Selvogsgata

Gengið var upp Selvogsheiði. Gamla Suðurfararveginum (Selvogsgötunni) var fylgt upp heiðina og upp í Strandardal. Þar var ætlunin að kíkja í Kálfsgil og athuga hvort ekki sæist í a.m.k. eitt horn hinnar fornu Gullskinnu, mestu galdrabók allra tíma, sem séra Eiríkur á Vogsósum er sagður hafa grafið þar svo bókin sú arna yrði ekki til fleiri rauna en hún hafði þegar orðið.
vordufell-991Götunni var fylgt upp heiðina. Á henni miðri, skammt vestan og ofan við Vörðufell, var gengið fram á gróna kofatóft. Skammt suðvestan hennar var fallega hlaðið gerði á hól. Húsið var stakt, sem bendir til þess að þar hafi verið sæluhús á heiðinni. Á Vörðufelli er gömul hlaðin fjárrétt Selvogsmanna. Þar eru einnig Smalavörðurnar, en þjóðsagan segir að smalar, sem týnt hefðu einhverjum hlut, hefðu þá hlaðið litla vörðu á fellinu og skipti þá engum togum – þeir fundu hann skömmu síðar. Syðst á fellinu er markavarða. Krossmark er á jarðfastri klöpp sunnan og neðan við hana.
Haldið var áfram upp í Strandardal og stefnan tekin á Kálfsgil. Efst í dalnum er Sælubúna, gömul lind, sem kemur undan hlíðinni. Hana þrýtur aldrei og gat fólk fyrrum jafnan treyst á vatnið úr henni þegar það var við heyaðdrætti í Strandardal og Hlíðardal þar ofan við.

Strandardalur

Strandardalur.

Kálfsgilið var þurrt. Þegar gengið var upp það miðja vegu mátti, ef vel var að gáð, sjá glitta í skinnpjötlu, nær samlitu grjótinu. Nú var hver sekúnda dýrmæt. Þegar reynt var að nálgast staðinn var sem jörðin opnaðist skyndilega á svolitlu svæði og grjót tók að hrinja úr gilinu. Við það hrúgaðist að staðnum svo pjatlan varð næstum því utan seilingar. Þvílík tilviljun að jarðskjálfti skuli endilega þurfa að hrista gilið þegar einungis vantaði herslumuninn að tækist að krækja í Gullskinnu. En skjálftinn kom aðeins of seint til að hylja bókina. Hún var rifin upp, pakkað í skyndi og er nú í öruggri vörslu og bíður opnunar. Hvort í henni megi finna lýsingu á upphafi landnáms hér á landi eða galdraþulur skal ósagt látið – að sinni. Í öllum látunum hvarf myndavélin niður um gatið, sem myndast hafði. Það kom ekki að sök hvað Gullskinnu snerti, enda ekki unnist tími til að taka kyrrstöðumynd af henni í látunum. Engar myndir fylgja því þessari lýsingu.
strandardalur-991Skuggi segir frá Gullskinnu, eða Gullbringu eins og hann nefnir hana einnig, í riti sínu um Brísingamenn Freyju. Ritið kom út 1948 og kallaði á mikil skoðanaskipti. Þar er því haldið fram að Gullskinna hafi verið með fyrstu Landnámsbókunum, en aðrar verið byggðar á henni, þótt ýmsu hafi þá verið sleppt. Hún segir t.a.m. frá Krýsum í Gömlu Krýsuvík, aðförinni að þeim og yfirtöku Dana, sem síðar voru nefndir hinir fyrstu Landnámsmenn. Þeir komu frá Noregi.
disurett-991Í sögnum af galdraprestinum Eiríki frá Vogsósum segir af Gullskinnu. Hún var mikil galdrabók, sem fór víða og margir vildu eiga. Hún barst hingað til lands með útlensku skipi. Það fórst, en maður kom henni í land í Selvogi við illan leik. Eiríki áskotnaðist bókin og notaði hann hana þegar þurfa þurfti. Öfl reyndu að nálgast bókina og taldi Eirkur vænlegast að láta hana hverfa. Segir sagan að hann hafi grafið hana í Kálfsgili. Þar hefur sést til hennar endrum og eins, en ávallt við tilteknar aðstæður, líkt og nú voru. Í bókinni er, skv. sögunum, m.a. kveðið á um hvernig eigi að magna upp óveður, fægja lágþoku og leita regns.

Strandardalur

Strandardalur – hellir.

Gengið var með Katlahlíð yfir að Katlahrauni, þvert á Hlíðargil. Þar er Dísurétt í hraunkvos, fallega hlaðin og hefur haldið sér nokkuð vel frá árinu 1938. Erfitt er þó að finna réttina vegna legu hennar í hrauninu, en hún er mun nær Strandardalnum en áður var talið. Þá var komið að réttinni að vetrarlagi úr vestri, en nú var komið að henni að sumarlagi úr austri. Frá henni er ágætt útsýni upp Strandardal og yfir víðan Hlíðardalinn vestan Svörtubjarga.
Gengið var að nýfundum helli og síðan niður geldingahnappsþakta heiðina vestan Suðurfararvegar. Þá var komið að tóftum Hlíðarsels og Valgarðsborg skoðuð áður en haldið var áfram niður heiðina og að upphafsstað. Á leiðinni var gengið fram á merkt greni og hlaðið byrgi grenjaskyttu.
Fá framangreindra mannvirkja hafa verið skráð.

Strandardalur

Varða ofan Sælubunu efst í Strandardal.

Seltún

Gengið var um forna stíga, götur og vegi á Sveifluhálsi. Allmörg örnefni eru tengd þessum leiðum yfir og eftir hálsinum.
Badstofa-26Til nýjunga verður hins vegar að teljast nýlega merktur og stikaður Hettuvegur frá Ketilsstíg inn á Smérbrekkustíg og Krýsuvíkurleið um Rauðuskriðu. Ekki er vitað til þess að þessi leið hafi verið farin áður en hún  var merkt sérstaklega með nafninu „Hettuvegur“ því sá vegur er sunnan og vestan undir Hettu en ekki norðan hennar, eins hann hefur nú verið merktur. Ferðamenn á leið til eða frá Krýsuvík hefðu heldur aldrei farið að klifra upp hæðir og klungrast niður í dali til að komast þennan kafla þegar þeir gátu farið afliggjandi götu sömu leið. Að þessu sinni var gengið um Drumbdalaleið, Steinabrekkustíg, Hettuveg, Smjörbrekkustíg og Ketilsstíg.
Á göngunni uppgötvaðist a.m.k. ein áður óþekkt leið, sem hefur greinilega verið farin talsvert fyrrum.
Hattur 26Í örnefnalýsingum er þessara leiða getið. Gísli Sigurðsson skrifar m.a. um svæðið: „Spölkorn vestar er allhár melhóll Bleikhóll nefnist hann af lit sínum. Yrpuhóll er nokkru vestar og ber einnig nafn af lit sínum. Bleikhóll er gulbleikur, Yrphóll brúnn eða jarpleitur. Þá kemur hryggur lítill fram úr hálsinum og bak við eða vestan við hann er Seltún. Þar eru Seltúnshverir. Þar rennur Seltúnslækur en upptök sín á hann í Seltúnsgili. Seltúnshvammur er austan lækjarins og Seltúnsbrekka og upp liggur í hlykkjum og bugðum Ketilsstígurinn. Að líkindum hefur Seltúnssel verið hér í hvamminum. Á vesturbakka lækjarins stóð Brennisteinsnámahúsið. Það var gott og vandað hús í upphafi. En um 1920 var það nær eingöngu notað sem fjárhús. Seltúnsfjárrétt var við það.

Hetta-26

Í brekkunni vestan við gilið voru Brennisteinsnámurnar voru þær virkjaðar um aldabil, en með löngum hvíldum á milli. Hér uppi í brekkunni voru hverir og hétu ýmsum nöfnum, svo sem Hattshverir. Pínir eða Pínisströkkur. Hann kom upp eftir jarðskjálfta og lét mikið í honum, eins og í eimpípu gufuskips. Hann hvarf líka við jarðskjálfta og kom þá upp Fúlipollur. Dalhitur og Hechelshver getur Jónas Hallgrímsson um og svo er var Beygingahver. En um alla brekkuna voru hveraaugu. Niður undan Pínir var Pínisbrekka. Niður undan brekkunni voru Seltúnsbörðin. Á einu barðinu var brennisteinshrúga, sem ekki hafði verið flutt burt er síðasta ferðin í Námur þessar var farin. Hér litlu vestar var Engjafell og þar var Engjafellshver.

