Bíldfellssel

Leitar var leifa Bíldfellssels. Leitin var sérstaklega áhugaverð af tveimur ástæðum; í fyrsta lagi er ekki getið um selstöðu frá Bíldsfelli í Jarðabókinni 1703, en á móti kemur að örnefnin „Selhlíð“ og „Seljamýri“ eru til í suðvestanverðu fellinu og neðan þess.
Bildfellssel-501Jafnan, þar sem „sel“-örnefni koma fram í heimildum, má ætla að örnefnið hafi orðið til vegna selstöðu þar eða í námunda. Við leit FERLIRs neðan Selhlíðar fundust líka fornar tóftir, nánast jarðlægar, er ætla megi að kunni að hafa verið selstaða frá Bíldsfelli til forna.
Ögmundur Sigurðsson gerði örnefnalýsingu fyrir Bíldsfell árið 1921. Í henni má m.a.lesa eftirfarandi:
„Þessarar jarðar er fyrst getið í Landnámu, er þar sagt: „Þorgrímur Bíldur nam lönd öll fyrir ofan Þverá og bjó að Bíldsfelli. Leysingi hans var Steinröður, son Malpatrix af Írlandi. Hann eignaðist öll Vatnslönd.“
Þetta mun hafa gerzt nálægt miðri landnámsöld, eða nálægt 900. Þorgrímur Bíldur var bróðir Önunds Bílds, þess er nam land ofan til í Flóa, og bjó í Önundarholti. Þeir bræður höfðu herjað á Írlandi, áður þeir kæmi til Íslands.
Billdsfell-502Steinröður hefir verið Íri, fyrst þræll, og síðan leysingi Þorgríms Bílds. Hann virðist hafa verið af góðum ættum og vel mannaður. Þorgrímur gaf honum frelsi og gifti honum dóttur sína, „hann eignaðist öll Vatnslönd.“
Þá er þetta gjörðist var ekki til nafnið Grafningur, en löndin meðfram Þingvallavatni, sem þá hét Ölfusvatn, og Úlfljótsvatni nefndust Vatnslönd, þar sem nú eru lönd Ölvisvatns, Villingavatns og Úlfljótsvatns.
En nú vita menn eigi, hvar bær Steinröðar, Steinröðarstaðir, hafi staðið. Nokkrir ætla, að það hafi verið í Vatnsbrekku í Nesjalandi. Þar kvað votta fyrir rústum miklum, mjög gömlum, en eigi er hægt að segja um það með vissu.
Billdsfell-503Þverá er sama áin, sem nú nefnist Tunguá, er skilur lönd Tungu og Torfastaða. Hefir þá Bíldsfellsland náð frá Tunguá að Vatnslöndum, þ.e. Úlfljótsvatnslandi. Tunga hefir síðar byggzt.
Eigi er hægt að vita, hvort ættingjar Þorgríms Bílds héldu óðali sínu langt eða skammt, en hins má geta, að þeir bræður, Önundur og Þorgrímur Bíldur, urðu kynsælir menn.
Það líða þessu næst 300 ár, að Bíldsfells er hvergi getið í handritum. Á þrettándu öld, eða árið 1220, ritar Magnús biskup Gissursson máldaga kirkjunnar á Bíldsfelli. Hefir hann eflaust gert það á eftirlitsferð (visitatio). Máldaginn hljóðar svo:
„Kirkja að Bíldsfelli er helguð Maríu drottningu, Pétri postula, Nicolas biskupi. Kirkja á X hundr. í landi, klukkur II, altarisklæði II, tjöld um sönghús og eldbera.“ Magnús Gissursson var biskup í Skálholti frá 1216-1236, ágætur höfðingi, af ætt Haukdæla.

Billdsfell-504

Næst, þá er Bíldsfells er getið, er það 177 árum síðar, eða árið 1397. Það er enn máldagi kirkjunnar, sem til er frá þeim tíma, eftir Vilchin biskup (Vilchinsmáldagar). Hann var biskup í Skálholti 1394-1406. Lét hann rita máldaga allra kirkna í biskupsdæminu, og þykja þeir merkilegir.
Ennþá líður langur tími, þangað til getið er um Bíldsfell. Það er eigi fyrri en eftir 1700, að Árni Magnússon og Páll Vídalín fara um og meta jarðir á Íslandi. Það mun hafa verið 1706, að Árni ritaði í jarðabók sína um Bíldsfell: „Munnmæli eru, [að] hér hafi til forna kirkja verið, merki til þess eru kirkjugarðsleifar kringum fornt hússtæði, þar sem nú er enn geymsluhús ábúanda. Rök vita menn hér engin önnur til, og enginn man hér hafi tíðir veittar verið. Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast engum.
Í örnefnalýsingu fyrir Bíldsfell segir m.a.: „N
eðst í Hlíðinni, upp af Grjótunum, er Bláimelur, en Breiðabrekka upp af honum. Innst á Hlíðinni, næst Fjallaskarði, eru Miðaftanshnúkar. En þar sem Hlíðin er hæst heitir Háþúfa, og niður af henni Háþúfubrekkur.

Billdsfell-506

Uppi á háhlíðinni eru Háþúfutorfur. Vestan til, spölkorn vestar en Háþúfa, er Háaberg, og brekkan vestan undir því heitir Háabergsbrekka. Niður af henni, meðfram ánni, er Seljamýri.“
Og að lokum skal þess getið að Ögmundur mælti svo fyrir, að þessi litla bók (örnefnalýsingin) fylgdi Bíldsfelli, þó eigendaskipti verði á jörðinni, og sé jafnan í vörzlum þess búanda, sem býr á Bíldsfelli.
Efst í nefndri Seljamýri mótar fyrir tóftum. Þær eru að vísu orðnar jarðlægar í þýfi og mosa, en enn má sjá rými. Þarna er greinilega um mjög fornar mannvistarleifar að ræða, áður óþekktar, sem ástæða væri til að rannsaka. Mjög líklega hefur selstaða þessi verið orðin gleymd þegar gerð Jarðabókarinnar var undirbúin á síðari hluta 17. aldar.  

Heimild:
-Ögmundur Sigurðsson, Hafnarfirði 10. júlí 1921 – örnefnalýsing, ÖÍ.

Bíldsfell

Bíldsfelll séð til norðausturs.

Seltjarnarnes

Í Vikunni 1987 er fjallað um „Nesstofu – eitt elsta steinhús landsins„:
„Til forna náði hreppurinn yfir allt hið svokallaða Seltjarnarnes, milli Kópavogs og Elliðaárvogs, frá Gróttu upp að Hólmi.

Seltjarnarnes

Nesstofa.

Fyrstu aldirnar eftir landnám voru einungis jarðirnar Reykjavík, Nes og Laugarnes í byggð og var landbúnaður helsta atvinnugreinin. Íslendingar fóru að stunda fiskveiðar í auknum mæli á 14. og 15. öld og kom þá skreiðarútflutningur einnig til sögunnar. Byggð fór því að þéttast ört við sjávarsíðuna.
Við siðaskiptin náðu Skálholtsbiskupar eignarhaldi á flestum jörðum hreppsins og lögðust þær undir konung um miðja 16. öld. Íbúum fór fjölgandi á nesinu næstu aldirnar og á fyrri hluta 18. aldar var þar einna þéttbýlast á öllu landinu.
Tveir atburðir áttu sér stað á 18. öld sem mörkuðu spor í sögu Seltirninga. Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi og landlæknisembætti var stofnað á íslandi. Bjarni Pálsson var skipaður fyrsti landlæknirinn og aðsetur hans var í Nesi við Seltjörn. Í kjölfar aðskilnaðar Seltjarnarness og Reykjavíkur missti hreppurinn smátt og smátt mestan hluta af landi því sem tilheyrði honum. Nú er svo komið að innan marka gamla Seltjarnarneshrepps eru þrír kaupstaðir og hátt í helmingur þjóðarinnar hefur þar búsetu.
Um aldamótin 1900 hljóp mikil gróska í útgerð á nesinu og taldist hreppurinn til stærstu útgerðarstaða á landinu. Hafnaraðstaðan var þar heldur bágborin og leiddi það til þess að Seltirningar urðu að selja fiskiskipaflota sinn til Reykjavíkur. Seltirningar tóku upp landbúnað að nýju eftir útgerðarævintýrið en hann leið undir lok í heimsstyrjöldinni síðari. Byggð var þá tekin verulega að þéttast og Seltjarnarnes hlaut kaupstaðarréttindi 1974.

Seltjarnarnes

Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson á tindi Heklu.

Nesstofa stendur við Bakkatjörn á vestanverðu nesinu og þaðan er aðeins örstuttur spölur út í Gróttu. Útsýnið þennan bjarta vordag var stórbrotið. Akrafjallið bar við heiðskíran himin og Esjan skartaði sínu fegursta. Í fjarska blasti Snæfellsjökull við i öllu sínu veldi. Byggðin hefur í tímanna rás færst nær Nesstofu og nú er svo komið að glæsileiki þessa einfalda húss nýtur sín ekki sem skyldi.
Nesstofa er eitt af elstu steinhúsum landsins, var reist á árunum 1761 til 1765. Hún hefur nú verið færð í sitt upprunalega horf og senn verður opnað þar læknisfræðilegt sögusafn, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Sögulegt gildi Nesstofu verður ekki dregið í efa. Þar bjó á árunum 1763 til 1779 fyrsti landlæknir okkar Íslendinga, Bjarni Pálsson, og var hann fyrsti Íslendingurinn sem lauk embættisprófi í læknisfræði. Hann var skipaður landlæknir 1760 og beið hans þá mikið og erfitt starf. Ásamt því að hafa umsjón með heilbrigðismálum landsins, veita sjúkum læknishjálp og hafa með höndum lyfjasölu var honum falið að annast læknakennslu, kenna ljósmæðrum og að auki að hafa eftirlit með tukthúslimum. Þrátt fyrir drepsóttir, hungur og gífurlegan barnadauða hófst Bjarni ótrauður handa. Læknaskóla starfrækti hann allan sinn starfstíma í Nesi og lyfjabúð til ársins 1772.

„Reykjavík og Kópavogur hjáleigur Seltjarnarness!“

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – loftmynd.

Við sem búum á þéttbýlissvæðunum suðvestanlands höfum ekki undan að fylgjast með örri þróun byggðarinnar. Í önn dagsins hverfur tíminn og þegar litið er upp úr annríkinu blasa við nýir byggðakjarnar þar sem áður voru mýrar, grýtt holt og berangur.
Sagt er að æðri máttur hafi leitt Ingólf Arnarson til Reykjavíkur. Víst er að Reykjavíkursvæðið hefur um margt einstæð náttúruskilyrði til þéttbýli sem skapast hefur á síðustu áratugum vegna gjörbreyttra atvinnuhátta þjóðarinnar.
Land það sem Reykjavíkurborg á í dag er hluti af Seltjarnarneshreppi hinum forna sem náði frá Gróttu upp að Hólmi og milli Elliðaárvogs og Kópavogs. Með stofnun kaupstaðar í Reykjavík fyrir 200 árum hófst sú þróun að taka land Seltjarnarneshrepps til þarfa þéttbýlismanna. Nú eru þrír kaupstaðir innan gömlu hreppamarkanna og býr þar nær helmingur þjóðarinnar.
Enginn hreppur á Íslandi hefur orðið fyrir slíku landaafsali sem Seltjarnarneshreppur. Seltirningar geta því með sanni sagt að Reykjavík og Kópavogur séu hjáleigur frá Seltjarnarnesbæ.“

Í „Fornleifaskráningu á Seltjarnarnesi árið 2006“ er byggðasaga Nessins rakin:
Seltjarnarnes
„Til að geta sett niðurstöður fornleifaskráningar í fræðilegt samhengi er nauðsynlegt að hafa hugmynd um sögu byggðar á svæðinu sem er til rannsóknar. Byggðasaga er einn sá grunnur sem áætlanir um frekari rannsóknir, t.d. uppgrefti, ættu að byggja á. Vitneskja um sögu byggðar eykur líkur á að rannsóknarefni fornleifafræðinga séu mótuð og þar af leiðandi fáist markvissari niðurstöður. Heimildir sem nýtast við ritun byggðasögu eru t.d. fornrit, þ.e. Landnáma, Sturlunga og Íslendingasögur, fornbréfasafn, tölur um dýrleika jarða og upplýsingar um staðsetningu kirkna og bænhúsa. Almennt er álitið að bæir, þar sem kirkjur eða bænhús stóðu, hafi byggst snemma, enda hafi þau almennt verið stofnsett fljótlega eftir árið 1000. Þá eru kuml óræk sönnun um forna byggð. Einnig koma bæjanöfn að góðu gagni þegar á að reyna að ákvarða í hvaða röð jarðir hafi byggst, sem og landamerki.
Ólíkt stórum hluta landsins hefur þegar verið ritað talsvert um byggðasögu Seltjarnarness.
Seltjarnarnes
Árið 1936 birtist greinin „Hversu Seltjarnarnes byggðist” eftir Ólaf Lárusson í Landnámi Ingólfs og átta árum síðar í ritgerðasafni hans Byggð og sögu. Björn Teitsson gerði einnig ítarlega grein fyrir sama efni í grein sinni „Byggð í Seltjarnarneshreppi hinum forna” sem birtist í Safni til sögu Reykjavíkur sem gefin var út 1974. Fyrir áhugasama um sögu og þróun byggðar á Seltjarnarnesi má einnig benda á Seltirningabók sem út kom 1991 en þar er að finna ítarlegar upplýsingar um upphaf byggðar á nesinu og þróun hennar allt fram á síðustu ár og grein Orra Vésteinssonar í ráðstefnuriti íslenska Söguþingsins frá 1997 þar sem hann fjallar m.a. um Nes í grein sinni Íslenska sóknarskipulagið og samband heimila á miðöldum.
Sökum þess að töluvert hefur verið fjallað um byggðarsögu Seltjarnarness er hér markmiðið að draga saman helstu staðreyndir um landnám og byggðarþróun á nesinu sem þegar hafa verið settar fram en jafnframt nota fornleifaskráningu og þær fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á nesinu allt fram á síðustu ár til að bæta við myndina og dýpka skilning á byggðarþróuninni. Hér er mest stuðst við grein Ólafs Lárussonar enda hefur flest sem um landnám og byggðarsögu á Seltjarnarnesi fram að þessu byggt á úttekt hans.
Sú umfjöllun sem hér fylgir um byggðasögu Seltjarnarness, eins og reyndar skýrslan í heild, afmarkast við mörk Seltjarnarness eins og þau eru í dag. Heitið Seltjarnarnes er því notað yfir kaupstaðarlandið eins og það er nú en ekki hinn forna Seltjarnarneshrepp sem náði yfir allt nesið sem liggur á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og til fjalla. Enginn vafi leikur á því að jörðin Nes er landnámsbýli þess svæðis sem nú er kallað Seltjarnarnes.

Seltjarnarnes

Landamerkjasteinn á Valhúsahæð – áletrun. Þvergarður fjær.

