Camp Turner

„Nálægt þrem kílómetrum í suðvestur frá Ytri-Njarðvíkum er melhrygur einn langur og lágur, sem kallaður er Háaleiti. Austan til á mel þessum er grasi gróin þúfa, og í kringum þúfuna er dálítil grasflöt.

haaleiti-233Eitt sinn bjó í Höskuldarkoti í Ytri-Njarðvíkum maður, sem Erlendur hét. Þetta ár var hjá Erlendi haustmaður og vetrarmaður Guðmundur nokkur Guðmundsson. Var hann sagður ógurlegt heljarmenni að burðum, að minnsta kosti þriggja til fjögra manna maki. Hann var kallaður Guðmundur klárt, en viðurnefni sitt fékk hann af því, sem nú skal greina. Þá er Guðmundur var ungur, gerðist hann eitthvað lítilsháttar brotlegur við friðhelgi eignarréttarins, en þó að brotið væri lítið, þá varð Guðmundur að hlíta dómi réttvísinnar og í orðsins fyllsta skilningi að kenna á vendi laganna. Var honum á manntalsþingi klappað 27 sinnum, en er því var lokið, sagði Guðmundur þessi minnilegu orð: „Þá er það nú klárt á þessari jörð, piltar“.

Upp frá því var hann alltaf kallaður Guðmundur klárt. En þá er Guðmundur minntist þessa atburðar síðar, fórust honum svo orð, að þetta hefðu verið mjúk meyjarklöpp, og mun það hafa verið sannleikur, því að sá, er verkið innti af hendi, sagði síðar svo frá, að hann hefði ekki þorað annað en haga því að vilja Guðmundar. Haust þetta gætti Guðmundur sauðfjár fyrir Erlend, húsbónda sinn; varð hann daglega að sækja féð seinni hluta dags suður í Hafnaheiði og Miðnesheiði, og varð hann því oft seinn fyrir um heimreksturinn.

haaleiti-234

Eitt kvöld snemma á jólaföstu var Guðmundur ekki kominn heim, þá er komið var langt fram á vöku. Fór Erlendur þá út að vita, hvort hann yrði ekki hans var, en er hann kom út fyrir túngarðinn, sér hann að allt féð er komið heim að görðum, en Guðmund sér hann hvergi. Hrópar Erlendur þá og kallar á hann en fær ekkert svar. Þykir Erlendi þetta kynlegt mjög, og telur víst, að eitthvað hafi orðið að honum. Bregður hann sér heim örskamma stund og leggur því næsta af stað að leita Guðmundar.
Tungl óð í skýjum, en jörð var alauð, svo að dimmt var úti og draugalegt. En er Erlendur kemur suður undir Háaleiti, sér hann í myrkrinu hilla undir mann, sem er að glíma við eitthvað. Erlendur gengur nú nær og sér, að þetta er Guðmundur, en ekki getur hann greint þann, sem hann var að glíma við; stóð hann þó á grasflötinni örskammt frá þeim. Verður Erlendi nú ósjálfrátt litið niður fyrir fætur sér og sér hann þá, að öll grasflötin er ein silfurpeningabreiða. Verður honum það nú, sem mörgum myndi verða, að honum þótti féð fýsilegt. Gleymir hann því alveg að hnýsast frekara í hagi Guðmundar og sópar saman peningunum í mesta ofboði, fyllir alla vasa og flýtir sér að því búnu sem mest hann má heim til bæjar aftur.

Bolafotur-2231

En nú er að segja frá Guðmundi klárt. Þá er hann kemur sunnan úr Stafnesshrauni, sér hann í myrkrinu einhverja hrúgu á Háaleitisþúfunni; dettur honum fyrst í hug, að þetta sé örn, en er hann er rétt kominn að þessu, hverfur það sjónum hans, en er í sama vetfangi komið upp á herðar honum. Nær Guðmundur samt handfestu á fjanda þessum, og kastar honum fram fyrir sig, en samstundis er hann kominn upp á herðar Guðmundi aftur. Á þessu gengur þannig alla nóttina, að jafnharðan sem Guðmundur kastar draugnum af sér, er hann kominn upp á herðar honum aftur. Loks er komið var að dögun, getur Guðmundur kastað óvætti þessari á klett einn, er áflogin höfðu borist að. Þar hvarf hún honum niður í jörðina, en sagði um leið með dimmri og draugslegri rödd: „Þig skal aldrei bresta peninga fyrir vín, fyrir brennivín“.
Þetta var það eina, sem Guðmundur heyrði til draugsins allan þann tíma, er þeir áttust við. Þá er Guðmundur var búinn að jafna sig eftir öll áflogin, var orðið bjart; tíndi hann þá saman nokkuð af peningunum, aðallega smápeningum, er Erlendur hafði skilið eftir í flýtinum. En seinna mun Erlendur þó hafa orðið að skila Guðmundi aftur nokkuru af peningunum.

haaleitisþufa-231

Guðmundur klárt var eftir þetta mörg ár í Kotvogi í Hafnahreppi. Sagðist honum svo frá viðureign sinni við drauginn að hann hefði verið háll eins og áll, – „en út yfir tók þó ólyktin; hún ætlaði mig alveg að drepa“, sagði Guðmundur.
Aldrei virtist Guðmundur eiga neina peninga til og jafnan var hann fátækur, en samt gat hann alltaf keypt vín. Meðan hann var í Kotvogi fór hann á hverjum laugardegi til Keflavíkur og koma þaðan alltaf klyfjaður af víni.
„Ketill, má eg skreppa inn fyrir móann, að sækja í einn ask?“ sagði Guðmundur á hverjum laugardegi. Guðmundur drakk aldrei annað en 16 gráða romm, og blandaði það í púns í grautaraski sínum. Því talaði Guðmundur um að sækja í einn ask.
Guðmundur dó 1869, og sögðu menn, að vínnautn hefði flýtt fyrir dauða hans.“

Heimild:
-Rauðskinna I 23, Jón Thorarensen, bls. 42-46.

Háaleiti

Tröllin á Háaleiti.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur var genginn frá fjárhellinum í Óbrinnishólum og stígurinn síðan þræddur í gegnum Óbrinnisbruna, Snókalönd og Stórhöfðahraun með viðkomu í Arnarklettum. Þar við fannst gamalt hlaðið hús, sem skoða þarf nánar síðar. Stígurinn er markaður í hraunið á kafla, en hefur því miður, af skammsýni, verið mokað burt á kafla. Frá Stórhöfða lá stígurinn í gegnum Stóhöfðahraun, upp fyrir Rauðhóla (sjá Rauðhólafjárskjólið), með stefnu til suðurs vestan við Fjallið eina, áfram norður fyrir Hrútargjárdyngju og áleiðis að Móhálsadal – til Krýsuvíkur um Ketilsstíg.

Seldalur

Tóft í Seldal.

Gengið var upp á Stórhöfða og niður að Selshálsi þar sem skoðað var gamalt fjárhús, sennilega frá Hvaleyri þegar bændur þar höfðu í seli við Hvaleyrarvatn um og eftir 1872. Gengið var um Selfjall, litið á forna fjárborg og aðra forna tóft skammt norðaustan hennar (sennilega stekkur eða fjárbyrgi frá Hvaleyrarseli). Síðan var haldið niður að spegilsléttu vatninu og komið við í Hvaleyrarseli, en þar gerðust um 1884 þeir hörmulegu atburðir, sem flestum eru kunnir. Selmatsstúlka fannst látinn, illa leikinn, við vatnið. Talið var að nykur, sem hélt til í vatninu, hafi valdið dauða hennar. Eftir að hafa rifjað upp atvikið var gengið í skóginn og haldið á Húshöfða og kíkt á gömlu beitarhúsin frá Ási, stekkinn og fjárhústóttirnar undir Bleiksteinshæð, gengið eftir hæðunum yfir að Ásfjalli, skoðuð skotbyrgi frá stríðsárunum og áð við Siglingavörðuna efst á fjallinu. Þaðan mátti líta einn fallegasta bæ á landinu – baðaðan kvöldsólinni.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Ísólfsskáli

Erling Einarsson, Ísólfsskálabóndi, hafði samband og kynnti fund á hlaðinni refagildru í Skollahrauni austan Ísólfsskála. Skammt frá gildrunni væri jafnframt hlaðið byrgi refaskyttu.
RefagildraÞegar gengið var með Erling um svæðið kom í ljós að umrædd refagildra var nokkuð heilleg að sjá. Fallhellan var fyrir opinu. Gildran fellur mjög vel inn í aðrar hraunþústir á svæðinu.
Byrgið er kringlótt og fremur lítið. Ljóst er að þarna eru eða hafa verið greni. Víða eru op í grunnum yfirborðsrásum. Við sum þeirra má sjá lambabein. Hraunsvæði þetta er nokkuð slétt og sér þaðan vel heim að Skála. Rekagatan milli Skála og Selatanga liggur þarna í hraunlægð skammt sunnar. Nótarhóll með öllum fiskvinnslumannvirkjunum eru þar enn sunnar.
Norðan við svæðið taka við hraunhólar og lægðir. Handan þeirra er svo önnur hraunslétta, vestan Kistu. Um þessi hraunsvæði má sjá móta fyrir gamalli leið til norðausturs upp í gegnum hraunið með stefnu á Skollanef í Slögu.
Þegar efra svæðið var skoðað nánar mátti sjá vestast í brún þess enn aðra hlaðna refagildru. Þakið var fallið niður að hluta, en þó mátti enn sjá ganginn og hluta gildrunnar. Líklegt má telja að Guðmundur Hannesson, fyrrum bóndi á ísólfsskála, hafi hlaðið þessar gildrur, en hann var m.a. annálaður refaveiðimaður. Guðmundur kom frá Vigdísarvöllum austan við Núpshlíðarháls um aldamótin 1900. Fjórði ættliður hans á nú aðstöðuna og eignirnar á Ísólfsskála.
Refagildra Guðmundur er frægastur fyrir að hafa verið mikill veiðimaður og hafa verið víðförull þar sem hann fór um. Frá honum er kominn mikill og langur leggur dugmikilla manna og kvenna.
Í örnefnalýsingu Guðmundar Guðmundssonar, bónda á Ísólfsskála segir m.a. um þessi svæði Skollahraunsins: „Rétt innan við bæinn skagar klapparnef fram úr Slögunni, sem heitir Skollanef. Niður af henni, austur af túni, út í hrauni, er klettur, sem sker sig úr að lögun og heitir Kista. Fremst í Slögunni, rétt við túnið innanvert, er Fjárból, við alllangan hamravegg. Vestur af Slögunni er gróðurlítið svæði, sem nefnt er Melar. Vestan við þá heitir Lágar.“
Eftir Ísólfi Guðmundssyni, bónda á Ísólfsskála, er eftirfarandi haft árið 1983: „Skollanef er suður úr Slögu. Skollahraun er suður af því; þar var og er enn greni.“
Loftur Jónsson segir í örnefnalýsingu sinni að „fyrir austan Löngukvos er Skollanef og er nokkurs konar öxl eða klapparnef fram úr Slögu. Skollahraun er þar suður af. Í hrauninu austan við túnið er sérstæður klettur sem heitir Kista. Hvammur austan Skollanefs með stórum steinum er Innri-Stórusteinar.“

Samkvæmt örnefnalýsingum eru framangreindar refagildur í Skollahrauni, austan túns og vestan Kistu.
Með þessum refagildrum meðtöldum er nú vitað um a.m.k. 29 hlaðnar refagildur á Reykjanesskaganum. Trúlega má telja að Guðmundur Hannesson hafi hlaðið þær margar sem fundist hafa í nágrenni Ísólfsskála fyrir aldamótin 1900, s.s. á Selatöngum og allt upp í Hrútargjárdyngu. Annars er talið að hugmyndin af gildrunum hafi komið hingað til lands með norskum landnámsmönnum því sjá má svipuð mannvirki þar í landi allt frá þeim tíma.
Kista Annars staðar á vefsíðunni er sagt frá notkun refagildranna sem og nýtingu afurðanna.
Fyrirhugað vegstæði Suðurstrandarvegar átti að liggja um hraunið þar sem refagildrurnar eru, en með úrskurði var ákveðið að fara með hann norðar, eða nálægt núverandi vegstæði. Ekki er að sjá að refagildranna sé getið í fornleifaskráningu vegna vegstæðisins. Líklegt má telja að enn sú allnokkur mannvirki á þeirri línu, sem mannlegt auga hefur enn ekki komið auga á. Þannig var það t.a.m. með sæluhúsið undir Lat. Það var ekki fyrr en FERLIR benti hlutaðeigandi aðilum á það að þess var getið í lokaumferð fornleifaskráningarinnar, en Jón Guðmundsson frá Skála hafði áður upplýst um tilvist þess eftir minni. Hann treysti sér hins vegar ekki til að finna það aftur. Hið sama gildir um leiðina fyrrnefndu. Þó eru vörðurnar undir Skollanefi, sem bræðurnir á Skála hlóðu um miðja 20. öldina, sagðar í skráningunni vera fornar. Svona er nú margt skrýtið í kýrhausnum.
Guðmundur Hannesson, refaskytta og bóndi á Ísólfsskála í Grindavík. Hann fæddist á Arnarhóli, Gaulverjabæjarhreppi, Árnessýslu, þann 1. júní 1830. Guðmundur lést 27. janúar árið 1901 og því væntanlegar allar refagildrur, sem hann hlóð, nú friðaðar skv. þjóðminjalögum.
Byrgi refaskyttu Foreldrar hans voru Hannes Guðmundsson, 1800-1888, bóndi á Hjalla Ölfusi, og kona hans Guðlaug Sæfinnsdóttir, 1795-1841.
Guðmundur var bóndi á Bala í Krýsuvík og á Vigdísarvöllum, en fyrir 1880 er hann fluttur á Ísólfsskála í Grindavík og býr þar með konu sinni Helgu Einarsdóttur, 1825-1889, frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, ásamt tveim sonum þeirra, þeim Hjálmari (1860-1947) og Brandi (1863-1955).

Seinni kona Guðmundar var Guðrún Jónsdóttir (1856-1898) frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Þeirra börn voru Guðmundur (1884-1977) og Indriði (1894-1947).
Sem fyrr sagði má telja mjög miklar líkur á að fleiri hlaðnar refagildrur finnist í Skollahrauni ef vel væri gaumgæft. Þá má og telja líklegt að slíkar gætu fundist neðst í Ögmundarhrauni austan við Eystri-Látur. Þar eru greni, hlaðið byrgi refaskyttu og ákjósanlegar aðstæður til hleðslu. Segja má að þangað komi varla maður nema svo sjaldan á ári að telja megi á fingrum annarrar handar.
Frábært veður.

Refagildra

Refagildra við Ísólfsskála.