Hettuvegur-26

Neðan undir Engjafelli eru Vaðlarnir. Þá er komið að Vaðlalæknum. Upp með honum er farið og er þá komið í Hveradali. Þar var námagröftur í Hveradalanámum. Má enn sjá dálitla hrúgu brennisteins í Hveradalabrekkunni, sem ekki hefur verið hirt þegar námavinnslan hætti. Upp Námahvamminn lá Námastígurinn frá fyrrnefndri hrúgu upp þangað sem brennisteinninn var tekinn. Hér voru líka Smjörbrekkur. Smjörbrekkustígur upp í Smjörbrekkuskarð. Upp frá Hveradölum til suðurs var brött brekka, Baðstofubrekka, en þar uppi voru klettar með sérkennilegri lögun. Eru þeir nefndir Baðstofa af lögun sinni, en þeir eru eins og burstir tvær og gnæfa við himinn. Á flötum fremst í dölunum hafa nú risið Krýsuvíkurhúsin. Þar eru vermigróðurhús og íbúðarhús. Þar fram undan er Gestsstaðavatn. Kringum það eru svo Gestsstaðamelar. Þess er vert að geta, að Gestsstaðavatn, Grænavatn, Augun og Stampar eru allt sprengigígar, eftir því sem jarðfræðingar telja. Hveradalalækurinn eystri rennur sem fyrr er frá sagt niður í Vaðlana og nefnist þar eftir þeim. Annar Hveradalalækur vestri kemur úr Hveradölum og rennur fram milli melanna. Lækur þessi er aðaluppistaðan í Krýsulæk vestri.
Fram undan melnum vestan lækjarins munu hinir fornu Gestsstaðir hafa staðið, sér þar móta fyrir rústum tveggja bygginga. Vestan þessa mela er lítill lækur og mætti nefna hann Gestsstaðalæk. Gestsstaðamói liggur fram undan rústunum, fram á mýrina. Vestur héðan frá læknum litla liggur stígur um Steinabrekkur og nefnist Steinabrekkustígur.

Smerbrekkustigur-26

Alllangt hér vestur með hálsinum er svo komið að móbergskletti, sem nefnist Skuggi mun vera gamalt fjárskjól. Uppi á Hálsinum er fjárbirgi, sem einhverntíma hefur verið reft yfir. Fagraskjól nefnist það. Nokkru vestar er komið að öðrum klettum nefnast Svörtuklettar. Niður undan þeim er komið á Alfaraleiðina frá Krýsuvík til Grindavíkur. En þarna eru líka Vegamót, því héðan liggur upp á hálsinn Drumbsdalastígur, sem var kirkjustígur Vigdísarvallamanna. Einbúi er klettur enn vestar, en hjá honum sveigir vegurinn fyrir vesturenda Sveifluháls og sér hér inn í Drumbsdali. Framundan eru móbergsklettar, nefnast Borgarhólar og eru á vinstri hlið við leiðina. Hér sér enn til gamla troðningsins og hér eru vörðubrot að sjálfsögðu mikið gömul. Fram undan Borgarhólum er Borgin, Fjárborgin eða Borgarhólafjárréttin, því bæði var þetta fjárskjól og einnig var rekið að þarna fé úr Vesturheiðinni.“

Kringlumyri-26

Ennfremur: „Há rís upp hér á hálsinum hæsti hnúkurinn, Miðdegishnúkur. Mun heita svo af því hann er eyktamark úr Hraunum. Hér vestar nokkurn spöl er Arnarnýpa, og þar á Arnarhreiður. Sér nýpuna víða að. Til hliðar, norðan við tindana er hálsinn sprunginn að endilöngu. Austast er Sandfellsklofi. Þar eru eldvörp og eins upp á hálsinum. Vestar taka við Folaldadalir. Foladadalur eystri með Folaldadalstjörn. Þá er Mið-Folaldadalur og Folaldadalur vestri og er þar Folaldadalstjörn vestri. Tjarnir þessar þrjóta venjulega á sumrin. Þá er komið á Ketilstíg þar sem hann kemur upp úr Katlinum og liggur framhjá Arnarvatni.
Folaldadalir

Í vestur eru tveir hnúkar. Annar að sunnan heitir Hattur kúflaga en framan í honum eru Krýsuvíkurnámurnar og Seltún. Beint framundan er Hetta. Hattsmýri liggur milli hnúka þessara, en klofnar um Hattsmýrargil. Vestan undir Hettu er Hettuskarð og Hettuskarðsvegur eða Hettuskarðsstígur. Nokkrir nafnlausir tindar eru hér fyrir vestan og vestan þeirra er komið á Drumbsdalastíg. Á sunnanverðum hálsinum er Stóri-Drumbur, en norðar er Litli-Drumbur og milli þeirra Drumbsdalir. Hér fram undan eru Borgarhólar og Borgin. Þess er vert að geta, að Sveifluháls ber nokkur nöfn, svo sem Austurháls og Móháls eystri.“

Drumbalastigur-26

Einnig: „Þá er komið að Ketilstígssteini kletti allmiklum og liggur vegurinn frá honum upp á hálsinn og er þá komið að Katlinum og í hinn eiginlega Ketilstíg, sem liggur um austurhlíð og suðurhlíð Ketilsins og þar upp á brún, síðan áfram framhjá Arnarvatni niður með efsta hluta Seltúnsgils yfir á stall ofan Seltúns og niður Seltúnsbrekkuna í Seltúnshvamm. Stundum var öll leiðin frá Hafnarfirði í Seltún og að Krýsuvík kölluð Ketilstígur. Að fara Ketilstíg. Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum. Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. 

Hetta-27

Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn. Síðan fellur lækurinn norður af og um móbergshjalla, þar sem hann hefur grafið sig niður í móbergið og myndað polla hylji, súlur og boga í margs konar myndum. Lækurinn fellur svo fram og rennur út á hraunið og eftir því og er að fylla gjótur þess og bolla. Þegar hingað er komið blasir við í vesturátt Mælifell Krýsuvíkur-Mælifell eða Innra-Mælifell. Austur úr Mælifelli gengur lágur Mælifellsháls. Austanundir Mælifelli eru Klettavellir. En frá hálsinum milli Mælifells og Borgarhóla liggur Mælifellsdalur. Sunnan í Mælifelli er Mælifellstorfa mið af sjó. Vestur úr Mælifelli gengur Mælifellsás, en framan í því að suðvestan liggur Alfaraleiðin, krækir fyrir hornið og liggur þar framhjá Ögmundardys.“

Maelifell

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af svæðinu segir m.a.: „Austur af Latsfjalli, norðan vegarins um hraunið, er fell það, sem heitir Krýsuvíkur-Mælifell, og suður af því, við suðurenda Sveifluháls, eru Borgarhólar. Norðaustur frá Borgarhólum fer svo hálsinn að myndast. Nokkuð þar austur með hálsrótunum er smáhnúkur einstakur, sem heitir Einbúi. Þar norður af er annar klettur, sem heitir Skuggi. Þar upp af er hár hnúkur á hálsinum, sem heitir Drumbur. Þar niður undan eru svo Drumbsdalir. Hér liggur yfir hálsinn vegurinn frá Vigdísarvöllum, er síðar getur, til Krýsuvíkur. Þessi vegur heitir Drumbsdalavegur. Þar norður frá er hóll, sem heitir Bleikshóll, og þar niðurundan í norðurhlíðum hálsins er dalur, sem heitir Bleikingsdalur. Þá er vegur, sem heitir Hettuvegur eða Móhálsavegur.“

Sveifluhals-26

Ennfremur: „Í Hverafjalli eru margir smádalir með hverum, bæði vatnshverum og brennisteinshverum, og heitir það svæði Hveradalir. Nokkuð suður og vestur frá Hatti er hæsti hnúkurinn þarna, og heitir hann Hetta. Er líkast, að hér sé komin allstórvaxin risafjölskylda. Framan undir Hverafjalli eru rústir Gestsstaða, sem sagt er, að séu undir Móhálsum, og er það nafn nú glatað. Austan undir Hatti er hvammur sá, sem heitir Seltúnshvammur. Er komið niður í hann, þegar Ketilstígur er farinn, er síðar getur. Í hvamminum er Seltúnið. Þar eru nokkrir leirhverir, sumir dauðir, en í öðrum kraumar. Úr gili milli Hatts og Seltúns kemur Seltúnslækur, sem rennur um alldjúpt gil á jafnsléttu, Selgil. Þarna eru Seltúnshverir. Framan við Seltúnið eru Brennisteinshúsarústir. Eru þær á Seltúnsbarði, sem er sunnan gilsins. Þar höfðu enskir menn brennisteinstöku á 19. öld. Voru þeir líka í Brennisteinsfjöllum. Þegar kemur niður úr Seltúninu niður á láglendið, er leiðin til Krýsuvíkur um Vaðla.

