Járngerðarstaðir
Grindavíkurbær og Saltfisksetur Íslands hafa gefið út  Örnefna- og minjakort fyrir einstök svæði bæjarins með stuðningi Pokasjóðs. Þegar hafa komið út kort fyrir Járngerðarstaðahverfi (sögusvið Tyrkjaránsins Kort1627), Þórkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðanes, Staðarhverfi og Hóp. Unnið er að sambærilegum kortum fyrir Hraun og Stórubót (sögusvið Grindavíkurstríðsins 1532).
Kortin eru unnin með hliðsjón af örnefnalýsingum sem og bestu upplýsingum elstu núlifandi manna og kvenna í Grindavík. Á þeim er getið um helstu örnefni á svæðunum og reynt að draga upp allar sýnilegar minjar frá fyrri tíð. Þá hefur verið reynt að endurvekja eldri minjar, sem nú eru horfnar.
Útgefnum kortum hefur verið komið fyrir á sérstökum upplýsingaskiltum á sérhverjum stað. Þar er fjallað nánar um búsetu- og atvinnusöguna og tengsl minjanna og örnefnanna við hvorutveggja.
Kortin fást í Saltfisksetri Íslands.

Grinndavík

Grindavík – sögu og minjakort.

Ölfusvegir

Ætlunin var að rekja gamla þjóðleið frá mótum Ölfusár (ferjustað við Hraun) yfir Hraunsheiði og áfram áleiðis að Litlalandi þar sem hún tengist Ólafsskarðsvegi. Að öllum líkindum tengist hún þjóðsögunni um Draugshelli, sem var áningarstaður ferðamanna á þessari leið fyrr á öldum, auk þess sem hún kemur við sögu lykla bryta í Skálholti. Gatan er ekki merkt inn á kort. En þrátt fyrir sandfok á heiðinni mun gatan enn augljós, ef vel er að gáð.
Draugs-2Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. “Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri.

olfusvegir-2

Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. “Bessaleyfi hér á híbýlum,” segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.
Olfusvegir-3Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, “en ég mun,” segir hann, “fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.”
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: “Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.” 

Olfusvegir-4

Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: “Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.”. “Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,” segir Björn. “Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.” Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.”
Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-

Olfusvegir-5

Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.
Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal, Ólafsskarðveg, og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Mælifellssand syðri. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.
Olfusvegir-7Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Fleiri sagnir eru af tilurð nafngiftar Lyklafells. Hér verður nefnd ein til viðbótar. Sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat.
Olfusvegir-8

Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu. Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.

Olfusvegir-9

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um þetta svæði: “Norðvestur frá Stekkatúni er varða sem heitir Beinteinsvarða. Stendur hún við götuna þar sem skiptast leiðir, upp á eystri Hlíðarbæina, og syðri gatan, á ytri Hlíðarbæi. Á klöppina sem Beinteinsvarða stendur á er klappað M. Norðaustur frá Beinteinsvörðu er hólaþyrping sem heitir Miðþúfur, eða í eintölu Miðþúfa. Fyrir framan Sandamót er áberandi varða suðvestur frá bænum, hún heitir Nónvarða.”
Örnefnalýsing fyrir Litlaland: “Niðri á Sandi, niður undir Leirum, er varða í mörkum Litlalands, Breiðabólsstaðar og Þorlákshafnar. Hún heitir Varða í Hálfförum. Um 50 m austan við Þorlákshafnarveg, álíka sunnarlega á Sandinum og nýnefnd varða, er lágur klapparhóll, sem Guðmundur Jónsson frá Læk, lengi vinnumaður í Þorlákshöfn og Vindheimum, síðar bóndi í Þorlákshöfn segir að heiti Hálffarahóll .”
Örnefnalýsing Vindheima og Breiðabólsstaðar: “Vestan-suðvestan við Dagmálahæð er önnur klöpp, lægri og minni. Hún heitir Litla-Dagmála-hæð. Á milli Dagmálahæðanna er gata, engjavegur frá Austur-Hlíðarbæjunum í Naut-eyrar, og að Hrauni.
Suðvestur frá Dagmálahæð er lægð sem hOlfusvegir-6eitir Siggulág. Suðvestan við hana eru Þrívörður, og í norður frá Þrívörðum er Stekkjartún, ekki langt fyrir sunnan þjóðveginn, suður frá Langamóa. Í vestur frá Stekkjartúni eru enn klappir skammt fyrir sunnan þjóðveg.  Þeir heita Klapparhólar. Vestastur þeirra er stakur hóll, kross-sprunginn. Hann heitir Hádegishóll.
Fyrir austan Grænuflöt og Harðavöll liggur gata beinustu leið til Þorlákshafnar. Heitir hún Hafnarvegur. Vestan við götuna, rétt fyrir sunnan þjóðveginn er Músarhóll, lítill hóll með hundaþúfu á kolli, ofan við Sandamótin. Niðri á Sandi, ofan við Leirur, er varða sem heitir Hálffaravarða eða Varða í Hálfförum.”

Ólafsskarðsvegur er merktur til suðurs austan Geitafells og suður með vestanverðu Búrfelli. Þessi gamla gata liggur hins vegar til suðausturs austan Geitafells og niður heiðina vestan Litlalandsels (nokkru austan Búrfells) og sameinast framangreindri götu yfir Hraunsheiði að Ölfusá. Gatan er áberandi frá Litlalandi að Hrauni (með stefnu á “Vörðu í Hálfförum”), en hverfur í túninu ofan við bæinn. Á austari kafla götunnar hefur vagnvegur verið lagður ofan í gömlu reiðleiðina.
Skammt austan við Þorlákshafnarveg eru gatnamót vegar (Engjavegarins) að Breiðabólastað (Vindheimum), við svonefnda Beinsteinsvörðu. Skammt norðar er mest áberandi varðan í heiðinni, Nónvarðan. Gatnamótin eru á tveimur stöðum með skömmu millibili, en gatan sameinast á móts við núverandi þjóðveg að Þorlákshöfn. Mjög auðvelt er að fylgja götunni. Efst á Hraunsheiði er fallin varða við götuna, sem hefur verið kennileiti ef farið hefur verið frá Breiðabólsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Herforningjaráðskort frá 1909.

Litlaland

Litlaland.

