Magnús Jónsson skrifaði um „Bæi í bænum“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar árið 1962:
Magnús Jónsson.
„Í flestum eða öllum tungumálum veraldar munu finnast dæmi þess að sama orðið geti haft fleiri en eina merkingu. Sem kunnugt er, er þessu þannig farið hjá okkur með orðið bœr. Getur það t.d. merkt bæði kaupstað og sveitabýli.
Einnig er þetta orð notað af eldri og — mig langar til að segja — rökréttar hugsandi kynslóðinni, í sumum tilfellum þar sem aðrir nota orðið hús. Þessi skilgreining milli notkunar orðanna bær og hús, mun vera öllu meira á reiki í sveitunum.
Þar er, eins og áður er drepið á, hægt að nota orðið bær um býlið eða jörðina í heild, þótt engin bygging þar hafi hið raunverulega bæjarlag. En bæjarlag hefur sú bygging, sem er svo veggjalág, að hún er öll undir súð og ekki er um um glugga að ræða, nema á göflunum. En til þess þá þó að drýgja húsrýmið lítið eitt, er venjulega inngönguskúr áfastur bænum. Annars væri varla um annað að ræða en að hafa dyr á öðrum hvorum gaflinum.
Í Reykjavík eru til nokkrir steinbæir. Veggir þeirra eru þykkir og steyptir, eða oftar hlaðnir úr meira eða minna tilhöggnu grjóti, lögðu í bindiefni. Oftast er þó efri hluti gaflanna úr timbri. Stundum var látið nægja að sletta aðeins steypu í hleðsluna á eftir. Er góð lýsing og teikning af steinbæjum í kaflanum um húsbyggingar í Iðnsögu Íslands.
Hvaleyri 1925 – málverk.
Hér, í þéttbýli Hafnarfjarðar, eru engir steinbæir, heldur eru þeir, eins og flestar byggingar hér frá fyrri hluta aldarinnar, úr timbri og nú klæddir bárujárni. En íbúðarbyggingin í Hjörtskoti á Hvaleyri minnir nokkuð á steinbæ og svo tveir bæir sem síðast verður getið. Vafasamt er að hve miklu leyti má segja að þetta byggingarlag sé einkennandi fyrir Ísland. En þótt íbúar hinna Norðurlandanna láti sér nægja fornfáleg húsakynni, þá er svo mikið víst, að hið eiginlega bæjarlag, sem hér er um að ræða, ersjaldgæft í nágrannalöndum okkar.
Ef farið væri í eins konar húsvitjun í umrædda bæi og byrjað syðst, þá yrði fyrst fyrir okkur Ásbúð, þ.e. Ásbúðartröð 1, hjá Andrési Johnson rakara. Tæplega er þó þessi bygging í hinum hreinræktaða hafnfirzka bæjarstíl frá aldamótunum, með því að inngangurinn er á annari hliðinni miðri. Þar er einnig gluggi, sem Andrés þó telur vissara að hafa hlera fyrir, vegna margvíslegra verðmæta innan dyra. En þegar inn er komið, dylst engum að hér er um raunverulegan bæ að ræða, og að sumu leyti í enn eldri stíl en hér er til umræðu, m. a. að því leyti að hér eru eins konar bæjargöng. Til hægri úr þeim er gengið inn í eldhúsið, en til vinstri inn í safnherbergi. Hér er ekki ætlunin að ræða um hið víðtæka og víðkunna söfnunarstarf Andrésar. En þótt þetta sé nefnt safnherbergi, þá var réttilega að orði komist hjá þjóðminjaverði í afmælisgrein um Andrés sjötugan, að takmörkin milli safns hans og heimilis væru raunverulega horfin. Fyrir enda bæjarganganna er lítið herbergi sem gengið er úr til vinstri inn í baðstofuna. Þetta, sem hér hefur verið talið, er undir sama risi, annað en eldhúsið. Þessi mannvirki telur Andrés vera að stofni til allt frá árinu 1806. Árið 1931 keypti hann þau, eftir lát Halldórs Helgasonar, sem þar hafði búið alla sína búskapartíð. Þá var allstórt útihús vestan við bæinn, en það lét Andrés rífa og byggja í þess stað skemmu í stíl við baðstofuna. Stendur hún aftast húsa. Þótt öll séu þessi húsakynni lágreist, þá er grunnflöturinn ekki svo lítill. Framhliðin er 9,25 m og stafnarnir samanlagt nokkru meira. Þess má að lokum geta, að Andrés hefur ætíð lagt áherzlu á viðhald bæjarins og málað hann að utan í sterkum litum.
