika á bænum og héldu menn að afturgangan vildi hefna sín fyrir litla gestrisni húsráðenda. Næstu ábúendur urðu líka varir við draugaganginn. Vomurinn sótti að húsfreyjunni
með svefnóværð mikilli því ekki hafði hún fyrri fest blund á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún fór að láta illa í svefninum. Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur kom að henni sama óværðin.
Bóndanum á bænum, Jóni þessum, tókst að reka „næturgestinn“ af höndum þeirra en sá fór ekki langt heldur tók að ásækja bóndann í Tjarnarkoti þarna í nágrenninu. Jón var þá fenginn til að flæma drauginn þaðan líka og fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað sem nú er búð sú í Vogum sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta og versta helvítis þaðan sem hann væri kominn og gjöra aldei framar mein af sér í Vogum.
Upp frá því segir ekki mikið af þessum ógæfusama ferðamanni, nema að ekki þótti alltaf allt með felldu í Tuðru.
Á seinni tímum hafa svo komið til aðrar draugasögur sem tengjast akveginum við Vogastapa. Samkvæmt 
þeim er þar á kreiki bíldraugur. Eftir lýsingum að dæma stendur hann við vegbrúnina og sest inn hjá þeim sem af góðmennsku sinni bjóða honum far. Hins vegar lætur hann ekkert upp um það hvert hann ætlar og þegir þunnu hljóði. Eftir nokkra stund er hann svo horfinn eins og hann hafi gufað upp.
Önnur saga er sú að rétt við Vogastapa hreinlega birtist tveir menn í aftursætum bíla, sitji þar stutta stund í friði og spekt en hverfi svo jafnundarlega og þeir birtust. Þegar Árni Björnsson gaf út Íslenskt vættatal fyrir rúmum tíu árum gat hann þess að Stapadraugurinn hefði hrellt ferðamenn en látið minna á sér kræla eftir að nýja Reykjanesbrautin var lögð. Sennilega hverfur hann þá alveg þegar hún hefur loksins verið tvöfölduð.
Í framangreindu er m.a. vitnað í Guðna Jónsson, Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur IX, Ísafoldarprentsmiðja hf, Reykjavík, 1951, bls. 25, Árna Björnsson, Íslenskt vættatal, Mál og menning, Reykjavík, 1990, Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, Bókaútgáfan Þjóðsaga og Prentsmiðjan Hólar hf. Reykjavík, 1954, I. bindi bls. 378-9, og Sigurð Nordal og Þórberg Þórðarson, Gráskinna hin meiri, Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík, 1962, síðara bindi bls. 217-18.

Heimild:
-visindavefur.hi.is

Stapagata

Stapavegur.

Keilisnes

Ofan við Borgarkot, milli Kálfatjarnar og Keilisnes, frá vestri til austurs, í aflíðandi bogadregna línu frá suðaustanverðum túngarði Bakka og Litlabæjar, og síðan austast í línu til norðurs, er u.þ.b. 1.340 m löng stórgipagirðing, gerð af uppreistu grjóti, ca. 0.60-1.00 m háu með jöfnu millibili. Ofan á og ofarlega til hliðar eru greiptar holur og í þær reknir trétappar.
Storgripagriding-222Margir steinanna eru reyndar fallnir, en auðvelt er að rekja þá í landinu þessa leið.
„Stórgripagirðing-una tel ég ekki eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Á Viðeyjarklaustur-stímum voru  hungraðir stráklingar notaðir sem fjáryfirsetur. Því ekki til nautayfirsetu á Keilisnesi?  Skynsamlegt er að nota til samarburðar  á stórgripaveldi Kálfatjarnar  og nautaeldistíma Viðeyjarklausturs á Mosfellsheiði, en þar gengu naut frjáls en voru rekin til slátrunar í Marardal við Hengil en þar sést enn til mannvirkja varðandi það (sem og áreiðanlegar ritheimildir).
Tel að ef skoðuð er búfjársaga Færeyja mætti finna álíka Stórgripagirðingu og hér er til umfjöllunar.
Storgripagirding-223Skynsamlegt er að horfa vítt til veggja hvað varðar söguskoðun – og láta skynsemi  ráða en ekki óskhyggju.
Líklega hefur Stórgripagirðingin á Keilisnesi verið  byggð af  stórhugamönnum í lok 19. aldar (flott að ná í vír úr Jamestown-strandinu í Höfnum fyrir lítinn pening og fá ríkisstyrk  út á framkvæmdina),  en aldrei nýst sem slík,  nema fyrir kýrnar á Kálfatjörn sem voru tiltölulega fáar og þurftu enganveginn alla Stórgripagirð-inguna,  nema fyrir það að auðveldara var að ná þeim saman að kvöldi til mjalta.  Vinnan við að safna og reisa steinana hefur ekki verðið mikið verk á þeim tímum, menn notuðu vogarafl samhliða mannafli eins og sést víða í Íslandsögunni. Til samanburðar  má nefna alla túngarða Kálfatjarnar þess tíma.
Storgripagirding-225Nútímamenn gera oft lítið úr verkhyggju og mannafli fyrri tíma.“
Ljóst er að girðingin er yngri en túngarðurinn ofan Bakka og Litlabæjar því ekkert grjót úr girðingunni næst honum hefur verið tekið í vegginn. Þá væri tiltölulega auðvelt að aldursgreina einn trétappa eða fleiri og fá þannig áætlaðan aldur girðingarinnar. Ástand þeirra gefa vísbendingu um að girðingin hafi verið seinna tíma mannvirki, að öllum líkindum frá Kálfatjörn. Enda ólíklegt að til hefðu verið nægilega löng reipi til verskins fyrir þann tíma. Skammt austar, vestan Minni-Vatnsleysu, má sjá hliðstætt mannvirki. Í stað trétappanna voru þar notaðir steypustyrktarteinar.
Þorvaldur Örn Árnason, kennari í Stóru-Vogaskóla benti FERLIR á eftirfarandi:

