Tag Archive for: Vogar

Kálffell

Í riti Orkustofnunar „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga“ ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.

Kálffell

Kálffell – loftmynd.

„Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar.

Kálffell

Kálffell og nágrenni – loftmynd.

Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.“
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.

Kálffell

Kálffell.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Njarðvíkursel

Ætlunin er að reyna að gefa innsýn í 10 alda sögu seljanna ofan við Kálfatjörn og Ströndina, þ.e. Strandarheiði og Vogaheiði, á innan við 10 mínútum. Stikklað verður því á stóru.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson.

Byggðin hér á Vatnsleysuströnd var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. A.m.k. einn hlaðinn kúastekkur sést þó enn hér fyrir ofan – í Kúadal. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars, en í þá tíð var árdagatalið miðað við meginárstíðarnar, sumar og vetur. Vegna ótíðar gat seljatíðin færst til um viku eða svo. Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beittu úthagann. Lífið á Ströndinni hér áður fyrr, eins og svo víða annars staðar á Reykjanesskaganum, snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.

Arasel

Ara(hnúka)sel – stekkur.

Á Norðurlandi voru selin oft minni bæir, sem bændur fluttu með mest allt sitt fólk í yfir sumarið og gerðu út þaðan. Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis. Þau voru tímabundar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Dæmi eru þó um einstaka kolasel, þ.e. þau hafa verið notuð til kolagerðar í heiðinni.
Selin eða selstöðurnar í heiðinni, þ.e. í Vatnsleysustrandarbæjalandi milli Hvassahrauns og Seltjarnar, en Innri-Njarðvíkur tilheyrðu þeim þangað til á 20. öld, eru um 34-40, eftir því hvernig talið er.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Hvassahraunssel er austast, en Njarðvíkursel vestast, við Seltjörn eða Selvatn, eins og það þá hét. Deilt hefur verið um hvort Dalselið undir Fagradalsfjalli hafi tilheyrt Grindavíkingum eða Strandarmönnum. Þá var Sogasel í Trölladyngju í fyrstu sel frá Krýsuvík, en síðan Kálfatjörn. Þessi sel hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda einkum gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað. Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru þá a.m.k. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Síðast var haft í seli frá Flekkuvík um og í kringum 1870 og mun það hafa verið síðasta selið í notkun frá Vatnsleysustrandarbæ. Gunnar og Ólafur Erlendssynir nefna Flekkuvíkursel í örnefnaskrá árið 1976 og segja: “Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, kom í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá einnig eingöngu hafðar kindur”.
Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Oftast bera selin nöfn þeirra bæja, sem gerðu þau út. Flekkuvíkursel var frá Flekkuvík, Hvassahraunssel var frá Hvassahrauni, Óttarstaðasel frá Óttarstöðum o.s.frv.

Sogasel

Sogasel.

Þó eru dæmi um að selin hafi dregið nöfn sín af staðháttum, s.s. Sogasel í Sogagíg, Selsvallasel af Selsvöllum og Gvendarsel undir Gvendarselshæð af Krýsuvíkur-Gvendi o.s.frv. Flestra seljanna er getið í gömlum heimildum og örnefnalýsingum. Nokkur þeirra, a.m.k. þeirra stærstu, má sjá á gömlu kortum, s.s. dönsku herforingjakortunum svonefndu, en annað það er gefur vísbendingu um að sel hafi verið að ræða á tilteknum stöðum eru nafngiftir tengdar þeim, s.s. Selháls, Selshæð, Selsvallafjall, Selsvellir, Selsfjall, Seljahlíð, Selalda, Selstígur og Selshóll.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

Selstígurinn lá upp frá bænum að selinu. Hann var venjulega u.þ.b. klukkustundar langur – stundum styttri – stundum lengri. Stígurinn var varðaður og varða var á hól ofan við selstöðuna. Hér á Reykjanesi var selið oftast í skjóli fyrir rigningaráttinni, að norðaustan, þ.e. í skjóli við hól, hæð eða gjábakka mót suðvestri. Selið sjálft var venjulega þrjú rými. Einn inngangur var í tvö þeirra, þ.e. svefnaðstöðu og búr, og annar í eldhúsrýmið. Í sumum seljunum voru fleiri en ein selstaða, þ.e. frá fleiri bæjum. Skammt frá var vatnsstæði eða brunnur. Þó eru allnokkr dæmi um að notað hafi verið yfirborðsvatn í bollum og lautum, sem oft vildi þrjóta þegar leið á sumarið. Þá varð að yfirgefa sum selin, s.s. áður en eiginleg selstíð var á enda. Í selinu var tvískiptur stekkur, venjulega hlaðinn úr grjóti. Hann var notaður til að færa frá. Einnig var þar kví, notuð til mjalta. Fráfærur voru í upphafi stekkstíðar og er í rauninni sérstakur kafli seljabúskaparins.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

Fjárskjól, hlaðið fyrir hellisop eða skúta, eru við eða nálægt sumum seljanna á Reykjanesi, en fá hér í heiðinni. Þó má sjá slíkt í Kálffelli, en þar er sagt að Oddur á Grænuborg hafi setið yfir sauðum og í Öskjuholti. Einnig við Smalaskála. Sauðaútgerðin er enn annar kafli, sem ekki verður fjallað um hér.
Fjárborgir, hlaðin hringlaga gerði, eru nokkur í heiðinni. Má þar frægasta nefna Staðarborgina hér ofan við Kálfatjörn, Gvendarborg, enn ofar, Pétursborg á Huldugjárbarmi, Þórustaðaborgina, Auðnaborg, Hringinn, Grænuborg og Gvendarstekk ofan við Voga. Sumar tengjast seljabúskapnum, en þeim var þó yfirleitt ætlað að veita fé skjól í vondum veðrum. Fé var ekki tekið í hús, eða sérstök hús byggt yfir fé, á Reykjanesi fyrr en komið var fram á 20. öldina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Nátthagar voru ekki fjarri seljunum, yfirleitt í stórum grónum lægðum eða hraunkrókum.
Yfirleitt var tvennt í hverju seli, þ.e. selmatsseljan, eða selráðskona, og smalinn. Stundum var unglingur hafður með til aðstoðar. Dæmi er um að kona í seli hafi haft með sér erfiðan ungling til verka og fékk að launum fisk frá foreldrunum á Ströndinni. Dugði hann til viðurværis út árið. Verkaskiptingin var skýr. Hún mjólkaði og vann úr mjólkinni, en hann gætti fjárins og skilaði því í selið á tilskildum tíma. Gerði hann það ekki gat hann átt von að þurfa að éta skömmina, eins og það var nefnt. Þessi verk gátu oft verið erfið og slítandi. Samt voru þetta eftirminnilegustu verk þeirra, sem þau unnu, er litið var síðar yfir liðna tíð.

Gjásel

Gjásel – tilgáta ÓSÁ.

Sögur tengdar seljafólkinu eru nokkrar til, þá aðallega tengdar barnshafnandi seljamatsseljum eftir að huldumenn eða útilegumenn komust í tæri við þær. Þá gleymdist oft að bóndinn á bænum fór reglulega upp í selið á tveggja eða þriggja daga fresti til að sækja afurðirnar og færa þangað matarkyns, talsverður samgangur var á milli seljanna og auk þess var nokkur umferð fólks um heiðina yfir sumartímann, á leið hingað og þangað umm Innnesin og Útnesin því ekki fóru allir Almenningsleiðina.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsbúskapurinn átti erfitt uppdráttar þegar tók að líða á 19. öldina, bæði vegna mannfæðar á bæjum og sumir sögðu vegna leti bændanna. A.m.k. þurfti konungstilskipun til að gera bændum skylt að gera selin út, en þeim fækkaði þó smám saman uns þau lögðust af er líða fór að aldamótunum 1900.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

Selsbúskapurinn leggst af á ofanverðri 19. öld. Ástæðan er ekki ein heldur nokkrar; fólki tók að fækka á einstökum bæjum, aukin áhersla var lögð á útveg, kýr voru nyjaðar í auknum mæli líkt og féð áður, þ.e. unnir ostar, smér og aðrar afurðir, og breytingar urðu á samfélagsmyndinni. Féð var nýtt heima við framan af sumri, en síðan rekið á afrétt til sumarbeitar, en smalað að hausti.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Ekki hefur verið skrifað mikið um sel hér á landi, en Guðrún Gísladóttir hefur þó ritað um Grindavíkurselin, bæði á Baðsvöllum og á Selsvöllum undir Núpshlíðarhálsi, sem Vogamenn hafa stundum viljað hafa átt, og Sesselja Guðmundsdóttir, heimamaður hér á Ströndinni, hefur getið allra seljanna í heiðinni og nefnir þau í bók sinni Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd, sem Lionsklúbburinn gaf út á sínum tíma. Þar getið þið lesið ykkur meira til um þetta efni. Brunnaselstöðunni er t.d. lýst svo:”….Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, er þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga”. Þessi heimild segir okkur margt um erfiða búskaparhætti og ástand gróðursins í heiðinni. í Brunnastaðaseli hafa þá verið 30-40 kindur og er það hreint ekki lítið.

