Á vef Stjórnarráðsins er rakin saga Stjórnarráðshússins við Lækjartorg:
Á fyrri hluta 18.aldar var tekin upp ný hagstjórnarstefna í Danaveldi sem byggði á svokölluðum kameralisma sem var afbrigði upplýsingarstefnunnar. Samkvæmt henni átti ríkið að vinna að hagsæld og velmegun þegnanna til þess að þeir gætu sem best þjónað heildinni og átti þar að líta til allra þátta, ekki bara atvinnuveganna heldur einnig uppeldis, fræðslu og menningar. Til þess að allir þegnar ríkisins væru iðnir og sparsamir og legðu sitt til almennrar velferðar ríkisins var m.a. talið nauðsynlegt að reisa betrunarhús og fangelsi. Þannig væri hægt að gera betlara, flækinga og sakamenn að nýtum samfélagsþegnum.
Stjórnarráðshúsið.
Það var í þessum betrunaranda sem tugthúsið í Reykjavík (nú Stjórnarráðshús) var reist á árunum 1761-1771. Þá skömmu áður höfðu verið byggð eða voru í byggingu fjögur vegleg steinhús á Íslandi, embættisbústaðirnir Viðeyjarstofa, Nesstofa og Bessastaðastofa ásamt Dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal. Fremstu arkitektar Dana voru fengnir til að teikna húsin sem voru fullkomin nýlunda á Íslandi þar sem nær allir mannabústaðir voru þá enn torfbæir.
Tugthúsið
Georg David Anthon.
Tugthúsinu í Reykjavík, stundum nefnt Tyftunarhúsið, var valinn staður í landi konungsjarðarinnar Arnarhóls jafnframt því sem jörðin var lögð til stofnunarinnar. Hafist var handa um byggingarframkvæmdir árið 1761 en þær sóttust seint þannig að þeim var ekki að fullu lokið fyrr en 10 árum seinna. Auk danskra og íslenskra iðnaðarmanna unnu sakamenn að byggingu hússins en þeim var síðan, eftir að húsbyggingunni var lokið og þeir orðnir innanhússmenn, ætlað að vinna í þágu hinna nýju tau- og klæðaverksmiðja (svokallaðra Innréttinga) og aðra tilfallandi vinnu í hinum upprennandi höfuðstað Íslands.
Teikningar af tugthúsinu við Arnarhól hafa ekki varðveist en fullvíst er talið að arkitekt byggingarinnar hafi verið Georg David Anthon (1714-1781) hirðhúsameistari í Kaupmannahöfn og kennari við Listaakademíuna þar. Auk tugthússins teiknaði hann Viðeyjarkirkju og Landakirkju í Vestmannaeyjum og líklega einnig Bessastaðakirkju.
Húsið, sem er um 260 fermetrar að flatarmáli, var byggt úr tilhöggnu grágrýti, veggir tvíhlaðnir og þakið gaflsneitt og timburklætt. Gluggar, sem voru litlir með járnstöngum fyrir, voru settir samhverft um miðjudyr eins og algengast var um þær mundir. Þegar gengið var inn í húsið varð þar fyrir forstofa með stiga upp á loft. Til hægri handar var íbúð tugtmeistara en til vinstri stórt eldhús og stofa inn af því fyrir fangavörð. Aftan til í húsinu voru tvær vinnustofur, m.a. með tóskaparáhöldum fyrir spunakonur, en klefar fyrir stórglæpamenn í hvorum enda. Uppi á lofti voru fjögur fangaherbergi en yfir því var efra loft með geymslu fyrir ull og tóvinnu.
Grunnteikning af Stjórnarráðshúsinu (Tukthúsinu) eftir Ohlsens árið 1803 sem sýnir skipulag á neðri hæð hússins, en x og y eru kamrar.
Tugthúsið var talið geta rúmað 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga. Svo margir fangar sátu þar þó aldrei, þeir urðu flestir um 40. Bæði karlar og konur voru í fangelsinu og frjálslegur samgangur milli kynja, svo frjálslegur að nokkuð var um barneignir þar innan dyra.
Aðbúnaður fanganna mun þó hafa verið bágborin löngum, sérstaklega þegar illa áraði. Móðuharðindin dundu yfir landið eftir 1783 og dóu fangar þá úr hor og vesæld í húsinu. Ekki tók betra við eftir 1800 þegar siglingar til landsins strjáluðust mjög vegna Napóleonsstyrjalda og árása Breta á Danmörku. Mikill matvælaskortur varð þá í landinu sem kom hart niður á föngum í Múrnum eins og tugthúsið var gjarnan nefnt. Árið 1813, þegar danska ríkið varð í raun gjaldþrota, var rekstri tugthússins hætt og þeim föngum sem enn sátu inni sleppt. Þremur árum síðar var það formlega lagt niður.
Stiftamtmannssetrið – Ludvig Moltke
Moltke greifi – 1790-1864.
Frá árinu 1683 hafði stiftamtmaður verið æðsti embættismaður landsins. Þegar hér var komið sögu voru ungir danskir aðalsmenn oftast skipaðir í það embætti. Skipun þeirra var meðfram hugsuð sem fyrsti póstur á væntanlegri framabraut, eins konar manndómsvígsla því ekki þótti þá eftirsóknarvert fyrir aðalsborið fólk að búa á Íslandi.