Hafnarfjörður um 1900.
Næst verður fyrir okkur bærinn Suðurgata 87. Reyndar er á gaflinum númeraskiltið 85, en hitt mun vera réttara. Samræmi er milli bæjarins og nánasta umhverfis hans, — ræktaðs grasbletts, kálgarðs og lækjarsytru. Bærinn mun hafa verið byggður 1908, af Stefáni Grímssyni sem þá hóf þar búskap með konu sinni, Maríu S. Sveinsdóttur. Tvær dætur þeirra eru nú búsettar í Keflavík. Nágranni Stefáns, Steindór í Brandsbæ, mátti teljast yfirsmiðurinn. Iðulega voru leigjendur í þessum bæ, jafnvel heilar fjölskyldur. Á öðrum tug aldarinnar leigði þar t.d. Agnar Þorláksson, bróðir Sigurðar trésmiðs og Kristmundar frá Stakkavík, með fjölskyldu sína. Bærinn er að vísu lítið eitt stærri en t.d. sá sem getið verður um hér næst á eftir, og hefur hann tvo glugga á hvorum gafli. Hann er 6,35 m. á lengd og rúmir 4 m á breidd og kjallari undir honum. Nú býr þarna Ármann Kristjánsson með fjölskyldu sína. En svo að vikið sé aftur að fyrri íbúum, þá andaðist Stefán árið 1918, en María ekki fyrr en 1958. Hún yfirgaf ekki bæinn fyrr en sem sjúklingur, er ekki á afturkvæmt.
Tæplega var talað um bæinn Mýri eða í Mýrinni sérstaklega, heldur var þetta „bærinn hennar Maríu í Mýrinni“ (I). Og hvað Maríu snertir, þá var hún yfirleitt ekki kennd við föður sinn, heldur eins og hér er gert, innan tilvitnunarmerkjanna. Svo náið getur sambandið verið milli manns og moldar. Bær nokkur stendur að segja má í skugga st. Jósepsspítalans. Hann er talinn við Hlíðarbraut. Þessi bær hefur einna hreinræktaðasta hafnfirzka bæjarbyggingarlagið og er næstum alveg óbreyttur frá fyrstu tíð. Fæstir þessara bæja voru þó járnklæddir upphaflega. En kaþólska trúboðið á þakkir skilið fyrir að láta bæinn standa og að lúta að svo litlu að nota hann. Vonandi fær hann að standa lengi enn. Bær þessi er byggður af Jóni Ólafssyni frá Hliði á Álftanesi (Gamla-Hliði), um 1904. Fyrst eftir að hann kom til Hafnarfjarðar, með konu sinni, Þóru Þorsteinsdóttur, voru þau í Holti. Það var næstum þar sem nú er húsið Hringbraut 64. Eins og áður hefur verið getið í þessu blaði, eignuðust þessi hjón eina dóttur, en hún dó um fermingaraldur.
Ýmislegt er hliðstætt um þær Maríu í Mýrinni og Þóru í Holti. Þóra var í mörg ár ekkja, því að J. hún missti mann sinn 1915, en lifði sjálf til 1954 og var í bænum svo lengi sem hún gat. Svipað er líka að segja um nafngiftina, því að eiginlega er vafasamt hvort nafnið Holt fluttist á bæinn, eða að þetta er aðeins „bærinn hennar Þóru í Holti“. Umhverfis bæinn er ræktuð lóð, sem má teljast stór, og undir honum er lágur kjallari, sem gengið er í á miðri norðurhlið. Sú hlið er að utan klædd láréttum plægðum borðum, en ekki bárujárni. Bærinn er eitt herbergi og eldhús, og að sjálfsögðu með inngönguskúr, eins og myndin ber með sér. Lengd bæjarins er aðeins 5,75 m, en breiddin um 4 m. Rafmagn er lagt í bæinn, en ekki vatn. Er enn brunnur rétt hjá honum, byrgður og með heilnæmu vatni, sem aldrei þrýtur. Meinið er að brunnar eru mannvirki, sem ekki verða flutt á byggðasöfn! Eins og áður er sagt, hefur kaþólska trúboðið nú bæinn og lóðina.
Krosseyrarvegur 5 t.v.
Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar. Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, ásamt dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.
Hellisgerði 1923.
