Trölladyngjur

Trölladyngja

Eftirfarandi grein birtist í Náttúrufræðingnum 1941 og fjallar um Trölladyngjur (hér er hún lítillega stytt):
Trolladyngja-222„Íslenzkir annálar og árbækur geta 6 sinnum eldgosa í Trölladyngjum, en þar sem fjöll með þessu nafni eru tvö á landi hér, annað í Ódáðahrauni, hitt á Reykjanesskaga, hafa fræðimenn ekki orðið á eitt sáttir um það, hvoru beri að telja þessi gos.
Trölladyngja í Ódáðahrauni er hraunbunga mikil í suðurhluta hraunsins, formfögur og regluleg. Trölladyngja á Reykjanesi er röð af óreglulegum móbergshnjúkum, skammt vestur af Sveifluhálsi.
Þorvaldur Thoroddsen telur líklegt, að Trölladyngjugosin hafi orðið í Trölladyngju á Reykjanesi og nágrenni hennar, því Trölladyngja í Ódáðahrauni hafi ekki gosið síðan land byggðist. Þó viðurkennir hann, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi tæplega gosið nema einu sinni síðan á landnámstíð, en hyggur að önnur gos þar í nágrenninu hafi verið við hana kennd. Rök þessi eru ákaflega veik, því með sama rétti má segja, að gos í nágrenni Trölladyngju í Ódáðahrauni hafi verið við hana kennd, en þess mun þó ekki við þurfa, því hægt er að færa sterk rök að því, að gos þessi, flest eða öll, hafi orðið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.
Það, sem fyrst vekur athygli við rannsókn þessa máls, er sú staðreynd, að tvö fjöll, gerólík að uppruna og útliti, bera sama nafnið. Þetta er vafalaust mjög sjaldgæft, þegar um forn nöfn er að ræða og getur aðeins byggst á því, að þeir, sem nöfnin gáfu, hafi lagt ólíkan skilning í nafnið. Nú er aðeins notuð eintölumynd nafnsins; hvort fjallið sem í, hlut á, en í eldri ritum er fleirtölumyndin lang algengust og er það réttmætt, þegar Trölladyngja á Reykjanesi á í hlut, því hún er ekkert einstakt fjall, heldur safn af óreglulegum hnjúkum, en jafn fráleitt væri að tala um reglulegt og einstakt fjall í fleirtölu, eins og Trölladyngju í Ódáðahrauni.
HerdubreidÞetta hvorutveggja stangast svo óþægilega, að varla getur dulizt, að eitthvað sé nú orðið bogið við notkun þessara örnefna. Á uppdrætti Knopfs af Íslandi frá 1734, og kortum þeim, sem gerð eru eftir honum í ferðabókum ýmsum, sjáum við, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni eru ýmist sýndar, sem mikið óreglulegt fjall, eða þyrping af fjöllum, skammt suðvestur af Herðubreið. Á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, frá 1844, er hraunbungan Trölladyngja nefnd Skjaldbreiður eða Trölladyngja, en milli Herðubreiðar og Bláfjalls eru Dyngjufjöll hin nyrðri, eða Trölladyngjur.
Þeesi fjöll munu nú heita Herðubreiðarfjöll. Í bók Kaalunds (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island) er kort af Þingeyjarsýslu, gert eftir uppdrætti Björns Gunnlaugssonar, með leiðréttingum Prof. Jonstrups frá 1876. Þar eru Dyngjufjöll syðri og Dyngjufjöll nyrðri nefnd einu nafni Trölladyngjur. Sé þetta rétt, er fullt samræmi fengið. Þessar stóru fjallþyrpingar eru einmitt safn af óreglulegum hæðum og hnjúkum, eins og Trölladyngja á Reykjanesi, og þess vegna er vel til fundið að nota fleirtölumynd nafnsins og nefna þær Trölladyngjur.
1. Árið 1151 er í fyrsta sinn getið um gos í Trölladyngjum (Isl.ann.). Frásögnin er mjög stuttorð og hljóð Hannes Finnsson segir í ritgerðinni Mannfækkun á Íslandi af hallærum, (Lærdómslistafélagsrit 1793) að Trölladyngjur hafi gosið 1152 og nefnir eftirfarandi vetur sóttarvetur. Jónas Hallgrímsson telur (Rit J. H. IV. bls. 164) að klausan: ,.Húsrið og manndauði“, sé óræk sönnun þess, að gosið hafi verið í suðvesturhluta landsins, því þeim gosum fylgi mestir landskjálftar og óhollnusta. Þessi rök eru ákaflega hæpin. í hinni fáorðu frásögn þarf ekkert beint samband að vera milli setninganna: „Eldur í Trölladyngjum“ og „Húsrið og manndauði.“ Landskjálfti og manndauði hafa oft gert usla hér á landi, þótt ekki hafi valdið eldgos, og óhollusta og tjón af gosum mun venjulega hafa farið meira eftir því, hvort um öskugos eða hraungos var að ræða, heldur en hinu, hvar á landinu gosin voru. Frásögnin er ákaflega fáorð, sem bendir til þess, að gosið hafi verið fjarri mannabyggðum og því lítið um það vitað. Það er ósennilegt, að ekki hefði verið sagt fleira frá gosi á Reykjanesi, eða einhver örnefni nefnd í sambandi við það. Mér virðist því sennilegast, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls.

