Þingvellir – þingminjarannsóknir

Þingvellir

Í Íslendingabók er m.a. getið um Alþingi. Þar segir að maður, sem átti landið í Bláskógum upphaflega hafði verið gerður útlægur fyrir dráp á þræli. Hann var nefndur Þórir kroppinskeggi.
thingvellir-993Landið varð síðar almenningseign og fólkið setti þar niður Alþingi“: „Alþingi var sett at ráði Úlfljóts ok allra landsmanna, þar er nú er, en áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.
En maðr hafði sekr orðit of þræls morð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndr Þórir kroppinskeggi, en dóttursonr hans er kallaðr Þorvaldr kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu ok brenndi þar inni Gunnar, bróður sinn. Svá sagði Hallr Órækjusonr. En sá hét Kolr, er myrðr var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust.

Þingvellir

Horft til norðurs yfir þingstaðinn.

Land þat varð síðan allsherjarfé, en þat lögðu landsmenn til alþingis neyzlu. Af því er þar almenning at viða til alþingis í skógum ok á heiðum hagi til hrossahafnar. Þat sagði Úlfheðinn oss.
Svá hafa ok spakir menn sagt, at á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svá at eigi væri meir síðan.
Því nær tók Hrafn lögsögu Hæingssonr landnámamanns, næstr Úlfljóti, ok hafði tuttugu sumur. Hann var ór Rangárhverfi. Þat var sex tigum vetra eftir dráp Eadmundar konungs, vetri eða tveim, áðr Haraldr inn hárfagri yrði dauðr, at tölu spakra manna.
Þórarinn Ragabróðir, sonr Óleifs hjalta, tók lögsögu næstr Hrafni ok hafði önnur tuttugu. Hann var borgfirzkr.“

Thingvellir - budakortÍ Skýrslu Adolf Friðriksson, Garðar Guðmundsson og Howell M.Roberts um „Þinghald til forna – Framvinduskýrsla 2002“ segir m.a. um fyrrum þingminjarannsóknir á Þingvöllum: „Árið 1998 hófst undirbúningur að fornleifarannsóknum á Þingvöllum og fól Þingvallanefnd Fornleifastofnun að taka saman greinargerð um stöðu rannsókna og gera tillögur um nýjar rannsóknir. Á grundvelli þessarar úttektar var gerð áætlun um frekari rannsóknir á þingminjum, og stofnað til verkefnisins “Þinghald til forna á Íslandi” undir stjórn Adolfs Friðrikssonar og Dr. Sigurðar Líndal. Er það samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands, Þingvallanefndar, Þjóðminjasafns Íslands, Hins íslenska bókmenntafélags og Raunvísindastofnunar HÍ. Rannsóknin nær til allra fornra þingstaða, og er markmið hennar að varpa nýju ljósi á gerð þeirra, aldur og hlutverk í samfélagi fornaldar.

Athuganir og skráning á 18. öld
Þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd á 13. öld tók þinghald á Þingvöllum breytingum, þannig að þar varð ekki lengur allsherjarsamkoma eins og lýst er í Íslendingasögum heldur fyrst og fremst dómþing og fundur ráðamanna landsins.

Þingvellir

Frásagnir eru til um fjölbreytta skemmtan og þjónustu á þingtímanum.

Alþingi gegndi þó áfram veigamiklu hlutverki sem æðsta valdastofnun innlend en eftir að einveldi var komið á 1662 dró mjög úr pólitískri þýðingu þess uns það var lagt niður í lok 18. aldar. Voru elstu minjar þinghalds þá fallnar í gleymsku, huldar jarðvegi og yngri mannvirkjaleifum eða jafnvel horfnar með öllu. 18. öldin virðist þó hafa verið helsta öld framkvæmda á þingstaðnum en þá fóru embættismenn konungs aftur að byggja búðir í Þinginu og reist var sérstakt lögréttuhús.
Rannsóknir á fornum mannvistarleifum á Þingvöllum hófust á 18. öld og hafa þar verið gerðar margvíslegar athuganir síðan. Elsta lýsing af þingstaðnum er „Alþings Catastasis Epter sógn fyrre manna“ sem mun hafa verið gerð árið 170027. Þar er sagt frá lögréttu og um 18 búðum.

Þingvellir

Búð á Þingvöllum.

Búðatóftunum er ekki lýst, en sagt er hvar þær eru og að þær hafi tilheyrt hinum ýmsu mönnum, sem þekktir voru úr fornsögum. Þar segir að hið „gamla Lögberg“ sé á Spönginni. Hafa fræðimenn síðan deilt hart um hvort Lögberg hafi verið þar á Spönginni eða á Hallinum vestan Öxarár. Af frumritinu eru til fjölmargar afskriftir sem sýnir rannsóknarsögu Þingvalla frá 1700-1945 og byggir fyrri hluti þessa yfirlits að mestu á hans verki.
Þessi ritgerð hefur leitt til þess að gerð var lýsing á þingstaðnum árið 1735, eins og hann var þá. Er hún gagnmerk samtímaheimild um hvar búðir lögmannanna, amtmanns, landfógeta, landsskrifara og búðir sýslumanna voru.
Árið 1783 skráði Jón Steingrímsson búðir á Þingvöllum og er þar að finna annars vegar lýsingu á fornmannabúðum en hins vegar þeim búðum sem þá voru og er sú lýsing ýtarlegri en eldri skráin. Þessar 18. aldar lýsingar á staðsetningu þingbúða fornmanna byggðu á munnmælum og ágiskunum út frá frásögnum fornsagnanna.
thingvellir - ornefnakortJón Ólafsson frá Grunnavík ólst upp hjá Páli Vídalín lögmanni og reið með honum til þings hvert sumar á árunum 1719-1726. Eru til lýsingar eftir hann á mannvirkjum frá þeirri öld31. Af þeim 18. aldar mönnum sem fjölluðu um þingstaðinn forna, var hann fyrstur til að benda á að Lögberg hafi líklega verið á Hallinum skammt norðan við Snorrabúð. Taldi hann sig m.a. hafa fundið leifar hinnar fornu lögréttu þar á berginu. Segist hann hafa fundið þar „ferkantaða hraunsteina, setta í hálfhring“, sem „voru allir mátulega stórir til að sitja á“. Þessir steinar eru ekki lengur á sínum stað því Jón og félagar hans tóku þá upp, veltu þeim niður af Hallinum og gerðu úr þeim stillur yfir ána. Er Þingvalla ennfremur getið í nokkrum landlýsingum og ferðabókum frá 18. öld, og eru þeirra merkastar lýsing Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Auk þessara lýsinga eru til þrír uppdrættir af þingstaðum frá 18. öld og einn frá öndverðri 19. öld. Enginn þeirra er nákvæmur í samanburði við uppdrætti frá síðari tímum, en sýna flestir engu að síður Þingvallabæ, kirkjugarðinn vestan, og kirkjuna norðan bæjar, nokkrar tjaldaðar búðir og helstu drætti í landslaginu í kring.

