Nes

FERLIR hefur skráð 93 grjóthlaðnar refagildrur á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs. Flestar eru þessar gildrur fornar og eiga í grunnin rætur að rekja til þess fólks er fyrst byggði landið.  Gildrurnar lögðust að mestu af eftir að byssan kom til sögunnar. Upp frá því voru hlaðin skjól fyrir refaskyttur víðs vegar í hraunum, holtum og hæðum, svonefnd skotbyrgi. Ummerki þeirra má sjá víða enn í dag. Oft var um að ræða fáfarnar hleðslur til skjóls í nágrenni við greni, en einnig lögðu menn á sig að hlaða vegleg byrgi því oftar en ekki lágu grenjaskyttur úti á grenjum svo dögum skipti.

Refagildrur

Refagildrur – yfirlit.

Í Sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1944, er „Refagildru á Látrum“ lýst. Hún segir meira en nokkuð annað um hvernig veiðitæknin var frá upphafi vega:“Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi fjarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði. sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal. og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
„ . . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hana. Hún er þessi:

1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.

2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.

Selatangar

Selatangar – refagildra.

5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi, yfir áminnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar – og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.“
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar, heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það.“

Heimild:
-Sunnudagsblað Þjóðviljans, 5. tbl. 16.02.1944, Refagildran á Látrum, bls. 53.

Refagildra

Refagildra – umfjöllun í Reykjavíkurpóstinum 1847; Fréttir, bls. 27-28.

Botnsdalur

Innst í Hvalfirði er Botnsvogur og inn af honum gengur Botnsdalur. Hann er stuttur, gróðursæll og skjólgóður. Tvö býli eru í dalnum, Litli-Botn og Stóri-Botn. Fyrir botni dalsins gnæfir Hvalfellið (852 m) en eftir honum liðast Botnsáin, tær og sakleysisleg og fellur í voginn. Hún kemur úr Hvalvatni, sem er austan við Hvalfell.
 BotnsdalurEndur fyrir löngu, er ísaldarjökullinn þakti landið og skriðjöklar hans surfu berggrunninn, myndaðist Hvalfjörðurinn og dalir þeir, sem að honum liggja. Á þeim tímum var eldvirkni landsins ekki minni en nú og mynduðust þá og mótuðust mörg þeirra fjalla, sem við þekkjum svo vel. Jökullinn hafði sorfið Botnsdalurinn lengri en hann er nú, en svo hófst eldgos undir jöklinum. Fjall hlóðst upp í miðjum dal og þegar jökullinn hvarf stóð það eftir. Bak við það var djúp dæld, sem síðar fylltist af vatni.
Fjallið heitir Hvalfell, vatnið Hvalvatn og úr því rennur Botnsá. Hún fellur vestur með Hvalvatni að norðanverðu og beygir svo til suðurs. Þar hefur hún grafið djúpt gljúfur í gljúp jarðlögin í hlíðar dalsins. Þessi gljúfur eru ein hin mestu og hrikalegustu í landinu. Þau eru stutt og dýpst, þar sem áin fellur fram af dalbrúninni í einum fossi. Hann heitir Glymur og er um 200 m hár. Glymsbrekkur eru með stefnu á vesturhorn Hvalfellsins. Fyrrum var fjölfarin leið um þessar slóðir úr Botnsdal yfir í Skorradal, en hún lagðist af með breyttum samgöngutækjum.

Skinnhúfuhellir

Beinkambur með hinu forna lagi, okar 2 með þynnum 2 á milli og standa eirnaglar 2 í gegn: okarnir eru 5,9 og 6,1 cm. að l. og 7-10 mm. að br. Br. kambsins er 3,5 cm. Þynnurnar eru báðar saman 4,5 cm. að lengd: er önnur endaþynna, nær ótent. Rákir 2 eru til prýðis eptir okunum langsetis. Virðist óslitinn og er vafasamt, hvort verið hafi nokkru sinni að gagni eða orðið fullgjör: er mjög óvandaður. Mun vera gamall, en alls ófúinn: líkur kömbum frá miðöldunum. Fanst í litlum helli norðan í Hvalfelli, sunnan við Hvalvatn: mun það vera Skinnhúfuhellir ( sbr. Árm.s, og Árb. 1881, 41). Eru bein mörg í hellinum og í hrúgu í brekku fyrir framan hann. Hefir hér að líkindum verið útilegumannabæli í fyrndinni.

Þótt Hvalvatnið sé ekki stórt að flatarmáli, geymir það mikinn vatnsforða því mesta dýpi þess er 160 m. Leiðin umhverfis Hvalvatn liggur með vatnsborðinu, er auðveld yfirferðar. Tveir litlir hellar eru á þeirri leið. Sá minni er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Norðaustan úr miðju Hvalfelli gengur klettahöfði fram að vatninu.Â Í honum er lítill og lélegur hellisskúti. Þar eru sýnilegar minjar um mannvistir því hlaðinn hefur verið grjótbálkur í hellinum og eitthvað hefur fundist af dýrabeinum á gólfinu. Hellirinn nefnist Arnesarhellir og er kenndur við Arnes Pálsson sem uppi var á síðari hluta 18. aldar og var alræmdur þjófur. Er talið að hann hafi dvalið þar veturlangt í felum.
Hvalinn, sem öll þessi örnefni eru kennd við, er að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Í suttu máli er hún á þá leið að maður í álögum varð að hval og lá hann úti fyrir Hvalfirði, grandaði bátum og drekkti skipshöfnunum. Synir prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd drukknuðu af völdum hvalsins. Presturinn vissi lengra en nef hans náði. Með töfrabrögðum gat hann seitt hvalinn inn fjörðinn, upp Botnsá, upp gljúfrin miklu og inn í vatn. Þar sprakk skepnan. Fannst beinagrind hvalsins þar síðar. Við þennan hval er fjörðurinn, fellið og vatnið kennt.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Hin gamla þjóðleið frá Botnsdal í Hvalfirði til þingvalla er nefnd eftir Leggjabrjóti, illfærum urðarhálsi, sem liggur þvert á leið og var fyrrum hinn versti farartálmi. En eldra nafn á leiðinni var Botnsheiði. Leiðin er nú vörðuð að mestum hluta og ætti það að vera til styrktar í þoku og dimmviðri, Vegalengd er 12-13 km og
ca. 5-6 klst ganga ef farið er í rólegheitum.
 BotnsdalurBotnsdalurinn er stuttur, kjarrivaxinn dalur upp af Botnsvogi. Ísaldarjökullinn myndaði dalinn, svo og Hvalfjörð og alla þá dali og skorninga, sem að honum liggja. Í Landnámabók segir svo:
„Maður hét Ávangur írskur að kyni. Hann byggði fyrst í Botni. þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip og hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamar“ .
Klettahöfði við veginn, innst í voginum að sunnanverðu ber þetta nafn nú. Tveir bæir voru í dalnum Neðri eða Litlibotn og Efri eða Stóribotn. Á Neðrabotni bjó Geir fóstbróðir Harðar Grímkelssonar, sem frá eftir í Harðarsögu. þar bjó um tíma á fyrri hluta þessarar aldar Beinteinn? Hann átti nokkur börn og voru flest þeirra þekkt fyrir skáldgáfu sína. Má þar m.a. nefna Pétur, Halldóru og Sveinbjörn sem síðar var allsherjargoði Ásatrúarmanna.

Litli-Botn

Litli-Botn – Howell 1900.

Annað skáld Jón Magnússon ólst einnig upp á Litlabotni. Upphaflega var Botnsdalur mun lengri, en síðla á ísöld, fyrir u.þ.b. 0.8 milljón arum, var gos undir jökli í miðjum dal og myndaðist þá Hvalfellið, sem rís fyrir enda dalsins (848 m y.s.). Í þessu gosi lokaðist fyrir dalbotninn og í kvosinni myndaðist Hvalvatn.
Í Stóra-Botni var vinsæll áningarstaður ferðamanna, meðan þjóðleiðin lá um Leggjabrjót til Þingvalla. Þar fæddist og ólst upp Jón Helgason rithöfundur og blaðamaður. Botnsá fellur fyrir neðan túnið og þar er göngubrú á henni. Þaðan liggur gamla gatan skáhallt upp brekkurnar í áttina að Botnssúlum.

Botnsdalur

Botnsdalur og nágrenni – kort.