Garðsskagaviti

Gengið var um Sveitarfélagið Garð í tilefni af Sólestursdögum dagana 13. og 14 ágúst.
Rosmhvalaneshreppur var væntanlega til frá upphafi hreppaskipunar við lögtöku

Prestsvarða

Prestsvarða.

tíundarlaga 1097, þar til farið var að breyta skipun og mörkum þessara sveitarfélaga á ofanverðir 19. öld. Rosmhvalaneshreppur átti Njarðvíkurjarðirnar, en missti þær úr sínu umdæmi 1596. Hreppurinn náði yfir allan ytri hluta Reykjanesskagans og átti land að Hafnarhreppi og Grindvíkurhreppi að austan og Vatnsleysustrandarhreppi að norðan.
Árið 1886 breyttist hreppaskipanin á Reykjanesskaga með þeim hætti, að hinum forna Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt og nýr hreppur stofnaður. Hann hlaut nafnið Miðneshreppur og náði yfir ysta hluta skagans vestan Hafnarhrepps. Innri hlutinn náði yfir Keflavík, Leiru og Garðinn, að mörkum Útskála og Kirkjubólshverfis og hélt sínu forna nafni. Þegar Miðneshreppur hlaut kaupstaðaréttindi 3. desember 1990 var hann nefndur Sandgerði.
Keflavíkurkauptún komst fljótt í landþröng, enda Keflavíkurjörðin afar smá og var þá brugðið á það ráð árið 1891 að löggilda hluta af landi Njarðvíkurhrepps sem verslunarlóð Keflavíkurkauptúns og eftir það var kauptúnið í raun í tveimur hreppum.
Þann 15. júní 1908 var sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu sent bréf frá stjórnarráði Íslands um breytingu á takmörkum Rosmhvalaneshrepps og Njarðvíkurhrepps. Í því kom m.a.. fram, að Njarðvíkurhreppur ásamt landi jarðarinnar Keflavíkur skuli vera hreppur útaf fyrir sig, er nefnast ætti Keflavíkurhreppur og Rosmhvalaneshreppur að fráskilinni jörðinni og kauptúninu Keflavík skuli vera sjálfstæður hreppur og heita Gerðahreppur.
Takmörk hins nýja Keflavíkurhrepps voru þáverandi takmörk Njarðvíkurhrepps og gagnvart Gerðahreppi, landamerki jarðarinnar Keflavíkur. Hélst friður um þau mörk í nærfellt 6 áratugi eða þar til 14. maí 1966, að samþykkt voru lög frá Alþingi, þar sem hreppamörk Gerðahrepps og Keflavíkur voru færð til norðurs og dregin frá Hólmbergsvita í háspennulínu ofan þjóðvegar. Nafni Gerðahrepps var breytt í Sveitarfélagið Garð þann 27. janúar 2004.

Árnarétt

Árnarétt.

Þegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála. Jarðirnar voru þessar: Hrúðurnes, Stórihólmur, Litlihólmur, Gufuskálar, Meiðastaðir, Ívarshús, Kothús, Varir, Brekka, Skeggjastaðir, Gauksstaðir, Gerðar, Miðhús, Lambastaðir, Rafnkelsstaðir og Krókur og að auki er getið hinna fornu Heiðarhúsa, sem stóð á heiðinni upp af Meiðastöðum og Rafnkelsstöðum, og enn má sjá leifar af. Heiðarhús varð klausturseign og síðar konungs, líkt og flestar jarðirnar á svæðinu. Síðar fór hún í eyði, en var nýtt frá nærliggjandi jörðum.
Mörk Sveitafélagsins Garður liggja frá Garðskagatá um Skálareyki og um fríhöfn flugstöðvarbyggingarinnar á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Margt norðan við þessa línu er í rauninni stórmerkilegt, ef vel er gaumgæft. Táknrænt er að kirkjugarður Keflvíkinga skuli vera á mörkunum – og rúmlega það. Hluti hans teigir sig inn fyrir mörk Garðs, en það er í raun lýsandi dæmi um mikinn og jafnan áhuga sunnanmanna á landssvæðinu þar fyrir norðan. Má nefna golfvöllinn nýjastan í því sambandi, en áður útræðið. Haga fyrir hross sín sækja Keflvíkingar og til Garðs.

Garður

Garður – fjárborg.

Töluverðar breytingar hafa síðustu áratugi átt sér stað í Garðinum. Leiran er komin í eyði og á landi landnámsjarðarinnar Stóra-Hólms er nú með betri golfvöllum landsins. Golfararnir mættu af og til staldra við af og til milli högga og íhuga um stund hina merkilegu sögu svæðisins fyrrum.

Leiran mun hafa dregið nafn sitt af leirunni með lágri ströndinni milli Hólmsbergs og Rafnkelsstaðabergs. Í dag er hún að mestu horfin, en hærri bakkar komnir í hennar stað. Bæði hefur gróið land sumstaðar náð lengra út (sbr. Leiruhólma, sem eitt sinn var útgerðarstaður), en sjór brotið það smám saman líkt og annars staðar á Suðurnesjum, og auk þess hefur bökkum, sem draga nöfn sín af einstökum bæjum næst ströndinni, verið hlaðið upp ofan hennar og tún ræktuð efra. Það er samdóma álit eldri manna að sandstrandir og leirur hafa verið á undanhaldi með ströndum Faxaflóa á síðastliðnum áratugum, enda mikill sandur verið tekinn víða til húsbygginga í langa tíð.
Í Leiru og Garði, ystu byggð Reykjanesskagans, hafa minjar, sem voru svo algengar hér áður fyrr, og þóttu bæði svo sjálfsagðar og eðlilegar, að ekki tók að minnast á þær í annálum eða sérstökum lýsingum, fengið að vera óáreittar. Einkum er þær að finna í Út-Leirunni, ofan og innan við Réttarholt sem og vestan við íþóttahúsið í Garði. Þessar minjar eru og verða dýrmætari eftir því sem tíminn líður. Líta má á þær sem verðmæti komandi kynslóða.

Litla-Hólmsvör

Áttir í Leiru og Garði voru jafnan einungis tvær; Inn og Út. Þannig var Leirunni jafnan skipt upp í Innleiru (Hólmshverfið) og Útleiru (Gufuskálahverfið) og Garði var skipt upp í Inn-Garð (Rafnkelsstaðir og Meiðastaðir) og Út-Garð (Útskálar, Miðhús og Lambastaðir með Mið-Garð eða Gerðahverfið á milli. Hefur þetta sennilega verið gert til einföldunar því ströndin liggur milli átta; norðvestur og suðaustur. Líklega hefur fólki fundist lítt ágreiningslaust að ákveða mörk áttanna (vestur og norður annars vegar og austur og suður hins vegar) hverju sinni, og því einfaldað þau til ágreiningsléttingar. Víða má sjá á letri hvernig íbúar á tilteknum svæðum hafa komið sér saman um viðurkennd viðmið á meðan aðkomufólk virtist hafa notað sín eigin. Þannig hefur á stundum komið upp misskilningur um leiðir og staðsetningar, allt eftir því hver um fjallar.

RáðagerðisvörÞótt byggðin hafi hörfað úr Leirunni hefur byggðin í Gerðalandi á hinn bóginn vaxið ört og þar er nú myndarlegt þéttbýli. Fyrr á tímum var oft mikið fjölmenni í Garðinum þó landrými væri ekki mikið og hjáleigur margar sem fylgdu aðalbýlum. Gegnum aldirnar hefur verið mikil sjósókn frá Garðinum enda stutt á fengsæl fiskimið. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 heimilisfastir í Útskálasókn.
Um aldamótin 1900 voru eftirfarandi bæir syðst í Leirunni, auk hjáleiga og tómthúsa. Innsta húsið í Inn-Leiru hét Bergvík. Bergvík var samheiti á bæjum þeim, er mynduðu hálfhring eða skeifu umhverfis geysimikinn mel innst undir Ritunýpu, sem er vestasta nýpan af fjórum á leiðinni til Keflavíkur. Býlin í Bergvík voru nefnd eftir eigendum sínum eða ábúendum, s.s. Einarskot, Brandskot eða Margrétarkot, Guðrúnarkot, Pálsbær og Bakki.
Framan af var ekkert hugsað um ræktun í Bergvík, nema ef vera skyldi hjá einum bónda. Hann hafði töluvert af kindum og ræktaði stóran túnblett fyrir framan hjá sér. Setti þessi ræktun hans vinanlegan svip á umhverfið. Tóku aðrir upp eftir honum að rækta bletti hjá sér, einkum kálgarða og smá túnskákir framan við húsin. Grjótmelurinn við Bergvík hefur á seinni árum verið hagnýttur sem steypuefni í Garðinum og Keflavík. Þangað var t.d. sótt byggingarefni í Garðskagavita.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Hólmsberg endar til norðurs í Berghólum. Hóllinn næstur Bergvíkurtúninu, beint upp af svonefndum Gónhól, var nefndur Gapastokkur. Talið er að strákar hafi farið djarflega framan í honum og sýnt það gapaskap þegar þeir voru að klifra. Huldufólkstrú lá á þessum hól. Hann er hár og klettóttur sjávarmegin og illfær. Þóttust menn oft heyra mannamál og áraglamur niðurundan hólnum, einkum að kvöld- og næturlagi. A.m.k. þrjár tóftir eru á og utan í Gapastokk. Austsuðaustur af Gapastokk er stór ílangur klettur, sem er eins og hús í laginu. Svolítill hnúður er á norðvesturenda hans. Steinn þessi var nefndur Álfakirkja. Gamalt fjárskjól er norðvestast á Berghólum, fast við gömlu götuna til Keflavíkur. Stóravör var beint niðurundan Gónhól.

Norður af Bergvík var Grænigarður eystri og vestari og þá Lindarbær. Vatnsbrunnurinn, fallega hlaðinn, er í Dalnum. Í leysingum fór Línlækur þar niður um. Í Dalnum var stundum þveginn þvottur. Af því dregur Línlækur nafn sitt og eftir vatnsbólinu heitir Lindarbær. Norðar með sjónum var Melbæjarbakki og norðar Melbær, steinsnar frá Bakka.

Gamli

Upp úr torfbænum að Melbæ var byggt timburhús, portbyggt með íbúðarlofti. Í þetta nýja hús var sett eldavél, niðurmúruð eins og þær tíðkuðust fyrst eftir að þær tóku að flytjast hingað til lands. Þóttu þær all nýstárlegar og hinir mestu kjörgripir, enda var þá strax farið að baka í þeim brauð og „bakkelsi“. Mun þetta hafa verið fyrsta „Maskínan“, sem kom í Leiruna, að sögn Þorbjargar Sigmundsdóttur, sem ólst upp frá fjögurra aldri að Efra-Hrúðurnesi í Leiru (fædd 15. okt. 1878). „Myndi þetta þó þykja þröngur kostur nú til dags og ófýsileg lífskjör, en samt er gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nútímafólk, sem flestir hlutir eru lagðir upp í hendurnar á, að hyggja að þeim stórstígu breytingum til bættra lífskjara, sem orðið hafa á síðar aldarhelmingi (20. aldar).“
Það mikla og raunalega atvik skeði milli jóla og nýárs aldamótaárið, að eldur kom upp í Melbæ að í ofsaroki að næturlagi og brann þar allt sem brunnið gat og þar á meðal 2 kýr í fjósinu. Mannskaði varð þó ekki og bjargðist fólkið allt, fyrst og fremst fyrir dugnað húsbóndans og áræði, en við björgunarstarfið skaðbrenndist hann bæði á höndum og andliti. Dóttir hjónanna brenndist einnig mjög mikið.

Ranglát

Ranglát.

Utan og suðvestan við Melbæ var Efra- og Neðra-Hrúðurnes, sem drógu nöfn sín af hólmanum þar utan við; Hrúðurhólma. Hann var hinum megin við svokallað Hólmasund, sem var þrautalending í Leiru og mátti lenda þar í öllum áttum, nema norðanátt. Í þeirri átt gat sundið verið stórhættulegt. Á seinni huta 19. aldar fórst þar skip af Seltjarnarnesi. Formaðurinn hét Loftur frá Bollagörðum og var nýkvæntur dóttur Guðmundar frá Nesi þegar þetta gerðist. Skammt frá var Efra-Hrúðurnes. Norðvestar var Garðhús. Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi. Það stóð næst Hrúðurnesjabæjunum. Vestar var býlið Kötluhóll. Þá kom Stóri-Hólmur.

Á göngu frá Leiru með ströndinni að Garðskagavita var tækifærið notað til að rifja upp sögu og sjósókn í Garði.
Guðmundur A. Finnbogason segir frá Leirunni í Lesbók Morgunblaðsins; „Leiran slagaði eitt sinn upp í Keflavík. Hún var þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt upp úr sjónum. Nú býr þar enginn, bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum og leika golf. Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem nam land á Mýrum og hún bjó í Leiru eða sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur.

Kistugerði

Kistugerði.

Síðan fer engum sögum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntal fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar um 51. Á Stóra-Hólmi töldust 26 til heimilis, 6 á Litla-Hólmi, 7 í Hrúðurnesi og 15 á Gufuskálum. Þrettán býli voru orðin í Leirunni árið 1801 og íbúarnir 74. Þeim hafði fækkað niður í 6 árið 1836. Eftir það færðist nýtt líf yfir plássið og býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Árið 1870 eru Leirumenn orðnir 138 og býlin orðin 16. Árið 1950 voru aðeins 5 býli eftir í Leirunni og árið 1960 stóð Stóri-Hólmur þar einn eftir.
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þar var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertíðir voru þó almesti sjósóknatíminn og oftast allra besti fiskitíminn. Úr Leirunni var oft hægt að sækja til fiskar á bæði borð, þegar frá landi var komið.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Af þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufusskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum, en færri af öðrum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan.“ Ofan við Hólm eru rústir Steina, en þar vilja sumir meina að Steinunn gamla hafi búið.
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup Fornmannadysvið Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru.

Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan. Neðar er Stóra-Hólmshúsið. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið og er umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það. Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum segir frá þessu í lýsingu Útskálaprestakalls árið 1839 að svo hafi verið mælt að á Stóra-Hólmi „hafi byggt fornmaður nokkur, sem Hólmkell hafi heitið og skal vera heygður þar í túninu.“ Ofar var annar hóll, nú sléttaður. Þar vilja kunnugir meina að hafi verið dys Steinunnar landnámskonu.

Lásarif er þarna fyrir utan. Rauf er nokkurn veginn á miðju rifinu og er hægt að róa í gegnum það um smástraumsfjöru. Raufin dregur nafn sitt af þeim, sem ruddi grjótinu, en sá hét Nikulás Björnsson og bjó þá í Nýlendu. Miklum björgum hefur Lási þurft að bylta til, er hann ruddi raufina, en það gerði hann einn, nema hvað dóttir hans mun hafa hjálpað honum.

Á Hólmi gerðist frásögn af smala nokkrum er hlaut mein í látum. Meðan smalinn lá veikur mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum. Það var gert þegar að honum látnum; skammt fyrir innan hliðið á garðinum og letursteinn settur yfir. Sást steinn þessi til skamms tíma, en FERLIR hefur leitað að honum um alllangt skeið, en ekki fundið.

Norðar var bærinn Nýlenda. Fyrir ofan hann stóð bærinn Rófa. Utar var Nýlenda og Steinar. Tóftir sjást enn. Austar og nær sjónum stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum. Fyrir utan Stóra-Hólm og ofan við Bakkakot voru býlin Traðarkot og Steinar, hið síðarnefnda litlu ofar. Litlu ofar við þessa bæi var Hábær. Næst Bakkakoti var Litli-Hólmur. Litla-Hólmskotin voru talin þrjú um aldamótin 1900.

Gufuskálar

Brunnur við Gufuskála.

