Garðastekkur

Birna Lárusdóttir skrifar um “Fjárborgir” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 2010. Skrifin eru sérstaklega áhugaverð þegar litið er til mikils fjölda fjárborga á Reykjanesskaganum. Þar segir m.a.:

Fjárborg

Árnaborg/Árnarétt.

“Fornleifar hafa strangvísindalegt gildi en þær geta líka höfðað til tilfinninga, verið fallegar, dularfullar og jafnvel orðið kveikjan að alls kyns sögum og vangaveltum. Hringlaga rústir hafa oft vakið undrun meðal fólks, jafnvel frekar en rústir með aðra lögun þótt ekki hafi mikið verið skrifað um þær. Sennilega er lögunin aðalástæðan en hringformið er ekki mjög algengt meðal íslenskra fornleifa. Þessar tóftir eru auðvitað með ýmsu móti, litlar eða stórar, stæðilegar eða jarðlægar, í túni eða úthögum. Sumar þeirra hafa verið túlkaðar sem hof eða lögréttur í meðförum fornfræðinga á 19. öld og jafnvel hafa hringlaga tóftir, ætlaðir dómhringar, verið hafðar sem aðalrök fyrir því að tilteknar tóftaþyrpingar séu þingstaðir.

Fjárborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Ennþá eru sumar hringlaga rústir sveipaðar dular fullum ljóma og t.d. er ekki langt síðan höfundur þessarar greinar hitti bónda sem gaf lítið út á þá skýringu að hringlaga rústir skammt frá bæ hans væru fjárborgir. Hann taldi þær vera virki. Og hver veit? Það er ekki hægt að alhæfa um hlutverk rústa af útlitinu einu saman. Stundum eru þessar rústir ekki mjög gamlar og jafnvel til ritaðar heimildir um notkun þeirra. Aðrar hringrústir eru fornar og án skilríkja, t.d. hefur verið grafið í eina slíka í Húshólma á Reykjanesi sem er eldri en miðaldalagið frá 1226 og hefur verið túlkuð sem fjárborg þótt sannanir fyrir því skorti reyndar.

Fjárborg

Staðarborg.

Ritheimildir hafa hingað til verið aðaluppspretta vitneskju okkar um fjárborgir og það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem fjöldi meintra fjárborga hefur verið skoðaður á vettvangi við fornleifaskráningu. Í heimildum, þá aðallega örnefnaskrám, eru hringlaga mannvirki, oftast í úthögum, gjarnan kynnt sem ævagamlar eða fornar fjárborgir. Það hvílir því oft yfir þeim fyrnska og dulúð en þó er ljóst að þær eru alls ekki alltaf gamlar.

Staðarborg

Staðarborg.

Þótt fjárborgir séu oft hringlaga er það ekki algilt og bæði fornleifaskráning og heimildakönnun sýna að fleiri gerðir mannvirkja hafa verið kallaðar fjárborgir. Yfirleitt er hugtakið „borg“ þó notað um borghlaðin mannvirki, þ.e. hlaðin þannig að hleðslan dregst smám saman að sér, mjókkar upp á við, jafnvel svo hátt að hleðslur mætist í toppinn. Þau þurfa ekki endilega að vera hringlaga í grunninn þótt það sé algengt. Í slík hús á ekki að þurfa neitt timburverk ef vel er að verki staðið. Þetta skýrir sennilega af hverju fjárborgir undir þaki, eins og t.d. í Húsagarði, eru oft litlar, enda er væntanlega erfiðara að ná grjótinu saman í toppinn eftir því sem mannvirkið er stærra að grunnfleti.
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að leggja grunn að sögu fjárborga.