Sveifluhals-27

Hér hefur gleymzt, að neðan undir Hettu Vigdísarvallamegin er Hettumýri). Norður af Hatti er á hálsinum vatn það, sem heitir Arnarvatn, og norðan þess er hár hnúkur, Arnarnípa. Arnarvatn er í lægð á hálsinum, og gegnum þá lægð liggur vegur, sem nefndur er Ketilstígur. Ef komið er norðan frá yfir hálsinn, liggur hann fyrst upp bratt klettahögg, og þegar upp á það er komið, blasir Ketillinn við, en það er kringlóttur, djúpur dalur eða skál niður í fjallið. Graslendi er í botni hans. Þetta er móbergsfjall, og liggur stígurinn í fullan hálfhring upp Ketilinn, hærra og hærra. Snarbrattar og sléttar skriður eru niður í botn, þegar upp kemur, sést, að hér er hálsinn klofinn norður að svonefndum Miðdegishnúk, sem er upp af Kaldrana, sem fyrr er getið. Þessi klofningur er sanddalir, sem heita Folaldadalir.“
Frábært veður. Gangan tók 4. klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík, Ari Gíslason skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík. Gísli Sigurðsson skráði.

Smérbrekkustígur

Smérbrekkustígur norðan Hettu.

Nýey

Rvík 17. ágúst [1884].
„Ný ey við Reykjanes.
gjoska-25Vitavörðurinn á Reykjanesi, herra Jón Gunnlaugsson skipstjóri, hefir skrifað Ísafold 1. þ. m.: „Hinn 26. f. m. (júlí) gékk ég hér upp á svo kallað Bæjarfell með kíki og var að skoða sjóinn, mér til skemtunar, og sýndist mér ég sjá skip norðvestur af Eldey (Melsækken), en sýndist það furðu stórt; dró ég sundur kíki minn, og sá fljótt, að þetta er eyja, stærri en Eldey, á að gizka hér um bil 3 mílur norðvestur af Eldey. Hefi ég skoðað hana á hverjum degi og er hún alt af með sömu ummerkjum og þegar ég sá hana fyrst. Þetta hafa einnig séð kunnugir menn í Höfnum hjá mér í kíki“. Það hefir borið oft við áður, að landi hefir skotið upp fyrir Reykjanesi í eldgosum, sem hafa
verið þar alltíð.“

Heimild:
-Þjóðólfur, 36. árg. 1884, 32. tbl., bls. 128.

Stampahraun

Stampahraun. Í dag má sjá leifar hraunsins undan ströndinni, þ.e. Karlinn. Strákur, Stelpa og Kerling eru horfin í sjáinn. Þó má enn sjá móta fyrir gíg Kerlingar í Kerlingarbás.