Rannsóknir á 19. öld
Um miðja 19. öld fengu fornar mannvirkjaleifar á Þingvöllum táknrænt gildi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hér slær saman pólitískri sögu og sögu fræða og þjóðlegra rannsókna.
thingvellir - collingwoodSigurður Guðmundsson málari og stofnandi Forngripasafns Íslands hóf rannsóknir á Þingvöllum, og var hann óspart hvattur af Jóni Sigurðssyni til þess. Athyglisvert er að þeir gerðu sér grein fyrir mörgum aðferðafræðilegum vandamálum varðandi minjaskoðun á söguslóðum. Jón varaði Sigurð við því að trúa öllum frásögnum fólks um minjastaði, og gæta sín á því „að þeir ljúgi engu sjálfir, sem segja frá, því þeim hættir við að ginna á þesskonar okkur sögufíflin“. Sigurður aflaði sér upplýsinga hjá staðkunnugum, og benti sjálfur á að mikilvægt væri við rannsókn á Þingvelli að safna upplýsingum um yngri minjar, s.s. fjárhús, fjós, heygarða og réttir til að þeim verði ekki ruglað saman við búðatóftir eða dómhringa. Jón lagði hart að Sigurði að rannsaka Þingvöll vandlega og skrifa um hann lærða ritgerð. Gerði Sigurður rannsókn á Þingvelli um 1861 og Bókmenntafélagið gaf út skýrslu hans árið 1878, að honum látnum. Var það fyrsta sjálfstæða verkið um fornleifar á Þingvelli.

Björn Gunnlaugsson

Björn Gunnlaugsson – uppdráttur.

Björn Gunnlaugsson, sem fyrr á öldinni hafði unnið að Íslandsuppdrætti fyrir Bókmenntafélagið, slóst í för með Sigurði og gerðu þeir uppdrátt af staðnum sem var mun nákvæmari en fyrri kort. Ljóst er að Sigurður hafði talsverða þekkingu á sögunum og lögbókunum fornu. Þessar heimildir gefa þá mynd af þingstaðnum að þar hafi verið búðir er menn héldu til í yfir þingtímann, lögrétta og dómhringur. Í sögunum eru vísbendingar um afstöðu búða einstakra manna. Sigurður lagði mikla áherslu á að bera kennsl á hverja búð og ákvaða hver hafi þar haldið til á söguöld. Hann fann í sögunum lauslegar lýsingar á aðstæðum er gáfu einhverja vísbendingu um legu búðanna á svæðinu og bætti sumum við á Þingvallaruppdrátt án þess að þeirra sæjust merki á yfirborði.

Þingvellir

Þingvellir – yfirlit.

Niðurstaða Sigurðar var á þá leið að flestar sjáanlegar minjar á staðnum mátti tengja sögu fyrstu alda Íslandsbyggðar. Á örfáum stöðum getur hann yngri minja sem hann segir hafa verið byggingar sem reistar hafa verið á eldri tóftum. Af þessum sökum var ritgerð Sigurðar talsvert gagnrýnd af erlendum fræðimönnum.
Í riti Kristians Kålund um íslenska sögustaði46 er að finna rækilegustu lýsingu á Þingvöllum og þeim Þingvallavandamálum sem þá voru efst á baugi. Hann gefur stutta lýsingu á búðunum sem þar voru sýnilegar, en taldi líklegt að allar minjar sem voru þar frá söguöld, væru horfnar, enda hafi tóftarbrotin fornu horfið er nýjar búðir og aðrar byggingar voru reistar á Þingvöllum í aldanna rás.

Þingvellir

Þingvellir – aftökustaðir.

Hið íslenska fornleifafélag lét það verða eitt sitt fyrsta verk eftir stofnun félagsins að gera rannsókn á Þingvelli 1880, enda var félagið upphaflega stofnað í kringum fyrirhugaðar Þingvallarannsóknir. Sigurður Vigfússon fór á vegum félagsins og rannsakaði bæði minjar og staðháttu, með hliðsjón af fornsögunum. Hann birti með rannsókn sinni uppdrátt Björns Gunnlaugssonar að viðbættum nýjum upplýsingum. Sigurður mældi upp allnokkur mannvirki og gróf í minjar á sex stöðum beggja vegna Öxarár: í Biskupsbúð sem er skammt vestan við traðirnar að Þingvallabæ og norðvestan kirkjunnar, í hleðslu skammt vestan við suðurenda Spangarinnar, í mannvirkið á Spönginni, í „Njálsbúð“ vestan ár á móts við Þingvallabæ, í „Snorrabúð“, og loks í hleðsluna á Hallinum norðan við Snorrabúð, þar sem sumir fræðimenn töldu að Lögberg hefði verið.
Taldi Sigurður sig sanna að Lögberg hefði verið á Spönginni og snerist þar með gegn skoðunum virtra fræðimanna á borð við Kålund og Guðbrand Vigfússon, sem töldu Lögberg hafa verið vestan ár.

Mannvirki á Spönginni
Thingvellir-993Dagana 1. júní – 4. júní 1880 mældi Sigurður upp og gróf í mannvirki á Spönginni austan ár.49 Þar er hringlaga gerði og ferhyrnd tóft í miðju innan þess. Samkvæmt mælingum hans er hringlaga mannvirkið þar um 18,83 m (60 fet) í þvermál langsum eftir Spönginni (NA-SV), en um 16.63m (53 fet) þversum (NV-SA) að utanmáli. Inn í hringnum er lítil, ferhyrnd tóft, 9,73 m (31 fet) x 6,60m (21 fet) að utanmáli og snýr u.þ.b. NV-SA, með op á suður (SV) hlið. “Veggir tóttarinnar eru gildir og miklu hærri en brún hringsins umhverfis”, segir Sigurður. Hann lét grafa tvo skurði: annan langsum eftir Spönginni og annan þversum yfir miðjan hringinn og tóftina, niður að berginu undir. Hann skildi eftir tvö ógrafin höft í miðri tóftinni. Dýpst náðu skurðirnir 188 sm (3 álnir), við tóftarvegg þar sem hann er hæstur, en grynntust út til brúna á berginu. Sigurður áleit að tóftin hafi verið byggð ofan í hringinn síðar.

