Eftirfarandi er úr viðtali sem Bragi Óskarsson tók við Árna Guðmundsson frá Teigi, fyrrverandi formann í Grindavík. Árni lést árið 1991, mánuð fyrir 100 afmælið. Árni bjó fyrst í Klöpp, torfbæ austan við Buðlungu, og síðar í Teigi.
Frá honum og konu hans, Ingveldi Þorkelsdóttur frá Þorbjarnarstöðum í Hraunum, eru Teigaranir komnir (eða það segir a.m.k. Dagbjartur Einarsson – og ekki lýgur hann). Afi hennar var Jón Guðmundsson, hreppstjóri, á Setbergi við Hafnarfjörð. Faðir Ingveldar var Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Igveldur Jónsdóttir frá Setbergi. Foreldrar Árna voru Guðmundur Jónsson (1858-1936) frá Þórkötlustöðum og Margrét Árnadóttir (1861-1947) frá Klöpp. Afi hans var Jón Jónsson frá Garðhúsum. Systir Árna var Valgerður, eiginkona Dagbjarts Einarssonar, afa Dagbjarts Grindvíkings. Svona var nándin mikil fyrrum í Grindavík – þegar húsin voru nafngreind og útidyrahurðir stóðu jafnan opnar.
Klöpp var myndarbýli, en nú sjást einungis rústir gamla torfbæjarins, nokkuð heillegar. Timburhús, sem byggt var á jörðinni, svolítið austar, flaut upp í stórviðri árið 1925. Eftir það var húsið fært ofar í landið, þar sem það er nú, samfast samnefndu húsi. Hér lýsir Árni útfræði, formennsku og öðru því sem þurfti að sinna í hinu daglega amstri Grindavíkurdaganna fyrrum – sem þó eru einungis handan við hornið…
„Þeir eru nú orðnir fáir sem muna áraskipin gömlu og þá sjómennsku sem á þeim var stunduð. Allt frá landnámstíð og fram á þessa öld sóttu Íslendingar sjóinn á árabátum og urðu að notast við þær hafnir sem náttúran hafði sjálf smíðað. Sennilega hafa breytingar orðið næsta litlar í sjósókn landsmanna í sumum verstöðvum allar þessar aldir, því þó þilskipin kæmu til sögunnar héldu árabátarnir sínum hlut. Viðmælandi minn, Árni Guðmundsson frá Teigi í Grindavík, stundaði sjá á áraskipum þaðan í upphafi þessarar aldar í meira en áratug. Hann er 95 ára gamall (árið 1986), fæddur árið 1891. Ég fékk Árna til að rifja ýmislegt upp frá þessum árum.
Vermenn
– Faðir minn, Guðmundur Jónsson, var lengst af formaður á róðrarbátum frá Grindavík, sagði Árni. Hann varð ungur formaður – sextán ára og stundaði það starf allt þar til heilsan bilaði og ég tók við formennskunni af honum. Hann bjó á jörðinni Klöpp í Þórkötlustaðahverfi. Búið hjá honum var töluvert stórt á mælikvarða þess tíma. Hann var með eina kú, tvo hesta og þetta 60-70 ær.
Á veturna réru að jafnaði 7 – 9 aðkomumenn með föður mínum. Þeir bjuggu í verbúð og gerðu sig að öllu leyti út sjálfir. Sumir þessara manna komu langt að – einn þeirra man ég að var austan af Síðu og hefur það verið erfitt ferðalag hjá honum að komast í verið, sérstaklega ef maður hefur það í huga að þá voru allar ár óbrúaðar.
Mötuna sendu vermennirnir á undan sér í þartilgerðum skrínum, og varð faðir minn að sækja þær þeim að kostnaðarlausu inn í Keflavík. Skrínur þessar voru trékassar sem oftast voru hólfaðir í tvennt. Var kæfa í öðru hólfinu en smjör í hinu. Matan varð að endast alla vertíðina. Fisk urðu þeir að skaffa sér sjálfir en alla vökvun, hvort sem var grautur, kaffi eða sýra fengu þeir hjá útgerðinni, sem tók einn hlut upp í þann kostnað.
Jú, það vildi nú vera misjafnt hvernig þeim hélst á mötunni karlagreyjunum – en það var þá reynt að hjálpa eitthvað uppá þá sem verst voru staddir.
