Krýsuvík

Í Þjóðviljanum 1955 skrifar Elías Guðmundsson “Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt”:

Skúli Árnason

“Fyrrverandi héraðslæknis, Skúla Árnasonar, er lézt að heimili dóttur sinnar og tengdasonar hér í bænum 17. sept. sl., var getið í blöðum bæjarins um og eftir útför hans í stuttum eftirmælagreinum, skráðum af menntamönnum er þekktu hann persónulega. Í greinum þessum er Skúla lýst sem lærdómsmanni og lækni, einnig að nokkru sem bónda og dýravini, er fór sömu mjúku líknarhöndunum um manninn og málleysingjann, lá aldrei á liði sínu en gerði ætíð sitt bezta. Af því að svo undarlega vill nú til að engin af þessum Skúlagreinum á neitt skylt við venjulegt líkræðulof né eftirmælaöfgar, eins og öllum kunnugum er ljóst þá hlýtur sú spurning óhjákvæmilega að vakna, hvað þar var, sem gerði Skúla þannig. Svona góðan, svona sannan og raunverulega mikinn mann. Ég fullyrði að það var ekki presturinn sem kenndi honum undir skóla, ekki menntaskólinn hér í Reykjavík né læknaskólinn og ekki heldur sú stofnun er hann hlaut framhaldskennslu í erlendis og hef ég þó ekki neina löngun tii að kasta hinni minnstu rýrð á neinn af þessum fjórum framangreindu aðilum. Heiðurinn og þökkina fyrir það hvernig Skúli var ber engum öðrum en foreldrum hans og heimili þeirra. Þar dvaldi hann öll sín bernsku- og uppvaxtarár. Þarna mótaðist maðurinn.
Krýsuvík
Hús og heimili foreldranna voru meðal annars hans búnaðarskóli, eins og verkin sönnuðu síðar meir og sýndu ríkulega ávexti af.
Þegar litið er um öxl 60-80 ár aftur í tímann, til bernsku-, unglings- og námsára Skúla læknis er það tvennt sem ekki verður hjá komizt að athuga, en það er hinn stórfenglegi búferlaflutningur sýslumannsins Árna Gíslasonar, föður Skúla, frá Kirkjubæjarklaustri á Síðu í Skaftafellssýslu, til Krýsuvíkur í Gullbringusýslu, og svo hið dæmafáa illæri, fjárfellir og þar af leiðandi hvers konar hörmungar er þá gengu yfir landið árum saman.

Klofningar

Klofningar í Krýsuvíkurhrauni.

Búferlaflutningur Árna Gíslasonar frá Klaustri að Krýsuvík fór fram á tveim árum, 1879 og 1880. Fyrra vorið, þ.e. 1879, fluttist nokkuð af heimilisfólkinu, aflaði heyja og fleira um sumarið, en svo um haustið var féð rekið, 1265 fjár, á stað að austan en eitthvað týndi það nú tölunni á leiðinni sem von var til, því margar og illar eru torfærur á þeirri löngu leið. Þá voru ekki brýrnar komnar. Næsta vor, þ.e. 1880, fluttist svo það sem eftir var af fólkinu, stórgripir allir og búslóð. Síðastur frá Klaustri og í einskonar sérfylkingu fór sýslumaður sjálfur ásamt þáverandi síðari konu sinni, Elínu Árnadóttur ættaðri frá Dyrhólum í Mýrdal, og þeim tveim börnum þeirra er til fullorðinsára komust, Ragnheiði og Skúla, en þau voru bæði fermd saman í Prestbakkakirkju á Síðu rétt áður en lagt var af stað að austan.

Krýsuvík

Krýsuvík, Arnarfell t.v. og Bæjarfell t.h.

Þáttur nýfermda drengsins, Skúla, í þessu ferðalagi var sá að hann rak stóðhross föður síns, eitthvað innan við tuttugu að tölu, flest ung. Þó voru í þessum hópi tvær nokkuð gamlar hryssur, báðar fylfullar og verður þeirra að nokkru getið síðar. Þrátt fyrir dugnað sinn og kappgirni virðist roskni sýslumaðurinn hafa tekið þetta ferðalag vestur um Suðurlandsundirlendið fremur rólega. Gistingastaði hans alla hirði ég ekki að telja, en skal þó geta þriggja þeirra, en á þeim hverjum um sig sat hann einn dag um kyrt, hvíldi fólk sitt og hesta og gisti tvær nætur.

Geitahlíð

Geitahlíð.

Á vali þessara gististaða má sjá það að hann hefur einkum gist frændur og venzlafólk, en ekki valið sérstaklega úr þá staði er mesta höfðu björg í búi.
Þeir þrír staðir er Árni dvaldi á daglangt á vesturleiðinni voru þessir: Dyrhólar í Mýrdal, æskuheimili frú Elínar, Breiðabólstaður í Fljótshlíð, hjá séra Skúla bróður sínum, en þriðji og síðasti gististaðurinn var kot eitt vestarlega og neðan til í Flóanum, í grennd við Eyrarbakka, nafn á því man ég ekki, en þar bjó frændkona hans fátæk. Í þeim litla flutningi er Árni hafði með sér í þessari ferð, er var lítið annað en nauðsynlegt nesti var kistill einn er hann geymdi í peninga sína. Kistilinn, sem vitanlega var læstur, opnaði hann einu sinni í ferðinni, en það var áður en hann fór úr kotinu frá fátæku frændkonunni. Ekki opnaði hann kistilinn svo mikið að neinn sæi ofan í hann, en þó nógu mikið til þess að hann kom hægri hendi sinni inn undir lokið, en undan lokinu kom svo hnefinn fullur af silfurpeningum, þeim er þá giltu hér sem gjaldmiðill. Þetta lagði hann á borðið hjá fátæku frænkunni að skilnaði, mælt í hnefum en ekki talið.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg ofan Klofninga.

Annarri fátækri frændkonu, systurdóttur sinni, þarna í Eyrarbakkanágrenninu, þurfti Árni að líta eftir um leið og hann fór vestur um. Gjafir til hennar veit ég ekki um, en af henni tók hann sex ára gamlan dreng með sér til Krýsuvíkur, ól hann upp og kom til manns. Piltur þessi var Stefán Stefánsson og var á fullorðinsárum oft nefndur túlkur. Á þessari löngu ferð Árna Gíslasonar og fjölskyldu hans, var lokaáfanginn að sjálfsögðu hin 16 km langa bæjarleið, sem er á milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Að sjálfsögðu eru landamerkin milli þessara jarða þarna á milli bæjanna og eru þau um leið sýslumörkin á milli Árnessýslu að austan en Gullbringusýslu að vestan.
Þegar komið er spölkorn vestur fyrir sýslumörkin, þ.e. inn í Krýsuvíkurland, þá er fyrsta verulega gróna landið á þeirri leið svonefndir Klofningar, en þar fækkaði tveimur í hrossarekstrinum hjá Árna. Fylfullu hryssurnar voru orðnar æði þunglamalegar svo hann skildi þær eftir þar í Klofningunum, næsta dag fór hann svo og vitjaði þeirra, var þá sitt folaldið komið hjá hvorri.
Þegar nú að þarna var komið til hins fyrirheitna lands, Krýsuvíkur, virðist svo sem Árni hafi fundið einhverja þörf hjá sér til þess að beina huga konu sinna og barna að öðru en heimilisástæðunum og búskaparafkomunni og er mér sagt að hann hafi þá kastað fram eftirfarandi stöku: Vorið blíða lífgar lýð lengist óðum dagur. Gyllir fríða Geitarhlíð geislinn sólar fagur.
Geitarhlíð heitir fjall eitt fagurt, skammt til austurs frá Krýsuvík, sem hér er um kveðið. Hvort vísan er ort fyrsta kvöld Árna í Krýsuvík, veit ég ekki með vissu, en hitt er víst að hún er ort á vorkvöldi í Krýsuvík og að Árni er höfundurinn.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. Magnús Ólafsson, sem síðastur bjó í Krýsuvíkurbænum, dvaldist í kirkjunni um árabil sem góður hirðir er gætti kinda.
Viðamiklar viðgerðir hófust árið 1986 og hún þá færð til upprunalegrar gerðar. Útveggir voru með tjargaðri listasúð og bárujárn á þaki. Engir gamlir kirkjumunir höfðu varðveist og voru kirkjubekkir, altari og prédikunarstóll af nýlegri og einfaldri gerð.
Hún brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2010.

Árni Gíslason var skemmtilegur tækifærisvísnahöfundur. Stökur hans oft svipmiklar. Kímnigáfu var Árni gæddur og henni góðri. Þann eiginleika tók Skúli í arf. Báðir fóru þeir feðgar vel með skophneigð sína.
Það er hverjum manni auðskilið mál að búferlaflutningur Árna Gíslasonar hlaut óhjákvæmilega að draga á eftir sér marga illa dilka. Fyrst og fremst það að flytja mikinn fjölda sauðfjár úr góðu sauðfjárplássi í annað miklu lakara, en það hefur engum manni tekizt án þess að verða fyrir stórtjóni, þegar svo þar ofan á bætist það ólán að þurfa fyrstu árin að mæta einhverjum þeim verstu harðinda- og fellisvetrum sem komið hafa. Svo var nú bráðapestin á einu leitinu, mjög mögnuð orðin hér um suðurkjálkann þá og hið óhagvana fé að austan mjög næmt fyrir henni. Þá má geta tófubitvargsins er þá var svo magnaður hér um Reykjanesskagann að slíks eru engin dæmi. Fyrsta vorið sem Árni átti fé sitt í Krýsuvík fundust tíu tófugreni í Krýsuvíkurlandareign og er þó ekki trúlegt að öll kurl hafi komið til grafar, svo margar eru holurnar í Krýsuvíkurhraununum…
Þegar við Skúli heitinn læknir ræddum um þessa tíma og þá erfiðleika er við var að stríða, heyrðist mér ævinlega á honum að hann hefði talið tófupláguna versta. Til skilningsauka á þessum málum vil ég greina hér frá tveimur atvikum er Skúli sagði mér frá persónulegum viðskiptum sínum við tófur.

Klofningar

Klofningar – greni.