Búskap var hætt á jörðinni laust eftir 1970. Hóf þá eigandi jarðarinnar ræktun barrtrjáa, sem blasa við augum í hlíðinni sunnan ár.
Hvalskarðsá kemur úr Hvalskarði, sem er á milli Hvalfells og Botnssúlna og fellur í Botnsá. Farvegur árinnar myndar smá fossa á leið sinni ofan hlíðina. Á einum eða tveimur stöðum í gilinu seytlar fram volgt vatn, gott til fótabaða.
Hvalvatn - Skinnhúfuhöfði t.h.Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og sést þaðan niður í Botnsdal. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld. Selstaða var í Botnsdal.
Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.

Hvalvatn

Hvalvatn – Hvalfell fjær.

Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Mirkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós.
Skógrækt hófst í landi Stórabotns á vegum eiganda jarðarinnar kringum 1965 og var plantað á þrem árum á annað hundrað þúsund trjáplöntum af ýmsum tegundum. Skógrækt ríkisins sá um framkvæmdina. Þá varð hlé á plöntun þar til árið 1980 er aftur var hafist handa og var á næstu árum plantað um 30 þúsund plöntum á vegum eigenda jarðarinnar. Öll hlíðin sunnan árinnar er í landi Stórabotns. Búskapur lagðist niður í Stórabotni 1982.

Heimildir m.a.:
-http://www.fi.is
-http://www.kjos.is
-MBL, 9. ágúst 1981.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.

Þingvellir

Í frétt á mbl.is þann 4. nóv. 2009 mátti lesa eftirfarandi frétt af manni er „Fann fjársjóð frá járnöld“ (á Norðurlöndunum er járnöldin talin ná frá 5. öld f.Kr. til upphafs víkingaaldar um miðja 8. öld e.Kr. (mismunandi þó eftir landssvæðum og óafmörkuð tímaskil):
Bronsaldargripir„Skoti sem ákvað að prófa málmleitartæki, fann í sinni fyrstu tilraun með tækið, fjársjóð frá járnöld. Umræddur fjársjóður, samanstendur af fjórum hálsmenum úr gulli og er sagður vera milljón punda virði, ríflega 200 milljóna íslenskra króna. Hálsmenin eru talin vera frá um fyrstu til þriðju öld fyrir Krist og eru merkasti fundur frá járnöld í Skotlandi.
David Booth sem fann fjársjóðinn í september segist í viðtalið við BBC í Skotlandi, hafa orðið agndofa við fundinn. „Ég gerði mér grein fyrir að þetta væru verðmætir og sjaldgæfir hlutir og þetta var það fyrsta sem ég hafði nokkurn tíma fundið, þannig að þetta var alveg ótrúlegt. Ég bara lagði bílnum, náði í málmleitartækið, valdi í hvaða átt ég vildi fara og um sjö skrefum seinna fann ég þetta. Þetta var það fyrsta sem ég fann.“
Booth segist hafa gert sér grein fyrir að hann hefði fundið gamla skartgripi, hann hefði bara ekki áttað sig á hversu gamlir þeir væru.
Skartgripirnir hafa nú verið afhjúpaðir í Þjóðminjasafni Skotlands í Edinborg. Samkvæmt skoskum lögum getur konungdæmið eitt gert kröfu til fornleifafunda í Skotlandi. Finnandi verður að tilkynna um slíkan fund til yfirvalda og á ekkert tilkall til fundarins. Verið er að meta fjársjóðinn og getur Booth átt von á fundarlaunum, jafnháum matinu.“
Í íslenskum Þjóðminjalögum, 2001 nr. 107 31. maí, segir í 16. Sverðgr.: „Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar“. Ákvæðið lýsir ákveðinni þröngsýni og því þarf að sjálfsögðu að breyta sbr. framangreinda frétt.
Taka skal fram til fróðleiks að steinöld var forveri bronsaldar, sem var forveri járnaldar. Steinöldin skiptist í fornsteinöld (~1.4 milljón – 10.000 ár síðan), miðsteinöld (~22.000 – 5.000 ár síðan) og nýsteinöld (~8.500 – 3.000 ár síðan).
Járnöld gekk síðan í garð um miðja 8. öld, en þó hafa fundist hér á landi gripir úr bronsi, s.s. bagall er fannst á Þingvöllum 1957 (sjá mynd hér að ofan) og er til sýnis á Þjóðminjasafninu. Bagallinn, sem er með áberandi einkennum Úrness- og Hringaríkisstíls, er talinn vera frá því á 11. öld.
(Þess ber að geta að einn FERLIRsfélaganna stundar um þessar mundir nám í „Fornleifafræði Norðurlanda“ við Háskóla Íslands.)

Heimild m.a.:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970 – Kristján Eldjárn – Bagall frá Þingvöllum, bls. 5-28.

Málmleitartæki

Málmleitartæki.

 