Ólafur Lárusson rökstuddi í úttekt sinni á landnámi og byggðarþróun á Seltjarnarnesi að Nes hafi byggst upp fljótlega eftir landnámi í Reykjavík. Á undanförnum áratugum hafa fornleifarannsóknir verið gerðar í Nesi og styðja þær hugmyndir um að Nes hafi byggst mjög snemma, fljótlega eftir að landnámsgjóskan féll. Rannsóknir á Þvergarði og á garði við Bygggarðsvör sýna að þessir garðar voru byggðir snemma eða á 10.-11. öld. Aldur Þvergarðs bendir til að þegar á 11. öld hafi verið komið a.m.k. eitt býli á Innnesi. Ekkert er vitað um hlutverk garðsins í Bygggarði þó að tilgáta hafi verið sett fram um að hann hafi tengst byggræktun. Ekki er þó óhugsandi að sá garður gæti verið landamerki, eða byggður til að girða af heimatún Bygggarðs enda má ætla að Bygggarður hafi verið eitt af fyrstu býlunum sem byggðust úr landi Ness.
Samkvæmt kenningum Ólafs Lárussonar var Nes í upphafi lakari jörð en Reykjavík. Ness er fyrst getið í heimildum um 1200 en þá er kirkja á jörðinni. Fyrsti nafngreindi ábúandinn í Nesi var Hafurbjörn Styrkársson sem skv. heimildum átti ættir að rekja til Ingólfs Arnarssonar og bjó í Nesi um 1280. Af heimildum má sjá að sonur Hafurbjarnar og sonarsonur hafa búið í Nesi eftir hans dag og voru þeir allir í heldri manna tölu. Af heimildum má því ætla að í Nesi hafi verið ríkmannlega búið á 13. öld. Lítið er hins vegar vitað um eigendur Ness frá 14. öld og fram að siðaskiptum þegar jörðin var orðin eign Skálholtsstóls.

Seltjarnarnes

Mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur árið 1700. Eiði og Mýrarhús Seltjarnarnesmegin.

Ólafur segir að það megi sjá af heimildum að Nes hefur verið höfuðból alls hins gamla Seltjarnarness, a.m.k á 13.-14. öld og er lítil ástæða til að draga þá túlkun í efa. Frá fornleifafræðilegu sjónarmiði er ekki augljóst af hverju Nes ætti endilega að hafa byggst á eftir Reykjavík. Örnefnið ‘Nes’ gæti vel verið frumlegra og myndi hafa hæft vel fyrsta býlinu á nesinu sem báðar jarðirnar eru á. Nes var dýrari jörð en Reykjavík á seinni öldum (120 hundruð á móti 100 hundruðum) og kirkjan í Nesi var miklu betur eignum búin en sú í Reykjavík. Hvernig sem því hefur verið varið er ekki ástæða til að ætla að langt hafi liðið milli þess sem jarðirnar tvær byggðust, og verður e.t.v. aldrei hægt að skera úr um það.

Seltjarnarnes

Nesstofa – kirkjugarður.

Kirkjumáldagi frá 14. öld sýnir að þá var Neskirkja mjög vel stærð og voru eignir hennar dæmigerðar fyrir kirkjur á stórbýlisjörðum. Frá þeim tíma geta heimildir þriggja jarða sem byggst hafa út frá Nesi. Það eru Eiði, Bakki og Bygggarður. Í máldaga kirkjunnar kemur fram að hún á: „…þriðjunginn í heimalandi [Ness] með rekum, skógum og afréttum, Eiðslandi, Bakka og Bygggarði“ Þetta orðalag má túlka á tvenna vegu. Annars vegar sem svo að kirkjan eigi jarðirnar þrjár í heild en hins vegar hún eigi þriðjung af þeim öllum. Ólafur kýs að túlka það sem svo að Neskirkja eigi þriðjung úr jörðunum þremur. Þetta segir hann benda til þess að þessar jarðir hafi byggst út úr Neslandi eftir að kirkjunni var gefinn þriðjungur jarðarinnar og því sé hlutfallsleg eign kirkjunnar í býlunum sú sama og í heimajörðinni. Hins vegar má spyrja hvort ekki sé allt eins líklegt að hjáleigurnar þrjár gætu einmitt hafa verið komnar í byggð þegar kirkjunni var gefið landið og hún fengið hluta af hjáleigunum eins og af heimajörðinni.
Seltjarnarnes
Þessar vangaveltur er vart hægt að leiða til lykta að svo stöddu en ef við fylgjum kenningu Ólafs má gera ráð fyrir að jarðirnar þrjár hafi verið byggðar eftir miðja 11. öld (1056 í fyrsta lagi í biskups tíð Ísleifs Gissurarsonar) en fyrir miðja 14. öld. Ólafur gerir ekki tilraun til tímasetja upphaf býlanna frekar. Eins og áður segir benda rannsóknir á Þvergarði til að garðurinn hafi a.m.k. verið byggður á 11. öld og samkvæmt því mætti ætla að á þeim tíma hafi býli á Innnesinu, Eiði og/eða Lambastaðir, þegar verið í byggð. Garðlag frá 10. öld við Bygggarðsvör þarf ekki endilega að tengjast byggð þar en ekki er ólíklegt að hann tengist fyrstu búsetu á jörðinni. Hafi stórbýlið Nes verið einrátt á nesinu fram á seinni hluta 11. aldar eða jafnvel allt fram til miðrar 14. aldar sé það harla óvenjulegt. Eðlilegra er að áætla að úr landi landnámsjarðarinnar Ness hafi á strax á 10. öld byggst annað býli á Innnesinu (Eiði eða Lambastaðir) og jafnvel Bygggarður eða Bakki. Hugsanlegt er að á fyrstu öldum hafi þessar jarðir legið undir Nes – verið hjáleigur þaðan. Eftir að kirkja var byggð í Nesi hefur Nesbóndinn gefið henni þriðjung úr landi sínu með rekum og afrétt og úr öllum afbýlunum þremur sem þá voru í byggð, eða býlin í heild sinni.
Seltjarnarnes
Ólafur Lárusson heldur því fram að áður en umræddar jarðir byggjast frá Nesi hafi ein jörð þegar verið byggð úr Neslandi. Þetta er jörðin Lambastaðir, nálægt merkjum við Reykjavík. Á Lambastaði er fyrst minnst í rituðum heimildum um 1500 en Ólafur telur þó að bærinn sé mjög gamall. Ástæðan er sú að Neskirkja átti engan hlut í jörðinni. Ólafur telur nafnið einnig benda til hás aldurs því að mannsnafnið Lambi sé ekki þekkt eftir lok sögualdar. Með þessum rökum heldur hann því fram að Lambastaðir séu næstelsta býlið í Nessókn og hafi byggst á 10. eða snemma á 11. öld. Við þessa röksemdafærslu Ólafs er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi má segja að hafi Lambastaðir verið fyrsta jörðin sem byggðist úr landi Ness megi ætla að Þvergarður hafi verið byggður til að marka landamerki þessara tveggja jarða mjög snemma. Samkvæmt því hlyti Eiði að vera byggt úr landi Lambastaða en þá er erfitt að skýra hvers vegna Neskirkja átti þriðjung úr landi Eiðis. Í öðru lagi má benda á að þau rök Ólafs sem snúa að bæjarnafninu Lambastaðir eru mjög veik og kemur þar tvennt til.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – herforningjaráðskort frá 1908.

Rannsóknir á bæjarnöfnum hafa sýnt að oftast má ætla að bæir sem bera einkvæð náttúrunöfn séu að jafnaði eldri en þeir bæir sem bera mannanöfn og endinguna “staðir”. Samkvæmt því má ætla að landnámsbær innnessins sé Eiði fremur en Lambastaðir. Hins vegar má benda á að e.t.v. er líklegra að Lambastaðir séu kenndir við lömb fremur en mannsnafnið Lambi. Björn Teitsson hefur sett fram þá tilgátu að Lambastaðir hafi byggst upp á rústum lambhúss, líklega á 14. eða 15. öld. Björn gerir þó enga tilraun til að skýra hvers vegna kirkjan átti ekki hlut í Lambastöðum líkt og í hinum hjáleigunum þremur.
Ef litið er á örnefni lögbýlanna á Seltjarnarnesi má sjá að auk Ness eru tveir bæir sem bera náttúrunöfn og samkvæmt örnefnakenningu mætti ætla að þeir væru eldri en hinir sem bera samsett heiti. Þetta eru Bakki og Eiði.25 Bæjarheitið Bygggarður bendir til að þar hafi verið garður um byggrækt áður en jörðin byggist upp en athygli vekur að af þeim jörðum sem hafa byggst upp á Seltjarnarnesi á eftir Nesi er Bygggarður hæst metin eða á 30 hdr og gæti það bent til að jörðin sé á meðal elstu bæja þó rétt sé að ítreka að munurinn á dýrleika er ekki mikil. Það sem einna helst styður kenningu Ólafs um háan aldur Lambastaða, auk kirkjumáldagans, eru selstöður nessins. Aðeins tvö býli á nesinu, höfuðbýlið Nes og Lambastaðir, áttu selstöðu svo vitað sé.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – AMS-kort.

Í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að Lambastaðir áttu selstöðu undir Selfjalli en Nes í Seljadal. Önnur býli á nesinu áttu ekki sérstakrar selstöður í upphafi 18. aldar og má vera að þannig hafi það alltaf verið. Þetta mætti auðveldlega túlka í þá átt að ítök Lambastaða hafi verið meiri en hinna býlanna á nesinu og jörðin þá elst á eftir Nesi.
Að samanlögðu er erfitt að fullyrða nokkuð um hvaða býli byggðist fyrst á eftir Nesi. Margar vísbendingar benda til að Eiði, Bygggarður og Bakki byggist fljótlega upp, líklega strax á 10. öld eða á fyrri hluta þeirrar 11. Hvort mögulegt er að Lambastaðir hafi byggst upp á undan býlunum þremur skal ósagt látið. Hvað sem segja má um nákvæman byggingatíma býlanna er ljóst að á 14. -15. öld eru greinilega auk Ness, að minnsta kosti fjögur býli í Nessókn.
Þegar skoðaðar eru þær upplýsingar sem tiltækar eru um byggð á Seltjarnarnesi fram að siðaskiptum vekur athygli að ekkert bænhús er í sókninni þó að algengt hafi verið að bænhús væru á öðru til þriðja hverju lögbýli frá fyrstu öldum. Þetta bænhúsaleysi má e.t.v. að hluta skýra með smæð sóknarinnar en ekki er ólíklegt að yfirburðir Ness í dýrleika, landgæðum og stærð spili einnig inni í og Nes hafi einfaldlega frá upphafi borið höfuð og herðar svo langt yfir aðra bæi í sókninni að ekkert hinna lögbýlanna hafi nokkru sinni náð valdastöðu innan hreppsins.

Seltjarnarnes

Nesstofa 1915.

Síðla á 15. öld eða snemma á þeirri 16. eignaðist Skálholtsstóll Nes en um siðaskipti (miðja 16. öld) lét stóllinn Nes og Eiði, sem þá var greinilega orðin sjálfstæð jörð, af hendi til konungs í skiptum fyrir aðrar jarðir.
Talið er Mýrarhús hafi verið byggð um 1600 en býlið varð lögbýli um 1700. Í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að í Nessókn voru samtals 37 bústaðir og 158 íbúar 1703. Af þessum 37 bústöðum voru sjö lögbýli, 19 hjáleigur en fjórir bústaðir af öðrum toga (tómthús, húsmennskubýli o.s.frv.). Flestar af hjáleigum og tómthúsum á Seltjarnarnesi voru nafngreindar en Ólafur giskar á að þau býli sem höfðu nafn hafi verið eldri en þau sem ekkert höfðu. Flestra nafngreindu býlanna er getið í fyrsta sinn í Jarðabók Árna og Páls og því erfitt að rekja sögu þeirra lengra aftur. Ólafur gerir þó tilraun til að ráða í heiti þeirra og geta sér þannig til um tilurð þeirra og byggingartíma. Hann telur ekki ástæðu til að ætla að nokkur hjáleiganna sé eldri en frá 14. öld.
Þegar jarðabókin er gerð 1703 var engin jörð á Seltjarnarnesi bændaeign. Bakki og Bygggarður voru kirkjueignir en aðrar jarðir voru eign konungs. Eignarhald á flestum jörðum á Seltjarnarnesi hafi því færst frá bændum, sem virðast hafa átt meirihluta jarða á Seltjarnarnesi á 15. öld yfir á Skálholt og Viðeyjarklaustur, og síðar yfir til konungs.

Seltjarnarnes

Nesstofa 1969.

Árið 1703 tilheyrðu lögbýlunum sjö á Seltjarnarnesi 19 hjáleigur. Langflestar hjáleigur tilheyrðu Nesi, enda sjást yfirburðir þess gagnvart öðrum býlum á svæðinu á dýrleika seint á 17. öld, en þá var Nes dýrari jörð en öll önnur lögbýli í sókninni samanlagt. Að samanlögðu taldi Ólafur að helstu drættir byggðasögu Seltjarnarness væru ljósir þó að ritheimildir um svæðið væru heldur fátæklegar fram til 1400-1500. Hann segir ljóst að Reykjavík sé landnámsjörð alls hins forna Seltjarnarness en fljótlega eftir landnám hafi Nes byggst. Fram til loka 10. aldar telur Ólafur að Reykjavík hafa borið höfuð og herðar yfir Nes en hann telur Nes hafa náð undirtökum á svæðinu á 11. öld. Ástæður þess eru óljósar en þó telur Ólafur líklegast að 3-4 jarðir hafi á þeim tíma þegar verið byggðar út frá Reykjavík og það hafi þrengt að höfuðbólinu. Hann virðist telja hjáleigubyggð hefjast fyrir alvöru nokkru síðar í Nessókn sökum þess að þær hljóti að byggjast nokkru eftir að kirkjunni í Nesi var gefinn þriðjungur af landinu þar. Þessi röksemdafærsla er því höfuðatriði í umfjöllun Ólafs en ýmislegt hefur komið í ljós á síðustu áratugum sem gerir það að verkum að hana má draga í efa. Forn merkjagarður á Valhúsahæð bendir til byrjað hafi verið að skipta upp landi Ness fremur snemma.

Seltjarnarnes

Nesstofa 1982.

Þrátt fyrir að hjáleigubyggð yrði blómleg í Nessókn eins og í Reykjavík og e.t.v. á sama skeiði (ólíkt því sem Ólafur hélt fram) virðist Nes halda stöðu sinni sem höfuðból svæðisins allt fram á 18. öld þegar þéttbýlismyndun hefst í Reykjavík. Hvort sem Nesbóndinn skipti landi sínu niður af meiri kostgæfni eða að landkostir á nesinu voru einfaldlega betri til ábúðar þegar fram liðu stundir skal ósagt látið. Eftir stendur að Nesbændur ná til sín völdum og áhrifum á fyrstu öldunum eftir landnám og halda hlutverki sínu sem höfuðból Seltjarnarness hins forna allt fram til 18. aldar.
Þéttbýlismyndun hófst ekki fyrir alvöru á Nesi fyrr en eftir síðari heimstyrjöldina en hún átti sér þó talsverðan aðdraganda. Þegar jarðabók Árna og Páls var gerð [1703] voru 37 heimili á Seltjarnarnesi og 158 íbúar. Öll lögbýlin nema Nes og drjúgur hluti hjáleiganna voru mjög nærri sjó og þau býli sem stofnuð voru á 18., 19. og fram eftir 20. öld voru flest alveg við sjávarmál. Greinilegt er að nálægð við sjó var höfuðatriði sem haft var í huga við staðsetningu býlanna. Heimilunum á Seltjarnarnesi virðist hafa fækkað talsvert á 18. öld og í upphafi 19. aldar voru þau 20 talsins en íbúatalan hélst óbreytt. Ekki er að sjá miklar breytingar á íbúafjölda eða fjölda bústaða á nesinu á 19. öld en um 1900 hafði heimilum á nesinu aftur fjölgað og voru þau þá 35. Í kringum aldamótin 1900 var mikil útgerð stunduð frá Seltjarnarnesi en skútuútgerð lauk á fyrsta áratug 20. aldar og komu þar ýmsar ástæður til s.s. hafnleysi og aðstöðuleysi í landi.

