Torfdalur

Torfdalur er ofan Breiðabólstaðar í Ölfusi. Ofan hans eru Krossfjöll. Fyrir nokkru var skoðuð þar tóft, sem reyndar er merkt inn á kort.

Torfdalur

Annars er Torfdalsnafnið þekkt víðar um land, s.s. vestur í Grímarsfelli, suðaustan Reykjafells. Líklegt hefur verið talið að nafnið sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum, sbr. eftirfarandi örnefnalýsingu Ölfuss; „Torfdalur – örnefni, rista – dæld í hraunið, vestan engjagötunnar, blautur, góður torfvöllur. Þar var skorið mikið torf til einangrunnar á Hitaveitu Reykjavíkur 1939.“ Hér er átt við Núpa undir Núpafjalli sunnan Kamba í Ölfusi. Víða eru og til sambærileg heiti, s.s. Torfufell, Torfufellsdalur, Torfastaðir o.s.frv.
Þegar haldið var á ný í Torfdal fyrir skömmu fundust tvær aðrar tóftir, og jafnvel sú fjórða.
Fyrsta myndin sýnir vörðu á hjallanum ofan dalsins og niður á gatnamót þar en um dalinn liggur gömul gata (götur), sem kemur úr Krossfjöllunum. Í þeim eru margar þjóðgötur og krossgötur og telja má líklegt að nafn fjallsins sé tilkomið af þeim.
Í örnefnalýsingu fyrir Breiðabólstað kemur m.a. eftirfarandi fram um nýtingu og minjar í dalnum: „Mómýri – heimild um mógrafir;
Suður frá Krossfjöllum austanverðum, austan Ása er allstór dalur. Innsti hluti hans heitir Torfdalur. Innst í honum er mýri sem heitir Mómýri. Þar var tekinn mór.“ Einnig er til önnur heimild í nefndri örnefnaskrá um nýtingu dalsins, sbr. eftirfarandi: „Mókofi – heimild um mókofa; Sunnan við Mómýri er dálítil slétt vallendisflöt, sem heitir Torfdalsflöt. Á henni miðju eru rústir, sennilega mókofarústir.“
Torfdalur Til að fá meiri heimildir um Torfdalsnafnið var Örnefnastofnun rituð beiðni um frekari upplýsingar og útskýringar á því. Ekki stóð á svari stofnunarinnar að venju: „Þegar leitað var í Sarpi komu upp komu 93 skjöl (og síðan 2 til viðbótar) þar sem Torfdal er að finna. Að vísu eru dalirnir ekki alveg svona margir því að stundum eru fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö skjöl um sömu jörð, en margir eru þeir, og þar sem ekki nærri allt örnefnasafnið er í Sarpi má vel margfalda þessa tölu með tveimur. Leitað var í margar þessar skrár – ekki þó allar því að það er seinlegt að leita í kerfinu – og mjög víða er ekkert minnst á torfristu eða annað sem skýrir nafnið. En þrátt fyrir það fundust mörg dæmi þar sem tekið er fram að í Torfdal sé torfrista eða -skurður. Má í því sambandi nefna bæi s.s. Svínhagi á Rangárvöllum, Brandsstaðir í Blöndudal, Hellisholt og Núpstún í Hrunamannahreppi, Grashóll á Sléttu, Feigsdalur í Arnarfirði, Bjarg í Miðfirði, Hróardalur í Skagafirði, Helgadalur í Mosfellssveit (Grímansfell), Torfastaðir í Grafningi og loks Núpar í Ölfusi þar sem skorið var torf til einangrunar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur 1939. Af þessu má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi langoftast – ef ekki alltaf – nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór („elditorf“). Í landi Breiðabólstaðar í Ölfusi er einmitt Mómýri í Torfdal en það þarf þó alls ekki að vera að dalurinn hafi fengið nafn af mónum, þar gat líka verið torfrista þó þess sé ekki getið. Fyrir kemur orðmyndin Tordalur en telja má að það sé aðeins framburðaratriði, „f“ hefur tilhneigingu til að detta út í þessari stöðu.

Torfdalur Í gamallli örnefnaskrá Núpstúns í Hrunamannahreppi er því haldið fram að nafn dalsins, Tordals, sé af því að torvelt hafi verið að komast með hesta niður í hann, en bóndi sem þar er fæddur og uppalinn og hefur búið alla sína tíð hrekur þá kenningu í nýrri skrá. Stundum er tekið fram að slægjur séu í Torfdal eða eitthvað sagt um gróðurfar, og á einum stað – í Botni í Tálknafirði – er skógur í Torfdal. Að lokum má benda á grein um Torfa- og Torfustaði sem Þórhallur Vilmundarson skrifar í Grímni 1 (1980).“
Framangreint er hið ágætasta svar og útskýrir nafngiftina prýðilega út frá nýtingu og örðum nytjum.
Á annarri mynd sést niður á flötina þar sem tvær tóftir eru í Torfdal neðan Krossfjalla, önnur er með grjóti í, þessi nær en hin er mestmegnis úr torfi og er að sjá vinstra megin við grjóttóftina alveg við rof sem er þarna fyrir framan lækinn. Einn steinn sést í þeirri tóft.
Á þriðju myndinni sést enn eldri tóft, sem er ofar í dalnum með rofi umhverfis og er staf stungi niður í hana. Þar nálægt er ferköntuð gröf, trúlega mógröf. Við neðri tóftirnar er vatnslögn sem kemur úr gilinu efst en ólíklegt er að þessar tóftir tengist henni eitthvað. Athugandi er að gaumgæfa þetta svæði betur við tækifæri.
Að lokum má geta þess að í leiðinni var gengið fram á 10 urtandaregg í hreiðri, sem næstum var búi að stíga ofan á. En það kom nú öndinni til góða að þjálfaðir sjáendur eru með jafnan með augun allsstaðar, einnig næst sér.

Heimildir m.a.:
-Ö-Breiðabólsstaður.
-Ö-Núpar.
-Örnefnastofun – Jónína Hafsteinsdóttir.

Urtönd

Urtönd.

Straumsvík

Eftirfarandi ábending barst FERLIR um hugsanlegan helli undir hluta álversins í Straumsvík:

Straumsvík

Straumsvík.

„Hef verið að reyna að grafast fyrir um hellinn sem er undir Ísal í Hafnarfirði. Það voru upphaflega þrjú stór síló (þessi rauðu og hvítu) en eitt var fjarlægt. Það síló var ekki notað nema að hluta til því að þegar þeir voru að setja það upp kom í ljós að það er líklega stór hellir undir. Það var sett mikið magn af steypu og sandi inn en virkaði ekki neitt. Steypan sást, sögðu þeir sem unnu við það, fljótandi fyrir utan höfnina. Það var ekki gerð nein hola niður en borarnir og gatið var rétt nóg fyrir steypuna til að renna niður. Gatið sem var gert er á milli mötuneytisins og Kerfóðrunar.“ Skömmu síðar bárust svohljóðandi viðbótaruppýsingar um staðsetninguna: „Staðsetningin er líklega ekki nógu góð, en það sem ég vildi segja er að hellirinn er mötuneytismegin þ.e. syðstur af þeim sílóum.“
Samningar um byggingu álvers á Íslandi voru undirritaðir árið 1966, en viðræður milli svissneska fyrirtækisins Alusuisse og ríkisstjórnar Íslands höfðu þá staðið yfir í nokkur ár. Íslenska álfélagið hf. var stofnað og framkvæmdir hófust í Straumsvík. Þremur árum síðar hófst framleiðsla en verksmiðjan var formlega vígð í maí 1970.
Framleiðslugeta álversins var í upphafi um 33.000 tonn á ári í 120 kerum, en síðar var verkmiðjan stækkuð fjórum sinnum. Árið 1970 voru 40 ker til viðbótar tekin í rekstur, eftir að fyrsti kerskálinnn hafði verið lengdur, og 1972 var fyrri áfangi kerskála 2 tekinn í notkun. Síðari áfanginn (40 ker) var svo byggður nokkrum árum seinna og þar hófst framleiðsla árið 1980.

Straumsvík

Straumsvík.

Hrannari Péturssyni, upplýsingafulltrúa Alcan, var send framangreind lýsing með von um frekari upplýsingar, ef einhverjar væru. Hann svaraði: „Ég gat ekki fundið út úr þessu en mér dettur í hug að benda þér á Sveinbjörn Sigurðsson, tæknifræðing og fyrrverandi starfsmann, sem var um áratugaskeið ábyrgur fyrir ýmsum framkvæmdum og byggingum á svæðinu.“
Sveinbjörn sagðist aðspurður muna vel eftir þessu. „Eitt sílóið tók að halla um allt að 30 cm á 40 metrum (var 58 m hátt) svo sást móta fyrir krumpu í hlið þess. Þá voru gerðar rannsóknir á undirstöðunni. Í ljós kom að þar undir, eftir að borað hafði verið 8-9 metrar niður í hraunið, var stærðar gýmald, sennilega stór sjávarrhellir. Reynt var að aka dæla steypu stöðugt niður um holuna í tvo daga, en þá sáu menn hvar sjórinn utan við ströndina var orðinn litaður af steypunni. Þá var steypudælingunni hætt, en síðar ákveðið að rífa sílóið, enda ekki lengur þörf fyrir það vegna breyttrar vinnsluaðferðar. Utar er búið að bæta nokkru við ströndina, en ekki var gert nein tilraun til að stækka borgatið og kíkja niður í dýpið. Það er því í raun enn óljóst hvað er þarna undir.“
Sveinbjörn var einn helsti forvígsmaður að kaupum og endurbyggingu Gerðis, sem þá varð að aðstöðu fyrir starfsfólk álversins. Ísal keypti einnig Tjarnarkot, sem var þarna skammt vestar. Fróðleikur um Gerði mun birtast fljótlega á vefsíðunni.
Heimild m.a.:
-alcan.is – upphafið
-Sveinbjörn Sigurðsson.