Sandgerðisvegur

Lagt var síðdegis af stað frá Bjarmalandi 5 í Sandgerði. Íbúandi eru Reynir Sveinsson og Día, konan hans. Ætlunin var að fylgja hinni gömlu Sandgerðisgötu frá Sandgerði til Keflavíkur. Gatan var sögð vera víða vel greinanleg og vörðuð þótt sumar vörðurnar væru fallnar og sums staðar hafi verið rótað í henni með stórvirkum tækjum. Í raun verður gatan ekki rakin nema af leiðsögumönnum eða öðrum kunnugum nú til dags svo vel sé.

Digravarða

Digravarða.

Stefnan var tekin upp heiðina, um malargryfjur og slóða þar við sem vængbrotinn veiðibjölluungi kúrði í háu grasi, en fá dauðleg merki, hvorki vörður né vörðubrot, gáfu gamla þjóðleið til kynna þarna upp Miðnesheiðina. Digravarða er áberandi kennileiti í heiðinni, en hún var endurhlaðin fyrir skömmu. Þó má enn sjá leifar gömlu hleðslunnar. Á henni sést vel umfang þessa forna siglingamerkis og viðmiðs. Sumir hafa viljað skipta á Digruvörðu og rostungnum í skjaldarmerki kaupstaðarins, en það sýnir vel hversu mikilvægu hlutverki varðan hefur gegnt í gegnum tíðina.
Ofar í heiðinni fannst stakt vörðubrot, en svo virtist sem þar væri á ferð hluti leiðar yfir í Garð. Sá hluti hennar sást vel þegar skoðað var bæjarstæði Skálareykja á dögunum, en þá bar gamla leið í landið til suðurs upp heiðina, áleiðis að Sjónarhól, og áfram til suðurs vestan við Þrívörður.
Bæjarmerki Rockville var barið augum sem og vörðuminnismerkið norðan þess. Það er dæmigert fyrir einstakt þarfaverk nútíma hugdettu, en tengist ekki þörfinni á gerð leiðarmerkja fyrri tíma.

Gotuvarða

Gotuvarða.

Reynar er orðið áberandi hversu duglegt nútímafólk er að hlaða vörður til minningar um veru sína á tilteknum stöðum þá stundina, en gleymir að vörður voru fyrrum hlaðnar í nauðsynlegum tilgangi, þ.e. að auðvelda fólki að rata milli staða. Í slæmum veðrum eða lélegu skyggni gátu vel hlaðnar vörður með stuttu millibili skipt sköpum um líf eða dauða. Gamlar vörður höfðu tilgang og gefa nútímafólki til kynna að þar við sé eitthvað sem vert er að gefa nánari gaum.
Ákveðið var að ganga yfir að Gotvörðunni gegnt gatnamótum Miðnesheiðarvegar og vegar áleiðis að Grófinni í Keflavík. Gotvarðan er tiltölulega nýlega endurhlaðin af Sigurði Eiríkssyni frá Norðurkoti og Guðmundi Sigurbergssyni. Í vörðunni er skilti með nafni vörðunnar. Sandgerðisvegurinn gamli liggur beggja vegna vörðunnar. Skammt vestan hennar er varða norðan vegarins, Einmenningsvarða á Einmenningshól.
Milli varðanna eru gatnamót Sandgerðisgötu og Fuglavíkurleiðar. Hún kvíslast niður heiðina, fyrst til norðveturs og síðan til vesturs niður að Norðurkoti og Fuglavík. Bæði austast og vestast er erfitt að greina leiðina vegna jarðvegseyðingar á heiðinni, en ef vel er gaumgæft er tiltölulega auðvelt að rekja sig eftir henni Sigurður þekkir leiðina vel. Hann hafði sett í hana hæla til að auðvelda eftirfylgnina, en nýlega tók hann þá upp svo nú er öllu erfiðara ókunnugum að rata þessa gömlu þjóðleið um annars kennilausalitla heiðina.

Dauðsmannsvarða

Efri-Dauðsmannvarða við Sandgerðisveg.

Sandgerðisleiðinni var fylgt til noðrvesturs. Hún fer undir Miðnesheiðaveginn nálægt bæjarmörkum Sandgerðis (skilti norðan vegarins), og fylgir síðan veginum framhjá Grímsvörðum. Þar eru nú á lágu klapparholti “sýnishorn” af vörðunum tveimur, sem þar voru fyrrum, en voru fjarlægðar og notaðar til vegagerðar. Skammt vestan vegar að að einni “hlustunarstöð varnarliðsins” fer gamla þjóðleiðin undir núverandi þjóðveg. Vestan vegar að “hlustunarstöð varnarliðsins” sunnan þjóðvegarins fer gamla þjóðleiðin aftur undir þjóðveginn og inn í beitarhólfið, sem þar er. Þarna vantar tröppu. Innan beitarhólfsins er auðvelt að fylga leiðinni því vörðubrot gefa auk þess legu henar til kynna. Skammt sunnar á holti eru hlaðin byrgi verndaranna þar sem þeir hafa verið við æfingar.
Þjóðleiðini var fylgt niður með Draugaskörðum. Á þeim er endurhlaðin varða; Dauðsmannsvarðan efri. Vestan hennar liggur Sandgerðisvegurinn enn undir núverandi Miðnesheiðarveg, að Vegamótahól. Þarna vantar tröppu.
Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sét vel til Digruvörðu í heiðinni.
Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.
Gamla Sangerðisleiðin var rakin niður heiðina, áleiðis að Sandgerði. Tiltölulega auðvelt er að fylga henni þrátt fyrir jarðrask ofan við byggðina. Gatan gefur sjálfa sig tiltölulega vel til kynna. Hún liggur svo til beint að svæði milli 3-4 húss efst í byggðinni, 20-30 metrum ofan hennar. Þar þyrfti, öðrum til göggvunar, að hlaða vörðu.
Sandgerðisgata ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir þeim, sem auðvelt eiga með að lesa landið. Fróðlegt er að ganga þessa leið milli Sandgerðis og Keflavíkur, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umferðar fólks, sem var um heiðina fyrrum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Sjá MYNDIR.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Strýthólahraun.