thingvellir-994

Þessu til stuðnings bendir hann á að hún stendur ekki í miðju hringsins, heldur suðaustan til í honum, hún er ólík að gerð og jarðvegur er mun þéttari inní henni en innan hringsins. Að öðru leyti er tóftinni ekki lýst, og ljóst að Sigurður hafði takmarkaðan áhuga á henni. Ekki eru gefin innri mál, mál á þykkt veggja eða hleðslugerð þeirra, en greint frá því hvort inní henni hafi verið e.k. skán eða ekki. Sigurður telur líklegt að hún sé búðartóft frá seinni tímum, og síðar, samkvæmt munnmælum, hafi lögrétta verið höfð þar. Öllu ítarlegri lýsingu gefur hann á hringmannvirkinu: “Aðaleinkenni á þessu mannvirki er það, að [flestir steinarnir finnast]…í fyrstu pálstungu, og svo mold fyrir neðan, og sýnist grjótinu dreift út með moldinni til uppfyllingar mest á yfirborðinu; sums staðar sjást engir steinar, og er mold alveg niðr í gegn, en einungis voru steinar á stangli í moldinni.” Lýsing hans á ystu brún hringsins virðist stangast á. Fyrst segir hann enga steinhleðslu hafa verið en “sums staðar hryggur af smágrjóti undir hringröndinni ystu”, en síðar segir hann í þremur örmum skurðanna sjáist “hleðsla yst eða grjót”.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson.

Taldi hann votta fyrir fleiri hringlaga hryggjum, jafnvel 2-3 innan hringsins: “er innar sem tveir eða þrír hringir úr grjóti, hver innan í öðrum, niður við bergið og í miðjunni sem væri lítið afgirt rúm með steinum á berginu(?), en ekkert verður sagt um þetta með frekari vissu”. Ljóst er að hinir meintu hringir hafi ekki verið ýkja greinilegir og Sigurður hefur ekki getað gert upp við sig hvort hann tryði því að þetta væru e.k. bekkir, eða náttúrulegir hryggir.50 Þetta mannvirki virðist m.ö.o. hafa verið e.k. pallur eða upphækkun úr mold og grjóti. Berghellan sem mannvirkið stendur á virðist flöt en lægst í miðju. Í skurðunum í miðju upphækkunnarinnar sást þunnt svart plöntulag “hér um bil eina alin 18-12 þumlunga frá berginu” eins og segir í skýrslunni. Lýsing er á þessu mannvirki í Lögberg, Þjóðólfi (1951) 3. árg, bls. 270: Á lögbergi miðju var það, sem dómendur sátu, þar sér enn merki til dómhringsins, og er það núna grasivaxin hringrúst. Innan í hring þessum sér til húsrústar, og er hún nýrri og glöggari; hún er frá seinni tímum Alþingis á Þingvöllum og var kölluð allsherjarbúð.

“Biskupsbúð”
thingvellir- yfirlit - 904Stór tóft er í Þingvallatúni, niður við árbakka, um 30 m norðan við kirkjuna.
Sigurður Vigfússon rannsakaði staðinn með grefti dagana 29. maí til 1. júní 1880. Honum sýndist tóftin “halda sínu upprunalega lagi” og “eru gaflhlöðin einkum skýr”. Samkvæmt mælingu hans er tóftin 104 fet (32,4 m) á lengd NA-SV, en 24 fet (7,58m) á breidd NV-SA. Eystri langveggurinn var óskýr, en dyr á vestri vegg, nær nyrðri enda54. Sigurður lýsir uppgreftinum svo: “Ég lét grafa umhverfis tóttina að utan þannig, að steinarnir í ytri hleðslunni, eða undirstaðan að utan kom öll í ljós, og svo skurð fyrir utan undirstöðusteinana líka allt í kring um tóttina.”

Þingvellir

Þingvellir til forna.

Í ljós kom steinaröð með steinum af misjafnri stærð, sem af lýsingunni að dæma virðist víðast hafa verið tvær raðir, en sumstaðar meira eða minna tveföld, enda, ef til vill, meir, sumstaðar einföld. Út úr eystri vegg, við NA-horn er útbygging, um 20 fet (6,26 m) á hvorn veg, með dyr til austurs: “Í búðarkróknum út úr syðra vegg útbyggingarinnar sýndist að hafa verið grjótbálkur áfastur við útbygginguna. Hann er… [um] 16 feta [ 5 m] á annan veg, og eins eða meira á hinn. Hér um bil í miðjum bálkinum fannst mikið af öskumold og ösku og nokkuð af viðarkolum, sem eg geymi, einnig fundust þar tvö eða þrjú stykki af nautsbeinum með fleira smálegu, er eg geymi einnig. Ofan að grjótinu var misjafnlega djúpt, eftir því sem til hagar.”

thingvellir 1930-2

Svo virðist sem grafinn hafi verið skurður utan og innan með veggjunum, en ekki innan úr tóftinni. Sigurður nefnir ekki hvort tóftin virðist hafa verið umbyggð, og hann nefnir ekki gólfskán eða önnur merki. Síðar í skýrslunni er sagt að öll (ystu) gaflhlöð tóttanna hafi verið meira eða minna hálfhringlaga, þ.e. ekki bein heldur lítillega sveigð út á við.
Matthías Þórðarson skoðaði tóftina og verksummerki eftir uppgröftinn (1922?) og lýsti svo: “Nú er þetta allt vallgróið aftur, og óljóst, hvar verið hafi hleðslur þær, er Sigurður Vigfússon nefnir, nema gaflhlöðin eru bæði greinileg enn og allhá. Fyrir nyrðri hliðvegg sér og nokkuð, einkum vestan-til; sömuleiðis má sjá, hvar þær dyr hafa verið, sem Sigurður getur um, 11-12 fet (um 3,50 m) frá austurgafli að innan. … Fyrir útbyggingunni sér nær ekki; má þó sjá, við hvað Sigurður hefur átt, enda segir hann ljóst til þess”.

“Njálsbúð”
thingvellir - songhellir 2Dagana 4. til 7. júní gróf Sigurður Vigfússon upp stóra tóft sem stendur þar sem er dálítið nef á vesturbakka Öxarár gegnt Þingvallabæ, um 80 m vestan við Valhöll. Sigurður lýsir tóftinni svo fyrir uppgröft: “Eftir því sem hún lítur nú út, hefir hún öll fornleg einkenni, þar sem engin nýrri hleðsla sést innan í eða ofan á henni.” Tóftin liggur því sem næst í NNA-SSV. Samkvæmt mælingum Sigurðar er hún 86 feta (26,95m) löng og 25-27 feta (7,83-8,45 m) breið. Uppgraftaraðferðin við þessa tóft var önnur en sú sem notuð var við Biskupsbúð. Þar hafði hann grafið með veggjum hringinn í kring, en hér voru þeir breiðir og ógreinilegir, einkum langveggirnir.

Þingvellir

Þingvellir – Njálsbúð.

