Þorbjarnarstaðir – tjarnir – brunnur

Þorbjarnastaðir

Gengið var um land Þorbjarnarstaða í Hraunum. Bæjartóftirnar eru þær síðstu heillegu er minna á gamla torfbæinn í landi Hafnarfjarðar.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir og nágrenni.

Álfélagið keypti uppland bæjarins af Skógrækt ríkisins á litlar 100 milljónir króna fyrir nokkrum árum. Til stóð að kaupa einnig Þorbjarnarstaðalandið, þ.e. heimalandið, og reyndar munaði litlu að bærinn seldi það frá sér, en sem betur fer varð ekkert úr því. Ekki það að landið færi ekki vel í höndum álfélagsins, heldur ber bæjarfélaginu skylda til að sjá svo um að minja svæði sem þetta varðveitist innan þess og verði gert öllum aðgengilegt er þess óska. Ákjósanlegast væri að gera Þorbjarnastaði upp og leyfa síðan fólki að skoða hann sem ímynd og fulltrúa þeirra bæja er fólk lifði og dó í á 19. og byrjun 20. aldar. Fátt mælir á móti því að álfélagið styrki þá framkvæmd, enda í áhugaverðu sjónarhorni frá Þorbjarnarstöðum þar sem gamli og nýi tíminn mætast.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.

Sóknarmannatöl allt frá árinu 1801 varpa ljósi á búsetu á Þorbjarnarstöðum síðustu tvær aldir. Þau segja m.a. til um mannfjölda á bænum. Einnig gefa hreppsreikningar á Þjóðskjalasafni góða sýn á bátakost, búfénað, mannfjölda á bænum. Í reikningum Álftaneshrepps frá 1845 5 kýr á Óttarsstöðum, en bara 2 á Þorbjarnarstöðum og 40 ær á móti 60 á Óttarsstöðum. Einnig eru nefndir bátar, kálgarðar, mótekja, o.fl. Í Jarðabókinni frá 1703 segir margt um jörðina á síðustu öldum. Í Jarðabókinni segir t.d. um Straum varðandi fóðrun kúa: „Fóðrast kann iii kýr “bjarglega“ . En um Þorbjarnarstaði segir : „Fóðrast kann iii kýr, “naumlega“. Þetta segir að Straumur hafi verið betri jörð árið 1703 en Þorbjarnarstaðir. Sveiflur á milli jarðaverðmæta voru að sjálfsögðu háðar náttúru- sem og þjóðfélagsbreytingum hvers tíma. Margt fleira má lesa út úr Jarðabókinni varðandi jarðarverðmætin á viðkomandi tíma og samanburð á milli jarðanna.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta (ÓSÁ).

Þorbjarnastaðir eru hið ákjósanlegasta dæmi um torfbæ þessa tímabils. Burstirnar snéru mót suðvestri (sólaráttinni), heimtröðin liggur milli bæjarins og matjurtargarðsins, sem er hlaðinn til að verja hann ágangi skepna. Útihúsin eru bæði fast við bæinn sem og í nálægt hans. Frá bænum til norðausturs liggur vatnsgatan, sem einnig þjónaði sem heimtröð að og frá Alfaraleiðinni, gömlu þjóðleiðinni minni Innnesja og Útnesja.

Þorbjarnastaðir

Þvottarbrú og brunnur við Þorbjarnastaði.

Til eru frásagnir af viðkomu fólks á þessum síðasta bæ í byggð áður en komið var að Hvassahrauni. Aðrir Hraunabæirnir voru mun neðar og norðar. Í vályndum veðrum gat stundum komið sér vel að finna skjól inna veggja bæjarins, þrátt fyrir mikla ómegð, sem þar var um tíma. Börnin voru 11 talsins undir það síðasta, en Þorkell bóndi Árnason var oft fjarri heimahögum, t.d. við sjósókn, til að afla lífsviðurværis. Á meðan annaðist Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Jóns sýslumanns Guðmundssonar á Setbergi, barnahópinn. Auk þess sá hún um skepnurnar og um annað er þurfa þótti til heimilisins. Börnin urðu öll manndómsfólk.

Þorbjarnastaðir

Brunnstígurinn við Þorbjarnastaði.

Líklegt má telja að Ingveldur og börn hennar hafi löngum gengið brunngötuna niður að tjörnunum norðan við bæinn, bæði til þvotta og til að sækja þangað vatn í brunninn. Þau komu því einnig svo fyrir að hægt var að geyma lifandi fisk um nokkurn tíma í tjörnunum. Með fyrirhleðslum var komið á jafnvægi í hluta tjarnanna, sem annars gætti í fljóðs og fjöru. Ferskt vatn kemur undan hrauninu ofan við brunnstæðið, en með því að veita því í ákveðna rás, var hægt að viðhalda sjávarseltunni í einstaka tjörn. Það var lykillinn að „fiskgeymslunni“. Enn í dag sést brunnurinn vel sem og hvar ferskt vatnið kemur undan hrauninu ofan hans.
Enn má sjá móta fyrir öllu þessu, og raunar miklu fleiru. Það er alveg á sig leggjandi að ganga frá gamla Keflavíkurveginum, yfir á Alfaraleiðina ofan við Gerði og fylgja henni ofan við tjarnirnar, norðan Þorbjarnastaða. Á leiðinni sést allt það sem að framan er getið. Það sem eftir er birtist ljóslifandi er gengið er í hlað eftir brunngötunni að Þorbjarnastöðum.
Vonandi verður bærinn gerður upp þegar fram líða stundir – og skilningur á mikilvægi þess eykst. Það getur aldrei orðið til annars en bóta. Á og við Þorbjarnastaði er allt, sem prýtt gat dæimgerðan íslenskan bæ, s.s. bæjarhús, matjurtagarður, heimtröð, brunnur, fjárskjól, rétt, stekkur, selsstígur, sel og annað tilheyrandi.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir.