Haldið var í Sogin, þvergil er Sogalækur hefur myndað á u.þ.b. ellefu þúsund árum. Afurðin liggur að fótum fram; grasi grónir Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki.

Sogin

Í Sogum.

Litli Sogalækurinn er ágætt dæmi um hversu lítilmagninn fær áorkað á löngum tíma. Hann ætlar sér að ná til sjávar í Kúagerði – og mun eflaust takast það eftir nokkur hundruð ár.
Sogin skilja nánast af Núpshlíðarháls og Dyngurnar (Trölladyngju og Grænudyngju). Þau eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga að Sogunum frá Lækjarmýri norðan Djúpavatns. Þaðan er u.þ.b. 800 m gangur að litadýrðinni.

Sogin

Sogin – skilti við Lækjarmerki. Gefið er til kynna að 5 km gangur sé að Sogunum, en hann er í raun um 800 m.

Auðveld ganga er upp með Djúpavatnseggjum. Sunnan við gilið er útsýnið stórbrotið yfir að Dyngjunum og litadýrðin mikil. Hún breytist jafnan, bæði eftir birtu og veðri. Þannig eru allir litir skarpari í sólskyni eftir rignardag. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Á hálsinum milli Soga og Spákonubatns er ágætt útsýni yfir undirlendið þar sem Keilir trónir í allri sinni dýrð. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk og fallaásýndin sunnan Dyngnanna er stórbrotin. Svæðið er skammt frá höfðuborgarsvæðinu.
Sjá má myndir úr Sogunum og nágrenni HÉR.

Sog

Í Sogum.

 

Rauðshellir

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags, „Rannsóknir fornleifa sumarið 1907“ eftir Brynjúlf Jónsson, segir um minjarnar í Helgadal ofan Hafnarfjarðar:

Helgadalur

Helgadalur – vatnsbólið, þurrt í júlí 2021.

„Í sama skiftið sem mér var bent á Skúlatún um leið, að skammt þaðan héti Helgadalur og skoðaði ég því þann stað, og reyndist þetta var þess getið sæist þar til rústa.
Helgadalur er skammt fyrir neðan Helgafell. Það er ofurlítil dalkvos, er þar gengur inn í austurenda Undirhlíða. Gengur melhól] norður úr hlíðinni, austanmegin við upptök Kaldár, myndar sá melhóll vesturhliðina á dalkvosinni. En að austan beygist hliðin lítið eitt að sér. Hraunflóð hefur runnið ofan fyrir austan enda Undirhlíða, og er það framhald hraunflákans, sem nú var getið að lægi kringum Skúlatún. Það hefir breitt sig vítt út og runnið út með Undirhlíðum. Liggur það þvert fyrir neðan dalkvosina yfir að melhólnum og byrgir þannig fyrir hana. Þar hefir það sprungið og myndað gjáhamar, sem snýr móti dalbrekkunni og heldur inni vatni, sem þar kemur upp, svo af því verður ofurlítil tjörn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftasvæði.

Rústin er ofantil í miðri brekkunni. Það eru tvær tóftir, er hver gengur af enda annarar frá suðri til norðurs, eða því sem næst. Er hvor tóft nál. 10 faðm. löng og nál 2 faðm. breið út á veggjabrúnirnar; en þær eru raunar óglöggar víða. Dyr sjást á vesturhliðvegg suðurtóftarinnar við suðurgaflinn.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Á norðurtóftinni sá ógjörla til dyra og sama er að segja um miðgaflinn. Rústin er öll óglöggvari norðantil; sér aðeins fyrir ummáli hennar. Þeim megin hefir verið húsaþyrping á hlaðinu. Eru þar útflettar rústir, sem ekki er hægt að greina hverja frá annari, né ákveða lögun þeirra húsa, sem þar hafa verið. Ég dró upp mynd af rústinni. [Myndin sú var ekki birt með frásögninni].
Hraunið, sem nú var getið, hefir breitt sig yfir alt láglendi norður og vestur frá enda Undirhlíða og nær til sjávar við Hafnarfjörð. Holtin ein standa upp úr. Er feykilegt landflæmi byrgt undir hraunflákum þeim. Er þar ærið rúm fyrir marga bæi. Og þar eð víst má telja að það hafi verið kostaland, þá hafa þar óefað verið allmargir bæir, sem nú eru hrauni huldir. Eigi verður sagt nær hraun þessi hafa brunnið, heldur en önnur hraunin á Reykjanesskaganum, er þó hafa brunnið eftir landnámstíð og eyðilagt meiri eða minni bygðir svo sem fornu Krýsuvík o. fl. (Sbr. Árb. fornl.fél. 1903 bls. 43—44 og 47—50). Vegur Selvogsmanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, (Grindaskarðavegur) liggur um Helgadal hjá rústinni. Er eigi allskammt þaðan til Hafnarfjarðar.“

Helgadalur

Helgadalur – selsminjarnar.

Brynjúlfur virðist hvorki hafa áttað sig á staðsetningu minjanna með hliðsjón af öðrum selsminjum á Reykjanesskaganum, þ.e. þær eru í góðu skjóli fyrir austanáttinni, og auk þess eru þær við vatnsból fjarri byggðinni við ströndina. Aðstæður er dæmigerðar fyrir selstöðu; grasi gróinn selshúsahóll, gróinn stekkur og grasgróningar umhverfis. Engin ummerki eru eftir garða er gjarnan fylgja bæjarstæðum.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Skammt norðar í Helgadal er hlaðinn stekkur ofan við fjárskjól. Fyrirhleðslur eru framan við skjólin, sem einnig eru dæmigerðar fyrir selstöður á þessu svæði.
Selið, sem hefur verið frá Görðum á Álftanesi (það er í fyrrum Garðalandi), hefur verið vel mjög staðsett í upphafi á sínum tíma. Tvennt hefur væntanlega komið til eyðingar þess í framhaldinu. Í fyrsta lagi var það við gömlu Selvogsgötuna (Suðurferðarveginn) milli Hafnarfjarðar og Selvogs um Grindarskörð. Leiðin sú hefur orðið fjölfarnari eftir því sem bæjunum Hafnarfirði og Reykjavík óx fiskur um hrygg. Ekki hefur þótt vænlegt að halda úti selstöðu við svo fjölfarna sumarleið. Vatnsbólið hefur verið mjög eftirsóknarvert, enda fáum öðrum slíkum að dreifa á milli Strandardals og Helgadals, og dalurinn hefur auk þess þótt skjólgóður áningarstaður. Í öðru lagi má telja líklegt að vatn hafi þorrið í dalnum um miðsumar í heitum veðrum, mögulega ítrekað á tilteknu tímabili, líkt og gerst hefur nú í sumar (júlí 2021). Ítrekaðir þurrkað hafa hnúið bóndann á Görðum til að færa selstöðuna af framangreindum ástæðum, þ.e. fjær alfaraleiðinni og að öruggari vatnsöflun við Kaldá neðan Kaldárbotna. Sú selstaða hefur dugað vel um tíma, en fékk hins vegar lítinn frið, líkt og sú fyrri, fyrir ágangi ferðamanna í lok 19. aldar. Sjá má allnokkra umfjöllun um Kaldársel á vefsíðunni.

Helgadalur

Helgadalur – selsminjar.

Leifar selstöðunnar í Helgadal eru greinilega mjög fornar, enda mótar vart fyrir mannvirkjum þar, nema sjá má móta fyrir óvenjustórum stekk, tvískiptum, austan tvískiptra óljósra húsaleifanna, sem væntanlega fela í sér eldhús, búr og baðstofu – ef gaumgæft væri.

Helgadalur

Selvogsgata um Helgadal.

Minjarnar eru í landi Garðabæjar þótt skondið sé. Ástæðan er sú að landamerki Hafnarfjarðar og Garðabæjar voru miðuð við gömlu Selvogsgötuna. Hún liggur niður í Helgadal norðan vatnsbólsins, í sveig að vatnsbólinu og síðan upp með hlíðinni austanverðri sunnan tóftanna. Þær eru þó naumlega innan vatnsverndarsvæðis Kaldárbotna, en það ætti þó ekki að takmarka möguleika fornleifafræðinga að skoða þær nánar með t.t. aldurs og nýtingar fyrrum.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsóknir fornleifa sumarið 1907 eftir Brynjúlf Jónsson – Helgadalur, bls. 10-11.

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Eyrað

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Hólmshraunin fimm„, hraun í nágrenni Reykjavíkur, í Náttúrufræðinginn 1972:

Inngangur

Jón Jónsson

„Þegar farið er sem leið liggur frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði, eða austur yfir Fjall, eins og oft er komist að orði, blasir við manni á hægri hönd grámosagróinn hraunfláki, sem nær frá Jaðri austur að Selfjalli og hverfur til suðurs milli efstu brúna. Nyrzt, eða nánar tiltekið milli Selfjalls og Heiðmerkur, gengur þessi hraunbreiða undir nafninu Hólmshraun.
Við athugun kemur í ljós, að um a. m. k. fimm mismunandi og misgamla hraunstrauma er að ræða, sem auðveldlega má greina að norðantil á svæðinu. Er sunnar dregur verður það illgerlegt eða ómögulegt með öllu, enda koma þar fyrir enn fleiri hraun, sem hlaðizt hafa hvert yfir annað. Þau eru öll komin úr Þríhnúkum og svæðum milli þeirra og Hákolls í sunnanverðum Bláfjöllum.
Eldstöðvar á þessu svæði eru a.m.k. átta vel sýnilegar. Ekki er ólíklegt að einhverjar séu nú huldar yngri hraunum, og engan veginn er útilokað að neðst í þessum hraunlagastafla séu hraun frá Heiðinni há, sem runnið hafi til norðurs vestan Bláfjalla.
Ég hef valið að halda því nafni, sem notað er á kortinu (1:50000), en gefa síðan hverju hrauni númer eftir aldursröð á meðan ekki er hægt að tengja hvert og eitt þeirra við ákveðna eldstöð sem hlotið hefur nafn.

