Vogsósar – Þórarinn Snorrason
Þegar tekið er hús á Þórarni Snorrasyni (f. 8.8. 1931) er ógjarnan komið að tómum kofanum.
FERLIR heimsótti hann á vormánuðum 2012 með það að markmiði að rissa upp minjar og örnefni í ræktuðum túnum Vogsósa (Vogsósa I og Vogsósa II) tók hann aðkomandi fagnandi eins og hans er jafnan von og vísa – og bauð í kaffi og meðlæti er hans hustra annaðist af alúð.
Spjallið snerist um tilefnið – að ganga um bæjartúnin, rifja upp örnefnin og sýnilegar minjar, teikna hvorutveggja á blað og setja fram með skiljanlegum hætti – til varðveislu til handa komandi kynslóðum.
Hafa ber í huga að þótt örnefnalýsingar séu til af Vogsósalandi eru þær þannig fram settar að erfitt er óvönum að átta sig á einstaka staðsetningum. Úr þessu þurfti að bæta um betur og þess vegna var FERLIR kominn á vettvang að þessu sinni. Reyndar hefur FERLIR og Þórarinn áður átt bæði góð og árangursrík samskipti, eins og t.d. má sjá á ýmsum lýsingum af nálægu umhverfi og ekki síst „Selvogs-uppdrættinum“, sem nú má líta augum framan við Strandarkirkju. Þórarinn gjörþekkir þetta svæði og veit, líkt og aðrir, að sú vitneskja kemur til með að hverfa að honum gengnum. Enginn er jú eilífur…
Eftir að Þórarni hafði verið tilkynt um tilefni komunnar brást hann ljúfmannlega við, eins og hans er von og vísa. Vildi þó fá að drekka teið sitt í friði um sinn því hann var nýgenginn úr sparifötunum (sem lágu á stólbaki í stofunni) enda nánast að koma inn úr dyrunum eftir samsöng í messu með kirkjukórnum í Þorlákshöfn.
„Ég sá leifar af kind hér skammt upp í heiðinni í gær. Varstu að egna fyrir tófu, Þórarinn.“
„Nei, var hún hyrnd?“, spurði Þórarinn.
„Já, en það voru bara hauskúpan og hryggurinn eftir, auk ullarlagða á víð og dreif.“
„Það passar. Ég saknaði einnar hyrndar í haust. Þetta gæti vel hafa verið hún. Tófan hefur komist í hana. Ég náði 8 tófum frá skothúsinu mínu hér ofangarðs s.l. sumar. Það virðist vera nóg af henni.“
„Tók eftir greni þarna ofarlega í heiðinni í gær, merkt með vörðu og tveimur steinum ofan við opið.“
„Já, kannast við það. Var tófan í því?“
„Nei, það virtist yfirgefið.“
„Hefurðu komið upp að Hvalhnúk?“, spurði Þórarinn.
„Já, nokkrum sinnum, hvers vegna spyrðu?“
„Það er til gömul saga um nafngiftina – hefurðu heyrt hana?“.
„Nei, ekki svo ég muni.“
„Það er nefndilega það. Sjáðu til“, sagði Þórarinn og fékk sér í nefið; „Þórir haustmyrkur byggði fyrstur manna Hlíð í Selvogi. Hann átti margt fjár, en saknaði jafnan margs þess að hausti.
Eitt sinn rak hval á fjörurnar. Þetta þótt hvalreki á þeim tíma. Þórir sótti í hvalinn, en tók eftir því að meira var horfið af honum en hann hafði tekið. Sá hann þá hvar tröllskessa var á leið upp Hlíðarskarð með byrgðar. Fylgdi hann tröllsskessunni eftir upp undir Hvalhnúk þar sem hann náði henni loksins. Bað hún hann þá griða því hún ætti nýfætt barn heima er þyrfti hennar við.
Sá Þórir aumur á skessunni. Sagðist hann láta henni hvalketið eftir ef hún sæi til þess að ekki yrði um fjárrýrð á fjöllum. Samþykkti skessan það og fór sína leið, en talið hefur verið að bústaður hennar hafi verið í Stórkonugjá ofan fellsins.
Næsta haust bar svo við að Þórir saknaði einskis fjár af fjalli.
Sjáðu til, þessi saga hefur ekki verið skráð, en hún hefur verið almannarómur hér og útskýrir örnefnin þarna efra“, sagði Þórarinn og kímdi.