Straumsvík

Straumsvík.

Kaldársel

Nokkrum sinnum hafa verið gerðar klaufalegar tilraunir til að fornleifaskrá svæðið í kringum Kaldársel, bæði af fornleifafræðingum og sagnfræðingum. Flestar þeirra eru því að mörgu leyti svolítið skondnar. Um Kaldársel og nágrenni er fjallað víðs vegar hér á vefsíðunni. Hér verður allra vitleysanna ekki getið; einungis rifjuð upp saga staðarins í stuttu máli:

KaldárselKaldársel er við Kaldá þar var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi í Álftaneshreppi samkvæmt Jarðatali Johnsens 1847 og þar hefur jörðin jarðanúmerið 185.
Kaldársels er fyrst getið í árið 1703 í Jarðabók Árna og Páls, þá sem seli frá Görðum á Álftanesi. „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“ Kaldársel liggur 6-7 km suðaustur af þéttbýli Hafnarfjarðar. Staðurinn dregur nafn sitt af ánni sem Kaldá heitir, en bærinn stóð örfá metra frá ánni. Á svæðinu var mikill skógur sem áður fyrr var nýttur til kolagerðar og eldiviðar. Ekki er vitað hvenær landið komst í eigu Garðakirkju, en ljóst er að Garðaprestar höfðu þar í seli. Í ferðabók sinni segir Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur á Görðum hefur 1791:

Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Aukk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að enginn spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel – Daniel Bruun.

Má ætla að hér sé um lýsingu á Kaldárseli er að ræða. Lítið er vitað um Kaldársel frá því Sveinn Pálsson var þar á ferð í nóvember árið 1792 þar til árið 1842. Í lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir kona hans voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma er þau bjuggu á Hvaleyri. Jón og Þórunn höfðu sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Jón lést árið 1866 og eftir það lögðust selfarir í Kaldársel niður.

Kaldársel

Kaldársel um 1932.

Árið 1867 er talið fyrsta árið sem Kaldársel var í byggð allt árið. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn þeirra. Talið er að Jón og hans fjölskylda hafi búið í Kaldárseli í tvö ár. Á meðan Jón bjó í Kaldárseli var hann skrifaður þurrabúaðarmaður. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi, en hann var ókvæntur og barnlaus, ásamt ráðskonu og tökubarni. Á þeim tíu árum sem Þorsteinn bjó í Kaldárseli voru heimilismenn allt frá einum og upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé, og hafði hann einnig eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því var það nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé. Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags árið 1886. Þegar hann lést bjó hjá honum stúlka frá Hafnarfirði að nafni Sigríður Bjarnadóttir. Við andlát Þorsteins lauk fastri búsetu í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel.

Eftir að Þorsteinn féll frá voru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki sem ætla má að flest hafi verið gerð af Þorsteini. Þar má meðal annars nefna matjurtargarð og hlaðinn garð umhverfis túnið. Er húsakosti lýst á eftirfarnandi hátt í bókinni Áður en fífan fýkur eftir Ólaf Þorvaldsson: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“ Húsin í Kaldárseli voru því nokkuð sérstæð þar sem þau voru einungis byggð úr grjóti.

Kaldársel

Uppdráttur af húsum í Kaldársseli í lok 19. aldar – Daniel Bruun.

Þegar Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 lýsti hann rústunum á eftirfarandi hátt: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir … einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
Fljótlega eftir andlát Þorsteins voru húsin í Kaldárseli öll rifin nema baðstofan, en hún fékk að standa þar til um aldamótin 1900. Var baðstofan notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Einnig nýttu þessa aðstöðu haustleitarmenn Grindavíkurhrepps og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur.

Kaldársel

Kaldársel – hálfkláruð fjárhústóft Kristmundar.

Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli, sá maður var ungur Hafnfirðingur að nafni Kristmundur Þorláksson. Kristmundur byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu, og einnig byggði hann fjárhús. Kristmundur hafði lömbin á húsi, en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Kristmundur stoppaði stutt við í Kaldárseli eða einn vetur. Löng gangan milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og sú staðreind að honum bauðst vist hjá bóndanum í Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að hann ákvað að hætta búskap í Kaldárseli. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli. Hafnarfjörður keypti mikið land af Garðakirkju árið 1912, þar á meðal Kaldársel.

Kaldársel

Kaldársel – vatnsleiðslan.

Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918. Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1,5 km að lengd. Vatnið fann sér leið neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var. Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga.
Árin 1949 til 1953 var ráðist í umbætur á vatsnleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar.

Kaldársel

Kaldársel – fyrsti skáli K.F.U.M.

Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna. Börnin voru flest á aldrinum 8-10 ára.
Í Vísi 28. júlí 1929 lýsir Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Þar á meðal lýsir hann hinum nýju húskynnum K.F.U.M: Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.
K.F.U.M og K. er enn þann dag í dag með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbörns.

Kaldársels er fyrst getið í árið 1703 í Jarðabók Árna og Páls, þá sem seli frá Görðum á Álftanesi, Staðurinn dregur nafn sitt af ánni sem Kaldá heitir en bærinn stóð örfá metra frá ánni. Á svæðinu var mikill skógur sem áður fyrr var nýttur til kolagerðar og eldiviðar. Ekki er vitað hvenær landið komst í eigu Garðakirkju en ljóst er að Garðaprestar höfðu þar í seli. Í ferðabók sinni segir Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur á Görðum hefur 1791: „Lítið er vitað um Kaldársel frá því Sveinn Pálsson var þar á ferð í nóvember árið 1792 þar til árið 1842. Í lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju.“

Kaldársel

Kaldársel – í fjárskjóli.

Árið 1842 keypti Jón Hjörtson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir kona hans voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma er þau bjuggu á Hvaleyri. Jón og Þórunn höfðu sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Jón lést árið 1866 og eftir það lögðust selfarir í Kaldársel niður.
Árið 1867 er talið fyrsta árið sem Kaldársel var í byggð allt árið. Og er talið að þau hafi búið þar í 2 ár.
Árið 1876 eru 3 skráðir til heimilis í Kaldárseli og var búið það í 10 ár eða til 1886, en þá lauk fastri búsetu í Kaldárseli.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun.

Þegar Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 lýsir hann rústunum á eftirfarandi hátt: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir…einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hesthús en ekkert fjós.“
Þá segir í bókinni “ Áður en fífan fýkur” eftir Ólaf Þorvaldsson: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“ Húsin í Kaldárseli voru því nokkuð sérstæð þar sem þau voru einungis byggð úr grjóti.
Fljótlega eftir síðasta ábúandann 1886 voru húsin í Kaldárseli öll rifin nema baðstofan, en hún fékk að standa þar til um aldamótin 1900.
Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli, sá maður var ungur Hafnfirðingur að nafni Kristmundur Þorláksson. Kristmundur byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu einnig byggði hann fjárhús. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Hafnarfjörður keypti mikið land af Garðakirkju árið 1912, þar á meðal Kaldársel. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K járnvarið timburhús fyrir sumarbúðir sínar í Kaldárseli.

Kaldársel

Kaldársel 1965. Tóftir selsins sjást enn suðaustan við húsið.

Bálkahellir

Afleiðingar Suðurlandsskjálftans 2008 hefur haft víðtækari áhrif en talið hefur verið. Upplýst hefur verið að skjálftinn hafði bæði skyndiáhrif á fólk og langtímaáhrif á bæði bústaði þess og umhverfi, einkum í Hveragerði, á Selfossi og nærbyggðum. Fréttir hafa borist af öllu þessu og myndir verið sýndar – þær nýjustu af sprungum og misgengismyndun í fjöllunum ofan Hveragerðis. Hveravirkni hefur og aukist verulega.
FERLIR í BrennisteinsfjöllumHljóðara hefur farið um áhrif skjálftans á hraunhellana á svæðinu: Lögreglan hefur t.a.m. lokað Raufarhólshelli í Þrengslum vegna hruns. Búri, stærsti hraunhellir Suðvestanlands, hefur þó ekki verið skoðaður og virðist lögreglan ekki hafa lokað honum. Ef miða á við hrun í Leiðarenda í Stórabollahrauni allnokkru vestar ætti Búri nú að teljast varhugaverður. Arnarhreiðrið (-kerið) hefur heldur ekki verið skoðað og er það þó mun nær upptökum skjálftans (ofan Þorlákshafnar). Ekki er heldur vitað til þess að yfirvöld hafi kíkt í Bálkahelli í Klofningum (Krýsuvíkurhrauni). Engin viðvörun hefur í það minnsta komið frá þeim um að varhugavert geti verið að ferðast um hraunhellana fjölmörgu á skjálftasvæðinu – og eru þeir þó þar  fjölmargir (auk Búra, Arnarkers og Raufarhólshellis). Fólk þarf þó ekki að hafa hafa svo miklar áhyggjur því hraunhellar þessir hafa hrist af sér ótölulegan fjölda jarðskjálfta í þúsundir ára, án þess að falla saman. Að vísu má sjá ummerki eftir skjálftana í hellunum, en frostverkunin í þeim er þó öllu áhrifameiri. Í raun ættu almannavarnanefndir á svæðunum að vara fólk stöðugt við að fara um hellarásirnar á vetrum vegna hættu á hruni, en þær hafa ekki gert það fram að þessu a.m.k. Líklegt má telja að Snorri hafi orðið fyrir einhverju hnjaski, jafnvel FERLIR, Kistuhellarnir og Kistufellshellarnir stóru í Brennisteinsfjöllum, Nátthagi eða Rebbi á Stakkarvíkurfjalli.
Allt á þetta þó eftir að skoðast af fulltrúum almannavarnanefnda svæðanna – og meta. Rétt væri að tryggja alla hella svæðisins og gera síðan kröfu um bætur ef af röskun yrði vegna jarðskjálfta. Allt eru þetta jú bæði metanleg og ómetanleg náttúruverðmæti.