Hólmshraun I

Hólmshraun

Hólmshraun – upptök.

Hólmshraun I er elzt þessara hrauna. Það kemur fram austan við Gvendarbrunna og hefur þar runnið út á og nærri þvert yfir Leitahraun (Jónsson 1971, bls. 52), og er því a. m. k. eitthvað yngra. Rekja má það til austurs báðum megin Suðurár um 1,5 km austur frá Gvendarbrunnum, en nyrzta tunga þess endar rétt sunnan við Hólm. Hefur það því næstum náð að renna þvert yfir Leitahraun á þessum stað.
Lítið ber á þessu hrauni þarna, en bergið í því er þó svo frábrugðið Leitahrauni, að mögulegt er að rekja það á þeim grundvelli. Þetta hraun kemur einnig fram efst í Heiðmörk. Hús „Nordmannslaget“ stendur einmitt á þessu hrauni. Hraunið er fínkornótt feldspatpyroxen hraun með ofurlitlu ólívíni.
Með því að mæla hlutfall steintegunda í tveim þunnsneiðum úr þessu hrauni fékkst eftirfarandi útkoma: Um aldur hraunsins er ekki vitað annað en það sem þegar er sagt, að það er yngra en Leitahraun og elzt Hólmshraunanna.

Hólmshraun II

Hólmsborg

Hólmsborg er í Hólmshrauni.

Þetta hraun kemur fram á 11 stöðum á því svæði sem kortið nær yfir, en lítið fer fyrir því á þeim flestum. Mesta samfellda spildan er kvísl sú sem fallið hefur um skarðið milli Self jalls og Sandfells, niður með Selfjalli að austan og niður í Lækjabotna. Nyrzti tangi þess myndaði háa og mjög áberandi brún rétt austan við gamla gististaðinn Lögberg, en nú hefur sú brún verið rifin niður og jöfnuð út fyrir hinn nýja veg. Þó má ennþá auðveldlega sjá það á brekkubrúninni aðeins nokkra metra norðan við veginn. Þarna hefur það runnið út á Leitahraun. Nokkur hluti af þessari hraunkvísl hefur fallið vestur með Selfjalli að norðan og myndar þar tvo tanga. Stendur skátaskálinn gamli á þeim syðri og nær hann lengst þeirra vestur.
Hólmshraun kemur víða fyrir á Heiðmerkursvæðinu, bæði syðst, suðvestur af Silungapolli, og rétt austan við Jaðar.
Vestasta hraunröndin þar er þó ekki þetta hraun, heldur yngra hraun, Hólmshraun III. Hólmshraun II myndar því hólma við rönd yngra hraunsins rétt vestan við Gvendarbrunna. Auk þess kemur Hólmshraun II fram nyrzt í kverkinni suður af Selfjalli. Í borholu austan við Gvendarbrunna varð og vart við það undir yngra hrauni.
Hraunið er tiltölulega grófkornótt feldspat-ólívín-dílótt hraun og mjög auðþekkt á því, en annað er þó, sem ekki síður er einkennandi fyrir það, en það er að í því er mesti aragrúi hnyðlinga. Er sums staðar, t.d. í áðurnefndri hraunkvísl austan við Selfjall, svo mikið af þeim, að naumast er hægt að brjóta úr því mola svo að ekki sé í honum hnyðlingur (Jónsson 1963). Þetta eru gabbro-hnyðlingar líkir þeim, sem fundizt hafa á fjölmörgum stöðum á Reykjanesi og víðar hin síðari ár.

Hólmshraun III

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Þetta hraun tekur yfir mun stærra svæði en nokkurt hinna hraunanna. Mestri útbreiðslu nær það í austanverðri Heiðmörk og nær þar óslitið frá Silungapolli og vestur fyrir Jaðar. Nyrzti tanginn á þeim hluta hraunsins nær langleiðina norður að Hólmsá skammt suðvestan við brúna. Brúnin á Hólmshrauni III er mest áberandi hraunbrúnin austan við Gvendarbrunna og allt austur að veginum inn í Heiðmörk, enda liggur það á þessu svæði næst ofan á Hólmshrauni I eða þá ofan á Leitahrauni. Tanginn suðaustan við Gunnarshólma sem Suðurlandsvegur liggur um er Hólmshraun III.

Drottning

Drottning í Bláfjöllum – gígur.

Vegurinn sker þar yfir nyrzta tanga þess. Það þekur svo allstóra spildu þar suður af og fyrir austan og sunnan Silungapoll, en er næst Selfjalli hulið yngra hrauni, Hólmshrauni V, en til vesturs hverfur það undir Hólmshraun IV, sem myndar mjótt belti ofan á því suðvestur af Silungapolli og nær út í tjörnina sem þar er. Þegar sunnar kemur hverfur Hólmshraun III algerlega undir yngra hraun, og það syðsta sem sést af því er nærri beint vestur af Selfjalli ofan og austan við Heiðmörk.

Eyrað

Eyrað – gígur vestan Kónsgfells.

Þar fyrir sunnan er mjög erfitt eða ómögulegt að greina milli einstakra hraunstrauma, en geta má þess þó hér, að á svæðinu frá Húsafelli og austur að Heiðmörk hef ég talið mig geta greint a.m.k. 3 mismunandi hraun. Eru þá Hólmshraunin, sem hér er um rætt, ekki meðtalin. Sé nú Búrfellshraun ásamt Leitahrauni og hraununum næst vestan við Vífilsfell talin með kemur í ljós, að gosið hefur yfir tuttugu sinnum á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla frá því að jöklar hurfu af þessu svæði. Nokkrar líkur benda til þess að flest þessara hrauna séu yngri en Búrfellshraun, en samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar er það um 7200 ára gamalt. Sýnir þetta, að eldvirkni hefur verið mikil á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla eftir að Heiðin há hætti gosum og eftir að Búrfellshraun rann.
Hólmshraun III er ekki ósvipað Hólmshrauni I fljótt á litið, en inniheldur miklu meira ólívín, og er á því auðvelt að greina þessi hraun að. Hnyðlingar finnast í þessu hrauni en ekki er mikið um þá. Einstaka stórir feldspatdílar koma fyrir í hrauninu.

Hólmshraun IV

Silungapollur

Silungapollur.

Þetta hraun hefur fallið í samfelldum straumi yfir Hólmshraun III frá vesturhorni Selfjalls, og endar í mjóum tanga við tjörnina vestur af Silungapolli. Það nær óvíða 500 m breidd og er norðan til aðeins um 200 m og þaðan af minna. Það er áberandi meira dílótt en Hólmshraun I og Hólmshraun III. Nokkuð er um ólívíndíla í því og má vel greina þá með berum augum. Á því svæði sem hér um ræðir kemur Hólmshraun IV ekki fyrir nema á ofannefndu svæði.

Hólmshraun V

Þríhnúkar

Í gíg Þríhnúka.

Síðast í röð þessara hrauna er Hólmshraun V. Það liggur ofan á Hólmshrauni IV vestur a£ Selfjalli, en klofnar þar á því, og fellur svo í tveim kvíslum báðum megin við það. Vestri kvíslin endar rétt sunnan og austan við skála þann, sem „Nordmannslaget“ hefur í Heiðmörk, og áður er minnst á. Önnur kvísl úr sama hrauni er svo nokkru vestar, en sú kvísl nær aðeins á einum stað fast að girðingunni sunnan við Heiðmörk.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Austasta kvíslin hefur svo fallið norður með Selfjalli að vestan og alla leið niður í Lækjabotna. Þetta er mjór hraunstraumur, sem fallið hefur upp að fjallinu eftir lægð, sem myndazt hefur milli þess og eldri hraunstrauma. Svo virðist, sem þetta sé yngst allra hraunanna á svæðinu milli Þríhnúka og Hákolls í Bláfjöllum, þó ekki verði það fullyrt að svo stöddu. Sé það hins vegar rétt sýnist og líklegt, að það sé komið úr stuttri gígaröð vestan undir Kóngsfelli. Aðalgígirnir eru tveir, en röð af smágígum liggur upp í fellið að norðvestan. Hrauntraðir stórar liggja frá þessum gígum suður fyrir Kóngsfell og austur með því að sunnan.

Rjúpnadyngjuhraun

Í Rjúpnadyngjuhrauni.