Krýsuvíkurkirkja

Kristján Eldjárn skrifaði eftirfarandi í Kirkjuritið  1953 um Björn Jóhannesson og endurreisn Krýsuvíkurkirkju:
Bjorn johannessin-1„Hinn 22. nóv. 1964, andaðist Björn Jóhannesson fyrrv. forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, tæplega sjötugur að aldri. Allmörg undanfarin ár bafði hann dregið sig í hlé frá þeim félagsmálastörfum, sem setja svip sinn mest á ævidag hans, og olli því sjúkdómur sá, er nú hefur snögglega dregið hann til dauða. En Björn sat þó ekki auðum höndum þessi síðustu ár sín. Hann átti sér merkilegt hugðarmál, sem honum auðnaðist að koma heilu í höfn, áður en var allur allur, og sá minnisvarði mun að öllu skaplegu lengi standa brautu nær og lofa sinn mann. Meðal þeirra stórbýla landsins, sem breyttir þjóðfélagshættir hafa dæmt úr leik og dregizt hafa upp fyrir augunum á þessari kynslóð, er Krýsuvík í Gullbringusýslu. Húsin féllu hvert á fætur öðru og lífið fjaraði út, uns ekkert stóð nema gamla kirkjan og í henni hírðist lengi gamall maður, síðasti Krýsuvíkingurinn, og þrjózkaðist við að hlýða tímans kalli, unz þar kom, hann var ekki að spurður. Lauk þar með langri sögu, en eftir stóð kirkjan ein, opin og öndverð, illa til reika en traust að stofni til, og umhverfis hana lágar þústir yfir gröfum þeirra, sem í kirkjugarðinum hvíla. Fór þá eins og oft vill verða, að margir hneyksluðust og létu þung orð falla um niðurníðslu kirkjunnar, en sá var einn, sem sá og skildi, að lítið stoðar að tala og skrifa og ætla öðrum. Það var Björn Jóhannesson. Hann tók málið í sínar hendur og gerði það ekki endasleppt.
Hinn 18. maí 1954 skrifaði Björn bæjarráði Hafnarfjarðar og gerði grein fyrir, hvernig komið væri hag gömlu kirkjunnar í Krýsuvík, benti á hve illa þetta lágreista guðshús væri nú leikið, en sýndi um leið fram á, að það væri þó ekki ver farið en svo, að með dálitlu átaki mætti færa það í sitt upphaflega lag. Í bréfi sínu segir Björn meðal annars: „Það mun margur álíta, að rétt væri að rífa þetta gamla kirkjuskrifli og slétta kirkjugarðinn, en ég tel, að það væri mjög misráðið. Þetta eru þær einu minjar, sem eftir eru af gömlu Krýsuvík, og þá um leið þær merkustu, og ég tel, að komandi kynslóðir hefðu gott af því að fá innsýn í hina lágreistu sali fortíðarinnar og sjá, hvað forfeðurnir urðu að gera sér að góðu og urðu að mætum og dugandi mönnum samt. Eg álít, að við Íslendingar höfum verið allt of kærulausir með að viðhalda ýmsum gömlum minjum, og eftir því sem þeim fækkar, þurfum við að vera fastheldnari með þær og sjá um, að þær fari ekki forgörðum, venjulegast fyrir trassaskap og sinnuleysi. Hvað vildum við ekki nú gefa fyrir ýmislegt, sem eyðilagzt hefur af þessum sökum?
Krysuvikurkirkja 1964-21En um það tjáir ekki að tala, heldur að reyna að bjarga því, sem bjargað verður“. Síðan biður Björn um, að sér verði leyft að hefjast handa um viðgerð kirkjunnar og að eigandi Krýsuvíkur, Hafnarfjarðarbær, veiti sér umráðarétt yfir henni og kirkjugarðinum að minnsta kosti tíu ár, sem hann kveðst vilja nota til að gera við kirkjuna, bænum að kostnaðarlausu, en síðan muni hann afhenda bænum hana aftur eða fyrr, ef þannig semdist. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar brást vel og viturlega við þessari málaleitan Björns og lét allt vera svo sem hann vildi. Tók hann þá til óspilltra málanna um endurbyggingu kirkjunnar og vann að því ötullega á næstu árum. Kostnaðinn af því bar hann að langmestu leyti sjálfur, en naut þó góðrar fyrirgreiðslu nokkurra manna, og ber þar um fram allt að nefna Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði, sem tók að sér að gera við kirkjuna sjálfa. Sagði Björn, að án liðlegheita og ósérplægni Sigurbents hefði sér orðið óhægt um að koma viðgerð kirkjunnar í kring. Skal það sízt efað, svo erfitt sem það er á vorum veltitímum að fá nokkurn mann til þess að vinna að dútli eins og þessu.
síðastliðnu sumri, hinn 31. maí var svo Krýsuvíkurkirkja vígð af biskupi landsins að viðstöddum þeim mannfjölda, sem rúmast getur í hinu litla guðshúsi. Þetta var sérkennileg stund, kirkjuvígsla á eyðistað, en Björn Jóhannesson hafði þá trú, að kirkjan yrði ekki aðeins minjagripur, þegar fram líða stundir, heldur yrði hún aftur sóknarkirkja þeirra manna, sem í framtíðinni myndu setjast að í Krýsuvík, þegar aftur verða not fyrir þau náttúrugæði staðarins, sem enginn verður um sinn til að nytja. En hvað sem menn kunna að halda um þessa trú Björns, munu þó allir þeir, sem staddir voru í Krýsuvík þennan sumardag hafa verið sammála um, að hér var gott málefni til lykta leitt.
krysuvikurkirkja 1940-21Krýsuvíkurkirkja er ekki stór eða vegleg, enda byggð fyrr fámennan söfnuð í afskekktri sveit, og ekki er hún heldur mjög gömul, smíðuð 1857, vafalítið af Beinteini Stefánssyni, smið í Arnarfelli, afa Sigurbents Gíslasonar, en hún er eigi að síður sögulegur minnisvarði og þokkaleg í öllu sínu látleysi. Víst mun einhverjum hafa fundizt fátt um, þegar Björn fór að láta hressa við hið vanrækta hús á eyðistað. Það er gamla sagan. Þegar verkinu er lokið, gleymast úrtöluraddirnar og allir verða ánægðir. Þessi varð reynsla Björns Jóhannessonar. Hann hafði sett sér mark, að gera við Krýsuvíkurkirkju og búa hana um nauðsynjum á tíu árum. Nú var sá tími liðinn, enda var kirkjan hér, risin upp úr sinni niðurlægingu, og allir kepptust um að votta Birni virðingu sína og þakka framtak hans. Vígsludagur kirkjunnar var sigurdagur í lífi hans.
Endurreisn Krýsuvíkurkirkju var langt komið, þegar Björn Jóhannesson kom fyrst að máli við mig um málefni hennar fyrir nokkrum árum. Eftir það höfðum við töluvert samband okkar á milli, og ég fór alloft með honum til Krýsuvíkur. Sú var hugmynd hans, að réttast væri að fela Þjóðminjasafni Íslands framtíðarforsjá kirkjunnar, og  hreyfði hann því máli við bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Kom þar, að bæjarstjórnin ákvað að fela safninu kirkjuna ásamt vænni landspildu umhverfis hana, en Björn gaf allt sem hann hafði til hennar lagt. Er gjafabréf bæjarstjórnar dagsett í Hafnarfirði hinn 18. september 1964, og síðan er Krýsuvíkurkirkja á  fornleifaskrá og eitt þeirra húsa, sem vernduð verða á vegum hins  opinbera sem menningarsögulegar byggingar.
Á fögrum haustdegi, hinn 19. september, vorum við Björn í síðasta sinni saman í Krýsuvík. Gerðum við þá úttekt á öllu, sem í kirkjunni er, en Björn afhenti mér skrá þar sem nákvæmlega er tilgreint hvað hver og einn hafði til hennar gefið, en flest af því er að vísu frá honum  sjálfum. Þarna var ekkert hálfverk á, og mikil var gleði Björns að sjá þetta mikla áhugamál sitt komið heilt í þá höfn, sem hann hafði dreymt um. Honum var það mikið gleðiefni að verða þess var, hve margir lögðu leið sína heim að kirkjunni, eftir að opnaður var hinn nýi Grindavíkurvegur, sem liggur hjá garði í Krýsuvík. Þótti honum það sem staðfesting þess, að kirkjan sem hann hafði reist úr rúst, ætti enn erindi við lífið og hann hefði barizt fyrir réttum mál stað. Hugði hann gott til að fylgjast með mannaferðum heim að Krýsuvík á komandi árum, ef þess yrði auðið. En hann vissi líka, að kallið gat komið snögglega, eins og nú er komið á daginn, og það var honum því fró og fullnæging að honum hafði auðnazt að ná settu marki, og hann var þakklátur öllum, sem höfðu stutt hann til þess á einhvern hátt.
Ókunnugt er mér hvað upphaflega kveikti áhuga Björns fyrir málstað Krýsuvíkurkirkju, því að ekki var hann bundinn staðnum tryggðaböndum ættar og uppruna. En fágætur var sá áhugi, sem hann sýndi þessu málefni, og sá kærleikur, sem hann lagði þar í hvert handtak, og af dæmi hans mætti mikinn lærdóm draga. En efst er mér í huga þakklæti til Björns fyrir hið merkilega framtak. Hann var í fyllsta skilningi björgunarmaður Krýsuvíkurkirkju, og það er honum að þakka, að land vort er þannig einu menningarsögulegu húsi ríkara. Þau eru fá, mannaverkin á hinni nýju Grindavíkurleið. Þeirra merkast er hin gamla kirkjan, og minning Björns mun lifa með henni.“

Eftirfarandi viðtal við Björn Jóhannesson um endurreisn Krýsuvíkurkirkju birtist í Vísi 1964:

Krýsuvíkurkirkja endurreist.
Bjorn johannesson-22Fyrir nokkrum dögum birtum við fregn um það, að maður nokkur hér í borg að nafni Björn Jóhannesson hefði ráðizt í það að endursmíða og endurreisa kirkjan í Krýsuvík. Menn spurðu hvað vekti fyrir honum með þessu. Verk hans var lofsamlegt, það geta þeir bezt borið um, sem komið hafa suður í Krýsuvík á sfðustu áratugum og séð, hvernig hið gamla kirkjuhús þar var útleikið, Í stuttu máli í hinni verstu niðurníðslu. En hins vegar finnst þar enginn söfnuður, til skamms tíma var þar allt í eyði, nú vinna þar örfáir Hafnfirðingar við gróðurhúsarækt.
Við skulum lofa honum sjálfum að svara þessu, eins og hann orðaði það við fréttamann Vísis er heimsótti hann að heimili hans, Snorrabraut 83.
— Ég vildi endurreisa Krýsuvíkurkirkju fyrir framtíðina sagði hann. Það má vera, að mönnum finnist einkennilegt að byrja á kirkjunni áður en söfnuðurinn er til. En Krýsuvík er framtíðarstaður, einn mesti framtíðarstaður á landinu. Að hinu væri fremur að finna, að áður en áratugur er liðinn verður þessi kirkja orðin of lítil fyrir söfnuðinn. Helzt hefði þurft að stækka hana um leið og hún var endurreist. Framtíðarmöguleikarnir í Krýsuvík eru geysilegir, bæði í jarðrækt og jarðhita.
— En hverjar voru hvatirnar til að takast þetta verk á hendur upp á eigin spýtur? — Ætterni? — Uppruni?
— Nei, ég er ekki ættaður úr Krýsuvík, heldur húnvetnskur, en fluttist kornungur til Hafnarfjarðar með foreldrum mínum. Faðir minn var Jóhannes Sveinsson, sem lengi var ökumaður, var með hestvagn í flutningum í Hafnarfirði og til Reykjavíkur. Ég var líka í slíkum flutningum fyrst í stað, síðan fór ég út í ýmislegt annað, meðal annars útgerð, starfaði lengi með Ásgeiri Stefánssyni. Einnig var ég kosinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þannig kynntist ég Krýsuvík, þegar Hafnarfjarðarbær keypti jörðina af Einari Benediktssyni. Hann var með jörðina á vegum einhvers ensks fyrirtækis, sem vann þar brennistein. Sjálfur hélt hann eftir Herdísarvík fyrir sig eins og allir þekkja.
— En nú eruð þér fluttur til Reykjavíkur
— Já, ég veiktist, og varð að draga mig út úr flestu, en þá fékk ég áhuga á Krýsuvíkurkirkju. Ég hafði engar sérstakar taugar til staðarins, en þegar ég kom í Krýsuvík og sá niðurlægingu þessa húss, sem áður hafði verið guðshús, sveið mér það og mig greip löngun til að bæta úr því. Ég skrifaði vinum mínum í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og beiddist leyfis til að mega gera kirkjuna upp og það leyfi var auðfengið.