Seltjarnarnes

Mýrarhús og Pálsbær.

Allt fram til 1925 voru flestir bústaðirnir reistir á gömlu hjáleigu- og tómthússtæðunum. Eftir 1925 hefst hinsvegar íbúðabyggð á Seltjarnarnesi á landi sem áður hafði verið nýtt til slægna og beitar. Eins og algengt er var sú þéttbýlisbyggð sem fyrst reis á Seltjarnarnesi blanda af bæjar- og sveitarmenningu. Húsin voru byggð við götur en útihús voru gjarnan á baklóðum og víða var sjósókn stunduð samhliða smávægilegum búskap.
Þéttbýlismyndun á Seltjarnarnesi hófst austast á nesinu og fyrsta jörðin sem formlega var skipt undir íbúðahúsabyggð var Lambastaðir. Á árunum 1930-1940 reis þar íbúðarhúsahverfi. Á vestanverðu nesinu reis fyrst þéttbýli við götuna Tryggvastaðabraut, sem síðar var breytt í Lindarbraut. Byggðin sem þar reis var í upphafi sumarhús en mörgum þeirra var fljótlega breytt í heildsársbústaði.
Frá upphafi byggðar á Seltjarnarnesi og fram yfir aldamótin 1900 var þungamiðja nessins á Framnesinu, í höfuðbólinu Nesi og hjáleigum hennar. Á árunum 1914-1939 var rekið útgerðarfélag í Melshúsum og voru umsvif í kringum það mikil. Líklega hafa þau umsvif átt sinn þátt í því að byggðamynstur á svæðinu tók að breytast eins mikið og raunin var og þungamiðja nessins að færast austur.
Seltjarnarnes
Í síðari heimstyrjöldinni voru umsvif hersins mikil á Seltjarnarnesi. Mest voru þar 4-5 braggahverfi; á og við Valhúsahæð þar sem lang stærsta braggahverfið (Grotta Camp) reis ásamt miklum eftirlits- og varnarstöðvum, í Suðurnesi og í Bollagörðum (RN Fixed Defence Statio) þar sem einnig voru eftirlitsstöðvar, hjá Hæðarenda (Boulogne Camp) og við Sæból (Sabol Camp) í Lambastaðahverfi. Ólíkt því sem víða gerðist í þéttbýli hér á landi í stríðslok myndaðist ekki íslenskt braggahverfi á Seltjarnarnesi. Ástæðan var sú að hreppsnefnd krafðist þess að braggarnir væru rifnir og fjarlægðir. Eina undantekningin frá þessu voru braggar í Hæðarenda sem þá tilheyrði Reykjavík. Þar var braggabyggð allt til 1970.
Hinn nýi Seltjarnarneshreppur varð formlega til í ársbyrjun 1948. Íbúar í honum voru um 500 og flestir þeirra bjuggu í Lambastaðahverfi þó einnig væri allþétt búseta á vestanverðu nesinu. Árið 1974 fékk Seltjarnarnes kaupstaðarréttindi og voru íbúar þá tæplega 2500, flestir í Stranda-, Nes- og Melhúsahverfi. Á síðustu þrjátíu árum hefur íbúatalan næstum tvöfaldast og byggð er nú þétt á öllu nesinu austan Ness.“

Lambastaðir

Seltjarnarnes

Lambastaðir – túnakort 1916.

Á jörðina er fyrst minnst um 1500 í skrá um landamerki milli Víkr á Seltjarnarnesi (Reykjavíkr), Örfæriseyjar, Eiðs og Lambastaða. Skrifað um 1570 (Bessastaðabók). Þar segir: „þadann og vestur j griot gard firir svnnann eidz tiornn og ofan þar sem gardvrinn geingvr sydvr j sio firir avstan lambastadi“ DI VII 458.
Þann 10. mars 1553 er minnst á Lambastaði í staðfestingarbréfi Kristjáns konungs þriðja á veitingu þeirra jarða er Páll Hvítfeldr hafði lagt skólameistaranum í Skálholti. Þar segir: „Wii , Christiann etc. giiöre alle witherligt. att eptherthij oss elskelige Pouell Huitfeld. wor mannd oc thiennere. haffuer epther wor beffalling vdlaugd thette eptherschreffne goedtzs. paa vort lannd Islannd liggenndis. til scholemesters wnderhollning til Schalotzs(!) domkyrcke…. Lampestadom iiij köer.“ DI XII 524.

Seltjarnarnes

Lambastaðir 1910.

3. júlí 1556 eru Lambastaðir meðal þeirra jarða sem færast úr eignarhaldi Skálholtsstóls og yfir til konungs í skiptum fyrir Bjarnanesjarðir sbr. „sub Anno gratiæ 1556. faustudaginn næstan eptter visitatio Mariæ j Skalholltti. vorum vier j hia saum og heyrdum aa ad Knut Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonsson. huer þa var settur af kongligu valldi yfer Skalholltt og Skalholltzsticktti til ad stiorna og regera heilax religionis vegna. ad eptter þui konunglig Maiestatis jinnsigludu brieffui sem vpp var lesid a alþingi. ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a Seltiarnarnesi og Alttanesi. hueriar ad voru j þad mund atta ad taulu hueriar ad suo heita. Nes. skilldinganes. Eidi. Lambastader. Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins med kugilldum og árligri afgiptt.“ DI XIII 139.

Lambastaðasel

Lambastaðasel.

1703: Dýrleiki óviss, konungseign. „Munnmæli eru að af þessari jörð sje til forna, so em hjáleiga, bygð jörðin Hrólfsskáli, en sann á því vita menn ekki,“ JÁM III, 235. Hjáleigur 1703: Tjarnarhús, Melshús og voru þá báðar í byggð. Afbýli 1916: Melshús, Melstaður, Sanitas og Vegamót. Í Seltirningabók segir (bls. 103): „Um 1865 var jörðin seld undan Lambastöðum og hún þá talin vera 5 hundruð eða fjórðungur af verði heimajarðarinnar.“

Hrólfsskáli

Seltjarnarnes

Hrólfsskáli – túnakort 1916.

1703: Konungseign.
Jarðarinnar fyrst getið í jarðabók frá um 1584. Þá kemur fram að konugur seldi Hrólfsskála og Lambstaði fyrir þriðjung í Reykjavík. Í Jarðabókinni er Hrólfsskáli „hálfbýli kallað, því það hefur ekki fyrirsvar haft nema að helmingi mót lögbýlisjörðum inn til tveggja næstliðinna ára. Jarðadýrleiki er óviss.“ „Munnmæli eru að af þessari jörð [Lambastöðum] sje til forna, so em hjáleiga, bygð jörðin Hrólfsskáli, en sann á því vita menn ekki,“ JÁM III, 235-6
1703: „Túnin brýtur og fordjarfar sjáfargángur, so að ei er húsum óhætt. Engjar eru öngvar. Útigángur enginn og haglaust um sumur.“ JÁM III, 237.
1916: Tún austara býlis 3,2 teigar, garðar 2300m2. Tún á vestara býli 2,8 teigar, garðar 1700m2. „Túnið allt sléttað, nema mýrlendi bletturinn og litlar blettir stórgrýttir. Utantúns kálg. stór og túnblettur lítill – talinn með.“ Túnakort 1916.

Bakki

Seltjarnarnes

Bakkakot – Bakki og Bakkakot.

1703: „Backe, bygð í óskiftu heimalandi ness á Seltjarnarnesi og nú lögbýli kallað. Jarðardýrleiki er óviss.“ JÁM III, 238. Neskirkjueign.
1397: Neskirkja á: „Þridiunginn i Heimalandi … Eidzlandi. Backa oc Byggardi.“ (DI IV 108-109) Sjálfstæð jörð a.m.k. frá 14. öld en átti óskipt land með Nesi og taldist hjáleiga þaðan í jarðab. 1760. Á Bakka er aftur minnst í Gíslamáldaga um Nes 1575. Þar er aftur sagt að kirkjan í Nesi eigi þriðjung af heimalandi Bakka með rekum, skógum og afréttum (sbr. DI XV, 637).

Nes við Seltjörn

Seltjarnarnes

Nes, Knútborg nyrðri, Knúborg syðri og Litlibær – túnakort 1916.

120 hdr. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII, 9.
Í máldaga Þorlákskirkju á Skeggjastöðum á Ströndum frá 1367 er minnst á Neskirkju: „Nesia sysla lix. Nichulas kirkia a seltiarnarnese a sex manna messuklæde. allt annad suo sem Vilchinsbok jnne helldur“ Hítardalsbók DI III, 220. Á Neskirkju er einnig minnst 1379 í máldaga Jónskirkju í Vík (Reykjavík). Þar segir „Jonskirkia j vik aa land alltt at seli. landsælding og selalatur j erfærisey. sælding j akvrey. rekann allann a kirkivsandi. fiordvng reka j mots vid nes. eyngey og lavgarnes. vtan seltiornn og lavgarlæk.“ DI III 340.
Til er máldagi Neskirkju frá 1397. Þar segir: „Nichulaskirkia i Seltiarnarnesi a: fiordung veida j Ellidaaum. þridiunginn i Heimalanndi med rekumm skogumm oc afriettumm. Eidzlandi. Backa oc Byggardi. Half Krossvyk ad vidreka. Herkistader ad vidreka ollumm. Arland nedra. Þar skal vera prestur oc diakn,“ Máld. DI IV 108-109.
Seltjarnarnes
Frá árinu 1546 hefur varðveist bréf í fornbréfasafni um Neskirkju. Þar segir: „Eingeyar maldage Kirkian ä fiordung j öllum reka millum fossvogslækiar utan ad kirkiusande. og j seltiörn.“ DI VII 52.
Árið 1546 kemur fram í Fornbréfasafni að Gizur biskup byggir Eyjólfi bónda P(áls)syni jörð dómkirkjunnar Nes á Seltjarnarnesi um þrenna tólf mánuði, með þeim greinum, er bréfið hermir. DI XI 527.
3. júlí 1556 er Nes meðal þeirra jarða sem færast úr eignarhaldi Skálholtsstóls og yfir til konungsí skiptum fyrir Bjarnanesjarðir sbr. „sub Anno gratiæ 1556. faustudaginn næstan eptter visitatio Mariæ j Skalholltti. vorum vier j hia saum og heyrdum aa ad Knut Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonsson. huer þa var settur af kongligu valldi yfer Skalholltt og Skalholltzsticktti til ad stiorna og regera heilax religionis vegna. ad eptter þui konunglig Maiestatis jinnsigludu brieffui sem vpp var lesid a alþingi. ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a Seltiarnarnesi og Alttanesi. hueriar ad voru j þad mund atta ad taulu hueriar ad suo heita. Nes. skilldinganes. Eidi. Lambastader. Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins med kugilldum og árligri afgiptt.“ DI XIII 139.
1575: „Kirkian ad Nese ä Seltiarnarnese. a Thriðiung i heimalande. med [rekum. Skögum. afrettum. Eijdzlandj Backa og Bijggarde. Hälf Krossavijk ad vidreka. Herkestader ad vidreka øllum. Arland nedra. Jtem fiordung veidar i Ellida Äm.“ Gíslamáldagar DI XV 637.

Seltjarnarnes

Nesstofa – Esja í bakgrunni.

26.5.1797: Neskirkja aflögð; (PP, 110) [konungsbréf]. Bændaeign þar til 1397-1546, Þá Skálholtsstólseign en 1556 varð hún konungseign. Kirkjan í Nesi átti upphaflega þriðjung í heimalandi, Bakka, Bygggarði, Eiði og Árlandi [síðar Ártún] en hlutur hennar í heimalandi, Eiði og Árland voru tekin undan en 2/3 af Bakka og Bygggarði voru látin í staðinn og töldust þær kirkjujarðir að öllu frá því á 16. öld. Bakki og Bygggarður höfðu óskipt land við Nes fram á þessa öld. Nesjörðinni hafa upphaflega fylgt skógar og afréttir og mögulega selstaða þar sem heitir Nessel. Grótta var hjáleiga, fyrst getið 1547-52. Bakki talin hjáleiga í jarðab. 1760.
1703 voru Nýibær, Jónshús, Gesthús, Þýskhús, Smiðshús, Móakot, Kot og Ráðagerði hjáleigur en heima við bæinn voru Bakrangur, Norðurbær, Jakobshús, Dugguhús og 1 ónafngr. tómthús. Seinna byggðust Knútsborg, Litlibær, Nýlenda og Bollagarðar og vel er hugsanlegt að þau hafi öll byggst upp á gömlum – bæjarstæðum eins og Jónshúss, Þýskhúss, Smiðshúss og Kots en staðsetning þessara býla er annars týnd. Nesi tilheyrði Akurey en í jarðab. 1803 er þar talin dúntekja og heyskapur. Nes var landlæknissetur frá 1760 til 1834.

Seltjarnarnes

Nesstofa.

Minnst er á Hafur-Björn sem bjó í Nesi í sambandi við landnám Ásbjörns Össurarsonar milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns í Landnámabók (H353) bls 395 ÍF I. Bærinn Nes virðist á fyrstu öldum jöfnum höndum nefndur Nes og Seltjarnarnes. Á Seltjarnarnes er minnst í nokkrum biskupasögum og Sturlungu en oft erfitt að skera úr um hvort átt er við allt Seltjarnarnes eða bæinn Nes þótt það síðarnefnda virðist oftar raunin. Seltjarnarnes er nefnt í Sturlungu (I. bindi, 184. kafla, bls. 253). Þar getur um atburði sem áttu að gerast 1216: „En um vorið um stefnudaga fór Snorri suður á Seltjarnarnes og hafði tvær ferjur af Akranesi og fjóra tigu manna á hvorri. Þeir létu fáa eina sjá er þeir fóru suður að nesinu“.

Nessel

Nessel.

Af heimildum að dæma hefur Nes snemma verið ein af bestu jörðum landsins sbr.: „[1226]: Máldagi settr á alþíngi, um osttoll til Viðeyjar klaustrs af Kjalarnes þíngi. (Vottar að þessum máldaga voru m.a.:) Styrkár Sveinbjarnarson var merkr bóndi í Kjalarness þíngi; hans ætt er talin í Landnámab. v, 14 : Ísl. s. I, 320, og var hann kominn af ætt Íngólfs landnámsmanns; sonr hans var Hafrbjörn í Seltjarnarnesi, sem hafði mest bú og bezta hýbýla skipan á Íslandi af bændum í sinni tíð (Árna bisk. s. kap. 26) DI I 495. Á Nes er minnist í víða í biskupasögu Árna biskup.
1280: „Nú því at hann [Árni biskup]rýmði fyrir herra Ásgrími fór hann heim í Skálaholt ok var þar stundum en stundum í Seltjarnarnesi ok með honum Ellisif Þorgeirsdóttir ór Holti, þess er fyrr er nefndr.“ Biskupasögur III, Árna Saga 58. kap. bls 83.

Seltjarnarnes

Nesstofa.

