Stóribolli

Gengið var upp með vestanverðu Stóra-Kóngsfelli austan við hraungíginn Eyra. Stefnt var að því að komast í Litla-Kóngsfell, en í því vestanverðu er Dauðsmannsskúti þar sem maður varð úti.

Eyra

Eyra.

Haldið var á bratt hraunflæmið þar sem það kemur í breiðum fossi fram af hlíðinni norðvestan við fellið. Nokkur myndarleg op eru í hlíðinni og líklegt er að þar kunni að leynast nokkrar hraunrásir, sem vert er að skoða við tækifæri.
Framundan var fallegur eldgígur, sem stundum hefur verið nefndur Kóngsfell, en er í rauninni hinn myndarlegasti þrátt fyrir ruglinginn. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að gígurinn hefur nokkurn veginn sömu lögun og hinir tveir kóngsfellsgígarnir á svæðinu. Gamburmosinn er þykkur á kafla og rjúpan virtist kunna vel við sig á „teppinu“.
Haldið var áfram suður með vestanverðum Strompum. Ekki var kíkt í hellana að þessu sinni, heldur gengið hiklaust áfram upp með gígaröðinni og suður fyrir hana. Þar mátti sjá u.þ.b. fimm metra rifu í sléttu helluhrauni. Undir var greinileg rás, en ekki var hugað frekar að henni að þessu sinni, enda lljóslaust. Þoka lagðist að á báðar hendur, en ratljóst var til suðurs.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Stefnan var tekin á sérkennilega nafnlausa gígaröð í nálægt hálftíma gang frá syðsta hluta Strompanna. Yfir slétt helluhraun var að fara. Gígaröð þessi liggur frá SV til NA eins og venjulega gildir um slíkar raðir. Hún er innan við kílómeters löng. Hún gæti verið hluti af lengri sprungurein lengra til norðurs. Fremur lítið hraun hefur runnið frá gosinu, aðallega til vesturs. Um er að ræða apalhraunsafsprengi inni í miðju helluhrauninu allt um kring. Hraunæðar voru víðar, en allar stuttar og þröngar. Norðan við gígaröðinni lá greinileg gömul gata áleiðis inn á heiðina há. Varða var þar skammt austar.
Frá gígaröðinni var að sjá að nálægt tuttugu mínútna gangur væri yfir að Litla-Kóngsfelli, þ.e. fjörutíu mínútur fram og til baka. Ákveðið var því að geyma heimsóknina í Dauðsmannskúta til betri tíma. Þá verður farið um Kerlingarskarð og áleiðis niður Selvogsgötu. Um 1 og 1/2 klst gang er að ræða þá leiðina.

Stóra-Kóngsfell

Stóra-Kóngsfell og nágrenni.

Þegar staðið var á gígaröðinni rofaði til. Ágætt útsýni var yfir að Miðbolla og Þríhnúkagígunum. Dökk þokuslæðan lá hins vegar yfir austrinu. Þá heyrðist sérkennilegt hljóð í þögninni er nálgaðist óðfluga. Skyndilega flugu fjölmargar gæsir í oddaflugi út úr þokunni til vesturs. Fögur sjón og einstök. Farfuglarnir á heimleið.

Talsverður ruglingur hefur verið á Kóngsfellsnafninu í gegnum tíðina. Líklega er það vegna þess að Kóngsfellin eru þrjú á þessum slóðum; Kóngsfell, Stóra-Kóngsfell og Litla-Kóngsfell.

Stóra-Kóngsfell

Gígur í Stóra-Kóngsfelli.

Landamerkin hafa verið dregin um „Kóngsfell“, svonefnt „Konungsfell“, einnig nefnt „Stóri-Bolli“, og því sýna landakort hinar ýmsustu útgáfur landamerkjalínanna. Þær eru ýmist dregnar í Kóngsfell (Konungsfell/Stórabolla) ofan við Miðbolla, Stóra-Kóngsfell norðvestan Drottningar eða Litla-Kóngsfell sunnan Stórkonugjár. Kóngsfellið var nefnt svo vegna þess að á haustin söfnuðust í því fjárkóngar svæðanna, sem áttu mörk um fjallið. Þar réðu þeir ráðum sínum áður en hver hélt í sína áttina með sínum mönnum.
Haldið var til baka að Strompunum og þeir síðan þræddir til norðurs, að upphafsreit. Snjór lá í lautum svo ráðlegra var að halda sig á hraunhryggjum í göngunni. Þarna eru víða göt og hellar undir svo allur er varinn góður.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Konungsfell

Konungsfell – kort 1908.

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum).

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili. Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.

Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir

Gönguferð um Hafnir.

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu.

Hafnir

Hafnir – frumdrög af meintum landnámsskála.

Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins.

Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanesbaer.is/
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Íslendingur
Bærinn Stekkjarkot er við Njarðvíkurfitjar, milli Ytri- og Innri-Njarðvíkur. Stekkjarkot var síðasti torfbærinn í byggð, í Njarðvík. Bærinn var að miklu leyti reistur úr torfi og grjóti.
StekkjarkotBúið var á bænum í um þrjátíu ára skeið en þó með hléum, á árunum 1857 til 1924. Stekkjarkot var þurrabúð og þar lifði fólk á sjósókn. Þurrabúð er verustaður fyrir sjómenn sem eiga sér ekki fastan viðverustað en leigja af bændum skika undir hús og fá aðgang að sjó. Þurrabúðin hafði hvorki ær né kýr. Þess vegna eru engin gripahús utan bæjarins í Stekkjarkoti, heldur er þar einungis lítil baðstofa með eldhúsi innst, bæjardyrum og göngum í skúrbyggingu og einu útihúsi með lægri burst. Þar hefur verið einn fjósbás, geymsla, útieldhús og eitt rúmstæði.

Stekkjarkot

Stekkjarkot – skilti.

Baðstofugaflinn er klæddur með reisifjöl, svo og gaflinn á útihúsinu. Matarkostur ábúenda var nú alls ekki fjölbreyttur og var því ekki úr miklu að moða. Helsta fæða ábúenda var tros, þ.e. fiskhausar, fuglakjöt og egg, svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu ábúendurnir (1921–1924) bjuggu þó við mun betri kjör. Þau áttu eina kú sem geymd var innst í göngunum. Í túnjaðrinum var kálgarður sem þótti gefa vel af sér. Það má segja að ábúendur í Stekkjarkoti hafi verið þekktir fyrir uppskeru sína þar sem að kálgarðurinn þótti frægur hvað varðar góðar kartöflur og næpur. Túngarðurinn í kringum húsið er afmarkaður með grjóthleðslu og önnur grjóthleðsla er í kring um kálgarðinn.
Þjóðleiðamót voru við Njarðvíkurfitjar; þar tengdust götur er lágu til Grindavíkur og Hafna, þjóðleiðirnar milli Innnesja og Rosmhvalaness hins forna. Stekkjarkot stendur skammt frá þessum fyrrum, grasi grónu, gatnamótum.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Stekkjarkot var upphaflega byggt 1856-’60 og búið var þar samfleytt til 1887. Þá lagðist Stekkjarkot í eyði í um 30 ára skeið, en var endurreist 1917. Fjórum árum síðar var þar orðið grasbýli, en svo voru nefnd býli á húsmanns-
lóðum, þar sem voru smávegis grasnytjar. Ekki hafa þær verið umtalsverðar í Stekkjarkoti, en örlítill túnbleðill er við kotið og grasnytjunum hefur fylgt sá sólargeisli að mjólkukýr hefur komið í kotið og útihúsið þá verið notað sem fjós. Vatn var sótt í brunn neðan við norðurgarð kotsins. Áleiðis að honum liggja hlaðnar tröppur. Annað sem fylgdi Stekkjarkoti var bátasskýli og saltbyrgi við Stekkjarkotsvör.

Stekkjarkot

Í Stekkjarkoti.

Inn úr bæjardyrunum er komið í breið göng sem hafa nýst sem geymsla, m.a. annars fyrir vatnstunnu og áhöld vegna sjósóknar. Þaðan er gengið til vinstri inn í eldhús með kolaeldavél frá síðustu árum búskapar í kotinu og þaðan inn í baðstofuna þar sem fjögur rúmstæði eru meðfram veggjum. Undir baðstofugólfinu er kjallari þar sem matur var geymdur, en síðast var búið í Stekkjarkoti 1924 eins og fyrr segir.
Eftir endurgerð Stekkjarkots 1994 var byggt útihús sunnan við kotið. Það ber fjósmerki, en tilgangur þess var ekki síst að uppfylla skilyrði um nútímalega salernisaðstöðu. Í því fer ágætlega saman slík aðstaða gamla tímans og hins nýja.
Kotið var ásamt hluta garðsins byggt upp undir stjórn Tryggva Hansen.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Núpar

Núpar eru önnur af tveim landnámsjörðum í Ölfusi, samkvæmt Landnámu. Þar var kirkja um tíma. Segja sumir að enn móti fyrir henni í hlíðinni ofan bæjanna. Forn kirkja við Núpa?
Ormur hinn gamli nam neðsta hluta Grafnings og efsta hluta Ölfuss. Mörk milli landnáma Orms og Álfs egzka voru um Varmá, sem er framhald Hengladalsár. Landnám Álfs hefur náð frá Varmá og sennilega út á Selvogsheiði, þar sem voru hreppamörk Ölfuss- og Selvogshreppa. Landnámsbærinn var Gnúpar, sem nú kallast Núpar.
Tvíbýli var lengi á Núpum og var skipting á túni og engjum mjög sérkennileg. Austurbær var 1/5 af jörðinni og var engjum skipt í þrennt og notaði Austurbær aldrei sama blettinn nema eitt ár í senn. Austurbæjarbóndi komst ekki á tún sitt, nema fara yfir tún Vesturbæjarbónda, og er sú sögn, að hann hafi selt Vesturbæjarbónda rein við bæinn fyrir mat í hallæri. Skákir eru hver innan um aðra ýmist frá Austur- eða Vesturbæ.
Stekkur við NúpaselSíðasti „ábúandinn“ að Núpum var Gunnlaugur Jóhannsson. Hann er nú (2007) 82 ára og býr í Hveragerði. Hann kom 2 og 1/2 árs að Núpum og bjó þar um 70 ára skeið.
Gunnlaugur sagði FERLIR Núpastíg liggja ofan við vestasta bæinn á Núpum, upp að Hjallhól. Þaðan lægi stígurinn svo í hlykkjum upp hlíðina, líkt og vegurinn um Kambana í gamla daga. „Uppi á jafnsléttunni liggur stígurinn vestur fyrir Núpafjall. Norðvestan þess er komið í Seldal. Þegar stígnum er fylgt inn dalinn má sjá skiptingu í hraunum, annars vegar nýrra hraunið og hins vegar maladrög. Ef stefnan er tekin á Skálafell og gengið u.þ.b. 400 metra? frá stígnum er komið að tættum – seli. Það er vel gróið og nánast horfið í jörðina. Tjörnin, Hurðarásvötn, er norðan við selið, en það á að vera um 200-300 m frá henni. Þarna hafa verið dýr á sumrin, enda skammt í vatn og hagar góðir. Fleiri nytjar hafa verið þarna. Norðaustan við Vötnin er t.d. gróin tóft.“

Hurðarásvötn

Hurðarásvötn – tóft.