Leiran var góð veiðistöð og lá vel við til sjósóknar. Það var því algengt, að formenn af Innnesjum lægju þar við með skip sín fram til sumarmála, er fiskur fór að veiðast inni í bugtinni. Það voru formenn af Álftanesi, Seltjarnarnesi og Reykjavík.
Tvær stórar verbúðir voru í Leirunni. Önnur var í Bergvík. hana átti Brynjólfur í Engey. Hin verbúðin var rétt fyrir vestan Melbæ, á grandanum milli Neðri-Hrúðurness og Melbæjar. Var það geysimikil bygging, í daglegu tali kölluð „Skökk“. Mun nafnið hafa stafað af því, að þegar nýbúið var að reisa verbúðina, gerði afspyrnu rok, svo hún skekktist á grunninum og varð aldrei lagfærð aftur. Þetta var timburkofi, ein hæð og dálítið ris. Þar voru oft 3-4 skipshafnir og jafnvel fleiri. Vertíðina 1910 voru þar 4 skipshafnir með 28 manns, en á tímabilinu 1901-1905 höfðust við í „Skökk“ 7 skipshafnir. Skökk stóð innan við og á bakka Línlækjar.

Í Leirunni var reist dágott samkomuhús þar sem allir fundir stúkunnar Vonarstjörnunnar voru haldnir svo og þær skemmtanir er til féllu. Áramótafagnaðir voru haldnir í húsinu og álfadans á Hólstjörn, sem lá utan við Hrúðurnestúnið í Hólslandi, en á þessari tjörn var oft ágætt svell.

Til að komast til Keflavíkur voru gengnar „eggjarnar“, það er þrædd bergbrúnin, en þar var yfirleitt þurrast yfirferðar. Gatan þótti oft aurug fyrir fótgangandi.

Svo virðist sem lífsviðurværi fólksins í Leirunni hafi að langmestu leyti verið sótt til sjávar, en fátt verið af skepnum. Sel frá bæjunum voru engin, enda kannski heiðarlandinu ekki fyrir að fara. Skepnuhaldið fór því nær eingöngu fram við bæina, fjöruna og næsta nágrenni. Á Leirunni mátti hafa sauðfé með nákvæmri aðgæslu fyrir sjó. Misstu bændu oft fé sitt í sjóinn, því fyrir utan Hólm og innan Gufuskála er bás, sem Sjálfkvíar heita, er fé vildi oft flæða, en ómögulegt að bjarga, því þverhnýptir klettar eru fyrir ofan.

Garður

Letursteinn á fornmannaleiði í Garði.

Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var

höggvið sálmavers.“

Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“).

Litli-Hólmur

Litli-Hólmur.

Íbúðarhúsið að Litla-Hólmi stendur enn. Á Litla-Hólmi var búin til eða rudd vör um 1790 „með ærna uppákostnaði; hafði sá, að sögn, sem það gerði, þegið 100 dala verðlaun af kóngi,“ að sögn Sigurðar B. Sívertsen. Litla-Hólmsvör var langmest mannvirki af öllum vörum í Leiru. Aðrir segja hana endurbyggða af Páli bónda Jónssyni, er þar bjó á seinni hluta 19. aldar. Vörin er 50 m löng, 10 m breið og vegghæð um 2 m. Margir steina í vegghleðslunni munu vega yfir eitt tonn, sumir allt að 2 1/2 tonn. „Er hleðslan gerð af meistarahöndum og raunar hið mesta þrekvirki, svo gengur undrum næst, hvernig verkfæralaus maður hefur getað framkvæmt þetta,“ segir Ari Gíslason í örnefnalýsingu sinni um Innleiruna.

Utar er Leiruhólmi. Á klettakoll í honum er klappað LM, merki um landamörk. Sunnar er annar hólmi, Hrúðurinn. Hrúðurnes var þar fyrir ofan í Leirunni. Sagnir herma að Þjóðverjar hafi verslað í Leiruhólma, að líkindum í lok miðalda. Þaðan var mikið útræði, enda fjölmennt.

Kistugerði

Letursteinn við Kistugerði.

Steinsteypt, hálfhrunið hús, stendur milli Hólmsbæjannna. Að sögn Ásgeirs Jóelssonar var skólahúsið í landi Nýlendu í Leiru byggt 1910. Húsið var einskólastofa og anddyri. Fyrir utan skólahald fóru þar fram ýmisskonar mannamót: þingfundir, leikritaflutningur og dansleikir. Húsið var 13 x 9 álnir eða rúmir 43 fermetrar að utan máli. Það varsteypt úr 1 hluta af sementi á móti 12 af möl, sem var sótt niður ífjöru. Mikið grjót var sett í steypuna sem var ójárnbent. Fyrir miðju og eftir endilöngum grunninum er veggur sem átta burðarbitargólfsins hvíldu á og eru úrtök fyrir þá í hliðarveggjunum. Skólinn var hvítkalkaður að utan með rauðmáluðu þaki, vængjahurð og gluggum. Sjávarmöl var í stétt meðfram efri gafli og aðalhliðhússins. Í norðurhlið rústanna, sem enn stendur uppi, eru festingar fyrir kamar sem þar stóð.

Í Út-Leirunni, eða Gufuskálahverfinu, stundum nefnd Útleira. Voru nokkrir bæir um aldamótin 1900. Höfuðbólið var Gufuskálar. Næst Gufuskálum var Vesturkot, Hausthús og síðan Kónsgerði efst (nyrst) í túninu. Í Landnámu segir að á Gufuskálum hafi tekið land Ketill gufa Örlygsson ásamt þrælum sínum írskum og setið þar einn vetur, en síðan haldið í leit að jarðnæði.

Smærnavellir

Land Gufuskála byrjar við Sjálfkvíar. Í rifi, beint fram undan Sjálfkvíum, eru nokkrir stórir steinar, Þyrsklingasteinar, og einn þeirra stærstur. Steinar þessir eru alltaf upp úr á fjöru. Oft réru menn fram fyrir þyrsklingasteina og drógu þaraþyrskling. Var það kallað að róa á þarann. Innan við rifið er stórt lón, Sjálfkvíalón. Um 100 m norðar er skarð inn í klettana, kallað Kista. Vatnagarðar, tvo lítil dalverpi, voru skammt norðan við Kistu.
Gamli bærinn stóð aðeins austar, en í miðju túni – á sama stað og bærinn stendur nú. Bæjarhóllinn var ýmist nefndur Hóllinn eða Gufuskálahóll. Hóllinn mun að mestu leyti vera forn öskuhaugur. Háar klappir í túninu ofan við bæinn heita Kastali. Kastalahliðið var á túngarðinum ofan þeirra.
Tómthúsið Kóngsgerði hefur um sig dálítið gerði. Þaðan var konungsútgerð á tímabili. Mun gerðið af því hafa fengið nafn sitt. Kóngsgerði fór í eyði 1915.
Ofan þjóðvegarins eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.

Langholtsvarða

Langholtsvarða.

Á holtunum eru vörður; Langholtsvörður. Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum.

Uppsprettulind er þar sem bærinn Nýlenda stóð, rétt hjá gamla barnaskólahúsinu. Önnur lind er ofan við Gufuskála, við Huldufólkshamar. Einnig á klöppunum ofan við Litla-Hólm. Hún er fallega hlaðin úr steini og er hún það eina em stendur eftir af bænum Vesturkoti í landi Gufuskála.

Þegar komið er að Garði er fyrst komið að Rafnkelsstaðabergi. Bergið er ekki hátt, en af ofviðum þess ber Ellustekkur við sjónarrönd í vestri. Áður fyrr var byggðin svo dreifð um allan Garð að hún var hæfileg blanda af þorpi og dreifbýli – og hafði kosti hvors tveggja. Við Rafnkelsstæði er Kistugerði þar sem þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík.

Garðaskagaviti

Garðskagaviti.

Skúli Magnússon segir í Faxa, október 1999, frá Elínarstekk (Ellustekk) utan við Garð.
„Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.
Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.

Spil

Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. frá Bergþóri er bjó á Rafnkelsstöðum. „Hann var maður fjáður einkum að sjávarútvegi og átti mörg skip. Það var þá siður að gjalda sjómönnum skiplag sitt í mjöli, hverjum tvo fjórðunga eða þá annan í mjöli en hinn í hörðum fiski og færið skyldu þeir fá að vertíðarlokum; flestir létu þá fá stykki úr gömlu færi.
Þar var með sjómönnum Bergþórs unglingspiltur úr Norðurlandi ósjóvanur. En er hann vó skiplagið í þetta skipti vildi hann ekki gjalda drengnum nema helminginn og lét hann gjalda þess er hann var ekki sjóvanur.“ Sagan er lengi en óþörf ílengdar hér.

Vindmyllustandur

Innsti bærinn í Garði er Rafnkelsstaðir, þá koma Meiðastaðir, síðan Kothús niðri við sjóinn og Varir þar skammt fyrir utan. Í landi þessara jarða standa nú íbúðarhús, sem reist hafa verið á seinni árum eftir að fólki fór mikið að fjölga í Garðinum. Í vörunum var mikið útræði, enda lending þar góð um sund sem Varaós var. Ósvarða er ofarlega í heiðinni. Frá Rafnkelsstöðum að Garðskaga teljast 14 nafngreindar varir er segja nokkuð til um fjölda uppsátra þarna við ströndina fyrrum.
Neðan við fiskhúsin er ós, sem nefnist Kópa. Inn úr henni eru Meiðastaðavör og Rafnkelsstaðavör, erfiðar varir. Fyrir ofan veg, uppi í heiði, er Árnarétt, skilarétt. Hana byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi. Réttin er skemmtilega hringhlaðin, víðast hvar mannhæðar há.

Hér er einungis helstu býlanna getið, enda of langt mál að telja upp öll kot og smábýli líkt gert var í Leirunni.

Garður

Garður – Heiðarhús.

Í Inn-Garðinum utan við Leiruna tók hver bærinn við af öðrum. Fyrst Rafnkelsstaðir, síðan Meiðastaðir, Ívarshús og Kothús, sem áður hétu Straglastaðir og Darrastaðir. Því næst komu Varir þar sem fyrir var ágæt lending eða sund, sem Vararós hét. Kóngsmenn, sem voru í Leirunni á 17. öld og réru frá Kóngsgerði, sáu að betra var að róa úr Garði þegar fiskur var í Garðsjó, og búið til vör í Varós, sem síðan var kölluð Kóngsvör.
Þegar segl- og áraskip voru notuð í Garði, var ávallt sett kjölfesta í skipin, sem kölluð var ballest, til að skipin væru hæfari undir seglum. Þetta var grjót, misstórt, sem tekið var í skipið, eftir að það var komið á flot. Það fór eftir sjávarföllum, hvar ballest var tekin. Norðan megin að innanverðu við sundið Varós var grjótkampur, sem oft var tekin ballest úr. Þegar skipin komu að landi, var balllest hent ú þeim í rfið, því það var ekki lent fyrr en það var gert. Þetta rif var kallað Ballest.
Brekka og Skeggjastaðir heita næstu jarðir og Gauksstaðir nær sjónum. Sjávarmegin við Brekku er forn brunnur. Heimildir kveða á um að gengið hafi verið niður í brunn þennan. Vel sést móta fyrir honum norðaustan við húsið.
Vestan við Gauksstaði er ós inn úr sjó er heitir Skólatjörn. Eiðið ofan við tjörnina er nefnt Steinbogi. Þar er kringlótt byrgi til að þurrka fisk. Gauksstaðaurðin er utan við tjörnina. Þar var fyrsti skólinn.

Garður

Skagagarðurinn.

Þá er komið að Gerðum, “sem er falleg jörð; þar er útræði mikið og fiskisælt”, segir í sóknarlýsingu. Í Gerðum myndaðist fyrst vísir að þéttbýli Garðsins með tilkomu Milljónafélagsins, sem stofnaði útibú í Gerðum árið 1907. Gekk hús það er félagið reisti lengi undir nafninu Milljón. Félagið rak bæði útgerð og verslun og dró það fólk að plássinu svo að um tíma var Garður fjölmennesta byggð Suðurnesja, enda gengu þaðan allt upp í 70 áraskip til fiskveiða á vertíðum.

Fram af Gerðum var hólmi; Gerðarhólmi. Hann er nú sker, en álitið er að hann hafi áður fyrr verið gróið land. Gerðasíkin, tvö vötn, voru nefnd Innrasíki og Ytrasíki. Gerðabakka eru sjávarbakkinn fyrir neðan Síkin. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður og stendur bærinn enn. Ofan við þjóðveginn, að sjá í Ósvörðuna frá bæ, heitir Gerðastekkur.

Engill

Með hnignun félagsins varð afturför í atvinnu Garðbúa og fólki fækkaði og tók ekki að fjölga aftur fyrr en nýir tímar komu með önnur tækifæri í útgerðarmálum. Þá var sökum hafnleysis í Garðinum, farið að flytja þangað fisk til verkunar, sem skapað hefur mikla atvinnu. Auk þess hafa allmargir byggt sér hús í Garði, en stunda atvinnu annars staðar.
Gerðaskóli er nú ofan við Gerðar. Gamla skólahúsið, sem var við Skólatjörnina vestan við Gauksstaði, var einn elsti barnaskóli landsins (reyndar þriðji elsti), tók til starfa 1872 með 20 börnum. Var hann reistur fyrir frjáls samskot með forgöngu séra Sigurðar Sívertssen á Útskálum. Seinna var skólinn fluttur að Útskálum. Þá keyptu góðtemlarar skólahúsið í Gerðum og var það jafnan nefnt „Gamli templarinn“. Nú stendur stór bautarsteinn með áletrun á þeim stað, sem skólinn stóð, en húsið var rifið fyrir skömmu.

Miðhús og Krókur voru ofan við Miðhúsatjörnina. Nú stendur húsið Sólbakki á og norðan við bæjarhól Króks. Austan undir honum var Króksbrunnurinn; annar tveggja í Garði er ósaltir voru. Útskálar áttu vatnstökurétt í brunninum.

Fyrir utan (vestan) Gerðahverfið tekur við Út-Garðurinn. Þar gerðist byggðin strjálli. Þar eru Útskálar og Vatnagarðar, hús austan við nyrsta síkið, Garðhús, Prestshús, Móakot, Nýibær, Akurhús og Lónshús. Tvær lendingar tilheyrðu staðnum; Króksós og Lónsós. Fyrrnefnda lendingin var stundum nefnd Útskálaós og jafnvel Biskupós, hættuleg og vandmeðfarin þegar brimasamt var.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Gerðavörin var utan við núverandi hafnargarð, en inni í höfninni móta enn fyrir hlöðunum hleðslum og bökkum. Steyptur þvergarður, sem þar er efst, eru leifar frá Milljónafélaginu.
Eitt er það hús, sem þarna er, lítið, en tvílyft; Unuhús. Þar bjó Una í Garði Guðmundsdóttir, en húsið hét áður Neðri-Sjólist, en Una var jafnan sögð búa í Skúlhúsi. Um tíma var bókasafn Gerðargrepps í húsinu, þótt ótrúlegt megi virðast.

Mór var eingöngu tekinn í flæðamáli (fjörumór). bestur þótti hann á Nýjabæjarfjörum. Þar var mór tekinn á stríðsárunum fyrri.
Rétt við gamla bæinn á Lambastöðum er ysta uppsátrið á skagagnum, Lambastaðavör. Þarna var brimasamt og ekki hægt að lenda nema boðarnir, þ.e. Ljóssveinar og Þórðarflös, lægju niðri. Farið var inn í lendinguna um rennu er hét Lækur.
Utar er Lambastaðarétt eða Helgarétt því hún var stundum kennd við bónda sem bjó á Lambastöðum. Sennilega hefur hún áður verið skilarétt fyrir hreppinn, en seinna aðeins heimarétt Lambastaða.