1280-1281: „Þann vetr var herra Loðinn ok með sveina sína í Seltjarnarnesi með fyrrnefndum Hafrbirni ok veitti hann allstórmannliga ok vóru þá kyrr ein tíðindi. Ok er vár kom fóru þeir Jón lögmaðr þann hlutalands sem ófarinn var um haustit, ok er dró at þingi bjogguz menn til ferðarinnar hverraf sínum heruðum. Herra Árni byskup reið ok til þings ok með honum mart lærðra manna en herra Loðinn ok allir handgengnir menn með honum.“ Biskupasögur III, Árna Saga 62. kap. bls 86. (Svipaður texti er einnig í Sturlungasögu II í köflum 43 og 45 bls 810-811).
1550: Jtem komer Ion Grönlandt till en iiij manefar paa Seltenes wthen formandskop oc er her till skepet j tonde mell oc j tonde sijre oc mijn frj mand her Semen Gislessen fro Tolleüer Grimsen.
Fógetareikningar DI XII 184 Seltjarnarnes einnig nefnt í fógetareikningum árið 1548 DI XII 12.
16. apríl 1556: Erindisbréf Knúts hirðstjóra Steinssonar B. Á íslenzku. 8. Vm skipte a Alfftaness jordum. J attunda mata hefur Kong May. befalad Knute Steinssyne. ad taca til sijn allar þær jardir sem liggja ä Alfftanese og Seltiarnarnese er Skalhollt[s] stikte til heyrer. þo skal hann vtleggia aptur til jafnadar virdingar stiktinu so margar jardir og mikla rentu aff þeim sem vndir krununa liggia. Og Bæde j þessu sem odru leite Knutur Steinsson [kong maiestets gagnsemdar [og goda. epter hans fremstu magt og formegan. DI XIII 109 1916 er tvíbýli á bænum. Tún austara býlisins 4,96 teigar auk 0,5 teiga í Einingu. Tún vestara býlis voru 7,98 teigar, 0,57 teigar í útgræðslu auk 0,6 teiga í Einingu. Garðar austara býlis voru 380 m2 heima en 970 m2 norður við sjó. Garðar vestara býlis 1040 m2, norður við sjó 1390m2.

Grótta

Seltjarnarnes

Grótta – túnakort 1916.

Hjáleiga frá Nesi. Fyrst getið 1547-1548 í Leigna, landskylda og skreiðargjaldsreikningr Kristjáns skrifara af konungsjörðum. Þar segir: „Item met Lambage v legekiör. landskyldt xv öre. ij lege vj förenger smör dt. her er ij foder en ij ar gamell nödt oc iiij lamb oc aff foder en 3 ar gamell nöd oc iiij lam oc ij landskyldt j ar gamlle quege for xl alner oc j thönde öll for xx allner oc fich Thume v öre ij formandskop for en sexereng ij Gröthen“ DI XII 111-112. Einnig er minnst á Gróttu í fógetareikningum árin 1548: DI XII 130, 1548-1549: DI XII 138, 1549-1550: DI XII 153, 1550: DI XII 184, 1552: DI XII 413, 421, 424 og var þá útræði þaðan.

Seltjarnarnes

Grótta 1961.

Þótti með betri jörðum á Nesinu á 18. öld en spilltist af flóðum, sennilega Básendaflóðinu 1799 og var í eyði um skeið á fyrri hluta 19. aldar. Fyrir flóðið mun bærinn hafa staðið á breiðu nesi.
1703: „Tún hjáleigunnar brýtur til stórskaða sjávarágángur. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 244.
1916: Tún 1,5 teigar, allt slétt. Garðar 740m2. „Túnið alt er umgirt sjógarði er sjór fellur að í miklum flóðum, helst að n.a. a. og s. Klappir og grjót hlífir vestur hliðinni og s.v. Gengin er grandi til lands um fjöru …“ Túnakort 1916.

Bygggarður

Seltjarnarnes

Bygggarður – túnakort 1916.

Neskirkjueign. Sjálfstæð bújörð a.m.k. frá 14. öld. Fyrir 16. öld átti Neskirkja aðeins þriðjung í Bygggarði eins og heimalandinu. Útjörð Bygggarðs var óskipt með Nesi fram á þessa öld og hefur jörðin því byggst úr Neslandi.
1397: Neskirkja á: „Þridiunginn i Heimalanndi … Eidzlandi. Backa oc Byggardi.“ (DI IV 108-109). Í hlutabók Kristjáns skrifara frá 1548 segir eftirfarandi: Jtem en lod paa en sexering bijgardhen (sbr. DI XII 130). Jörðin er einnig talin upp í Hlutabók Eggerts hirðsstjóra Hannessonar frá 1552-1553, en þar segir: „Jtem komer Byerne Raffensön tiill en vjeringh ij Biggaaren. Jtem sende iegh tiill en sexeringh ij Byggaren j tonde miell. Jtem sende iegh tiill en vjeringh ij Byggaren j tonde syre (sbr. DI XII 570, 581, 585).

Seltjarnarnes

Bygggarðar 1963.

1703 voru 4 ónafngreindar hjáleigur með Bygggarði. Í Seltirningabók segir: „Örnefnið bendir til kornræktar en ekkert er nánar um það vitað. Jörðin komst öll í eigu Neskirkju og eftir að hún var lögð niður, lenti Bygggarður í eigu Dómkirkjunnar í Reykjavík. Ábúð var á jörðinni um tíma eftir 1840 boðin upp og voru þá ábúendur þar fremur skamman tíma hver. Eftir að Nessöfnuður var stofnaður, fékk hann jörðina og loks keypti Seltjarnarneshreppur hana. Var landi hennar þá úthlutað undir iðnaðarsvæði.“ Seltirningabók, 152.
Jörðin fór illa út úr Básendaveðrinu 1799 og er talið að búskaparskilyrði hafi versnað eftir það.
1703: „Túnin brýtur sjávargángur skaðlega, so að ei er görðum nje heyjum óhætt. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 247. 1916: Tún 2,7 teigar heima, 0,2 teigar í Eining. Garðar 600 m2.

Mýrarhús

Seltjarnarnes

Mýrarhús – túnakort 1916.

Dýrleiki óviss 1703, konungseign. „Mýrarhúsa er fyrst getið í jarðabók frá árunum 1633-34,“ segir í Seltirningabók (bls. 157). Mýrarhús eru 1703 talin hálflenda; þau eru byggð úr stekk frá Eiði um 1600. Ö-Seltjarnarnes AG, 4.
Á 18. öld bjó Þórður Einarsson í Mýrarhúsum og var Þórður afkastamikill skipasmiður svo að höfundur Seltirningabókar ályktar að á seinni hluta 18. aldar hafi verið eins konar skipasmíðastöð í Mýrarhúsum (bls. 159.)
1703: „Túnin brýtur sjávargángur. Engjar eru öngvar. Útihagar næsta því öngvir.“ JÁM III, 250. 1916: Tún 1,67 teigar, allt sléttað nema grjót og malarblettir, engin garður.

Eiði

Seltjarnarnes

Eiði – túnakort 1916.

1703: Dýrleiki óviss, konungseign.
1397 á Neskirkja: „Þridiunginn i Heimalanndi … Eidzlandi. Backa oc Byggardi.“ (DI IV 108-109). Þann 10. mars 1553 er minnst á Eiði í staðfestingarbréfi Kristjáns konungs þriðja á veitingu þeirra jarða er Páll Hvítfeldr hafði lagt skólameistaranum í Skálholti. Þar segir: „Wii , Christiann etc. giiöre alle witherligt. att eptherthij oss elskelige Pouell Huitfeld. wor mannd oc thiennere. haffuer epther wor beffalling vdlaugd thette eptherschreffne goedtzs. paa vort lannd Islannd liggenndis. til scholemesters wnderhollning til Schalotzs(!) domkyrcke….. Eyde ij köer.“ DI XII 524.

Seltjarnarnes

Eiði.

3. júlí 1556 er Eiði meðal þeirra jarða sem færast úr eignarhaldi Skálholtsstóls og yfir til konungsí skiptum fyrir Bjarnanesjarðir sbr. „sub Anno gratiæ 1556. faustudaginn næstan eptter visitatio Mariæ j Skalholltti. vorum vier j hia saum og heyrdum aa ad Knut Steinsson konunglig Maiestatis liensmann yfer Island giordi suoddan skiptti og byting vid herra Gijsla Jonsson. huer þa var settur af kongligu valldi yfer Skalholltt og Skalholltzsticktti til ad stiorna og regera heilax religionis vegna. ad eptter þui konunglig Maiestatis jinnsigludu brieffui sem vpp var lesid a alþingi. ad þær iarder sem Skalholltz domkirkia atti a Seltiarnarnesi og Alttanesi. hueriar ad voru j þad mund atta ad taulu hueriar ad suo heita. Nes. skilldinganes. Eidi. Lambastader. Eyuindarstader. Suidholltt. Skogtiaurn og Brecka. skylldu þessar iarder falla til kongdomsins med kugilldum og árligri afgiptt.“ DI XIII 139.
Árið 1575 kemur fram í Gíslamáldaga að kirkjan í Nesi eigi þriðjung af heimalandi Eiðis með rekum, skógum og afréttum (sbr. DI XV, 637).
1703: „Túnin brýtur sjór til stórmeina. Engjar eru öngvar. Hagar og útigangur í lakasta máta.“ JÁM III, 251.
1916: Tún 3 teigar, allt sléttað, garðar 274 m2.

Í skýrslu um „Fornleifarannsóknir við Bygggarðsvör á Seltjarnarnesi 2004“ segir af sjósókn Nesbúa:

Seltjarnarnes

Spil ofan við Bygggarðsvör 2002.

„Fáar minjar eru nú eftir um útgerð á Seltjarnarnesi. Sjóhús og naust eru horfin, en varir frá býlum má þó víða greina. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru þrjár verbúðir á jörðinni í Nesi reyndar nefndar með nafni, þ.e. Morastaðabúð, Hannesarbúð og Stórabúð í Suðurnesi, en þar fram undan má sjá móta fyrir vör á stórstraumsfjöru.
Ritaðar heimildir skortir að mestu um sjósókn Seltirninga þar til á 18. öld. Gera má þó ráð fyrir að þeir sem bjuggu á Seltjarnarnesi hafi stundað sjósókn allt frá landnámstíma.
Á 14. öld jókst útflutningur á fiski og jarðir við sjávarsíðuna sem höfðu útræði hækkuðu því í verði. Á 15. öld hófst baráttan milli Englendinga og Þjóðverja um fiskinn og á 16. öld komu þýskir kaupmenn sér upp bátum og gerðu út frá jörðum við Faxaflóa. Ætla má að þeir hafi rekið einhverja útgerð frá Seltjarnarnesi samanber nafnið á hjáleigunni Þýskhús, sem var í Nesi í upphafi 18. aldar.

Seltjarnarnes

Pálsbæjarvör.

Hér mætti skjóta inn almennt um mikilvægi fiskmetis fyrir afkomu þjóðarinnar á liðnum öldum eftirfarandi í Íslandslýsingu Odds Einarssonar Skálholtsbiskups frá því um 1590: “Næst á eftir mjólkurmat og kjöti af kvikfénaði er mikill hluti fæðu Íslendinga venjulegur fiskur. Er hann fyrst hertur nægilega í vindi og sól, þá barinn með lurkum eða fremur steinsleggjum, þar til hann er orðinn vel meyr og eftir það má svo á þörfum bera hann í ákveðnum skömmtum fyrir hvern einstakan, er að snæðingi situr og eta með smjöri sem brauðsígildi. Þessi fæða er talin hin heilnæmasta og eigi aðeins til að seðja hungrið, heldur og ágætlega til þess fallin að efla þrótt og fjör.” Þessi lýsing gildir einnig að mestu um mataræði allt frá landnámstíma, því þrátt fyrir akuryrkju framan af öldum, einkum byggrækt, kom harðfiskur að meira eða minna leyti í stað kornmatar að talið er.

Seltjarnarnes

Nýlenduvör.

Á 17. og 18. öld áttu útvegsbændur og leiguliðar á Seltjarnarnesi fjölda opinna skipa og þaðan voru einnig gerðir út svokallaðir konungsbátar. Fylgdi sú kvöð mörgum jörðum að ábúendur urðu að sjá um þessa konungsbáta svo lengi sem kóngsútgerð hélst, en Bessastaðavaldið hirti af þeim tekjur. Fjöldi vermanna safnaðist til Seltjarnarness á vertíðum. Meðal þeirra voru Borgfirðingar fjölmennir.
Við upphaf 19. aldar voru 25 býli í Seltjarnarneshreppi og af þeim voru öll nema 7 með einhverja skipaeign. Þessi áraskip voru smá, flest tveggja manna för. Upp úr miðri öldinni varð á þessu breyting. Farið var að gera út sexæringa og áttæringa og á þeim mátti sækja dýpra og fara lengra. Seltirningar fóru að stunda veiðar á miðum suður í Leiru og undan Vatnsleysuströnd. Ekki var þessi ágangur vel séður af Suðurnesjamönnum og risu af honum mótmælasamþykktir og málaferli. Af þessu að dæma hefur landinn löngum deilt um það hvernig fiskveiðiréttinum skuli hagað áður en landhelgin var útfærð stig af stigi í 200 mílur á liðinni öld og handhafar framkvæmdavaldsins komu á umdeildu fiskveiðikvótakerfi.

Seltjarnarnes

Nesvör.

Árið 1895 áttu Seltirningar um 40 opin skip en fimm árum síðar voru aðeins tvö eftir. Um 1885 fóru útvegsbændur á Seltjarnarnesi að taka sig saman um að kaupa þilskip eða skútur. Voru gjarnan tveir til þrír menn sem stóðu að hverju skipi. Fyrstu skipin voru skonnortur, 30-40 lestir að stærð. Upp úr 1895 var síðan farið að kaupa svokallaða kúttera frá Bretlandi, en þeir voru margir 80-100 lestir. Þó að skipin stækkuðu var ekki um breytingar að ræða á veiðunum. Áhöfnin á skútunum vann því ekki saman heldur dorgaði hver við sitt færi, enda netaveiðar ekki stundaðar almennt hér á landi fyrr en eftir aldamótin 1900. Fiskurinn var saltaður, fluttur heim á Nesið og þurrkaður þar og merki má m.a. sjá um það við Bygggarðsvörina og víðar á Seltjarnarnesi.
Árið 1904 náði skútuútgerð Seltirninga hámarki, og voru þá gerð út þaðan 10 þilskip. En það fór svipað með skútuútgerðina og útgerð opinna skipa, henni hrakaði furðufljótt. Árið 1909 var ekkert þilskip eftir og þegar kom fram á árin milli stríða stunduðu Seltirningar helst hrognkelsaveiði.“

Í yfirliti um „Skráðar minjar á Seltjarnarnesi“ er sagt frá Neskirkju og -kirkjugarði:

Seltjarnarnes

Nes.

