Vatnshlíðarhnúkur – Bliksteinar (Bleiksteinn)
Í umfjöllun um Höfðana við Hvaleyrarvatn er getið um Bliksteina, öðru nafni Bleiksteina eða Bleikstein.
Þegar örnefnalýsing fyrir Ás er lesin og reynt að staðsetja Bliksteina eftir henni er það næsta ómögulegt með nokkurri vissu þegar á vettvang er komið. Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“
Ef hins vegar er skoðuð örnefnalýsing fyrir Hvaleyri segir um þetta: „“Línan móti Ási er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk í þúfu fyrir vestan skarð, sem er austast á Grísanesi, þaðan í Bleiksstein (svo) á Bleikisteinshálsi norðanverðum, þaðan um Hvaleyrarselhöfða, svo Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús. Þetta er norðausturhlið landsins, sú sem veit að Ási.“ Síðar segir í sömu lýsingu: „Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“
Eftir að hafa skoðað síðarnefndu örnefnalýsinguna var tiltölulega auðvelt að staðsetja Bleikstein. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni. Önnur klöpp er skammt norðar, en hefur verið raskað vegna grjótnáms í Hamranesi. Framan við Bleiksteinshálsinn (Bleiksteinahálsinn) er Hamranesið. Norðan undir því eru mikil björg, fagurlega skófum skreytt – trúlega álfabyggð. Dalurinn er í kvos norðan Hamradals og vestan við Bleiksteinsháls.
Nú hefur mikilli uppfyllingu verið hrúgað á hálsinn ofanverðan og austan í honum eru gamlir sorphaugar, sem nú er verið að nota sem tipp fyrir jarðvegsúrgang. Á ofanverðum Bleiksteinshálsi er óröskuð landamerkjavarða Áss og Hvaleyrar. Tippurinn er að nálgast vörðuna og vantar nú einungis 5-6 metra að henni.
Allt umleikis á holtinu hafa verktakar sætt lagi og tekið holtagrjót á víð og dreif til að selja garðeigendum, eflaust með leyfi bæjaryfirvalda.
Enn norðar er Vatnshlíðarhnúkur ofan Vatnshlíðar er hallar að Hvaleyrarvatni. Á honum er varða.
Fyrrnefndir Bliksteinar, Bliksteinn eða Bleiksteinn er sennilega eina þekkta örnefnið þeirrar merkingar á landinu (svo vitað sé). Því er ógnað þessa stundina; annars vegar með hinni miklu uppfyllingu að austanverðu og Hamranesnámunni að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing fyrir Ás.