Neðar eru Síkin; nyrst Útskálasíki, þá Miðhúsasíki og syðst Gerðasíki, milli byggðarinnar og grandans við sjóinn. Hér áður fyrr virðast síkin einungis hafa verið tvö því sr. Sigurður B. Sívertssen kallar þau árið 1939 Innra-Síki og Ytra-Síki. Þar gengu kýr á sumrum. Í örnefnaskrá greinast þau í Gerðasíki, sem skiptist í Innrasíki og Ytrasíki, Krókasíki og Útskálasíki.
Krókvöllur og Bræðraborg heita hús nær veginum við vegamótin suður í Sandgerði. Bræðraborg er heiti á fallegum skrúðgarði, sem rækt hefur verið lögð við hin síðari ár. Skammt austar er fornmannaleiði og rúnasteinn. Hvorutveggja er norðan við íþróttahúsið. Þar eru og tóftir nokkurra heillegra kota, en ástæða væri til að varðveita og jafnvel endurgera að hluta.

Garður

Garður 1903 – kort.

Þegar skoðað er landslag í Garði má víða sjá hóla. Þeir voru svo til allir manngerðir og munu vera gamlir bæjarhólar. Í þeim öllum eru mannvistarleifar frá fyrri tíð. Miðhús stendur nú á sléttlendi, en útihúsin norðar eru utan í gamla bæjarhólnum.
Norðan við íþróttahúsið var Smærnavöllur, en neðst í því landi hétu Vegamót og ofar Bali. Í þessu fyrrum landi Smærnavalla, er haugur fornmannsins og letursteinn, sem fyrr nú verður sagt frá.

Í sögunni af þessum steini haugbúans segir að „Í Lykkju í Garði suður hefir búið maður sem Þorsteinn hét. Hann byggði bæ sinn og aflaði víða grjóts til hans. Þar allnærri var steinn mikill og fagur og voru á hann ristar fornar rúnir. Hugðu menn hann þar settan á dys fornmanns einhvers, mundu rúnirnar segja hver hann var en þær gátu menn eigi lesið en hitt þóttust menn sjá að vel var um búið undir honum. Þennan stein vildi bóndi færa heim en aðrir sögðu illt af hljótast ef það væri gert og úrtöldu það. En bóndi réði og var steinninn heim færður af mann söfnuði og hló bóndi að hjátrú manna að óttast slíkt.

Hríshólavarða

Næstu nótt dreymir bónda það að til hans kemur jötunvaxinn maður all-fornlegur að ásýnd og búnaði; hann er þýðlegur á svip. Biður hann bónda góðlátlega að færa steininn þangað sem hann var. Skilur bóndi að hann muni vera fornmaður og vera heygður undir steininum. Bóndi þykist færast undan því, það kosti svo mikla fyrirhöfn. Þótti manninum auðsjáanlega fyrir þessu og hvarf burtu.

Aðra nótt kom hann aftur og var nú hægur og alvarlegur og talar enn með alvörugefni um hið sama en er nú allt þyngri í orðum og hálf-ógnandi en allt fer sem fyrr.
Þriðju nóttina kemur hann og er nú svo grimmilegur að bónda stóð stuggur af honum. Býður hann bónda nú með harðri hendi að flytja steininn sinn í sinn stað og segir hann skuli annars verra af fá. Bóndi svarar því lítt. Sýnist honum nú eigi betur en hann muni ráða á sig og við það hrekkur hann upp og finnst þá að hann sjá svip þann er hann hvarf frá honum burt. En annaðhvort hafði hann þá komið steininum fyrir í vegg eða hann ætlaði þetta draumskrök orsökuð af hræðslu annarra því eigi færði hann steininn á dysina.

Garður

Garður – vindmyllustandur.

Nú kom það fyrir rétt um þetta bil að hafólgu gerði og brim mikið, tók sjórinn þá 10 skippund af saltfiski er Þorsteinn bóndi átti. Vitraðist honum þá enn haugbúinn og spurði hvort hann vildi enn eigi undan láta. En eigi er þess getið að Þorsteinn bilaði. Þá missti hann stórgrip. Og enn kom haugbúinn reiður. En Þorsteinn sat við sama keip. Síðan kom haugbúinn hverja nótt af annarri, verri og verri, svo Þorsteinn fór að ugga um líf sitt. Lét hann þá loks undan og lét færa steininn á sinn stað og ganga frá honum eins og hann var áður. Segir sagan að helmingi færri menn hafi þurft til að færa steininn til baka. Sá hann aldrei haugbúann síðan.“
Steinninn stóð áður á þremur öðrum, en þegar honum var skilað varð frágangurinn ekki sá hinn sami og áður var. Ofan við steininn er manngerður haugur. Þar er fornmaðurinn, haugbúinn, talinn hvíla.

Í Garðinum var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.

Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr SteinnGarðinum og komu þeir úr öllum landshlutum. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í skókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar. Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.

Á 19. öldinni fór vegur Gerða vaxandi og eftir aldamótin 1900 með tilkomu Milljónafélagsins, sem fyrr sagði, varð þar mikil útgerð. Þar er nú bryggja bæjarins og helstu fiskvinnslufyrirtækin. Um verstöðina Garð má lesa í bókinni Gerðarhreppur 90 ára eftir Jón Þ. Þór. Þar lýsir hann m.a. fiskverkunni og þróun atvinnuhátta í byggðalaginu.

Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.

Garður

Spil við Helgustaði.

Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.

Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.
Víða má sjá steypta stöpla við hús í Garðinum. Þarna er um að ræða vindmyllustanda, en þeír voru undirstöður vindmyllana, sem voru undanfari rafvæðingarinnar. Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.
Nú eru 1322 (1.des. 2004) íbúar í Garðinum.

„Utan við Leiruna tekur við Inn-Garðurinn,“ segir sr. Sigurður Sívertssen í lýsingu sinni á Útskálaprestakalli 1839. „Fyrst eru Rafnkelsstaðir (sem byggð skyldi hafa verið af Rafnkeli nokkrum, sem heygður skyldi hafa álandareigninni með kistu sinni, í svokölluðu Kistugerði; er þar steinn með rúnaletursstöfum nokkurm, sem menn þó ekki vita nema seinna hafi verið klappaðir). Milli Leirunnar og Inn-Garðsins er strandberg fram við skó, sem heitir Rafnkelsstaðaberg, og ekki nema bæjarleið á milli.“
Frá Rafnkelsstöðum syðst voru helstu jarðirnar Meiðastaðir, Kothús, Varir, Gerðar, Miðhús, Útskálar og Lambastaðir svo einhverjar séu nefndar. Heimamenn skiptu Garðinum oft í tvennt; Inn- og Út-Garð, og síðan í þrennt; Inn-Garður, syðst, Mið-Garður, Miðskála-Garður eða Gerðahverfi og Út-Garð nyrst. Er sjávarútvegur tók að eflast til muna á 14. og 15. öld, jókst mjög ásókn kirkju og klaustra í góðar sjávarjarðir. Þá komust margar jarðir á þessum slóðum í eigu Viðeyjarklausturs og urðu síðan konungseign, er konungur lagði undir sig eigur klaustranna eftir siðaskiptin. Þá varð Garðurinn ein helsta miðstöð konungsútgerðarinnar hér á landi.

Garður

Garður – letursteinninn.

Á Útskálatorfunni er rúmt um kirkju og prestsetur þar sem þau standa á lágum hól í stóru sléttu túni. Þetta eru gamla og virðulegar byggingar. Kirkjan stendur lægra, innan kirkjugarðs, byggð 1861 og kostaði 1725 ríkisdali. Hún er í góðri hirðu og viðhaldi, enda hefur söfðnuður Útskálasóknar alltaf látið sér einkar annt um hana eins og vel kom fram á aldarafmælinu 1961.

Kirkjan að Útskálum var reist að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Grafsteinn hans er aftan við kirkjuna og minningarskildir um hann og konu hans, Helgu, hanga uppi í anddyrinu.
Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.
Í kirkjugarðinum vekur athygli hvítmálað konulíkneski, sunnan undir kirkjunni. Hún heldur á barni og leiðir annað með sér við hönd. Þetta er Gytta Jakobine Fridrika Lever, sem árið 1832 giftist Thomsen faktor Flensborgarverslunar í Keflavík. Þau eignuðust 3 börn, misstu 2 þeirra nýfædd og sjálf andaðist Gytta “af brjóstveiki og tæringu” haustið 1835 og var jarðsungin að Útskálum 6. nóvember. Þrem árum síðar fluttist Thomsen faktor til Reykjavíkur þar sem þeir feðgar gerðust umsvifamiklir kaupmenn. En sinnar ungu konu minntist hann með því að reisa henni þennan eftirminnilega bautastein.

 

Garður

Garður – haugur fornmannsins.

Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör. Það var með öllu óþekkjanlegt. Það var jarðsett í Útskálakirkjugarði og á gröfinni reistur fallegur en látlaus minnisvarði um óþekkta sjómanninn. Er þessa jafnan minnst við sjómannadagsguðsþónustur í Útskálakirkju.

Í sögu Sigfúsar af „Börnunum að Útskálum“ er sagt frá Brynjólfi prestur Sívertsen á Útskálum 1826-37. Grafsteinn hans er við hlið grafsteins sr. Sigurðar í Útskálakirkjugarði. Hélt hann tvö fósturbörn, afkvæmi fátækra foreldra. Voru þau heitin í höfuð þeim hjónum og hétu Brynjólfur og Ragnheiður. Þau voru bæði efnileg.
Þegar þau voru 12 og 13 ára tók Ragnheiði litlu að dreyma það að til hennar kom í þrjár nætur eina eftir aðra kona nokkur allmikilúðleg og ferleg að sjá og bað hana fara með sér.

MiðengisbrunnurRagnheiður spurði hvaðan og hver hún væri. „Ég á heima í Steinbítsklettum,“ svaraði hún.
Svo hvarf hún og liðu nú tímar fram og allt þar til á sauðburði. Þá voru börnin einn dag að mala korn í handkvörn. Kom þar þá nágranni þeirra og sagði þeim frá því að ein af ám fóstra þeirra væri borin úti á Skaga svo sem venjulega stekkjarleið frá bænum og kvað hann þurfa að huga að henni. Börnin fóru þá bæði að vitja ærinnar. En hvorugt þeirra hefir sést síðan og ekkert er þeim viðkom nema hálsklútur Brynjólfs, hann var vafinn utan um stein í flæðarmáli.

Grynningar eru þar með landi fram. Veður var bjart og kyrrt um daginn. Engin torfæra segja menn að væri þar til á leið barnanna. Og með því að öllum mönnum var óskiljanlegt hvarf þeirra þá leiddust ýmsir menn til að setja það í samband við draum Ragnheiðar litlu og trúðu einstakir menn því að sækona og þá einkum margýgur hefði numið til sín þau fóstursystkinin.

Þrívörður

Í Grímu hinni nýrri segir frá séra Þorsteini á Útskálum á 17. öld. Hann var allvel viti borinn og vel að sér en þótti stærilátur og hjátrúarfullur og fór með fjölkynngi. Almælt var að hann hafi fyrstur manna gert mynd af Hallgrími Péturssyni þegar hann var nágrannaprestur hans á Hvalsnesi. Þegar séra Þorsteinn tók að eldast varð hann líkþrár og blindur; samt sem áður gat hann barn í hórdómi og missti fyrir það kallið. Það var honum þvernauðugt og gerði hann allt hvað hann gat til að halda kallinu, fór til alþingis, þótt veikur væri orðinn og talaði máli sínu við höfðingja. En það kom fyrir ekki og var séra Þorleifi veitt kallið. Þó varð nokkurt þóf um mál þetta, því að séra Þorsteinn vildi ekki standa upp af staðnum góðviljuglega og séra Þorleifur hikaði við að ganga að staðnum á meðan séra Þorsteinn væri þar kyrr; hefur hann ef til vill haft beyg af fjölkynngi prests.
Prestur var fluttur að Setbergi í Garðahverfi og átti hann þá jörð sjálfur. Þar lifði hann nær fjórtán ár eftir þennan atburð. Ekki lagði hann niður hjátrú sína og hindurvitni og lét jafnvel á banasænginni lesa þesskonar fræði fyrir sig. Finnbogi sá, er fyrr var nefndur, varð eigi gamall; sætti hann vélráðum af Magnúsi félaga sínum, sem öfundaði hann af gáfum hans og kunnáttu. Eiríkur varð prestur og bjó að Vogsósum og var nafnkunnur fyrir þekkingu sína í töfrafræðum, og eigi síður hitt, hvað hann var góðgjarn og hjálpfús og fór vel með kunnáttu sín.

Prestsetrið að Útskálum var byggt árið 1890 og hefur í gegnumtíðina veriðmikið stolt Garðmanna. Þarna var Sparisjóðurinn í Keflavík stofnaður, einnig sveitarfélagið Gerðahreppur og þar var lengi myndarlegt skólastarf. Það þarf þú að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga.

Útskálar

Harðindin birtust fólki í sjávarplássunum í köldu verði og fáfiski, en ekki síður fyrirvaralaust. Fyrir kom að hann brast á með ofasveðri upp úr þurru, jafnvel um miðjan dag, þótt veðurítlit væri bærilegt þegar ýtt var úr vör að morgni. Veturinn 1685 var að sögn Jóns Espólín nefndur „mannskaðavetur“, en það ár er talið að milli 180 og 190 mann hafi farist í sjó hér við land. Flestir fórust á einum degi, 8. mars, en þá drukknuðu alls 136 menn, langflestir af Suðurnesjum. Úr Garði fórust þrjú skip þennan örlagaríka dag og með þeim 13 menn. Nóttina eftir rak alls 47 lík á land í Garði og á Miðnesi. Í eina gröf voru lagðir 42 menn í Útskálakirkjugarði.

Allt um kring eru hinar gömlu hjáleigur, sem eru orðnar sjálfstæðar jarðir fyrir löngu: Vatnagarður niðri við sjávarkambi (var jafnan tómthús, nú í eyði), Garðhús, Presthús. Móakot, Nýibær, Akurhús I og II, Lónshús á sjávarkambinum utan við Akurhðúsatúnið. Í gamla daga voru Útskálar með öllum sínum fylgijörðum metnir á 41,8 hundruð. (Eitt hundruð var jafngildi einnar kúar og 6 áa með lömbum). Það gaf prestinum talsvert í aðra hönd í eftirgjöldum. Aðalkostur brauðsins var samt útræðið úr tveimur lendingum staðarins (Króksós og Lóninu) því að “í Út-Garðinum er fiskisælt, og ber sjaldan við, að fiskilaust sé, og aldrei til lengdar,” segir Sigurður B. Sívertsen í sóknarlýsingu sinni 1839. Nafn séra Sigurðrar minnir á að hann var einn hinn kunnasti í langri röð Útskálapresta, ekki síst fyrir annál sinn og aðra fræðimennsku. Honum eigum við að þakka mikla vitneskju um menn og málefni á Suðurnesjum á fyrri öldum.
ÚtskálarÍ sóknarlýsingu sinni nefnir séra Sigurður m.a. eina jörð í Út-Garðinum – Lambastaði. Það höfðu Kirkjubólshverfingar á Miðnesi lendingu þegar þeir stunduðu róðra inn á Garðsjó vegna langræðis á vertíðarslóðir Miðnesinga. Lambastaðavörin er „myndræn“ eins og hún er í dag, með gömlu lúnu tréspili ofan til, gömlum fúnum trébát á hvolfi efra og vel gróið í kring.