Í heimildum um sel segir m.a. á einum stað: “Í seljum þessum störfuðu venjulega 2-3 menn; selsmalinn og selráðskonan og oft einn unglingur þeim til aðstoðar, ýmist piltur eða stúlka. Áður fyrr voru þar gerðir úr mjólkinni, ostar, skyr, smjör og sýra…. Sótt var í selið tvisvar í viku; skyr, mysa og smjör og flutt heim á hestum”.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Heiðin lítur öðruvísi út í dag en hún gerði þegar selsbúskapurinn var í sem mestum blóma. Telja má víst að landsnámsmenn hafi komið með selsbúskaparhættina með sér frá Noregi og haldið þeim þegar hingað var komið að teknu tilliti til aðstæðna hér. Þau munu skv. því hafa verið við lýði hér í um 1000 ára skeið. Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar í heiðinni og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem við þurfum að geta borið virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Selin í heiðinni bíða heimsóknar ykkar – hvenær sem þið hafið áhuga á, getu eða nennu og tíma til.

Úr erindi ÓSÁ er flutt var í Kálfatjarnarkirkju á Menningardegi í kirkjum á Suðurnesjum 24. okt. 2004.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Kálfatjörn er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum. Kirkjan tilheyrir [nú] Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 2023.

Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa. Núverandi kirkjubygging var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar, en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð.

Guðmundur Björgvin Jónsson fjallaði um Kálfatjörn í bók sinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„:
Kálfatjörn„Um kirkjustaðinn Kálfatjörn hefur mikið og margt verið rætt og ritað og þá gjaman í samhengi, kirkjan og ábúandi kirkjujarðarinnar, enda vandi að skipta ritefninu í tvo flokka, um það andlega og veraldlega, án þess að binda það hvort við annað. Pó mun hér reynt að sneiða hjá því andlega og koma að því síðar.
Síðasti prestur og jafnframt bóndi á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson frá Úthlíð í Biskupstungum.
KálfatjörnKona hans var Ingibjörg Valgerður Sigurðardóttir. Tók séra Árni við búinu og embættinu af séra Stefáni Thorarensen og konu hans, Steinunni Járngerði Sigurðardóttur. Árni stundaði útgerð og landnytjar, auk þess að vera prestur og barnakennari í nokkrum tilvikum. Hann var áhugasamur um unglingafræðslu svo sem fyrirrennari hans. Utan þess hafði hann mikinn og virkan áhuga á héraðsmálum. Hann mun hafa verið fyrstur manna hér í hreppi sem sá þörf á því að bændur gerðu með sér samtök um mjólkursölu, þó ekki kæmist það í framkvæmd fyrr en ári eftir andlát hans, eða árið 1920.
KálfatjörnUm séra Árna Þorsteinsson og það heimili segir Erlendsína Helgadóttir, sem þá var unglingur í Litlabæ: „Prestshjónin voru greiðasöm og alþýðleg og vildu öllum gott gera. Séra Árna þótti sjálfsagt, að ef ekki væri skírt í kirkju að, skírn færi fram þar sem móðirin átti heima, þó léleg væru oft húsakynnin. En til vom þeir prestar sem gengu ekki inn í hvers manns kot til slíkra athafna. Séra Árni var á undan sinni samtíð í mörgu. Þá þótti það nýlunda, að séra Árni leyfði leiguliðum sínum að auka við nytjalönd sín (færa út), þeim sjálfum til búbóta, en það höfðu þeir ekki þekkt áður.“

Bakki

Bjarg.

„Á mínu heimili“, segir Erlendsína, „var borðað hestakjöt. Hefur sennilega komið þar tvennt til, annarsvegar oft þröngt í búi og hinsvegar að fólkið var að vaxa upp úr miðaldatrúnni og þorði að fara sínar leiðir. En aldrei var móður minni um þessa fæðu og notaði stundum aðstöðu sína til að læða annarskonar kjötbita í súpuna sem hún ætlaði sjálfri sér. Foreldrar mínir höfðu heyrt að presti þætti ekkert athugavert við að neyta hestakjöts og þó hann hefði aldrei borðað það sjálfur, væri hann til með að smakka á þessari áður forboðnu fæðu.

Bakki

Bakki í Kálfatjarnarhverfi 2023.

Því var það einu sinni, þegar hestakjöt var í pottinum heima, að prestshjónunum var boðið í mat sem þau og þáðu, en ekki voru efnin meiri á mínu heimili, né víða annarsstaðar, að hnífapör voru ekki til, en önnur áhöld þóttu ekki viðeigandi í þetta sinn. Svo móðir mín hvíslaði að maddömunni, hvort ekki mætti senda eftir hnífapörum á prestssetrið og var það auðsótt. Þarna var þá borðað hestakjöt og kjötsúpa með, en þá var venjan að sjóða í súpu. Eftir þetta var hestakjöt oft á borðum á prestsetrinu Kálfatjörn.
KálfatjörnEitt sinn er séra Árni kom í húsvitjun að Bjargi, rétt fyrir jól, spyr hann yngri drenginn þar, Ingvar Helgason, hvort hann muni ekki koma í kirkju um jólin, en móðir hans segir að það geti ekki orðið, því hann hafi ekki þann klæðnað sem hægt sé að láta sjá sig í við kirkju. Segir þá Árni: „Ég spái því nú samt að þú komir þangað á jólunum.“ Nokkru seinna, nær jólunum, eru drengnum send ný alföt frá presti og þar með var kirkjuferðinni bjargað.“
Þannig lýsir samtíðarfólkið séra Árna Porsteinssyni, en konu hans, Ingibjörgu, bar minna á, enda nóg að gera á barnmörgu heimili og prestssetri að auki. Börn þeirra hjóna voru: 1) Gróa, 2) Sesselja, f. um 1880, 3) Steinunn Guðrún, f. 1882, 4) Þorsteinn f. 1883, 5) Sigurður f. 1885, 6) Arndís f. 1887, 7) Margrét f. 1889. Einnig ólu þau upp Kristinn Árnason frá Bergskoti, f. 1894.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð við Kálfatjarnarvör fyrrum.

Séra Árni var sjúklingur síðustu árin, þó hann þjónaði fram á andlátsárið. Hann lét, með aðstoð hreppsins, flytja Móakotshúsið og setja það austan við prestshúsið og þar dvaldi hann sjálfur, en lét Kálfatjörn eftir handa leiguliða, tímabundið. Sá er þá kom að Kálfatjörn hét Helgi Jónsson, (síðar oft nefndur Helgi Kálfatjamar, eða Helgi frá Tungu) og mun hann hafa verið þar um 1918-1920. Kona Helga var Friðrika Þorláksdóttir. Helgi var síðast með útgerð í Kotvogi í Höfnum og fórst í eldi ásamt barni sínu, sem hann var að reyna að bjarga þegar Kotvogur brann árið 1939. Dóttir hans er m.a. Sveinbjörg, kona séra Garðars Þorsteinssonar, prests á Kálfatjöm (1932-1966).

KálfatjörnÁrið 1920 fluttu að Kálfatjörn Erlendur Magnússon frá Tíðagerði og kona hans, Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Höfðu þau byrjað búskap í Tíðagerði, foreldrahúsum Erlendar, um 1915 og þar fæddust fimm börn þeirra. Meðan þau bjuggu í Tíðagerði fór Erlendur austur á firði á sumrin í atvinnu og fetaði í fótspor margra Strandaringa, auk þess sem hann stundaði vetrarvertíð heima. Ætla ég að Erlendi hafi fallið betur landbúnaður en sjómennska, enda þótt hann hafi rekið eigin útgerð um tíma, en aflagt hana um 1946.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Þó miklu og vel væri stjórnað af þeim Kálfatjarnarhjónum, innan og utan veggja heimilisins, þá munu störf Erlendar í héraðsmálum og félagasamtökum lengst verða minnst. Hann var bæði áhugasamur og úrræðagóður hvort sem var í málum kirkjunnar, hreppsins eða bændastéttarinnar. Þá var hann í mörgum málum fulltrúi sveitar sinnar út í frá og kom þá í hlut húsfreyjunnar, Kristínar, að vera bæði bóndi og bústýra á stóru heimili.

