Tag Archive for: Vogar

Keilir

Í maí 2009 var sett upp útsýnisskífa á Keili – útsýnisfjall Vatnsleysustrandarhrepps.
SkífanÚtsýnisskífa kom á fjallið að frumkvæði Ferðamálasamtaka Suðurnesja sem áttu veg og vanda að þessu verkefni. Það var Viktor Guðmundsson og fleira áhugafólk úr Vogum sem vakti máls á því við Ferðamálasamtökin fyrir 5 árum að setja upp útsýnisskífu á fjallið til að auðvelda þeim sem gengju á Keili að þekkja umhverfið. Undirbúningur stóð yfir í 2 ár. Jakob Hálfdanarson var fenginn til að hanna skífuna.
FSS fékk góðfúslegt leyfi frá Landmælingum Íslands til að nota steinsteypustöpul sem skífan er á en stöpullinn er mælipunktur. Blikksmiðja Ágústar Guðjónssonar smíðaði mjög veglegan pall umhverfis stöpulinn sem var hannaður af Sigurði Sigurðssyni hjá Verkfræðistofu Suðurnesja. Uppsetning á palli og skífu var svo í höndum blikksmiðunnar og Skúla Ágústssonar frá VSS. Pallurinn var fluttur á þyrlu upp á fjallið en það var Slysavarnarfélagið í Grindavík sem sá um þann þátt ásamt Óskari Sævarssyni. Lokahnykkur verksins var svo að festa skífuna sjálfa niður á stöpulinn.
KeilirKostnaður við þessa framkvæmd var allt að þrjár milljónir króna en upp í þann kostnað fengu Ferðamálasamtökin fengið 800 þús. kr. styrk frá Sveitarfélaginu Vogum.
Á útsýnisskífunni eru 87 örnefni allt frá Snæfellsjökli í 123 km fjarlægð og Tröllakirkju í 105 km fjarlægð að Fjallinu eina og Trölladyngju í 3,5 km. fjarlægð, Eldey í 44 km fjarlægð og Litla-Skógfelli í 10 km fjarlægð. Keilir er hið ágætasta útsýnisfjall á miðjum Reykjanes-skaganum og frá fornu fari helsta mið fiskimanna við Faxaflóann. Að staðsetja örnefni rétt er vandaverk og fengu Ferðamálasamtökin fólk af Suðurnesjunum til að aðstoða við að velja inná skífuna örnefni og staðfæra þau.
Keilir

Þorbjarnastaðarétt

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.

Gvendarbrunnur

Gangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginÞá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.

Í ljóAlfaraleiðins hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.
„Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.“

Alfaraleið

Alfaraleið sunnan Gerðis – Bruninn framundan.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.
Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í AGvendarbrunnurlfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).“ Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.“
Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.
Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:

-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Flekkuvíkursel

Ætlunin var að skoða dæmigert sel á Reykjanesskaganum, eitt af þeim 400, sem FERLIR hefur skoðað hingað til í hinu upprunalega landnámi Ingólfs.
Tvöfaldur stekkur í FlekkuvíkurseliFlekkuvíkurselið hefur að geyma húsaleifar typískrar húsaskipan seinni tíma selja á Skaganum sem og öll tilheyrandi mannvirki; stekk, kví, vatnsstæði, selstíg og selvörðu auk eldri selminja, sumar hverjar m.a.s. torráðnar. Auk þess eru í selstöðunni leifar eldri selja. Þá er staðsetningin t.a.m. dæmigerð fyrir sel á norðanverðum Reykjanesskaga, þ.e. í skjóli fyrir austanáttinni.
Þegar komið var upp í Vatnsleysuheiðina var selstígnum fylgt upp í Flekkuvíkursel. Tvær áberandi vörður, Bræður, hlið við hlið, eru í heiðinni. „Þær nefnast Bróðir nyrðri og Bróðir syðri“, segir í örnefnaskrá.
Selstaðan er í grónum hvammi. Í honum eru tvö sel, annað yngra. Skammt norðar, einnig í skjóli undir klapparhæð, er þriðja selið. Sjá má þrjá stekki ef vel er að gáð, en það bendir til þess að selstöðurnar í Flekkuvíkurseli Vatnsstæðið í Flekkuvíkurselihafi verið a.m.k. þrjár, ekki allar endilega frá sama tíma. Þannig er miðselið greinilega yngst og sennilega það sel er lagðist síðast af rétt fyrir 1880.
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Flekkuvík: „Jarðadýrleiki óviss, Kálfatjarnarkirkjueign. Þetta ár eru hjáleigurnar Sigurðarhjáleiga, Blíðheimur, Péturskot, Refshali og Úlfshjáleiga. Þessar [hjáleigur] eru með vissu taldar. Vatnagarður syðst … og Tröð.“
Tvíbýli var á jörðinni og var Vesturbær í eyði frá 1935, austurbær frá 1959. Einnig eru óljósar sagnir um tvö býli,  sem hétu Holt og Járnshaus, skv. örnefnalýsingu.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.” “Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálftjarnar,” segir í örnefnaskrá GE. “Þar rétt hjá er Norðurstekkurinn í FlekkuvíkurseliSelstígurinn beint suður í Flekkuvíkursel. Það stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var
haft í seli fram til 1845. .. Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og
til baka.” segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. “Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs [Erlendssonar], Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa.” segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1879.
“Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholt og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels, í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví.
Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það.”
Kolagröf? í FlekkuvíkurseliFERLIR hefur nokkrum sinnum komið í Flekkuvíkursel. Í einni af fyrri lýsingunum segir: “Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursels, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.”
Yngsta tóftin í FlekkuvíkurseliAllnokkrar vörður eru ofan og umhverfis Flekkuvíkursel. Í örnefnalýsingu segir að: “Selás eða Flekkuvíkurselás heitir langt klapparholt við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna. Ásinn greinist samkvæmt gömlum landamerkjalýsingum í Vestur-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum.”
Þegar selstöðurnar þrjár eru skoðaðar má sjá þrjú rými í sérhverri þeirra, dæmifert fyrir sel frá upphafi á Reykjanesskgagnum. Vestasta selið liggur svo til þvert á Vestari-Flekkuvíkurselás. Tóftirnar eru nokkuð reglulegar og ágætur vitnisburður um sel frá miðtímabili seljabúskaparins hér á landi. Þá var að komast skipulegri mynd á húsaskipanina. Rýmin eru í einfaldri röð og má vel greina hvar eldhús, baðstofa og búr hafa verið í húsaskipaninni. Tóftirnar eru grónar, en standa vel.
Selið skammt norðar eru miklu mun reglulegra og heillegra. Í því er miðhúsið heillegast; baðstofan. Í því sjást hleðslur í innanverðum veggjum. Dyr eru mót suðvestri. Veggirnir standa grónir.
Selvarða á Vestari-FlekkuvíkurselásnumStekkirnir gefa jafnan til kynna hversu margar selstöður hafa verið í hverju seli. Einungis einn stekkur virðist vera framan við framangreind tvö sel. Ef vel er að gáð má sjá að nýrri stekkur hefur verið hlaðinn upp úr eldri stekk. Fótstykki gamla stekksins sést norðan og austan við nýrri stekkinn, nú nær gróið yfir hann.
Vatnsstæðið sést enn á Nyrðri-Flekkuvíkurselásnum, norðavestan undir vörðubroti, sem þar er.
Nyrsta selið er líklega elst. Í því eru smæstu rýmin. Gengið hefur verið inn í baðstofuna og búrið frá sama stað; þ.e. búrið til suðurs og baðstofuna til austurs. Eldhúsið er rétt norðan við baðstofuna. Tóftirnar eru grónar. Stekkurinn frá þessu seli er í gróinni kvos skammt norðvestar.
Þegar selstöðurnar voru gistaðar í austanáttinni mátti vel finna hvers vegna þeim var valin þessi staðsetning.
Ein tóft, stök, skammt norðan nyrstu selstöðunnar, hefur vakið vangaveltur. Nú var hún gaumgæfð bæði vel og vandlega. Niðurstaðan er að þarna hafi verið kolagröf. Í tóftinni má sjá ferkantaðar hleðslur og virðist hafa verið hróflað að hleðlsunni. Það verður að þykja eðlilegt þarna því undir er slétt hraunhella í allar áttir. Sennilega má finna undir gröfinni gat á hraunhellunni. Hlaðið hefur verið upp með gatinu og þá myndast þetta mannvirki, sem virðast þá vera leifar fyrrum kolagerðar í heiðinni, sem áður var skógi vaxin. Kolagröfin er við hliðina á elsta selinu í Flekkuvíkurselstöðunni og verður því að teljast til eldri minja – og þar með sérstaklega áhugaverð fornleif.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Afstapahraun

„Það eru margir arnstaparnir í þessu Afstapahrauni“ varð einum að orði er hann gekk um hraunið norðanvert. Víða standa háir stöplar upp úr úfnu apalhrauninu, sem varla væri fótum fært nema vegna hins þykka gambra er þekur það að miklu leyti. Hraunið er skreytt margvíslegum steinmyndum auk þess sem steingert víkingaskipt trjónir þar á brúninni þar sem sést ofan af henni til sjávar. Engu er líkara en það hafi dagað þarna uppi þegar hraunið rann tæpum 200 árum eftir norrænt landnám á svæðinu.