Rúmum 40 árum síðar, þ.e. í lok fyrra stríðs 1916-1918, var öðruvísu um að litast á Skaganum. Þá var hann orðinn að risastórum kálgarði. Hafði ríkið stofnað til þessarar ræktunar í kartöfluleysi Norðurálfuófriðarins og allir Garðbúar sem vildu fengu vinnu við að tína jarðepli upp úr sendinni moldinni. Þessi ríkisræktun á kartöflum á Garðskaga stóð í þrjú ár. Plægðir voru 4 ferhyrndir reitir, 100 m á kant, þara ekið á flögin úr hrönnum í fjörum Skagans og það látið nægja sem áburður. Útsæði var sent úr Reykjavík og skipað upp í Lambastaðavör. Undirvöxtur varð ekki eins mikill og menn væntu. Var kennt um of einhæfum áburði. Næsta sumar gekk betur. Svipuð ræktun var reynd á Eyrabakka, en þar segja fróðir menn að ræktunin hafi gengið afar illa, enda hafi heimamenn jafnan etið útsæðið áður en það komst í jörðina.
Kartöfluræktunin á Skaganum stóð í 3 ár. Eftir það var Skaginn fljótur að gróa sára sinna og varð aftur hið besta tún og gott beitiland fyrir gripi Útskálaprests.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Garður dregur nafn sitt af Skagagarðinum og því er því mannvirki gerð nokkuð góð skil hér á eftir. Sumir gætu haldið að Garður tæki nafn af hinum mörgu og miklu grjótgörðum, túngörðum, sjóvarnargörðum, landamerkjagörðum, fiskigörðum, matjurtargörðum, görðum í kringum staka túnbletti og fleiri, sem þar eru, en sú er ekki raunin því þá héti staðurinn Garðar. Gísli Sighvatsson á Sólbakka sagði Gunnari M. Magnúss að garðarnir í Garðinum væru um 60 km samanlagt. Njáll Benediktsson segir þó öndvert í örnefnalýsingu sinni árið 1979 að „Innnesjamenn, sem fóru út á Skaga, sögðu, að þeir færu „út í Garð“ eða „út í Garða“. Af þesssu held ég að nafnið „Garður“ hafi komið.“

Stefán Pálsson, sagnfræðingur, hefur sagt frá Skagagarðinum mikla, sem Garður dregur nafn sitt af og prýðir einkennismerki bæjarfélagsins. „Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.
Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.

Leiran

Horft yfir Leiruna af Berghól.

Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.“

Eftirfarandi frásögn Magnúsar Gíslasonar í Garðinum um Skagagarðinn er í félagsriti Landssambands eldri borgara, 9. árg. 2004:

„Menn hafa lengi velt fyrir sér hvaðan Garðurinn dregur nafn sitt. Margir telja hann draga nafn sitt af því, þegar jarðeigendur voru að ryðja grýtta jörðina til ræktunar fyrir bústofn sinn og nýttu grjótið í garðhleðslu bæði til skjóls og varnar ágangi dýra. Talið er að garðarnir í hreppnum hafi náð 60 km að lengd og af þeim sé nafn byggðarlagsins dregið.
Aðrir telja að það fái ekki staðist. Samkvæmt íslenskum málvenjum ætti það þá að heita Garðar. Þeir sem hafa rannsakað nafnið ofan í kjölinn fyllyrða að Garðurinn dragi nafn sitt af Skagagarðinum mikla sem var 1500 metra langur, hlaðinn úr hnausum og grjóti og náði meðalmanni í öxl. Var hæð hans í samræmi við ákvæði um garða í landbrigðaþætti Grágásar, lögbók þjóðveldisaldar. Þar segir að taka skuli menn tvo mánuði ár hvert til hleðslu. Augljóst virðist að garða hafa landnámsmenn byrjað að hlaða næst því að velja sér bæjarstæði, af þeirri gildu ástæðu að kvikfé var grunnur undir tilveru þeirra og vörslugarðar því nauðsynlegir.“

Brunnur

Brunnur við Litla-Hólm.

Litla-Botnssel

Í Lesbók Morgunblaðsins 1933 fjallar Magnús Lárusson um „Hvalfjörð„.

„Ó, fjörður væni, sœll að sýn
í sumarsólar loga.
Hve framnes, björg og flóðvík þín
í faðm sjer hug minn toga.
Hvar stenst öll prýðin eins vel á
við insta botn og fremst við sjá?
Hvar sje jeg fleiri fjöllin blá
og fegri marar-voga?“ – Steingr. Thorsteinsson.

HvalfjörðurSumarið er liðið og vetur genginn í garð. Ferðalögum út í guðsgræna náttúruna er lokið að þessu sinni. En hafi nú sumarið komið á náin í kynni yið einhvern fagran og svipmikinn stað, er gaman að geta brugðið sjer til hans að loknu dagstritinu, þegar húmar og kaldir vindar gnauða — látið þá hugann bera sig til hans. Og sá maður eða kona er úr „skrítnum steini“ , sem ekki á sjer einn eða fleiri ástvini í ríki hinnar íslensku náttúru.
Einn af fegurstu stöðum ættjarðar vorrar er Hvalfjörður. —
Hann skerst inn í landið úr Faxaflóa, milli Kjalarness að sunnan og Akraness að norðan, nálægt 17 sjómílur að lengd. Norðan megin við hann gnæfa Akrafjall og Skarðsheiði, sem verið hefir spákona okkar hjer um norðanátt, því að það bregst varla að hún skauti þá hvítum þokubólstrum, þegar norðanáttin er í aðsigi. —
Sunnan megin fjarðarins er Reynivallaháls og góðkunningi okkar hjer, hún Esja: „Þú aldraða vina með björgin þín hlá, undir blœfögru hrímguðu þaki“.
Á innnesi situr þú sviphrein og há með sögurnar mörgu að baki eins og „Muninn“ mælir til hennar um haust. Og svipað munu margir hugsað hafa.
Fleiri fjalla er að minnast, t.d. Þyrils, þar sem Helga jarlsdóttir, harmi lostin og þjökuð af sundraun, kleif upp einstigi það, sem enn er við hana kent og kallað Helguskarð.
Inn og út af Þyrli er Þyrilsnes „þar háði blóðdóm öldin forn“.
Hvalfjörður

Flestum, sem til Hvalfjarðar koma, mun vera hugstætt að koma að Saurbæ, þar sem Hallgrímur Pjetursson var og kvað svo: „að hrygðar húmið svart hvar sem stendur verður engilbjart„, og það í sjálfu 17. aldar myrkrinu. Rjett findist mjer, á meðan vinum hans tekst ekki að reisa honum hinn fyrirhugaða minnisvarða þar, kirkjuna, að þeir sjái um að legstaður hans væri hækkaður, svo að hundar og menn træði ekki á honum, og lindin hans ljúfa væri hlaðin upp, með hringpalli til að sitja á fyrir fólk, sem vildi hvíla sig þar og rifja upp minningar hins ástsæla skálds.
Sumum finst að Hallgrímskirkja ætti að vera í Reykjavík, en er ekki nógu mörgu hrúgað þar saman? Og er það ekki sorgleg lýsing á safnaðarlífi voru að veitingahúsið „Hótel Borg“ skuli standa rjett hjá aðalkirkju landsins og vera betur sótt en kirkjan.

Brynjudalur

Brynjudalur – Ingunnarstaðir.

Nei, í Reykjavík á Hallgrímskirkja ekki heima, heldur í hinum heillandi faðmi hins sagnaríka Hvalfjarðar og á þeim stað er trúarskáldið bjó. —
Margar sagnir ganga um síra Hallgrím Pjetursson, og langar mig til að segja eina: „Það er sögn ein, frá Hallgrími presti, að hann var eitt sinn á ferð við þriðja mann, og ætlaði heim sunnan yfir Brynjudalsvog; flæður sævar gengu að; varð það þá ráð þeirra að bíða þar um nóttina til þess útfjaraði, og áin minkaði, og bjuggust að liggja í Bárðarhelli við fossinn. Þótti þá förunautum prests leitt að heyra fossniðinn, er mjög ýrði frá inn í hellisdyrin. Annar förunautur prests var fremstur og fekk ei sofið fyrir aðsókn. Sýndist honum og ferlíkan nokkurt eða vættur sækja að inn alt í hellisdyrin; bað hann þá prest að vera fremstan, og ljet hann það eftir; er þá sagt hann kvæði Stefjadrápu, því var yrði hann hins sama og förunautur hans, en jafnan hörfaði vætturin frá við hvert stefið, og að aftur á milli, uns hún hyrfi með öllu, og er drápan á þessa leið, sem nú er að fá:

1. Sætt með sönghljóðum
sigur vers bjóðum
Guði föður góðum,
sem gaf lífið þjóðum;
næsta naumt stóðum,
naktir vjer óðum
í hættum helsglóðum.

5. Heims því að hætti
hver einn mjer þætti
bölið sem bætti
bjóða lof ætti.
Guðsson vor gætti,
Guðs við almætti,
hann sálirnar sætti.

6. Minn Jesú mæti,
mín jafnan gæti;
brjóst Jesús bæti,
brár Jesús væti,
sjá Jesús sæti,
send Jesús kæti
mitt í mótlæti.

8. Sök synda afmái,
sonur Guðs hái;
frið svo jeg fái
og föðurlandi nái;
ógn engri þjái,
að oss Guð gái.
sálirnar um sjái.

23. Ó. þú alvalda
eining þrefalda.
lát lýð þinn kalda
lof þitt margfalda;
gef oss heit halda
og heiður þjer gjalda
um aldir alda!“

Hvalfjörður

Hvalfjörður.

Í Hvalfirði eru þessar eyjar: Hvammsey, Þyrilsey og Geirshólmi. Bestu skipalægri á firðinum eru hjá Þyrli, innan við Geirshólm (15—20 metra dýpi) á Brynjudalsvogi (5—10 metra dýpi) og á Maríuhöfn undan Hálsi í Kjós (10-16 metra dýpi).

Brynjudalur

Brynjudals á og hellarnir; Bárðarhellir (t.h.) og Maríuhellir (t.v). Huldukona fær sér að drekka vatn úr ánni.

Þessi skipalægi eru öll örugg, og önnur eftir áttum, svo sem undan Reynivöllum, Valdastöðum, Meðalfelli. Úskálahamri og á Saurbæjarvík á Kjalarnesi. Innsigling fjarðarins er óhrein að sunnan, en hrein með norðurlandinu, en þar sigla ekki aðrir en kunnugir menn.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því af hverju Hvalfjörður, Hvalfell og Hvalvatn draga nöfn sín, og skal það ekki rakið hjer. En við skulum bregða okkur inn til dalanna fyrir botni Hvalfjarðar og hitta þar konu, sem heitir Oddný Sigurðardóttir, og er húsfreyja á Stóra-Botni í Botnsdal. Hún segir okkur svo frá dölunum:

Botnsdalur.

Botnsdalur

Botnsdalur – Stóri-Botn (Efri-Botn).

Botnsdalur er hinn nyrðri af dölunum tveim, er liggja fyrir botni Hvalfjarðar. Á milli þessara tveggja dala gengur Múlafjall fram í sjó og myndast vogar, sinn hvoru megin fjallsins. Og inn fyrir þessa voga liggur Hvalfjarðar akbrautin. Í Botnsdal eru nokkurar skógarleifar, þó smávaxnar sje, en þarna var það, sem Avangur hinn írski ljet smíða hafskipið á dögum landnámsmannanna.

Glymur

Glymur.

En hið merkasta í dalnum verður að telja fossinn Glym, sem er mjög hár, líklega með hæstu fossum á landinu, þó aldrei hafi verið mældur, og er í á samnefndri bæjunum í dalnum.
Við Glym orti Þorsteinn Gíslason vísurnar: Í Botnsdal er fagurt einn blíðviðrisdag o.s.frv. Þá er einnig skylt að gleyma ekki Botnssúlum, en þaðan er mjög víðsýnt.

Í norðaustri er Hvalfell og norðan við það er Hvalvatn, en þaðan kemur Botnsá. Fyrir austan enda Hvalvatns er Skinnhúfuhöfði og Skinnhúfuhellir, þar sem Skinnhúfa bjó á dögum Ármanns í Ármannsfelli. Nú er þar alt kyrlátara og friðsamara en var á þeim dögum og álftin á sjer dyngju rjett fyrir framan hellismunnann. Niður undir vatnsröndinni, norðan í Hvalfelli er hellir sá, er sagt var að Arnes — er eitt sinn var fjelagi Fjalla-Eyvindar — hafi hafst við í. Í helli þessum hefir fundist mikið a{ beinum — bæði stórgripabeinum og kindabeinum — sem sjest hafa á för eftir eggjárn, og sömuleiðis kambur úr horni.
Í hinum fornu sögum finst hvergi getið nema eins bæjar í Botnsdal — en nú eru þeir tveir.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.

Landnámabók segir svo frá að fyrstur hafi bygt bæ í Botni, maður sá er Avangur hjet og kallaður hinn írski. Þá var þar skógur svo mikill að hann ljet af gera hafskip. Það var hlaðið við Hlaðhamar en hann er fyrir botni Botnsvogs, sunnan Botnsár. Dýpi við hamarinn nú á tímum er um flóð líklega 3—4 metrar, en algerlega þurt um fjöru. Í Harðarsögu er talað um Neðra-Botn, þar sem Geir bjó um skeið. Af því er auðsætt að þá hefir Efri-Botn einnig verið bygður þó þess sje eigi getið. Löngu seinna hefir svo bygst þriðji bærinn: Holukot. —

Holukot

Holukot – tóftir.

Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil.

Kattarhöfði

Kattarhöfði.

Af örnefnum, sem getið er í fornsögunum er meðal annars Múlafell, nú breytt í Múlafjall, Kattarhöfði, þar sem Þórður köttur var dysjaður og Kötlugróf þar sem Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona ljetu líf sitt og hringurinn Sótanautur er falinn.
Víðar man jeg ekki eftir að Botnsdals sje getið í fornum sögum.
Að síðustu skal þess getið, að hjer í Stóra-Botni var bænahús eða kirkja, og er örnefnið Kirkjuhóll þekt enn þá. Í þann hól var grafið fyrir 4—5 árum, en aðeins lítilsháttar, enda fundust engar minjar.

Litli-Botn

Litli-Botn í Hvalfirði.

Á bæjunum hjerna í Botnsdalnum var mikið um álfa og álfatrú. Ekki mátti veiða silunga úr sumum lækjum, ekki höggva hrís á vissum stöðum, ekki færa sum hús, ekki sljetta tiltekna bletti í túnununi og þar fram eftir götunum. Í hólunum heyrðist sífelt rokkhljóð og strokkhljóð.

Þannig var til dæmis sagt að víða í túninu í Litla-Botni og í klapparholtum umhverfis það, væri bústaðir huldufólks. Austast í túninu þar er hóll, sem kallaður er Krosshóll. Mátti eigi sljetta hann og var þar engin þúfa hreifð þangað til síðasti ábúandi kom þangað árið 1907. Á þessum hól var hrísla allstór og mátti enginn skerða hana. Var hún að síðustu orðin svo fúin að hún brotnaði.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Mátti enginn á neinn hátt nýta sjer lurkinn og var sagt að hann færi jafnan sjálfur á hólinn aftur þó hann væri borinn heim.

Litli-Botn

Litli-Botn í Hvalfirði.

Skammt fyrir utan túnið er klapparholt, sem kallað er Steinkirkja og heyrast þaðan oft tíðahringingar og sálmasöngur. Á götunum fyrir utan túnið er kallað Mannabygð og þar mátti aldrei ríða hart. Á milli þessara staða: Kirkjunnar og Mannabygðar annars vegar og Krosshóls hins vegar voru sífeldar ferðir huldufólksins og var för þess stundum sjeð af gamla fólkinu.