Þetta umtalaða vor er fjölskyldan flutti til Krýsuvíkur, skeði það að áliðnu vori að Skúli var að smala í áðurnefndum Klofningum, en er leið hans lá yfir laut eina grasigróna verður hann var tófuyrðlinga nokkurra í grasinu þar í lautinni. Það varð fangaráð Skúla að hann fór úr utanyfirbuxunum, batt með snærisspottum utanum skálmarnar neðst, tíndi svo yrðlingana, sem reyndust vera 9 talsins, upp í buxurnar og labbaði svo með feng þennan á bakinu heim að Krýsuvík.
Þegar Skúli kemur í hlaðið mætir hann Guðmundi Hannessyni bónda á Ísólfsskála, er þá var að koma neðan af svokallaðri Skriðu, frá því að vinna gren þar.
Guðmundur þessi var orðlögð ágætisskytta, en er hann hafði heyrt sögu Skúla úr Klofningunum, varð hann æfareiður honum fyrir það að hafa tekið yrðlingana. Taldi Guðmundur það tiltæki Skúla geta valdið því að hann næði ekki tófunni. En hvað um það, þrátt fyrir reiði Guðmundar leggja þeir báðir af stað austur eins og leið liggur, allt þar til er þeir finna hina áður umgetnu laut, þar sem Skúli fann yrðlingana. En er þeir félagar höfðu hreiðrað um sig og legið um klukkutíma í hraungjótu einni að austanverðu við lautina, sjá þeir allt í einu tvær tófur á hraunbrúninni vestan lautarinnar, en þá varð Guðmundi að orði: „Þurftu þær nú að koma báðar í einu, bölvaðar”. Lét hann samt fjúka þarna á þær og báðar lágu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Annað atvik, sem ég vil geta gerðist 6-7 árum síðar; var Skúli þá kominn í Latínuskólann en dvaldi að venju heima í Krýsuvík í jólafríinu.
Var það þá venja hans utan sjálfra hátíðisdaganna, þegar veður leyfði það, að ganga með byssu um Krýsuvíkurland, skjóta rjúpur og eitra fyrir tófuna. Í einum slíkum leiðangri var það eitt sinn að hann rakst á för eftir eina kind rétt hjá Kleifarvatni. Snjóföl var svo að vel sáust förin og rakti Skúli þau vestur með Sveifluhálsinum sunnanverðum, allt vestur í svonefnda Seltóu þar sér hann kindina er reyndist þá vera einn af sauðum föður hans. En þannig var þá ástatt með þennan sauð að tófa ein hafði að miklu leyti hringað sig utan um hálsinn á honum og var að sjúga úr honum blóðið. Að hrista tófuna af sér hafði sauðnum ekki tekizt. Þegar nú að Skúli kemur þarna á vettvang þá verður það úrræði hans að skjóta tófuna þarna á hálsinum á sauðnum og þá auðvitað kindina um leið. Útigenginn, ljónstyggur fjallasauðurinn kunni ekki betra ráð að þýðast.

Krýsuvík 1887

Krýsuvík 1887.

Sumarið 1894 er ég var 10 ára gamall dvaldi ég í Krýsuvík, en þá um vorið lauk Skúli læknanámi og kom vitanlega að þyí loknu heim að Krýsuvík. Dagur einn snemma í ágústmánuði er mér minnisstæður frá því sumri. Það var verið að breiða nokkuð hrakta há á svonefndum Ræningjahóli í sunnanverðu túninu um tíuleytið árdegis, sást þá koma ríðandi maður á rauðum hesti, allmikill í sæti, að austan. Þegar til kom þá reyndist þetta að vera hinn góðkunni myndarbóndi Þórður á Vogsósum og hafði hann með að fara bréf frá Magnúsi Stephensen landshöfðingja, hvar Skúli var beðinn um að taka að sér þjónustu læknisembættis í Grímsneshéraði í Árnessýslu. Við þessari beiðni varð Skúli og lagði af stað austur að tveim dögum liðnum. Ég kann naumast að lýsa því hver áhrif þetta „Skúla-mál” hafði á Krýsuvíkurheimilið. Allir söknuðu Skúla og hryggðust við burtför hans, en glöddust þó af því hve fljótt hann fékk þarna álitlegt embætti. Söknuður þess að missa Skúla var heimilisfólkinu bættur með því að lesa því að minnsta kosti kafla úr bréfum hans, er bárust að austan, ég held með hverri ferð sem féll.
Krýsuvík 1998Þegar þess er gætt að frú Elín Árnadóttir, móðir Skúla, var ein sú allra bezta kona sem ég hefi þekkt, og Árni Gíslason, faðir hans, sá maður sem hann var og ég hefi lítilsháttar reynt að lýsa hér, þegar þess er ennfremur gætt að Skúli erfði í ríkum mæli alla beztu kosti beggja foreldranna, þá hlaut vel að fara.
Ég hefi engan gamlan mann þekkt sem hefur átt kost á að vera umvafinn jafn mörgum og ástríkum kærleiksföðmum og Skúli læknir.” – Elías Guðmundsson.

Í Íslenskum æviskrám segir um Árna Gíslason; sýslumaður í Krýsuvík, 1820–1898, sonur Gísla í Vesturhópshólum og bróðir sr. Skúla á Breiðabólstað. Sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur.

Heimild:
-Þjóðviljinn, 5. tbl. 08.01.1955, Minningar frá Krýsuvík – Skúla Árnasonar, héraðslæknis minnzt, – Elías Guðmundsson, bls. 7 og 8.
-Ísl. æviskrár I, bls. 44.

Krýsuvík

Krýsuvík 1881.

Gálgaklettar

Við hraunjaðar Garðahrauns, skammt frá Garðastekk, er skilti um Gálgahraun. Þar segir í texta:

“Gálgahraun tilheyrir víðáttumiklu hrauni sem rann frá Búrfellsgíg fyrir um 8.000 árum. Búrfellshraun ber nokkur mismunandi nöfn og heita nyrstu hlutarnir Flatahraun, Klettar og Gálgahraun en sameiginlegt nafn þeirra er garðahraun. Gálgahraun var friðað  samt fjörum og grunnsvævi Skerjafjarðar 6. október 2009. Friðunin spannar 1.0815 km2 svæði sem samsvarar 108 kekturum.

Áhugaverðar gönguleiðir í Gálgahrauni:

Fógetagata (Álftanesgata)

Fógetagata

Fógetagata.

Gatan var alfaraleið Álftnesinga áður en vagnfær vegur var lagður snemma á 20. öld. Þeir sem áttu erindi til bessastaða kölluðu leiðina Fógetagötu á meðan fulltrúar konungs sátu staðinn. Leiðin var greiðfær í björtu en gat verið þungbúin í dimmviðri og vetrarhríð. Gatan sést greinilega þar sem hún hefur grópast ofan í hraunhelluna í aldanna rás. Að austan liggur hún um grunnt skarð við Hraunvik og kvíslast í Nyrðri Fógetagötu og Syðri Fógetagötu við Litla Skyggni. Hún Sameinast á smákafla nærra Stóra Skyggni áður en hún skiptist aftur í Garðastíg sem tengist kirkjustaðnum Görðum og Álftanesgötu sem liggur út á Álftanesið.

Móslóði

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Á meðan mór var notaður til að viðhalda glóðinni í eldstæðum þeirra sem bjuggu í kotnum á Álptaneshreppi hinum forn var hann tekinn í Hraunsholtsmýri, Lágumýri og Arnarnesmýri. leiguliðar Garðakirkju sem bjuggu í Hafnarfirði og Garðahverfi fóru ófár ferðir um Móslóða til að sækja mó í mýrarnar. Ennþá er hægt að sjá hvar vegslóðinn lá milli mýtranna og Vegamóta við Álftanesveg. Þar komu leiðirnar frá Garðahverfi, Hafnarfirði og Álftanesi saman.

Gálgaklettsleið

Gálgaklettar

Gálgaklettar – horft af Gálgaklettsleið.

Gálgaklettsleið sveigir út af Fógetagötu í miðju Gálgahrauni skammt frá Stóra-Skyggni. Auðvelt er að rata með því að taka stefnuna til norðurs og miða við Bessastaði. Nokkrar djúpar götur eru sunna Gálgakletta og hægt að fara austan eða vestan þeirra áður en komið er að Gálgaflöt.

Sakamannastígur

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Sakamannastígur er í hraunjaðrinum sunnan Lambhúsatjarnar. leiðin var einnig nefnd Gálgastígur eða Aftökustígur og gefa nöfnin til kynna hvað þarna fór fram. Stígurinn virðist hafa verið fjölfarinn en hann liggur fram hjá Litla-Gálga áður en komið er að Gálgaklettum. Þokkaleg lending er við Gálgaflöt, líklega voru sakamenn stundum ferjaðir yfir Lambhústjörn frá Bessastöðum. þei sem hefja göngu við Hraunvik geta nálgast Gálgakletta með því að fylgja strandlengjunni. leiðin liggur framhjá Eskinesi og smátjörnum Vatnagarða áður en komið er að Gálgaklettum.

Helstu staðir í Gálgahrauni:

Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgaklettar sem heita allt eins Gálgar eru þrír talsins; Vestur Gálgi, Mið Gálgi og Austur Gálgi. þeir virðast vera dekkri yfirlitum en klettarir umhverfis þá og nafnið hefur nægt til að skjóta fólki skelk í bringu í aldanna rás. Staðkunnugir kölluðu klettana einu nafni Gálgaklofning þar sem þetta var upphaflega einn klettur sem klofnaði í þrjá hluta. Samkvæmt munnmælum voru sakamenn hengdir í Gálgaklettum, en ekki eru til ritaðar heimildir sem staðfesta þetta. Samt sem áður hafa mannabein fundist nærri Gálgaklettum. Þau styðja þessar sagnir.

Eskines

Eskines

Eskines – tóftir.

Eskines er sá hluti Búrfelshrauns sem lengst nær frá eldstöðinni Búrfelli. Ysti hluti Eskiness er í 12 km fjarlægð frá miðhluta Búrfellsgígs. Nærri hraunarðrinum er kofarúst frá seinni hluta 19. aldar þegar Þórarinn Böðvarsson prestur að Görðum ætlaði að koma þar upp æðarvarpi. Hann lét byggja kofann og fékk vinnuhjú til að búa þar með hænsni yfir sumartímann, en æðarvarpið misheppnaðist. Eskines er nánast flæðisker sem hefur sigið í aldanna rás og drukknuðu þar 40-50 kindur í eina tíð. Huga þarf að sjávarföllum ef farið er út á nesið, einkum á stórstraumi. Ofan Eskineseyra eru Eskinesklettar.

Garðastekkur

Garðastekkur

Garðastekkur.