„Kirkja/kirkjugarður suðaustan við Nesstofu. Rústir eru ekki sjáanlegar á yfirborði. Þegar grafið var fyrir hitaveituskurði að Nesstofu árið 1979 fundust þarna grafir og veggjarhleðslur sem taldar eru vera frá kirkjugarðinum, og var svæðið þá lauslega athugað af safnverði á Þjóðminjasafni. Leifar grjóthlaðins veggjar utan um matjurtagarð virðast geta verið framhald veggjarins sem fannst 1979. Árið 1994 kannaði Línuhönnun hf. svæðið með jarðsjá að frumkvæði Rótarýklúbbs Seltjarnarness. Niðurstöður mælinganna þykja benda til þess að tekist hafi að afmarka útlínur kirkjugarðsins að hluta, og finna líklega staðsetningu kirkjunnar.
Kirkju í Nesi er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar um 1200. Elsti máldagi hennar, sem þekktur er, er frá 1397. Talið er að þegar hann var gerður hafi kirkjan í Nesi verið úr torfi. Hún var þá auðug að jörðum. Árið 1642 er Neskirkja sögð “stæðileg að máttarviðum”; sú kirkja var líklega að mestu leyti úr torfi og grjóti. Árið 1675 var svonefnd Úlfhildarkirkja reist, vegleg kirkja úr torfi og með miklu tréverki. Lýsing á henni er talin geta bent til þess að hún hafi verið útbrotakirkja, en þær voru sjaldgæfar hér. Úlfhildarkirkja er sögð illa farin 1780, og 1785 var enn reist ný kirkja í Nesi, sú síðasta sem þar stóð. Það var glæsileg timburkirkja, en árið 1797 var helgi aflétt af henni og Seltirningum gert að sækja kirkju í Reykjavík. Neskirkja fauk í Bátsendaveðrinu 1799.

Seltjarnarnes

Bjarni Pálsson – minnismerki við Nesstofu.

Kirkjugarðurinn umhverfis Neskirkju er fyrst nefndur í vísitasíu frá 1758; menn voru greftraðir þar að minnsta kosti til 1813.“

Á Mbl.is, 17. júlí 1994, segir; „Síðasta kirkjan við Nesstofu á Seltjarnarnesi fauk í Bátsendaveðrinu árið 1799„:
„Morgunblaðið sagði nýlega frá því að kirkjustæðið hefði verið staðsett nokkuð nákvæmlega með jarðsjártæki, sem virkar eins og ratsjá nema hvað því er beint í jörðina. Það er því ekki úr vegi að grípa niður í árbók Jóns Espólins, þar sem fjallað er um Bátsendaveður. Frásögnin er í kafla, sem ber nafnið „Vetrarþúngi, vedr ok brim.“ Síðasta kirkjan við Nesstofu á Seltjarnarnesi fauk í Bátsendaveðrinu árið 1799: „Urdu því skadar hvervetna sem mestir máttu verda hér. Þá tók ofan at grundvelli kirkjuna at Nesi vid Seltjörn.“

Heimildir:
-Vikan 18.06.1987, Nesstofa – eitt elsta steinhús landsins, bls. 32-33.
-Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi, Fornleifastofnun Íslands 2006.
-Fornleifarannsóknir við Bygggarðsvör á Seltjarnarnesi 2004.
-Skráðar minjar á Seltjarnarnesi – http://www.seltjarnarnes.is/media/skipulag/Skradar-minjar.pdf
-Mbl.is, 17. júlí 1994 – Síðasta kirkjan við Nesstofu á Seltjarnarnesi fauk í Bátsendaveðrinu árið 1799 – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/146782/
-Beinafundur hjá Nesi við Seltjörn, Þjóðminjasafn Íslands 2000.

Seltjarnarnes

Grótta.

Helgusel

Í örnefnalýsingu Jóns Halldórssonar um Bringur segir m.a.:
„Bærinn stendur í suðvesturenda Bæjarholts. Suður og austur af bænum er hið upphaflega tún. Niður af því austanverðu eru pallar í Helgusel-221jarðlagið, sem eru síblautir og nefnast Dýjapallar. Þar hjá er Helluhóll. Niður af honum er Mýrdalur. Í framhaldi af honum er grasflötin Fossvöllur við Helgufoss, er sést frá bænum. Áin heitir Kaldakvísl og er á landamerkjum Hraðastaða og Bringna. Vestan við Mýrdal er Melhryggur. Næst við hann er Lautin. Vestar eru Eystri- og Vestri-Hvammur. Upp í austanverðum Eystri-Hvammi er lítill hvammur, er kallast Sætið. Við ána í Eystri-Hvammi er Hrafnaklettur, sem er standberg ármegin. Milli hvammanna er mjór hryggur, Huldufólksrani“.
Ágúst Ólafur Georgsson kom með svohljóðandi ábendingar við örnefnaskrána: „Klettur sá, sem er neðan við Helgufoss í Köldukvís, á móts við Bringur, sem oft er kallaður Helguklettur (m.a. af Magnúsi Grímssyni), segir Halldór Laxness alltaf hafa verið kallaðan Hrafnaklett af Bringufólkinu. Í Hrafnakletti var álfabyggð. Sagt var, að þar byggi huldukona. Kveðst Halldór hafa þetta eftir Jórunni Halldórsdóttur frá Bringum. Jórunn ku hafa haft einhver samskipti við huldukonu, sem þar bjó, snemma á þessari öld [síðustu öld]. Kveðst HKL hafa heyrt þetta, er hann var krakki, en annars ekki lagt sig neitt eftir slíku, er „óinteressant“ að hans mati.“
Helgusel-223Helgusel er niður undan Bringum, á bökkum Köldukvíslar, er rennur með Grímarsfelli. Tilgátur eru um það að örnefnið hafi breyst úr heilagt sel (var frá Mosfelli, kirkjustaðnum) í Helgusel. Gengið var að selinu að norðanverðu. Þá er komið beint niður að Hrafnakletti. Milli hans og hlíðarinnar eru líklegar rústir, þrjár að tölu, hlið við hlið. Sú nyrsta er lengst og virðast langveggir vera sveigðir. Syðri tóftirnar eru ógreinilegri og minni. Allar eru tóftir þessar orðnar nánast jarðlægar, en þó má sjá marka fyrir grjóti í veggjum. Stærsta tóftin virðst hafa verið stekkur.
Tóftir Helgusels, sem eru skammt austar, eru vel greinilegar, einkum fjárborg framan við selið. Norðaustur undir Helguhól (Hrafnakletti) sést móta fyrir hlaðinni kví. Austan hennar eru fyrrefndar þrjár tóftir. Sú nyrsta er lengst og stærst. Efst í henni er þvergarður er bendir til þess að þarna hafi verið stekkur. Hinar tvær virðast hafa verið kvíar og þá í tengslum við selið og stekkinn. Ef svo hefur verið þá styrkir það líkur á að um tvö selstæði hafi verið í Helguseli á sama tíma.
helgufoss-221Við Helgusel er upplýsingaskilti. Á því stendur m.a.: „Hér í svonefndum Helguhvammi eru rústir Helgusels. Landssvæðið og selið tilheyrðu prestsetrinu á Mosfelli á fyrri tíð og var selið notað á sumrin til að mjólka lambær og framleiða mjólkurafurðir, t.d. smjör og skyr.
Gömul munnmæli herma að Helgusel sé kennt við Helgu Bárðardóttur, en frá henni segir í Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga yfirgaf mannlegt samfélag og eigraði um landið eins og segir í sögunni: „Litlu síðar hvarf Helga þaðan í burt og fór víða um Ísland og festi hvergi yndi. Var hún og alls staðar með dul, en oftast fjarri mönnum. Fleiri örnefni tengjast Helgu á þessum slóðum, Helgufoss blasir við okkur og hér við ána er grjóthóll, sem heitir Helguhóll (einnig nefndur Hrafnaklettur). Þar á að vera Huldufólksbyggð og segir sagan að Helga Bárðardóttir hafi horfið í hólinn í elli sinni og ekki komið út síðan. Aðrir hafa hafnað þessum nafnaskýringum og telja að Helgusel merki upphaflega hið helga sel. Er sú kenning studd þeim rökum að selið hafi verið í eigu Mosfelsstaðar“.
Stöldrum við og skoðum framangreint aðeins nánar, ekki síst út frá Gunnlaugs sögu ormstungu. Nefndur Gunnlaugur var sonur Illuga, svarta, sonar Egils Skallagrímssonar. Helga var dóttir Þorsteins, hvíta, sonar Egils Skallagrímssonar, bróður Illuga. Þorsteinn bjó með föður sínum að Borg í Borgarfirði. Egill átti þá einnig Mosfell í Mosfellsdal, auk fleiri jarða. Egill var mikils metinn; enda þá bæði „mesta skáld Íslendinga“ og sá „Íslendingur, sem flesta útlendinga hafði drepið hér á landi“. Draumur hafði opinberast konu Egils. Hann var reyndar í svart/hvítu og á þessa leið: Svanur hafð tillt sér á bæjarburstina. Tveir ernir mættust þá yfir bænum, þeir börðust og svo fór að báðir féllu dauðir til jarðar. Að því búnu flaug svanurinn á brott með val er bar þar að.
helgusel - uppdrattur IIIGunnlaugur festi sér Helgu á næstu dægrum til kvonfangs í þrjá vetur meðan hann fór utan til að læra til skálds og víkings. Þetta var árið 993. Gunnlaugur ferðaðist m.a. til Noregs, Svíþjóðar og Englands; öðlaðist frægð og frama, auk gersema að launum. Hann hitti m.a. Hrafn Önundarson, sjálflært skáld. Tókust þeir á um athygli konungs Svíþjóðar – og tapaði Hrafn þeirri orrahríð. Fór hann heim til Íslands og bað Þorstein um að fá að „kaupa“ Helgu. Þorsteinn færðist undan og bað hann um að koma aftur að ári þar sem þriggja vetra biðtíma Gunnlaugs væri ekki enn lokið, sem og Hrafn gerði. Gunnlaugur tafðist í Englandi um ve
Eftir umleitan Hrafns að framangreindum tíma loknum fékk hann loks samþykki Þorsteins fyrir „kaup“ ástmögursins á Helgu, sem þá var talin fegursta kona Íslands – „og þótt víða væri leitað“.
Þau Hrafn og Helga fluttust, að loknu vetrarbrúðhlaupi þeirra, að Mosfelli. Helga réði öllum ráðum sínum af ráðdeild að Mosfelli – og nýtti m.a. hið fagra umhverfi til eigin ánægju sumarlangt til hins ýtrasta. Fór svo þó um veturinn á eftir að Helga ákvað að fara aftur ein að Borg í Borgarfirði til langdvalar, en Hrafn sat eftir að Mosfelli. Ástæðan var einfaldlega sú að Helga hafði enn ást á þeim er hafði unað henni í „hvamminum“ fyrrum. Margir þekkja síðan framhaldið; einvígi Hrafns og Gunnlaugs, síðasta „löglega“ einvíginu hér á landi, einvígi þeirra í framhaldi af því á landamærum Noregs og Svíþjóðar þar sem báðir létu lífið fyrir hvors annars falsatlögur. Í kjölfarið fylgdi giftusamband Helgu og Þorkels með fimm barna auðn og samstöðu um langa framtíð.
Af framangreindu er alls ekki svo ólíklegt að örnefnin „Helgufoss“, „Helgusel“ og „Helguhóll“ hafi verið nefnd miklu mun fremur til heiðurs framangreindri Helgu Þorsteinsdóttur, barnabarni Egils Skallagrímssonar, en sá hinn sami eyddi síðustu æviárum sínum á landaeign sinni að Mosfelli í Mosfellsdal (þar sem hann gróf að lokum silfursjóð þann er Egilssaga grundvallast á (og nú er táknmerki Mosfellsbæjar)).

Helgusel

Helgusel – Helgufoss ofar.

Minna-Mosfellssel

Hér verður lýst leifum tveggja selja: Litla-Mosfellssels og Hrísbrúarsels, en þau eru bæði norðan Mosfells, sunnan Leirvogsáar.

Litla-Mosfellssel
Litla-Mosfellssel-501„Stóra- og Litla-Sveinamýri eru neðarlega við Leirvogsá. Þar er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir. Selás er við Sveinamýrar“ (Ari Gíslason). Gróðurlítill ás á syðri bakka Leirvogsár, sem liggur ca. í A-V. Norðurhluti hans er allgrýttur og vaxinn mosa. Svæðið milli ássins og fjallsins er þýft mýrlendi (Ágúst Ó. Georgsson).
(I) Rústin stendur á lágum hól, sem sker sig nokkuð úr umhverfinu. Hóllinn er talsvert þýfður og grasi vaxinn. Norðan hans rennur Leirvogsá um 30-40 m í þá átt. Hóllinn er á mörkum graslendis og grýtts mosavaxins svæðis. Tóftin er um 2,5 x 4,5 m að innanmáli. Veggjaþykkt er 1-1,5 m. Hæð veggja er víðast um 0,4 m, nema NV-veggur, sem er um 0,7 m. Við NV-gafl á suðurlangvegg eru dyr en tóftin skiptist í tvo hluta.
Litla-Mosfellssel-503Magnús Grímsson, prestur á Mosfelli (d. 1865), segir að á þessum ás hafi staðið selrúst. Skrásetjari gekk um allan ásinn og víðar þarna í nágrenninu. Var þetta eina rústin, sem fannst á eða við ásinn. Kemur lýsing Magnúsar, hvað staðsetningu varðar, vel heim og saman. Hús þetta hefur byggt verið úr torfi og grjóti (Ágúst Ó. Georgsson). Einar Björnsson, Litla-Landi og Guðmundur Þorláksson, Seljabrekku, vissu um þessar rústir. Telja þeir, að um selrústir sé að ræða. Eru þær beint niður undan s.k. Gatkletti, sem er austan í Mosfelli og sést greinilega frá veginum sem liggur norðan við Leirvogsá. Ekki hafa þeir heyrt sagnir um, hvaða sel þetta hafi átt að vera.

Litla-Mosfellssel

Litla-Mosfellssel – uppdráttur ÓSÁ.

„Stóra- og Litla-Sveinamýri eru neðarlega við Leirvogsá. Þar er allmikið flæmi öðru nafni nefnt Selflatir. Selás er við Sveinamýrar“ (Ari Gíslason). Gróðurlítill ás á syðri bakka Leirvogsár, sem liggur ca í A-V. Norðurhluti hans er allgrýttur og mosavaxinn. Svæðið milli ássins og fjallsins er þýft mýrlendi (Ágúst Ó. Georgsson).
(II) Um 100 m SA við [123716-240-16] er annar hóll og á honum eru tvær rústir. Önnur rústin er án efa af kvíum. Er hún grafin niður í hólinn en veggir eru úr grjóti. Innanmál eru um 2 x 5 m. Fast við er hústóft og er hún staðsett þannig að bakgafl (suðurgafl) hefur þjónað sem aðrekstrarveggur. Innanmál eru um 2 x 3 m. Veggjaþykkt er ca 1 m og veggjahæð um 0,5 m og hæð ca. 0,7 m (dýpt).

Hrisbruarsel-501

Má láta sér detta í hug að húsið, sem fjær er, hafi verið íveruhús eða svefnskáli (Ágúst Ó. Georgsson). Rúst I [123716-240-16] og II virðast álíka gamlar að sjá. Þó svo langt sé á milli þeirra (um 100 m) má vel ætla að þær eigi saman. Um 100 m norðan við þessar rústir rennur Leirvogsá. Ekki skal fullyrt frá hvaða bæ sel þetta var notað, en líklega hefur það verið Mosfell (Ágúst Ó. Georgsson). Einar Björnsson, Litla-Landi og Guðmundur Þorláksson, Seljabrekku, vissu um þessar rústir. Telja þeir, að um selrústir sé að ræða. Eru þær beint niður undan s.k. Gatkletti, sem er austan í Mosfelli og sést greinilega frá veginum, sem liggur norðan við Leirvogsá. Ekki hafa þeir heyrt sagnir um, hvaða sel þetta hafi átt að vera.

