Straumsselsstígur

Á vefsíðu Fjarðarfétta um Ratleik Hafnarfjarðar má lesa eftirfarandi um „þjóðleiðir„:

„Þjóðleiðir eru leiðir markaðar með fótsporum manna og dýra í gegnum aldrinar og víða má enn sjá greinileg ummerki þeirra.

Selvogsgata

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Lækjarbotna.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga.
Frá Setbergshverfi er Botnalæk fylgt framhjá Hlébergsstíflu að uppsprettunni í Lækjarbotnum. Sunnan Lækjarbotna liggur Selvogsgatan í slakkanum milli Setbergshlíðar og Gráhelluhrauns að Kethelli. Gatan er aðeins á fótinn þar til komið er að brún Smyrlabúðahrauns. Ferðalangar fyrri alda hafa mótað götuna sem liðast eins og farvegur á milli hrauns og Klifsholta. Við Smyrlabúð gengur nýleg reiðgata þvert á Selvogsgötu, sem liggur áfram yfir Folaldagjá og fylgir varðaðri slóð um Mosa að vatnsveitugirðingu og misgengi Helgadals. Girðingunni er fylgt um stund og farið yfir hana á blásinni sandöldu. Gengið er með Valahnúkum, um Mygludal, yfir Húsfellsgjá og línuveg að höfuðborgargirðingunni. Þar er hlið á girðingunni við austurenda Kaplatór. Slóðin liggur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandatorfum, eftir varðaðri leið um Hellur og yfir Bláfjallaveg upp í Grindaskörð. Þegar komið er upp á fjallsbrún er hægt að þræða leiðina og fylgja vörðum alla leið austur í Selvog.

Undirhlíðaleið

Undirhliðarvegur

Undirhlíðarvegur.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að Vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Þar tekur Ketilstígur við og liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni, að Seltúni þar sem heimalönd Krýsuvíkur taka við.

Rauðamelsstígur

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelstjörn er í djúpri námu þar sem Rauðamelur var áður, við gamla Keflavíkurveginn sunnan við Straum. Frá námunni liggur leiðin vestan við Gvendarbrunn, suður um Mjósund að Óttarsstaðaseli. Þar er stefnan tekin á Trölladyngju og farið vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða og norðan Lambafells að Bögguklettum. Þá er haldið áleiðis að Dyngjuhálsi austan Trölladyngju. Þegar komið er yfir hálsinn er farið um Hörðuvelli og suðurenda Fíflavallafjalls og yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells í áttina að Hrúthólma. Þar liggur Rauðamelsstígur inn á Hrauntungustíg og fylgir honum í áttina að Ketilstíg.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleikisteinsháls að Hamranessflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með Stórhöfða þar til Kaldársel blasir við, en þá hlykkjast leiðin á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brundtorfum og þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum fjallsrótum fylgt að Hrútagjárdyngju. Þar mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilstíg.

Alfaraleið

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Það er víða auðvelt að fylgja Alfaraleiðinni, en svo nefnist elsta leiðin á milli Innnesja og Suðurnesja. Gatan er víða vel mörkuð í hraunhelluna eftir aldalanga notkun, en hún lagðist af þegar vélknúin farartæki tóku við hlutverki hestanna.
Þegar komið er vestur fyrir tóftina í Kapelluhrauni liggur leiðin spölkorn suðaustan Þorbjarnastaðatúngarðs nærri Tókletti. Hún hlykkjast í áttina að Suðurnesjum um hraunlægðir sem nefnast Draugadalir. Á þessum slóðum er gatan vel vörðuð og auðvelt að fylgja henni að Gvendarbrunni og meðfram Löngubrekkum. Þegar komið er framhjá þeim fækkar vörðunum en slóðin sést ágætlega þar sem hún liggur hjá Taglhæð um Sprengilendi í áttina að Hvassahrauni. Þar skiptir leiðin um nafn og nefnist eftir það Almenningsvegur þar sem hann liggur um Kúagerði og Vatnsleysuströnd að Vogum. Við Vogastapa tekur Stapagatan við, en svo nefnist gamla leiðin sem liggur frá Vogum til Njarðvíkur.

Gerðisstígur

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Stígurinn liggur frá Gerði í Hraunum, með vesturbrún Brunans eða Kapelluhrauns í áttina að Gjáseli. Slóðin er vörðuð að litlum hluta og fyrir nokkrum árum var hún stikuð, af starfsmönnum Byggðasafns Hafnarfjarðar. Leiðin liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðimelur í áttina að Efri-Hellum sem þekkjast á áberandi hraunkletti. Þar verður slóðin óljós þar sem hún liggur um Kolbeinshæð og Laufhöfðahraun að Gjáseli. Þegar þangað er komið er hægt að halda áfram yfir skógræktargirðingu að Fornaseli og þaðan liggur Hrauntungustígur í áttina að Krýsuvík.

Dalaleið

Vatns- og Dalaleið

Vatns- og Dalaleið.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um Bakhlíðar að Leirdalshöfða. Þar eru Slysadalir og farið er yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, norður með Breiðdalshnúk að Vatnshlíðarhorni yfir Blesaflatir að Kleifarvatni. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Innri- og Ytri Stapa í áttina að Vesturengjum í Krýsuvíkurlandi.

Straumsselsstígur

Straumsselstígur

Straumsselsstígur.

Straumsselsstígur liggur frá Straumi um hlað Þorbjarnarstaða, norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla í áttina að Straumsseli. Þaðan liggur leiðin um Straumsselshellnastíg framhjá Gömluþúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg. Leiðin liggur um Mosa, síðan norður með Hrútagjá og sunnan Mávahlíðar, framhjá Hrúthólma og Hrútafelli yfir hraunhellurnar að Ketilstíg.“