Þá hefur hraunið fallið norður milli Kóngsfells og Rjúpnadalshnúka, en önnur kvísl austur að Bláfjöllum, og er það yngsta hraunið sem endar í allhárri brún vestur af Vífilsfelli og á kortinu er nefnt Vífilsfellshraun. Greinilegt er, að hraunið úr gígunum við Kóngsfell er yngra en hraunin úr Eldborg við Drottningu, en mjög líklega er eitthvað af Hólmshraunum komið úr þeim gíg. Hólmshraun V er gráleitt, fremur fínkornótt basalthraun.
Hólmshraun
Eins og áður hefur lauslega verið drepið á eru margar eldstöðvar milli Bláfjalla og Lönguhlíðar. Hafa hraun frá þeim flestum runnið norður af og mynda þá mikla hraunbreiðu, sem á kortinu er nefnd Húsfellsbruni, en hraun þau, sem nefnd eru Hólmshraun og Skúlatúnshraun eru raunar hluti af þessum mikla hraunfláka. Nokkrar þessara eldstöðva eru stórkostlegar myndanir eins og t.d. Eldborg austan við Drottningu. Tæpum 3 km sunnar eru eldvörp, sem á kortinu hafa ekkert nafn. Þar eru 8 gígir á nær hringlaga svæði, og er einn þeirra mestur. Einn gígur er svo nokkuð utan við þessa þyrpingu.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Ég held, að líta verði á þessa gígaþyrpingu sem eina eldstöð, því hraunrennsli virðist a. m. k. á tímabili hafa verið úr öllum þessum gígum, en óvíst er að það hafi verið samtímis. Hraunin frá þessum eldvörpum hafa runnið norður af vestan Bláfjalla og lítið eitt vestur ávið yfir hraun frá Heiðinni há, en þau hverfa brátt undir yngri hraun og er ekki vitað að til þeirra sjáist eftir það. Líklegt er, að eitthvað af hrauni frá Heiðinni há hafi líka runnið norður af vestan við Bláfjöll, en óvíst er með öllu hversu langt þau hafa náð. Geta má þess hér, að hraun það í Heiðmörk, sem á kortinu er nefnt Strípshraun, hygg ég vera úr Þríhnúkum komið.
Þess skal hér með þakklæti getið, að kort það, er grein þessari fylgir, hefur Jón Eiríksson jarðfræðinemi teiknað fyrir mig með frábærri nákvæmni.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 01.11.1972, Hraun í nágrenni Reykjavíkur II – Hólmshraunin fimm, Jón Jónsson, bls. 131-139.

Hólmshraun

Hólmshraunin – og önnur nærliggjandi (Ísor.is).

Kjalarnes

FERLIR skoðaði Esjuberg og nágrenni m.t.t. mögulegra sögulegra minja, s.s. fyrrum fyrstu kirkju á Íslandi árið 910 og þingstað Kjalnesinga:

Esjuberg – sagan

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu. Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabóksegir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Margt er á huldu á og við Esjuberg.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla?
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esja – skriða ofan Leiðhamra.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“

Esja

Esja ofan Leiðvalla.

Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi.

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.
Litla Esjuberg var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Esjuberg
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Esjuberg segir m.a.: „Jörð í Kjalarneshreppi, næst vestan við Mógilsá. Merkin móti Mógilsá eru frá Leiðvelli beint við vesturhorn á sléttri flöt upp í Markagil, (Stangargil eða Festargil. Vestan við Fálkaklett eftir miðju gilinu um Skarðsdali efri og Skarðsdali neðri, eins og lækurinn ræður, upp í Þverfell.

Esjuberg

Esjuberg – túnakort 1916.

Móti Móum er varða á landsuðurhorni Varmhóla, síðan vestur þá og í vörðu hæst á þeim, beina sjónhendingu í Brautarholtsborg eða beint í Villingavað á Móalæk. Þetta voru gömlu merkin. En nú ræður vegurinn milli Saltvíkur og Esjubergs. Melur er norður af Varmhólum, milli þeirra og Dyngjuholts, sem heitir Varmhólamelur.
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi,en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.“

Í Wikipedia.org segir um Kjalarnesþing:

Esja

Mögulegur þingstaður fyrrum Kjalarnesþings ofan Leiðvalla.

„Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn.

Þingnes

Þingnes.

Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan.

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis.“

Í Vinnuskýrslu fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003):
Leiðvöllur
„Á Þingnesi við Elliðavatn er dálítil þyrping fornra rústa sem lætur ekki mikið yfir sér þegar gengið er um staðinn. Til skamms tíma var staðurinn einnig ómerktur og áttu margir jafnvel erfitt að átta sig á hvar minjarnar væru, þó að þeir gengju um svæðið.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Margt bendir til þess að þessar minjar séu hins vegar með merkustu minjum landsins, og að þarna séu hugsanlega leifar Kjalarnessþingstaðar, sem var fyrsti þingstaður landsins og líklega settur á fót rétt fyrir eða um 900.
Þrátt fyrir mikilvægi Kjalarnessþings féll staðurinn algerlega í gleymsku, eins og flestir hinna fornu héraðsþingstaða og í dag er ekki vitað með vissu hvar þingið var haldið.
Með vaknandi þjóðerniskennd á 18. og 19. öld fóru ýmsir að svipast um eftir frægum stöðum sem nefndir voru í Fornsögum, þar á meðal Kjalarnesþingi. Nafnið „Kjalarnesþing” bendir óneitanlega til þess að það hafi staðið á Kjalarnesi, og þar hófu menn fyrst leit að staðnum.
Þingnes
Á 18. öld getur Árni Magnússon um örnefnið „Þingeyri” í Kollafirði. Um 1880 virðist Þingeyri týnd en í staðinn talar Sigurður Vigfússon um „Leiðvöll” á Kjalarnesi. Af lýsingunni að dæma virðist um sama stað að ræða. E.t.v. eru þessi örnefni (Þingeyri og Leiðvöllur) aðeins tilraunir viðkomandi fræðimanna á 18. og 19. öld til þess að finna Kjalarnesþingi líklegan stað og varasamt að byggja of mikið á þeim.
Spyrja má hvernig mönnum datt í hug að tengja Kjalarnesþing við stað eins og Þingnes sem er augljóslega ekki á Kjalarnesi. Meginástæðan fyrir því að farið var að leita að öðrum stöðum sem bent gætu til þinghalds á svæðinu kring um Faxaflóa er væntanlega sú að á Kjalarnesi hafa ekki fundist eða varðveist minjar sem bent gætu til þingstaðar.
Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, vakti fyrstur athygli manna á búðarústum í Þingnesi við Elliðavatn, og getur sér til að þar sé fundinn hinn forni Kjalarnesþingstaður, sem svo lengi hafði verið týndur.

Þingnes
Í kjölfar þessa spunnust næstu áratugina miklar umræður um staðsetningu Kjalarnessþings meðal fræðimanna og stóð sú umræða meir og minna yfir fram yfir aldamótin 1900. Þá höfðu margir innlendir og erlendir fornfræðingar þess tíma heimsótt staðinn, mælt hann upp og lýst honum og sumir jafnvel grafið í rústirnar í rannsóknarskyni, eins og greint verður nánar frá hér á eftir. Rannsóknarsaga Þingness er því lengri og fjölbreyttari en en flestra annara minjastaða á Íslandi.
Allir sem könnuðu staðinn voru sammála um að þar væru um 15 – 20 rústir í þyrpingu, hringlaga mannvirki á miðju svæðinu, og að staðurinn væri líklega þingstaður. Árið 2003 hófust á nýjan leik rannsóknir á Þingnesi á vegum Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem liður í verklegri kennslu í fornleifafræði.

Þingnes
Í þessari ritgerð er safnað saman á einn stað helstu ritheimildum um Kjalarnesþing og Þingnes og hin merkilega rannsóknarsaga staðarins rakin frá upphafi. Til þess að gefa sem besta innsýn í umræðuna og leifa röksemdum sem notaðar voru í umræðunni að njóta sín, eru hér endurbirtar helstu greinar þeirra fræðimanna sem mest létu sig þetta mál varða. Gerð er grein fyrir hverju mannvirki fyrir sig sem rannsakað var á árunum 1981 – 2003. Rætt er um niðurstöður rannsókna í ljósi núverandi vitneskju, aldur og hugsanlegt hlutverk minjanna á Þingnesi.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um Kjalarnessþing og Þingnes komu fram flest þau rök sem halda að mestu enn í dag. Umræðurnar eru bæði skemmtilegar og áhugaverðar og mikilvægt innlegg í rannsóknarsögu staðarins. Ástæðan fyrir því að þetta mál komst yfirleitt á dagskrá á sínum tíma er sú að Kjalarnessþings er getið í Íslenskum fornritum sem hins fyrsta þingstaðar á Íslandi.

Samkvæmt frásögn Landnámu og Íslendingabókar á Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, að hafa stofnað til þings áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Stofnun Kjalarnessþings er sennilega einn af merkustu atburðum landnámsaldar. Þá er mönnum greinilega orðið ljóst að ekki verði búið í landinu án þess að sett séu almenn lög og samskiptareglur og helstu höfðingjar virðast taka höndum saman um að koma á fót þessum fyrstu drögum að þinghaldi í landinu.

Leiðvöllur

Leiðvöllur á Kjalarnesi.

Um þennan atburð segir svo í þriðja kafla Íslendingabókar: ,,Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar sem nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það sem Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.”
Í neðanmálsgrein um þessa frásögn segir Jakob Benediktsson að ágreiningur hafi verið meðal fræðimanna hvort að Kjalarnesþing hafi verið héraðsþing eða vísir að allsherjarþingi. Hann tekur ekki afstöðu til þess, hvort sé rétt, en telur líklegt að á Kjalarnesþingi hafi farið fram undirbúningur að stofnun Alþingis.