Í Hellisgerði, þessu stolti og prýði Hafnarfjarðar, stendur bær. Áður voru þeir fleiri, en árið 1958 var sá næst-síðasti rifinn. Á honum var þó „typiskara“ bæjarlag en þeim sem enn stendur, og ekki var heldur um vegarlagningu að ræða á þessum stað, svo að bærinn þyrfti að víkja þess vegna. í þessu tilefni niætti rita langt mál um samband og samræmi milli verka mannsins og verka náttúrunnar og hvenær varðveizla hvors um sig á við. En það verður alltaf nokkurt tilfinningamál og smekksatriði, og ekki þýðir heldur að sakast um orðinn hlut. Yngri bærinn stendur nokkru ofar í Gerðinu, lítið eitt lengra frá Reykjavíkurveginum og er talinn Reykjavíkurvegur 15 B. Hann mun vera yngstur bæjanna í Hafnarfirði, byggður 1924, af Þorgrími Jónssyni. Þorgrímur missti konu sína, Guðrúnu Guðbrandsdóttur, árið 1939, og skömmu síðar fór hann úr bænum til fóstursonar síns, Helga Vilhjálmssonar. Settust þá að í bænum yngri hjón, Jón S. Jónsson, sonur Jóns Sölvasonar, sem síðastur bjó í eldri bænum áðurnefnda, og hona hans, Ingileif Brynjólfsdóttir. Bjuggu þessi hjón í bænum fram undir árslok 1950, og fæddust þeim þar átta börn. Þröngt mega sáttir sitja. Bærinn er 5,65 m á lengd og 3.8 m á breidd, en gerð glugganna og hátt ris sýnir að hann er ekki ýkja gamall. Undir bænum er kjallari með steyptum hliðarveggjum.
Samdægurs sem Jón fluttist úr bænum, kom þangað Oddrún Oddsdóttir og býr þar nú. Eins og áður er sagt, var bærinn sem nú er eign Ottós W. Björnssonar byggður af Halldóri frá Merkinesi. í byrjun aldarinnar hafði önnur fámenn fjölskylda sunnan úr Höfnum setzt að í Hafnarfirði. Voru það þau hjónin Erlendur Marteinsson og Sigurveig Einarsdóttir, með dóttur sína, Sigríði. Þessa fjölskyldu mun ekki þurfa að kynna Hafnfirðingum í löngu máli, og allra sízt lesendum Alþýðublaðsins. Bærinn Kirkjuvegur 10 hefur nú verið aðalbækistöð þess blaðs hér í 37 ár. Þennan bæ byggði Erlendur handa sér og sínum árið 1902. Hefði því þessa átt að vera getið í fyrri skrifum um Hafnarfjörð hér í blaðinu, en svo er ekki.
Á þessum árum var Augúst Flygenring að hefja þilskipaútgerð sína og veitti nokkrum sjómönnum byggingarlán. Fengu þeir þannig eigin húsakynni, en hann fékk tryggðan vinnukraft. Voru Erlendi lánaðar 494 kr. og 10 aurar, og var það greitt upp samkvæmt samningi á fjórum árum. Algengast var í þessum bæjum að skilrúm væri þvert yfir, nær öðrum enda. Var þá styttri hlutinn annað hvort hólfaður sundur í eldhús og mjög lítið herbergi, eða að hann var eldhús eingöngu. Í þessum bæ var styttri endinn hólfaður í tvennt, en samt var þar ekkert sérstakt eldhús í fyrstunni. Annað herbergið varð sem eins konar innbyggð forstofa, því að inngönguskúr var enginn. Aðeins varð sem kvistur á þakinu, vegna dyranna. Bærinn er um það bil 6.2 m á lengd og 3.8 m á breidd. Og svo ótrúlegt sem það er nú, þá var litla herbergið í norðurhorninu leigt út. Þar leigði Valgerður Ólafsdóttir frá Hliðsnesi, sem síðar bjó með Bjarna Narfasyni. Þegar áðurnefnd fjögur ár voru liðin og skuldin greidd, var ráð á að járnklæða þakið og síðan fengu veggirnir járn yfir pappann smátt og smátt. Lítill inngönguskúr var byggður og eldhús tekið í notkun. Skúrinn var stækkaður um 1915 og um það leyti byggt útihús. Kom það í góðar þarfir, þar sem bærinn er kjallaralaus, og stendur það enn. Þótt þessi bær sé sá elzti, næst Ásbúðarbænum, er hann sá eini þar sem sama fólkið býr ennþá, þ. e. mæðgurnar Sigurveig og Sigríður. Erlendur dó árið 1935. En bærinn er líka sá eini þeirra sem þarf að færast vegna skipulagsins, a.m.k. áður en mjög langt um líður.