Við hliðvegggina beitti hann sömu aðferð og áður, þ.e. að grafa einskonar ræsi með veggjunum utan og innan, en hann gróf hinsvegar ofan af norðaustri til suðvesturs. Matthías Þórðarson lýsir tóftinni sem ferhyrndri grjótdreif: “Er hér nú engin upphækkun og engir veggir, en grjótið sýnir, hvar veggirnir hafa verið. Þeir virðast hafa verið um 1,5 m að þykkt, og lengdin er nú um 25,50 m, en breiddin 8,5 m að utanmáli.”
“Snorrabúð” svonefnd er norðan við götuna sem liggur í skarðinu um eystri brún Almannagjár.
Sigurður Vigfússon gróf í tóftina 7. og 8. júní 1880. Hann getur þess í skýrslu sinni að tóftin hafi verið óaðgengileg til rannsóknar “því marghlaðið er innan í hana og seinast var þar stekkur, sem öllum er kunnugt og var allt fullt af grjóti á víð og dreif umhverfis búðina”. Tóftin snýr A-V og er 70 fet (21,93 m) á lengd og 30 fet (9,39 m) á breidd að utan máli samkvæmt mælingum Sigurðar.
thingvellir - skotutjornHann virðist hafa grafið frá austur- og vesturenda hennar, bæði innan og utan veggja. Í skýrslunni segir að hann hafi einkum rannsakað “nyrðra gaflhlaðið”, en sennilega hefur átt að standa “eystra”, því norðurhliðin er langhlið, ekki gafl, og af samhenginu að dæma er þar átt við hliðina sem snýr frá Almannagjá. Lítið eða ekkert hefur verið grafið frá hliðveggjum, því Sigurður taldi að upprunaleg hleðsla þar væri horfin. Austan megin fann hann djúpt ræsi fyrir utan (ysta) vegginn og “þar virtust mér koma í ljós þrjár grjóthleðslur hver innan í og upp af annarri; þó þóttist ég nokkurn veginn viss um, að eg komst út fyrir hina ystu, og ef til vill, upprunalegu hleðslu.” Vestan megin, þ.e. sem snýr inn í gjána, fundust einnig “þrjár hleðslur á sama hátt, og er þar einnig grafið ræsi fyrir utan.” Ystu gaflhleðslurnar eru hálfhringmyndaðar. Ekki nefnir Sigurður neina gripi, öskudreif eða önnur ummerki.

spongin-3Er Daniel Bruun skoðaði ummerki á Þingvöllum um aldamótin síðustu sá hann garðlag utan við austurenda tóftarinnar og taldi vera leifar virkis. Hann var áhugamaður um hernaðarmannvirki leitaði að virkisleifum víða.

Þetta garðlag er ekki nefnt í lýsingu Sigurðar, enda mun það ekki vera veggur eða virkisleifar, heldur uppkastið úr rannsókninni 1880. Matthías lýsir þessari sömu tóft svo: “Búð þessi er mjög veggjaþykk og glögg, en hleðslur þó úr lagi gengnar…. Austur-gaflhlað fláir mjög að neðan og verður bogamyndað neðst, og er grjótdreif umhverfis með jarðvegi nokkurum milli steina.” Samkvæmt mælingum Matthíasar er tóftin 10,3 m að lengd og 5,6 m að breidd að utanmáli, en 6,50 m x 2,30 m að innanmáli, með dyrum á suðurvegg.

Þingvellir

Þingvellir – búðir.

Talsvert ósamræmi er á mælingum þeirra Sigurðar. Tóft þessi er tvískipt, en það nefndi Sigurður ekki. Við vesturenda hennar er lítil tóft, jafnbreið, en lægri og um 5,40 m að lengd að utanmáli, en um 2,5 m að innamáli. Matthías telur ólíklegt að stekkur hafi verið settur í tóftina, því Öxará ræður merkjum og er tóftin því í landi Brúsastaða og allfjarri bæ.
Hleðsla við “Lögberg”. Þann 7. og .8. júní 1880 gróf Sigurður Vigfússon í hleðslu á gjábakkanum skammt norðan við “Snorrabúð”, þar sem sumir fræðimenn álíta að Lögberg hafi verið. Samkvæmt lýsingu hans var þar e.k. pallur 59-67 fet ( um18,5-21 m) að lengd c. N-S, og um 51 fet (16m) A-V. Sigurður gróf 3ja álna breiðan (1.88m) skurð frá gjábarmi og til austurs í gegnum mannvirkið út á brún.

bagall-21

Á brúninni kom í ljós “mikil og breið grjóthleðsla (þriggja álna breið [ 1.88m] og hálf önnur alin [0,94m] á hæð), sem þó er töluvert úr lagi gengin.” Grafið var frá henni að neðan beggja vegna á 48 feta [15 m] löngu bili. Í miðju mannvirkinu rakst Sigurður á lítinn og stuttan grjótbálk. Sigurður gróf síðan annan skurð langsum eftir miðju mannvirkinu, álíka breiðan, um fjórar álnir (2,5m) en heldur mjórri við norðurenda. Nær suðurenda (að því er virðist) fann Sigurður óreglulegan grjótbálk “margir stórir steinar, en sem allir virtust vera úr lagi gengnir”, voru sumir í moldinni en aðrir niður við bergið.

Þingvellir

Þingvellir – búð við Lögberg.

Ekkert fannst nema mold norðanmegin, en sunnantil, u.þ.b. miðja vegu milli grjótbálkanna, kom Sigurður niður á mikið öskulag, þar í var skora stór og full af ösku. Öskulagið lá niður við bergið og er því eldra en upphækkunin, sem er úr mold, um 60-90 sm þykk. Þar var gjóta niður í bergið og taldi Sigurður hana hafa verið notaða fyrir eldstæði. Í öskunni voru viðarkol og beinaska. Að áðurnefndum hleðslum frátöldum er mannvirkið úr mold. Í miðju mannvirkinu fann Siguður “glerbrot rúma hálfa alin [rúmlega 31,33 sm] niður í moldinni; það er líkast því, sem það væri úr bumbunni á lítilli könnu með eftirgjörðu hálfgrísku lagi, líkt og tíðkast hefir á seinni tímum. Hálsinn á kerinu hefir verið thingvellir 1944-2gyltur utan og innan.
Utan á brotinu er upphleypt rós, leggir og blöð, gjört eftir náttúrunni, en grunnurinn er gulur. Gyllling og öll yfirhúð á brotinu lítur mjög nýlega út.” Það var niðurstaða Sigurðar að þetta mannvirki væri ekki Lögberg, heldur hugsanlega leifar af búðarvirki Orms Svínfellings sem nefnt er í Sturlungu. Margir aðrir fræðimenn, þ. á m. Matthías Þórðarson álíta að þarna hafi Lögberg verið.

Rannsóknir á 20. öld

Þingvellir

Þingvellir – skilti.

