Djúpudalaborg

Vitað er um a.m.k. 140 fjárborgir og litlu færri beitarhús á Reykjanesskagnum svo ljóst er að víða hafa menn hlaðið sauðpeningnum skjól eða reft yfir hann undir það síðasta og það ekki að ástæðulausu. Lífið í þá daga snerist um að halda lífi í sauðkindinni – því sauðkindin hélt lífinu í mannfólkinu. Auk þessa var fyrir tíð og/eða samhliða fjárborg-unum víða hlaðið fyrir á þriðja hundrað skjóla í skútum og hellum á svæðinu. Enn í dag eru flestir þessir staðir bæði sjáanlegir og aðgengilegir.

Bekkjaskuti

Bekkjaskúti – fjárskjól.

Í tímaritinu “Bóndi”, 4. tbl. 31. dag martsmánaðar 1851 segir m.a. um fjárhúsbyggingu og sauðfjárrækt:
“Í mörgum sveitum hagar svo til, að ærnar verða að öllu samanlögðu einna arðsamastar af sauðpeningnum, sjeu þær dyggilegar hirtar og að öllu vel með þær farið.
Þar sem annars er bærilega landgott, þá er óhætt að láta ær liggja úti framan af vetri, þegar tíð er góð og nóg jörð, en allt fje skyldu menn þó hýsa, þegar það þíðir ekki lengur bæli sitt. Meðan ær liggja úti, þarf að ganga til þeirra á hverjum degi, og líta nákvæmlega eptir hvernig þær bera sig að jörðinni, og taka ætíð vandlega eptir í hvert skipti, hvert engri þeirra muni vera misdægurt; það er ætíð vissara að reka þær seint á hverju kvöldi að beitarhúsum eða fjárborg, eða þá skilja við þær á einhverjum öðrum óhultum stað, svo ekki sje hætt við þær hreki eða fenni, þó veður spillist bráðlega að nóttu til. Þegar farið er að hýsa þær, skal standa yfir þeim, og halda þeim vel til beitar, og veitir ekki af að láta þær snemma út og seint inn, þá dagur er stuttur; á meðan þær hafa góðar fyllar, þarf ekki að gefa þeim framan af vetri, og ekki fyrr en um jól, þar sem landgott er.”

Ottarsstadaborg-901

Óttarsstaðafjárborg.

Á fyrirspurnareyðublaði Þjóðminjasafnsins má lesa eftirfarandi: “Lýsið hleðslu á fjárborg, hleðsluefni, hæð veggja, dyrum og öðru er efnið varðar. Lýsið stærð ef auðið er. Voru jötur með veggjum? Voru til fjárborgir hlaðnar upp í topp án viða (topphlaðnar) ýmist úr grjóti eða hnausum? Voru fjárhús og fjárborgir í notkun samtímis eða voru fjárborgir yfirleitt notaðar á þeim bæjum þar sem fjárhús voru til? Hvernig var afstaða fjárborga til annarra húsa? Hvenær ársins voru fjárborgir notaðar?  Eru enn til uppistandandi fjárborgir frá eldri tíð? Eru kunnar rústir fjárborga? Minna örnefni á fjárborgir?”

Húshöfði

Húshöfði – Beitarhús og Jófríðarstaðasel.

Petursborg-21

Pétursborg.

“Beitarhús eru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum, einkum norðanlands og austan. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni var að dreifa beitarálaginu. Beitarhús stóðu víða við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit og rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.”
Framangreind lýsing gefur vísbendingu um að beitarhús hafi nánast einungis verið til “norðanlands og austan” sbr. eftirfarandi skilgreiningu: “

Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“.

Pétursborg

Pétursborg og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“.” Ekkert er því vitlausara ef tekið er mið af beitarhúsatóftum í öðrum landshlutum, t.a.m. á Reykjanesskaganum. Svo er að sjá, ef marka má heimildir sem og minjarnar sjálfar, að bæði hafa kot orðið til á grunni fjárborgar (Grænaborg í Reykjavík) og öfugt (Bakkakot í Mosfellssveit). Auk þess eru dæmi um að beitarhús orðið til á grunni íbúðarhúsa (Finnsstaðir). Þannig hafa bændur eðlilega í gegnum tíðina verið að endurnýta fyrirliggjandi byggingarefni að breyttum breytanda. Nýjustu dæmi þessa er bryggju- og vegagerð á 20. öldinni þegar vörður, garðar og önnur gömul mannvirki voru færð í endurnýjun lífdaga í nýjum mannvirkjum.

Heimildir m.a.:
-thjodminjasafn.is
-http://is.wikipedia.org/wiki/Beitarh%C3%BAs
-http://www.instarch.is/instarch/ordasafn/b/
-Bóndinn – 4. tbl. 31. dag martsmánaðar 1851

Bakkakotsborg

Bakkakotsborg.