Heimildir um fjárborgir

Í Íslendingasögum og Sturlungu er hvergi minnst á fjárborgir þótt þar sé enginn hörgull á sauðfé, enda er umhirða þess stór hluti af daglegu lífi sumra sögupersóna auk þess sem sauðaþjófnaðir koma oft af stað æsilegri atburðarás. Þá eru sauðamenn sömuleiðis eftirminnilegar persónur, oft tröllslegir, einrænir og sérlundaðir, fara víða og fá oft veður af válegum atburðum. Þrátt fyrir að borga sé ekki getið koma fjárhús oft fyrir í sögunum, ýmist nærri eða fjarri bæjum en þau eru næstum alltaf kölluð sauðahús, enda er sauður yfirleitt notað sem samheiti fyrir fé á þessum tíma en vanaðir hrútar kallaðir geldingar. Ekki er heldur minnst á borgir eða fjárborgir í fornbréfum þótt þar megi tína til ýmislegt sem tengist annars konar mannvirkjum fyrir sauðfé, t.d. fjárhús, lambhús og sauðahús.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Við upphaf 18. aldar fer fjárborgum að bregða fyrir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Tilgangurinn með ritun jarðabókar var að gefa yfirlit um allar bújarðir á Íslandi, skrá fróðleik um eyðibýli og nýbýli og kanna möguleika til frekari byggðar. Höfundarnir höfðu því ekki sérstakan áhuga á útihúsum, hvað þá fjárborgum. Samt sem áður minnast þeir stuttlega á borgir þrisvar sinnum, alltaf í tengslum við hjáleigubyggð.

Vatnaborg

Vatnaborg.

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson geta um fjárborgir í Skaftafellssýslum um miðbik 18. aldar og hæla þeim nokkuð: “Fjárborgir kallast strýtulaga skýli, hlaðin úr torfi og grjóti. Eru þau kringlótt að lögun og dyr á þeim niðri við jörðu, svo lágar, að maður getur aðeins skriðið inn um þær, en í toppi borgarinnar er gat eða ljóri”. Í sömu heimild er minnst lauslega á að fé þrífist mjög vel í hellum og stórum fjárborgum á Rangárvöllum en ástandið í Árnes- og Rangárvallasýslum er þó almennt ekki beysið. Fé fellur þar oft hundruðum saman á vetrum, hirðingarlaust á útigangi.

Borgarskraðsborg

Borgarskarðsborg.

Ekki er einsdæmi að menn finni samsvörun milli eldvarpa og fjárborga eins og Eggert og Bjarni, því hið sama gerði Sveinn Pálsson í skýrslu um Mývatnselda nokkrum áratugum síðar. Hann lýsir atburðarásinni svo: „Á mörgum stöðum uppkomu nú smærri eldvörp eða borgir í hrauninu sjálfu, sem á eptir verða sem uppmjó, stærri og smærri fjárbyrgi, kringlótt í lögun, hol að innan og glasseruð með allra handa myndum og sléttu steingólfi að neðan og dyrum á sumum einhvers staðar út úr sjer.“ Í ferðabók sinni getur Sveinn auk þess um fjárborgir í Skaftafellssýslu og Landeyjum. Fjárborgir eru raunar eina húsaskjólið fyrir fé sem Sveinn minnist á og vekur það upp nokkrar spurningar, t.d. má velta fyrir sér hvort þær hafi verið nýjung í hans augum eða jafnvel hið gagnstæða, að þær hafi verið orðnar sjaldgæfar.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Skúli Magnússon, fógeti, fékk sænskan mann, Hastfer nokkurn, til að reka sauðfjárbú á Elliðavatni. Þar áttu að fara fram skipulagðar kynbætur, einkum með tilliti til ullargæða. Hastfer gaf út leiðbeiningarrit um hirðingu sauðfjár þar sem hann gagnrýnir m.a. meðferð fjár á Suðurlandi. Hann minnist stuttlega á fjárborgir og telur þær ágætar til síns brúks. Því er ljóst að hann hefur séð þær eða heyrt af þeim í það minnsta. Helsti ókostur borganna þótti honum að þar var erfitt að fóðra fé vegna þess að moð vildi setjast í ullina og varð hún ekki hreinsuð nema með mestu erfiðismunum. Því mælir hann frekar með garðahúsum, eins og tíðkuðust norðanlands. Hafi menn gefið í borgum hefur heyið því ekki farið í þar til gerðar jötur eða garða og því viljað slæðast um gólfið.

Þorbjarnarstaðarborg

Þorbjarnarstaðarborg.