Brynjudalur.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Syðri dalurinn fyrir botni Hvalfjarðar er Brynjudalur. Hann er grösugur og vaxinn kjarri fremst. Samnefnd á rennur eftir honum og er hún straumlygn og mild.
Nú eru þrír bæir í dalnum: Ingunnarstaðir, Skorhagi og Þrándarstaðir og auk þess eyðibýlið Hrísakot.

Skorhagi

Skorhagi í Brynjudal.

Hina elstu sögn um Brynjudal er að finna í Landnámabók, þar sem sagt er frá deilu Refs hins gamla og Hvamm-Þóris, út af kúnni Brynju, sem gekk úti í dalnum með afkvæmum sínum og hann er við kendur. Og sú deila endaði með falli Hvamm-Þóris. Þar er einnig sagt, að Refur hafi búið á Múla. Bærinn Múli hefir að líkindum verið skamt þaðan sem nú er Skorhagi, en þó nokkru nær fjallinu og er trúlegt, að skriðuföll hafi eytt bæinn.
Harðar saga segir hinsvegar svo frá, að Refur hafi búið á Stykkisvelli (í Brynjudal) en Þorbjörg katla, móðir hans á Hrísum og vitanlega geta báðar sögurnar haft rjett fyrir sjer. Bæjarnafnið Hrísakot og örnefnið Hrísasneið benda að minsta kosti til þess að bær með því nafni hafi verið þar að norðanverðu í dalnum, þó það þurfi ekki endilega að vera.

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Loks segir Harðar saga svo frá, að Kjartan sá, er seinna sveik Hólmverja, hafi búið á Þorbrands stöðum. Hins vegar segir í upphafi Kjalnesingasögu að Þrándur landnámsmaður Helga bjólu hafi numið land í Brynjudal og búið á Þrándarstöðum, en það bæjarnafn er enn þá til.

Hrísakot

Hrísakot – túnakort 1917.

En verið gæti að Þorbrandsstaðir og Þrándarstaðir sjeu hið sama. Ingunnarstaða er getið í Kjósarannál að mig minnir einhverntíma á 16. öld. — Þá týndist á Hríshálsi, þ.e. hálsinum á milli dalanna, óljett kona með þrjú börn í fylgd með sjer og fanst ekkert af nema hendin af einu barninu. Og þessi kona fór frá Ingunnarstöðum.

Svo jeg snúi mjer aftur að honum fornu sögum, þá er Brynjudals getið f Bárðar sögu Snæfellsáss og er sagt að Bárður hafi hafst við í Bárðarhelli. Það er móhergshellir sunnanmegin árinnar, við foss þann er skamt er fyrir ofan hina nýju brú á ánni, er bygð var síðastliðið sumar (1932). Annar skúti er norðan árinnar, beint á móti Bárðarhelli, kallaður Maríuhellir.

Ingunnarstaðasel

Ingunnarstaðasel.

Á Ingunnarstöðum var bænahús og var goldin þaðan presstmata þar til núverandi ábúandi keypti hana af. Mjer hefir einnig verið sagt að eitt sinn — fyrir löngu síðan — er byggja skyldi íbúðarhús á Ingunnarstöðum hafi verið grafið á mannabein. —

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 44. tbl. 12.11.1933, Magnús Lárusson, Hvalfjörður, bls. 345-347.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Óbrinnishólabruni

Fundin bein drengsins, sem týndist fyrir 5 árum úr Hafnarfirði.
Obrynnisholabruni-21„Laugardaginn 24. maí 1924 hvarf 7 ára gamall drengur úr Hafnarfirði, Þórður Guðjónsson, skósmiðs, Magnússonar. Var drengurinn á leið úr Hraunrétt til Hafnarfjarðar. Það er um kl.-stundar gangur. Hafði hann áður farið þá leið.
Eftir að drengurinn hvarf var hans leitað dögum saman. Var oftast fjöldi manna í leitinni. Einn daginn fóru nokkrir menn með hund af sporbundakyni með sér, ef vera kynni, að hann þefaði uppi slóð drengsins, en það varð ekki að notum. Öll leit varð árangurslaus. Spora varð vart við Ásfjall, skömmu sunnar en leiðin liggur frá réttinni tíl Hafnarfjarðar, en ekki urðu þau rakin áfram.
Á fimtudaginn var, 30. maí. meir en 5 árum síðar, var það svo um kvöldið, að Sigurjón Sigurðsson, lausamaður að Hlíð í Garðahverfi, og Þorvaldur Arnason, prests, Björnssonar, voru að leita að hesti. Voru þeir stadddir í Óbrynnishólabruna, fyrir neðan Snókalönd, á.að gizka niður undan miðjum Undirhlíðum, nokkuð neðarlega í hraunbrunanum. Við Undirhlíðar liggur gatan úr Hafnarfirði til Krýsivíkur, en þetta var miklu neðar og nálægt því, sem mætist land Hafnarfjarðar og Hraunabæja. Var þá Sigurði gengið fram á höfuðkúpu, þrjá leggi, svo og stígvél af unglingi, og voru i því tá- og ristarbein. Var þetta nokkuð tekið að hverfa i mosann.
Önnur vegsummerki fundust ekki að því sinni, en Sigurður obrynnisholabruni-22þóttist þegar viss um, að þetta væru bein Þórðar heitins. Flutti hann það með sér í klút til Hafnarfjarðar og afhenti sýslumanni þau. Voru þau Þegar flutt í líkhús þjóðkirkju-safnaðarins, en Sigurður skýrðí frá atvikum fyrir rétti.

Sýslumaðurinn bað Sigurð þá að fara aftur á staðinn, þar sem beinin fundnst og gera það, sem unt væri, til þess að leita þar í grend, ef vera kynni, að meira fyndist. Gerði Sigurður svo. Fór hann i gær og með honum Gísli Guðjónsson, bóndi í Hlið, og Jósef Guðjónsson í Pálshúsum í Garðahverfi. Hófu þeir nákvæma leit á staðnum, þar sem beinin fundust, og umhverfis hann. Leituðu þeir niður í mosann og rótuðu í honum upp með múrskeið. Á sama stað og áður, í hraungjótu undir klapparnefi, fundu þeir með þessu móti bein drengsins, svo að þeir telja ekki hugsanlegt, að neitt sé nú eftir ófundið af þeim. Sáu þeir merki þess, að mosi hefði verið losaður þar af mannavöldum, svo sem til þess að hvílast á. Benda líkur til, að þar hafi drengurinn búist um að lokum. Þeir fundu einnig hitt stígvél hans, sem áður var ófundið, svo og fataleyfar, sem ekki var unt að hirða. Hnappa fundu þeir eða tölur og fjörustein úr blágrýti, sem drengurinn hefir haft á sér, en ekki fleiri menjar.

obrynnisholabruni-23

Segja þeir, að staðurinn, þar sem beinin fundust, sé 10 faðma innan við gaddavírsgirðingu, sem sett hefir verið um bæjarland Hafnarfjarðar, og skilur hún það þar frá landi Hraunabæja. Var girðingin sett þarna fyrir þremur árum, eða tveimur árum eftir að drengurinn hvarf. Ber hæð eða bala á milli, svo að ekki sést frá girðingunni þangað í mosann, sem beinin voru. Þeir félagar fluttu beinin til Hafnarfjarðar og bíða þau greftrunar í líkhúsinu, sem og áður er getið. Síðan gáfu þeir þegar skýrslu fyrir rétti um ferðina og árangur hennar.
Spor þau eða mannaför, sem sáust í leitinní forðum, segja þeir Sigurður að hafi verið töluvert neðar heldur en beinin fundust, í vestur til útnorðurs þaðan. Bendir það til þess, að drengurinn hafi síðast stefnt til fjalls þegar dimma tók af nóttu.“

Heimild:
-Vikuútgáfa Alþýðublaðsins, 3. árg. 05.06.1929, bls. 3.

Kapelluhraun

Tóur í Kapelluhrauni.

Básendar

Sem lið í Sandgerðisdögum – innan seilingar, dagana 5. -7. ágúst, var boðið upp á göngu um og frá Stafnesi yfir að Básendum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Gengið var að dómhringnum á Stafnesi, yfir og eftir gömlu þjóðleiðinni (Kaupstaðaleiðinni) að Draughól sunnan við Básenda. Þaðan var haldið niðurá Brennitorfu (Brennihól) og yfir að minjasvæðinu við Básenda ofan við Brennitorfuvík. Skoðaðir voru sökklar húsanna, sem þarna voru í tíð verslunarinnar, festarkengir, sem kaupskipin voru bundin við, sjóbúiðin og vörin, réttin, vörður og garðar, auk brunnsins, sem enn sést. Haldið var til baka ofan Básendahóla, yfir hlaðna brú frá Básendasandi að Stafnesi og stefnan síðan tekin að Stafnesvita þar sem skyggnst var eftir tóftum hjáleiganna fjölmörgu, sem þar voru fyrr á öldum, s.s. Loddu og Þembu. Á leiðinni var rifuð upp saga svæðisins, hlutur þess í sjósóknarsögunni og einstakar minjar skoðaðar með sérstaka áherslu á verslun Þjóðverja og Englendinga, konungs- og einokunarverslunina sem og eyðingu hennar í Básendaflóðinu mikla í janúar árið 1799.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes, eða Starrnes eins og það er talið hafa heitið til forna, er vestan Hvalsness. Líklegt má telja að höfuðból hafi verið þar um langa tíð, enda benda fornar minjar á staðnum til þess að svo hafi verið. Þá tengjast Stafnesi sögur og sagnir, sem rekja má langt aftur í tímann, Starrnesnafnið bendir til gróanda, en eins og svo víða utan Sandgerðis hefur sandurinn fært gróður í kaf, jarðvegur fokið upp og sjór brotið af ströndinni, jafnvel svo munar um 50 metrum á mannsævi. Þá hefur land lækkað á Rosmhvalanesi sem nemur að jafnaði um 0.8 cm á ári. Á síðustu 70-80 árum hefur mikil vinna farið í að hefta sandfok og jarvegseyðingu á nesinu.
Miklir og fallega hlaðnir garðar eru við Stafnes. Flestir þeir heillegu eru tiltölulega nýir, notaðir til skjóls við kál- og kartöflugarða, en ekki síst fyrir rabbara á 20. öldinni. Um hinar u.þ.b. 30 hjáleigur, sem voru um tíma frá Stafnesi, voru einnig víða hlaðnir garðar, en lægri, og sjást margir þeirra enn.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja síðustu öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði. Þá fórust 10 manns af togaranum, en 15 var bjargað í land.

Í Rauðskinnu eru nokkrar sögur frá Stafnesi. Ein þeirra er um tilurð nafnsins: „Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes.
En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir: Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó.

Stafnes

Stafnes.

Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman.
Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Básendar

Básendar – gerði.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.“
Þá segir einnig af Stafnesbóndanum: „Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.

Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita.
Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu…“ Framkoma bóndans átti eftir að hafa verulega eftirmála honum til handa, og það ekki góða.
Ólafur Davíðsson skráði eftirfarandi sögu af Stafnesdraugnum, sem löngum hefur gengið þar ljósum logum: „Þá er kvefveikin gekk 1894 lagðist í henni Jón nokkur sem kallaður var „í brókinni“. Hann átti heima austur í Landeyjum, en var þá vermaður að Stafnesi. Jón var hræddur um, að hann mundi deyja og bað annan sjómann að sækja handa sér meðul til Keflavíkur. Annaðhvort var, að maður þessi neitaði að fara, eða honum dvaldist á leiðinni. Að minnsta kosti er víst um það, að Jón fékk aldrei meðulin og dó nálægt sumarmálum. Eftir það tók Jón að sækja að meðalamanninum og gekk ljósum logum. Maðurinn fór heim til sín, en aðsókninni linnti ekki við það. Jón kvað ganga um eins og grár köttur á Stafnesi enn í dag og einu sinni sást hann á ferð um Rosmhvalanes á meri sem hann hafði átt í lifanda lífi.“

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Í Rauðskinnu segir einnig frá Narfa á Stafnesi: „Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét Þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna. Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi til Hafna. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann….“ Narfi lést, en gekk síðan aftur, heimsótti kaupmann, kvað vísu og hefndi sín grimmilega.
Brynjúlfur Jónsson segir í rannsókn sinni á Reykjanesinu 1902 að á Stafnesi sé forn dómhringur, sem enn má sjá móta fyrir í túninu. Nú hefur einhver reynt að vera huggulegur og nýlega plantað inn í hann nokkrum runnum og fyrirhuguð er skógrækt utan í honum.

Pakkhúsið

Pakkhúsið 1962.

Vestan við Stafnes eru nokkrar lægðir, er við fyrstu sýnt gætu verið gamlar grafir. Þær eru það í vissum skilningi því þarna geymdu bændur karftöflur sínar, grófu þær í sandinn til varnar frosti. Handan við Gjána er læna inn í landið og yfir hana hlaðin brú. Urðin er neðar. Þarna hefur líklegast verið bæjarstyttingur því þjóðleiðin gamla yfir á Kaupstaðaleiðina austan Ósa er nokkru ofar, eða ofan garðs. Tveir myndarlegir grónir hólar eru við ströndina milli Stafness og Básenda. Sá eystri er Stóri-Básendahóll og sá vestari Litli-Básendahóll.
Nafnið Básendar er ekki vafalaust. Kemur það fyrir í þremur myndum; Bátsenda (danskir skrifuðu það Botsendar)m Bátsandar og loks Básendar (eða Bassendar). Nafnið kemur fyrst fyrir í Fornbréfasafninu 1484. Þar er ritað „Bátsendum“.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan.
Í fornleifaskráningu um Básenda segir m.a. að „í Stafnesslandi, á hraunnefi milli tveggja víka sunnarlega á vestanverðu Miðnesi sunnar en Stafnes, heita Básendar. Þar var ein af höfnum einokunarverslunar Dana og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes.

Básendar

Básendar – brunnur.

Aðfaranótt 9. janúar 1799 gerði óveður usla allt frá Þjórsá og vestur um Seltjarnarnes, kirkjur fuku, skip brotnuðu, jarðir í Staðarsveit urðu óbyggilegar og Seltjarnarnes varð eyja í flóðinu. Grótta á Seltjarnarnesi varð að eyju til frambúðar en áður var hún landfastur tangi. Á Básendum gerði flóðið þó líklega mestan usla. Flest ef ekki öll hús kaupstaðarins sópuðust burt, roskin og veikburða kona drukknaði en annað heimilisfólk bjargaðist við illan leik. Atburður þessi hefur síðan verið kallaður Básendaflóðið.
Höfnin á Básendum var lón mjótt og langt. Skipaleiðin inn í leguna var nokkuð löng, milli skerja.
Á Básendum má enn sjá leifar kaupstaðarins, þ.á.m. minjar um landfestar, varir, fiskbyrgi og verslunar- og birgðahús auk búsetuminja. Þar standa ágætlega varðveittar leifar af rétt, hlöðu og fjósi. Einnig má finna þar leifar garðs sem hlaðinn var í hálfhring utan um verslunarstaðinn. Samanburður heimilda og húsaleifa á vettvangi bendir til að fjórar rústir geti verið leifar lifrarbræðsluhúss, skemmu, lýsisbúðar og vörugeymslu. Loks skal getið kaupstaðavegarins. Hann er nær því óskertur frá Kirkjuvogi heim að Básendum. Minjagildi hans er verulegt, ekki einungis vegna þess að fáar ef nokkrar fornar leiðir eru svo stórkostlega vel varðveittar, heldur er hann sýnilegur í landinu með upphækkuðum brúnum og vel til gönguferða fallinn.“

Básendar

Áletranir við Básenda.