Garðar var einn ríkasti kirkjustaður landsins um aldir og umhverfis prestsetrið var fjöldi hjáleiga sem nefndust einu nafni Garðahverfi. Garðakirkja átti miklar lendur. Á veturnar var búsmalanum haldið til beitar í Garðahrauni og Garðastekkur gegndi mikilvægu hlutverki. Vestur af honum eru hústóftir og á hraunrana hraunin fjárborg. Þessar minjar vitna um horfna búskaparhætti.

Kjarvalsklettar

Garðahraun

Kjarvalsklettur í Garðahrauni.

Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval var heillaður af hraunslandsagi og fór á sömu staðina á mismunandi árstímum til að mála. Ákveðnir drangar í Klettahrauni urðu honum hugleiknir en hann málaði einng aðra kletta sem finna má í grenndinni. Kjarvalsklettar í Garðahrauni koma fyrir í nokkrum tugum málverka meistarans. Kjarval nefndi þessi málverk ýmist Hraun, Úr Gálgahrauni, Úr Bessastaðahrauni eða Frá Álftanesi.”

Taka þarf framangreindar lýsingar, sem og meðfylgjandi uppdrátt, með hæfilegum fyrirvara.

Gálgahraun

Fiskigarðar í Gálgahrauni.

Kristinn Benediktsson

Í Víkurfréttum 1994 er stutt grein eftir blaðamanninn og ljósmyndarann Kristinn Benediktsson undir fyrirsögninni “Reykjanes; sækum það heim“:

Saga svæðisins

Krýsuvík

Krýsuvík 1810.

“Allur Reykjanesfólkvangur er í hinu upprunalega landnámi Ingólfs Arnasonar, en brátt komu aðrir til sem segir í Landnámu.
Þórir Haustmyrkur nam þá Krýsuvík ásamt Selvogi. Gamli bærinn þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni, sem eftir síðustu rannsóknum dæmist hafa runnið á fyrri helmingi 11. aldar. Þá hefur verið hörfað með bæjarhúsin uppundir Bæjarfellið þar sem þau stóðu öldum saman og þar stendur kirkjan enn. Bæjarrústir eru í Húshólma og rústir gamalla fjárborga í Óbrennishólma nokkru vestar í hrauninu.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Krýsuvík var höfuðból og kirkjustaður og fylgdu henni margar hjáleigur. Alls eru til heimildir um 13 býli í Krýsuvíkurlandi að höfuðbólinu meðtöldu.
Þetta var byggðahverfi og kirkjusókn um aldir. Krýsuvík var mikil jörð, beitiland mikið og heyskapur góður, að minnsta kosti þegar ekki var mikið í Kleifarvatni, sem átti það til að standa hátt í kvos sinni árum saman en lækka síðan, allt eftir áhrifum úrkomunnar- því afrennsli hélst jafnt og það eingöngu neðanjarðar. Hlunnindi voru mikil og telur jarðabók Arna Magnússonar og Páls J. Vídalín skóg til kolagerðar fyrir ábúendur, móskurð, fjörugrös sem ábúendum nægi, eggjatekju og fuglaveiði í bergi, selveiði, rekavon í betra lagi og sölvatekju nokkra og útræði fyrir heimamenn á Selatöngum. Selstöður eru taldar tvær, önnur til fjalla en hin niður við sjó.

Krýsuvíkurleið

Gamli Krýsuvíkurvegurinn.

Krýsuvík var öldum saman í alfaraleið. Þar lágu leiðir milli Suðurlands og Suðurnesja og Grindavíkur, um Móhálsa (Vigdísarvelli) og Selvelli á Suðurnes og Ketilsstíg (Sveifluháls norðan Arnarvatns) inn til kaupstaðanna við Faxaflóa. Þarna fóru m.a. miklir vöruflutningar fram, skreið og landafurðir.
Á Bleiksmýri austur af Arnarfelli var fastur áningastaður lestanna. Farið var um Deildaháls ofan Eldborgarinnar undir Geitahlíð, sem merki sjást um enn í dag. Svo fór þó að Krýsuvík gerðist afskekkt. Ný viðhorf komu til í samgöngum, búskap og sjávarútvegi og býlin fóru í eyði hvert af öðru. Nú er Krýsuvík aftur í þjóðbraut síðan akvegur var lagður þar um á árunum 1934-40 og 1944-48. Hafnarfjarðarbær keypti hluta af landi Krýsuvíkur 1941. Í vesturhlíðum Vesturháls (Núpshlíðarháls) og vestan undir honum og Trölladyngju liggja lönd Grindvíkinga og Vatnsleysustrandamanna.

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta voru afréttalönd og löngum notuð til selstöðu. Í Þrengslum var sel frá Hrauni í Grindavík og á Selvöllum voru sel frá öðrum bæjum í Grindavík. Í Sogunum vestast voru sel frá Kálfatjörn og Bakka t.d. Sogasel og stóðu þau í Sogaselsgíg. Á þessum slóðum eru stærstu samfelld gróðurlönd á Reykjanesi svo sem Selvellir í fólkvanginum og Höskuldarveilir, sem liggja við vesturjaðar fólkvangsins. Norður frá löndum Vatnsleysustrandamanna og Krýsuvíkur tóku við afréttarlönd Álftaneshrepps, Undirhlíðar og landið umhverfis Helgafell norður undir Víðistaðahlíð.
Sjá má af heimildum, að á þessu landi hefur mikill skógur vaxið og af honum hafðar miklar nytjar og óspart á hann gengið, hann höggvinn og rifinn til kolagerðar og eldiviðar, ofan af honum slegið á vetrum til fóðurs og beitar.

Geldingadalir

Geldingadalir í Krýsuvíkum.

Þarna gekk búpeningur mjög sumar og vetur og hellar hafðir til fjárgeymslu og skjóls fjármönnum á vetrum, þegar henta þótti. Heyskapur var lítill á þessum slóðum. Varð því að bjargast á vetrarbeitinni og kom það hart niður á þessu landi. Ekki bætti það úr skák að hrískvöð var á öllum jörðum á Reykjanesi til Bessastaða og Viðeyjar og gekk svo, þangað til svo nærri var gengið að breyta varð hrískvöðinni í fiskikvöð.
Í dag eru helstu akvegir um fólkvanginn Krýsuvíkurvegur úr Vatnsskarði suður í Krýsuvík og áfram austur í Selvog, Nesvegur, sem er þjóðvegurinn milli Krýsuvíkur og Grindavíkur og Bláfjallavegur af Krýsuvíkurvegi við Óbrynnishóla og norður á Suðurlandsveg. Fyrir nokkrum árum var lagður vegur fær fólksbílum að Djúpavatni og áfram suður um Vigdísarvelli og á Nesveg, og opnast þannig hringleið um suðurhluta svæðisins. Af þessum akvegum má komast á fjölbreyttar gönguleiðir í fólkvangnum.”- KB

Heimild:
-Víkurfréttir, 28. tbl. 14.07.1994, Reykjanes; sækjum það heim, Kristinn Benediktsson, bls 11.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Laxnes

Fyrir neðan bæinn Laxnes í Mosfellsdal er upplýsingaskilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Laxnes

Laxnes – skilti.

“Laxnes er gömul bújörð og fyrst getið í heimildum á 16. öld. Seint á 19. öld reis hér stórt íbúðarhús. Það varð bernskuheimili Halldórs Laxness sem flytti hingað með forledrum sínum voru 1905. Hér átti hann björt benskuæar sem hann hefur lýst ítarlega, einkum í endurminngabókinni “Í túninu heima”.
Halldóri voru bersnkustöðvarnar sérlega hugleiknar og ungur að árum hóf hann að kenna sig við bæinn. Hann skrifaði á efri árum: “Oft er ég í draumi aftur staddur í þessu túni bernskunnar, Laxnestúninu, og nú er ekki lengur til. Ég var eitt af grösunum sem uxu í túninu.”
Bernskuheimili Halldórs stendur enn og er eitt elsta íbúðarhúsið í Mosfellsbæ. Í Laxnesi var rekið stórt kúabú, sem kallað var Búkolla, um miðja síðustu öld og hestaleiga tók hér til starfa árið 1968.”
Laxnes

Útvarp

Á RÚV þann 28. október 2021 ræddi Arnar Björnsson við Sigurð harðarsson, rafeindavirkja, um nýuppsett útvarps-  eða viðtækjasafn á Skógum. Saga útvarps á Íslandi er að verða eitt hundrað ára, en lítill áhugi annarra en örfárra áhugamanna hefur verið að viðhalda þeirri merku sögu til framtíðar:

Sigurður Harðarson
“Sigurður Harðarson rafeindavirki er áhugamaður um útvarp. Tólf ára gamall smíðaði hann sitt fyrsta útvarpstæki. Um síðustu áramót fór hann ásamt fleirum að safna gömlum útvarpstækjum. Draumur hans er að koma á laggirnar útvarpstækjasafni, sams konar safni og talstöðvarsafnið sem hann byggði upp og er á Skógum undir Eyjafjöllum.

Útvarp

Eitt fyrsta viðtækið.

„Eftir því sem ég best veit var fyrsta útvarpstækið flutt inn til landsins 1924 en ári áður smíðaði Þorsteinn Gíslason á Seyðisfirði fyrsta lampatækið sem vitað er. Hann var búinn að smíða sér viðtæki áður til að hlusta á erlendar stöðvar sem þá voru að senda út á morsi á neistasendum. 1923 heyrist fyrst í útvarpi talað mál eftir því sem ég best veit,“ segir Sigurður þegar við Karl Sigtryggsson kvikmyndatökumaður setjumst niður með honum í talstöðvasafninu í Skógum. „Eftir því sem ég kemst næst voru 475 tæki til í landinu þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína 1930.“

Útvarp
„Þau einföldustu kostuðu 175 krónur og upp í 550 krónur. Þetta voru hátalaralaus tæki þannig að þú þurftir að kaupa hátalara fyrir 90 krónur og rafhlöður fyrir 30 krónur. Þannig að ódýrasta tækið kostaði rúmlega 300 krónur. Þá hafði verkamaður um eina krónu á tímann þannig að hann var 3 mánuði að vinna sér fyrir útvarpi.“ Þannig að það hefur aðeins verið á færi ríka fólksins að kaupa sér útvarpstæki?. „Já bóndi þurfti að selja 7-800 kíló af gæða nautakjöti til þess að eiga fyrir útvarpi.“

Útvarp

Vestri og Sindri.