Hversu margir bátar réru þá frá Grindavík?
Ég á nú ekki gott með að áætla hversu margir árabátar voru gerðir út þaðan þegar ég man fyrst eftir. Róið var úr öllum hverfunum þrem, flestir voru bátarnir frá Járngerðarstaðahverfinu, en miklu færri frá Þórkötlustaðahverfi og Staðarhverfi. En ég gæti trúað að það hafi verið svo sem 20 bátar sem réru frá öllum hverfunum að jafnaði. Margir aðkomumenn réru jafnan í Grindavík og komu þeir víða að – allt austan frá Skaftafelli og norðan af Vestfjörðum. Margar vertíðir réru hjá mér tveir harðduglegir menn frá Patreksfirði, þeir gengu alla leið að vestan með pokana sína – og létu sér ekki muna um það. Það eina sem þeir fóru ekki gangandi á þessari löngu leið var að þeir fengu sig yfirleitt flutta með flóabátnum frá Akranesi til Reykjavíkur.
Bærinn Teigur var upphaflega kot sem ég fékk að reisa á jörðinni hans pabba. Þar reisti ég timburhús sem stóð í átta ár. Þegar ég byggði þetta hús áttaði ég mig ekki á því að sjórinn var alltaf að brjóta landið og einu sinni í miklu brimi komu sjóarnir alveg upp að bæjardyrunum hjá mér. Þá varð konan hrædd, sem vonlegt var – ég réðst þá í að rífa húsið og notaði timbrið úr því til að byggja steinhús ofar í þorpinu. Þar átti ég svo heima alla tíð með fjölskyldu minni og síðast einn þar til í sumar sl. að ég fluttist hingað á Hrafnistu í Hafnarfirði.
Búið hjá mér varð aldrei stórt. Ég var með eina kú, einn hest og svona 30 –40 ær. Það var margt í heimili hjá mér – börnin voru nú ekki nema ellefu en svo voru tengdaforeldrar mínir lengi hjá okkur og voru þá sextán manns í heimili.
Þú byrjaðir ungur þína sjómennsku?
Sjö ára gamall fór ég fyrst á sjó, fékk að fljóta með hjá einum formanninum. Það var aum byrjun, því ég var miður mín af sjóveiki en tókst þó að reita upp eina 29 titti. Það var minn fyrsti afli.
Lífróður
Fjórtán ára fór ég fyrst að róa í alvöru og fór þá á vetrarvertíð í fyrsta sinn.
Eiginlega átti ég að vera í snúningum heima því þar var nóg að starfa. Pab
Eitt sinn um sumarið munaði þó mjóu að illa færi. Þá hafði gert óverður svo ekki varð farið á sjó í viku tíma. Formaðurinn var orðinn óþolinmóður því við vorum með net í sjó sem ekki hafði tekist að vitja um og svo áttum við tilbúna línu sem beitt hafði verið með gotu. Veðrið fór að lægja á sunnudegi en formaðurinn kallaði þó ekki á okkur fyrr en komið var fram á dag. Einn hásetanna, og annar eigandi bátsins, vildi þó ekki hlýða kallinu því bæði var hann fullur og svo þóttist hann vera svo guðhræddur að hann réri ekki á sunnudegi, sem var nú ekki annað en fyrirsláttur hjá honum.bi hafði alltaf nóg af sjómönnum enda var sóst eftir að komast í skiprúm hjá honum. Mín fyrsta vertíð var ekki með pabba, heldur fór ég á áttæring hjá formanni sem vantaði menn. Hann hafði ekki nema þrjá vana menn sem allir voru reyndar komnir yfir sextugt, svo vorum við tveir fjórtán ára strákar og einn fimmtán ára. Ekki þótti þetta merkileg skipshöfn en þetta slampaðist þó furðanlega hjá okkur.
Nú, við fórum út og lögðum línuna. Það tafði okkur að við þurftum að taka upp grásleppunet sem formaðurinn átti, netin voru öll orðin full af þara og illt við þau að eiga. Þegar við höfðum loks lokið við að draga línuna reif hann sig upp með suðaustan rok og urðum við að róa lífróður allan daginn og fram á nótt að við komumst loks í höfn. Það var á versta tíma – um háfjöruna, og vorum við strákarnir hreinlega að gefast upp. Það vildi okkur til að feður okkar komu og tóku við af okkur, því við gátum þá rétt með herkjum staðið á löppunum. Þá var maður þreyttur og gott að hvíla sig.