Þannig var um Ludvig Moltke, 29 ára gamlan greifason af frægri aðalsætt, sem skipaður var stiftamtmaður Íslands árið 1819. Fyrri stiftamtmenn höfðu þá um skeið búið í litlu timburhúsi (nú Austurstræti 22) en hinum unga Moltke og konu hans, Reinholdine Frederikke Vilhelmine, fædd Bartenfleth, sem þótti nokkuð steigurlát, fannst slíkt hús ófullnægjandi fyrir sig og hið háa embætti. Þeim kom til hugar að gera mætti tugthúsið gamla, sem stóð þá tómt og ónotað, að verðugum embættisbústað. Nýi stiftamtmaðurinn sótti síðan um leyfi til þess gera húsið upp og breyta því og var fallist á það af stjórnvöldum í Kaupmannahöfn.
Reykjavík 1801. Tukthúsið lengst t.h.
Hafist var handa við framkvæmdir og húsinu gjörbreytt veturinn 1819-1820. Allir gluggar voru stækkaðir, gólfið lækkað til að fá meiri lofthæð og settur bakdyrainngangur á húsið nyrst og brattur stigi frá honum upp á loft. Íbúð stiftamtmanns var komið fyrir í sunnanverðu húsinu en til vinstri þegar gengið var inn voru stiftamtmannsskrifstofurnar. Salur og vinnuherbergi voru baka til, uppi herbergi vinnuhjúa og stofustúlkna. Að húsabaki voru útihús því stiftamtmaðurinn þurfti bæði hesta og kýr. Túnið hans var Arnarhóll.
Eftir þetta var húsið ýmist nefnt Stiftamtshúsið eða Stiftamtmannshúsið einnig þó Kóngsgarður eða Konungsgarður. Moltke greifi og frú hans hurfu af landi brott 1824 en Moltke átti eftir að eiga langan feril, lengst sem sendiherra í París og einnig var hann utanríkisráðherra Dana um skeið. Við af honum tók Peter Fjeldsted Hoppe en hann þótti atkvæðalítill í embætti.
Lorentz A. Krieger
Friðrik VII.
Sá sem tók við af Hoppe 1829 var öllu líflegri. Sá var Lorentz A. Krieger kammerjúnkeri, 32 ára og ógiftur. Hann lét mjög til sín taka, sérstaklega í Reykjavík þar sem hann vann að endurbótum á skipulagsmálum og stuðlaði að því nýmæli að kosin var byggingarnefnd í bænum. Hann lét m.a. endurhlaða Skólavörðuna á sinn kostnað sem eftir það var um tíma kölluð Kriegers-Minde. Hann bannaði byggingar á Lækjartorgi og Austurvelli og lagði veg meðfram Læknum sem var upphafið að Lækjargötu.
Krieger sat nýstofnað stéttaþing Dana 1835 sem fulltrúi Íslands og samdi síðan tillögur um breytingar á stjórn Íslands þar sem hann lagði til að landið fengi heimastjórn. Það var í fyrsta sinn sem slíkar tillögur voru settar fram og hefur því ekki verið mikið haldið á lofti af Íslendingum.
Meðan Krieger bjó í Stiftamtsmannshúsinu við Lækjargötu bar þar tignan gest að garði. Það var sjálfur Friðrik Kristján prins Dana sem sendur var til Íslands í refsingarskyni fyrir glaumgosahátt og fyrir að hafa hrakið frá sér eiginkonu sína, kóngsdótturina Vilhelmine. En Friðrik Kristján lét sér það í léttu rúmi liggja, dvaldi á Íslandi í þrjá mánuði, ferðaðist víða á hestbaki og skemmti sér vel. Þess á milli sat hann oftar en ekki í góðu yfirlæti og við góðan veislukost í Kóngsgarðinum við Lækjartorg hjá piparsveininum Krieger stiftamtmanni. Fjórtán árum síðar tók prinsinn við konungdómi í Danmörku og nefndist Friðrik VII.
Það er hins vegar af Krieger að segja að hann lét af stiftamtmannsembætti á Íslandi 1836 og varð stiftamtmaður í Álaborg en lést skömmu síðar, aðeins rúmlega fertugur að aldri.
Carl Emil Bardenfleth
Carl Emil Bardenfleth.
Næsti húsbóndi Stiftamtmannshússins var aðalsmaðurinn Carl Emil Bardenfleth sem var um þrítugt þegar hann tók við embætti. Hann var mágur Moltkes, fyrsta stitamtmannsins í húsinu, en uppeldisbróðir fyrrnefnds Friðriks Kristjáns Danaprins. Þess naut hann í ríkum mæli síðar. Bardenfleth var áhugasamur um íslensk málefni, lagði sig fram um að læra íslensku og lét son þeirra hjóna, sem fæddist í Reykjavík, heita Ingolf eftir Ingólfi Arnarsyni.