Kirkjuathafnir tengdust heimilinu með margskonar þörfum, enda heimilið rómað fyrir gestrisni og góðar úrlausnir til handa öllum er þangað leituðu. Erlendur keypti Norðurkot (sjá Norðurkot) árið 1934 og bjó þar með fjölskylduna meðan hann byggði upp á Kálfatjörn, það hús sem nú stendur [1967], en gamla húsið var rifið samtímis. Smiður var Gestur Gamalíelsson, húsasmíðameistari frá Hafnarfirði.
KálfatjörnBörn Erlendar og Kristínar eru: 1) Ingibjörg, kennari, býr í Reykjavík, 2) Ólafur, brunaliðsmaður, býr í Reykjavík, 3) Herdís, ógift og barnlaus bústýra á Kálfatjöm, 4) Magnús, ókvæntur og barnlaus, starfar í Hafnarfirði, 5) Gunnar, ókvæntur og barnlaus, bóndi á Kálfatjörn síðan árið 1971. Auk þessara bama ólu þau upp tvö böm: Kristín Kaldal, sem er fæddur þar, og Lindu Rós frá 9 ára aldri.
í Kálfatjarnarlandi er mannvirki nokkurt er heitir Staðarborg. Það er um 3 km frá Kálfatjörn, beint til fjalls að sjá frá kirkjustaðnum. Borgin er hringlaga og hlaðin úr grjóti. Er þessi bygging svo einstök að gerð, að hún er friðlýst frá árinu 1951, samkvæmt lögum um verndun fornminja frá 16. nóv. 1907.“

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1lfatj%C3%B6rn
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson, útgefið af höfundi 1987.

Staðarborg

Staðarborg.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson og Gunnar Erlendsson, bóndi á Kálfatjörn lýsa hér Kálfatjarnarhverfinu. Gunnar er fæddur í Tíðagerði í febrúar 1920. Tíðagerði var byggt úr landi Norðurkots. Hann fluttist að Kálfatjörn fárra vikna gamall og er uppalinn þar. Ólafur er einnig fæddur í Tíðagerði, í október 1916, og ólst þar upp til tvítugs. Hér er getið hluta lýsingar þeirra lesendum til fróðleiks og glöggvunar. Þessi lýsing er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að golfarar að Kálfatjörn hafa verið einka skeytingalausir um varðveistu fornra minja á svæðinu.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

“Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu þeira hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var þurrkað það þang, sem rak á fjöru utan þess, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka. Lýsingarnar á merkjum milli fjörupartanna kunna mönnum nú að þykja smásmugulegar. Það gat þó gilt 1-2 mánaða eldsneyti, hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eður ei.

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsanna er kirkjan. Allt umhverfis hana er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, og þó aðallega norðan og austan megin.

Umhverfis grafreitinn er hlaðinn garður úr grjóti og sniddu, og hefur lengst af þjónað því tvíþætta hlutverki að verja grafreitinn ágangi búfjár, en einnig og ekki síður sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera verður sökum þess hversu jarðvegurinn er hér grunnur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Nú, um áratugi, hefur garðurinn verið girtur með vírneti. Beint fram af kirkjudyrum er hlið á girðingunni, sáluhliðið. Veit það mót vestri sem vænta má. Sunnan og suðvestan megin bæjarins er túnið, nefnt Land, slétt og hólalaust, utan hólbunga, allmikil um sig, suður við túngarðinn og niður undir Naustakotstúninu svonefndu.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Hólbunga þessi heitir Hallshóll. Efst í suðurtúninu, ofan við landið, er Landamóinn,nú fyrir alllöngu slétt tún að mestu leyti utan dálítil ræma meðfram Heiðargarði, en svo nefnist garðurinn, er ver túnið þeim megin sem að heiðinni veit. Í landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann um 2×3 m ummáls og 1.3 m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn. Austan og norðaustan bæjarins er kallað Upptún. Heim undir bæjarhólmanum að norðanverðu er Fjóshóll. Hann er brattur mót norðri og norðvestri. Það stóð fjósið lengi.
Vestan við bæinn er Kálfatjörnin. Þar segir af skepnum – sækúm.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni á Kálfatjörn.

Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í Naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðan þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjöruru. Þá voru og teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru þetta kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Á sumrum, einkum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu íljós þegar út fjarðaði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvotur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón svo skola mátti.

Neðan við Rásina er Naustakotstún. Neðst í því er mýrartjörn, Naustakotstjörn. Á kampinum fast norðan við tjörnina stóð kotbýlið Naustakot (í byggð1703), hefur lengi verið í eyði. Þarna eru nú fjárhús. Sunnan við þau er fjárrétt og fast við hana að sunnanverðu grasigróið gerði.Það var kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausra í sumartíð uns það lagðist niður með öllu á stríðsárunum síðari.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Rétt ofan við Eyrina og fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefna Thorarensen lét byggja, er hann var prestur á Kálfatjörn. Agt er a sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Hér mun býlið Hólkot hafa staðið (talið í eyði 1699 og ekki nefnt síðan).
Þegar nálgast suðausturhorn Kálfattjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfajarnartúns) uns hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. Við vesturenda baðstofunnar í Hliði, lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugartan. Rétt ofan við götuna lá grjótsrétt þvert yfir Goðhólstúnin, kölluð Kirkjubrú. Mælt er að Kirkjubrúin hafi verið til þess gerð að aðvelda kirkjufólki för yfir hana. Í brúnni er ártalsstein (1790). Líklega hefur hann gegnt hlutverki skósteins.
Í heiðinni er Staðarborgin, gömul fjárborg frá Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Lambafellsklofi

Gengið var að Lambafelli frá Eldborg ofan við Höskuldarvelli.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Fylgt var gömlum stíg í gegnum hraunið sunnan og austan fellsins. Hann liggur síðan áfram inn í hraunið til austurs austan þess. Lambafellsklofi er alltaf jafn áhrifamikill heimsóknar. Klofinn er misgengi í gegnum fellið, stundum nefndur Lambagjá. Þjófagjáin í Þorbjarnarfelli er af sama meiði. Glögglega má sjá heila bólstra í berginu þegar farið er í gegnum og upp úr gjánni um mitt fellið. Einstaklega fallegur brólstri er í gjárbarminum þegar upp er komið. Annars er Lambafellið þrjú fell, sem hraun hafa runnið umhverfis. Austasti hlutinn er skilinn frá hinum með Dyngnahrauni, sem runnið hefur úr nokkrum gígum austan Grænudyngju. Sjá má misgengið ganga áfram í gegnum það. Norðvestan við Lambafell er Snókafell, samskonar jarðfræðifyrirbæri, líkt og Oddafellið vestar. Vestan Lambafells liðast Afstapahraunið áleiðis niður í Kúagerði. Norðan þess er Gamla Afstapahraun er liggur allt niður í Selhraun ofan Þorbjarnarstaða í Hraunum. Austar eru hraun frá Mávahlíðum um Einihlíðar.

Lambafell

Lambafell.

Frá Lambafelli sést vel yfir að Mávahlíðum í suðaustri, dyngjunum; Grænudyngju og Trölladyngju í suðri og Keili í vestri.
Frábært veður. Gangan tók klukkustund og eina mínútu.

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

Þórkötlustaðanes

Farið var í Kynnisferð um Vatnsleysustrandarhrepp og Grindavík. Meðal leiðsegjenda voru Viktor, sonur Guðmundar í Brekku, Kjartan, nýlega fyrrverandi forstöðumaður Saltfiskssetursins í Grindavík, og Sigfrjón.

Grindavíkurvegur

Vegavinnubúðir við Grindavíkurveg.

