Urriðakot – búseta
Á skilti við gamla Urriðakotsbæinn segir m.a.: „Ritaðar heimildir segja frá búsetu í Urriðakoti frá upphafi 16. aldar en mannvistarleifar frá miklu eldri tíma komu í ljós við fornleifakönnun 2007.
Leifar mannvirkja allt frá 11. öld hafa komið í ljós; veggjabrot, gólflög og munir, svo sem brýni og snældursnúður. Einnig hafa fundist merki um búsetu í Urriðakoti frá 13. og 14. öld og bendir því rannsóknin til að Urriðakotsland hafi verið nytjað því sem næst samfellt frá því eftir landnám.
Fornminjarnar eru huldar mold og sjást ekki á yfirborði. Á bæjarhólnum sjást leifar af síðasta bænum sem fór í eyði árið 1958. Urriðakot komst í einkaeigu í lok 19. aldar en áður var jörðin í eigu konungs og síðar ríkiseign.
Talið er að Jón Þorvarðarson (1817-1902) og kona hans Jórunn Magnúsdóttir (1828-1912) hafi flust að Urriðakoti árið 1846. Yngsti sonur þeirra, Guðmundur Jónsson (1866-1942) tók við búskap foreldra sinna árið 1935 og bjó þar með konu sinni Sigurbjörgu Jónsdóttur (1865-1951) frá Setbergi til ársins 1942. Guðmundur og Sigurbjörg eignuðust 12 börn.
Óvíða var búmannlegra á svæðinu en í Urriðakoti. Skráð er að árið 1932 hafi þar verið um 140 sauðkindur, 5 kýr og 2 hross. Þegar mest var voru einnig um 20 sauðir.
Sauðir gengu sjálfala og gátu haft afdrep í hellum og skútum en á vetrum voru lömb og ær í fjárhúsi heima við tún. Ær voru einnig hafðar við beitarhús ram eftir vetri í hraunjaðrinum, nærri þar sem nú er Urriðavöllur.
Mjólkin úr kúnum var seld Hafnfirðingum og var vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Fram til ársins 1930 var mjólkin flutt á reiðingi en þá var lagður ökufær vegur milli Urriðakots og Setbergs. Fergin úr Urriðavatni var nýtt sem fóðurbætir fyrir kýrnar. Óðu menn þá út í vatnið og höfðu nót sín á milli. Ferginu var síðan skóflað á land með gaffli og þurrkað á svokallaðri Ferginsflöt.
Árið 1939 seldu Guðmundur og Sigurbjörg tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin þremur árum síðar. Fram til ársins 1960 þegar jörðin fór endanlega í eyði bjuggu ýmsir í Urriðakoti en býlið brann skömmu síðar.
Árið 1946 eignaðist félag Oddfellowbræðra jörðina og voru uppi hugmyndir um að reisa þar sumarbústaði og sumardvalarheimili fyrir börn og hvíldarheimili fyrir aldraða Oddfellowa. Þessar hugmyndir komust þó aldrei til framkvæmda og skömmu eftir að Styrktar- og Líknarsjóður Oddfellowa var stofnaður árið 1956 ánafnaði félagið sjóðnum jörðinni án endurgjalds.
Leifar herbúða frá seinni heimsstyrjöld eru í suðaustanverðu Urriðaholti. Eftir að stríðinu lauk töpuðu mannvirkin upphaflegu hlutverki sínu og voru notuð til annarra þarfa eða fjarlægð og eyðilögð.
Stóravarða er á háholti Urriðaholts. Hana hlóð upphaflega Jón Þorvarðarson ábúandi í Urriðakoti ásamt Dagmálavörðu sem er neðar í hlíðinni.
Fitin er slétt flöt niður við vatnið. Í örnefnaskrá segir að Fitin sé álagablettur sem ekki megi slá. Eitt sinn hafi hún verið slegin sem varð til þess að veturinn eftir drapst besta kýrin.
Dýjakrókahóll er við austurhorn Dýjamýrar. Þar eru uppsprettur undan holtinu og kallast Dýjakrókar. Í hólnum var talið að byggi huldufólk og sá Guðmundur Jónsson bóndi í Urriðakoti eitt sinn óþekkta konu sækja vatn í fötum í Dýjakróka, snemma á síðustu öld.
Stór áletraður steinn er suður frá Urriðakotsbænum þar sem áður lágu traðir hlaðnar út torfi og grjóti. Jón Þorvarðarson bóndi í Urriðakoti hjó áletrunina JTh 1846 í steininn árið sem hann flutti að Urriðakoti. Utan um stafina er höggvin rétthyrndur rammi. Steinninn er enn á sínum stað og áletrunin læsileg.“ [Rétt er að taka fram að steinninn var færður und suðvestanverðan bæjarvegginn þegar framkvæmdir hófust við gatnagerð og ræsi í Urriðakotslandi. Þar er hann enn.]
Urriðakot – bærinn 1918.