Texti: Jónatan Garðarsson – https://ratleikur.fjarðarfréttir.is/ratleikur

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Gullkollur
Gróður á Reykjanesskaganum er að mörgu leyti líkur gróðri annars staðar á landinu. Af öllum plöntum á landinu má finna á honum rúmlega 60% af þeim. Gamburmosinn er einkennisplantan, enda víða nýlega hraun. Ferskvatnstjarnir í bland við saltan sjóinn er og meðal einkenna svæðisins.
Valllendi er víða. Allir þekkja grundir, þurra bala, brekkur og ræktuð tún, sem er að finna hvarvetna á skaganum. Á þessum stöðum eru grastegundir mest áberandi og setja sterkan svip á landið.
Fjara nefnist svæðið þar sem láð og lögur mætast. Breidd fjörunnar er mjög mismunandi og fer eftir staðháttum, aðallega þó halla lands. Við klettótta strönd er breiddin nær engin en við árósa og í grunnum víkum getur hún orðið nokkuð löng. Neðri mörk fjörunnar eru oft miðuð við mestu stórstraumsfjöru og efri mörkin við hæsta stórstraumsflóð, en einnig er hægt að fara eftir útbreiðslu ákveðinna lífvera. Fjara er mjög sérstætt búsvæði. Það stafar einkum af því að flestar lífverur eru ýmist á kafi í sjó eða á þurru eftir því hvernig sjávarföllum er háttað. Í annan stað hefur öldurót mikil áhrif á lífverurnar. Þar sem er mjög brimasamt og undirlagið óstöðugt ná engar lífverur fótfestu, eins og víða við suðurströnd landsins.
Þær plöntur sem eru einskorðaðar við fjöru eru aðallega þörungar en efst í henni eru líka nokkrar eiginlegar fjörutegundir eins og hin svarta fjöruskóf, sem er fléttutegund, og grastegundin sjávarfitjungur. Þá er að geta þess að allmargar landplöntur vaxa eingöngu við efstu fjörumörk og ná oft talsvert niður í fjöru. Af þeim má nefna blálilju, hrímblöðku, skarfakál, fjöruarfa og fjörukál, sem allar hafa tiltölulega þykk og safamikil, blágræn blöð. Þessar tegundir þola háan saltstyrk og á stundum stirnir á saltkrystalla í blöðum þeirra.
Því ofar sem dregur við strönd bætast sífellt fleiri tegundir í hóp strandplantna. Oft ber þar mikið á baldursbrá, tágamuru, kattartungu, holurt og geldingahnappi auk ýmissa grastegunda, einkum melgresi, ef sandur er laus í sér.
Víða flæðir sjór yfir annað votlendi og þá myndast mjög sérstakt gróðurlendi, svo kallaðar sjávarfitjar. Langmest ber á grasleitum tegundum á þessum svæðum, grösum og hálfgrösum (einkum störum), en þó leynast smáar og fagrar jurtir inni á milli, eins og stjörnuarfi, strandsauðlaukur, kattartunga og sandlæðingur.
Til eru ýmsar gerðir af valllendi. Séu grastegundir nær einvörðungu drottnandi í svip landsins kallast það graslendi. Aðrar blómplöntur, eins og fíflar, brennisóley, hvítsmári og gulmaðra, vaxa jafnan inni á milli grasanna, ef vel er að gáð, einkum ef örlítil rekja er í rót eða landið smáþýft.
Stundum eru aðrar blómplöntur miklu meira áberandi í valllendinu til að sjá en grösin og þá kallast það blómlendi eða jurtastóð. Blómlendið er sjaldnast mjög víðáttumikið en er einkum neðst í brekkum, meðfram ám og lækjum eða í lautadrögum. Víða þar sem valllendi er hefur það orðið til úr mólendi við það að vera beitt. Hinar ýmsu gerðir af valllendi voru oft nýttar til slægna fyrr á öldum og síðar var farið að rækta þar tún.
Ekki er til neinn algildur mælikvarði á hvað kalla skal votlendi. Flestum er þó tamt að nota það orð um gróður, þar sem jarðvegur er blautur nær árið um kring, en sumir nota það einnig um tjarnir, læki og vötn. Oft er erfitt að draga þarna skýr mörk á milli.
Algengustu gerðir votlendis eru flói og mýri. Vatnsstaða í votlendi er ærið breytileg en í megindráttum eru skilin á milli flóa og mýrar þessi: Í flóanum flýtur vatn oftast yfir grassverðinum, hann er nær hallalaus og rennsli á vatni er lítið sem ekkert. Í mýrinni stendur vatn sjaldnast yfir grassverðinum, henni hallar oftast nær og vatnið er jafnan á hægri hreyfingu; að jafnaði ber talsvert á þéttum mosa í rót. Af þessu sést að oft getur verið skammt á milli tjarnar og flóa annars vegar og mýrar og þurrlendis hins vegar.
Flóar eru víðáttumiklir, bæði á láglendi og í hálendinu. Brokflói er afar útbreiddur og einkennistegund hans er klófífa en blöð hennar nefnast brok. Síðla sumars er brokflói hvítur yfir að líta, þegar fífan er í algleymingi, en á haustin setur rauðbrúnt brokið sterkan svip á hann. Ýmsar starir eru einnig mjög algengar í flóum. Ljósustararflói kemur næst brokflóa að víðáttu og er allalgengur víða um land og er hann blágrænn til að sjá. Einnig má nefna gulstararflóa, er sker sig úr sem gulgrænar rákir, sem er víða algengur á láglendi. Þessar þrjár af gerðir flóum er mjög auðvelt að greina úr fjarlægð á litnum einum saman.
Mýrar er hvarvetna að finna, frá ystu annesjum til hæstu hæða, þar sem samfelldur gróður nær. Einkennistegundir mýrarinnar eru ýmsar starir, eins og mýrarstör, stinnastör og hengistör. Mýrar eru oft þýfðar og vaxa ýmsar lyngtegundir á þúfnakollum.
Fyrr á árum var víða heyjað í votlendi.
Á eftirstríðsárum heimsstyrjaldarinnar síðari hófst verulegt átak í því að ræsa fram votlendi til að auðvelda ræktun túna. Það leiddi til þess að víðlend votlendi voru eyðilögð. Því hefur nú verið hætt og jafnvel hefur verið reynt að endurheimta það votlendi sem tapaðist með því að fylla upp í skurði.
Venja er að fjalla um kjarr- og skóglendi sem eina heild, þó að á þessu tvennu sé þó nokkur munur.
Birki er eina íslenska trjátegundin sem myndar skóga. Hæstu birkitré verða rúmir 10 metrar á hæð, s.s. við Kerið í Undirhlíðum, og á ýmsum stöðum eru 5 -10 metra háir skógar. Mörg tré í skógum eru einkar fögur, beinvaxin með ljósan börk. Í gömlum bókum, eins og fornsögum, annálum og ferðabókum, eru víða til frásagnir um mjög vöxtulega skóga fyrr á öldum. Eyðing skóga á að verulegu leyti rót sína að rekja til ágengni manna og búsmala hans.
Birki myndar einnig víðáttumikið kjarr, sem er að stærstum hluta innan við tveir metrar á hæð og oft mjög kræklótt og margstofna. Margir álíta að kjarrlendið sé leifar af fornum birkiskógum og er það án efa rétt. Á hinn bóginn verður birki sem vex á útkjálkum vart miklu hærra. Meginhluti alls kjarr- og skóglendis er fyrir neðan 250 metra hæð yfir sjó en þó hefur birki fundist í um 600 metrum ofan sjávarmáls.
Aðrar trékenndar tegundir, eins og gulvíðir og loðvíðir, mynda sums staðar kjarr einnig. Botngróðri í kjarr- og skóglendi svipar oft til gróskumikils valllendis eða mólendis.
Mólendi er yfirleitt þýft þurrlendi, vaxið grasleitum plöntum eða lágvöxnum runnagróðri.
Ein algengasta planta landsins er af hálfgrasaætt og nefnist þursaskegg. Hver planta lætur mjög lítið yfir sér og fáir þekkja hana en samfelldar breiður þursaskeggs varpa sérstökum móleitum blæ á óræktarmóa vítt um land.
Auk þursaskeggsmós eru lyngmóar allalgengir. Flestar einkennistegundir mólendisins eru mjög auðþekktar og dregur mólendið oftast nafn sitt af þeim. Algengustu lyngmóarnir eru krækilyngs-, bláberjalyngs-, sortulyngs- og beitilyngsmór. Oft vaxa þessar tegundir saman að meira eða minna leyti.
Af öðrum gerðum mólendis má nefna fjalldrapamó, hrísmó öðru nafni, og sauðamergsmó.
Vel gróið mólendi þykir með fegurstu gróðurlendum landins og sérstaklega síðla sumars og fram eftir hausti skartar mórinn sínum fallegustu litum.
Mólendi er jafnan mjög ríkt af tegundum en á stundum hleypur svo mikill mosi í svörðinn að blómplöntur láta undan síga. Þá nefnist gróðurlendið mosamór og líkist hann þá mosaþembu sem algeng er í hraunum. Mosaþemba er þó sjaldnast talin til mólendis heldur litið á hana sem sérstakt gróðurlendi.
Berangur setur sterkan svip á landið. Í kjölfar búsetunnar átti sér stað mikil eyðing jarðvegs og gróðurs sem erfitt hefur verið að hemja allt til þessa dags. Auðnir landsins eru samt ekki með öllu gróðurlausar þó að jarðveg skorti. Plönturnar búa yfir sérstökum hæfileikum til þess að ræta sig og kljást við óblíð skilyrði.
Á bersvæði mynda plöntur sjaldnast samfellda gróðurþekju heldur vaxa þær jafnan strjált. Á melum ræðst þéttleiki plantna einkum af hversu rakaheldnir melarnir eru og hvernig yfirborðsgerð þeirra er háttað. Á vorin eru miklar hreyfingar í yfirborði melanna, þegar klaki fer úr jörð, og þá er hætta á að plöntur missi rótfestuna.
Af algengum melaplöntum má nefna geldingahnapp, lambagras og holurt eða fálkapung öðru nafni. Á síðari árum hefur innflutt plöntutegund, alaskalúpína, náð að breiðast verulega út á melum, einkum á Reykjanesskaganum.
Lítinn vind þarf til þess að hreyfa við yfirborði sanda. Plöntum reynist því talsvert erfitt að festa þar rætur. Sumar tegundir eiga þó auðveldara en aðrar með að vaxa þar. Dæmi um slíka tegund er melgresi eða melur. Nokkurt skjól myndast í vari af stórvöxnum blöðum melgresis og því safnast sandur þar fyrir og háir hólar myndast. Ávallt er þó nokkur hreyfing á sandinum svo að melgresishólarnir flytjast úr stað með tímanum.
Nokkuð hefur verið gert af því að rækta upp mela og sanda á undanförnum áratugum. Sums staðar hefur sú uppgræðsla lánast allvel en ekki gengið sem skyldi annars staðar.
Ekki eru skörp mörk á milli gróðurs á láglendi og í hálendi landsins. Samfelldur gróður nær vart hærra en í tæpa 500 metra.
Þar sem snjór liggur lengi fram eftir vori þekur snjómosi svörð og myndar harða skorpu.
Fjallað er um gróðureyðingu á öðrum stað á vefsíðunni.

Heimildir m.a.:
-http://www1.nams.is/

Sóley

Sóley við Miðsel.

Dyravegur

Dyravegur var genginn frá Lyklafelli um Brekkuna, Dyradal og Sporhellu að Nesjavöllum, 18.6 km. Alls er vegurinn frá Elliðakoti að Nesjavöllum um 26 km ef farið er norður fyrir Lyklafell, en um 27 km ef farið er sunnan við Lyklafell. 

Dyravegur

Dyravegur lá að sjálfsögðu áfram til austurs. Að öllum um líkindum var hér um að ræða fyrstu ferð núlifandi Íslendinga um þessa fornu þjóðleið á þessum langa kafla. Hafa ber í huga að vegurinn er alls ekki auðrakinn þrátt fyrir mikla umferð fyrrum. Líklegt má telja að leiðin hafi nánast einungis verið farin að sumarlagi því rekja hefur þurft hana frá upphafi til enda eftir legu hennar. Einungis nokkrar vörður og vörðubrot eru á leiðinni, auk þess sem nokkur gatnamót, ef grannt er skoðað. Eitt vörðubrotið er t.d. við lækjarfarveg austan Lyklafells. Vörður eru á aflöngu holti miðja vegu og síðan er varða á öxl er nálgast tekur Hengilinn vestan við Dyradal. Vatnsstæði er nánast á miðri leið og má sjá hleðslur í því. Leifar af tóft eru þar hjá. Alls staðar er gatan þó vel greinileg, en mikilvægt er að hafa augun opin fyrir óvæntum stefnubreytingum. Ferðin var notuð til að hnitsetja götuna.
Austan Lyklafells greinast Dyravegur og Hellisheiðarvegur með glöggum skilum. Sá síðanefndi liggur síðan áfram til austurs upp með Múla, Kolviðarhóli og um Hellisskarð.
DyravegurDyravegur liggur frá Elliðakoti norðan við Nátthagavatn, austur yfir Mosfellsheiði norðan Lyklafells, um Dyradal og Rauðuflög og komið niður hjá Nesjavöllum. Þetta var aðalvegur þeirra sem bjuggu í uppsveitum Árnessýslu.
Í MBL 1991 er fjallað um „Dyraveginn“ undir fyrirsögninni „Á leið um Dyraveg“.
„Allt til þessa dags hefur þeim leiðum, sem forfeður okkar, mann fram af manni, fetuðu eftir í aldaraðir, verið lítill sómi sýndur. Við leggjum mikla áherslu á söfnun gamalla muna og varðveislu fornra bygginga og er það vel, en er það nokkur fjarstæða að viðhalda á sama hátt þessum gömlu götum, sem nú víða eru horfnar með öllu, en bera á sinn hátt þögult vitni um þá hörðu baráttu, sem þjóðin háði fyrir tilveru sinni? Í þeim flokki er Dyravegur. Frá fornu fari lá leiðin frá Þingvöllum suður með vatninu að vestan til Nesjavalla. 

