Kaldársel

A.m.k. 142 fjárborgir eru þekktar á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs. Flestar eru borgirnar vel sýnilegar, en sumar þarf að gaumgæfa. Hinar fyrrnefndu rata jafnan inn í fornleifaskráningar, en hinar síðarnefndu ekki. Þannig er nokkurra fjárborga getið í fornleifaskráningu á Vatnsleysuströnd, en jafn margra er ógetið.

Birna Lárusdóttir skrifaði um “Fjárborgir” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 2010:

Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2010

Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2010.

“Þótt fjárborgir séu oft hringlaga er það ekki algilt og bæði fornleifaskráning og heimildakönnun sýna að fleiri gerðir mannvirkja hafa verið kallaðar fjárborgir. Yfirleitt er hugtakið „borg“ þó notað um borghlaðin mannvirki, þ.e. hlaðin þannig að hleðslan dregst smám saman að sér, mjókkar upp á við, jafnvel svo hátt að hleðslur mætist í toppinn. Þau þurfa ekki endilega að vera hringlaga í grunninn þótt það sé algengt. Í slík hús á ekki að þurfa neitt timburverk ef vel er að verki staðið. Þetta skýrir sennilega af hverju fjárborgir undir þaki, eins og t.d. í Húsagarði, eru oft litlar, enda er væntanlega erfiðara að ná grjótinu saman í toppinn eftir því sem mannvirkið er stærra að grunnfleti. Opin hringlaga fjárskýli eru líka kölluð borgir eða fjárbyrgi, jafnvel þótt hleðslan halli ekki inn á við. Hugtakið fjárbyrgi er reyndar notað frjálslega í heimildum, um allskonar skýli fyrir fé, bæði þau sem eru náttúruleg, eins og t.d. hella, smáskúta og líka mannvirki eins og beitarhús og jafnvel stekki. Heimildir geta um ýmiss konar mannvirki önnur en fjárskýli sem hafa verið borghlaðin. Þar má nefna hlöður, fjós og sæluhús, þeirra frægast er líklega Hellukofinn á Hellisheiði. Fiskbyrgi eru oft borghlaðin en þau eru yfirleitt lítil, sjaldan meira en 2-3 m í þvermál og stundum aflöng. Þá eru til dæmium mannvirki sem eru kölluð Borgir og hafa sjálfsagt verið borghlaðin en gegndu annars konar hlutverki en að skýla fé, t.d. Borgir við Apavatn í Grímsnesi sem eru sagðar veiðihús Skálholtsbiskupa. Því er ekki sjálfgefið að hugtakið borg vísi á fjárborg og reyndar eru dæmi um að þau vísi ekki einu sinni á hringlaga mannvirki eða borghlaðin. Þannig er t.d. fjárborg í landi Reykjavíkur ferköntuð en ekki hringlaga og á Núpsstað er fjárborgsporöskjulaga aðhald, eiginlega rétt sem er hlaðin upp við Borgarklett.

Birna Lárusdóttir

Birna Lárusdóttir.

Þá eru fjárborgir á Melrakkasléttu og sennilega víðar á Norðausturlandi mjög mjó og aflöng hús eða skýli eins og síðar verður vikið að.
Fram að þessu hefur umfjöllun um fjárborgir hér á landi aðallega snúist um hvort þær gætu átt keltneskar rætur. Eru þær vangaveltur sprottnar af byggingarlaginu og því að dreifing þeirra virðist fylgja útbreiðslu örnefna sem hafa keltneskan uppruna. Þótt hugmyndirnar séu áhugaverðar út af fyrir sig má líka skoða fjárborgirnar út frá öðru sjónarhorni. Þær eru vitnisburður um ákveðinn þátt í sauðfjárrækt og mikilvægar sem hluti af þróunarsögu mannvirkja sem hafa verið notuð fyrir sauðfé. Sauðfjárrækt hefur alltaf skipað mikilvægan sess fyrir afkomu Íslendinga en á hinn bóginn er margt á huldu um þróun hennar og áherslur frá landnámi til nútíma þótt margt, bæði ritaðar heimildir og fornleifar, bendi til að sauðfé hafi verið tiltölulega fátt fyrst eftir landnám en fjölgað eftir því sem á leið.

Fjárborg

Fjárborg í Borgarholtsbrekkum í Reykjavík – ferköntuð.