Hrísbrúarsel
SvinaskardsvegurÍ heimild frá árinu 1704 segir: „Selstöðu á jörðin í heimalandi. Landþröng er ef ei er brúkuð selstaða“ (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 325-326). Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar er getið um sel: „Að norðanverðu meðfram frá merkjum heita fyrst Selflatir. Þær munu hafa tilheyrt selinu í gamla daga. Þetta eru fallegar flatir, af sumum nefndar Blómsturvelli“ (Ari Gíslason).
Lítil kvos, öll grasi vaxin og áberandi græn. Sker sig þannig vel frá umhverfinu. Hvammur þessi er um 30 m breiður. Hér er um eina rúst að ræða sem telja má nokkurn veginn örugga. Stærð hennar að innan er um 2 x 4 m. Dyr hafa verið á miðjum vestur langvegg. Tóft þessi er að hluta grafin inn í brekkuna, sem er á bakvið (austanvið). Veggir eru útflattir og breiðir. Hæðin er ca. 0,5 m en þykktin ca 1-2 m. Við hlið þessarar rústar að norðan mótar fyrir einhverju, sem verið gæti önnur tóft. Sé hér um tóft að ræða, hefur hún verið um 2 x 2-3 m að innanmáli. Þessi „tóft“ er samsíða fyrst töldu rústinni og hefur haft dyr móti vestri. Sunnan við fyrstnefnda rúst mótar ógreinilega fyrir einhverju, sem verið gæti tóft. Sé svo hefur hún verið að innanmáli um 2 x 2-3 m. Inngangur hefur að líkindum verið á móti vestri. Um 8 m vestan við síðasttöldu rúst er eitthvað. Hér gæti verið um einhver mannaverk að ræða. Þarna virðist hafa verið grafið ofan í brekku, sem hallar lítið eitt til norðurs. Stærð þessa er um 3,5 x 5 m, dýptin um 0,5 m, opin til norðurs, en fyrir framan opið er nokkurn veginn slétt flöt. Allar þessar rústir eru fornlegar að sjá. E.t.v. gætu þetta verið selsrústir frá Hrísbrú (sbr. skrá um menningarminjar bls. 65). Niðurgrafna tóftin hefur þá verið kvíar en hinar selið (Ágúst Ó. Georgsson).
Munnmæli: Guðmundur Þorláksson, bóndi Seljabrekku, sagði 25.7.1980:
Hrisbruarsel-502Við sunnanverða Leirvogsá, á móts við bæinn Gröf er holt eða hæð. Kveðst Guðmundur hafa séð einhverjar rústir þar. Líklega er um seljarústir að ræða en gæti þó verið stekkur. Skoðaði hann þetta ekkert nánar, heldur sá rústirnar úr fjarlægð. Á herforingjaráðskortinu danska er svæði þarna rétt hjá kallað Sveinamýri. Sagt er að svæðið sem rústirnar eru á kallist Selflatir. Ágúst Ó. Georgsson merkti Selflatir inn á ljósrit af 1:50000 korti, skv. tilsögn Guðmundar Skarphéðinssonar, bónda á Hrísbrú. Ber þeim Guðmundum saman um hvar Selflatir hafi verið. Rústin er sem sagt norðan við Mosfell (fjallið), nálægt ánni (Leirvogsá) og á móts við bæinn Gröf í Kjalarneshreppi.“
Leifar einnar selstöðu enn eru norðan Mosfells, líklega einnig forn selstaða frá Hrísbrú (sjá síðar).

Heimildir:
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ 2006.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner, Guðmundur Ólafsson, Ágúst Ó. Georgsson, Kristinn Magnússon og Bjarni F. Einarsson. Reykjavík 2006 – Þjóðminjasafn Íslands.

Heimildaskrá:
-Ari Gíslason. Minna-Mosfell. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ari Gíslason. Hrísbrú. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ó. Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbók 1604.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gefin út af hinu íslenzka fræðafélagi í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn 1923-1924.

Munnlegar heimildir:
-Einar Björnsson, bóndi Litla-Landi.
-Guðmundur Þorláksson, bóndi Seljabrekku.

Egilssaga

Safn til Sögu Íslands og ísl. bókmennta (athugas. við Egils Sögu) , bls. 272.

Kapella

Á miðöldum voru hátt á annað þúsund bænhús og kirkjur á Íslandi.

Kapellulág

Kapella í Kapellulág.

Elstu húsin eru frá seinni hluta víkingaaldar og hafa nokkur þeirra verið grafin upp, m.a. á Stöng í Þjórsárdal, Neðra Ási í Hjaltadal og Þórarinsstöðum í Seyðisfirði. Elstu húsin eru öll lítil, innanvið 5 m á lengd, og eru lítið frábrugðin yngri bænhúsum og smákirkjum sem grafnar hafa verið upp, t.d. á Varmá í Mosfellssveit og Kúabót í Álftaveri, eða standa enn, eins og bænhúsinu á Núpsstað. Það bænhús hefur verið varðveitt og er haldið við. Í sama stærðarflokki eru einnig vegakapellur frá miðöldum en tvær slíkar hafa verið grafnar upp, ein á Hraunssandi austan við Hraun ofan við Grindavík og önnur í Nýjahrauni (Kapelluhrauni) í Hafnarfirði, ofan við Straumsvík. Fyrrnefnda kapellan var grafin upp af Kristjáni Eldjárn o.fl. á sjötta áratug 20. aldar og sú síðarnefnda um svipað leiti af sömu aðilum. Í fyrstu var haldið að tóftin við Hraun væri dys, en við uppgröftin kom bænhúsið í ljós. Á báðum stöðunum fundust ýmsir gripir. Bænhúsið við Hraun var að nýju orpið sandi eftir uppgröftin, en bænhúsið í Nýjahrauni var endurhlaðið, reyndar ekki ferkantað eins og tóftin leit út, heldur sporöskjulagað. Þá var það ekki hlaðið úr grjótinu, sem hin gamla rúst hafði gefið af sér, heldur að mestu með grjóti úr nágrenninu. Einungis gólfið er upprunalegt. Öðruvísi og mun stærri kirkjur hafa verið grafnar upp í Skálholti og á verslunarstaðnum Gásum en engin sóknarkirkja hefur enn verið rannsökuð á Íslandi. Yfirstandandi uppgröftur í Reykholti miðar að því að stoppa í það gat.

Rannsóknin

Kapelluhraun

Kapella í Kapelluhrauni.

Rannsókn á kirkjum og bænhúsum er grunnrannsókn sem miðar að því að skrá og kortleggja allar kirkjur, öll bænhús og alla kristna grafreiti á Íslandi. Á grundvelli ritheimilda, örnefna og fornleifafunda (einkum mannabeinafunda) er reynt að staðsetja kirkjur, bænhús og grafreiti eins nákvæmlega og hægt er og þar sem mannvirkjaleifar eru sýnilegar á yfirborði eru þær mældar upp. Skráning er langt komin á Suður- og Austurlandi og benda fyrstu niðurstöður til að hægt verði að staðsetja rúman helming slíkra staða, en aðeins í undantekningartilvikum eru tóftir enn sýnilegar. Áhersla er lögð á að staðsetja kirkjur og bænhús í samhengi við bæjarstæði, leiðir og landamerki en í ljós hefur komið að þó að sóknarkirkjur séu undantekningalítið á hlaði bæjar eru smákirkjur og bænhús ýmist á hlaði, í túni, við túnjaðar eða fjarri bæ, jafnvel við gamlar þjóðleiðir líkt og bænhúsin við Hraun og í Nýjahrauni ofan við Straumsvík.

Stjórnandi rannsóknar er Orri Vésteinsson, Háskóla Íslands.

Heimild:
-www.instarch.is/instarch

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Járngerðarstaðir

Loksins hefur Járngerður gamla, sú er Járngerðarstaðahverfið í Grindavík hefur dregið nafn sitt af, fengið varanlega hvíld. Fyrst eftir niðursetninguna stóð dys Járngerðar við gömlu sjávargötuna milli Járngerðarstaða og Norðurvarar (Fornuvarar). Vermenn gengu þöglir framhjá dysinni, staðnæmdust, lutu höfði og fóru með sjóferðarbæn.
Síðar var lögð Járngerðarleiði árið 2005varanlegri gata (Verbraut) fyrir sjálfrennireiðina framhjá dysinni. Eftir það stóð einungis eitt horn hennar út undan götunni. Nú (árið 2008) hefur gatan verið kyrfilega aðlöguð nútímakröfum, verið breikkuð og undirbúin undir malbikun. Þar með hefur Járngerðarleiðið horfið undir flatneskjuna – tákn hinna nýju tíma.
Í sjálfu sér hefði auðveldlega verið hægt að hlífa legstað gömlu konunnar, táknmerki  hverfisins, og hafa þarna mjórri einstefnugötu, eða bara einfalda þrengingu til hraðatakmarkana, en bæjarfulltrúar Grindvíkinga virðast ekki hafa heyrt af slíkum möguleika, sem þó hefur verið algeng lausn í öðrum bæjarfélögum, bæði hérlendis og erlendis um langt skeið. Á næstunni er ætlunin, vegna þessara mistaka hinna mannlegu, að leggja táknrænan krans á malbik Verbrautar þar sem hin þjóðsögulega dys hefur verið í hugum forfeðra Grindvíkinga um aldir.
Þjóðsagan nefnir að „Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar 2004Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.“
Önnur heimild kveður á um að „Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. „Báðar voru þær giftar. Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Dys Járngerðar í Verbraut (rauður hringur)Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi.” Segja fróðir menn að þetta hafi gengið eftir. Leiði kvennanna má sjá í hvoru hverfi. Þorkötluleiði mun vera á túninu austan Þórkötlustaðavegar nr. 11 sem og dysjar hunds og smala.
Í vangaveltum heimamanna segir að „Járngerður hafi reiðst þegar bóndi hennar drukknaði á Járngerðarstaðasundi og lagt á að 20 skip skyldu farast á sundinu. Járngerður gæti hafa verið gift Þorsteini hrugni og búið á Járngerðarstöðum (þrjú hús standa nú á Járngerðarstaðatorfunni). Munmæli herma að Járngerðarleiði, sem Járngerður er sögð hafa verið heygð sé við veginn, rétt við bæinn Vík (sunnan götunnar suðaustan við Vík).“
Þann 21. nóvember árið 2007 stofnuðu grindvískir atvinnuleikarar formlega til félagsskaparins GRAL. GRAL er skammstöfun á GRindvískir AtvinnuLeikarar. Meginmarkmið félagsins er að taka þátt í þjóðfélagsumræðum, hafa áhrif á listalíf í landinu (og þá helst í Grindavík) og álykta í hinum ýmsu málum á opinberum vettvangi.
Á verkefnaskránni framundan er einmitt „Járngerður og Þórkatla“; barnaleikrit sem fjallar um skessurnar Járngerði og Þórkötlu sem tvö hverfanna í Grindavík eru nefnd eftir. Í Járngerðarleiði 2008einn pott eru sett örnefni og þjóðsögur frá Grindavík. Þorbjörn og Hafur-Björn koma við sögu ásamt ruplandi Tyrkjum og hinum ægilega Ægi á Sandi sem er bæði örlátur og grimmur.
GRAL hefur gert munnlegt samkomulag við Erling Einarsson sem stendur að uppgerð Flagghússins á Járngerðarstöðum um sýningar á loftinu þar haustið 2008. Bæjarfulltrúar Grindavíkurbæjar hafa lofað framtakið og eru tilbúnir að veita verkefninu brautargengi. Svo virðist sem áherslan sé, um þessar mundir, meiri á orð en varanleika.
En HVAÐ UM JÁRNGERÐARLEIÐIÐ? Það að jarða þá gömlu endanlega undir slétt malbik hlýtur að senda ungum Grindvíkingum og öðrum þau skilaboð að öllum sé skítsama um fornar sögur og sagnir á svæðinu….
Draga verður í efa að löglegt leyfi hafi legið fyrir eyðileggingunni frá viðkomandi yfirvöldum. Hafi slíkt leyfi verið fyrir hendi væri fróðlegt að fá að sjá það… Þjóðminjalög gilda jú líka í Grindavík – þau nýjustu frá árinu 2001. Að vísu getur veður hamlað umferð um Reykjanesbraut og Grindavíkurveg, en nýjustu lagabreytingar ættu þó a.m.k. að berast á áfangastað með vorskipunum.
Einhver hafði á orði að framangreind framkvæmd gæti lýst ákveðinni kvenfyrirlitningu ráðamanna Járngerðarstaðahúsin og Vesturbrautbæjarins. Ef satt er þarf Jafnréttisráð að sýna að það eigi til snör viðbrögð. Þessi aðför að Járngerði virðist reyndar kalla á viðbrögð margra annarra aðila og stofnana er lagalegu hlutverki hafa að gegna í samfélaginu. Ólíklegt er þó, af fyrri reynslu að dæma, að viðbragðstími þeirra verði meiri en hraði snigilsins. Varla er t.a.m. hægt að ætlast til að Fornleifavernd ríkisins lyfti rassi frá stól vegna minja á Reykjanesskaganum frekar en fyrri daginn. Líklega er vænlegast, úr því sem komið er, að fá leyfi Gauja í Vík til að gefa eftir smá hornskika við veginn, efna til hugmyndarsamkeppni meðal grindvískra listamanna um minnisvarða um fyrrum frú Járngerði og koma honum síðan upp á staðnum fyrr en seinna.
Þess má geta að þegar Vesturbraut var grafin upp vegna sömu framkvæmda kom verktakinn niður á hlaðið garðlag. Sá hafði uppi snör handtök, fjarlægði garðinn og mokaði yfir. Vitni urðu þó að atvikinu. Skv. Þjóðminjalögum hefði verktakanum borið að tilkynna fundinn til Fornleifaverndar ríkisins. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi verið uma ð ræða leifar af gamla bænum á Járngerðarstöðum, þeim er kom við sögu „Tyrkjaránsins“. Af meðfylgjandi loftmynd að dæma liggur Vesturbrautin í gegnum gamla veggstæðið. Eðlilegt er því að spyrja: „Í ljósi gildandi laga; hvers vegna var ekki gert ráð fyrir að minjar myndu finnast á þessu svæði áður og á meðan á framkvæmdunum stóð og hvers vegna var ekki fylgst með hvort svo væri?“

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir.

