Vífilsstaðahlíð – Urriðavatnsholt – Camp Russel

Urriðaholt

Að loknum erli dagsins eða í helgarfríum er fátt heilsusamlegra en leita um stund frá umhverfi vanans og hreyfa sig svolítið í fræðandi umhverfi. Í næsta nágrenni höfuðstaðarins eru margir staðir, sem bjóða upp á slíkt. Einn þeirra er Vífilsstaðahlíðin, en svo nefnist hæðin fyrir austan Vífilsstaði og nær allt austur að Búrfellsgjá.
GunnhildurStefnan er tekin á myndarlega grjótvörðu, sem hlaðin hefur verið vestast á hlíðarbrúninni. Brekkan þangað upp hlíðina frá suðvestanverðu Vífilsstaðavatni er auðveld. Hún er vaxin smávöxnu kjarri, en núorðið liggur greinilegur og margfarinn göngustígur upp að henni. Frá vörðunni er víðsýnt. Þaðan gefur að líta víða sýn yfir kaupstaðina fjóra og Álftanesið, með Bessastaði í forgrunni. Beint á móti, handan við Hraunholtslækinn, sem kemur úr Vífilsstaðavatni, eru Vífilsstaðir, heilsuhæli sjúklinga, sem upphaflega var byggt sem sjúkrahús fyrir berklaveikt fólk, meðan sá sjúkdómur var landlægur hér. Vífilsstaðir voru landnámsjörð, því sagan segir að þar hafi fyrsti bóndinn verið Vífill, þræll Ingólfs Arnarsonar. Vífill fann öndvegissúlur hans reknar á land og fyrir þessa dyggu þjónustu gaf Ingólfur honum frelsi og þessa bújörð.

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðakotsholti

En varðan sjálf er athyglinnar verð. Hún hefur áður verið vel hlaðin en nú hefur fólk lagt í vana sinna að kasta grjóti að henni líkt og hún væri dys. Varðan ber nafnið Gunnhildur. Þessi nafngift er á reiki. Sumir segja, að hún hafi verið nefnd í höfuð einhverrar valkyrju, sem bjó á Vífilsstöðum fyrr á árum, en aðrir segja þetta nafn afbökun úr Gun Hill, en á hernámsárunum var öflugt byssuhreiður þarna fremst á hlíðarbrúninni er enn sjást leifar af. En hvernig sem þetta nafn er til komið, þá mun þessi varða hafa haft nokkurt gildi fyrir sjúklingana á hælinu, því sagt er að þeir hafi haft það fyrir reglu, margir hverjir, að ganga upp að vörðunni til að mæla þrek og úthald þegar aðstæður leyfðu. Gunnhildur var einnig nefnd Matthildur, er hét áður Grímssetur (Grímsseta). Þeir sem nefndu hana Matthildi studdust við vísuna:

Gekk ég upp að Grímssetu.
Gettu hvað ég sá?
Mæta konu Matthildu
í möttlinum blá.

Um 250 metrum sunnan við Vífilsstaðavatn er bergrista, sem nú er friðuð.
Skammt frá vörðunni er, sem fyrr sagði, steypt skotbyrgi frá stríðsárunum. Letursteinn við UrriðakotAlþýðuskýringin að nafnið væri afbökun úr ensku (Gun Hill) stenst reyndar ekki því nafnið var þekkt áður en landið var hernumið (1940). Þegar skuggsýnt er  orðið á einum dimmasta degi ársins (12. desember) er ekki svo auðvelt að taka myndir svo skarplegar geta þótt, sbr. sú hér að ofanverðu.
Austan við Vífilsstaðahlíð eru Hjallar, sem eru misgengisbrúnir og norðvestan við þá er hæðin Arnarbæli og Vatnsendaborg. Norðan til á hálsinum er grunn lægð. Þar safnast vatn í vorleysingum og í rigningatíð. Myndast þá tvær tjarnir sem kallast Grunnuvötn. Þurrlendi er á milli þeirra og þar hafa starfsmenn rafveitu gert veg. Af Arnarbælinu sést vel yfir Elliðavatnið, byggðina umhverfis það og austurhlíð Rjúpnahæðarinnar fær ekki dulist. Frá Arnarbæli er stuttur spölur að Vatnsendaborginni, en hún er merkilegt minnismerki um forna búskaparhætti. Áður fyrr urðu menn oft að tefla djarft þegar um stærð bústofnsins var að ræða. Ef ekki var til nægilegt vetrarfóður, settu menn á “guð og gaddinn” sem kallað var. Þá var sauðfénu haldið til beitar eins lengi vetrar og tíð leyfði. Í stað þess að koma því inn í hús til skjóls í slæmum veðrum hlóðu menn oft hringlaga, þaklaus byrgi með háum veggjum.

Heimaréttin að Urriðakoti

Þar var beitarféð geymt meðan óveður geisaði. Í slíkum tilgangi var þessi borg hlaðin, en það mun hafa verið gert snemma á 20.öld. Nú eru komin skörð í veggina á nokkrum stöðum, en meginhluti þeirra stendur enn og gefur glögga mynd af þessu mannvirki, sem er hluti af búskaparsögu landsins. Innan veggja er gott skjól. Gólfið er grasi gróið og slétt. Því er tilvalið að tylla sér þar niður, og halda smá “veislu undir grjótvegg”, svo vitnað sé í þekktan bókartitil.
Að sunnanverðu í Vífilsstaðahlíð hefur verið plantað miklum skógi, sem hefur dafnað vel. Skógræktarmenn hafa unnið við gróðurrækt í hlíðinni og er árangurinn þegar farinn að setja áberandi svip á umhverfið – sumir segja reyndar til hins verra.
Á næstu hæð að suðvestan standa nú yfir miklar framkvæmdir. Nýtt íbúðarhverfi er að rísa þar á jökulleirbornu Urriðaholti (Urriðakotsholti). Á því var kampur á stríðsárunum; Camp Russel. Þótt nú sé búið að umróta holtinu má enn sjá leifar hans á því norðaustanverðu. Á uppdrætti, sem gerður var af kampinum má sjá götur, byggingar og önnur mannvirki. Í dag standa t.d. eftir steyptur arinn og steyptur vatnsgeymir.

Garðar við Urriðakot

Vatnið var sótt í brunn undir hlíðinni sunnanverðri. Úr honum var vatninu dælt stöðugt um leiðslu upp í geyminn. Á uppdrættinum er geymirinn merktur sem og annað, sem þarna var.
Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti). Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir. Áður en hlíðinni var róta upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna) heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er enn letursteinn með áletruninni JTh 1846. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi. Væntanlega er ekki langs að bíða að hann hverfi eins og annað undir jarðraskið, sem er um þessar mundir [2007]. Annars er skondið að lesa lýsingu og rökfærslur framkvæmdaraðila og bæjarstjórnar Garðabæjar fyrir byggðinni á þessum stað; „umhverfisvæn byggð í beinum tengslum við náttúruna!“ (Sjá meira HÉR). Í þeim orðum hefur bæði gleymst möguleikinn á  varðveislu á a.m.k. hluta bæjarminjanna, þ.e. tengslin við söguna sem og sú vitund að ekki er langt að bíða að önnur byggð muni rísa allt um kring. Þá mun fátt segjast af 
öllum fyrrum fullyrðingum um „vistvæna byggð í sátt við umhverfið“.

Heimild m.a.:
-Mbl. dags. óviss sennil. 1979.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson – Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jarðabókin 1703, bls. 223.
-Sævar Jóhannsson.
Camp Russel á Urriðakotsholti á stríðsárunum