Í örnefnaskrá fyrir Núpa segir m.a. um Núpastíg: „Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
Gunnlaugur sagði aðspurður næsta skarð að vestanverðu í Núpafjalli heita Valhnúksskarð. FERLIR hafði áður skoðað að upp úr því liggur gata, enda grasi gróið í skarðinu og vel upp fyrir brún. Gatan liggur áfram til vesturs í gegnum Hraunið og upp á Skógarveg (Suðurferðagötu).
Austan undir skarðinu er tvískipt rétt eða stekkur. Uppi í skarðinu er veggur af tóft. Enn ofar, áður en gatan, sem enn er greinileg þar sem hún liggur yfir austanverðan Þurárbrunann, beygir til norðurs með gróningum neðan við Stóradal er hlaðinn nátthagi eða rétt á hraunbrúninni. Annars er mikilfenglegt að horfa yfir Brunann úr skarðinu og sjá hvar hraunið (Þurárhraun) hefur safnast saman og stöðvast neðan við hlíðina.
Gunnlaugur sagðist kannast við þessi mannvirki. Nátthaginn væri sennilega gamalt selmannvirki, enda má sjá gamlan lækjarfar þar við og vætingu neðan við gróðurbrekkur, sem nú væru að blása upp. Stutt er í Seldalinn frá því. Leifar af mannvirkinu efst í Valhnúksskarðinu væru eftir hermenn, sem hefðu haft Núpaselþarna aðstöðu á stríðsárunum eftir 1941. Herinn hefði haft mikinn viðbúnað, bæði þar og á og við Núpafjall, eins og glöggt má sjá. Réttin, eða stekkurinn, neðan við Valhnúksskarð væru einnig fornar tættur, notaðar löngu fyrir hans tíð að Núpum. Þar heitir Fjárból. Það er ofan við vestasta túnið á Núpum, nefnt Stekkatún.
Suðurferðagatan liggur upp frá hlaðinu á Þóroddsstöðum um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Hún fylgir vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann  þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð.
Vatnsskarð er vestasta skarðið í hlíðinni vestan Núpa. Þar rann mesta hraunið ofan af fjallinu. Vatn rennur þar í leysingum. Valhnúkur er hnúkur (bergstandur) austan Vatnsskarðs. Arnarsetur er þar á bergsnös austan í Valhnúk. Þar verpti örn á árunum milli 1880 og 90. Ungur og ófyrirleitinn Ölfusingur kleif upp í hreiðrið, tók eggin og seldi þau fyrir peninga (Nielsen á Eyrarbakka). Sandskarð er mjótt skarð vestan við Núpahnúk, upp úr sömu gróningum og Valhnúkaskarð, sem er skammt vestar. Annað nafn á Sandskarði er Guðnýjarskarð. Enn annað nafn á því er Stekkatúnsskarð því Stekkatúnið er neðanvert við það. Þar er Fjárbólið, gróin brekka. Þar vestan undir stórum steini eru hlaðnir veggir á þrjá vegu. Fálkaklettur er einstakur klettur vestast í Stekkatúni. Líkist hann fugli í lögun. Valhnúksskarðið er skarð Álftaregg við Hurðarásvötnfast austan við Valhnúk. Undir skörðunum er Núpastekkatún: Gróin flöt neðan Fjárbóla. Sér enn fyrir stekknum. Austar er Núpahnúkur; þverhnnípt berg með hallandi lögum. Skagar lengst fram (suður). Í daglegu tali var bergið nefnt Hnúkurinn. Snorrahellir er hellisgjögur austan í Hnúknum, myndað af sjávargangi.
Núpastígur er, sem fyrr segir, gömul gata er lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Stígurinn liggur upp með Vatnsgili. Það kemur bak við Gráhnúk og rennur lækurinn norðan gamla túnsins. Vatnsklettur er stór klettur við Núpastíg.
Gráhnúkur nefnist eggjabrúnin norðan Vatnsgils, vestur að Núpastíg. Arnarhreiður er þar við smáskúta austan í Gráhnúk. Þar verpti örn fram yfir 1940. Sést þar fyrir auknum gróðri. Fýll hefur verpt  þar frá 1962. Smjörbrekka er gróin grasbrekka norðan Vatnsgils, neðan undir Arnarhreiðri.
Uppi á Núpafjalli eru Nónbrekkur, grasbrekkur móti suðaustri, upp af Valhnúksskarði. Þær eru ekki eyktamark frá Núpum því þær sjást ekki frá bænum. Líklega eru þær eyktamark frá Kröggólfsstöðum. Selásbrekkur eru brekkur í hrauninu upp af Vatnsskarði, suður og austur af Selás. Selás er lítil hæð og grasbrekkur í kring, Selásbrekkur. Þar er réttin (stekkurinn) eða nátthaginn á hraunbrúninni. Seldalurinn er gróin dæld upp frá Núpastíg. Þar lá gatan. Stundum var slegið og flutt á klökkum niður Núpastíg. Armæður heita hallalitlir melar austan við Seldal. Hurðarás er langur hryggur, ber hæst, liggur í sömu stefnu og fjallsbrúnin. Þjóðvegurinn liggur yfir hann nyrst. Á sumum landakortum er hann nefndur Urðarás. Rétt við mót Skógarvegar og götu að ValhnúksskarðiHurðarásvötnin eru í lægð með vötnum (tjörnum) í vestan Hurðaráss.
Allt framangreint var gott að hafa í huga áður en lagt var á Núpastíg. Eins og fram er komið er Hjallhóll ofan vegarins, brattur neðan suðvestasta bæjarins. Nokkrar gamlar fjárhústóftir úr torfi og grjóti eru austan og suðvestan undir hólnum. Suðvestan í honum, ofar en aðrar tóftir, er stór tóft með dyr mót austri. Snýr tóftin í austur og vestur. Vestan hennar er stór steinn og hefur verið gert hús utan í hann, aftan við tóftina. Þarna segja kunnugir að hafi verið hin forna kirkja eða hof á Núpum.
Gunnlaugur sagði að vestan í hólnum, neðarlega, væri stór þúfa, sem sumir teldu að gæti verið dys.
Upp frá Hjallhól var lagt á þversneiðingana í hlíðinni fyrir ofan. Í fyrstu virðist gatan ógreinileg, en skýrðist smám saman. Þegar upp á brúnina var komið var stefnan tekinn á suðurenda Núpafjalls. Núpastígur liggur um vestanvert Núpafjall, sem er heildarnafn á fjallinu, frá Sigmundarsnös og suður að Núpahnúk. Skammt suðaustan við fjallsranann eru gatnamót. Beygt var til norðurs líkt og Gunnlaugur hafði mælt með. Hátt mosahraunið leggst þar nokkuð þétt að fjallinu. Gatan liggur með hraunröndinni – og síðan svo til beint áfram inn að Hurðarásvötnum. Líklega hefur gatan sjálf legið nokkuð hærra og sunnar fyrrum, en selstígurinn síðan orðið honum yfirsterkari, enda heyjað á völlunum innan við það lengi vel. Þar sem (sel)gatan víkur frá hraunjaðrinum er Núpaselið á vinstri hönd.
Tóft efst í ValhnúksskarðiUm er að ræða fallegt sel með sex rýmum, auk þess sem stekkurinn hefur haldist nokkuð vel, enda verið lítil umferð um þetta svæði á síðari áratugum. Kví er vestan við megintóftina, sem sennilega hefur verið baðstofan. Eldhúsið er við hlið hennar að vestanverðu. Skýringin á að svo mörg rými eru þarna er líklega sú að selið var í þjóðbraut og aðstaða hafi verið gerð fyrir þreytta ferðalanga. Tóftirnar eru svo til við gömlu leiðina. Skýringin á sambyggðri tóft austan við selið gæti verið sú. Aðrar tóftir eru eðlilegar til sels að telja, þ.e. sjötta rýmið og það vestasta, hefur að öllum líkindum verið kví – næst stekknum. Austar og sunnar er ás og brekkur í fjallinu, væntanlega Selás og Selásbrekkur.
Þegar komið var upp að Núpafjalli mátti víða sjá leifar minja frá stríðsárunum. Af rústum einstakra kampa má nefna Camp Cameron sem Bretar reistu vorið 1941 við Hurðarásvötn í Seldal nærri Núpafjalli.
Fleiri minjar eru þarna nálægt, s.s. eina varðan er leiðbeint hefur vegfarendum að Hellisheiðargötunni, auk þríarma hleðslna á móbergshæð, er virðist gamalt í fyrstu, en hefur að öllum líkindum verið athvarf þriggja varðmanna þegar Bretinn var þarna með fyrrnefnda varðstöð skammt austar, austan við Hurðarásvötnin og sunnan til í Núpafjallinu. Þar má sjá leifar þeirra mannvirkja, s..s reykháf og grunna nokkurra húsa.
Álftir syntu um Vötnin, en athugull FERLIRsþátttakandi hafði áður veitt því athygli að önnur þeirra hafi staðið upp á litlum hólma norðan þeirra er hún varð mannaferða vör. Þegar hólminn var gaumgæfður kom í ljós hreiður með þremur eggjum. Allt var látið Valhnúksskarðósnert. Lognið var algert, álftahjónin liðu um lygnuna í rólegheitunum og mófuglarnir sáu um tónlistina, miklu mun betri en öll Eurovisionlögin til samans, sem leikin voru í fjarsýninu þetta kvöld.
Gatan norðan Vatnanna var rakin spölkorn, en síðan var snúið við og Núpastígur genginn að fyrrnefndum gatnamótum. Þar var Skógarveginum (Suðurferðagötunni) fylgt áfram til suðurs uns komið var að gatnamótum. Annars vegar heldur Skógarvegurinn áfram niður með vesturbrún Þurárbrunans þar sem hann greinist í tvennt; annars vegar um Vatnsskarð að Þurá og hins vegar niður að Þoroddsstöðum.
Í Jarðabókinni1703 segir m.a.: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellisheiði, þar Hurðarásvötn heita.“

Núpar

Núpar – selstígurinn.