„Fyrsta gerðin sem var smíðuð var tveggja lampa einfalt tæki sem náði sendingum Ríkisútvarpsins. Sendingarnar komu frá Vatnsenda og náðust í Reykjavík og nágrenni en ekki úti á landi. Í framhaldi var tækið betrumbætt, gert næmara og einum lampa bætt við. Það tæki fékk nafnið „Vestri“ og eldri gerðin kölluð „Suðri“. Sigurður segir að 8 gerðir útvarpstækja hafi verið smíðaðar hjá Viðtækjasmiðju Ríkisútvarpsins sem sett var á laggirnar 1933. „Þar voru framleidd einföld og ódýr útvarpstæki.”

Grunnurinn er alltaf sá sami í raun og veru? „Alltaf sá sami, það er það sem við höfum séð með því að opna þessi tæki og rífa þau í sundur og gera við þau. Tækin eru öll í lagi og virka eins og þau eiga að gera.”

Útvarp

Austri.

Draumur þinn er að búa til safn hér í Skógum? „Já til dæmis. Það er eiginlega ekkert húsnæði á landinu sem hýst safnið því þetta er svo mikið magn. Við erum búnir að vera að vinna í því ég og félagar mínir í upp undir ár að flokka þetta eftir ártölum og sögu tækjanna. Sum eru ómerkileg og önnur merkileg. Það hefur farið í þetta mikill tími og næsta skref er að finna einhvern stað undir safnið, við þurfum 3-400 fermetra húsnæði.”

Hefði það ekki verið agalegt að vita til þess ef þessu hefði ekki verið sinnt? „Jú það var nú ástæðan fyrir því að við fórum í þetta ég og félagar mínir. Þetta eru verðmæti sem eru ómetanleg. Það eru víða til í heiminum svona útvarpssöfn en ég held að án þess að geti alveg fullyrt það í þessu tilfelli núna sennilega nokkurn veginn þróunarsögu Íslendinga í útvarpstækjum. Alveg frá fyrstu gerðum sem voru þá kristaltæki notuð hérna og upp í þessar lúxusbublur eins og þetta var víða á heimilum,” segir eldhuginn Sigurður Harðarson.”

Heimild:
-Arnar Björnsson; https://www.ruv.is/frett/2021/10/28/verkamadur-thrja-manudi-ad-vinna-ser-inn-fyrir-utvarpi

Útvarp

Suðri.

Garðhús

Í Morgunblaðinu 30. okt. 2021 er fjallað um “Alþýðustúlkuna sem varð greifaynja”. Það segir meira um frásegjandann en húsið þar sem alþýðustúlkan átti heima:
Húsið er steinbærinn nr. 9 við Bakkastíg í Reykjavík, nú við Lagargötu 2. Steinbærinn var friðaður af mennta- og menningarmálaráðherra 1. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga um húsafriðun, nr. 104/2001. Friðun nær til ytra byrðis hússins.

Garðhús

Garðhús – upplýsingaskilti.

Steinbærinn Garðhús var byggður af Bjarna Oddssyni hafnsögumanni árið 1884 en áður stóð þarna torfbær með sama nafni. Bærinn taldist lengst af til Bakkastígs, enda lá sú gata áður framhjá húsinu og niður að sjó, og var raunar einnig kölluð Garðhúsastígur. Um tíma taldist húsið til Lagargötu en nýlega fékk það staðfangið Mýrargata 24.

Lóðin var mæld út úr Ánanaustalandi. Hliðaveggir bæjarins eru hlaðnir úr höggnum grásteini, en stafnar eru úr bindingi sem í er hlaðið múrsteini. Litlar breytingar hafa verið gerðar á steinbænum, þó viðbyggingar hafi verið byggðar við hann, þeim breytt og teknar niður.

Garðhús

Garðhús 1948.

Árið 1903 keyptu hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir Garðhús. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín ekkja hans áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm. Hún hafði m.a. aðstöðu til fiskþurrkunar og matjurtaræktunar á lóðinni og leigði út hluta af húseigninni. Tvö herbergi og eldhús með kolaeldavél voru niðri í bænum og þrjú herbergi á loftinu. Inngönguskúr var byggður við vesturhlið hússins árið 1923. Kristín bjó í Garðhúsum allt til um 1941 er hún seldi Hraðfrystistöðinni eignina.

Önnur hús sem byggð höfðu verið við bæinn, lágreist íbúðarhús úr timbri sem byggt var við norðurgafl hans í lok 19. aldar (Bakkastígur 9b) og skrifstofu- og geymsluhús úr timbri sem byggt var vestan við inngönguskúrinn árið 1942 (Bakkastígur 9a), voru rifin fyrir um 20 árum og endurbætur gerðar á gamla bænum. Bærinn sjálfur er mjög upprunalegur að gerð. Hann hefur eins og aðrir steinbæir í Reykjavík sérstakt menningar- og byggingarsögulegt gildi

Þuríður Dýrfinna

Þuríður Dýrfinna.

Bjarni starfaði sem hafnsögumaður og stundaði því ekki búskap og var því tómthúsmaður. Eiginkona Bjarna var Þuríður Eyjólfsdóttir. Hún þótti hinn mesti skörungur, stórgáfuð og mikill persónuleiki. Hún var vel að sér í íslenskum fræðum og kunni býsn af ljóðum. Hún safnaði ljóðabókum, sem hún batt inn í gott band. Undir hennar verndarvæng áttu skáld og menntamenn athvarf og því fór oft fram lífleg umræða í Garðhúsum þar sem bókleg mennt var í hávegum höfð og mikið lesið. Eftir að eiginmaður hennar lést flutti hún í viðbyggingu við Garðhús, einlyft timburhús. Það hús var rifið árið 1997.
Hjónin Þorsteinn J. Sveinsson skipstjóri og hafnsögumaður og Kristín Tómasdóttir keyptu Garðhús árið 1903. Eftir að Þorsteinn lést úr spænsku veikinni árið 1918 bjó Kristín áfram í Garðhúsum með börnum þeirra fimm allt til áranna 1941-1942 þegar hún seldi Garðhúsaeignina.
Árið 1923 var búið að byggja inngönguskúr úr timbri við vesturhlið steinbæjarins.

Þurríður

Þurríður, lengst til vinstri í neðstu röð.

Tvær viðbyggingar voru við húsið, Bakkastígur 9a og 9b. Bakkastígur 9a stóð við vesturhlið hússins og var reist árið 1942.
Það var skrifstofu- og geymsluhús. Árið 1944 var virt undir br.nr. 264 í fyrsta sinn íbúðarhús við norðurgaflinn
(Bakkastígur 9b) og er stafl. b í virðingunni. Bakkastígur 9b var reistur í kringum 1896. Árið 1997 var óskað eftir leyfi til að
rífa viðbyggingarnar og lagðist Árbæjarsafn ekki gegn niðurrifi þeirra.
Árið 1942 var Garðhúsaeignin komin í eigu Hraðfrystistöðvarinnar hf. Það ár var byggt skrifstofu- og geymsluhús úr bindingi við vesturgafl steinbæjarins. Sú viðbygging var einnig rifin árið 1997. Nú eiga Faxaflóahafnir ehf. steinbæinn.
Bakkastígur var einnig nefndur Garðhúsastígur.
Árið 2002 hófust endurbætur á steinbænum.

Garðhús

Garðhús.

Garðhús tengjast íslenskri alþýðustúlku sem varð greifynja de Grimaldi, en sú saga er mörgum gleymd. Stúlkan hét Þuríður Þobjarnardóttir. Hún giftist Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó.

„Þuríður fæddist 30. október 1891 en hún missti föður sinn ung og var fyrir vikið alin upp hjá einstæðri móður og afa sínum og ömmu, sem öll bjuggu í Garðhúsum í Reykjavík. Húsið stendur enn og er friðað, en þau eru ekki mörg húsin hér á landi sem enn standa og eru beintengd við sögu kvenna. Þetta er stein­bær sem var sjómannshús við sjávarsíðuna og byggt í anda torfbæjanna. Garðhús voru alþýðuheimili en mikið menningarhús. Þuríður ólst upp við mjög menningarlegar aðstæður á alþýðuvísu en amma hennar og nafna, Þuríður Eyjólfsdóttir, var hafjór af fróðleik og áberandi í bæjarlífi á þessum tíma sem ein helsta menningarkona bæjarins. Í Garðhús sóttu skáld og þar þótti líf og fjör. Af þessu sést í hvaða umhverfi hin unga Þuríður elst upp og hún fékk að fara í Kvennaskólann, tók tvo bekki saman á einum vetri, 1911-1912.“

Garðhús

Þuríður Þorbjarnardóttir Grimaldi og Henri de Grimaldi, afabróðir Alberts fursta af Mónakó. Myndin er tekin 1925, dánarár Þuríðar.

Þuríður hafði gott vald á tungumálum.
„Hún talaði dönsku, ensku og frönsku og hún starfaði um tíma í verslun á Búðum og í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar á Laugavegi. Eflaust hefur hún þurft að nota erlend tungumál í því sem hún sinnti fyrir þessi tvö fyrirtæki. Afi hennar var hafnsögumaður, en til að geta orðið slíkur í Reykjavík á þessum tíma þurftu menn að kunna hrafl í erlendum tungumálum, þeir þurftu að geta bjargað sér þegar erlend skip komu. Tungumál hafa því væntanlega ekki verið framandi í Garðhúsum, á æskuheimili Þuríðar.“

Þurríður

Morgunblaðið 23. ágúst 2005, bls. 9.

Sigrún seg­ir að þegar Þuríður var 29 ára hafi hún verið fengin til að starfa á Hótel Skjaldbreið, hið örlagaríka ár í lífi hennar fyrir hundrað árum, 1921.

„Þá var mikið að gerast í Reykjavík og fólk bjóst við erlendum ferðamönnum og þá veitti ekki af að hafa stúlku í móttöku hótelsins sem kunni erlend tungu­mál. Þar hitti hún markgreifann, Henri de Grimaldi, afabróður Alberts fursta af Mónakó, ekkjumann sem var þrjátíu árum eldri og tilheyrði elstu kon­ung­s­ætt Evrópu. Sagt er að hann hafi verið mjög háttprúður og stórgáfaður maður, hafi meðal annars haft þrettán tungumál á valdi sínu, en hann var mál­vís­indamaður og lagði meðal annars stund á norræn mál og talaði og skrifaði íslensku. Henri hafði kynnst Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði þegar hann var í Sorbonnehá­skóla í Frakklandi og fyrir hvatningu hans kom Henri til Íslands. Væntanlega hefur verið stórkostleg uppgötvun fyrir greifann að hitta fyrir á Hót­el Skjald­breið hana Þuríði, unga glæsilega reykvíska stúlku, sem var vel að sér í bókmenntum og menningu. Hún hafði gott menningarlegt nesti úr Garðhúsum, þar sem skáld voru fastagestir og amman lifði í fornum riddarasögum. Sagt er að greifinn hafi hrifist af glæsileika, menntun og háttvísi Þuríðar. Hann gisti á hótelinu og svo getum við í eyðurnar. Þetta er mikið ástarævintýri þar sem erlendur stórefnaður konungborinn greifi og alþýðustúlka á Íslandi verða ástfangin við upphaf tuttugustu aldar.“

Garðhús

Garðhús.