Fagravík

Að þessu sinni var ferðinni beint um Kúagerði og Afstapahraunið yngra neðanvert. Hraunið hefur runnið um 1150 frá gígum sem eru vestan undir Trölladyngju og þaðan til norðurs alveg í sjó fram í Vatnsleysuvík á Vatnsleysuströnd. Heildarlengd hraunsins er um 10 kílómetrar.
Í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir m.a.: „Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur.
FögruvíkurvarðaÞá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.“
Í annarri lýsingu fyrir sömu jörð segir: „Út með sjó er klettur, sem nefnist Skuggi. Þá er Mölvík og Fagravík þar nokkru utar. Austast við hana er Markavarðan. Þórðarhóll eða Þórðarklettur var þarna á sjávarkampinum, nú horfinn. Hann á að hafa staðið í miðju Látratúni. Markavarðan var einnig kölluð Fögruvíkurvarða.
SkuggiÚr Markavörðu lá landamerkjalínan milli Hvassahrauns og Vatnsleysu í Afstapavörðu eða Afstapaþúfu, sem stendur á Afstapa eða Afstapahrauni. Þaðan liggur línan um Afstapabruna. Í gömlum skjölum og annálum mun talað um Arnstapa, Arnstapahraun og Arnstapaþúfu eða -vörðu. Landamerkjalínan liggur svo áfram í Snókafell, þaðan um Lambafell í landamerkjalínu Krýsuvíkur.“
Þegar skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu um sama svæði segir: „Stekkhóll er stór hóll með fjárhúsi, hjá því er Steinkeravík innan við Stekkhólinn. Þá er Akurgerði, þar var bær endur fyrir löngu og Kúagerði er þar við hraunendann, þar er pollur ofan við veginn, hér er gamall áningastaður og niður af þessu er í fjörunni Hrafnaklettur. Þar sem hin fornu merki Stærri-Vatnsleysu og Akurgerðis [voru] er hóll með vörðubroti og heitir Fagurhóll. Sagt er að hraun þetta sem hér liggur fram í sjó og heitir það Afstapahraun, allmikið flæmi, talið er að það hafi farið yfir tvær jarðir, Akurgerði og Látra.
AfstapaþúfaÚr Merkjanefsvörðu liggur landamerkjalínan milli Vatnsleysu og Hvassahrauns í Afstapavörðu á Afstapa eða Afstapaþúfu. Síðan liggur línan um Afstapahraun í Snókafell mitt og um Snókafellshraun en hraunin eru einnig kölluð Bruni. Síðan liggur línan upp um Lambafellshraun um Lambafell og Klofningsfell og áfram í landamerki Krýsuvíkur.
Til er vísuhelmingur, hafður eftir Halldóri Jónssyni hertekna:
Er nú komið yfir um sinn
Arnstapahraunið hvassa.
SteinmyndEr því vitað að hraun þetta hefur borið nafnið Arnstapahraun og þar af leiðir Arnstapavarða, Arnstapaþúfa og þá Arnstapi. Sunnan undir (vestan undir) Arnstapa er lægð með vatni eða tjörn, heitir Kúagerði og Kúagerðistjörn. Nú hefur Reykjanesbrautin verið lögð um tjörnina og henni skipt. Síðan heitir þarna Afglapi til minningar um verknaðinn. Upp frá Kúagerði liggja troðningar með hraunbrúninni, mætti nefna þá Kúagerðistroðninga því um þá var rekinn búsmalinn ofan úr Flekkuvíkurseli og jafnvel Rauðhólsseli.
Gráhella heitir lítill tangi í hraunbrúninni sem þó ber vel við af sjó og er því mið. Rétt þar við var í eina tíð hellir, Gráhelluhellir. Nokkru ofar er troðningur eða stígur og liggur upp í Brunann, nefnist Tóarstígur. Hann liggur í Tóurnar sem eru sjö. Þar var haglendi sæmilegt og er talið að þarna hafi vermenn eða útróðramenn haldið hestum sínum á vertíðum. Neðsta er tó eitt og hefur henni verið spillt allmjög við grjótnám til Reykjanesbrautar.
GerðiTó tvö er þar nokkru ofar og stígur þar í milli en Tóarstígur er gegnum allar Tóurnar. Þar sem hallar niður í þessa tó hefur verið hlaðinn garður svo gripir kæmust þar ekki út og burt. Tó þrjú er talsvert minni en þar er mikið jarðfall eða ker, Tóarker, er þar gott skjól. Tó fjögur er litlu stærri. Milli tó tvö, þrjú, fjögur eru hraunklif og ekki auðveld stórgripum. Þá kemur tó fimm sem er stór og allmjög vaxin hrísi og birki, nefnist því Hrísató.
Tóft

Suðvestur úr henni liggur stígur og nefnist Hrísatóarstígur. Er sýnilegt að farið hefur verið um hann með hesta. Þá kemur tó sex sem er eiginlega samtengd tó fimm.
Hér breikkar allt og upp af þessari er svo tó sjö sem kölluð er Seltó. Spurst hef ég fyrir um sel þar, enginn kannast við það en nokkur beit getur verið þarna og má vera að búsmala úr Rauðhólsseli hafi verið haldið hér til haga. Vestur úr þessari tó liggur troðningur, Seltóarstígur. Vestur og upp undir Brunaveginum, vegur sem Vatnsleysumenn hafa gert upp um Brunann, er varða, Seltóarvarða og þar rétt hjá er tófugren, Seltóargren og er þá komið að veginum. Upp á Brunanum austur af Tó tvö er hraunhóll mikill, Snókhóll. Bruninn vestan Seltóar nefnist Seltóarhraun.“
TóftEkki var gengið upp í gegnum Tóurnar að þessu sinni. Jónas Þórðarson segir eftirfarandi í lýsingu sinni um Vatnsleysu: „Austurmörk Vatnsleysulands hefjast á dálitlu klapparnefi nokkrum metrum austan við smávík, sem Fagravík heitir. Til skamms tíma var þarna merkjagirðing Hvassahrauns og Vatnsleysu, og náði hún fram í sjó. Mörkin liggja næst um allháan hraunhól í hraunjaðrinum rétt ofan við þjóðveginn, og nefnist hann Afstapi. Á honum er lítil, grasi gróin þúfa, Afstapaþúfa. Hraunið frá sjó og óvíst hvað langt upp eftir er kallað Afstapahraun. Rétta nafnið er að öllum líkindum Arnarstapi, Arnarstapaþúfa og Arnarstapahraun. Næsta kennileiti er um fell eitt allstórt, sem er rúmlega miðja vegu að endamörkum. Heitir það Snókafell. Hraunið þar við er kallað Snókafellshraun. Þaðan liggur svo línan um fell efst við hraunjaðarinn, sem heitir Lambafell, svo úr Lambafelli að Krýsuvíkurlandi.“
MosaÞegar gengið var um Kúagerði komu í ljós tóftir á tveimur stöðum auk gerðis vestast á Bökkunum. Uppi í hraunbrúninni mátti sjá að núverandi Afstapavarða hefur verið hlaðin ekki fyrir svo langa löngu, væntanlega þó á Afstapaþúfu. Gamall stígur hefur legið upp á hraunið við tóft eina vestur undir hraunbrúninni í Kúagerði. Stígurinn er nú þakinn mosa, en auðvelt er að fylgja honum upp á hraunið og áleiðis yfir það, uns komið er að raski, sem þar er.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun og Vatnsleysu.

Kúagerði

Kúagerði.