Eftirfarandi er megininntak erindis, sem einn FERLIRsfélaganna flutti á opinni ráðstefnu Landverndar um þá framtíðarsýn að Reykjanesskagi verði eldfjallagarður og Handritfólkvangur. Ráðstefnan var haldin í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju 24. febr. 2007:

Reykjanesskaginn geymir miklar náttúru- og mannvistarminjar – mikil verðmæti. Með sanni má segja að á svæðinu megi sjá minjar um svo til alla búsetu- og atvinnusögu þess frá upphafi landnáms hér á landi.
Skaginn – hið forna landnám Ingólfs – er vestan línu sem dregin er frá  Botni að Ölfusrárósum.
Á þessu svæði búa nú, árið 2007, um 207.000 manns. Það skapar bæði möguleika í verulegra góðri nýtingu, en einnig þörf á yfirveguðum varnaraðgerðum.
Hópur fólks, FERLIR, hefur endurkannað landnámið markvisst og skipulega í nokkur ár, leitað uppi minjar, skoðað, myndað og skráð þær.
“Reykjanesskaginn er alger auð” og þar er ekkert merkilegt að sjá”. Þetta má sjá í ferðabók fyrr á öldum. Segja má að viðhorfið hafi lítið breyst  – hjá mörgum.
Það sem flest fólk sér á ferð sinni um svæðið eru þjóðvegir og háspennumöstur – og kannski hraun og stöku fjall.
Svæðinu hefur verið raskað, oft að óþörfu og stundum án tilskilinna leyfa.
Margar hinna merkilegu mannvistaleifa eru vanræktar (Kapellan á Hraunssandi).
StakkavíkurselAðrar hafa verið skemmdar án nokkurrar skynsamlegrar hugsunar.
Svæðið hefur fjöldamargar mannvistaminjar að geyma. Segja má að hvar sem stigið er niður fæti megi sjá ummerki eftir forfeður og –mæður.
Minjarnar eru engu ómerkilegri en hin fornu handrit. Þau eru skráð í leður. Bæði letur og skinnin eru mannanna verk. Það eru aðrar minjar líka. Þær eru úr efni, sem fólkið nýtti sér, efni sem landið gaf af sér, mest grjót, torf og timbur. Úr því má enn lesa sögu fólksins, hagi þess og aðstæður á hverjum tíma. Engum dytti í hug að rífa blað úr fornu handriti. Með því hyrfi hluti sögunnar.
Fortíðin skiptir máli. Minjarnar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Með sanni má segja að gömul hús eru bæði minnismerki um fortíðina og arfleifð fortíðar, einkum kirkjurnar.
Af sömu hvötum hefur verið reynt að gera upp gömul hús í upprunalegri mynd.
En uppruninn, algerlega ósnertur, liggur víðar. Áþreifanleiki hans felst í minjunum, sem víða leynast.
Í minjunum felast mikil verðmæti, bæði umhverfisleg og söguleg. Náttúruminjar gleðja augað, fylla okkur stollti á landinu okkar og skapa atvinnu. Mannvistaminjar eru áþreifanleg tengsl okkar við fortíðina.
Án fortíðar er framtíðin lítils virði.

Álftanes

Álftanes – varðskýli í Camp Brighton.

Garðsstígur
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gefið út gönguleiðabækling fyrir gömlu leiðina, Garðsstíg, milli Garðs og Grófarinnar í Keflavík.
GarðsstígurNágrenni Garðs hefur upp á fjölmargt að bjóða eins og kemur fram hér á vefsíðunni, hvort sem um er að ræða sögu, náttúru og umhverfi. Í bæklingnum er fróðleikur um framangreint er nýtist útivistarfólki, sem hefur áhuga á að ganga þessa gömlu leið, sem enn sést víða í móanum. Við hana eru enn heilar og fallnar vörður er gefa hana til kynna. Sögulegir staðir eru tilgreindir við númeraðar stikur er marka leiðina með jöfnu millibili svo auðvelt er fyrir hvern og einn að átta sig á aðstæðum og umhverfi.
Í bígerð er að gefa út fleiri sambærilega bæklinga um aðrar þekktar leiðir á Reykjanesskaga.
Hraunssel

Á vefsíðunni “Wikipedia.org” er fjallað um sel hér á landi. Vitnað er í bók Birnu Lárusdóttur, “Mannvist” (2011).

Sel

Sel á Reykjanesskaga – yfirlit 2022.

FERLIRSfélagar hafa löngum leitað uppi sel á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs. Samantekt á fjölda seljanna telur nú 407 slík. Selin hafa jöfnum höndum fundist með vísan í skriflegar heimildir, við leitir á þekktum örnefnastöðum, eftir fróðra manna/kvenna lýsingum og á göngum um líklegar selstöðuslóðir. Í flestum seljum á svæðinu eru þrjú hús; baðstofa, búr og eldhús, stekkur, vatnsból eða lækur, varða, nátthagi, smalabyrgi, fjárskjól og að sjálfsögðu stígur að og frá aðstöðunni. Sumsstaðar er um þyrpingu selja að ræða. Heimasel, sem voru nálægt bæjum, höfðu önnur einkenni, þ.e. einungis stekk við vatnsból sem og skjól. Selshúsin voru yfirleit í skjóli vestan undir hlíð, hól, hamravegg eða hæð til að losna við álag fyrir vindum og regni austanáttarinnar.
Fleiri en ein selstaða gat verið frá sama bæ, allt upp í fjórar, á mismunandi stöðum. Jafnan voru selin á ystu mörkum bæjanna líkt og jarðeigandinn vildi með því undirstrika eingnarhald sitt á landssvæðinu. Þá voru selstöður hafðar í skiptum, þ.e. bóndi fékk útræði eða önnur hlunnindi frá öðrum í staðinn fyrir selstöðu i eigin landi.
Þótt selin á Reykjanesskaganum virðast lík að uppbyggingu og gerð má bæði sjá mun á þeim m.t.t. mismunandi aldurs og landshluta. Þannig eru selin í nyrðri fjalla- og heiðarhlutanum ólík þeim í suðurhlutanum þar sem hraunin réðu mestu um gerð og staðsetningu. Hraunin nýttust t.d. betur til nýtingar fjárskjóla og nátthaga, auk þess erfiða var þar um vatnsöflun.
Sel voru einning nýtt til annarra hluta, s.s. til kolagerðar, fugla- og eggjatekju, heyöflunar og og móskurðar. Þó eru þó tiltölulega fá á Skaganum.

“Sel voru hús sem voru nýtt til seljabúskapar á Íslandi og víðar um Evrópu, einkum í fjallendi. Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi snemma á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap fólst það að mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, voru reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina.

Fólk af bænum, gjarnan vinnukonur ásamt smala, höfðust við í selinu á meðan og hirtu um skepnurnar. Sel voru gjarnan fjarri bæjunum, t.d. í afskekktum fjalladölum, og nýttu þannig beitiland sem annars hefði verið óaðgengilegt; þannig voru selin eins konar árstíðabundin útibú bæjanna.

Einkenni selja
Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og mjólkurhús. Utandyra voru yfirleitt kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar. Seljarústir sem rannsakaðar hafa verið af fornleifafræðingum staðfesta þetta að nokkru leyti, því algengt er að rústirnar skiptist í þrjú hólf. Í tíunda hluta rústanna er þó aðeins eitt hólf en í sumum geta verið fleiri en tíu. Sel hafa því verið nokkuð breytileg að stærð, væntanlega eftir efnum bæjanna, fjölda vinnufólks eða annarra staðbundinna þátta.

Uppgreftir
Aðeins einn uppgröftur hefur farið fram á rústum sem teljast hafa verið sel: Pálstóftir við Kárahnjúka, en uppgröfturinn fór fram áður en svæðinu var sökkt í Hálslón vegna virkjunarframkvæmda við Kárahnjúka. Selið hafði verið í notkun á tímabilinu 950-1070 og samanstóð af einni þrískiptri rúst og annari stakri, auk einhvers konar fjárrétta fyrir utan. Regluleg áfokslög milli gólflaga bentu til að selið hafi (eðlilega) aðeins verið í notkun árstíðabundið. Einnig fundust merki þess að íbúar selsins hafi stundað veiðar á fuglum, jafnvel til að safna vetrarbirgðum. Þó er ólíklegt að selið hafi í raun aðeins verið veiðikofi því þar fundust einnig ýmis konar áhöld, myntir og skartgripir sem höfðu verið smíðaðir á staðnum, en þetta bendir til langtímadvalar á staðnum.

Fleiri líklegar selrústir hafa verið rannsakaðar að einhverju marki, t.d. Hólasel í Eyjafirði og fjórar selrústir í Mývatnssveit: Arnarvatnssel, Gautlandasel, Sellandasel og Sandvatnssel, auk tveggja selja í Kjarardal, Borgarfirði, sem heyrðu undir Reykholt. Aldursgreining á þessum rústum bendir til að selin hafi verið byggð fyrir 1300.

Dreifing
Ritheimildir, t.d. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, benda til að sel hafi verið mjög misalgeng eftir landshlutum, t.d. hafi meira en helmingur bæja í Dalasýslu haft sel en aðeins 8% í Rangárvallasýslu. Þessi munur kemur hins vegar ekki heim og saman við könnun fornleifa og örnefni, en örnefni tengd seljum eru algeng um allt land. Rétt eins og sel virðast hafa verið breytileg að gerð og stærð, er einnig mjög misjafnt hversu langt þau eru staðsett frá þeim bæjum sem þau heyrðu undir. T.d. er sel við Laxamýri í S-Þingeyjarsýslu aðeins 1 km frá bænum en Garðar og Innri Hólmur á Akranesi áttu sel í allt að 30 km fjarlægð.

Hnignun

Selsmatsselja

Selsmatsselja.

Fornleifafræðingum er ekki að fullu ljóst hvers vegna seljabúskapur lagðist af á Íslandi á 18.-19. öld. Mögulegir þættir sem bent hefur verið á er t.d. fólksfækkun vegna stórubólu, sem gekk yfir landið 1707-1709; eða það að fráfærur lögðust af á sama tíma, samfara aukinni kjötframleiðslu. Undir lok 18. aldar þótti ýmsum sýnilega miður að seljabúskapurinn væri að leggjast af og reyndu að halda á lofti kostum hans í riti.”

Af 407 seljum á Reykjanesskaganum hafa einungis 5 verið eyðilögð; öll vegna misskilnings eða vanþekkingar. Mikilvægt er að gæta vel að varðveislu þessara minja, sem hafa verið fylgifiskar búsetu allt frá því að land byggðist. Þótt margir hafi komið að rannsóknum á seljabúskap hér á landi eru mörgu enn ólokið í þeim efnum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Sel

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Lyngfell

 Ætlunin var að ganga eftir hluta af svonefndum Sandakravegi, þ.e. frá Kasti, yfir Dalahraun og áleiðis að Skógfellavegi, sem liggur þar millum Stóra- og Litla Skógfells á leiðinni frá Grindavík í Voga.
Sandakravegur var forn þjóðleið vermanna sem komu af Suðurlandi um Krýsuvíkurveg á leið í Voga eða norður á nes. Beinvarðan? - Kast framundanLeiðin lá frá Slögu norður með Borgarfjalli, með brún Litla-Borgarhrauns undir hlíðum Borgarfjalls, um Nátthagakrika sunnan Einbúa og að Kasti, sem er suðvestasti hluti Fagradalsfjalls. Þaðan lá gatan yfir hraunið inn á Skógfellaveg og síðan norður í Voga. Að þessu sinni var gengið frá Móklettum norðan við Lyngfell og Festisfjall, yfir Beinvörðuhraun, framhjá Beinvörðunni að Kasti. Nú voru þátttakendur vel varðir allra veðra Cintamani-fatnaði, en eins og ljóst má vera urðu ferðalangar fyrrum úti á þessum leiðum eða bara dóu, eins og gengur. Til er frásögn erlends ferðamanns á leið til Krýsuvíkur. Kom hann að látinni konu, sem legið hafði lengi óhreyfð við þjóðleiðina. Hvers vegna ættu ferðalangar að taka með sér löngu látið fólk, sem það þekkti ekkert. Einfaldara var að hylja það með grjóti, en sjá má slíkar grjóthrúgur á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. við Sandakraveginn, Fógetastíginn í Gálgahrauni, Garðsstíginn, Sandgerðisgötuna og Undirhlíðaleiðina, svo einhverjar séu nefndar. Við Garðagötuna er t.a.m. Mæðgnadysin og við kirkjugötuna frá Hraunsholti að Görðum er Völvuleiði. Að vísu var erfiðara að greina kennimerki við aðstæður, sem nú voru til staðar, en jafnan að vorlagi er grónar dysjar verða fyrr grænni en aðrar náttúrulegar “þúfur” við alfaraleiðirnar. Hrossadysjarnar í Slysadal á Dalaleiðinni eru þó jafnan ágætt dæmi þessa allt árið um kring. Þá má og telja líklegt að dysjarnar í Kerlingardal austan við Deildarháls milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur eigi sér slíkt upphaf.
SandhóllSandakravegur er enn í dag djúpt markaður í harða hraunhelluna eftir hófa, klaufir og fætur liðinna kynslóða um aldir. Nú átti að feta í fótspor þessara forfeðra og -mæðra, ganga þetta spölkorn eftir veginum frá Sandhól við Kast yfir á Skógfellaveginn milli Stóra- og Litla-Skógfells. Síðan var ætlunin að kanna hvort önnur leið, jafngreiðfær, gæti legið af Sandakraveginum austan við Skeifu með stefnu til suðurs, stystu leið að gatnamótum Sandakravegar og Kýsuvíkurvegar við Slögu eð Litla-háls.
Nú er búið að stika Sandakraveginn. Þegar byrjað var við stiku nr. 70 komu fljótlega í ljós nokkrar afvegaleiðanir. Í fyrsta lagi var stikum nr. 71 og 72 ofaukið. Eftir að komið var í skarð á hraunbrúninni lágu tvær stikur til vinstri, en af vörðunum að dæma áttu þær að liggja samhliða þeim beint áfram og síðan til vinstri. Þessar stikur voru augljós villa og voru því lagfærðar. Þá voru stikur látnar í framhaldinu fylgja seinni tíma mosaslóð, en vörðubrot í svo til beina stefnu á myndarlega vörðu á hraunhól gátu fyrrum legu vegarins til kynna.
Þegar gangan hófst við, eða réttara sagt skammt norðan við Sandhól, komu í ljós tvær sandbrunabungur (Sandhólinn hærri) er gengið höfðu út undan Kasti. Þegar hraunið rann að Fagradalsfjalli, og þar með Kasti, hefur það nánast náð að umlykja hólana. Sandhóllinn hefur fengið nafn, bæði vegna þess hversu áberandi kennileiti hann er þarna í hrauninu og auk þess hefur hann verið þörf “vegstika” á leið um veginn.
Skjól við SandakravegSkammt norðvestar er farið um fyrrnefnt skarð. Skammt sunnan þess er skjól í vegg hrauntraðar. Opið snýr til vesturs, en í austurenda þess hefur verið fyrirhleðsla, nú að hluta til fallin. Þarna hefur verið bæði hið ágætasta skjól fyrir tvo menn og útsýni yfir veginn framundan, tilvaldið til að staldra við í og bíða eftir þeim, sem hægara fóru.
Þá tóku við tiltölulega slétt mosahraun. Vörður og vörðubrot gefa veginn glögglega til kynna. Á lágum hraunhól er varða. Frá henni má bæði sjó vörðu neðan við hraunbrúnina í suðaustri og aðra á hraunbrún í norðvestri. Þegar komið er udnir síðanefndu hraunbrúnina sást, áður en varðan kemur í ljós, tvær ílangar þunnar hraunhellur, sem reistar hafa verið upp á endann, og púkkað með. Ofar liggur vegurinn um skarð og síðan um mosahraun áður en komið er inn í stóran helluhraunsdal. Frá fyrstu skrefum þar til þess síðasta er Sandakravegurinn klappaður í hraunhelluna. Norðvestan hennar er varða á hraunbrún, en frá henni hallar vegurinn áleiðis niður að Skógfellavegi. Hann hvarfur að vísu á stuttum köflum undir mosa, en auðvelt er að finna hann aftur ef hallað er að Litla-Skógfelli. Þar sem vegirnir mætast liggja þeir samhliða á kafla uns þeir falla saman í einn veg.
Sandakravegurinn hefur verið fjölfarinn um langan tíma, ummerkin sýna það. Einungis austasti kaflinn er minna markaður, líkt og Skógfellavegurinn er sunnan við gatnamótin.
Varða við SandakravegSkógfellahraunið er um 3000 ára gamalt. Sandakravegurinn milli Stóra-Skógfells og langleiðina að Sandhól er markaður á sama hátt í slétta klöpp Dalahrauns. Af ummerkjum að dæma virðist þarna vera um sömu götuna að ræða. Hún gæti því hafa hafa verið nefnd öðru nafni fyrrum og verið aðalþjóðleiðin á umferð milli Suðurstrandarinnar og Útnesjanna. Skýringar á því að syðsti hluti Skógfellavegar er ógreinilegri gæti verið sú að tíð og langvarandi eldsumbrot á því svæði hafi lagt af ferðir þangað, yfirborð svæðisins er apal- og brunahraun auk þess sem ösku- og gjóskulög gætu hafa lagst yfir eldri eldri leið, sem þar var.
Hinar fornu götur, Skógfellavegur og Sandakravegur eru því mjög merkilegar fornleifar, sem ástæða er til að varðveita. Reyndar má telja þessar tvær götur meðal merkustu fornleifa landsins.
Sesselja Guðmundsdóttir þekkir vel til örnefna og minja í Vatnsleysustrandarhreppslandi sem og víðar. Um Sandakraveg sagði hún m.a. þetta: “Í upphafi heyrði ég Einar Egils hjá Útivist tala um Sandakraveginn fyrir tugum ára. Ég sá hann fyrst fyrir ca. 15 árum, en fann ekki nyrsta hluta hans fyrr en fyrir ca. 4 árum. Það sem ruglaði flesta í upphafi var að kort sögðu hann á röngum stað, t.d. kort frá 1910 og með því byrjar villan. Ásgeir Sæmundsson (1915-1992) frá Minni-Vogum talar um þennan veg á segulbandsupptöku (segir hann mjög klappaðan), sem ég á, og Ísólfur á Skála líka.
Greinin hans Gísla pól í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1972 nefnir þennan veg og kort Hraunhellurnar við SandakravegBjörns Gunnlaugssonar setja hann inn á réttan stað og sóknarlýsingar frá 1840. Þær lýsa honum nokkuð vel. Lárus á Brunnastöðum sem og gamlir malar sunnar í hreppnum könnuðust aldrei við veg frá Stóru-Aragjá og upp að Nauthólaflötum.”
Vitneskja um “fornar” eða “gamlar” götur á Reykjanesskaganum eru tiltölulega nýjar. Þeirra er ekki getið í fornum heimildum, enda hafa að öllum líkindum þótt svo sjálfsagðar að ekki tæki að fjalla um þær sérstaklega. Fyrstu “ferðamennirnir” hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúrustaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík. Að öðru leyti þótti Reykjanesskaginn líkastur auðn, líkt og Sveinn Pálsson lýsti í ferðabók sinni seint á 19. öld; “hér er ekkert merkilegt að sjá…”, auk þess sem hann sagði Gullbringusýslu “ljóta á að líta”.
Þrátt fyrir heimildarleysið hafa landsmenn ferðast af nauðsyn milli tiltekinna staða með ströndinni og stranda á millum um aldir – eða allt frá landnámi á 9. öld, eða jafnvel lengur. Þegar meiri festa komst á samfélagsmyndina og tilteknir staðir urðu ráðandi forðabúr svæðisins og aðrir ákveðnir stjórnsýslustaðir komust á fastar og hefðbundnar ferðir starfsfólks að og frá þeim, sem og fólks er sótti þangað varning, stundum í löngum lestum, s.s. að Seltöngum og í aðrar verstöðvar og verslunarstaði.

