Vigdísarvellir – Drumbdalastígur – Krýsuvík – Þórkötlustaðasel

Drumbdalaleið

 Gengið var frá Bala á Vigdísarvöllum inn á Drumbdalastíg (-veg/-leið) er liggur yfir sunnanverðan Sveifluháls og áleiðis að Krýsuvíkurbæjunum undir Bæjarfelli.
DrumbdalastígurTil baka var ætlunin að ganga að hinum fornu bæjartóftum Gestsstaða og um Hettustíg að Vigdísarvöllum, en vegna óvæntra uppgötvanna á leiðinni var ákveðið að breyta út af upphaflegri leiðardagskrá. Sú ákvörðun leiddi til enn óvæntari uppgötvana, sem lesa má um hér á eftir.

Drumbdalastígur, er liggur millum Stóra- og Litla-Drumbs, hefur einnig verið nefndur Sveifla sbr. kort, sem gefið var út af Bókmenntafélaginu 1831, og auk þess, skv. korti Ólafs Ólavíusar (1775), þar sem hálsinn er nefndur  Austari Móhálsar, er leiðin nefnd Móhálsastígur. Þarna var gamla kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur. Í raun er um svolítinn misskilning að ræða er stafar að því að þeir, sem færðu upplýsingarnar á blað, höfðu ekki gengið leiðirnar sjálfir; Sveifla er sunnan undir Hettur og um hana liggur gömul þjóðleið upp frá Gestsstöðum í Krýsuvík. Við suðaustanverða Hettu eru gatnamót, annars vegar götu er liggur áfram til norðurs að Ketilsstíg og hins vegar götu er liggur til vesturs að Vigdísarvöllum, svonefndur Hettustígur.
Tóftir Vigdísarvalla - Mælifell fjærir Nú var ætlunin að sannreyna hinar ýmsu „tilgátur“ um fyrrnefndan Drumbdalastíg. Gömul kort, t.d. kortið frá 1831, sýnir stíginn liggja norðan Drumbs, en nýrri kort, s.s. frá Hafnarfjarðarbæ (gildandi aðalskipulag) og Reykjanesfólkvangi, sýna stíginn liggja sunnan við Drumb (sem reyndar er algerlega út úr kú). Líkleg ástæða er sú að Drumbur hefur verið (við skrifborðið) yfirfærður á litla bróður hans norðanverðan. Þetta átti eftir að skýrast betur á leiðinni framundan. Í fyrrnefnda tilvikinu höfðu heimamenn (presturinn) greinilega lagt út leiðina, en í því síðara hefur gatan verið dregin upp eftir kortagrunni við skrifborð á bæjarskrifstofunum (eða annars staðar).
Þegar lagt var af stað frá tóftum Bala var ákveðið að ganga yfir tóftum Vigdísarvalla og hefja gönguna þar. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
DrumbdalastígurÍ nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”
Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Tóftir Bala virðast nú mest áberandi þarna undir Bæjarfelli (Grindvíkingar nefna það Bæjarháls sbr. merkingar á kortum). Ástæðan er fyrst og fremst sú að við bæinn sunnanverðan var hlaðin fráfærurétt, sem notuð var talsvert eftir að hann fór í eyði.

Drykkjarsteinn efst í Drumbdal.

Gengið var til austurs yfir að tóftum Vigdísarvallabæjarins. Þegar tóftirnar eru skoðaðar má vel sjá hvernig bæjarskipanin hefur verið; Þrjár burstir hafa verið á bænum mót suðri, en sú austasta verið án dyra. Þar var baðstofa og innan af henni afrými bændahjónana. Vestar var eldhús, innst, og framrými innan við aðalinnganginn. Vestan hans var skemma og vestast gerði með fjósi nyrst, fast við bæinn. Hugsanlega hefur verið innangengt úr bænum í fjósið. Rýmið gæti hafa hýst 3-4 kýr. Austar er matjurtargarður, sem eflaust hefur verið brúkaður eftir að búskapur lagðist af á Vigdísarvöllum.