Gamalt höfuðból.
Krysuvik 1810-22Við sitjum inni í bókaherbergi Björns á Snorrabrautinni.
Hér eru raðir bóka með sögnum og þjóðlegum fróðleik með veggjum, sýnilegt að húsráðandi hér hefur hugleitt liðna tíma, starf og ættir forfeðranna lítur í gráa forneskju. Og hér nefur hann kynnt sér sögu Krýsuvíkur af ýmsum ritum. Talið berst fljótlega að fyrri tímabilum blómlegrar byggðar, þegar þar var höfuðbólið Krýsuvík og fjöldi minni bæja og kota, sumir bændurnir bláfátækir, aðrir gátu með gætni og hyggindum orðið bjargálna. Hér er lifað á fjárrækt, Krýsuvík var meðal stærstu og beztu sauðjarða á landinu, fjárgæzla þó erfið. Í Krýsuvíkurbjargi var jafnan auðug eggjataka og margir æfðir sigmenn í byggðarlaginu. Og svo var sjórinn stundaður frá Herdísarvík, sem tilheyrði Krýsuvík.
Síðasti stórbóndinn í Krýsuvík var Árni Gíslason áður sýslumaður á Kirkjubæjarklaustri, bróðir séra Skúla þjóðsagnasafnarans fræga á Breiðabólstað. Árni flutti til Krýsuvíkur úr Skaftafellssýslu og flutti þá með sér á annað þúsund fjár. Hann varð fyrir miklum skakkaföllum í byrjun búskapar í Krýsuvík, en náði sér þó aftur á strik. Hann andaðist rétt fyrir aldamótin. Þá voru mjög erfiðir tímar fyrir landbúnaðinn, fjársalan til Bretlands hætt og almennur vinnufólksflótti að sjávarsíðunni. Eftir það bar Krýsuvík aldrei sitt barr og niðurlæging staðarins hófst nokkru síðar, kringum 1930 lagðist hann að mestu í eyði, einangrunin hafin, enginn þjóðvegur fyrr en seinna, — þegar Krýsuvíkurvegur var lagður var það orðið of seint, allt komið í eyði. Síðast bjó einsetumaður í Krýsuvík, Magnús Ólafsson. Og híbýli hans voru einmitt gamla kirkjan. Þá var búið að rífa úr henni allt. kirkjubekki, predikunarstól, altari, sumir kirkjumunir teknir til geymslu, annað glatað.

Reist upphaflega fyrir 107 árum.
krysuvik 1910-22Og svo snýst talið að sjálfri kirkjunni. Í Krýsuvík hefur verið kirkja frá því um 1200. En þessi kirkjubygging er frá 1857 Þá voru um 70 manns í sókninni. Hún var þá útkirkja frá Selvogi. Hún var reist ur rekaviði, en jafnan hefur verið nokkur reki á Krýsuvíkurfjörum. Það var vandað til hennar. Við komumst að því segir Björn, að viðir hennar voru enn sterkir og ófúnir, gólfið var verst farið, grautfúið.
Þá er það hvaða prestar þjónuðu þessari kirkju, en hún var ýmist útkirkja frá Selvogi eða Grindavík. Fyrst er að telja Lárus Scheving í Selvogi 1800-70. Þá koma Grindavíkurprestar Kristján Eldjárn Þórarinsson 1871-1878 og Oddur Gíslason 1878-1880. Þá koma aftur Selvogsprestar Ólafur Ólafsson voru á næsta tímabili Brynjólfur Gunnarsson 1908-1910 og Brynjólfur Magnússon 1910 og þar til kirkjan var lögð niður í Krýsuvík 1929, enda allt að komast í auðn.

Í niðurníðslu.
Krysuvik 1923-22Síðast bjó einsetumaðurinn Magnús Ólafsson sem fyrr segir í gömlu kirkjunni. Þegar hann veiktist og var fluttur burt kringum stríðsbyrjun lá Krýsuvík eftir mannlaus. Þá varð niðurlæging kirkjunnar mest. Var þá ömurlegt að skoða hana, gluggar brotnuðu úr henni, dyrnar opnuðust og stórgripir leituðu sér skjóls inni í henni. Þannig stóð í nærri tvo áratugi. Hvarvetna hef ég mætt áhuga og góðvild til þessa starfs og rekizt á margar skemmtilegar tilviljanir. Bezt af öllu var að ég fékk í lið með mér afbragðs smið, Sigurbent Gíslason í Hafnarfirði. Svo skemmtilega vildi til að hann er einmitt dóttursonur smiðsins sem reisti kirkjuna 1857. Afi hans smiðurinn var Beinteinn Stefánsson, sem bjó undir Arnarfelli í Krýsuvík. Dóttir hans var Sigríður móðir Sigurbents.

Gamlir kirkjugripir.
Svo voru til nokkrir gamlir kirkjugripir Krýsuvíkurkirkju, sem teknir höfðu verið til varðveizlu 1929 og settir á Þjððminjasafnið þegar kirkjan var lögð niður. Þá er að nefna kirkjuklukkuna. Hún hafði verið flutt til Grindavíkur og var í kirkjunni þar. Ég var að vísu hálf kvíðinn að fara að nefna það við sóknarprestinn, en sá kvíði var ástæðulaus. Hann skildi það fullkomlega að  Krýsuvíkurkirkja ætti að fá sína gömlu klukku, því að rétt skal vera rétt. Svo fór ég til Grindavíkur og klukkan var tekin niður. Nú klingir hún yfir eyðibyggðinni í Krýsuvík. Aðra klukku fékk ég að gjöf hjá Fríkirkjusöfnuðinum í Hafnarfirði. Það var minni klukka, sem hafði verið skipsklukka og á henni stóð grafið heitið Enganes. Hún lá ónotuð hjá fríkirkjusöfnuðinum og þeir vissu ekki hvaðan hún var komin.

Enganes-klukkan.
En ég komst líka að því fyrir tilviljun. Ég var að endurlesa æviminningar Thor Jensen, sem Valtýr skrifaði og þar blasir þá við mér öll saga litlu klukkunnar, botnvörpuskipsins Enganess, sem kom frá Englandi til Vídalíns-útgerðar í Hafnarfirði, en enski klukkusmiðurinn hafði misritað nafnið Enganes. Síðast strandaði Enganes í Grindavík haustið 1898. Og nú verður samhringt með Enganesklukkunni í Krýsuvík.
Þá hafði Krýsuvíkurkirkja átt gamla og mjög sérkennilega og fallega ljðsastjaka úr tini, sem munu vera frá miðri 17. öld. Þeir voru komnir á Þjóðminjasafnið, svo að ég lét gera afsteypu af þeim í kopar. Hins vegar lagði Þjóðminjasafnið til gamla altaristöflu af útlendri gerð af Kvöldmáltíðinni.
Þannig hefur Krýsuvíkurkirkja verið endurreist. Það var byrjað á kirkjunni, en ég er í engum vafa um það, að söfnuðurinn kemur á eftir, sagði Björn Jóhannesson að lokum.“

Heimild:
-Kirkjuritið, Kristján Eldjárn, Björn Jóhannesson og Krýsuvíkurkirkja, 31. árg. 1953, 1. tbl.,bls. 49-53.
-Vísir, 24. júní 1964, bls. 9 og 13.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara.
Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.
Kirkja mun hafa risið í Krýsuvík í upphafi kristni hér á landi í Kirkjulág í Húshólma áður en Ögmundarhaun rann um miðja 12. öld. Eftir þann atburð var kirkjan færð ofar í landið. Kirkjuna sem brann smíðaði Beinteinn Stefánsson hjáleigubóndi í Krýsuvík úr rekatrjám 1857. Byggð lagðist af í Krýsuvík í byrjun síðustu aldar og 1929 var Krýsuvíkurkirkja aflögð sem helgidómur. 

Reykjadalur

Þann 23. júní 2014 var afhjúpað upplýsingaskilti um náttúru Reykjadals sem sett var upp við Rjúpnabrekkur inn í Ölfusdal ofan við Hveragerði. Skiltið var unnið af Landvernd í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðafélag Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, Safe Travel, Hveragerðisbæ, Sveitarfélagið Ölfus, Ferðafélag Íslands, Eldhesta og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi.  Á upplýsingaskiltinu má lesa eftirfarandi fróðleik:

Jarðhiti

Reykjadalur

Reykjadalur – afhjúpun skiltisins 2014.

