Ölkofri, öðru nafni Þórhallur, bjó á Þórhallsstöðum á Þingvöllum um og í kringum árið 1000. Um hann hefur verið skrifað, t.d. í Ölkofraþætti, og ekki allt satt:
“Þótt Ölkofraþáttur sje eigi sannsögulegur, þá er hann þó allforn, og munu þessi orð Brodda styðjast við sannindi, og má telja það víst, að Skafti hafi ort mansöngsdrápuna, en efnið í þættinum er að mestu leyti tilbúningur einn og á að sýna, hvernig sex goðar, og er Skafti einn þeirra, eru brögðum beittir og sæta illmælum af Brodda Bjarnasyni, er þeir ætla málssókn að hefja á hendur Þórhalli búanda í Bláskógum á Þórhallsstöðum, en honum hafði það slys viljað til, að hann brenndi upp skóg þeirra goðanna, Goðaskóg, svo og sinn skóg sjálfs, er hann var að kolagerð, og var Þórhalli hið mesta vesalmenni, en vel fjáreigandi, en Broddi tók að sjer, að veita honum lið í málinu og bjarga því. Þórhallur seldi þingmönnum öl og hafði kofra á höfði, og því kölluðu þingmenn hann Ölkofra.”
Í “Rannsókn á hinum forna alþingisstað Íslendinga og fleira, sem þar að lýtr” eftir Sigurð Vigfússon, segir m.a.: “Síðan fór eg að Skógarkoti um kveldið og athugaði um Þórhallastaði, sem talað er um í Ölkofraþætti, og fleira. Elztu menn segja, að stekkurinn frá Skógarkoti sé nú þar sem gömlu Þórhallastaðir vóru. Þar hefir verið mikið tún, og sjást leifar af fornum túngarði; gamall brunnr hefir og fundizt þar og jarðvegr kominn yfir. Hann hefir verið hlaðinn upp til forna, sáust þess greinileg merki, og hefir þar verið þró mitt í jarðhellunni „Ölkofrahóll heitir þar fyrir utan hinn forna túngarð.”
Heimildir:
-Andvari, 41. árg. 1916, 1. tbl. bls. 116.
-Árbók Hins íslenka fornleifafélags, 1. árg. 1880-181, bls. 24.