Knarrarnes

Brunnurinn norðvestan við bæinn (Húsið) Hellur á Vatnsleysuströnd dæmigerður fyrir fyrrum hlaðna brunna, þ.e. eldri en fyrir aldamótin 1900.  Hann er í gróinni lægð milli lágra holta, rétt neðan við Digruvörðu.
BrunnurinnÁ Knarrarnesi stóðu bæir Knarrarneshverfis; Minna-Knarrarnes vestar með þurrabúðina Hellur og Vík, Stóra-Knarrarnes innar eða austar. Þar var oft tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær.
Þurrabúðin Hellur er í Hellnatúni eða Hellnaflöt, Hellnalóð. Bæirnir stóðu í Knarrarnestúni. Litla-Knarrarnes var vestar í Litla-Knarrarnestúni. Frá bæ lá Litla-Knarrarnesgatan upp á veg. Í túninu var Litla-Knarrarnesbrunnur.
Ofan við þjóðveginn er þessi hlaðni brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir, heimalingur í Minna-Knarrarnesi, hafa stundum séð vatn efst í brunninum. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Staðsetningin gæti líka hafa komið til af staðsetningu þurrabúðanna. Fornfáleg hlaðin rétt er skammt ofar. Hún er sigin í jarðveginn, en má sjá móta fyrir henni.
Úr Digravörðu liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið. Talið er að varðan hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Þegar hér er komið við sögu hefur FERLIR skoða 158 gamla brunna og vatnsstæði á Reykjanesskaganum (2009).

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Minna-Knarrarnes.

Hellur

Hellur – leikmynd.

Þegar gengið var upp í Vogasel í Vogaheiði fyrir skömmu var sérkennilegur hlutur fyrir fótum fólks; grár ílangur hólkur með amerískri áletrun.
Af áletruninni að dæma gæti þarna verið um einhvers Dufliðkonar mælitæki að ræða. Ekki var að sjá snúrur eða tauma er gátu gefið til kynna tengsl þess við uppihaldið, en tækið virtist hafa fallið af himnum ofan og það ekki alveg nýlega. Þetta virðist vera einhverskonar dufl þar sem dýptin er stillt. Stærðin er ca. 100 x 12 cm og í annan andann er skrúgangur fyrir einhverja viðbót (sést illa á myndinni). Þetta liggur við Vogaselsstíginn nokkru ofan við Stóru-Aragjá.
Á duflinu er áritunin „DIFAR“ sem og tölustafir og leiðbeiningar. Skv. því hefur hér verið um að ræða dufl frá ameríska hernum til að leita að og hlusta eftir ferðum kafbáta. Ólíklegt verður þó að telja að kafbátar hafi nokkru sinni átt leið um Vogaheiði.
Duflið, eða leifarnar af því,  mun hafa verið svonefnt Sonobuoys tæki búið sendi og mótakara til Dufliðað nema hljóð í sjó. Reyndar munu vera til þrjár tegundir af Sonobuoy;  viðbregðin, gagnvirk og til sérstakra nota. Fyrstnefnda er búið nema er hlustar eftir hljóði „skotmarksins“. Gagnvirka tegundin sendir merki og hlustar eftir endurkomu þess frá hlut. Síðastnefnda tegundin er notað til að safna tilfallandi upplýsingum, s.s. um hitastig sjávar, ölduhæð o.s.frv.
Duflunum er kastað frá flugvélum úr u.þ.b. 30.000 feta hæð. Staðsetningarbúnaður segir til um hvar duflin eru staðsett á hverjum tíma. Frá þeim má síðan lesa þær nákvæmu upplýsingar, sem þau safna á meðan á líftíma þeirra varir. Að honum loknum er viðkvæmum tækjabúnaði eitt og duflin falla til botns.
DufliðDuflin virka allt upp í 8 klst notkun allt niður á 1000 feta dýpi. Venjulega eru þau stillt með sérstökum rekbúnaði inn á að dvelja um stund á ákveðnu dýpi, s.s. 60, 90 eða 900 fetum í tiltekinn tíma; t.d.  eina klst, þrjár klst eða átta klst til að safna upplýsingum. Þau hafa einnig verið notuð til að fylgjast með og rekja ferðir hvala sem og staðsetja eldvirkni á hafsbotni.
Duflið í heiðinni mun vera hluti af slíkum hlustunarduflum.
En hvernig er kafbátahlustunardufl komið alla leið upp í ofanverða Vogaheiði? Fleiri en ein skýring getur verið á því. Ein er sú að duflið hafi fallið úr eða verið kastað út úr flugvél á leið yfir svæðið. Hugsanlega hafi verið um gallað tæki að ræða. Duflunum er komið fyrir í sérstökum „sleppurum“ og gæti það hafa „sloppið“ þaðan þegar flogið var yfir svæðið, t.d. inn til lendingar á Keflavíkurflugvöll.

 

Hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir tilkomu tækisins þarna í Vogaheiðinni þá er eitt alveg víst; það er þarna enn.

Duflið í Vogaheiði

 

Grímshóll

Stapinn virðist lítt áhugaverður, a.m.k. þegar ekið er eftir Reykjanesbrautinni. Hann lætur ekki mikið yfir sér (fer reyndar huldu höfði) þegar litið er til hans úr suðri, en úr vestri og norðri horfir allt öðru vísi við.
Hólmabúð fjær - Stapabúð nærVogastapinn, sem er um 80 metra hár, hét fyrrum Kvíguvogabjarg og Kvíguvogastapi, en er stundum kallaður Stapi. Hann er á milli Voga og Njarðvíkur og þverhníptur í sjó framað norðanverðu. Uppi á hæstu brún trjónir Grímshóll. Sorpi af Keflavíkurvelli var löngum ekið út á Stapa og sturtað fram af berginu. Enn má sjá leifar þessa óþrifnaðar, en hann er þó á hverfanda hveli.
Stapinn er hvað kunnastur fyrir Stapadrauginn. Reykjanesbraut liggur um sunnanverða undirhlíð Stapans og enn þá verður næmt fólk, sem þar er á ferðinni, vart við eitthvað óhreint. Vegurinn lá fyrr á öldum nokkru norðar, þ.e. um Reiðskarð, en var síðar færður sunnar uns núverandi vegstæði varð fyrir valinu. Ástæðan fyrir órökkrinu er væntanlega sú að áður fyrr fóru sumir ferðamenn sér að voða á leiðinni og gengu jafnvel fyrir björg.  Eftir að bílvegurinn var lagður hafa sprottið upp alls konar draugasögur, s.s. að farþegi hafi skyndilega verið kominn í aftursætið eða gangandi vegfarandi hafi verið tekinn með á Stapanum og hann skyndilega horfið úr bílunum. Margir telja sig hafa séð þar mann á ferðinni með höfuðið undir hendinni. Einungis er vitað um að einu sinni hafi tekist að ná mynd af draugsa á Stapanum, en hún virðist óskýr.
Leifar KerlingarbúðarUndir Stapanum eru allnokkrar minjar, þ.á.m. Kerlingarbúðir. Búðirnar heita svo vegna þess að útróðramenn er þar voru tóku kerlingu er hjá þeim var matselja, drápu hana og notuðu í beitu. Einn mannanna vildi ekki taka þátt í ódæði þessu. Áður en vermenn þessir reru síðasta róðurinn birtist hún manni þessum í draumi og bað hann að róa ekki þennan róður. Gerði hann sér upp veiki og lá eftir. Vermennirnir drukknuðu allir í þessum róðri.
Fiskislóðin Gullkista er undir Stapanum. Nafn hennar varð til vegna mikillar og góðrar veiði á miðunum í Stakksfirði, en svo nefnist fjörðurinn, sem Stapinn stendur við, en Vogavík innar nær Vogum. Til er þjóðsaga, sem segir frá göngum undir Reykjanes frá Gullkistu til Grindavíkur, þar sem fiskur gekk greitt á milli. Nokkrar verstöðvar voru undir stapanum á dögum árabátaútgerðarinnar en ummerki þeirra eru óðum að hverfa. Meðal þessara verstöðva var Hólmabúð, sem kennd var við hólma skammt undan landi. Haraldur Böðvarsson hafði aðstöðu í þessum hólma, þegar hann byrjaði úrgerð sína á Suðurnesjum. Síðar flutti hann starfsemina til Sandgerðis og endanlega til Akranes. Hvorki Vogabúar né Sandgerðingar voru par ánægðir með viðskilnaðinn, hvorir á sínum tíma. Innar eru minjar Stapabúðar, enn einnar verstöðvarinnar.
Camp Dailey
Bandaríski herinn byggði fullkomið sjúkrahús í suðurhlíðum Stapans í síðari heimsstyrjöldinni en hann brann skömmu síðar. Herinn byggði og rak líka mikilvæga fjarskiptastöð á Stapanum og veggir þess húss standa enn þá. Uppi á efstu brúnum Stapans byggðu þeir vígi, þar sem þeir gátu fylgzt vel með umferð á Faxaflóa sunnanverðum. Hleðslurnar sjást enn utan í Grímshól.
Nokkurn spöl vestar gengur Skollanef í sjó fram og vestan þess er Gilið, grasi gróið frá fjörugrjóti og upp á brún. Þegar komið er út fyrir Gilið fer landið hækkandi upp á Grímshól. Neðan Grímshóls gengur klettanef í sjó fram sem heitir Hólnef.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Þjóðsaga er til um Grím nokkurn af Rangárvöllum sem réði sig í skipsrúm til huldumanns á þessum slóðum og varð að lokum bergnuminn í Grímshól. Mölvík er rétt vestan við Hólnefið, lítil bogmynduð malarfjara. Í víkinni vex gróskumikil hvönn.