Að þessu sinni var, skv. áætlun, gatan gengin til austurs (vinstri), fyrst um gróninga og síðan yfir haft á hrauninu. Áður en lagt var á mosahraunið var fyrir hlaðinn rétt, sennilega notuð til rúninga því vestan hraunsins eru grösugar brekkur og vilpur. Gunnlaugur taldi að mannvirkið gæti hafa tengst selstöðunni efra. Alla leiðina var gatan mjög skýr með austanverðri hraunbrúninni og hefur greinilega verið fjölfarin, hvort sem er af mönnum eða skepnum. Fljótlega birtist Valhnúksskarð. Ofan frá því má vel sjá hvernig hraunið hefur runnið niður skörðin að vestanverðu og staðnæmst á sléttunni fyrir neðan hlíðina. Efst í skarðinu er fyrrnefnd tóft frá veru hernámsins, að sögn Gunnlaugs.
Valhnúksskarð er gróið og auðvelt umgöngu. Þegar niður var komið þótti ástæða til að berja stekkinn við Fjárbólið augum. Hann er heillegur, tvískiptur. Neðar er tóft utan í stórum steini, sem fyrr er lýst.
Götunni var fylgt til norðurs undir Núpum með viðkomu í Snorrahelli uppi í hamraveggnum. Um er að ræða allsæmilegan skúta með op til austurs. Undir honum eru gróningar.
Á leiðinni frá Gnúpum var komið við í gróinni fjárborg við þjóðveginn að austanverðu skammt norðan gatnamótanna. Ekki er að sjá að borgarinnar hafi verið getið í örnefnaskrám, en þjóðvegurinn liggur svo til alveg við hana.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnaslýsing fyrir Núpa frá 1971.
-Gunnlaugur Jóhannsson.
-Jarðabók ÁM 1703.

Núpar

Núpakirkja – tilgáta. ÓSÁ.

Kapella

„Suður í hinum kaþólsku löndum Evrópu eru sums staðar litlar kapellur við vegi, einkum í fjöllum eða þar sem torleiði þykir.
Þessar kapellur eru til þess ætlaðar, að vegfarendur geti farið þar inn og Kross-201beðizt fyrir. Sums staðar eru látin nægja lítil ölturu eða jafnvel krossar einar. Allt þetta hefur líka verið tíðkað hérlendis. Enn er haldið við hinum alkunna krossi í Njarðvíkurskriðum, og mun hann og hin latneska áletrun á honum eiga rætur að rekja langt aftur í kaþólskan sið. Til skamms tíma mun mörgum þeim, er þar áttu leið um, hafa þótt hlýða að biðjast fyrir við krossinn, jafnvel þótt ekki væru sérlega bænræknir endranær. Hið forna traust á þessum krossi stóð djúpum rótum, enda talar það sínu máli, að hann skyldi eigi aðeins standa af sér þá herferð, er gerð var gegn öllum kaþólskum minjum á siðaskiptatímanum, heldur vera endurnýjaður hvað eftir annað á þeim tíma, er lúterskur siður var alls ráðandi, og síðan enn, eftir að veldi trúarbragðanna var mjög tekið að hraka. Svipað hefur gerzt í Drangey. Þar er klettastallur ofarlega í uppgöngunni, þar sem menn þurfa að handstyrkja sig upp , nefndur altari.
Það er og eftirtektarvert, að nálega tveimur öldum eftir að kaþólskur siður laut í lægra haldi í landinu, var grjótaltari reist á Siglufjarðarskarði að boði Steins biskups Jónssonar á Hólum, sökum þess, að menn höfðu þráfaldJega orðið þar bráðkvaddir, og séra Þorleifur Skaftason í Múla, sem þótti andríkastur klerka norðan lands, látinn syngja þar messu að viðstöddu fjölmennl og nálega vígja skarðið í anda Guðmundar góða.

Kirkjubol-221

Kemur fram í frásögnum um þessa atburði, að fram að þeim tíma hafði verið siður margra, er þarna áttu leið um, að gera bæn sína við stóra steina við götuna. Það er efalaust, að á kaþólskum tíma hafa víða staðið á víðavangi krossar, sem prestar hafa vígt með söng og vatni. Þessir krossar hafa sumir staðið á viðsjárverðum stöðum, þar sem reynslan hafði sýnt, að hætt var við slysum, öðrum hefur verið ætlað að bægja burt eða halda í skefjum illum öndum og skaðvænlegum vættum, og nokkrir verið til þess eins, að fólk gæti kropið að þeim, þótt ekki væri neinn sérstakur voði á næsta leiti. Það er ekki ósenhilegt, að ýmis bæjarnöfn og örnefni séu af þessum rótum runnin: Kross, Krossnes, Krossholt. Sá siður að reisa krossa á víðavangi hefur þegar borizt til lands með kristnu, írskkynjuðu fólki á landnámsöld, enda sagt berum orðum í Landnámu, að Auður djúpúðga hafi látið reisa krossa á Krosshólum í Hvammssveit og farið þangað til bænahalds. Ef kannað væri, kynni einnig að koma í ljós, að furðumargir staðir í landinu, þar sem huldufólk var talið hafa aðsetur, eru við kross kenndir.
Nú er það kunnugt frá nágrannalöndum okkar, að fólki á miðöldum stóð mikill ótti af álfum, og beitti ýmsum ráðum til þess að verjast þeim. Mætti geta sér þess til, að alsiða hafi verið að reisa hér krossa við byggðir huldufólks.
Fólk, sem slíkt gerði, hefði þó verið í sóknarhug, staðráðið í að knésetja álfana með krossum sínum og vígslum. En á þeim öldum, sem við kunnum betri skil á í þessu Kapelluhraun-221efni, var það einn þáttur góðs uppeldis að brýna fyrir börnum og unglingum að hafa ekki í frammi nein ólæti við bústaði huldufólksins, er gætu egnt það til reiði: Það er sem sé tímabil hirinar friðsamlegu samtilveru, svo að notað sé nýtízkulegt orðalag, þegar allir lögðu sig í framkróka um að gera ekki neitt það, er drægi hefnd á eftir sér, og höfðu kastað frá sér þeirri hugsun að sigrast á þessum leyndu verum. Það, er ekki heldur fráleitt að ímynda sér, að mjög víða hafi verið reistir krossar við lendingar. Það var ekki fágætt, að fiskirmönnum og sæförum hlekktist á í landtöku, og krossar á slíkum stöðum gátu gert tvöfalt gagn: Þeir gátu fyrst og fremst verið tákn þess, að staðurinn var falinn vernd almættis, og í öðru lagi gátu þeir, að minnsta kosti sums staðar, verið til leiðbeiningar um það, hvernig leggja skyldi að landi. Það er líka kunnugt, að krossar stóðu í lendingu í Bjarneyjum á Breiðafirði fyrr á tímum, og væri með öllu út í bláinn að láta sér til dæmis detta í hug, að nafn Krossvíkur á Akranesi væri af því dregið, að þar hafi einnig verið kross reistur endur fyrir löngu? Nákvæm rannsókn á örnefnum á þeim stöðum, þar sem sjór hefur verið stundaður í margar aldir, gæti ef til vill gefið vísbendingu um þetta.
Sá siður loddi lengi við, jafnvel víða allt þar til, að vélbátar komu til sögunnar, að menn tækju ofan sjóhatta sína og læsu sjóferðabæn, áður en róið var á miðin. Þetta er rótgróinn siður, sem tíðkaður hafði verið í margar aldir, og það þurfti ekkert minna en atvinnubyltinguna til þess að afnema hann. Fyrr meir kann jafnvel að hafa verið kropið að krossi, áður en á sjóinn var farið eða þegar komið var af honum. Við brottförina átti fyrirbæn vel við, en við landtöku kunna menn að hafa viljað gjalda þökk.
Kapella-227Af kapellum í líkingu við þær, sem til eru suður í hinum kaþólsku löndum álfunnar, fara ekki miklar sögur. Þó hafa slíkar kapellur án efa verið reistar hérlendis. Sæluhúsin, sem í öndverðu voru beinlínis tengd trúarhugmyndum manna eins og nafnið sýnir, kunna stundum meðfram að hafa verið einhvers konar kapellur, þó að fyrst og fremst beri að leggja þann skilning í nafnið, að bygging þeirra og viðhald hafi verið eitt þeirra líknarverka, sem í miklum metum voru í kaþólskum sið og líklegt þóttu til þess að greiða syndugum mönnum veg til dýrðarinnar. En hvað sem um þetta er, þá vill svo til, að fundizt hefur ein rúst, þar sem enginn vafi er, að verið hefur kapella. Örnefni benti til þess, að svo væri, og rannsókn tók af öll tvímæli. Og þessi eina kapella, sem við vitum með vissu, að verið hefur á víðavangi, ætluð vegfarendum til þess að hvílast þar og gera bæn sína, er í næsta nágrenni við höfuðstaðinn. Nú um nokkra áratugi hefur hún þó ekki verið fast við alfaraleið, en með nýja Suðurnesjaveginum hefur þetta breytzt aftur. Fyrir sunnan Hafnarfjörð heitir Kapelluhraun, svo sem margir munu vita. Það nafn ber nyrðri hluti hraunbreiðu, sem runnið hefur úr eldvörpum skammt frá Vatnsskarði allt til sjávar á allbreiðu svæði milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Er það ætlun manna, að þetta hraun hafi runnið eftir að land byggðist, en þó nokkru fyrir miðjafjórtándu öld, enda kallað Nýjahraun í gömlum annálum.
kapella-228Þegar hraunið kólnaði og eldsumbrotum linnti, hefur verið brýn þörf að ryðja veg gegnum þetta hraun í stað þess, er þar hafði tekið af. Enginn er til frásagnar um það, með hvaða ógnum hraunið kann að hafa brunnið, en vafalaust hafa náttúruhamfarirnar skotið fólki skelk í bringu. Og þá var nærtæk sú hugmynd að reisa kapellu í hrauninu við nýja veginn, er gerður var gegnum það, vegfarendum til halds og trausts. Til þess benda og allar líkur, að kapellan hafi einmitt reist um þetta leyti. Henni var valinn staður í miðri hraunbreiðunni, fast við veginn, sjávarmegin. Þangað var færð líkneskja dýrlings, sem líklegastur var til gagnsemdar á slíkum stað og beztur þótti til árnaðar á himnum, ef því var að skipta að firra voða af nýju eldgosi og hraunflóði. Fyrir valinu varð heilög Barbara, sem dó píslarvættisdauða á fjórðu öld og hefur síðan haldið hlífiskildi yfir trúuðu fólki, þegar um var að tefla óvæntan dauða, eld eða fárviðri.
Síðan liðu ár og aldir. Vermennirnir kjöguðu hraunið með skrínuf sínar. Skreiðarlestirnar mjökuðust áfram, og hófar hestanna mörkaðu dýpri og dýpri slóð í gljúpt grjótið. Kýldir valdsmenn á litklæðum riðu hjá með korða við hlið, og Hansakaupmenn með blaktandi fjaðrir í hatti renndu drýldnum fyrirlitningar augum yfir þetta gráa hraun. Og hundruð og þúsund manna viku af götu sinni inn í grjótbyrgið til þess að beygja kné sin fyrir heilagri Barböru og njóta athvarfs og endurnæringar í húsi hennar.