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að leggja grunn að sögu fjárborga. Þannig var hjáleigan Borg á Barkarstöðum í Fljótshlíð talin reist þar sem áður var brúkuð fjárborg. Borgarkot, sem var hjáleiga Miðdals í Mosfellssveit var sögð reist á fornu fjárborgarstæði og Másstaðabyrgi var heiti á gamalli fjárborg í landi Hofstaða í Miklaholtshreppi. Þetta gefur til kynna að fjárborgir hafi verið þekktar nokkru áður en þeir félagar gerðu víðreist, sennilega á 17. öld og er að auki vísbending þess að sumir bæir með orðliðinn borg í nafni sínu kunni að vera reistir á gömlum fjárborgarstæðum þótt ekki sé hægt að útiloka að um örnefnaskýringar sé að ræða.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg – topphlaðinn fjárborg í Ölfusi.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta um fjárborgir í Skaftafellssýslum um miðbik 18. aldar og hæla þeim nokkuð: “Fjárborgir kallast strýtulaga skýli, hlaðin úr torfi og grjóti. Eru þau kringlótt að lögun og dyr á þeim niðri við jörðu, svo lágar, að maður getur aðeins skriðið inn um þær, en í toppi borgarinnar er gat eða ljóri. Á Síðunni og víðar láta menn fé liggja í borgum þessum í stað fjárhúsa, einkum útigangsfé, og þrífst það miklu betur með þeim hætti. Stærð borganna er mismunandi, en hæðin 4-6 álnir. Á Síðunni hefir jarðeldurinn sums staðar skapað lík skýli. Eru það holar hraunhvelfingar. Þegar þær eru notaðar fyrirfjárbyrgi, er brotið gat á hlið þeirra, og það er vafalaust, að menn hafa tekið sér þessar hraunhvelfingar til fyrirmyndar, er þeir tóku að gera fjárborgirnar.” Í sömu heimild er minnst lauslega á að fé þrífist mjög vel í hellum og stórum fjárborgum á Rangárvöllum en ástandið í Árnes- og Rangárvallasýslum er þó almennt ekki beysið. Fé fellur þar oft hundruðum saman á vetrum, hirðingarlaust á útigangi.

Fjárborgir

Fjárborgir á Reykjanesskaga – 142 að tölu.

Ekki er einsdæmi að menn finni samsvörun milli eldvarpa og fjárborga eins og Eggert og Bjarni, því hið sama gerði Sveinn Pálsson í skýrslu um Mývatnselda nokkrum áratugum síðar. Hann lýsir atburðarásinni svo: „Á mörgum stöðum uppkomu nú smærri eldvörp eða borgir í hrauninu sjálfu, sem á eptir verða sem uppmjó, stærri og smærri fjárbyrgi, kringlótt í lögun, hol að innan og glasseruð með allra handa myndum og sléttu steingólfi að neðan og dyrum á sumum einhvers staðar út úr sjer.“
Í ferðabók sinni getur Sveinn auk þess um fjárborgir í Skaftafellssýslu og Landeyjum. Fjárborgir eru raunar eina húsaskjólið fyrir fé sem Sveinn minnist á og vekur það upp nokkrar spurningar, t.d. má velta fyrir sér hvort þær hafi verið nýjung í hans augum eða jafnvel hið gagnstæða, að þær hafi verið orðnar sjaldgæfar.
Á 18. öld var mikið talað fyrir umbótum í landbúnaði hér á landi. Útgáfa jókst mjög með tilkomu prentsmiðju í Hrappsey en fjöldi íslenskra rita var einnig prentaður í Kaupmannahöfn, m.a. mörg hagnýt uppfræðslurit. Búnaðarfræðsla var snar þáttur í þessum ritum, enda þótti mörgu ábótavant í íslenskum landbúnaði og ýmsir þeirrar skoðunar að það væri hægt að auka arðsemi sauðfjárræktar með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Með tilkomu Innréttinganna árið 1752 varð ullarframleiðsla mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Skúli Magnússon, fógeti, fékk sænskan mann, Hastfer nokkurn, til að reka sauðfjárbú á Elliðavatni. Þar áttu að fara fram skipulagðar kynbætur, einkum með tilliti til ullargæða. Hastfer gaf út leiðbeiningarrit um hirðingu sauðfjár þar sem hann gagnrýnir m.a. meðferð fjár á Suðurlandi. Hann minnist stuttlega á fjárborgir og telur þær ágætar til síns brúks. Því er ljóst að hann hefur séð þær eða heyrt af þeim í það minnsta. Helsti ókostur borganna þótti honum að þar var erfitt að fóðra fé vegna þess að moð vildi setjast í ullina og varð hún ekki hreinsuð nema með mestu erfiðismunum. Því mælir hann frekar með garðahúsum, eins og tíðkuðust norðanlands. Hafi menn gefið í borgum hefur heyið því ekki farið í þar til gerðar jötur eða garða og því viljað slæðast um gólfið.