Þingnes
Í Landnámabók er frásögnin með svipuðum hætti: „Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts ins gamla. Þeirra sonur var Þorstein, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður Alþingi var sett”. Í Þórðarbók stendur ekki á Kjalarnesi, heldur „á Krossnesi”, sem talið er að Þórður hafi bætt inn í handritið. Í neðanmálsgrein greinir Jakob Benediktsson frá því að í viðbæti Þórðarbókar standi eftirfarandi klausa úr Melabók: ,,Þorsteinn Ingólfsson lét setja fyrstur manna þing á Kjalarnesi, áður alþingi var sett, við ráð Helga bjólu og Örlygs að Esjubergi og annarra viturra manna, og fylgir þar enn sökum (þess) því goðorði alþingishelgun”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Kjalnesinga sögu, sem er reyndar ekki talin með áreiðanlegustu sögum, ber ekki saman við þessar frásagnir um stofnun Kjalarnesþings. Þar segir: „Þorgrímr (sonur Helga Bjólu landnámsmanns) lét setja várþing á Kjalarnesi suðr við sjóinn; enn sér stað búðanna; þar skyldi öll mál sækja og þau ein til alþingis leggja, er þar yrði eigi sótt eða stærst væri”.
Litlum sögum fer af þessu merka þingi. Aðeins eru tvær frásagnir varðveittar um mál sem borin voru upp á Kjalarnesþingi. Annars vegar er frásögn í Kjalnesinga sögu um að Þorsteinn Þorgrímsson á Hofi á Kjalarnesi, stefndi Búa Andríðssyni um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Sótti hann málið og varð Búi sekur skógarmaður. Segir sagan, að hann hafi þá verið 12 vetra. Hins vegar er um að ræða vígamál sem spunnust út af deilum Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa, sem lauk með því að Þorbjörn felldi Ófeig í Grettisgeil hjá Hæli.
Leitað var til Önundar tréfóts til þess að reifa málið. Hann fékk til liðs við sig Ólaf feilan, sonarson Auðar djúpúðgu. Í Grettissögu er frásögnin af málinu á þessa leið „og reið Ólafur suður með honum, og er Önundur hitti vini sína og mága, þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gjörð, og komu miklar bætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gjörr”. Þessir atburðir munu líklega hafa átt sér stað um 906 – 908.

Þingnes

Þingnes – Uppdráttur G.Ó.

Þegar fornritum sleppir er elstu vísbendingu fyrir því að þingstaður hafi getað verið á Kjalarnesi, líklega að finna hjá Árna Magnússyni, handritasafnara. Í riti sínu Chorographica Islandica sem er tekið er saman á löngu árabili í upphafi 18. aldar birtir hann lauslega afstöðumynd af nokkrum örnefnum í Kollafirði. Þar er örnefnið Þingeyri merkt við nes á kortinu sem gengur út í miðjan Kollafjörð að norðanveru. Í athugasemd nefnir Árni m.a. að í landi Esjubergs sé enn sýndur fyrsti þingstaður á Sandeyri í Kollafirði.

LandnámKort Árna Magnússonar af Kollafirði þar sem skráð eru örnefnin: Helguskier, ÞingEyre, Kollafiörður, og áttavísanirnar suður og austur. Engar minjar hafa fundist á þessu svæði sem bent gætu til þingstaðar.

Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur fékk áhuga á að finna Kjalarnesþing hið forna. Þegar hann hefur rannsóknir sínar virðist almennt hafa verið talið að þingstaðinn væri að finna á Kjalarnesi sjálfu, en að enginn vissi nákvæmlega hvar. Honum var sagt að vestan við bæinn Móa á Kjalarnesi væru leifar þingstaðar niður við sjó, en að þar væru engar sýnilegar minjar. Það eina sem þar minni á þingstað sé örnefnið Leiðvöllur. Hann fékk síðan upplýsingar um minjasvæðið við Elliðavatn og gerði út leiðangur til þess að rannsaka staðinn árið 1841 og fann þá 18 – 20 búðir og dómhring. Rannsókn hans er afar merkileg og með nokkrum sanni má segja að þessi rannsókn marki upphaf fræðilegra rannsókna á Íslandi, þó að frumstæð sé. Mér er ekki kunnugt um aðrar eldri rannsóknir á fornleifum sem gerðar hafa verið á Íslandi af fræðimönnum.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar birtust í Rit eftir Jónas Hallgrímsson III. Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Annars vegar undir fyrirsögninni: ,,Tvær litlar rannsóknarferðir: 1. Þingnes í Elliðavatni”, og hins vegar ,,Uddrag af dagböger fra en rejse i Island Sommaren 1841, for saa vidt angaar Antikvariske iagttagelser”.
ÞingnesFrásagnirnar eru mjög svipaðar en til þess að halda saman öllu sem Jónas skrifaði um rannsóknina eru þær báðar birtar hér eins og þær birtust á dönsku í dagbókum hans: „Da jeg i næstafvigte Vinter for Alvor begyndte at forespørge mig om Stedet, hvor det gamle Kjalarnesþing havde staaet, saa var der ingen, som kunde give mig nogen Oplysning derom. Vel sagde man, at etsteds paa Kjalarnæsset, vesten for Gaarden Moar, ved Stranden, nok var Levninger af et Tingsted, men at man ikke saa der nogen Budetomter. Stedet kaldes desuden, vel at mærke, Leiðvöllur. Dette førte mig naturligvis til den Tanke, at Kjalnæsingerne vel i sin Tid havde holdt det aarlige »leiðarþing« paa dette Sted, men at det derfor ikke var afgjort, at Herredstinget nogen Sinde havde været der. Omtrent til samme Tid fik jeg at vide, at ved Elliðavatn, – en fiskerig Indsø, der ligger oven for Seltjarnarneset, paa de gamle Grænser af Kjosar- og Guldbringe-Sysseler og midt i Herredet Kjalarnessþing —, skulde der findes mange og anselige Tomter i et Næs, der gaar ud i bemeldte Indsø, midt i mellem Gaardene Vatns-endi og Vatn. Efter en foreløbig Undersøgelse tog jeg fra Reikevig til dette Sted om Aftenen den 20. Juni, da jeg næste Dag agtede at foretage der en Del Eftergravninger, i Haab om paa denne Maade at komme til et Resultat med Hensyn til bemeldte Tomters tidligere Bestemmelse.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar hleyptu af stað miklum vangaveltum og nokkrum deilum um staðsetningu Kjalarnessþings sem stóðu fram yfir aldamótin 1900, en lognuðust svo útaf vegna skorts á frekari sönnunargögnum. Það kann að þykja einkennilegt að ekki hafi fundist nein ný sönnunargögn sem skorið gætu úr þessari deilu þegar þess er gætt að enginn staður á Íslandi hefur verið rannsakaður jafn oft og rústirnar í Þingnesi.
ÞingnesÞarna grófu nefnilega bæði íslenskir og erlendir fornfræðingar þess tíma hver á fætur öðrum án þess að takast að ráða gátu staðarins. Ástæða þess er sú að hann er óvenju erfitt viðfangsefni, eins og vikið verður að síðar. Af helstu fræðimönnum sem þarna grófu auk Jónasar má nefna Angus Smith, skoskan fornfræðing sem rannsakaði staðinn árið 1872; Sigurð Vigfússon árið 1889; Daniel Bruun og Björn M. Olsen árin 1896 – 1897.
Að auki könnuðu allir helstu fornfræðingar landsins staðinn og gerðu athuganir á honum. Þar á meðal Kristian Kaalund, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur frá Minna Núpi.
Sú umræða um Kjalarnesþing sem spratt af rannsóknum Jónasar er mjög skemmtileg og er afar áhugavert að kynnast hugmyndum og sjónarmiðum þesarra fræðimanna sem um hann fjölluðu fyrir rúmum hundrað árum.
Þrátt fyrir að ályktanir og niðurstöður taki gjarnan mið af því að verið er að reyna að útskýra hvernig Kjalarnesþing sé upp við Þingnes en ekki á Kjalarnesi, er engin ástæða til að rengja glöggskyggni rannsóknarmanna í lýsingum sínum á sjálfum minjunum.“

Esja

Minjakort Minjasafns Reykjavíkur. Hér er Kirkjuflöt ranglega staðsett.

Af framangreindu mætti ætla, í fljótu bragði, að kirkja Örlygs gamla hafi verið á Esjubergi. Ef betur er lesið er ljóst að hún var á flöt; Kirkjuflöt „ofan við Leiðvöll“ í Kollafirði.
Á örnefnamynd Minjasafns Reykjavíkur er Kirkjuflöt staðsett beint ofan við Leiðvöll, þar sem nú eru malargryfjur. Ljóst má þó vera að þar hafi aldrei verið flöt sú, sem fjallað er um. „Ofan við Leiðvöll“ hefur miklu líklegra verið á reiðleiðinni þaðan áleiðis að Esjubergi. Þar ofan við er sléttur gróinn melur, skammt ofan Leiðhamra. Á flötum melnum er aflangur gróinn hóll, sem snýr frá austri til vesturs. Ekki mótar fyrir veggjum í hólnum. Skammt norðan við hann eru tóftir fjárhúss (heykuml, hús og gerði).

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Telja má ólíklegt að Örlygur gamli hafi ráðið að reisa fyrstu kristnu kirkjuna heima við bæ sinn á Esjubergi þrátt fyrir almenna stundarsátt millum trúarbragða á þeim tíma. Slík framkvæmd gat boðið hættunni heim. Hafa ber í huga að Ísland var heiðið á þessum tíma og þótt kristið fólk hafi sest hér að, ekki síst á Kjalarnesi, verður að teljast hæpið að hann hafi viljað storka örlögunum með svo augljósum hætti, en afráðið þess í stað að láta reyna á þolgæði samlandanna og reist hið táknræna trúboð við alfaraleið á ystu mörkum landnámsins þar sem ólíkar hefðir blönduðust sameiginlegum hagsmunum, þ.e. mikilvægum siglingum millum anda. Örlygur hefur ólíklega afráðið að reisa kirkjuna á meintum stað Kjalarnesþings ofan Leiðvalla, sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. Minjastaður meintar kirkju er í skjóli fyrir erfiðum vindáttum ofan af Esjunni. Skammt sunnan við meintan minjastað er orpinn hóll, mögulega dys. Kjalnesingasaga segir að Búi hafi verið grafinn sunnan við kirkjuna, sem þá hafði verið aflögð.
Í Esjunni ofan við meint kirkjustæði er örnefnið „Kirkjunýpa“, sem hingað til hefur ekki ratað í nútíma örnefnalýsingar einhverra hluta vegna.