Kapellan-201

Loks ríður hér þessar krókóttu, niðurgröfnu hraungötur danskur mað ur og nefnist Kristján skrifari. Það kemur komið á daginn suður í löndum, að dýrlingar mega sín einskis á himnum og menn öðlast ekki þegnrétt á landi lifenda með góðverkum, heldur frelsast einungis af náð fyrir trúna. Höfuð síðasta kaþólska biskupsins er þegar laust af bolnum, og það er orðin geigvænleg villa að krjúpa heilagri Barböru. En menn halda áfram að laumast inn til hennar, skima kannski flóttalega í kring um sig, áður en þeir smeygja sér inn fyrir stafinn, en þylja samt bænir sínar við fótskör hennar.
Og enn líða ár og aldir. Smám saman dofnar ljómi dýrlingsins, og kapellan i hrauninu verður aðeins fáfengilegt grjótbyrgi, þar sem þægilegt getur verið að standa af sér hryðju. Það verður í skásta lagi svefnstaður förumanns, sem dagar uppi í hrauninu, lítt gangfrár sökum ófeiti. En að því rekur, að þakið fellur, steinar velta úr hleðslu og mosinn reiðir sæng í tóftinni. Enginn hirðir um að reisa það við, er úr skorðum fer. því að þetta er ekki lengur helgur staður, og fólk er hætt að vinna fyrir sálu sinni með því, sem má verða ókunnugum, vegmóðum manni til líknar.
Það er liðið að miðri nítjándu öld. í Görðum á Álftanesi situr séra Árni Helgason, svarakaldur hefðarklerkur, kominn vestan af fjörðum. Kotungarnir í Hraununum segja honum þá sögu, að undir grjóthrúgunni liggi bein Kristjáns skrifara og þeirra Dana annarra, sem Norðlendingar drápu grímuklæddir á Miðnesi í hefnd eftir Jón biskup Arason. Barbara er með öllu fallin í gleymsku.
kapellan-202Og þegar dagar séra Árna í Görðum eru allir, koma menn með járnkarla og haka og hestvagna og ryðja nýjan veg gegnum hraunið, mun ofar en gamla veginn. Áður en varir fara fjórhjóla ökutæki að skrönglast þennan veg með gný og stunum, því að bílaöldin er runnin upp, hálfu fjarlægari heilagri Barböru en nokkur önnur öld á íslandi. Samt minnast menn hinnar einkennilegu hleðslu í hrauninu. Og sumardag einn árið 1950 halda þangað fjórir menn með graftól og mælisnúrur. Þar er á ferð þjóðminjavörður landsins, Kristján Eldjárn, með einvalalið — Gísli Gestsson safnvörður, dr. Jón Jóhannesson prófessor og Jóhann Briem málari eru í för með honum. Erindið er að rjúfa þetta gamla mannvirki og kanna leyndardóma þess. Það eru ekki fúin bein Kristjáns skrifara, sem þeir finna. Þeir hafa ekki veríð hingað fluttir, sem dregnir voru út úr húsunum á Kirkjubóli á Miðnesi, enda á bækur skráð, að þeir hafi verið dýsjaðir þar við garð. Aftur á móti var Kirkjubólsbóndi, Jón garmurinn Kæniksson höggvinn í Straumi fyrir þær sakir, að hann leyfði, að húsin væru rofin og höfuð hans sett þar á sting. Kann þar að leita ástæðunnar til þess, að farið var að orða Kristján skrifara við kapelluna.
En það er af rannsókninni kapellan-203að segja, að þegar mjúkri mosasænginni hefur verið flett af kapellutóftinni, kom upp úr kafinu, að heilög Barbara er ekki vikin af staðnum. Hún hefur blundað þarna í nokkur hundruð ár, skorin í leirstein og með turn sinn á öxlinni, breiðleit kona og mittismjó með bylgjandi lokka við annan vangann. Og í kringum hana liggja skeifnabrot og hófnaglar, leirkerabrot og viðarkolabútar á víð og dreif um kapellugólfið — minjar um það fólk, sem öld eftir öld hefur staðnæmzt hér. Og á einum stað hírist krítarpípuleggur frá seytjándu öld, því að einhver samtíðarmaður Brynjólfs biskups hefur tyllt sér niður og drukkið tóbak innan þessara veggja.

kapellan-204

Hann gekk ekki með eldspýtur í vasanum, og hér var gott að leggja glóðarköggul í pípuhausinn í skjólinu. Samt hefur hann liklega ekki leitt hugann að því, að hann var hér staddur í skjóli þeirrar konu, sem firrði með voða af eldi – Og nú var þess skammt að bíða, að menn fýsti enn að gera nýjan veg yfir hraunið, svo að Lifreiðirnar kæmust á skemmri tíma milli Reykjavíkur og Suðurnesja. Það var komið að því, að fólk þurfti að flýta sér meira en nokkru sinni hafði áður þekkzt á íslandi. Og þá var vegurinn aftur færður í námunda við kapellu heilagrar Barböru. Ef þeir, sem nú þeysa veginn, mega vera að því að stiga örlítið á hemilinn, þá blasir rúst gömlu kapellunnar við augum, vinstra megin vegaríns, þegar farið er suður. Það er raunar ekki fagurt í kringum hana, því að járntennur tröllaukinna véla hafa níst og skafið hraunið og sópað mosanum burt. En það er fyrir mestu, að hús Barböru er þarna enn. Og þó að mönnum liggi reiðinnar ósköp á, þá hefur mosinn tímann fyrir sér. Hann mun græða sár hraunsins og breiða flos sitt yfir gjallið, sem tennur vélanna hafa urið. Farðu og skoðaðu kapelluna, og komdu svo aftur eftir hundrað ár: Þú munt komast að raun um að grámosinn hefur mikið iðjað.“

(Helzta heimild: Árbók Fornleifafélagsins).

Heimild:
-Tíminn, Sunnudagsblað – Að krossi og að Kapellu, 7. júní 1964, bls. 508-509 og 525
Kapella

Býjaskersrétt

Í Faxa 1980 spyr Skúli Magnússon „Hvort er réttara; Býjasker eða Bæjarsker?

„Halldóra á Bæjarskerjum sendi Faxa pistil um örnefnið Bæjarsker, sem birtist í 2. tbl. 1980. Hallaðist hún jafnvel að því að kalla eigi jörðina Býjasker. Vitnar hún þar í nokkrar heimildir frá seinni tímum máli sínu til stuðnings.

Býjasker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan Reykjanesskaga. Væntanlega heftir Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög. Víkin fyrir innan eyrina var kölluð Sandgerðisvík. Víkin þótti ákjósanleg til útgerðar mótorbáta. Fyrsti mótorbáturinn, sem kom til Sandgerðis, hét Gammur RE 107. Kom hann 4. febrúar 1907 og komu þar með mótoristar til starfa. Sá fyrsti hét Olaf Olsen, sem var síðar þekktur maður í Njarðvíkum.

Meðal annars til ritgerðar eftir Magnús Þórarinsson frá Flankastöðum. Líklega mun óhætt að treysta frásögnum hans, enda hefur maðurinn skráð einhverjar bestu ritgerðir sem til eru um Suðurnes. Greinarnar eru nákvæmar, á góðu máli og bera vott um mikla glöggskyggni höfundarins á umhverfi sitt. Bókin „Frá Suðurnesjum„, sem út kom 1960, er að miklu leyti handverk Magnúsar, og ber þess glöggt vitni. Þátturinn um leiðir og örnefni á Miðnesi er t.d. stórmerkur og virðist traust heimild. Bókin er eflaust sú besta sem komið hefur frá Suðurnesjum, enda skrifuð af heimamönnum, er þekktu nágrenni sitt allt frá æsku.
Frá SuðurnesjumEn svo ég snúi mér að efninu var erindið að skýra frá nokkrum niðurstöðum, sem ég fann, eftir að hafa kannað lítillega heimildir um örnefnið Býjasker.
Eftir því sem ég komst næst við lestur Fornbréfasafnsins, sem er ein aðalheimild Íslendingasögunnar, hefur snemma orðið venja að skrifa „Býja-“ í stað „Bæjar-„. Í nafnaskrá Fornbréfasafns er orðið býr gefið upp í merkinu bær. Vel má vera að þarna liggi ráðningin. Í orðabók Menningarsjóðs er hins vegar talað um býjarbyggð, „að hafa býjarbyggð“, í merkingunni að annast févörslu. Orðið er gamalt og tíðkast lítið í nútímamáli. Einhverjum kynni að detta í hug skyldleika orðsins við dönsku, jafnvel að áhrifa gæti þaðan. Ekki þarf það að koma til greina, þar eð orðmyndin „Býja-“ kemur strax fyrir um 1270. Skyldleiki getur hafa orðið við norskuna, enda höfðu Íslendingar meiri samskipti við Norðmenn á þessum tíma, en suður til Danmerkur.
Nafnið Bæjarsker kemur fyrst fyrir í Landnámu. Þar er frásögn af hólmgönguáskorun Hrolleifs í Heiðabæ í Þingvallasveit gegn Eyvindi í Kvíguvogum syðra.
Segir, að þeir hafi í staðinn „keypt löndum. Eyvindr bjó nokkra vetr síðan í Heiðabæ ok fór síðan á Rosmhvalanes til Bæjarskerja …“. (Ísl.sögur I, bls. 230-31. Rvík 1953).
Fram að þessu hefur gullaldarmálið staðið fyrir sínu, og trúlega er þetta upphaflegur ritháttur nafnsins. En er á leið breyttist orðið í meðförum, og um 1270 er það: „bíasker“, í skrá yfir hvalskipti Rosmhvelinga, sem prentuð er stafrétt í Fornbréfasafni. (II. bindi, bls. 77).

Býjasker

Býjasker – loftmynd 2020.

Í Hítardalsbók, sem hefur að innihalda kirknaskrá, frá um 1367, (handritið talið skr. um ca. 1650), er rætt um „Býjasker“. (Fornbr.sa. III, bls. 221). Á Bæjarskerjum var þá kirkja, helguð heilögum Úlafi Noregskonungi. Þarna kemur nafnið fyrst fyrir í núverandi mynd. Er það síðan skrifað þannig allar götur til 1570, nema í reikningum Kristjáns skrifara á Bessastöðum. Þeir reikningar eru yfir tekjur af konungsjörðum víða um land fyrir árin 1547-48. Þar er jörðin kölluð „Beersker“. Trúlega kennir þar þýskra áhrifa, enda var Kristján ættaður frá Þýskalandi (Fornbr.s. XII, bls. 116). Hins vegar kemur fram í VII. bindi Fornbréfasafns, bls. 53, að máldagi Brautarholtskirkju á Kjalarnesi, var lesinn upp, á héraðsþingi á „Bæjarskerjum“ 6. febr. 1749. Máldaginn var hins vegar frá miðöldum og hefur trúlega verið lagður fram sem sönnunargagn í einhverju máli, sem þá var háð. Þarna kemur orðið í ljós, við upplestur og bókfærslu á 18. öld.

Býjasker

Býjaskershverfi – túnakort 1919.

Ekki hafði ég tíma til að kanna ítarlega Alþingisbækurnar, gerðabækur þingsins, allt frá miðöldum, sem eru önnur aðalheimild (Íslandssögunnar, ásamt Fornbréfasafni). Einnig Alþingisbækur eru gefnar út stafrétt, og hafa því töluvert málsögulegt gildi. En við lauslegt yfirlit bókanna sýndist mér, að þar kæmi oftar fyrir Býjasker en Bæjarsker.
Ég hygg að Bæjarsker sé upphaflega nafngiftin, og skírskota þá til Ara fróða.

Býjasker

Býjasker – loftmynd 1954.

Fljótt virðist málvenjan hafa orðið Býjasker, sú orðmynd orðið algengust, en hin horfin. Því er ekki óeðlilegt þó gamalt fólk hafi notað meir það orð. Síðan hefur nafngiftin komist á prentaðar bækur og loks á landakort á 19. öld.
Sjálfur finnst mér fara betur í málinu orðið Bæjarsker en Býjasker. Hið seinna er svolítið dönskuskotið þrátt fyrir allt. Ég held því, að það sé ekki röng þróun þó jörðin hafi [í seinni tíð frekar gengið undir nafninu Bæjarsker, því líklega er það upphaflega nafnið.“ – Skúli Magnússon

Í tveimur tölublöðum Faxa 1983 fjallar Halldóra Thorlacius um Jón Jónsson, bónda, og ættbálk hennar á Bæjarskerjum:

Býjasker

Býjasker – Jón Jónsson.

„Á Bæjarskerjum í Miðneshreppi býr Jón Jónsson, 87 ára gamall. Hann er fæddur laugardag í mið-þorra 1896.
Jón segir svo frá: „Á Bæjarskerjum hefur sama ættin búið í 128 ár. Árið 1855 fluttist afi minn, Oddur Bjarnason austan úr Vestur-Skaftafellssýslu til Suðurnesja. Keypti hann Bæjarskerin og bjó þar til æviloka.
Með honum komu, faðir hans Bjarni Oddson, eiginkona Guðný Sveinsdóttir og börn þeirra, Bjarni, Ragnhildur og Jón faðir minn. Hann var fæddur að Borgarfelli 13. apríl 1855 og því ekki nema rétt mánaðar gamall þegar foreldrar hans lögðu upp í þessa löngu ferð, sem tók hálfan mánuð.
Nærri má geta að það hefur verið erfið ferð fyrir móður og barn að fara þessa löngu leið. Á þessum tíma voru vegir ekki eins góðir og nú gerist. Aðeins hestavegir og óbrúaðar ár. Ekki er heldur víst að hestar hafi verið til fyrir alla fjölskylduna.
BýjaskerÁrið 1870, 4. febrúar, varð afi minn úti á Miðnesheiði. Hafði hann farið til Keflavíkur í kaupstaðarferð. En þangað voru flestar vörur sóttar á þeim tíma. Oft kom það fyrir að menn voru ekki vel búnir þegar farið var að heiman. Þegar svo til Keflavíkur kom þurftu þeir að bíða hálfu og heilu dagana eftir afgreiðslu. Þeir voru orðnir þreyttir og svangir þegar lagt var aftur af stað á heiðina. Þó Miðnesheiði þyki ekki erfið yfirferðar nú voru vegir lélegir á þessum tíma og kennileiti fá. Þá var hún villugjörn í stormum og stórhríð á vetrum.
Þegar afi minn dó var faðir minn 15 ára. Hann varð aðalstoð móður sinnar. Vegna erfiðleika missti amma mín jörðina. Þá eignaðist hana séra Sigurður Sívertsen prestur á Útskálum. Amma og faðir minn fengu þar ábúð áfram.
Og þegar faðir minn giftist fékk hann lífstíðarábúð.
Móðir mín, Þuríður Einarsdóttir, var fædd á Kirkjubóli í Útskálasókn. Í móðurætt var hún ættuð úr Garðinum en faðir hennar Einar Pálssonar var úr Vestur-Skaftafellssýslu.
Foreldrar mínir giftu sig 21. júní 1890 og bjuggu á Bæjarskerjum til æviloka. Eins og víða á Suðurnesjum munu efnin ekki hafa verið mikil. Faðir minn var laginn við tré og járn. Hafði hann smiðju og smíðaði fyrir nágrannana. Ég minnist þess að hann smíðaði nálar og skeifur en þó mest ljábakka. Einnig gerði hann við ýmis amboð. Mun þessi vinna hans hafa drýgt tekjurnar nokkuð. En með sparsemi og mikilli vinnu voru foreldrar mínir alltaf sjálfum sér nógir.

Býjasker
Foreldrar mínir eignuðust fimm börn. Oddur var elstur. Fæddur árið 1884. Kona hans var Helga Bjarnadóttir, ættuð austan úr Árnessýslu. Þau bjuggu í Norður-Miðkoti. Einar var fæddur 1886. Hann var alla ævi til heimilis hér að Bæjarskerjum. Ragnhildur var fædd 1890. Hún var alltaf hér heima. Missti hún unnusta sinn Jónas Bjarna Benónýsson í febrúar 1914. Hún eignaðist einn son Jónas Bjarna Jónasson, fæddan 24. maí 1914. Ragnhildur var með hann hér á Bæjarskerjum. Hún annaðist foreldra okkar þegar aldur færðist yfir þá. Síðan okkur bræðurna og var okkur stoð og stytta meðan henni entist aldur og heilsa til. Bjarni var fæddur 1893. Kona hans var Guðrún Benediktsdóttir. Móðir hennar var ættuð úr Garðinum, en faðir hennar austan af fjörðum. Bjarni og Guðrún byggðu sér hús í Sandgerði er þau nefndu Haga. Börn þeirra eru Sigurður og Jóna. Ég var yngstur. Fæddur laugardag í mið-þorra 1896.

Býjasker
Þ
egar foreldrar okkar systkinanna voru látin keyptum við Einar og Ragnhildur jörðina Bæjarsker aftur. Var hún þá komin í eigu Bjarna Péturssonar blikksmiðs í Reykjavík. Það er árið 1938 sem hún kemur aftur í eigu ættar okkar.
Ekki er hægt að segja að búið hafi verið stórt á nútíma mælikvarða. Þar voru 30-40 fjár og 3-6 kýr. En svo var alltaf töluvert útræði héðan. Faðir minn gerði alltaf út. Það var aðaltekjulind heimilisins. Hann gerði út Heklu sem var 8 – 10 manna far. Við vorum allir feðgarnir á sama báti. Faðir minn hafði meiri áhuga á sjómennsku en landbúnaði. En honum þurfti líka að sinna. Oft þegar komið var að landi mátti maður fara að smala og huga að skepnunum.

Býjasker

Býjasker – sjóbúð.

Þegar ég var að alast upp var fjölmennara hér í hverfinu en nú er. Það var stór hópur ánægðra barna sem lék sér hér á túnunum þegar tími gafst til leikja, en börn þá voru látin vinna strax og kraftar leyfðu.
Hér var saltfiskverkun. Fiskurinn var vaskaður niður við sjó. Sjórinn var borinn í stór kör uppi á kampinum og vaskaður þar. Það voru aðallega konur sem vöskuðu en börn og unglingar breiddu fiskinn til þerris. Seinnipart sumars komu skip hér á víkina og tóku bæði þurrkaðan saltfisk og þurrkaða fiskhausa til útflutnings.

Býjasker

Býjasker – fjárhús.

Heyskapur byrjaði yfirleitt ekki fyrr en í júlí. Hér var allt slegið með orfi og ljá á mínum uppvaxtardögum. Farið var á fætur kl. 3-4 á næturnar til þess að slá. Það var gert til þess að nota rekjuna (náttfallið). Þá beit betur. Var staðið við slátt fram undir hádegi og þá lagði maður sig oft. Ef rekjan var næg var slegið allan daginn. Það var ánægjulegt að koma út um lágnættið í góðu veðri og finna þögnina og kyrrðina. Sjá og heyra fuglana og allt líf vakna þegar kom fram á morgun.

Býjasker

Býjaskersrétt 1983.

Smalamennskan var mér nú hugljúfust. Að ganga um heiðar og líta að fé. Ég tala nú ekki um á vorin þegar ærnar voru að bera. Finna nýborin löb og hlúa að þeim og ánni.
Í Leirunni var mjög góð fjörubeit og okkar fé sótti þangað mikið yfir Miðnesheiðina. Aðallega sótti það í Bergvík og Sjálfkvíar sem eru fyrir utan Litla-Hólmsjörðina. Einnig sótti það í Helguvíkina. Þangað niður var einstigi og því erfitt að fylgja því eftir. Það þurfti að vakta féð því það vildi sækja langt út í fjöru í þarann. Það uggði ekki að sér þegar féll að. Varð því að fara og reka frá fjörunni áður en hálffalið var að.

Býjaskerstétt

Býjarskersrétt-uppdráttur.

Göngur og réttir þóttu mér skemmtilegar. Héðan áttu smalar að fara lengst austur í Selvog. Voru sendir 4- 5 menn og voru 3-4 daga í ferðinni. Farið var austur í Selvog og gist þar. Síðan var réttað í Selvogsrétt fé sem austanmenn höfðu smalað. Okkar fé var svo rekið til Grindavíkur. Þar var gist og réttað daginn eftir. Þaðan var rekið í Vogarétt. Þegar búið var að draga þar var fé Miðnesinga rekið áfram gegnum Njarðvíkurnar og áfram yfir Miðnesheiði og réttað í réttinni fyrir ofan Bæjarsker.
Þórarinn Snorrason
Tvisvar fór ég þessar ferðir og gisti ég þá hjá Þórarni í Vogsósum. Þangað var gott að koma, góður matur og gott rúm fyrir þreytta smala.
Lengst hef ég komist norðan megin á Reykjanesskaganum, inn að Hvassahrauni og réttað í Vogarétt. Ekki voru allir sáttir við það að ég færi ekki nær höfuðstaðnum en þetta. Var mér einu sinni skipað í Gjárétt og þá þurfti ég að fara í Hafnarfjörð. Því hafði ég nú ekki áhuga á svo ég fékk mann fyrir mig. Var það Ólafur Pétursson frá Knarrarnesi. Gerði hann það með glöðu geði. Þurfti ég því ekki að fara lengra en að Hvassahrauni.
Nú er maður orðinn gamall og stirður. Hættur að fara til kinda um Miðnesheiði. Ég læt mér nægja að horfa á kindurnar sem frændur og vinir eiga hér á túnunum í kring.
Mánudaginn 2. ágúst lést Jón Jónsson á Sjúkrahúsi Keflavíkurlæknishéraðs eftir stutta legu. Hann var 87 ára og yngstur fimm Vesturbæjarsystkina, en svo voru börn Jóns Oddssonar og Þuríðar á Bæjarskerjum nefnd í daglegu tali af sveitungum sínum. Þau voru: Oddur, Einar, Ragnhildur, Bjarni og Jón.
Ég sem þetta skrifa átti því láni að fagna að kynnast þessum systkinum er ég kom hingað ung kona með manni mínum, Jónasi syni Ragnhildar. Þau reyndust mér ávallt góðir vinir og leiðbeinendur.
Við Jón vorum búin að vera samtíða hér í rúm 40 ár. Tvö síðustu árin vorum við tvö ein. Vil ég þakka þessu fólki samfylgdina.“ – Halldóra Thorlacius

Heimildir:
-Faxi, 4. tbl. 01.01.1980, Býjasker – Bæjarsker; hvort er réttara?, bls. 109-110.
-Faxi, 6. tbl. 01.06.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 152-153.
-Faxi, 7. tbl. 01.09.1983, Jón Jónsson á Bæjarskerjum – Halldóra Thorlacius, bls. 181.
Býjasker

Esja

Um var að ræða FERLIRsferð nr. 1500.
Ákveðið var að ganga mögulegar leiðir upp og niður EsjuleidEsjuhlíðar, auk hinnar alþekktu gönguleiðar með Mógilsá á Þverfellshorn. Fyrst verður fjallað svolítið um þá síðastnefndu, bæði vegna hversu vinsæl hún er og fjölfarin, en jafnframt ofmetin í ljósi annarra möguleika. Um er að ræða gönguleið frá bílastæðinu við Mógilsá. Reyndar getur verið hringleið eða upp og niður sömu leið. Vegalengdin jafngildir um 1 til 3 klst göngutíma, allt eftir því hversu langt er farið upp og hversu hratt. Hlíðin er aflíðandi neðst með hömrum efst og hækkun upp að Steininum er 597 metra hæð. Búið er að leggja ágæta göngustíga upp fjallið ef frá er talin malarflöturinn. Ferðahraðinn og aldur þeirra sem leggja á Esjuna er misjafn. Á meðan sumir dóla sér upp í rólegheitunum, þá reyna sumir að hlaupa upp í einum rykk. Einnig er hægt að velja um svo kallaða Skógarleið og er þá gengið í gegnum skóginn á leið upp Esjuna. Þeirri leið verður lýst hér á eftir.
SteinninnEftir stutta göngu frá bílastæðinu er komið að göngubrú áður en gengið er upp Þvergil sem er skammt frá Búðarhömrum. Þar fyrir ofan er svo Smágil. Hér greinist leiðin í tvennt. Velja margir að fara fara brattari leiðina fyrst og taka svo hina leiðina til baka. Slóðinn sem genginn er eftir er í misjöfnu ástandi. Í Einarsmýri er jarðvegurinn blautur sem er að koma undan snjónum og getur verið óskemmtilegt svæði til yfirferðar.
Gamla leiðin, liggur upp Langahrygg sem einnig er nefndur Gljúfradalsháls. Gengið er í bröttum skriðum uns komið er í mýrina. Handan hennar tekur svo bratti Þverfellshorns við. Leiðin hentar þeim sem vilja fara hratt yfir.
Gengid um skoginnSteinninn er sá viðkomustaður sem flestir stefna á og þeir sem treysta sér lengra taka því næst stefnuna á toppinn eða sjálft Þverfellshornið.
Upp að Steini er um 6,6 km upp í 597 m hæð með hækkun um 587 m. Töluverður bratti er frá Steininum upp að klettabeltinu, aðallega er um tvær leiðir úr að velja, sú fyrri sem að við fórum var nánast beint upp klettabeltið þar sem fylgt vegvísum, tröppum og keðjum. Seinni leiðin er aðeins vestar en þar sem var mikill snjór á þeirri leið og sér í lagi í kverkinni og við ekki með neinn búnað til að ganga á snjónum. Þessi kafli leiðarinnar getur verið erfiður fyrir óvana og lofthrædda. Að vetrarlagi þarf að fara að öllu með gát. Árið 1979 féll á þessum slóðum snjóflóð og létust 2 menn.
GenginÁ forsíðu Þjóðviljans 8. mars 1979 mátti lesa eftirfarandi frétt: „Tveir piltar fórust i snjóflóði í hlíðum Esju síðdegis Í fyrradag. Þeír hétu Stefán Baldursson, Tómasarhaga 22, 18 ára, og Sveinbjörn Beck, Brávallagötu 18, 17 ára gamall.
Um kl. 19.50 í fyrradag kom til kynning til lögreglunnar í Hafnarfirði frá 18 ára pilti, sem staddur var á bænum Leirvogstungu. Hann hafði farið með félögum sínum i fjallgöngu á Esju. Þeir voru á niðurleið, er snjóskriða féll á tvo þeirra nálægt Þverfellshorni. Hinn þriðji hafði dregist nokkuð afturúr á göngunni og varð það honum til lífs.
Hannes Hafstein framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins sagði að lögreglan hefði hringt þangað kl. rúmlega átta um kvöldið. Var þá gengid 2kölluð út björgunarsveitin Kyndill i Mosfellssveit, Björgunarsveitin Ingólfur, Flugbjörgunarsveitin og Hjálparsveit skáta og sendu þær menn strax á vettvang. Skömmu síðar voru björgunarsveitir i nágrenni Reykjavíkur kallaðar út og tóku alls um 200 manns þátt í leitinni.
Slysið varð milli kl. 18 og 18.30, þegar piltarnir þrír voru á niðurleið. Sá sem var efstur í hlíðinni og af komst, sá þegar hengjan brast og hélt þegar af stað til byggða að leita hjálpar. Snjódyngjan sem féll var 3-400 metra löng og 10-15 metra breið og var hún sumsstaðar ákaflega djúp. Lík annars piltsins fannst um kl. 1 um nóttina og lík hins um kl. 3.30. Björgunarstarf var erfitt, snarbratt og mikill kuldi. Varalið var kallað út til starfa um þrjúleytið um nóttina og var það á leið á slysstað, þegar síðara líkið fannst.
Gangan-3Piltarnir sem létu lífið i snjóflóðinu voru vanir fjallgöngumenn og annar þeirra var félagi í björgunarsveit í Reykjavík.“
Í DB þann 7 mars birtist eftirfarandi forsíðufrétt: „TVEIR 18 ÁRA PILTAR FÓRUST í SNJÓFLÓÐI — sá þriðji komst af í Esju í gær. Tveir 18 ára piltar úr Reykjavík létu lífið í snjóflóði í Esjunni síðla dags í gær. Þeir voru þar í skemmti- og æfingagöngu á fjallið. Voru þeir tveir, sem fórust, ívið á undan hinum þriðja, enda betur búnir og vanir göngumenn, annar félagi í björgunarsveit í Reykjavík. Er sá sem á eftir fór kom yfir hæðarbungu í göngunni á eftir félögum sínum, sá hann þá hvergi en sá nýfallna snjóskriðu. Hafði hún fallið ofarlega úr Þverfelli og fallið niður þröngt og bratt gil niður í Dýjakróka austan Gljúfurdals upp og NA af Esjubergi.

Gengid-4

Hróp, köll og eftirleit þess sem á eftir fór báru ekki árangur. Hélt hann þá rakleitt til bíls þeirra félaga sem stóð vestan Mógilsár og ók að Leirvogstungu þaðan sem hjálparkall barst kl. 7.50. Björgunarmenn úr Kyndli í Mosfellssveit fóru þegar á staðinn. Síðar bættist þeim liðsauki frá Ingólfi í Reykjavík, Flugbjörgunarsveitinni, björgunarsveitum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og skátum frá sömu stöðum. Kyndilsmenn lögðu þegar á fjallið og fóru eins langt og þeir gátu á snjósleðum í fylgd með þeim var pilturinn sem slapp við snjóflóðið. Vísaði hann veginn en komst ekki alla leið upp aftur sakir þreytu.
Snjóskriðan fannst án leitar. Reyndist hún um 400 m löng að sögn Erlings Ólafssonar formanns Kyndils, sem var einna fyrstur á slysstað. Hún var ekki nema 7—15 m að breidd og misdjúp eftir gilskorningnum.
AningUpphaf hennar var yfir bröttu gili ofarlega í Þverfelli. Leit var þegar hafin að piltunum tveimur og dreif að svo mikinn fjölda björgunarmanna að snjóskriðan var fljótlega yfirfarin. Undir kl. eitt fannst lík annars piltanna neðst í skriðunni á um 1,5 m dýpi. Lík hins fannst ekki fyrr en klukkan langt gengin fjögur í nótt og hafði þá snjóskriðan verið grandskoðuð. Leitaraðstæður voru erfiðar, snarbratt að slysstað og kuldi mikill, 15—20 stiga frost þar uppi.
Erlingur Ólafsson sagði að snjór í  skriðunni hefði ýmist verið kögglóttur, og voru sumir kögglarnir á stærð við bíla, eða lausamjöll sem harðnaði fljótt og fraus saman.
Geitholl-2Erlingur sagðist ekki vita til að snjóflóð hefðu valdið mannskaða í Esju fyrr, þó oft mætti sjá þess merki að þau hefðu fallið. Á venjulegum gönguleiðum í Esju er ekki hætta á snjóflóðum en þau falla í þröngum og bröttum giljum með miklum hraða og kynngikrafti er hengjur bresta. Björgunarstarfið gekk mjög vel og var öllum er þátt tóku í til sóma. Var samstarf gott milli sveita. Yfirstjórn var í bíl við Mógilsáin menn með talstöðvar um alla fjallshlíðina.“
Þá er takmarkinu náð; Þverfellshornið sjálft. Þessi vinsælasta leiðin á Esju frá Mógilsá er auðrötuð enda mörkuð af sérstökum göngustíg á fjallinu.
Haraldur

Efst eru nokkur klettaþrep sem auðvelt er að klífa en rétt er að fara varlega vegna hættu á grjóthruni frá fólki sem kann að vera fyrir ofan. Lofthræddum er bent á að ganga aðeins vestan við hornið og finna sér leið þar upp. Á útsýnisskífunni er gott að átta sig á örnefnum, enda útsýnið stórkostlegt ofan af Þverfellshorni yfir Stór-Reykjavíkursvæðið. Um klukkustundar gangur er frá vörðunni að Hábungu Esju sem rís hæst 914 m.
Það var sumarið 1994 að gerð var þessi nýja gönguleið upp að Þverfellshorni. Hún klofnar frá gömlu leiðinni og stefnir yfir Mógilsá og þar upp austan árinnar. Þar er ekki eins bratt og á gömlu leiðinni og því aðeins léttari. Göngustígarnir koma aftur saman fyrir neðan hamrana í Þverfellshorni.
Haraldur-2Hægt er að fá göngukort af Esjunni hjá Ferðafélagi Íslands, Mörkinni 6. Hafa ber þó í huga að gönguleiðakortið er arfavitlaust og því í beinlínis lífshættulegt að taka það of alvarlega. T.d. eru sýndar gönguleiðir upp Rauðhamar, Virkið, Gunnlaugsskarð og Kistufell. Allar þessar leiðir eru einungis fyrir klettaklifrara með fullkomnasta búnað sem völ er á.
Sagt er að fjallið sé ekki sigrað fyrr enn hinum eina sanna tindi er náð. Það er reyndar ekki rétt.
Í þessari tímamótaferð var gengið um Skógræktarstöðina á Mógilsá. Aðspurður um staðsetningu gamla bæjarins að Mógilsá og Kollafirði svaraði hann: „Kollafjarðarbærinn var skammt frá útihúsunum sem standa enn að hluta. Mógisárbærinn var örskammt frá planinu þar sem lagt er af stað í Esjugöngur.“

