Eyjasel

Eyjadalur gengur inn í Esjuna að norðanverðu, og snýr í suður-landsuður. Hlíðarnar eru háar og brattar með lausaskriðum. Sel hefur verið í miðjum dalnum vestanmegin árinnar, sem eftir honum rennur. Við selið gengur upp afdalur dálítill á snið suðvestur í vesturhlíð dalsins, og kalla menn dalinn þar Hrútadal, en Seltindur heitir milli dalanna. Hvergi í Eyjadal er eins fagurt og hér. Hér sést yfir hinn innra hluta dalsins; grashlíðar og hóla, en fjöllin gnæfa himinhá báðum megin (M. Grímsson 1848).

EyjaselHermann Ingólfsson á Hjalla, fæddur að Eyjum, sagði seltóftir sjást enn vel neðan við Hrútadal. Um fjögurra km gangur væri að tóftunum. Amma hans og síðar móðurbróðir hefðu farið til selja í Eyjadal. Sá síðarnefndi væri enn á lífi (fæddur 1915) svo selstaðan þarna hefði ekki lagst af fyrr en liðið var á 20. öld. Stór steinhella hefði verið notuð sem hurð á dyrum selsins.
Gengið var frá bænum Sandi og haldið upp Eyjadal. Ætlunin var m.a. að skoða selsrústirnar í dalnum, þær sömu og Magnús Grímsson hafði lýst u.m.b. 160 árum fyrr.
Á leiðinni upp dalinn mátti sjá Möðruvallahálsinn á vinstri hönd. Á þá hægri er Sandsfjallið. Sandsá rennur um dalinn. Norðan í Möðruvallahálsi er Fellið. Hægra megin í dalnum má, þegar komið er inn fyrir miðjan dal, fyrst telja Myrkvagil, þá Irpugil, Hrútadal, Seltind og Suðurárdal. Hólatunga er innst í dalnum. Esjuhorn er efst að suðvestanverðu. Á vinstri hönd er Litlaskál innan við Dagmálahamar, þá Miðskál og Stóraskál. Innar er Norðurárdalur og Trana ofan hans að suðaustanverðu. Lækir úr hlíðunum koma úr nefndum skálum og heita eftir þeim; Litluskálarlækur, Miðskálarlækur og Stóruskálarlækur. Gamla reiðgatan liggur með hlíðinni að austanverðu. Hún sést enn greinilega. Þá götu var farið þegar riðið var um Svínaskarð og eflaust hefur hún einnig verið notuð sel selgata því hún kemur beint í selið ef farið er þeim megin að því.
Eyjasel - horft niður EyjadalÓbyggðum dölum eða afréttardölum í Reynivallasókn var m.a. lýst af Sigurði Sigurðssyni. Lýsir hann fjórum óbyggðum dölum eða afréttardölum. Fyrstur er Svínadalur, sem er sagður langur og grösugur, þá Sandsdalur eða Eyjadalur, sem er langur og liggur í suður inn í Esjufjallið og endar við Móskörð. Sá þriðji er Flekkudalur og er hann ekki langur. Sá fjórði er Meðalfellsdalur. Dalir þessir eru allir sagðir brúkaðir fyrir afréttir og beitiland handa búsmala á sumrum og hagbeita á vetrum.
Í lýsingu Reynivallasóknar frá 1840 segir að útbeitarlítið sé á vetri til frá Eyjum og að Eyjadalur tilheyri jörðinni. Eyjahóll er sagður eiga bæði lítið beitarland og útigang. Þar kemur einnig fram hvaða selstöður hafi verið í sókninnni og segir að til skamms tíma hafi selstaða frá Eyjum verið á Eyjadal.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 eru Eyjar sagðar 40 hundruð að dýrleika. Dýrleiki hjáleigunnar Eyjahóls er hinsvegar ekki getið en neðanmáls kemur fram að sýslumaður telji hana 6 hundruð af heildardýrleika Eyja.
Í kaflanum um jörðina Eyjar í jarðamatinu 1849-1850 kemur eftirfarandi fram: Utrymi mikið. Sumarland allgott. Vetrarhagar í minna lagi. Sömu orð eru höfð uppi um afbýlið Eyjahól.
Eftirfarandi yfirlýsingu er að finna í afsals- og veðmálabók Gullbringu og Kjósarsýslu: Þar sem það er óljós eignarrjettur okkar undirskrifaðra fyrir jörðunum Eyjum og Eyhól í Kjósarhreppi í Kjósarsýslu, þá biðjum vjer yður herra sýslumaður að færa til bókar og þinglesturs nú á manntalsþinginu, að eignarrjettur er á nefndum jörðum 7/8 partar, er skiptast að helmingi milli okkar.
Stekkur við EyjaselÍ Vilchinsmáldaga frá 1397 kemur eitt og annað fram um Eyjar. Í máldaga Eyjakirkju er að finna sömu upplýsingar og þegar hefur verið getið í máldaganum frá 1180. Ekki er getið réttar Reynivallakirkju til kastarskurðar í Eyjalandi eins og fram kemur í máldaganum frá 1352. Hins vegar er þar minnst á að Reynivallakirkja eigi sex hrossa beit í Eyrarlandi [Í fjórum öðrum handritum stendur: Eyjarlandi]. Í máldaga Ingunnarstaðakirkju kemur svo fram að kirkjan þar eigi séttung í Eyjalandi.
Ein af þeim jörðum sem Ögmundur biskup Pálsson gaf systursyni sínum Þórólfi Eyjólfssyni til kvonarmundar þann 27. ágúst 1538 voru hálfar Eyjar sem metnar voru til 15 hundraða. Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar (1575) segir það sama og í máldaga Eyjarkirkju frá 1180. Í máldaga Reynivallakirkju segir að hún eigi sex hrossa beit í Eyrarland (ekki Eyjaland). Jafnframt kemur fram að kirkjan á Ingunnarstöðum eigi séttung í Eyjalandi.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Eyjar: Selstöðu á jörðin í heimalandi. Í lýsingu Reynivallasóknar frá 1840 segir að útbeitarlítið sé á vetri til frá Eyjum og að Eyjadalur tilheyri jörðinni. Eyjahóll er sagður eiga bæði lítið beitarland og útigang. Þar kemur einnig fram hvaða selstöður hafi verið í sókninnni Tóft neðarlega í Eyjadal - óskilgreindog segir að til skamms tíma hafi selstaða frá Eyjum verið á Eyjadal. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 eru Eyjar sagðar 40 hundruð að dýrleika. Dýrleiki hjáleigunnar Eyjahóls er hinsvegar ekki getið en neðanmáls kemur fram að sýslumaður telji hana 6 hundruð af heildardýrleika Eyja. Egill J. Stardal getur sels í Kjósarhreppi í grein sem birtist árið 1985. Þar segir hann um Eyjadal: “Rústir sels frá hinu forna höfuðbóli Eyjum í Kjós eru niður við og vestan við Sandsá á móts við Stóruskál. Önnur mannabyggð hefur ekki verið inn í þessum dal.”
Margir minni lækir og grunn gil liggja úr hlíðunum, einkum að vestanverðu. Að þessu sinni hafði verið haldið inn dalinn þeim megin. Leiðin var þó greiðfærari en ella vegna snjóa er þöktu skorningana. Selið sést vel úr fjarlægð. Það er skammt ofan ármóta, neðan við Hrútadal. Bæjarhóllinn er nokkuð stór og vel gróinn. Stærsta rýmið er syðst. Dyr snúa í norður. Vel sést móta fyrir hleðslum í föllnum veggjunum. Í hólnum má greina tvö önnur rými. Skammt neðar (norðvestar) er hlaðin kví, að hluta frá náttúrunnar hendi. Enn norðar er hringlaga stekkur. Suðaustan við hann er einnig hringlaga hleðsla, hluti af stekknum.