Telja má sennilegt að kirkjan á Kirkjuflöt ofan Leiðvalla hafi síðar verið flutt að bænum Esjubergi, líkt og lesa má í síðari heimildum.  Þar fór fram fornleifauppgröftur fyrir nokkrum árum, en skilaði ekki tilhlíðanlegum árangri. Sú, eða þær kirkjur, sem nálægt bænum kunna að finnast, geta því varla talist til elstu kirkju landsins.
EsjubergVitað er að hvorki timburkirkjur né torfkirkjur hafi varað til eillífðar, heldur þvert á móti; þær hefur þurft að endurbyggja með reglulegu millibili, mögulega á 20-50 ára fresti.
Skammt sunnar í hlíðinni, allnokkuð ofan Leiðvallar, er óglöggt minjasvæði. Sést þar móta fyrir veggjum.

Heimildir:
-Bæir á Kjalarnesi – ritgerð.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kjalarnes%C3%BEing
-Vinnuskýrsla fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003).
-Gamli Kjalarnesvegur – Minjasafn Reykjavíkur.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Esjuberg.

Esja

Esjan ofan Leiðvallar. Svæðinu neðanverðu hefur verið mikið raskað í gegnum tíðina.

Herdísarvík

Þorvaldur Thoroddsen fjallar um „Ferðir sínar á Suðurlandi sumarið 1883“ í Andvara 1884. Hér segir af aðbúnaði vermanna í sjóbúðum í Selvogi og víðar á sunnanverðurm Reykjanesskaganum, sem og ágangi tófunnar, sem fæstir virtust sýna athygli þrátt fyrir ærið tilefni:

Sjóbúð

Sjóbúð í Herdísarvík.

„Selvogur er allmikið fiskipláss, þó æði sje þar brimasamt og skerjótt fyrir landi; graslendi er sáralítið, en beit allgóð í heiðunum; sandfok gjörir mikinn skaða, enda er lítið gjört til að hepta það, nei, pvert á móti, melgrasið er rifið upp og notað í meljur, og lyngið og víðirinn í heiðunum er rifinn í eldinn, og svo blæs náttúrlega hinn sendni jarðvegur allur í sundur, og þaðan fýkur svo yfir betri blettina. Það er hjer sem víða annarstaðar á Íslandi, par sem land gengur úr sjor, að það er mest mönnunum að kenna; hugsunarleysi og stundarhagnaður hafa gjört landinu mikinn skaða. Víða má sjá, að miklu meid byggð hefir verið í Selvogi fyrrum; stórkostlegar garðhleðslur sjást því nærri alstaðar í sandinum, en nú er par allt blásið upp, og ekkert stingandi strá; mest kveður að þessum garðhleðslum fram með ströndinni milli Strandakirkju og Vogsósa, og nálægt kirkjunni eru rústir og garðar af bænum Strönd, sem fyrir löngu er kominn í eyði.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

Strandakirkja, sem svo margir heita á, stendur nú ein fjarri byggð á kringlóttum grasfleti (kirkjugarði), sem vindurinn hefir rifið sandinn frá, svo hátt er niður af honum til allra hliða, en enginn garður í kring. Fyrir framan Hlíðarvatn er sandrif og fellur sjór inn í vatnið um ósa hjá Vogsósum, en í útsynningi skefur sandinn svo upp af grandanum, að ósinn fyllir, svo þar verður þurrt; vatnið er því alltaf að grynnka að framanverðu og að austanverðu, en vestanmegin jetur það sig alltaf meir og meir inn í hraunið; tveir hólmar kváðu hafa verið í því, Hlíðarhólmi og Strandarhólmi, sem eru nú horfnir.

Hlíðarvatn

Horft á Hlíðarvatn úr Hlíðarskarði.

Á Vogsósum er töluverð selveiði. Bygging er mjög ljeleg í Selvogi, eins og í Grindavík, og allt öðruvísi en í verstöðunum norðan á nesinu. Í sjóplássum þessum sunnanfjalls liggja vermenn í sjóbúðum, og eru flestar þeirra miklu líkari peningshúsum en mannahíhýlum. Vanalega eru stein- og torfbálkar beggja megin, og á þeim reistar stoðir upp í ræfrið; milli stoðanna hafa sjómenn flet sín, en á stoðirnar hengja þeir skinnklæðin. Sumstaðar er lítil skvompa fyrir endanum, og er hún kölluð »kór«. Þar hvílir vanalega einhver hálfdrættingurinn. Mismunur er náttúrlega á því, hve hreinlega er um gengið í búðum þessum, en sumstaðar er það fremur sóðalegt, eins og við er að búast, þar sem svo mörgum mönnum er kasað saman; gluggar eru vanalega engir, nema lítil vindaugu með rúðubroti í; verður loptið því eigi gott. ef ekki er haft því meira hreinlæti, þar sem allt hlandast saman: svitalyktin af fólkinu og lyktin af grútmökuðum skinnklæðum. Betur færi, að menn færi að leggja þessar sjóbúðir niður, en höguðu heldur til eins og í sjóplássunum norðan á nesinu.

Tófa

Tófa.

Það stendur sauðfjárrækt mjög fyrir þrifum í þessum byggðarlögum, hve tóur eru fjarska algengar; í hraununum eru svo óteljandi holur, að mjög illt er að vinna grenin, enda er víðast lítið gjört að því; frá Vogsósum hefir nú á seinni árum verið töluvert unnið af grenjum, on það er til lítils gagns, úr því nábúarnir ekkert gjöra. Í sumum sveitum á Reykjanesi drepur tóan nærri hvert lamb, þannig t. d. í Höfnum, og þó eru menn svo rænulausir, að engin samtök oru gjörð til að eyða þessum ófögnuði.
Tvisvar í sumar reið jeg á förnum vegi fram á tóur, sera voru að drepa kind. Tóurnar eru líka víða svo spakar, að þær hlaupa um eins og hundar, og horfa grafkyrrar á ferðamenn, sem um voginn fara.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.04.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls 21-24.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Vífilsfell

Þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson fjölluðu um Vífilsfell í Fréttablaðinu árið 2020 undir fyrirsögninni „Gáð til veðurs á Vífilsfelli„:

„Eitt tignarlegasta fjall í nágrenni Reykjavíkur er Vífilsfell (655 m) en margir líta á það sem nyrsta hnjúk Bláfjalla. Fjallsins er getið í Landnámu þar sem sagt er frá Vífli, sem ásamt Karla var þræll Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Þeir voru sendir frá Ingólfshöfða vestur með sjó að leita öndvegissúlna Ingólfs og fundu þær loks reknar í Reykjavík. Ingólfur kættist við fundinn og segir svo í Landnámu: „Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum [Vífilsstöðum]; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó [hann] lengi, varð skilríkur [áreiðanlegur] maður.“ Vífill virðist hafa verið í fantaformi því sagt er að hann hafi skotist frá Vífilsstöðum upp á Vífilsfell til að gá til veðurs og ef veðurútlit var gott hélt hann út á Gróttu og reri til fiskjar. Vífilsfell er talið hafa myndast í að minnsta kosti tveimur gosum á mismunandi jökulskeiðum ísaldar. [Þá hvíldi um 700 m þykk íshellan yfir svæðinu.] Langmest ber á móbergi en um mitt fjallið er stallur sem skartar blágrýti og er því talinn stapi eins og Herðubreið og Hlöðufell. Efst á Vífilsfelli er sérlega fallegt móberg úr síðara gosinu og minnir veðrað bergið á abstrakt listaverk.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Ganga á Vífilsfell er frábær skemmtun og flestum fær. Hefðbundin gönguleið liggur að norðanverðu, upp á öxl sem gengur út úr fjallinu. Þarna eru malarnámur og má leggja bílum fyrir framan þær, en stikuð leið liggur alla leið upp á hátindinn. Þetta eru 6 km báðar leiðir og má reikna með að gangan taki 3-4 tíma. Meira krefjandi gönguleiðir liggja að vestanverðu upp gil sunnan tindsins eða úr Jósepsdal að austanverðu. Á hefðbundnu gönguleiðinni er stíg fylgt upp á áðurnefndan stall, en síðan taka við móbergsklettar sem yfirleitt eru auðveldir uppgöngu nema á veturna. Því er skynsamlegt að hafa með mannbrodda og ísöxi í vetrarferðum á Vífilsfell. Í efstu klettabeltunum eru kaðlar á tveimur stöðum sem auðvelda uppgönguna og á tindinum er útsýnisskífa sem Ferðafélag Íslands setti upp. Útsýnið yfir höfuðborgina er frábært og sést til Gróttu í 25 km fjarlægð, þar sem Vífill stundaði útræði. Einnig blasa við Esja, Móskarðshnjúkar, Skjaldbreiður og Hengill. Flestir ganga sömu leið niður, en sprækt göngufólk getur þrætt endilöng Bláfjöllin í suður að lyftusvæðinu, 15 km leið, sem Vífli hefði þótt þrælléttur göngutúr.“