2. Árið 1188 segir svo (Isl. ann.): „Eldsuppkoma í Trölladyngjum“. Lengri er frásögn þessi ekki og því ósennilegt, aS gos þetta hafi verið á Reykjanesi.
3. Árið 1340 hefjast hér mikil eldgos. Um það segir Annáll Gísla Oddssonar (Analium in islandia farago. Islandica vol. X), það, sem hér fer á eftir í íslenzkri þýðingu: ,,Á árunum 1340 og tveimur eftirfylgjandi tók fjallið Hekla að brenna í sjötta sinn með hræðilegum dunum og dynkjum. Sömuleiðis fjallið Lómagnúpur. Jafnframt kastaði úr sér byrðinni annað fjall nokkurt, Trölladyngjur, allt til hafsins hjá héraði því við sjóinn, sem nefnt er Selvogur. Sömuleiðis var skaginn Reykjanes meira en hálfur eyddur eldi og sjást merki hans í opnu hafi, háir drangar þar úti, kallast Eldeyjar (eða eins og hinir gömlu segja Drifarsteinn. Sömuleiðis Geirfuglasker þar sem flestir steinar til þessa sjást vera útbrunnir. Á sama tíma brann einnig fjall á suðurhluta Íslands, Síðujökull og mörg önnur fjöll eyðandi heil héruð, einhverju sinni einnig í hafinu eldur brennandi auðsénn, og hin logandi fjöll steyptust frá meginlandinu fram í sjó. Slíkar breytingar á þeim tíma, sénar á íslandi, höfðu í för með sér ósambærilegt tjón fyrir landið, og hefir það aldrei beðið þess bætur.“
Ég tek hér alla þessa klausu til samanburðar við annað gosár, sem sagt verður frá hér á eftir og ranglega hefir verið talið eitt hið mesta gosár hér á landi.
Thoroddsen sá aldrei Annál Gísla Oddssonar, sem var geymdur í Englandi, en hafði fréttir af honum. Í Lýsing Íslands (II.,bls. 125) heldur hann, að hér sé átt við gos í Brennisteinsfjöllum, því auðvitað hafi hraun frá Trölladyngju ekki getað runnið yfir tvo fjallgarða, niður í Selvog. Á öðrum stað (De Gesch. d. isl. Vulk., bls. 185) gizkar hann á, að Ögmundarhraun, vestan við Krýsuvík, hafi runnið þetta ár, en það hraun er hvorki runnið úr Trölladyngju né niður í Selvog.
Jónas Hallgrímsson fer aðra leið; hann heldur því fram, að frásögn annálsins sanni, að Trölladyngjur hafi verið samnefni fyrir mörg fjöll, líka fjöllin upp úr Selvogi, en færir engin rök fyrir þessu, og vitanlega nær þetta engri átt.
Frásögn Gísla Oddssonar er þannig, að mjög örðugt er að sanna við hvorar Trölladyngjurnar er átt, en þó virðist mér allt eins mikið styðja þá skoðun, að átt sé við Trölladyngjur í Ódáðahrauni. Orðalagið: „Kastaði úr sér byrðinni“ gæti átt við ösku eða vikurgos,og má þá skilja frásögnina þannig, að aska hafi borizt allt suður í Selvog. Ég veit ekki hvort nckkuð bendir til þess, að Trölladyngja á Reykjanesi hafi gosið vikri, en ef svo hefði verið, gat það varla verið í frásögur færandi, þótt vikurinn bærist í Selvog. Frásögnin er öll ruglingsleg og hlaupið úr einu í annað; gæti vel verið, að frásögnin hefði eitthvað brjálazt í meðferð, ef við t. d. setjum orðin: ,,Hraun rann“ á undan setningunni: „allt til hafsins“ þá hefir Selvogur sitt gos, óháð Trölladyngju og er það sízt meiri skáldskapur, heldur en tilgátur þeirra Jónasar og Thoroddsens. Það vekur líka grunsemd um, að gos þetta hafi ekki verið á Reykjanesi, hve ókunnuglega er frá því sagt. Frá gosunum á Reykjanesskaganum er sagt af miklu meiri kunnugleik, og mætti því halda, að annálshöfundurinn hafi ekki verið eins ókunnugur á Reykjanesi og ætla mætti af frásögninni af Trölladyngjugosinu.