Hlíðarborg

Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dalasýslu og upplýsingarfrömuður, ritaði um flestar hliðar sauðfjárhirðingar næstur á eftir Hastfer í yfirgripsmiklu riti sem kom út árið 1778. Hann á varla til nógu mörg orð til að lýsa hrifningu sinni á fjárskýlum öðrum en húsum. Hann skilgreinir tvennskonar hringlaga skýli: fjárborgir og fjárbyrgi. Borgirnar eru skv. honum miklu sjaldgæfari og aðallega til á Austurlandi. Um þær segir hann að þær eigi að mjókka upp á við, það sé vandasamt að hlaða þær og aðeins á fárra manna færi.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg í Hraunum.

Fjárbyrgi, þ.e. opin hringlaga fjárskýli, staðhæfir hann hafi víða verið brúkuð til forna og sjáist ennþá rústir þeirra en þau séu nú víðast aflögð. „Þesse byrge brúkudu fornmenn til ad nýtaser þess betr vetrarbeitina, þvi vída er so landslage háttad, serdeiles á þeim jördum sem ega fialland, ad viss partr landsins verz lenge og slær þar úrþó annad af landinu legge under.“

Pétursborg

Pétursborg.

Skv. Magnúsi voru byrgin aðallega notuð framan af vetrinum og stundum fram yfir jól en þá var farið að gefa fénu. Magnús hvetur menn mjög til að hlaða slík byrgi, enda geti það allir og ekki þurfi viðarskortur að letja menn til verksins. Þetta eru því viðarlaus mannvirki. Þau hafi marga aðra kosti, t.d. lofti þar vel um féð. Leiðbeiningar um hleðslu byrgja fylgja með kaflanum og eiga að henta sauðsvörtum almúganum sem ekkert kann í reikningslist skv. Magnúsi. Aðferðin er sú að búa til ferkantað líkan með því að raða upp steinvölum eða fiskbeinum og láta hvert stykki tákna tvær álnir, sem var rýmið sem ætla átti hverjum sauð. Á sama hátt skyldi mæla fyrir mannvirkinu sem átti að byggja, stinga svo hæl í miðju svæðisins og hnýta um hann snæri sem næði út í hornið á ferhyrningnum. Þá var auðveldlega hægt að marka fyrir hring með því að ganga með snærið kringum hælinn.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Hér fylgir lýsing Magnúsar: “Af grióte skal byrged hlada ad innanverdu i midtlær, enn torf mábrúka ad utanverdu og er þó betra af grióte, því fe nýr sig opt vidþar sem þad finnur hentugleika þar til, og fer þá mold og sandr í ullina ef af torfe er hledslan utan. Þá hledslan er komen í midtlær ad utanverdu, er mer sagt ad á þeim gömlu Byrgium hafe vered ávalrbýngr, sem skagad hafe út allt í kríng, enn sídan hafe byrged vered uppdreged. Þessi býngr edr búnga á byrgiunum er ómissande, því þegar kafalded snakar í kríngum byrgid, þá hvirflar býngrinn því frá ser og slær því þá útfrá byrginu, so ei fýkr ofaní, og þó vilde eg hafa efst á byrginu kraga af hnaus, sem stæde allavega utaf, og ynne hann sama gagn og Býngrinn og munde alldrei inní slíkt byrge fenna. Byrgid skylde vera í þad minsta mannhæd og dyrnar í þá átt, semsíst stæde uppá. Dyrnar skyldu vera lágar med hurd fyrer. Þess vileg her um hurdina geta á öllum þvílíkum byrgium og hagahúsum og eins selhúsum, þá ei er í þeim vered, ad hún se fráteken, því eg hefe vitad skepnur svelta til dauds med því móte, ad þær hafainnfared af forvitne edr í óvedre og hurdin sidan aptrdotted, so eihafa útkomez. Þess háttar vott þikiast menn siá í þessum byrgium,sosem smalamadrinn hafe haft þar sitt adsetr og hægt er so um adbúa í byrginu ad hann hafe þar fullgott, enda má so opt ástanda adþetta se harla naudsynlegt, því opt kann þad til ad vilia ad hann ei heimkomez. Byrgid á ad vera flórad, so því verde hreinu halded, því under því er komed fiaarins haalfa líf ad þad verde ei óhreint.”