Fjallað er um ferð á Vífilsfell í Morgunblaðinu 1979 í dálkinum „Spölkorn út í buskann„:
Vífilsfell„Eitt þeirra fjalla, sem blasa við augum manna héðan frá höfuðborginni, er Vífilsfellið. Það er ekki stórfenglegt að sjá úr fjarskanum, en þegar nær er komið, breytir það um svip og ýtir undir þá löngun, að ganga þangað upp. Og í dag skulum við framkvæma það verk.
Hægt er að ganga á fjallið frá öllum áttum, en stysta leiðin er úr skarðinu í mynni Jósefsdals og þar skulum við hefja gönguna. Frá kaffistofunni, sem er á mótum hins nýja og gamla vegar um Svínahraunið, ökum við afleggjarann sem liggur inn í Jósefsdal. Við ökum um Sauðadali, meðfram Draugahlíðum og Þórishamri og brátt erum við komin í skarðið, en það er suð-austan undir Vífilsfelli. Hér skulum við skilja bílinn eftir, og hefja gönguna.
Framundan er brött skriða þakin lausum jarðvegi. Best er að velja leiðina milli tveggja grunnra vatnsrása, sem liggja þar niður, ofan frá brún, eða ganga eftir annarri hvorri rásinni, því þar er fastara undir fæti. Þegar komið er upp á brúnina fyrir ofan, tekur við sléttur meíur. Hann er kærkominn, því brekkan er erfið og hefur komið mörgum hraustum kappanum til að blása og svitna örlítið. Við hvílum okkur nokkra stund á brúninni og litumst um, því landslagið hefur breytt um svip og útsýnið aukist að miklum mun. Síðan tekur við annar áfangi. Handan melsins rís móbergsklettur allbrattur, sem fer lækkandi til austurs. Okkur finnst hann óárennilegur í fyrstu, en tökum samt stefnuna á hann og fikrum okkur upp eftir honum. Er á reynir, er hann auðveldari viðfangs en okkur sýndist. Þegar efstu brún klettsins er náð, blasir við útsýnið til vesturs yfir Bláfjöllin og út á Flóann. En ekki höfum við enn náð efsta tindi. Einn stallur er eftir og sá brattasti. Hér hefur Ferðafélagið komið fyrir kaðalspotta, þeim til styrktar, sem smá aðstoð þurfa, en flestir hlaupa upp án nokkurrar aðstoðar. Þegar við höfum klifið stallinn, er „hæsta tindi náð“ og ekki annað eftir en „rifja upp og reyna að muna, fjallanöfnin, náttúruna“ með aðstoð útsýnisskífunnar, sem Ferðafélagið lét setja hér upp árið 1940. (Tilvitnanir eru úr Fjallgöngunni, kvæði eftir Tómas Guðmundsson.)

Vífilsfell

Vífilsfell.

Meðan við dveljum hér við útsýnisskoðun og fleira, rifjast upp sagan un nafn fjallsins. Í þjóðsögu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið Vífli þræli sínum bústað, sem síðan var nefndur Vífilsstaðir. Á miðju Álftanesi er Sviðsholt. Þar bjó Sviði. Vífill og Sviði stunduðu mjög sjó, og segir sagan, að þeir hafi tveir einir róið til fiskjar á áttæringi.
Í þjóðsögunni segir síðan: „Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt, sem Vífilsfell heitir. Þó það sé snöggt um lengri vegur upp að felli þessu frá Vífilsstöðum, en til sjávar, gekk Vífill allt um það á hverjum morgni upp á fellið, til að gá til veðurs, áður en hann fór að róa, og reri ekki, ef hann sá nokkra skýskán a lofti af fellinu, og tók því fellið nafn af honum. En ef honum leist róðrarlega á loftslag gekk hann til skips og reri með Sviða.“ Og nú stöndum við á sömu steinunum og Vífill forðum, hér uppi á fellinu, ef marka skal sannleiksgildi sögunnar. En tæplega myndu margir á okkar öld geta leikið það eftir honum, að skjótast þessa leið frá Vífilsstöðum fram og aftur, áður en hann ýtti frá landi. En nú skulum við huga að heimferð. Sjálfsagt er að leggja smá lykkju á leiðina og skjótast niður í Jósefsdalinn. Þá förum við til hægri þegar við erum komin ofan fyrir efstu klettana, og göngum vestur brúnirnar.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Gott er að komast niður gilið, sem merkt er leið A á kortinu, eða ganga alla leið vestur fyrir dalbotninn og þar niður í dalinn (leið B). Jósefsdalur er mjög sumarfagur, fjöllum luktur, en rennisléttur í botninn. Suður úr honum er Ólafsskarð, kennt við Ólaf bryta í Skálholti, sem ég sagði frá, þegar við gengum á Lyklafellið. Fyrrum var alfaraleið um Ólafsskarð og sjást götuslóðirnar enn. Dalurinn dregur nafn af Jósef bónda, sem þar bjó fyrrum. Hann var góður smiður, en forsmáði guð svo með blóti og formælingum, að bærinn sökk og Jósef með. En líklega hefur verið bætt fyrir brot Jósefs, því til skamms tíma voru hér aðalskíðalönd Ármenninga, skíðaskáli þeirra og fleiri byggingar og gekk vel.
Við göngum austur úr dalnum, fram hja Grettistaki, stórum stökum steini við veginn og upp í skarðið. Þar bíður bíllinn okkar.“

Heimildir:
-Fréttablaðið, 231. tbl. 29.10.2020, Gáð til veðurs á Vífilsfelli, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.
-Morgunblaðið, 196. tbl. 30.08.1979, Spölkorn út í buskann – Vífilsfell, bls. 11.

Vífilsfell

Vífilsfell.

Ölfusá

Á skilti neðan við brúna yfir Ölfusá að sunnanverðu má lesa um „Sérstæða hraunbolla„:

Selfoss

Selfoss – hraunbollar.

„Á syðri bakka Ölfusár, nálægt stöplum brúarinnar, eru sérstæðar jarðmyndanir. Þetta eru hringlaga hraunbollar, um 1-2 metrar í þvermál og nálægt hálfum metra á dýpt. Hér er líklega um að ræða fara eftir stórar grasfylltar loftbólur sem stigu upp í bráðnu hrauninu og storknuðu veggir bollanna áður en bólurnar sprungu á yfirborðinu. Hér er hugsanlega á ferðinni forstig hraundrýlis eða gervigígs. Jarðmyndanir þessar eru á náttúruminjaskrá. Vesturbrún Þjórsárshrauns hin mikla myndar bakka Ölfusár á þessu svæði. Hraunið er hið stærsta sem runnið hefur á jörðinni frá lokum síðasta jökulskeiðs ísaldar. Hraunið er um 8.700 ára gamalt. Sjá einnig skilti um endimörk hraunsins skammt austan við byggðina á Stokkseyri.“

Selfoss

Selfoss.

Jóra

Í „Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum“ er safnað hefir Jón Árnason og gefin voru út í Leipzig 1862 segir af „Jóru í Jórukleyf„:

Jóra í Jórukleyf – (Eptir sögn manna í Árnessýslu og Gullbringusýslu)

Jóra

Jóra í Jórukleyf – Mynd; Ásgrímur Jónsson.

„Jórun hét stúlka ein; hún var bóndadóttir einhverstaðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum; úng var hún og efnileg, en heldur þókti hún skapstór.

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat var haldið skamt frá bæ Jórunar; átti faðir hennar annan hestinn, er etja skyldi, og hafði Jórun miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur; en er atið byrjaði, sá hún, að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórun svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið; hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp hjarg eitt mikið úr hömrunum við ána, og kastaði því nálega út á miðja á; síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:
Mátulegt er meyarstig
mál mun vera að gipta sig.

Ölfusá

Jórusteinn í Ölfusá (Jóruhlaup/Tröllkonuhlaup).

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafníng, uns hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafníngi, skamt frá Nesjum; eptir því fór hún, og linti ekki á, fyrr en hún kom upp í Heingil.

Jóruhellir

Jóruhellir.

Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir, og varð hið versta tröll, og grandaði bæði mönnum og málleysíngum. Þegar Jóra var sezt að í Heinglinum, var það siður hennar, að hún gekk upp á hnjúk einn í Heinglafjöllum, og sat laungum þar, sem síðan heitir Jórusöðull; er hann skamt frá sjónarhól hennar á háfjallinu. Af sjónarhól skygndist hún um eptir ferðamönnum, sem um veginn fóru, bæði um Grafníng fyrir vestan þíngvallavatn, og um Dyraveg norðan undir Heinglinum, sem liggur skamt frá hamragili því, sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleyf, af því Jórun lá þar opt fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa, eptir það hún var búin með hestlærið. Þar með gjörðist hún svo ill og hamröm, að hún eyddi bygðina í nánd við sig, en vegirnir lögðust af. Þókti bygðamönnum svo mikið mein að hessari óvætt, að þeir gjörðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum; en eingu feingu þeir áorkað að heldur.

Jórutindur

Jórutindur (Jórusöðull).

Nú þegar í þessi vandræði var komið, og eingin ráð feingust til að vinna Jóru, því svo var hún kölluð eptir það hún tryltist, né heldur til að stökkva henni á burtu varð til úngur maður einn, sem var í förum landa á milli, og var um vetur í Noregi. Hann gekk fyrir konúng einn dag, og sagði honum frá meinvætti þessum, sem í Heinglinum byggi, og bað konúng kenna sér ráð, til að ráða tröllið af dögum.

Jórutindur

Jórutindur.

Konúngur segir, að hann skuli fara að Jóru um sólar uppkomu á hvítasunnumorgun; „því ekki er svo vond vættur, né svo hamramt tröll til, að ekki sofi það þá,“ segir konúngur. „Muntu þá koma að Jóru sofandi, og mun hún liggja á grúfu. Er hér öxi, er eg vil gefa þér,“ segir konúngur, og fékk bonum um leið öxi silfurrekna, ,,og skaltu höggva henni milli herða tröllsins. Mun þá Jóra vakna, er hún kennir sársaukans, snúa sér við og segja: „Hendurnar fastar við skaptið“. “Þá skaltu segja: „Fari þá öxin fram af. “Mun hvorttveggja verða að áhrínsorðum, og mun Jóra velta sér niður í vatn það, sem þar er ekki lángt frá, er hún liggur í Jórukleyf, með axarblaðið milli herðanna. Mun axarblaðið síðan reka upp í á þá, sem við hana mun kend verða, þar munu Íslendíngar síðan velja sér þíngstað.“ Svo mælti konúngur; en maðurinn þakkaöi honum ráðin og axargjöfina. Fór hann síðan út til Íslands, og fór að öllu, sem konúngur hafði fyrir hann lagt, og banaði Jóru. Rættist öll spá konúngs, og rak axarblaðið í á þá, sem síðan heitir Öxará, þár sem Íslendingar settu alþíng sitt.

