Hraunssel

Gengið var upp frá Mjöltunnuklifi ofan við Ísólfsskálaveg af hinni fornu leið millum Krýsuvíkur og Grindavíkur áleiðis að Hraunsseli undir Núpshlíðarhálsi.
Fyrrum lá selsstígurinn upp með Lyngbrekkum Gnupurúr Drykkjarsteinsdal, Leirdal, ofan Skála-Mælifells og síðan til austurs milli Höfða og Sandfells yfir Grákvíguhraun að Neðri-Þrengslum gegnt Framfelli. Þaðan var stutt í selið. Ef farin var gamla þjóðleiðin um klifið þurfti að fara yfir Leggjabrjótshraun. Vagnvegur var gerður yfir það snemma á þriðja áratug síðustu aldar að boði Hlínar Johnsen, bústýru í Herdísarvík og Krýsuvík. Síðar var vegurinn ruddur með jarðýtu, en hina gömlu göngu- og reiðleið má sjá á köflum norðan hans, einkum á móts við brúnavörður, en þær munu upphaflega hafa varðað þá leið.
Ef haldið er upp með vestanverðum (G)núpshlíðarhálsi er fljótlega komið að Gnúpi; stórum móbergskletti undir hálsinum. Ef að er gáð má sjá að steinninn sá hefur áður staðið á stalli ofar í hálsinum, en einhvern tímann og af einhverri ástæðu fallið af honum og komið „standandi“ niður.

Framfell

Gnúpur er stærsti steinninn undir Gnúpshlíðarhálsi og því hefur verið talið sjálfsagt í virðingarskyni að fornefna hann hálsinum öllum. Rétt er að minna á að Molda-Gnúpur var fyrsti landsnámsmaðurinn á þessu svæði ef marka má Landnámu og Íslendinga-bók. Festi hann búsetu um 930. Telja margir að það hafi verið á svæði undir (G)núpshlíðarjálsi þar sem nú heitir Húshólmi (eða þar í kring).
Haldið var upp með vestanverðum hálsinum, framhjá Lynghvammi, yfir Öxlina og framhjá Framfelli, í gegnum Þrengslin og inn á Hraunsselstúnið.
Í túninu eru greinilegar grónar tóftir tveggja selstaða. Telja má líklegt að þær séu frá Hraunsbæjunum, sem lengst af voru tvíbýli. Syðsta tófin er dæmigerð seinni tíma sel; þrjú rými í reglulegri röð. Vestast er eldhúsið, baðstofan í miðjunni og búrið austast, næst hlíðinni.

Selsvallafj

Miðtóftin er tvískipt; baðstofa og búr austar. Eldhúsið er sjálfstætt skammt norðan hennar. Enn norðar eru leifar af skjóli.
Vestan þessara tófta eru leifar eldra sels. Það hefur verið dæmigert sem slíkt; þrískipt. Enn vestar má sjá hlaðinn stekk. Norðar eru leifar stekkst, sem tilheyrt hefur gamla selinu.
Í örnefnaskrá Gísla Hafliðasonar, bónda, á Hrauni og Guðmundar Guðmundsson bóndi á Ísólfsskála, sem Ari Gíslason skráði, má lesa eftirfarandi:
„Nú byrjum við aftur austur við Núpshlíð, og má vel vera, að eitthvað af því, sem hér verður fyrst talið, sé í landi Ísólfsskála. Núpshlíðin hefur fyrr verið nefnt, og rís hún upp norður af Ögmundarhrauni. Framhald af henni til norðausturs er Núpshlíðarháls, sem hér verður á merkjum móti Krýsuvík. Syðst í Núpshlíð liggur vegurinn til Krýsuvíkur gegnum lægð í hlíðina.

Hraunsse-2

Innan við veginn, inn með hlíðinni, er grasivaxinn hvammur með lynggróðri, og heitir hann Lynghvammur. Hann er beint á móti há-höfðanum, er síðar getur. Krossgil er að austan í hálsinum, en það er að mestu leyti í Krísuvíkurlandi. Vestur af hlíðinni tekur við hraunbreiða nokkur, sem heitir Grákvíguhraun. En norðar er það hraun nú nefnt Skolahraun. Eldra nafn á því mun vera Þráinsskallahraun. Vestan við Grákvíguhraun er Höfðinn, sem er nokkuð hár. Suður úr honum er Méltunnuklifið, er getið var hjá Ísólfsskála. Vestur af Höfðanum er annar hraunstraumur, sem heitir Leggjarbrjótshraun. Í því er nafnlaus mosahóll.

Hraunsse-3

Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni. Sandfellið er stórt fell. Hér nokkru norðar slítur hraunhaft þrengslin í sundur, og heitir þar norðar Selsvallafjall, og Selsvellir er gróið landsvæði þar, fallegt um að sjá.“
Í örnefnalýsingu Lofts Jónssonar segir um þetta svæði sem og svæðið vestan við Núpshlíðarhálsinn: „Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir. Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.

Hraunsse-5

Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.
Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir).

 

Hraunssel-6

Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.
Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.
Austan við Einihlíðar er hraun sem heitir Leggjarbrjótshraun. Austan við það er allhátt fjall sem heitir Höfði og þar norðan við aðskilið af smáskarði er Sandfell. Um þetta skarð og austan við Sandfell er reiðgatan frá Grindavík til Selsvalla. Austan við Höfða er hraun og heitir það Grákvíguhraun. Það nær austur að Núpshlíðarhálsi. Norðar heitir það Skolahraun (eldra nafn Þráinsskallahraun) og nær þessi hraunfláki alla leið inn að Hafnarfirði. Í þessu hrauni suðaustur af Keili er Driffell.
Austan við þetta hraun er mikill fjallarani og skilur hann land á milli Krýsuvíkur, Ísólfsskála Hraunsse-4og Hrauns. Er hann ýmist nefndur Núpshlíðarháls eða Vesturháls.
Selsvellir eru grasi grónir vellir vestur undan Vesturhálsi. Heitir fjallið þar upp af Selsvallafjall. Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel. Nyrsti hluti Selsvalla heitir Kúalágar og þar var hver sem hét Hverinn eini en hann tók af í jarðskjálftum 1910. Þar upp af er hæsti hluti Vesturháls og heitir Trölladyngja (venjulega nefnt Dyngja). Norðaustan við Kúalágar eru Grænavatnseggjar og þar upp á fjallinu er Grænavatn í djúpri kvos. Á Selsvöllum er lækur nefndur Selsvallalækur. Hálsinn á milli Kúalága og Höskuldarvalla heitir Bergsháls.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
Örnefnalýsingar fyrir Hraun (ÖÍ).

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

 

Katanesdýrið

Við Katanes er Katanestjörn þar sem Katanesdýrið sást 1874 til 1876. Í bókinni „Sól skein sunnan“ skrifar Friðrik Sigurbjörnsson m.a. um Katanesdýrið í Katanestjörn, handan Hvalfjarðar gegnt Hvalfjarðareyri.
Var því lýst svo, að það væri á stærð við þrévett naut, aflangt nokkuð með langan haus og hala afarmikinn, á að giska þriggja álna Kiðafell fyrir aldamótin 1900langan, hvítleitt um búkinn, en hausinn rauður. Það hafði sex stórar klær á hverjum fæti eða löpp, en fæturnir stuttir, kjafturinn ákaflega mikill og framtennur fjórar í, miklar og hvassar, eyru hafði það lafandi, en þó sáu menn það reisa þau beint upp. Hvorki sáu menn hár né hreistur á húð þess, heldur því líkast sem hausinn og halinn væri húðlaus og sæi í rauða kvikuna. Það sögðu þeir, sem sáu dýrið í tjörninni, að það synti afarfljótt.
„Hvalfjarðarströndin og vötnin í Leirársveitinni liggja fyrir fótum okkar. Tjörnin, sem Katanesdýrið var í forðum, er þó horfin af sjónarsviðinu. Hann Jón Ólafsson frá Katanesi, sem stundum kallar sig „Skalla“, vann það verk að þurrka hana, ræsa hana fram og fann ekkert dýrið. Þar fór sú þjóðsagan fyrir lítið.
En við skulum samt ræða svolítið nánar um þetta Katanesdýr og uppruna þjóðsögunnar. Fer þar vonum tvennum sögum. Ég heyrði áðurnefndan Jón Ólafsson telja uppruna sögunnar vera lygar tveggja samala, annar var frá Katanesi, en hinn frá næsta bæ, og átti þetta að hafa gerzt rétt fyrir síðustu aldamót.
BókarkápanÍ Landnámu segir frá því, að skozkur maður frá Katanesi, nyrst í Skotlandi, hafi numið land á Kiðafelli. Var hann eini skozki landnámsmaðurinn í hópi hinna mörgu landnámsmanna, sem hingað komu á landnámsöld. Hefur hann sjálfsagt haft með sér geitur, beitt kiðlingum í grösugar brekkur fjallsins fyrir ofan bæinn, m.a. í Löngulág; þar af nafnið Kiðafell. Katanes á Skotlandi er nefnt á enskum landakortum Caithnes, og hafa fjölmargir Íslendingar siglt þar fram hjá, þeir, sem siglt hafa eftir „Pentlinum“ svonefnda. Á Katanesi byggði írskur þjóðflokkur, „Piktar“, á landnámsöld.
Landnáma skýrir einnig frá því, að Svartkell katneski hafi síðar flutt bú sitt að Eyri þar innar við fjörðinn. Sá bær er nefndur eftir eyri þeirri hinni miklu [Hvalfjarðareyri], sem nær langt út í Hvalfjörð. Um ástæður fyrir búferlaflutningunum getur Landnáma ekki. Mætti segja mér, að landsynningurinn ofan af Dýjadalshnúki í Esju hefði eitthvað velgt karli undir uggum við heyskapinn, og hann viljað flytjast eitthvað burtu frá honum.
En nú hagar svo til, að Katanes er rétt handan eyrarinnar, og stutt á milli. Mér finnst þessi staðreynd geta tæpast verið tilviljun einber. Svartkell hefur sjálfsagt frá sínum heimahögum í Skotlandi verið nákunnugur öllum sögnum um skrímslið í Loch Nessvatninu, enda er það ekki fjarri Katanesi hans í Skotlandi.
Finnst mér ekkert líklegra en hann hafi viljað flytja með sér einhverja skrímsasögu hingað til lands, svona til skemmtunar börnum sínum og öðrum sveitungum, hafi verið kunnugt um vötn og tjarnir handan fjarðarins, kallað nesið gegnt Eyri Katanes eftir heimahögum sínum, og komið svo dýrinu fyrir í tjörninni á því nesi.
Katanes-1Nú kann einhver að spyrja, hvort ekki hefði verið nærtækara að koma dýrinu fyrir í Meðalfellsvatni, sem ekki er langt frá Eyri.
En karl hefur sjálfsagt verið stór upp á sig, og að hætti Skota, blátt áfram ekki tímt því að gefa Valþjófi Örlygssyni landnámsmanni á Meðalfelli slíka skrautfjöður í hatt sinn, enda má vel vera, að þeir hafi ekki neinir vinir verið, og þyrfti ekki annað en þeir hefðu deilt út af laxveiði.
Svo sem ég tók fram áður, get ég engin rök fært fram fyrir þessari tilgátu minni um uppruna sögunnar um Katanesdýrið, en byggi þar eingöngu á hugdettum mínum, og því, sem gæti verið sennilegt, ef hugmyndarflugið er látið koma við sögu. En mér finnst skýringin skemmtileg, og einhvern veginn finnst mér hún ekkert ósennilegri en allar hinar, nema síður væri, og læt ég svo staðar numið að segja frá Katanesdýrinu.“
Titill bókarinnar er fengin úr Völuspá, sbr. „áður Burs synir bjöðum um ypptu, þeir er Miðgarð mæran skópu; sól skein sunnan á salar steina, þá var grund gróin grænum lauki“. Margir, beggja vegna Hvalfjarðar, hafa löngum bæði velt fyrir sér og skyggnst eftir Katanesdýrinu. Sumir þeirra segjast hafa séð og hafa geta lýst skepnunni, en aðrir eru þögulir sem gröfin.

Heimild:
-Friðrik Sigurbjörnsson – Sól skein sunnan, Reykjavík 1970, bls. 99-103.