Dyravegur

Þeir sem bjuggu austan við Sogið komu einnig að Nesjavöllum, eftir að hafa sundlagt hestana og farið á ferju yfir fljótið fyrir neðan Dráttarhlíð, þar sem Steingrímsstöð er nú. Þessa leið fóru Skálholtsmenn fyrrum, þegar þeir fluttu vistir að og frá biskupsstólnum, en sá staður þurfti mikils við, þegar umsvifin þar voru sem mest. Enda hlaut þessi leið nafnið Skálholts-mannavegur. Þegar þessar tvær leiðir höfðu sameinast á Nesjavöllum, lá hún vestur yfir Dyrafjöllin, Varðaþvert yfir Sporhelludal og Dyradal. Við Húsmúla greindist leiðin aftur. Þeir sem ætluðu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar tóku stefnuna á Lyklafellið, en þeir sem ætluðu í Selvog eða á sunnanvert Reykjanes héldu suður með Húsmúlanum og stefndu á Lágaskarð austan við Stórameitil. Í þessari ferð skulum við kynnast Dyraveginum nokkru nánar.
Við yfirgefum bílinn sunnan undir Húsmúlanum og göngum eftir Bolavöllum, sem eru að vestan við hann. Þar komum við fljótlega á grasivaxna götutroðninga, sýnileg merki þeirrar umferðar sem hér var fyrr á tímum. Troðningarnir eru skýrir og auðvelt að fylgja þeim, sem við gerum að sjálfsögðu. Brátt komum við inn í Engidal. Eftir honum fellur Engidalsáin, sem myndast úr smá lænum og uppsprettum er koma úr vesturhlíðum Hengilsins. Lengsta kvísl hennar kemur frá Marardal. Þangað liggur götuslóði, en annars er gamla gatan vestan við Marardalinn, en við tökum á okkur krók og heimsækjum dalinn. Það er þess virði.
DyravegurMarardalur er sigdæld, neðanundir Skeggja, en svo nefnist hæsti tindur Hengilsins. Brattar hlíðar liggja að honum á alla vegu, botn hans er rennisléttur og um grundirnar liðast fagurtær lækur. Smá skarð í dalsbrúnina er í suðvesturhlið hans. Um það rennur lækurinn. Skarðið er svo mjótt, að menn verða að ganga þar inn í einfaldri röð. Merki um grjótgarðshleðslu er þar, því áður fyrr voru naut og önnur geldneyti höfð þar að sumarlagi og lokuð þar inni með þessum grjótgarði. Við höldum inn eftir dalnum og fikrum okkur svo upp bratta brekkuna og upp á norðurbrún hans. Þar blasir við allbreitt vik eða dalskvompa sem gengur inn í fjallið. Þar komum við aftur á gömlu götuna og henni fylgjum við eftir það.
DyravegurÚr þessu hækkar gatan og liggur upp brekkurnar til austurs og upp á vesturbrún Dyradalsins. Hann er ekki ósvipaður Marardal, hlíðabrattur og rennsléttur í botninn. Hér er gatan skýr og glögg, sem einkum skal þakka sauðkindinni, sem ræður hér ríkjum í sumarhögunum. Gatan liggur þvert yfir dalinn og stefnir í skarð, milli tveggja kletta, í austurhlið hans. Þar komum við að hinum nafnkenndu dyrum, sem þessi leið er kennd við. Smálækur fellur um um Dyrnar, sem eru ekki nema ca. 2 m á breidd. 

Líklega á hann einhvern þátt í myndun Dyranna, en annars eru öll fjöll hér um slóðir mynduð úr móbergi, sem vatn og vindar vinna á jafnt og þétt.

VörðuleifarTafsamt hefur verið að koma hestalestunum í gegn um dyrnar. Menn hafa orðið að taka klyfjarnar ofan, teyma hestana síðan í gegn um skarðið og láta svo aftur upp. En um það var ekki að fást, þetta var hluti af striti dagsins. Austan við Dyrnar eru einir þrír smádalir með bröttum hálsum á milli. Yfir þá liggur leiðin og hefur margur klyfjahesturinn trúlega svitnað ærlega á þeirri leið. En er þeir eru að baki opnast skyndilega nýtt útsýni. Þar blasa Nesjavellir við augum, Þingvallavatn og fjallahringurinn í norðri og austri. En sunnar bera hverareykir Hengilssvæðisins við loft.
Lesandi góður. Hér hefur verið reynt að lýsa undurfagurri og fjölbreyttri gönguleið, en sjón er sögu ríkari. Ef þú hefur í hyggju að ganga Dyraveginn á góðum degi, skalt þú ætla þér heilan dag til þess, svo marga skoðunarverða og fjölbreytta staði er um að velja. En með eðlilegum gönguhraða og skynsamlegum hvíldum má ganga götuna á 5-6 klst. hið minnsta.“

Dyravegur

Hér var leið lýst vestan Hengilsins inn á Dyraveginn um Dyrafjöllin. Vegurinn á að vera stikaður frá Dyradal um Sporhellu að Nesjavöllum, en hann víða á leiðinni er farið út af gömlu götunni. Má t.d. nefna er komið er upp úr Dyrunum er þar tilbúinn stígur. Ef grannt er skoðað liggur gamla gatan ofar og beygir síðan til vinstri áleiðis að Sporhellunni. Þar hefur skriða fallið yfir götuna, en auðveldlega hefði verið hægt að bæta um betur. Áður en komið er að Sporhellunni millum Sporhelludala hefur verið lagður nýr stígur þar upp í stað þess að fylgja gömlu götunni til hægri. Ofar greinist gatan og hefur styttri hlutinn verið stikaður. Sá lengri er hins vegar miklu mun fallegri. Þegar hallar niður að Nesjavöllum leiðbeina stikur vegfarendum svo til beint niður hlíðina, en að sjálfsögðu fór hún þar í sneiðinga fyrrum.
DyradalurVestar, áður en komið er niður í Dyradal, er gamla gatan einnig sniðgengin, því hún er þar greinileg suðvestast í dalnum, en Reykjavegurinn hefur hins vegar verið stikuð sunnan hennar – að óþörfu.
Í þessari ferð var Dyravegurinn genginn „nánast sanni“ frá Lyklafelli og ekki alltaf í förum stikaðrar leiðar um Dyrafjöllin.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Í tímaritinu Mána árið 1880 segir m.a. um austurvegina: „„Yfir Reykjanesfjallgarðinn liggja 7 alfaravegir, nyrðstur er Kaldadalsvegur milli fingvallasveitar og Kalmannstungu, þá Mosfellsheiði milli Kárastaða í Þingvallasveit og Mýdals [Miðdals] í Mosfellssveit; þá Dyravegur suður um Henglafjöll milli Grímsness og Mosfellssveitar, þá Hellisheiði frá Reykjum i Ölvesi að Lækjarbotni í Mosfellssveit, þá Lágaskarð frá Hrauni í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Ólafsskarð frá Breiðabólstað í Ölvesi að Lækjarbotni, þá Grindaskörð milli Ölvess og Selvogs að austan og Kaldársels að sunnan, þá Sandakravegur milli Krýsarvíkur og Kvíguvoga. Allir voru vegir þessir yfir Reykjanesfjallgarð mjög farnir á vetur.“
Til gamans má geta þess að FERLIR reyndi að vekja athygli OR á möguleika þess að merkja og stika þessa leið, annars vegar milli Nesjavalla að Lyklafelli og hins vegar milli Kolviðarhóls að Elliðakoti, en áhuginn var enginn.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Heimild:
-Mbl. 25. júlí 1981.
-Máni , 4.-5. tölublað – laugardagur, 31. janúar 1880 , bls. 33-34.