Þuríður sigldi með Gullfossi af landi brott með greifanum 23. október 1921, fyrir um 100 árum.
„Þau sigldu héðan með Gullfossi til Kaupmannahafnar og kannski hélt hún upp á þrítugsafmælið um borð í Gullfossi. Þau fóru svo frá Kaupmannahöfn til Hamborgar, þaðan til Parísar og að lokum til Lissabon þar sem greifinn bjó. Þeim auðnaðist því miður ekki að vera samvistum nema í fjögur ár og eignuðust engin börn, en Þuríður dó úr berklum í Brussel árið 1925, þá tæplega 34 ára. Hún hefur mögulega borið berklana með sér héðan frá Íslandi, því það var þó nokkuð um berkla í hennar móðurætt.“
„Þuríður skrifaði bréf heim til Íslands til vinkonu sinnar Ragnhildar Sigurðardóttur, öll þessi fjögur ár sem hún bjó erlendis. Fyrsta bréfið skrifaði hún rétt rúm­um mánuði eftir að hún fór héðan. Þar kemur fram að með þeim er ung stúlka, Gunnlaug Briem, 19 ára dóttir Valdimars Briem prests, en það voru tengsl á milli fjölskyldnanna. Gunnlaug var hjá þeim í Lissabon í heilt ár og Auður Finnbogadóttir, systurdóttir Þuríðar, kom eftir það og var líka ár hjá þeim sér til heilsubótar. Greifinn vildi gjarnan að Þuríður hefði íslenska konu sér til félagsskapar, til halds og trausts,“ segir Sigrún og bætir við að deilur hafi verið í fjölskyldu greifans um hver væri rétti prinsinn af Mónakó.

Garðhús

Garðhús.

„Um þetta skrifar Þuríður í einu bréfanna og þar segir orðrétt: „Hann er voða ríkur maður og það er gremjulegt að sjá allt hans skraut og auðæfi sem eru í kringum hann og hann á alls engan rétt á að hafa. Ekki svo að skilja að það sé leiðinlegt fyrir mig, því ef greifinn væri í rétti sínum að vera prins af Mónakó, væri ég að öllum líkindum ekki gift honum, sem í raun og veru er stórt lán fyrir mig, ekki satt.“

„Hún var alltaf að vonast til að komast aftur til Íslands í heimsókn. Í einu bréfinu segist hún því miður ekki komast það sumarið, því hún þurfi að fara á heilsuhæli í Belgíu. Hún segist vera mikið innan um hefðarfólk í fínum húsum, en að hana langi meira til að vera samvistum við alþýðufólk. Í einu bréfinu segir hún orðrétt: „Mikið vildi ég heldur vera í einhverju húsinu í Reykjavík.“

Íslensk kona í Íslendingafélaginu í Brussel, Guðrún Högnadóttir Ansiau, htók sig til og fór að grafast fyrir um líf Þuríðar eftir að hún fluttist út.
„Hún heimsótti ættingja greifans og hefur fengið margskonar upplýsingar frá Grimaldiættinni. Guðrún hefur lagt mikið á sig við þessa vinnu og hún hafði einnig uppi á legsteini Þuríðar þar sem hún er jarðsett í Brussel, undir kórónu Grimaldiættarinnar. Guðrún heillaðist af sögu Þuríðar og hefur annast um grafreit hennar af stakri prýði.“

Garðhús

Garðhús.

Á legsteini í Brussel í Belgíu er legsteinn og á honum er skjaldarmerki Grimaldi aðalsættarinnar, en undir hvílir greifynjan Þuríður Marquise de Grimaldi d´ Antibes et de Cagne. Í áletrunina er mörkuð sagan hennar.

Þuríður fæddist 30. október 1891 í Garðhúsum við Bakkastíg í Reykjavík; dóttir Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónassonar. Þuríður þótti snemma efnileg stúlka og hneigð til bókar. Fer þó fáum sögum af uppvexti hennar fram til 1911, en þann vetur tók hún tvo efstu bekki Kvennaskólans og lauk prófi þaðan vorið 1912. Starfaði hún síðan ýmist við verslunarstörf eða kennslu og nýttist þar vel óvenjuleg hæfni hennar til að nema tungumál, einkum dönsku og ensku. Á sumrin dvaldi hún einatt við sveitastörf.

Sumarið 1921, þá er Þuríður stóð á þrítugu, brá hún út af föstum vana um störf í sveit, réði sig á Hótel Skjaldbreið, og varð fljótt altalandi á frönsku. Á hótelinu dvöldu oft útlendingar og kom í hlut Þuríðar að annast samskipti við þá. Meðal hótelgesta þetta sumar var markgreifinn Henri Charles Raoul Marquis de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, stóreignamaður í Lissabon, afsprengi elstu konungsættar í Evrópu og náinn ættingi þjóðhöfðingjans í Mónakó. Greifinn, sem þá var liðlega sextugur ekkjumaður, heillaðist mjög af hinni ungu íslensku konu, glæsileik hennar, menntun og háttvísi. Var sú hrifning gagnkvæm, þótt aldursmunur væri vissulega mikill. Fór enda svo að Þuríður hét honum eiginorði, eftir mikil heilabrot, en hjúskapur við greifann boðaði gríðarleg umskipti í lífi hennar. Var hið lúthersk/kaþólska par gefið saman við borgaralega vígslu í Reykjavík 15. október 1921 og viku síðar veitt kirkjuleg vígsla í Landakotskirkju.

Garðhús

Brúðkaupið hlaut mikla umfjöllun reykvískra blaðamanna, enda fátítt að svo tignir menn sem markgreifinn heiðruðu höfuðstað Íslands með nærveru sinni, hvað þá að þeir kvæntust dætrum þjóðarinnar. Var annars lítið vitað um þennan tigna gest og ærið örðugt um heimildaöflun, ólíkt því sem nú er. Samtímaheimildir geta þess þó að hér hafi verið á ferð einstakt prúðmenni, víðförull, afburðagreindur og vel menntaður, sérlega mikill tungumálamaður og mikill áhugamaður um norræn fræði og kveðskap. Er hermt, að greifinn hafi verið talandi á 13 tungumál. Þess er og getið að greifinn hefði kynnst Guðmundi Finnbogasyni, dr. phil síðar landsbókaverði, þegar sá síðarnefndi var við nám í París um 1910 og hann kennt greifanum íslensku, enda hugur greifans staðið til þess að geta lesið hin fornu kvæði á frummálinu. Fór enda svo að greifinn náði góðu valdi á íslensku innan fárra ára og ritaði hana sem íslenskur væri. Liggja eftir greifann allmörg bréf þessu til staðfestu, sem hann sendi vinum og ættingjum Þuríðar greifynju, hið síðasta 11. maí 1940, skömmu fyrir andlát hans 10. desember sama ár.

Sunnudaginn 23. október 1921 lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík, og með skipinu hin nýbökuðu hjón. Þuríður kvaddi föðurlandið íklædd dökkblárri dragt og ljósri blússu, með lítinn rósavönd í hendi; grönn og teinrétt, en alvörugefin á svip. Með í för var 19 ára snót, Gunnlaug Briem, sem greifinn hafði boðið henni að taka með sér til samfylgdar og samneytis á nýju heimili í Portúgal. Hefur Þuríði vart grunað, þá er Esjan hvarf henni sjónum, að hún myndi aldrei aftur fjallið líta.

Garðhús
Greifahjónin hófu búskap sinn í Lissabon, en þar hafði Henri greifi mikil umsvif, og undi Þuríður hag sínum vel. Var haft á orði, að einkennilegt þætti að greifynjan kynni bæði að baka smákökur og sauma kjóla, og hún spurð af ráðskonu sinni hvort hún hefði lært til slíkra verka sökum fátæktar á Íslandi. Má ætla, að dugur íslenskra kvenna hafi þá enn ekki borist mikið út fyrir landsteina. Vorið 1922 sneri Gunnlaug heim til Íslands og í hennar stað kom til hjónanna Auður Finnbogadóttir systurdóttir Þuríðar. Hafði þá harðnað mjög á dalnum sökum byltingar og síðar kreppu í Portúgal og greifahjónin misst lungann af eignum sínum. Lýsir Þuríður ástandinu glöggt í bréfum til góðvinar síns, sr. Friðriks Friðrikssonar; hefur helst áhyggjur af lasleika eiginmanns síns, en er æðrulaus um eigin krankleika, svo sem kvenna er gjarnan siður. Haustið 1923 fluttu greifahjónin til Frakklands, síðan til Spa í Belgíu, og þaðan aftur til Lissabon, áður en þau settust að í Brussel vorið 1925, við Avenue Montjoise í Uccle. Sama vor sneri Auður heim til Íslands og stóð til að greifahjónin myndu fylgja á eftir í kynnisför um landið, en þau höfðu yndi af því að ferðast og höfðu víða farið á hjúskaparárunum. En af Íslandsför varð ekki; Þuríður veiktist, líklega af berklum, sem voru tíðir í móðurætt hennar. Dvaldist hún síðan ýmist á heilsuhælum í Spa eða Brussel, uns hún lést 10. október 1925, aðeins 34 ára. Til eru bréf frá margreifanum til Auðar Finnbogadóttur, þar sem hann skýrir frá veikindum og síðar andláti konu sinnar og eru þau öll á vandaðri íslensku. Sá er þetta skrifar hefur lesið umrædd bréf, en af þeim er einsætt að greifinn hafi unnað Þuríði heitt og að sorgin yfir missi hennar hafi fylgt honum til æviloka. Segir þannig í bréfi 23. ágúst 1939 að greifinn sé „kraftlítill, gamall og sorgbitinn“ og skömmu síðar ritar hann að stríð sé að skella á og að nú vildi hann öllu helst vera búsettur á Íslandi, en hafi því miður ekki lengur fjárráð til. Minningu eiginkonu sinnar heiðraði greifinn með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar og þar hvíla nú hjónin hlið við hlið.