Mikið fjör var í kringum Bardenfleth í Reykjavík. Meðal annars efndi hann til leiksýninga í Stiftamtmannshúsinu, vafalaust í salnum baka til í húsinu. Stiftamtmaðurinn lék sjálfur og fór m.a. í kvenmannsgervi þegar hann lék Pernillu í leikritinu Misforstaaelse paa Misforstaaelse eftir Overskou en meðal annarra leikenda voru tveir frægir danskir náttúrufræðingar, Chr. Scythe og Japetus Steenstrup, sem þá voru við rannsóknir á Íslandi. Tvær íslenskar stúlkur, Sylvia Thorgrimsen og Þóra Melsted, tóku þátt í þessari sýningu og var það í fyrsta sinn sem konur voru orðaðar við leiklist á Íslandi.
Þóra Melsted.
Stiftamtmannstíð Bardenfleths lauk fyrr en ætlað var. Eftir aðeins þriggja ára dvöl á Íslandi var hann kallaður til Danmerkur. Æskuvinurinn Friðrik Kristján var nú orðinn krónprins og vildi fá Bardenfleth til sín sem hirðmeistara. Bardenfleth átti þó eftir að koma mikið við sögu Íslands áfram. Þegar Alþingi kom saman í Reykjavík 1845, eftir að það var endurreist, var Bardenfleth sendur hingað sem fulltrúi konungs og aftur 1847.
Frami hans varð mikill og skjótur í Danmörku eftir að Friðrik VII tók við völdum 1848. Konungur skipaði þennan vin sinn þegar í ráðuneyti sitt. Bardenfleth gegndi lykilhlutverki sem dómsmálaráðherra í byltingarumrótinu 1848-1849 þegar einveldi var afnumið og Danir fengu stjórnarskrá. Þó að skoðanir féllu ekki alltaf saman var Bardenfleth sem konungsfulltrúi og ráðherra í góðu sambandi við Jón Sigurðsson og aðra Íslendinga í Kaupmannahöfn um málefni Íslands.
Stiftamtmaðurinn sem tók við af Bardenfleth var Torkild Abraham Hoppe, yngri bróðir P. F. Hoppe sem áður var stiftamtmaður. Áður hafði hann starfað í Rentukammerinu í Kaupmannahöfn og komið þar að málum Íslands, einkum verslunarmálum.
Mathias hans Rosenørn
Hans Mathias Rosenörn.
Og enn var skipaður nýr stiftamtmaður 1847 og átti heimili sitt og skrifstofur í Kóngsgarði við Lækjartorg. Sá var Matthias Hans Rosenørn, 33 ára gamall, og fór gott orð af honum þau tvö ár sem hann bjó í Reykjavík. Hann gaf m.a. öllum götum bæjarins ný nöfn, sem enn eru flest við lýði, og tölusetti hús. Árið 1849 var hann kallaður til Kaupmannahafnar og tók við embætti innanríkisráðherra. Tveir fyrrverandi stiftamtmenn Íslands, Bardenfleth og Rosenørn, sátu þá saman í ríkisstjórn Danmerkur. Eftir að hann lét af ráðherraembætti 1851 var hann löngum ráðunautur dönsku stjórnarinnar um íslensk málefni.
Jørgen Ditlev Trampe
Jørgen Ditlev Trampe.
Árið 1850 var 47 ára gamall greifi skipaður stiftamtmaður á Íslandi og kom til Íslands með sína stóru fjölskyldu. Hann hét Jørgen Ditlev Trampe og þótti glaðlyndur náungi og viðkunnanlegur. Hann tók upp á því að láta rita embættisbréf sín á íslensku en þau höfðu jafnan verið á dönsku áður. Hann naut vinsælda til að byrja með þær hjöðnuðu allmikið við þá atburði sem gerðust á þjóðfundinum 1851 og í kjölfar hans. Fundurinn átti að færa Íslendingum nýja stjórnarskrá en Trampe sleit honum í miðju kafi. Lokaorð þjóðfundarins ‒ Vér mótmælum allir ‒ voru lengi í minnum höfð sem eins konar hápunktur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Reiðibylgja reis upp gegn Trampe og skírðu menn hunda sína eftir amtmanninum víða um land í óvirðingarskyni við hann. Hann gerði þó ekki annað en uppfylla embættisskyldu sína með því að fylgja fyrirmælum frá Kaupmannahöfn. Trampe sat í embætti til 1860 og var oft líflegt í kringum hann. Hann efndi til leiksýninga í Stiftamtmannshúsinu, eins og Bardenfleth áður, og lék sjálfur. Einnig tók hann upp á að hafa tombólu (hlutaveltu) fyrir almenning í Stiftamtmannshúsinu en slíku fyrirbæri höfðu Íslendingar ekki kynnst áður.
Veisluhöld
Frederick Dufferin.