„Það kom hingað maður fyrir nokkrum misserum“, hélt Þórarinn áfram. „Hann var fornleifafræðingur, eins og þú, og var að rannsaka fyrirhugað vegsstæði nýja vegarins (Suðurstrandarvegar). Þetta var skondinn karl, kom hingað og var afskaplega uppáþrengjandi. Ég var með honum í þrjá daga að skoða svæðið er vegurinn átti að liggja um, allt frá Þorlákshöfn að Krýsuvík. Enga borgun bauð hann mér þó fyrir vikið.“
„Gerði hann einhverjar rannsóknir?“
„Já“, sagði Þórarinn. Hann gróf þvert í gegnum Fornagarð, sagðist þurfa að skoða jarðlögin undir garðinum. Mér fannst gröfturinn svolítið skondinn. Hann kom með mann með sér og hann gróf stuttan tíma fyrir hádegi og stuttan tíma eftir hádegi með góðum hléum á millum. Það þættu ekki góð vinnubrögð hér í sveitinni.“
„Fékkstu einhverja niðurstöður úr rannsóknunum?“
„Nei, aldrei.“
Að þessu samtali loknu var gengið út. Þrátt fyrir að Þórarinn væri orðinn 81. árs var ekki að sjá að það háði honum á nokkurn hátt. Hann gekk rösklega yfir túnin, klofaði yfir girðingar og lýsti aðstæðum og örnefnum, líkt og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti. Ljóst var á þessari göngu að þarna fór einn þeirra nútímamerkismanna er enn hafði bæði ágæt tengsl við landi sitt sem og menningu fortíðarinar frá örófi alda.
Á göngunni var m.a. gengið á Gíslhól, Réttarhól, réttin skoðuð, klofað yfir Gamla túngarðinn / Fornagarð er náði frá Hlíðarvatni yfir um að Nesi í Selvogi, Imphóll skoðaður sem og tóftir Impukofa, litið á Fagurhól og Vaðhól, spekulerað á Bænhúshól (Túnhól) þar sem ku hafa verið bænhús til forna, skoðaður steinn sá er Eggert, síðasti sérann á Vogsósum lést örendur við 1908, Vellir og Vallabrún litin augum sem og Klettisþúfuhólar ofan Beitarhúsahæðar.
Að göngunni lokinni var ekki um annað að ræða en að þiggja kaffisopa við eldhúsborðið að Vogshúsum II þar sem þráðurinn var tekinn upp að nýju þar sem frá var horfið. Aðallega var þá rætt um gamla bændasamfélagið, hrístöku á heiðunum, fjárbeit og eftirminnilegt fólk; aðallega þó úr Grindavík.
Frábært veður.
Frétt 28. desember 2023 +
„Þórarinn Snorrason, bóndi í Vogsósum 2 í Selvogi, er látinn, 92 ára að aldri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á jóladag. Hann hafði legið á sjúkrahúsi um mánaðarskeið eftir að hafa lærleggsbrotnað er hann féll við útistörf við fjárhúsin í Vogsósum en þar stundaði hann sauðfjárbúskap.
Þórarinn var fæddur í Vogsósum þann 8. ágúst árið 1931. Hann var síðasti oddviti og hreppsstjóri Selvogshrepps en hreppurinn sameinaðist Ölfusi árið 1989. Þá var hann stóran hluta ævi sinnar helsti vörslumaður Strandarkirkju sem hringjari, kirkjuvörður og formaður sóknarnefndar.
Eiginkona hans var Elisabeth Charlotte Johanna Herrmann. Hún fæddist í Þýskalandi þann 28. desember 1927. Hún lést árið 2018. Þau gengu í hjónaband árið 1954 og eignuðust fimm börn en afkomendahópurinn telur auk þeirra núna níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.
Þórarinn var aðalviðmælandi í þættinum Um land allt sem Stöð 2 gerði um Selvoginn haustið 2013. Þar sagði Þórarinn meðal annars frá kynnum sínum af skáldinu Einari Benediktssyni, sem bjó síðustu æviár sín í Herdísarvík.
Hér má sjá þáttinn um Selvog:
Þórarinn var á barnsaldri þegar Einar Benediktsson bjó í Selvogi, kom oft í Herdísarvík og man vel eftir honum. Þórarinn rifjaði meðal annars upp þegar hann varð vitni að hinstu för Einars úr Herdísarvík þegar lík hans var borið til Vogsósa en þá var enginn vegur kominn þar á milli.“
Heimildir:
-Þórarinn Snorrason, bóndi, fæddur á Vogsósum 8.8.1931.
-https://www.visir.is/g/20232508248d/thorarinn-snorra-son-i-vog-sosum-latinn