Hraun

Haakon Shetelig skrifaði í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 um „Íslenskar dysjar“ og fornleifar frá víkingaöld:
„Eftir frásögn Ara fróða var landið numið á árunum sextíu frá 870—930. Verða færð ýms rök að því, að tímatalið er ábyggilegt um þetta að öllu verulegu leyti, að fyrstu landnámin áttu sér stað á árunum 870—80, en að útflutningurinn varð mestur frá því um 900, og að árið 930, er kjörinn var hinn fyrsti lögsögumaður, er hið eðlilega lokaár landnámsaldarinnar. Íslendingar voru þá og nokkuð eftir það Ásatrúar, og fylgdu hinum fornu, heiðnu greftrunarsiðum, unz kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Heiðnar dysjaleifar á Íslandi geta því ekki, nema að eins sem undantekningar, verið eldri en frá því um 900 og alls ekki neinar verið neitt að ráði yngri en frá því um 1000.
thorkotlusdys-221Norskir fornfræðingar veittu því snemma athygli, að svo var þessu farið, og að nokkur stuðningur gæti orðið að því við niðurskipun norskra funda frá víkingaöldinni eftir aldri þeirra, og þetta atriði heldur ennþá fullu gildi sínu að sínu leyti, þótt vjer höfum nú á annan hátt öðlazt möguleika til nákvæmari tímatalsákvarðana um hinar ýmsu gerðir forngripa frá víkingaöldinni í Noregi. En fornleifafundirnir á Íslandi eru samt sem áður alveg sjerstaklega athyglisverðir frá almennu norrænu sjónarmiði sjeð einnig. Það er óvenjusjaldgæft, að vjer höfum tækifæri til að athuga ákveðinn flokk fornleifafunda með svo vissum tímatakmörkunum og jafnframt innan jafn fastákveðinna landamæra. Forngripirnir sjálfir og sömuleiðis það samband, sem þeir eru í við aðrar fornleifar í fundunum, geta veitt hjer mjög merkilegan fróðleik (það er ekki til neitt fornfræðilegt heildar yfirlit yfir fornleifafundi frá víkingaöld á Íslandi. Ingvald Undset gerði í bók sinni, Norske Oldsager i fremmede Museer, bls. 53, skrá yfir íslenzkar fornminjar í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (1878). Kr. Kálund gerði fullkomna skrá yfir dysjar og dysjaminjar i ritgerð sinni, Islands Fortidslævninger, í Aarb. f. n. Oldkh., 1882, og er sú skrá góður grundvöllur. Við það bættust svo einkum rannsóknir Daniels Bruuns 1898, sbr. Geografisk Tidsskrift XV, Kh. 1900, og framhald í Geogr. Tidsskr. XVII, Kh. 1904, og loks ritgerðin Dalvik-Fundet í Aarb. f. n. Oldkh. 1910. — Kálund skýrir svo frá, að 30—40 dysjafundir frá heiðni á Íslandi hafi verið kunnir 1882. Nú munu þeir varla vera fleiri en 100).
gislagata-221-dysAð sjálfsögðu eru til fjöldamargar dysjar frá heiðni á Íslandi, miklu fleiri en ætla mætti, er litið er yfir það safn af fornleifum, sem nú verður sjeð í safninu í Reykjavík. Þess skal getið hjer, að reglubundnar rannsóknir með uppgrefti hafa þa að eins verið framkvæmdar, er ástæður voru til, og mjög hógværlega farið í þær, og hins er einnig að minnast, að jarðræktin á Íslandi er ekki innifalin í því, að brjóta land og plægja akur, störf, sem í Noregi verða mjög drjúgum til þess að leiða í dagsins ljós fornleifar úr dysjum frá löngu liðnum tímum. Á Íslandi finnast fornminjar helzt við heimaverk af hendingu, þegar grafið er fyrir undirstöðum nýrra húsa. Annars finnast hinar fornu dysjar þar venjulega fyrir eins konar fyrirbrigði í náttúrunni, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland; það er þannig, að grassvörðurinn rifnar upp í roki og síðan blæs jarðvegurinn neðanundir smám saman burt með vindinum; beinaleifar og fornminjar koma þá fram til sýnis á yfirborðinu á eðlilegan hátt. Mjer hefir skilizt, að með reglubundnum rannsóknum mætti áreiðanlega gera ráð fyrir því, að auka mætti allmikið á tölu kunnra, íslenzkra dysjafunda frá víkingaöldinni og fylla enn betur yfirlitið yfir þær dysjaminjar og þær dysjar frá heiðni, sem til eru. Þetta síðast nefnda, um dysjarnar, er ekki hvað minnst áríðandi fyrir fornfræðilegar rannsóknir landsins, þar eð því fer vafalaust f jarri, að í öllum gröfum eða dysjum hafi verið fólgnar fornminjar með hinum framliðnu.
hraunsdys-221Greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa yfirleitt verið óbrotnir, og dysjar, sem hafi verið verulega auðugar að fornminjum, hafa verið fásjeðar í samanburði við það, sem hefir átt sjer stað í Noregi. Sá var siður á íslandi, hinn sami og vestanfjalls í Noregi, að menn voru dysjaðir heima við bæina, innan landamæra ættmenna sinna, en ekki í grafreitum, sameiginlegum fyrir stóran söfnuð.
Að ytra útliti eru dysjarnar frá heiðni ætíð óálitlegar. Grafirnar eru luktar litlum grjóthrúgum og grasþökum, og eru nefndar dysjar á Íslandi, en oft eru slíkar dysjar að eins lágar, steinlagðar hvirfingar, sem eru naumast hærri en svæðið umhverfis; eða grafirnar geta verið blátt áfram grafnar niður í jarðveginn undir flötu yfirborði Sams konar fyrirkomulag með öllum mögulegum tilbreytingum er einnig alþekkt í Noregi, en það, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland, er, að þar sjást engin minningarmörk, sem mikið ber á, engir stórir haugar, svo sem vjer getum að líta hvarvetna um land allt í Noregi frá víkingaöldinni, — suma furðulega mikla. Íslendingar hafa í því tilliti verið alveg lausir við allan metnað, og má segja, að hin einfalda, hógværlega gerð á dysjunum sje einkennandi þáttur í þessu nýja þjóðfjelagi þeirra allan fyrsta hlutann af lýðveldistímabilinu.
egilsdys-221Jafn tilbreytingarlaus var greftrunin sjálf. Líkin voru ætíð jörðuð óbrennd, svo sem einnig átti sjer stað, með mjög fáum undantekningum, í norrænu víkingabyggðunum á brezku eyjunum. Er hjer þannig enn um verulega frábrugðinn sið að ræða frá því, sem venja var til í Noregi; þar hölluðust menn mjög víða að líkbrennum alla tíð meðan heiðnir jarðarfararsiðir voru yfirleitt hafðir um hönd. Þeir, sem fengizt hafa við rannsóknir í fornfræði Íslands, hafa jafnan bent á þetta, hversu frábrugðnir greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa verið, og hafa menn helzt viljað leita ástæðunnar í því, hve erfitt hafi verið að afla brenniviðar á Íslandi. Ekki er sú ályktun alveg sannfærandi. Í þann tíð var trjágróður allmiklu meiri á landinu en á síðustu tímum. Vjer sjáum t. a. m., að rauðablástur var stundaður mjög mikið, en til þeirrar iðju þarf mikinn við. Það er því ekki líklegt, að Íslendingar hafi látið af líkbrennum, vegna þess, að þeir hafi viljað fara sparsamlega með skógarviðinn, hefði þessi siður, að brenna líkin, stuðzt við viðurkennda, siðferðislega kröfu, sem menn væru skyldugir að gegna fyrir hina framliðnu. öllu heldur verður að dæma um greftrunarsiðina á Íslandi með tilliti til þess, hversu til var hagað í þeim efnum í víkingabyggðunum á Skotlandi og Írlandi; þar var greftrun án líkbrennslu svo að kalla undantekningarlaus, svo sem þegar hefir verið tekið fram. Á Íslandi var því fylgt þeim sið í þessu, sem þegar var kominn á fyrir löngu í nýlendunum vestan hafs, og það sennilega helzt fyrir áhrif frá kristninni, og fluttist þaðan með vestrænum landnámsmönnum, svo sem eðlilegt má þykja.
Gröfin sjálf er hin einfaldasta að gerð, hvort heldur hún hefir verið gerð að öllu leyti neðan jarðar eða lukt með dys ofan jarðar, og oft sett umhverfis hana röð af steinum, en ekki haft neitt verulegt grafarhólf. Ekki verður bent á það, að fylgt hafi verið neinni fastri reglu um það, hversu grafir manna skyldu snúa eftir áttum. Líkið er oft þannig í gröfinni, að rjett hefir verið úr því; en þess kvað einnig vera ábyggileg dæmi á Íslandi, að líkin hafi verið jörðuð sitjandi. Skipsgrafir eru undantekningar; þótt þær þekkist.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, bls. 5-6.

Þórkötludys

Þórkötlusdys.

Bjarnastaðir

Í Náttúrufræðingnum árið 1958 má lesa eftirfarandi eftir Finn Guðmundsson eftir að leðublaka hafði verið fönguð við Bjarnastaði í Selvogi árið áður:
„Laust fyrir kl. 6 síðdegis þriðjudaginn 8. þ. m. (okt. 1957) var Helgi Guðnason, Þorkelsgerði í Selvogi, að hyggja að fé sínu, og lá leið hans þá um túnin hjá Bjarnastöðum, en sá bær er nokkru austar í Selvogi en Þorkelsgerði. Gekk Helgi þá fram á kvikindi eitt allófrýnilegt, sem lá í grasinu fyrir fótum hans. Þar sem Helgi bar ekki kennsl á dýr þetta, hélt hann rakleitt heim að Bjarnastöðum og gerði Sigurlaugi bónda Jónssyni á Bjarnastöðum aðvart um meinvætt þenna. Brá Sigurlaugur skjótt ledurblaka-221við og hélt á vettvang og tókst honum að handsama dýrið. Varð honum þegar ljóst, að þetta var leðurblaka, og bar hann hana inn í bæ og setti í fötu með heyi og strengdi dúk yfir. Síðdegis næsta dag tilkynnti Sigurlaugur mér símleiðis um fund þenna, og á fimmtudaginn hélt ég suður í Selvog til að sækja dýrið. Það hafði í fyrstu verið blautt og alldasað, en hresstist brátt, og þegar ég kom að Bjarnastöðum síðdegis á fimmtu daginn og fór að athuga dýrið, flaug það upp úr fötunni og flaug stundarkorn fram og aftur um stofuna á Bjarnastöðum, áður en okkur tókst að ná því aftur.
Nánari athugun hefur leitt í ljós, að þetta er amerísk leðurblökutegund. Hið vísindalega heiti hennar er Lasiurus cinereus, en enska (ameríska) heiti hennar er Hoary Bat. Háralitur dýrsins er gulbrúnn, en hárin eru hvít eða hvítgrá í oddinn, og dýrið sýnist því vera hélugrátt. Af þessu er enska nafn tegundarinnar dregið, en hoary þýðir hélugrár eða hæruskotinn. Mætti því kalla tegund þessa hrímblöku á íslenzku. Hrímblakan er fremur stór leðurblökutegund eða á stærð við stærstu leðurblökur Evrópu. Lengd Selvogsblökunnar mældist 13.6 cm (þar af halinn 6.1 cm) og vængjahafið 38.5 cm. Hrímblakan er norræn tegund, sem í Ameríku ei algengust í Kanada og norðurríkjum Bandaríkjanna. Hún er fardýr, sem leitar suður á bóginn á veturna, jafnvel suður til Mexíkó. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem leðurblaka hefur náðst hér á landi. Um miðjan október 1943 var leðurblaka handsömuð á Hvoli í Mýrdal, og önnur náðist við höfnina í Reykjavík í ágúst 1944 (sbr. Náttúrufr., 1943, bls. 153, og 1944, bls. 143). Í bæði skiptin var um amerískar tegundir að ræða, og sú sem náðist í Mýrdalnum var sömu tegundar og Selvogsblakan. Líklegt hefur verið talið, að leðurblökur geti ekki borizt hingað nema með skipum (eða flugvélum?), og leðurblakan, sem náðist við höfnina í Reykjavík, hefur eflaust komið hingað með þeim hætti. Hins vegar er ekki með öllu hægt að fortaka, að jafn stór og flugþolin fardýr og hrímblakan geti hrakizt hingað undan veðrum eins og margir amerískir hrakningsfuglar, sem hér hafa komið fram. Næstu daga áður en Selvogsblakan fannst var veðurfar líka með þeim hætti, að nærri liggur að ætla, að slíkt hafi getað átt sér stað. – Finnur Guðmundsson.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 27. árg. 1957-1958, 3. tbl. bls. 143-144.