Stiftamtmenn sem sátu í Kóngsgarði við Lækjartorg voru fremstu menn landsins, eins konar forsætisráðherrar síns tíma, og héldu uppi risnu fyrir hönd yfirboðara síns, Danakonungs. Eftir að Alþingi var endurreist bauð stiftamtmaður þingmönnum jafnan til veislu í húsi sínu og þegar virðulega erlenda gesti bar að garði var þeim að sjálfsögðu boðið heim til stiftamtmannsins. Í tíð Trampes var óvenjulega mikið um hátignarlega gesti, sérstaklega sumarið 1856. Í júní komu breski lávarðurinn Frederick Dufferin í heimsókn. Fræg er lýsing hans á veislu honum til heiðurs í Kóngsgarði sem helstu embættismenn landsins sátu. Þar reyndu Trampe greifi og Dufferin lávarður að drekka hvorn annan undir borðið milli þess sem þeir héldu ræður á bjagaðri latínu. Dufferin segist í ferðasögu sinni muna óglöggt eftir því hvernig veislan endaði.
Í sama mánuði kom franskur floti til Reykjavíkur og var fyrir honum Jerôme Napóleon prins, bróðursonur Napóleons mikla og frændi Napóleons III sem þá var við völd í Frakklandi. Danska blaðið Fædrelandet var mjög hneysklað á yfirgangi Frakka í þessari heimsókn. Það skýrir svo frá veislu sem Trampe greifi hélt Napóleons prins til heiðurs:
Jerôme Napóleon.
„Í stærstu stofunni í bústað stiftamtmanns blöstu við tvö stór og glæsileg olíumálverk af franska keisaranum [Napóleon III] og keisaraynjunni. Sýna málverkin þau bæði standandi og í nær fullri líkamsstærð. Þessi sömu málverk höfðu áður skreytt danssalinn stóra í herskipinu Artemise, þegar veisla var haldin þar um borð 6. júlí. Heyrst hafði, að Napóleon prins hefði gefið Trampe greifa þessi málverk, en þegar boðsgestir spurðu nú Demas flotaforingja um þetta, þá var svar hans, að þau „hafi verið gefin stiftamtmannsbústaðnum“… Segja má að þessi stóru og verðmætu málverk hafi í veislunni sett sinn sterka svip á stofu greifans og það svo, að menn tóku varla eftir málverkinu af Kristjáni VIII Danakonungi, sem fært hafði verið úr Alþingissalnum og hengt upp á milli myndanna af Frakkakeisara og frönsku keisaraynjunni. Enn síður bar á myndinni af okkar núverandi konungi, Friðriki VII, en málverk af honum hékk í bakgrunni andspænis inngangi.“
Síðar þetta viðburðaríka sumar í Reykjavík kom Vilhjálmur prins af Óraníu, ríkisarfi Hollands, og var honum haldin mikil kvöldveislu í Stiftamtmannshúsinu og dansað í garðinum.
Hilmar og Olufa Finsen
Hilmar Finsen.
Staða Íslands var í óvissu á þessum árum og var enginn stiftamtmaður skipaður um fimm ára skeið eftir að Trampe hvarf á braut árið 1860. Þórður Jónassen landsyfirréttardómari gengdi þá stöðu setts stiftamtmanns og bjó í Stiftamtmannshúsinu ásamt fjölskyldu sinni.
Meðan Alþingi sat að störfum sumarið 1865 var nýr stiftamtmaður að koma sér fyrir í embættisbústaðnum fyrir austan læk. Hann hét Hilmar Finsen, 41 árs gamall, og átti eftir að sitja þar lengi. Hann var íslenskur að föðurkyni, sonarsonur Hannesar Finnssonar Skálholtsbiskups, en fæddur og uppalinn í Danmörku enda danskur að móðurkyni. Hann hafði verið bæjar- og héraðsfógeti í Sønderborg í Slésvík en hrakist þaðan þegar Prússar hernámu Slésvík árið 1864. Ísland hafði verið í stjórnskipunarlegu tómarúmi frá því að einveldi var afnumið 1849 og nú bundu dönsk stjórnvöld vonir við að Hilmar Finsen gæti haft áhrif á Íslendinga vegna íslensks ætternis síns og annarra hæfileika þannig að hægt yrði að festa Ísland örugglega innan vébanda Danaveldis.
Olufa Finsen.
Um leið og Hilmar tók við embætti stiftamtmanns gerði hann ráðstafanir til að stækka Stiftamtmannshúsið sem honum þótti of lítið. Hann fór fram á að fá að hækka framhlið hússins um eina hæð en til vara að byggja stóran kvist. Stjórnvöld í Danmörku féllust á varatillöguna og sumarið 1866 var breiðkvisturinn, sem síðar hefur sett svip á framhlið hússins, bætt við en með honum stækkaði húsið verulega. Kvisturinn var notaður fyrir skrifstofur embættisins og skjalasafn en stiftamtmannshjónin tóku alla neðri hæðina undir íbúð sína. Við sama tækifæri var núverandi dyraumbúnaður í gotneskum stíl settur á aðalinngang hússins og hellur á þakið í stað timburþaks. Danski byggingarmeistarinn C. Klentz bar ábyrgð á þessum breytingum.
