Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi. Hér er ætlunin að rekja lítillega sögu og afrek þessa merka manns, sem engar myndir virðast vera til af.
Í Ægi 1998 fjallar Jón Þ. Þór um „Þilskipaútgerð við Faxaflóa„. Þar er Jóns getið meðal annarra merkismanna:
„Vagga þilskipaútgerð Íslendinga á 19. öld stóð við Faxaflóa, nánar tiltekið í Hafnarfirði. Þaðan gengu skútur konungsverslunarinnar síðari til veiða á ofanverðri 18. öld og þar rak Bjarni kaupmaður Sívertsen útgerð sína um aldamótin 1800 og á öndverðri 19. öldinni.
Þilskipaútgerð Bjarna Sívertsen stóð með blóma fram á síðari hluta 3. áratugs 19. aldar, en lagðist með öllu af eftir að hann flutti til Danmerkur árið 1831.
Bjarni Sívertssen.
Ekki fór hjá því að athafnir Bjarna Sívertsen hefðu áhrif á framtakssama nágranna hans og leið ekki á löngu, uns útvegsmenn suður með sjó gerðu sér ljóst, að góðan hag mætti hafa af útgerð þilskipa, ef rétt og vel væri að henni staðið. Meðal þeirra, er þannig litu á málin, voru þrír efnabændur við sunnanverðan Faxaflóa, þeir Ari Jónsson í Njarðvík, Jón Daníelsson í Stóru-Vogum og Jón Sighvatsson í Höskuldarkoti. Fjórði maðurinn í hópnum var Árni Magnússon í Halakoti, en hann átti um skeið þilskip í samlögum við Jón Daníelsson.
Frumkvöðullinn Jón Daníelsson
Jón Daníelsson virðist hafa orðið fyrstur þeirra fjórmenninganna til að hefja þilskipaútgerð. Árið 1803 keypti hann jagtina Willingen, 9 commerciallestir að stærð, og hóf útgerð hennar. Á næstu árum jók Jón útgerð sína. Árið 1820 átti hann, auk Willingen, hlut í skútu, sem Karven nefndist, á móti Árna Magnússyni. Var það skip smíðað í Vogum á árunum 1817-1819.
Þilskip.
Árið 1828 (eða 1829) eignuðust Jón og sonur hans, Magnús Waage, aðra jagt og nefndist hún Anna Sophia. Það skip slitnaði uppaflegu í Reykjavík í októbermánuði 1830, rak á land og ónýttist. Þeir feðgar voru þó ekki af baki dottnir, en létu smíða nýtt skip heima í Vogum. Því var hleypt af stokkunum árið 1833 og hlaut nafnið Willingen, eftir gömlu jagtinni, sem lagt var árið 1826. Mun nýja skipið hafa gengið til veiða úr Vogum allt til ársins 1857, er Magnús Waage lést. Þar með var lokið sögu þilskipaútgerðar frá Stóru-Vogum.
Þeir feðgar, Jón Daníelsson og Magnús Waage, voru miklir atorkumenn og lánaðist vel flest það er til búsýslu og útgerðar heyrði. Magnús lærði skipstjórnarfræði og stórskipasmíði í Danmörku og mun hafa átt mestan þátt í smíði Karven og Willingen (yngri). Hann smíðaði einnig fjölda opinna báta og hermir ein heimild (Annáll 19. aldar), að hann hafi smíðað um eitt hundrað skip og báta.“
Í Andvara 1950 er lýsing Páls Eggerts Ólasonar eftir Jón Guðnason á uppruna og fjölskyldutengslum Jóns Daníelssonar:
Hausastaðir – minnismerki um Hausastaðaskóla fremst.
„Um þær mundir er Ólafur Pétursson var að hverfa úr þjónustu Ólafs stiftamtmanns og gerast bóndi, kemur til sögunnar á Álftanesi syðra ungur maður, sem örlögin höfðu ætlað mikla velgengni og frama. Má urn margt líkja honum við Ólaf á Kalastöðum. Þessi ungi maður hét Jón Daníelsson, bónda á Hausastöðum, Erlendssonar á Hausastöðum, Eyvindssonar í Arabæ í Gaulverjabæjarhreppi, sem var fjórði maður í karllegg frá síra Ólafi Tómassyni, er hélt Háls í Fnjóskadal í rúm 50 ár og lézt 1628. Kona Daníels og rnóðir Jóns var Guðríður Jónsdóttir, bónda á Spóastöðum í Biskupstungum, fyrr á Víðivöllum í Blönduhlíð, Guðmundssonar á Úlfsstöðum í Blönduhlíð, Gíslasonar á Silfrastöðum, Eiríkssonar lögréttumanns í Djúpadal, Magnússonar lögrm., Björnssonar prófasts á Melstað, Jónssonar biskups á Hólum, Arasonar. Kona Jóns á Spóastöðum, móðir Guðríðar, var Vigdís Jónsdóttir, prests á Torfastöðum, Gíslasonar úr Svefneyjum, Jónssonar á Fróðá, Halldórssonar. En Gísli í Svefneyjum átti Ingibjörgu Arngrímsdóttur hins lærða, prófasts og officialis á Melstað, Jónssonar.
Dannebrogsorðan.
Jón Daníelsson kvæntist Sigríði Magnúsdóttur, bónda í Hlíð á Álftanesi Bragasonar, og Margrétar Pétursdóttur af Melshúsaætt á Álftanesi. Fluttust þau Jón og Sigríður suður á Vatnsleysuströnd og bjuggu þar, í Stóru-Vogum, um hálfa öld. Gerðist Jón hinn mesti framkvæmdamaður, formaður á skipi sínu, gildur bóndi og vellauðugur. Þótti eigi einleikið um velgengni hans, og eignaði þjóðtrúin það mökum hans við huldar vættir, eins og lesa má um í þjóðsögum Jón Árnasonar. En hitt mun sönnu nær, að þar hafi honum bezt gagnað eigið hyggjuvit, atorka og forsjá, ásamt ágætum hæfileikum til sjómennsku og skipstjórnar. Fyrir framkvæmdir sínar var hann sæmdur heiðursmerki dannebrogsorðunni.
Meðal barna Jóns Daníelssonar og Sigríðar Magnúsdóttur var Magnús, er bjó eftir föður sinn í Stóru-Vogum og nefndi sig Waage, fyrstur þeirra ættmanna. Varð hann hinn mesti afreksmaður sem faðir hans. Ungur nam hann siglingafræði og síðan stórskipasmíði í Danmörku. Talið er, að hann hafi alls smíðað um 100 báta, en þilskip smíðaði hann fyrir föður sinn og annan útvegsbónda þar syðra, skömmu eftir heimkomuna frá Danmörku. Þótti slík framkvæmd miklum tíðindum sæta, svo lágæt sem hún var á þeim tíma. Getur Espólín þessa í árbókum sinum og bætir við: „Og margur frami jókst þá Íslendingum, þó margt þætti þungt“. —
Í Lesbók Morgunblaðsins, tveimur tölublöðum, árið 1937 eru „Sagnir af Jóni sterka„, sem Ólafur Ketilsson skráði:
Steinninn í Stóru-Vogavörinni
„Frá ómunatíð hafði klettur einn mikill verið framarlega í Stóru-Vogavörinni, þar sem þrengsli voru mest á millum tveggja skerja þegar skipin voru sett upp eða fram. Var steinninn mitt á milli skerjanna þar, sem þrengslin voru mest, og varð því að setja skipin annað hvort yfir steininn, eða þá yfir annað hvort skershornið, en þetta kom ekki fyrir nema þegar lágsjávað var, eða um fjöru, eða því sem næst, annars flaut yfir steininn, eða skerin, þótti hvoru tveggja miklum erfiðleikum bundið, og hefir því sennilega steinn þessi margt ókvæðis- og formælingarorðið verið búinn að fá á sig, hjá hinum þreyttu og þjökuðu sjómönnum, sem svo marga bakraunina höfðu orðið að þola hans vegna, á meðan að þeir voru að klöngvast með skipin yfir hann.
Vogar – fjarnan neðan við Stóru-Voga.
Eina vetrarvertíð, sem næst 1835, kom Jón Daníelsson af sjó á áttæring sínum vestan úr Garðsjó. Fékk hann þennan dag landsynningsrok og roga barning alla leið heim í vör. Voru hásetar Jóns venju fremur þjakaðir eftir barninginn og bölvuðu klettinum í sand og öskuá á meðan að þeir voru að koma skipinu yfir hann. En þegar að setningnum loks var lokið, sagði Jón hásetum sínum að fara heim, en kvaðst sjálfur ætla að verða eftir og taka til í skipinu m.m. En þegar hásetar hans eru komnir upp á túnfótinn heyra þeir ógurlegt öskur niður í fjörunni, og litu því allir samtímis við, og sjá Jón með klettinn í fanginu, og skotthúfuna í munninum, sem hann brúkaði vanalega á sjónum. Öskraði karlinn œgilega, og var þá hinn ægilegasti ásýndar. Hásetarnir þutu allir samstundis niður eftir aftur, en þá hafði Jón borið steininn langt norðvestur fyrir lendinguna og kastað hanum þar frá sjer, en svo máttfarinn var hann, eftir að berserksgangurinn rann af honum, að hásetarnir urðu að leiða hann heim, en daginn eftir var Jón þó sjáanlega jafngóður.
Stóru-Vogsvör – loftmynd.
Nokkrum dögum seinna tók hann svo steininn aftur í fang sitt, og bar hann lengra upp í fjöruna norðvestur af lendingunni, þar sem hann liggur enn þann dag í dag. Í síðastliðnum desembermánuði gerði jeg mjer ferð inn að Stóru-Yogum til Sigurjóus frænda míns, var ferðin aðallega farin til þess að skoða steininn og áætla þunga hans. Fórum við þrír niður í fjöruna og skoðuðum steininn, og gátum velt honum við. Kom okkur saman um að minna en 500 kg. (1000 pund) væri hann ekki, og börutækur fjórum duglegum mönnum, en Sigurjón fræddi mig líka um það, sem, jeg áður ekki hafði heyrt, að leðurbrók sú, sem Jón var í og tvennar buxur, hefði verið sundur tætt á hnjám og lærum, eftir átökin, og hann sjálfur blóðmarinn, en ómeiddur að öðru leyti.
Vogar – loftmynd 1954.
Að til hafi verið, og sjeu til ennþá, á Íslandi þeir aflraunamenn, sem taki steininn upp, og geti fært bann úr blautum sandinum, þar sem hann hafði legið öldum saman á kafi, til þess hefir þurft, bæði að mínum og annara dómi, sem sjeð hafa steininn, alveg yfirnáttúrulegt mannssafl.
Pertlínan
Eitt sumar, á meðan að Jón Dauíelsson bjó í Stóru-Vogum, kom suður á Vogavík danskur „spekúlant“, sem kallað var í þá daga. Vom það vörubjóðar, eða með öðrum orðum, skip sem höfðu allskonar útlendan varning á boðstólum, fyrir íslenskar afurðir. Höfðu þeir einskonar búð í lestinni, þar sem að öllu ægði saman, ætu og óætu, þurru og blautu.
Þegar skip þetta var komið inn á Vogavík og lagst þar við festar, spurði skipstjórinn einn af þeim mönnum, sem komnir voru um borð hvert þessi sterki Íslendingur myndi ekki komi um borð til sín. Benti þá einn maðurinn skipstjóranum á bát sem kom frá landi, og sagði skipstjóra, að maðurinn sem sæti aftur í bátuum væri hinn sterki Íslendingur, sem hann óskaði að sjá.
Vogar um 1950.
Þegar Jón Daníelsson var kominn um borð í skipið, varð skipstjóranum starsýnt á þennan háa og herðabreiða beinabera mann, sem horfði á skipstjóra tindrandi stálgráum augunum, þrungnum af viti og viljakrafti. Þegar Jón hafði heilsað skipstjóra, og þeir höfðu talast við góða stund, gekk Jón fram á skipið, og sá þar afarstóra kaðalrúllu, sem ekki hafði verið vætt. Var þetta „Pertlína“ sem kallað er, eða festartóg, afar sver og úr tjöruhampi, mörg hundruð pund, eftir því sem mjer hefir verið skýrt frá.
Þegar Jón hafði skoðað þessa kaðalrúllu, gekk hann aftur til skipstjórans, og bað hann að selja sjer 4—5 faðma af kaðlinum, sem hann svo ætlaði að rekja spottann upp og snúa svo úr honum stjórafæri netateina, m. m., en skipstjóri svaraði samstundis neitandi en hann bætti svo við: „En jeg skal gefa þjer af kaðlinum það, sem jeg má hringa upp á handlegg þinn ofan frá öxl og fram á hönd, þar til handleggurinn fer að bogna eða síga“. Sem auðvitað gekk Jón að þessu veglega boði skipstjóra, því að hann hafði engu að tapa, en til mikils var að vinna fyrir ofurmennið Jón Daníelsson.
Var Jón svo látinn* standa á stórum kassa, og böndin, sem hjeldu rúllunni saman, skorin í sundur. Og byrjaði svo skipstjóri að dunda við að hringa kaðalinn á handlegg Jóns og gætti þess jafnframt hvert handleggurinn bognaði ekki, eða sigi niður. Loks kom að því að Jón sagði, eitthvað á þá leið, að nú færi handleggurinn að síga, og hjó þá skipstjóri samstundis á kaðalinn og ljet leggja á metaskálarnar það, sem hann hafði hringað á handlegg Jóns.
Vogar.
Jeg hafði aldrei áður heyrt hvað kaðallinn var þungur, sem hringaður var á handlegg Jóns, en Sigurjón frændi minn sagði mjer, þegar jeg heimsótti hann síðast, að faðir sinn hefði sagt sjer, eftir sjónarvottum að þyngdin hefði verið 320 pund.
Jeg verð að játa að þó þetta sje haft eftir sjónarvottum, þá er þetta næsta ótrúlegt, en alveg yfirnáttúrulegt mannsafl, ef satt væri. En sennilega hefir samt skipstjóranum þótt nóg mn þyngdina, þegar hann var búinn að vigta kaðalinn, því hann sagði um leið og hann labbaði niður í káetuna sína:
„Hvaða djöfuls mannsbein eru þetta“.
Allir vita það, sem reynt hafa, að það er mjög þreytandi að halda til lengdar beinum handlegg út frá sjer, þó ekkert sje á hann lagt, hvað þá heldur, þegar lögð eru á handlegginn fleiri hundruð pund í lengri tíma. Enda er líka þessi aflraun Jóns Daníelssonar talin af mörgum sú mesta sem hann hafi sýnt í lífinu.
„Liggðu nú þarna skussinn þinn“
Vogar um 1950.
Þegar faðir minn var 27 ára gamall, fór hann einn dag að heimsækja afa sinn, sem þá var búinn að vera blindur í 11 ár, og kominn í kör. Þegar þeir höfðu skifst á kveðjum segir Jón gamli við föður sinn: „Komdu nú hjerna fast að rúminu til mín frændi, og lofaðu mjer að þreifa þig og þukla, jeg ætla að finna hvað þú ert orðinn stór og státinn“. Gekk faðir minn svo fast að rúminu, en karl fór að þreifa hann og þukla hátt sem lágt, án þess þó að setjast upp, eða hreyfa höfuð frá kodda. En svo veit faðir minn ekki fyr til, en að hann er kominn í loft upp, og karl kastar honum upp fyrir sig í rúmið, um leið og hann segir hlægjandi:
„Liggðu nú þarna skussinn þinn“.
Í Vogum.
En faðir minn var með hæstu mönnum, fullar 3 álnir, og að því skapi þrekvaxinn, og þá sennilega ekki verið minna að þyngd en 90—100 kg. Þetta var eftir af kröftunum í köglum gamla mannsins, þó hann væri þá 97 1/2 árs karlægur karl.
Jeg hefi skýrt hjer frá nokkrum aflraunum Jóns Daníelssonar, sem ljóslegn sýna hvílíkt ofurmenni hann hefir verið að afli og frækleik, og eru þó ýmsar sagnir, sem áreiðanlegar heimildir eru fyrir af aflraunum hans enn ósagðar, eins og t. d. þegar að hann bar tvær fullar brennivínstunnnur.
sitt í hvorri hönd, með því að láta laggir hvíla á mjaðmarhöfðum, og halda svo með höndum í hinar laggirnar. Tunnur þessar bar hann alla leið úr, að mig minnir, Levisensbúð í Hafnarfirði, og fram á bryggju, án þess að hvíla sig, og eins ljettileg, sem tómar hefðu verið, að sögn sjónarvotta.
Minni-Vogar.
Eins og sagt hefir verið hjer að framan, þá var Jón Daníelsson álitinn hinn mesti galdrakarl, af samtíðarmönnum sínum, en þessir galdrar Jóns voru áreiðanlega ekkert annað en hyggindi hans og vit, sem hann var gæddur fram yfir fjöldann, og oft var Jóns leitað er einhvern vanda bar að höndum, ekki þó sökum vitsmuna hans, eða hygginda, heldur vegna þess að hann gat leyst hinar þyngstu þrautir og vandráðnar gátur með sinni egyptsku speki, sem allir trúðu á.
Skal að endingu sagt hjer frá nokkrum þeim þrautum, sem lagðar voru fyrir hann, og leitað til hans með, og sem Jón leysti, með hyggindum sínum og viti, en als engri galdrakunnáttu, þó svo væri litið á í þá daga.
Peningapjófnaðurinn í Stóru-Vogum
Eina vetrarvertíð þá er margt var í heimili hjá þeim Stóru-Voga-hjónum, bar það við eina nótt að stolið var töluverðri peningaupphæð frá einum af hásetum Jóns, sem líka hjet Jón. Strax um morguninn þegar maðurinn saknar peninganna, fer hann til Jóns Daníelssonar og segir honum frá stuldinum, og biður hann nú með kunnáttu sinna að komast eftir hver stolið hafi peningunum.
Jón bað nafna sinn að vera rólegan, því peningunum mundi verða skilað aftur næsta morgun.
Skildu þeir svo talið, og leið fram til kvölds að Jón hafðist ekkert að með að komast eftir hver stolið hefði peningunum. En um kvöldið þegar komið var að sængurtíma kallar hann alt heimilisfólkið með tölu, unga og gamla, niður í stofu til sín.
Vogar um 1950 – sjávarhús Stóru-Voga og Hábær.
En þegar allir eru komnir niður í stofuna, sýnir Jón öllum hópnum snærisbúta, sem lágu á stofuborðinu, og sem allir voru nákvæmlega jafnlangir. Fekk Jón svo hverjum manni einn snærisbútinn og bað einn og sjerhvern að geyma hann vandlega til næsta morguns, og svo áttu allir að skila honum snærisbútunum niður í stofunni, eftir fótaferðartíma um morguninn.
Stóru-Vogar.
Þegar því var lokið að hver og einn hafði fengið sinn snærisspotta til geymslu yfir nóttina, segir Jón fremur við sjálfan sig, en við fólkið sem í stofunni var: „Við skulum sjá hvert spottinn ekki lengist í nótt hjá þeim, sem var fingralangur á peningunum hans nafna míns“. Næsta morgun þegar fólkið kom niður í stofuna að afhenda Jóni snærisspottana, og Jón fór að mæla þá, reyndist spottinn hjá einum manninum lang sytstur (hann hafði skorið af honum). Þá sagði Jón við manninn:
„Hvers vegna fórst þú að skera af þínum spotta, maður minn, þess þurftir þú ekki með ef þú varst saklaus, en það ert þú sem hefir tekið peningana, og skilaðu þeim tafarlaust“.
Maðurinn var þarna kominn í þá gildru, sem hann ekki gat losað sig úr. Hann meðgekk því samstundis stuldinn, og skilaði peningunum. En ekki minkaði trúin á galdramáttinn hans Jóns gamla Daníelssonar við þetta mjög svo einfalda kænskubragð, sem hverjum nútíðarmanni er auðskilið.
Jón rekur út djöfla
Minni-Vogar.
Í Bjarmarkoti í Vogunum, sem var hjáleiga frá Stóru-Vogum, en er nú eyðibýli, varð maður einn snögglega brjálaður, djöfulóður, sem þá var kallað. Jón var samstundis sóttur og beðinn um að reka djöfsa úr manninum, með kyngikrafti þeim, sem hann hefði yfir að ráða. Þegar Jón kom inn til mannsins, sem brjálaður var, hrópaði hann á móti Jóni: „Þarna kemur þú helv… . þitt Jón Daníelsson, þú er sá eini maður, sem jeg hræðist á þessari jörð“.
og hristi hann og skók, eins og ketlingur væri, þar til maðurinn fór að æpa og emja, og biðjast griða, þá fyrst slepti Jón manninum, um leið og hann sagði: „Nú hefi jeg sent djöful þann, sem í þjer var suður á Garðskaga að tína þar saman lambaspörð, og mun hann ei oftar ónáða þig“.
Manninum batnaði samstundis eftir að Jón slepti honum, og bar aldrei neitt á honum eftir þetta.
En sennilega hefir það ekki verið annað en þessi ofsahræðsla, sem greip manninn, sem læknaði hann, þó þetta væri þá eingöngu þakkað galdrakunnáttu Jóns.
Happasteinninn
Stóru-Vogar 1950.
Jón Daníelsson var einn með meiri aflamönnum, sem sögur fara af, og er sagt að honum hafi aldrei brugðist fiskur úr sjó, þegar hann komst á flot, og sem meðal annars má marka af því, að hann flutti bláfátækur suður að Stóru-Vogum, þegar að hann byrjaði þar búskap, en gat eftir fárra ára veru þar keypt alla Stóru-Voga-torfuna, og auk þess eins og áður er sagt tvær jaktir, fyrir utan annan kostnað sem hann hafði bæði við húsabyggingar og fleira.
Stóru-Vogar 1965.
En þessi mikli afli Jóns, og gróðasæld, var ekki einleikin og eðlileg aflabrögð. Nei, það var eitthvað bogið við þetta, sögðu samtíðarmenn hans, og nágrannar. Bölvaður karlinn hann hafði sem auðvitað seiðmagnaðan, eða göldrum hlaðinn happastein falinn í skipinu, sem seiddi að sjer fiskinn, svo að Jóni brást aldrei afli á hvaða veiðarfæri, sem var.
Í Norðurkoti í Vogunum bjó þá maður, sem Friðrik hjet, dugnaðarmaður og sjósóknari, en svo sig af því, að hann hefði fengið þennan happastein hjá Jóni, sem seiddi fiskinn að sjer, svo að honum brygðist nú aldrei fiskur, eins og þeir vissu sjálfir, en steininn hefði hann fólginn undir þiljum aftast í skipinu, eins og Jón hefði sagt sjer að hann ætti að gera.
Hásetar Friðriks urðu nú meira en minna forvitnir, og fóru að skoða þennan undra stein, sem seiddi fiskinn að þeim, en þeim fell allur ketill í eld, er þeir sáu steininn, og að þetta var eins og aðrir hnöttóttir fjörusteinar, sem Jón hafði látið Friðrik fara þrjár ferðir eftir suður að Vogastapa til þess að styrkja hann í trúnni á seiðmagn steinsins. En svo brá við, að eftir þetta sótti í gamla horfið hjá Friðrik, að hann fekk ekki „bein úr sjó“ upp frá því.
Reikningsgáfan
Vogar – upplýsingaskilti við tóftir Stóru-Voga.
En það sem ef til vill einkendi Jón Daníelsson einna mest frá samtíðarmönnum hans, var hin undraverða reikningsgáfa sem hann var gæddur, sem ekki þótti einleikin, en ganga göldrum næst, eða galdrar vera. En einkum er þó viðbrugðið hugareikningsgáfu hans, sem öllum öðrum var ofraun að botna hið minsta í, enda líka brúkaði hann aldrei pappír eða ritblý hversu erfið stærðfræðisleg viðfangsefni, sem hann fekkst við, heldur reiknaði hann alt í huganum, og var öðrum fljótari fyrir það.
Hásetar Jóns, sem trúaðri voru á galdrakunnáttu Jóns, en reikningslist, höfðu þrásinnis þá sögu að segja af Jóni, að þegar að hann átti þorskanetatrossur vestur í Garðsjó, og leiði var úr Vogunum og vestur, og segl voru komin upp, og skipið komið til skriðs, að þá hefði Jón horft augnabliks stund út fyrir borðstokkinn, fengið svo einum hásetanna stýrið, en lagst sjálfur fram í barka, breitt skinnstakkinn yfir höfuð, og bannað þeim (hásetum) að nefna með einu orði þegar þeir kæmu að duflinu, hann mundi sjálfur gera það. En aldrei sögðu hásetar Jóns að það hefði brugðist, að þegar þeir komu að duflinu, stóð Jón upp í barkanum, og skipaði að lægja segl. Og hið sama sögðu hásetarnir, að þegar siglingaleiði var að vestan og heim í Voga, þá ljek Jón nákvæmlega sömu listina, lagðist fram í barka, þegar segl voru komin upp, með skinnstakkinn breiddan yfir höfuð, og hreyfðist ekki fyr en skipið var komið inn undir lendingu, þá stóð hann fyrst upp og sagði að lægja segl. Þetta að sjá í gegnum tvöfaldan skinnstakkinn og byrðing skipsins, sögðu hásetar Jóns að hefðu verið römmustu galdrar, en engin reikningslist það hefði verið ómögulegt.
En Sigurjón frændi minn sagði mjer þegar jeg heimsótti hann síðast, að eftir að Jón Daníelsson langafi okkar var orðinn blindur, þá hefðu daglega allir veggir í herbergi hans verið útkrítaðir með reikningsdæmum, sem hann var að búa til, og skemta sjer við í einverustundum ömurlegrar blindrar ellinnar.
Ennfremur sagði Sigurjón mjer að þegar Jörundur hundadagakonungur fór suður í Keflavík 1809, hefði Jón á meðan að Jörundur var í Keflavík, safnað að sjer fjölmennu liði af Vatnsleysuströndinni, vel vopnum búið af ýmiskonar morðtólum, járnkörlum, ljáum, hákarlasveðjum o.s.frv., en sjálfur var gamli maðurinn búinn að safna að sjer all-myndarlegri hrúgu af vel völdum steinvölum, sem hann ætlaði að fara í boltaleik við Jörund með. En Jörundur ljet ekki sjá sig, fór þar fyrir utan garð, en ekki innan, svo ekkert varð úr bardaganum.
Að endingu vil jeg geta þess, að ritgerð þessa las jeg fyrir Sigurjóni frænda mínum, óðalsbónda í Stóru-Vogum, áður en að jeg sendi hana, og telur hann það, sem hjer er skráð af langafa okkar, Jóni Daníelssyni, í fullu samræmi við það, sem hann hafi áður heyrt, bæði hjá föður sínum, Jóni M. Waage og fleirum.