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Kaldársel

A.m.k. 142 fjárborgir eru þekktar á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs. Flestar eru borgirnar vel sýnilegar, en sumar þarf að gaumgæfa. Hinar fyrrnefndu rata jafnan inn í fornleifaskráningar, en hinar síðarnefndu ekki. Þannig er nokkurra fjárborga getið í fornleifaskráningu á Vatnsleysuströnd, en jafn margra er ógetið.

Birna Lárusdóttir skrifaði um „Fjárborgir“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 2010:

Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2010

Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2010.

„Þótt fjárborgir séu oft hringlaga er það ekki algilt og bæði fornleifaskráning og heimildakönnun sýna að fleiri gerðir mannvirkja hafa verið kallaðar fjárborgir. Yfirleitt er hugtakið „borg“ þó notað um borghlaðin mannvirki, þ.e. hlaðin þannig að hleðslan dregst smám saman að sér, mjókkar upp á við, jafnvel svo hátt að hleðslur mætist í toppinn. Þau þurfa ekki endilega að vera hringlaga í grunninn þótt það sé algengt. Í slík hús á ekki að þurfa neitt timburverk ef vel er að verki staðið. Þetta skýrir sennilega af hverju fjárborgir undir þaki, eins og t.d. í Húsagarði, eru oft litlar, enda er væntanlega erfiðara að ná grjótinu saman í toppinn eftir því sem mannvirkið er stærra að grunnfleti. Opin hringlaga fjárskýli eru líka kölluð borgir eða fjárbyrgi, jafnvel þótt hleðslan halli ekki inn á við. Hugtakið fjárbyrgi er reyndar notað frjálslega í heimildum, um allskonar skýli fyrir fé, bæði þau sem eru náttúruleg, eins og t.d. hella, smáskúta og líka mannvirki eins og beitarhús og jafnvel stekki. Heimildir geta um ýmiss konar mannvirki önnur en fjárskýli sem hafa verið borghlaðin. Þar má nefna hlöður, fjós og sæluhús, þeirra frægast er líklega Hellukofinn á Hellisheiði. Fiskbyrgi eru oft borghlaðin en þau eru yfirleitt lítil, sjaldan meira en 2-3 m í þvermál og stundum aflöng. Þá eru til dæmium mannvirki sem eru kölluð Borgir og hafa sjálfsagt verið borghlaðin en gegndu annars konar hlutverki en að skýla fé, t.d. Borgir við Apavatn í Grímsnesi sem eru sagðar veiðihús Skálholtsbiskupa. Því er ekki sjálfgefið að hugtakið borg vísi á fjárborg og reyndar eru dæmi um að þau vísi ekki einu sinni á hringlaga mannvirki eða borghlaðin. Þannig er t.d. fjárborg í landi Reykjavíkur ferköntuð en ekki hringlaga og á Núpsstað er fjárborgsporöskjulaga aðhald, eiginlega rétt sem er hlaðin upp við Borgarklett.

Birna Lárusdóttir

Birna Lárusdóttir.

Þá eru fjárborgir á Melrakkasléttu og sennilega víðar á Norðausturlandi mjög mjó og aflöng hús eða skýli eins og síðar verður vikið að.
Fram að þessu hefur umfjöllun um fjárborgir hér á landi aðallega snúist um hvort þær gætu átt keltneskar rætur. Eru þær vangaveltur sprottnar af byggingarlaginu og því að dreifing þeirra virðist fylgja útbreiðslu örnefna sem hafa keltneskan uppruna. Þótt hugmyndirnar séu áhugaverðar út af fyrir sig má líka skoða fjárborgirnar út frá öðru sjónarhorni. Þær eru vitnisburður um ákveðinn þátt í sauðfjárrækt og mikilvægar sem hluti af þróunarsögu mannvirkja sem hafa verið notuð fyrir sauðfé. Sauðfjárrækt hefur alltaf skipað mikilvægan sess fyrir afkomu Íslendinga en á hinn bóginn er margt á huldu um þróun hennar og áherslur frá landnámi til nútíma þótt margt, bæði ritaðar heimildir og fornleifar, bendi til að sauðfé hafi verið tiltölulega fátt fyrst eftir landnám en fjölgað eftir því sem á leið.

Fjárborg

Fjárborg í Borgarholtsbrekkum í Reykjavík – ferköntuð.

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að leggja grunn að sögu fjárborga. Þannig var hjáleigan Borg á Barkarstöðum í Fljótshlíð talin reist þar sem áður var brúkuð fjárborg. Borgarkot, sem var hjáleiga Miðdals í Mosfellssveit var sögð reist á fornu fjárborgarstæði og Másstaðabyrgi var heiti á gamalli fjárborg í landi Hofstaða í Miklaholtshreppi. Þetta gefur til kynna að fjárborgir hafi verið þekktar nokkru áður en þeir félagar gerðu víðreist, sennilega á 17. öld og er að auki vísbending þess að sumir bæir með orðliðinn borg í nafni sínu kunni að vera reistir á gömlum fjárborgarstæðum þótt ekki sé hægt að útiloka að um örnefnaskýringar sé að ræða.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg – topphlaðinn fjárborg í Ölfusi.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta um fjárborgir í Skaftafellssýslum um miðbik 18. aldar og hæla þeim nokkuð: „Fjárborgir kallast strýtulaga skýli, hlaðin úr torfi og grjóti. Eru þau kringlótt að lögun og dyr á þeim niðri við jörðu, svo lágar, að maður getur aðeins skriðið inn um þær, en í toppi borgarinnar er gat eða ljóri. Á Síðunni og víðar láta menn fé liggja í borgum þessum í stað fjárhúsa, einkum útigangsfé, og þrífst það miklu betur með þeim hætti. Stærð borganna er mismunandi, en hæðin 4-6 álnir. Á Síðunni hefir jarðeldurinn sums staðar skapað lík skýli. Eru það holar hraunhvelfingar. Þegar þær eru notaðar fyrirfjárbyrgi, er brotið gat á hlið þeirra, og það er vafalaust, að menn hafa tekið sér þessar hraunhvelfingar til fyrirmyndar, er þeir tóku að gera fjárborgirnar.“ Í sömu heimild er minnst lauslega á að fé þrífist mjög vel í hellum og stórum fjárborgum á Rangárvöllum en ástandið í Árnes- og Rangárvallasýslum er þó almennt ekki beysið. Fé fellur þar oft hundruðum saman á vetrum, hirðingarlaust á útigangi.

Fjárborgir

Fjárborgir á Reykjanesskaga – 142 að tölu.