Jarðhiti í Reykjadal og Hveragerði er í rótum útkulnaðrar eldstöðvar sem var virk fyrir um 120.000 árum í rekbeltinu á svipuðum slóðum og Hengill er í dag. Eldstöðina hefur rekið til austurs frá miðju rekbeltisins og jöklar hafa sorfið hana niður. Eldstöðinni fylgir sprungu- og eldstöðvakerfi sem nær frá sjó í Selvogi, norðaustur um Hengilssvæðið um Nesjavelli til Þingvalla. Á stærstum hluta Hengilssvæðisins er að finna móberg og móbergsset frá ísöld en einnig basalthraun sem runnu eftir að henni lauk.

Reykjadalur

Reykjadalur – jarðhiti.

Jarðhiti á svæðinu einkennist af leirugum vatnshverum og kolsýruhverum og víða eru merki um aukna virkni í seinni tíð. Í Klambragili eru fjölmargir kolsýruhverir og laugar með miklu rennsli, sem gefa megnið af hita Reykjadalsár. Mörg þessara fyrirbæra njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Náttúrufar

Reykjadalur

Reykjadalur – laug.

Jarðhitinn hefur víða áhrif á gróður svæðisins og felst sérkenni hveragróðurs einkum í gróskumiklum votlendissamfélögum við heita læki og laugar og moslendi þar sem þurrara er. Ýmsar hitakærar tegundir jurta vaxa á svæðinu og má þar nefna laugadeplu (Veronica anagallisaquatica) og naðurtungu (Ophioglossum azoricum). Báðar þessar jurtir eiga undir högg að sækja og eru því á válista háplantna. Ennfremur finnast ýmsar hitakærar tegundir mosa og smádýra, sumar hverjar á válista. Litríkar og fjölbreyttar hveraörverur setja svip sinn á svæðið. Þær flokkast sem bakteríur og fornbakteríur og eru margar afar fágætar.

Hverafuglar og aðrar sögur

Grafningur

Ölfusvatnslaugar.

Reykjadalur hefur löngum verið nýttur til beitar og vegna jarðhitans gat fé gengið þar lengur að grænum gróðri en annarsstaðar.
Í þjóðsögum er getið um svokallaða „hverafugla“ í hverum á Ölkelduhálsi og Hagavíkurlaugum. Þeir voru sagðir litlir vexti, dökkleitir og taldir synda í bullandi hverum. Sagt var að ekki þýddi að sjóða þá en ef þeir væru látnir í kalt vatn bragðist þeir sem soðnir væru.
Þá segir í Landnámabók að Ingólfur Arnarson landnámsmaður hafi búið hin síðustu ár ævi sinnar á Reykjum í Ölfusi, þá blindur orðinn.

Verndum viðkvæma náttúru Reykjadals

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Reykjadalur er einn fjölsóttasti náttúrulegi baðstaður landsins í afar fögru og friðsælu umhverfi. Það einkennir Reykjadal, líkt og önnur jarðhitasvæði, hve viðkvæmt svæðið er fyrir átroðningi og umferð.
Setjum vernd svæðisins ávallt í fyrsta sæti, fylgjum merktum stígum og hverfum frá ef aðstæður, t.d. árstími eða tíðarfar, leyfa ekki umferð. Þannig getum við og komandi kynslóðir áfram notið þessa einstaka svæðis. Njótið svæðisins!
Reykjadalur

Reykjadalur – Upplýsingaskilti.

 

Ölkofra

Ölkofri, öðru nafni Þórhallur, bjó á Þórhallsstöðum á Þingvöllum um og í kringum árið 1000. Um hann hefur verið skrifað, t.d. í Ölkofraþætti,  og ekki allt satt:
Thorhallstadir„Þótt Ölkofraþáttur sje eigi sannsögulegur, þá er hann þó allforn, og munu þessi orð Brodda styðjast við sannindi, og má telja það víst, að Skafti hafi ort mansöngsdrápuna, en efnið í þættinum er að mestu leyti tilbúningur einn og á að sýna, hvernig sex goðar, og er Skafti einn þeirra, eru brögðum beittir og sæta illmælum af Brodda Bjarnasyni, er þeir ætla málssókn að hefja á hendur Þórhalli búanda í Bláskógum á Þórhallsstöðum, en honum hafði það slys viljað til, að hann brenndi upp skóg þeirra goðanna, Goðaskóg, svo og sinn skóg sjálfs, er hann var að kolagerð, og var Þórhalli hið mesta vesalmenni, en vel fjáreigandi, en Broddi tók að sjer, að veita honum lið í málinu og bjarga því. Þórhallur seldi þingmönnum öl og hafði kofra á höfði, og því kölluðu þingmenn hann Ölkofra.“
Í „Rannsókn á hinum forna alþingisstað Íslendinga og fleira, sem þar að lýtr“ eftir Sigurð Vigfússon, segir m.a.: „Síðan fór eg að Skógarkoti um kveldið og athugaði um Þórhallastaði, sem talað er um í Ölkofraþætti, og fleira. Elztu menn segja, að stekkurinn frá Skógarkoti sé nú þar sem gömlu Þórhallastaðir vóru. Þar hefir verið mikið tún, og sjást leifar af fornum túngarði; gamall brunnr hefir og fundizt þar og jarðvegr kominn yfir. Hann hefir verið hlaðinn upp til forna, sáust þess greinileg merki, og hefir þar verið þró mitt í jarðhellunni „Ölkofrahóll heitir þar fyrir utan hinn forna túngarð.“

Heimildir:
-Andvari, 41. árg. 1916, 1. tbl. bls. 116.
-Árbók Hins íslenka fornleifafélags, 1. árg. 1880-181, bls. 24.

Þórhallsstaðir

Fjárhústóft í Ölkofra – Þórhallsstöðum.

Reykjanesfólkvangur

Á fundi undirbúningsnefndar að stofnun fólkvangs á Reykjanesi 12. febrúar 1975 var samþykkt að Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Hafnarfjörður, Grindavík, Garðabær, Selvogshreppur, Keflavík og Njarðvíkurhreppur (tvö síðastnefndu sveitarfélögin eru nú sameinuð í Reykjanesbæ) skyldu vera aðilar að fólkvangi á Reykjanesi, sbr. nú ákvæði 3. og 55. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Mikið er um jarðhitasvæði og margskonar náttúruminjar innan fólkvangsins. Eldfjöll eru mörg, einkum lágar hraundyngjur og gossprungur. Móbergs fjöll og -stapar í óteljandi myndum er einkennandi fyrir landslag á svæðinu. Fólkvangurinn var friðlýstur árið 1975, eða fyrir 30 árum.
Í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 er kveðið á um auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi. Þar segir:
”Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.

Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
FániLína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krísuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.

Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.

Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.
Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til.
Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.

Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.

Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum.

Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975.

Vilhjálmur Hjálmarsson.”

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Nú þegar 30 ár eru liðin frá stofnun Reykjanesfólksvangs er ágætt tilefni til að staldra við, meta stöðuna og ákvarða framhaldið. Staðreyndin er sú að stjórn fólkvangsins hefur verið skipuð fólki, sem lítið hefur látið að sér kveða. Skipanir sveitastjórna í stjórn fólksvangsins virðist einungis til málamynda. Engin tengsl virðast vera á milli þeirra og viðkomandi sveitastjórna. Hluteigandi virðast hvorki vera kunnugt um verðmæti svæðisins né möguleika þess. Það hefur heldur ekki fengið fjármagn til kynninga, ekki fengið tækifæri til að laða áhugasamt fólk að svæðinu eða getað nýtt það með markvissum og skipulegum hætti, sem það verðskuldar. Á sama tíma hefur fólkvangurinn verið „útbýjaður“ af utanvegakastri og önnur skemmdarverk verið látin viðgangast, án þess að stjórnin hafi getað rönd við reist. Það er kominn tími til breytinga.

Krýsuvík

Fjósið í Krýsuvík.

Þegar kemur að einstökum ákvörðunum er að sjá sem sveitarfélögin hreinlega „valti yfir“ stjórn fólksvangsins. T.a.m. má sjá þess merki þegar kemur að ákvörðunum stjórnar Hitaveitu Suðurnesja, sem sveitafélögin tilnefna aðra fulltrúa til og eru jafnan einnig sveitarstjórnarfólk, en sveitafélögin er Reykjanesfólkvangurinn tilheyrir, eru jafnframt eigendur H.S. Ekkert fyrirtæki á Suðurnesjum, með fullri virðingu fyrir starfsfólki þess, hefur raskað svæðinu jafn mikið og það með óafturkræfum hætti – hingað til a.m.k.
Sveitarfélög þau, sem að Reykjanesfólkvangi standa, þurfa að taka sér tak, endurmeta umfang fólksvangssvæðisins með raunhæfum hætti, ráða eða skipa fólk með þekkingu á svæðinu til starfa, vernda það, marka stefnu til lengri tíma og um leið efla áhuga á samnýtingu þess.