Í Leiðarenda

Réttarklettar

Skammt austan Réttarkletta ofan við ströndina vestan Lónakots má sjá áberandi strýtulagaðan hraunstand; Nípu. Hraunstandur þessi var bæði kennileiti fyrir gangandi fólk með strandgötunni millum Lónakots og Hvassahrauns, en skyldleikar voru jafnan miklir með fólki á þessum bæjum, sem og var Nípa kennileiti frá sjó, líkt og mörg önnur á ströndinni. Jafnan var þá um að ræða valin mið úti á djúpinu með stefnu á Keili, Trölladyngju eða önnur sambærileg kennileiti ofar í landinu.
Dulaklettar-1Réttarklettar voru einnig slíkt kennileiti, en þeir eru þó minnistæðari sem ágætt skjól fyrir fé og jafnvel sem selstaða undir lok fráfærutímans. Örnefnið Svínakot er til og er talið að það hafi verið um skamman tíma norður undir klettunum þar sem sjá má tóftir.
Dulatjarnir við Dulakletta eru spölkorn vestan við Réttarkletta. Þar eru ferskvatnstjarnir og gætir flóðs og fjöru í þeim sem er einkenni tjarna sömu gerðar í Hraunum. Í seinni tíð hefur grastó á einum klettinum verið nefnd Dula og á að hafa verið sérstakt fiskimið sem sjómenn treystu á er þeir voru á veiðum á Lónakotsdjúpi.
Dulaklettar-2Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot segir m.a. um svæðið vestan Lónakots: „Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti.  Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig.  Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól. Héðan frá blöstu við nokkru vestar klettar, nefndust Dulaklettar.
DulatjornÁ einum þeirra var grastó, nefndist Dula.  Um kletta þessa lá sérstakt mið, fiskimið í Lónakotsdjúp[i], en þar var klettur, er nefndist Duli, og var oft fiskisælt kringum hann.  Keilir um Dula nefndist fiskimiðið. Milli Dulakletta voru Dulatjarnir, og gætti þar flóðs og fjöru. Skammt utan og norðan Dulakletta voru Selasteinar og þar utar Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé.  En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól.“
Nipa-21Útvegsbændur í Hraunum lýstu Dulaklettum. Þeir sögðu þá vera tvo, austari og vestari, sitthvoru megin við Dulatjörn (e.t.). Báðir klettarnir voru semlíkir, þ.e. báðir grónir í kollinn (með grastór). Voru þeir sitthvort miðið; á inndjúpið og hið grynnra. Á millum þeirra bar Grænhól og var hann mið í Keili. Austan undir Grænhól er Grænhólsskjólið; ágætt fjárskjól.
Ástæðan fyrir nafngiftinni á Dulatjörn og Dulaklettum er sú að við tjörnina hefði fé gjarnan unað sér vel við ferskvatnið, gott gras og ekki síst skjólið, sem hraunið veitir í norðan næðingi. Þegar sækja átti það til nytja veittist hins vegar stundum erfitt að finna það því það vildi dyljast afslappandi í nálægum grónum hraunsprungum.
Fleiri sagnir eru til um Dulakletta, en þær bíða betri tíma.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing GS fyrir Lónakot.
-Munnlegar heimildir úr Hraunum.

Dulatjarnir

Dulatjarnir.

Miðdalur

Ætlunin var að ganga um Miðdal frá Fremstadal og inn í Innstadal. Þar átti að skoða betur aðstöðu útilegumanna, sem höfðust við í dalnum um miðja 18. öld. Enn má sjá minjar í og undir hamri norðan í dalnum, auk þess sem óvíða er litadýrðin meiri en í nálægu Hveragili.
ÖlkeldanDalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Um þá rennur Hengladalaáin. Dalir þessir hafa einnig verið nefndir Hengladalir. Í Miðdal (Þrengslum) er Ölkelda. Sagt er að hver sá sem laugar lasinn líkamshluta í keldunni muni alheill verða.

Fyrsta hindrunin var skapillur starfsmaður Orkuveitunnar. Sagði hann FERLIRsþátttakendur ekkert eiga með það að gera að fara um svæðið – þetta væri vinnusvæði. Ekki var þó að sjá að maðurinn væri að vinna, einungis að leggja sig fram við að brúka kjaft við saklausa skoðendur. Til þess hafði hann bæði ökutæki og búnað frá Orkuveitunni – og eflaust á fullu kaupi. Ef þetta er dæmigert viðmót starfsfólks orkuversins á Hellisheiði gagnvart áhugasömu göngufólki um Hengilssvæðið þá þarf það hið sama að endurmeta afstöðu sína til umgengisréttarins við landið. Virkjunarheimild felur ekki í sér rétt til að rífa kjaft við allt og alla.

Litskrúð

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er innsti dalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í innsta dal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins.
Í ÞrengslumVíðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda, sem fyrr sagði. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellirinn sem í eru mannvistarleifar. En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum (sjá meira HÉR).

Þegar komið er fyrir Litla Skarðsmýrarfjall er komið inn í Fremstadal, flatlendan og grösugan. Haldið var upp með ánni og þar til heldur þrengist um og var þá komið í Miðdal. Þar inn af er skarð er Þrengsli heita. Í Þrengslunum er ölkeldan. Þegar að henni var komið var að henni mátti sjá að um var að ræða hverauga með um 100° heitu vatni. Út frá því og umhverfis höfðu orðið til stallaðar og sepalaga kísilmyndanir í ýmsum litum. Þegar vatn úr keldunni var borið við augun varð sá hinn sami alsjáandi. Annar bar vatn úr henni á enni sér og mundi hann samstundist hvað hafði gerst fyrir a.m.k. tveimur dögum síðan. Það er því ljóst að sögur af heilsusamleika ölkelduvatnsins eru meira en bara orðin tóm.

Hengill

Slóðin heldur áfram með suðurhlið dalsins sem er grasi gróinn og sléttur, girtur fjöllum allan hringinn, Hengillinn í allri sinni dýrð til norðurs. Til norðvesturs gengur gil upp í Hengilinn með tignarlegum klettabeltum þar má ganga á Vörðu-Skeggja þó ekki sé það stikuð leið. Að austanverðu er gróið hraun, þar þrengist dalurinn. Lækur rennur eftir dalnum sem verður að Hengladalsá og síðar Varmá, lækjarvatnið er gott til að fylla á drykkjarílát. Í hrauninu er vegprestur sem skiptir leiðum, önnur áfram til austurs yfir á Ölkelduháls, hin til norðurs upp á Vörðu-Skeggja.

Lækur

Áður en farið er í Þrengslin þarf að komast yfir ánna, annað hvort með því að stikla hana eða vaða. Ef menn eru í góðum gönguskóm má víða fara hana á ferðinni og í stóru skrefi án þess að verða svo mikið sem rakir í fæturnar. Þetta er ekki meira vatnsfall en svo. Best er að fara um Þrengslin norðan árinnar vegna þess að hinu megin eru klettar og brattir melar, auk þess minna að sjá.

Í ÞrengslunumEftir að hafa hækkað sig eilítið í Þrengslunum er komið upp í Innstadal og þar gæti þurft enn og aftur að komast yfir Hengladalaánna, á sama hátt og áður en þarna er nokkuð auðvelt að stikla hana. Þarna í Þrengslunum er mikil litadýrð norðan árinnar. Þar er önnur ölkelda og lindaraugu líkt og víða í dölunum.

Hengilssvæðið er á miðju vestra gosbelti landsins, sem nær frá Reykjanesi að Langjökli. Berggrunnur er að mestu móberg sem myndast hefur í gosum undir jökli á síðustu jökulskeiðum ísaldar. Grafningsmegin á svæðinu er röð móbergshryggja sem fylgja ríkjandi sprungustefnu NASV og ganga út í Þingvallavatn.
GígurÁ Hengilssvæðinu eru þrjú eldstöðvakerfi með megineldstöðvum, hverum og laugum. Þetta eru Hveragerðiseldstöð, Hrómundartindskerfi og Hengilskerfi sem er yngst og virkast. Eftir ísöld eru þekkt fjögur til fimm sprungugos á svæðinu. Síðast gaus fyrir um 2.000 árum á 30 km langri sprungu sem náði frá Þrengslum, um Hellisheiði, Innstadal og í Sandey í Þingvallavatni. Þá rann yngsta hraunið á Hellisheiði og Nesjahraun í Grafningi.
Síðast voru umbrot í Hengilskerfinu árið 1789. Þá gliðnaði og seig spilda á sprungubelti sem liggur yfir Dyrafjöll og Hestvík og norður yfir Þingvallavatn milli Almannagjár og Hrafnagjár.
Þá seig land um einn til tvo metra. Hverir og laugar finnast í öllum eldstöðvakerfunum, en þó mest í Hengilskerfinu. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal.

Litadýrð

Kristján hóf störf hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar, forvera ÍSOR, árið 1960. Hann lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Háskólanum í Köln árið 1966 og var aðalviðfangsefni hans var kortlagning á jarðfræði Hengilsins. Kristján hefur verði með afkastamestu jarðfræðingum landsins. Hann hefur kortlagt drjúgan hluta þess í meiri smáatriðum en áður hafði verið gert og með vísindastörfum sínum lagt þung lóð á vogarskálar nútímaskilnings á jarðfræði landsins og þeim öflum sem móta hana. Megináherslan í starfi Kristjáns hefur þó falist jarðhitaleit vítt og breitt um land. Er óhætt að segja að enginn einn maður hafi átt jafndrjúgan þátt í þeim mikla árangri sem náðst hefur á því sviði á Íslandi og Kristján. Fáar eru þær hitaveitur þar sem hann hefur ekki komið að málum.