Þuríður

Leiði Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne.

Víkur þá sögunni að Guðrúnu og Charles Ansiau, sem varið hafa ómældum tíma í að grafast fyrir um lífshlaup greifynjunnar og koma í veg fyrir að hjúpur gleymskunnar leggist yfir hið ljúfsára ævintýri hennar á erlendri grund. Er þeim rannsóknum hvergi nærri lokið, en við þær hafa Ansiau hjónin kynnst ættmennum markgreifans í Bretlandi, Frakklandi og Mónakó, sem deilt hafa sama eldmóði við að upplýsa um líf greifahjónanna. Meðal þess sem komið hefur í ljós er að markgreifinn var afabróðir Alberts Grimaldi fursta af Mónakó frá 1889-1922, en sonarsonur furstans var enginn annar en Rainier III, sá hinn sami og kvæntist leikonunni Grace Kelly 1956. Komið hefur og í ljós að markgreifinn hafi átt erfðarétt til furstadæmisins í Mónakó, en afsalað honum til yngri bróður síns, svo hann gæti helgað sig fræðistörfum í stað þess að annast um rekstur hins þjóðrekna spilavítis. Má því segja að brennandi áhugi markgreifans á Íslandi og íslenskri menningu hafi komið í veg fyrir að við eignuðumst okkar eigin furstaynju á borð við Grace Kelly.

Íslandsfélagið í Belgíu hyggst á vormánuðum 2013 heiðra minningu Þuríðar Marquise de Grimaldi d´Antibes et de Cagne, með því að boða til gönguferðar í kirkjugarðinn sem hún hvílir í, og munu félagsmenn njóta þar leiðsagnar hinna ágætu Ansiau hjóna. Er aldrei að vita nema hjónin verði þá búin að komast að því sem enn er sveipað dulúð, nefnilega hver eða hverjir leggi enn fersk blóm á grafreit greifynjunnar íslensku.

Heimildir:
-Jónas Jóhannsson forseti Íslandsfélagsins í Belgíu, Brussel, 9. janúar 2013.
-Björg Einarsdóttir, Úr ævi og starfi íslenskra kvenna II, Rvík 1984.
-Björg Einarsdóttir, Grimaldi Greifafrú, Húsfreyjan, Rvík, október-desember 1984, 4. tbl., 35. árg.
-Samtöl við Guðrúnu Ansiau og lestur bréfa greifahjónanna
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/10/30/althydustulkan_sem_vard_greifynja/

Garðhús

Garðhús, byggt 1884.

Helgadalur

Í Norðanfara 1880 er fjallað um stofnun “Hið íslenska fornleifafjelags”:

Norðanfari“Næstliðið sumar stofnuðu nokkrir hinna helztu embættismanna í Reykjavík nýtt fjelag er nefnist «Hið íslenzka fornleifafjelag», og barst oss með síðasta pósti næstl. ár boðsbrjef og lög nefnds fjelags frá formanni þess herra landfógeta Árna Thorsteinsson til birtingar í blaði voru. Vjer þurfum ekki að vera margorðir um fjelag þetta, því vjer vonum og teljum víst, að landar vorir muni jafnt sjá nauðsyn sem nytsemi pess, og ætlum vjer að þeir sem unna frægðarljóma fornaldarinnar og framfór og menntun binnar yfirstandandi og komanda tíðar, muni bezt geta sýnt áhuga sinn með því að ganga í fjelagið senda því forngripi og styrkja pað á annan hátt. Eitst. Boðsbrjef.
Áhugi Íslendinga á að viðhalda fornleifum og safna þeim hefir hingað til eigi verið jafnmikill og kapp það, sem um margar aldir hefir verið lagt á, að varðveita sögur vorar, mál og þjóðerni, og er þó ljóst, að engin skýring yfir fornsögur vorar er betri, en þau þögulu vitni, er felast fá fet undir yfirborði jarðarinnar.

Sel

Heimildir eru um Sel frá 14. öld og var það lengst af kirkjujörð auk þess sem útræði var mikið úr Selsvör, enda upphaflega um sel frá Víkurbænum að ræða. Bærinn var síðar oft nefndur Stóra-Sel. Steinbær var reistur þar árið 1884 sem stendur enn.
Uppdráttur Hoffgards frá árinu 1715 sýnir m.a. Sel enda eitt af höfuðbýlum á þessu svæði og prestsetur. Nýlegar fornleifarannsóknir sýna að undir steinbænum eru leifar af torfbæ. Selsbærinn stóð þar sem í dag er Holtsgata 41b.

Margar af fornleifum vorum hafa lógazt og farið forgörðum. Fjöldi þeirra hefir komizt í hendur útlendra manna, sem eigi hafa skeytt þeim nema til stundargamans, og eigi skilið þýðing þeirra fyrir oss. Það eru að eins sumar þeirra, er hafa lent á útlendum söfnum, en þó hvergi svo margar, að þær geti getið nokkra ljósa eða samfasta hugmyndum menntunarástand lands vors á ýmsum tímum.
Síðan hið íslenzka forngripasafn var stofnað, hefir það að vísu borgið mörgum íslenzkum fornleifum, sem annars hefði glatazt eða tvístrazt, en mikið vantar þó á, að það, einkum sökum fjeskorts geti verndað svo íslenzkar fornleifar sem skyldi, og er því ljóst að brýn þörf er á, að landsmenm leggi sig enn betur fram, en hingað til hefir verið um það að vernda fornleifar vorar, þess vegna hafa nálega 40 menn gengið í fjelag, “sem nefnist hið íslenzka fornleifafjelag, og er það fyrirætlan fjelagsins að starfa að því af öllu megni, að Forngripasafn vort geti auðgast þannig af fornmenjum, að menn með því geti rakið lífsferil þjóðarinnar um hinar liðnu aldir. Einkum mun fjelagið verja kröptum sínum til að leita að fornleifum bæði í jörð og á, vernda þær, lýsa þeim og gjöra þær bæði þjóð vorri og erlendum fræðimönnum sem kunnastar.
Áður hefir það opt borið við að menn hafa grafið eptir feim menjum í gróðahug, en það kemur sjaldan fyrir, að slíkur gröptur svari kostnaði, heldur glatast þá jafnan sá fróðleikur, sem ætla má að fengizt hefði, ef rjett hefði verið farið að. Fjelagið mun því eptir efnum styrkja að því, að við slíkar rannsóknir sje farið eptir vísindalegum reglum, og grafið sje með nægilegu eptirliti, til þess að þjóð vor geti haft nokkra trygging fyrir, að svo rjett sje að farið, sem bezt má verða. Sje því að einhver viti til fornra mannvirkja sem þurfa friðunar, uppgraptar eða vísindalegrar rannsóknar, vonast fjelagið eptir að menn leiti sín, og mun það þá veita fullting sitt. Það er áform fjelagsins að láta rannsaka þingvöll, fyrst og fremst Lögberg, og mun rannsóknum þessum þar eptir verða framhaldið víðar.
Fjelagið leyfir, sjer því, að skora á alla á menn, innlenda og útlenda, er unna hinum fornu fræðum vorum, að ganga í fjelagið, annaðhvort með tveggja króna tillagi á ári hverju, eða 25 króna tillagi í eitt skipti. Svo eru menn og beðnir, að styrkja fjelagið í öllum starfa þess, þar á meðal með því að vísa á fornleifar og menjar frá fyrri öldum, senda þær til ráðstöfunar á forngripasafnið, láta skýrslur í tje um fornleifar, sem enn kunna að vera lítt þekktar, eða um gripi, sem æskilegt er að fá vitneskju um.”
Stjórn fornleifafjelagsins, 27. nóvbr. 1879.
Árni Thorsteinsson, Bergur Thorberg.
formaður. Björn Magnúss. Ólsen.
Jón Árnason. Jón þorkelsson.
Magnús Stephensen, Sigurður Vigfússon,
fjehirðir, varaformaður.
Hins íslenzka fornleifafjelags. – Indriði Einarsson.

Heimild:
-Norðanfari, 11.-12. tbl. 24.02.1880 – Hið íslenska fornleifafjelag, bls, 21.

Helgadalur

Helgadalur – minjar.

Sverð

Notkun málmleitartækja hafa löngum verið forboðin við leit að fornminjum hér á landi. Í Ljóra 1984 fjallar Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur og deildarstjóri hjá fornleifadeild Þjóðminjasafnsins, um slík tæki undir spurningunni: “Málmleitartæki, hættuleg leikföng eða meinlaust tómstundargaman?” Þar segir:

Guðmundur Ólafsson“Á síðustu árum hafa flætt út á markaðinn ýmiskonar málmleitartæki sem ætluð eru almenningi. Tæki þessi er oftast auglýst upp sem spennandi og ábatasöm fjársjóðaleitartæki. Gefið er í skyn að með þeim sé enginn vandi að finna gull og silfur sem grafið er ijörðu. Þetta hefur vitanlega freistað margra, eins og alltaf þegar gull er annars vegar.
Þessi nýja holskefla gullleitarmanna í Evrópu hefur hins vegar valdið fornleifafræðingum og öðrum þeim sem með minjavörslu fara, miklum áhyggjum. Það hefur nefnilega komið í ljós, að gullleitarmenn kæra sig oftast kollótta um lög um verndun fornleifa, en ráðast fyrst og fremst á staði þar sem fornminja er að vænta. Þannig hefur hvað eftir annað komið í ljós við rannsóknir, að friðlýstar minjar og aðrar fornleifar hafa kerfisbundið verið rændar með hjálp málmleitartækja.
Evrópsk minjaverndaryfirvöld hafa m.a. reynt að bregðast við þessu vaxandi vandamáli með upplýsingastarfsemi um fornminjalög og tilgang fornleifavörslunnar, en það virðist hafa lítið að segja.
MálmleitartækiÞá má geta þess, að málmleitartæki og misnotkun þeirra hefur verið til umræðu í Evrópuráðinu, og frá ráðherranefnd þess eru væntanleg tilmæli til aðildarlandanna um aðgerðir eða lagaákvæði sem torveldi kaup og sölu málmleitartækja og komi í veg fyrir misnotkun þeirra. Í framhaldi af þessu hefur t.d. þjóðminjavarðarembættið í Svíþjóð lagt til við menntamálaráðuneytið, að meðferð málmleitartækja þar í landi verði háð sérstöku leyfi (eins og t.d. byssuleyfi) eða að sala málmleitartækja verði aðeins heimiluð til þeirra sem þurfa tækjanna við atvinnu sinnar vegna.
Sem betur fer hefur ekki borið mikið á þessum tækum hér á landi fram að þessu, en það getur breyst á stuttum tíma. Fyrir stuttu birtist auglýsing í Morgunblaðinu um málmleitartæki sem gæti orðið fyrirboði sömu uggvænlegu þróunar á þessu sviði og átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar.
Ég tel því að við ættum að láta reynslu annarra okkur að kenningu verða og grípa til ráðstafana, áður en fjársjóðaleit er orðin að vandamáli hér á landi. Í drögum endurskoðunarnefndar þjóðminjalaganna er lagt til að notkun málmleitartækja eða annars tæknibúnaðar við leit að fornminjum sé óheimil, öðrum en starfsmönnum viðurkenndra minjasafna.
Þar er vissulega komin ágæt tillaga, sem hluta nytsamleg í meðförum ábyrgra aðila og er ekkert við slíkt að athuga, en í höndum óprúttinna fjársjóðarleitarmanna gætu þau orðið að hættulegum eyðileggingartækjum og valdið ófyrirsjáanlegu tjóni á fornleifum okkar. Full ástæða væri til að biðja menntamálaráðherra að taka sérstaklega til greina núna með bráðabirgðaráðstöfunum, þar til ný þjóðminjalög taka gildi.”