Árabátarnir
Formaður varð ég tuttugu og tveggja ára þegar ég tók við af föður mínum sem þá hafði misst sjónina og var orðinn heilsuveill. Þá tók ég við formennsku á teinæringnum Lukku –Reyni. Síðar fékk ég Guðjón Einarsson skipasmið í Reykjavík til að smíða fyrir mig nýjan bát, Farsæl, og lét setja í hann vél.
Þetta var óneitanlega erfið sjómennska og ekki hættulaus. Róðurinn gat verið nokkuð langur á miðin, sérstaklega þegar netaveiðin stóð yfir. Mest vorum við með línu því ekki þýddi að byrja með netin fyrr en í apríl. Oft lenti maður í miklum barningi þegar róið var móti vindi og þá gat róðurinn orðið þungur og reynt á þolrifin í mannskapnum. Yfirleitt var róið á mið frá Staðarbergi og allt fram á Sýrfell. Mið þessi hétu ýmsum nöfnum s.s. Grunnaskarð, Síling, Djúpaskarð, Hallinn, Slakkinn, Melurinn o. fl. Aflinn var nú misjafn en oft sigldum við þó heim með hlaðinn bát.
Róið var allt árið um kring. Við feðgarnir áttum sinn bátinn hvor og rérum þannig allar árstíðir. Vor og sumar var róið á fjögurra manna fari, en reyndar voru venjulega fimm á, sex manna fari rérum við á haustin en á vetrarvertíðinni voru við á teinæringnum.
Vetrarvertíð
Á vetrarvertíð var farið út fyrir klukkan fimm á morgnana. Byrjað var á því að setja bátinn niður því allt var gert með handafli á þessum tíma. Skipin voru sett upp fjöruna á höndum líka, alveg þar til við fengum spil, sem var stór munur – þá gengu 4 – 6 á spilið og spiluðu bátinn upp en tveir studdu við hann.
Venjulega var um klukkustundar róður á miðin og þá var farið að leggja línuna. Oft var enn niðamyrkur þegar við komum á miðin og voru þá hafðar luktir til að lýsa mönnum við að leggja. Á teinæringnum vorum við venjulega með fimm bjóð – vorum yfirleitt átta undir árum meðan lagt var og hver krókur tíndur út, einn í einu. Ef eitthvað flæktist var bátnum róið afturábak og greitt úr því. Um klukkustund tók að leggja lóðina ef allt gekk vel. Að því loknu gátu menn fyrst gefið sér tíma til hvíldar, því væri ekki byr úr landi, var hamast í einni skorpu frá því lagt var af stað og þar til línan var öll komin í sjó.
Þegar búið var að leggja voru menn venjulega uppgefnir og sveittir. Sló þá oft illa að mönnum og varð mörgum hrollkalt meðan beðið var í rúmlega klukkustund yfir lóðinni, oft í frosti og snjókomu, en hvergi var skjól að hafa. Það gat gengið misjafnlega að ná línunni eftir því hversu mikið var á henni eða hvort hún festist. Ef hún varð föst var allra bragða neytt til að losa hana en þegar allt þraut var róið á línuna þar til hún slitnaði og síðan róið í næsta ból.
Þegar dregið var voru venjulega átta undir árum og andæfðu, tveir skiptust á um að draga og gogga af, en formaðurinn stóð afturí við stýrið. Það var erfitt verk og lýjandi að draga línuna og venjulega var það ekki falið öðrum en hraustmennum. Um 3 til 4 tíma tók að draga þegar allt gekk vel. Þá var haldið til lands. Ef byr var hagstæður var segl dregið að húni en annars varð auðvitað að róa.
Hvenær var svo komið að?
Ja, það gat nú verið ansi breytilegt, lagsmaður – það gat verið alveg frá hádegi eða fram í svartamyrkur eftir því hversu vel eða illa gekk á sjónum.
Náðuð þið alltaf í höfn í Grindavík?