Gosmokkur

Í Alþýðublaðinu 16. ágúst 1967, segir m.a.: „Haraldur vígir skógræktarstöð – Haraldur ríkisarfi Noregs vígði í gær tilraunastöð skógræktarinnar að Mógilsá í Kollafirði, Móðargjöf Norðmanna til Íslendinga, en sem menn muna, færði faðir hans Ólafur V. Noregskonungur Íslendingum eina milljón króna norskra að gjöf, er hann kom hingað í heimsókn árið 1961. Til raunastöðin að Mógilsá er reist fyrir þetta fé. Stöðvarstjóri að Mógilsá er Haukur Ragnarsson, skógfræðingur, menntaður í Noregi.
AningarstadurLaust fyrir kl. 16.00 í gærdag hélt ríkisarfinn frá Reykjavík upp að Mógilsá í Kollafirði ásamt fylgdarliði sínu forseta Íslands hr. Ásgeiri Ásgeirssyni, landbúnaðarráðherra, Ingólfi Jónssyni og skógræktarstjóra, Hákoni Bjarnasyni o. fl. Uppi í Kollafirði var búið að koma fyrir stólum á grasflöt úti fyrir stöðinni og bauð stöðvarstjórinn, Haukur Ragnarsson gesti velkomna: Þarna voru saman komnir fyrirmenn í héraði og ýmsir skógræktaráhugamenn.
Hákon Guðmundsson yfirborgardómari formaður nefndar þeirrar, sem annaðist framkvæmdir að Mógilsá lýsti tildrögum að byggingunni, en uppdrætti gerðu þeir Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins og Gunnlaugur Pálsson arkitekt í samráði við tilraunastjóra Skógræktar ríkisins Hauk Ragnarsson, sem sá um framkvæmdir, en yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson. Byggingarfram-kvæmdum lauk á síðasta ári og nam byggingarkostnaður alls 5 milljónum íslenzkra króna.

Esjuskogar

Hákon sagði, að staður þessi hefði verið valinn með tilliti til þess, að hann væri heppilegur til rannsókna, því að hægt væri að athuga gróðurskilyrði trjáplantna í misjafnri (hæð yfir sjávarmáli. Í lok ræðu sinnar afhenti Hákon landbúnaðarráðherra stöðina, en þakkaði Haraldi ríkisarfa þann heiður að vígja rannsóknarstöðina og bauð hann hjartanlega velkominn. Ríkisarfi Noregs svaraði og gat þess að rannsóknir á skógrækt hefðu átt erfitt uppdráttar í Noregi í fyrstu og því hefðu Norðmenn viljað sína vinsemd sína í verki með því að stuðla að byggingu þessarar rannsóknarstöðvar á Íslandi. Minntist hann sérstaklega fyrrverandi sendiherra á Íslandi Torgeirs Anderíen Ryst sem mun hafa átt hugmyndina að þessari gjöf. Ríkisarfinn óskaði að lokum öllum þeim heilla, sem starfa eiga við stöðina.
Landbúnaðarráðherra veitti skógræktarstöðinni móttöku og lýsti því yfir að byggingarnefndin hefði lokið störfuni og landbúnaðarráðuneytið myndi setja stöðinni reglur til að starfa eftir, að tillögum þar til skipaðrar nefndar sérfróðra manna. Ingólfur Jónsson þakkað þann vinarhug, sem lægi að baki gjöfinni og bað ríkisarfann að skila þakklæti til föður síns konungsins. Að ræðu landbúnaðarráðherra lokinni var litazt um á staðnum og þágu gestir veitingar.“

Skograekt

Í Tímanum þennan sama dag sagði: „Krónprinsinn vígði þjóðargjöf Norðmanna – Í dag vígði Haraldur krónpríns Skógræktarstöðina að Mógilsá á Kjalarnesi, en hún er sem kunnugt er reist fyrir þjóðargjöf Norðmanna er Ólafur konungur afhenti Íslendingum er hann var hér í opinherri heimsókn árið 1961. Vígsluathöfnin að Mógilsá fór fram undir beru lofti fyrir utan stöðvarhúsið, og kom Haraldur krónprins akandi ásamt forseta Íslands og fylgdarliði að Mógilsá rétt um klukkan fjögur. Að Mógilsá var samankominn fjöldi gesta. Framámenn í landbúnaðarmálum, sveitarhöfðingjar á Kjalarnesi, forustumenn í skógræktarmálum, landbúnaðarráðherra auk innlendra og erlendra fylgdarmanna Haraldar krónprins í hinni opinberu heimsókn hér. Glaðasólskin var, en nokkur strekkingur utan af Kollafirði.
Hákon Guðmundsson yfínborgardómari, formaður Skógræktarfélags Íslands hélt fyrst ræðu, þar sem hann rakti tildrög Skógræktarstöðvarinnar að Mógilsá.

Esjuhlidar-2

Er skógræktarstöðin reist fyrir 4/5 hluta þjóðargjafarinnar, sem Ólafur Noregskonungur afhenti Íslendingum árið 1961. Byggingakostnaður við stöðina að Mógilsá nemur nú fimm milijónum króna, en eftir er að ráðstafa 300 þús. kr. norskum af gjöfinni. Sérstök stjórnarnefnd skipuð ambassador Noregs, Hákoni Guðmundssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands og Hákoni Bjarnasyni, skógræktarstjóra, ráðstafaði þjóðargjöfinni, en Haukur Ragnarsson, tilraunastjóri sá um byggingafram-kvæmdir að Mógilsá. Húsin eru teiknuð af Herði Bjarnasyni húsameistara ríkisins og Gunnlaugi Pálssyni arkitekt, en yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson byggingameistari.
Hákon lauk ræðu sinni með því að þakka norskum einstaklingum og norsku þjóðinni í heild stuðning við íslenzka skógrækt fyrr og síðar, jafnframt því sem hann afhenti landbúnaðrráðherra stöðina til umráða og varðveizlu. Að lokum ávarpaði hann prinsinn á norsku, og bauð hann hjartanlega velkominn að Mógilsá.
Haraldur krónprins ávarpaði því næst viðstadda, og sagði m. a. samband Íslands og Noregs væri gott, og ekki hvað sízt á skógræktarsviðinu. Lýsti hann þeirri von sinni að Mogilsárstöðin yrði íslenzkri skógrækt lyftistöng og aflgjafi.“
Framangreind orð voru rifjuð upp af tilefni af tímamótaferð FERLIRs, ekki síst í ljósi þess Hofsoleyinhversu vel rannsóknir á Mógilsá hafa gengið æ síðan. Að baki skógræktarstöðinni er nú Trjágarður er m.a. státar af hinum ýmsu ávaxtatrjám. Því fengu FERLIRsfélagar að kynnast að þessu sinni. Gátur þeir tekið sér epli, banana, appelsínur og fleiri sortir áður en haldið var upp í gengnum skóginn áleiðis í Esjuhlíðar; um Efri-Kálfsdal, Langahrygg, Hvítárbotna, Geithól og upp að Rauðhamri þar sem áð var að þessu sinni. Vitað er að jólasveinninn dvelur í Esjunni milli hátíða og brást hann ekki göngumönnum að þessu sinni. Til baka var haldið niður með Rauðhólsurðum, Rauðhól, ofan við Kögunarhól og niður um Skóglendið þar neðra að áfangastað.
Þessi leið er hvorki merkt né á gönguleiðakortinu fyrrnefnda, en sennilega bæði sú greiðasta á Esjuna og sú skemmtilegasta. Hófsóleyin var byrjuð að blómstra við bæjarlækinn snemmmaí.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimidlir m.a.:
-Kjartan Pétur Sigursson.
-Bjarki Bjarnason.
-Þjóðviljinn 8. mars 1979.
-DB, 7. mars 1979.
-Alþýðublaðið 16.08.1967, bls. 3.
-Timinn 16.08.1967.

Esja

Esja – örnefni.

Óttarsstaðir

Jónatan Garðarsson skrifar um „Hlöðnu húsin í Hraunum“ á vef Hraunavina árið 2002:

Jónatan garðarsson

Jónatan Garðarsson.

„Rétt vestan við Straumsvík var nokkuð þéttbýlt um aldir enda var búið á einum 12 smábýlum þegar mest var. Jarðirnar báru ekki mannmörg heimili en þar var engu að síður gott að búa á meðan fólk gat sinnt búskap og sjósókn jöfnum höndum. Fram undir þriðja áratug 20. aldar var byggðin í Hraunum nokkuð blómleg en þá fór fólki að fækka um leið og búskaparhættir breyttust og sjávarbyggðirnar á suðvestuhorni landsins sóttu í sig veðrið. Þeir sem settust að í Hraunum lögðu megin áherslu á sauðfjárbúskap og sjósókn enda var stutt á gjöful mið skammt undan landi. Sauðfé gekk úti árið um kring sem var nauðsynlegt þar sem túnskikar voru ekki margir eða umfangsmiklir. Helst var heyjað fyrir kýrnar á heimatúnum og grastóm í næsta nágrenni bæjarhúsana, en kúabúskapur byggði á því að hægt væri að mæta mjólkurþörf heimilismanna. Hraunajarðirnar voru lengst af í eigu kirkju og síðan konungs eftir siðaskiptin.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Ábúðaskipti voru tíð vegna þess að þegar illa áraði til sjósóknar þótti ekki vænlegt að búa á þessum vindasama stað og eyðilega stað við sjávarsíðuna. Leiguliðar stöldruðu þar af leiðand ekki við nema í nokkra áratugi þegar best lét. Þeir sem settust að á þessum slóðum gátu með dugnaði og útsjónarsemi komið undir sig fótunum, einkum þeir sem voru dugmiklir sjómenn. Þarna efnuðust bændur á því að gera út árabáta og leggja inn aflann í kaupstað og taka út varning í staðinn eða gera skipti við vel stæða bændur annarsstaðar á landinu.

Straumur

Straumur.

