Í Sæmundi Fróða árið 1874 er m.a. fjallað um ölkeldur undir fyrirsögninni “Húsaapótek fyrir Íslendinga“:
“Í Henglafjöllum eru margar ölkeldur; þær eru ljúffengar, en eigi mjög sterkar; flestar þeirra eru heitari en ölkeldurnar fyrir vestan, að undanteknum þeim við Lýshól í Staðarsveit, sem hafa rjett mátulegan baðhita, og mynda ágætt ag styrkjandi bað; er hörmung til þess að vita, að slíkt bað með þess ágætu áhrifum eigi er við haft sem skyldi, þar sem þó án efa margir heilsuleysingjar gætu haft hið mest gagn af því, og það þykist jeg sannfærður um, að væri slíkt bað sem það við Lýshól til erlendis, nálægt fjölbyggðum borgum, mundi það mikil auðsuppspretta. Ölkeldurnar á Ölkelduhálsi, suðaustanvert við Henglafjöll, hafa í sjer talsvert kolasúrt natron og kali, og mundu því einkar góðar gegn magnleysisgigt, enda hef jeg heldur sjeð góð áhrif af því vatni gegn veiklun í mænukerfinu.”
Jón Hjaltalín ritaði Jóni Sigurðssyni “Bréf frá Íslandi” er birtist í Nýjum félagsritum árið 1853. Þar fjallar hann m.a. um ölkelduvatn til lækninga:
“Á fyrri tímum notuðu forfeður vorir hvera-vatnið í laugar sínar, og var það samkvæmt þeirra siðvenju um öll lönd; nú þykir löndum vorum það ekki ómaksins vert að lauga sig, heldur láta þeir skarnið sitja utan á sér alla æfi sína, eins og það væri einhver dýrgripur, sem maður mætti ekki án vera. Rétt fyrir utan höfuðbæ vorn liggur einhver hin ágætasta laug, en ekki er mér það kunnugt, að Reykvíkingar noti hana til að gjöra þar baðstofur, og enginn umbúnaður sæist þar til þess, þó að allir megi sjá, að nátttúran hefir lagt þar allt upp í hendurnar á mönnum, og hvers getur þá verið að vænta hjá kotúngunum, þegar þeir sem búa í höfuðbænum hirða ekki um slíka hluti, því það lítur þó svo út, sem þeim bæri að ganga á undan öðrum með góðum fyrirdæmum, bæði í þessu og öðru.
Það þyrfti heldur ekki að kosta bæjarmenn mikið, að láta byggja laugahús inni við Laugarnes, og lángtum minni vorkun er þeim á því, en einstaka bændum uppí sveitum, sem bæði vantar efni og samtök til slíkra hluta; en það er á hinn bóginn eins þarflegt fyrir Reykvíkinga, eins og alla menn í heimi, sem vilja vernda heilsu sína, að lauga sig með jafnaði, og er vonanda, að höfuðbær vor fari að fylgja allra mentaðra manna siðum í þessu efni sem bráðast.
Fyrst eg er nú að hugsa um hverana, þá þykir mér tilhlýðilegt að fara nokkrum orðum um ölkeldurnar hjá okkur, því það sýnist nú að vera komið að því, að menn ætli að fara að nota þær sem almennt læknismeðal. Mér var sagt í Reykjavík, að Skapti Skaptason léti fólk fyrir austan fjall drekka ölkelduvatn nokkuð frá Ölkelduhálsi fyrir ofan Reykjakot; eg sendi þá boð eptir Skapta, og töluðum við saman um þennan hlut og kom okkur báðum saman um, að Skapti talaði bæði greinilega og skynsamlega um þetta efni. Skapti sagði mér, að á Ölkelduhálsi væri ein góð Ölkelda og hefði hann látið ýmsa fyrir austan fjall drekka vatnið úr henni sem læknismeðal; hann kvaðst jafnan hafa látið fólk byrja með lítinn skamt af vatninu í senn, en þá lét hann drekka meira þegar frammí sótti og menn voru farnir að venjast við það. Hann talaði eins greinilega og skilmerkilega um allt, sem þetta áhrærði, svo að báðum okkur læknunum fannst um, hversu nærgætnislega hann skýrði frá ýmsum hlutum þetta efni áhrærandi.
Eg fór síðan fleirum sinnum uppá þennan svokallaða Ölkelduháls, og fann eg þar ýmsar ölkeldur, sem fyrrum hafa verið ókunnar, var ein þeirra álíka og stór laug og býsna heit; hjá ölkeldu þeirri, er Skapti hafði látið sækja í, var hlaðin varða og liggur hún nærfellt á miðjum hálsinum, norðanvert við veginn, þegar farið er ofan að Reykjakoti. Eg lét tvisvar sinnum sækja ölkelduvatn í hana og var eg fyrst sjálfur með að fylla flöskurnar og lakka fyrir þær, og tókum við þá hátt á annað hundrað flöskur, sem eg hafði handa veikum og gafst mér vatn þetta einkar vel, en þó er það ekki nærri eins megnt og ölkelduvatnið í Rauðamels-ölkeldu, enda hygg eg hana bera af öllum ölkeldum á Íslandi, og mun hún jafnvel sterkari en flestar ölkeldur á þjóðverjalandi. Eg talaði við ýmsa sjúklinga, sem drukkið höfðu ökelduvatnið frá Ölkelduhálsi, og bar öllum saman um, að þeim hefði orðið léttara við það, og var þó öll von að vatnið hefði mist hið mesta af afli sínu hjá þessum sjúklingum, því þeir höfðu látið sækja það á leiglum, en slík vötn má ekki láta á tré-ílát, ef þau eiga að halda sér. Það er vonanda, að fyrst að menn eru farnir að komast uppá, að drekka ölkelduvatn og hveravötn sér til heilsubótar, þá muni þessu fara fram þegar tímar líða, ef menn vantaði ekki áræði og fyrirsögn, sem altend þarf með, ef allt á að fara í góðu lagi.”
Heimild:
-Sæmundur Fróði, 1. árg. 1874, 12. tbl., bls. 188.
-Ný félagsrit, 13. árg. 1853, bls. 6 og 11-13.