Vatnsleysustrandarhreppur – Guðmundur Björgvin Jónsson
Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar frá Brekku, „Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, útg. 1987, segir bæði frá hreppamörkunum sem og misskiptu mannlífinu fyrrum:
„Hreppurinn nær frá miðjum Vogastapa og byggðin með sjávarströndinni að jafnaði hvergi fjær sjá en 1 km þar til hún endar við Hvassahraun, en hreppamörk eru hin sömu og fyrrnefnd sýslumörk við Markaklett. Austan Hvassahrauns er Hvassahraunsbót og eystra nesið heitir Hraunsnes, en það vestara Stekkjarnes. Við Hraunsnes er Markaklettur.
Eins og áður segir eru sýslur beggja vegna línunnar frá Markakletti að Markhelluhól. Þar um er framhald sýslumarka til vinstri en hreppamörk til hægri og stefna þau vestan við Trölladyngju. Er þá Grindavíkurland vinstra megin og Vatnsleysustrandarland hægra megin, en við Trölladyngju og austurkant Höskuldarvalla eru óviss mörk. Á þessu svæði beygir línan beint vestur að Lilta-Keili, síðan lítið eitt til vinstri í Hagafell, þaðan aftur til hægri í Kálffell og enn til vinstri að Litla-Skógfelli í stóran klett, sem stendur við gamla götuslóð þar er sést vel enn. Þessar bugðóttu línur hreppamarkanna eru umdeildar.
Frá Litla-Skógfelli er farið í norður beina línu í Arnarklett, sem stendur nálægt hraunjarðrinum austur af Seltjörn. Við klettinn mætast þrír hreppar. Síðasti áfanginn er frá Arnarkletti í sjó fram að vesturþúfu við Innri-Skor í Voga-Stapa. Þarna eru einni umdeild mörk, ein landlýsingin segir í miðja Skor, sem er mjög ónákvæmt.
Þar með er lokið landleiðinni um hreppamörkin en sjávarmegin lemja bárur Stakksfjarðar landið allt, að markakletti austan Hvassahrauns.
Þegar um er að ræða býli og búendur allt fram á annan og þriðja tug þessarar aldar [þeirrar síðustu], kemur í ljós að stéttarskipting var sérstaklega áberandi, sér í lagi þegar illa áraði og veiðivon í sjó og veðurfar í landi brást þeim er byggði afkomu sína á sávarafla og landbúnaði. Þá urðu þeir er minna máttu sín, að gera sér að góðu að heyra í og horfa á þá ríku. Vil ég hér nefna flokka:
1) Bændur á lögbýlum, er stunduðu bæði landbúnað og sjávarútveg, höfðu kaupafólk, vermenn og leiguliða þar sem landrými var umtalsvert.
2) Grasbýlingar, sem bjuggu í hjáleigum eða húsum á lögbýlisjörð, höfðu gransnyt án beitilandsréttar.
3) Tómthúsmenn, er höfðu efni á málnytu þ.e. ekkert grasland til að fæða kind eða kú og urðu því að vinna fyrir öllum nauðþurftum hjá öðrum og greiða leigu til landleiganda þess er hús þeirra stóðu á. Í mesta lagi gátu tómthúsmenn (kotungar) útbúð kálgarð, en þó aðeins með leyfi landeiganda.
4) Vinnufólk, húsfólk eða húshjón, bæði konur og karlar, sem var kaupafólk, ýmist árstíðarbudnið eða ársráðið. Þeir sem þóttu duglegir og voru eftirsóttir gátu unnið sig upp og orðið sjálfstæðir eignamenn.
5) Þeir aumustu sem ekki gátu uppfyllt kröfur þær sem til þeirra voru gerðar og áttu oft ekki annan kost en að verða þurfamenn eða niðursetningar“.
Af framangreindri lýsingu Guðmundar Björgvins á aðbúnaði fólks á síðari hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. virðist lítið hafa breyst – ef horft er til nútíðar…
Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.