Eitur

Í Dýraverndaranum árið 1957 er m.a. fjallað um þá umdeildu ráðstöfun að eitra fyrir refi:
„Hinn 9. nóvember 1956 birti Þorsteinn Einarsson, ritari Dýraverndunarfélags Íslands, grein í Morgunblaðinu um eitrun þá, sem fjáreigendur í Reykjavík og nágrenni hugðust stofna til í fullkomnu refagildra-339heimildarleysi og í vanþökk bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þorsteinn benti þar meðal annars á, hver óhæfa væri að eitra, meðan leyfðar væru rjúpnaveiðar og búast mætti við, að skotmenn hirtu eitraðar rjúpur, legðu þær sér og sínum til munns eða seldu þær náunganum. Bændur virtu að vettugi fundarboðun fjáreigenda í Reykjavík og nágrenni, og fór ekki fram nein eitrun fyrr en nokkru eftir áramót. Grein Þorsteins vakti mikla og verðuga athygli.
Morgunblaðið birti, hinn 23. desember 1956, grein eftir Þórð bónda Halldórsson á Dagverðará í Breiðavíkurhreppi á Snæfellsnesi, og er fyrirsögn greinarinnar: AUir refirnir orðnir dýrbítir og minkaplágan brátt verri en mæðiveikin. Hann færir rök fyrir því, að með því að minkurinn eyði fuglum, þá hafi refurinn orðið að leita sér meira on áður bráðar í hjarðir bændanna. Hans reynsla er sú — eins og raunar allra annarra, sem ekki eru hreinir og beinir fáráðar í þessum sökum, að alls ekki allir refir hafi verið dýrbítir, og ræðir hann einkum ráð til útrýmingar minkunum, sem fengið hafa — að mestu í friði fyrir forsjármönnum búnaðarins í landinu — að auka kyn sitt og nema nýjar og nýjar lendur. Ráð hans eru sýklahernaður (minkapestarsýklar) og gildrur. Séu gildrurnar búr, þar sem hænsn séu agnið — og þannig um búið, ao hænsnin þurfi ekki að hungra eður þyrsta. Má af þessu marka, að Þórður leggur ekki mikið upp úr gagnsemi eitrunar fyrir refi eða minka.
refur-338Í Tímanum birtist 4. janúar þ. á. grein, sem Hinrik Ívarsson, bóndi í Merkinesi í Höfnum í Gullbringusýslu hefur skrifað. Greinin heitir Eitur eða skot. Hinrik er reyndur og slyngur veiðimaður, og kemur það fram í grein hans, að hann er á sömu skoðun og aðrir, sem bezt þekkja til tófunnar og háttalags henriar. Hann segir meðal annars: „Staðreyndin er, að við drepum ekki bitvargana á eitruðum hræjum.“ Það er með öðrum orðum skoðun hans, að eitrun fyrir refi nái alls ekki tilgangi sínum. Hann bendir á í grein sinni, að hæpið sé að þakka eitrun fækkun refanna um síðustu aldamót. Þá hafi gengið magnað hundafár, og muni það hafa átt drýgstan þáttinn í fækkuninni. Hinrik telur, að grein Þorsteins Einarssonar hafi frekar miðað að verndun manna en refa — og við eyðingu refa megi ekki gæta mannúðar, heldur grimmdar, því að refurinn berjist fyrir tilveru sinni með miskunnarlausu stríði. Þeir, sem draga í efa rök okkar dýraverndunarmanna fyrir gagnsleysi eitrunar gegn refum, ættu að mega treysta orðum Hinriks, sem sannarlega vill tæfu feiga, en er okkur þó fyllilega sammála.
refabyrgi-337Hinn 17. janúar 1957 var í Tímanum grein eftir Guðmund Þorsteinsson frá Lundi, sem hann kallar Eitrun fyrir tófur á víðavangi á eftir að hefna sín geipilega. Guðmundur skorar á fróða menn að upplýsa, „hvort nokkurn tíma hefir nokkur dýrbítur verið unninn með eitri.“ Hann segir það staðreynd í sínu byggðarlagi, „að aldrei voru skæðari dýrbítir en á meðan sem kappsamlegast var eitrað.“ Hann lýsir því og yfir, að hann telji eitrun ómannúðlega, og þar sem hún sé gagnslaus, eigi að leggja hana niður og beita skotvopnum við útrýmingu refa.
Í Morgunblaðinu 23. desember 1956 er grein, sem heitir Er konungur íslenzkra fugla að deyja út? Aðalþættir þessarar greinar eru umsagnir þeirra dr. Finns Guðmundssonar og Magnúsar Jóhannssonar útvarpsvirkja, en hann er frá Skjaldfönn á Langadalsströnd við Ísafjarðardjúp, og við Ísafjörðinn hafa ernir löngum orpið. Báðir þessir menn segja, að örninn sé að deyja út, sé að týnast íslenzkri náttúru eins og geirfuglinn. Orsakirnar eru þeir sammála um. Telja þeir þær vera:
1. Eitrun fyrir refi.
2. Fullorðnir fuglar hafi verið skotnir, eggjum verið rænt og ungar drepnir.
Magnús nefnir ákveðin dæmi þess, að ernir hafi drepizt af eitri, enda eru þeir hræætur. Grein þessi er mjög alvarleg aðvörun til þjóðarinnar um að standa vörð um þær litlu leifar arna, sem ennþá hjara hér á landi, og þá fyrst og fremst ásökunarþrungin áskorun um að hætta að eitra fyrir refi.
Guðmundur Einarsson málari og myndhöggvari birti í Tímanum 23. janúar s.l. grein, sem hann nefnir Eigum við að eitra fyrir landvætti? Feitletrað upphaf greinarinnar er þannig: „Enn sígur á ógæfuhliðina hjá erninum á Íslandi, og munu nú vart yfir 20 fuglar á lífi eða orpið í 7—8 hreiður.“ Ennfremur segir höfundur: „Ég hygg að almennt geri landsmenn sér ekki ljóst, hvað okkar fábreytta dýralíf hefur misst, ef örninn verður aldauða á Íslandi. Er hann þó einn landvættanna.“ Enn stendur í þessari grein: „Eitrun hreinræktar dýrbít, því það eru refirnir, sem sízt eru hræætur.“
Þessi mikilhæfi listamaður kann manna bezt að meta tign og fegurð íslenzkrar náttúru og hefur reynzt mjög áhugasamur um náttúruvernd. Hann er á sama máli og þeir menn í bændastétt, sem bezt þekkja refinn, eðli hans og lifnaðarhætti.“

Heimild:
-Dýraverndarinn 43. árg. 1957, 1. tbl., bls. 14-15.

Eldvörp

Leiðigarður fyrir tófu í Eldvörpum

Strandarkirkja

„Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.“

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Heiðnaberg

Gengið var frá Ræningjastíg í Heiðnabergi við Hælsvík á Krýsuvíkurbjargi undir Skriðu upp að Krýsuvíkurseli ofan við tóftir bæjarins Eyri í austanverðri Selöldu og áfram upp að Krýsuvíkurkirkju þar sem staðnæmst var við svonefnda Ræningjadys eða Ræningjaþúfur undir Ræningjahól.

Eyri

Eyri – tóft,

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“

Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”
Fagurt útsýni var af Heiðnabergi. Sjórinn var ládauður, enda hreyfði ekki vind. Þyrsklingasteinn sást vel utan við vesturendar bjargsins. Litið var eftir Ræningjastígnum. Sjórinn hefur nú brotið af neðri hluta hans í móberginu, en enn má sjá móta fyrir efri hlutanum. Haldið var upp með vestanverðri Skriðu og þá komið að tóftum bæjarins Eyri. Við tóftirnar, sem eru ofan við gamlan lækjarfarveg (hugsanlega fyrri farvegur Eystri-lækjar) má sjá móta fyrir garði og tveimur fjárborgum. Vestan við vestari fjárborgina er tóft, sem gæti annað hvort verið gamalt fjárhús með hlöðu eða heykumli í austurenda eða hreinlega enn eldri tóft. Hún hefur svipaða lögun og ein hinna fornu tófta í Húshólma. Ofan við bæjarstæðið eru sagðar vera rústir gamallar selstöðu frá Krýsuvík, en svo virðist sem réttsköpun sels skorti.

Eyri

Eyri – tóft.

Þær eru nú orðnar að mestu jarðlægar, en þó má sjá móta fyrir þeim, einkum á vorin þegar grasið byrjar að grænka, en þá grænkar það fyrst á tóftunum. Hins vegar er ekki útilokað að bærinn hafi vaxið upp úr hinu gamla seli. Útihús er beggja vegna tóftanna, eitt að vestanverðu og tvö að austanverðu. Bæjartóftirnar sjálfar bera keim af selstöðu, þ.e. þrjú rými og gengið inn í tvö þeirra um sama inngang, eins og svo algengt er í seljum á Reykjanesskaganum. Þar gætu hafa verið svefnaðstaða og búr. Þriðja rýmið hefur sérinngang og gæti það hafa verið eldhúsið.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Haldið var upp eftir heiðinni austan við Selöldu og stefnan tekin á Krýsuvíkurkirkju með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Hún er enn nokkuð heilleg og má vel sjá skipan hennar og fyrirkomulag. Ræningjahóll blasti við. Gömul gróin varða er á hól á leiðinni. Staðnæmst var við dys ræningjanna svo vel mætti gera sér grein fyrir hvernig atlagan hafi verið þarna undir hólnum eftir að hafa mætt þar séra Eiríki, hinum göldrótta presti Krýsvíkinga.
Í lokin var stuttur fyrirlestur í Krýsuvíkurkirkju um Tyrkjaránið.
Spjöll höfðu verið unnin á kirkjunni líkt og heiðnir Tyrkir hefðu verið þar á ferð.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Jón Árnason I 562.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.