Stapinn

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Stapinn er bæði skjólgóður og sagnaríkur staður. Um hann ofanverðan liðast Stapagatan milli Reiðskarðs og Stapakots í Innri Njarðvík. Skammt frá henni má greina gamlar tóftir norðan undir Narfakotsborginni (Grænuborg), gróinni fjárborg við sjónarrönd. Líklegt er að þessar minjar og fleiri munu hverfa fyrir fullt og allt vegna framkvæmdargleði Njarðvíkurmegin.
Líklega eru mikilvægustu minjarnar á Njarðvíkurheiðinni gróinn fótur landamerkjavörðu. Þegar höfnin var byggð í Vogum var allt tiltækt grjót tekið og sturtað í höfnina, m.a. þessi varða. Stærsta og þyngsta grjótið varð jafnan eftir og má því sjá þess merki á lágum klapparhól skammt vestan við núverandi Reykjanesbæjarskilti og Rockvillestíl. Ef tekið væri af þessu kennileiti mið í Innri-Skoru annars vegar og Arnarklett við Snorrastaðatjarnir hins vegar – enda sjónhending þar á millum – myndi land Voga stækka sem því nemur. Ekki er óraunhæft að ætla, og eflaust eru til gögn þessu til staðfestingar. Bara það eitt væri hið ágætasta efni í enn eina þjóðsöguna.Stapinn

Fálkaþúfa

Stapinn geymir ýmislegt ófyrirséð. Þegar FERLIR var á ferð þar nýlega, hafði gengið hina gömlu þjóðleið upp Reiðskarðið og beygt áleiðis yfir í Kvennagönguskarð, sló sólarblett á stóra grassyllu undir ofanverðu hamrabeltinu. Augljóst mátti telja að þarna hefði verið fjárathvarf fyrrum. Þegar komið var inn á sylluna kom í ljós lítill en aflangur skúti inn undir bergið. Þar fyrir innan var spýtnabrak og fleira er einhverjir höfðu komið þar fyrir. Frá munnanum var ágætt útsýni yfir Vogavíkina og Voga.
SyllanÍ örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Voga segir m.a: „Grímshóll er þar efstur, allfrægur úr þjóðsögum. Herjanssæti og Grímshóll mun vera tengt nafni Óðins, æðsta goðs Norðurálfumanna. [Herjanssæti er á landamerkjum Stóru-Voga og Innri-Njarðvíkur við svonefnda Kolbeinsskor.] Austur og inn frá Skor koma björgin með ýmsum nöfnum svo sem Hamarinn, Eggjar og Snös. Þarna er einnig að finna nöfn eins og Hamrabrúnir, Stapabrúnir eða Brúnir og svo eru þarna niður undan Hamraskriður eða Brúnaskriður. Þá kom laut í Brúnirnar og nefndist Gil og lá þar upp með stígur erfiður uppgöngu, nefndist Heljarstígur.
HellirinnHér nokkru innar er svo Brekkuskarð eða Brekkuskor og lá þar upp Brekkustígur og var þar sæmilega auðvelt uppgöngu. Litlu innar var svo Rauðastígur. Nokkru innar er svo Kvennagönguskarð og þar lá upp Kvennagöngu-skarðsstígur. Svo er litlu austar Reiðskarð með Almenningsveginum, Gamla- og var bratt upp að fara. Vestan í skarðinu er lítill hamar og þar í Skútinn eða Hellirinn, var þar fjárskjól allgott. Austan við Reiðskarð er svo Hamarinn, Eystri-. Upp á Hamrinum er Fálkaþúfa og Gjögur. Austan til við Hamarinn lá þjóðvegurinn upp á Stapann í sveig og nefndust þar Moldbrekkur. Upp og austur af Brekkuskarði er Kálgarðsbjalli og þar litlu austar er Miðbjalli og þá Lyngbjalli og Mýrarbjalli. Þar sem Reykjanesbraut liggur upp á Stapann nefndist Lágibjalli. Þar litlu vestar er Hærribjalli eða Stærribjalli og einnig nefndur Háibjalli. Undir bjöllunum eru svo Bjallabrekkur og þar er skógræktargirðing Félags Suðurnesjamanna.“
Þegar FERLIR var inni í Hellinum mátti allt í einu heyra barnsrödd fyrir utan: „Er þetta Hellirinn, pabbi?“ Var þar kominn lítill snáði með pabba sínum, afkomendur Guðmundar Björgvinssonar frá Brekku undir Stapanum. Var faðirinn að sýna syninum hinn alkunna Helli, „sem sæist svo vel frá Vogum“.
Í leiðinni var kíkt á Fálkaþúfu, sem er áberandi á Stapanum frá fjárskjólinu séð. Vestan við það er stærðarinnar bjarg, sem hefur á jökulruðningstímanum náð að tylla sér um stund á smærri steina – og staðnæmst þar um þúsundir ára.
Frábært veður. Gangan tók 22. mín.

Heimild:
-Örnefnalýsing Voga (GS).

Stapinn

Fjárskjól í Vogastapa.

 

Snorrastaðatjarnir

Ísleifur Jónsson (f:1927), verkfræðingur frá Einlandi í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, hefur kynnt sér mjög vel landamerki Grindavíkur annars vegar og nágrannabyggðalaganna hins vegar. Hann er ekki í nokkrum vafa um að landamörk Grindavíkur og Vatnsleysustrandarhrepp séu rangt skráð á nýmóðins landakort sem og jafnvel sum þeirra eldri. Sneið norðan við Litla-Skógfell ætti með réttu að tilheyra Grindavík – og þar með Þórkötlustaða-hverfisbæjunum, sbr. landamerkjalýsingu frá árinu 1890, en ekki Vatnsleysustrandar-hreppi, eins og vilji væri til í dag – hvernig sem það væri nú allt til komið?
SkógfellavegurAð hans sögn voru öll hornmörk Grindavíkur fyrrum svo og Grindavíkur-jarðanna klöppuð með bókstöfunum „LM“. Þannig hefði t.d. mátt sjá LM á steini (Markasteini við Markalón) í fjöruborðinu ca. 60 m vestan við Þórkötlustaða-nesvita (Nesvita) þangað til óveður árið 1942 hefði þakið hann grjóti. Steinninn væri landamerki Hóps og Þórkötlustaða. Þaða hefði línan legið upp í Moshól og um Skógfellin (Stóra-Skógfell og Litla-Skógfell), í klett norðan við það síðarnefnda og áfram að mörkum Vatnsleysu-strandarhrepps, í klöpp austan gömlu götunnar (Skógfellavegar) þar sem hún beygir til norðurs að Vogum. Í klöppina hafi verið klappaðir bókstafirnir „LM“. Austan við merkið hefði verið reistur mannhæðahár steinn.
VarðaÞetta vissi hann því fyrir u.þ.b. 70 árum hefði hann verið sendur til að smala Grindavíkurlandið ásamt öðrum. Hefði hann verið vestastur smalanna (þ.e. farið var upp frá Vogum) að mörkum sveitarfélaganna og þeir beðið við steininn. Á klöppina, sem hann hafi síðan hafið smalagönguna áleiðis til Grindavíkur, u.þ.b. 1.5 km norðan við Litla-Skógfell, hefði þessi áletrun verið greinileg. Hún hafi verið vestan við nefndan stein. Allir fjárbændur í Grindavík fyrrum, ekki síst í Þórkötlustaðahverfi, hefðu vitað af klöppinni og merkingunni. Hún hafi verið í línu millum Arnarkletts sunnan Snorrastaðatjarna (þar sem „LM“ ætti að vera klappað). Ekkert merki hefði verið á þeirri klöpp norðan við Litla-Skógfell sem Vatnsleysustrandarbændur hefðu löngum talið mörkin liggja um. Þau hefðu fremur verið óskhyggja en staðreyndir og eru að öllum líkindum runnar undan rifjum Vogabænda.
HellaÞegar skoðaðar voru markalýsingar Grindavíkur annars vegar og Vatnsleysustrandarhrepps annars vegar kom ýmislegt áhugavert í ljós – og ekki allt samkvæmt bókinni.
Í lýsingu fyrir Voga segir m.a. um markalínuna á þessum slóðum: „Úr Vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla-Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna.“ Þetta er eina lýsingin sem getur þess að mörkin liggi um Litla-Skógfell norðanvert. Í jarðalýsingu Vatnsleysustrandarhrepps segir hins vegar: „Þar austar er svo annað lágt fell á merkjum, Kálffell.“

