Gengið var um Klappartúnið og kíkt á tóttir gamla Klapparbæjarins. Veður var frábært – logn og hlýtt. Mikið fuglalíf. Mörg hreiður. Sólin glampaði á Festarfjall og Skála-Mælifell í austri.
Tekið var hús á Helga Andersen á Þórkötlustöðum. Þegar hann var spurður hvar hlaðni brunnurinn við Valhöll, sem stendur gegnt bænum, hafi verið, sté hann út, gekk yfir á götuna og staðnæmdist þar gegnt hliðinu. “Hér er hann undir”, sagði Helgi. Tækifærið var notað og mynd tekin af Helga á staðnum. Brunnurinn, sem er mjög gamall, var hlaðinn, en fylltur upp og rutt yfir hann þegar gatan var lögð framan við Valhöll. Þá var litið á gömlu hlöðuna, en þegar hún var gerð skömmu eftir aldarmótin 1900 komu í ljós fornar hleðslur er taldar að væru af fornaldarbæ. Veggur hlöðunnar, sem nú er geymsla, liggur ofan á einni hleðslunni. Framan við hlöðudyrnar var myndarlegt steinrekankeri.
Beini var afþakkaður á Þórkötlustöðum að þessu sinni, en þess í stað haldið niður fyrir bæinn þar sem Birgir Guðmundsson frá Hópi var að stússast í kringum kofaskryfli, sem hann hafði erft að hluta til eftir föður sinn, Guðmund Þorsteinsson. “Ég ríf þetta úrsérgengna drasl fljótlega”, sagði hann eftir að hafa heilsað. “Þetta eru ekkert nema útgjöld. Hugsaður þér. Maður er látinn borga fasteignagjöld af þessu drasli. Mér er alveg sama hvað þeir segja. Það er betra að rífa draslið strax í stað þess að láta það fjúka um allt í næsta suðaustanroki”. Hann virtist ekki par ánægður þrátt fyrir að vera nýbúinn að erfa tugi milljóna króna (peningar gera menn heldur ekki ánægða – einungis léttara um vik).
Litið var á álagasteininn Heródes, en fólkið í Vesturbænum, sem hann stendur fyrir neðan, hafði nú snyrt í kringum steininn og mold komin þar í stað múrbrots. Erfiðara að skoða rúnirnar á steininum á eftir, en fólkið virðist vera meðvitað um mikilvægi steinsins. Hann má hvorki hreyfna né skemma, ella…
Óskar á Hofi var útivið. Hann sagðist ekki vita hvort hóllinn í túninu austan við Hof væri dys Þórkötlu (aðkomumaður), en henni gæti svo sem alveg eins hafa verið holað þar niður eins og hvar annars staðar.
Litið var út á Þórkötlustaðanes, en ætlunin var að skoða betur fiskigarðana ofar á Nesinu. Þeir eru þarna svo til um allt – þvers og kruss. Á milli þeirra er stór hringlaga garður utan um nokkuð víða kvos. Á garðinum er hlið. Þarna gæti hafa verið rétt fyrir tíma Þórkötlustaðahverfisréttarinnar. Þegar verið var að skoða garðana kom þar gangandi bæjarstjóri, Ólafur Örn, og frú með einn ferfættan í bandi. Staldrað var við í góða veðrinu, litið yfir sviðið og spjallað – Höfn, Arnarhvol og Þórshamar.
Loks var haldið út í Járngerðarstaðahverfi og hús tekið á Pétri Guðjónssyni, en FERLIR hafði lofað að heimsækja hann. Rætt var góða stund um umhverfi Grindarvíkur, reiðleiðir um Vatnaheiði og Kastið, vatnsstæði efst á heiðinni, sem á eftir að skoða, o.fl. o.fl. Pétur sagði þurrkgarðana uppi á Nesinu hafa verið notaða löngu fyrir hans tíð. Pabbi hans hefði aldrei minnst á þá, en hann hafi vitað af þeim þarna því fé þeirra hafi gengið um hraunið og krakkarnir hefðu þurft að eltast við það á milli garðanna.
Pétur afhenti frásögn Jóhanns Pétursonar, vitavarðar, af slysatvikinu er hann varð undir einum veggnum við húsaúrbætur sínar í Þórshamri. Við það hafi Jóhann hrygg- og lærbrotnað, en náð að skríða út og komast að hól þar skammt frá. Í hólnum var vatn, en þar lá hann í frosti og snjó hátt á annan sólarhring án þess að geta hreyft sig frekar, eða þangað til hundur á ferð með manni kom auga á hann og kallaði á húsbónda sinn. Jóhann var síðan borinn upp í hverfi og síðan fluttur á spítala. Hann náði sér aldrei alveg eftir slysið.