Magnús Ketilsson, sýslumaður í Dalasýslu og upplýsingarfrömuður, ritaði um flestar hliðar sauðfjárhirðingar næstur á eftir Hastfer í yfirgripsmiklu riti sem kom út árið 1778. Hann á varla til nógu mörg orð til að lýsa hrifningu sinni á fjárskýlum öðrum en húsum. Hann skilgreinir tvennskonar hringlaga skýli: fjárborgir og fjárbyrgi. Borgirnar eru skv. honum miklu sjaldgæfari og aðallega til á Austurlandi. Um þær segir hann að þær eigi að mjókka upp á við, það sé vandasamt að hlaða þær og aðeins á fárra manna færi.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Fjárbyrgi, þ.e. opin hringlaga fjárskýli, staðhæfir hann hafi víða verið brúkuð til forna og sjáist enn þá rústir þeirra en þau séu nú víðast aflögð. „Þesse byrge brúkudu fornmenn til ad nýta ser þess betr vetrarbeitina, þvi vída er so landslage háttad, serdeiles á þeim jördum sem ega fialland, ad viss partr landsins verz lenge og slær þar úr þó annad af landinu legge under.“

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Skv. Magnúsi voru byrgin aðallega notuð framan af vetrinum og stundum fram yfir jól en þá var farið að gefa fénu. Magnús hvetur menn mjög til að hlaða slík byrgi, enda geti það allir og ekki þurfi viðarskortur að letja menn til verksins. Þetta eru því viðarlaus mannvirki. Þau hafi marga aðra kosti, t.d. lofti þar vel um féð. Leiðbeiningar um hleðslu byrgja fylgja með kaflanum og eiga að henta sauðsvörtum almúganum sem ekkert kann í reikningslist skv. Magnúsi.

Hringurinn

Hringurinn.

Sveinn Pálsson lofar mjög dugnaðarbónda í Görðum á Álftanesi sem sumarið 1793 hafði nýlega látið gera nokkrar fjárborgir í grennd við bæ sinn. Fjárborgunum lýsir hann svo: „Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“ Virðist sem Sveinn sé hér að lýsa borgum sem hlaðnar voru alveg upp í topp.

Stakkavíkurborg

Stakkavíkurborg.

Árið 1837 sendi Hið íslenska bókmenntafélag út spurningalista til allra sóknarpresta á Íslandi til að fá upplýsingar um ýmislegt sem varðaði náttúrufar, örnefni og búskaparhætti. Ein spurninganna fjallaði um fjárborgir og beitarhús. Í Árnessýslu þekkjast borgir í sex sóknum og virðast hafa verið aðalfjárskýlin í Selvogi, a.m.k. er þar bara getið um fjárhús á einum bæ: í Krýsuvík.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Hvergi er getið um fjárborgir í Gullbringusýslu og kemur kannski ekki á óvart, enda er íbúum þar oft úthúðað í heimildum fyrir slæma meðferð á sauðfé, sem reyndar var ekki mjög margt á þessu svæði.

Fjárborg

Við Hólmsborg.

Í lok 19. aldar ferðaðist Daniel Bruun víða um Ísland og kynnti sér fornar byggingarhefðir. Í umfjöllun um þaklaus hús minnist hann á tvær gerðir fjárborga: Hér er átt við hinar kringlóttu fjárborgir, sem mest er af á Suðvesturlandi, en þar gekk féð fyrrum úti allt árið en leitaði skjóls í fjárborgunum í illviðrum. Einfaldastar eru skjólborgirnar, sem opnar eru að ofan, en hinar fullkomnari eru hlaðnar saman í eins konar hvelfingu, með loftgat á toppnum, sem hægt var að loka. Borgirnar eru hlaðnar úr torfi eða grjóti, en hvort sem er, gengur efra lag alltaf ögn lengra inn í borgina en hið neðra, þar til allt nær saman og lokast í toppnum. Þá segir Bruun frá kringlóttum fjárborgum á Reykjanesskaga sem voru ýmist opnar eða hlaðnar saman í toppinn. Uppruna byggingarstílsins telur hann mega rekja til Hjaltlands og Írlands.

Fjárborg

Við Staðarborg.

