Útileguþjófar á Reykjanesskaganum
Ólafur Briem fjallar um útilegumenn á Reykjanesskaganum í bók sinni “Útilegumenn og óðar tóttir”. Bókin var gefin út árið 1959, en var síðan endurskoðuð og endurbætt í nýrri útgáfu 1983. Í eftirfarandi umfjöllun er stuðst við síðari útgáfuna.
“Fyrstu útilegumenn, sem um getur á Reykjanesfjallgarði, eru Eyvindur Jónsson úr Ölfusi – sem kalla mætti hinn eldra til aðgreiningar frá Fjalla-Eyvindi – og fylgikona hans: Margrét Símonardóttir.” Þessum hjúum er lýst annars staðar á vefsíðunni. Í alþingisbók 1768 er þess getið að manneskjur þessarar “urðu svo höndlaðar í einum hellir suður undan Erfiriseyjarseli (svo) í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris [árið 1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á nefndnum Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu…” Þetta ár tóku Eyvindur og Margrét út líkamlega refsingu í Kópavogi þann 3. desember fyrir útileguna og “hnígandi þjófnaðar atburði” og voru síðan afleyst af biskupnum í Skálholti.
Ekki leið á löngu þangað til að “þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útileguvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.” Síðan voru þau bæði dæmd til dauða, og fór aftan fram 3. júlí 1678.
Í Setbergsannál segir að þau Eyvindur og Margrét hafi fundist “í helli á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellsveit og lifðu á kvikfjárstuld.” Í Fitjaannál segir, að þau hafi í síðara skiptið lagst út í Henglafjöllum. Hellirinn í Mosfellsheiði er að öllum líkindum hellirinn ofan við Lækjabotna er fyrr var nefndur, enda var það hluti af Mosfellslandi fyrrum. Hann gæti einnig verið annar tveggja í Henglinum. Í honum eru skútar á tveimur stöðum, hvor skammt frá öðrum. Á öllum stöðunum sjást enn hleðslur.
Leitt hefur verið að því getum að hellir í hraunbólu sunnan við Þríhnúka gæti hafa verið bæli Eyvindar og Margrétar um tíma, en telja verður það ósennilegt. Umbúnaður á helli þessum var síðar “betrumbættur” og sett hurð á dyraopið. Náttúrulegur bálkur er inni og steinker í gólfi. Hins vegar er með þessa hranbólu líkt og aðrar; þær halda ekki vatni og væri því viðvarandi vist þarna verri en engin. Líklegt má telja að skjólið hafi um tíma verið notað af refaskyttum, sem lágum löngum við hlíðarnar, líkt og sjá má á tóftum undir þeim.
“Í höfða þeim í landi Villingavatns eru tveir hellar. Um þessa hella er til þjóðsaga, sem prentuð er í “Íslenskum sagnaþáttum” Guðna Jónssonar (VII, bls. 84-86) eftir handriti Magnúsar Magnússonar á Villingavatni. Í sögunni eru hellarnir nefndir Skinnhúfuhellir og Símonarhellir. Skinnhúfuhellir er norðaustan í Dráttarhlíð um 200-300 metra fyrir vestan stífluna, þar sem Sogið féll úr Þingvallavatni, miðja vega frá vatninu upp í klettabrún. Hellirinn er fjögurra til fimm metra langur, tveggja metra breiður og manngengur að meira en hálfu leyti. Í áttina að Þingvallavatni eru manngengar dyr um það bil í hnéhæð frá hellisgólfi. Annað op er til hægri handar, þegar inn er gengið. Það hefur verið byrgt með grjótvegg, sem er hruninn að ofanverðu. Gólfið í Skinnhúfuhelli virðist hafa verið sléttað og mýkt með mosa. Samkvæmt sögunni er hellirinn kenndur við förukonu, sem kölluð var Elín skinnhúfa og lá þar úti skamma hríð um 1770. Um 100 metrum vestar er hellisgímald, sem nefnt er Símonarhellir, í sama berginu og sömu hæð. Mestan hluta leiðarinnar milli hellanna er mjótt þrep í brekkunni, en næst Símonarhelli er einstigi. Þjóðsagan kennir þennan helli við Símon nokkurn, smalamann á Villingavatni, sem var lagsmaður Elínar skinnhúfu.” Hér að framan er getið um að Eyvindur og Margrét hafi hafst við í hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign. Hér gætu þau hafa dvalið um sinn enda má berja þarna mannvistarleifar augum.
Í Sleggjubeinsdal í Henglinum má sjá helli ofarlega í klettum með dálitla grastó fyrir framan. Í hellinn er ekki fært öðrum en góðum klettamönnum. Hann er tvegja til þriggja metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um tveir metrar. Greinileg hleðsla er fyrir munnann beggja vegna dyra. Undir hellinum er töluvert af beinum, mest stórgripabeinum. Í öðrum dyraveggnum er hella, sem rís upp á rönd. Á henni er rista er helst líkist galdrastaf, lítið afmáðum. Innan við munnann við hellisvegg er ferstrend grjóthola. Í henni er jafnan vatn. Hún gæti hafa verið notuð sem vatnsgeymir.
Í sögu Jóns Grunnvíkings er fjallað um Völustakk, útilegumann í Hengli. Þórður Sigurðsson á Tannastöðum sagði frá því í Lesbók Morgunblaðsins 1939 að hann hafi heyrt sem unglingur að útilegumenn, 6-7 saman, hefðu verið í Henglinum. “Þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hefði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þar skipshöfn, sem hefði gert níðingsverk, en aldrei heyrði ég, hver þau hefðu átt að vera.” Menn úr Ölvesi og Grafningi, 50 – 60, tóku sig til og héldu með liðsafnað á hendur útilegumönnunum. Hellismenn tóku að flúja, hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af mesta ákafa og mest þeir er fótfráastir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan, en vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Við Þjófahlaupin voru allir hellismenn drepnir.”
Í alþingisbókinni 1703 er getið um refsingu þriggja útileguþjófa, og voru tveir hengdir, en einn aðeins látinn taka út stórfellda húðláts refsingu, og hét sá Gísli Odsson. Í Grímsstaðaannál er hann sagður Bjarnason. Dvalarstaður útileguþjófanna á að hafa verið hjá Selsvöllum og við Hverinn eina. “Nokkur vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufa úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sjóðandi leirgver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að það sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóti upp um leðjuna.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilega rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðadal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Þar kemur fram að þennan dag [13. júlí] hafi þrír þjófar verið hengdir. Hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahreppi, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp…
Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér bæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi á Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þar veru þeirra. Leist þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, ræntu ferðamann, er Bárður hér Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík, upp til hellsins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma uns Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern sinna fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssunar en tvær. Féll þjófunum þá hugur og gengu á hendur þeim. Voru þeir síðan teknir og fluttir til Bessastaða. Þar voru þeir þjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir.”
Í bókinni er jafnframt getið um útilegumannahelli við Eldvörp og rústir í Grindavíkurhrauni. Hvorutveggja hefur verið gerð nokkur skil hér á vefsíðunni. Ólíklegt verður að telja að þar séu leifar útileguþjófa. Aðrir staðir, sem ekki hafa verið tilgreinir hér, en sjá má mannvistarleifar á eða við, verða að teljast líklegri sem slíkir.
Heimildir m.a.:
-Ólafur Briem – Úilegumenn og auðar tóttir, 1983, bls. 142-169.