Bali

Bali.

Aftan við bæinn eru tóftir, líklega sauðakofi. Garður umlykur heimatúnið, frá austanverðri fjallhlíð Bæjarfells (mót suðri) til austanverðs Núphlíðarhálsar. Annars er áhugavert að skoða fyrrnefnt kort Björns Gunnlaugssonar (Bókmenntafélagsins) frá árinu 1831 því þar nefndir hann hálsinn Vestari Móháls og Seifluháls Austari Móháls, þ.e. norðurhluta hans.

Drumbur

Svo virðist sem garður hafi verið innan heimatúngarðsins, en ljóst er að þar hefur verið gamall lækjarfarvegur. Lækurinn sá gerir jafnan vart við sig eftir miklar rigningar. Þótt lítill virðist vera öllu jöfnu hefur honum tekist að skapa Vigdísarvellina alla um árþúsundir, þegjandi og hljóðarlaust. Lækurinn, ónafngreindur, hefur hlaupið þarna um víða völlu, allt eftir aðstæðum á hverjum tíma. Honum hefur tekist að sigrast á þeim öllum, enda er hann um þessar mundir að undirbyggja framburð sinn í Ögmundarhrauni, sunnan Ísólfskálavegar, og gengur bara býsna vel. Ef af líkum lætur mun honum takast, smám saman, þótt lítill sé, að bera undir sig leir og jarðveg úr vesturhlíðum Sveifluhálsar; fylla upp í hraun og sprungur, allt þangað til hann mun renna fram af og blandast samdropum sínum í Atlantshafinu neðan Miðreka. Annars er „lækurinn“ tveir slíkir. Annar rennur um Vigdísarvelli og hinn frá Hettuhlíðum um Bleikingsdal. Lækirnir sameinast síðan á Klettavöllum (Suðurvöllum), nokkru sunnar. Þaðan rennur hann óheftur að „endalokunum“ (sunnan Ísólfsskálavegar).
Vegna mísvísandi upplýsinga um ætlaða legu Drumbdalastígs var ákveðið að láta þær allar lönd og leið, en byrja þess í stað á að nýju á upphafsstað.
Gata liggur frá framangreindum bæjarstæðum til suðausturs, yfir þýflendi, upp hlíð og áfram inn gróðursælan dal. Efst og fremst á brúnum hans er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur um Drumbdal. Vigdísarvellir framundan.

Dalurinn innan af, hömrum girtur að austanverðu, hefur ekkert nafn. Einn þátttakendanna kom með þá tilgátu að þarna gæti verið um hinn eiginlega „Litla-Hamradal“ að ræða. Hálfnafni hans, Stóri-Hamradalur, væri mun framar í austanverðum „Vestari Móhálsi“, en það dalverpi, sem nú nýtur nafngiftarinnar „Litli-Hamradalur“ gæti í raun ekki státað af neinum hömrum. Sá dalur hefði stundum gengið undir nafninu Görnin. Samkvæmt upplýsingum Lofts Jónssonar í Grindavík nær görnin frá Stóra-Hamradal og að brún framan í Núpshlíð. Bílvegurinn liggur um hluta Garnarinnar. Til hennar hefur jafnan verið vísað í landamerkjalýsingum Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Segja verður eins og er að þessi fallegi dalur, Stóri-hamradalur, hömrum girtur að austanverðu, hefur án efa verðskuldað nafngift fyrrum, enda lá kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur um hann í u.þ.b. hálfa öld.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Sunnan við „Litla-Hamradal“ beygir gatan til austurs, inn í sunnanverðan Bleikingsdal, þvert yfir hann og á ská upp hann að austanverðu. Ofan hans sést gatan vel, en síður þar sem hún beygir til norðausturs enn ofar. Þegar hlíðin þar var skágengin var komið upp í Drumbsdal. Efst á brúnum voru tröllkatlar; hin ákjósanlegustu drykkjarsteinar, fullir af vatni. Frá brúninni sást bæði heim að Vigdísarvöllum og yfir að Bæjarfelli framundan. Stóri-Drumbur ber þar hæst við á hægri hönd og Litli-Drumbur á þá vinstri. Millum eru tvær smávaxnir grágrýtishólar.