Hólmsborg

Hólmsborg.

Það er ekki ljóst hvort rit Magnúsar hafði mikil áhrif á bændur þótt landstjórnin hafi látið dreifa því ókeypis meðal alþýðu, hvort þeir kepptust nú við að hlaða borgir og byrgi. Þó má nefna að árið 1783, fimm árum eftir útkomu ritsins, voru fjárborgir enn taldar óvíða nema kannski helst á Austurlandi. Þó var vitað um þrjár slíkar heima við bæinn á Draghálsi í Svínadal: „Eru þær hladnar svo lángt upp og á sig, at seinastverdr eptir op-korn at eins í kolli þeirra; vandi er at hlada þær, og verdtat siá nettan ritlíng um þat,“ segir í ritgerð um hlöður eftir óþekktan höfund – og með ritlingnum er væntanlega átt við rit Magnúsar.

Garðahverfi

Fjárborg við Garðastekk.

Tíu árum eftir að þessi orð voru rituð lofar Sveinn Pálsson mjög dugnaðarbónda í Görðum á Álftanesi sem sumarið 1793 hafði nýlega látið gera nokkrar fjárborgir í grennd við bæ sinn. Fjárborgunum lýsir hann svo: „Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“ Virðist sem Sveinn sé hér að lýsa borgum sem hlaðnar voru alveg upp í topp.

Staðarborg

Staðarborg.

Árið 1837 sendi Hið íslenska bókmenntafélag út spurningalista til allra sóknarpresta á Íslandi til að fá upplýsingar um ýmislegt sem varðaði náttúrufar, örnefni og búskaparhætti. Ein spurninganna fjallaði um fjárborgir og beitarhús. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að fjárborgir voru í flestum sóknum í Skaftafells- og Rangárvallasýslu – þar af voru tvær nýhlaðnar í Efri-Holtaþingum. Í tveimur sóknum í Skaftafellssýslu, Bjarnarness- og Hoffellssókn, er notkun þeirra þó á undanhaldi, að því er virðist því garðahús voru tekin að skjóta upp kollinum. Í Árnessýslu þekkjast borgir í sex sóknum og virðast hafa verið aðalfjárskýlin í Selvogi, a.m.k. er þar bara getið um fjárhús á einum bæ; í Krýsuvík. Í Klausturhóla- og Búrfellssókn í Grímsnesi var fjárborg á einum ónafngreindum bæ.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Hvergi er getið um fjárborgir í Gullbringusýslu og kemur kannski ekki á óvart, enda er íbúum þar oft úthúðað í heimildum fyrir slæma meðferð á sauðfé, sem reyndar var ekki mjög margt á þessu svæði. Í Snæfells- og Hnappadalssýslu þekktust hvergi fjárborgir nema í Helgafellseyjum og á Vestfjörðum er næstum hvergi minnst á fjárborgir nema í Holtssókn, enþar eru þær nefndar hlöð.

Gvendarborg

Gvendarborg á Vatnsleysuheiði.

Aðeins einn sóknarprestur annar á Vestfjörðumminnist á borgir eða hlöð, í Rafnseyrarkirkjusókn. Þá voru mannvirkin aflögð en ekki vitað hvers vegna. Hvergi er minnst á fjárborgir í Húnavatnssýslum en í Skagafirði segir sóknarpresturinn í Goðdala- og Ábæjarprestakalli að fjárborgir kallist fremur „við sjósíðuna“ og er þar væntanlega að skýra hvers vegna þær þekkist ekki í hans sókn. Eyfirðingar minnast ekki á eina einustu fjárborg. Þegar komið er austur í Múlasýslur kannast prestarnir í Skeggjastaða- og Desjarmýrarsókn við fjárborgir á sjávarbæjum. Í Hólmasókn er getið um borgir á fáeinum bæjum á útsveit, en þær voru aðeins notaðar fyrri part vetrar, meðan ekki var farið að gefa.

Árnaborg

Árnaborg ofan Garðs.