Stiftamtmannsbústaðurinn var mikið menningarheimili á dögum Hilmars og Olufu konu hans sem var dönsk. Hún var tónlistarmenntuð og beitti sér mjög í tónlistarlífinu í Reykjavík auk þess sem hún átti veigamikinn þátt í stofnun Kvennaskólans í Reykjavík. Sjálf kenndi hún á píanó og hafði milligöngu um að útvega þeim Íslendingum sem hugðu á tónlistarnám í Kaupmannahöfn góða kennara. Hún varð fyrst til að æfa blandaðan kór kvenna og karla í Reykjavik 1868 og samdi sjálf kantötu sem flutt var við útför Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur vorið 1880.
Í kjölfar svokallaðra stöðulaga, sem sett voru einhliða af Dönum 1871, var sett á stofn embætti landshöfðingja í stað stiftamtmannsembættisins og var Hilmar Finsen skipaður fyrsti landshöfðinginn árið 1873. Þjóðfrelsisöflunum á Íslandi líkaði ekki þróun mála og að morgni þess dags sem landshöfðingi tók við embætti urðu menn þess varir að á fánastöng framan við Landshöfðingjahúsið, sem nú var svo kallað, hafði verið dregin upp tuska sem á var letrað „Niður með landshöfðingjann“. Sumar frásagnir herma að með tuskunni hafi hangið dauður hrafn. Einnig voru fest upp spjöld víða um bæinn með samhljóða áletrunum. Var þetta allt fjarlægt í skyndi.
Konungsheimsóknin 1874
Konungsheimsóknin 1874.
Árið 1874 var uppi fótur og fit í Reykjavík. Í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar ætlaði konungurinn sjálfur, Kristján IX, að heimsækja landið. Var það í fyrsta sinn sem konungur lét svo lítið að heimsækja þessa fjarlægu eylendu. Ekki var um mörg hús í Reykjavík að ræða sem gætu hýst konung og varð það úr að Hilmar Finsen landshöfðingi og Olufa kona viku fyrir konungi í Landshöfðingjahúsinu og fluttu sjálf upp á loft. Anna dóttir þeirra minntist þessa síðar í viðtali. Hún sagði:
Kristján IX.
„Ég var að vísu ekki nema sex ára. En ég man eftir öllu umrótinu, sem var í húsinu, meðan verið var að undirbúa komu þeirra Kristjáns IX og Valdimars prins. Stiftamtmannshúsið eða Landshöfðingjahúsið, sem þá var kallað, því þá var faðir minn orðinn landshöfðingi, var allt fágað og prýtt. Íbúð okkar var á neðri hæð, en skrifstofur og skjalasafn uppi á lofti. Við urðum að flytja okkur upp á loftið, jafnvel inn í skjalakompuna, svo að hinir tignu gestir gætu haft íbúðina niðri. Þeir sváfu alltaf í íbúð okkar, meðan þeir dvöldu í Reykjavík og borðuðu morgun- og kvöldverð hjá okkur… Kristján konungur var mjög blátt áfram og lítilþægur í daglegri umgengni. Daginn, sem hann kom og fylgd hans, vorum við landshöfðingjabörnin í okkar fínu, nýju fötum. Við systurnar höfðum lært að hneigja okkur. Þegar konungur kom og ég hneigði mig fyrir honum, klappaði hann á kollinn á mér og sagði: „Vel hefur þú lært að hneigja þig, stúlka litla“. Eitt sinn spilaði hann kroket á vellinum við Landshöfðingjahúsið. Það þótti okkur ekki ónýtt.“
Eins og kunnugt er færði Kristján IX Íslendingum stjórnarskrá í þessari ferð og fer vel á því að stytta af honum með stjórnarskrána í hendi standi fyrir framan Stjórnarráðshúsið. Kristján IX var stundum kallaður tengdafaðir Evrópu því að síðar urðu bæði Bretakonungur og Rússakeisari tengdasynir hans og einn sona hans varð Grikkjakonungur. Má heita að allt kóngaslekti í Evrópu sé nú af honum komið.
Bergur Thorberg og Magnús Stephensen
Bergur Thorberg.
Hilmar Finsen lét af embætti landshöfðingja 1882 og varð síðan um skeið innanríkisráðherra Dana. Eftir hann gegndu tveir Íslendingar embætti landshöfðingja þar til heimastjórn komst á árið 1904. Þeir voru Bergur Thorberg sem tók við af Hilmari en lést í embætti 1886 og Magnús Stephensen, síðasti landshöfðinginn.
Til er lýsing á húsakynnum Landshöfðingjahússins á dögum Magnúsar Stephensen og er hún á þessa leið:
Frá útidyrum var fyrst komið inn í lítið fordyri. Til hægri handar var skrifstofa landshöfðingjans en inn af henni svokallað frúarherbergi. Þar hafði landshöfðingjafrúin afdrep eða vinnustofu. Baka til sunnan megin í húsinu var stærsta og veglegasta stofa hússins, svokallaður salur, og inn af henni í suðausturhorninu lítið herbergi sem gekk undir nafninu kabinet.
Magnús_Stephensen.
Til vinstri handar við fordyrið var gengið inn í svefnherbergi landshöfðingjahjónanna en inn af því var barnaherbergi. Stórt eldhús var þar fyrir aftan í norðausturhluta hússins en bakdyrainngangur í bláhorninu. Í miðju hússins aftan til ‒ milli eldhúss og salar ‒ var borðstofa. Hægt var að ganga beint inn í hana úr forstofunni.