Gullhamrar

Gullhamrar.

Drumbdalastígur liggur niður Sveifluhálsinn austanverðan, að sunnanverðu. Þar beygir hann áleiðis niður að Einbúa uns komið er á gömlu þjóðleiðina millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Skammt norðar á sunnanverðum hálsinum er gerði undir háum móbergsklettum; Gullhamrar. Vörðubrot má enn sjá við götuna, sem og hlaðna brú yfir moldarflag. Gatan kemur að Krýsuvíkurkirkju við réttina sunnnan í Bæjarfelli.
Hverfum nú svolítið til fyrri tíðar. Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík þar sem hann lýsir Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…
Drumbdalastígur að Vigdísarvöllum“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Hús í selstöðunni

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.
Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1831 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af hinu íslenska bókmenntafélagi”. Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar (1775), kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.
Stekkur í Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”
Eins og segir fyrr í þessum texta var ákveðið að ganga til baka eftir mögulegum Drumbdalastíg. Af fyrri heimildum að dæma virtist hann hafa legið um „víða völlu“.
Til að gera langa göngu stutta kom í ljós að Drumbdalastígur liggur svo til beinustu leið milli Vigdísarvallabæjanna og Krýsuvíkur; allnokkuð fjarri hinum „opinberu leiðarmerkingum“.
Tóftir BalaÁ ferðalaginu uppgötvuðust óvæntar tóftir; að öllum líkindum ummerki eftir Þórkötlustaðaselið, allt til 1830. Um var að ræða hlaðinn stekk, hús og kví. Ummerkin, hver af öðrum, staðfestu grunsemdirnar. Selstaðan er staðsett á einstaklega skjólsælum stað og þarna hefur lækurinn líklega runnið fyrrum. Vigdísarvellirnir sjálfir hafa verið hinir ágætustu bithagar og með tilvist selsins er komin skýring á hlöðnu fjárskjóli þarna skammt frá. Bleikingsvellirnir suðaustanverðir hafa auk þess verið einstaklega góðir bithagar, auk þess sem svæðið allt hefur verið hið ákjósanlegast fyrir smalann.

Reykjanesskaginn býður upp á ótrúlega möguleika, ekki einungis í jarðvarmaorkuframleiðslu til skammrar framtíðar heldur og til nýtingarmöguleika ósnotinnar náttúru til langrar framtíðar.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir (Bali). Horft af Bæjarhálsi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Hingað til hafa ferðamenn, sem hingað koma, einkum verið að sækjast eftir ósnortinni náttúru. Það eitt gefur tilefni til að ætla hversu eftirsóknarverð og „dýrmæt“ ósnortin náttúra mun verða eftir s.s. eina öld – þ.e. þegar barnabörn okkar munu vera að vaxa úr grasi og þurfa á atvinnutækifærum að halda.
Um þessar mundir eru gróðaöflin því miður allsráðandi. Takmarkið er að gera sér mat úr öllu mögulegu, kaupa á kostakjörum og selja með margföldum gróða. Hvernig og á hvers kostnað sá gróði er fengin virðist ekki skipta neinu máli – enda fáir að velta slíku fyrir sér.
Nauðsynlegt er að horfa svolítið fram á veginn, yfir næstu hæðir og hálsa – jafnvel til langrar framtíðar!
Frábært veður. Gangan tók
4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.
-hafnarfjordur.is
-reykjanesfolkvangur.is
-kort – Björn Gunnlaugasson – 1931.
-Lýsing – Olafur Olavius.
-Orri Vésteinsson.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.