Svæðið

Í lýsingu Þórkötlustaða segir: „Úr Stóra-Skógfelli liggur markalínan í gjána í Kálffelli en það er lágt fell eða bunga sem er framarlega í Kálffellsheiði. Frá Kálffelli liggja landamerkin í Vatnskatla í Fagradals-Hagafelli og þaðan í Innstuhæð á Vatnsheiði.“ Hafa ber í huga að Litla-Skógfelli er sleppt í þessari lýsingu, enda engin mörk þar. Þarna er Kálffellið á landamerkjum.
Í lýsingdu Þórkötlustaðahverfis segir ennfremur: „Samkv. þessu er Sandhóll sem er vestur af Kasti og Fagridalur sem er kvos inn í Fagradalsfjall austan við Aura í landi Þórkötlustaða. Fagradals-Vatnsfell sem er norðvesturöxl Fagradalsfjalls er sömuleiðis í landi Þórkötlustaða. Aurar heita melar innan við og austan Dalahraun og þar norður af eru grasflatir sem heita Nauthólaflatir. Þar var heyjað af bændum á Þórkötlustöðum. Vesturhluti Beinavörðuhrauns nær vestur í land Þórkötlustaða.“
ummerkiHér er augljóst að allt land innan við Litla-Skógfell, þar með talinn Fagridalur, tilheyrir Þórkötlustaðabæjunum sex; þ.e. Þórkötlustöðum I, II og III sem og Klöpp, Buðlungu og Einlandi.
Þegar skoðuð eru landamerki Hrauns kemur eftirfarandi fram: „Þaðan til vesturs sunnanvert við Keili um Vatnskatla og í Kálffell, sem er lágt og frekar lítið áberandi fell.“ Merkin eru gjarnan miðuð við Kálffell. Ágreiningurinn hefur hins vegar staðið um sneiðingin suðvestan við Kálffellið.
VörðurAri Gíslason segir m.a. í örnefnalýsingu sinni um Voga: „Suður frá Vogunum lá æfaforn vegur sem nefndur er Sandakravegur. Hefur hann verið mikið notaður ef marka má það að sumstaðar eru þar djúp för niður í hraunklappirnar. Vegur þessi lá að Ísólfsskála í Grindavík… Ofanverðu við Stóru-Aragjá skiptist vegurinn og heitir sá vestri Skógfellsvegur. Krókar heitir svo á Stóru-Aragjá niður af felli því sem heitir Litla-Skógfell.“
Samkvæmt lýsingu Ara, sem var nákvæmnismaður í lýsingum sínum (skrifaði fremur stuttar lýsingar en lengri ef skipin lágu þannig) voru Skógfellavegirnir tveir. Það verður að þykja athyglisvert því löngum hefur önnur gata, auk Skógfellavegar, verið merkt inn á landakort. Sú gata á að hafa legið um Fagradal (Nauthólaflatir), Mosadali og inn á Skógfellaveginn (Sandakragötuna) á fyrrnefndum mörkum.
BrakiðÍ vettvangsferð um Skógfellaveginn (algerlega í hlutlausum gír) var hann fetaður frá Vogum allt að Litla-Skógfelli (4.7 km í beinni línu). Þegar hnit voru tekin við Litla-Skógfell og gengið til baka (eftir símtal við Ísleif) var ljóst að ganga þurfti ca. 1.5 km bakleiðis. Eftir 1.2 km var gengið út úr apalhrauni austasta hluta Sundhnúkagíga-raðargossins (frá ca. 1220) inn á slétt helluhraun (Skógfellahraunið, ca. 11.500 > 8000 ára). Þar var komið inn á sléttar hellur í hrauninu þar sem gamla gatan var vel mörkuð. Á einum stað, þar sem gatan beygir til suðurs, mátti telja augljóst að væru mörk. Þrátt fyrir ítarlega leit í skamman tíma var ekki hægt að finna þarna áletrunina „LM“. Ef góður tími væri gefin til leitarinnar mætti eflaust finna hana þarna. A.m.k. gaf staðsetningin tilfinningu fyrir einhverju væntanlegu.
BrakÞegar staldrað var um stund á þessum stað virtist augljóst að um landamerki væri að ræða. Suðaustan við staðinn var skófvaxin varða með stefnu í Kálffell. Norðvestan við hann var hraunhóll með gróinni vörðu. Fjær hafði hella verið reist við með tilheyrandi stuðningi. Stefnan á framangreindu var á fyrrnefndan Arnarklett sunnan  við Snorrastaðatjarnir.
Þegar kennileiti á línunni milli Kálffells og Arnarkletts voru skoðuð kom margt forvitnilegt í ljós. Hvarvetna eru fallnar grónar vörður á hólum, hæðum og á gjám eða ummerki um slíkt, s.s. uppreistar hellur, hringhleðslur o.fl. Á einum stað virtist augljóst að vörðu hafði verið raskað, af óljósri ástæðu.
SkógfellavegurÍ landamerkjalýsingu Þórkötlustaða frá 1890, undirrituð af fulltrúum allra jarðanna og staðfest af sýslumanni, segir m.a. um markalínuna: „…sjónhending í toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli… Einkennismark markalínunnar er L.M. er þýðir landmerki…“. Í lýsingunni er vitnað í landamerki frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620.
Telja verður, af vettvangsferðinni lokinni, að landamerki Vatnsleysustrandar-hrepps og Grindavíkur hafi fyrrum legið um Arnarklett í Kálffell og þaðan í Vatnsfell-Hagafell (Vatnskatla). Því má telja, án efa, að Fagridalur og Nauthólaflatir hafi fyrrum tilheyrt Þórkötlustaðalandi, líkt og heimildir um selstöður (Dalssel) segja til um.
FERLIR hefur ógjarnan blandað sér í landamerkjamál og -deilur, hvort sem um er að ræða einstakar jarðir eða fyrrum hreppa. Í þessu tilviki verður þó varla hjá því komist sökum réttmæts rökstuðnings þess og þeirra er mest og best hafa kynnt sér málavexti.
Fljótlega verður farið aftur á vettvang og þá með Ísleifi Jónssyni með það fyrir augum að staðsetja L.M. merkið á hellunni við nefndan stein rétt við gömlu götuna, sem þar er enn mjög greinileg.
Þegar niður á neðanverða Vatnsleysustrandarheiðina kom mættu þátttakendum tokennilegt brak; sennilega af einhverjum beltabryndreka hernámsliðs fyrri tíðar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín, enda voru gengnir 12.3 km með tilheyrandi frávikum fram og aftur um hraunhellurnar. 

Heimildir m.a:
-Ísleifur Jónsson, f: 22.05.1927.
-Örnefnalýsingar fyrir Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og Hraun.
-Landamerkjalýsing fyrir Vatnsleysstrandarhrepp.
_Landamerkjalýsing Þórkötlustaðahverfis 20. júní 1890.
-Vettvangsferð.

Skógfellastígur

LM-merki á Steini við Skógfellastíg.

Stóru-Vogar

17. Vogar – Ytri-Njarðvík

-Vogar
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga.
Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti. Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð, þar sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð og úr var Stóru-Vogar. Þar fæddist Páll Eggert Ólafsson (1883-1949) prófessor. Páll er einn mikilvægasti sagnfræðingur Íslands fyrr og síðar.
Stóru-VogarÁrið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stopplabryggja og fiskhús reist. Árið 1942 var reist hraðfrystihús. Margt er að skoða í nágrenni Voga og eru þar margar skemmtilegar og áhugaverðar gönguleiðir og sérkennileg náttúra allt í kring. Fyrirhugað var að reisa álver á Keilisnesi við Voga en því hefur nú verið frestað, hvað sem síðar verður. Sterkasti maður landsins Jón Daníelsson bjó í Vogum og á hann að hafa flutt til bjarg eitt mikið með eigin afli. Hann lézt ungur og er bjargið nú minnisvarði um hann við Vogaskóla.
Vegalengdin frá Reykjavík er 44 km.

-Landnámsmenn

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti.