Ekki er einsdæmi að menn finni samsvörun milli eldvarpa og fjárborga eins og Eggert og Bjarni, því hið sama gerði Sveinn Pálsson í skýrslu um Mývatnselda nokkrum áratugum síðar. Hann lýsir atburðarásinni svo: „Á mörgum stöðum uppkomu nú smærri eldvörp eða borgir í hrauninu sjálfu, sem á eptir verða sem uppmjó, stærri og smærri fjárbyrgi, kringlótt í lögun, hol að innan og glasseruð með allra handa myndum og sléttu steingólfi að neðan og dyrum á sumum einhvers staðar út úr sjer.“
Í ferðabók sinni getur Sveinn auk þess um fjárborgir í Skaftafellssýslu og Landeyjum. Fjárborgir eru raunar eina húsaskjólið fyrir fé sem Sveinn minnist á og vekur það upp nokkrar spurningar, t.d. má velta fyrir sér hvort þær hafi verið nýjung í hans augum eða jafnvel hið gagnstæða, að þær hafi verið orðnar sjaldgæfar.
Á 18. öld var mikið talað fyrir umbótum í landbúnaði hér á landi. Útgáfa jókst mjög með tilkomu prentsmiðju í Hrappsey en fjöldi íslenskra rita var einnig prentaður í Kaupmannahöfn, m.a. mörg hagnýt uppfræðslurit. Búnaðarfræðsla var snar þáttur í þessum ritum, enda þótti mörgu ábótavant í íslenskum landbúnaði og ýmsir þeirrar skoðunar að það væri hægt að auka arðsemi sauðfjárræktar með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Með tilkomu Innréttinganna árið 1752 varð ullarframleiðsla mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Skúli Magnússon, fógeti, fékk sænskan mann, Hastfer nokkurn, til að reka sauðfjárbú á Elliðavatni. Þar áttu að fara fram skipulagðar kynbætur, einkum með tilliti til ullargæða. Hastfer gaf út leiðbeiningarrit um hirðingu sauðfjár þar sem hann gagnrýnir m.a. meðferð fjár á Suðurlandi. Hann minnist stuttlega á fjárborgir og telur þær ágætar til síns brúks. Því er ljóst að hann hefur séð þær eða heyrt af þeim í það minnsta. Helsti ókostur borganna þótti honum að þar var erfitt að fóðra fé vegna þess að moð vildi setjast í ullina og varð hún ekki hreinsuð nema með mestu erfiðismunum. Því mælir hann frekar með garðahúsum, eins og tíðkuðust norðanlands. Hafi menn gefið í borgum hefur heyið því ekki farið í þar til gerðar jötur eða garða og því viljað slæðast um gólfið.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dalasýslu og upplýsingarfrömuður, ritaði um flestar hliðar sauðfjárhirðingar næstur á eftir Hastfer í yfirgripsmiklu riti sem kom út árið 1778. Hann á varla til nógu mörg orð til að lýsa hrifningu sinni á fjárskýlum öðrum en húsum. Hann skilgreinir tvennskonar hringlaga skýli: fjárborgir og fjárbyrgi. Borgirnar eru skv. honum miklu sjaldgæfari og aðallega til á Austurlandi. Um þær segir hann að þær eigi að mjókka upp á við, það sé vandasamt að hlaða þær og aðeins á fárra manna færi.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Fjárbyrgi, þ.e. opin hringlaga fjárskýli, staðhæfir hann hafi víða verið brúkuð til forna og sjáist ennþá rústir þeirra en þau séu nú víðast aflögð. „Þesse byrge brúkudu fornmenn til ad nýtaser þess betr vetrarbeitina, þvi vída er so landslage háttad, serdeiles á þeim jördum sem ega fialland, ad viss partr landsins verz lenge og slær þar úrþó annad af landinu legge under.“

Pétursborg

Pétursborg.

Skv. Magnúsi voru byrgin aðallega notuð framan af vetrinum og stundum fram yfir jól en þá var farið að gefa fénu. Magnús hvetur menn mjög til að hlaða slík byrgi, enda geti það allir og ekki þurfi viðarskortur að letja menn til verksins. Þetta eru því viðarlaus mannvirki. Þau hafi marga aðra kosti, t.d. lofti þar vel um féð. Leiðbeiningar um hleðslu byrgja fylgja með kaflanum og eiga að henta sauðsvörtum almúganum sem ekkert kann í reikningslist skv. Magnúsi. Aðferðin er sú að búa til ferkantað líkan með því að raða upp steinvölum eða fiskbeinum og láta hvert stykki tákna tvær álnir, sem var rýmið sem ætla átti hverjum sauð. Á sama hátt skyldi mæla fyrir mannvirkinu sem átti að byggja, stinga svo hæl í miðju svæðisins og hnýta um hann snæri sem næði út í hornið á ferhyrningnum. Þá var auðveldlega hægt að marka fyrir hring með því að ganga með snærið kringum hælinn.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Hér fylgir lýsing Magnúsar: „Af grióte skal byrged hlada ad innanverdu i midtlær, enn torf mábrúka ad utanverdu og er þó betra af grióte, því fe nýr sig opt vidþar sem þad finnur hentugleika þar til, og fer þá mold og sandr í ullina ef af torfe er hledslan utan. Þá hledslan er komen í midtlær ad utanverdu, er mer sagt ad á þeim gömlu Byrgium hafe vered ávalrbýngr, sem skagad hafe út allt í kríng, enn sídan hafe byrged vered uppdreged. Þessi býngr edr búnga á byrgiunum er ómissande, því þegar kafalded snakar í kríngum byrgid, þá hvirflar býngrinn því frá ser og slær því þá útfrá byrginu, so ei fýkr ofaní, og þó vilde eg hafa efst á byrginu kraga af hnaus, sem stæde allavega utaf, og ynne hann sama gagn og Býngrinn og munde alldrei inní slíkt byrge fenna. Byrgid skylde vera í þad minsta mannhæd og dyrnar í þá átt, semsíst stæde uppá. Dyrnar skyldu vera lágar med hurd fyrer. Þess vileg her um hurdina geta á öllum þvílíkum byrgium og hagahúsum og eins selhúsum, þá ei er í þeim vered, ad hún se fráteken, því eg hefe vitad skepnur svelta til dauds med því móte, ad þær hafainnfared af forvitne edr í óvedre og hurdin sidan aptrdotted, so eihafa útkomez. Þess háttar vott þikiast menn siá í þessum byrgium,sosem smalamadrinn hafe haft þar sitt adsetr og hægt er so um adbúa í byrginu ad hann hafe þar fullgott, enda má so opt ástanda adþetta se harla naudsynlegt, því opt kann þad til ad vilia ad hann ei heimkomez. Byrgid á ad vera flórad, so því verde hreinu halded, því under því er komed fiaarins haalfa líf ad þad verde ei óhreint.“

Hólmsborg

Hólmsborg.

Það er ekki ljóst hvort rit Magnúsar hafði mikil áhrif á bændur þótt landstjórnin hafi látið dreifa því ókeypis meðal alþýðu, hvort þeir kepptust nú við að hlaða borgir og byrgi. Þó má nefna að árið 1783, fimm árum eftir útkomu ritsins, voru fjárborgir enn taldar óvíða nema kannski helst á Austurlandi. Þó var vitað um þrjár slíkar heima við bæinn á Draghálsi í Svínadal: „Eru þær hladnar svo lángt upp og á sig, at seinastverdr eptir op-korn at eins í kolli þeirra; vandi er at hlada þær, og verdtat siá nettan ritlíng um þat,“ segir í ritgerð um hlöður eftir óþekktan höfund – og með ritlingnum er væntanlega átt við rit Magnúsar.

Garðahverfi

Fjárborg við Garðastekk.

Tíu árum eftir að þessi orð voru rituð lofar Sveinn Pálsson mjög dugnaðarbónda í Görðum á Álftanesi sem sumarið 1793 hafði nýlega látið gera nokkrar fjárborgir í grennd við bæ sinn. Fjárborgunum lýsir hann svo: „Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“ Virðist sem Sveinn sé hér að lýsa borgum sem hlaðnar voru alveg upp í topp.

Staðarborg

Staðarborg.

Árið 1837 sendi Hið íslenska bókmenntafélag út spurningalista til allra sóknarpresta á Íslandi til að fá upplýsingar um ýmislegt sem varðaði náttúrufar, örnefni og búskaparhætti. Ein spurninganna fjallaði um fjárborgir og beitarhús. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að fjárborgir voru í flestum sóknum í Skaftafells- og Rangárvallasýslu – þar af voru tvær nýhlaðnar í Efri-Holtaþingum. Í tveimur sóknum í Skaftafellssýslu, Bjarnarness- og Hoffellssókn, er notkun þeirra þó á undanhaldi, að því er virðist því garðahús voru tekin að skjóta upp kollinum. Í Árnessýslu þekkjast borgir í sex sóknum og virðast hafa verið aðalfjárskýlin í Selvogi, a.m.k. er þar bara getið um fjárhús á einum bæ; í Krýsuvík. Í Klausturhóla- og Búrfellssókn í Grímsnesi var fjárborg á einum ónafngreindum bæ.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Hvergi er getið um fjárborgir í Gullbringusýslu og kemur kannski ekki á óvart, enda er íbúum þar oft úthúðað í heimildum fyrir slæma meðferð á sauðfé, sem reyndar var ekki mjög margt á þessu svæði. Í Snæfells- og Hnappadalssýslu þekktust hvergi fjárborgir nema í Helgafellseyjum og á Vestfjörðum er næstum hvergi minnst á fjárborgir nema í Holtssókn, enþar eru þær nefndar hlöð.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Aðeins einn sóknarprestur annar á Vestfjörðumminnist á borgir eða hlöð, í Rafnseyrarkirkjusókn. Þá voru mannvirkin aflögð en ekki vitað hvers vegna. Hvergi er minnst á fjárborgir í Húnavatnssýslum en í Skagafirði segir sóknarpresturinn í Goðdala- og Ábæjarprestakalli að fjárborgir kallist fremur „við sjósíðuna“ og er þar væntanlega að skýra hvers vegna þær þekkist ekki í hans sókn. Eyfirðingar minnast ekki á eina einustu fjárborg. Þegar komið er austur í Múlasýslur kannast prestarnir í Skeggjastaða- og Desjarmýrarsókn við fjárborgir á sjávarbæjum. Í Hólmasókn er getið um borgir á fáeinum bæjum á útsveit, en þær voru aðeins notaðar fyrri part vetrar, meðan ekki var farið að gefa.