Úr forstofunni lá stigi í sveig upp á efri hæðina. Þar í suðurhelmingi kvistsins vestan megin var hin almenna skrifstofa landshöfðingja. Þar sátu landshöfðingjaritarinn og skrifari að störfum. Norðanmegin í kvistinum voru skjalageymslur. Í norðurenda uppi hafði landshöfðinginn þrjú svefnherbergi auk þurrklofts.
Stjórnarráð Íslands
Fálkamerkið.
Við stofnun heimastjórnar 1. febrúar 1904 var ákveðið að Landshöfðingjahúsið yrði aðalaðsetur landsstjórnarinnar, síðar ríkisstjórnar Íslands, og hefur það síðan verið kallað Stjórnarráðshús. Jafnframt var ákveðið að gera það einvörðungu að skrifstofuhúsi. Fálkamerkinu, hinu nýja skjaldarmerki Íslands, var þá komið fyrir yfir höfuðinnganginum. Allmiklar breytingar voru einnig gerðar á húsinu.
Borðstofunni baka til, sem gengið var inn í beint úr fordyrinu, var nú skipt í tvö herbergi, annað var gert að biðstofu, hitt að herbergi dyravarðar. Skrifstofa Hannesar Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands, var í salnum baka til í sunnanverðu húsinu en kabinetið þar fyrir innan varð nú eins konar hvíldarherbergi ráðherrans. Eldhúsinu, sem áður var aftan til í húsinu norðanverðu, var breytt í skrifstofu Klemensar Jónssonar landritara en staða hans var ígildi ráðuneytisstjóra sem síðar varð.
Skjaldamerkið var sett á Stjórnarráðshúsið á valdatíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Undir ráðherra Íslands voru þrjár skrifstofur sem hver um sig hafði afmörkuð verkefni, líkt og ráðuneytin síðar. Fyrstu skrifstofu, sem annaðist dóms- og kirkjumál, var komið fyrir í herbergjunum tveimur til hægri við innganginn þar sem áður var skrifstofa landshöfðingja og frúarherbergi. Þar réði ríkjum Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Önnur skrifstofa, sem annaðist atvinnu- og samgöngumál, var beint á móti í herbergjunum þar sem áður voru svefnherbergi landshöfðingjahjónanna. Þar réði ríkjum Jón Hermannsson skrifstofustjóri. Í kvistinum uppi var svo þriðja skrifstofa, sem annaðist fjármál. Þar var Eggert Briem skrifstofustjóri. Uppi á lofti var einnig íbúð dyravarðar í norðurendanum, skjalageymslur og fleira.
Þegar ráðherrar urðu þrír árið 1917 var óhjákvæmilegt að stækka Stjórnarráðshúsið. Var þá ráðist í að setja kvist á austanvert húsið, svipaðan þeim sem er á framhliðinni. Þeirri framkvæmd var lokið um haustið. Auk þess var innréttuð íbúð fyrir dyravörð í litlu timburhúsi sem stóð fyrir aftan Stjórnarráðið og hafði verið notað fyrir geymslur. Þar bjó dyravörður hússins allt til ársins 1958.
Stjórnarráðshúsið.
Í nýja austurkvistinum voru útbúin tvö ráðherraherbergi og biðstofa á milli þeirra. Fyrstu ráðherrarnir sem sátu í þessum nýju skrifstofum voru Sigurður Jónsson atvinnumálaráðherra og Sigurður Eggerz fjármálaráðherra. Fjármálaráðuneytið hafði allan vesturkvistinn en atvinnu- og samgönguráðuneytið lagði undir sig norðurhelming hússins niðri. Jón Magnússon forsætisráðherra, sem auk þess fór með dóms- og kirkjumál, var með suðurhelminginn.
Starfsmenn Stjórnarráðsins, sem unnu í húsinu, voru 13 árið 1904 og fjölgaði ekki fyrr en á tímum fyrri heimsstyrjaldar en árið 1917 voru þeir þá taldir 23. Árið 1939 voru þeir orðnir 31. Eftir það varð ör fjölgun í mannahaldi auk þess sem húsið sprengdi af sér starfsemina.
Fullveldisathöfnin
Fullveldishátíðin 1918.
Hinn 1. desember 1918 var Ísland viðurkennt fullvalda ríki. Í skugga Spænsku veikinnar og erfiðleika, sem fylgdu fyrri heimsstyrjöldinni, fór þá fram áhrifamikil og alvöruþrungin athöfn við Stjórnarráð Íslands. Veður var hið fegursta, heiðríkt og þurrt. Danska herskipið Islands Falk var í Reykjavíkurhöfn og var það fánum prýtt í tilefni dagsins. Stuttu eftir klukkan hálf tólf gengu sjóliðar af herskipinu í fylkingu með axlaðar byssur og bera byssustingi frá bryggju og upp á Stjórnarráðsblettinn. Jafnframt safnaðist þar fyrir nokkur mannfjöldi. Síðastir komu foringjar herskipsins, skrýddir einkennisbúningum og konsúlar erlendra ríkja sem þá voru í Reykjavík. Þeir gengu upp að dyrum Stjórnarráðshússins en þar var fyrir ríkisstjórn Íslands og helstu embættismenn og borgarar Reykjavíkur.