Varða við Sandakraveg

Yfirleitt var reynt að velja greiðfærustu leiðirnar á milli staða, jafnvel þótt lengri væru en þær beinustu. Reynt var að krækja framhjá úfnum og torfærum hraunum, sléttlendi frekar valið fyrir fótgangandi tvífætlinga og gróðurræmur fyrir fjórfætlinga. Vel var gætt að því að “halda hæð” svo ekki væri verið að fara að óþörfu upp og niður hæðirog lægðir. Slíkt krafðist orku, en mikilvægt var að lá fyrirliggjandi orkuöflun nýtast sem best í ferðinni hverju sinni. Hver fylgdi öðrum. Smám saman mynduðust mjóar götur í harða hraunhelluna þar sem umferðin var mest og samfeldust. Hafa ber í huga að ný hraun voru að renna um Skagann fram á ofanverða 12. öld og hiti hefur verið í þeim allt fram á framverða 13. öld. Helluhraunið milli Stakkavíkur og Herdísarvíkur er gott dæmi um breytta þjóðleið vegna eldgosa á nútíma. Einnig Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun), auk hraunanna ofan við Grindavík (Sundhnúkahraun, Illahraun og Afstapahraun sem og Eldvarpahraunin síðustu).
Eftir að þær mörgu “gömlu” götur á Reykjanesskaganum hafa verið skoðaðar hefur vaknað grunur um að hlutar sumra þeirra séu hluti af mun eldri, almennari og lengri leiðum – gleymdum götum, sem legið hafa frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin. Þar hefur t.a.m. Krýsuvíkurleiðir, sem á seinni aldarmisserum hafa verið skráðar sérstaklega vegna tengsla, vitneskju eða áhuga manna á þeim, einungis verið hliðarstígar af almennari leiðum sem og margar aðrar götur, þ.á.m. Þórustaðastígurinn, Breiðagerðisstígurinn, Hrauntungustígurinn, Skógargatan o.fl.. Líklegt er, miðað við ummerki, að Krýsuvíkurleið með Suðurströndinni hafi verið ein aðalleiðanna frá og til sveitanna Sunnanlands.

Varða við Sandakraveg

Svo hefur einnig verið um Sandakraveg, hluta Skógfellastígs, götu um Brúnir sunnan Keilis, götur með Hálsunum, götu að og frá Selsvöllum svo og götu um Lambafell og Mosa sem annar hluti að vestanverðri Alfaraleiðinni til Reykjavíkur, heimkynna allsherjagoðans, og síðan Álftaness, aðseturs yfirvaldsins. Þessar götur eru hvað mest klappaðar í hraunhelluna. Sumar sjást nú einungis að hluta eða á köflum og líklegt má telja að elstu göturnar liggi utan þeirra leiða er síðar voru farnar með fé eða til almennra ferðalaga milli svæða.
Þegar haldið var til suðurs um Dalahraunið virtust nokkrar leiðir greiðfærar, a.m.k. langleiðina, en þegar komið var að úfinni hraunbrúninni að austanverðu varð þar torfæri. Ekki er útilokað að þarna kunni að leynast leið upp yfir brúnina því telja verður líklegt að þeir, sem þekktu vel til staðhátta og fóru oft þarna á millum, hafi gjarnan valið stystu leiðina til að spara tíma. Eftir þessa ferð er þó ljóst að stysta leiðin er ekki alltaf sú orkusparnaðasta og að þeir, sem um götunar fóru, reyndu jafnan að gæta samræmis og meta hvort væri þarfsamara.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst. og 4 mín.

Uppréttar hraunhellur við Sandakraveg - Stóra Skgógfell framundan

Húsatóftir

FERLIR fann fyrir allnokkru hlaðna refagildru ofan við Húsatóptir við Grindavík. Þegar svæðið var skoðað betur fyrir skemmstu komu í ljós tvær aðrar til viðbótar og líklegt má telja að þar kunni að leynast fleiri slíkar.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Auk refagildranna ofan við Húsatóptir eru fleiri hlaðnar refagildrur við Grindavík, s.s. í Básum ofan við Staðarberg, í Sundvörðuhrauni skammt ofan Húsatófta og við Sandleyni ofan við Hraun.
Hinar hlöðnu refagildrur eru leifar gamalla veiðiaðferða, áður en skotvopnið, eitrið og dýrabogar komu til sögunnar – sumir telja hugmyndina hafa komið hingað með landnámsmönnum því slíkar gildrur tíðkuðust þá t.a.m. í Noregi. Skrifaðar heimildir eru um þær frá árunum 1781-1798.
Refagildra er sjaldan getið í örnefnaskrám. Þó má sjá þess merki, s.s. í örnefalýsingu fyrir Tannastaði: “Stekkjarhóll er til landnorðurs frá bænum. Á honum eru tvær fuglaþúfur og var þar áður refagildra undir nyrðri þúfunni. Sunnan undir þúfunni var stekkjað um 1840 og eru glöggar tóftir síðan. En litlu norðar eru mjög gamlar tóftir eða vottur þeirra, sem vel gætu verið frá fornöld.”
Refagildra
Í fornleifafræðiorðasafni Fornleifafræðistofnunar Íslands segir um gildrur þessar: tófugildra – Gildra til að veiða í refi. [skýr.] Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni. [enska] fox trap
Fyrir nokkrum áratugum þótti það í frásögu færandi, og jafnvel einstakt, að til væri hlaðin refagildra er líklegt þótti að gæti verið með sama lagi og slíkar gildrur voru gerðar í Noregi og síðan hér á landi að þeirra fyrirmynd. Var einkum vitnað til slíkra fornminja er til væru á Norðausturlandi, einkum Merrakkasléttu.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Ef Reykjanesið – hið jafnumkunnugulega og ómerkilega til langs tíma – er skoðað gaumgæflega má þar finna ótal slíkar hlaðnar refagildrur. A.m.k. 80 slíkar hafa opinberast ásjónum leitenda s.l. misseri – þær síðustu hér tilgreindar ofan Húsatófta.
Í örnefnalýsingum fyrir Húsatóptir er engin lýsing á refagildrum. Sennilega hafa þær þótt svo sjálfsagðar sem raun ber vitni. Í einni lýsingu er þó talað um Baðstofugreni norðan Baðstofu, auk annarra grenja fjær bænum, s.s. við Sandfell og Rauðhól.
Hinar hlöðnu refagildrur, sem skoðaðar hafa verið, voru jafnan þannig; hlaðið var “grunnlag”; annað hvort í lægð (“láfótan lægðirnar smjó”), á barmi gjár, við bakka eða á annarri líklegri leið rebba (sem jafnan er stundvís sem klukkan). Gildran sjálf var þannig; hlaðinn gangur (ca. 1 m langur, 10 cm breiður og 20 cm hár). Þá var reft yfir með steinum eða hellum svo rebbi gæti ekki lyft af sér okinu þegar á reyndi. Oft var vel hlaðið ofan á og til hliða, enda af nógu grjóti af að taka.