-Íbúafjöldi
1. desember 2004 voru íbúar 939. Þar af voru karlar 486 og konur 453.

-Hvað gerir fólkið þar til að framfleyta sér?

Vogarétt

Vogarétt.

Aðallega þjónusta, opinber störf, verslun og sjósókn. Margir stunda vinnu utan þorpsins, s.s. á höfðuborgarsvæðinu, enda er ekki nema u.þ.b. 15 mín. keyrsla til Hafnarfjarðar. Voga- og Vatnsleysustrandarbúar hafa haft hug á því að sameinast Hafnfirðingum. Ástæðan er hræðsla við að sameinast Reyknesbæingum, sem jafnan virðast hafa sýnt nágrönnum sínum yfirgang. Ekki meira um það því leiðsögn á að vera uppbyggjandi.

-Vogastapi
Hét á landnámsöld Kvíkuvogsbjarg en seinna nefndur Vogastapi, stundum aðeins Stapi, einkum af heimamönnum. Grágrýtishæð (80 m.y.s.) milli Vogavíkur og Njarðvíkur, þverhníptur að framan en með aflíðandi halla inn til landsins.
Stapinn er gróðurlítill og víða mjög blásinn. Sunnan í honum liggur Reykjanesbraut. Af Grímshóli, hæst á stapanum er mikil og góð útsýn og einnig útsýnisskífa sem Ferðafélag Keflavíkur lét reisa. Grímshóls er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Á Vogastapa hefur þótt reimt allt fram á þennan dag enda hafa margir villst þar fyrr á árum í hríðarveðri og náttmyrkri og ýmist hrapað fram af Stapanum eða orðið úti. Áður fyrr vildu menn yfirleitt ekki fara yfir Stapann að næturlagi, væru þeir einir á ferð. Á seinni áratugum hafa sumir vegfarendur, sem leið hafa átt um Stapann þóst sjá þar mann á ferli með höfuð undir hendinni þannig á sig kominn átti hann það til að setjast inn bíla ef menn voru einir á ferð.

-Fiskeldi – sæeyru
Elur upp og ræktar sæeyru til útflutnings. Þarna starfa um 6 menn að jafnaði. Reksturinn virðist ganga vel. Skelin einkar falleg og litskrúðug.

-Stapinn – Stapabúð – Brekka – Hólmabúð – Kerlingarbúð

-Reiðskarð – Stapagata
Saga af konu með kú og hund í þoku – hvarf…

-Stapadraugurinn
Ökumaður sagði svo frá:
„Eitt sinn sem oftar var ég að koma af Suðurnesjum, eftir að hafa flutt þangað ýmsan varning. Þetta var í byrjun nætur, og var mér rótt í geði, þar sem ég sat einn í hlýju húsi vörubíls á nýjum steinsteyptum vegi. Þau stóðu þó ekki lengi rólegheitin mín, því að ég varð þess skyndilega var, að maður var kominn við hlið mér. Var hann klæddur hettuúlpu og sá ógerla í andlit honum, þar sem hann sneri því sem mest frá mér. Ég vissi ekki, hvaðan á mig stóð veðrið, og varð mér sem nærri má geta meir en illt við.
„Hvað ertu þú að gera hér?“ spurði ég hranalega og dró um leið úr hraða bílsins eftir megni, en ekki er gott að snarstanza í slíkri umferð eins og er á Keflavíkurvegi á nótt sem degi.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Engu svaraði maðurinn og sneri frá mér í sætinu eins og áður. Bíllinn var nú stanzaður og ég hugsaði mér að láta til skarar skríða við þennan óvelkomna gest, sem ég hugði helzt, að hefði komizt inn í bílinn, áður en ég lagði af stað, og ég hefði ekki tekið eftir honum þá.
En ekki þurfti að koma til átaka, því að eins skyndilega og farþeginn hafði birzt, hvarf hann nú og var aðeins autt sætið, þar sem hann hafði setið. Ég ók hálf utan við mig í bæinn og hef síðan sótzt eftir raunverulegum farþegum á þessari leið, sem öðrum, er ég hefi ekið. Hinir geta farið með öðrum en mér.“

Önnur saga:
Sigurður E. Þorkelsson, skólastjóri Holtaskóla og Gylfi Guðmundsson, skólastjóri Njarðvíkurskóla eru æskuvinir. Hafa ætíð verið miklir samgangar á milli þeirra til þessa dags. Í þann tíð bjuggu þau Gylfi og Guðrún, kona hans í Kópavogi og renndu þau einu sinni sem oftar suður í heimsókn í byrjun desember.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Segir ekki af veru þeirra í Keflavík, en langt eftir miðnætti lögðu þau af stað heim í kulda og kafaldsbyl. Er þau komu á mót við Grindavíkurafleggjarann, sjá þau mann við vegarkantinn sem biður um far með bendingu. Þau taka manninn uppí. Hann er úlpuklæddur að þeirra tíma sið, svo lítið sést andlit eða önnur sérkenni.Ekki líður á löngu en Gylfi, sá samræðumaður, vill spjalla við hinn farþegann og spyr hann allmæltra tíðenda. Ekki fær hann nokkurt svar. En hann heldur áfram að spyrja hann um erendi á Stapanum og annað í þeim dúr, en engin fær hann svörin. Finnst honum þetta nokkuð einkennilegt og lítur í baksýnisspegilinn og sér þá að enginn er í aftursætinu. Þá lítur hann aftur og sér strax að enginn farþegi er þar afturí. Um hann fer ónotahrollur, enda vel kunnugur sögnum af Stapadraugnum. Hann snýr sér að konu sinni og biður hana að líta aftur í. Nú eru þau bæði orðin nokkuð hrædd og til að stappa í sig stálinu fara þau að syngja, enda bæði söngmenn góðir. Á þessu gengur þar til þau koma á mót við kirkjugarðinn í Hafnarfirði að rödd heyrist úr aftursætinu:
“Hér fer ég út.”
Til er skýring á þessu atviki. En það mun skemma söguna. svo hér læt ég staðar numið.

Og enn önnur saga:
Eitt kvöld ók leigubílstjóri úr Reykjavík suður til Keflavíkur til þess að sækja fólk. Hann var einn í bílnum. Á var dumbungsveður, en úrkomulaust og föl á jörðu. Þegar hann var á veginum milli Voga og Vogastapa sá hann, hvar maður stóð á vegarbrúninni, lítið eitt fram undan. Þegar hann kom nær, sá hann að hann var í hermannabúningi og taldi víst, að þetta væri Bandaríkjamaður að bíða eftir fari til Keflavíkur. Hann stöðvaði bílinn og bauð gestinum á ensku að gera svo vel að setjast inn. Sá anzaði ekki, en smeygði sér þegjandi inn og settist við hlið bílstjórans sem ók af stað. Hann fór að tala á ensku og spyrja manninn hvert hann væri að fara. En hann svarar engu, lítur ekki við honum og horfir beint fram. Þegar hann var kominn þangað upp í Stapann, sem braut lá út af veginum að braggahverfi, sem Bandaríkjaherinn hafði haft þar á stríðsárunum, þá sá hann að maðurinn var horfinn hljóðalaust úr bílnum.

Hólmfastskot

Hólmfastskot.

Seinna flutti sami maður eitt kvöld fólk úr Reykjavík  suður til Keflavíkur og fór þaðan til baka inn eftir um klukkan fjögur um nóttina. Hann var aleinn í bílnum og stanzaði hvergi. Þegar hann kom inn á Vogastapa, þar sem hann er hæstur, varð honum litið í spegilinn fyrir framan sig. Þá blasti þar við augum hans furðuleg sjón. Sá hann í speglinum, hvar tveir menn sátu hlið við hlið í aftursætinu. Hann sá að á þeim var nokkur aldursmunur, og var sá eldri með hatt á höfði, sem slútti niður yfir ennið, og bar hann hærra í sætinu. Manninum brá nokkuð við þessa sýn, en rétt á eftir að hún birtist í speglinum, vildi svo til, að bíll kom á eftir með sterkum ljósum, sem skinu litla stund inn í bíl hans aftan frá, og sá hann þá mennina í speglinum ennþá greinilegar. Enn sá hann þá betur, þegar hann var að fara niður Stapann og tunglið á himninum féll beint á spegilinn. Hann herti á akstrinum, því að hann kunni betur við að vita af bílnum á eftir sér en að verða einn eftir á veginum. Þarna sátu þessir náungar hreyfingarlausir, þar til hann var kominn eitthvað inn fyrir Voga. Þá hurfu þeir eins skyndilega og þeir birtust.
Sami bílstjóri var að flytja mann suður í Keflavík í ausandi rigni

ngu. Þegar hann var kominn uppundir hástapann á suðurleið, springur dekkið á öðru afturhjóli bílsins. Hann varð auðvitað að taka það af hjólinu og setti á það annað dekk, lítt notað. Síðan hélt hann áfram og skilaði manninum af sér í Keflavík og ók að því búnu sem leið lá til baka. En þegar hann kom nákvæmlega á sama stað og dekkið hafði sprungið á í suðurleiðinni, þá sprakk dekkið, sem hann hafði sett þar á hjólið. Hann tók það af og fór að bauka við að gera við það á afturgólfinu í bílnum, setti það svo á hjólið og hélt sína leið. Þessar bilanir fundust manninum mjög kynlegar, í fyrsta lagi vegna þess, að bæði hjólin skyldu springa nákvæmlega á sama stað og ennfremur af því, að þau voru bæði lítt slitin og vegurinn sízt verri þarna en annars staðar.