Oft munaði það mjóu en hafðist þó alltaf hjá okkur. Einu sinni urðum við t.d. að liggja daglangt úti á lóninu fyrir utan brimgarðinn við innsiglinguna í veltubrimi og stormi. Þar urðum við að róa lífróður í sex klukkustundir samfleytt svo okk
ur ræki ekki upp í brimgarðinn. Vorum við allir orðnir allþrekaðir þegar formaðurinn ákvað að reyna lendingu. Þá voru allir karlmenn úr Járngerðarstaðarhverfinu komnir í fjöruna til að taka á móti okkur og það auðveldaði okkur lendinguna mikið. Þeir voru að reyna að hella lýsi og olíu í sjóinn til að draga úr briminu, en stormurinn hreytti því öllu upp í fjöru jafn óðum, svo það kom að litlu gagni. Þessi lending gekk þó að óskum og máttum við þakka það því hversu hraustlega var tekið á móti bátnum þegar hann bar upp.
Fiskur á seilum
Í Grindavík var engin bryggja á þessum árum og því varð ávallt að seila fiskinn. Væri brim var seilað út á lóninu fyrir utan brimgarðinn til að létta bátinn – fiskurinn var allur bundinn í kippur sem í var bundin fimm punda lína um 60 faðma löng. Einn maður gætti hnykilsins þegar róið var gegn um brimgarðinn og gaf út af færinu eftir því sem þurfti. Þegar í land var komið var svo aflinn dreginn að landi gegnum brimgarðinn og reynt að stilla þannig til að fiskurinn kæmi upp í fjöruna fyrir neðan skiptivöllinn.
Væri sæmilega gott í sjóinn var fiskurinn ekki seilaður fyrr en komið var í vörina. Þá voru tveir menn settir til að halda bátnum meðan aflinn var seilaður og gat það verið erfitt verk að styðja ef eitthvað hreyfði sjó. Aflinn var alltaf seilaður, – nógu erfitt var að setja bátinn upp þó ekki væri aflinn um borð í honum.
Þegar búið var að setja bátinn var tekið til við að bera fiskinn upp á skiptivöllinn. Þar var aflanum skipt í 14 staði eða 7 köst en við vorum 11 á. Voru tveir um hvert kast og voru kallaðir lagsmenn. Eitt kast, eða tveir hlutir, komu í hlut útgerðarinnar en einn hlutur var dauður og fór í kostnað við áhöfnina eins og ég kom að áðan.
Svo þurfti auðvitað að beita línuna fyrir næsta róður. Hraða þurfti öllum
þessum verkum svo menn fengju sæmilega langan svefn fyrir róður næsta dags.
Var ekki erfitt að eiga eftir alla aðgerðina þegar komið var af sjónum?
Nei, maður fann ekkert fyrir því. Það var bara að ná landi, þá var maður ánægður. Þegar það hafði tekist hafði maður bara gaman af aðgerðinni og að beita línuna.
Sjóslys voru tíð á þessum tíma er það ekki?
Jú, það kom fyrir að bátar fórust á miðunum í vondum veðrum. Einn teinæringur fórst í innsiglingunni við Grindavík nokkru eftir að ég hóf sjómennsku og gerðist það skömmu áður en við komum að. Það voru geysiháir sjóar og mikið brim í innsiglingunni þann dag. Þeim hlekkist eitthvað á og brimið náði bátnum. Það komust ekki nema tveir af – formaðurinn sem hét Guðmundur og einn háseti. Það merkilega var að Guðmundur þessi fór svo á skútu um sumarið og fórst með henni. Það virðist svo að ekki verði feigum forðað.
Samgöngurnar
Við Árni snúum nú talinu að samgöngum á landi í aldarbyrjun.
Þegar ég man fyrst eftir mér var hér enginn vegur, sagði Árni. Aðeins götuslóði var til Keflavíkur en þangað þurftu Grindvíkingar margt að sækja. Þar var læknirinn og þangað varð að sækja allt sem ekki fékkst hjá kaupmanninum í Grindavík. Menn fóru þetta ýmist gangandi eða ríðandi.
Já, ég gekk þetta oft og stundum með allmiklar byrðar. Einu sinni kom það fyrir þegar hann rauk upp með verður að faðir minn missti öll sín net. Það var mikill skaði því netin voru dýr og svo féllu auðvitað niður róðrar hjá okkur út af þessu. Ekki var um annað að ræða en setja upp ný net og sendi hann mig þá inn í Keflavík ásamt fjórum hásetum öðrum að ná í netakúlur. Það var von byrði – ekki vegna þess að hún væri svo þung, heldur fór þessi baggi illa á manni. Við höfðum borið sem svaraði 50 kg hver og höfðum af því mikið erfiði.