Trölladyngja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – gígurinn.

Öll væru þessi rök þó veigalítil á báðar hliðar, ef ekki væri fleira við að styðjast, en nú vill svo vel til, að frá þessum gosum er skýrt á öðrum stað (Isl. ann.). Þar segir svo um dó fénaður, naut og sauðir, um Rangárvelli eyddust nálægt 5 hreppar, annar eldur í Hnappavallajökli, þriðji í Herðubreið yfir Fljótsdalshéraði og vóru allir jafnsnemma uppi. Eldsuppkoma með þeim fádæmum, að eyddust margar nálægar sveitir. Öskufall um Borgarfjörð og Skaga svo fénaður féll og hvarvetna þar á milli.“ Hér er sagt frá gosi í Herðubreið. Auðvitað hefir Herðubreið ekki gosið svona seint, en vel gat gosið borið svo við, eða verið í nágrenni Herðubreiðar og var þá eðlilegt að kenna það við þetta nafnkunna fjall. Heklugos hafa ekki öll verið í Heklu sjálfri og Kröflugosin 1725—30 voru ekki í Kröflu, heldur í nágrenni hennar. Sennilegt er, að þetta Herðubreiðargos hafi verið í Herðubreiðarfjöllum, en þau hafa vafalaust verið nefnd dyngjur og ef til vill Trölladyngjur ytri og getur þá vel staðizt, að gosið sé ýmist talið í Herðubreið eða Trölladyngjum.
4. Íslenzkir annálar skýra frá mikilli eldsuppkomu í Trölladyngjum á tímabilinu 1354—1360, en frásagnirnar um gos þetta eru mjög á reiki cg ónákvæmar og hafa gefið tilefni til ýmiskonar ágizkana. Tel ég því rétt að rekja hér umsagnir heimildanna hverja fyrir sig. Skálholtsannáll 1354 segir svo: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufallinu, en vikurinn rak vestur á Mýrar og sá eldinn af Snæfellsnesi.“
Gottskálksannáll 1357: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum, leiddi þar af ógnir miklar og dunur stórar, öskufall svo mikið að nær alla bæi eyddi í Mýdalnum og víða þar nálægt gerði mikinn skaða. Vikurreki svo mikill austan til, að út frá Stað á Snæfellsnesi rak vikurinn og enn utar.“ Flateyjarannáll 1360: „Eldsuppkoma í Trölladyngjum og eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi. Mannfall við Mývatn, hálfur 9 tugur manns í þremur kirkjusóknum.“ Í Árbókum Espólíns 1354 stendur þetta: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum, eyðilögðust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snjófellsnesi“, og ennfremur 1360: „Þá var eldur uppi í Trölladyngjum.