Eyjadalur

Eyjadalur.

Á leið upp dalinn var gengið fram á mjög gamlar rústir, á bakka skammt ofan árinnar. Langhús er sunnar, en norðar er rúst með tveimur rýmum. Minjar þessar eru að mestu komnar í þýfi. Þarna gæti verið um að ræða frumbýlisleifar í dalnum.
Á eyri ofan Sandsáar, þriðjungi leiðarinnar, að vestanverðu sást einnig móta fyrir tóftum; tveimur húsum. Þessar rústir gætu hugsanlega skýrt skrifmuninn á Eyri og Eyjum. Þarna gæti hafa verið fyrrnefndur bær, en farið snemma í eyði.
Ef Magnús Grímsson hefur haft fyrir því að ríða inn Eyjadal þá hefur hann að öllum líkindum farið með hlíðinni að austanverðu. Þegar þar er komið að ási sést selið framundan sem og allur inndalurinn. Þá er selið vestan árinnar, en ef farið er að vestanverðu er selið austan árinnar. Ástæðan er sú að tvær ár, jafnstórar, koma saman neðan við selið. Á sumrum gæti vesturáin, úr Hrútadal, hins vegar orðið að læk og því varla merkjanleg frá öðrum slíkum í hlíðunum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-E .J. Stardal, “Esja og nágrenni.” Ferðafélag Íslands. Árbók 1985. s. 95-96.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. b. s. 405.
-Sigurður Sigurðsson, “Lýsing Reynivallasóknar 1840.” Landnám Ingólfs III. b. s. 248-249 og 257.

Eyjadalur

Eyjasel framundan.