Fyrir landnám óx birkiskógur með fjölbreyttum undirgróðri upp í 3-400 metra yfir sjávarmáli á svæðinu. Ofar tók við harðgerður og lágvaxinn fjallagróður og samfelld gróðurþekja náði upp í 5-600 metra hæð. Smám saman breyttist gróðurfar í kjölfar kólnandi veðurfars, skógarnytja og búsetu. Nú er samfellt birkikjarr á afmörkuðum svæðum upp af Þingvallavatni. Birkistofninn er kræklóttur og lágvaxinn en getur þó náð tveggja metra hæð. Fjölbreytni í gróðri er allmikil, en grasaættin er einkennandi og útbreiddust. Margar gerðir mólendis eru á svæðinu, en það er mest áberandi í Grafningi. Í Ölfusi er land grösugra, en graslendi nær þó sjaldnast yfir stór samfelld svæði. Á láglendi eru stærstu votlendissvæðin við Villingavatn, Króksmýri og í Dælum austan við Úlfljótsvatnsfjall, auk minni mýrlenda við tjarnir og læki. Allstórt og fjölbreytt flóasvæði er í Fremstadal.
VetrarblómMýrastör er jafnan ríkjandi tegund í mýrum. Strjáll bersvæðisgróður vex á melum, en tegundafjöldi er þó mikill. Þar má nefna geldingahnapp, lambagras, blávingul, blóðberg, músareyra, holurt og holtasóley. Í Nesjahrauni er samfelld breiða af gamburmosa, sem er landnámsplanta á hraunum. Mosinn myndar jarðveg fyrir aðrar tegundir og þar dafna krækilyng, bláberjalyng, blávingull, kornsúra, móasef, túnvingull, hvítmaðra, grávíðir og fleiri tegundir.

Ölkelda (úr öl + kelda sem þýðir í fornnorsku „uppspretta“ eða „lind“) er uppspretta vatns sem inniheldur koltvísýring, en hann á uppruna sinn í storknandi kviku í iðrum Jarðar. Koldíoxíði kemur úr storknandi kviku í iðrum jarðar. Ef menn taka vatn með sér úr ölkeldu dofnar kolsýran fljótt ef vatnið er ekki geymt í lofttæmdum umbúðum. Vatnið úr ölkeldum þykir hressandi drukkið á staðnum og er vatnið ýmist heitt eða kalt. Ölkeldur finnast um allan heim og eru sumar þeirra þekktar sem heilsulindir (Sigurður Þórarinsson, 1978).

Ölkeldur eru kaldar eða rétt volgar uppsprettur sem finnast á háhitasvæðum og oft í jöðrum þeirra. Yfirleitt eru þær járnmengaðar og bragðvondar og vatnið rauðbrúnleitt, jafnvel svo liti heilu lækina. Vatn úr þeim köldustu sem mest ólga af kolsýrunni er drekkandi þótt brúnleitt sé.

Lóuegg

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá 18. öld, er fjallað um ölkeldur á Snæfellsnesi. Þar telja þeir ölkeldur bæta Snæfellsnesi þann missi að hafa ekki neitt heitt vatn. Í ferðabókinni eru ölkeldur skilgreindar sem „uppsprettur sem eru auðugar af málmsöltum og með bragðmiklu vatni“. Eggert og Bjarni reyndu að flytja ölkelduvatn með sér til Kaupmannahafnar en vatnið skemmdist á leiðinni. Þeir félagar álitu að ölkeldur gætu orðið til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga því í öðrum löndum væru hressingarhæli oft byggð nálægt ölkeldum. Enn hefur þó lítið verið gert til að nýta það ölkelduvatn sem finnst á Íslandi.

Í HveragiliGufu- og leirhverir finnast aðeins á háhitasvæðum. Í raun er um samskonar hveri að ræða og því eru þeir oft flokkaðir saman. Í leirhverum nær vatnið upp í hvernum en í gufuhverum er svo djúpt á grunnvatnið að ekkert vatn er sýnilegt. Í gufuhverum leitar vatn yfir suðumarki til yfirborðsins og streymir þar út sem gufa. Í raun getur sami hverinn verið bæði gufu- og leirhver, bara ekki á sama tíma. Í miklum þurrkum getur leirhver þornað upp og orðið að gufuhver. Leir hveranna samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi.
Vatnshverir eru einkennandi fyrir lághitasvæði en finnast líka í einhverju mæli á háhitasvæðum. Vatnshverir á sama jarðhitasvæðinu liggja oftast nær í beinni línu eða í þyrpingum sem ná frá tugum til hundruð metra í lengd. Venjulega má þá finna sprungu undir hveraröðinni sem gefur til kynna að heita vatnið eigi upptök sín þar.

SkjólHellir útilegumannanna var skoðaður sem og undirliggjandi minjar. Undir stórum steini mátti sjá votta fyrir hleðslum. Bæði höfðu þær fallið inn á gólfið og regnvatn hafði fært sand og möl inn í skúta sem þar er. Staðurinn hefur verið hið ágætasta afdrep fyrir þá sem vildu leynast fyrir ferðum fólks um Innstadal því ekkert af því hefði átt erindi þangað að hömrunum.
Til baka var gengið frá upprunalindum Hengladalaárinnar og meðfram henni að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Ölkeldan

Vogshóll

Leifar flugvéla frá stríðsárunum má sjá á rúmlega 30 stöðum á Reykjanesskaganum. Bæði rákust flugvélarnar á fjöll og brotlentu eða voru skotnar niður. Síðastnefnda hópnum tilheyra leifar tveggja þýskra flugvéla sem hingað hafði verið flogið. Aðrar vélar tilheyrðu bandamönnum.
Hreyfill úr Bresku Gránu í MosfellssveitÁ öllum stöðunum má enn sjá ummerki, mismikil, rúmlega 60 árum eftir að atburðirnir gerðust. Af ljósmyndum, sem teknar voru á slysavettvangi, má yfirleitt sjá mikið brak, sem bæði vindur og vatn hefur síðan fært úr stað. Heillegir hlutir voru margir fjarlægðir skömmu eftir óhöppin, en mest hefur þó verið fjarlægt af ferðalöngum sem skoðað hafa staðina. Ferðalangarnir hafa gjarnan tekið með sér hluti til minningar um komu þeirra á vettvang. Þeir hlutir hafa síðar farið forgörðum enda til lítils yndis og engum til gagns í heimahúsum þar sem þeir hafa ekki verið í neinum tengslum eða samhengi við atvikið.
Leifar flugvélanna á vettvangi eru einu vísu staðfestingarnar hvar atburðurnir áttu sér stað. Þegar sérhver einn af hverjum 10 ferðalöngum taka með sér einn hlut er ljóst að ummerkin verða fljót að hverfa, eins og raunin hefur verið á. Horfnar leifar verða þeim sem á eftir koma hvorki til vitundar um staðsetninguna né staðfesting á því sem þar gerðist. Dæmi eru um að óheill hafi fylgt þeim, sem fjarlægt hafa hluti af vettvangi slysa.
Vettvangurinn – og allt sem á honum á að vera – er í rauninni minningarummerki, bæði um atburðinn og þá sem þar annað hvort létu lífið eða björguðust. Það er því mikilvægt að fólk er þangað kemur láti allt óhreyft.
Tvö stórtækari dæmi má nefna hér um hluti, sem fjarlægðir hafa verið af vettvangi flugslysa. Annað er hreyfill úr Bresku Gránu sem nauðlenti í Bláfjöllum 1945 og hitt er hreyfill úr Hudson-vél sem fórst í Kistufelli sama ár. Báða þessa hreyfla sótti Arngrímur Jónsson, flugstjóri, og félagar hans á slysavettvang og færðu að flugskýli á Tungubökkum í Mosfellssveit. Þar hafa hreyflarnir legið utan dyra undanfarin ár.

Hreyfill úr Kistufelli í Mosfellssveit

Í Kistufelli suðvestanverðu er mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Annar mótorinn liggur neðan við hlíðina, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Arngrímur og félagar sóttu hinn hreyfilinn, sem ofar var. Notuð var þyrla til að þoka honum úr farinu og síðan til að færa hann niður á þjóðveg.
Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla. Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið.
Stjörnuhreyfill sést vel á vettvangi sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga. Ekki var að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Arngrímur og félagar tóku hinn stjörnuhreyfilinn og færðu á fyrrnefndan stað.
Dæmi um ófarnað ferðalangs sem fjarlægði hlut af vettvangi má nefna sögu manns er heimsótti Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma.
Ferðalangurinn vildi ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Reynt var telja hann frá því. Skömmu síðar gerði hann sér ferð á vettvang með það fyrir augum að taka með sér hlut úr flugvélinni. Á leiðinni til baka týndi hann gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann fór til baka og skilaði hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Þessi dæmi vekja upp þá hugsun hvort ekki ríki friðhelgi á vettvangi flugslysa hér á landi. Svo mun ekki vera hvað hina lagalegu hlið varðar, en sú hlið, sem snýr að þessum málum er fremur siðferðilegs eðlis.

Sjá má myndir á FERLIRsvefnum – https://ferlir.is/portfolio-item/flugvelaflok/

Vogshóll

Brak við Vogshól.