Refagildra

Refagildra – teikning.

Virkni: Þegar gangur og yfirhleðsla höfðu verið fullkomnuð var tekin fram “fallhellan” ógurlega (ekki ómerkilegri en nafna hennar í frönsku fallöxinni. Tveimur öflugum steinum var komið fyrir sitt hvoru megin framan við opið. Fallhellan var “krossbundin” og þráður lagður í “hæl” innan í gildrunni. Hnútnum var haganlega fyrir komið. Í hinn endann var hnýtt hluti rjúpu eða af örðu agni. Þegar refurinn greip agnið og togaði í það hljóp lykkjan af hælnum. Við það féll fallhellan niður og refurinn var innikróaður. Hann reyndi að fra til baka,e n fallhellan hindraði hann í því. Þá reyndi hann að lyfta okinu af sér, en þunginn kom í veg fyrir að það tækis. Smám saman þvarr rebba kraftur og hann lagðist niður, beið og dó síðan – smám saman – úr hungri. Þá var hann sóttur í gildruna, skottið sniðið af og hræinu hent. Að vísu var skinninu haldið til haga um skeið (dæmi eru um að því sem og skottinu hafi verið jafnað við vermæti “skagfirsks gæðings” fyrrum), en það breyttist smám saman uns lítið varð að öngvu – nema áhuganum.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

“Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld. Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis. Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni Á refaslóðum, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.

Tyrkjabyrgi

Refagildra við “Tyrkjabyrgin” ofan Húsatófta.

Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. Aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu öld að minnsta kosti.

Refagildra

Refagildra.

Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru ar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.

Húsatóftir

Húsatóftir – refagildra.

Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þaim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…
Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.

Refagildra

Refagildra innan dyra.

Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur,s em ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.

Gömlu Hafnir

Refagildra.

Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þanngi hangið uppi. Í tittinn var síðan bunið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftr tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.

Refagildra

Refagildra – Reykjavíkurpósturinn 1847.

Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mútulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.

Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skroðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. Enm í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju áhinum enda bandins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast ofyast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”

Heimildir:
-Síðari hlutinn eru af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.
-Fornleifafræðistofnun Íslands – Fornleifafræðiorðasafn.

Húsatóptir

Húsatóptir – refagildra.

Þórustaðastígur

Í bókinni “Ferðir um Ísland á fyrri tíð” segir Sigurður Jónsson frá Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum frá ferð hans og fleiri að Njarðvíkum, Miðnesi, á Reykjanesskaga þann 24. janúar 1879.
Leiðin, sem þeir félagar fóru, lá um Krýsuvík, Tóftir VigdísarvallaKrýsuvíkurháls, Vigdísarvelli, Móhálsa, með Keili niður á Strönd og áfram að Njarðvíkum. Í bókinni eru nokkrir snjallir íslenzkir ferðaþættir, m.a. eftir Eggert Ólafsson og Pál Ólafsson, sem rituðu um “Skynsemd hesta”, “Svona eru Norðlingarnir” eftir Jón Steingrímsson, “Dálítill ferðaþáttur” eftir Jón Þorsteinsson, “Af eilífum ófrið” eftir Gísla Hjálmarsson, “Fyrsta verzlunarferðin mín” eftir Tryggvi Gunnarsson og í “Í útverum” eftir fyrrnefndan Sigurð Jónsson frá Syðstu-Mörk. Þá eru auk þessa “Sendiförin” eftir Björn Eysteinsson, “Vetrarferð til Reykjavíkur” eftir Matthías Jochumsson, “Suðurferð í Latínuskólann” eftir Friðrik Friðriksson, um “Jón Teitsson á Hafgrímsstöðum”, “Af Árna Oddssyni,  og “Vesturreið Þórðar kakala síðla nóvembermánaðar 1242”.
Hér verður drepið niður í fyrrnefnda leiðarlýsingu Sigurðar Jónssonar eftir að þeir héldu frá Herdísarvík: “Morgunin eftir, löngu fyri dag, lögðum við félagar af stað. Var nú hópurinn stærri. Við vorum níu. Í Krýsuvík komum við er dagur ljómaði. Gengum við á hinn svonefnda Krýsuvíkurháls. Vestan við hálsinn er býli eitt, sem heitir á Vigdísarvöllum. Kom okkur félögum saman um að æja þar, taka dögurð og um leið kaupa kaffi. Lét bóndi það til reiðu, og kostaði tíu aura fyrir hvern okkar.
Gata í Strandarheiði vestan við K eiliEftir að við höfðum hvílt okkur um stund, var lagt á stað hina svonefndu Móhálsa. er það fjallvegur mikill ofan Strandarheiði, niður hjá Keili. Vegur sá er allgreiður, hraun og mosaræmur yfir að fara. Er það óbyggð ein alla leið ofan á Strönd. Um dagsetur komum við suður í Njarðvíkur, eftir seytján klukkutíma göngu. Tókum við gistingu í Tjarnarkoti. Var ég þá allmjög þrekaður. Þar bjó þá hinn héraðskunni höfðingi Arinbjörn Ólafsson og Kristín Björnsdóttir kona hans. Í Tjarnarkoti var á þeirri tíð öllum gisting heimil, sem hafa þurftu, og gestrisni og góðvild framúrskarandi við æðri og lægri.”
Ekki er ljóst hvaða leið þeir félagar hafa valið frá Keili. Þeir gætu hafa farið um Þórustaðastíg, en þó er líklegra að þeir hafi farið sunnan við Keili og þá fylgt götu niður í Breiðagerðissel og áfram niður á Strönd. Þá gætu þeir hafa tekið stefnu á Brunnastaðasel og fylgt selstígnum áfram niður á Strönd og gengið síðan um Stapagötu að Njarðvíkum. Þá er og ekki útilokað að einhverjir ferðalanganna hafi verið allkunnugir af fyrri ferðum sínum um svæðið og bara tekið beina línu frá sunnanverðum Keili að Stapanum, þverað Brúnaveginn á leið sinni og ekki staðnæmst fyrr en á leiðarenda, enda má telja líklegt, ef þeir hefðu valið áðurnefndar götur, að þeir hefðu eftir u.þ.b. 12 klst göngu ákveðið að banka upp á einhverjum bænum á leiðinni, s.s. á Þórustöðum, í Knarrarnesi, í Breiðagerði, á Brunnastöðum eða í Vogum og beðið um viðurgjörning.