Árnaborg

Árnaborg ofan Garðs.

Hér er rétt að nefna að fjárborgir á Melrakkasléttu og sennilega víðar á Norðausturlandi hafa verið fjölbreytilegri mannvirki en annarsstaðar erlýst. Í Ferðabók Olaviusar er sagt frá fjárborgum sem voru einhverskonar hús, gerð úr ótilhöggnum rekaviðartrjám sem voru reist upp á endann, þakið lagt flatt yfir og þakið með torfi.
Ef til vill voru þau svipuð og svonefndar sandborgir sem Guðmundur Þorsteinsson lýsti síðar á sama svæði, langar tóftir og afar mjóar, garðalausar. Mokað var út úr þeim jafnóðum og söfnuðust oft upp miklir sand- og taðhaugar á skömmum tíma. Þá mun hafa verið venja að taka niður þakið, gera nýja tóft til hliðar við þá gömlu og þekja hana. Heimildarmaður Guðmundar hefur bent honum á að raðir af slíkum tóftum séu víða hlið við hlið á Melrakkasléttu.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Í lok 19. aldar ferðaðist Daniel Bruun víða um Ísland og kynnti sér fornar byggingarhefðir. Í umfjöllun um þaklaus hús minnist hann á tvær gerðir fjárborga: „Hér er átt við hinar kringlóttu fjárborgir, sem mest er af á Suðvesturlandi, en þar gekk féð fyrrum úti allt árið en leitaði skjóls í fjárborgunum í illviðrum. Einfaldastar eru skjólborgirnar, sem opnar eru að ofan, en hinar fullkomnari eru hlaðnar saman í eins konar hvelfingu, með loftgat á toppnum, sem hægt var að loka. Borgirnar eru hlaðnar úr torfi eða grjóti, en hvort sem er, gengur efra lag alltaf ögn lengra inn í borgina en hið neðra, þar til allt nær saman og lokast í toppnum.“
Þá segir Bruun frá kringlóttum fjárborgum á Reykjanesskaga sem voru ýmist opnar eða hlaðnar saman í toppinn. Uppruna byggingarstílsins telur hann mega rekja til Hjaltlands og Írlands.

Vogsósaborgir

Vogsósaborgir.

Með tilkomu búnaðarrita á síðari hluta 19. aldar fæst nokkuð nýtt sjónarhorn á meðferð og aðbúnað fjár, en þar var yfirleitt lögð áhersla á að fóður væri til handa öllum búfénaði og ekki treyst á útigang einan og sér. Dýraverndarsjónarmið voru komin til sögunnar og ekki lengur talið eðlilegt að afföll yrðu af fé, jafnvel í slæmu árferði. „Að gefa á gadd“ þótti ekki viðunandi. Urðu þá fjárborgir hjá sumum tákn um fremur illa meðferð á fénaði, enda virðist hafa verið algengt að því fé sem haft var á borgunum hafi ekki verið ætlað fóður nema að takmörkuðu leyti enda óhentugt að gefa í þeim ef marka má orð Hastfers um 100 árum fyrr. Í Búnaðarriti 1893 segir Sæmundur Eyúlfsson: „Það er margt, sem bendir til þess, að meðferð á kvikfje hafi aldrei verið svo ill sem hún var orðin á síðara hluta 18. aldar og fyrra hluta þessarar aldar. Þá var það mjög títt á suðurlandi, að engin hús voru til fyrir fullorðið fje nema fjárborgir; þar var fjenu hleypt inn í stórhríðum. Þá er langvinnar hagleysur gengu, og bersýnilegt var,að fjeð mundi deyja úr hungri, væri því engin björg veitt, var því gefið hey einhvers staðar úti á klakanum. – Því var „gefið á gadd“.“

Hringurinn

Fjárborgin Hringurinn á Vatnsleysuströnd.

Mönnum eins og Sæmundi, sem lýsa ófremdarástandi í landbúnaði á 19. öld er nokkuð tamt að líta á það sem afleiðingu hnignunar. Á söguöldinni hafi allir haft hey og hús, meira að segja fyrir sauði, en þeir voru annars í seinni tíð oftast hafðir á útigangi yfir veturinn meðan ær og lömb áttu víðast hvar von á húsaskjóli og einhverri gjöf. Sauðir voru harðgerðari en ær og lömb og líklegri til að lifa af veturinn. Af heimildum að dæma virðist langalgengast að borgirnar hafi verið notaðar fyrir þá þótt það sé auðvitað ekki alltaf tekið fram.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2010, Fjárborgir – Birna Lárusdóttir, bls. 57-65.

Óbrennishólmi

Fjárborg eða virki í Óbrennishólma.

Lönguhlíðahorn

Við fyrstu sýn virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur á að líta, en ef betur er að gáð kemur í ljós margbreytilegt gróðurfar. Fyrst ber að nefna mosann sem klæðir hraunin á stórum svæðum. Setur hann óneitanlega mikinn svip á Grámosi /Gamburmosilandið. Grámosinn (gamburmosi) er ríkjandi tegund og ræðst tilvist hans af hinu raka úthafslofti. Annars staðar er gróskumikill lynggróður, t.d. krækilyng, bláberjalyng, aðalbláberja-lyng, sortulyng og beitilyng.
Grámosi eða gambur-mosi hefur hlotið tegundarheitið hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Þetta er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum. Við úthafsloftslag á snjóléttum svæðum verður hann einráður á allmörgum áratugum, og myndar samfelldar, mjúkar mosaþembur á 100 ára gömlum hraunum og eldri. Á snjóþyngri svæðum með landrænna loftslagi nær hann ekki að kveða niður keppinauta sína, sem þá verða stundum ráðandi í gróðurfari, einkum hraunbreyskja. Mosinn hverfur smám saman af yfiráðasvæðum sínum og skilur þá eftir jafrðveg fyrir aðrar plöntur. Þannig má sjá mosann enn hafa yfirráð í nýrri hraununum, en annar gróður hefur tekið yfir í þeim eldri.
Við öflun eldsneytis hér áður fyrr voru allir möguleikar gjörnýttir. Var safnað mosa, þangi, þönglum og þara til Grámosieldsneytis? Einnig sprekum, mor og smáreka. Kalviður og skógviður í skógi var notaður til eldsneytis ef um það var að ræða. Grámosinn var rifinn upp í hraununum og einkum notaður til eldiviðardrýginda?
Mosinn þekur víða hraunbreiður eins og lagt hafi verið yfir þær þykkt, mjúkt teppi. Í raun eru þetta óteljandi, smáar plöntur sem vaxa þétt hver upp að annarri. Mosar eru ólíkir öllum hinum plöntunum sem hér hafa verið upptaldar. Stundum er sagt að mosaplöntur séu „frumstæðar“ vegna þess að mosar uxu á jörðinni langt á undan blómplöntunum. Mosar mynda ekki blóm eða fræ en þeir fjölga sér og dreifa með örsmáum gróum. Mosar hafa ekki rætur, en sumir þó s.k. rætlinga, og aðeins agnarsmá laufblöð. Mosar eru til af fjölmörgum tegundum og eru oft, ásamt fléttunum, fyrstu lífverurnar sem ná að vaxa á grjóti eða hraunum og mynda þannig jarðveg fyrir aðrar plöntur.
Mosinn breytir litum. Þannig verður hann grænn í vætutíð, en grár í þurrkum.