Refagildra

Í Litla-Bergþór árið 1933 er m.a. fjallað um veiðar á „Holtaþór„:
„Þó lágfætt sé, þá er tófan afskaplega greint og útsjónarsamt dýr sem lætur ekki hvern sem er snúa á sig og því eru reynslan og þolinmæðin oft það sem miklu máli skiptir til að hafa vinninginn í skákinni. Venjulega tekur tvo til þrjá sólarhringa að vinna greni, en stundum kemur fyrir að það tekst á einum gangi sólar. En ef átt er við mjög stygg og erfið dýr sem kynnst hafa vondu af manninum og sloppið naumlega frá honum, þá getur þetta farið upp í allt að fimm sólarhringa. Margir þættir hafa áhrif á það hvernig gengur á grenjum og hefur veður mikið að segja. Best er að koma að greni í þurru og björtu veðri og góðu logni. í vætutíð er skyggni yfirleitt minna og vosbúðin meiri. Eins er rokið ekki mjög heppilegt því tófan er ákaflega lyktnæm og vindurinn getur borið með sér lykt af manni sem ofurnæmar nasir skolla skynja úr ótrúlega mikilli fjarlægð.
refabyrgi-221Alltaf er byrjað á að athuga þau greni sem næst eru byggð því þegar tófan heldur til svo nálægt sauðfé, þá er alltaf hætta á að hún fari að bíta þegar lambánum er sleppt út að vori. Ýmsar kenningar eru uppi um ástæður þess að rebbi færi bú sín svo niður í byggð sem raun ber vitni. Stór þáttur í því hlýtur að vera að búskaparhættir hafa breyst mikið. Nú er sauðfé haldið meira og lengur inni við, en áður fyrr voru ær kannski að bera í nálægð við grenin. Einnig hefur sauðfé fækkað og í kjölfar þess er minna um mannaferðir í högunum, svo tófan hættir sér nær en áður. Svo er miklu minna af rjúpu á hálendinu en áður var, en hún er ein aðalfæða tófunnar. Svo sjálfsbjargarviðleitnin og fæðuleitin eiga sinn þátt í þessu. Eins hefur öll umferð um hálendið stóraukist og friðurinn því ekki sá sami og áður fyrir hið villta dýr.“
Í Andvara árið 1900 er fjallað um refaveiðar á grenjum: „Refadráp á grenjum og ráð til að ná út yrðlingum. Á gren, er liggja í heimalöndum eða búfjárhögum, er ætíð bezt að fara síðla dags, og einkum um þann tima, sem fé er rekið saman; því oft skeður, er refir eru í slíkum grenjum orðnir svo hund- og mannvanir, að þeir hrökkva við smalamensku heim á grenin. Er þá oft heppilegt fyrir skyttuna, að vera komin á undan þeim, þar þau þá eru grunlaus um mannkomu heima, en hlaupa að greninu með hraða. Þá skyttan kemur á grenið, skal ætíð fara að öllu með mestu varúð. Láta engan hávaða heyrast heim á grenið, og koma ætíð móti vindi, svo enga lykt leggi heim. Skyldi svo leynast við stein eða harð ögn frá greninu og bíða lítið eitt til njósna. Verði skyttan einskis vör, gengur hún heim að greninu með þeirri varúð, að ekki heyrist fótatak, velti til steinn eða annar hávaði heyrist. refur-221
Leggjast síðan niður að þeim munnanum, sem mestur umgangur virðist um, en liggja þarf ætíð svo haganlega með hendur og fætur, að fljótlega verði gripið til ef með þarf í inngangsmunnanum skal skal gapa og hvæsa eftir móðum hundi, svo títt og þungt, sem unt er. Þetta líkist því, þá dýrið kemur hlaupmótt úr ferðalagi sínu. Takist þessi eftirherming, heyrist samstundis þrusk inni í greninu. Skal þá fara með hægð úr grenmunnanum, en láta þó sömu mæði heyrast inn, og blanda þar við eins konar vinahljóði, lágu, en skræku, til að herðaá yrðlingunum út. Koma þeir þá tíðast allir út ýlfrandi, og þarf þá að viðhafa snarræði að taka þá, því oftast er þá annað eða bæði dýrin samstundis komin í skotmál, ef þau hafa heyrt til yrðlingaima. Komi bæðidýrin í senn, er áríðandi að skjóta fyrst hið styggara, sem strax er augljóst, hvort er. Lendi skotið fyrst á gæfara dýrinu, er venjulegast mjög ilt að ná hinu á eftir. Þar á mót hefir oft lánast, að ná hinu gæfara samstundis á eftir með því að veita því litla eftirför, eða láta yrðlingana kalla það lieim, sem gerist þannig: Er yrðlingarnir hafa verið teknir, eru þeir látnir í poka, en gæta verður að þeir hafi nóg rúm. Síðan eru þeir bornir á þann stað, sem skyttan hefir aðsetur sitt. Þar eru þeir látnir i næði, meðan mesta hræðslan hverfur, svo þeir fái matarlyst. Þeim er þá gefið volgt fuglakjöt, sem þeir þó þvi að eins eta, að vel sé farið með þá og hræðslan sé litil. Sé þar á mót iíla farið með þá, verða þeir ónýtir til að kalla dýrið að, eða jafnvel drepast úr hræðslu. Lánist að fá þá til að eta, hverfur hræðslan svo, að hægt verður að ganga úr skugga um, hverjir eru kjarkbeztir. Hinir eru svo drepnir, en þessir eru æfðir við meðferðina, sem má eigi vera harðneskjuleg, heldur verður að fara að þeim með lagi. Loks skal taka í eyru þeim, og blása stutt og snögt framan í þá. Þegar þeir þá aðeins ljúka upp gininu, en þegja, skal klípa snögt í eyrun og blása títt framan júní þar til skrækur kemur. Á þessu verður svo að herða, þar til hljóðin verða jöfn. Rennur þá dýrið að með hraða, og oft svo, að það er í 4—5 faðma færi. Þessi aðferð mun oftast sjálfsögðust við að ná síðara dýrinu undir þessum kringumstæðum.
refur-222Vanalega má fara nærri um, hvaðan refir koma að grenjum, þótt logn sé, og fer þá eftir því, í hvaða átt frá greninu sýnist vænlegast til fanga fyrir þá. Sé t.d. bygð annars vegar við grenið, skal skyttan leynast í gagnstæðri átt. Oft ber við, að grenjadýr leggjast á lambfé, Þegar fram á vorið kemur, þá þau eiga gren nálægt hygðum, t. d. í fjallshlíðum; en við slík gren er oft ilt um fylgsni fyrir skyttu og vökumann á hentugum stað í nánd við grenið. Á slíkum grenjum verður ætíð að hafast við fyrir ofan grenið. Standi þar að auk svo á, að vindur standi á hlið eða logn sé, má telja þess konar gren auðunnið. Bólstaðurinn er þá tekinn við stein eða í laut í hæfilegri skotmálsfjarlægð. Skal svo hlaða veggur steinum og gamburmosa, og láta það snúa að greninu, er upp snýr á jörðunni, svo engin litbreyting sjáist á garðinum frá jörðinni í kring. Á sama hátt skulu öll skotvirki útbúin. Þá liggja þarf á grenjum eða við þau að bíða dýranna, skal varast að vera á flakki á nóttunni, fyr en vissa er fyrir, að þau hvarfli ekki heim fyr en eftir dagmál. Þótt vanalega megi hepnast að dýrin verði með þessari aðferð ekki mannvör á nóttunni, ber oft við, að slíkt kemur fyrir að degi. Verður skyttan þá að taka þau úrræði, að vera þar eftir sem mest á gangi, en vökumaður heima. Þegar svo líður á daginn og dýrið sér manninn smámsaman, fer það að öskra, sem á að merkja, ef það vill reka manninn á burtu. Við fyrsta hljóð skal hlaupa nokkur fet aftur á bak. Þegar svo dýrið hljóðar aftur og meira en áður, á maðurinn að kippast ætið lengra, og standa hálfboginn. Mun þá tæfa hlaupa spölkorn, og gribba sig betur. Þá skal stökkva lengra en áður og detta flatur; mun hún þá enn espa hljóðin. Þannig verður skyttan að smáfæra sig með sömu aðferð, og stöðugt undan vindi, en lengja sprettina eftir því, sem dýrið sækir fastara að, þar til færi gefst þannig, að leiti ber af, og að öðru leyti hentugast þykir. Skal þá skjótast með hraða áfram, og svo þvert til annarar hliðar, og leggjast þar í leyni undir steini eða í gjótu. Kemur svo dýrið á eftir með flýti, ýmist skimandi eða lyktandi, með trýnið niður við jörð, eftir mannsförunum. Þegar dýrið svo kemur á krókinn á slóðinni, verður skyttan að vera viðbúin að senda skotið.
refaspor-221Enn eru sum grendýr, sem liggja í leyni og láta ekki á sér bera. Þessi dýr eru auðfundin á fuglakvaki, því lóur og spóar fylgja þeim í flokkum, einkum þá egg þeirra fara að unga. Má þá heyra upp á hár, hvar dýrin leggjast, sem ætíð er undan vindi frá fuglakvakinu. Sömuleiðis má næstum ætíð í þoku vita um ferðalag dýranna, með því að veita öllu þessu nákvæma eftirtekt. Skal þá ætið hlaupa í tíma nógu langt undan vindi frá greninu, áður en dýrið kemur í ljós. Þar skal leggjast, þar til heyrist eða sést, hvert dýrið stefnir, því þar eftir verður að færa sig.
Enn er að minnast á þau dýr, sem styggust eru og verst viðureignar fyrir þá sök, að þau hafa sloppið af grenjum og mætt hvekni fyrirfarandi ár, og eru þau dýr vanalega hinir mestu bitvargar. Gren þeirra eru vanalega fjarlæg bygðum, og aldrei skyldi yfirgefa þau úr því fundin eru, sem bezt er og með öll gren, fyr en skytta er fengin, sé hún ekki með í fyrstu. Við þessi gren er það sérstakt, að leggjast skal heima á þau, því eigi þarf að vonast eftir dýrum þeim nær greninu en stekkjarveg eða stutta bæjarleið frá, hvar þau helzt staðnæmast á hólum og hábörðum. Þegar fyrstu nótt, sem legið er á greninu, heyrast óhljóð og öskur frá dýrunum, og verður þá að veita nákvæma eftirtekt, hvar þau hafa oftast viðnám, sem vanalega er við steina eða urðarhryggi. Þangað skal svo fara daginn eftir og hlaða upp mosabyrgi, sem áður er um getið, sem skotvígi. Þegar skyttan flytur í byrgið að kveldi, skal hún ásamt vökumanni ganga undir ábreiðu og hafa með sér yrðling. Skyttan legst svo í byrgið, en vökumaður snýr með yrðlinginn heim á grenið aftur þá leið, er honum er tilvísað, og hefir hávaða nokkurn á leiðinni. Bezt er að flytja með sér vanda yrðlinga á gren þessi, einkum ef mishepnast kynni að ná þeim úr greninu. Þegar svo yrðlingurinn hjá vökumanninum hljóðar dýrin að, þá náttar, munu þau vinnast úr byrginu, þótt eigi verði ætið bæði hina sömu nótt.“

Heimild:
-Litli-Bergþór, 14. árg. 1933, 3. tbl., bls. 11.
-Andvari, 25. árg. 1900, 1. tbl., bls. 129-133.

Klofningar

Klofningar – greni.

Básendar

Í Blöndu 1927 er m.a. fjallað um Básenda, ysta básinn vestast á norðanverðu Reykjanesinu:
„Nafnið er ekki vafalaust. Kemur það fyrir á voru máti í þremur myndum: 1. Bátsendar, 2. Bátsandar, notað jafnframt, og nú optast í ritum síðustu áratuga, 3. Básendar (eða Bassendar), sést að eins í

Básendar

Básendar – bærinn.

gömlum og góðum heimildum. (Fornbrs. VIII, 97 (1506), Jarðabók A.M. n03 (opt Bassendar), og í manntalinu fyr á sama ári. Svo og á ýmsum stöðum i kirkjubókum Hvalsnessóknar frá 18. öld. Í elztu heimild: Fbrs. VIII, 13, (1484), er þó ritað „Bátsendum“). — Það er í góðu samræmi við landslagið frá fyrstu byggð. Verður því að teljast réttara og betra en hin fyrri nöfnin, og vegna þess er nafnið ritað þannig í grein þessari. Í fjórða lagi sést nafnið í fjölda bréfa í Þjóðskjalasafninu í Reykjavík, optast á dönsku: Bosand (Bosenes-Havn, -Köbsted, -Distrikt). „Baadsende“ sést varla nema í Ferðabók Eggerts Ólafssonar (þýðing). Nafnið kemur aldrei fyrir — svo eg viti — í fornsagnaritum vorum, annálum eða öðrum heimildum, fyr en í Fornbréfasafninu 1484.
basendar - brunnurHánesið allt, og að vísu suðurhallandi þess, hefur verið að blása og brotna um margar aldir, af lyngrifi og eldfjallasandi —. Nú er þó aptur farið að gróa upp frá byggðinni, og að sunnan frá „Ósabotnum“. Norðan við voginn, utar miðju, stóð gamli Kirkjuvogur o. fl. bæir. Hann eyðilagðist á 16. öld. Þaðan hefur blásturinn gengið út eptir nesinu, allt beim að túni á Stafnesi — fyrir 200 árum eða meira. Nú er þarna gróðurlaust hraun, og örfoka að mestu leyti.
Þórshöfn er bás annar, sunnar á nesinu, við Kirkjuvogsósa. Komu þar opt seglskip á 19. öld með vörur. En mótorbátar hafa hleypt þar inn og hreinsað sig fratn á síðustu ár. Þaðan frá í s.s.v. eru ekki færri en 5 nafngreindir básar, er marka landið að Reykjanesi (Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Blasíusbás o. s. frv. — Blanda II. 50). En að norðan við Básenda er enginn slíkur bás á Miðnesinu. Bás(a)endar er því réttnefni (sbr. t. d. Skálaholt).
basendar - uppdrattur IIILeifar mannvirkja sjást enn miklar á Básendum (skoðað 1919). Kotbær hefur staðið vestast
á rimanum. Má greina þar 5 sambyggðar kofatættur, þó að nokkru sé gróið yfir þær. Aust-suðaustur frá bænum — 28 m. — hefur staðið vöruhús mikið. Sér þar fyrir grunni 20 m. á lengd frá suðri til norðurs og 12 — 15 m. á breidd, máske raeð gangstétt. Annar húsgrunnur er 10 m. austar (9X6 m). Mun þar hafa verið sölubúðin. En hússtæðis kaupmanns þætti mér líklegast að leita enn austar, í sömu röð. Þar er nú grastorfa yfir. Norður af þessum stað er garðlagabrot, með kotatóptum við norðurhlið. Og enn — 24 m. norðaustar — kálgarður eða rétt (um 180 m), með hesthúsi (? 7X3), geymslu (7X4) og fjósi (5X3) að baki, en hlöðuveggir 2 (4X3) eru þar laust norðvestan við. Hús þessi hafa staðið hæst og norðaustur á rimanum. Í lægðinni fyrnefndu — 100 m. austar – er vel upp hlaðinn brunnur, fullur af sandi. Og enn, 20 m. til austurs, hefur verið kálgarður í ágætu skjóli. Grastorfa er nú yfir mestum hluta hans; samt sér á tvíhlaðinn garðinn, af úrvalsgrjóti, og mjótt hlið við norðvestur hornið. Efsta flóðfar, er neðan við garð þennan, og upp í öðrum garði stærri, eða túngerði þar dálítið norðvestar. Á þessum stað má sjá það, að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur (tún?) að sjó, bæði vestur og suður. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið þar á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu. Þar hefur fiskurinn verið hengdur á rár og hertur. Garðlagabrot sjást hér líka á mörgum stöðum — eins og um öll Suðurnes — 2, 3 grjótlög, til að þurka á þang í eldinn, og fiskæti líka fyr á öldum.

basendar - festarhringur - II

Í þangivaxinni klöpp, 42 m. niður frá suðvesturhorni húsgrunnsins mikla, er járnkall vel gildur (15 sm. á þykkt og 30 sm. á hæð, með broti af hring í gati) greyptur og tinsteyptur við klöppina). Þetta var hestasteinninn á hlaðinu, fyrir stjórnborða-beizli. Annar slíkur er dálítið utar, niður undan koxinu, og 2 eða fleiri festarhringir þar á móti, í klöppum við suðurhlið skipalegunnar.
En merkustu notin voru þó af þessari góðu hafskipalegu, og verzluninni, sem telja má víst, að þar hafi optast verið rekin í rúmar 3 aldir (1484—1800), og sennilega enn fyr á öldum líka. Mun þá og hafa verið siglt á fleiri Bása, og verzlað á Básum — þó Básendar yrðu löngum hlutskarpastir.“

Heimild:
-Blanda, 3. bindi 1924-1927, 7.-10. hefti, bls. 46-50.