Klukkan kortér i tólf hófst athöfnin með því að lúðrasveitin Harpa lék Eldgamla Ísafold. Sigurður Eggerz fjármálaráðherra hélt síðan ræðu en að henni lokinni var hinn nýi ríkisfáni Íslands dreginn í fyrsta skipti að húni á fánastöng sem komið hafði verið fyrir á vesturkvistinum. Karlmenn tóku ofan hatta sína en Islands Falk lét 21 fallbysskot ríða af í virðingarskyni við hina fullvalda þjóð. Sjóliðarnir hylltu síðan fánann og lúðrasveitin lék fánasönginn, Rís þú unga Íslands merki. Þegar þessu var lokið flutti Lorck skipherra ávarp og síðan var leikið Kong Christian á horn. Síðan hrópuðu allir nífalt húrra fyrir kónginum. Jóhannes Jóhannesson, forseti Sameinaðs þings, flutti minni Danmerkur með tilheyrandi húrrahrópum og danski þjóðsöngurinn var leikinn en athöfninni lauk með „Ó, guð vors lands“ og húrrahrópum fyrir hinu nýja íslenska ríki.
Lýðveldishátíðin 1944
Lýðveldishátín 18. júní 1944.
Hinn 18. júní 1944, daginn eftir lýðveldisstofnun, fóru fram mikil hátíðarhöld í Reykjavík. Í ritinu Lýðveldishátíðin segir:
„Stjórnarráðið – en svo heitir það í daglegu tali – var eins konar altari þessa mikla mannfundar. Það ræður enn, þó gamalt sé og ekki háreist, öllum svipnum á Lækjartorgi… En undir þess æruverðuga, gráa múr fór nú fram fyrsti þjóðfundur hins unga lýðveldis – eftir sjálfan stofndaginn – þar sem fyrsti forsetinn hélt sína fyrstu stórræðu og fulltrúar allra landsmálaflokka mættust einhuga um þann hornstein, sem nú væri lagður að framtíð þjóðarinnar.“
Ráðuneytin tínast í burtu ‒ forsetaskrifstofan
Stjórnarráðshúsið.
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg var látið duga fyrir ráðuneytin til ársins 1939 og þykir mörgum það kynlegt nú til dags, miðað við hversu umfang þeirra er orðið mikið. Arnarhvoll við Lindargötu var að vísu tekinn í notkun 1930 en í honum voru framan af eingöngu stofnanir og embætti á vegum ríkisins en ekki ráðuneytin sjálf.
Árið 1939 tók við völdum svokölluð þjóðstjórn en í henni voru fimm ráðherrar en höfðu aldrei verið fleiri en þrír fram að þeim tíma. Ljóst var að ekki var pláss fyrir fimm ráðherra í Stjórnarráðshúsinu. Var þá gripið til þess ráðs að flytja fjármálaráðuneytið í Arnarhvol en atvinnumálaráðuneytið flutti í húsnæði þess uppi á lofti Stjórnarráðshússins. Nýstofnað viðskiptaráðuneyti fékk og inni í Arnarhvoli. Á næstu árum jókst mannahald ráðuneyta óðum, eins og áður var vikið að, og ný voru stofnuð. Atvinnumálaráðuneytið var flutt í Arnarhvol árið 1943 en dóms- og kirkjumálaráðuneytið í Túngötu 18 árið 1946. Voru þá einungis forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og menntamálaráðuneytið eftir í gamla Stjórnarráðinu, það síðastnefnda uppi á lofti. Skrifstofa forsætisráðherra var í aftanverðu húsinu sunnan til en skrifstofa utanríkisráðherra til vinstri handar við fordyrið í húsinu framan til.
Vigdís Finnbogadóttir forseti.
Menntamálaráðuneytið var flutt að Hverfisgötu 6 árið 1968 og utanríkisráðuneytið í húsakynni lögreglustöðvarinnar við Hlemm árið 1973.
Forsætisráðuneytið var þá eitt eftir ráðuneyta í gamla Stjórnarráðinu og hefur svo verið fram á þennan dag.
Þegar utanríkisráðuneytið hvarf á brott var skrifstofa forseta Íslands flutt í fyrri skrifstofur þess í framanverðu húsinu norðan til. Áður hafði skrifstofa forsetans verið í Alþingishúsinu. Þarna sátu síðan Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir í nábýli við skrifstofur framkvæmdavaldsins og í raun undir forsjá forsætisráðherra í húsnæðismálum. Árið 1996, áður en Ólafur Ragnar Grímsson tók við embætti forseta Íslands, ákvað ríkisstjórn Íslands að kaupa húsið Sóleyjargötu 1 fyrir forsetaskrifstofur og hefur forsætisráðuneytið síðan haft allt hið gamla og sögufræga Stjórnarráðshúsið til afnota. Forsætisráðherrar Íslands frá Hannesi Hafstein til þessa dags hafa allir með tölu setið í húsinu.