Dyravegur

Hvalvatn

Ætlunin var að ganga upp úr Botnsdal utan Glymsgljúfurs, ofan við hæsta foss landsins og að Hvalvatni ofan Hvalfells.
Foss efst í BotnsáTveir litlir hellar eru á þeirri leið. Annar, sá minni, er í Skinnhúfuhöfða við vatnið austanvert. Segir þjóðsagan að þar hafi tröllkonan Skinnhúfa búið, en um afreksverk hennar fara engar sögur. Hinn er norðaustan í fellinu; Arnersarhellir, gamalt útilegumannaskjól. Hann er í klettahöfða sem gengur fram í vatnið. Hellirinn er kenndur við Arnes nokkurn Pálsson sem átti heima í sveitunum við Hvalfjörð á árunum um og eftir 1750. Hann var bendlaður við þjófnað og hermdu sagnir að hann hefði lagst út og m.a. dvalið um stund í þessum helli. Hvað satt kann að vera í þessu efni skal ósagt látið, því Arnes mun hafa verið einn til frásagnar um búsetu sína þar. Sagt er að síðar hafi fundist í hellinum leifar gamalla beina, hlaðinn bálkur og hornkambur. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir segir höfundurinn Ólafur Briem svo: „Á Jónsmessudag 1951 fór ég ásamt nokkrum mönnum öðrum að skoða hellinn. Neðst í klettahöfða, alveg niðri við vatnið, er gjögur, og inn úr því í meira en mannshæð gengur hellirinn, og suður úr honum, hægra megin við hellisopið 
gengur afhellir. Aðalhellirinn er um 6×6 m að flatarmáli og 2 til 3 m á hæð. Afhellirinn er um 5 m á lengd og um 2 m á breidd og er manngengur inn til miðs, en lækkar inn við botninn. Í hellinum voru hér og þar smá beinabrot, bæði úrkindum og stórgripum, en engin heilleg bein.
Stíflan - flugan er aðgangshörðMeðal beinanna var eitt, sem greinilega var tálgað í odd. Mest var af beinaleifum við mynni afhellisins, rétt innan við hellisopið. Ekki gátum við séð leifar af bálki né öðrum mannvirkjum. Varla getur leikið vafi á því, að maður hafi einhvern tíma hafzt við í helli þessum.“
Til að auðvelda uppgönguna var slóði rakinn upp nyrðri hlíð Botnsdals, áleiðis upp að Viðhamrafjalli. Gengið var upp með Kálfadal og upp fyrir gilbrúnir. Efra eru ágætur grængróður. Botnsánni var síðan fylgt upp með norðanverðu Hvalvatni. Á leiðinni er fallegur flúðafoss í ánni, breiður og jafn. Ofar, við ós Hvalvatns, er steypt stífla. Hvalvatn er býsna stórt og er það annað dýpsta á Íslandi, dýpra en Þingvallavatn. Kalt er það og fjöllum girt (Botnsúlur til suðurs) og rennur af því Botnsáin fram Botnsdal og rennur út í sjó í Hvalfirði. Silungur ku vera í vatninu.
Hvalfell ofan ArnesarhellisHvalvatn er í um 300 metra hæð. Er haft fyrir satt að hvalbein hafi fundist á bökkum vatnsins. Líklega tengist það að einhverju leiti þjóðsögunni um Rauðhöfða:
„Í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar, og varð að sæta til þeirra góðu veðri, því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt, svo að þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið, allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu, því hann hafði farið Arnesarhellirlengst og hugsað, að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar, sem bjó að Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á besta aldri.
Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu, þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið, að honum varð ekki náð út í skipið, hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið, og töldu þeir manninn af með öllu, nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu, hvar komið var, og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins, hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komist út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug, að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker, eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið, urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi, þar sem þeir áttu sér hér engra manna von.
AfhellirinnMaðurinn gekk til þeirra, og þekktu þeir þar Melabergsmanninn, sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu. Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá, að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita, hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því, sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og ekki hefði væst um sig.
Samt bað hann þá að flytja sig á land, og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom, varð þar hinn mesti fagnaðarfundur, og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gera um veru sína í skerinu.
Nú leið enn og beið, og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag, þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður, sem alla kynjaði á.
Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út úr kirkjunni, stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar, og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á vöggunni lá dýrindis ábreiða, sem enginn þekkti, hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt mjög, og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu, og enginn lést þar vita nein deili á.
Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá, hvort nokkur viti deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji, að hann skíri barnið. En enginn lést vita neitt um þetta, og enginn þóttist hirða um, að hann skírði barnið.
Útsýni úr ArnesarhelliEn af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur, spurði hann hann ýtarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið, enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt. En í því bili, sem maðurinn sagði þetta, stóð þar kvenmaður hjá þeim, fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil.
Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir: „Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega: „En þú skalt verða að hinu versta illhveli í sjó.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótti hin mesta gersemi.
SkinnhúfuhöfðiNú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu, að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir, þangað til hann kom fram á Hólmsberg, sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt.
Þegar hann kom fram á bergsbrúnina, staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn, að bergið sprakk undir fótum honum, og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus, því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu, þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn, sem fram hljóp með hann í sjóinn, stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.
Hvalslíki við suðvestanvert HvalvatnÞað er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins, að hann hefði sagst hafa dvalið um veturinn í skerinu í álfabæ einum í góðu yfirlæti. (Sumir segja, að maðurinn hafi heitið Helgi, og því er skerið síðan nefnt Helgasker.) Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki getað fest þar yndi.
Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu, hefði hann gengið um skerið í eins konar örvílnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann, að til sín hefði komið stúlka, fríð og falleg, og boðið sér veturvist og sagt, að hún væri ein af álfafólki því, sem ætti heima í Geirfuglaskeri.
Þetta þá hann; en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann, að álfastúlkan hefði sagst ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það, ef hún kæmi því til kirkju, þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki, mundi hann gjalda þess grimmilega.
Bergmyndun við HvalsskarðSumir segja, að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja, að hann hafi gjört það, um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja, að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið, hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.
En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur á Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum, svo engum var óhætt á sjó milli Reykjaness og Akraness. Var það fjarskinn allur, sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum, þó ekki séu þeir nafngreindir neinir, sem hann drap, eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness, og er sá fjörður síðan kallaður Hvalfjörður.
Glæðulitbrigði í HvalsskarðiÞá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll upp komin, þegar hér var komið sögunni, og hin efnilegustu, og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða, og drekkti hann þeim báðum.
Presturinn faðir þeirra heyrði, að synir sínir væru drukknaðir, og svo, af hvers völdum. Féllst honum mikið til um sonamissinn. Litlu síðar, einn góðan veðurdag, biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum, sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með hjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína, hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan.
HvalfellAð lítilli stundu liðinni spyr karl aftur, hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir, að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák, líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau, biður prestur hana að leiða sig inn með fjörunni, og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau, og gekk það, uns komið var inn í fjarðarbotn, En þegar grynna fór, sá stúlkan, að röstin stóð af ákaflega stórum hval, sem synti beint inn eftir firðinum, eins og hann væri rekinn eða teymdur.
Þegar fjörðinn þraut og þar kom að, sem Botnsá kemur í hann, bað klerkurinn dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það, og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.
En þegar inn kom í gljúfrið, sem áin rennur um fram af Botnsheiði, þá urðu þrengslin svo mikil, að allt skalf við, þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn, Fossar í Hvalskarðsáhristist jörðin umhverfis eins og í mesta landskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur, og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir.
En ekki hætti prestur, fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það, sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn. Fell eitt er hjá vatninu, og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell.
Þegar Rauðhöfði kom í vatnið, sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað, og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stórkostleg við vatnið, og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu, staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni, og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“
Himbrimahjón á vatninu virtust fá að vera þar óreitt. Haldið var yfir ána á stíflunni. Stefnan var tekin á Arnesarhelli. Strönd vatnsins að vestanverðu er sendin til að byrja með, en síðan tekur grýti við. Þegar komið var að Glymurmóbergsdranganum þurfti að fara ofar í hlíðina, upp fyrir hann og niður hinum megin. Ekki var hægt að nálgast hellinn nema láta sig hafa það að hlaupa nokkra metra á vatninu. Þá var komið í litla sendna vík – og opið á Arnesarhelli blasti við.
Þegar umhverfi strandarinnar hafði verið skoðað á leiðinni var ljóst að vatnið hafði verið allmiklu hærra fyrir stuttu síðan. Auk þess virtist öldugangur hafa skolað hluta af bakkanum niður. Hellirinn bar þess einnig merki. Uppi, í yfir mannhæð, var að vísu tófugras fremst, en í afhellinn virtist hafa farið talsvert vatn. Innst í hellinum mátti sjá votta fyrir hleðslu. Þarna er mikið myrkur og ætti maður auðvelt að leynast þar fyrir öðrum ljóslausum. Útsýni úr hellinum er út yfir vatnið. Ljóst er að hann er langt í frá að vera í alfaraleið því fáir gætu látið sér detta í hug að þarna gæti verið athvarf.
Haldið var áfram suður með vesturströnd Hvalvatns. Aðstæður eru þar svpaðar. Hægt er að ganga í vatnsborðinu að móbergsstapa. Fara þarf upp fyrir hann allnokkuð upp í hlíðina og síðan niður handan hans. Það sem eftir er leiðarinnar er auðvelt um vik.
Í Skinnhúfuhöfða er skúti, myndaður af vatninu líkt og Arnesarhellir.
Gengið var niður Hvalsskarð með hið ágætasta útsýni; Hvalfell á hægri hönd og Botnssúlur á þá vinstri. Hvalskarðsáin er lítil í fyrst, en er fljót að vaxa með tilkomu fjölmargra þverlækja. Gráhvítur refur reyndi að fela sig í grasinu, en var fljótlega þefaður uppi af meðfylgjandi tík. Refurinn, mun minni, spratt þá upp og tók þá á rás niður með árgilinu, en tíkin fylgdi á eftir, tilbúinn í leikinn. Bæði staðnumdust um stund, horfðust í augu og svo virtist sem samkomulag hafi náðst um að refurinn fengi að fara sína leið, óáreittur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.

 

Almenningur

Þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraun(a)jarðir, vestan Straumsvíkur, nú helsta kennileitis svæðisins. Minna fer nú fyrir minjum og rústum gömlu bæjanna. Þetta voru jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraun(a)-jörðunum, en hún var í Vatnsleysustrandarhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs um tíma og urðu því kóngsjarðir með siðaskiptunum 1550. Ofan við jarðirnar (sunnan) er stór almenningur þar sem þessar jarðir áttu ítök, sem gert er grein fyrir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Straumssel

Straumssel.

“Eftir að kóngsjarðirnar í Hraununum höfðu verið seldar á árunum 1837-39 – Lambhagi var þó seldur 1827- reis fljótt upp ágreiningur um eignarheimildir á hinum svonefnda Almenningi. Eftir að þeir Magnús Árnason, Guðmundur Eyjólfsson, líklega í Stóra Lambhaga og Guðmundur Guðmundsson, þá á Þorbjarnarstöðum, höfðu skrifað stiftamtmanni 29. 10. 1847, fyrirskipaði hann sýslumanni að rannsaka málið. Stiftamtmaður taldi, að hugsanlegt væri, að Almenningurinn væri eftir sem áður kóngsland, þar sem jarðirnar í Álftaneshreppi ættu ítök þar til viðarhöggs og kolagjörðar, sbr. Kópíubók í Þjskjs. Samkvæmt þessu boðaði sýslumaður bréflega og með auglýsingu 18.5. 1848 til áreiðar, er fram átti að fara 2.6. þ.á., sbr. Kópíubók nr. 767-69. Áreiðin fór fram á tilsettum tíma og var gerðin bókuð í aukadómsmálabók, nú á Þjskjs. Gögnin voru send amtinu 10.6. (nr. 784). Amtið svaraði 15.6. og leyfði þá Hraunbæjarmönnum einum afnot óskert, sbr. Kópíubækur.