Fræðilegur áhugi á Þingvöllum var mjög almennur um aldamótin og takmarkaðist ekki eingöngu við deilur um staðsetningu Lögbergs. Um þetta leyti naut minjastaðurinn hins vegar engrar sérstakrar friðhelgi. Á ársfundi Fornleifafélagsins 1901 fór Finnur Jónsson hörðum orðum um ástand minjaverndar í landinu. Gagnrýndi hann m.a. vegaframkvæmdir í Almannagjá og þá eyðileggingu sem rannsóknir Sigurðar Vigfússonar höfðu í för með sér og hvatti til þess að friðhelgi fornleifa yrði virt66. Finni varð að ósk sinni er Alþingi samþykkti árið 1907 lög um verndun fornmenja, þar sem þjóðminjaverði var m.a. heimilt að friðlýsa fornleifar.
thingvellir-994Ekki var leitast við að skera úr um Lögbergsdeiluna með fornleifauppgrefti á nýjan leik, en kortagerð og yfirborðsathuganir héldu áfram. Herforingjaráðið lét gera uppdrátt af Þingvelli 1908, og var hann gefinn út 1910. Á honum eru merktar sumar búðartóftir, en ekki t.d. mannvirkið á Spönginni eða áhleðslan þar sem Lögberg var talið vera. Var úr þessu bætt er Samúel Eggertsson og Matthías Þórðarson gerðu nýjan uppdrátt af þingstaðnum 1929. Byggði hann á ítarlegum vettvangsathugunum Matthíasar.

“Þorleifshaugur”

Þingvellir

Friðrik VIII og fylgdarlið á Þingvöllum.

Er vegurinn („Konungsvegur“) var lagður austur um Þingvallahraun 1907 í tilefni af heimsókn Friðriks 8., var tekinn jarðvegur ofan af hraunbungu og hól skammt vestan við veginn þar sem hann liggur um suðurenda Brennugjár. Voru sagnir um að þetta væri haugur Þorleifs jarlsskálds: “Hann var sýnilega gamalt mannvirki, lausagrjót mikið í honum, borið saman af mönnum, og var jafnvel enn í nokkrum hleðslulögum, og miklar moldir.

Lítilsháttar varð vart við ösku og leifar af birkikolum… Enn fremur fundust mjög óverulegar beinaleifar, örfúnar og lítill silfurpeningur…mjög eyddur og gegnsýrður svo að hann molnaði í sundur áður en hann yrði ákveðinn. thingvellir-905…Einnig fundust óverulegar leifar af járnnagla og lítill járnmoli. Grjótdyngjan öll í hólnum aðgreindist í bálk, sem var í miðju, og þústir sem voru, hvor sínu megin, að austan og vestan við hann. Var dyngjan öll um 5 ½ m á lengd frá austri til vesturs og nær 4 m á hinn veginn”. Taldi Matthías líklegt ekki ekki fullvíst að þarna hafi verið haugur og leit út fyrir að hann hafi þegar verið grafinn áður og í honum rótað.
Árið 1927 voru öll gömull mannvirki á Þingvöllum, beggja vegna Öxarár friðlýst af þjóðminjaverði, svo og rústir eyðibýlanna Grímsstaða, Bárukots, Múlakots, Litla-Hrauntúns, Ölkofrastaða og ónefnds býlis undir Hrafnabjörgum. Ári síðar setti Alþingi lög um verndun þjóðgarðsins á Þingvöllum69. Margvíslegar athuganir voru gerðar á næstu árum á Þingvöllum og næsta nágrenni. Voru það einkum náttúruskoðun og örnefnaskráning.

Rannsóknir á síðustu árum

Þingvellir

Þingvellir – búðartóft.

Engin rannsókn með uppgrefti var gerð á Þingvöllum frá því er Matthías athugaði meint kuml vestan Brennugjár 1920 þar til tilkynnt var um óvæntan fornleifafund í Þingvallatúni 1957. Þá var verið að grafa fyrir jarðstreng og m.a. tekinn skurður skammt norðan við eystri enda Öxarárbrúar (neðri). Þar fannst s.k. tá-bagall á 43 sm dýpi. Gísli Gestsson gerði þar lauslega athugun og sá að hluturinn hafði komið úr jarðlagi með viðarkolaleifum.

Þingvellir

Þingvellir – Öxará undir Öxarárbrú.

Undir því lagi voru mannvistarlög niður á eins metra dýpi í skurðinum. Tá-bagallinn er að mati Kristjáns Eldjárns skreyttur með víkingaaldarstíl, sem nefndur er Úrnesstíll, og er frá ofanverðri 11. öld. Er þessi fundur mjög merkur fyrir margra hluta sakir. Tá-bagall er tignarmerki biskupa og ábóta og gat Kristján þess til að hann hefði verið í eigu trúboðs- eða farandbiskups eða jafnvel eins af fyrstu biskupum Íslands. Er hann skreyttur í anda þeirrar listar sem stóð í blóma á lokaskeiði víkingaaldar, áður en hin rómanska kirkjulist miðalda ruddi sér til rúms. Loks ber að geta að þetta er ekki eingöngu eini tábagallinn sem fundist hefur á Íslandi, heldur og sá eini sem fundist hefur á Norðurlöndum.
thingvellir-stekkjargja-2Er Gísli athugaði betur jarðstrengsskurðinn sá hann ummerki um húsbyggingar um 13 metrum norðar og nær Þingvallabæ. Fann hann þar m.a. gólflag á tæplega 10 m löngum kafla. Er ljóst að skurðurinn hefur farið í gegnum fornar byggingar sem ekki sér til á yfirborði. Þjóðminjasafnið hugðist gera frekari rannsókn í Þingvallatúninu, en aldrei varð af því vegna anna starfsmanna og bíður þessi staður þess enn að gerð verði athugun á minjunum. Varð og enn langt hlé á fornleifaathugunum á Þingvöllum.
Árið 1985 hélt Landvernd ráðstefnu um Þingvelli 198573. Þar hélt Guðmundur Ólafsson deildarstjóri fornleifadeildar Þjóðminjasafns erindi um uppgrefti á Þingvöllum. Árið eftir hóf hann síðan uppmælingu á sýnilegum fornleifum á Þingvöllum. Mælingunum var haldið áfram 1987 og 1988, en engin skýrsla var gerð um árangurinn. Ekki er því unnt að fjalla nánar um þær athuganir hér, en þó skal þess getið að fram hefur komið að uppmælingin leiddi í ljós að á Þingvöllum væru fleiri búðaleifar en áður var talið. Samkvæmt lýsingum Matthíasar Þórðarsonar taldi hann um 37 búðaleifar á Þingvelli. Við athuganir 1986-1988 kom fram að þar væru a.m.k. 50 búðatóftir og tóftabrot.

Þingvellir

Þingvellir Öxarárfoss.