Básendar komu við sögu í aðdraganda Grindavíkurstríðsins, eða Fimmta þorskastríðsins, eins og það er stundum nefnt.
Árið 1480 kom stórt þýskt vöruflutningaskip og lá við landfestar við Straumsvík. Sex ensk herskip komu og tóku skipið, fluttu það út og seldu áhöfnina m.a. í ánauð. Englendingar fluttu sig til Grindavíkur, en Þjóðverjar til Básenda. Sú regla gilti að sú áhöfn sem fyrst kom að höfn að voru átti einkaaðstöðu þar það sumarið. Upp spratt verslunarstétt, nefnd “verslunarduggarar”. Þeir fóru að sigla til Íslands, ekki bara yfir sumarmánuðina, heldur alveg fram í nóvember. Íslendingar unnu hjá þeim og sáum um veiðar og vinnslu aflans, t.d. í Grindavík, á Básendum og í Hafnarfirði.
Eftir að Englendingar byrjuðu að sigla hingað komu þeir sér upp umboðsmönnum. Í Grindavík var það Marteinn Einarsson frá Stað. Stjórnaði hann verslun Englendinga hér. Systir hans var gift Englendingi. Lærði Marteinn m.a. listmálun í Englandi. Eftir að Þjóðverjar lögðu undir sig Hafnarfjörð fóru þeir að herja á Englendinga annars staðar, t.d. á Básendum við Stafnes (sem hét Starrnes til forna).

Básendar

Básendar – brú.

Hinrik VIII. var við völd í Englandi. Aðalhafnir Englendinga voru á Básendum og í Grindavík. Þegar Þjóðverjar komu til landsins 2. apríl 1532 fóru þeir ekki til Grindavíkur heldur inn á Básenda. Fyrirliði þeirra, Ludtkin Smith, hafði sagst ætla að vinna eina höfn af Englendingum, en hann mun hafa verið skyldur fyrirliða þeim er enskir hertóku við Straumsvík og færðu í þrældóm. Samkvæmt reglunni átti hann rétt á aðstöðunni (fyrstur að vori). Básendar var aðalhöfnin á Romshvalanesi. Keflavík var ekki einu sinni orðið þorp. Skömmu síðar komu Englendingar að Básendum, réru í land og báðu um að fá að hafa þar aðstöðu. Ludtkin hafnaði beiðni þeirra, sagðist ætla að bíða eftir væntanlegu öðru þýsku skipi þangað. Englendingar virtust taka þessu furðu vel og réru til baka út í skip sitt. Skömmu síðar kom annað enskt skip þar að. Þá breyttist framkoma Englendinganna gagnvart Þjóðverjum. Annað skipið sigldi inn í höfnina og réðst á Þjóðverjana. Héldu Englendingar að þeir hefðu í fullu tré við þá. En þeir vissu ekki eitt, Bróðir Ludtkins, Hans Smith, hafði haft vetursetu á Básendum, varðveitt fiskistafla, sem ætlunin var að flytja út að vori, og vingast við heimamenn. Þegar Þjóðverjar sáu hvert stefndi, söfnuðu þeir liði, aðallega Íslendingum, og mikil orrusta verður með fylkingunum. Þjóðverjum og Íslendingum tókst að gersigra Englendinga. Öðru skipinu var sökkt, en Þjóðverjar náðu hinu.

Básendar

Básendar – festarkengur.

Þá víkur sögunni til Grindavíkur. Englendingar voru þar, um 15 að talið var. Foringi þeirra er Joen Breen (Brier), nefndur Jóhann Breiði af heimamönnum. Líklega var hann fjarskyldur Englandskóngi. Annar mjög merkilegur Englendingur var þarna líka, en sá var yfirfálkatemjari Englandskóngs. Sennilega í þeim erindagjörðum að fanga hér fálka og temja, en þeir voru bæði konungasport og útflutningsvara. Þessi Englendingar reistu virki að Járngerðarstöðum. Svolítið öðruvísi var þá umhorfs þar en nú er. Sjórinn er búinn að “éta” mikið af landinu. Virkið var sennilega þar sem nú er Stóra Bót á Hellunum.
Englendingar uggðu ekki að sér. M.a. vegna þess að í höfninni (líklega Stóru Bót eða austar) voru 5 ensk skip. Af einhverri ástæðu fréttu Þjóðverjar að til stæði að halda drykkjusvall hjá Englendingum í Grindavík. Þjóðverjar tryggðu sér þá stuðning danskra yfirvalda á Bessastöðum og söfnuðu liði frá Hafnarfirði og Njarðvíkum, auk áhafna átta þýskra skipa. Söfnuðust þeir saman við Þórðarfell ofan við Grindavík og skiptu liði. Um nóttina, aðfararnótt 11. júní 1532, og héldu sumir suður Árnastíg (Skipsstíg) að virkinu (Hafnfirðingar og Njarðvíkingar) og aðrir að skipunum. Voru 15 Englendingar drepnir í Virkinu, þ.á.m. Jóhann Breiði, en lík hans var illa leikið eftir átökin. Átta voru teknir höndum. Voru þeir látnir dysja félaga sína undir virkisveggnum, í svonefndri Engelsku lág. Fjórum skipum tókst að leggja frá landi, eitt strandaði og árásarliðið náði einu, Peter Gibson, skip Jóhanns Breiða (sjá nánar undir Fróðleikur – Grindavíkurstríðið).
Þá kom að því, sem einna minnistæðast þykir um Básenda, eða Bátsendar, eins og þeir voru einnig nefndir. Það var Básendaflóðið mikla.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Aðfararnótt 9. janúar árið 1799 gerði stórkostlegasta sjávarflóð um margar aldir. Bátsendakaupstaður eyddist og mörg býli fóru í auðn. Ein kona drukknaði, mörg hundruð bátar brotnuðu og fénaður fórst.
“Sjór gekk á land um stærstan straum í stórviðri af útsuðri á allri strandlengjunni austan frá Þjórsá og allt vestur um Breiðafjörð. Varð í þessu flóði meira tjón á mannvirkjum, bátum, varpstöðvum og löndum en menn vita áður dæmi um á einni nóttu, auk þess, sem fórst af fénaði og matföngum. Fygldi flóðinu regn mikið, þrumur og eldingar, og fannst mörgum því líkast sem himinn og jörð væri að farast.
Hést er svonefnd Háeyrarflóð til samjafnaðar við þessar hamfarir. Það varð að kvöldlagi í janúarmánuði árið 1653 í svipuðu veðri og nú og olli mestu tjóni á Eyrarbakka, í Selvogi og Grindavík. Þó mun það hvergi nærri hafa gert annan eins usla og þetta flóð.
Fólk allt gekk til hvílu að venju að kvöldi hins 8. Þessa mánaðar. Var þá aðfall og hávaðarok með miklum sjógangi og ógurlegu brimhljóði. Er skemmst frá því að segja, að veður færðist mjög í aukana upp úr lágnættinu, og litlu síðar tók sjór að ganga á land á strandlengjunni sunnan Reykjanesskaga, um Suðurnes öll, Innes, Kjalarnes, Akranes, Mýrar og Snæfellsnes.

Básendar

Básendar – vör.

Kaupstaðurinn í Bátsendum tók af með öllu, og flest kaupstaðahúsin á Eyrarbakka og Búðum á Snæfellsnesi eyddust. Nokkur býli á sjávarbökkum sættu sömu örlögum. Uggði fólk ekki að sér, fyrr en sjór tók að bylja á híbýlum þess og streyma inn í þau, og veggir hrundu í brimsúgnum. Björguðust menn víða mjög nauðulega úr þessu fári, og þoldu sumir mikla vosbúð og hrakninga.
Kaupmaðurinn á Bátsendum, Hinrik Hansen, vaknaði við það klukkan tvö um nóttina, að hrikti í hverju tré í húsinu. Litlu síðar heyrði hann, að þung högg tóku að dynja á því, líkt og veggbrjót hefði verið beint að því. Svartamyrkur var á, en kaupmaðurinn hafði ekki eirð í sér, snaraðist fram úr rekkju sinni og ætlað að líta út til þess að gæta að, hverju þetta sætti. En þegar hann opnaði húsdyrnar, flæddi sjórinn í fang honum.
Sjóvarnargarður, sem hlaðinn var í hálfhring um húsið og verslunarsvæðið, hafði sýnilega brostið, og sjór æddi um allt plássið. Með því að sífellt hækkaði í, streymdi sjórinn linnulaust inn í herbergin, og við það flúði heimilisfólkið, kaupmaðurinn, kona hans, Sigríður Sigurðardóttir frá Götuhúsum, börn þeirra fjögur, sjö til sextán ára, og stofuþerna þeirra, upp á húsloftið.

Básendar

Básendar – minjar.

Þar hafðist það síðan við hálfnakið til klukkan sjö um morguninn. Var húsið þá allt laskað og skekkt af brimgangi og tekið að riða mjög, svo að ekki var annað sýnna en það hryndi þá og þegar.
Kaupmaður braut þá glugga á loftinu og lét sig síga niður í hafsjóinn úti fyrir. Tókst honum að vað með sjö ára dóttur sína í fanginu að fjósi, er stóð lítið eitt hærra en íbúðahúsið, og fylgdu kona hans og synir þeirra þrír, þrettán til sextán ára, á eftir ásamt vinnukonunni. En þegar fólkið hafði aðeins verið örskamma stund í fjósinu, brast mæniás þess undan ágjöf á sjóblautt þakið, svo að þau urðu enn að hrökklast undan. Að þessu sinni var flúið í hlöðuna.

Básendar

Básendar – gamli bærinn.

Fólkið hélst ekki við í hlöðunni nema stutta stund. Þakið tættist af henni í hörðum sviptivindi, og leitarnar blöktu eins og pappírsarkir í storminum. Þóttist Hansen sjá fram á, að fólkið myndi ekki lifa af í tóftinni, svo að það ráð var tekið að yfirgefa kaupstaðinn með öllu, þótt ekki væri fýsilegt að leggja út í myrkur og fárviðri með konuna og börnin nálega klæðvana.
Hélst fjölskyldan í hendur svo að enginn týndist, og skreið jafnvel í hörðustu hrinunum, því að þá var óstætt með öllu. – Þannig náði fólkið loks um morguninn að Loddu, hjáleigu rétt hjá Stafnesi, nær dauða en lífi.
Þrjú hjú kaupmannsins á Bátsendum bjuggu í torfkofum skammt frá timburhúsinu, ásamt nær áttræðri konu, niðursetningi, sem lengi hafði legið í kör, Rannveigu Þorgilsdóttur að nafni.
Þessu fólki varð að sjálfsögðu ekki svefnsamt, en ekki uggði það þó að sér, fyrr en kofarnir voru umflotnir sjó. Þegar því varð ljóst, að hverju fór, rauf það þekjuna og skreið þar út. Rannveig var rifin upp úr körinni og dregin út um gatið, en veðrið lamdi hana niður, þegar hún kom út á plássið, og þar drukknaði hún. Vinnuhjúin komust hins vegar lífs af með harðfylgi.

Básendar

Básendagata.

Þegar flóðið rénaði og birti af degi, ást, að byggingar allar höfðu ýmist sópast brott eða falið í rúst, þar á meðal sölubúð, vöruskemma mikil, bræðsluhús og gripahús. Sex bátar höfðu brotnað í spón og sjóvarnargarðurinn gerfallið. Allt verslunarsvæðið er kafið grjóti, möl og sandi, og upp á brotnu þaki eins hússins, fjórum álnum ofar grundvelli, situr rekadrumbur fastur, en þangað hefur brimið slöngvað honum. Talið er, að sjór hafi gengið lengst 164 faðma á land upp fyrir kaupstaðinn.
Enn er ótalið mikið tjón, er varð á Suðurnesjum. Þar sópuðust fiskigarðar, sem fyrirskipað hafði verið að hlaða á undanförnum áratugum, heim á tún, brunnar fylltust, uppsátur eyðilögðust, og sums staðar fóru töðuvellir undir möl. Allmörg skip brotnuðu einnig og á Vatnsleysuströnd tíu bátar.
Í Keflavík skemmdist kaupmannshús, timburkirkjan á Hvalsnesi fauk, kirkjan í Kirkjuvogi skekktist, og Kálfatjarnarkirkja laskaðist.

Básendar

Básendar – gerði.

En má hnýta því hér við, að í Grindavík spilltust fimm hjáleigur, og tók af völl á tveimur, hundrað kindur drápust, og sex skip brotnuðu.”
Þótt nú sé fátt á Bátsendum (Básendum) er sýnt getur aðstæður þar þennan örlagaríka dag árið 1799 má þó enn sjá ýmislegt ef vel er að gáð. Brunnurinn er t.d. ofan við það sem húsin stóðu, sökkla timburhúsanna má sjá þar, tóftir ofan við vörina, a.m.k. þrjá festarkengi frá tímum konungsverslunarinnar, Brennuhól þar sem eldur var kyntur til leiðsagnar sjófarendum, auk þess sem aðstæður við Bátsenda gefa fólki mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs þarna fyrr á öldum þegar umsvifin voru hvað mest. Garðar eru hlaðnir utan og ofan við Básenda um túnbleðla, þar er nokkuð heilleg hlaðin rétt og tóftir má sjá nálægt brunninum.
Til er uppdráttur af Básendum frá konungsverslunartímanum. Þar sést hvernig skip voru svínbundin, bæði inn undir Brennitorfuvík og utan skerjann við Básenda. Festarkengir voru skv. því fimm að tölu, en enn má sjá þrjá þeirra ef vel er að gáð.
Tóftir síðasta Básendabæjarins eða sjóbúðarinnar, sem líklegra er, sést enn fremst á tanganum austan Brennitorfuvíkur og neðan hennar er lendingin. Til skamms tíma mátti í henni sjá för eftir kili árabátanna, sem þar voru dregnir upp.

Báendar

Básendar – bærinn.

Skoðaðar voru fundamental kaupmannshússins, leifar lýsisbræðslunnar, réttin, sem er nýlegra mannvirki, brunnurinn og garðarnir umhverfis. Þá var litið á Brennitorfuhól, eða Brennihól eins og hann var einnig nefndur. Á honum var tandrað bál þegar rökkvað var orðið og ekki allir bátar komnir inn til lendingar. Draughóll er skammt sunnar. Á honum er talið að hafi verið dys, en það mun ókannað.
Þar sem staðið er á flóraðri stétt sölubúðarinnar á Básendum, sem enn sést, má vel gera sér grein fyrir hvernig þarna var umhorfs fyrr á öldum. Húsið hefur verið í vinkil, fremur lítið. Vestan við það hefur vöruhúsið staðið. Sér þar fyrir grunni, um 20 m á lengd og 12-15 m á breidd. stærra hús. Austan við sölubúðina hefur kaupmannshúsið staðið staðið, en framan og til hliðar við húsin hefur lýsisbræðslan verið. Planið framan við húsin er flórað og sést drjúgur hluti þess enn. Ljóst er að mikill umgangur hefur verið um planið, enda vel máð. Neðan þess er vik í klappirnar, rétt sunnan festarkengs, sem þar er. Annar kengur var í klöpp skammt vestar, en virðist nú horfinn. Hugsanlega er þarna um að ræða leifar lendingar smærri báta, sem ferjað hafa varning að og frá kaupskipinu, sem bundið var í innri víkinni, neðan verslunarhúsin. Léttari varningur hefur væntanlega verið dregin í land á lyftuböndum.

Básendar

Básendabærinn.