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

„Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
„Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.““

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir.
-Þorvaldur Örn Árnason.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Hverinn eini

Ætlunin var að skoða bæði skjól, sem útilegumenn kunna að hafa hafst við í sunnan Selsvalla á 17. öld sem og „helli“, sem þeir dvöldust í norðan Selsvalla. Hvorutveggja er til í skráðum heimildum og hefur að geyma mannvistarleifar. Í leiðinni var og ætlunin að skoða hinar gömlu götur er liggja að og frá Selsvöllum, selsrústirnar á völlunum og Hverinn eina, en upplýsingar liggja fyrir um brennisteinsnám þar á 17. öld.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Þegar á upphafsstað var komið sást hvar vegur hafði verið lagður upp hraunhlíðina ofan við núverandi borholusvæði undir Sogunum. Vélarhljóð bárust ofan úr Sogunum. Hvorutveggja, augnstungan í hlíðinni og hávaðinn í annars órsökuðu umhverfinu þar fyrir ofan, særðu hjörtu þeirra sem hafa haft samúð með landinu, sem fóstrað hefur fóður forfeðrana frá upphafi.
Gengið var suður með vestanverðum hlíðum Núpshlíðarháls og inn á Selsvelli, framhjá virku jarðhitasvæði undir Trölladyngju og fallegu smávatni í jarðfalli. Þarna hafði áður verið hinn ágætasti jarðvatnsvarmi, líkt og í Grjótagjá við Mývatn. Við norðanverða Selsvelli birtist Kúadalur fyrst sjónum manna, síðan nyrðri Selsvallalækurinn og Moshóll á hægri hönd, fallegur gígur, sem margir framkvæmdarmenn hafa haft augastað á, þ.e. efnislega. Hóllinn geymir einn fallegasta gjallgíg landsins.
Gengið var inn með ónafngreindum fjöllum austanverðra Selsvalla, að rústunum undir Selsvallafjalli. Þær eru allnokkrar. Ekki er með öllu útilokað að sú stærsta hafi á einhverju tímaskeiði geymt kot eða bæ, enda hefur þarna verið álitleg beit og vænlegar sláttulendur. Suðvestar eru rústir seljanna á Selsvöllum. Áður hafði virst sem gata lægi þar frá eldri rústunum niður að þeim nýrri, en þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna var um að ræða eldri farvegi Selsvallalækjarins syðri. Hann kemur þarna niður úr gili og hefur leikið sér vítt og breytt um vellina á löngum tíma. Sjá má ummerki eftir lækinn til vesturs en síðan til norðurs á nokkrum stöðum.

Selsvellir

Tóft á Selsvöllum.