Þakka jeg svo Sigurjóni fyrir þær upplýsingar, sem jeg fekk hjá honum, og hefi stuðst við í ritgerð þessari.“
Í „Strönd og Vogar„, bók Árna Óla, „Úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarssonar, Sagnaþættir“ frá árinu 1961, segir frá Jóni Daníelssyni:
„Jón Daníelsson ríki í Vogum var fæddur 23. marz 1771, d. 16. nóvember 1855. Foreldrar hans voru Daníel Erlendsson á Hausastöðum og kona
hans Guðríður Jónsdóttir á Spóastöðum. Jón bjó fyrst á Urriðakoti fyrir ofan Hafnarfjörð, keypti síðan Stóru-Voga og bjó þar til æviloka. Gerðist auðmaður, enda atorkumaður, orðlagður kraftamaður, forspár. Ganga af honum miklar sagnir. Kona: Sigríður Magnúsdóttir, Bragasonar. Börn þeirra: Vigdís átti Ketil Jónsson í Kirkjuvogi, Magnús skipherra í Stóru-Vogum, Jón í Tumakoti, Guðríður átti Daníel Gíslason í Eyrarkoti. —
Magnús Waage.
Magnús sonur hans tók sér ættarnafnið Waage (f. 24. júlí 1799, d. 26. september 1857). Hann nam siglingafræði í Kaupmannáhöfn, en skipasmíðar í Noregi. Smíðaði hann um 100 báta og 2 þilskip. Kona: Guðrún Eggertsdóttir prests í Reykholti, Guðmundssonar. Börn þeirra voru:
1) Eggert stúdent og kaupmaður í Reykjavík, faðir Jens B. Waage leikara.
2) Eyjólfur í Garðhúsum, dóttir hans var Guðrún móðir dr. Páls Eggerts Ólasonar.
3) Guðrún átti Pál gullsmið Einarsson í Sogni í Kjós og voru þau foreldrar séra Eggerts alþm. á Breiðabólstað.
4) Vigdís átti Guðmund alþm. Ólafsson á Fitjum.
5) Margrét ógift og barnlaus. Launsonur Magnúsar var Stefán múrari í Reykjavík (kallaður Egilsson) og fleiri voru launbörn Magnúsar.
Frá Jóni ríka í Vogum
Þegar Jón Daníelsson kom að Stóru-Vogum, var þar draugur, er lengi hafði gert illt af sér. Stóð svo á þessu, að einu sinni hafði þar verið úthýst manni í misjöfnu veðri og varð hann úti nærri Grímshóli. Gekk hann svo aftur til að hefna sín. (Í Ölfusvatnsannál er þess getið, að pilti nokkrum, illa til fara, hafi verið úthýst á einhverjum bæ á Ströndinni, og hafi hann orðið úti. Þetta var 1750).
Draugur þessi sótti að Sigríði konu Jóns í svefni og hafði hún aldrei frið, því að ekki hafði hún fest blund fyrri á kvöldin í rúminu fyrir ofan mann sinn en hún tók að láta illa í svefninum. Fyrst í stað vakti Jón hana, en jafnskjótt sem hún blundaði aftur, kom að henni sama óværðin. Aldrei kom þetta fram við Jón sjálfan, en ekki var lengi, áður honum leiddist þessi áleitni. Eitt kvöld þegar Jón heyrir að fer að korra í konu sinni rýkur hann á fætur og fer ofan og tekur sax í hönd sér, og segir, ef djöfull sá láti sig ekki í náðum og alla sína, skuli hann reka í hann sveðjuna, og vísar honum til fjandans. Eftir það hætti reimleikinn hjá Jóni. En þegar reimleikinn hvarf frá Vogum, fór hann að gera vart við sig í Tjarnarkoti í Vogahverfinu, og var það þó ekki af því, að þar væri heldur neinir niðjar þess, er hafði úthýst manninum. Sótti draugurinn einkum á bóndann þar, og það svo, að hann varð gjörsamlega óður eina nótt. Var þá sent heim að Vogum eftir Jóni, því Vogamenn leituðu jafnan liðs hjá honum í flestu sem þeir við þurftu.
Stóru-Vogar í Vogunum eru með þeim merkilegri minjum sveitafélagsins. Steinhúsið var byggt 1871 af fyrsta íslenska steinsmiðnum, Sverri Runólfssyni. Sá hinn sami og byggði m.a. sjálfa Skólavörðuna (1868), Þingeyrakirkju (vígð 1877) og steinbrúnna yfir lækinn í Reykjavík (1866). Húsið er hlaðið úr hraungrýti með sambærilegri aðferð og í Þingeyrakirkju, bogadregin gluggagöt eru á húsinu líkt og voru á Skólavörðunni og loks var það klætt 20×40 cm hreysturlöguðum steinskífum á þakinu, okkur er sagt velskum. Mikið teikninga- og heimildasafn um Sverri er á Þjóðskjalasafninu, en í því safni eru m.a. bréfasamskipti um steinkirkju er átti að rísa á Kálfatjörn, þar eru hugleiðingar um stærð kirkju, uppbyggingu o.fl við Stefán Thorarensen, frá miðbik 19. aldar. (Heimildir: Iðnsaga Íslands: fyrra bindi, Íslensk byggingararfleifð fyrra bindi og dánarbú Sverris).