Í Straumsseli

Gerði í Straumsseli.

Í samræmi við þetta tilkynnti sýslumaður friðlýsingu skógarins innan tiltekinna marka 19.6. (nr. 789). Friðlýsingin var svo birt á manntalsþingi í Görðum næsta dag, 20.6. 1848, samkvæmt þingbók. En 24.1. 1849 tilkynnti sýslumaður stiftamtmanni, að það myndi ekki vera nauðsynlegt að láta Hraunabændur fá ný bréf fyrir jörðum sínum (nr. 930). Á manntalsþingi í Görðum 22.6.1849 birti sýslumaður auglýsingu Guðmundar Guðmundssonar “sem umsjónarmanns Almenningsskógarins viðvíkjandi takmörkun þessa skógarlands, reglulegri yrkingu sama og fleiru,” samkvæmt þingbók, en sjálf auglýsingin er færð í afsalsbréfabók Ltr. C no. 81.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Sama dag voru samþykktar lögfestur Guðmundar fyrir jörðunum Óttarsstöðum og Straumi, Ltr. C no. 81 og 82.” Í skoðunar- og áreiðargerðinni er mörkum lýst með þessum hætti: “Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel, hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfaraveginum. Hennar botn eða breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot. Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kaphelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum. Allt þetta land sem álíst að vera ein fermíla að stærð viðurkenna allir þeir sem mætt hafa að kallað sé með aðalnafni (gamalt) Almenningur.” Ein dönsk fermíla er nú ca. 7,5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Sá hluti sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðar er 29,71 ferkílómetri.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Töluverður hluti almenningsins er einnig innan staðarmarka Vatnsleysustrandarhrepps, aðallega upp af Hvassahrauni. Haft er í huga að almenningurinn verði skilgreindur með þeim hætti að hann fari með engu móti inn á eignarlönd Hraunjarðanna, sem eru eins og fram hefur komið Lónakot, Óttarsstaðir, Straumur, Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir og Svínakot, heldur væri hann allur sunnan jarðanna. Í því sambandi má nefna aðalmenningur er í skoðunar- og álitsgjörðinni frá 2. júní 1848 sagður ná að Brunnhólavörðu sem er skammt fyrir ofan Lónakot. Í staðinn er almenningurinn skilgreindur varlega á þessu svæði og látið nægja að fara með norð-vesturmörk almenningsins að alfaraveginum sem er töluvert sunnan Brunnhólavörðu. Getið er um Markhóla í skoðunar- og áreiðargjörðinni. Þrír Markhólar eru í almenningnum, einn neðan Lónakotssels, annar nálægt Óttarsstöðum og sá þriðji við Straum. Þess ber að geta að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því um 1700 staðfestir að um gamlan almenning er að ræða. Verður nánar gerð grein fyrir því ígreinargerðinni sem síðar verður lögð fram. Merkjalýsing frá punkti í Markrakagil (Markagil), sem er í samræmi við varakröfu ríkisins, tekur mið af merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890 og þinglesið var á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890, sbr. 3. lið. Verður nánari grein gerð fyrir lýsingunni í greinargerð. Landamerkjalýsingar á Hraunjörðunum sem þinglýst var 9. júní 1890 eru sérstaklega milli jarðanna.

Skjól við Gömlu-þúfu

Skjól við Gömlu-Þúfu.

Í þessum lýsingum er farið langt út fyrir hin eiginlegu eignarréttindi jarðanna til suðurs. Þessar landamerkjalýsingar eru milli eigenda Hraunajarðanna, þær eru einhliða gerðar og ekki samþykktar af öðrum aðilum sem tengjast málinu og hagsmuna hafa að gæta svo sem ríkinu og sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær er þeirrar skoðunar að umræddur almenningur sé landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignar-réttindi. Þær landamerkjaskrár sem gerðar voru á milli Hraunajarðanna og þinglýst var 9. júní 1890 og miðuðu við að afmarka þær jarðir breyta því engu um ofangreind mörk milli Hraunjarðanna annars vegar og almenningsins hins vegar. Að því leyti sem þær ná yfir almenninginn voru þær einungis gerðar að nafninu til, þar sem þær eru án samþykktar allra hlutaðeigandi. Landamerkjabréfin frá 1890 breyta því ekki efni þeirrar skoðunar- og áreiðargerðar frá 1848 sem gerð var með samþykki allra hutaðeigandi og fela því enn síður í sér sönnun um beinan eignarrétt yfir því landi sem fyrr var afmarkað sem almenningur. Gildi þessara landamerkjabréfa nær því eingöngu til marka milli Hraunjarðanna. Ljóst er að menn máttu ekki einhliða auka við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði. Tilvist þessara landamerkjabréfa breyta því engu um mörk almenningsins sem ákveðin voru með skoðunar- og áreiðargerðinni 2. júní 1848.
Þó að stiftamtmaður hafi heimilað Hraunabæjarmönnum einum afnot af almenningnum árið 1848 veitti það þeim ekki rétt til þess að útvíkka mörk jarða sinna með þeim hætti sem þeir gera með þeim samningum sín í milli sem þinglýst var 9. júní 1890.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Þessir þinglýstu samningar breyta engu um eignarheimildir eigenda Hraunjarðanna. Hafnarfjarðarbæ finnst rétt að þegar komi fram að þetta land sen ríkið gerir kröfu um að verði úrskurðað sem þjóðlenda er framtíðarbyggingarland bæjarins og litið er svo á að bærinn muni fá þetta land sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðarbæjar frá ríkinu sem byggingarland. Rökin bæjarins fyrir því eru: 1) Með lögunum um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998 er ekki gert ráð fyrir því að skerða hagsmuni sveitarfélaga til lands, sem þýðir að land sem er á láglendi, nálægt þéttri byggð og er á skipulagi sem byggingarland sveitarfélags verður það áfram þrátt fyrir gildistöku nefndra laga um þjóðlendur. Þegar litið er til efnis laganna, greinargerðarinnar með frumvarpinu og umræðna á Alþingi er alveg ljóst að það samrýmist ekki nefndum lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 að meina Hafnarfjarðarbæ að skipuleggja þetta land sem byggingarland. 2) Með samningi 28. apríl 1964 höfðu Hafnarfjörður og Garðahreppur (nú Garðabær) makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða umræddan almenning. Á móti féll Hafnarfjörður frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi, dagsettum 14. nóv. 1940.

Straumsvík

Straumsvík.

Í framhaldi þessara makaskipta samþykkti Alþingi frumvarp til laga um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og breyttust lögsagnarumdæmi sveitarfélaganna tveggja í samræmi við þennan makaskiptasamning. Samþykkti ríkið því með þeim lögum þennan makaskiptasamning sveitarfélaganna. Fær Hafnarfjörður skv. því almenninginn sem framtíðarbyggingarland og Garðabær, Hraunsholtið og Arnarnesmýrina sem Garðabær hefur nú úthlutað að stærstum hluta undir byggingarlóðir. 3) Hafnarfjarðarbær hefur þegar skipulagt þetta umrædda landsvæði að hluta sem byggingarland og hafa atvinnuhús verið byggð nyrst á þessu landi, eða því landi sem næst er álverinu í Straumsvík. Þetta land hefur að öðru leyti verið skipulagt, sbr. meðfylgjandi skipulagsuppdrátt fyrir aðalskipulag Hafnarfjarðar 1995 til 2015.
Þetta landsvæði ofan (sunnan) við Straumsvík er, eins og þegar hefur komið fram, framtíðarbyggingarland Hafnarfjarðar. Framlögð skjöl: 1) Uppdráttur 2) Staðfest ljósrit af samningi milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar dags. 28. apríl 1964 3) Aðalskipulagsuppdráttur fyrir Hafnarfjörð 1995-2015.
Hér er orðið fullljóst að markmið Hafnarfjarðarbæjar er að byggja þar sem nú er óraskað hraunið í Almenningi.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Óbyggðanefnd.
-Guðmundur Benediktsson hrl. f.h. Hafnarfjarðarbæjar.
-Magnúsar Más Lárussonar fyrrverandi rektors Háskóla Íslands um merki Krýsuvíkurlands. bls. 26.

Í Almenningi

Í Almenningi.

Stakkavíkurvegur

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu og Hlíðarveg að Stakkavíkurvegi undir Vesturhnúkum. Vegurinn var síðan fetaður um Ása (Svörtu-Ása og Urðarás), niður Dýjabrekkur að Stakkavíkurseli ofan við Selbrekkur. Frá því var selstígurinn genginn um Einstigið niður að Stakkavík.

Stakkavikurvegur-203

Stakkavíkurvegurinn nær frá Stakkavík í Selvogi langleiðina upp undir Kóngsfell í Grindarsköðrum. Þar mætir vegurinn þvervegi; annars vegar að Kerlingarskarði í norðvestri og hins vegar að Grindaskörðum í norðaustri. Þaðan niður eftir liggur einnig Hlíðarvegurinn, sem flest göngufólk fer þegar það telur sig vera að ganga Selvogsgötuna. Leiðin sú var vörðuð um 1892 er ætlunin var að leggja vagnfæran veg frá Hafnarfirði í Selvog. Hugmyndin var að vegagerðin myndi nýtast brennisteins-vinnslunni neðan Námuhvams í Brennisteinsfjöllum. Gatan var aldrei lögð, einungis vörðurnar voru hlaðnar. Neðsti (syðsti) hluti Stakkavíkurvegar var jafnframt Selstígurinn milli Stakkavíkursels og bæjar.
Ólafur Þorvaldsson lýsir í Árbók Hins íslenska fornleifafélags Stakkavíkurveginum á eftirfarandi hátt: „Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga.
Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni.