Árið 1993 var gerð tilraun til að nota jarðsjá við fornleifaleit á Þingvöllum að ósk þjóðgarðsvarðar og Þingvallanefndar. Rannsóknin takmarkaðist við spildu NNA við Valhöll og var gerð í því augnmiði að kanna ytri mörk „Njálsbúðar“ og athuga hvort aðrar mannvistarleifar leyndust þar. Af þeim sjö sniðum sem mældu voru, náðu tvö þeirra yfir „Njálsbúð“ og er niðurstaða mælinganna talin sýna að núverandi göngustígur þar nái yfir austurhluta hennar. Þess skal getið hér að á yfirborði er augljóst að stígurinn nær yfir austurlanghlið og norðausturhorn búðarinnar.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Önnur helsta niðurstaða mælinganna var sú að talið er líklegt að þær gefi vísbendingar um tvær búðir á svæðinu sem áður voru ókunnar. Á yfirborði er þar að sjá lága hóla sem standa upp úr mýrinni, en þeir hafa enga skýra tóftalögun. Auk jarðsjárinnar var notaður járnteinn og hann rekinn niður í svörðinn til að kanna hvort þar kynni að leynast grjót, sem gæti verið hleðslugrjót í veggjum. Sú athugun sýndi að grjót var m.a. að finna á þessum tveimur stöðum. Þó túlka beri niðurstöður jarðsjármælinga mjög varlega, þá er ekki ósennilegt að hólarnir í mýrinni séu búðaleifar. Er það gagnleg áminning um að fornleifar, og jafnvel þingstaðaleifar er víðar að finna á Þingvöllum en þar sem sjá má búðatóftir með berum augum. Í því sambandi má benda á að Vellirnir norðan við Öxará voru sléttaðir fyrir alþingishátíðina 1930 en þar geta vel hafa verið búðlaleifar.
thingvellir-gataÁrið 1998 hóf Þingvallanefnd undirbúning að nýjum rannsóknum á Þingvöllum og fól Fornleifastofnun að taka saman heimildir um staðinn og greinargerð um stöðu rannsókna og gera tillögur um nýjar rannsóknir.76 Sama ár gerði Adolf Friðriksson lítilsháttar vettvangsathugun til að skoða álitlega rannsóknarstaði og ástand fornleifa. Meðal þeirra staða sem voru skoðaðir voru mannvirkið á Spönginni, “Biskupsbúð”, “Njálsbúð”, “Snorrabúð” og áhleðslan á “Lögbergi”.
Tóftin á Spönginni er enn talsvert greinileg, en óljóst mótar fyrir meintum hring. Hinsvegar er ljóst að landið liggur hærra í kringum tóftina en bæði sunnan og norðan við. Enn má nokkurnveginn sjá hvar Sigurður gróf skurði sína. Staðurinn hefur orðið fyrir lítilsháttar skemmdum, því troðinn gönguslóði liggur frá suðurenda Spangarinnar til norðurs og þvert í gegnum hringinn og yfir tóftina. Er slóðinn sumsstaðar djúpur og rof í bökkunum.

Snorrabúð

Snorrabúð.

Biskupsbúð virðist ekki hafa orðið fyrir hnjaski síðan Sigurður gróf ár 1880. Njálsbúð liggur á árbakkanum og lá slóði yfir austurhluta hennar, en liggur nú vestan við búðina. Veggirnir eru ógreinilegir og gengnir í sundur víða. Snorrabúð virðist lítið hafa breyst frá því Matthías Þórðarson lýsti henni fyrr á öldinni. Enn má sjá móta fyrir skurðum Sigurðar. Um áhleðsluna á Lögbergi er sömu sögu að segja. Þar sjást rásir í upphækkuninni sem eflaust eru skurðir Sigurðar frá 1880. Ofar hefur verið sett niður flaggstöng en ekki ljóst hvort sú framkvæmd hafi valdið einhverju raski.
Árið 1999 var gerð minniháttar athugun við Þingvallakirkju árið eftir, að ósk vísbendinga um eldri kirkjur á staðnum, og hvenær fyrsta kirkjan var reist á þeim stað sem hún stendur nú (síðan 1859). Eins var markmiðið að kanna ástand jarðvegs, varðveisluskilyrði og útbreiðslu gjóskulaga með tilliti til frekari rannsókna síðar. Grafinn var 10 m langur og 2 m breiður skurður til norðurs, við norðausturhorn kirkjunnar. Í ljós kom að jarðvegur er þar fremur grunnur, og undir er hraunklöpp. Þar fundust grjótundirstöður eldri kirkna og svo heppilega vildi til að vel varðveitt gjóskulög í jarðveginum gáfu skýra niðurstöðu um aldur hennar. Eldri lög, s.s. frá 871, 920 og 934 sáust ekki, enda hefur lítill jarðvegur verið á klöppinni á þeim tíma, en sjá mátti yngri lög ofar: Utan við undirstöðuna hefur verið grafinn skurður og sker hann Kötlulag frá c. 1500, en ekki yngra lag, sem er einnig Kötlulag, frá 1721. Af afstöðu laganna að dæma, hefur kirkjan verið reist á 16. öld.

Nýjar rannsóknir
Thingvellir 1771Þegar litið er yfir rannsóknarsögu Þingvalla í heild blasir við að athuganir á mannvistarleifum þar hafa litlu bætt við þekkingu á staðnum. Mestu fræðilegu púðri hefur verið eytt í að bera saman 13. aldar frásagnir um atburði á söguöld við sýnilegar minjar á staðnum, sem eru líklega flestar frá 18. öld. Einnig hefur lengi verið deilt um hvar Lögberg hafi verið, en lítið er t.d. vitað um aldur eða gerð mannvirkja. Því fer fjarri að fullreynt sé að nota fornleifafræðilegar vísbendingar til að fylla þá mynd sem eldri rannsóknir hafa dregið upp af staðnum. Athyglisvert er að þrátt fyrir allt sem skrifað hefur verið og skrafað um Þingvelli til forna, þá eru engar traustar fornleifafræðilegar heimildir fyrir hendi um forsögu þingstaðarins, þ.e. 10. og 11. öld, áður en ritöld hefst á Íslandi.

thingvellir 1789-2

Er áðurnefndur tá-bagall eina undantekningin frá þeirri reglu. Umfjöllun um forn mannvirki á Þingvöllum hefur að miklu leyti snúist um þjóðsögur, ágiskanir lærðra og leikra og jafnvel hreinan tilbúning. Áhrifa þessa gætir enn. Jón Ólafsson segist hafa velt niður steinum sem hann áleit hafa verið úr lögréttunni fornu og eru þau minjaspjöll á „þessum helgustu fornleifum landsins“, enn hörmuð. Hins vegar er engan veginn víst að Jón hafi haft rétt fyrir sér um eðli og aldur þessara minja, enda um hreina ágiskun að ræða af hans hálfu. Athuganir á svonefndum dómhringum víða um land hafa leitt í ljós að allskyns tóftir og jafnvel náttúrumyndanir hafa verið skýrð sem minjar um forna dóm- og þingstaði án þess að nokkur fótur sé fyrir því. Einnig er það áberandi einkenni á rannsóknum, skráningu og kortagerð á Þingvallaminjum að þær hafa takmarkast við minjasvæðið á Hallinum og á Spönginni auk stöku bletta austan ár, en heildarkönnun á fornleifum í landi Þingvalla hefur ekki enn verið gerð. Rannsóknir síðustu ára, þ.e. fjarkönnun 1993 og 1999 og uppgröfturinn norðan kirkju sýna að frekari fjarkönnun og uppgröftur gætu skilað verulegum árangri. Í næsta kafla verður fjallað um helstu forsendur og markmið nýrra rannsókna.