 

Utanvegaakstur
Eftirfarandi erindi kom frá fulltrúa mótorhólamanna (2005), sem aka utan vega á hjólum sínum, en vilja halda slíkum akstri innan ákveðinna marka.
„Ég er viðriðinn hagsmunamál mótorhjólamanna og núna stöndum við í smá stappi við fulltrúa sýslumannsins á Reykjanesi. Forsaga málsins er sú að Bæjarstjórn Grindavíkur gaf mótorhjólamönnum bráðabirgðaleyfi til æfinga við norðurenda Kleifarvatns með þeim skilyrðum að gengið yrði frá svæðinu 1. júní og það ekki notað meira í sumar. Þetta var gert í ljós þeirrar reynslu sem fékkst í fyrrasumar þegar lögreglan á Reykjanessvæðinu eltu uppi þá sem voru að reyna að æfa sig og hrökktu þá upp til fjalla og inn í afskekkta dali.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Afleiðingin varð hreint út sagt skelfileg, því á þessum tíma árs er Kleifarvatnssvæðið og Reykjanesið eini staðurinn sem hægt er að hjóla á. Í staðinn fyrir að hafa eitt svæði til að hjóla á voru litlar brautir lagðar ólöglega um allt Reykjanes og miklar landskemmdir unnar.
Nú hefur bæjarstjórn Grindavíkur verið gert að afturkalla þetta bráðabirgðaleyfi á þeim forsendum að sýslumaður þurfi að gefa leyfi, nema fyrir liggi leyfi frá landeiganda, Reykjanesfólkvangi og einhverjum fleiri aðilum. Það er því ljóst að ætlunin er að kæfa þetta mál í pappírshrúgum kerfisins og þannig draga málið fram á sumar, en þá verður engin þörf á þessu bráðabirgðaleyfi. Það eina sem þetta hefur í för með sér er að ágangur á Reykjanesið mun halda áfram að aukast og skemmdir af völdum mótorhjóla ekki minnka.
Ég geri mér grein fyrir að enginn vill sjá mótorhjólaför um alla koppagrundir. Ein af þeim leiðum sem okkur hefur dottið í hug til að verja Reykjanesið fyrir landskemmdum er að vekja athygli á þessu máli og gera þeim sem stjórna grein fyrir þeim miklu andstæðum sem þarna eru í gangi. Það er nefnilega ekki bæði hægt að vernda náttúruna og loka æfingarsvæðum.“Í lögum um Náttúruvernd er fjallað um akstur utan vega. Þar segir m.a. að „bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin. Umhverfisráðherra kveður, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar í reglugerð á um aðrar undanþágur frá banninu, m.a. vegna starfa manna við landbúnað, landmælingar, línu- og vegalagnir og rannsóknir.“ Jafnframt að „ólögmætur akstur utan vega varðar refsingu.“ Þar segir að „hver sá sem veldur á ólögmætan hátt spjöllum á náttúru landsins, hvort heldur er af gáleysi eða ásetningi, skal sæta refsingu.“
Utanvegaakstur

Í Umferðarlögum (1987 nr. 50 30. mars) er fjallað um akstur utan vega, en einungis í þéttbýli. Þar er einungis kveðið á um að ökumenn skulu aka eftir akbrautum. Í lögunum eru ákvæði um akstursíþróttir og aksturskeppni. Þar segir að ráðherra geti sett reglur um akstursíþróttir á sérstökum afmörkuðum svæðum utan vega. „Eigi má efna til aksturskeppni, nema með leyfi lögreglustjóra.“ „Ráðherra setur nánari reglur um aksturskeppni.“
Í Umferðarlögunum eru sérstök og reyndar svolítið skondið ákvæði um tofærutæki, því skv. því má í rauninni hvorki aka þeim utan vegar, en þó jafnframt „skemmstu leið eftir vegi eða yfir veg, sem ekki er einkavegur.“ Reyndar er átt við akstur þegar snjór þekur jörð, þótt það komi ekki beinlíns fram í ákvæðinu.
Í reglugerð um akstur í óbyggðum segir m.a. að „öllum er skylt að sýna varúð svo að náttúru landsins sé ekki spillt að þarflausu. Spjöll á náttúru landsins, sem framin eru með ólögmætum hætti af ásetningi eða gáleysi, varða refsingu.“ Jafnframt að „allur akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúruspjöll geta af hlotist er bannaður.“ Með náttúruspjöllum er meðal annars átt við spjöll á gróðri, jarðvegi og jarðmyndunum, myndun nýrra slóða, hvort sem er á grónu landi, þar með töldu mosavöxnu landi, eða ógrónu og skiptir ekki máli hvort líkur eru á varanlegum skaða eða tímabundnum. Á friðlýstum svæðum gilda auk þess sérákvæði um akstur, sbr. friðlýsingarákvæði.

Hraunssel

Utanvegakastur milli Hraunssels og Sandfells.

Í undanþáguákvæði reglugerðarinnar segir að „nauðsynlegum akstri utan vega í óbyggðum skal jafnan hagað svo að engin náttúruspjöll eða lýti á landi hljótist af. Með nauðsynlegum akstri utan vega er átt við akstur vegna rannsókna, björgunarstarfa og þess háttar.“
Í reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni segir að „eigi má efna til aksturskeppni nema með leyfi lögreglustjóra. Án samþykkis vegamálastjóra má eigi heimila aksturskeppni á þjóðvegi. Keppni utan vega er eigi heimil án samþykkis sveitarstjórnar. Leyfi til aksturskeppni skal einungis veita skipulagsbundnum samtökum er hafa akstursíþróttir á verkefnaskrá sinni.“
Aldrei virðist nógu oft áréttað að allur akstur utan vega og merktra slóða er bannaður á Íslandi. Jaðvegur landsins er viðkvæmur og óratíma getur tekið fyrir hjólför að hverfa. Þá eru hjólför eftir bíla og önnur ökutæki oft upphafið að atburðaráðs rofs og uppblásturs sem valdið getur gríðarlegum skemmdum og landeyðingu. Einnig er margsannað að ein slóð kallar á aðra því sá sem á eftir kemur og sér slóð kann að álykta að þarna megi aka.
Akstur utan vega virðist vera vaxandi vandamál á Íslandi. Falleg náttúra Íslands verður því miður oft fyrir óbætanlegum spjöllum vegna illrar umgengni ökumanna á vélknúnum ökutækjum. Jarðrask getur valdið varanlegu landrofi og ómældum skaða.
Dómur gekk í máli manns árið 2002, sem ók utan vegar og olli spjöllum á gróðri. Honum var gert að greiða 20.000 kr. sekt eða dúsa þrjá daga í fangelsi ella.

Utanvegaakstur

Utanvegaakstur.

Ljóst er að mikilvægt er að finna lausn á vanda þeim er bréfritari vekur athygli á. Það er mat FERLIRs að koma þurfi mótorhjólafólki sem og öðrum er stunda utanvegaakstur af viðkvæmum svæðum Reykjanesskagans, s.s. í Stóru-Sandvík, hlíðum Sveifluháls og Fagradalsfjalls, Skolahrauns og Djúpavatnssvæðinu svo einhver svæði séu nefnd er þegar liggja undir talsverðum skemmdum. Mótorhjólafólk hefur unað sér vel á vatnasvæði Lambhagatjarnarinnar norðan Kleifarvatns sem og á sandströndinni við vatnið sunnan Syðrihöfða. Ekki er að sjá að það hafi valdið spjöllum þar því vatnið virðist jafnan færa umhverfið í rétt horf á ný. Þá er hið ákjósanlegasta æfingasvæði í Folaldadölum í Sveifluhálsi. Með jákvæðu viðhorfi og í góðri samvinnu við mótorhjólafólk ættu yfirvöld samgöngu- og umhverfismála auðveldlega að geta náð samkomulagi um viðhlítandi aðstöðu á svæðinu, hugsanlega með einhverjar laga- og reglugerðarbreytingar að markmiði. Það er reyndar alveg ótækt að leyfa innflutning á slíkum tækjum, en gera á sama tíma ekki ráð fyrir að þeim verði ekið eins og „þau eiga kyn til“. Með góðri samvinnu væri hægt að laða fram hugarfarsbreytingu um skaðsemi utanvegaaksturs hjá a.m.k. þeim tiltekna hópi ökumanna, sem hér er um rætt. Það er til mikils að vinna og því nauðsynlegra að hugsa málið í lausnum en vandamálum.

Utanvegaakstur

Ekið utan vegar við Oddafell.

Það er reyndar grátbroslegt að sjá og heyra opinberar nefndir og ráð leggja fram lítt ígrundaðar tillögur um úrbætur og síðan innihaldslítil loforð embættismanna um framkvæmdir – án markvissar eftirfylgju. Á meðan svo er gerist fátt annað en utanvegaaksturinn heldur áfram með tilheyrandi varanlegum afleiðingum fyrir umhverfið.
Aðspurður á fundi ferðaþjónustuaðila um aðgerðir lögreglu til að spyrna gegn utanvegaakstri á Reykjanesskaganum svaraði sýslumaðurinn í Keflavík því til að slíkur akstur þekktist ekki á svæðinu og því væri ekki ástæða til sérstakra aðgerða. Í ljósi aðgerðarleysis liðinna ára eru sérstakar aðgerðir og eftirlit ríkislögreglustjórans með utanvegaakstri á landinu kærkomin viðleytni til að bregðast við aðsteðjandi vanda og sýnilegri eyðileggingu á dýrmætri náttúru landsins.

Heimildir m.a.:
-http://www.ust.is/Natturuvernd/aksturutanvega
-http://www.althingi.is
-http://www.landvernd.is/frettirpage.asp?ID=1348
-http://www.icetourist.is/displayer.asp?cat_id=343
-Umferðarlög.
-Lög um náttúrvernd.
-Reglugerð um akstur í óbyggðum.
-Reglugerð um akstursíþróttir og aksturskeppni.

Utanvegaakstur

Utanvegaakstur.

Þerneyjarsel

Eftirfarandi „Frá sunnlenskum sveitabónda“ um sel birtist í Fjallkonunni 1890, 7. árg., 31. tbl., bls. 122-123:
„Selstöður eru, nú orðið, því nær ekkert notaðar hjá því sem var á fyrri öldum. Eins og enn er ástatt með jarðræktina hér á landi, má Straumsþað óefað teljast afturför í landbúnaðinum, að hafa ekki í seli, þar sem svo stendr á, að gott er um selstöður enn heimaland rýrt. Fyrst er nú það, að málnytan verðr meiri og betri í seljunum og skepnurnar þó oftast feitari og holdþéttari enn heima; og í öðru lagi „hvílast“ heimalöndin svo að beitin verðr drýgri og betri á þeim haust og vetr; enn fjallabeitin, sem ekki næst í nema um miðhluta sumarsins, vinst betr upp enn ella.
Líklega er það aðalástæðan fyrir mörgum, að nota ekki selstöður, að það sé of kostnaðarsamt með fólkshald, áhöld og hesta til selflutnings, fyrir ekki fleiri málnytupening enn á flestum búum er. Enn þessi ástæða hyrfi ef menn kæmu sér saman um félagsskap í þessu sem fleiru. Ef 3 bændr, sem eiga um 50 ær, legðu saman í sel, og legðu til einn mann hver (2 í selið, 1 til flutninga), og annan tilkostnað eins að hlutfalli, mundi það til lengdar verða miklu kostnaðarminna enn heimagæsla víðast hvar, því heima þyrftu þeir sinn smalann hver, auk allra annara tafa við málnytuhirðinguna, þó ekki væri búist við neinum mismun að öðru leyti. Selfólkið getr líka oft haft einhver smávegis aukastörf, ef tími er til, t. d. safnað fjallagrösum m. fl.
Kýr ætti að hafa í seli eigi síðr enn ær.“

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

 

Másbúðir

Lýsing Sandgerðis einkennist af ESSum, hvort sem litið er til sögu eða staðhátta.

Hjarta

Hjarta Reykjaness.

Sandgerði er staðsett þar sem Sandgerðisvíkin skerst inn í Rosmhvalanes. Skerjaklasi skilur að Sandgerðisvíkina að sunnan (Bæjarskerseyri), en Sundið er á millum. Sýndist sumum siglingin um það stundum þrautarsund fyrrum. Sjávarströndin er sendin og skerjótt. Steinunn gamla sigldi fyrstur staðarmanna inn á svæðið, skuldlaus fyrir stakk. Sjósókn og sauðfjárhald hafa einkennt sveitina frá sköpun. Seinustu misserin hafa skil milli gamalla hverfa beggja vegna Sandgerðis, Bæjarskerja og Flankastaða, skolast út og þau orðið að mestu sambyggð.

Sandgerði

Efra-Sandgerði.

Sandgerðisbærinn gamli er við Sandgerðistjörnina ofan við Sandgerðisvörina. Þar bjó Sveinbjörn Þórðason ásamt sonum sínum. Sumir segja að Sandgerði hafi áður heitið Sáðgerði, samanber kornrækt. Sandfok setti strik í reikninginn, en stórátak í sáningu melgresis á árunum 1930-´50 skipti sköpum. Steyptur sjóvarnargarður 1935 setti stefnuna á ný sóknarfæri í sjávarútvegi.
Sandgerði er stór smábær, með rúmlega sautján sinnum sjötíuogsjö íbúa. Setrið, öðru nafni Fræðasetrið, er í stöðugri sókn. Í Setrinu er ekki bara seli að sjá heldur og settlegan rostung, steina, stoppaða sjófugla, skrautlegar skeljar og smádýr svo eitthvað sé nefnt. Sjónaukar bjóðast þar til skoðunar fugla.
Stofan, eða Náttúrustofa Reykjaness, er undir sama þaki og Setrið. Sækjendum sem og sérfræðingum fjölgar stöðugt.
Skólar eru í Sandgerði fyrir skemmri stigin, sundlaug með sól- og setbekkjum og stækkun íþróttahússins hefur sagt til sín. Sveitarfélagið er í samvinnu um byggingu svæðismiðjunnar þar sem gert er ráð fyrir setu sjórnsýslunnar. Sveinsson fær það aðstöðu.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Skýjaborg er samkomustaður smáfólksins, stráka og stúlkna. Söngvakeppnir eru skipulagðar þar og sjálfhælnir söngvarar, jafnvel prinsessur, sækja í staðinn til setu búa sinna. Sparkfélagið Reynir er í stöðugri framför, enda stuðningurinn stöðugur. Sigurstranglegir og á góðu skriði. Sköpun listar fer fram í listgallerýi og stærðar skírnarkerti, svo dæmi sé tekið, eru framleidd í Jöklaljósi. Skátar standa styrkum stoðum í Sandgerði og stunda staðfastir skátamót landsins.
Sveit Sigurvonar sýnir sjaldnast ónóg viðbrögð, slökkviliðið stendur sig vel og starf sjálfstæðra félaga, s.s. Lions, er stöndugt í Sandgerði.
Smekklegir eldri borgar hafa sannaralega komið sér vel fyrir í sérsmíðuðum húsum og safn bókanna hefur sameinast skólanum. Skil á bókum eru stöðug og haldast í hendur við útlán.

Sandgerði

Sandgerði.

Slitlag er á vegum í og við Sandgerði. Stækkun hafnarsvæðis er stanslaust í gangi, en Suðurnesjafiskmarkaðurinn er staðsettur við höfnina.
Stórfengleg sýn listaverksins Álög eftir Steinunni Þórarinsdóttur er við suðurinnkomuna í Sandgerði. Þar stendur maðurinn andspænis sænum. Listaverkið er til minningar um látna sjómenn, sett upp á afmæli Miðneshrepps 1986.
Sögustaðir eru ófáir – Hunangshella – þar sem skepna var skotin er hún sleikti þar sýrópið, eða var það hunangið. Í Þórshöfn sló í brýnu með Englendingum og Þjóðverjum. Þórshöfn var einn helsti verslunarstaður þjóðverja á 15. og 16. öld. Skipakomur hófust þangað á ný á 19. öld . Jamestown strandaði þar 1881. Skipið var með allra stærstu seglskipum sögunnar. Sagan segir og að bellestin hafi verið silfurgrýti. Hugsanlega er silfursjóður þar á sjávarbotni.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Básar eða Bátsendar hýstu útgerð og verslun. Um siðaskiptin tók Viðeyjarklaustur útgerðina í sínar hendur. Skúli fógeti deildi þar við einokunarkaupmann danskan. Sjávarflóð 1799 lagði staðinn af.
Sakamenn voru hengdir í Gálgum, segir sagan.
Stafnes, fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld. Þar strandaði Jón forseti 1928. Slysið leiddi til stofnunar slysavarnafélagsins Sigurvonar í Sandgerði og síðar Slysavarnarfélags Íslands.
Steinn Steinunnar Hallgrímsdóttur er Í Hvalsneskirkju. Altaristaflan er eftir Sigurð málara.

