Trölladyngja – Árni Óla 1944
Árni Óla skrifar um „Trölladyngju og nágrenni“ í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:
„Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást“.
-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.
Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.
Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.
Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði“. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi“. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.
Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.
Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið. Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.
Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.
Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.
Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.
Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.
Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.
Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.
Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.
Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.
En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.