Voru víkingaskipin notuð í eitthvað annað en siglingar?
Víkingaskip (knörr og langskip) eru ein þeirra „verkfæra“, sem landnámsmenn notuðu, m.a. til að komast til eyjarinnar. Margir komu með það að markmiði að
setjast að í nýju landi. Sumir voru samskipa með öðrum eða hafa haft fleiri en eitt skip. Telja má sennilegt að allt það sem þeir komu með hafi síðan verið notað, einnig skipin.
Víkingaskip entust í u.þ.b. 10 ár og jafnvel lengur. Þá hafa þau eflaust verið notuð í annað, t.d. klæðningar, húsagerð, áhaldagerð o.fl. Skipin voru flest úr eik, en einnig öðrum viðartegundum. Veikasti hlekkurinn í þeim voru böndin, sem byrðingurinn var bundinn með. Þau voru úr hampi og fúnuðu. Ekki var hægt að binda skip upp að nýju nema rífa það frá grunni. Það var líka erfitt því í einu skipi voru þúsundir járnhnoðnagla. Járnið var dýrmætt og notað aftur þegar það gafst.
Landnámsmenn hafa með skjótum hætti þurft gott skjól við komuna hingað til lands. Er hugsanlegt að landnámsmenn hafi miðað fyrstu húsagerð sína, þ.e. fyrsta tímabundna íveruhúsið, við skipið? Þeir hafi hlaðið veggi, ca. 120 cm háa með svipuðu lagi og breidd og skipið ofanvert og hvolft því síðan yfir? Þannig gætu þeir hafa fengið gott þak yfir höfuðið, bæði fljótt og vel. Skipið (þakið) hafi verið hægt að taka aftur og sigla því ef einhverjum hefði snúist hugur eða á hefur þurft að halda.
Um 70 menn voru í áhöfn langskipanna, færri á knörrum. Fjórir til fimm vanir menn gátu siglt þeim. Þyngd skipanna var um 5.000 til 8.000 kg (fór eftir stærð – mastur og segl, sem var laust er frátalið). Það hefur því þurft um 50 – 70 menn til að bera, lyfta eða velta einu skipi. Skipin voru ca. 23-25 metrar á lengd og ca. 3 – 5 metrar á breidd.
Giuseppe Maiorano hefur ritað um mögulega notkun skipanna sem þök í ‘Viking age ships as roofing structures in ship-shaped houses and their contribution to the origin of the Gothic Architecture.’Current issues in Nordic Archaeology, Reykjavík 2004, s. 79-84).
En menn eru nú yfirleitt ekki trúaðir á þessa hugmynd – aðallega af því að þeir hafa aldrei fundið neinar sannfærandi leifar sem gætu bent til þessarar þakgerðar en líka af því að menn telja yfirleitt að skipin hafi verið notuð lengur en gefið er til kynna og verið miklu verðmætari en svo að það borgaði sig að nota þau fyrir þök. “Vel smíðað tréþak er margfalt einfaldari og ódýrari smíð en skip” (ov).
Er hins vegar er ekki með öllu útilokað, miðað við lögun, lengd og breidd landnámshúsa, að þannig hafi verið málum háttað í einhverjum tilvikum? Litlar líkur eru þó á að tóftir slíkra húsa finnist nú því bæði hafa þær þá staðið mjög nálægt ströndinni og auk þess verður að telja líklegt að sjórinn hafi nú þegar brotið þær undir sig eða byggingarefnið notað í annað.
Einstakir hlutar skips, s.s. mastrið, gætu hafa verið notað í hluti, t.d. stoðir og hluti þess hafa verið útskorið sem goðalíkneski eða gerðir úr því setbekkir við langeldinn. Kjölurinn var mikið tré og því ekki ólíklegt að hann hafi verið notaður í mæni eða annað burðarvirki.
Áhöfnin hefur áreiðanlega tekið kistla sína með sér og átt þá áfram. Ekki er vitað til þess að slíkur kistill hafi varðveist hér á landi, enda efnið forgengilegt.
Seglin voru stór og mikið efni í þeim. Ekki er ólíklegt að ætla að úr þeim hafi verið búið til nytjahlutir eða þau t.d. notuð til að klæða veggi híbýlanna.
Framangreint eru að mestu tilgátur því fátt af því hefur kvorki verið sannreynt við fornleifauppgrefti eða þess getið í rituðum heimildum. Hins vegar er ekki óraunhæft að ætla að hinn mikli efniviður hafi verið notaður að einhverju leyti eftir að upprunalegu hlutverki hans lauk. Dæmi um slíka endurnýtingu muna og gripa eru allnokkur, sbr. kléberg, járn og tré.
Vitað er að skipin voru notuð í a.m.k. tvennum tilgangi eftir að líftíma þeirra lauk. Annars vegar eru dæmi um að skipin hafi verið grafin með eiganda sínum að honum látnum ásamt öðrum gripum, sbr. frásagnir í Landnámu [Ásmundur var heygður í Ásmundarleiði og lagður í skip og þræll hans hjá honum] og [Geirmundur heljarskinn andaðist á Geirmundarstöðum, og er hann lagður í skip þar út í skóginum frá garði] og hins vegar munu vera til sagnir um að látnir víkingar hafi verið brenndir í skipum sínum þótt slíkt virðist ekki hafa verið tíðkað hér á landi svo vitað sé.”Víkingaöldin var einhver mesti upplausnar- og endursköpunartími sem norrænar þjóðir hafa lifað. Hún hlýtur að hafa losað um margar fornar venjur og gefið einstaklingnum meira frelsi til að velja og hafna en kreddufesta kyrrstæðra heimabyggða getur gert.” -(AF)