Þórkötlustaðahverfi – kirkjugatan
Kirkjan í Grindavík var á Stað í Staðarhverfi fram til 1909. Þá var hún flutt yfir í Járngerðarstaðar-hverfi þar sem hún hefur verið síðan – að vísu á tveimur stöðum.
Kirkjugatan frá Hrauni og Þórkötlustaða-hverfi lá yfir norðanvert Þórkötlustaða-nesið, um Gjána og framhjá Vatnsstæðinu að Rifsósi, eiðinu er lokaði Hópið af að utanverðu. Síðar, á fjórða áratug 20. aldar og síðar, var opnað inn í Hópið, rásin breikkuð og dýpkuð og eiðið þar með fjarlægt að mestu. Jafnan var gengið um ósinn væri hann fær. Sú leið var styttri. Kirkjuhóll (Kirkjuhólar) voru á norðaustanverðri Gjárbrúninni á leiðinni frá Þórkötlustöðum framhjá Hópi að Járngerðarstaðarhverfi. Nokkru sunnar er Gjáhóll, sunnan götunnar, og sést hann enn – gróinn í kollinn. Á fyrstu árum 20. aldar byrjuðu Hópsmenn að opna ósinn inn í Hópið, bæði til að koma bátum sínum í betra skjól og einnig til að stytta sjávargötuna. Hópsvörin var áður utan við rifið og sést hún að hluta til þrátt fyrir miklar framkvæmdir við varnargarða á umliðnum árum. Í lok fjórða áratugarins var hafist handa við að grafa ósinn enn frekar og opna öðrum bátum leið inn á leguna í Hópinu – þar sem núverandi höfn er nú. Kirkjugatan yfir Nesið, eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd, lagðist því af í byrjun síðustu aldar. Ummerkin um hana sáust þó lengi á eftir, m.a. á meðfylgjandi ljósmynd frá 1942. Garðarnir á myndinni eru seinni tíma matjurtargarðar Þórkötlustaðarbúa.
Gjáin er hrauntröð frá því að hraunið, sem myndaði Þórkötlustaða-nesið-/Hópsnesið, rann fyrir nálægt 2400 árum. Hún er að mestu heil að sunnanverðu, en á norðanverðu Nesinu hefur hún verið fyllt. Loftmynd, sem tekin var árið 1942 sýnir braggabyggð í þeim hluta rásarinnar, en hann var síðar notaður fyrir ruslahaug og þá fylltur. Segja má að þar hafi Grindvíkingar sagt amen eftir efninu. Kirkjugatan hafði þá verið aflögð, en ruslahaugar komnir í götustæðið. Eldsneytisgeymar (Esso) eru skammt norðvestar. Sunnan þeirra lá gatan yfir hæðina.
Gatan sést enn á stuttum kafla sunnan undir hraunbakka á norðaustanverðu Nesinu þar sem hún liggur vestur yfir það. Hlaðið er um kálgarða utan í kantinum. Innan hans eru tveir aðrir minni garðar. Austari garðurinn hefur verið settur ofan í götuna. Vestan hans lá gatan upp geil í hæð og sést hún enn þar sem hún lá upp lága hæðarbrún. Handan þess hefur svæðinu verið raskað, bæði með sorphaugunum, mannvirkjunum og sáningum. Þegar komið er upp á brúnina sést gatan enn þar sem hún lá niður mosahraunið í átt að Vatnsstæðinu og framhjá því, með stefnu að ósnum fyrrverandi. Handan þess taka við hlaðnir garðar, malarvegur og meira rask við Síkin. Sunnan þeirra voru sjóbúðir Hópsmanna. Enn má sjá kofatóftir við Síkin.
Eftir að kirkjan var endurreist í Járngerðarstaðahverfi styttist kirkjugata Hrauns- og Þórkötlustaðahverfisbúa verulega.
Á fyrrnefnda staðnum var rekið myndarbýli á 19. öld. Um 30 manns voru þar í heimili. Til samanburðar voru 32 í heimili á Járngerðarstaðabæjunum tveimur árið 1901. Þórkötlustaðabæirnir þrír voru einnig mannmargir, en auk þeirra voru jafnan þrír aðrir bæir í hverfinu frá því í byrjun 19. aldar; Einland, Klöpp og Buðlunga. Íbúar voru að jafnaði um 30 talsins. Auk þessara bæja sótti fólkið á Ísólfsskála (Ýsuskála) kirkju á Stað og síðar Járn-gerðarstöðum. Allt hefur þetta fólk fetað kirkjugötuna meira og minna reglulega yfir Nesið, sem enn sést – að hluta. Prestarnir, Kristján Eldjárn Þórarinsson, Geir Bachmann og Oddur Gíslason, virðast hafa haft það aðdráttarafl í þá tíð er dugði til að draga þreytta fætur austlægra Grindvíkinga alla leið vestur yfir Nesbrúnina – og þurfti þá mikið til.
Grindvíkingar hafa ávallt verið trúrækið fólk, enda fylgir trúin sjómennskunni. Gamla gatan, sem hér hefur verið lýst, bar þess líka merki. Á loftmyndinni, sem tekin var árið 1942, sem fyrr sagði, sést kirkjugatan mjög vel þar sem hún liggur á ská þvert yfir hana. Myndin er því miklu mun merkilegri en ella. Leiðin lagðist af með tilkomu akvegarins skammt norðar og nú má berja augum. FERLIR gekk leiðina fyrir skömmu og skoðaði sérstaklega þá hluta hennar er enn sjást. Ljósmyndir voru teknar og það markverðasta skráð.
Brátt mun þessi gamla kirkjugata heyra sögunni til – eins og svo margt annað.
Heimildir m.a.:
-Loftur Jónsson.
-Ljósm./rétth.: Sævar Jóhannesson.