Hér á eftir er getið um helstu punkta, sem annað hvort var minnst á eða átti að minnast á í ferðinni. Auk þess voru allnokkur tilfallandi atriði tekin upp og heimfærð á vettvangi. Stapadraugurinn, sem birtist á Vogastapa, var t.d. óundirbúið atriði í ferðinni sem og það að hitta óvænt bæjarstjórann í Grindavík, Ólaf Örn, á göngu um Þórkötlustaðanesið. Hann var gripinn og fenginn til að kynna möguleika og vilja Grindvíkinga á sviði ferðaþjónustunnar. Svo er að heyra og sjá að bjartsýni og mikill áhugi sé einkennandi fyrir vilja Grindvíkinga til að styrkja og efla þjónustu við ferðamenn í umdæminu. Hellaferð í Dolluna var einnig óvænt uppákoma, en slíkar eru eitt einkenni FERLIRsferða um Reykjanesskagann.
Auk þessa verða síðar birtir nánari punktar um Kálfatjarnarkirkju, um fyrirtækið Sæbýli og fleira, sem fyrir augu bar og kynnt var í ferðinni.

Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

1. Vesturmörk Vatnsleysustrandarhrepps er við svonefnda Kolbeinsvörðu ofan við Innri-Skoru á Vogastapa. Varðan er horfin, segja menn, en landamerkin standa enn. Aðrir segja Kolbeinsvörðuna hér nær Keflavíkurveginum, en slíkt getur ruglað landamerkjum, svo ekki verður fjallað nánar um það. Sökkull slíkrar vöru er þar vel greinanlegur, en úr Kolbeinsvörðu eiga lendamerki hreppsins að liggga í Arnarklett vestan við Snorrastaðatjarnir, en hann sést vel frá Háabjalla, miklu misgengi á hægri hönd. Undir bjallanum er skógrækt þeirra Vogabúa.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

2. Stapagatan – gamla þjóðleiðin yfir Vogastapa til Njarðvíkur og framhald Almenningsvegarins sem liggur úr Hafnarfirði og suður úr – Alfararleið. Annar armur götunnar er Sandakravegur (nú Skógfellavegur) liggur suður og upp heiðina í átt til Grindavíkur. Umferð um Stapagötuna hætti að mestu um 1912 þegar bílvegur var lagður til Keflavíkur. Ári seinna var byrjað á bílvegi frá Stapa áleiðis til Grindavíkur. Þeirri vegagerð lauk árið 1918 og munum við síðar í dag á leiðinni til Grindavíkur m.a. skoða hlaðin byrgi vegavinnumanna á Gíghæðinni í Arnarseturshrauni. Slík byrgi voru á u.þ.b. 500 metra millibili svo til alla leiðina til Grindavíkur, en nýi vegurnn krafðist fórna, eins og svo margar vegaframkvæmdir síðustu ára.

Stapagata

Stapagata.

Stapagatan liggur upp Reiðskarð á fjörubökkum Vogavíkur undir Vogastapa og munum við kíkja þangað í bakaleiðinni. Undir Stapanum eru merkar minjar bæjarins Brekku, Stapabúðar, Hómabúðar og Kerlingarbúðar, með elstu minjum á Reykjanesi, en sjórinn hefur nú tekið til sín að mestu. Síðastnefndu búðirnar heita svo vegna þess að sjómenn höfðu þar vinnukonukerlingu í matinn þegar hún neitaði að hlýða boðum þeirra. Gatan upp úr Reiðskarði er djúp og falleg þar sem hún liðast vestur eftir Stapanum, framhjá Grímshól þars em þjóðsagan um vermanninn að norðan á að hafa gerst. Viktor mun segja ykkur nánar frá því er við komum þangað. Á Grímshól er útsýnisskífa þar sem fjallasýnin er tíunduð með sjónrænum hætti. Gullkollurinn lifir m.a. góðu lífi undir Vogastapum við Reiðskarðið.

Hreppsgarður

Hreppsgarður á Stapanum.

3. Hreppsgarður – einn af þremur slíkum í Vatnsleysustrandarhreppi á seinni hluta 19. aldar. Við gerð þeirra og umhirðu var unnið í einhverskonar atvinnubótavinnu og einnig greiddu menn skuldir til hreppssjóðs með vinnu í görðunum. Garðurinn snýr mót suðri og liggur utan hjalla, sem nefndur er Kálgarðsbjalli.

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

4. Um 140 sel og selstöður eru á svæðinu milli Suðurlandsvegar og Reykjanestáar, sem og öll mannvirki sem þeim tengdust, s.s. fjárskjól, stekkir, vatnsstæði, kvíar, húsatóftir, fjárborgir, réttir, vörður og selgötur. Þessi sel voru í notkun á mismunandi tímum, en líklet er talið að haft hafi verið í seli hér á þessu svæði allt frá því að land byggðist fram upp undir 1890, en síðasta selið, Flekkuvíkursel, lagðsit þá af. Síðasta selið, sem notað var hér á Reykjanesskaganum var Hraunsselið undir Vesturhálsi, en það var í notkun til 1914.
Venjulega var haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Ærnar voru þá værðar í selið og hafðar þar og mjólkin nýtt til smjör og skyrgerðar m.a. Afurðir voru færðar heim til bæja ca. 3. hvern dag, en vistir færðar upp í selin í staðinn. Þar var venjulega matselsdama og smali og stundum fleira fólk frá bæjunum. Dæmi eru og um að erfiðir unglingar hafi verið hafðir þar til ögunar. Segja má að lífið hér fyrr á öldum hafi meira og minna snúist um sauðkindina, þ.e. maðurinn lagði rækt við sauðkindana og reyndi allt hvað hann gat til að halda í henni lífi því hún hélt lífinu í manninum. Allmörg mannvirki og búskapaleifar á skaganum bera þessa glöggt vitni.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Síðar í ferðinni munum við skoða minjar útvegsbændanna, en fjárhald og útvegur við ströndina hafa verið samofin um langan aldur; naust, varir, sjóbúðir, þurrkgarðar, verkunarhús, skiparéttir og þurrkvellir gefa okkur nokkra hugmynd um hvernig þeir lifnaðarhættirnir við sjávarsíðuna hafa verið.
Sem dæmi um sel má nefna Snorrastaðasel, Nýjasel, Gjásel, Vogasel, Brunnastaðasel (sést uppi í heiðinni), Knarrarnessel, Hlöðunessel, Hólssel, Fornasel, Flekkuvíkursel og Hvassahraunssel. Flest seljanna á Reykjanesskaganum eru í skjóli fyrir ríkjandi rigningarátt, suðaustanáttinni. Best er að finna þau með því að koma að þeim úr norðvestri, einkum á vorin þar sem þau grænka fyrr en umhverfið vegna fyrrum áburðar fjársins, sem þau njóta enn þann dag í dag. Og svo er sagt að sauðkindin nagi allan gróður. Reyndar eykur hún grasvöxt, en dregur úr kjarrvexti. Framvegis verður þessari fyrrum lífsbjörg markaður bás í afmörkuðum beitarhólfum – ófrjáls og án villibráðabragðsins (G. Þorsteinsson frá Hópi).

Kálffell

Kálffell – fjárskjól.

5. Kálffell – í Kálffelli var setið yfir sauðum um og eftir aldarmótin 1900. Frægasti sauðamaðurinn var án efa Oddur Stefánsson frá Gærnuborg (d. 1925). Í gígnum eru hlaðnir garðar og við hellaop ofan við gíginn eru einnig hleðslur sem líklega hafa átt að beina fé í skjól ef veður var vont.
Einn hellanna heitir Oddshellir og er í Brunnhól rétt sunnan við gígsskálina. Hóllinn dregur nafn sitt af lögun hellsins og eða “dyrum” hans. Opið er eins og brunnop. Til þess að komast niður þarf maður að stökkva niður á nokkra hellur sem hlaðnar hafa verið upp neðan við. Líklega hefur Oddur frá Grænuborg átt afdrep í þessum helli og af því er nafngiftin trúlega komin. Sagnir eru um að þegar mest var af sauðum í Kálffelli hafi þeir verið á annað hundrað.

Sprungur

Hrafnagjá – misgengi.