Fornleifaskráning
Mikið verk er fyrir höndum að kanna gögn um fjárborgir sem hafa safnast við fornleifaskráningu á undanförnum árum. Í grófum dráttum virðist þó skráningin endurspegla þá mynd sem heimildir draga upp af fjárborgum hvað varðar dreifingu. Tóftir sem eru sagðar fjárborgir, oftast hringlaga, eru býsna algengar á Suðurlandi, t.d. í Rangárvallasýslu, Grafningi og Grímsnesi. Í Grímsnesi eru þær oft stór og sigin mannvirki, um eða yfir 10 m í þvermál en í Rangárvallasýslu finnast oftar lítil mannvirki sem virðast hafa verið topphlaðin, oft um 6 m í þvermál.

Fjárborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Borgir eru líka algengar á Reykjanesi, oft mjög stæðilegar rústir, og vekur það upp spurningar um hvort þær séu flestar hlaðnar um eða eftir miðja 19. öld fyrst þeirra er ekki getið í sóknarlýsingum þar, eins og áður var reifað. Heimildir greina reyndar frá nokkrum borgum á Reykjanesi sem voru reistar á 19. öld en um þetta verður auðvitað ekkert alhæft. Í Kjós er fornleifaskráningu ekki lokið en þar virðast borgir þó fremur fátíðar og þær þekkjast ekki í Leirár- og Melasveit.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Nokkur dæmi eru um að fjárborgir hafi verið aflagðar þegar betri hús komu til sögunnar. Stundum er þess beinlínis getið, t.d. var hætt að nota fjárborg á Úlfljótsvatni árið 1887 þegar byggð voru fjárhús, en oftar eru óbeinar vísbendingar um hið sama, t.d. eru Borgaörnefni oft tengd beitarhúsum og benda í það minnsta til að þau hafi verið reist þar sem áður voru borgir. Í því sambandi má nefna að beitarhús á Þorláksstöðum í Kjós eru í Borgarskarði, og sést greinilega á yfirborði að eldri byggingaleifar eru undir stórum húsum sem voru notuð fram á 20. öld.

Valgarðsborg

Valgarðsborg í Hlíðarseli.

Í Selvogi hafa fjárborgir verið í notkun fram á 19.-20. öld ef marka má ástand mannvirkjanna og þá frásögn sóknarlýsingar að þær hafi verið einu fjárskjólin á svæðinu á fyrri hluta 19. aldar. Á tveimur stöðum sjást skrýtnar rústir sem mætti túlka sem þróun frá borgum yfir í beitarhús – þ.e. engu líkara en borgarrústum hafi verið breytt í fjárhús. Þetta er augljóst á Hlíðarborg, þar sem beitarhús hafa verið reist inni í borginni sjálfri. Undir Borgarskörðum ekki langt frá er hringlaga rústahóll og hefur lítil fjárhúsrúst verið grafin inn í hann.
Selvogurinn var annars annálaður fyrir góðan útigang og þar hafa m.a. tvær jarðir fengið þá einkunn að vera sennilega bestu útigangsjarðir á öllu Íslandi. Í því samhengi er athyglisvert að í beitarhúsarústum á svæðinu sjást yfirleitt ekki hlöður, jötur eða garðar en það er önnur saga sem ekki verður rakin hér.

Fjárborg

Viðeyjarborg.

Samantekt og umræða
Fjárborgir þekkjast ekki af heimildum fyrr en á 18. öld og raunar er ekkert vitað um hvenær farið var að reisa þær hér á landi. Þá þegar eru borgir víða á undanhaldi, m.a. eru vísbendingar um að hjáleigur hafi verið reistar á gömlum fjárborgastæðum og sumir virðast aðeins þekkja mannvirkin af afspurn og rústum. Þrjár fjárborgarústir sem grafið hefur verið í staðfesta þetta og virðast allar hafa verið aflagðar fyrir 1721 eða mögulega skömmu eftir það.

Pétursborg

Pétursborg.