Allmiklar endurbætur og viðgerðir fóru fram á Stjórnarráðsbyggingunni eftir að skrifstofa forseta Íslands var flutt annað. Um húsakynni eftir þær úrbætur segir Þorsteinn Gunnarsson arkitekt:
„Sé gengið í bæinn eftir endurbætur, er fyrst komið í forstofu, sem eitt herbergja í húsinu hefur alla tíð haldist óbreytt að stærð og lögun… Úr forstofu er gengið í biðstofu, sem ásamt tveimur forrýmum báðum megin forstofu er klædd brjóstþili og að ásýnd áþekk innri gerð hússins á tímabilinu 1873-1917. Inn af biðstofunni eru í suðurenda hússins skrifstofuherbergi aðstoðarmanns ráðherra og fundarherbergi ríkisstjórnar, en í norðurenda fundarherbergi og skrifstofa forsætisráðherra. Þessi herbergi eru nú heilklædd innan eins og 1820, þrjú þeirra með nýsmíðuðu brjóstþili og römmum, en hið fjórða og fyrstnefnda þiljað innan með leifum af klæðningum úr sal Moltke greifa. Á efri hæð hússins er frágangur allur einfaldari og með svipuðu sniðir og tíðkaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar.“
Stjórnarráðsbletturinn og stytturnar
Tukthúsið 1820.
Árið 1787 var danskur maður, Henrik Scheel, skipaður ráðsmaður tugthússins. Hann var áhugamaður um garðrækt og gróðursetti m.a. tré á lóð hússins. Þau tré mörkuðu upphaf trjáræktar í Reykjavík. Hann var einnig með blóma- og matjurtagarða fyrir framan húsið og hafði þar vermireiti og listhús.
Stjórnarráðshúsið.
Á dögum stiftamtmanna og landshöfðingja voru miklir matjurtagarðar í brekkunni og sjást þeir á elstu myndum af því. Bletturinn fyrir framan húsið náði alveg niður að Læknum og var brú yfir Lækinn gegnt húsinu með fallegu handriði báðum megin og veglegu hliði. Einnig var um tíma grindverk meðfram læknum fyrir framan blettinn. Grjótgarðar afmörkuðu lóðina við Bankastræti og Hverfisgötu ‒ eftir að hún kom 1905.
Þegar heimastjórnin komst á 1904 og húsið var gert að Stjórnarráði Íslands voru kálgarðar á Stjórnarráðsblettinum fljótlega aflagðir en ráðherrahestarnir voru gjarnan hafðir þar á beit meðan þeir voru við lýði. Lækurinn var byrgður árið 1912 og um það leyti var Stjórnarráðsbletturinn girtur af frá Lækjartorgi með steinstólpum og pottjárnsgirðingu. Árið 1925 var sams konar girðing sett meðfram Bankastræti en lengi var bárujárnsgirðing Hverfisgötumegin.
Styttan af Jóni Sigurðssyni, leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öld, var afhjúpuð við Stjórnarráðið 1911 þar sem hún stóð allt til ársins 1931 þegar hún var flutt á Austurvöll. Þar stendur Jón enn í dag og fylgist með alþingi og mannlífinu í miðbænum. Styttuna, og lágmyndina „Brautryðjandinn“ á stalli hennar, gerði Einar Jónsson myndhöggvari í tilefni af 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar (17. júní 1811 – 7.desember 1879) og var verkið gjöf frá Íslendingum austanhafs og vestan.
Stór flaggstöng var á Stjórnarráðsblettinum þar sem Dannebrog var flaggað í tíð stiftamtmanna, landshöfðingja og fyrstu ráðherranna. Þegar Íslendingar fengu eigin fána 1915 var önnur flaggstöng reist og var þá um þriggja ára skeið bæði Dannebrog og íslenska fánanum flaggað. Þessar stangir voru teknar niður eftir að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki 1918. Íslenska fánanum hefur síðan verið flaggað á vesturkvisti hússins.
Sytta af Kristjáni IX. framan við Stjórnarráðshúsið.
Á 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní 1911 var höggmynd hans eftir Einar Jónsson myndhöggvara komið fyrir framan við Stjórnarráðsbygginguna og árið 1915 annarri af Kristjáni IX eftir sama mann.
Styttan af Jóni Sigurðssyni var flutt á Austurvöll 1931 en í stað hennar var afhjúpuð stytta af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherranum, á þeim stað sem styttan af Jóni hafði áður staðið. Er hún einnig eftir Einar Jónsson.
Árið 1971 var Lækjargata breikkuð fyrir framan Stjórnarráðið og var þá Stjórnarráðsbletturinn minnkaður verulega og stytturnar fluttar ofar í lóðina. Girðingin fyrir framan húsið var þá tekin af en í stað hennar komu upphækkuð blómabeð með tröppum sem liggja að gangveginum að húsinu. Hefur svo verið síðan.
Heimild:
-https://www.stjornarradid.is/raduneyti/forsaetisraduneytid/stjornarradshusid/
Stytta af Hannes Hafstein framan við Stjórnaráðshúsið.