6. Hrafnagjá er hér rétt handan á hægri hönd. Hún liggur næst okkur þeirra gjáa sunnan vegarins, en við sjáum m.a. upp í Huldugjá, Aragjá og Stóru-Aragjá, en undir henni er Gjásel, sennilega eitt eista raðhús hér á landi.
Hrafnagjá nær alla leið niður á túnið á Vatnsleysu og er tilkomumikil á köflum. Hér ofan við voga er hún tilkomumikil með háu hamrabelti sem snýr til fjalla. Undir gjánni er fjölskrúðugur gróður, s.s. burknar, blágresi og brönugrös. Í gjánni verpir t.d. hrafn þar sem bergið er hvað hæst. Syðsti hluti Hrafnagjár er á Náttúruminjaskrá.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – einn gíganna.

7. Þráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefnt Arnstapahraun. Eldra hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun rann við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000-12000 ára).
Á Vatnsleysuströnd eru elztu hraunin. Stöðugar og hægfara hreyfingar hafa valdið miklum sprungum í þeim. Nýrri hraun ofan á fela líka eldri sprungur.

Refagildra

Vatnsleysuheiði – refagildra.

8. Refagildra – hlaðin refagildra í vörðu. Til skamms tíma var talið að slíkar gildrur væru einungis á norðausturlandi, en a.m.k. 90 slíkar eru enn sjáanlegar hér á Reykjanesskaganum, þ.a. 4 á Vatnsleysuströndinni.

Breiðagerðisslakki

Brak í Breiðagerðisslakka.

9. Breiðagerðisslakki – í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarherflugvél niður í þennan slakka skammt norðaustan við Knarrarnessel eftir að hafa orðið fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar.Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf lítið meiddur. Hann var fyrsti þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandarríkjamenn tóku höndum í seinni heimsstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi að Saurbæ á Kjalarnesi en eftir stríðið flutt í Fossvogskirkjugarð.
Nokkuð sést enn eftir af brotum úr flugvélinni og eru þau dreifð um stórt svæði um miðja vegu milli narrarnessels og Auðnasels.

Eldborgir

Eldborgir ofan Knarrarnessels.

10. Eldborgir – um 900 metra röð 11 gíga, sem gosið hafa litlu gosi á takmörkuðu svæði, einkennandi þó fyrir hin mörgu sprungureinagos á skaganum. Við þær eru nokkur greni, svonefnd Edborgagreni og hlaðin byrgi fyrir refaskyttur. Mörg slík mannvirki má sjá á Strandarheiðinni.

Þyrluvarða

Þyrluvarða 2008.

11. Þyrluvarða– í maí 1965 hrapaði Sikorsky bjrögunarþyrla frá varnarliðinu niður í lægðina en hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar varnarliðsins, og var varðan reist í minningu þeirra.
12. Keilir – einkennisfjall Reykjanesskagans og víðfrægt mið af sjó. Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjópfarnedur kalli Keili Sykurtoppinn. Líklega er þetta samlíking við keilulaga sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á marjaðnum áður en strásyrkurinn kom til sögunnar. Keilri varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa íhonum miðjum sem ver hann veðrum. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu ár sem farið er upp austanverða öxlina. Af fjallinu er ótrúlega víðsýnt.
13. Stóri Hafnhóll og Litli Hafnhóll – sagt er að í eina tíð hafi verið löggilt höfn í Vatnsleysuvík og af henni beri hólarnir nöfnin.

Vatnaborg

Vatnaborg – fjárborg ofan Vatnsleysustrandar.

14. Vatnaborg – fyrrum fjárborg, ein af u.þ.b. 80 á Reykjanesskaganum. Borgin er hirnglaga. Líklega hefur verið stekkur þartna eftir að borgin lagðist af enda geta heimildir um Vatnsbergsrétt og Vatnsbergsstekk og einnig Vatnsberg og Vatnaberg. Líklega er örnefnuð Vatnaborg það rétta yfir hólinn og nafnið jafnframt tengt vatnsstæðinu sem þarna er. Ofar í heiðinni er Gvendarborg, hlaðin af Guðmundi Hannessyni er seinast bjó á Ísólfsskála, en hann var fæddur árið 1830 og bjó m.a. í Breiðagerði á Ströndinni. Guðmudnur er sagður hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesskagnum um aldamótin 1900. Enn ofar Rauðhólssel, Oddafellssel og Sogasel. Fundum nýlega rústir neðan við Kolhóla, en þær virðast vera af enne inu selinu, sem ekki hefur verið skráð.

Almenningsleiðin

Almenningsleiðin ofan Kálfatjarnar.

15. Almenningsleiðin – sjá má hana liggja frá Kúagerði og framhjá Vatnsleysu.

Kúagerði

Aðhald í Kúagerði.

16. Akurgerði og Kúagerði – hraunið, Afstapahraun, sem rann á sögulegum tíma (1226), færði Akurgerði í kaf. Vegurinn var lagður yfir Kúagerði, fallega tjörn og áningarstað á ferðum fólks milli Útnesja og Innesja. Hægt að ganga upp hraunið um svonefndar Tóur.
17. Gamli Keflavíkurvegurinn eða Strandarvegurinn – lagður á árunum 1906-12 og lá hluti hans allfjarri byggðinni á sunnanverðri Vatnsleysuströnd, skammt vestan Kálfatjarnar, en um 1930 var sá hluti færður neðar. Gamli vegurinn var í upphafi hestvagnavegur, en um 1917 tóku bílarnir völdin.

Almenningsvegurinn

Almenningsvegurinn ofan Flekkuvíkur.

Almenningsvegurinn er elsta sjáanlega samgönguleiðin um hreppinn og liggur hún víðast hvar tiltölulega stutt frá byggðinni og þó yfirleitt ofan við Gamla Keflavíkurveginn. Í lýsingu séra Péturs Jónssonar af Kálfatjarnar- og Njarðvíkursókn frá árinu 1840 er þessari leið lýst þannig: “Vegur liggur gegn um heiðina frá Stóru-Vogum og beint að Breiðagerði, svo með bæjum við túngarðinn inn fyrir Kálfatjörn. Eftir þaðan frá gegn um heiðina inn hjá Vatnsleysu.”

Staðarborg

Staðarborg.

18. Staðarborg – borgin er stór og listilega velhlaðin fjárborg frá Kálfatjörn og virðist hún vera óskemmd með öllu. Hún er um 8 m í þvermál að innan og vegghæðin um 2 metrar. Þjóðsaga er til sem segir að hleðslumaðurinn hafi ætlað að hlaða borgina í topp en þá hafi prestur komið og stöðvað verkið svo borgin yrði ekki hærri en turn Kálfatjarnarkirkju. Staðarborgin er talin nokkur hundruð ára gömul og var friðlýst árið 1951. Þórustaðastígurinn liggur upp heiðina vestan borgarinnar, í gegnum Þórustaðafjárborgina, framhjá Keili og upp á Vigdísarvelli. Ein af mörgum leiðum upp heiðina. A.m.k. 7 fjárborgi eru í heiðinni milli Strandarvegar og núverandi Reykjanesbrautar.

Grindavík

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum 1921.

1. Grindavíkurvegurinn – horft frá Grímshól – útsýnisskífa – vegur til framtíðar. Velkomin til Grindavíkur. Alltaf sól á Suðurnesjum – stundum á bak við skýin. Hér er súrefnið hvað ferskast og ónotað er það kemur með vindum og golfstraumnum sunnan úr höfum. Höfum farið um 2000 ferðir um Reykjanesskagann, en einungis þrisvar fengið kærkomna rigningu á þeim ferðum. Reykjanesskaginn er sennilega ónýttasta útivistarsvæði landsins – í nálægð við u.þ.b. 200.000 neytendur, auk annarra áhugasamra Íslendinga, að ekki sé talað um nýtinguna skammstoppandi útlendingum til handa. Svæðið hefur upp á alt að bjóða, sem önnur fjarlægari svæði gætu boðið upp á – jarðfræðina, náttúruna, fegurðina, fjölbreytina, minjarnar, söguna og þjóðtrúna, helsta sérkenni okkar Íslendinga. Mikilvægt fyrir leiðsegjendur að vera jákvæða og uppbyggjandi – vera innblásturshvetjandi, frumlegir og leitandi að einhverju áður ókunnu.

Arnarklettur

Arnarklettur.

2. Mörkin að norðanverðu – í Arnarklett við Snorrastaðatjarnir og þaðan yfir í Setjörn (Selvatn) – í Þórðarfell og áfram niður í Valahnúkamalir við Reykjanestá. Austurmörkin eru í Seljabót þannig að landið, einkum ströndin, er víðfeðm.
3. Áður fyrr lágu fimm meginleiðir til Grindavíkur, sem um tíma var eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls þegar fiskurinn varð að útflutnings- og söluvöru og stóllinn lagði undir sig flestar sjávarjarðir á Reykjanesskaganum. Austast var leiðin frá Krýsuvík um Ögmundarhraun, þá Skógfellaleiðin frá Vogum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum. Reyndar á enn ein leið að hafa legið frá Rosmhvalanesi um svonefndan Gamlakaupstað ofan Ósabotna og áfram áleiðis til Grindavíkur um Sandfellshæð, en ekki sést móta fyrir henni í dag. Þó má merkja vörðubrot ofarlega á Hafnasandi.

Dollan

Dollan á Gíghæð.

4. Sagan – Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Við munum í ferðinni m.a. skyggnast fyrir um mögulega landsetu höfðingjans á tilteknum stað á mörkum Járngerðarstaða- og Þórötlustaðahverfis.
Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til þess að Einar Einarsson í Garðhúsum hóf verslun í húsi sem hann byggði árið 1897 í Járngerðarstaðarhverfi.

Grindavík

Grindavíkurhöfn – ÓSÁ.

Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið og upp úr 1950 hófst alvöru hafnargerð. Grindavík fékk kaupstaðarréttindi 1974. Um aldamótin síðustu voru íbúar 357 talsins. Grindavík er öflugt sveitarfélag á suðurströnd Reykjanesskaga um 50 km frá Reykjavík. Íbúar voru 2.382 þann 1. desember sl. (nú um 2.500). Fallegt bæjarstæði við rætur Þorbjarnarfells, nálægð við gjöful fiskimið, ferðamannastaður og heilsulind eins og Bláalónið sem og öflugt íþróttastarf með ungu fólki, allt þetta hjálpast að við að skapa gott mannlíf í framsæknu bæjarfélagi. Nú hefur verið bætt við menninguna hérna í Grindavík og reist Saltfisksetur Íslands í Grindavík þar þar með hafa grindjánar eignast stórt og mikið menningarsetur sem notað verður í þágu Grindvíkinga jafnt sem annarra venjulegra Íslendinga.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

5. Njarðvíkursel – sunnan við Selvatn. Rústir og sennilega eitt nærtækasta sel á Reykjanesi – ekki nema u.þ.b. 50 mertar frá veginum. Skammt frá er hlaðin rétt og stekkur.
6. Eitt af viðfangsefnum góðra leiðsegjenda er að kynna sér vel sögu og örnefndi viðkomandi staðar. Í bók Guðfinns Einarssonar, “frá Valahnúk til Seljabótar” má lesa fjölmörg örnefni með allri strandlengjunni sem og sagnir af atburðum tengdum tilteknum stöðum. Þannig má þar lesa um Clamstrandið við Kirkjuvogsbás, Alnabystrandið utan við Jónsbás sem og aðra helstu sjóskaða fyrri tíma.
7. Helsta sögueinkenni Grindavíkur er útgerðarsagan, vertíðir og vermennska, en jafnframt útvegsbændamennskan, tilfærska byggðarinnar frá einum stað til annars eftir því sem ölög og aðstæður gáfu tilefni til og hið einkennandi viðhorf til náungans. Þannig var hver landbleðill nýttur til einhverra nota. Ef bóndinn þurft ekki endilega á honum að halda gat einhver annar, t.d. vermaður, fengð hann til afnota. Þannig byggðust upp þurrabúðir og grasbýli í hverfunum er síðar urðu að kotum og endurgerðum húsum.
GrindavíkÚtgerðarsagan er nátengt útlendingsversluninni, einkum Þjóðverja og Englendinga er endaði með bardaganum mikla í júní árið 1532 er á annan tug Englendinga voru drepnir á einni nóttu í Virkinu ofan við Stóru-Bót. Þangað munum við fara og rifja upp þennan örlagaríka atburð fyrir sögu lands og þjóðar. Þar skammt frá er Junkaragerði er þjóðsagan segir frá. Þjóðsagan er oft tengd tilteknum stað. Reynsla okkar Suðurnesjamanna er sú að yfirleitt er hægt að finna þeim tilvist, sbr. sagan af Herdísu og Krýsu, Þórkötlu og Járngerði, Tyrkjavörðunni, Silurgjá, ræningjunum í Ræningjagjá í Þorbjarnarfelli og fleirum.
Gíghæð – vegurinn lagður á árnum 1913 – 1918. Vegavinnubúðir með ca. 500 m millibili. Hestshellir og hús. Arnarseturshraunið rann 1226. Annars eru hraunin ofan við Grindavík og við Svartsengi er ca 2400 ára.

Dollan

Í Dollunni.

8. Dollan – kíkja í u,þ.b. 300 metra langan helli. Dæmigerður fyrir u.þ.b. 400 slíka á Reykjanesskaganum. Stærstir í Klofningum, neðan Grindarskarða og í Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Nokkrir hellar við Gíghæð, s.s. Kubburinn, Hnappurinn og Arnarseturshellir. Dátahellir skammt norðan búðanna í Gíghæð. Þar fannst beinagrind að dáta á sjöunda áratugnum að talið var, er orðið hafði úti allmörgum árum fyrr.
9. Skógfellahraun (1130) – Arnarseturshraun (1226). Hraun á söglegum tíma, sem og nokkur hraun nálægt Grindavík. Hópsnesið er t.d. myndað af gosi í Vatnsheiði (ár), en án þess væri varla svo góð höfn í Grindavík, sem raun ber vitni.

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

10. Baðsvellir – sel Grindvíkinga um tíma – ofbeit – selstaða flutt uppá Selsvelli undir vestanverðum Vesturhálsi. Margar tóftir og minjar. Djúpt markaðir stígar. Hópssel við veginn.
11. Þorbjarnarfell – misgengi í gegnum fjallið – Sagnir um þjófa er herjuðu á íbúana. Ræningjagrá í fjallinu, Baðsvellir norðar og Gálgaklettar austar.
12. Hafið og Grindvikingar samofið í gegnum aldir.

Brim

Grindavíkurbrim.

En fiskur var ekki hið eina, sem hafið gaf. Af því höfðu menn margvíslegt annað gagn, svo sem fjörugróður ýmiss konar, sem notaður var til mann- og skepnueldis, en ekki síst til eldneytis.Flest árin bar brimið og reka á fjörur Grindvíkinga, matreka jafnt sem viðreka, og sést gagnsemi hans best á því, hve mikil sókn var í kvers kyns rekaítök.
13. Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627 – hertóku allmarga íbúa, en drápu engan skv sögunni. Þó segir sagan að tveir Tyrkir hafi látið lífið í atlögunni – sagan af Rauðku – dys á Hrauni.

Skipsstígur

Skipsstígur.

14. Skipsstígur milli Njarðvíkur og Grindavíkur – lýsa leiðinni um Rauðamel – Árnastígur vestar. Gíslhellir á leiðinni sunan Rauðamels.
15. Sögufrægir staðir, s.s. Selatangar og Húshólmi.
16. Kóngsverslunin neðan Húsatófta – krítarpípur – Festasker utar. Staðarvör, Stóra-Gerði, Staðarbrunnurinn (1914) sem verið er að endurgerða. Klukkan af Alnaby er strandaði um aldamótin 1900 í klukknaportinu í kirkjugarðinum. Ofar er Nónvarða eða “Tyrkjavarða”. Á meðan hún stendur mun ekkert illt henda Grindvíkinga. Ofan við Húsatóftir eru hlaðin þurrkbyrgi.
17. Sýlingarfell af landi (Svartsengisfjall – nefnt eftir sauði Molda-Gnúps).
18. Hópssel – tóftir.
19. Selsháls – Þorbjarnarfell – misgengi í gegnum mitt fjallið. Bækistöð Breta uppi á fjallinu.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

20. Gálgaklettar ofan við Hagafell.
21. Skipsstígur utan í Lágafelli – Endurgerður á u.þ.b. 300 m. kafla utan við Lágafellið – Dýfinnuhellir. Við Skipsstíg er Gíslhellir.
22. Fornavör – sjávargatan – Járngerðarleiði.
23. Stóra-Bót – Junkaragerði.
24. Einisdalur – áning.
25. Hópsnesið – (1928-1942) – Guðjón Pétursson, skipstjóri, lýsti mannlífinu á Nesinu í Sjómannablaðinu 200 – Strýthólahraun – sandfuglinn (egg)

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

26. Þórkötlustaðahverfi – dys Þórkötlu – Sloki – byrgi – garðar. Hraun – kapellan – Gamlibrunnur – Tyrkjadys – refagildrur – Tyrkjahellir.
37. Eldvörpin – útilegumannabyrgi – hellar með mannvistaleifum í – refagildra.

