Vífilsstaðir – Finnsstaðir – Hjallar
Gengið var um minjarnar vestan Vífilsstaðalækjar, skammt norðan Flóttamannavegar. Þar má enn sjá heillegar tóftir, garða og gerði frá Vífilsstöðum. Göngustígur liggur framhjá megintóftinni. Ljóst er af mannvirkjunum þarna sem og í hrauninu, þ.á.m. Jónshellar, en þeim liggur hlaðinn stígur á köflum í hrauninu, að þarna hafa verið talsverð umsvif á öldum fyrrum.
Gengið var að Finnsstöðum við norðanvert Vífilstaðavatn. Þar fyrir ofan Flóttamannveginn, í vestanveru Smalaholtinu er há og stór tóft, sem sést vel frá. Utan í henni að sunnanverðu er önnur minni. Á kortum er tóft þessi nefnd Finnsstaðir, en engar heimildir eru til um hann. Ekki er útilokað að þetta gæti um tíma hafa verið stekkur frá Vífilsstöðum. Rústin er tvískipt. Einnig gætu þarna um tíma hafa verið beitarhús frá Vífilsstöðum því Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús.
Gengið var austur með Smalaholtinu, sem er vesturhlíð Rjúpnahlíðar, ofan við Leirdal og að Selshrygg norðan hlíðarinnar. Þar eru tóftir undir hlíðinni. Þær munu hafa verið notaðar sem beitarhús frá Fífuhvammi, en nefnið bendir til þess að þarna gæti hafa verið selsstaða frá þeim bæ. Fyrir miðjum Selshrygg heitir Selsvellir. Þar er vatn. Gengið var með Rjúpnahlíðinni, niðu Kjóavelli og áfram upp í Básaskarð suðaustan við Vífilstaðavatn. Ofan við skarðið eru fjárhúsatóftir frá Vatnsenda, greinilega mjög gamlar, á fallegum stað. Frá tóttunum sést yfir að Arnarbæli, vörðu á Hjöllunum ofan Grunnuvatna syðri. Frá vörðunni var gengið yfir að Vatnsendafjárborgini. Borgin, sem er syðst á Hjöllunum, þar sem þeir eru hæstir, er nokkuð stór og heilleg, en fallin að hluta. Frá henni er gott útsýni yfir Löngubrekkur í suðri og að Búrfelli.
Gangan tók 2 klst. Veður var frábært; milt og hlýtt.