Lönguhlíðarhorn

Ætlunin var að skoða stíga neðan Kerlingarhnúka um Dauðadali sunnan Helgafells. Gengið var m.a. um Tvíbollahraun (~950 e.Kr.) og Skúlatúnshraun (~3000 ára (Ísor)), einnig nefnt Hellnahraunið eldra.

Selvigsgata/Dauðadalastígur

Selvogsgata/Kerlingarskarðsvegur/Dauðadalastígur.

Þar er Gullkistugjá, löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um hraunið. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Manngerð brú er þvert yfir miðja gjána. Þar skammt frá hafði lóan verpt tveimur eggjum.
Ofan Gvendarselsgíga er slétt helluhraun, Skúlatúnshraunið fyrrnefnda, ígildi dyngjuhrauns, því um er að ræða óvenjumikið magn og flæmið eftir því. Ofarlega í hrauninu er gróinn ofanhólmi, uppspretta vangaveltna um fornar mannvistaleifar. Fyrir um 2.000 árum (Náttúrufræðingurinn 1997-1998) varð mikil goshrina á Reykjanesskaga og gaus þá m.a. í Brennisteinsfjallareininni. Frá einum gígnum, Stórabolla í Grindarskörðum, rann mikið hraun niður í átt að Straumsvík. Það breiddist út yfir stórt svæði ofan við Helgafell og Húsfell.
Daudadalastigur-3Ein kvísl hraunsins rann sunnan og vestan við Helgafell og þaðan niður á milli Helgafells og Gvendarselshæðar og síðan vestur fyrir Stórhöfða, allt til sjávar og myndaði núverandi strönd milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts. Þetta hraun stíflaði uppi Hvaleyrarvatn. Suður af Helgafelli heitir hraunið Skúlatúnshraun en við Hvaleyrarholt myndar það meginhluta Hellnahrauns.
Að þessu sinni var byrjað á því að fylgja stíg (Dauðadalastíg) frá Bláfjallavegi til austurs áleiðis að Kerlingarhnúk. Stígurinn er áberandi í Skúlatúnshrauninu, sem er þarna sem mjó og tiltölulega slétt hvylft milli nýrra og úfnari hrauntungna Tvíbollahrauns. Syðri tungan er að hluta til komin ofan úr Syðstubollum ofan Kerlingarhnúks. Sést hraunfossinn vel utan í hlíðunum neðan Þverdals. Auðvelt er að finna á fæti ástæðuna fyrir því að þessi leið hefur verið valin. Hún er sléttaflíðandi og því þægileg til göngu. Við stíginn miðja vegu milli vegarins og hlíðarinnar er vatnsstæði.
Daudadalastigur-4Frá því og upp að Þvergilslæk er stígurinn enn eins augljós. Og eftir að yfir Þvergilslækinn er orðið erfitt að greina hann, en hann lá upp með læknum í hlíðarrrótinni. Neðst undir Þvergili beygði hann neðst upp með gróinni hlíðinni og upp í Þverdal. Þaðan sést stígurinn vel upp og suður dalinn uns komið er upp með sunnanverðum Kerlingarhnúk. Liggur stígurinn inn á námustíginn frá Hlíðarvegi og áleiðis inn í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum.
Þá átti eftir að finna vestari hluta Dauðadalastígs neðan Bláfjallavegar að Gvendarselshæð. Gengið var vænleg leið niður með og milli Marhraka (Markraka) hæðanna, í gegnum Dauðadali og með vestustu tungu Stórabollahrauns með stefnu á suðurhorn Helgafells. Með góðum vilja var hægt að fylgja stíg við hraunhornið áleiðis að Helgafelli, en að öllum líkindum er um fjárgötu að ræða. Komið var að gróinni og áberandi vörðu í miðju Skúlatúnshrauni, en erfitt var að sjá hvaða hlutverki hún hafi átt að gegna á þessum stað, nema ef vera skyldi til að undirstrika landamerki.
Þegar komið var að Gullkistugjá varð ljóst að annað hvort þyrfti að fara yfir hana um nyrsta horn eða miklu mun sunnar. Gjárbarminum var fylgt uns komið var að manngerði brú yfir hana. Um hana lá stígur áleiðis niður að norðanverði Gvendarselshæð, niður á Dalaleið. Götunni var fylgt að Skúlatúni og síðan áfram upp Skúlatúnshraunið, upp að suðvestanverðum Marhraka og áfram um miðja Dauðadali áleiðis upp á fyrstnefnda kaflanum ofan Bláfjallavegar.

Gullkistugja-2

Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er í Landnámu sagður hafa búið á Skúlastöðum. Han nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Munnmæli munu vera um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlatúnshraun sé, norðan við Lönguhlíðarhorn, sbr. umfjöllun í ritinu Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða. Árni Helgason minnist á Skúlastaði og menjar þeirra í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 (bls. 211). Hafi Skúlastaðir staðið þar sem munnmæli segja, eru líkur fyrir því að Almenningsskógalandið og Garðaland hafi verið hluti af landnámsjörð Ásbjörns heitins. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram í Skúlatúni. Reyndar má telja ólíklegt að þar finnist slíkar minjar því hafi bær verið á svæðinu frá fyrstu tíð má telja yfirgnæfandi líkur á að hraunin er runnu þarna þrálátlega á söguöld hafi náð að eyða þeim minjum varanlega.
Helgafellið blasti við með Riddarann efst. Riddarinn er í raun þríburði því í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum er getið um tvo bræður hans á Brunabrúninni, sbr.: „Skammt austur frá hliðinu á austurtúngarðinum voru tveir hraundrangar, nær mannhæðaháir og áberandi af sjó. Þeir nefndust Riddarar. Um þá og Riddarann á Helgafelli var mið á Rifið út frá Óttarsstaðatúni“.
Daudadalastigur-5Helgafell, einkenniskennileiti svæðisins, er móbergsfjall í um 7 km suðaustur frá Hafnarfirði. Fjallið er 340 metra hátt, hömrótt og víða bratt. Á veturna getur verið varhugavert að ganga á fjallið vegna hálku sem leggst á klappirnar. Auðveldast er að fara upp hrygginn norðanmegin í fjallinu [reyndar er auðveldasta uppförin norðvestan í fellinu, um gilsskorning, sem þar er]. Einkenni fjallsins eru miklar klappir og lítill gróður. Mikið útsýni er af  Helgafelli og fróðlegt er að sjá hvernig hraun í nágrenninu hafa runnið og sprungið eftir því sem ár og aldir hafa liðið.Valahnúkar eru móbergshryggir norðan við Helgafell. Móbergs- og bólstrabergsmyndanir eru allfjölbreyttar myndanir og nokkuð sundurleitar innbyrðis. Þær eru flestar frá því á síðasta jökulskeiði sem hófst fyrir um 120.000 árum.

Daudadalastigur-6

Á hlýskeiðum renna hraun langar leiðir en á jökulskeiðum er landið hulið jökulskildi samanber í kaflanum um grágrýti. Við gos í jöklum nær bergkvikan ekki að renna frá gosinu heldur bræðir hún geil upp í jökulinn sem hálffyllist af vatni. Þegar kvikan blandast vatninu snöggkælist hún, splundrast og gleraska myndast sem sest að í geilinni. Ef vatnsdýpi er mikið þá orsakar vatnsþrýstingurinn að bergkvikan nær ekki að splundrast heldur myndast bólstraberg. Ef bergkvikan splundrast þá myndast þeytigos. Í öflugum þeytigosum brjótast gosefnin oft upp með miklum krafti og fara hátt upp í loft og hlaðast í miklu magni í kringum gosopið. Hinsvegar ef gosið nær ekki að vinna sig upp úr ísnum og vatn nær ekki að gosrásinni þá fer að renna hraun sem myndar hettu ofan á gosösku og heita það stapar. Þegar frá líður harðnar askan og ummyndast í móberg. 

Daudadalastigur-7

Þegar ísskjöldurinn hvarf af landinu stóðu móbergsfjöllin eftir. Dæmi um móbergshryggi er t.d. Valahnúkur og Helgafell [og Húsfell (278 m.y.s.]. Stapa er hins vegar ekki að finna á þessu bergmyndunarsvæði.
Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti. Grágrýtið er grátt eða grásvart að lit, grófkornað, beltaskipt en yfirleitt er lítið um díla í því. Það myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið. Grágrýtið er yfirleitt dálítið frauðkennt og tekur í sig mikið vatn og þolir illa veðrun. Jöklar frá jökulskeiðum ísaldar hafa farið yfir grágrýtishraunin og skafið allt gjall ofan af þeim.

Daudadalastigur-8

Nokkrar „götur“ eru þarna um slétt helluhraunin og sumar þeirra vænlegar, en án efa eru þær allflestar fjárgötur. (Sjá meira um stíga í framangreindum hraunum HÉR og HÉR .) Hafa ber í huga að einstökum stöðum voru gefin hin ýmsu nöfn, allt eftir því hverjir að sóttu. Þannig var t.d. Selvogsgatan jafnan nefnd Suðurfararvegur meðal Selvogsbúa – og gerir enn.
Spyrja má hverjir hafi farið Dauðadalastíginn og í hvaða tilgangi. Eins og sjá má annars staðar á vefsíðunni liggur annar stígur allnokkuð norðar um Dauðadali í svonefnda Dauðadalahella. Sá stígur er mun yngri enda tiltölulega stutt síðan farið var að sækja hellana heim. Sá stígur, sem hér hefur verið til umfjöllunar, hefur væntanlega verið farin af rjúpnaveiðimönnum í Bollana áður en Bláfjallavegurinn var lagður og jafnvel námumönnum er sóttu vinnu í brennisteins-
námurnar í Brennisteinsfjöllum. Fyrir kunnuga er þekktu vel til staðhátta er þetta tilvalin leið frá Kaldárseli upp fyrir Kerlingarhnúk og áfram inn í Námuhvamm. Bæði liggur gatan betur við bænum en Selvogsgatan um Grindarskörð og Hlíðarvegur um Kerlingarskarð, enda námurnar allnokkru vestar í fjöllunum en fyrrnefndar leiðir voru ætlaðar millum staða.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Gengnir voru 15.8 km.

Heimildir m.a.:
-isor.is
-Náttúrufræðingurinn 1997-1998, bls. 175.

Flóki

Í Dauðadalahellum.

Seltún

Ferðinni var heitið að Seltúni í Krýsuvík með það fyrir augum að skoða svæðið m.t.t. hugsanlegra sýnilegra minja (tófta).
Áður höfðu fundist seltóftir og hringlaga gerði austarlega á túninu. Ljóst er Selstaðanþó að þarna var brennisteinsnám um nokkurt skeið, bæði af hálfu Krýsuvíkurbænda og útlendinga. Tóftir húsa eru neðan undir Baðstofu (sjá meira HÉR) og því ættu að vera sambærilegar minjar við Seltún nálægt Hveradal þar sem brennisteinn var jafnframt numin á sama tíma. Ljóst er af skrifum Ole Henchels um brennisteinsmannvirki í Krýsuvík 1776 að þau voru nokkur, en höfðu verið látin drabbast niður. Brennissteinsvinnslan var síðan tekin upp að nýju í námunum og þá hafa væntanlega verið byggð ný hús og önnur mannvirki. Leifar þeirra ættu að sjást þrátt fyrir margbreytileika landsins.
Til gamans má geta þess að Seltúns- og Hveradalssvæðið er eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins, en minjanna þar umleikis er hvergi getið (árið 2009), hvorki hinnar fornu þjóðleiðar um Ketilsstíg, selstöðunnar í Túninu né brennisteinshúsanna.
HringlagaTil að gera langa sögu stutta má geta þess að við leitina fundust tvö hús úr torfi og grjóti norðan við Seltún, auk hestagerðis, og ein lítil ferningslaga tóft vestan við það. Áður en þessum minjum verður lýst nánar er ástæða til að rifja upp annan fróðleik um efnið á öðrum FERLIRssíðum (ekki síst til að koma að fallegum myndum af svæðinu).
„Brennisteinn var unninn í Krýsuvík á 18. og 19. öld. Frægar eru ljósmyndir í ensku 19. aldar blaði er sýndu „arðvænlega“ vinnslu náttúruauðlinda á svæðinu. Á þeim sáust miklir hraukar brennisteins og allt virtist í fullum gangi. Tilgangurinn með myndunum var m.a. að selja enskum hlutabréf í námuvinnslufélaginu.
TóftÞeir félagar Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unninn brennisteinn í Krýsuvík. Til er uppdráttur af námuvinnslusvæðinu frá þessum tíma. „Hverasvæðinu er skipt í tvö svæði. Annað heitir „Heimanáman“, þar sem brennisteinninn er. Það er sunnar, nær Krýsuvíkurbæ og sjónum. Hitt svæðið liggur norðar, uppi í fjöllunum. Þar eru hverirnir flestir, og eru fjórir þeirra mestir. Við mældum einn þeirra, sem bláleirsgrautur sýður í. Í honum beygja menn tré og gyrði. Hann er 6 álna djúpur. Annar hverinn er mjög nýr. Hann var til veturinn 1754 -1755 í miklum landskjálfta, og héldu þeir, sem þá voru staddir þar í brennisteinskofunum, að þeir mundu hrynja.“
TóftBrennisteinssvæðin voru tvö; annars vegar í Baðstofu (Heimanámar) milli Hettu og Hatts og hins vegar við Seltún. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Þeir seldu síðan námuréttindin fyrir peninga og þótti það í frásögu færandi. Upphæðin var þó lítil miðað við mögulegan ávinning.
Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.
Í Jarðamati 1849–1850 er kafli um Krýsuvík og hjáleigurnar, Suðurkot, Norðurkot, Stóra – Nýjabæ, Litla – Nýjabæ, Vigdísarvelli, Bala, Læk og Fitjar. Þar stendur m.a.: „Landrými mjög mikið. … Skógarló. Talsverður brennusteinn. … Jörðin að flestum í nytjum mjög örðug og fólksfrek, þareð þær liggja langt frá og eru sumar sameinaðar lífshættu.“

Gerði

Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1848 – 1862 kemur fram að eigandi hálfrar Krýsuvíkur hafi leigt Jóni Hjaltalín námarétt og gefið byggingarleyfi þann 13. september 1851. Þar kemur einnig fram að þann 30. september 1858 selja eigendur Krýsuvíkur Joseph William Busby esq. brennisteinsnámur í landi Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkur og að eigandi hálfrar Krýsuvíkur og Herdísarvíkur hafi heitið því þann 4. september 1858 að selja Jóni Hjaltalín námuréttindi.
TóftManntalsþing var haldið í Innri – Njarðvík þann 20. júní árið 1859. Þar var auglýst samningi sem Sverrir Eiríksson í Krýsuvík hafði gert við dr. Jón Hjaltalín þann 4. september 1858 um að Sverrir seldi Jóni sinn helming úr Krýsuvíkurtorfunni ef leyfi fengist ekki til þess að selja sérstaklega undan jörðinni brennisteinsnámur þær sem þar voru.
Á manntalsþinginu var einnig þinglýst afsalsbréfum sem eigendur Krýsuvíkur, S. Sivertsen og Sverrir Eiríksson, gáfu út síðla árs 1858. Í þeim kemur fram að þeir selji Joseph William Busby Esq. allar námur í Krýsuvíkurlandi.
Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877.
KetilsstígurLandamerkjabréf Krýsuvíkur var undirritað 14. maí 1890 og þinglesið 20. júní sama ár. Í landamerkjabréfinu kemur einnig fram hver hafi verið ítök kirkjunnar. Einnig er greint frá því í landamerkjabréfinu að Strandarkirkja og Kálfatjarnarkirkja eigi ítök í landi kirkjunnar, þar á meðal mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju, og að allar brennisteinsnámur á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi séu í eigu útlendinga. Kostnaðurinn við brennisteinsvinnsluna varð þó of mikill og var því einungis unnin brennisteinn þar í tvö sumur eftir að JWB keypti námurnar. Síðan tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson. Samningur milli eigenda Krýsuvíkur og Herdísarvíkur og Patersons um námur frá 2. desember 1871 var þinglesinn þann 20. júní 1877. Þeir nýttu námurnar árið 1876. Þeir stofnuðu m.a. „Brennisteinsfélag Krýsuvíkur“ og reyndu sem fyrr sagði að selja hlutabréf í námuvinnslunni til Englendinga.

Þil

Á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar og æ erfiðara var að ná í hann. Grafa þurfti og bora eftir brennisteininum með mikilli fyrirhöfn. Hreinsa þurfti afurðirnar, safna saman, þurrka, móta og flytja. Settar voru upp nokkra kvíar úr tréþiljum í lækjarfarveginn og í þær safnað vatni. Í þeim var brennisteinninn þveginn áður en hann var færður upp í stóra hrauka á svæðið sem nú er bílastæði.
Á stríðstímum var brennisteinninn „gullsígildi“, en á friðartímum svaraði vinnsla hans varla kostnaði.
Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins.
Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. Enn þann dag í dag má sjá leifar námuvinnslunnar, en fáir veita þeim athygli.
Í bók II er skýrsla Ole Henchels um brennisteinsnámur á Íslandi og hreinsun brennisteins, 30. janúar 1776. Í henni lýsir Ole m.a. leir og brennisteini í Krýsuvíkurfjalli og hvernig vatnsborð Kleifarvatns hafði lækkað eftir landskjálfta, „trúlega eftir að sprunga hafi opnazt í vatnsbotninum“.

 

Nýrri„Hjá syðstu námunum rétt við fjallsræturnar var fyrsta hreinsunarstöðin reist, en þar sem ekkert eldsneyti var þar að hafa, var hún flutt og sett niður fjórðung mílu frá bænum, en þar er mótekja góð. Síðan var hún flutt heim undir bæinn, því að mönnum þótti léttara að flytja brennisteininn þangað niður eftir en að flytja eldsneytið upp eftir að fyrsta stöðvarhúsinu. Heima við bæinn er einnig léttara að ná í vatn, því að lækur með góðu vatni rennur þar framhjá.
Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði tekin upp brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo að allt verður að gera að nýju, ein og þar hefði aldrei fraið fram brennisteinsvinnsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar.

Eldri

Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Það hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna búsettur og hafði unnið við brennisteins-vinnsluna. Síðan hefði kaupmaðurinn í Grindavík, sem er einungis 2 1/2 mílu í burtu þaðan, getað farið til Krýsuvíkur eini sinni á sumri til þess að líta eftir, að umsjónin væri sómasamlega rækt. Þá hefði ekki þurft nema smávegis aðgerðir, þegar vinnslan yrði upp tekin á nýjan leik…
Bóndinn í Krýsuvík vissi ekki nema af einum stað öðrum, þar sem brennisteinn fyndist. Er hann 2 1/2 mílu í norðaustur þaðan. Síðast meðan unnið var í Krýsuvík að brennisteinsnámi, sótti hann þangað allan þann brennistein, sem þar var að fá, á 50 hesta, og hefur það þá verið nálægt 80 ættum. Ekki vissi hann, hvort brennisteinn hefði skapazt þar síðan, og væri það vert athugunar.
TóftEf til þess skyldi koma, að brennisteinsvinnsla yrði hafin hér að nýju, þá mundi stofnkostnaðurinn verða allmikill, eins og þegar hefur verið bent á. En ég þori að fullyrða, að þetta er kleift, ef hagsýni er gætti. Í fyrsta lagi verður að taka brennisteininn með hinni mestu varkárni. Þá verður og að fara skynsamlega að við hreinsunina og ætti fyrst að þvo hrábrennisteininn. Með þeim hætti hygg ég, að mætti ekki aðeins spara mikið lýsi, heldur einnig yrði brennisteinninn betri en ella. Hversu þessu yrði bezt fyrir komið, skal ég lýsa, þegar ég síðar lýsi þeim aðferðum, sem nú eru notaðar við hreinsun brennisteins í hreinsistöðinni á Húsavík.