-Herspítalinn – Daily Camp
Fullkominn herspítali – rúm fyrir hundruðir hermanna. Enn sjást minjar eftir spítalann.

-Matjurtargarður
Hlaðnir utan í sunnanverðan stapann – atvinnubótavinna.

-Grindavíkurvegurinn 1914-1918
Minjar á a.m.k. 12 stöðum – hlaðin byrgi o.fl.

-Grímshóll – þjóðsaga

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er og getið um Norðlinga að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna. Landar hans gjörðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.

-Brúnavarða – markavarða
Önnur varða er úr henni innar á heiðinni, en menn hafa viljað gera sem minnst úr henni….

-Innri-Njarðvík – sagan
Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.

Sveitarfélögin Njarðvík, Keflavík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Njarðvík var áður skipt í Innri- og Ytri Njarðvík, sem seinna mynduðu eitt sveitarfélag. Byggðin í Njarðvík og Keflavík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki sjáanleg nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu það til kynna. Aðalatvinnuvegur Njarðvíkinga hefur löngum verið sjósókn og fiskvinnsla en iðnaður hefur vaxið mjög sem og þjónusta við Keflavíkurflugvöll, stærsta flugvöll á landinu.

Njarðvík

Innri-Njarðvík – Áki Grenz.

Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Eftir það var víkin kölluð Kirkju-Njarðvík. Fram til 1515 var Njarðvík í bændaeign en eftir það í eigu konungs að minnsta kosti til loka 18. aldar. Sveinbjörn Egilsson rektor bjó í Innri-Njarðvík.

Njarðvík

Njarðvík – Garðbær.

Fram til 1889 var Njarðvík hluti Vatnsleysustrandahrepps, en varð þá sjálfstætt sveitarfélag. Árið 1908 var Njarðvíkurhreppur sameinaður Keflavíkurkauptúni, enda var þar hluti verzlunarlóðar Keflavíkur innan Njarðvíkurhrepps. Njarðvíkurnar fengu þá sjálfkrafa verzlunarréttindi og hreppurinn fékk nafnið Keflavíkurhreppur.Árið 1942 var hreppunum skipt og Njarðvík varð aftur sjálfstætt sveitarfélag

Í Njarðvík er byggðasafn staðarins og þar hefur þurrabúðin Stekkjarkot, dæmigert heimili frá síðustu öld, verið endurbyggð. Í Reykjanesbæ er mikil körfuboltaiðkun og lið Njarðvíkinga er talið eitt hið bezta á landinu og keppir nær alltaf um Íslandsmeitaratitilinn, oftast við sveitunga sína frá Keflavík og Grindavík. Ferðaþjónusta er mjög vaxandi og stærsta verzlun á Suðurnesjum er í Njarðvík. Vegalengdin frá Reykjavík er 47 km.

-Innri-Njarðvíkurkirkja 

Innri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófstsdæmi. Hún hefur staðið í margar aldir í Innri-Njarðvík. Sú kirkja sem þar er nú var reist 1884-86, var hún vígð af prófasti séra Þórarni Böðvarssyni 18. júlí 1886. Hún er hlaðin úr handhöggnu grjóti, sem tekið var úr fjörunni og heiðinni, flutt á sleðum heim og höggvið þar; því verki stjórnaði Magnús Magnússon, múrari í Miðhúsum í Garði, sem einnig var yfirsmiður við Hvalsneskirkju. Þak var úr timbri, hellulagt. Ekki er vitað hver vann tréverkið. Ásbjörn Ólafsson, bóndi og hreppstjóri í Innri-Njarðvík stóð fyrir byggingunni.
Á árunum 1917 til 1944 var kirkjan lítt notuð sem sóknarkirkja og sóttu Njarðvíkingar kirkju til Keflavíkur. Árið 1944 var kirkjan lagfærð, m.a. smíðaður nýr turn eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar, húsameistara ríkisins. Fékk kirkjan töflu þá sem nú prýðir hana að gjöf, það er málverk eftir Magnús Á. Árnason, myndlistarmann. Var hún sett upp á endurvígsludeginum.

-Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson (1791-1852).

Sveinbjörn Egilsson (1791–1852), fornfræðingur, skáld og þýðandi.
Fæddur í Innri-Njarðvík 24. febrúar 1791, sonur Egils Sveinbjarnarsonar og Guðrúnar Oddsdóttur. Sigldi til Khafnar 1814 og lauk guðfræðiprófi 1819, ráðinn kennari að Bessastaðaskóla sama ár og kenndi þar grísku og sögu. Dvaldist í Kaupmannahöfn 1845-1846 og varð 1847 fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Eftir uppreisn skólasveina 1850, svokallað pereat, þar sem Arnljótur Ólafsson fór fremstur í flokki, fékk hann lausn frá embætti með sæmd og lést 17. ágúst 1852.
Sveinbjörn er kunnastur sem þýðandi Hómerskviðna og fræðimaður á sviði íslenskra fræða en í Bessastaðaskóla kenndi hann einnig rit Platons: Málsvörn Sókratesar, Kríton, Faídon og Menón. Einnig eru skólaræður hans, þar sem hann fjallar m.a. um samband þekkingar og dygðar, athyglisverðar frá heimspekilegu sjónarmiði.
Nokkur rit: Skólaræður Sveinbjarnar Egilssonar (1968); Platon: Menón, skólaþýðing eftir Sveinbjörn Egilsson (1985).

-Hólmfastur Guðmundsson – einokunarverslunin

Njarðvík

Njarðvík – Hólmfastskot 2023.

Sagan af Hólmfasti og viðskiptum hans af Hafnarfjarðarkaupmanninum og Njarðvíkurkaupmanninum – einokunarverslunin. Bær Hólmsfast (tóftir) eru sýnilegar í Innri-Njarðvík sem og brunnur sá, sem hann sótti vatn sitt í.

Kaupsvæði Keflavíkurverslunar var ekki glöggt afmarkað og kom ekki að sök því lengstum verslaði sami kaupmaður þar og á Básendum. Oftast var þó talið að það næði yfir Garðinn, Leiruna, Keflavík og Njarðavík. Þó töldu sumir Keflavíkurkaupmenn að þeim bæri einnig réttur til verslunar í Vogum og Brunnastaðahverfi.
Vera má að þessi óvissa hafi verið undirrót þekktra málaferla á hendur Hólmfasti Guðmundssyni árið 1699, en hann var þá búsettur í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd og átti að versla í Hafnarfirði, en lagði inn lítilsháttar af fiski hjá Keflavíkurkaupmanninum og var húðstrýktur fyrir.
Kaupsvæðaskipulagið var eitt þeirra málefna sem Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku til athugunar á ferðum sínum um landið skömmu eftir 1700. Einkum komu þessi mál til kasta Árna Magnússonar og var hann raunar hlynntur áframhaldandi kaupsvæðaverlsun með þeim rökum að kaupsvæðin tryggðu nauðsynlega siglingu til landsins. Árni komst einnig í kynni við Hólmfast og var harla hneykslaður á meðferðinni á honum, og má vera að útreiðin, sem Hólmfastur fékk, hafi einmitt orðið Árna tilefni til að gera að tillögu sinni við yfirvöld í rentumammeri að kaupsvæði Keflavíkur yrði látið ná yfir Brunnastaðahverfi.

Njarðvík

Njarðvík – kot.