Básendar

Básendar.

Refur

Refsnöfnin eru mörg, s.s. Djanki, Dratthali, Gráfóta, Holtaþór, Lágfóta, Melrakki, Refur, Skaufhali, Skolli, Tófa, Tæfa, Vargur og Vembla. Eftirfarandi frá Theodóri Gunnlaugssyni um „Lifnaðarhætti íslenska fjallarefsins“ birtist í Náttúrufræðingnum árið 1945:

ref-1

„Þær sögur, sem hér fara á eftir, eru teknar úr einkalífi refanna sjálfra, þegar ég hefi rakið slóðir þeirra á vetrum og einnig oft séð nákvæmlega athafnir þeirra. Betri heimildir get ég ekki fengið um eðli þeirra og lifnaðarhætti á þessum tíma árs. Síðar mun ég svo reyna að gefa þær skýringar, sem mér finnst sanni næst. Framan af vetri leita refir langt um minna á að grafa upp egg, fyrst og fremst vegna þess, að þá er oftast eitthvað og stundum mikið af dauðum kindum írá því síðla sumars og haustinu, skammt frá byggð og í óbyggðum. Á þann forða ganga refir fyrst, þar til er uppétinn að mestu og eru þá líka venjulega langfeitastir, sérstaklega hvolpar frá vorinu. Þeir eru líka að öðru jöfnu miklu gráðugri og leita því fyrr niður að byggðinni, enda hafa þeir stórum lakari afstöðu við eggjaleitina af þeirri ástæðu, að þar verða þeir eingöngu að treysta sínum næmu þeffærum, en eftir því, sem eggin geymast lengur, mun af þeim leggja sterkari þef og þá jafnframt auðveldara að finna þau. Þetta hef ég margsinnis séð, því að síðla vetrar í frostleysum, sólbráði eða þýðvindi mun vera kjörveður fyrir tófurnar að leita að eggjum, enda ber þá langmest á því, að þær grafi eftir þeim. Önnur ástæða er líka sú, að þá er oft orðið litið um annað ætilegt, sérstaklega í óbyggðum, eða réttara sagt annað, sem fullkomna næringu hefur og því leita refir þá meira eftir þeim. Kemur þá einmitt fram sá mikli aðstöðumunur, sem fullorðinn refur hefur fram yfir hvolpinn á fyrsta ári, að sá fyrrnefndi, sem grafið hefur sjálfur, í öllu falli, eitthvað af eggjunum, veit nákvæmlega, hvar helzt er eftir þeim að leita, því minni refanna bregzt ekki og þá enn síður hin viðkvæmu þeffæri,
ref-2Þegar ég var strákur heyrði ég gamla refaskyttu lýsa því, hvernig tófur næðu rjúpum á veturna. Hún sagði að bezt þætti tófunni að læðast að þeim í renningi. Fyist yrðu þær varar við hvar rjúpan kúrði sig eða lægi í bæli sínu. Þá færu þær veðurmegin að henni og nálguðust hana svo skríðandi og krafsandi, þannig, að golan tæki snjóinn er losnaði og feykti honum beint á rjúpuna og við það ykist renningskófið. Því meira sem tófan nálgaðist rjúpuna, því meiri renningur og því betur kúrði rjúpan sig aftur á móti niður og lokaði augunum. Svo vissi hún ekki fyrri til en tófan væri búin að hremma hana. Í sambandi við fuglaveiðar tófunnar hefir mér þótt eitt sérstaklega merkilegt. — Ég hefi oft séð á slóðum, bæði haust og vetur, hvar tófur hafa náð rjúpum, en aldrei hafa þær etið svo mikið sem hausinn af þeim. I þess stað hafa þær æfinlega borið þær lengri eða skemmri leið og grafið þær á hinum ólíklegustu stöðum. Svo hefi ég nokkrum sinnum rekið mig á, að þær hafa vitjað um rjúpurnar næstu nótt, flutt þær úr stað og grafið þær aftur ósnertar. Hversu lengi þetta getur gengið veit ég ekki. En þetta sýnir ljóst hversu ríkt þeim er í eðli að geyma sér forða þar til sverfur að og svo einnig hitt, að þær gruna vafalaust félaga sína um græsku, því að þar munu þjófarnir ekki sleppa góðum tækifærum frekar en í mannheimi.
Það, sem sagan ennfremur sýnir, eru hin alkunnu brögð ref-3tófunnar að villa á sér heimildir, þ. e. snúa á andstæðing sinn, og mun af því vera komið orðið „bragðarefur“, sem allar refaskyttur hafa átt erfiðast með að sigra í viðureign við tófurnar. Þar sem læðan fór að lokum út úr öllu slóðasparkinu til að grafa rjúpuna og gekk svo nákvæmlega ofan í sporin sín til baka, var aðeins gert í einum tilgangi. Hann var sá, að kæmi þarna önnur tófa og hlypi í slóðina eins og þær gera oft, — sérstaklega á útmánuðum, þá hefði hún hlaupið eftir henni eins og hún lá, þ. e. frá rjúpunni. Það kemur t. d. ekki fyrir að refir, sem hlaupa í nýja læðuslóð og ætla að veita læðunni eftirför, reki slóðina öfugt.
Tófa, sem verður fyrir skoti og særist, en kemst undan, annað hvort úti á víðavangi, og sér þá undir flestum kringumstæðum manninn á eftir sér, eða hún kemur út úr greni sínu að vetrarlagi, með grun um, að eitthvað sé óhreint í nágrenninu og verður þá fyrir kveðju byssunnar, og ef til vill sér manninn einnig, þá mun sú tófa áreiðanlega, ef hún lifir eftir skotsárið, muna slíka kveðju alla æfi og verður því þeim mun erfiðari viðureignar fyrir manninn, þegar hún hittir hann næst. Slíkur ótti mun einnig megna að skapa vaxandi varúð hjá afkvæmi hennar.
rebbi-2Út frá þessu finnst mér viðeigandi að minnast á eina aðferð, sem mjög oft hefir verið notuð til að eyða refum og einnig mjög mikið er um deilt. Er hún sú, að eitra fyrir þá. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þá aðferð hér, því að til þess þyrfti langt mál, ef vel væri. En það þori ég að fullyrða, að með árlegri eitrun fyrir refi um iengri tíma, væri beint stefnt að því, að hreinrækta þá allra slyngustu, og þá jafnframt, hættulegustu einstaklingana í stofninum. Myndu þeir þá áreiðanlega komast fljótt upp á að gjalda manninum rauðan belg fyrir gráan. Reynslan er ólýgnust, og hún hefir þegar víða sýnt, að þar sem rækilegast hefir verið eitrað árlega fyrir refi, þar hafa einnig oftast komið fram hinir skæðustu dýrbítar, sem forðast að leggja sér til munns neitt annað en það, sem þeir eru vissir um að sé ósaknæmt.
Harla léleg fæða er það, sem tófur bera oft heim til yrðlinga sinna, þótt það sé á hinum mesta búsældartíma. Þó fer þetta aðallega eftir því, hve umhverfið, sem þær fara um til fanga, er auðugt eða snautt af dýralífi, og einnig líka, hve slungin veiðidýr þær eru. Það mesta, sem ég hefi séð eina læðu koma með í gininu heim til yrðlinga sinna af ungum, bæði möðkuðum, nýlega dauðum og nýdrepnum, voru: 4 rjúpuungar um viku gamlir, 3 lóuungar á svipuðum aldri, tveir stórir skógarþrastaungar, 2 urtandarungar nokkra daga gamlir, 2 þúfutittlingsungar hálfvaxnir, og einn hrossagauksungi, nýkominn úr eggi, eða alls 14 ungar.
Þessa unga bar læðan alla i kjaftinum, þannig, að uppi í sér hafði hún það, sem þar komst fyrir, og svo beit hún einhvers staðar utan um hina, er út úr henni löfðu. Mig furðaði mest á því, hvernig hún hefði farið að taka þá síðustu. Mun það hafa tekið hana talsverðan tíma, því að þegar hún tók upp ungann mun hún máske hafa misst niður tvo eða þrjá, en ekki þarf að efast um, að hún hefir ekki hætt, fyrr en allir tolldu uppi í henni.

rebbi-1

Margt bendir til þess, að refir grafi niður flest þau egg úr hreiðrum, sem þeir finna á víðavangi, ef þeim er það á annað borð mögulegt fyrir vörn eggjamóðurinnar. Ég hefi nokkrum sinnum séð refi finna hreiður og æfinlega hafa þeir tekið eggin eitt og eitt, borið þau burtu og grafið þau stundum í 50—100 m. fjarlægð frá hreiðrinu. Það hefir viljað til að þeir hafa einnig náð eggjamóðurinni, sérstaklega þó rjúpum.
Allir, sem náin kynni hafa haft af refaveiðum hér á landi, munu sammála um það, að því fleiri brögðum ,sem hann er beittur, því fleiri varnaraðferðir koma brátt í ljós hjá honum. Það, sem fyrst og fremst veldur þessu, er hið ríka eðli hans að beita brögðum sjálfur. Honum verður því fyrst fyrir, er hann lendir í háska af óaðgætni, að athuga það næst mjög nákvæmlega, og er þá oft óskiljanlega þolinmóður til þess eins að vara sig á því í annað sinn jafnframt því, sem hann brýtur heilann um að geta snúið á það.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn 15. árg. 1945, 1. tbl., bls. 38-45.
-Náttúrufræðingurinn 15. árg. 1945, 3. tbl. bls. 136-144.

Yrðlingar

Yrðlingar.

Keflavík

Í þremur tölublöðum Faxa árin 1947 og 1948 eru birtir „Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum“ eftir Mörtu V. Jónsdóttur:

„Það hafa löngum farið litlar sögur af Rosmhvalanesi eða Suðurnesjum, eins og Skaginn er kallaður í daglegu tali, eða því fólki, er þar hefur búið fyrr og síðar. Þó mun mörg sagan, ef geymst hefði, hafa borið Suðurnesjabúum vitni um snilli sjómennsku, drengskap og áræði, þrek og þorí hinum mörgu mannraunum liðinna alda. Svo munu þeir er bezt þekkja liðna kynslóð geta mælt. En það er eins og örlögin hafi frá upphafi byggðar séð um, að þaðan væri engra fregna að leita.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Tvisvar hafa verið ritaðir annálar á Suðurnesjum á fyrri öldum svo vitað sé. Báðir hafa þessir annálar glatast.
Sennilegt er, að íbúar Skagans hafi snemma dregið björg í bú, ekki einungis handa sér og sínum, heldur einnig handa öðrum. Hefur þar af myndast visir til verzlunar. Og einhverja góða og gilda ástæðu hefur Steinunn gamla landnámskona haft, þegar hún keypti landið af Ingólfi frænda sínum. Mætti geta þess til, að hún hafi þá þegar verið búin að sjá, hver gullkista lá úti fyrir ströndinni, er hún fór þangað til bús.
Það er sennilegt, að Keflavík hafi snemma á öldum orðið aðsetur verzlunar og viðskipta. Hefur lega staðarins valdið þvi, þar sem á báðar hliðar eru hin aflasælu fiskimið á vestanverðum Faxaflóa og jafnvel á sjálfri Keflavíkurhöfn oft og einatt uppgripa afli.

Höfnin í Keflavík, er liggur fyrir opnu hafi mót austri, var reyndar aldrei talin örugg  höfn, þótt akkerisbotn væri góður og dýpi nóg (14 faðmar), var skipum er þar lágu, hætta búin, er austan-suðaustan stormur geisaði. Var og talið allt fram á ofanverða 19. öld, að engri björgun yrði við komið, ef skip ræki upp að Berginu, enda urðu þar skipsakaðar nokkrir.
Aðrar hafnir á Skaganum voru áður fyrri Grindavík (Staðarsund), Þórshöfn norðan Ósbotna og Bátsendar sunnan við Stafnes. En allar þessar hafnir hurfu úr sögunni um og eftir aldamótin 1800 og varð Keflavík þá einvöld á Skaganum.
Keflavík
Svo sem kunnugt er, ráku Englendingar, Þjóðverjar og Hollendingar verzlun og fiskiveiðar hér við land fyrr á öldum. Koma þessar þjóðir, einkum Englendingar og Þjóðverjar, því mikið við sögu Skagans.
Nýi annáll getur þess, að enskt skip hafi komið til Suðurlands 1412. Mun það vera elzta heimild um siglingar Englendinga hingað til lands. Sumarið 1415 er aftur getið 6 enskra skipa, er lágu í Hafnarfirði og verzluðu við landsmenn. Eitt þeirra „reyfaði“ skreið á Rosmhvalanesi og sést af því, að þeir hafa verzlað við suðurhafnirnar og er harla líklegt, að Keflavík hafi verið ein þeirra.
Aðalhöfn Englendinga við Faxaflóa, var Hafnarfjörður. En Hamborgarkaupmenn, er líka vildu fleyta rjómann af verzlun við Íslendinga, urðu Englendingum þungir í skauti og var oft æði róstursamt þeirra í milli.