Elliðakot

Elliðakot (Helliskot) – uppdráttur ÓSÁ.

Ath. Jóhannes Lund í Gullbringum hefir sagt svo frá, að Jórun hafi búip í Helliskoti í Mosfollssveit, og hafi hún átt hest bleikan að lit, og látið etja honum á hestaþíngi austur í Flóa. En sökum annríkis komst hún ekki til að fylgja hestinum sjálf, og lét því búskarl sinn, er Barði er nefndur, fara með hestinn austur. En er hann kom aptur, spurði hún Barða, hvernig Bleikur hefði bitizt. Hann sagði, að brúnn hestur úr Flóanum hefði bitizt betur. Þá átti Jórun að hafa orðið æf, þrifið Barða og kœft hann í skyrkeraldi sínu, er hún skamtaði úr veturinn eptir, en tryltist gjörsamlega, er hún sá bóla á honum á útmánuðum, og úr því er eptir frásögn Jóhannesar mjög blandað málum um Jóru og Kötlu í Kötlugjá.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – safnað hefir Jón Árnason, Leipzig 1862, Jóra í Jórukleyf, bls. 182-184.

Jóra

Jóra – teikning Ásgríms Jónssonar.

Hengill

Í Vísi 1966 fjallar Þorsteinn Jósepsson um „Hengil – fjallbáknið við Hellisheiði„:

Hengill
„Um það bil 30 kílómetra í austur frá Reykjavík rís fjallsbákn mikið upp frá Hellisheiði og svæðunum þar í kring. Það heitir Hengill, en Henglafjöll er oft einu nafni nefndur fjallaklasinn sem umlykur það, að meira eða minna leyti á þrjá vegu.

Hæsta gnípan á Hengli er rösklega 800 metra há, og enda þótt þar sé ekki um ýkja mikla hæð að ræða, er útsýn það víð, og það sem meira er um vert, óvenjulega fögur.
Henglafjöllin eru sundurskorin af giljum og dalskorningum, þaðan koma lækir og ár, heitar uppsprettur, gufuhverir og ölkeldur. Við jarðborun sem gerð var á Hengilssvæðinu í sumar sem leið, mældist meiri jarðhiti en til þessa hefur fundizt hér á landi.
Hengill
Allt er landsvæði þetta fjölbreytilegra og forvitnilegra en önnur í jallasvæði í námunda við Reykjavík. Þar er tilvalinn vettvangur fyrir göngufólk og náttúruskoðendur, enda af miklu að taka því víðáttan er mikil, og hvarvetna eitthvað nýtt og nýstárlegt að sjá.

Hengill

Hengill.

Í allt aftan úr forneskju hefur varðveitzt þjóðsagan um kvenskassið Jóru sem lagðist út í Henglafjöll, lá fyrir ferðamönnum, rændi þá og drap og eyddi byggðina umhverfis sig. Þjóðsagan er á þessa leið:
Jórunn hét stúlka ein. Hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp i Flóanum.
Ung var hún og efhileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat er haldið skammt frá bæ Jórunnar. Átti faðir hennar annan hestinn er etja skyldi og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðst. hestaatið og fleiri konur en er atið byrjaði sá hún að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið. Hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni upp Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána, og kastaði því nálega út í miðja á. Síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:
Mátulegt er meyjarstig
mál mun vera að gifta sig„.

Ölfusá

Jórusteinn í Ölfusá (Jóruhlaup/Tröllkonuhlaup).

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning, unz hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi skammt frá Nesjum. Eftir því fór hún, og linnti ekki fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir og varð hið versta tröll, og grandaði bæði mönnum og málleysingjum; Þegar Jóra var setzt að í Henglinum var það siður hennar, að hún gekk upp á hnjúk einn í Henglafjöllum, og sat löngum þar, sem síðan heitir Jórusöðull. Er hann skammt frá sjónarhól hennar á háfjallinu.

Jórutindur

Jórutindur (Jórusöðull).

Af sjónarhól skyggndist hún um eftir ferðamönnum, sem um veginn fóru, bæði um Grafning fyrir vestan Þingvallavatn, og um Dyraveg norðan undir Henglinum, sem liggur skammt frá hamragili því, sem áður er nefnt og heitir enn í dag Jórukleif, af því að órunn lá þar oft fyrir ferðamönnum til að ræna þá eða drepa eftir að hún var búin með hestlærið. Þar með gerðist hún svo ill og hamrömm að hún eyddi byggðina í nánd við sig, en vegir lögðust af. Þótti byggðamönnum svo mikið mein að þessari óvætt að þeir gerðu mannsöfnuð til að ráða hana af dögum, en engu fengu þeir áorkað að heldur.
Á þessa lund er þjóðsagan um kvenskassið mikla í Henglinum.

II.
Vera má að framangreind þjóðsaga hafi fengið byr undir vængi er ferðamenn týndust eða urðu úti í vetrarveðrum bæði á Hellisheiðarleið og öðrum slóðum í námunda við Hengilinn. Þarna er villugjarnt, leiðirnar fjölfarnar, en menn oft af vanefnum útbúnir, bæði hvað fatnað og nesti snertir og urðu því hríðunum fyrr að bráð en ella.

Dyradalur

Dyradalur – dyrnar.

Á öndverðri 17. öld, eða nánar tiltekið 1621, var norðlenzkur prestur, Jón Gíslason að nafni, á leið suður til Bessastaða, en týndist á leiðinni. Jón þessi gekk ýmist undir nafninu Jón Maríulausi eða „gamli Adam“. Hann var lengi prestur á Melstað í Miðfirði og hafði Jón biskup Arason vígt hann sumarið 1550, enda þótt prestlingurinn hefði þá litla undirbúningsmenntun hlotið og var aðeins venjulegur „fatabúrspiltur“ á Hólum. En biskupi þótti þá í óefni komið með trúarbrögðin á Suðurlandi og vígði ýmsa til prests þótt ekki hefðu hlotið tilskilda menntun, og meðal þeirra var séra „gamli Adam“.

Sporhella

Sporhella ofan Dyradals.

Þegar séra Jón týndist í Bessastaðaför sinni 1621 var hann orðinn farlama gamalmenni, 87 ára að aldri og í rauninni furðulegt að hann skyldi takast svo langa ferð á hendur án fylgdar. Séra Jón þurfti að reka einhver erindi á alþingi, en að því búnu hélt hann frá Þingvöllum suður til Bessastaða. Þangað komst hann þó aldrei, en nokkru síðar fannst reiðhestur hans mannlaus í Dyrfjöllum. Leit var gerð að presti, en gjörsamlega árangurslaust — hann hefur aldrei fundizt.
Þjóðtrúin var ekki í neinum vafa um hvað af presti hafði orðið, því enda þótt hann væri seigur undir tönn, sakir elli, hafði hann samt orðið kvenskassinu Jóru að bráð.

III.
Þjóðsaga er til um það, enda þótt hún fái ekki við neitt að styðjast, að Halla fylgikona Fjalla-Eyvindar hafi borið bein sín í Henglafjöllum. Sú munnmælasögn hermir aö þegar Halla náðist síðast og átti að setja hana með öðrum þjófum í Reykjavíkurtukthús, hafi hún verið svo illa á sig komin að ekki þótti fært að loka hana inni og hafi henni þess vegna verið gefið frelsi. Var hún sett niður á kot eitt í Mosfellssveit, en dag nokkurn er hausta tók og Höllu varð litið til Hengilsins, vaknaði hjá henni fjallaþráin að nýju og nóttina eftir hvarf hún.

Engidalur

Engidalur – bæli.

Nokkrum árum seinna fannst konulík uppi í Henglafjöllum og tveir sauðaræflar hjá, sem hún hafði krækt á hornunum undir styttuband sitt. Gizkuðu menn á að það væri lík Höllu, enda hafði veður spillzt skömmu eftir að hún hvarf úr byggð.

IV.
En hvað sem öllum þjóðsögum um útilegumannabyggð í Henglafjöllum líður, er það stað reynd að þar héldust útilegumenn við, meira að segja oftar en einu sinni.
Í Fitjaannál er getið um mann að nafni Eyvindur. Var hann kvæntur, en hefur sennilega ekki geðjazt að konu sinni, því austur í Ölfusi tældi hann stúlku til samlags við sig. Fluttu þau vestur á land og létust vera hjón. Þetta tiltæki þeirra þótti samt af einhverjum ástæðum ekki gott, voru skötuhjúin því leituð uppi, handtekin og flutt til sýslumanns. Þar voru þau bæði húðstrýkt og að því loknu stíað súndur og send sitt í hvora áttina.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Árangurinn varð þó ekki betri en það, að þau náðu saman aftur, og til þess að ekkert yfirvald stíaði þeim í sundur á nýjan leik, lögðust þau út í Hengli og lifðu um stund á hnupli. Hvort dvöl þeirra þar varð löng eða skömm er ekki vitað ,en 1678 náðust þau, og voru flutt til Alþingis og réttuð á þinginu. Þannig sameinuðust þau í dauðanum.
Annálar geta þess ennfremur að árið 1703 höföu 3 útileguþjófar verið gripnir í Henglinum. Voru 2 þeirra settir án frekari umsvifa í snöruna á Þingvöllum enda stutt að fara. Sá þriðji var kagstrýktur, en látið þar við sitja vegna þess hve ungur hann var.
Í Píslarsögu sinni kemst séra Jón þumlungur þannig að orði, að sá sem fóstrast í Henglafjöllum mun ekki haldinn vitnisbær, því þar er þjófabæli.
Þetta skrifar maður lengst norður á Vestfjörðum og bendir það því ótvírætt til að það orð hafi legið á Henglafjöllum að þar héldu sig þjófar og illþýði.