Árið 1699 var Hólmfastur Guðmundsson 52 ára og bjó í Brunnastaðahverfi á Vatnseysuströnd, sem tilheyrði lögvernduðu verslunarsvæði Hafnarfjarðar. Hólmfastur mátti því engum kaupmanni selja fisk nema Hafnarfjarðarkaupmanni, en tók það fyrir að flytja á báti sínum frá Brunnastöðum, þvert yfir Stakksfjörðinn til Keflavíkur, 20 harða fiska í eigu vinnumanns nokkurs, átta fiska í eigu vermanns að austan og 10 ýsur og þrjár löngur, sem hann átti sjálfur. Þessa fiska seldi Hólmfastur í Keflavíkurbúð og gerðist þar með brotlegur við tilskipun um kaupsvæðaverslun. Slíka ögrun þoldu yfirvöld vitaskuld ekki af ótíndum alþýðumanni og sjálfsagt hefur óhlýðnin þótt alvarlegri fyrr það að Hólmfastur lét sér ekki duga að selja sinn eigin fisk, heldur kom fiski annarra í lóg einnig. Dómur í máli Hólmfasts var haldinn á Kálfatjörn þann 27. júlí 1699. Dómari var Jón Eyjólfsson sýslumaður, og sátu báðir Njarðvíkurbændur, Þorkell og Gísli, í dómnum, auk nokkurra nágrannabænda annarra, en Jens Jörgensen, fullmektugur á Bessastöðum, sótti málið af hálfu kaupmanna. Þarf ekki að orðlengja það að dómurinn komst að samhljóða niðurstöðu um sekt Hólmfasts og var hann dæmdur til að greiða kóngi átta ríkisdali í sekt eða þola vandarhögg. En því var skotið til ærði yfirvalda hvort ástæða væri til að senda hinn óhlýðna Hólmfast til Brimarhólmsdvalar og báðu dómsmenn honum reyndar ásjár í því efni.

Árni Magnússon

Árni Magnússon (1663-1730).

Árni Magnússon, á ferð sinni um landi, tók upp mál Hólmfasts og fékk honm dæmdar 20 ríksidala bætur fyrir dóminn og hina illu meðferð á honum. Löngu seinna komst Hólmfastur á síður einnar þekktustu skáldsögu Halldórs Laxness (Íslandsklukkuna).
Dómurinn yfir Hólmfasti var óneitanlega harður, en hann var þó fráleitt einsdæmi. Öll frávik frá fyrirskipuðum reglum voru illa séð, sérstaklega ef menn lögðu stund á launverslun, sem kallað var, þ.e. versluðu við annarra þjóða menn en Dani. Lengi voru þýsk, ensk og hollensk fiskiskip hér við land eftir að einokun komst á. Árið 1684 voru t.d. nokkri Suðurnesjamenn kallaðir fyrir fulltrúa réttvísinnar á þingstaðnum Kálfatjörn og dæmdir til búslóðamissins fyrir að hafa verslað á laun við hollenska duggara og var dómurinn staðfestur á alþingi árið eftir.
Eftir 1700 mun hafa dregið úr launverslun og um 1740 var hún nánast horfin. Hólmfastur fluttist síðar að Hólmfastskoti í Innri-Njarðvík.

-Byggðasafn
Njarðvík er lítið bárujárnsklætt timburhús í Innri Njarðvík sem byggt var í byrjun 20. aldar. Húsið var gefið til Njarðvíkurbæjar á 8. tug síðustu aldar til safnastarfsemi. Þar er nú sýning á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar, aðallega myndir og innanstokksmunir frá síðustu íbúum. Húsið er opið eftir samkomulagi, uppl. í síma 421 6700.

-Faxaflói
Sagan af Faxa í Þjóðsögum Jóns Árnasonar – lík Rauðhöfða. Nokkuð breytt og mikið stytt frá hinum.
Þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.

-Steinlistaverk – eftir hvern og hvað eiga þau að tákna?
Áki Gränz, listamaður – steintröll – til að minna á örnefni og lífga upp á annað tilbreytingarlaust landslag á Njarðvíkurheiðinni. Skiptar skoðanir eru um „steintröll“ þessi, enda höggva þau á stundum nærri fornminjum, andstætt lögum.

-Go-Kart
Akstursíþrótta- og leiksvæði. Kjörin afþreying.

-Kaffi tár
Kaffiframleiðsla og kaffikynning. Tilvalin afþreying.

-Gluggaverksmiðja
Rammi – fór á hausinn. Húsið er til sölu, en hýsir nú Íslending.

-Bílasölur
Margar á litlu svæði í ekki stærra bæjarfélagi – hlýtur aðvera heimsmet.

-Ytri-Njarðvíkurkirkja
Ytri-Njarðvíkurkirkja er í Njarðvíkurprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta, 19. apríl 1979 eða tæpum áratug eftir að fyrsta skóflustungan var tekin.
Kirkjan er teiknuð af arkitektunum Ormari Þór Guðmundssyni og Örnólfi Hall. Hún er 400 fermetrar að grunnfleti og undir henni er 108 fermetra kjallari. Kirkjuskip rúmar 230 manns í sæti en safnaðarsalur, sem opnanlegur er inn í kirkjuskipið, rúmar 100 manns.

-Stekkjarkot

Njarðvík

Njarðvík – Stekkjarkot.

Bærinn Stekkjarkot er við Njarðvíkurfitjar, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur.
Stekkjarkot var síðasti torfbærinn í byggð, í Njarðvík.
Bærinn var að miklu leyti reistur úr torfi og grjóti.
Búið var á bænum í um þrjátíu ára skeið en þó með hléum, á árunum 1857 til 1924.
Stekkjarkot var þurrabúð og þar lifði fólk á sjósókn. Matarkostur ábúenda var nú alls ekki fjölbreyttur og var því ekki úr miklu að moða. Helsta fæða ábúenda var tros, þ.e. fiskhausar, fuglakjöt og egg, svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu ábúendurnir (1921–1924) bjuggu þó við mun betri kjör. Þau áttu eina kú sem geymd var innst í göngunum. Í túnjaðrinum var kálgarður sem þótti gefa vel af sér. Það má segja að ábúendur í Stekkjarkoti hafi verið þekktir fyrir uppskeru sína þar sem að kálgarðurinn þótti frægur hvað varðar góðar kartöflur og næpur. Túngarðurinn í kringum húsið er afmarkaður með grjóthleðslu og önnur grjóthleðsla er í kring um kálgarðinn.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Þurrabúð er verustaður fyrir sjómenn sem eiga sér ekki fastan viðverustað en leigja af bændum skika undir hús og fá aðgang að sjó.
Stekkjarkot í Innri Njarðvík er tilgátuhús sem reist var árið 1993, fjósi var svo bætt við sumarið 2002. Þarna hafði áður staðið gömul sjóbúð að upplagi frá 1856 en yngsti hluti frá fyrri hluta 20. aldar. Húsin eru í góðu standi og ætlunin er að hafa þau opin fyrir ferðamenn og minni háttar móttökur. Nú er Stekkjarkot opið eftir samkomulagi, uppl. í síma 421 6700.
Neðan við Stekkjarkot er ætlunin að reisa víkingaþorp þar sem Íslendingur mun leika aðalhlutverkið.

-Bolafótur – Hallgrímur Pétursson
Þegar síra Hallgrímur Pétursson fór suður á Hvalsnes að taka við prestakalli sínu þar, var hann fótgangandi. Kom hann seinni part dags á prestssetrið, þreyttur mjög og svangur. Í eldhúsi sat kona og eldaði graut og bað hann hana að gefa sér að borða. Bað kerling hann að hypja sig í burtu hið bráðasta og gaf hreint afsvar, því að hún sagði, að vellingurinn ætti að vera handa nýja sóknarprestinum, honum síra Hallgrími.
Varð síra Hallgrími þá að orði:

Einhvern tíma, kerling, kerling,
kann svo til að bera,
að ég fái velling, velling
og verði séra, séra

-Skipasmíðastöð

Njarðvík

Ytri-Njarðvík – Áki Grenz.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur var stofnuð árið 1945. Megin verkefni eru viðgerðar og viðhaldsverkefni í skipum. Starfsmannafjöldi er um 45 að jafnaði árið um kring og skiptist starfsemin þannig:
• Uppsátur & málningardeild
• Plötusmiðja
• Trésmíðaverkstæði
• Véla & renniverkstæði
• Lager
Haustið 1998 tók Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. í notkun nýtt skipaskýli þar sem boðið er upp á allar almennar skipaviðgerðir allt árið um kring, óháð veðri.
Byggingin er í raun stærsti minnisvarði um Hallgrím Pétursson, næst á eftir Hallgrímskirkju í Reykjavík, en bær Hallgríms var þar sem stöðin er nú.

Bolafótur

Bolafótur í Ytri-Njarðvík – bústaður Hallgríms Péturssonar.