“ Hannes Finnsson segir um árið 1357 í grein sinni: Mannfækkun af hallærum o. s. frv.: „Var eldsuppkoma í Trölladyngjum, eyddust margir bæir í Mýdal af öskufalli og sá eldinn af Snæfellsnesi,“ og um árið 1360: „Mannfall mikið við Mývatn í harðrétti dóu þar um 170 manneskjur.“ Hér eru þá taldar þær heimildir, sem við höfum um þetta gos, og mun mörgum virðast, að örðugt sé að finna þann samnefnara, sem öll þessi brot gangi upp í. Jónas Hallgrímsson segir, að þar sem vikur hafi rekið á Mýrum og eldarnir sézt af Snæfellsnesi, sé það augljóst, að gos þetta hafi verið á Reykjanesi. Með Mýdalinn er hann í nokkurum vanda, en hyggur þó, að það sé misritun fyrir Mýrdal, en þar sem sá dalur hafi oft orðið fyrir þungum búsifjum af völdum eldgosa, hafi annálsritarinn, vegna landfræðilegrar fákænsku,sett þetta gos í samband við hann (Rit J. H., IV., bls. 165—166). Thoroddsen segir, að hér sé að líkindum átt við Trölladyngju á Reykjanesi, en ef til vill hafi samtímis verið eldur uppi í Austurjöklum. Báðir telja þeir, Jónas og Thoroddsen, að eldgosið hafi orðið árið 1360.
Ég vil strax taka það fram, að mér virðast ö11 rök hníga í þá átt, að gos þetta hafi verið í Trölladyngjum í Ódáðahrauni. Þegar skýrt er frá eins miklu gosi, eins og ætla má, að þetta hafi verið, gat það ekki verið neitt tiltökumál, þótt eldar sæjust á Snæfellsnesi og vikur ræki á Mýrum, ef gosið var á Reykjanesi. Hins vegar var það í frásögur færandi, ef gosið var inn í Ódáðahrauni. Nafnið Mýdalur er vafalaust sótt í sameiginlega heimild. Hugsanlegt er, að það sé misritun fyrir Mýrdal og vel gat gosmökk frá Dyngjufjöllum lagt þannig, að mest tjón yrði í Mýrdal, en sennilegasta skýringin er, að með Mýdal sé átt við byggðina kringum Mývatn, en vegna ókunnugleika hefir annálsritarinn haldið, að vatnið lægi í dal og gefið dalnum nafn Þá er líka fengin góð skýring á mannfalli því við Mývatn, sem Flateyjarannálls kýrir frá, en Hannes Finnsson telur þær hálfu meira. Aðeins með þessari skýringu er hægt að láta frásagnirnar allar falla í ljúfa löð.

Trölladynggja

Trölladyngja norðan Vatnajökuls – hraun.