Brennisteinn

Í Krýsuvík er brennisteinninn hreinni og betri en á Norðurlandi. Það þarf ekki heldur að flytja hann óhreinsaðan langar leiðir eftir vondum vegum, svo að framleiðslukostnaðurinn verður minni en á Húsavík. Hins vegar verður að kannast við það, að frá Krýsuvík þarf að flytja brennisteininn hreinsaðan 6 mílna leið til Hólmshafnar, en þaðan er hann fluttur út. En Grindavíkurhöfn er aðeins 2 1/2 mílu frá Krýsuvík og allgóður vegur þar á milli. Ef brennisteinsvinnslan yrði upp tekin, verða starfsmenn verzlunarinnar að skera úr því, hvort muni vera ódýrara, að flytja brennisteininn á hestum til Grindavíkur og þaðan á bátum til Básendahafnar, þar er ekki er siglt á grindavíkurhöfn, eða flytja hann á hestum alla leið í Hólminn eða til Hafnarfjarðar. En þeir geta gert það betur en ég, því þeir hafa fyrrum haft umsjá með flutningunum og vita, hvað þeir hafa kostað. Þeir ættu einnig að geta reiknað nokkurn veginn, hvað flutningskostnaðurinn yrði, eins og ég hef stungið upp á, og er þá létt að bera það saman, hvor leiðin reyndist ódýrari, og að velja hana að sjálfsögðu.
En þegar nú þar að auki nokkrar smáskútur eru gerðar út til fiskveiða við Ísland, gætu þær tekið brennisteininn á Grindavíkurhöfn, og þá er flutningurinn á landi mjög stuttur.
Hins vegar get ég ekki heitið því, að unnt sé að stunda brennisteinsnám í Krýsuvík um langt skeið í einu, þar eð námurnar eru allar á einum stað og ná ekki yfir sérlega stórt svæði. Þegar brennisteinninn hefur verið tekin úr þeim í 3-4 ár, mun þurfa að hvíla þær um jafnlangan tíma, nema menn yrðu svo heppnir að finna þar kaldar námur, sem hægt væri að vinna meðan brennisteinn myndaðist á ný í lifandi námunum, en ekki er hægt að gera því skóna með nokkurri vissu.
BrennisteinnEn ef ekki sýnist tiltækilegt að hefja brennisteinsvinnslu í Krýsuvík að þessu athuguðu, virðist mér samt, svo að námurnar liggi ekki þar engum til gagns, að rétt væri að lofa bændum þeim, er þar búa, að hreinsa brennisteininn, gegn því að þeir afhendi hann verzluninni og fengju erfiði sitt og fyrirhöfn goldið eftir landsvenju. Verzlunin mundi að vísu ekki græða mikið á þessu, en hafa þó nokkurn ágóða.
Þá rannsakaði ég, eins og mér var boðið, hvort jarðhitinn væri nokkurs staðar svo mikill, að unnt væri að nota hann til brennisteins-hreinsunarinnar. En hann reyndist mér hvergi meiri en svo, að kvikasilfrið kæmist í suðumark. Hann er þannig með öllu ónógur til að bræða með brennisteinn eða eima hann, þegar hann er í föstu formi.

Fegurð

En þó að hitinn væri nægur, þá er jarðveguinn of laus til þess, að hægt sé að koma þar fyrir húsi eða nokkrum tækjum til að handsama hitann, því að þar er hvorki hægt að ganga né standa án þess að hætta sé á, að maður sökkvi í leðjuna, og varð ég oft fyrir því að vaða jörðina upp í hné.
Dagana 18. – 19 júlí fór ég um fjöllin, sem liggja suðvestur frá Kelifarvatni og fram hjá brennisteinsnámunum og beygja síðan í suðaustur til sjávar. Svipaðist ég þar um eftir kalki, sem mér datt í hug, að kynni að finnast þar, af því að kalk er algeng bergtegund í öðrum löndum. En hversu vel sem ég leitaði, fann ég hvergi nokkrun kalkvott, því að hvarvetna þar, sem égf fór eða sá yfir, var enga aðra bergtegund að sjá en sandstein þann, sem áður hefur verið lýst.“

Krýsuvík

Af framangreindum tóftum má ætla að torfhúsin tvö hafi verið verkfæra- og vinnufatageymslur. Norðan þeirra er slétt flöt, líklega eftir stórt tjald. Sunnan tóftanna er gerði. Þar hefur væntanlega verið ferhyrnd girðing til að geyma hesta þá er fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar. Tófin ferhyrnda sunnar gæti hafa verið undir kamar, enda spölkorn frá námuvinnslusvæðinu.
Leifar af tréþili neðan við Hveradal eru vissulega síðustu leifar brennisteins-vinnslunnar. Þó mætti ætla, af járnnöglum að dæma, að þar væri um nýrra mannvirki að ræða, en ef grannt er skoðað má sjá að eldri naglar Bretanna hafa rygað í gegn, en nýrri verið settir í staðinn. Líklegt má telja að þar hafi einhverjir verið að verki er talið hafa að brennisteinsnámið myndi ganga í endurnýjun lífdaga, enga gnæð af honum enn af að taka.
Segja má að fegurð Krýsuvíkur núdagsins gefi gærdeginum lítið eftir – ef grannt er skoðað…
Gengið var yfir í Austurengi. Á þeirri leið var m.a. gengið fram á óþekkta selstöðu, sem sagt verður frá síðar.
Eins og fram kom í upphafi var ætlunin að leita að og finna hugsanlegar mannvistarleifar brennisteinsnámsins í Hveradal/Seltúni. Jón Haltalín vildi nefna námusvæðið Ketilsstígsnámu – og ekki að ástæðulausu. Í raun má segja að um nokkur hverasvæði sé að ræða austan í Sveifluhálsi, hvort sem átt  er við Baðstofusvæðið eða Seltúnssvæðið.

Heimild:
-Ólafur Olavius – Ferðabók II og II, Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Bókfellsútgáfan, 1964, bls. 272-274 (II).
-http://hot-springs.org/krysuvik.htm
-Sveinn Þórðarson, 1998.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar – 1978, bls. 178-179 II.
-Afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu 1848-1862. (Gull. og Kjós. XIX, 3).
-Afsal Erlends Jónssonar á Brunnastöðum til P.C. Knudtzon, dags. 12.8.1838, á Krýsuvík með sex hjáleigum, Stóra-Nýjabæ, Litla-Nýjabæ, Norðurkoti, Suðurkoti, Austurhúsum og Vesturhúsum, og tveimur nýlendum, Vigdísarvöllum og Garðshorni. (Afs. og veðm. Gull. & Kjós. A, nr. 97).
-Þinglýsingar varðandi námarétt í Krýsuvík, dags. 20.6.1849.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Gjábakkahellir

Haldið var í Goðahraun. Goðahraun (Eldborgarhraun) er samheiti yfir hraunin sunnan Hrafnabjarga og Kálfstinda austan Þingvallasveitar. Í þeim eru allnokkrir hraunhellar, s.s. Rauður, Pyttlur, Upppgjöf, Litla-op, Ranahellir, Turnhellir, Þumall, Klakahellir, Burknahellir, Lambahellir, Súlnahellir, Fallhellir, Tvíbotni, Litli-Björn, Vörðuhellir, Flórhellir, Gjábakkahellir, Lambhellir, Súluhellir, Tintron, Vegkantshellir og Raufin.
Gossprungan, sem hraunið kom úr, er um 5 km löng. Tvær eldborgir eru mest áberandi.
Hellarnir á Lyngdalsheiði - loftmyndRauður er fínlegur hellir í uppvarpi suðaustan við efri eldborgina. Hellirinn er um 180 m langur og hallar töluvert. Víðast hvar er hægt að ganga uppréttur. Veggirnir eru víðast hvar rauðlitaðir. Nokkrir dropsteinar eru í þessum efsta helli Goðahrauns.
Pyttlur er mikið uppvarp mitt á milli stóru eldborganna. Ausan undir hæsta hluta uppvarpsins er mikil hola niður í undirdjúpin. Sjálfur hellirinn er lítill.
Uppgjöf er skammt austan við stóru eldborgina, um 100 m langur hellir. Innst er mikil þrenging, sem hellamenn hafa jafnan gefist upp á að þræða.
Efra opið á GjábakkahelliLitla-op er við enda hrauntraðar við stærstu eldborgina. Nokkrum metrum innan við munnann er lítið op sem leiðir inn í hellinn. Þrenging hamlar för en þar fyrir innan er mikill salur eða hvelfing sem vel mætti duga til fundahalda ef inngangan væri ekki jafn erfið og raun ber vitni.
Ranahellir er um 200 m suðsuðvestan við Litla-op. Hellarnir eru tveir; annar er um 30 m langur og hinn um 40 m langur. Endar sá í þrengingu líkt og fílsrana.
Turnhellir er nokkru neðan við veginn sem liggur upp frá Stóra-Dímon og upp í Þjófahraun. Tveir munnar eru nyrst og efst í hellinum og auðvelt að ganga um þá báða. Innar er gott rými og spenar í loftum. Innar liggja göng upp á við. Turnhellir er um 90 m langur.
Þumall er nokkur neðan við veginn milli Þingvall aog og Laugarvatns. Heildarlengd hans er um 160 metrar.