Kom hann vonum bráðar. En þegar bóndinn í Tjarnarkoti sá hann, var hann svo óður, að hann sagðist ekki hræðast neinn, nema andskotann hann Jón Daníelsson. Gekk þá Jón að manninum og segist þá muni neyta þess, að hann sé hræddur við sig, og skipar hinum óhreina anda út úr manninum með mikilli alvörugefni. En svo brá við það, að maðurinn fékk þá værð og datt í dá. En Jón fór þegar út. Fylgdi hann hinum óhreina anda burt frá bænum í Tjarnarkoti og þangað, sem nú er búð sú í Vogum, sem heitir Tuðra. Þar kom hann honum fyrir og bað hann sökkva þar niður til hins neðsta, þaðan sem hann væri kominn, og gera aldrei framar mein af sér í Vogum. Við þessi ummæli Jóns hvarf reimleikinn þegar, svo hvorki bóndanum í Tjarnarkoti né neinum öðrum varð eftir það meint við hann. En þó hefir þótt örla á því oft, að ekki væri allt hreint í Tuðru.
— Sagan er tekin eftir Páli gullsmið Einarssyni, en honum sagði Jón Daníelsson hana sjálfur. Jón Daníelsson átti draumkonu og draummann.
Draumkonan réð honum ýmis heilræði í svefni og varð honum það jafnan til góðs að fara að ráðum hennar. Hún vísaði honum og á týnda hluti. En skilnaður þeirra varð með ólánlegum hætti. Það var á seinni árum Jóns, að þar týndist silfurskeið og fannst ekki, hvernig sem leitað var. Skömmu síðar kemur draumkonan til hans í svefni, og spyr hann hana hvar skeiðin muni vera, en hún sagði, að hann skyldi leita í buxunum sínum. Um morguninn lét Jón leita í öllum buxum sínum og fötum, en ekki fannst skeiðin. Næst þegar Jón hitti draumkonuna, segir hann, að ekki hafi skeiðin fundizt, en hún svarar, að þá hafi ekki verið leitað vel. Næsta dag leitar Jón sjálfur í öllum sínum fötum, en það fer á sömu leið, ekki fannst skeiðin. Jón segir draumkonunni frá þessu næst, en hún hélt því fram, að illa hefði verið leitað. Þá varð Jón reiður og skipaði henni að fara og koma aldrei fyrir sín augu, úr því að hún væri að skrökva að sér. Eftir það hvarf draumkonan og vitjaði hans aldrei framar. En veturinn eftir, er Jón ætlaði að byrja róðra, lét hann taka skinnbrók ofan úr eldhúsi, sem þar hafði hangið frá því um vorið, og fannst þá silfurskeiðin í annarri brókarskálminni.
Stóru-Vogar – skilti.
Draummaðurinn sagði Jóni, að hann skyldi ekki búa lengur en 20 ár í Vogum, og flytjast þá inn í firði (Hvalfjörð eða Borgarfjörð) og reisa þar bú. Mundi hann þá jafnmikill uppgangsmaður næstu 20 árin, eins og hann hefði verið þessi 20 ár í Vogum. En Jón vildi ekki flytjast burt. Þóttu ummæli draummannsins sannast, því að fremur rénaði auðsæld Jóns, eftir að hann hafði verið 20 ár í Vogum.
Jón bóndi Daníelsson var í miklu áliti hjá Vogamönnum og þeim, sem reru á vegum hans. Leituðu þeir tíðum ráða hans, ef þeir fiskuðu illa, og lagði hann þeim oftast þau ráð, sem dugðu. Oft gaf hann þeim steina og þess konar, er hann bað þá geyma vandlega og segja engum frá að þeir hefðu né heldur hvaðan þeir væru, og mundu þeir verða varir meðan þeir geymdu steinana vel.
Einn formaður í Vogum var sá, sem jafnan var óheppinn með afla. Hann leitaði einu sinni í vandræðum sínum til Jóns og bað hann að kenna sér ráð við þeirri óheppni. Ráðlagði Jón honum að fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa (hún er niður undan Grímshóli) og koma með það fullt af malarsteinum og færa sér. Hlyti þar að vera í einhver happasteinn. Maðurinn færði Jóni austurtrogið fullt af möl. Jón fór að leita í því. Brá hann ýmist tungunni á steinana eða þefaði af þeim og stundum hvort tveggja. Loksins fann hann einn, sem honum líkaði, fékk hann manninum og sagði honum að hafa hann með sér í hvert skipti sem hann færi til fiskveiða, en muna sig um að láta engan vita um þetta. Eftir þetta brá svo við, að maðurinn hlóð í hvert skipti. Þeir voru tveir á og lentu jafnan í handóðum fiski. Þegar svo hafði farið fram um stund, gat formaðurinn ekki setið á sér að segja háseta sínum frá steininum og að Jón í Vogum hefði gefið sér hann, og viti hann fleira en almenningur. En eftir það brá svo við, að þessi formaður fékk aldrei bein úr sjó. — Saga þessi er höfð eftir Páli Einarssyni gullsmið, en honum sagði Jón sjálfur. Ekki vita menn hvaða steinn þetta hefir verið, en talið líklegt, að það hafi verið svartur agat, sem mikil trú var á (svart raf).
Það var eitt sinn á vetrarvertíð, að peningum var stolið í Vogum. Jón var þá orðinn gamall og blindur, en sá, sem stolið var frá, bað hann að hjálpa sér að finna þjófinn. Var þó ekki gott aðgerðar, því að þarna var margt fólk. Jón bauð þá öllu heimilisfólki að ganga fyrir sig og taka í hönd sína, og hlýddu allir því. Þegar einn vermanna tók í hönd Jóns, sagði hann: „Þú ert valdur að peningahvarfinu!“ Maðurinn játaði þegar, en enginn vissi hvernig Jón hafði fundið það á handtaki hans.“
Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun „Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar“ við Stóru-Vogaskóla:
Stóru-Vogaskóli – Minnisvarði um Jón Daníelsson og aflraunasteininn.
„Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn. Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.
Árið 1792 giftist Jón frændkonu sinni, Sigríði Magnúsdóttur, systur „Hákonar“ ríka frá Stóru-Vatnsleysu. Það sama ár fluttu þau að Stóru-Vogum og bjuggu þar allan sinn búskapartíma við hinn mesta höfðingsskap og rausn. Græddist honum mikið fé, að eftir fá ár gat hann keypt alla Stóru-Vogatorfuna, og auk þess tvö þilskip, sem hann notaði til fiskveiða og flutninga. Jón og Sigríður eignuðust 5 börn, sem öll náðu fullorðinsaldri og frá þeim eru miklar ættir komnar.
Árið 1834 kom Friðrik Danaprins í heimsókn til Íslands og fór hann suður að Stóru-Vogum til að heimækja Jón, sem var í miklum metum hjá honum, og sæmdi hann dannebrogsorðunni er hann komst til valda, en dannebrogsorðan var í þá daga talinn mesti heiður sem íslenskum bændum gat hlotnast.
Minnisvarðinn er steinn sem var tekinn úr fjörunni við Stóru-Voga en sagt er að Jón Daníelsson hafi tekið steininn í fangið og borið til vegna þess að hann var fyrir í Stóru-Vogavörinni, en steinninn vigtar 450 kg.
Skjöldur á aflraunasteininum við Stóru-Vogaskóla.
Guðmundur Brandsson alþingismaður flutti eftirmæli yfir moldum vinar síns og samverkamanns, og þannig lýsti hann Jóni meðal annars: „Hér var Egils afl og áræði, frækileiki Gunnars, framsýni Njáls, hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar, Áskels
friðsemi og ígrundun Mána.“ – EG
Í „Þjóðsögum um Suðurnes“ í samantekt Hildar Harðardóttur er sagan „Agat„. Hún fjallar um nefndan Jón Daníelsson:
„Jón bóndi Daníelsson í Vogum var í miklu áliti bæði hjá Vogamönnum sjálfum og öðrum sem þar reru á vegum hans fyrir kunnáttu sína og þekkingu á mörgu. Leituðu þeir því tíðum ráða til hans í vandræðum sínum og eins ef þeir öfluðu illa. Lagði hann þeim oftast þau ráð sem dugðu. Oft gaf hann þeim steina og annaðþess konar, en hann bað þá geyma vandlega og segja engum frá að þeir hefðu né heldur hvaðan þeir væru og mundu þeir verða varir meðan þeir geymdu steinana vel.
Mölvík undir Vogastapa – loftmynd.
Einn formaður í Vogum var sá sem jafnan var óheppinn með afla. Hann leitaði einu sinni í vandræðum sínum til Jóns og bað hann kenna sér ráð við þeirri óheppni. Jón sagði honum að ekki mundi gott við því að gjöra, en ráð gæti hann þó kennt honum. Skyldi maðurinn fara með austurtrog út í Mölvík undir Vogastapa og koma með það fullt af malarsteinum og færa sér; mundi þá varla fara svo að þar væri ekki í einhver happasteinn. Síðan fór maðurinn sem honum var sagt og færði Jóni fullt austurtrogið.
Jón fór að leita í því og fann seint þann stein sem honum líkaði. Brá hann ýmist á þá tungunni eða þefaði af þeim og stundum hvort tveggja. Loksins fann hann einn er honum líkaði. Þann stein fékk hann manninum og sagði að hann skyldi hafa hann jafnan með sér er hann reri til fiskjar og mundi hann þá varla fara fýluferð, en muna sig um það að láta ekki á þessu bera við nokkurn mann. Eftir þetta brá svo við í hvert sinn sem maðurinn reri að hann hlóð og dró með háseta sínum stanzlausan.
Þegar þetta hafði gengið svo um stund getur formaðurinn ekki að sér gjört og segir háseta sínum frá hvað Jón hafi gefið sér og sýnir honum steininn. Þar með segir hann frá því að Jón hafi beðið sig að láta þetta ekki vitnast og biður hann fyrir alla lifandi muni að láta það ekki fara lengra, en satt hafi karlinn sagt og fleira viti hann en almenningur.
En hér eftir fékk formaðurinn aldrei bein úr sjó það sem eftir var vetíðarinnar né upp þaðan og kenndi hann það mælgi sinni sem Jón hefði varað sig við.“ – Jón Árnason I 652
Heimildir:
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1998, Þilskipaútgerð við Faxaflóa – Jón Þ. Þór, bls. 39.
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Agat.
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1950, Páll Eggert Ólason eftir Jón Guðnason, bls. 8-9.
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1937, Sagnir af Jóni sterka – Ólafur Ketilsson skráði, bls. 54-55.
-Lesbók Morgunblaðsins, 8. tbl. 28.02.1937, Sagnir af Jóni sterka – Ólafur Ketilsson skráði, bls. 59 og 63.
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarssonar, Sagnaþættir, 1961, bls. 254-257.
-Morgunblaðið, 109, tbl. 15.05.1988, Minnisvarði Jóns sterka Daníelssonar afhjúpaður, bls. 28.
Strönd og Vogar – Árna Óla.