5. Þá er komið að árinu 1390, sem talið hefir verið mjög mikið gosár, en um öll þau gos, að Heklugosinu undanskildu, er Espólín einn til frásagnar (Árb. Esp.). Frásögn Espólíns hljóðar svo: „Logaði Hekla með miklum undrum og Lómagnúpur og Trölladyngja, allt suður í sjó og vestur að Selvogi og allt Reykjanes, brann þar hálft og stendur þar eftir í sjó fram Dýptarsker og Fuglasker og er það allt eldbrunnið grjót síðan, einnig logaði Síðujökull og mörg önnur fjöll og sveitir heilar eyddust af eldgangi.“ Espólín segir ennfremur, að eldurinn hafi haldizt í Heklu og fleiri jöklum hinn sami árið eftir. Engum getur dulizt, að hér er á ferðinni frásögn Gísla Oddssonar af eldgosunum 1340. Isl. ann. nefna aðeins Heklugos þetta ár (1390), en engin önnur. Það er því augljóst, að frásögn þessi er komin á rangan stað hjá Espólín og er vafalaust mislestri á ártölum um að kenna. Við getum því með góðri samvizku strikað út eitt mesta gosárið í sögu landsins. Mér hefir verið þetta ljóst alllengi og sé, að Matthías Þórðarson þjóðskjalavörður hefir komizt að sömu niðurstöðu. (Athugas. við Rit J. H. IV., bls. 314—315). Nauðsynlegt er að benda sem rækilegast á þessa villu, sem gengur í gegnum flest eða öll meginrit okkar um jarðelda, og er meðal annars tekin athugasemdalaust upp í Sögu Íslendinga í Vesturheimi, sem er nýútkomin.
6. Árið 1510 segir Biskupsannáll, að eldur hafi verið uppi bæði í Trölladyngjum og Herðubreið (Safn. t, s. Isl. I., bls, 44). Engin ástæða er til að rengja þetta, þótt aðrar heimildir geti þess eigi. Af því má ráða, að gos þessi hafi verið fjarri mannabyggðum og ekki valdið tjóni. Samtímis er mikið Heklugos, sem vitanlega dró að sér mesta athygli. Þá eru Trölladyngjugosin talin og er hér litlu við að bæta. Þó má geta þess, að þeir Eggert og Bjarni telja, í ferðabók sinni, Trölladyngjur og Herðubreið í Ódáðahrauni, mikil eldfjöll: „Der har sprudet en forfærdelig Ild i gamle Dage.“ Þetta hefðu þeir tæplega gert, ef ekki hefðu farið sögur af gosum þessara fjalla.
Við megum ekki gleyma því, að þeir Eggert og Bjarni eru um 200 árum nær hinum sögulegu frásögnum um þessi gos heldur en við og gátu því betur dæmt um þetta. Það væri líka dálítið kynlegt, ef Trölladyngjur á Reykjanesi hefðu gosið hvað eftir annað, á tímabilinu 1150—1510, en svo hætt með öllu, en Dyngjufjöll, sem nú gjósa með litlu millibili og öll bera augljós merki eldsumbrota frá fyrri tímum, hefðu aldrei bært á sér allan þennan tíma svo í frásögur þætti færandi. Þótt Þorv. Thoroddsen hallist á þá sveif, að Trölladyngjugosin hafi verið á Reykjanesi, þá gerir hann það auðsjáanlega hikandi og ég hygg, hann hefði litið öðruvísi á það mál, ef honum hefði verið ljóst, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni voru sama og Dyngjufjöll. Ég tel þetta mikilsvert atriði og hefi álitið rétt að benda rækilega á það, þótt ég telji ekki æskilegt, að nöfnum verði breytt á ný í hið upprunalega horf á þessum slóðum.
Sumum kann að virðast, að ekki skipti miklu máli í hvorri Trölladyngjunni gos þessi hafi verið, en þetta skiptir einmitt miklu máli. Það hefir nokkura almenna sögulega þýðingu og getur haft verulega þýðingu fyrir jarðfræði landsins, og auk þess er ætíð skylt að leita hins rétta og hafa það er réttara reynist.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 1941, Ólafur Jónsson, Trölladyngjur, bls. 76-88.

Trölladyngja

Trölladyngja á Núpshlíðarhálsi.