Málmleitartæki

Málmleitartæki eru af ýmsum gerðum.

Í Þjóðminjalögunum 2001 var ákvæði um bann við notkun málmleitartækja verið sett inn við leit að fornminjum í 16. gr.: “Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.”

Ellefu árum síðar þegar Minjalögin voru samþykkt á Alþingi 2012 var þessu ákvæði hent út – góðu heilli.
Engin dæmi eru um að fornleifum hafi verið spillt hér á landi þar sem málmleitartækjum hefur verið beitt “án leyfis þjóðminjavarðar“, – heldur þvert á móti.

Heimildir:
-Ljóri, 1. tbl. 01.11.1984, Málmleitartæki, hættuleg leikföng eða meinlaust tómstundargaman? – Guðmundur Ólafsson bls. 21-22.
-Þjóðminjalög 2001, 16. gr.
-Þingskjal 1610, 140. löggjafarþing 316. mál: menningarminjar (heildarlög). Lög nr. 80 29. júní 2012.

Málmleitartæki

Notkun málmleitartækja geta verið gagnleg – hvort sem er að nýlegum eða fornum gripum.

Lónakot

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Þorbjarnarstöðum:

Þorbjarnarstaðir
HafnarfjörðurÞorbjarnarstaðir voru ein af svokölluðum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum.
Elsta heimild um Þorbjarnarstaði var frá 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jarðeignum Viðeyjarklausturs en þá var jörðin í eyði, þannig hún hefur verið í byggð eitthvað fyrir þann tíma.9 Næst var sagt frá Þorbjarnarstöðum í fógetareikningum frá 1547-48 en þá var jörðin komin aftur í byggð: „Jtem met Torbernestdom j legeko. Xij for. Landskyldt iiij vetter fiske. ij lege iij vether fiske dt. oc ij landskyld iij vether fiske dt. summa iije tals.“
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Þorbjarnarstaða hafi verið óviss og jörðin hafi verið í konungseigu. Jörðin var þá með selstöð sem nefndist Gjásel (2679-16) en þar voru hagar góðir en vatns slæmt. Sagt var að túnrista og stunga hafi verið í slakara lagi á Þorbjarnarstöðum og ekki nægileg en fjörugrastekja var góð og nægjanleg fyrir heimilismenn. Heimræði var árið í kring og lending góð en þó mjög erfitt að setja skip upp, þó hafi skip ábúenda siglt eftir hentugleika allt árið í kring.
Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 166, dýrleiki hennar var 12 ½ hndr. landskuldin 0.75 kúgildin 2 og ábúandi einn, sem einnig var eigandi.
Árið 1869 fluttist Ólafur Jónsson að Þorbjarnarstöðum og bjó þar til 1881. Valgarður L. Jónsson ritaði grein um Ólaf í Íslendingaþáttum Tímans: „[…] Það mun hafa verið árið 1869, sem Ólafur byrjar búskap, þá 31 árs gamall, sem leiguliði á jörðinni Þorbjarnarstaðir í Straumsvík við Hafnarfjör, þar býr hann í 12 ár, sem leiguliði.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Satt best að segja átta ég mig ekki hvernig hægt er að kalla þetta jörð eða grasbýli, þarna er allt umhverfi svart brunahraun. En Ólafur vann það þrekvirki að græða upp túnblett úr brunaurðinni. Hann tíndi stærsta grjótið úr og hlóð úr því varnargarð umhverfist túnið, sem enn stendur að nokkru, svo vel hefur verið til verksins vandað. Síðan mylur hann hraunnibburnar með sleggju og breiðir mold yfir og fær hinn besta töðuvöll. Þarna var handaflið eitt að verki, við getum rétt ímyndað okkur þrældóminn. Þarna reisti hann hús að grunni og gerði hinar ótrúlegustu umbætur, sem jarðeigandinn kunni vel að meta, það sýndu ýmsir góðir munir sem hann gaf Ólafi, sem þakklætisvott, ég man t.d. eftir Vínstaupinu úr púra silfri og upphafsstafirnir hans faglega á það grafnir.“

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – túnakort 1918.

Á túnakorti af Þorbjarnarstöðum frá 1919 var sagt að túnin á Þorbjarnarstöðum hafi verið slétt og holótt 1,4 teigar og kálgarðar um 500m2 en kálgarðar Þorbjarnarstaða eru enn vel greinanlegir í dag.
Byggð virðist hafa verið nokkuð samfelld á Þorbjarnarstöðum frá 1703 til 1920 en samkvæmt manntölum þá bjuggu þar mest 19 manns árið 1709 en minnst bjuggu þar 3 manns árið 1920, að undanskildu árinu 1890 þegar enginn var skráður að Þorbjarnarstöðum.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðarker.

Ætla má að þær minjar sem eru hvað mest áberandi á Þorbjarnarstöðum sé komnar frá honum Ólafi en búast má við því að jörðin geymi enn eldri minjar þar sem jörðin hefur verið í byggð í hið minnsta frá 14. öld.
Minjarnar við Þorbjarnarstaði tengjast flestar búskap á svæðinu, þ.e. ýmsar útihúsatóftir, matjurtagarðar, gerði og garðlög. Aðrar minjar sem tengjast Þorbjarnarstöðum er einnig að finna í hrauninu í kringum bæjarstæðið, þar má nefna Þorbjarnarstaðarétt, ýmsar vörður sem eru þá bæði kennimörk og eyktarmörk. Norðaustan við bæjarstæðið er að finna steyptan grunn af sumarbústað sem var rifinn um það leiti sem álverið í Straumsvík var byggt. Finna má tvo aðra grunna til viðbótar fast sunnan við Reykjanesbrautina.

Péturskot

Péturskot – útihús.

Norðan við bæjarstæðið og í landi Þorbjarnarstaða og fast sunnan við Reykjanesbrautina má sjá leifar þurrabúðarinnar Péturskots. Bæjarstæði Péturskots hefur þó orðið fyrir miklu raksi vegna Reykjanesbrautarinnar. Finna má lýsingu á Péturskoti í Örnefnaskrá: „ […] Péturskoti, sem var þurrabúð í Þorbjarnarstaðalandi. Var það fyrst byggt fyrir aldamót af Pétri Péturssyni, Helgu konu hans og Signýju dóttur þeirra. Þarna var ofurlítið tún, og var túngarður umhverfis það. Háatún nefndist nokkur hluti túnsins sunnan bæjarins og ofan, oftast þá nefnt Fagrivöllur. Kotið var oft í spaugi nefnt Hosiló, en það festist aldrei við sem örnefni. Austan við túnið var matjurtagarður. Þar eru nú sumarbústaðir. Þessi garður tilheyrði Litla-Lambhaga, en einnig var kálgarður í Péturskotstúni.“
Tvö sel frá Þorbjarnarstöðum voru skráð, Fornasel og Gjásel. Sagt var frá þeim í Örnefnaskrá: „ […] Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið.
Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar“. „[…] Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög.“
Árið 2001 gerði Fornleifafræðistofan fornleifarannsókn á Fornaseli og var markmið rannsóknarinnar að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols aldursgreinar og til að kanna í hvaða ástandi minjarnar að Fornaseli voru.17 Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að allt benti til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld. Rannsóknin gaf einnig í ljós að tóftir (2679-10) og (2679-8) voru mannabústaðir, tóft gæti hafa verið það en rýmið sem var rannsakað í henni var að öllum líkindum búr eða eldhús.

Straumur

Straumur

Straumur – túbakort 1918.

Straumur var einnig ein af Hraunjörðunum, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.

Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xiij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Næst var getið um Straum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar var sagt að jarðardýrleikinn hafi verið óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir. Jörðin átti selstöð þar sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og ekki var talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.

Straumssel

Í Straumsseli.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðinni gefið númerið 165, jörðin var þá í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ hndr., landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landamerki fyrir jörðina Straum: „Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hliðina milli Straums og Þorbjarnarstaða byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til Krísivíkurland tekur við. (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).

Straumssel

Straumssel – bær skógavarðarins.

Merkustu minjarnar sem tengdust Straumi voru án efa minjasvæðið við Straumssel. Þar var haft í seli a.m.k. síðan 1703,24 líklega mun fyrr, og svo var byggður þar bær um miðja 19. öldina. Bæði leifar bæjarins og selsins eru mjög heillegar. Í Örnefnaskrá segir: „Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann.“
Einungis voru skráðir ábúendur í Straumsseli í manntali árið 1860, þá bjuggu þar Sveinn Gíslason og Þórdís

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – eldhús.

Óttarsstaðir töldust einnig til hinna svokölluðu Hraunjarða, þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá árinu 1379 og var vitnisburður Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnessvötnum á milli Hvassahrauns og Óttarstaða: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesin maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvroia vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“

Einnig var sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en þar var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – túnakort 1919.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1073 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin hafi verið í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leiga var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsbóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur. Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilsmenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilsfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi þar sem hagar voru góðir en það gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.

Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu.
Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni, önnur um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 163 (Óttarsstaðakot 164) og var jörðin í bændaeign. Dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1.5, kúgildin 3 og ábúendur voru 1 eigandi og 1 leiguliði.
Þær minjar sem skráðar voru sem helst tengjast Óttarsstöðum voru án efa Óttarsstaðasel og Lónakotssel, en Óttarsstaðir voru með selstöðu í Lónakotslandi á móts við uppsátur sem Lónakot var með í Óttarsstaðalandi og fjallað verður um Lónakotssel í næsta kafla. Í Örnefnaskrá segir: „ […] blasir þá við Óttarsstaðasel. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru.32 Snúa dyr í austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilega ver reft yfir þetta skjól og það þá verið hið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparkler með vatni, á annan metra að dýpt.
Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt, sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“

Lónakot

Lónakot

Lónakot – túnakort 1917.

Lónakot var einnig ein af hinum svonefndu Hraunjörðum, þær jarðir sem voru innan bæjarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru svo seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot var í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske d.t. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547-1553.

Lónakot

Lónakot – bærinn.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að dýrleiki Lónakots hafi verið óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenningnum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki til þess að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var þá tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilsmenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var n

Lónakotssel

Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.

okkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðsöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almennileg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.

Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0.4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Helstu minjarnar sem skráðar voru og tengjast Lónakoti voru án efa Lónakotssel. Þar höfðu Óttarsstaðamenn einnig í seli á móts við uppsátur Lónakotsmanna á Óttarsstaðalandi. Í Örnefnaskrá segir: „[…] Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði [innskot: það fannst ekki] í flagi og þraut oftast í þurrkatíð“.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Þorbjarnarstaðir. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-X-Hraunjardir-sunnan-Reykjanesbrautar.pdf

Markhella

Markhella – áletrun.

Kaldársel

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 segir frá Kaldárseli:

Kaldársel
KaldárselKaldársel var við Kaldá og var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi. Elsta heimildin um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703: „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“10 Í ferðabók sinni sagði Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur í görðum hafði 1791 og líklega er um Kaldársel að ræða: „Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“
KaldárselÍ lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtsson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir, kona hans, voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma sem þau bjuggu á Hvaleyri og höfðu þau sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Selfarir lögðust niður í Kaldárseli eftir að Jón lést árið 1866.
Næst var getið Kaldársels árið 1867 og var þá heilsárs byggð þar. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Líklegast bjó Jón í Kaldárseli í tvö ár og var hann skrifaður þurrabúðarmaður á meðan. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi,en hann var ókvæntur og barnlaus, með honum var ráðskona og tökubarn. Þorsteinn bjó í Kaldárseli í tíu ár og voru heimilismenn allt frá honum einum upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé en einnig hafði hann eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því það var nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé.

Kaldársel

Í tóftum Kaldársels 1934.

Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags 1866 og við andlát hans lauk fastri búsetu þar og voru þau mannvirki sem enn stóðu í Kaldárseli líklega eftir hann. Ólafur Þorvaldsson lýsti húsakostinum í Kaldárseli í bók sinni Áður en fífan fýkur: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“
Danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 og lýsti hann rústunum: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir […] einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hésthús en ekkert fjós.“

Kaldársel

Kaldársel m.t.t. staðsetningar fyrrum – tilgáta ÓSÁ.

Skömmu eftir andlát Þorsteins voru öll húsin í Kaldárseli rifin fyrir utan baðstofuna en hún stóð þar til um aldamótin 1900 og var notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga sem áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Haustleitarmenn Grindavíkurhrepps nýttu sér einnig baðstofuna sem og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur. Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli og var það ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson, sem gerði þá tilraun. Hann byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu og byggði þar fjárhús. Hann hafði lömbin á húsi en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Tilraun Kristmundar entist þó einungis í einn vetur en löng ganga milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og að honum bauðst vist hjá bóndanum á Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að búskapurinn entist ekki lengur en raun ber vitni. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg; ljósmynd Daniels Bruun.

Árið 1912 keypti Hafnarfjörður mikið land af Garðakirkju og var Kaldársel þar á meðal. Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918.
Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1.5km á lengd. Vatnið fann sér þaðan leiða neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var.

Kaldársel

Kaldársel – Gamla þjóðleiðin.

Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga. Árin 1949 – 1953 var ráðist í umbætur á vatnsleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna.17 Börnin voru flest á aldrinum 8 – 10 ára. Í Vísi 28. júlí 1929 lýsti Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Hann lýsti meðal annars húsakynnum K.F.U.M.: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.“

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Leifar Gamla Kaldárssels staðsett framan við nýrri bygginuna.

K.F.U.M. og K. er enn með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbjörns.
Tóftir Kaldársels standa nú um tæplega 10m vestan við hús K.F.U.M. og K. og er heimreiðin að húsinu alveg upp við þær. Ekki má ráðast í nokkurskonar framkvæmdir sem hafa jarðrask í för með sér án leyfist Minjastofnunar Íslands og í raun ætti að fara með einstakri varúð við allar framkvæmdir við Kaldársel en minjarnar eru friðlýstar og eru þess vegna 100 metra friðhelgað svæði í kringum sig. Fleiri friðlýstar minjar eru á svæðinu, t.a.m. fjárborgarrústir sem liggja á hæð um 280m NVN við Kaldársel.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Töluvert af minjum voru skráðar við Hvaleyrarvatn og tengjast þær flestar seljabúskapi á svæðinu. Þar af er helst að nefna Hvaleyrarsel en það stóð þar sem nú er frekar hár grasivaxinn hóll við sunnanvert vatnið og tvístrast göngustígurinn sem liggur um vatnið og liggur sitthvorumegin við hólinn. Þar mótaði fyrir að minnsta kosti þrem tóftum. Miðju tóftin hefur verið aðal húsið í þyrpingunni og hin tvö mögulega verið búr og skemma.
Hvaleyri var líklega með selstöðu við Hvaleyrarvatn frá upphafi og er jörðin að öllum líkindum elsta bújörð Hafnarfjarðar og hafa fundist minjar frá því í kringum árið 900 á henni.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Að vísu leiddi Sigurður Skúlason líkur að því að Hvaleyrarsel hafi verið við Kaldá og nafnið breyst í Kaldársel20 en það er að öllum líkindum ekki rétt enda er Kaldársel innan afréttar Garðakirkjulands og var Hvaleyrarvatn mun nær bújörð Hvaleyrar. Seljabúskapur í Hvaleyrarseli lagðist niður í kringum 1870 og segir sagan að það hafi gerst eftir að selstúlkan fannst látin við vatnið og talið var að nykur (2662-111) hafði orðið henni að bana: “Selstöðu átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selstúlku og smala. Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur heim á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið var þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð felmtrisleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðist við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.“
Jón og Þórunn, sem nefnd voru í sögunni, bjuggu á Hvaleyri frá 1864-1868.
Um 200 metrum austan við Hvaleyrarsel á grasivöxnum bakka í skógarjaðrinum má sjá móta fyrir ógreinilegum tóftum Ássels og rúmlega 450 metrum norð-austan við þær inn á milli trjánna við göngustíg er að finna tóftir Jófríðarstaðasels. Eftir að Hvaleyri hætti seljabúskap við Hvaleyrarvatn skiptu Ás og Jófríðarstaðir með sér landinu við vatnið.

Undirhlíðar

Breiðdalur

Breiðdalur.

Minna var um minjar við Undirhlíðar, enda svæðið að mestu úfið hraun og langt frá byggð. Þó er töluvert um leiðir og stíga á svæðinu. Tvennar þjóðleiðir liggja sitthvorumegin við hlíðarnar, þ.e. Undirhlíðavegur við norðurhliðina og Dalaleið við suðurhlíðina, báðar ganga þær frá Krýsuvík að Kaldárseli. Undirhlíðarvegur var sá vegur sem var mest farinn þegar farið var með hesta til eða frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Frá Kaldárseli „[…] lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melagötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. […]“

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleiðin var sjaldnar farin, þá helst að vetri til, en var samt stysta og beinasta leiðin. Hún var þó talin sú hægasta og gat verið hættuleg: „Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en vetrarsólhvörf. […] Á þessari leið gátu ísar verið ótryggðir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Hellan.

Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, – en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 – 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. […] Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið – Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krísuvík missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.
Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. […] En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndast þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin. Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2-4m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hesta nái niðri, ef ofan í lenda.“

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Í sprunginni hæð, sem nefnist Gvendarselshæð, sem gengur í norðaustur út frá Undirhlíðum í átt að Helgafelli er að finna leifar Gvendarsels en þar var haft í seli á 19. öld. Sagt var að þar hafi verið svo þykkur rjómi á trogum að haldið hafi uppi vænni silfurskeið.26 Þar eru leifar fjögurra mannvirka, þrír stekkir og ein tóft sem var túlkuð sem búr. Ekkert íveruhús fannst á staðnum en selið er, eins og áður segir, í og við sprungur í hlíðinni og getur vel verið að þær hafi verið nýttar og þá mögulega einungis tjaldað yfir eða í þeim.
Sunnan við Undirhlíðar liggur Skúlatúnshraun, nefnt eftir um 1.3 hektara grashól sem stendur upp úr hrauninu. Árið 1902 heyrði Brynjúlfur Jónsson sagnir af Skúlatúni og taldi víst að þar væri búið að draga saman nafnið Skúlastaðatún. Brynjúlfur var búinn að vera að leita að bæjarstæði Skúlastaða en Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, á að hafa numið land á milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og á að hafa búið á Skúlastöðum. Fannst Brynjólfi líklegt að Skúlastaðir hafi staðið þarna og að nafnið Skúlatún hafi komið til eftir að hraun flæddi yfir bæinn og landareignina alla. Hann kom til Skúlatúns árið 1907: „[…]Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti ég trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleyfum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmeginn þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvesta-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upphaflega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum.

Gvendarselshæð

Gvendarselshæð – stekkur.

Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér gefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið Skúlatún, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“
Brynjúlfur vissi þó ekki að Skúlatúnshraun rann um 900 árum áður en talið er að land var numið og auk þess er staðsetninging ósennileg, ef Ásbjörn á að hafa numið land á Álftanesi öllu væri mun líklegra að bærinn hafi staðið við sjó og þar sem vatnsból væri gott. Engin ummerki um mannvistarleifar fundust við vettvangsathugun. Staðsetning Skúlastaða er þá enn óþekkt en ein kenningin er að landnámsbærinn hafi staðið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Kaldársel. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-IX-Kalda%CC%81rsel-og-na%CC%81grenni.pdf

Kaldárssel

Kaldárssel – fjárhellar.