Rústirnar á suðvestanverðum Selsvöllum er enn samar við sig; Vogaréttin á sínum stað og hinn fallegi stekkur sunnar. Þarna eru tóftir þriggja selja. Eitt þeirra mun hafa verið frá Stað, en hin voru einnig frá Grindavíkurstórbýlunum tveimur; Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Stekkirnir eru jafn margir selstöðunum. Sá þriðji er vestan vallanna, skammt norðan selstóftanna.
Undir hraunhól er op. Ferðin var m.a. farin til að kanna þar inn undir. Við eftirgrennslan kom í ljós að lágur skúti lá þarna undir seltóftina er stóð henni næst. Talsverður jarðvegur hefur sest að á botninum og ekki var að sjá neinar mannvistarleifar í skútanum.
Annar skúti, svipaður, var sunnan við hraunhólinn. Ekki voru mannvistarleifar heldur í honum. Útilegumenn héldu til á þessum slóðum á 17. öld. Þeir áttu að hafa verið þrír saman. Í báðum skútunum var nægilegt svefnrými fyrir þá alla þrjá.
Gömlu alfaraleiðinni (selsgötunni) var fylgt til vesturs. Hún greinist miðja vegu í hrauninu milli Selsvalla og Hraunsels-Vatnsfells, en á því er vatnstæði. Sumsstaðar er gatan grópuð djúpt í klöppina.
Í´“Útilegumönnum og auðum tóftum“ segir m.a. að “um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.
Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.

Selsvellir

Leitað að mögulegu útilegumannaskjóli.

Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.
Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Oddsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.

Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil. Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.
Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, að þeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.
Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaut svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.
Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna.

Keilir

Keilir.

Þingaði Jón í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum. Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.
Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“
Stefnan var tekin til norðurs yfir frosið mosahraunið. Þetta er hraunssvæði, sem að öllu jöfnu er ekki gengið, enda þykkur mosi víðast hvar á hraunþekjunni. Margir smáskútar er þarna í hrauninu, en enginn þeirra sýnilega með mannvistarleifum í.
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hverinum eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.

Hverinn eini

Vatnsstæði við Hverinn eina.

Stefnan var tekin á Þórustaðastíginn er liggur þarna í gegnum hraunið frá suðurenda Driffells og yfir að suðurenda Moshóls við norðanverða Selsvelli. Við hann var gerð leit að hugsanlegum skútum, en engir fundust með mannvistarleifum í. Jarðfall hefur hrunið niður norðan Moshóls og þar skammt norðar er gat niður í jörðina. Hvorutveggja var skoðað gaumgæfilega. Gatið skilaði einum árangri, en nánari skoðun á jarðfallinu gæti hugsanlega skilað einhverri niðurstöðu. Gróið er í botninn og steinar, sem ekki hafa ratað þangað að sjálfsdáðum, eru í jöðrum. Þetta þarf að skoða nánar við tækifæri.

Þá var stefnan tekin eftir selsstígnum norðan Selsvalla að Hvernum eina. Fréttir höfðu borist um það á göngunni að einhverju sinni hefði Hverinn eini verið notaður til brennisteinsnáms.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms.
Á bls. 87-88 segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“
Jóhanna og Viktor úr Vogunum, sem voru með í göngunni töldu víst að þar sem Gísli segist hafa látið leita „hjá Keilir“ og fengið einhver brennistein, geta verið í Hvernum eina, enda um fáa eða enga aðra staði er að ræða. Ummerki í hvernum eru líka þess eðlis, eins og brotist hafi verið niður eftir æðinni. Þar með er Hverinn eini ekki eingöngu náttúruminjar heldur einnig orðin sögulegar minjar.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Þegar komið var að Hvernum eina sást vel hvernig svæðið umhverfis hans hafði verið nýtt í framangreindum tilgangi. Verkamenn höfðu brotið sér leið niður eftir brennisteinskjarnanum og kastað „hratinu“ til hliðar og framan við hverinn.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun. Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“

Hverinn eini

Hverinn eini.

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Einn slíkan ofan má finna í Brennisteinsfjöllum. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík.
Vitað er með vissu að síðast var numinn brennisteinn í Hvernum eina snemma árs 2006. Þá var og gerð tilraun til að baka þar hverabrauð með misjöfnum árangri. Í það skiptið var þó bætt um betur og braut etið þar jöfnum höndum með smérbræðingi.
Gufuhver sá er sagður var einn sá stærsti hér á landi og mun hafa sést vel frá höfuðborginni um tíma, en dó um 1918, var norðan við Hverinn eina. Svæðið allt ber vott um hverinn og er hið ágætasta minnismerki um það sem einu sinni var, en dó. Öllu ásættanlegra er að horfa á, finna og skynja það sem hefur dáið af sjálfsdáðum en allt það sem deytt er vísvitandi af fáfróðri mannskepnunni.
Loks var haldið eftir fyrrnefndum selsstíg norður með austanverðu Oddafelli og stefnan tekin á upphafsstað.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.
-Landfræðissaga Íslands, bindi II, bls. 84-94, frá 1659.
-www.idan.is

Melhóll

Melhóll við Selsvelli.