Hollenskt kaupfar

Hollenskt kaupfar frá 15. öld.

Árið 1518 var orusta háð í Hafnarfirði milli Englendinga og Hamborgarmanna. Höfðu hinir síðarnefndu dregið saman mikið lið. Er sagt, að þá hafi komið til móts við þá 48 þýzkir menn sunnan frá Vatnsleysu, Keflavík, Bátsendum og Þórshöfn. Á þessu sést greinilega, að Þjóðverjar hafa þá verið búnir að leggja undir sig hafnirnar á Suðurnesjum.
Í orustu þessari sigruðu Þjóðverjar og náðu þá yfirráðum í Hafnarfirði. Hafa þeir eftir það orðið svo til einráðir á Faxaflóa.
Englendingar höfðu eftir þetta aðsetursstað í Grindavík um nokkurt skeið. En þetta var stundarfriður. Árið 1532 réðust Þjóðverjar að enskum kaupmanni, er þá verzlaði í Grindavík og hafði gjört sér vígi ‘á Járngerðarstöðum. Drápu Þjóðverjar kaupmanninn og allt lið hans. Hafa það án efa verið erfiðir dagar fyrir alþýðu manna að búa við sífelldar óeirðir og ójöfnuð útlendra manna. Þó hefur þjóðin orðið að þola margfalt meira, er konungsverzlun Dana varð hér einvöld árið 1602. Að visu hafa aðrar þjóðir verzlað við landsmenn eftir sem áður á laun, en eftir því sem lengur leið, urðu verzlunarsamböndin sterkari og böl landsmanna ægilegra.

Staður

Grindavíkurhöfn og Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá 1751.

Á einokunartímabilinu var hverri höfn úthlutað vissu umdæmi, var hverjum manni innan þess umdæmis, skylt að verzla við sinn verzlunarstað. Ef út af þessu var brugðið og upp komst, voru harðar refsingar dæmdar þeim, er framið hafði þá óhæfu að verzla við aðra en sinn kaupmann.
Alræmd varð sagan um Hólmfast Guðmundsson, bláfátækan búðarsetumann í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd. Hafnarfjarðarkaupmaður taldi hverfi þetta til síns umdæmis. Voru þó mörkin ekki glögg og oft um deild. Hólmfasti hafði orðið á sú skyssa að selja Keflavíkurkaupmanni 3 löngur, 10 ýsur og 2 sundmagabönd. Hefur ef til vill fengið betra verð. Mál út af þessu tiltæki Hólmfasts var tekið fyrir á Kálfatjarnarþingi sumarið 1699 og var hann dæmdur sekur. Ekkert átti hann til að borga með sektina, nema bát sinn, er talinn var svo ónýtur að hann væri ekki gjaldgengur. Var Hólmfastur því húðstrýktur á þinginu að viðstöddum amtmanni, HafnarfjarSarkaupmanni og öllum þeim, er þingið sóttu. Sætti hann þar hinni grimmilegustu meðferð. Á þessu sama Kálfatjarnarþingi lét sá hinn sami, Hafnarfjarðarkaupmaður, alþýðu gefa sér vitnisburð mjög lofsamlegan um verzlun og viðskifti þeirra í milli. Er augljóst, að alþýða manna hefur þá verið svo þrautpínd, að enginn hefur þorað að hreyfa andmælum, er þeir gáfu honum slíkan vitnisburð. En tíðum hafa Íslendingar verið langminnugir og svo mun hafa verið um þá menn, er þoldu óréttinn á þessu Kálfatjarnarþingi.

Hólmfastskot

Tóftir Hólmfastskots.

Á Vatnsleysuströndinni, einmitt á þeim sama stað er atburður þessi gjörðist, lifði sagan um Hólmfast á vorum alþýðu fram undir síðustu aldamót og varð fastur liður í þeim sæg rökkursagna, er fullorðna fólkið sagði börnum og unglingum.
Nálega tveim öldum síðar en atburður þessi gjörðist, heyrði ég söguna sagða eina slíka rökkurstund. Maður sá, er söguna sagði, kunni frá mörgu að greina. Hann hafði alið allan sinn aldur á Vatnsleysuströnd og var af góðum ættum á Suðurnesjum hið næsta. Hann sagði, að Hólmfastur hefði eftir atburð þennan flutzt út í Njarðvíkur. Hefði bóndinn í Innri-Njarðvík tekið hann í sína umsjá og hefði Hólmfastur dvalið þar til æviloka. Sögumaður endaði með þessum orðum: „Þessari sögu megum við aldrei gleyma“.
Þótt þessi gerð sögunnar séu munnmæli ein, eru líkur fyrir því, að rétt sé hermt. Í manntalinu 1703, eða 4 árum síðar en atburður þessi gjörðist, búa á einni Innri-Njarðvíkurhjáleigunni: Hólmfastur Guðmundsson 56 ára, Solveig Sigurðardóttir kona hans 38 ára og Þorsteinn sonur þeirra II ára gamall. Býli þetta er nafnlaust í manntalinu, en lítill vafi er á því, að nafn Hólmfasts hefur festst við býlið. Mun það vera sama býlið, sem enn í dag heitir Hólmfastskot.

Skip 1600-1700

Skip – 1600-1700.

Um aldamótin 1700 var svo þrengt orðið kosti landsmanna, að ekki þótti viðunandi. Var Lárus Gottrúp lögmaður fenginn til utanfarar með erindisbréf, eða bænaskrá til konungs, er fjallaði um hörmungar landsmanna og harðdrægni kaupmanna. Lögmaður sigldi með Keflavíkurskipi og með honum kona hans og barn þeirra ásamt þjónustufolki.
Þegar lögmaðurinn var kominn suður til Keilavíkur, ásamt fólki sínu, albúinn til ferðar, heimtaði kaupmaður, að hann legði fram mat til fararinnar. Lögmaður ætlaði þá að kaupa kjöt og smjör af bændum þar syðra, því sjálfur hafði hann bú á Þingeyrum og voru auðvitað engin tök á að nálgast mat þaðan, en skipið lá albúið til siglingar á Keflavíkurhöfn.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Er kaupmaður vissi um fyrirætlanir lögmanns, fyrirbauð hann bændum að selja lögmanni og hótaði þeim stórum refsingum, ef þeir voguðu slíkt. Þorðu bændur þá ekki að selja fyrr en lögmaður hafði heitið þeim, að taka alla sökina á sig. Keypti lögmaður svo af bændum það, er hann þurfti og sigldi með skipinu. Þetta gerðist sumarið 1701. Er þetta glöggt dæmi um verzlunarhætti og átök milli landsmanna og kaupmanna. Svo er sagt að Hamborgarar hafi fyrst sett verzlunarbúðir sínar á hólma nokkurn skammt frá landi í Keflavík (Jón Aðils – Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602—1787). Það er mjög ólíklegt, að hólmi þessi hafi verið í Keflavíkurhöfn. Dýpi hafnarinnar er mikið og hvergi sker eða grynningar, sem gefa til kynna, að land hafi staðið þar upp tir sjó. Engin munnmæli eru til þar syðra um sokkinn eða eyddan hólma. Hefði þó verið eðlilegt, að sögn um slík umbrot hefði varðveitzt. En fyrir framan Leiruna, næstu byggð fyrir utan Keflavík, er hólmi, er var aðsetur þýskra endur fyrir löngu.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Árið 1840 ritaði séra Sigurður Sivertsen, prestur á Útskálum, lýsingu á prestakalli sínu. Þar segir svo um Leiruhólma: „ — Hann var áður grasi vaxinn, sem ennþá sér vott til. Höfðu þar þýskir haft fyrr meir verzlunarbúðir sínar á sumrum og lagt skipum sínum: hafa rúsir eftir þá allt til skamms tíma sést“. Gæti hólmi þessi, sem Íslendingar nefna ennþá Leiruhólma, hafa orðið í munni útlendings að Keflavíkurhólma, einkum ef þeir hafa þá samtímis verzlað á Keflavíkurhöfn. Eru mörg dæmi þess, að útlendingar breyttu staðanöfnum hér eftir geðþótta.
Skúli landfógeti Magniísson segir í hinni merku ritgerð sinni um Gullbringu- og Kjósarsýslu, er hann samdi árin 1783—85, að Vatnsnesvík hafi verið verzlunarstaður til forna „— en sennilega áður en verzlun hófst í Keflavík“. Á þessum stað, sunnanvert við Vatnsneskletta, eru nú hafnarmannvirki Keflavíkur.
Árið 1787 var verzlunin hér á landi gefin frjáls, en einungis við alla þegna Danakonungs. Konungsverzlun Dana, sem hér hafði setið að völdum frá 1602, seldi þá, og næstu ár, verzlanir sínar. Danskir kaupmenn, sennilega margir þeirra er verið höfðu verzlunarfulhrúar fyrir konungsverzlunina, keyptu þá verzlanirnar og ráku þær áfram. Munu verzlunarhættir lítið hafa breytzt fyrst í stað, en smátt og smátt hefur farið að rofa til, enda risu þá upp fleiri verzlanir við hverja höfn.

Keflavík
Kaupmaður sá, er keypti Keflavíkurverzlun, hét Christian Adolph Jacobæus, þá kaupmaður í Keflavík. Kaupverð verzlunarhúsa, lóðar og varnings var 10265 ríkisdalir 17% skildingur í „kurant“-mynt. Christian Adolph var fæddur í Keflavík 1767 og hefur ungur tekið við verzlunarforstöðu eftir föður sinn, Holgeir gamla Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Keflavík.
Haustið 1785 kom Jacobæus upp frá Danmörku með Hafnarfjarðarskipi og var þá veikur af bólusótt. Hafði hann farið utan um vorið í verzlunarerindum, en tekið sóttina um það leyti, er hann lagði í haf. Barst bólan eftir þetta um landið og varð af mikið mannfall.

Keflavík

Keflavík 1800.

C. A. Jacobæus kvæntist 1794 danskri konu, Reginu Magdalenu, er var fædd í Kaupmannahöfn 1769. Þau áttu mörg börn, þar á meðal Holgeir Jacobæus, sem varð kaupmaður í Keflavík eftir föður sinn og Sophiu, er átti Ebbesen verzlunarstjóra í Rvík.
Jacobæus stofnaði verzlun í Reykjavík 1795, ásamt Ludvigsen stórkaupmanni í Kaupmannahöfn. Var hann annar elzti kaupmaður í Reykjavík. Hefur hann þá átt mikinn húsakost í Keflavík, því hann lét flytja tvö af Keflavíkurhúsum sínum til Reykjavíkur og byggja þau þar, við Hafnarstræti. Var annað húsið sölubúð og íbúð sitt í hvorum enda; hitt var vörugeymsluhús, stórt og mikið, og eflaust vel byggt, því það hús stóð hér í Reykjavík til 1935 og var síðast alllengi notað fyrir bílaviðgerðarverkstæði.

Peter Duus

Peter Duus.

