Skógfellavegur í júlí 2025

Skógfellavegur

FERLIRsfélagar gengu suður Skógfellaveg um og eftir miðjan júlímánuð 2025. Á opinberum vefmiðlum var stikuð gatan sögð 15 km löng millum Voga og Grindavíkur.

Skógfelavegur

Skógfellavegur – vegvísir.

Gangan hófst, sem fyrr segir, austan Stapans. Ofan rafveituskúrs er skilti er bendir til vesturs). Á því stendur: Skógfellavegur – 15 km. Frá vegvísunum er greið gönguleið um undirgöng undir Reykjanesbrautina. Handan þeirra lútir handunnið timburskilti með vegvísi; Skógfellavegur – 16 km, en þessi vegvísir bendir nú til vesturs, í átt að Stapagötunni. A.m.k. tvær grímur gætu runnið á óstaðkunnugra við lestur á framangreindar ábendingar.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

FERIRsfélagar vissu hins vegar betur og héldu göngu sinni áfram með vísan á tilfallandi ábendingar og tilvísanir á nálægum holtum til suðausturs, í átt að Litla-Skógfelli.

Í bókinni „Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegar)“ lýsir Sesselja Guðmundsdóttir Skógfellaveginum frá Stapanum og áfram til Grindavíkur.

„Skógfellavegur er hluti gömlu þóðleiðarinnar til Grindavíkur frá Vogum, Strönd og Hafnarfirði og dregur nafn sitt af tveimur fellum, Litla- og Stóra-Skógfelli sem standa rétt við götuna með nokkru millibili um miðja vegur til Grindavíkur. Nafn götunnar hefur breyst í tímans rás því áður hét hún Sandakravegur, þ.e. sá hluti sem liggur frá Stapahorni og langleiðina að Stóra-Skógfelli en þar eru vegamót. Sandakravegur heldur svo áfram í átt að kasti í Fagradalsfjalli en Skógfellavegur til Grindavíkur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Í sóknarlýsingu séra Péturs Jónssonar á Kálfatjörn frá árinu 1840 segir: „Norðan til við Stapann liggur vegur upp í heiðina austur, er kallast Sandakravegur. Á þeim vegi mætir ofan Stapans, 3 tjarnir, sem heita Snorrastaðatjarnir…“
Séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík segir í lýsingu sinni: „Yfir þau [hraunin út frá Grindavík] liggja 4 aðalvegir, þrír þeirra til Keflavíkurkaupstaðar og einn til hafnanna. Sá norðasti kallast Sandakravegur; liggur hann í norður útnorður út úr þeim eina alfaravegi austanmanna, sem frá Ölfusinu og Selvogi er hingað, skammt fyrir austan og ofan Hraun (bær í grindavík), fram hjá Fiskidalsfjalli og Skógfellunum, sem öll eru að vestanverðu við veginn, og kemur maður af honum ofan á Vogastapa.“

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Nafnið Skógfellavegur er fullgilt í dag og hefur skapað sér sess í tugi ára meðal Suðurnesjamanna og útivistarfólks. Vegurinn lagðist af um 1920 þegar akvegur var lagður frá Stapanum til Grindavíkur.
Mikil umferð hefur verið um þess götu fyrrum því djúp hófför sjástí klöppum og hún hefur verið vel vörðuð þó vörðurnar séu nú [margar] hrundar.
Við hefjum gönguna umSkógfellaveg rétt ofan Reykjanesbrautar við austasta hluta Stapans en þar er vegvísir á götuna. Þegar þetta er skrifað er ekki fyrirséð hvernig aðgengi frá Reykjanesbraut verður inn á leiðina sem hefur verið stikuð alla leið til Grindavíkur.
Gatan er nokkuð óljós framan af og vörður fáar og ógreinilegar og því var það þarft verk að stika þennan hluta leiðarinnar svo gatan tapaðist ekki alfarið.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Við fylgjum stikunum og komum fljótlega að okkuð löngu grágrýtisholti, Nýjaselsbjalla, og um það austarlega liggur gatan en holtið er suðaustur af Snorrastaðatjörnum. Undir Nýjaselsbjalla austan götunnar eru litlar seltóftir undir lágum hamri sem snýr til norðurs og dregur bjallinn nafn sitt af selinu.
Nokkrar gjár eru á leiðinni en þær verða okkur ekki til trafala enda auðveldar yfirferðar og snúa hamraveggir þeirr allra til strandar. Fyrsta gjáin sem eitthvað kveður að er Huldugjá en þar sem gatan liggur yfir gjána er sagt að Huldugjárvarða hafi staðið. Á þessum slóðum liggur mörkuð leið nálægt austurjarðri Skógfellahrauns.
Á milli Huldugár og næstu gjár sem heitir Litla-Aragjá er gatan nokkuð óljós en greinileg þar sem hún liggur yfir Aragjána. Þar er tæpt til beggja handa en stór varða stendur á efri gjárbarminum.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – endamörkin að norðanverðu.

Þegar líður á gönguna verður gatan greinilegri og næsta gjá sem eitthvað kveður að er Stóra-Aragjá. Grótfylling og hleðsla er í Stóru-Aragjá þar sem leiðin liggur yfir hana og þar stendur myndarleg varða sem heitir Aragjárvarða. Þarna við vörðuna heitir gjáin Brandsgjá en saga hennar er sögð í örnefnefnalýsingu.
Fyrir ofan Stóru-Aragjá tekur fljótlega við helluhraun sem nær langleiðina að Litla-Skógfelli og er vegurinn vel varðaður á þessum slóðum…“.

Ups…
U.þ.b. 50 metrum fyrir ofan Skógfellaveginn ofan Stóru-Aragjár, þar sem leiðin hafði allt frá landnámi liðið um annars slétt helluhraunið, sagði nýrunnin svartlitaður úfin hraunkanturinn, u.þ.b. 6-7 metra hár: „Hingað og ekki lengra!“.

Eldgosahrindan ofan Grindavíkur er sú níunda frá því að eldgosið á og við Sundhnúksgígaröðina ofan Grindavíkur hófst í desember árið 2023. Líklega er þó hér um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?

Skógfellavegur

Skógfellavegur – ásýndin að eldvirkninni ofanverðri.

Skógfellavegurinn er nú horfinn með öllu ofan Stóru-Aragjár, allt til Grindavíkur, að undanskildum frá því u.þ.b. fimmtíu metrum ofan vörðurnar tvær ofan gjárinnar. Það má því segja að 3/4 af 15 km veginum sé nú horfið með öllu sem og Sandakravegurinn að mestu.

Fátt er þó svo með öllu illt; enn má sjá fyrrum umfjöllun um Skógfella- og Sandakraveg sem og myndir á vefsíðum FERLIRs – sjá m.a. HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegar), Sesselja Guðmundsdóttir 2007, bls. 153-155.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – lítið blóm horfir á hraunkantinn.