Hraunhóll

Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.

Hörfa þarf frá núverandi fyrirkomulagi, en taka upp líkt fyrirkomulag og nú gildir um Bláfjallanefndina með megináherslu á svæðið sem heild sem og skynsamlega nýtingu allra auðlinda þess til lengri framtíðar. Ljóst er að jarðvarmanýtingin er nauðsynleg, en hana er auðveldlega hægt að framkvæma með meiri varnfærni en gert hefur verið. Ekki má horfa fram hjá þeirri auðlind svæðisins er lítur að óspilltu umhverfi, hvort sem um er að ræða náttúru eða menningarminjar, sem það hefur að geyma frá upphafi landnáms hér á landi.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Sólar

„Álfatrúin hefir hvervetna átt játendur á Íslandi.
alfur-21Enn þótt hún sé nú, að kalla, dauð með flestum þeim, er trúað hafa tilveru álfa, eru þó nokkrar menjar hennar eptir, bæði í sögum þeim, sem síðar koma, og í nöfnum, sem af álfum eru dregin, t. d. álfar, álfafólk, 

álfakyn, álfatrú, álfkona, auk mýmargra örnefna, sem tekið hafa nöfn af álfum, sem of lángt er upp að telja. Þó eru til önnur nöfn um þetta sama kyn, svo sem huldufólk, huldumaður, huldukona, o. s. frv. og ljúflingur eða lýflingur; þykja þau nöfn alt mildari, og betur hæfa að velja álfum þau, er hafa verið álitnir svo voldugar verur, að menn hafa bæði borið virðíngu fyrir þeim og óttazt þá. Til þess er og saga sú, að álfar vilji láta kalla sig huldufólk, en ekki álfa eða álfafólk, að álfkona nokkur kom með reiðisvip til mennskrar konu, er atyrti dreing fyrir eitthvert ófimlegt athæfi hans, og sagði: „álfurinn þinn“, eins og hún kvað að honum; átti þá álfkonan að hafa sagt: „Við, huldufólkið, erum ekki meiri álfar, en þið mennirnir.“
Fyrir því að menn höfðu orðið þess varir, að álfum hafði þókt fyrir, ef þeir voru kallaðir svo, eða jafnað til alfar-22þeirra heimskingjum, var það varazt, að velja þeim önnur, en virðuleg nöfn, og varla þókti það óhætt, að kalla þá álfa, nema ef eingin ill merking var í það lögð. En nú er sá álfur nefndur, er hjákátlegur þykir til orðs og æðis, og geingur næst því að vera „ekki með öllum mjalla“; æði slíks manns er og kallað álfaskapur eða álfaraskapur, það er og sagt, að sá „álpist“, sem geingur antælislega eða klunnalega, hvort sem það er dregið af álfur.
Um bústaði álfa er það að segja, að það var trú, að þeir ættu híbýli ekki að eins í hólum og steinum, hér og hvar á landi, heldur einnig í sjó (marbendlar) og jafnvel í loptinu. þessi trú, um álfabygðir í hólum, er æfagömul, og eldri miklu, en kristni kom út hingað, sem Ólafssaga Tryggvasonar vottar.
Álfar eru í allri mynd og lögun sem alfur-23mennskir menn, eins og Jón Guðmundsson, er kallaður var hinn lærði eða málari, segir um þá í Fjandafælu: „Hafa þeir bæði heyrn og mál, hold og blóð með skinni; vantar ei nema sjálfa sá sá er hluturinn minni.“ Fyrra hluta vísu þessarar ætla jeg allir, sem hafa ritað um álfa, muni geta fallizt á, en alls ekki á síðari helming hennar, því hann er að ætlun minni fráleitur allri íslenskri hugmynd um eðli huldufólks. Enda vill svo vel til, að sögurnar sjálfar sýna það bezt, að skoðun nafna míns er þar ramvilt; því eptir þeim virðast álfar alls ekki skyni skroppnir. Eins og álfar eru líkir mönnum að skapnaði, eru þeir og líkir þeim í háttsemi allri: þeir fæðast eins og menn, og deya eins og þeir, en sagt er, að álfar séu miklu langlífari.

alfar-24

Álfar éta og drekka og skemta sér með samsætum, dansi og hljóðfæraslætti, en það er helzt um jólaleytið, og hafa þá opt sést híbýli þeirra ljósum prýdd, en þó einnig endrarnær og heyrst ómurinn af saung þeirra og hljóðfærum. Þá hafa þeir og bústaðaskipti eða halda fardaga. Álfar hafa búsmala og hafa opt menskir menn séð hann, kýr og kindur, er þeir nytka, og er fénaður þeirra allur vænni og betri til mjólkur og frálags en annar fénaður.
Matseld hafa þeir og alla, sem menskir menn, og opt hefir strokk-hljóð heyrst í klettum, er þar hefir verið geingið fyrir framan. Þeir stunda og slátt og alla vinnu líkömum sínum til viðurhalds, t. d. tóvinnu, því bæði hafi menn heyrt rokkhljóð í klettum og hólum, og að huldustúlka hafi hizt, er var að prjóna mórauðan sokk, svo hvorki séu þeir kaldir eða sóltnir. Álfar fara og til fiskifánga og hvalskurðar sem aðrir menn, og stunda veiðiskap bæði í sjó og vötnum. Hafa menn þókst heyra bæði áraglamm, mannamælgi, en ekki orðaskil, og eins og skip eða bátur væri settur upp eða ofan og jafnvel skip og báta á siglingu eða undir árum á sjó og „vötnum; en þegar af er litið, hefir alt horfið. Þegar menn heyra til álfa á veiðivötnum snemma á vorum, þykir það vita á góða silungsveiði. Opt ber það við, að menn sjá eins og lognrákir á sjó, þó annarstaðar sé gráð á að sjá; segja menn, að það séu kjalförin undan bátum huldumanna og þá séu huldumenn að róa. Þeir fara og til berja, segir Ólafur, með mönnum. það var almenn trú, að álfar væru tvennskonar, sumir góðir, en sumir illir. Góðu álfarnir voru kristnir og héldu vel trú sína; þeir höfðu því kirkjur og klerka og alla helgisiði sem kristnir menn.
alfur-25Víða hafa menn og þókst heyra inn í klettum, og jafnvel klukknahljóð á helgidögum. Þá áttu og álfar að hafa þing. Finnur biskup getur þess, að 2 álfa-kóngar hafi verið á Íslandi; áttu þeir að fara til skiptis sitt árið hvor til Norvegs með nokkrum mönnum til að gjöra yfirkóngi þeirra þar grein fyrir, hvernig hér væri ástatt. Þó álfar séu svo líkir mönnum í sumum greinum, sem nú hefir verið sagt, eru þeir þó að öðru leyti mjög ólíkir þeim, eða vanþekkíng vor á þeim veldur því, að svo virðist. Þeir eru einskonar andar, sem mennskir menn ekki fá séð að óvilja þeirra, nema skygnir séu, eða hafi þeir ryðið augnasmyrslum álfa á augu sér. Þeir eru, eptir því sem sögur fara af, gæddir margfalt meiri hæfilegleikum til sálar og líkama, en menn, og því mega þeir vinna mönnum bæði gagn og tjón, eptir því sem þeir eru skapi farnir og kemur þeim þá vel að haldi, að þeir mega taka á sig hverja mynd, er þeim líkar. Sumir álfar áttu að vera ókristnir og harðgeðja, og vinna af því mörgum manni tjón og gjöra margt til meins.
En til allrar hamingju megna þeir ekki eins mikið og hinir góðu, og því er það heill mikil, að koma sér vel við hina síðarnefndu og hjálpa alfur-26þeim, ef þess er auðið, þvi þeir eru guðhræddir og góðhjartaðir, og gjöra eingum ilt að fyrra bragði óáreyttir. En ef álfar reiðast þó góðir séu legst hefnd þeirra svo þúngt á þann, er fyrir henni verður, að honum er lítillar líknar von þaðan af. Að skaplyndi til eru álfar mjög alvarlegir og virðast hafa óbeit á öllum gáska og glettingum, og því hafa þeir opt reiðst illa, ef börn eða fullorðnir hafa orðið of nærgaungulir bústöðum þeirra og haft þar galsa í frammi, en þó sakar eingan, er það gjörir, ef hann veit ekki, að þar eru álfabýli, er hann aðhefst slíkt, eða þó geingið sé hjá slíkum stöðum með kurteisi og siðsemi. Eins þykkjast álfar, ef þeim virðist menn ásælast það, er þeir þykjast sjálfir eiga; vara þeir menn stundum við slíku, en hefna sín þá, ef eigi er aðgjört, eða og þeir láta hefndina þegar dynja yfir.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason 1862, 1. bindi, bls. 1-3.