Gjábakkahellir

Klakahellir. Um er að ræða mikla fóðurrás er tengist Fallhelli, S’ulnahelli, Tvíbotna, Litla-Birni, Vörðuhelli, Gjábakkahelli og öðrum hellum á svæðinu þótt hátt í 3 km séu á millum. Í Klakahelli eru jafnan fallegar ísmyndanir. Hann opnast til norðurs í töluvert niðurfall eða djúpa laut. Heildarlengd hans er um 70 metrar.
Burnkahellir er um 150 m langur. Á stuttum kafla hefur rásin skipst í kringum súlu og hæðarmunurinn á gólfinu verður um tveir metrar.
Lambahellar eru tvær stuttar rásir skammt frá hvorri annarri. Í opunum eru beinagrind af kind og lambi.
Súlnahellir er margslunginn og kvíslast víða kringum súlur. Innarlega í hellinum eru nokkrir dropsteinar, sá lengsti yfir hálfur metri. Heildarlengd hellisins er um 300 metrar.
Opið á TvíbotnaFallhellir er um 80 m langur. Hann er víðast hvar manngengur, en töluvert hruninn. Gamalt hlaðið byrgi er skammt vestan hellisins og sést það langt að.
Tvíbotni er um 310 m langur, fallegur, upprunalegur og lítt hruninn. Mikið niðurfall er í hraunið þar sem hellirinn er og þarf stiga eða reipi til að komast niður. Í suðurátt er hægt að fara um 50 m inn. Fallegir spenar hanga niður úr loftinu og þar má og sjá lagskipt storkuborð. Í norðausturhorni hvelfingarinnar inn af niðurfallinu er lítið gat, innan við metri í þvermál. Þar má fara niður og blasir þá við glæsileg hraunrás sem er yfir 200 m löng. Innst er rásin um 10 m á hæð og um 10 m á breidd.
Mikið er í honum af ósnortnum spenum en einnig nokkrir dropasteinar. Í honum þarf sérstaka aðgát, bæði til að stíga ekki sumstaðar niður úr veiku gólfinu en einnig vegna sérlegra viðkvæmra hraunmyndana.“
Tvíbotni er í sömu hraunrás og Gjábakkahellir. Hann er um 310 metra langur, fallegur og lítið hruninn. Tvíbotni fannst 1985. Hellirinn hefur tvo botna, þ.e. hann er á tveimur Jarðfall í Goðahraunihæðum og opnast í miklu niðurfalli. Um fleiri en eina leið er að velja með mismunandi útkomum. Innst í norðurgöngunum er hellirinn stór um sig. Meira en 10 metra lofthæð er þar jafn langt á milli veggja.
Litli-Björn-Vörðuhellir fannst 1987. Til norðurs er hellirinn um 120 m langur, töluvert hruninn. Á köflum er hátt til lofts og  vítt til veggja, en endar loks í hruni. Hellirinn gengur síðan um 230 m til suðurs frá niðurfallinu. Þar sem niðurfallið er um 80 metra norðan þjóðvegarins liggur hellirinn undir hann eins og Gjábakkahellir og Vegkantshellir. Í þessum hluta hellisins er lítið um hraunmyndanir, en þó er margt að skoða. Hellirinn er yfir 10 m breiður og hæðin er 2-3 metrar. Hrun er á millum í heillegri rásarinni. Innst í hellinum er um 70 cm há verða, hlaðin úr 10 steinum, sem fallið hafa úr hellisþakinu. Á vörðunni er fjársjóður; 25-eyringur frá árinu 1921. Litli-Björn og Vörðuhellir eru sama rásin – að þInngangan í Flórhellinn miklaví komust hellamenn nokkru seinna eftir að hafa þrætt hinn síðarnefnda. Vörðuhellir er um 350 m langur, en heildarlengd hellanna er um 800 metrar.
Flórhellirinn er a.m.k. 40 metra langur. Hann dregur nafn sitt af innvolsinu, en hann er sumstaðar á tveimur hæðum.
Gjábakkahellir er á Lyngdalsheiði og liggur undir veginn um 2 km frá Gjábakka. Hann er opinn í báða enda og er neðri endinn merktur með vörðu. Efri hellismunninn er fyrir ofan Lambhelli. Hann er mikið hruninn og ógreiðfær en bót í máli að auðvelt er að komast niður í hann. Þar er nokkuð um sepa, totur, spena, storkuborð og ýmsar hraunmyndanir. Á einum stað skiptist hellirinn í tvennt og á öðrum er hann á tveim hæðum. Gjábakkahellir er í heildina um 364 metrar á lengd. Hellirinn hefur einnig verið nefndur Helguhellir og Stelpuhellir. Hann hefur verið þekktur lengi. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skoðaði hann árið 1919. Til er þjóðsaga þar sem segir að stúlka frá Gjábakka hafi farið í hellinn og aldrei komið út aftur eða þá að hún hafi komið upp úti á Reykjanesi og þá hafi skór hennar verið fullir af gullsandi. Þjóðsagan skýrir nafngiftina Stelpuhellir, auk þess gæti stelpan hafa heitið Helga.
Lambhellir er sem næst ofan í Gjábakkahelli. Opið er um 50 metrum frá vegi skammt suðvestan við efra opið á Gjábakkahelli. Opið er lítið og stiga þarf til að komast niður. Hellirinn er um 30 m á lengd. Lamb hefur lagst til hinstu hvílu á klettasyllu innst í hellinum.
Súluhellir er um 300 metrum suðvestan við syðri hellismunna Gjábakkahellis. Hann er lítill og um 40 m langur. Innarlega í honum er mikil súla fyrir miðjum hellinum.
TÞúfutittlingshreiður við eina hraunrásinaintron er flöskulaga hola sunnan við Stóra-Dímon. Kvika hefur komið upp um hellinn og hlaðið upp nokkrun hól, uppvarp eða sníkjugíg. Gatið er efst í hólnum. Um 10 metrar eru niður á hellisbotninn. Heildarlengd Trintons er um 27 metrar.
Vegkantshellir er við veginn, sunnan við Stóra-Dímon og Trinton. Heildarlengdin er um 90 metrar. Í honum er hátt til lofts og vítt til veggja.
Raufin er niðurfall um 200 metrum sunnan við Vegkantshelli. Sjálf rásin, sem opnast í rauf, er um 50 m löng.
Lendi Goðahrauns er auðvelt yfirverðar. Meginhraunrásirnar eru þrjár. Má rekja þær eftir jarðföllunum. Úr miðrásinni ganga þverrásir á nokkrum stöðum. Víða eru jarðföllin gróin og auðvel niðurgöngu, en á stöku stað verður hún ekki reynd nema með stiga eða reipi. Opin eru jafnan lítil, en stækka er innar dregur. Þó má finna víð og myndarleg op og fylgja rásinni skamman veg, t.a.m. efst í austastu rásinni. Við Gaumgæft í einni rásinnijarðfallið er varðað greni og skammt vestar hlaðið byrgi refaskyttu. Þúfutittlingshreiður er skammt sunnar, inn undir lágu barði. Rjúpa lá á eggjum skammt austar og skógarþröstur beið þolinmóður með orm í goggnum eftir að ferðalangarnir færu upp úr jarðfallinu hans.
Það kom í raun á óvart hversu stórsteinóttur Gjábakkahellirinn var. Þrátt fyrir það þræddi tíkin Brá hellinn á enda líkt og alsjáandi eftir að hafa fengið hálsljós að láni. Sennilega er hún fyrsti hundurinn er þræðir Gjábakkahelli á enda? Annars er Gjábakkahellir vinsæll ferðamannhellir. Þegar FERLIRsfélagar höfðu þrætt hellinn sást til tuga annarra vera að undirbúa ferðalag í hann ofanverðan – og það þrátt fyrir að aðrir hellar, miklu mun greiðfærari og fallegri séu þarna innan seilingar. I
nnkoman í Flórhellinn mikla er t.a.m. einna sú tilkomumesta er þekkist í hellum hér á landi. Annars felur Goðahraunið op sín með sæmd, en með aðstoð loftmyndar af svæðinu var tiltöllega auðvelt að rekja rásinar og kíkja niður í jarðföllin – hvert á fætur öðru. Með í för voru Myndanirstaðsetningarhnit af þekktum hellum á svæðinu, en opin sem kíkt var inn í virtust miklu mun fleiri. Hafa ber þó í huga að þar geta verið önnur op á áður þekktum rásum. Hins vegar rann söknuður til þess að opin bæru ekki merki Hellarannsóknarfélagsins með tilheyrandi nafngiftum því líklegt má telja að félagsfólkið hafi áður komið í þessar rásir, varið þar drjúgum tíma og skoðað. Merkingarnar HRÍ vekja ávallt jákvæða staðfestingartilfinningu hjá öðrum áhugasömum leitendum. Hér þarf að bæta um betur. Einnig er ljóst að staðsetning allra þessara „dæmigerðu“ hella og nálægð við þjóðbraut gæti stuðlað að auknum áhuga almennings á fyrirbærinu – ef vel væri staðið að merkingum. Pokasjóður styrkir gjarnan slík verkefni.
Mjög erfitt er að taka almennilega ljósmyndir í hraunhellum snemmsumars vegna móðu sem myndast af mannverunum. Hellarnir geyma í sér vetrarkuldann og þegar hann mætir sumarhitanum verður árekstur.

Frábært veður – lygna og tveggja tölustafa hiti. Gangan um svæðið og hellana tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar 2006, bls. 327-335.

Gjábakkahellir

Gjábakkahellir.