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi segja sumir að sonur ekkju hafi orðið strandarglópur á skeri Geirfugla, en bjargast ári síðar. Sór sá fyrir faðerni barns sækvynnu úr skerinu. Steyptist hann þá í Stakksfjörð þar sem nú stendur Stakkur.
Másbúðir eru m.a. kunnar fyrir fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar og Fulgavík safnaði fólk sölum samhliða fiskveiðum og notaði í skepnufóður.
Hér segir einungis af skemmriskírn Sandgerðis. Vilji sagnasjóðir sækja í safaríkara efni er best að leita í Setrið, þar sem allt slíkt fæst svo að segja ókeypis.

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Arnarvatn

Nýlega fór fram einstaklega áhugavert fræðslukvöld í Saltfisksetrinu í Grindavík undir yfirskriftinni „Reykjanesfólkvangur – Reykjaneshryggur“. Fræðslukvöldið var liður í Viðburðardagskrá Grindavíkur 2008. Efni kvöldsins átti einkar brýnt erindi til áhugasamra sveitarstjórnarmanna, en enginn þeirra lét sjá sig. Viðstaddir gestir voru engu að síður mjög ánægðir.
Utanvegaakstur í ReykjanesfólkvangiSigrún Helgadóttir líf og umhverfisfræðingur og dr. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans héldu sinn hvorn fyrirlesturinn um Reykjanesskagann, annars vegar þann hluta hans er fellur undir Reykjanesfólkvang og hins vegar framhald hans til suðurs, Reykjaneshrygginn.
Sigrún lýsti mjög vel núverandi möguleikum Reykjanesfólkvangs, bæði sem víðerni og nálægð við þéttbýliskjarna, og möguleika hans til næstu framtíðar. Fram kom að mikilvægt væri að reyna að skila svæðinu eins óröskuðu og nokkurs væri kostur til komandi kynslóða því verðmæti þess munu aukast í réttu samhengi við ásókn fólks í óspillt umhverfi.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Stofnun Reykjanesfólkvangs er samofin sögu náttúruverndar á Íslandi. Framkvæmdir við Grænavatn í Krýsuvík áttu þátt í að menn áttuðu sig á mikilvægi þess að almenn náttúruverndarlög giltu í landinu. Hugmynd að stofnun fólkvangs á Reykjanesi var samþykkt samhljóða í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1969 og lögð áhersla á að land frá Elliðavatni til Krýsuvíkurbergs yrði gert að friðlýstu útivistarsvæði fyrir almenning. Fólkvangurinn var stofnaður 1. des. 1975.
Fólkvangar eru í umsjón sveitarfélaga ólíkt öðrum friðlýstum svæðum á Íslandi. Landið er í lögsögu Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Álftaness og Garðabæjar en vegna mikilla hagsmuna annarra þéttbýlisbúa standa Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Reykjanesbær og Grindavík saman að fólkvanginum.
Jarðmyndanir á ReykjanesskaganumHvert sveitarfélag skipar einn fulltrúa í fólkvangsstjórn og fjárframlög eru í hlutfalli við íbúatölu
sveitarfélaganna. Fulltrúi Reykjavíkur er formaður stjórnar. Frá 1981 hefur verið starfsmaður í hlutastarfi á sumrin til eftirlits.
Svæðið fellur ekki að íslenskum eða alþjóðlegum skilgreiningum á fólkvangi en er þjóðgarðsígildi og hluta þess mætti friðlýsa sem víðerni. Jarðfræði svæðisins er merkileg á heimsvísu en þar eru plötuskil með tilheyrandi eldstöðvum af ýmsum gerðum og gömlum og nýjum hraunum. Svæðið var byggt frá landnámi fram á síðustu öld og þar er mikið af minjum um lífshætti fólks á fyrri tímum til lands og sjávar.
Fornminjar í ReykjanesfólkvangiLandið var vel gróið en hefur verið ofnýtt og gróður er nú mjög illa farinn, mikil ofbeit og landeyðing. Það er enn notað sem beitiland bæði er þar lausaganga búfjár og beitarhólf fyrir hross og sauðfé. Ýmsir áhugahópar hafa helgað sér svæðið m.a. til torfæruaksturs utan vega og er landið víða mjög illa farið af þeim sökum. Mikilvægt er að ná tökum á þessum vandamálum. Stefnt skyldi að friðun fólkvangsins fyrir beit og utanvegaakstri og leitast við að endurheimta fyrra gróðurfar (vistheimt).

Djúpavatnsvegur

Djúpavatnsvegur um Stóra-Hamradal.

Vegir í fólkvanginum eru að mestu malarvegir. Sumir þeirra eru illa færir fólksbílum. Verið er að undirbúa lagningu Suðurstrandarvegar þvert í gegn um fólkvanginn. Tilkoma vegarins mun auka mjög umferð um fólkvanginn og nauðsynlegt er að bregðast við auknum gestafjölda með merkingum, upplýsingum og annarri þjónustu. Þá þjónustu þarf að veita um allan fólkvanginn, fyrst og fremst þarf að merkja áhugaverða staði og stika fjölbreyttar leiðir.

Reykjanesfólkvangur - kort

Þegar borin eru saman fjárframlög og stuðningur við Reykjanesfólkvang og önnur útivistarsvæði í nágrenninu, s.s. Bláfjallafólkvang og Heiðmörk, sést að fólkvangurinn er mikið olnbogabarn. Svæðið verður þó sífellt mikilvægara til útivistar fyrir þéttbýlisbúa SV-lands. Það gæti einnig haft mikið aðdráttarafl fyrir þá erlendu ferðamenn sem sækjast eftir menningarlegri og fræðandi útivist. Það form ferðmennsku er nú í mikilli sókn. Sú sérstaða að hægt sé að upplifa víðernisáhrif á daginn en stunda menningarlíf og fá góða þjónustu í þéttbýli um kvöld og nætur er mikill styrkleiki fyrir nálæg sveitarfélög.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – þrívíddarkort.

Sigrún kvað Reykjanesfólkvang vera um 300 km2 að stærð og langstærsta friðlýsta svæði sinnar tegundar hér á landi. Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan fólkvangsins. Árið 2004 tók Sigrún saman mjög ítarlega skýrslu fyrir stjórn Reykjanesfólkvangs um upphaf fólkvangsins og þær væntingar og hugmyndir sem fólk hafði um mikilvægi svæðisins og möguleika þess í framtíðinni. Hún sgði frá skýrslunni, niðurstöðum hennar og hugmyndum.

Sigrún Helgadóttir

Sigrún Helgadóttir.

Í erindi sínu fjallaði Sigrún um aðdraganda og efnisöflun skýrslunnar, en í henni kom fram hlutlaust mat hennar sem fræðimanns á öllum helstu þáttum fólkvangsins, væntingar og möguleika  til framtíðar. Í kjölfarið urðu umræður um núverandi stöðu og þá staðreynd að á 33 ára afmæli fólkvangsins hefði aldrei staðið fyrir dyrum önnur eins nýtingaráform á svæðinu og nú eru fyrirhuguð, virkjanir ,línulagnir, og Suðurstrandarvegur, og gengdarlaus utanvegaakstur svo eitthvað sé nefnt.
Gestum var tíðrætt um þá sýn sem við blasir á ferð um fólkvanginn, allir hlutir sem miða að því að bæta aðgengi að náttúruskoðun eru skemmdir og eyðilagðir, ekki hefst undan að laga nauðsynlegustu skilti er miðla upplýsingum.

Í máli Óskars Sævarsson, fulltrúa Grindavíkur í stjórn fólkvangsins, kom fram að allt til ársins 2005 hefur ráðstöfunarfé nefndarinnar verið af afar skornum skammti, eða um 2 miljónir á ári, og því lítið svigrúm gefist til framkvæmda.

Óskar Sævarsson

Óskar Sævarsson.

Á borði núverandi stjórnar biðu því fjölmörg verkefni sem biðu úrlausna. Í dag hefur stjórnin náð að tvöfalda þetta fjármagn og verkefnavinna er hafin í tengslum við það. Má nefna tjaldstæði í Krókamýri sem útbúið var á síðasta ári og verður fullklárað í sumar, fjölmörg upplýsingarskilti fara á sinn stað, fólkvangsvörðurnar verða lagaðar, ruslamálum verður komið í lag og landvörslu verður sinnt á árs grundvelli.
Dr. Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans sagði frá rannsóknum á Reykjaneshrygg sem fram fóru sumarið 2007.
KnorrVerkefnið hlaut m.a. styrk frá „National Science Foundation“ í Bandaríkjum og rannsóknarsjóð Háskóla Íslands. Notast var við sérhannað skip, R/S Knorr, til jarðfræðilegra rannsókna á sjó. Leiðangrinum lauk 15 júlí ´07 og var gagnasöfnunin mjög árangursrík. Í leiðangrinum var lokið við að kortleggja Reykjaneshrygginn upp að landgrunnsbrún. Þá kom meðal annars í ljós gríðarmikil megineldstöð í landgrunnsbrúninni, sem nefnd hefur verið Njörður. Megineldstöðin er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Fróðlegt verður að heyra dr. Ármann segja frá leiðangrinum og ná fram umræðum um þessa mikilvægu fiskislóð Íslendinga.
Þessi rannsókn Jarðvísindastofnunnar voru umfangsmestu rannsóknir á Reykjaneshryggnum í 40 ár.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Reykjaneshryggur er einn áhugaverðasti hlutinn af hryggjakerfi heimsins fyrir þrjár sakir. Í fyrsta lagi er hann samfeldur með skásettu reki frá Bight-þverbrotabeltinu í suðri að Reykjanesi í norðri. Í öðru lagi hafa myndast misgamlir V-laga hryggir sem vísa út frá Íslandi og í þriðja lagi ber hann mörg einkenni háhraða gliðnunarbeltis þrátt fyrir að vera hægfara. Skýringarnar er talið að megi meðal annars rekja til heita reitarins undir Íslandi og þeirrar kvikuframleiðslu sem þar er umfram kvikumyndun hryggjarins. Í núverandi hryggjakerfi jarðar er Reykjaneshryggurinn undir mestum áhrifum heits reits. Þrátt fyrir öll þessi merkilegu einkenni er tilfinnanleg eyða í vísindalegri gagnasöfnun sem má rekja frá Íslandi og suður á 62° norðlægrar breiddar.

Ármann Höskuldson

Ármann Höskuldsson.

Leiðangrinum lauk 15 júlí síðastliðinn og var gagnasöfnunin mjög árangursrík. Veðursæld einkenndi miðin á rannsóknartíma sem að eykur til muna gæði þeirra gagna sem safnað var. Frumniðurstöður rannsóknarinnar sýna að enn má sjá móta fyrir gömlu rekbeltunum tveim sem að stjórnuðu upphleðslu á Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Vestfjarðarbeltið er afmarkað af misgengjum með allt að 400 m falli, en Snæfellsnes rekbeltið kemur aftur á móti greinilega fram á landgrunninu með um 100 m misgengi. Misgengi þetta hefur verið nefnt Suðurkantar á sjókortum. Neðan við landgrunnsbrúnina kom í ljós gríðarmikil megineldstöð sem nefnd hefur verið Njörður. Megineldstöðin er á stærð við Reykjanes, eða um 50 km í þvermál. Í toppi hennar má greina öskju, eða sigketil sem er um 10 km í þvermál.
Kort af ReykjaneshryggNúverandi rekás Reykjaneshryggjar liggur í gegnum Njörð. Aðstæður við Njörð eru því svipaðar og í Kröflu, þar sem að megineldstöðin og sigketill hennar er klofin af Kröflusprungusveimnum.
Nú fer í hönd nákvæmari greining á gögnum og úrvinnsla, Gera má ráð fyrir áframhaldi á gagnasöfnun innan 2 ára, mun rannsóknum þá verða beint að varmauppstreymi, jarðhitakerfum, gossögu og bergfræði eldstöðvanna á rannsóknarsvæðinu.
Verkefnið hlaut styrk frá
National Science Foundation í Bandaríkjum Norður Ameríku að upphæð um 30 miljónir króna og skipastyrk að upphæð 70 miljónir. Verkefnið er ennfremur styrkt af vísindasjóði Háskóla Íslands.
Flekabeltin um ReykjaneshryggÁrmann fór í gegnum alla gossögu svæðisins og var einkar fróðlegt að sjá staðsetningar á eldsumbrotum á flekamótunum neðansjávar í gegnum tíðina. Tilurð þessara íslensku brotabelta er vel þekkt. Hryggjakerfi Norður-Atlantshafs rekur til vest-norðvesturs tæpan sentimetra á ári miðað við heita reitinn og með því að flæði möttulefnis undir Íslandi út frá þessari miðju er helsti drifkraftur flekahreyfinga, þá „leitast“ rekbeltin við að vera yfir heita reitnum. Í 15 milljón ára jarðsögu Íslands hefur slíkur gosbeltaflutningur orðið að minnsta kosti þrisvar.
Þverbrotabelti einkenna allt rekhryggjakerfi jarðar, sem er um 60.000 km langt, og skiptist í búta sem hnikað er til hverjum miðað við annan. Almennt tengjast þverbrotabeltin ekki heitum reitum, heldur virðast þau hafa myndast um leið og rekhryggurinn sjálfur og haldast síðan nokkuð stöðug. Myndun þeirra er því sennilega háð spennusviðinu sem ríkti þegar hryggurinn var að myndast.

 

Reykjaneshryggur

Um miðjan september 2013 lauk mánaðarlöngum rannsóknarleiðangri á Reykjaneshrygg með rannsóknarskipinu Marcus G. Langseth. Í leiðangrinum var syðsti hluti Reykjaneshryggjar kortlagður með fjölgeislamælitækni í fyrsta sinn.Reykjaneshryggur er lengsti samfelldi rekhryggur jarðar.
Það er því heimsviðburður að í lok leiðangurs er hryggurinn að fullu kortlagður.

Ármann sýndi gestum kort og myndir af undraheimum Atlantshafshryggjarins. Reykjaneshryggurinn var kortlagður, sem fyrr segir, frá landgrunnsbrún. Stórkostlegt landslag kom þá ljós með fjöllum og eldstöðvum á stærð við Reykjanes allt að 50 km í þvermál, hæstu fjöll hryggsins eru um 600 metra há.
Fjörlegar umræður um svæðið fóru fram í lok erindis, m.a. um hitasvæði í sjó gasuppstreymi og olíu ( sem þarna er). Vænlegustu svæðin eru sunnan undan Grindavík, þ.e. þau svæði, sem líklegast munu nýtast til orkuöflunar í nánustu framtíð.
Ljóst er að Reykjanesfókvangur hefur á ýmislegt að bjóða áhugasömu fólki.

Heimildir m.a.:
www.jardvis.hi.is/
-grindavik.is

Reykjanesskaginn

Reykjanesskagi.