Jacobæus bjó eftir sem áður í Keflavík, en hafði verzlunarstjóra í Reykjavík, þar á meðal Ebbesen tengdason sinn og Peda Duus, er löngu síðar varð kaupmaður í Keflavík og kemur þar mikið við sögu.
Aðra verzlun átti Jacobæus í Hafnarfirði. Sú verzlun varð síðar Linnetsverzlun, er lengi starfaði í Hafnarfirði og var góðfræg. Hans Linnet var fyrst verzlunarstjóri Jacobæusar í Hafnarfirði, en keypti svo verzlunina 1836. Kona hans var Regina Magdalena Secrup, systurdóttir C.A. Jacobæusar í Keflavík. Eiga því niðjar þeirra Linnetshjóna ætt sína að rekja til Holgeirs Jacobæusar hins síðasta kóngskaupmanns í Keflavík. C. A. Jacobæus hefur haft umfangsmikla verzlun í Keflavík. Það sýnir meðal annars, hve margt fólk var á heimili hans.
Árið 1790 voru þar 38 manns. Jacobæus var þá ókvæntur, en danskur beykir Hoeg að nafni, kona hans einnig dönsk og dóttir þeirra, er var matreiðslukona, munu hafa séð um kaupmannsheimilið. Vinnufólkið mun hafa búið í öðru húsi, enda var þar einnig önnur ráðskona, er Ingveldur hét Einarsdóttir.
Þar var einn „undirassistent“, einn búðardrengur, einn afhendingarmaður, einn smiður. Það var Jóri Sighvatsson, er síðar varð útvegsmaður og merkisbóndi í Höskuldarkoti við Ytri Njarðvík. Fjórtán vinnumenn, sjö vinnukonur og fjögur börn, er vinnufólkið átti, auk þess einn gamall maður örvasa og þrír danskir vetursetumenn. Næstu ár fór fólki heldur fækkandi, og 1801 voru ekki nema 14 manns í heimili.
KeflavíkEftir Chr. A. Jacobæus, varð Holger sonur hans kaupmaður í Keflavík 1836. Kona hans, Charlotte Marie, var dönsk. Þau áttu 15 börn. Voru 10 þeirra á lífi, er þau fluttu af landi brott 1843 og 1844. Þessar fjölskyldur bjuggu allar í sama húsinu, hver eftir aðra, en það er gamla Duushúsið, er svo mun vera nefnt enn í dag.
Séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum, hefur ritað smákafla um þá Jacobæusarfeðga inn í húsvitjunarbók prestakallsins 1827—1847 við árið 1837. Hann segir svo um Holger Jacobæus: „Foreldrar kaupmanns Jacobæusar var kaupmaður Chresten Jacobæus og Md Regina Magdalena, bjuggu þau hjón fyrr í Keflavík, átti hann þar kaupstað; líka höndlun í Hafnarf. og Rvík og var einn sé merkasti maður á sinni tíð. Faðir hans var Holgeir gamli Jacobæus, sem var kóngskaupmaður í Rvík. Holger yngri fékk Keflavík keypta af föðurnum eða til láns, en varð að láta af hendi aftur. Varð hann þá factor hins nýorðna eiganda kaupm. J. J. Benediktsen. Varð þó seinna að láta þá forþénustu lausa og sigldi árið 1843 til Færeyja hvar hann fékk forþénustu í brauði Clausens í Ólafsvík. Kona hans og börn sigldu ári seinna og áttu þau saman 15 börn en hann hafði eignlengi mjög örðuga lífsútkomu. Þau hjón eignast 1 son áður, Karl að nafni“.
Jens Jakob Benediktssen varð eigandi Keflavíkurverzlunar 1841, en bjó þar aldrei. Hann var sonur Boga sagnfræðings á Staðarfelli Benediktssonar, átti verzlanir á Ísafirði, Grundarfirði og Vestmannaeyjum, en bjó lengst af í Kaupmannahöfn. Verzlunarstjóri hans í Keflavík, eftir að Jacobæus hvarf burtu, var Marteinn Smith, er síðar var kaupmaður og konsúll í Reykjavík og var giftur Ragnheiði systur Jens Jakobs. Þau fluttu til Keflavíkur 1844 og bjuggu þar 4 ár. En 1848 fluttu þau til Kaupmannahafnar og seldi Smith þá Duus kaupmanni Keflavíkurverzlun.“

Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1947, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 9.
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 4-5.
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1948, Þættir úr sögu verslunar á Suðurnesjum – Marta V. Jónsdóttir, bls. 3-4.

Keflavík

Kalkofninn

Kalknám var stundað í Sandhól við Djúpagil og við Mógilsá ofan Mógilsárfoss frá árinu 1873 í nokkur misseri og síðan aftur á árunum 1916-17. Kalkbrennsluofnar voru byggðir við Rauðará í Reykjavík (1873) og síðan neðan við Arnarhól (1876). Kalofnsvegur var nefndur eftir þessum gjörningi.

Í Víkverja 1873 er umfjöllun um „Kalk í Esjunni„:

Mógilsá

Mógilsá – kalknáma.

„Það er flestum kunnugt, að kalk fanst fyrir nokkrum árum í Esjunni. Það var í felli einu fyrir ofan Mógilsá, að menn þóttust sjá kalkberg koma fram í möl þeirri, er á er öllu fellinu. Landlæknirinn, dr. Jón Hjaltalín, lét höggva nokkur brot af berginu, og senda þau fræðimönnum erlendis til rannsóknar, og kom þá fram, að 90 hundruðustu partar af steininum voru hreint kalk; svo reyndist og í fyrra, þá er nokkrir steinar voru fengnir hinum útlensku vinnumönnum, er unnu að þinghúsgjörðinni fyrir austan Reykjavík, að ágætt kalk fékst af þessum steinum, þá er þeir voru brendir.

Egill Egilsson

Egill Egilsson.

Nú hefur herra kaupmaður Egill Egilsson (Sveinbjarnarson) hér í Reykjavík gjört gangskör að því, að kanna þessa kalknámu nákvæmar og nota hana. Kalkbergið er, svo sem vér áðr sögðum, í sérstöku litlu felli sunnan til í Esjunni. Hingað til hefir eigi komið mikið fram af því, en líkur eru til, að bergið nái langt inn í fellið, og merki hafa jafnvel sést til þess, að það nái í gegn um það. Sé það svo, munu margar miljónir tunna af kalki vera fólgnar í fellinu.
Herra Egill Egilsson hefir fyrir hálfum mánuði látið brjóta einar 50 tunnur af kalki úr berginu, og flutt þær ofan að sjó, en svo þungt var grjótið, að það voru klyfjar á 200 hesta. Þar voru 30 tunnur af grjótinu látnar í skip, er herra E. á, og eru þær nú fluttar fram að Rauðará; þar ætlar herra E. að láta gjöra kalkofn og brenna grjótið. Reynist það þá eins gott, og sagt er, mun verða stofnað hlutafélag til þess að vinna námuna enn betur.
Vér óskum herra Egli kaupmanni allrar hamingju til verks þess, er hann hefir gerst forgöngumaðr fyrir, og vér efum eigi, að hið mesta gagn geti hlotist að því, ef kalkbergið að eins að nokkru leyti svarar þeim vonum, er kunnugir menn hafa gert sér um það. Næst vegaleysinu getum vér talið vonda húsagjörð einn hinn mesta hnekki á öllum framförum vorum, en fari svo, að vér getum fengið kalk í hús vor á nokkurn veginn vægan hátt, er tvent áunnið; vér þyrftum þá eigi að skemma hagagöngur vorar með torfristum, og fengjum þá langtum hlýari og stæðilegri, og fyrir því og með tímanum, ódýrari hús, en vér höfum hér til haft.“

Í Þjóðólfi 1877 var eftirfarandi grein:

Vesturgata 52

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum.  Kalk > Steindir og bergtegundir með kalsínkarbónati (CaCO3). Brennt kalk > kalsíumoxíð (CaO), fæst við hitun kalks, notað m.a. í áburð. Slökkt kalk > kalsíumhýdroxíð (Ca(OH)2), vætt brennt kalk, notað sem steinlím Leskjað kalk > brennt kalk hrært í vatn, notað sem steinlím, til áburðar, til að sýrustilla jarðveg og til iðnaðar.

“Byggingarframfarir í Reykjavík eru sýnilegar ár frá ári, og mundu svo fremur, væri árferði betra… Síðan herra E. Egilsson réðst í kalknámið í Esjunni og þeir konsúll Smith komu upp kalkbrennslunni, hafa menn þegar tekið að skilja hve ómetanlegur hagur – auk fegurðarinnar – er að byggja steinhús, og stöku menn teknir að gjöra það. Sá fyrsti hér í miðjum bænum, sem komið hefir upp steinhúsi, er Eyþór Felixson verzlunarmaður (fyrrum póstur). Hús það er 13 álna langt og 14 álna breitt með 12 álna háum veggjum, og er nú eitt hið laglegasta, en langsterkasta hús bæjarins.

Bergstaðastræti 24

Snemma árs 1884 fékk Jóhannes Pálsson, tómthússmaður, leyfi til þess að byggja sér steinbæ með timburstöfnum á Þingholtslóð.
Húsið er hlaðið úr steini, sléttað utan með kalki, að grunnfleti 12X9 álnir.

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum. Engir hinna ríkari bæjarbúa hafa þó enn látið til sín taka í þessu, heldur er það eptirtektavert, að þeir sem byrjað hafa, eru allir fremur félitlir menn, en þeir eru skynsamir, og vita vel hvað þeir gjöra.
Kalkbrennslan fór fram í tveimur ofnum. Fyrst var reistur tilraunaofn hjá Rauðará 1873 en 1876 var reistur varanlegri ofn hjá Arnarhólslæk (vatn þarf við kalkvinnslu). Þessi ofn var ámóta að stærð og gamli söluturninn á Lækjartorgi.“

Í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.:

Kalkofn

Kalkofninn að baki húsanna við Lækjargötu, neðan Arnahóls.

„Fram með Arnarhólstúni sjávarmegin liggur stígur, og er þar trébrú yfir lækinn; þessi stígur liggur að allmiklu timburhúsi, þar sem Björn múrari Guðmundsson verzlar með timbur; fyrir nokkrum árum var hér kalkofn, og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni; var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir, bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu, og óhæfilegt til kalkgerðar; varð kalkið þannig ónýtt eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“

Í Ægi 1914 var fjallað um flutning kalksins frá Esjunni til Reykjavíkur:

Hótel Ísland

Hótel Ísland.

„Egill heitinn föðurbróðir minn átti franska loggortu, sem fyrst hjet »Ladon«, en síðar »Esja«. Hannes Hafliðason var þar skipstjóri 1876, en eftir hann tók við hr. Joh. Halberg, sem kom hingað til lands 1877. Var hann skipstjóri á því 1877 og ’78, var það haft til fiskiveiða og kalkflutnings úr Esjunni hingað til Reykjavíkur, því að þá var hjer kalkofn og brent hjer kalk. Hr. J.G. Halberg varð síðan eigandi »Hotel Íslands« og hjelt því í mörg ár.“

Í Tímariti iðnaðarmanna 1941 segir frá Birni Guðmundssyni, múrara, sem byggði kalkofninn við Kalkofnsveg:

Björn Kristjánsson

Björn Kristjánsson.

„Fyrsti útlærði múrarinn hér, sem ég man eftir, af ísl. bergi brotinn, var Björn Guðmundsson, sem þá líka var lengst af alþektur undir nafninu „Björn múrari“, einnig löngu eftir að hann var hættur að halda á múrskeiðinni og orðinn kola- og timbursali. Þótti Björn bráðduglegur og vandvirkur iðnaðarmaður. Hann setti hér upp kalkofn þann, sem Kalkofnsvegur er heitinn eftir og stóð rétt fyrir norðan Varðarhúsið á sjávarbakkanum.
Áður hafði Sverrir [Runólfsson] byrjað að reisa samskonar ofn inni undir Bauðará, þar sem seinna reis klæðaverksmiðjan „Iðunn“, en náði aldrei að fullgera ofninn, svo að ekki varð neitt úr neinu). Kalkið, sem brenna skyldi, var sótt upp í Esju, en forgöngumenn rekstursins voru þeir Marteinn Smith kaupmaður og Egill Egilsson borgari (í Glasgow). Þótti hið brenda kalk Björns fyrirtak að gæðum, en kostnaðurinn við kalkvinsluna úr námunni í Esjunni og flutningur kalksteinsins þaðan á bátum hingað, reyndist of mikill til þess, að fyrirtækið gæti borgað sig; því að vagnar voru hér engir til nema tvílijóla mókerrur og akvegir því síður.“

Í Heilbrigðistíðindum 1973 fjallaði Jón Hjaltalín, landlæknir, um „Kalkbrennsluna„:

Jón Hjaltalín

Jón Hjaltalín, landlæknir.

„Fyrir 20 árum gat jeg þess í „Nýjum Félagsritum“, hversu nauðsynlegt það væri, að vjer yfir höfuð hefðum annað lag á húsagjörðum vorum, en hingað til hefur tíðkazt, og jeg tók það fram um leið, að eins og það lægi hverjum manni í augum uppi, að hjer væri gnægð af góðu byggingargrjóti, þannig mundi hjer og finnast nóg kalk í fjöllunum og landinu, ef vel væri að gáð, og áræðið og kunnáttuna að nota það vantaði eigi. Hjer um bil 8 árum eptir að jeg hafði ritað þá grein, er hjer um ræðir, í tjeðum fjelagsritum, fann jeg kalksteinslag hjer í Esjufjalli örskammt frá sjónum; jeg reyndi kalksteininn þá þegar eptir efnafræðisreglum, með því að leysa hann í saltsýru, og fann, að hann hafði í sjer yfir 90 hundruðustu parta af hreinu kalki, en slíkt eru hinir beztu kalksteinar. Seinna var hann prófaður í Kaupmannahöfn, og kom mönnum saman um, að svo væri, sem jeg hafði til tekið.

Sverrir Runólfsson

Sverrir Runólfsson.