Teikningar af öllum byggingum kaupstaðarins eiga að finnast á einum stað, þ. e. á skrifstofu bæjarverkfræðings. Þar er þó ekki feitan gölt að flá, hvað þetta efni snertir sem hér um ræðir. Þó má draga upp úr gulu umslagi, sem á stendur Langeyrarvegur 8 B, teikningu nokkra. Plagg þetta hefur það einnig fram yfir mörg önnur af þeim eldri í þeirri hirzlu, að á því er lítið eitt meira en sjálf teikningin. Þar stendur orðrétt: „íbúðarhús Lárusar Bjarnasonar við Booklessstíg. Byggt úr timbri, þak pappavarið, grunnur hlaðinn úr hraungrjóti. Hafnarfirði, 20. 9. 1920: Ásgeir G. Stefánsson“.
Nú er bærinn járnklæddur, eins og þeir eru allir. Lárus og kona hans, Elísabet Jónasdóttir, eignuðust fimm börn, og munu tvö þau yngstu hafa fæðzt í þessum bæ. Árið 1932 keypti Sesselja Sigvaldadóttir bæinn og býr þar enn, en Lárus fluttist til Reykjavíkur. Ekki er stórri lóð fyrir að fara í kringum þennan bæ, en innan húss ber allt vott um lireinlæti og snyrtimennsku. Bærinn er að ytri gerð mjög svipaður bænum í Hellisgerði og í þeim báðum er styttri endinn hólfaður í tvennt. Þessi bær er 6.4 m á lengd og 3.9 á breidd. Kjallarinn er að nokkru leyti í jörð, en sá hluti veggjanna sem sést, er æði ósléttur. Um Booklessstíg skal þess eins getið, að fæstir munu nokkru sinni liafa heyrt hann nefndan.
Í byrjun þessarar aldar, eða um það leyti sem Augúst Flygenring hóf fiskverkun á Langeyrarmölum, fór í eyði lítill bær í hraunkvos norðan við það athafnasvæði. Það var nefnt á Flötunum. En skömmu síðar, þ.e. árið 1904, var byggður bær lítið eitt ofar í hrauninu og nefndur Eyrarhraun. Hann kostaði 600 krónur, enda hafði eigandinn, Sigurjón Sigurðsson, leyft sér þann íburð að klæða hann allan með panil að innan, og það sem meira var, að mála þennan panil. Með ráðskonu sinni átti Sigurjón tvö börn, Kristínu, sem dó ung, og Engiljón, nú vélaeftirlitsmann í frystihúsi Bæjarútgerðarinnar. Árið 1919 keypti Gísli Guðmundsson frá Saurbæ í Ölfusi bæinn. Fluttist hann þangað með konu sína, Valgerði Jónsdóttur, og börnin tvö, Guðjón og Sigríði. Þau eru bæði búsett hér í Hafnarfirði. Gísli seldi Júlíusi Jónssyni bæinn árið 1923. Kona hans var Helga Guðmundsdóttir, héðan úr Firðinum. Barnahópurinn varð stór, en furðu sjaldan heyrðust þar frekjuorg, þótt lítið væri leikrýmið innan húss. Þessa er ekki getið til að þóknast ritstjóra þessa blaðs, enda eru heimildirnar aðrar.
Jón Pétursson vélsmiður keypti bæinn árið 1943, og býr þar nú með fjölskyldu sinni. Reyndar býr hann í meira en bænum, svo lítill hluti sem hann er nú af byggingunni á þessum stað, eins og myndin ber með sér. (Það er að sjálfsögðu á bænum sem glugginn með krosspóstinum er.) Í rauninni er umdeilanlegt hvort hann getur talizt sem sjálfstæð bygging lengur, og hvort þá hefði yfirleitt átt að geta hans hér. Stærð hans mun upphaflega hafa verið um 3.8×6 m, en áður en Jón keypti hann var búið að lengja hann. Undir bænum er kjallari.