Hér er rétt að nefna að fjárborgir á Melrakkasléttu og sennilega víðar á Norðausturlandi hafa verið fjölbreytilegri mannvirki en annarsstaðar erlýst. Í Ferðabók Olaviusar er sagt frá fjárborgum sem voru einhverskonar hús, gerð úr ótilhöggnum rekaviðartrjám sem voru reist upp á endann, þakið lagt flatt yfir og þakið með torfi.
Ef til vill voru þau svipuð og svonefndar sandborgir sem Guðmundur Þorsteinsson lýsti síðar á sama svæði, langar tóftir og afar mjóar, garðalausar. Mokað var út úr þeim jafnóðum og söfnuðust oft upp miklir sand- og taðhaugar á skömmum tíma. Þá mun hafa verið venja að taka niður þakið, gera nýja tóft til hliðar við þá gömlu og þekja hana. Heimildarmaður Guðmundar hefur bent honum á að raðir af slíkum tóftum séu víða hlið við hlið á Melrakkasléttu.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Í lok 19. aldar ferðaðist Daniel Bruun víða um Ísland og kynnti sér fornar byggingarhefðir. Í umfjöllun um þaklaus hús minnist hann á tvær gerðir fjárborga: “Hér er átt við hinar kringlóttu fjárborgir, sem mest er af á Suðvesturlandi, en þar gekk féð fyrrum úti allt árið en leitaði skjóls í fjárborgunum í illviðrum. Einfaldastar eru skjólborgirnar, sem opnar eru að ofan, en hinar fullkomnari eru hlaðnar saman í eins konar hvelfingu, með loftgat á toppnum, sem hægt var að loka. Borgirnar eru hlaðnar úr torfi eða grjóti, en hvort sem er, gengur efra lag alltaf ögn lengra inn í borgina en hið neðra, þar til allt nær saman og lokast í toppnum.”
Þá segir Bruun frá kringlóttum fjárborgum á Reykjanesskaga sem voru ýmist opnar eða hlaðnar saman í toppinn. Uppruna byggingarstílsins telur hann mega rekja til Hjaltlands og Írlands.

Vogsósaborgir

Vogsósaborgir.

Með tilkomu búnaðarrita á síðari hluta 19. aldar fæst nokkuð nýtt sjónarhorn á meðferð og aðbúnað fjár, en þar var yfirleitt lögð áhersla á að fóður væri til handa öllum búfénaði og ekki treyst á útigang einan og sér. Dýraverndarsjónarmið voru komin til sögunnar og ekki lengur talið eðlilegt að afföll yrðu af fé, jafnvel í slæmu árferði. „Að gefa á gadd“ þótti ekki viðunandi. Urðu þá fjárborgir hjá sumum tákn um fremur illa meðferð á fénaði, enda virðist hafa verið algengt að því fé sem haft var á borgunum hafi ekki verið ætlað fóður nema að takmörkuðu leyti enda óhentugt að gefa í þeim ef marka má orð Hastfers um 100 árum fyrr. Í Búnaðarriti 1893 segir Sæmundur Eyúlfsson: “Það er margt, sem bendir til þess, að meðferð á kvikfje hafi aldrei verið svo ill sem hún var orðin á síðara hluta 18. aldar og fyrra hluta þessarar aldar. Þá var það mjög títt á suðurlandi, að engin hús voru til fyrir fullorðið fje nema fjárborgir; þar var fjenu hleypt inn í stórhríðum. Þá er langvinnar hagleysur gengu, og bersýnilegt var,að fjeð mundi deyja úr hungri, væri því engin björg veitt, var því gefið hey einhvers staðar úti á klakanum. – Því var „gefið á gadd“.”

Hringurinn

Fjárborgin Hringurinn á Vatnsleysuströnd.

Mönnum eins og Sæmundi, sem lýsa ófremdarástandi í landbúnaði á 19. öld er nokkuð tamt að líta á það sem afleiðingu hnignunar. Á söguöldinni hafi allir haft hey og hús, meira að segja fyrir sauði, en þeir voru annars í seinni tíð oftast hafðir á útigangi yfir veturinn meðan ær og lömb áttu víðast hvar von á húsaskjóli og einhverri gjöf. Sauðir voru harðgerðari en ær og lömb og líklegri til að lifa af veturinn. Af heimildum að dæma virðist langalgengast að borgirnar hafi verið notaðar fyrir þá þótt það sé auðvitað ekki alltaf tekið fram.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2010, Fjárborgir – Birna Lárusdóttir, bls. 57-65.

Óbrennishólmi

Fjárborg eða virki í Óbrennishólma.