Vífilstaðasel I
Gengið var upp Vífilstaðahlíð eftir línuveginum.
Vífilsstaðaselið er austan hans í grónum skjólgóðum og grasi grónum hvammi. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Vífilsstaði segir m.a. um Vífilsstaðasel og nágrenni: „Dýjakrókar er mýrin Krókamýri. Þar er nú Vatnsból Garðakauptúns og Garðahverfis. Upp frá Hálshúskrika liggur leiðin upp á Vífilsstaðaháls. Hér í norður, bak við Smalholt, er Rjúpnahlíð og þá Rjúpnadalur og svo Rjúpnahæð með Rjúpnahæðarvörðu sem héðan liggur landamerkjalínan í í miðja Kjóavelli, en þar var Kjóavallavarða. Þaðan liggur línan um Básinn eða Vatnsendabás austan í Sandahlíð og svo í Arnarbæli syðst í hlíðinni. Það er nefnt í fornu bréfi frá upphafi 16. aldar Arnarstapi. Héðan af Arnarbæli, sem er hornmark, liggur línan niður um Vatnsásinn eða Grunnvatnsás og þaðan upp í Víkurholtsvörðu á Víkurholti eystra. Þá er Víkurholt nyrðra. Hér norðar á holtinu er Vífilsstaðasel. Sunnan þess er Selholt, Selás suðaustan og Selhóll þar vestur af með Selkvíunum. Í mýrarkorni er svo Selbrunnurinn og hér vestur af liggur Selstígurinn. Milli Sandahlíðar að austan og Vífilsstaðahlíðar að vestan, norðan Vatnaássins, liggja Grunnuvötn, tjarnir og grónar grundir. Þar var slægnapláss fyrr meir og mótekja.“
FERLIR rissaði selstöðuna upp á leið sinni um Selholtið fyrir áratug síðan, líkt og sjá má hér. Nú, þegar komið var í selstöðuna og hún rissuð upp að áratugafenginni reynslu, leit hún mun öðruvísi út, eins og sjá má hér til hliðar. Uppdrættirnir sem slíkur eru því lýsandi dæmi um mismunandi reynslusýn fólks á mannvistarleifar.
Svo virðist sem þarna séu bæði leifar af nýrri og eldri selstöðum. Sú síðarnefnda er undir brekku austan við þá fyrri. Hún er nú mjög óljós og erfitt að átta sig á húsaskipan. Þó virðist hún í samræmi við eldri gerð selja (klasa), óreglulegri og minni rými. Þegar bæjarskipan komst á, eins og við þekkjum hana best frá 19. öld, urðu selstöðurnar (rýmin) bæði stærri og reglulegri. Kví er undir klettavegg sunnan í kvosinni og eldri stekkur ofan og austan hennar. Stekkurinn með nýrri selstöðunni er norðaustan hennar. Vatnsstæðið er í miðri kvosinni vestan selstöðunnar. Nýrri selstaðan er greinilega frá tvíbýli eða tveimur bæjum. Þarna gæti því bæði hafa verið selstaða um tíma frá Vífilsstöðum og Hofsstöðum.
„Vífilsstaðir sem nefndir eru eftir Vífli leysingja Ingólfs Arnarsonar komust í eigu Viðeyjarklausturs, og komust undir Garðakirkju eftir skiðaskiptin nánar tiltekið 1558. Ofan við miðja Vífilsstaðahlíð skammt sunnan við Grunnuvötn er Selás og sunnan ássins eru eru tóftir Vífilsstaðasels í skjólsælum hvammi. Upp af honum er Selhamarinn einnig nefndur Selholt. Selið virðist hafa verið nokkuð stórt, með álíka húsaskipan og víðast hvar tíðkaðist í seljum hér um slóðir. Skammt austan þrískiptra selhúsanna eru tóftir sem gætu verið af stekk og stöðli.“
Frábært veður – Gangan tók 2 kls og 22 mín.
Heimildir m.a.:
-Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Vífilsstaði
-Hraunavinir.is