Stiptamtið ljet um sama leytið herra B. Gunnlögsen og mig nákvæmar skoða námuna, og mæla hana og veginn niður að sjónum, og líka var hún grandskoðuð af enskum jarðfræðingi. Svona hefur þetta nú staðið þangað til í sumar; en nú hefur herra verzlunarstjóri E. Egilsson tekið sjer fyrir að brjóta kalkið, flytja það hingað, og er nú að láta byggja kalkofn til að brenna það í. Af þessu fyrirtæki má að minni hyggju mikið gott leiða, ef menn að eins vilja gefa því nægan gaum, og fara að ráðast í, að byggja steinhús, en þessa er nú því heldur væntandi, sem fleiri menn, er í fyrrasumar störfuðu hjer að hegningarhúsinu, námu af húsasmiðnum herra Bald þá aðferð, er menn nú almennt við hafa, að fleyga steina í tígulmyndað veggjagrjót. Jeg fæ og eigi betur sjeð, en steinhúsbyggingar fari að verða hin bráðasta nauðsyn, þar sem timbureklan er allt af að vaxa ár frá ári, enda ættu allir skynsarair menn fyrir löngu að vera orðnir sárleiðir á vorum ónýtu, óhollu og auðvirðilegu moldarkofum, sem nú í mörg hundruð ár hafa verið heilsu og lífi ilandsmanna til hins rnesta tjóns og auðsjáanlegasta niðurdreps í alla staði. Þær hafa verið og verða, svo lengi sem þær við vara, Íslands sannkallað krabbamein, sem gjörsamlega þarf að burt nema svo fljótt og rösklega sem unnt er.“

Árni Óla skrifaði ítarlega grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949 um „Kalknám í Esjunni og Kalkbrenslu í Reykjavík“:

Esja

Mógilsá í Esju.

„Það mun hafa verið um 1863 að Jón Hjaltalín landlæknir fann kalkstein í Esjunni og taldi að þar mundi vera svo mikið af honum að það borgaði sig að hefja námagröft þar og brenna kalk.
Ástandið í byggingarmálefnum Reykjavíkur var þá þannig, að enn voru flestar vistarverur fólksins torfbæir. Innflutningur á timbri frá Noregi hafði farið minkandi árum saman og það timbur, sem fekst, varð æ ljelegra byggingarefni. Ýmsir menn skoruðu á kaupmenn að flytja inn kalk, svo hægt væri að reisa hjer steinbæi og steinhús, því að nóg var hjer af grjóti til að byggja úr og bygging hegningarhússins hafði sýnt þeim að hægt var að nota það. En það var eins og að klappa harðan steininn. Kaupmenn vildu ekki flytja inn kalk, nema þá af mjög skornum skamti, og svo var það svo dýrt, að enginn treystist til að ráðast í að byggja hús úr steini.

Mógilsá

Kort frá árinu 1909 sem sýnir staðsetningu bæja við Kollafjörð og austur með Esjunni. Á Mógilsá eru merkt inn þrjú hús innan túns og þjóðleiðin fyrir botn fjarðarins.

Kalkfundurinn í Esjunni kveikti því hjá mönnum von um það, að bráðlega mundi fást íslenskt kalk til húsbygginga. En enginn þóttist þó svo efnum búinn að hann gæti ráðist í það fyrirtæki að brjóta kalkstein og brenna kalk.
Þá var hjer hinn kunni dugnaðar og áhugamaður, Sverrir Runólfsson. Hann var steinsmiður og honum hefir sjálfsagt verið það allra manna Ijósast hver áhrif það gæti haft til batnáðar í byggingamálum höfuðstaðarins, ef hjer væri hægt að framleiða kalk. Hann fýstist því mjög til þess að ríða á vaðið og gera tilraun um það hvernig kalksteinninn í Esjunni mundi reynast. En þar sem hann átti ekki fje til að leggja í þann kostnað, sótti hann um 650 ríkisdala styrk hjá stjórninni í þessu augnamiði.

Mógilsá

Mógilsá – loftmynd 1963.

Umsókn hans kom fyrir dómsmálaráðuneytið danska, en það fól þeim Jóni Hjaltalín landlækni og Birni Gunnlaugssyni yfirkennara að skoða kalknámuna í Esjunni og láta í ljós álit sitt um það hvort nokkurt gagn væri í henni. Þeir sendu aftur nákvæma lýsingu og teikningu af námasvæðinu sumarið 1864. Þetta sendi svo dómsmálaráðuneytið til „Den polytekniske Anstalt“ í Kaupmannahöfn og bað um umsögn þess. Tveir danskir jarðfræðingar voru fengnir til að láta álit sitt í ljós og þeirra úrskurður var sá, að þetta væri ekki annað en vitleysa, því að á Íslandi fyndist ekkert námakyns. Og að þessum úrskurði þeirra fengnum neitaði stjórnin að veita Sverri hinn umbeðna styrk.

Mógilsá

Gamli bærinn á Mógilsá í júlí 1910. Bærinn stendur undir brekkunni, fyrir framan hann er kálgarðurinn og grjóturðin sem braust fram úr gilinu árið 1866. Á myndinni er hægt að greina sex hús, hlaðan austast sem var timburhús þá, vestar eru tvö torfhús með timburgöflum sem hafa verið íveruhús og líklega fjós vestan við þau, enn vestar eru tvö hús hlaðin úr torfi og grjóti með torfþökum, fyrir framan vestasta húsið er stór haugur og hefur það hús líklega verið hesthús. Þýskir ferðamenn í heimsókn.

Lá svo þetta mál í þagnargildi um nær 10 ára skeið. En það var ekki gleymt. Og sumarið 1873 rjeðist, Egill Egilson kaupmaður í það að leigja námarjettindin í Mógilsárlandi fyrir 40 kr. gjald á ári. Og hinn 10. ágúst fór hann við annan mann upp að Mógilsá til að skoða námuna og búa undir kalkvinslu þar. Viku seinna hafði svo verið brotinn svo mikill kalksteinn þarna að Egill sendi bát uppeftir og hafði 10 hesta heilan dag til þess að flytja á þeim kalkstein úr námunni niður að bátnum. Jafnframt byrjaði hann á því að reisa kalkbrensluofn hjá Rauðará. Þessi ofn var alls ekki fullkominn, því að hann var aðeins gerður í tilraunaskyni. En 109 dagsverk fóru þó í það að hlaða hann, draga að grjót, sand og deigulmó og ennfremur fóru 14 dagsverk í brenslu.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945. Austast eru íbúðarhúsin tvö, þá kemur tengibygging vestan við sem líklega var fjós á tímabili, síðan hlaða sem er með gaflinn í suður og svo bygging með skúrþaki vestan við hlöðuna sem hefur verið nýja fjósið. Vestar má sjá hesthúsið úr torfi og grjóti og enn vestar sér í timburskúr líklega frá Kalknámufélaginu.

Var þar brent mó, spýtum, hrísi og kolum og segir Egill sjálfur svo frá að tilraunin hafi tekist vel. Geta má þess, að við vinsluna var brent 113 hestum af mó (hver hestur kostaði þá 50 aura) og 1 1/2 tunnu af kolum. En ekki hefi jeg getað fundið hve mikið kalk hafðist upp úr þessu. Kostnaður við námugröftinn þetta ár nam samtals 682.00 krónum og var þar með talin 40 kr. leiga. Áreiðanlega hefir kalknámið ekki borgað sig, enda var hjer aðeins um byrjunartilraun að ræða. Þó hafði Egill trú á fyrirtækinu, en treystist ekki til að leggja í það meira fje og fyrirhöfn að sinni. Og næsta ár, 1874, var ekkert unnið í námunni, og ekkert kalk brent í ofninum hjá Rauðará.

Mógilsá

Mógilsá árið 1965, útihúsin orðin hrörleg og bíða þess að verða rifin, þakið hefur fokið af fjósinu og hlöðunni. Næst eru hús Kalknámufélagsins og fjær sér í íbúðarhús, starfsmannahús og tilraunastöð skógræktarinnar sem voru reist 1964.

Árið 1875 kom Alþing saman og þar bar Jón Hjaltalín landlæknir fram frumvarp um bann gegn útflutningi á kalksteinum o.fl. í sambandi við það komst hann þannig að orði: „Menn vita lítið um aðra fjallkalksteina hjer á landi en kalklagið í Helgustaðafjalli, því að þótt kalklag hafi fundist í Esjunni, þá er það svo þunt, að það nemur að breidd varla 1/5 hluta af því, sem Helgastaðanáman er, enda vita menn eigi hve langt Esjukalksteinninn gengur inn í fjallið. Það ber öllum saman um, að kalkið og silfurbergið í Helgustaðafjalli sje hið hreinasta kalk, er fundist geti nokkurs staðar“. Hann segir og að kalk það, sem komi frá Danmörku sje leirblandað og magurt og mikið af því mjölkalk sem innihaldi meir en helming þunga síns af vatni. Mundi því kalk úr Helgustaðanámu verða helmingi betra. Danska kalkið kosti 8 til 16 kr. tunnan og sje ókljúfandi fyrir almenning að byggja úr svo dýru steinlími.
Þá fer hann mörgum orðum um óheilnæmi og endingarleysi torfbæja. Í Austfjörðum standi þeir ekki nema svo sem 10 ár, vegna úrkomu, og væri munur fyrir fólk þar og annars staðar að geta bygt úr steini, auk þess sem þá fengist heilsusamlegar íbúðir.

Sandhóll

Sandhóll við Djúpagil.

Eins og sjá má á þessu ber hann ekkert oflof á kalknámuna í Esjunni. En að hann hafi haft trú ú því að landinu væri hagur að því, að náman væri unnin, sjest á því, að á þessu sama þingi bar hann fram þá breytingartillógu við fjárlögin, að Agli væri veittur 1000 kr. styrkur til kalkbrenslu, á 10 gr. fjárlaganna undir ýmislegum útgjöldum.
Landshöfðingi lagðist á móti þessu. Ekki væri það af því að hann vildi ekki styðja fyrirtækið, eins og sæist á því, að í fyrra hefði hann heitið Agli 400 kr. styrk, með því skilyrði að fyrirtækið hefði einhvern framgang, en svo væri ekki enn. Auk þess ætti slíkur styrkur að veitast af því fje, sem veitt væri í 15. gr. til vísindalegra og verklegra fyrirtækja. Það fór því svo að tillaga J. H. var feld.
Egill mun hafa sjeð það, að ekki var heppilegt að hafa kalkbrensluofninn inn hjá Rauðará og að betra mundi að hafa hann niður við höfnina, hjá læknum. Fór hann því til landshöfðingja og bað um ofurlitla lóð úr Arnarhólslandi við lækjarósinn undir kalkbrensluofn og stíg frá honum niður að sjónum, svo gott væri að koma kalksteininum þangað.

Mógilsá

Námusvæðið við Mógilsá.

Landshöfðingi gaf honum kost á þessu með þeim skilyrðum, að þessi blettur væri girtur með 2 álna hárri trjegirðingu, að jafnstór blettur væri sljettaður í túni sínu (Arnarhólstúni) og að Egill greiddi 8 kr. leigu á ári til landsjóðs fyrir afnot kalkofnsblettsins. Þetta fundust Agli harðir kostir, þegar þess var gætt að þessi blettur, sem hann bað um, var ekki tún, heldur alfaraleið allra þeirra, sem fóru yfir lækinn neðst, allur troðinn og auk þess skemdur af sjávargangi. Þó taldi hann sjer nauðugan einn kost að ganga að þessum skilyrðum því að hvergi í Reykjavík miindi tiltækilegt að hafa ofninn nema þarna hjá læknum, vegna þess að mikið vatn verður að nota við kalkvinslu. Mun hann og ef til vill hafa litið svo á, að hann fengi ríflegri styrk hjá landshöfðingja fyrir vikið. Að minsta kosti sótti hann svo um að fá 1000 króna styrk úr landsjóði. Landshöfðingi svaraði því, að hann hefði ekki umráð nema yfir helming þess fjár, sem ætlað væri til styrktar atvinnuvegum (á 15. gr. fjárlaganna). Stjórnin í Kaupmannahöfn hefði umráð hins helmingsins. Gaf hann þó enn vilyrði fyrir 400 kr., en sækja þyrfti um til dönsku stjórnarinnar að fá viðbót úr hinum hluta sjóðsins.

Mógilsá

Norðurhlið bæjarins á Mógilsá 1910, austast er timbur hlaðan með opi fyrir hey í norður, fyrir vestan koma tvö íveruhús, og síðan fjósið. Mikið grjót er fyrir aftan bæinn og má greina eina tóft þar.