Heimildir m.a.:
www.floraislands.is
www.natmus.is
www.nams.is
www.umhverfissvid.is

Grámosi

Básendar

Í Lesbók Morgunblaðsins árið a978 má lesa eftirfarandi um „Básendaför“ eftir sr. Gísli Brynjólfsson:
„Rosmhvalneshreppur (rosmhvalur=rostungur) náði yfir Keflavík, Leiru, Garð og Miðnes. Miðnesið er geysilangt — ekki veit ég hvað margir km. Það byrjar með bæjunum Kolbeinsstöðum og Hafurbjarnarstöðum fyrir sunnan Skaga og nær alla leið suður að Ósabotnum, sem skilur Nesið frá Höfnunum. Í gamla daga var byggðin dreifð um alla þessa löngu strandlengju, að vísu nokkuð svo í hverfum. Sá stórfróði Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson (f. 1879 d. 1964) sem var alveg einstæður sérfræðingur í Miðnesinu bæði til lands og sjávar, telur upp a.m.k. 9 útróðrastaði (varir) á Nesinu. — Langbestur þeirra var Sandgerði enda fór það svo, að Sandgerði dró til sín s.a.s. alla miðnesinga. Og raunar langtum fleira fólk, því að nú er þar saman komið hátt í 1000 manns, blómleg byggð fallegra einbýlishúsa, sem fjölgar óðfluga, en hin gamla dreifða byggð um Miðnesið endilangt er nú ekki nema svipur hjá sjón. En sú var ekki meiningin, að fara að fjölyrða um vaxtarbrodd útgerðarstaðanna á Suðurnesjum. Hér er ekki nútíðin — því síður framtíðin — á dagskrá. Fjarri fer því.
Basendar 1978Hér skal litið um öxl — a.m.k. tvær aldir aftur í tímann — og litast um á þeim slóðum þar sem allt fór í auðn árið fyrir aldamótin 1800. Og hefur ekki verið byggð síðan. Þetta eru Básendar fyrir eina tíð syðsta byggðin á Miðnesi en tók af í flóðinu mikla, sem við plássið er kennt — Básendaflóðið — aðfaranótt 9. janúar 1799. —
Ekki eru Básendar kunnir fyrir útræði heldur sem pláss þar sem „útnesjafólkið fátækt og spakt“ varð að leggja inn fiskinn sinn hversu léttur, sem hann reyndist, því að reizlan var bogið og lóðið var lakt eins og Grímur kvað í sínu kunna kvæði.
Bærinn Básendar var byggður í Stafneslandi upþhaflega hvenær skal ekki sagt. Þar var ekki mikið um fiskirí enda var Stafnes sjálft frá fornri tíð eitthvert besta útver og þaðan skemmst í fiskileit á öllu Miðnesi. Frá Stafnesi gengu líka konungsbátarnir. Hefur það eflaust verið nokkur hagur fyrir verzlunina að vera í næsta nágrenni við útgerð þeirra. Bæði enskir og þýskir hafa verzlað á Básendum fyrr á öldum. Gekk á ýmsu í viðskiptum þeirra þar eins og víðar við Faxaflóa og á Suðurnesjum. Eitt sinn (árið 1645) kom hollenskt skip á Básenda. Á því var íslenskur maður, Einar Þórðarson, — og verzlaði þar.
basendar brunnur 221Árið 1640 var tekin upp sigling til Básenda eftir nokkurt hlé. Hélst svo, þar til verslun lagðist þar alveg niður. Verslunarsvæðið var Hafnir og Miðnes. Þó voru merkin ekki gleggri en svo, að mikil deila og málaferli urðu milli Básenda og Keflavíkurkaupmanns um nyrstu bæina á Miðnesi (Kirkjuból, Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði). Höfðu bæir þessi sótt verslun ýmist til Keflavíkur eða Básenda. Gekk dómur í málinu 1693 á þá leið, að svo skyldi standa, sem verið hefði að undanförnu. — Voru menn því litlu nær. Þetta kom þó kki að sök þegar sami kaupmaðurinn verzlaði á báðum stöðunum. Þá ber þess að geta, að Grindavík var a.m.k. annað veifið einskonar útibú frá Básendum. Fengu Grindvíkingar styrk til að flytja afurðir sínar til Básenda og úttektina heim. Samt var Básendaverzlunarsvæði fámennt og innleggið misjafnt. Það fór vitanlega eftir því, hvernig fiskaðist. Básendar voru dæmigerð fiskihöfn mótsett sláturhöfn, þar sem sveitabændur voru aðalviðskiptamennirnir.
Básendar voru því fámennur staður. Þar var lítið um að vera nema í kauptíðinni, sem stóð misjafnlega lengi fram eftir sumri eftir því hvenær kaupmanni þóknaðist að læsa búðinni og hætta að höndla, ef enginn var eftirliggjarinn.
basendar 229Næst síðasti kaupmaðurinn á Básendum hét Dines Jesþersen. Þegar hann hætti, lokaði hann búðinni 16. ágúst 1787. Mundi þá engin vara fást þar fyrr en næsta vor. Bændur í Rosmhvalaneshreppi með hreppstjóra og prest í fararbroddi kærðu þetta til Skula fógeta, töldu að með þessu væri mestum hluta sveitarinnar stefnt í opinn dauðann, skepnur voru fáar sökum grasleysis s.l. sumar, afli svo rýr s.l. vertíð, að „kauðstaðarvaran hrökk ekki fyrir vorum þungbæru skuldum“. En nógar matvörur lágu lokaðar inni í kaupstaðnum engum til nota nema mús og maur. En fólkið má deyja úr hor og hungri, kónginum og föðurlandinu til skaða.
Engum trúði þetta fólk betur til að rétta sinn hag heldur en honum, sem yfir rummungum reiddi hátt, réttar laganna sverð. Skúli brást heldur ekki trausti þeirra. Hann rak nauðsyn hinna bágt stöddu Suðurnesjamanna við Levetzone stiftamtmann, sem úrskurðaði, að eftir nýjárið mætti sýslumaður opna Básendabúð og láta fólkið fá nauðsynjar sínar, vitanlega eftir ströngustu útlánsreglum.
Þrír menn hafa lýst ummerkjum á Básendum síðan þar varð auðn.
Um það bil hálfri öld eftir Básendaflóð var Magnús Grímsson, síðan prestur á Mosfelli, f. 1825 d. 1860, á ferð um Reykjanes til að athuga fornminjar.
basendar-230Um Básenda segir sr. Magnús, að á nesinu milli voganna sjáist greinilega rústir af Básendabænum. Það hefur verið lítill bær með vör niður undan út í norður-voginn. Litlu ofar eru rústir af búðinni og vöruhúsinu, 11 faðmar á lengd og 7 á breidd. Vestan þess var stór og mikill sjóvarnargarður. Ofan við vöruhúsið var kaupmannsúsiö. Utan um það hefur verið 200 ferfaðma garður. „Allar þessar rústir sýnast hafa verið vandaðar og sterklega gjörðar,… undirstöður hrundar, mjög skörðóttar.“
Inn í höfnina var vandratað, en legan góð. Kaupskipin munu hafa legið í syðri voginum bundin 4 eða 5 festum, „það kölluðu þeir svínbundið“. Tvo af festarboltunum sá sr. Magnús, ferkantaða járnstólpa með gati og digrum járnhring ryðbrunna mjög. Alls munu festarboltarnir hafa verið níu, 5 í fjörunni, 4 á útskerjum. Brunnur hafði verið á Básendum — djúpur og góður. Á botni hans var eikarkross og svo hver tunnan upp af annarri, svo að eigi félli saman. Nú fullur af sandi. —
Af örnefnum telur sr. Magnús þessi: Brennitorfa þar sem kaupmenn höfðu brennt út gamla árið. Nokkru sunnar er Draughóll þar sem sjómenn höfðu rótað í dys fornri án þess að finna nokkuð fémætt. Í suður frá Draughól eru klettar tveir allháir með nokkurra faðma millibili — Gálgaklettar. Áttu Básendamenn að hafa lagt tré milli klettanna og hengt þar menn þegar þá greindi mjög á við einhverja. Lýsing V.G.
basendar-231Næsta lýsing á Básendum er frá 1919. Þá var þar á ferð Vigfús fræðimaður Guðmundsson, og skrifaði síðan um Básenda og Básendaflóð í 3.h. Blöndu. Er oft og víða til hennar vitnað enda V.G. viðurkenndur nákvæmur og natinn fræðimaður. V.G. segir, að enn sjáist miklar leifar mannvirkja á Básendum: Fimm sambyggðar kofatætlur þar sem bærinn stóð grunnur vöruhússins, 20 m á lengd og 12—15 m á breidd og tveir húsgrunnar aðrir, en hæst og norðaustur á hraunrimanum telur V.G. að útihúsin hafi staðið. Þá getur hann um brunninn, fullan af sandi, kálgarð 400 m2 og lítil, kringlótt fiskbirgi, þar sem fiskurinn var verkaður í skreið. — Á þangi vaxinni klöpp, 42 m frá húsgrunninum stóra, stendur gildur járnfleinn, 30 cm hár. Hann er steyptur í klöppina með bræddu blýi. Í gati á teininum er brot af hring. Í hann voru skipin á legunni bundin. Síðan rekur V.G. verzlunarsógu Básenda, segir frá flóðinu og síðasta kaupmanninum. Lýsing M.Þ.
Sá þriðji, sem ritað hefur um Básenda, er Magnús Þórarinsson fyrrnefndur. Hans skrif er að finna í Safnritinu: Frá Suðurnesjum — „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi.“ — Magnús stráir um sig í örnefnum í krafti kunnleika síns og stálminnis. — Hann nefnir Stóra og Litla-Básendahól. Þarna er Gunnusandur, framan við hann Róklappir, Rósandur, Rósker, — fyrir utan það er skerjagarðurinn: Básendasker. Innan þeirra er ílangt lón — höfnin — með bindibolta á skerjum og klöppum í kring. Suðurtakmörk hafnarinnar eru við Arnbjarnarhólma. Þá nefnir Magnús Kuðungavík og Djúpuvík með Svartakletti. Ofan við hana eru Dauðsmannsklappir en sunnan hennar Skarfurð og Skarfurðartangi. Fram af henni er flúð, sem sjaldan kemur upp úr sjó. Hún heitir Vefja. Þar suður af er Stólsvík. í henni er klettur, nokkuð frá landi, oft alsetinn skörfum og ber nafnið Tómasarstóll. Tilefni þess er ókunnugt.
basendar-234Þá skal láta lokið þessari þurru nafnarunu. Það getur verið næsta girnilegt til fróðleiks að reika um þessa auðu strönd og skoða myndir náttúrunnar eftir nafnaskrá hinna fróðu manna. — Hitt er allt annað en auðvelt, að setja sér fyrir sjónir mannlífið á Básendum meðan þar var annar aðal verzlunarstaður Suðurnesja. í kauptíð var þarna vitanlega mikið fjör og líf, ys og umferð, innlegg og úttekt. Og brennivínsstaup fyrir innan disk.
Utan kauptíðar var hér oftast aðeins fámennt heimili. Hér var hvorki búskapur né útræði í stórum stíl. Árið 1703 bjó á Básendabæ Árni Þorgilsson 47 ára með konu sinni Jódísi Magnúsd. 12 árum eldri, og dóttur þeirra Steinunni 17 ára. Þau höfðu vinnumann og vinnukonu. Hjá þeim er Árni Jónsson (60 ára) stjúpfaðir Jódísar, veikburða. Loks er Rasmus, eftirliggjari á Básendum. Þ.e. vetursetumaður til eftirlits fyrir kaupmanninn.
Næstu áratugi fara ekki sögur af fólkinu á Básendum. Síðan er það að þakka sr. Sigurði Sívertsen á Útskálum, að við vitum hverjir bjuggu þar á síðari hluta 18. aldar. Hann ritaði sálnaregistur Hvalsnesþings 1758—1790 upp úr rotnum, sundurlausum blöðum. Það manntal sýnir, að á Básendum fjölgaði mikið um 1780. Þá eru þar til heimilis hátt í 20 manns: Kaupmaðurinn, Dines Jespersen, 40 ára, kona hans, 2 börn og tökubarn, pige (stofustúlka), beikir og kona hans, 2 drengir (námspiltar við verzlunarstörf) ráðsmaður, vinnumaður og vinnukona. Auk þess er þar Ingjaldur Pétursson tómthúsmaður með fólki sínu.
Hér verður ekki sagt frá Básendaflóðinu fræga, enda eru myrkar hamfarir náttúrunnar víðs fjarri blíðu þessa bjarta dags. En benda má þeim, sem um það vilja fræðast á frásögn Hansens kaupmanns, og birt er í fyrrnefndri grein V.G. í Blöndu. — Það er allt að því átakanlegt, að lesa um það, hvernig flóðaldan hrífur kaupmanninn, þennan „almáttuga“ mann og allt hans fólk, hrekur þau stað úr stað uns þau bjargast upp á baðstofupallinn í Loddu (Lúðvíksstofu), nær „örmagna af kulda, áreynslu og hugsýki“ og var tekið þar af mestu alúð og hjartagæzku. Þannig kastaði Básendaflóðið síðustu kaupmannsfjölskyldunni á Básendum í fang eins fátæks hjáleigubónda, sem barg henni frá bráðum bana.
Þessi síðasti Básendakaupmaður — Hinrik Hansen — hefur ekki fengið neitt slæman vitnisburð í verzlunarsögunni. Það er því ekki hans sök, að yfir Básendum hvílir dökkur skuggi áþjánar og einokunar, ekki síður en öðrum selstöðuverzlunum. Þar hafa skáldin haft sitt til málanna að leggja. Ólína Andrésdóttir segir í þulu um Geirfuglasker:
Görpum þótti gífurlega geigvæn sú för,
en betri samt en björg að sækja í Básenda vör.
Betra samt en björg að sækja Básendum að, ræningjarnir dönsku réðu þeim stað. Og allir kannast við kvæði Gríms; „Bátsenda þundarinn“ um hann Tugason með bognu reizluna og laka lóðið svo „létt reynist allt sem hún vó“.
Þá kemur skörungurinn Skúli fram á sviðið og réttir hlut hins fátæka útnesjafólks:
Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt
en — skörungur var hann í gerð
og yfir rummungum reiddi hann hátt
réttar- og laganna sverð.
Þetta er hressileg blaðsíða í Básendasögunni.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 9 júlí 1978, bls. 6-7 og 12.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Kúadalur