Í undanfarandi kafla var ráðskonu Sigurjóns á Eyrarhrauni ekki getið með nafni. Hún hét Engilráð Kristjánsdóttir. Árið 1919 lét hún byggja bæ, álíka langt frá sjó og Eyrarhraun og um 200 m fjær megin byggð Hafnarfjarðar. Þar átti hún síðan heima í 17 ár, fyrst ásamt syni sínum, Engiljóni, en síðar oftast einsömul. Skömmu fyrir lát sitt, árið 1936, seldi hún bæinn Ingimundi Stefánssyni, sem þá kom heim til Íslands eftir 26 ára dvöl í Þýzkalandi, ásamt þarlendri konu sinni, Margrethe. Hún er á lífi, en fluttist úr þessum bæ við lát manns síns, árið 1957. Nú býr í bænum Valdimar Ingimarsson frá Vestmannaeyjum með fjölskyldu sína. Engilráð vann iðnum höndum á gamla vísu, hafði nokkrar kindur og kom hinu mishæðótta landi kringum bæinn í rækt. Hins vegar lagði hún ekki áherzlu á að hann hlyti neitt sérstakt nafn. En Ingimundur kunni að meta þessa breytingu hrjóstrugs hrauns í grænan gróðurreit og nefndi býlið Fagrahvamm. Hefur það haldizt síðan. Þótt breyting húsakynnanna sé ekki eins mikil og á Eyrarhrauni, þá eru þau nú allmiklu meiri en í fyrstu. T.d. er eldhúsið ekki í hinum upphaflega bæ. Hann var eitt herbergi og eldhús og var það tvennt að utanmáli 3,6×4,5 m. Svo er skemma, jafnlöng bænum en nokkru mjórri, eða um 3 m. Hliðarveggir þessa bæjar og neðri hluti gaflanna eru steyptir. Skemman er með lofti, en kjallari er enginn. Vegna síðari tíma breytinga, er vafi á um fleiri bæi en Eyrarhraun, hvort þeir eigi að teljast hér með.
Varla má þó láta hjá líða að minnast á Brúsastaði, þó að stækkun frá því um 1925 hafi breytt útliti bæjarins mjög. Þessi bær var byggður árið 1914 af Eyjólfi Kristjánssyni, bróður Engilráðar. Hann hafði byrjað búskap með konu sinni, Ingveldi Jónsdóttur, á hinu gamla býli Langeyri, en síðar byggðu þau nýbýlið Hraunhvamm. Þau eignuðust mörg börn, sem flest eru á lífi. Það elzta þeirra, Þórður, hefur búið á Brúsastöðum, ásamt konu sinni, Salome Salómonsdóttur, frá því að foreldrar hans fluttust í þéttbýli kaupstaðarins árið 1932. Brúsastaðabærinn er gott dæmi um steinbæ. Hliðar og neðri hluti gafla er hlaðið og „kastað í“. Hann er um 7 m langur og yfir 5 m breiður. En innanmál er miklu minna, því að þessir hlöðnu veggir eru mjög þykkir. Auk áðurnefndrar viðbyggingar, sem öll er steypt, hefur verið byggt við innganginn á svipaðan hátt og í Fagrahvammi, Jxótt ekki sé Jxað notað sem eldhús. Þeim megin við bæinn er útihús, nokkru yngra en hann, en hefur þó fengið á sig virðulegan elliblæ, ef svo mætti segja.
Brattakinn 19.
Ekki þarf orðum að því að eyða, að enn eru ónefndar nokkrar byggingar sem liggja á mörkum þess að þeirra sé getið. Í bænum á Steinum býr enginn, enda er hann ekki hæfur til þeirra hluta lengur, en mynd af honum hefur birzt hér í blaðinu.
Á húsinu Suðurgötu 35 B hefur frá upphafi verið kvistur, sem tekur af því bæjarsvipinn. Og Brattakinn 19, sem upphaflega var sumarbústaður Jóns Mathiesen, getur varla talist til bæja.
Dalbær, sem Sumarliði Einarsson flutti vestur að mörkum Hafnarfjarðar og Garðahrepps, er orðinn óþekkjanlegur sem bær og Hraunhvammur er hinum megin við mörkin.
Að þessu athuguðu læt ég því staðar numið. Mér er ljóst að þessu verki er í mörgu ábótavant, meðal annars er mjög misjafnt hve ýtarlega er greint frá íbúum bæjanna. En þakka vil ég öllum þeim sem hafa veitt mér upplýsingar og bið svo lesendur að dæma villurnar vægt.“
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 21. árg. 15.12.1962, Bæir í bænum – Magnús Jónsson, bls. 16-18.
Fagrihvammur.