Rask á þingstaðnum

Thingvellir 1836-2

Á s.l. árþúsundi hefur orðið margvíslegt rask á Þingvöllum, bæði af völdum náttúru og manna. Svo sem kunnugt er hefur mikið landssig átt sér stað síðan frá landnámi og hefur það eflaust breytt ásýnd staðarins. Öxará rann áður vestan Almannagjár en var í fornöld veitt niður á vellina og hefur þar breitt úr sér. Hafi forn mannvirki staðið á völlunum skammt austan Öxarár má ætla að mörg þeirra séu nú horfin í rofi. Einnig er rof í bökkum vestanmegin, þar sem búðarleifar eru enn. Lét þjóðminjavörður dýpka aðalfarveg árinnar á þriðja áratugnum í því skyni að verja minjastaðinn.
Er nútíminn hélt innreið sína varð Þingvöllur að sérstökum áningarstað. Um s.l. aldamót (1897) var lagður vegur í Almannagjá til að auðvelda þar aðgang fólks að þessum merka sögustað. Eins og áður var getið harmaði Finnur Jónsson þessi náttúru- og fornminjaspjöll þegar árið 1901. Engu að síður héldu gáleysislegar vegaframkvæmdir þar áfram og árið 1907 var lagður vegur um þvera vellina og grafnar miklar gryfjur til beggja handa. Á árunum 1920-21 og 1923-24 lét þjóðminjavörður fylla þessar gryfjur á ný, taka af og þekja veginn og troðninga en leggja þess í stað nýjan akveg.
thingvellir 1905-2Síðan 1927 hafa fornleifar á Þingvöllum verið friðlýstar, og nýtur staðurinn aukinnar verndunar sem þjóðgarður. Engu að síður hafa minjaspjöll haldið þar áfram að nokkru leyti, m.a. vegna framkvæmda við undirbúning að Alþingishátíðum. Á Völlunum efri voru fornar reiðgötur sem nú sjást ekki lengur því undirbúningsnefnd Alþingishátíðarinnar 1930 lét slétta vellina og síðar voru þeir teknir til ræktunar. Var svo gert þrátt fyrir andstöðu þjóðminjavarðar84. 1929 voru bæjar- og peningshús tekin ofan, túnið stækkað til suðurs og lagður vegur yfir Fjósagjá, um Miðmundatún og vestur að Valhöll undir Hallinum.
Skömmu fyrir lýðveldishátíðina 17. júní 1944 var kirkjugarðinum á Þingvöllum umturnað, gömul, grasi-gróin leiði voru jöfnuð út eða færð í kaf. Árið 1940 var vígður nýr grafreitur austan við kirkjuna, en ekki er ljóst hvort fornleifar hafi komið þar fram.

thingvellir - ahugi

Ýmsar húsbyggingar fyrr og síðar á 20. öld, ásamt framkvæmdum við lagnir og aðra skurðagerð sem ábúð og mannavist fylgir, hafa eflaust valdið raski á fornminjum, þó ekki sé um það kunnugt. Fornleifafundurinn í Þingvallatúni 1957, þá er grafið var fyrir jarðstreng, ber um það glöggt vitni að fornleifar geta víða leynst þó ekki sjái til þeirra á yfirborði. Á þeim stað (Miðmundatún) og víðar hefur nú einnig verið plantað trjám og hafa rætur þeirra eflaust spillt fornleifum.
Meðal framkvæmda fyrir 1930 var að setja steina í nokkrar búðir með áletruðum búðanöfnum. Var það gert í því skyni að auðvelda ferðamönnum að átta sig á þingstaðnum. Þar eru merktar búðir sem hafa verið taldar búðastæði Snorra goða og Njáls, en einnig voru merktar búðir nokkurra embættismanna frá 18. öld. Má til sanns vegar færa að þær merkingar hafi litla þýðingu fyrir þjóðgarðsgesti, enda eru menn litlu nær að vita t.d. að tiltekin búð hafi verið búð Jens Madtson Spendrup sýslumanns.
thingvellir-ferdamennÁ sjötta og sjöunda áratugnum komu af og til upp hugmyndir um að byggja eftirlíkingar af þingbúðum á staðnum til að laða að fleiri ferðamenn og gefa þeim nánari hugmynd um hvernig var umhorfs við þinghaldið til forna. Var alloft sveigt að Kristjáni Eldjárn þjóðminjaverði í blöðum fyrir aðgerðaleysið, enda búðirnar „engum til gagns“ eins og þær væru nú. Töldu sumir nauðsynlegt að reisa „virðulegt minnismerki“ á Lögbergi. Þar þyrfti að rétta af hallann sem er á Lögbergsflatanum, rækta þar gras og setja blómabeð, og „byggja Lögréttu í fornum stíl“. Þó svo að hún „hafi aldrei verið staðsett upp á Lögbergshæðinni“ þá yrði Lögréttubyggingin þar verðugt minnismerki engu að síður. Aðrir lögðu áherslu á að reisa „fróðlega og gagnlega eftirmynd af búðum til forna“, því það gæfi ekki aðeins útlendingum hugmynd um þinghaldið, heldur væri þetta „nauðsyn“ fyrir Íslendinga sjálfa, einkum æskuna sem annars notar staðinn fyrir fylleríssamkomur. Kristján stóð gegn framkvæmdum af þessu tagi, og taldi sér fátt óskyldara en „að búa til fornleifar“. Á síðustu árum hefur orðið kúvending í þessum málum og nú er ekki hreyft við steini á Þingvelli án tilskilins og undirbúnings og eftirlits. Lagðir hafa verið göngustígar þar sem ekki er kunnugt um fornleifar og umferð beint frá viðkvæmum svæðum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Ein af þeim fræðilegu spurningum sem eru hvað brýnastar er sú hver séu í raun takmörk þingstaðarins. Það veit enginn og ljóst er af skurðgrefti vegna veitulagna, nýlegum athugunum með fjarsjá og uppgrefti að fornleifar leynast víða á Þingvöllum. Auk þess hafa búðakönnuðir á 19. og 20. víða bent á staði þar sem þeir telja líklegt að leynist fleiri þingbúðir, en það hefur ekki verið kannað. Sumar þessara minja tilheyra vitaskuld Þingvallabæ og búskap þar, en aðrar munu vera þingminjar. Sú mynd sem almenningur hefur af staðnum byggir vitaskuld á því sem sést á yfirborði, en eflaust er heildarmyndin flóknari og einfaldlega stærri, ef svo má að orði komast. Brýnt er að gera almenna úttekt á ástandi minja á svæðinu, kanna rof í tóftarbrotum eða skemmdir vegna jarð- eða trjáræktar. Einnig er nauðsynlegt að skrá Þingvallaland í heild, og kortleggja þannig allar sýnilegar minjar, auk þeirra minja sem heimildir eru til um, en ekki eru sýnilegar á yfirborði. Þannig verður m.a. unnt að ákvarða takmörk þingstaðarins og gefa forsendur fyrir skipulagsvinnu og framtíðarráðstöfun jarðnæðis innan þjóðgarðsmarka. Búðir hafa verið beggja vegna árinnar og er mikilvægt, með könnunargrefti og fjarsjármælingar að staðsetja sem flesta minjastaði.