Lýðveldishellir

Lagt af stað kl. 8.00 að morgni í göngu á Brennisteinsfjöll í blíðskapar veðri með tjöld, svefnpoka og vistir til tveggja daga.

Brennisteinsfjöll

Í námum Brennisteinsfjalla.

Bílnum lagt við Bláfjallaveg og haldið upp Grindaskörð, Draugahlíðum fylgt austan megin og stefnan tekin á Gráfeld. Gráfeldur er fallegur rauðleitur gígur við vesturenda Draugahlíða, úr honum er Selvogshraun runnið, yngsta hraunið á þessu svæði, runnið eftir landnám en fyrir 1226. Gráfeldur er 543m h.y.s. og þaðan er gott útsýni. Af Gráfeld var haldið niður í búðir við Brennisteinsnámur, þar var slegið upp tjöldum, námurnar skoðaðar og göngunni haldið áfram. Brennisteinsvinnsla var þarna síðast á síðari hluta 19. aldar. Þá var haldið á Kistufell 602m stór og tilkomu mikil gígur. Þar var mikið dáðst að útsýni enda himin nánast alveg heiður, sást alveg austur til Heklu, á Jarlhettur, Skjaldbreið, Esju o.fl. ofl. Snæfellsjökul og Reykjanesskaginn allur lá eins og útbreidd landakort. Vel mátti m.a. sjá Eldey.

Kistufell

Brak í Kistufelli.

Eftir gott stop og nesti var haldið niður að flugvélaflaki í suðurhlíðum Kistufells. Þar fórst Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Brak var þar á víð og dreif fyrir neðan.
Enn var nóg eftir af deginum og því haldið áfram í vesturátt. Gengið um Kistu, fallega en margslungna eldstöð, milli Kistufells og Eldborgar. Kíkt í op Lýðveldishellis en ekki farið inn að þessu sinni enda átti það ekki við í svo mikilli sól og blíðu og stuttbuxum.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Gengið á Eldborg og um sléttar og fallegar hrauntjarnir þar í kring en svo snúið við. Haldið var inn í Kistufellsgíginn á bakaleið, nú skein síðdeginssólin inn í gíginn og naut hann sín til fullnustu. Haldið til baka í tjaldbúðir og súpan hituð í einum af hverunum ofan við brennisteinsnámurnar. Þá mátti sjá einn lítil mórauðan tófuyrðling skjótast þar milli steina.

Brennisteinsfjöll

Gengið um Brennisteinsfjöll.

Vaknað árla morguns næsta dag eftir góðan nætursvefn og enn skein sólin en þoka lagðist þó brátt að. Tjöld tekin saman og byrðirnar axlaðar og stefnan tekin á Hvirfil 621m. Þaðan er mjög gott útsýni þó það nyti sýn ekki að þessu sinni. Þess í stað mátti njóta dulúðugst ævintýrablæs þessarar fornu eldstöðvar í þokunni. Þá var haldið áleiðis niður í Grindaskörð aftur og létti þokunni þá mikið. Gengið upp á Tvíbolla áður en haldið var niður. Til byggða komu þrír þreyttir og sólbrunnir göngugarpar en sælir og ánægðir eftir um það bil 30 km göngu á tveim dögum.

Sjá MYNDIR.

-JG – VG.

Í Brennisteinsfjöllum

Í Brennisteinsfjöllum.

Sólar

„Orðatiltækin tröll ög tröllkona eru næsta yfirgripsmikil; því þau tákna allar þær verur, sem meiri eru en menn að einhverju, og sem eru meir eða minna illviljaðir, t. d. drauga og jafnvel galdramenn. Samt sem áður eru þessi orðatiltæki 

troll-21

eiginlega höfð um þá tegund, sem hið risalega er einkennilegast við. Þó eru til fleri nöfn fyrir þá tegund, t. d. bergbúar, jötnar, þussar, risar, skessur, flögð, gýgjur o. s. frv. þessi tegundarnöfn hafa rutt sér svo til rúms, að sjaldan koma fyrir eiginnöfn trölla. — Mörg nöfn eru það, sem benda til trúarinnar á tröll, bæði hlutaheiti (t. d. jötunuxi, þussaberg, þussaskegg, gýgjarpúss, tröllagrös, tröllaurt, surtarbrandur, surtarepli) og örnefni, (t. d. Surtshellir, Trölladýngja, Tröllagata, Tröllaháls, Tröllakirkja, Tröllaskeið, Tröllaskógur, Tröllatúnga.)
Í sögum þeim, sem enn eru til á Íslandi um tröll, er þeim aö öllu eins lýst, og í hinum norrænu goðasögum. Bæði eru þau talin meiri og sterkari en menn optast, heimsk og hamslaus, gráðug og grimm; en þó er annað veifið sagt, að þau viti marga þá hluti, er menn vita ekki, séu góðviljuð, dreinglynd, og trú sem gull. „Við mótgjörðir reiðast tau illa, og leita að hefna sín grimmilega; á hinn bóginn þakka þau bæði og launa þegnar velgjörðir, og liðsinna opt mönnum að fyrra bragði. Mannætur er sagt þau séu; en þó eru ekki fá dæmi þess, að tröll hafi leitað samfara við mennska menn og í því skyni numið til sín bæði menn og konur.
Þó tröll séu í ýmsum greinum háskalega vansköpuð, eiga þau ávalt að vera í mannsmynd alt um það, enda virðist svo, sem þau eigi að vera einhvers konar eldri kynslóð, en mennirnir. þeim átti að vera það undur leitt, að kristni var tekin hér á landi, og hafa leitazt við með mörgu móti að tálma framförum hennar, og lögðust þar frá, sem kristni viðgekkst og kirkjar voru reistar, ef þau feingu eigi aðgjört eins og þau hafa síðan trylt menn og tælt frá kristni á sína trú.

troll-22

Tröll búa í hömrum og fjallaklettum og hellum og lifa bæði á dýraveiðum, fiskifángi, og ef til vill af kvikfé. Sum þeirra mega ekki sjá dagsljós, og verða að steini, ef sól nær að skína á þau, og eru því ávalt á ferð á næturnar. Lítur það fremur svo út, sem það sé eins konar tröllategund og er þeim því gefið sérstakt nafn og kölluð nátttröll. Mörg orðatiltæki eru það, sem benda á þá ýmsa háttsemi trölla og eru sum til lasts, en sum til lofs, sem Snorraedda (31. kap.) segir: „mann er ok rétt at kenna til allra Ása heita; kent er og við jötna heiti, ok er það flest háð eða lastmæli.“ Eins þykir skass, skessa eða flagð og önnur slík orð lastmæli um konur, og eru ekki höfð um aðrar en þær, sem óhemjuskepnur eru að einhverju leyti eða bryðjulegar. þegar menn vilja tákna það, að einhver blíni á eitthvað höggdofa eða hjárænulega, er sagt „hann glápi á það, eins og tröll á himnaríki eða heiðríkju,“ og er það líklega dregið af því, að tröllin, sem voru svo óvinveitt kristninni, muni aldrei eiga þángað kvæmt. Aptur eru önnur orðtök, sem til lofs liggja; tröllatrygð er viðbrugðið, og sagt, að maður sé „mesta trygðatröll,“ sem trúr er eða tryggur „eins og tröll,“ „tröll eru í trygðum bezt,“ og „tröll gánga trautt á grið sín,“ og fleiri eru slík orðatiltæki.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón árnason, 1862, 1. bindi, bls. 181-182.