V.
Á seinni hluta 18. aldar voru hreindýr flutt frá Finnmörk og sleppt á Reykjanesi. Þar tímguðust þau vel og rásuðu vítt og breitt um Reykjanesskagann, Hellisheiði og Mosfellsheiði og m.a. í Henglafjöll.

Marardalur

Marardalur.

Í 2. árgangi „Náttúrufræðingsins“ lýsir Guðmundur G. Bárðarson náttúrufræðingur hreindýraveiðum í Marardal nokkru fyrir miðja 19. öld. Marardalur liggur norðan Hengilsins, hann er klettum girtur á allar hliðar en graslendi í botninum og þar er oft hin ákjósanlegasta beit. Einstigi er inn í dalinn gegnum gildrag sem úr dalnum fellur.
Á árunuum 1830-40 bjó bóndi sá á Elliðavatni sem Guðmundur hét Jakobsson afkomandi Snorra prests Björnssonar á Húsafelli. Guðmundur var rammur að afli og skytta með ágætum. Lagði hann sig m.a. eftir hreindýraveiðum og var í frásögur fært að í einni slíkri veiðiferð hafi hann borið fullorið hreindýr austan úr Bláfjöllum og heim til sín á Elliðavatni.
En frækilegasta veiðisagan af Guðmundi var þegar hann rakst á 11 hreindýr saman í Marardalnum. Það var í svartasta skammdeginu, rétt fyrir jól.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Guðmundur varð á undan dýrunum að einstiginu og varði þeim undankomu úr dalnum. Féllu dýrin fyrir skothríð Guðmundar hvert af öðru, og í hvert skipti sem dýr féll fyrir skoti, hlupu hin dýrin hring í dalnum. Gafst Guðmundi á meðan gott tóm til að hlaða byssu sína og hafði hana jafnan hlaðna þegar dýrin bar að. Loks hafði hann skotið öll dýrin nema eitt, en það var mikill og stór tarfur með geysistór horn.

Bolasteinn

Bolasteinn.

Þegar tarfurinn sá sér ekki undankomu auðið réðist hann af heift á skyttuna, en hún kom byssunni ekki við og varð því að takast á við bola. Hvort sá bardagi verði lengur eða skemur lyktaði honum þó með sigri Guðmundar sem gekk af hreininum dauðum, enda var Guðmundur sagður hafa þriggja manna afl.
Fram til 1918-20 sáust hreindýr á ferð bæði í Henglafjöllum og víðar um Reykjanesskaga, en þá tekið að fækka til muna, enda sóttust skyttur mjög eftir þeim, ekki aðeins vegna kjötsins heldur og einnig vegna skinnanna og skrautlegra horna. En á þessum árum gerði mjög harða vetur og þá er sennilegt að flest dýranna, sem eftir lifðu, hafi fallið úr harðrétti og hor, a.m.k. sást lítið til þeirra eftir það. Þó er um það vitað, að síðasta hreindýrið sem sást á Suðvesturlandi, var unnið á svokölluðum Bolavöllum, skammt frá Hengli rétt fyrir 1930. Það var vesæl kýr, aflóga af elli, tannlaus og kollótt. Hafði einhver riðið hana uppi og handsamað. Þar fór síðasti útvörður þessara tígulegu og reisulegu dýra á Hengilssvæðinu og Reykjanesskaganum öllum.

VI.
Á síðustu árum 18. aldar var maður sá ráðinn til póstferða milli Reykjavíkur og Árnessýslu sem Klemenz Þorsteinsson hét. Þann 29. desember 1791 lagði Klemenz upp í síðustu póstferð sína austur yfir fjall og hafði þá m.a. meðferð is 300 sendibréf, þar af var meira en helmingurinn konungleg afsalsbréf fyrir seldum Skálholtsjörðum. Þetta var í allra svartasta skammdeginu, þung færð af snjó og allra veðra von.

Jórugil

Í Jórugili.

En samgöngur voru þá allar aðrar en nú og enda þótt ferðalangar kæmu ekki á tilteknum tíma á ákvörðunarstað, var sjaldnast undrazt um þá fyrr en á síðustu stundu.
Og þannig var það í þetta skipti. Enginn vissi f rauninni hvernig Klemenz póstur ætlaði að haga ferðum sfnum né hvar hann myndi fyrst bera niður austur í Árnessýslu. En þegar Klemenz var ekki kominn til sýslumanns Ámesinga, sem þá bjó í Oddgeirshólum um miðjan janúar, taldi sýslumaður að ekki gæti verið einlelkið um ferðir hans og hófst þá handa um eftirgrennslanir og síðan leit.

Jórutindur

Jórutindur.

Leitað var víðs vegar um allan Reykjanesskagann og tók fjöldi manns þátt í henni. En þegar hún hafði engan árangur borið var henni hætt, enda þýðingarlaus talin, þar sem snjóað hafði meira og minna frá því er pósturinn lagði upp.
Í maímánuði um vorið var leit hafin að nýju og fannst þá lík Klemenzar pósts í Jórugili við rætur Hengilsins. Fannst það í djúpri gjá fullri af vatni, en pósttaskan var horfin. Vakti þetta þegar grun um að dauðdaga Klemenzar hafi ekki borið að með felldu, heldur mundi hann hafa verið rændur og myrtur. Þetta þótti og þeim mun grunsamlegra, sem líkið var algerlega nakið þegar það fannst. En aldrei vitnaðist neitt frekar í því máli.

VII.
Og að lokum er hér saga um Jón tófuspreng, sem var eins konar dæmigervi af Vellygna-Bjarna eða Munchausen barón hinum þýzka. Jón hafði róið suður í Garði og í einum róðrinum brast á snarvitlaust veður svo að bátnum hvolfdi í lendingunni og allir bátsverjar drukknuðu. Jón tófusprengur líka. Líkið af honum hafði rekið upp á malarrif, en litlu seinna skolaði sálinni úr Jóni þar framhjá svo að hann gat ekki á sér setið að gleypa hana og þar með lifnaði hann við á ný.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Þegar Jón var lifnaður við, tók hann seil með 20-30 fiskum og lagði á bak sér, en ár notaði hann fyrir göngustaf, tók síðan stefnu á Henglafjöll og ætlaði heim til sín austur í Gnúpverjahrepp. Blindhríð var alla leiðina og botnlaus ófærð, sem sí og æ versnaði og þegar Jón var kominn norður í Henglafjöll var snjórinn svo djúpur að hann botnaði ekki með árinni. Samt hélt hann áfram og vissi varla hvað hann fór þvf ekki sá hann út úr augunum. Loks hrapaði hann og þegar hann raknaði við eftir fallið, sá hann að hann hafði dottið niður um eldhússtromp móður sinnar austur í Hreppum.

VIII.
Og loks, lesandi góður ef þér kæmi til hugar að skreppa úr Reykjavík austur yfir fjall skaltu staldra við uppi í Svínahrauni og mæna litla stund á þetta tígulega fjall, sem við þér blasir og Hengill heitir. Og láttu það engin áhrif hafa á þig þótt ferðafélagar þínir haldi þig hengil-mænu fyrir bragðið. Það borgar sig samt.“

Heimild:
-Vísir, 214. tbl. 20.09.1966, Hengill – fjallbáknið við Hellisheiði, Þorsteinn Jósepsson, bls. 8-9 og 6.
-https://timarit.is/page/2387230?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/hengill

Hengill

Hengill – ölkelda.

Hengifoss

Vefsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands lýsir jarðsögunni með eftirfarandi hætti:

Möttull

Jörðin – að innan.

„Jörðin myndaðist ásamt öðrum reikistjörnum sólkerfisins fyrir um 4,6 milljörðum ára. Ystu lög jarðar mynda fleka sem reka til og frá. Á úthafshryggjum þar sem flekar reka hver frá öðrum myndast ný úthafsskorpa og við eyjaboga eyðist hún. Í fellingafjöllum krumpast skorpan saman og lyftist. Fjöllin rofna síðan og mulningurinn sest til á láglendi eða í sjó og myndar setlög sem verða að setbergi.

Esjan

Esjan.

Sögu jarðar má lesa úr jarðlögum sem finnast við yfirborð jarðar. Þannig má segja að jarðlögin séu eins konar handrit sem varðveitir sögu jarðarinnar. Með rannsóknum á fornum jarðlögum má fá upplýsingar um umhverfisaðstæður og lífríki á þeim tíma þegar þau mynduðust.

Tekist hefur að setja saman nokkuð heildstæða mynd af sögu jarðar, sérstaklega síðustu 600 milljón árin eða svo. Tímatal jarðsögunnar skiptist í aldir, tímabil, tíma og skeið“.

Taka þarf fram að framangreint er ein ódýrasta útskýringin á jarðsögunni, hingað til a.m.k. (meðfylgjandi myndir af Jörðinni fylgdu ekki umsögninni.

Heimild:
-Vefsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands – https://www.ni.is/jord/jardsaga

Möttull

Jörðin – að innan.