Stakkavikurvegur-6

Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.“
Efst í Kerlingarskarði er rétt að rifja svolítið upp jarðfræðina: „Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins og hef ég áður fjallað um þá (Jón Jónsson 1977a). Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 4 0 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess.
Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu.

Stakkavikurvegur-203

Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C’4 ár, (Jón Jónsson 1977a) en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun Stakkavikurvegur-202og Gvendarselshraun.
Á Draugahlíðum er hár og brattur gígur, sem ég í dagbókum mínum hef nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita, en fram til þess nota ég hitt nafnið enda hef ég áður notað það, [þ.e. Selvogshraun] (Jón Jónsson 1978). Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 (Þorvaldur Thoroddsen 1925, bls. 188-189).
Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru Stakkavikurvegur-204þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

„Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjóít haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar.
Nokkru suðaustur af Stakkavikurvegur-205þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir.

Stakkavikurvegur-206

Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú. Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus.“
Lára Gísladóttir bjó ásamt manni sínum, Kristmundi Þorlákssyni, í Stakkavík. Lara Gisladottir„Hún fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Foreldrar hennar fluttust að Stakkavík sem var erfið jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Þau Kristmundur giftust 1918. Hann var ættaður úr Hafnarfirði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafið biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.
Hún Lára var heldur enginn veifiskati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu börn og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fyrir einangrun og margháttaða erfiðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og fjölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.“ Við jörðinni tók Kjartan Sveinsson, þjóðskjalavörður.

Stakkavikurvegur-207

Hér má lesa frásögn í Tímanum 1982 um „Sprittlogann í Stakkavík“: „Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úr stjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið.

Hvalspik

Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík.
Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi.
Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik.
Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.
Ef til vill hefur Kjartan lesið einhverja vantrú úr augum mínum, en hann sagði: Það rak hérna hval í Stakkavikurvegur-208vor, eða vetur, og enginn hirti um hann. Ég skar spik, því hvalspik er fyrirtaks eldsneyti, skal ég segja þér. Um það hafði ég lesið í bókum Eskimóa og fleiri. Ég skar mér því í eldinn, og svo sögðum við ekki meira, en ókum hlykkjóttan, grýttan veginn og síðan troðninginn niður að Stakkavík, sem stendur á hæðarbrún, þar sem sést vel til sjávar og fyrir neðan túnið er svo Hlíðarvatn,fullt af silungi og draumum. Þegar inn var komið og búið að bera lundapottinn inn og annan farangur, líka sósur og annan mat, fór Kjartan að kveikja upp. Hann brenndi hvalspiki. Hann hafði skorið spikið í stykki sem voru á stærð við sígarettukarton, eða rúgbrauð og nú skeðu mikil undur.
Hvalspikið logaði glatt og það átti ekkert skylt við grútarlampa forníslendinga, sem gerðu þá svarta og sjónlausa. Hvalspik logar, eða brennur nefnilega með sprittloga, alveg eins og kósangas. Lyktarlaust var það með öllu og sem hitagjafi hafði það vel við suðaustan í gisnu og gömlu húsi. Þetta var dularfullt kvöld og hlýtt með afbrigðum, og vefurinn í spikinu, skammtaði eldinn. Þetta fuðraði ekki, heldur brann meö hæfilegum hraða, uns stykkið var allt brunnið, en það tók langan tíma.

Stakkavikurvegur-209

Og nú spyr ég, er hvalspik ekki hugsanlegur orkugjafi, t.d. í iðnaði eða til húshitunar á stöðum þar sem ekki finnst heitt vatn í jörðu?
Ég veit að hvalspik er notað í hvallýsi, sem síðan er notað í smjörlíki og fl. Til þess að sjóða hvallýsi þarf mikla orku, sem mun fengin með svartolíu. Ef unnt væri að selja hvalspikið sem eldsneyti til heimabrúks, myndi mikil olía sparast við lýsisgerð, og olíukyndingar til húshitunar myndu syngja sitt síðasta á mörgum stöðum.
Stakkavikurvegur-210Ég sá það einhvers staðar í fréttum nýverið, að iðnaðarríkin hefðu minnkað olíunotkun sína um 10%, sem er hreint ekki svo lítið. Þetta gjörðu þjóðirnar, með því að nýta orkuna betur og með því að nota aðra orkugjafa en olíu. Það er því mikið hugsað í þessa veru. Að vísu veit ég ekki hvort hvalspik er, eða hefur verið notað sem eldsneyti hér, nema í Stakkavík. En víst er að hvalspik er fyrirtaks eldsneyti og hitagjafi. Laust við alla mengun. Þá er ég líka minnugur þess, er ég sigldi á olíuskipum sem ungur maður, að við fluttum heilu lýsisfarmana úr hvalstöðinni í Hvalfirði, þannig að nokkrir skipsfarmar eru til staðar af hvalspiki á þessum stað og verða það, þegar búið er að koma vitinu fyrir þá, sem drepa dýr eftir greind og vitsmunum, og leggja sér til munns.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, Grindaskarðavegur, 49. árg. 1943-1948, bls. 99-100.
-Náttúrufræðingurinn, 52. árg. 1983, Jón Jónsson, 1.-4. tbl. bls. 131-132.
-Morgunblaðið, 22. janúar 1986, bls. 44.
-Tíminn, 17. ágúst 1982, Jónas Guðmundsson, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8-9.

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Arnarfell
Gengið var til austurs frá bílastæðinu við skátasvæðið neðan við Skýjaborgir undir Bæjarfelli, suðvestan við Krýsuvíkurkirkju, meðfram Ræningjahjól, um tún Suðurkots og síðan var gamla túngarðinum fylgt sem lá lá í áttina að Arnarfelli.
Ræningjahóll er þar sem hæst ber, en skammt austan undir honum er Ræningjadys eða Ræningjaþúfur. Sagan segir að Tyrkir hafi komið að Heiðnabergi við Hælsvík. Gengu þeir upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“
Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, mundu þið éta hvur annan.“
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – varða.

Vörslugarðarnir umhverfis Krýsuvíkurbæina eru bæði úr grjóti og úr torfi. Grjóthleðslur eru við endana, þar sem þeir koma að fellunum beggja vegna, en á milli þeirra eru þeir úr torfi. Garðar þessi voru endurhlaðnir á 19. öld. Áður en komið var að Arnarfelli þurfti að fara yfir lítinn læk. Á honum eru leifar að hlaðinni brú þar sem garðurinn hefur legið. Skammt þar norður af, í mýrinni eru leifar húss eða stekks.
Undir suðurhlíð fellsins eru tóftir Arnarfellskotsins. Býlið er á 80x150m stóru svæði innan túngarðsins. Veggir eru úr torfi og grjóti. Sennilega eru 6 hólf í rústinni. Safnþró er framan við hana, líkt og fyrir framan Fitjabæinn undir Selöldu.

Krýsuvík

Krýsuvík – garður frá Bæjarfelli yfir að Arnarfelli.

Traðir eru undir fellinu, í grasi grónum hlíðum þess. Þær eru óljósar, en virðast hafa legið frá suðsuðvesturhorni bæjarins niður hlíðina og stefna síðan að Bæjarfellinu austan við túngarðinn. Beggja vegna traðanna má sjá grilla í lága garða sinn hvoru megin við þær. Traðirnar eru vel grónar. Beinteinn Sveinsson bjó síðastur að Arnarfelli, hagur maður á tré og járn. Hann byggði m.a. Krýsuvíkurkirkju árið 1857, en hún hefur þó síðan nokkrum sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.
Fræg er viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á selatöngum. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó Beinteinn á Arnarfelli í Krýsuvík. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:

Arnarfell

Arnarfell – Í Guðbjargarhelli.

„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Lá hann rúmfastur næstu daga.

Arnarfell

Arnarfell – bæjarbrunnurinn.

Bæjarbrunnurinn er utan garðs, fallega hlaðinn. Fallin varða er við forna götu skammt frá honum.
Þegar búið var að skoða svæðið innan heimagarðsins, bæjartóftirnar og umhverfi þeirra, var haldið rangsælis umhverfis fellið eftir gamalli götu er lá áfram til austurs, yfir að Jónsbúð, sauðakofa austarlega á Krýsuvíkurheiði. Varða er við götuna ofan við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Þaðan var ágætt útsýni yfir Bleiksmýrina, sem ræst var út um miðja 20. öldina. Vestan við vatnið eru gamlar rústir. Sunnan þess var fyrrum áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við sunnanverðan Reykjanesskaga austur í sveitir. Einnig mátti vel sjá fyrir sér og hugsa til þeirra mörg hundruð vermanna sem tjölduðu í mýrinni á leið sinni til og frá veri. Neðar eru Trygghólar. U.þ.b. miðja vegu milli þeirra og Arnarfells, skammt vestar, er Arnarfellsréttin, nokkuð heilleg fjárrétt í lægð.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Suðaustan við Arnarfell er fyrrum gróðurvana svæði, sem komið er vel á veg að gróa upp. Blóðberg, lambagras, geldingahnappur ásamt lyngi eru nú á góðri leið með að þekja fokjarðveginn.
Við austurhorn Arnarfell er stekkur, á grasi gróinni rein við fjallsræturnar, vestan megin við uppþornaðan lækjarfarveg. Hann er 5x5m. Veggir eru úr grjóti.
Gengið var austur og norður með fellinu. Við norðurhorn þess er stekkur undir steini. Stínuskúti er í fellinu skammt austar og ofar í því. Ekki er vitað um tilurð nafnsins, en þó er ekki ólíklegt að það sé til komið líkt og Guðbjargarhellir á Hrauni við Grindavík, þ.e. tímabundið skjól þeirra, sem það var nefnt eftir, líklega frá amstri dagsins.