Tyrkjaránið – Grindavík
Í júlí 1627 segir í Öldinni okkar: „Víkingar frá Algeirsborg ræna fólki og myrða – námu brott allt að fjögur hundruð manns, myrtu fjörutíu og rændu miklum fjármunum. Brenndu auk þess og eyðilögðu mikil verðmæti.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Geigvænlegir atburðir hafa gerst: Víkingar frá Norður-Afríku hafa gengið á land í Grindavík, Vestmanneyjum og víða á Austfjörðum, rænt fólki og fémæti og drepið fjölda manna. Meðal þeirra er sér Jón Þorsteinsson í Kirkjubæ í Eyjum. Minnstu munaði að víkingar þessir réðust einnig til atlögu að Bessastöðum, og tálmaði það fyrirætlan þeirra, að eitt skip þeirra tók niðri á boða á Skerjafirði.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og nágrenni.

Víkingar þessir, sem flestir voru frá Algeirsborg, komu hingað til lands á fjórum skipum. Það er talið að þeir hafi drepið hér um fjörutíu manns, flesta í Vestmannaeyjum, sært nokra og haft á brottmeð sér hátt á fjórða hundrað Íslendinga og nálega tuttugu Dani, þar á meðal tvo Vestfjarðarkaupmenn. Fjögur kaupskip hremmdu þeir og höfðu tvö þeirra á brott með sér.
Í Grindavík voru teknir tólf Íslendingar og þrír Danir og þar að auki áhöfn duggu þeirrar, sem áti að fara til Skutulsfjarðar.
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir höfninni. Var sendur frá því bátur, að dönsku kaupskipi, er þar lá, og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ eftir ábendingum Guðjóns í Vík.

Grindavíkurkaupmaðurinn, Láritz Bagge, mannaði þá bát og lét róa út í skipið. Voru sendimenn þegar gripnir. Þessu næst greiddu víkingar atlögu, hremmdu kaupskipið og réðust til uppgöngu í kaupstaðinn.
Flúði kaupmaður á land upp með öllum þeim, sem hjá honum voru í kaupmannshúsunum, en víkingar hófu að ræna búðirnar og byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólk, er féll í hendur víkingum. Engan drápu víkingar þó í Grindavík og ekki hirtu þeim um að hafa þá á brott með sér, er lasburða voru og einskis verðir sem þrælar á markaði.

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Þegar víkingar létu út frá Grindavík, sáu þeir kaupfar danskt á leið vestur með landinu. Var þetta Skutulsfjarðarduggan. Tókst þeim að blekkja skipstjórnarmenn á henni með danskri veifu og ná henni á sitt vald. Sigldu þeir síðan á tveimur skipum fyrir Reykjanes og Garðskaga og inn Faxaflóa og huguðst ganga þessu næst á land á Álftanesi.
Fréttir af ráninu í Grindavík bárust þegar til Bessastaða, þar sem hirðstjórinn, Holgeir Rósinkrans, var fyrir á herskipi, sem lá á Seylunni. Lét hann undir eins safna liði um Nesin og halda vörð nótt og dag. Kaupför þau, sem komin voru, sendi hann inn á Leirvog í Mosfellssveit, en bændur voru kvaddir til virkishleðslu í Bessastaðanesi og þangað dregnar fallbyssur, sem heima voru á Bessastöðum. Aðkomumenn komu, voru kyrrsettir, og vildi svo til, að meðal þeirra voru þrír Frakkar, sem kunnu með skotvopn að fara, og hinn íslenski ævintýramaður, Jón Indíafari, sem hefur verið skytta á herskipum Danakonungs.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – teikning dr. Bjarna Sæmundssonar 12. apríl 1895.

Víkingaskipin lögðu inn á Skerjafjörð laugardaginn 23. júní og stefndu á Seyluna. Steig þá hirðstjóri á hest með sveit manna, og reið flokkurinn fram og aftur með langar stengur, sem smíðaðar höfðu verið. Var það gert í því skyni, að víkingum virtist þar sveit altygjaðra hermanna.
Víkingar tóku að skjóta úr fallbyssum sínum, er þeir nálguðust, og var þeim svarað með fallbyssuskotum úrvirkinu og af hirðstjóraskipinu á Seylunni. Véku þá víkingar skipum sínum undan norður á fjörðinn, en við það tók stærra skipið niðri, þar sem heita Löngusker, og stóð þar fast.

Skansinn

Skansinn – uppdráttur ÓSÁ.

Lét hirðstjóri þá hætta skothríðinni, því að honum þótti ekki vogandi að egna víkingana til bardaga, ef vera kynni, að þeir létu sér strandið að kenningu verða. Hófu víkingar að flytja fanga og þungavarning úr hinu strandaða skipi yfir á hitt, en fleygðu því í sjóinn, er torveldast var viðfangs. Tókst þeim loks eftir hálfan annan sólarhring að ná skipinu af grynningunum og færðu skip sín þá utar, þar sem þeir voru óhultari. Þar selfluttu þeir fólk og varning á ný á milli skipanna, sigldu síðan brott og létu í haf með feng sinn.”
Árið 1628 komu nokkrir þeirra handteknu aftur heim. Þar á meðal voru tvo systkin frá Járngerðarstöðum við þriðja mann. Það var hollenskur kaupmaður sem leyst hafði Grindvíkingana út. Fólk þetta sagði þær fréttir að hinir herteknu væru flestir í ánauð í Algeirsborg, þeir sem ekki létust skömmu eftir komuna til Norður-Afríku.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Á Suðurnesjum eru nokkrar minjar og sagnir tengdar komu Tyrkjanna. Má þar nefna Ræningjastíginn í Heiðnabergi í Krýsuvík, komu Tyrkjanna í Krýsuvíkurselið ofan við bjargið, samskipti séra Eríks á Vogsósum við þá og Ræningjadysin austan við Ræningjahól, Eiríksvarðan á Svörtubjörgum ofan við Selvog, „Tyrkjavarðan“ (Gíslavarða) vestan við Stað í Grindavík, sem ekki má raska og Fornavörin neðan við Járngerðarstaðahverfi, en þar er talið að Tyrkinn hafi varpað akkerum.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (Efra-Helli) ofan Hrauns.

Einnig má nefna Blóðþyrninn (þistill) neðan við Sjólyst í Grindavík, hellir við Húsfjall ofan við Hraun, en þangað ætluðu Þórkötlustaðabúar að flýja ef Tyrkinn kæmi á ný, Dýrfinnuhellir, en sagan segir að þangað hafi samnefnd kona flúið með börn sín og dvalið meðan Tyrkir höfðust við í plássinu, byrgin undir Sundvörðuhrauni, en ein tilgátan er sú að þau hafi verið hlaðin til að veita fólki skjól ef Tyrkinn kæmi aftur til Grindavíkur og dysin á Hrauni, en þar eiga Tyrkir er Rauðka drap að hafa vera verptir skv. sögunni, svo eitthvað sé nefnt.
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir áðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.

Hraun

Hraun – dys.

Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu. Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.

Þyrnir

Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær. (Því miður hafa Grindvíkingar vanrækt þetta svæði á síðari tímum).

Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

Þórkötlustaðanesið

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar. Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna. Pétur Guðjónsson, skipsstjóri fæddist í Höfn. Hann lýsir Nesinu svo:
„Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina. Vatninu var safnað af húsþökum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar neðst og bryggjan efst.

Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum. Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí.
Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða. Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ gerður eftir Pétri Guðjónssyni í Höfn.

Áður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – bryggjan.

Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.

Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Áður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.
Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.

Þórkötlustaðanes

Vélspilið á Nesinu.

En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.
Jóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.
Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana. Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi heim að kveldi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu. Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – vegurinn að Þórshamri.

Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.
Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi. Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.

Þórkötlustaðanes

Innsiglingarvarða og Þórshöfn á Þórkötlustaðanesi.

Innsiglingavörðurnar voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)

Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.
Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi. Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.
Þegar gengið er um Þórkötlustaðanesið og út á Hópsnesið má víða sjá upplýsingarskilti um strönd og skipsskaða og jafnvel brak úr bátum.
Þurrkgarðar eru frá fyrr tíð ofar á Nesinu sem og gömul þurrkbyrgi í Strýthólahrauni, skammt vestan við Þórshamar.
Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.“

ÓSÁ tók saman.

