Leiðarendi I
Löng bílalest liðaðist hægt eftir Bláfjallaveginum. Ferðinni var heitið í Leiðarenda. Þátttakendur voru um 90 talsins. Ferðin var m.a. farin til að kenna ungu fólki að umgangast og bera virðingu fyrir hellum landsins. Ferðin var hluti af “Ævintýranámskeiði Hraunbúa”, skátanna í Hafnarfirði.
Áður en farið var í hellinn var unga fólkinu sagt var frá myndun hellanna og hversu nauðsynlegt væri að gæta þess vel að valda engum skemmdum, hvorki á dropsteinum og hraunstráum né nokkru öðru. Gengið var í röð inn eftir hellinum, fyrst skoðað rauðlitur framgangurinn, dropsteinarnir undir veggnum við gangnamótin og hraunstráin þar, flögurnar á veggjunum og dropsteinarnir inn undir á leiðinni. Farið var fetið niður beinu rásina og staðnæmst í stórri niðursettri hrauntjörninni. Þar var unga fólkinu sýndir dropsteinar og enn og aftur brýnt fyrir því að skemmdir á slíkum mörg þúsund ára fyrirbærum væri ekki hægt að bæta. Greinilega var hlustað með andakt. Loks var tvísungið “Lítið skátablóm” áður en haldið var til baka út úr hellinum.
Ekki var farið upp í efri hluta hellisins. Hann liggur þar um hliðarrás. Gæta þarf vel að öllum kennileitum þegar komið er inn í meginrásina að nýju því annars getur verið erfitt að finna leiðina til baka. Hellirinn er bæði litskrúðugur og hlaðinn „djásnum“.
Unga fólkið stóð sig frábærlega vel, gætti vel að öllu og fræddi hvort annað um að gæta þyrfti að því að skemma ekkert.
Ferðin tók um 90 mínútur. Frábært veður.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.