Kúadalsstígur er líklega stystur stíga hér á landi, þ.e. ef farið er eftir örnefnalýsingum.
Í Kuadalur-2örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir Urriðavatnskot segir m.a.: „Suðsuðvestur af neðri enda Selgjár er holt vestan við Urriðakotshraun. Nefnist það Syðsta-Tjarnholt. Syðst á holtinu er stór klettur með grasþúfu uppi á. Hann nefnist Markasteinn og er á mörkum Urriðakots, Garðakirkjulands og Setbergs. Norður af Syðsta-Tjarnholti er Mið-Tjarnholt og Litla-Tjarnholt norðvestur af Mið-Tjarnholti. Tjarnholtin eru öll suðvestan hraunsins. Vestur af Litla-Tjarnholti er stór steinn og er annar steinn uppi á honum. Var það kallað Byrgi. Norðaustur af Byrginu er vik inn í hraunið, sem heitir Kúadalur. Þar liggur Kúadalsstígur inn í hraunið. Rétt austan við Kúadalsstíg, inni í hrauninu, er krosssprunginn hóll, Sprunguhóll. Vestur af Byrginu er grýttur hóll, Grjóthóll. Dalurinn niður af Grjóthól, en suðaustur af Urriðakotshálsi, sem áður var nefndur, heitir Urriðakotsdalur. Suðvestan hans er Hádegisholt, sem fyrr var nefnt.“
GrasteinsstigurLíklega nær Kúadalsstígur bæði í Kúadal um Urriðavatnskotsdali og upp úr honum inn á Urriðavatnskots-hraun. Þar sem hann liggur upp á hraunið og yfir hraunhaft inn á Flatahraun er einungis um einnar mínútu gönguleið að ræða. Hraunið er víðast hvar mjög úfið, en þarna er það bæði mjög slétt og því greiðfært. Þegar komið er inn á Flatahraun sameinast Kúadalsstígur Grásteinsstíg.
Í öðrum örnefnalýsingum er getið um „“Kúadali“ og „Kúadalastíg“. Þarf það ekki að koma á óvart því auðelt er að áætla Kúadalinn fleiri en einn ef tekið er mið af landslaginu umleikis.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing SP fyrir Urriðakot.

Urriðakot

Urriðakot.

 

Hraun

Eftirfarandi grein birtist í Þjóðviljanum árið 1964 og segir frá „Refagildru á Látrum við Bjargtanga„. Frásögnin er áhugaverð, ekki síst vegna lýsingar höfundar (sem er óþekktur) á grjótgildrunni sjálfri.

Grjótgildra„Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi f jarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
Refur„. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hann. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
refagildra - teikning 5016) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.“
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar. heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það. — Þegar þið athugið myndina getið þið nokkuð séð stærð gildrunnar með samanburði við filmupakkann sem er á hellunni framan við innganginn.“

Heimild:
Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.