Rannsókn á Þingvöllum 2002

Þingvellir

Snorrabúð á Þingvöllum.

Samkvæmt upphaflegri áætlun var ráðgert að gera forkönnun á átta stöðum á Þingvöllum árið 2002, þ.e. vestan ár, á mannvirkinu á svonefndu Lögbergi, s.k. Snorrabúð, s.k. Njálsbúð og svæðinu sunnan Njálsbúðar, og austan ár, á Miðmundatúni þar sem tábagall fannst 1957, á Biskupshólum, á árbökkum Öxarár norðan Biskupshóla og á Spönginni.
Vegna fjárskorts var athugunum á Snorrabúð, Lögbergi og mannvirkjaleifum á Spönginni frestað, en lögð áhersla á að ljúka forkönnun á öðrum stöðum. Grafinn var könnunarskurður á þessum stað og fannst þá veggur sem væntanlega tilheyrir áður óþekktri búðartóft. Undir grasrótarlaginu (190) var fremur ljósleitur, brúnn og leirkenndur moldarjarðvegur (191) og í honum vottaði fyrir torfi. Þar undir var dökkbrún mold (192) og stóð vatn í á 30 sm dýpi. Syðst í skurðinum voru allnokkrir steinar, eflaust úr vegghleðslu, sem er talsvert hrunin.
Engar vísbendingar fundust um aldur mannvirkisins, og óvíst er um lögun þess og stærð, enda sjást lítil merki á yfirborði. Grafa þyrfti búðina upp til að sjá lögun hennar, en svæðið er blautt og því erfitt að stunda þar fornleifauppgröft. Þessi niðurstaða staðfestir engu að síður, að suðurmörk þingstaðarins austan ár eru einfaldlega óþekkt, því búðir kunna að hafa staðið hér og hvar á þessu svæði. Ummerki um mannvirki eru horfin því þau hafa sokkið í blautan jarðveginn. Finnist fleiri minjar á þessum slóðum mun það breyta heildarmynd þingstaðarins.

Fornleifakönnun austan ár – Miðmundatún

Þingvellir

Þingvellir – Öxarárfoss.

Árið 1957 var grafið fyrir jarðstreng á Miðmundatúni, skammt frá norðausturhorni brúarsporðsins, þar sem nú er trjálundur. Þar fannst fyrir tilviljun sjaldgæfur dýrgripur, s.k. tábagall frá 11. öld – tignarmerki biskupa. Við skyndiathugun það ár komu í ljós mannvistarlög sem bentu til að þar hafi staðið e.k. mannvirki, en þau voru ekki athuguð frekar. Ekki hefur verið vitað til þess að þingbúðir hafi staðið á þessum slóðum, en vissulega er fundurinn óvenjulegur og mannvistarlögin gefa fullt tilefni til frekari rannsókna.

Niðurstöður
thingvellir - thjodgardurSumarið 2002 hófust rannsóknir á fornleifum á Þingvöllum. Grafnir voru prufuskurðir á Miðmundatúni, Biskupshólum, austurbakka Öxarár skammt norðaustan Biskupshóla, og í svonefnda Njálsbúð og aðra tóft skammt vestan við hana. Helstu niðurstöður rannsóknanna eru þær fjöldi meintra búða er meiri en áður var talið. Áður óþekktar búðir komu í ljós á öllum þessum stöðum. Ljóst er nú að á Biskupshólum og þar í kring hefur ekki aðeins staðið ein búð, heldur mikil búðaþyrping, sem ekki sér lengur móta mikið fyrir á yfirborði nema að mjög litlu leyti. Svo virðist sem þar séu mannvirki allt frá 10.-11. öld. Elstu mannvirkin eru gerð úr voldugum veggjum með torfhleðslum og stóru grjóti. Ekki er hægt að segja frekar til um aldur eða hlutverk þessara mannvirkja, en þessi staður er vænlegur til rannsókna með uppgrefti. Hér hefur hlaðist upp talsverður jarðvegur, en eldri minjar virðast ekki hafa spillst af búðagerð frá síðari tímum, eða raski vegna búskapar né af náttúrulegum ástæðum. Eru vegghleðslurnar reyndar óvenjuheillegar, og vottar fyrir gólflögum. Eins fundust þar gjóskulög og varðveisluskilyrði í jarðvegi eru ágæt.
Önnur helsta niðurstaða sumarsins er sú að minjar á Þingvöllum sem öðrum þingstöðum eru víða að spillast af völdum náttúrunnar, einkum af völdum vatnsaga eða trjágróðurs, t.a.m. í mýrinni sunnan við búðaþyrpinguna vestan ár, við trjálundinn á Miðmundatúni og á bökkum Öxarár. Við athuganir á vorþingstöðum á Vestfjörðum kom í ljós að þeir hafa allir raskast að verulegu leyti, vegna vegagerðar, skriðufalla, trjágróðurs, rofs, vatnsaga og byggingaframkvæmda. Engu að síður eru upplýsingar um mannvirki á þessum stöðum mikilvægar við rannsóknir á eðli þingminja.“

Heimild:
-Þinghald til forna – Framvinduskýrsla 2002 – Adolf Friðriksson (ritstjóri). Höfundar efnis: Adolf Friðriksson, Garðar Guðmundsson og Howell M.Roberts, Reykjavík 2002.
http://www.nabohome.org/uploads/fsi/FS183-02141_Thinghald_til_forna.pdf

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.