Á síðari hluta 18. aldar verður mönnum nokkuð tíðrætt um borgir og notkun þeirra eykst að nýju, m.a. fyrir tilstilli Magnúsar Ketilssonar og umbótamanna sem vildu auka gæði íslensku ullarinnar. Enn er verið að hlaða borgir á fyrri hluta 20. aldar og margar borgarrústir sem enn eru vel uppistandandi, t.d. á Reykjanesi og í Rangárvallasýslu, eru líklega hlaðnar á 19. öld.
Fjárborgirnar eiga sér bæði aðdáendur og andmælendur í heimildunum. Upplýsingarmenn virðast almennt hrifnir af þeim, aðallega af því að ekki þurfi við til byggingarinnar og líka séu þær góður kostur fyrir ullina sem var mikilvæg framleiðsluvara á 18. öld. Aðdáunin beinist líka auðsjáanlega að þeim bændum sem eru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig til að reisa mannvirki sem eru ekki dæmigerð og ekki á allra færi – þannig geta fjárborgir verið tákn um framfarahug og hugsun sem nær út fyrir rammann. Aukin krafa um heygjöf virðist svo aðalorsök þess að síðla á 19. öld er frekar hvatt til fjárhúsbygginga, og allra helst til garðahúsa, enda hentaði illa að gefa í fjárborgum. Flest bendir til að þetta megi skýra með veðurfari og landsháttum, að borgirnar séu aðallega bundnar við svæði þar sem útigangur var mögulegur án gjafar og eftirlits sauðamanns.
Til gamans má geta þess að Ólafur Þorvaldsson telur í bók sinni Harðsporar upp helstu útigöngusvæði á landinu sem hann þekkir til: Nokkrar jarðir í Selvogi, Ölfusi og í Þingvallasveit, Biskupstungum, Rangárvallasýslu, Skaftafell o.fl. jarðir þar í nánd, Horn í Nesjum og líkast til fleiri jarðir á Suðaustur- og Austurlandi, t.d. Brú á Jökuldal og að lokum Melrakkasléttu. Þetta kemur nokkurn veginn heim og saman við hugmyndir um dreifingu fjárborga. Gamlir sauðir, sem þoldu útiganginn best, gáfu af sér meiri ull en annað fé, allt að 2 kg á ári en af ám og yngri sauðum fékkst yfirleitt minna eða tæp 1,5 kg. Þá var ullin talin best af sauðum en á hinn bóginn er mögulegt að hvoru tveggja, bæði ullarmagn og -gæði megi rekja til útigangsins fremur en líffræðilegra orsaka. Ullargæði eru einmitt ein meginástæða þess að menn mæla með fjárborgum að nýju á 18. öld, þegar ullin fór að skipta verulegu máli vegna Innréttinganna. Fjárborgir fyrir þann tíma gætu verið til marks um að menn hafi haft hugann sérstaklega við ullarframleiðslu þótt auðvitað hafi aðrar afurðir, kjöt, feiti og mjólk, vissulega einnig verið til staðar. Útigangur fjár og fjárborgir þurfa alls ekki að vera til marks um slæma meðferð, hnignun eða úrræðaleysi þótt þeirri skoðun sjáist bregða fyrir á 19. öldinni.

Árnaborg

Árnaborg.

Fjárhús tíðkuðust snemma hér á landi en bændur gætu hafa kosið útiganginn einfaldlega vegna þess að þannig var hægt að fá betri ull. Það má velta því upp hvort áhættan hafi þótt eðlileg og fjárfellir við og við einfaldlega verið hluti af lögmáli sem var öðrum þræði gert ráð fyrir. Meira að segja þótti sumum á 20. öld ekkert óeðlilegt við að nokkrar skjátur féllu úr hor á hverju vori. Á þetta minnir máltækið „að setja fé á Guð og gaddinn“, þ.e. fé var sett á útigang í þeirri von að sá almáttugi sæi aumur á því og skilaði lífsneista í skjátunum að vori.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Hafi fjárhús þegar verið orðin nægilega mörg og stór skýrir það auðvitað hvers vegna menn þurftu ekki að ráðast í fjárborgahleðslu á 19. og 20. öld. Þetta er ósannað, enda hefur ekki verið grafið í nein fjárhús á svæðinu.”

Þess ber að geta að í dag eru þekktar a.m.k. 135 fjárborgir á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs.

Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 101. árgangur 2010 (01.01.2010), Birna Lárusdóttir; Fjárborgir, bls. 57-80.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.