Tjarnarkot - tilgátumynd

Það, að þeir skulu hafa þverað Móhálsa ofan Vigdísarvalla, bendir jafnvel til þess að þeir hafi farið stystu leið, komið niður á milli Hraunssels og Selsvalla, haldið auðveldustu leiðina yfir hraunið norðan Hraunssels-Vatnsfells og tekið stefnuna niður á Stönd um Brunnastaðasel eða Vogsel, jafnvel enn sunnar; niður með vestanverðu Kálffelli, um Mosadal, framhjá Snorrastaðatjörnum og stystu leið að Njarðvíkum. Lýsingin, þ.e. að “fjallvegurinn mikill liggi ofan Strandarheiði, niður með Keili”, gæti alveg eins vísað á Strandarheiðina og leiðina.
Einn FERLIRsfélaga telur sig nú hafa staðsett Brúnaveginn, sem framhald af Skógfellastíg ofan Stóru-Aragjár. Erfiðlega hafi tekist að staðsetja hann með vissu því “vinkilbeygja” er á honum þegar komið er að Gjánum. Ætlunin er að skoða aðstæður nánar þar þegar hlánar.

Heimild:
-Finnbogi Guðmundsson og Jóhannes Halldórsson – Ferðir um Ísland á fyrri tíð – Reykjavík: Menningarsjóður 1981.

Selatangar

Á Selatöngum.

Keilisnes

Ofan við Borgarkot, milli Kálfatjarnar og Keilisnes, frá vestri til austurs, í aflíðandi bogadregna línu frá suðaustanverðum túngarði Bakka og Litlabæjar, og síðan austast í línu til norðurs, er u.þ.b. 1.340 m löng stórgipagirðing, gerð af uppreistu grjóti, ca. 0.60-1.00 m háu með jöfnu millibili. Ofan á og ofarlega til hliðar eru greiptar holur og í þær reknir trétappar.
Storgripagriding-222Margir steinanna eru reyndar fallnir, en auðvelt er að rekja þá í landinu þessa leið.
“Stórgripagirðing-una tel ég ekki eldri en frá seinni hluta 19. aldar. Á Viðeyjarklaustur-stímum voru  hungraðir stráklingar notaðir sem fjáryfirsetur. Því ekki til nautayfirsetu á Keilisnesi?  Skynsamlegt er að nota til samarburðar  á stórgripaveldi Kálfatjarnar  og nautaeldistíma Viðeyjarklausturs á Mosfellsheiði, en þar gengu naut frjáls en voru rekin til slátrunar í Marardal við Hengil en þar sést enn til mannvirkja varðandi það (sem og áreiðanlegar ritheimildir).
Tel að ef skoðuð er búfjársaga Færeyja mætti finna álíka Stórgripagirðingu og hér er til umfjöllunar.
Storgripagirding-223Skynsamlegt er að horfa vítt til veggja hvað varðar söguskoðun – og láta skynsemi  ráða en ekki óskhyggju.
Líklega hefur Stórgripagirðingin á Keilisnesi verið  byggð af  stórhugamönnum í lok 19. aldar (flott að ná í vír úr Jamestown-strandinu í Höfnum fyrir lítinn pening og fá ríkisstyrk  út á framkvæmdina),  en aldrei nýst sem slík,  nema fyrir kýrnar á Kálfatjörn sem voru tiltölulega fáar og þurftu enganveginn alla Stórgripagirð-inguna,  nema fyrir það að auðveldara var að ná þeim saman að kvöldi til mjalta.  Vinnan við að safna og reisa steinana hefur ekki verðið mikið verk á þeim tímum, menn notuðu vogarafl samhliða mannafli eins og sést víða í Íslandsögunni. Til samanburðar  má nefna alla túngarða Kálfatjarnar þess tíma.
Storgripagirding-225Nútímamenn gera oft lítið úr verkhyggju og mannafli fyrri tíma.”
Ljóst er að girðingin er yngri en túngarðurinn ofan Bakka og Litlabæjar því ekkert grjót úr girðingunni næst honum hefur verið tekið í vegginn. Þá væri tiltölulega auðvelt að aldursgreina einn trétappa eða fleiri og fá þannig áætlaðan aldur girðingarinnar. Ástand þeirra gefa vísbendingu um að girðingin hafi verið seinna tíma mannvirki, að öllum líkindum frá Kálfatjörn. Enda ólíklegt að til hefðu verið nægilega löng reipi til verskins fyrir þann tíma. Skammt austar, vestan Minni-Vatnsleysu, má sjá hliðstætt mannvirki. Í stað trétappanna voru þar notaðir steypustyrktarteinar.
Þorvaldur Örn Árnason, kennari í Stóru-Vogaskóla benti FERLIR á eftirfarandi:

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.

“Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
“Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.””

Heimild:
-Sesselja Guðmundsdóttir.
-Þorvaldur Örn Árnason.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.