Á þriðja áratug 19. aldar voru konungsjarðirnar í Hraunum og aðrar jarðir vítt og breitt um landið boðnar til sölu til að afla tekna fyrir ríkissjóð Dana. Þannig atvikaðist það að efnaðir bændur, kaupmenn og aðrir sem höfðu einhver fjárráð eignuðust Hraunajarðirnar. Sumir fluttu á staðinn en flestar jarðirnar voru áfram hjáleigur sem gengu kaupum og sölum um árabil. Meðal þeirra sem festu kaup á jörðum í Hraunum var Guðmundur Guðmundsson sem efnaðist er hann kvæntist vel stæðri ekkju í Hafnarfirði. Hann bjó um tíma á jörði sinni Lambhaga, en keypti einnig Þorbjarnarstaði og hálfa Óttarstaði. Guðmundur breytti Straumsseli í lögbýlisjörð en lést um miðjan aldur. Ekkja hans kvæntist aftur og Guðmundur Tjörvi sonur hans tók við búskap í Straumi þegar fram liðu stundir, af stjúpföður sínum.

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri (vestari).

Jón Hjörtsson átti alla Óttarstaða jörðina áður en hann seldi hálflenduna til Guðmundar Guðmundssonar. Jón efnaðist vel á útgerðar umsvifum sínum á meðan hann bjó á Óttarstöðum enda dugmikill sjósóknari. Rannveig dóttir hans tók við búinu þegar móðir hennar andaðist árið 1855, en faðir hennar lifði í nokkur ár til viðbótar. Steindór Sveinsson sonur Rannveigar varð eigandi hálfra Óttarstaða að afa sínum látnum og hafði þá um skeið verið einskonar bústjóri afa síns. Steindór var ókvæntur þegar Kristrún Sveinsdóttir frá Miðfelli í Þingvallasveit réðst sem vinnukona að Óttarstöðum. Kristrún var 7 árum yngri en Steindór og felldu þau hugi saman. Gengu þau í hjónaband 9. október 1860 og eignuðust soninn Svein Steindórsson sem varð seinna bóndi í Hvassahrauni.

Óttarsstaðir

Hesthúsið að Óttarsstöðum eystri.

Sveinn var dugandi skipstjóri eins og faðir hans og afskaplega vel látinn. Steindór Sveinsson bóndi á Óttarstöðum fékk holdsveiki og var illa haldinn síðustu æviár sín. Hann lést af völdum holdsveikinnar 1870 en þá hafði Kristrún fyrir nokkru tekið við búskapnum og útgerð eiginmanns síns. Sá hún um að versla til heimilisins og annaðist alla aðdrætti. Hún var auk þess dugandi formaður og sótti sjóinn af atorku og heppni og var órög að leggja á djúpmið. Stjórnaði hún hásetum sínum af myndugleik og aflaði vel.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Kristrún var óhrædd við að takast á við þau verkefni sem biðu hennar og hlóð Óttarstaða fjárborgina með bróður sínum Guðjóni Sveinssyni sem var vinnumaður hjá henni, á meðan Steindór eiginmaður hennar lá veikur heima. Það leið ekki nema ár eftir að Steindór andaðist að Kristrún giftist Kristjáni Jónssyni frá Skógarkoti í Þingvallasveit. Hann var 12 árum yngri en hún en það fór afskaplega vel á með þeim. Bjuggu þau saman á Óttarstöðum til ársins 1883 en fluttu þá að Hliðsnesi á Álftanesi og eignuðust þrjú börn.

Óttarsstaðir

Eldhúsið við Óttarsstaði eystri.

Kristrún lést 13. desember 1903 og fékk þau eftirmæli að hún hefði verið gædd mikilli atgervi til sálar og líkama, verið kona tígurleg yfirlitum og mjög einarðleg, hreinlunduð, trygg og staðföst. Hún var ráðdeildarsöm, ástrík og umhyggjusöm móðir og eiginkona. Síðustu æviárin var heilsu hennar farið að hnigna og fékk hún slag að kvöldi 4. desember 1903 og lá síðan í dái þar til hún lést. Var hún jarðsett að Görðum 22. desember við hlið fyrri eiginmanns síns og nokkurra barnabarna. Kristján gat ekki á heilum sér tekið eftir að Kristrún andaðist. Hann flutti nokkru eftir andlát hennar frá Hliðsnesi til Hafnarfjarðar og fór að versla þar. Heppnaðist það miðlungi vel gengu efni hans til þurrðar. Seldi hann verslun sína sumarið 1906 og bakaði féþurðurinn honum þungum áhyggjum. Var hann ekki með sjálfu sér eftir það og gekk í sjóinn 2. september 1906 milli Hafnarfjarðar og Garðahverfis og réð sér bana. Var hann tæpra 62 ára þegar þessi atburður átti sér stað. Svo aðgrunnt var á þessum slóðum að líkið var ekki alveg á kafi er það fannst. Var þessi atburður afar sorglegur og orti Friðrik Friðriksson eftirfarandi: Ljúfur með líkn og dáð; lengi var sveitarstoð, grandvar með góðri lund, gætinn í orði og hug.

Óttarsstaðir

Eldhúsið við Óttarsstaði vestari.

Guðmundur Jónsson og Ragnheiður Hannesdóttir keyptu jörðina af Kristrúnu og Kristjáni árið 1883 og tóku synir hennar, Guðjón og Sigurður Kristinn Sigurðsson, við búskapnum eftir þeirra dag. Guðmundur hafði ekki búið lengi á Óttarstöðum þegar hann seldi hálfa jörðina árið 1885. Kaupandinn var Friðfinnur Friðriksson skipstjóri sem átti þilskipið Lilju á móti Þorsteini Egilsen kaupmanni í Hafnarfirði. Friðfinnur hafði ekki neinn áhuga á að búa í gamla bænum, heldur keypti tvílyft timburhús sem stóð í landi Austurkots á Vatnsleysuströnd, tók það niður og flutti sjóleiðina að Óttarstöðum. Þetta hús byggði Ari Egilsson árið 1883 úr gæðatimbri sem rak á land í Höfnum eftir að barkurinn Jamestown strandaði þar. Ari og eiginkona hans fluttu til Vesturheims og þar með var húsið falt til kaups. Þetta merkilega hús stendur ennþá á eystri Óttarstöðum en er því miður afskaplega illa farið enda ekkert verið hirt um það áratugum saman.

Litli-Lambhagi

Eldhús við Litla-Lambhaga. Straumur fjær.

Guðjón Sveinsson bróðir Kristrúnar á Óttarstöðum var listagóður hleðslumaður og má sjá handbragð hans víða í Hraunabyggðinni. Óttarstaða fjárborgin er jafnan nefnd eftir Kristrúnu Sveinsdóttur sem lagði drjúga hönd á gerð hennar, en Guðjóns er sjaldnar getið. Hann bar ábyrgð á því að hlaðin vorum myndarlegir eldaskálar úr hraungrjóti í Litla-Lambhaga sem og á Óttarstöðum vestri og eystri. Standa veggir þessara skála ennþá og sýna svo ekki verður um villst hversu góður verkmaður Guðjón var. Hann hlóð aukheldur upp gömlu bæjarveggina á báðum bæjunum, en eystri bænum var breytt í hesthús eftir að timburhúsið var flutt þangað árið 1885.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.

Óttarstaðahúsið er eitt það merkilegasta á landinu og það sama gildir um steinhlöðnu tóftirnar sem enn standa þrátt fyrir að þekjurnar hafi fyrir löngu fúnað og orðið veðrinu að bráð. Minjarnar bíða þess sem koma skal og ef hugmyndir um að breyta Óttarstaðalandi í geymslusvæði fyrir hafskip verða að veruleika tapast að eilífu stórmerkilegar minjar sem sýna hvernig umhorfs var á suðvesturhorni landsins áður en svokallaður nútími hóf innreið sína.“ – Jónatan Garðarsson

Heimild:
-http://www.hraunavinir.net/hlodnu-husin-i-hraunum/

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari. Elshúsið lengst t.v.  Gamla hesthús eystri Óttarsstaða efst, ofan garðs.

Básendar

Básendar var verslunarstaður fyrr á öldum. Nú virðist við fyrstu sýn fátt sem minnir á verslunina, en ef betur er að gáð má sjá ýmislegt henni tengdri, t.d. áletranir á klöppum.
Nefndar áletranir eru flestar í Arnbjargarhólma, vestan Básendahafnar (Brenntorfuvíkur). Á Letursteinn í Arnbjargarhólmaháhólmanum má bæði lesa skrifstafi og ártöl á klöppunum, en auk þess, þegar vel er leitað, má sjá slíkar áletranir á lausum steinum, sem virðast hafa verið á hólmanum áður fyrr, er hann var landfastur og væntanlega gróinn vel, en skolast til þegar sjórinn náði að aðskilja hann fastalandinu og leika frjálslegar um hólmann.
Við skoðun FERLIRs kom m.a. í ljós að á einum lausa steininum stóð nafnið „BERTELANDERS“ og ártalið 1700. Á öðrum lausum steini var m.a. áletrað MVL og XX þar sem ör lá upp frá ártalinu 1590. Á klöppum mátti bæði lesa bókstafi er virtust vera upphafsstafir manna og ártöl, s.s. 1640, 1650, 1651 og 1694. Þessar áletranir á þessum stað benda til þess að þarna hafi verið athafnasvæði verslunar danskar kaupmanna, en þeir höfðu höfnina eftir 1602 út af fyrir sig. Þjóðverjar og Englendingar kepptust um hana fram yfir 1532 (Grindarvíkurstríðið) svo áletrunin Bertelanders gæti verið eftir einhvern kaupmanninn á Endunum eða hugsanlega nafn á skipi hans. Fróðlegt væri fyrir sagnfræðinga að reyna að grafa eitthvað upp um þetta.
Líklegt má telja að fleiri áletranir og ártöl kunni að leynast við Básenda er kunna að varpa ljósi á veru framangreindra á staðnum í gegnum aldirnar.

Letursteinn

Esja

Félagar í Starfsmannafélagi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gengu gamla leið á Esjuna, áleiðis upp á Þverfellshorn.

Gonguleiðin

Núverandi göngleið liggur frá bílastæðinu undir Esjuhlíðum, upp í gegnum Þvergil og áfram um Einarsmýri, en gamla leiðin lá í gegnum Skógræktina, skógsvæðin í Kálfsdal er skiptist í Neðri-Kálfsdal og Efri-Kálfsdal og áfram upp grónar brekkuskriður. Heitir sú brekka Hákinn. Ætlunin er að reyna að staðsetja hina grónu götu í hlíðunum alla leið upp fyrir Rauðhól og að Rauðhamri, upptökum Mógilsár.
Esjan stendur við Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennum höfuðborgasvæðisins. Talið er að Esjan hafi myndast á fyrri hluta ísaldar. Hún byggðist upp úr blágrýtis- og móbergslögum og talsvert er um innskot og bergganga í fjallinu. Esjan er syðsta blágrýtisfjallið á landinu. Nafn fjallsins er gjarnan rakið til móbergslaganna í fjallinu en nafnið þýðir tálgusteinn. Kalk fannst í giljunum fyrir ofan Mógilsá og árið 1873 var þar stundaður námugröftur. 

Raudhamar

Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé rakið til móbergslaganna í fjallinu en nafnið þýðir tálgusteinn.

Esja

Gamall stígur um Esjuna.