Þá var öll síld til beitu borin frá Keflavík til Grindavíkur. Hún var borin í fatla sem kallað var. Síldin var sett í poka sem við bundum á okkur með reipum og hertum að þannig að pokarnir hvíldu á öxlunum. Var mikill munur að hafa hendurnar lausar, þar sem leiðin var löng en byrðin oft um 50 kg. Illt var að nema staðar og hvíla sig með þessar byrðar eins og frá þeim var gengið. Reyndu menn venjulega að komast þetta í tveimur áföngum því aðeins einn góður hvíldarstaður var á miðri leið og var hann kallaður Lágar. Þar er bergsylla sem auðvelt var að styðja pokanum á og losa hann af sér án þess að eiga í vandræðum með að binda hann á sig aftur.
Saltflutningar
Þessi burður var þó auðveldur miðað við saltflutningana en við þá slapp ég sem betur fer. Þegar ég man fyrst til var öllu salti skipað upp í Vogunum og báru Grindvíkingar saltið á sjálfum sér þaðan í hálftunnupokum. Það voru því rúmlega 50 kg sem hver maður bar og var þetta mjög erfið byrði. Saltið var blautt og leiðin löng, og á göngunni nuddaðist það inn í bakið á burðarmönnunum. Aumingja karlarnir sem þannig urðu að þrælast með þessar drápsklyfjar dag eftir dag fengu oft mikil sár, sem lengi voru að gróa, undan pokunum.
Sjálfur lenti ég stundum í því að rogast með svona byrðar í uppskipun, bæði með helvítis kolin og svo saltið.
Þegar saltskip og kolaskip komu varð uppskipun að ganga eins hratt fyrir sig og hægt var, enda venjulega nægur mannskapur á lausu. Við bárum þetta á bakinu í sekkjum en í þá var saltið mælt með hálftunnustömpum úti í skipinu. Þetta þrömmuðum við með frá uppskipunarbátnum og drjúgan spöl upp að geymsluhúsunum þar sem við urðum að staulast upp brattan stiga en svo var saltinu steypt úr pokunum fram yfir hausinn á okkur niður í binginn. Þannig man ég að við þræluðum einu sinni hvíldarlaust heilan dag og fram á nótt. Fengum rétt að fleygja okkur útaf í saltbinginn um lágnættið yfir lágfjöruna. Þá var maður hvíldinni feginn. Þetta voru ekki allt sældar dagar hjá manni.
Fiskurinn
Þá voru mörg handtökin í sambandi við fiskinn eftir að hann var komin á land. Allur þorskur og ufsi var flattur og saltaður á Portúgalsmarkað. Það var mikil vinna að breiða fiskinn til þurrkunar þegar vel veiddist. Oft man ég til þess að allur kamburinn fyrir neðan túnið hjá mér var hvítur af fiski. Þegar skipin komu var fiskurinn fluttur úr í þau í bátum og stúfað í lestarnar. Var vandaverk að stúfa því raða varð hverjum fiski rétt svo þessi dýrmæti útflutningur skemmdist ekki.
Leiddist þér aldrei þetta puð og basl á sjónum – fannst þér þetta ekki stundum þýðingarlítið strit?
Nei, sú hugsun kom aldrei að mér. Það var ávallt mitt yndið mesta að vera á sjónum og ég man ekki til þess að mér leiddist sjómennskan nokkurn tíma. Enda var ég á sjónum árið um kring öll mín bestu ár – ég fékk aldrei leið á því. Meira að segja þegar ég var kominn yfir sextugt og hættur á vertíðum gátum við ekki stillt okkur um það þrír karlar að stunda sjóinn á fjögurra manna fari með búskapnum. Þetta var auðvitað ekki mikið sem við öfluðum því róðrarnir hjá okkur voru stopulir en við höfðum þó í soðið og vel það.“
Sjá viðtal – http://www.ismus.is/i/person/id-1007820
Heimild m.a.:
-http://www.simnet.is/isrit/greinar/arabat.htm