Arnarfell

Arnarfell – Stínuskúti.

Um er að ræða mjög fallegan skúta, tvískiptan. Hægt er að ganga inn í hann að austanverðu, en að vestanverðu er líklegt að fé hafi legið. Svo virðist sem skútinn hafi myndast að tilstuðlan vatns, en það er hvergi að finna nú. Því virðist hér um nokkuð merkilegt jarðfræðifyrirbæri að ræða. Falleg, viðkvæm, móbergssúla skilur af hluta skútans.
Arnarfellið er í u.þ.b. 100 m hæð. Sjálft fellið er tæplega 100 metra hátt (93 m). Þegar gengið er upp gróna norðvesturhlíð þess sjást vel útihúsin frá bænum. Þar er rúst, stekkur og skúti ofan hans. Rústin er 4,5x7m. Veggir eru úr torfi og grjóti. Mjög stórir steinar eru í veggjum, sumir jarðfastir. Tvö hólf eru í rústinni og eru dyr á báðum. Stekkurinn er 5x10m. veggir eru úr grjóti og torfi. Tvö hólf eru í stekknum, líkt og almennt gerist með slík mannvirki á Reykjanesskaganum. Dyr eru ábáðum hólfum. Skútinn er 1,5x4m og 1,5m hár. Hann liggur skáhalt inn í áberandi hamar í fjallinu, nánast beint ofan við rústina og stekkinn.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða.

Vestan við Arnarfell sést vel yfir að Læk þar sem Arngrímur bjó um tíma fyrir og eftir aldamótin 1700. Þekkt er þjóðsagan af Grákollu er tengdist honum og fjárhelli hans í Klofningum, sem eru í Krýsuvíkurhrauni þarna skammt austar.
Þegar upp á Arnarfell er komið blasir Eiríksvarða við á vestari toppi þess, en hún er kennd við Eirík prest (Magnússon) í Vogsósum sem þekktur er úr þjóðsögum fyrir fjölkyngi sína. Hann dó árið 1716. Hann þótti skrýtinn í ýmsu, eins og segir í örnefnalýsingu. Fellið er tiltölulega auðvelt uppgöngu að vestanverðu og þaðan er útsýni yfir Krýsuvíkurheiði og næsta nágrenni.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Ef vel viðrar er hægt að sjá hvar Eldey rís úr hafi við sjóndeildarhring í vestri. Þegar horft er inn til landsins sést hvar Sveifluhálsinn teygir sig einn eftir Reykjanesinu með misháum móbergshnúkum sínum. Til norðurs er horft í áttina að Kleifarvatni og Vatnshlíð, en ofan hennar rísa Brennisteinsfjöll við himinn. Til norðausturs sér til Geitahlíðar og Eldborganna ásamt Selvogsheiðinni enn austar og suðurlands.
Á eystri toppi Arnarfells er fornt arnarsetur, enda dregur fellið nafn sitt af því. Hreiðrið er vel gróið og því ljóst að ernir hafa haft þar hreiðurstæði um langan tíma áður en þeir voru gerðir útlægir af svæðinu, enda þóttur þeir hinir mestu vágestir. Margar sagnir eru til af atferli þeirra, sumar reyndar verulega ýktar. Annað fornt arnarhreiður er þarna skammt frá, í austanverðu Ögmundarhrauni.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Af fellinu sést vel yfir Arnarfellsvatn í suðaustri og mógrafir Krýsuvíkurbænda í norðri. Grafirnar, sem eru í mýri, eru a.m.k. fjórar talsins og misstórar, 3×4 til 6x8m. Allar eru þær fullar af vatni og hugsanlega eru eldri samanfallnar grafir allt í kring í kvosum og lægðum í næsta nágrenni. Þannig er líklegt að einungis yngstu mógrafirnar sjáist með berum augum, en þær eldri orðnar jarðlægar.
Þegar horft er til norðausturs sjást Vegghamrarnir vel. Ofan þeirra eru Kálfadalirnir. Niður í þann syðri rann hrauná, sem kallast Víti. Stórkostlegt er að standa ofan við strauminn, sjá hvernig hraunið hefur fossað niður hlíðina og storknað þar á leið sinni.

Kálfadalir

Kálfadalir – sviðmynd fyrstu leiknu íslenskrar kvikmyndar.

Skammt norðar er leiksvið einnar af fyrstu leiknu kvikmyndunum á Íslandi. Hluti hennar átti að hafa gerst á tunglinu og er landlagið ekki ólíkt því sem þar má ímynda sér. Geimfarar þeir, sem fyrstir stigu fæti sínum tunglið, skv. bestu heimildum, komu m.a. þangað til að aðlagast því sem við mátti búast. Svæðið er torfundið, en er ein af mestu náttúrperlum landsins.
Vakin er athygli á því að myndirnar, sem fylgja þessari vefsíðu, eru af minjum, sem hvergi er minnst á í fornleifaskráningu af svæðinu frá árinu 1998 og Fornleifavernd ríkisins hefur stuðst við í umsögn sinni um fyrirhugaða kvikmyndatöku við Arnarfell, en þó er síðasta myndin (af Eiríksvörðu) undanskilin. Þá hefur hvorki Landgræðsla ríkisins né Umhverfisstofnun tekið tillit til Arnarfellsins sjálfs þegar umsögn var gefin, einungis umhverfis þess. Í nefnda skráningu vantar a.m.k. 12 minjar, sem vitað er um á og við fellið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.

Smalaskúti

Svavar Sigmundsson skrifaði um örnefnin „Smalaskáli“ og „Smalabyrgi“ á vef Árnastofnunar árið 2018 (birtist upphaflega árið 2008):

Svavar Sigmundsson

Svavar Sigmundsson.

„Á Íslandi eru mörg örnefni sem eiga rætur að rekja til fyrri tíðar búskaparhátta sem nú eru horfnir. Eitt þeirra örnefna er Smalaskáli sem þekkt er sérstaklega um Suðurland og Suðvesturland (Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu) en er þó til víðar á landinu. Þetta er oftast nafn á holtum, hólum eða hæðum og eru sumstaðar leifar af rústum eða tóftum í þeim en hvergi nærri allstaðar. Margir smalar í hjásetunni munu hafa haft svonefnda smalakofa til að skýla sér. Smalinn gerði sér þannig eitthvert skýli, þar sem landslagi var svo háttað að ekki var skjól frá náttúrunnar hendi. Þar hefur verið ákjósanlegur staður fyrir smalann að geyma mal sinn og á stað þar sem sást vel yfir þar sem ánum var haldið til haga. Oft eru þessi örnefni nærri landamerkjum eða beinlínis á landamerkjum, t.d. hóll sem hornmark fleiri jarða á svonefndum Sorta í Flóa. Á Norðurlandi var slíkt skýli fremur nefnt Smalabyrgi.

Efri-Straumsselshellar

Straumselshellar syðri. Smalabyrgi neðst fyrir miðju.

Í örnefnaskrám í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar eru þessi dæmi um lýsingu á örnefninu Smalaskáli: hóll, klettur, strýta, rimi, holt, grjótholt, skerhóll, klapparhóll, ás, hæð, þúfa, heiðarhryggur, klapparhryggur, en einnig hvammur. Sumstaðar er haft orðið ‘tóftarbrot‘.

Ég nefni nokkur einstök dæmi um Smalaskála úr Árnessýslu:

Smalaskjól

Smalaskjól á Reykjanesskaga.

Smalaskáli er strýta í hraunbrún … Sunnan undir henni er lítil öskjulaga tóft, smalaskálinn. (Þjórsárholt)
Hóll með tóftum af gömlum fjárhúsum og tveim minni kofum, sem nefnist Smalaskáli. (Baugsstaðir)
Smalaskáli: Grjótholt í Laxárdal. [Strákar í yfirsetu höfðu hlaðið skýli þar.] (Villingavatn)
Elsta dæmi um orðið smalaskáli er frá 1664 úr hdr. AM 277 fol., skv. ritmálsskrá Orðabókar Háskólans: „þadann J smalaskalann, sem er austann til a Hnukaheidi“ (101r).

Smalavarða

Smalavarða við Þorlákshöfn.

Samheiti við smalaskála er smalahreysi (þýðing úr latínu attegiæ) úr orðabók frá 18. öld (Nucleus, bls. 349), en sem þýðing er einnig gefið orðið graskofar. Í sömu orðabók er einnig orðið smalakofi, sem þýðing á latínu habitus pastoralis, tectum pastorale en þar er einnig gefið orðið hitta (= hytte). Orðið smalakofi er einnig gefið sem þýðing á latínu tugurium og samheiti við það hreysi. Þá er latneska orðið mapalia þýtt með smalakofar eða smalahíbýli.

Í orðabók Björns Halldórssonar, sem Rasmus Chr. Rask gekk frá til útgáfu 1814, er orðið smalamannskofi og það þýtt með „attigiæ, en Hytte for faarehyrder“. Seint á 19. öld kemur fyrst fram í heimildum orðið smalabyrgi: „selhreysi og smalabyrgi“ (Ísafold 1890, 230).

Smalaskjól

Smalaskjól ofan Straums.

Eftirfarandi svör við spurningaskrám Þjóðminjasafns um fráfærur nefna smalaskála:

Nr. 497 (Fráfærur)

Smalabyrgi

Smalabyrgi við Flekkuvík.

Víða er til örnefnið Smalaskáli, sem mun vera frá þeim tíma að setið var yfir ám. Ærnar voru reknar í haga af stöðli og úr haga á stöðul, þar sem ég þekkti til, en haft vakandi auga með þeim að deginum, einkum í þurrkatíð, norðanátt, þá vildu ærnar rása í vindinn, jafnvel strjúka til fjalla.