Alt þetta ár gekk í þetta og var lítið sint um námagröftinn. Þó telur Egill útgjöld sín vegna námuvinslu hafa numið kr. 396.66 (ásamt leigu), en ekkert sjest um það hvernig brenslan hefur gengið. — Sjálfsagt hefur Egill ekki verið ánægður með hana, og allra síst með ofninn, því að nú fær hann Björn Guðmundsson múrara til þess að fara utan og kynna sjer hvernig nýtísku kalkbrensluofnar væri, og læra að brenna kalk.
Næsta vor (21. apríl) fer Egill enn fram á það við landshöfðingja að fá styrk, og fekk nú þessar 400 krónur. En hann þóttist þó, sem von var, engu nær, því að alt þetta fje fór til þess að girða blettinn hjá læknum, og sljetta jafnstóran blett í túni landshöfðingja.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945, búið að byggja við íbúðarhúsið í austur og steypa hlöðu og fjós, vestast er torfhús sem líklega var hesthús og var byggt fyrir árið 1910 og enn vestar eru skúrbyggingar líklega hús Kalkfélagsins.

Landshöfðingi skrifaði þá Íslandsráðgjafanum í Kaupmannahöfn og lagði til að hann veitti fyrirtækinu álíka mikinn styrk af þeim hluta fjárveitingarinnar á 15. gr., sem hann hafði yfir að ráða. Ráðgjafinn neitaði að verða við því, eins og sjest á brjefi frá landshöfðingja til Egils, dags. 19. júní 1876.
Þar segir svo: „Ráðgjafinn hefur tjáð mjer, að hann verði að vera þeirrar skoðunar, að ef yfir höfuð ástæða skyldi vera til fyrir stjórnina að styðja fyrirtæki einstakra manna, önnur eins og þetta, eigi þó að minsta kosti ekki að veita styrkinn að gjöf handa hlutaðeiganda, sem ræðst í fyrirtækið, með því að engin trygging er fyrir því, að eigi fari svo, að alt fyrirtækið, sem styrkurinn á að efla, hætti innan skamms. Ráðgjafinn hefur því eigi þóst geta veitt neinn styrk í þessu skyni af sínum hluta í 15. gr. fjárlaganna, en af því að það, að minni hyggju, sje mjög æskilegt, að farið yrði að vinna áminsta kalksteinsnámu, segist ráðherrann aftur á móti ekki vera því mótfallinn, að jeg láti yður fá 400 kr. lán úr viðlagasjóði, gegn tryggilegu veði.“

Oddgeir Stephensen

Oddgeir Stephensen – 1812-1885.

Ekki er að sjá að Egill hafi þegið þetta lán. Mun hann hafa verið gramur út af þessum undirtektum, og aðallega vænt Oddgeir Stephensen um að hafa spilt fyrir sjer hjá ráðherranum. Þá um sumarið (1876) er samt hafist handa um smíði hins nýa kalkofns. Var dreginn að leir innan frá Elliðaám og sandur innan frá Eiði. Jafnframt er farið að vinna að því af kappi að brjóta kalkstein í Esjunni. Var keypt mikið af púðri á Eyrarbakka til þess að sprengja þar. En þá kom í ljós að kalksteinninn var ekki eins mikill og menn höíðu haldið og þraut brátt fyrsta og annan ganginn. Sá Egill sjer því vænst að tryggja sjer einnig námarjettindi í Kollafjarðarlandi og leigði þau fyrir 20 krónur á ári. Margir menn voru hafðir þarna í vinnu um sumarið. Kaupið var lágt, aðeins 2 krónur á dag, en þó hafði einn maður (Egill í Arabæ) 256 kr. upp úr sumrinu.
Eftir þetta sumar taldi Egill að hann hefði lagt fram kr. 4010.95 í kostnað við námagröftinn, en getur þess ekki að hann hafi haft neinar tekjur af honum. Og þetta sumar hefur ekkert kalk verið brent, heldur kalksteinninn brotinn, fluttur sjóveg til Reykjavíkur og átt að geymast þar þangað til nýi ofninn væri fullger, en hann varð það ekki fyr en á árinu 1877.

Kalkofninn

Kalkofninn neðan við Arnarhól.

Vegna þessara útgjalda, sem voru mikil á þeim dögum, bæði vegna þess að krónan var þá dýrari en nú, menn yfirleitt fátækari og hvergi lán að fá, sá Egill sitt óvænna að halda þannig áfram. En ekki var honum um það að gefast upp. Tókst honum þá að fá M. Smith konsúl í fjelag við sig þannig að Smith ætti fjórða hlutann í fyrirtækinu, en Egill þrjá fjórðu. Björn Guðmundsson vann að smíði kalkofnsins og varð það allmikið hús, turnlaga. Var ofninn vandaður að öllum frágangi og sem líkastur þeim ofnum, er notaðir voru erlendis. Sennilega hefur verið byrjað að brenna kalk í honum snemma á árinu 1877. Fer nú fyrirtækið fyrst að komast á rekspöl.

Reykjavík

Reykjavík 1887.

Kalksteinn var brotinn af kappi í Esjunni og eru þar allmargir menn við vinnu. — Kalksteinninn var sprengdur með púðri, því að dynamit þektist þá ekki. Var fyrst tekin fyrir kalkæð fyrir vestan ána og túnið á Mógilsá, en ganginn þraut brátt, eins og áður er sagt. Þá var kalkið sprengt í svonefndum Sandhól, upp af Djúpagili, en þar fór á sömu leið. Þá var farið að sprengja kalkstein fyrir ofan fossinn í Mógilsá. Var þetta miklu hærra í fjallinu og flutningar allir erfiðari fyrir vikið, Allur var kalksteinninn fluttur á hestum frá námunni niður að sjó. Var þaðbæði kvotlsamt og erfitt og reyndist dýrt. Og svo voru flutningar með bátum þaðan til Reykjavíkur. Voru hafðir tveir eða þrír bátar við flutningana, þar á meðal fröns loggorta, sem Egill átti.

Lækjargata 10

Eitt elsta íbúðarhús úr hlöðnu grágrýti í Reykjavík. Grjótið var fengð úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar úr Esjunni. Húsið var síðar lengt til suðurs og kvistir gerðir árið 1904.

Til er yfirlit um reksturinn á þessu ári og hefur hann kostað kr. 5323-54 alls. En upp í það kemur selt kalk fyrir kr. 3778.89 og kalksteinn fyrir kr. 1200.00, eða samtals kr. 4978.89, svo að tap kr. 349.65 hefur orðið á rekstrinum. Kalkið var selt í smásölu til hinna og annara og kostaði hver tunna af því 6 krónur. Af því má sjá, að á þessu ári hafa fengist um 630 tunnur af kalki.

Bergstaðastræti 12

Á árunum 1880 til 1905 voru byggð allmörg steinhús og steinbæir í Reykjavík með tækni sem íslenskir steinsmiðir lærðu af byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg og Alþingishússins. Sérstaða steinbæjanna lá í því að þeir voru að miklu leyti eftirlíking torfbæjanna sem þeir leystu af hólmi. Veggir voru úr hlöðnu grjóti án glugga, gaflar oftst úr timri með gluggum og þakið bárujárnsklætt. Er því oft haldið fram að steinbæirnir séu eina sér-reykvíska húsagerðin. Talið er að um 170 steinbæir hafi verið byggðir á þessum árum en að aðeins 20 þeirra standi enn.

Til er nafnlaus grein um kalknámið,- skrifuð á dönsku þetta ár. Mun hún hafa átt að birtast (og hefur máske birst) í einhverju dönsku blaði. Er þar veist að stjórninni og yfirvöldum fyrir það hvað þau hafi sýnt lítinn skilning á þessu nauðsynjamáli, og jafnframt sýnt því beran fjandskap. Þykir mjer líklegt að greinin sje runnin undan rifjum Egils. Er því þar og lýst hvaða vonir hann hefur bundið við þetta fyrirtæki um bættan húsakost í Reykjavík. Segir þar m.a. svo: — Í Reykjavík hafa verið bygð nokkur steinhús í sumar. Þar á meðal íbúðarhús fyrir almúgafólk, og má það furðulegt heita í því árferði sem nú er, því að hjer er mjög þröngt í búi vegna þess að fiskveiðarnar brugðust algjörlega. — Enginn efi er á því, að framvegis munu menn byggja hús sín hjer úr steini og kalki. En það er ekki gott að segja hve fljótt steinhúsin munu útrýma torfbæunum. En hvort sem þess verður langt eða skamt að bíða, þá mun sú breyting hafa hin heillavænlegustu áhrif á kjör allra, því að bætt húsakynni er eitt af aðalskilyrðunum fyrir því, að hjer geti orðið menningarlegar framfarir. —

Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal.

Þrátt fyrir dugnað og áhuga Egils stóð fyrirtæki þetta ekki nema í nokkur ár. Björn Kristjánsson, síðar bankastjóri, var einn af þeim, sem vann við kalknámið í Esju, og segir hann að það hafi lagst niður vegna þess að það borgaði sig ekki, og kennir þar um óheppilegum vinnubrögðum og of miklum flutningskostnaði. Hann segir að kalksteinninn hafi sprengst illa með púðrinu, og í stað þess að reiða hann á hestum ofan úr námunni, hefði verið betra og kostnaðarminna að hafa þráðbraut niður brekkuna og renna honum niður.

Benedikt Gröndal, bróðir Egils, sem átt hefur að vera þessum málum kunnugur, segir svo um kalkvinsluna: „Fyrir nokkrum árum var hjer kalkofn og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni. Var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu og óhæfilegt til kalkgerðar. Varð kalkið þannig ónýtt, eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“
Eitthvað hefur Gröndal sjálfsagt til síns máls um að vatnið úr læknum hafi skemt kalkið. En ekki hefur það verið altaf, því að sagt var að kalkið hefði verið betra og sterkara heldur en útlent kalk. Steinstjettin gamla í Bankastræti var límd saman með kalki úr Esjunni.

Trausti Ólafsson

Trausti Ólafsson í portinu við Hverfisgötu 44 Reykjavík, en þar bjó hann 1927 – 1934. Í bakhúsinu þar var Efnarannsóknastofa ríkisins til húsa til 1937 þar til að starfsemin var flutt í Atvinnudeild Háskólans. Trausti tók við forstöðumannastarfi á Rannsóknarstofunni er hann kom heim frá námi 1921. Efnarannsóknastofa ríkisins var stofnuð 1906 og var fyrsti forstöðumaður hennar Ásgeir Torfason Bjarnasonar skólastjóra í Ólafsdal. Ásgeir var fyrsti efnafræðingur landsins.

Þegar Bankastræti var breytt, var hún rifin upp, og brotnuðu þá steinarnir fyr en að samskeytin gæfu rig. Það sýnir að ekki hefur alt kalkið verið ljelegt. Og enn stendur steinhús Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu 10. Það er límt saman með kalki úr Esjunni og hefur það ekki látið á sjá enn.
Löngu síðar, árin 1916—17, var gerð önnur tilraun með kalknám í Esjunni. Átti þá að brenna kalkið þar efra. „5 eða 6 menn unnu í 2 mánuði við að losa kalkstein úr ákveðnum gangi þar; var komið nokkuð djúpt niður í hann og var veggurinn því orðinn hár að ofanverðu. Verkamennirnir fundu nú upp á því að skjóta 30 dynamitpatrónum í einu í ganginn. Afleiðingin varð, að efri veggurinn hrundi ofan í ganginn og fylti hann. Fjelagið gafst svo upp við fyrirtækið.“

Nokkuð er af gulli í kalksteininum og kvarzgöngum, sem eru í sambandi við hann. Rannsakaði Trausti Ólafsson efnafræðingur sýnishorn úr námunni fyrir Björn Kristjánsson og reyndist gullmagnið í kalkganginum 10—19 grömm í tonni, en í kvarzinum nokkru meira eða alt að 26 gr. í tonni. En í gullnámum Suður-Afríku var þá meðaltal gullmagns 12 1/2 gramm í tonni.
Björn segir því: „Ef nú Egill Egilson hefði látið rannsaka kalksteininn fyrir gull þá hefði ágætlega borgað sig að vinna steininn þar á staðnum sem gullstein. Eins hefði sennilega vel borgað sig að brenna og leskja kalksteininn þar á staðnum og leysa gullið úr afganginum af steininum, sem ekki leskjaðist, með cyankalium.“ – Á.Ó.

Heimildir:
-Víkverji 28.08.1873, Kalk í Esjunni, bls. 82.
-Þjóðólfur 17.5.1877.
-Eimreiðin 01.01.1900, bls. 83.
-Ægir 01.06.1914, bls. 68.
-Tímarit iðnaðarmanna 01.04.1941, bls. 26-27.
-Heilbrigðistíðindi 01.07.1973, Kalkbrennsla, bls. 60-61.
-Lesbók Morgunblaðsins 23.10.1949, „Kalknám í Esjunni og Kalkbrensla í Reykjavík“, Árni Óla, bls. 461-464.
-Hndr. Lbs. 314 fol. Hndr. J. S. 133 fol., Reykjavík um aldamótin, Iðnsaga Íslands II, Alþtíð. 1875, Stjórnartíð, 1876.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við bæjarstæði Mógilsár, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2019.

Esja

Esja.