Þórkötlustaðanes

Gengið um Þórkötlustaðanes.

Vatnsleysuströnd

Landnám.
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám. Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Hrolleifur bjó síðan í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg, Vogastapi eða oft aðeins Stapi.

Eftir landnám.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni; ÓSÁ.

– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

– 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.

Kirkjur.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja 1953.

Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.

Stefán Thorarensen

Stefán Thorarensen.

Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.

Atvinnuhættir og viðurværi. Viðeyjarklaustur – landsetar konungs.
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.

Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.

Hólmur

Hólmurinn undir Stapa.

Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á síðunni.

Framfarir.

Vogar

Vogar 1954.

Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogsvör – loftmynd.

Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 1950.

Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Vogar
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.

Áhugaverðir staðir.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

– Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.

– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378m, Trölladyngju 379m eða Grænudyngju 402m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.

Selsvellir

Selsvellir – tóftir.

– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.

Sögur og sagnir.

Vogastapi

Kvíguvogabjarg.

Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.

Stapadraugurinn

Stapadraugurinn.

Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.

“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti.

Stapagata

Stapavegur.

Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!

Staðarborg

Staðarborg.

Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,

-Samantekt Viktor Guðmundsson.

Heimildir.
Ágúst Guðmundsson Halakoti. Þættir af Suðurnesjum. Bókaútgáfan Edda Akureyri 1942.
Árni Óla. Strönd og Vogar. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1961.
Gísli Brynjólfsson. Byggðir Suðurnesja. Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984.
Guðmundur B. Jónsson .Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Útg. af höfundi 1987.
Jón Böðvarsson. Suður með sjó. Rótarýklúbbur Keflavíkur 1988.
Jón Dan. Atburðirnir á Stapa. Almenna Bókafélagið 1973.
Jón Jónsson. Um heiðar og hraun. Í Árbók Ferðafélags Ísland .1984.
Jón Jónsson. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1978.
Sesselja Guðmundsdóttir. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Lionsklúb. Keilir 1995.
www.bokasafn.rnb.is.
www.ferlir.is

Vatnsleysuströnd

Vegir á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Markhella

Löngum hefur verið deilt um hvar mörk einstakra jarða liggja eða eiga að liggja.

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

FERLIR áskotnaðist nýlega kort af Reykjanesskaganum þar sem tíunduð eru mörk allra stærri jarða á skaganum. Landamerkja jarða er m.a. getið í afsals- og veðmálsbókum. Upphaflegar þinglýsingar er að finna hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, hjá sýslumanninum í Keflavík eftir 1974 og einnig má hafa uppi á þeim á Þjóðskjalasafninu.
Krýsuvík, sbr. veðmálsbók 14.5 1890, þingl. 20.6. 1890, er sögð hafa mörk “1) að vestan; sjónhending úr Dágon (Raufarkletti), sem er klettur við flæðamál á Selatöngum, í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðavatnsstæði. 2) að norðan; úr Markhelluhól sjónhending norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (=Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu. 3) að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur s: sjónhending úr Kóngsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.

Sogasel

Í Sogaseli – sel frá Krýsuvík og síðar frá Kálfatjörn í skiptum fyrir útræði.

Ítök sem kirkjan á eru þau, sem nú skal greina: 1) Einn fjóri hluti (1/4) alls hvalreka fyrir Strandarkirkjulandi samkvæmt máldögum og samningi, dags. 22. október 18??, staðfestum af Stiptsyfirvöldum Íslands 27. nóvember s.á. 2) Hálfur hvalrki á Hraunnefi, frá vestri fjörumörkum Krýsuvíkur, Dagon, að Rangagjögri, samkvæmt Wilkins og Gíslamáldaga. Skipsuppdráttur í Nausthólsvík í Kálfatjarnarkirkjulandi samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna. Ítök sem aðrir eiga í landi kirkjunnar eru þessi: Tveir þriðjungar af hvalreka fyrir Herdísarvíkurlandi, frá Seljabótanefi að Breiðabás (Helli) sem samkvæmt nefndum máldögum er eign Strandarkirkju. Mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju. Brennisteinsnámur allar á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi með réttindum og skyldum, sem afsalsbréf, dags. 30.9. og 4.10 1858 tekur fram. Ítak þetta er eign útlendinga. Þess skal hér getið að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem ég ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigandi orðið ásáttir um landamerki þau sem hér eru talin.”

Selsvellir

Tóft við Selsvelli.

Mörk jarðarinnar Hrauns, skv. gögnunum, eru t.d. við mörk Þórkötlustaða úr „markabás“ inn til heiða vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall upp af „Sogaselsdal“, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkum jarðarinnar Krýsuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Þaðan til suðurs fram yfir Festargnípu í fjöru.

Mörk Þórustaða í austri eru t.a.m. sögð vera „í hæsta hnúkinn á Grænavatnsengjum (-eggjum)“ þar sem eru fyrir landamörk Krýsuvíkur.

Spákonuvatn

Spákonuvatn.

Þarna hefur fólk löngum deilt um mörkin, en ef lesnar eru afsals- og þinglýsingar ætti ekki að vera svo erfitt að draga landamerkjalínuna, einkum er höfð er í huga yfirlýsing Vatnsleysustrandarbænda dags. í maí 1920 þar sem þeir „fyrirbjóða innbyggjendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Knarrarnesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru…“. Þar draga þeir línu að fyrrnefndum viðurkenndum mörkum Krýsuvíkur í Trölladyngju.
Krýsuvík hafði, auk þess að nýta Sogagíg sem selstöðu, í seli austast í Selöldu (mjög gamalt), í Húshólma, á Vigdísarvöllum, í Seltúni og jafnvel í Litlahrauni, en þessir staðir eru allir innan landamarka jarðarinnar.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Kálfatjörn

Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi.

GoðhóllKálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað fjöruparti þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka.

Kálfatjörn

Landabrunnur við Kálfatjörn. Ólafur Erlendsson við brunninn ásamt Selvogs Jóa.

Rétt við túngarðinn á Kálfatjörn er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur. Þar þrýtur sjaldan vatn. Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur. Þá voru teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina. Þessi brunnur er fallega hlaðinn með með heillegri á svæðinu. Væri vert að skoða hvort hægt væri að endurbyggja yfir hann vindu og lok. Færi það væntanlega vel við hugmyndir fólks um að byggja þarna upp minjasvæði.

Hólskot

Hólskot – brunnur.

Á sumrum, einum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu í ljós þegar út fjaraði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvottur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón sem skola mátti.
Flæðibrunnar voru gerðir við flesta bæi og kot á Reykjanesi. FERLIR hefur skoðað um 90 slíka.

Staður

Brunnur við Stað.

Sumir eru djúpir, rúmgóðir og fallega hlaðnir, s.s. brunnurinn á Stað við Grindavík, sem nú er verið að gera upp (hlaðinn árið 1914), brunninn á Stóra-Hólmi við Garð, Kotvogsbrunninn í Höfnum, brunnana í Flekkuvík og Norðurkotsbrunninn. Marga brunna hefur verið fyllt upp í til að afstýra hættum, s.s. brunninn á Þórkötlustöðum og á Selatöngum. Sumir brunnanna eru upprunanlegir og standa enn vel fyrir sínu, s.s. brunnurinn við kot Hólmfasts í Njarðvíkum og brunnurinn í Merkinesi, sem gengið er niður í og inn í, líkt og gamli brunnurinn við Reykjanesvita (1872) sem og brunnurinn við Nes í Selvogi.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Brunnarnir eru oft það eina, sem eftir er af minjum sumra kotanna. Ofan við Gufuskála er fallegt vatnsstæði, sem hlaðið hefur verið í kringum. Vatnsstæðið eða brunnurinn er í raun lind, sem kemur undan klöppunum. Ekki er ólíklegt að þessi lind hafi verið ástæðan fyrir því að Steinunn gamla setti niður bæ sinn á Rosmhvalanesi.

Heimild:
-Úr örnefnalýsingu fyrir Kálfatjarnarhverfi, Ólafur Erlendsson, 18.11.1976, skráð af Kristjáni Eiríkssyni.

Norðurkotsbrunnur

Norðurkotsbrunnur.