Nr. 554: (Fráfærur)

Smalaskálaskúti

Smalaskálaskúti.

Sér til skemmtunar í tómstundum las smalinn, byggði byrgi, hlóð vörður, hitti oft smala á næstu bæjum, og fór þá við þá í leiki, m.a. blámannaleik. Smalinn átti skýli, oft nefnt smalaskáli. Nesti smalans var hverskonar búrmatur. … Mislengi var setið hjá kvífé, af ýmsum ástæðum. Smalað þegar leið að hausti.

Smalaskáli er gott dæmi um það hvernig löngu aflagt fyrirbæri lifir í örnefnunum.“

Smalaskáli og Smalaskálahæð eru örnefni í landi Óttarsstaða. Hæðin kom við sögu manndrápsmáls árið 2004, sjá HÉR. Smalabyrgi er til við Flekkuvík og Smalavarða stendur enn ofan Þorbjarnarstaða. Smalaörnefnin eru því víða á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-https://www.arnastofnun.is/is/greinar/smalaskali-og-smalabyrgi

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.

Fuglaþúfa

Það sem vekur mesta athygli er gengið er um móa og heiðar á Reykjanesi eru reglulegar fuglaþúfur, háar og stæðilegar. Þær gefa til kynna að þarna hafi verið kjörlendi mófugla um allnokkurt skeið. Þúfurnar hafa löngum verið yfirlitsstaðir spóa, kjóa, stelks, tjalds og smærri fugla, en auk þess hefur mávurinn nýtt sér aðstöðuna í heiðinni.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Stundum hafa þúfur þessar verið nefndar hundaþúfur af einhverri ástæðu.
Hundaþúfur voru vel kunnar víða. Sennilega er nafnið til komið vegna merkingaráráttu hunda, en fuglaþúfur eru oft hæstu og jafnvel einu kennileitin í móum og á heiðum.
Í skýrslu, sem Jóhann Óli Hilmarsson vann fyrir Hönnun h.f. í mars 2001, „Fuglalíf við Reykjanesbrautina“, segir m.a. að „geta má eins náttúrufyrirbæris, sem tengist fuglum og er alláberandi víða á vegarstæðinu. Þetta eru fuglaþúfur (sbr. Guðrún Á. Jónsdóttir 2001). Fuglaþúfur einkenna íslenskt landslag og þekkjast hvergi annars staðar svo nokkru nemi. Ekki hefur
verið gerð nein sérstök úttekt á þeim við Reykjanesbraut, dreifingu þéirra né öðru, en þær eru sérstaklega áberandi nærri Vogaafleggjara, þar sem ein umferðarbrúin mun rísa.“
Skýrslan fjallar m.a. um fuglalíf á svæðinu, fugla í útrýmingarhættu og fjölda fugla á ákveðnum stöðum. Þá er ljóst að ástæða hefur verið til að tiltaka fuglaþúfur sérstaklega, sem aftur bendir til sérstöðu, eða öllu heldur ásýnd þeirra á heildarmynd umhverfisins á þessu svæði.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa.

Til fróðleiks er þess getið að hæruskrúfur vex oft í skjóli fuglnaþúfna. Hann er útbreiddur um allt land, þó algengari á Norðurlandi en á Suðurlandi. Hæruskrúfurinn vex gjarnan á jarðvegsþöktum klettum eða steinum, oft við vörður eða fuglaþúfur. Héluvorblóm vex þar einnig. Það er smávaxin jurt með hélugrá stofnblöð, vegna stjörnuhára sem þekja yfirborð blaðanna. Það vex mjög strjált um landið og gjarnan uppi á hæðum, hólkollum eða fjöllum, oft við vörður eða fuglaþúfur.
Fuglaþúfur, eða hundaþúfur, virðast vera eðlilegur hluti af hinu náttúrulega umhverfi – en er það svo þegar betur er að gáð?
Málið er sá fugl, sem mestum fræjum hefur dreift, allt frá því að síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 12000 árum, er sennilega snótittlingurin. Í nýlegum rannsóknum í Surtsey kom í ljós við skoðun á framangreindum fugli að í iðrum hans voru fjölmörg fræ frá Skotlandi (steinar í fóarni sýndu það). Snjótittlingurinn virtist vera sá fugl, sem flest fræ bar með sér frá öðrum löndum. Rjúpan hefur þann sið að ferðast með ísröndinni og setjast að á nálægu fastlandi. Ísbirnir og refir létu ekki sitt eftir liggja þar sem frævunin og flóran var annars vegar. Þeirra er því getið í þróunarsögunni.

Fuglaþúfa

Fuglaþúfa við Prestastíg.

Stóri-Hólmur

Árið 1965 eða 1966 fór Halldór Þorsteinsson frá Meiðastöðum í Garði með barnabörnin sín í gönguferð um Leiruna. Faðir hans, Þorsteinn Gíslason, var frá Melbæ í Leiru. Í hópnum var Kristjana Vilhjálmsdóttir, eitt barnabarna Halldórs. Hún man enn vel eftir þessari ferð. Áður en að frásögn hennar kemur er rétt að rifja upp atburði er urðu þar á 9. öld, eða fyrir u.þ.b. 1080 árum (skrifað 2009).
KristjanaÍ 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er sagt frá Steinuði (Steinunni) er síðar nam land á Rosmhvalanesi; „Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs, fór til Íslands og var með Ingólfi hinn fyrsta vetur. Hann bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla; henni þótti það óhættara við riftingum“. Þá segir jafnframt að „Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík“.
En hvar bjó Steinunn eftir að hún settist að á Rosmhvalanesi og hvar var hún grafin, heygð eða dysjuð?
DysÁður en þeirri spurningu verður svarað er rétt að segja frá ástæðu þeirri er varð til þess að langafi Kristjönu flutti frá Melbæ í Leiru að Meiðastöðum í Garði. Syðst í Leiru, norður af Bergvík, var Grænigarður eystri og vestari og þá Lindarbær. Vatnsbrunnurinn, fallega hlaðinn, er í Dalnum. Í leysingum fór Línlækur þar niður um. Í Dalnum var stundum þveginn þvottur. Af því dregur Línlækur nafn sitt og eftir vatnsbólinu heitir Lindarbær. Norðar með sjónum var Melbæjarbakki og norðar Melbær, steinsnar frá Bakka. Upp úr torfbænum að Melbæ var byggt timburhús, portbyggt með íbúðarlofti. Í þetta nýja hús var sett eldavél, niðurmúruð eins og þær tíðkuðust fyrst eftir að þær tóku að flytjast hingað til lands. Þóttu þær all nýstárlegar og hinir mestu kjörgripir, enda var þá strax farið að baka í þeim brauð og „bakkelsi“.
FornmannagröfMun þetta hafa verið fyrsta „Maskínan“, sem kom í Leiruna, að sögn Þorbjargar Sigmundsdóttur, sem ólst upp frá fjögurra aldri að Efra-Hrúðurnesi í Leiru (fædd 15. okt. 1878). „Myndi þetta þó þykja þröngur kostur nú til dags og ófýsileg lífskjör, en samt er gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nútímafólk, sem flestir hlutir eru lagðir upp í hendurnar á, að hyggja að þeim stórstígu breytingum til bættra lífskjara, sem orðið hafa á síðar aldarhelmingi (20. aldar).“
Það mikla og raunalega atvik skeði milli jóla og nýárs aldamótaárið, að eldur kom upp í Melbæ að í ofsaroki að næturlagi og brann þar allt sem brunnið gat og þar á meðal 2 kýr í fjósinu. Mannskaði varð þó ekki og bjargðist fólkið allt, fyrst og fremst fyrir dugnað húsbóndans og áræði, en við björgunarstarfið skaðbrenndist hann bæði á höndum og andliti. Dóttir hjónanna brenndist einnig mjög mikið.“
Allt framangreint rifjaðist upp í framangreindi ferð um Leiruna fyrir 43 árum. Nefndur Halldór sýndi barnabörnunum varirnar, gömlu bæjarstæðin og sagði þeim frá því hversu margir hefðu búið í Leirunni fyrrum. Þótt breyting hefði orðið á bjuggu þar t.a.m. mun fleiri en í Garðinum í þá daga. Þegar komið var upp að Stóra-Hólmi staðnæmdist Halldór á aflöngum hól vestan við íbúðarhúsið, fast norðan við heimreiðina, og benti niður fyrir sig. „Hér er Steinunn gamla dysjuð“, sagði hann. „Það minni hefur lifað löngum meðal íbúanna í Leirunni“, bætti hann við.
FornmannagröfÍ þessari ferð gekk Kristjana hiklaust að aflöngum lágum hól í túninu og staðnæmdist þar. Heimreiðin lá um hrygginn. Norðan hans er hóllinn (hryggurinn) hæstur. Austan í honum er lítil dæld, líkt og einhver hafi gert tilraun til að grafa í hólinn. Kristjana sagði að afi hennar hafi verið ákveðinn í að þarna væri dys Steinunnar gömlu. Þá hefði hóllinn verið meiri um sig í túninu, en eftir að golfvöllurinn kom þarna hefði hóllinn verið aflagaður og sleginn, sem ekki hefði mátt gera fyrrum.
Kristjana sagði að almannarómur hefði verið að þarna hefði dys þeirrar gömlu verið. Vildi hún koma því á framfæri því enginn virtist hafa haft áhuga á að varðveita tilvist hennar síðustu árin.
Til fróðleiks má geta þess að í annarri FERLIRsferð er gengið var um Leiruna var komið að meintri fornmannagröf norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi. Þar eru bátlaga hleðslur, sem lengi vel voru umgirtar og ekki mátti hrófla við. Sjá meira um Leiruna HÉR og Hér.
Sjá einnig meira um Steinunni gömlu HÉR.

Heimildir:
-Landnáma – 101. kafli.
-Kristjana Vilhjálmsdóttir, 03.06.1941.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.