Sjóbúðin vestast á tanganum virðist í fljóti bragði hafa verið bær, en það getur þó varla verið. Til hliðar við búðina, sem hefur staðið með gaflinn mót hafi (vestri), eru afhýsi, líklega notuð til geymslu varnings og veiðarfæra. Ólíklegt er að áhafnir hafi haldið til í búðinni, en hún mun þó líklega hafa hafst þar við á meðan róðralotur stóðu yfir, en þess á milli dvalið heima hjá sér eða á nærliggjandi bæjum.
Norðaustar er hlaðinn rétt eða kálgarður með hesthúsi að baki, en hlöðuveggir eru þar laust norðvestan við. Austan við brunninn hefur verið kálgarður, tvíhlaðinn úr úrvalsgrjóti. Frá þessum stað má sjá að kaupstaðurinn hefur verið alveg afgirtur að sjó. Fiskabyrgi, lítil og kringlótt eða sporlaga, úr einhlöðnu grjóti, hafa verið á klettum og hólum víðsvegar að ofanverðu.
Mikið útræði var lengi á Stafnesi og nærliggjandi bæjum, enda stutt á miðin. Vörin er beint fyrir neðan sjóbúðina. Um aldamótin 1900 er því lýst að þar hafi mátt sjá merki eftir kjöl bátanna, sem þar voru dregnir upp.
Þegar Básendar eru gaumgæfðir út frá minjunum, örnefnum og aðstæðum vakna þeir ósjálfrátt til lífsins og auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig mannlífið, sjósóknin og verslunin hafa gengið fyrir sig þótt ekki séu þar enn heil hús eða búðir.
Vöruhúsið á Básendum var flutt til Keflavíkur árið 1800 og stóð við Hafnargötuna sunnan við Norðfjörðsgötu og kallað Svarta pakkhúsið.
Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt sunnar. Þeir sjást vel frá Básendum. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í.

Stafnes

Stafnes.

Ef þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna, sennilega á Stafnesi.
Þórshöfn er skammt sunnar, austan Ósa. Þar var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.
Gamla þjóðleiðin ofan við Básenda var gengin til baka að Stafnesi. Það er sú leið sem Hallgrímur Pétursson er talinn hafa fetað á leið sinni frá Bolafæti í Njarðvíkum yfir að Hvalsneskirkju fyrst eftir að hann var ráðinn þangað til prestsskaps. Við leiðina er talið að séu tvö sannindamerki um tilvist þess; annars vegar áletrunin HP á klöpp við Þórsmörk og síðan sama áletrun ásamt ártali á svonefndri Hallgrímshellu við vörðu milli Básenda og Þórshafnar. Hvort Hallgrímshellan er letursteinninn eða klapparhella, sem þar er, er ekki alveg á hreinu.
Frábært veður, hávaða rok og rigning. Veðrið gaf góða mynd af því hvernig gæti hafa verið umhorfs við ströndina þennan fyrrnefnda örlagadag í janúar 1799. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-Sandgerdi.is
-Reykjanes.is/bokasafn
-Blanda 1924-27.

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

Hvaleyrarvatn

Eftirfarandi umfjöllun um skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar birtist í 24stundir í ágústmánuði árið 2008. „Mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám – Náttúruperla í útjaðri Hafnarfjarðar. Í Hafnarfirði leynist sannkölluð náttúruperla sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Þar eru mörg hundruð hektarar af skógrækt með yfir 200 tegundum af trjám og runnum.

HólmfríðurÍ útjaðri Hafnarfjarðar leynist sannkölluð náttúruperla, fleiri hundruð hektarar af skógræktar og uppgræðslulandi.
„Hér er góður andi,“ segir Hólmfríður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar en félagið hefur umsjón með upplandi bæjarins. „Við erum rík hér í Hafnarfirði að eiga þetta fallega útivistarsvæði alveg við bæjardyrnar. Þetta er ákaflega fallegt og hér er margt að sjá. Hér höfum við opnað fjóra útivistarskóga. Þetta eru glæsilegir skógar sem eru opnir almenningi. Svo erum við með trjásýnilund hérna rétt fyrir neðan þar sem búið er að gróðursetja og merkja yfir 200 tegundir af trjám og runnum. Steinar Björgvinsson sér um trjásafnið en hann er ræktunarstjóri gróðrastöðvarinnar Þallar ehf sem félagið á.“

Fjölbreytni og fegurð
Nýverið var opnuð skemmtileg útikennslustofa í Höfðaskógi enda koma bæði grunnskólar og leikskólar í heimsókn á vorin. „Á vorin koma grunnskólanemar og Fræðsluaðstaðagróðursetja tré og hlúa að gróðri en hver skóli er með sína landnemaspildu. Við reynum að auka fjölbreytnina í skógunum. Í gamla daga var þetta svo einsleitt en í dag setjum við rósir og alls kyns runna í skóginn enda viljum við hafa skóginn fjölbreyttan og fallegan. Við prófum okkur líka áfram og könnum hvað lifir í náttúrunni. Við söfnum íslenskum fræjum, berjum og öðru og fáum það líka sent víða að úr heiminum,“ segir Hólmfríður að lokum og hvetur alla til að koma og skoða þetta fallega svæði.“

Útikennslustofan var formlega tekin í notkun laugardaginn 3. maí, kl. 14:00. Það voru hjónin Hörður Zóphaníasson og Ásthildur Ólafsdóttir sem gáfu Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar peningagjöf á 60 ára afmæli félagsins árið 2006. Gjöfinni fylgdi sú ósk að hún yrði notuð til að fræða ungt fólk um gildi skógræktar og uppgræðslustarfs og til að sýna hversu fjölbreytt not má hafa af skógum. Með þetta að leiðarljósi unnu starfsmenn og stjórn félagsins að því að þróa og móta þetta verkefni, sem nú er orðið að veruleika.

Minjar
BeitarhúsÍ Húshöfða, líkt og í næstu höfðum, Fremstahöfða, Selhöfða og Stórhöfða eru minjar fyrrum búskaparháttar, flestar tengdar selstöðunum, Hvaleyrarseli og Ásslei, við austanvert Hvaleyrarvatn.
Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar við höfðann. Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er í beinum tengslum við skógræktarsvæðið. Leiðin er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis vatnið.
Hlaðinn stekkur eða gerði er norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústóftarinnar austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af. Innan við beitarhúsatóftina er fyrrnefnd útikennslustofa.

Rós

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Þar hjá er Ólafslundur til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktanda.
Efst á höfðanum er Höfðavarðan

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1946 og er því 62 ára (2008). Skóglendi þess eru Höfðaskógur, Seldalur, Skólalundur, Undirhlíðar og Gráhelluhraun. (Sjá meira um Hvaleyrarvatnssvæðið HÉR).

Heimild:
24stundir 6. ágúst 2008 – eftir Svanhvíti Ljósbjörgu.Húshöfði

Skipsstígur

Um var að ræða í gönguröð um hluta gamalla þjóðleiða á Suðurnesjum undir heitinu „Af stað“ til tengingar loftmyndagönguleiðarkorti Ferðamálasamtaka Suðurnesja er þau gáfu út fyrir trekvart misserum síðan.

Bláa lónið

Bláa lónið – upphaf göngu.

Markmiðið er bæði að hvetja fólk til að nýta sér hina skemmtilegu og fornumbúnu þjóðleiðir á Suðurnesjum til útivistar, fróðleiks og hollrar hreyfingar og um leið rifja upp þær aðstæður er forfeður þeirra buggu við fyrrum – áður en sjálfrennireiðaakvegir og síðar mótorbílaakbrautir tóku við af hinum gömlu þarfaleiðum fótgangandi fólks og skepna á millum bæja, sveita og héraða.
Að þessu sinni var gengið frá Bláa lóninu í boði Grindavíkurbæjar. Ætlunin var að ganga inn á Skipsstíg, fylgja honum til suðurs að Dýrfinnuhelli, síðan Reykjaveginum til vesturs að Árnastíg, skoða hvar B17 (Fljúgandi virkið) nauðlenti árið í apríl 1943, ganga síðan Árnastíg áleiðis að Húsatóftum og skoða m.a. í leiðinni fornar hlaðnar refagildrur og þjóðsögukennda staði.

Bláa lónið

Gengið frá Bláa lóninu.

Til að þurfa ekki að fylgja hinnum nútímalega og afsaltlagða nútímaþjóðvegi milli Bláa lónsins og Grindavíkur í suðri, var ákveðið að ganga um slétt moasahraun samnefnt hinum Illa og um það inn á Skipsstíg sunnan Lats (einn af gígum eldri hluta Eldvarpanna). Þessi hluti er vel greiðfær. Framundan sást vörðuröðin á Skipsstíg þar sem hann liggur millum Njarðvíkna og Grindavíkur. Sólin skein að sunnanverðu, en að norðanverðu virtist dumbungur yfrum.

Skipsstígur

Gengið að Skipsstíg.

Þegar komið var inn á Skipsstíg var augljós og áþreifanlegu meðvindur til Grindavíkur. Hin gamla gata sást vel þar sem hún var mörkuð ofan í hraunhelluna vestan Skipsstígshrauns (Illahrauns) þar sem hún liðaðist vörðumprýdd, fullreistar eða hálffallnar um Bræðrahraun og síðan áfram sem slík með Blettahrauni. Á stöku stað sáust vel mannanna verk á hlöðnum köntum eða brúm stígsins, en þegar nær dró Lágafelli kom atvinnubótavegarkaflinn frá því skömmu eftir aldarmótin 1900 smám saman í ljós. Segja má með sanni að þarna er einn fallegasti kafli vegagerðar frá þessum tíma og sá hluti sem einna helst þarf að varðveita.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Við þennan hluta Reykjavegar má t.d. sjá hraunæðar sem burnirótin hefur náð að nýta sér sem skjól, líkt og tófugrasið.
Þegar komið var að Dýrfinnuhelli var saga hans rifjuð upp. Segir sagan að samnefnd kona hafi dvalið með börn sín eftir að hafa flúið undan Tyrkjunum er herjuðu á Grindavík að morgni 20. júní 1627 Tyrkjasagan. Dvaldi hún þarna um skamman tíma, uns talið var óhætt að halda áný til fyrri híbýla í Grindavík. Opið snýr mót norðri, en botn hellisins er nú sandumorpinn. Í Nágrenninu eru einnig margir ákjósanlegir felustaðir.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Þá var gengið spölkorn til baka og vent til vesturs inn á Reykjaveginn. Í fljótu bragði virðist Reykjanesskaginn hrjóstugur og illur yfirferðar og því ekki vel fallinn til gönguferða. Við nánari skoðun kemur annað í ljós. Hann hefur upp á flest að bjóða sem göngufólk leitar að. Hraunið og auðnin hefur aðdráttarafl ekki síður en gróskumikið gróðurlendi þótt á annan hátt sé. Víða leynast fallegar gróðurvinjar og mosinn í hraununum er sérkennilegur. Þar eru líka einstök náttúrufyrirbrigði eins og hraunsprungur og misgengi, eldgígar, hrauntraðir, jarðhitasvæði, hellar og fuglabjörg. Þótt fjölbreytt mannlíf hafi aldrei verið á þeim slóðum sem Reykjavegurinn liggur um eru samt til sögur og minjar um mannlíf á þeirri leið. Gamlar götur líkar Árnastíg liggja víða um Reykjanesskagann og skera eða tengjast Reykjaveginum á mörgum stöðum.

Blá lónið

Helluhraun.

Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlantshafshryggnum mikla sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 13. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir tólf til fimmtán þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.

Reykjavegur

Reykjavegur – Þorbjarnarfell fjær.

Reykjavegurinn sem liggur um endilangan Reykjanesskagann var stikaður sumarið 1996. Hann liggur frá Reykjanesi að Nesjavöllum og er um 130 km langur eða meira en tvöföld vegalengd Laugavegarins margfræga á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Víða hafa myndast gönguslóðar á leiðinni, sérstaklega þar sem hún liggur um mosavaxin hraun. Á öðrum stöðum liggur leiðin um gamlar götur sem öðlast hafa nýjan tilgang. Einn helsti kostur Reykjavegarins auk þess að vera mjög skemmtileg gönguleið, er hvað hann er nálægt byggð og aðkoma að honum þægileg á mörgum stöðum án þess að fólk verði vart við skarkala þéttbýlisins. Hann liggur um óbyggð svæði og fullnægir því vel þörfum fólks sem vill vera í náinni snertingu við náttúruna og hvíla líkama og sál frá hraða hversdagsins.

Bláa lónið

Gengið um Skipsstíg.

Skömmu áður en komið var inn á aðra forna þjóðleið milli Húsatópta og Njarvíkna var beygt inn á að því er vitist gamall stígur. Um var hins vegar að ræða far eftir snertingu B17 flugvélar er nauðlenti þarna árið 1943. Sjá má á jörðinni brak úr vélinni þar sem neðsti hluti hennar, byssuturninn, varð hrauninu smám saman að bráð.

Skammt norðar má sjá kringlumótt í hrauninu, sem endar skammt norðar. Þar má einnig sjá nokkurt brak. Það er tilkomið vegna aðgerða til að bjarga leifum af flugvélinni (Fljúgandi virkinu) sem varð eldsneytislaus þarna og lenti á hrauninu.

Eldvörp

B-17 vélin í Eldvarpahrauni 1943.

Skv. upplýsingum frá Friðþóri Eydal „er brakið brot úr þessari B-17 sprengjuflugvél sem lenti í villum á leið frá Bandaríkjunum til Bretlands með fyrirhugaðri viðdvöl á Keflavíkurflugvelli og nauðlenti þarna er eldsneytið þraut eftir 14 klst. flug þann 17. apríl 1943. Mannbjörg varð meðal fimma manna áhafnarinnar, sem verður að teljast gleðilegt af annars fjölþættari flugvélaslysasögu svæðisins, en a.m.k. fimm aðrar flugvélar Bandaríkjamanna fóru niður á sviðuðum slóðum á svipuðum tíma. En má sjá leifar þeirra.

Bláa lónið

Áning.

Götu þeirri er herbílar fluttu sundurskorna flugvélina var fylgt inn á Árnastíg. Sá stígur er ágætt dæmi um aðra forna þjóðleið milli Njarvíkna og Húsatófta, þriðja hverfis Grindavíkur. Skipsstígur lá niður að Járngerðarstöðum, en það þriðja, senn hefur ónefnt verið, Þórkötlustaðahverfið, fékk afleggjara af Skipsstíg.
Þar sem Árnastígur beygir til norðurs inn á hraunhelluna að Eldvörpum eru nokkrir hraunhólar, Vegamótahólar. Þar greinist leiðin, annars vegar að Húsatóptum um Árnastíg og hins vegar að Járngerðarstöðum um Járngerðarstaðastíg. Mosinn er horfinn af þessu svæði, en hann brann um ´56 þegar brottflognir Bandaríkjamenn voru þarna við heræfingar. Eftir svo langan tíma hefur hann enn ekki náð sér á strik sem skyldi, enda tekur mosann u.þ.b. öld að ná jafnvægi þar sem honum hefur verið raskað.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Skammt neðan við austanvert Sundvörðuhraun, þar sem er Sundvarðan, klettastandur upp úr hrauninu, fyrrum mið Grindvíkinga. Á hábrúninni eru þrjár vörður; afstaða þeirra vísa veginn á gatnamót, sem þarna eru skammt frá, annars egar áfram um Ánarstíg og hins vegar um Brauðstíg, að Eldvörpum og framfjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“. Þau eru í hraunkrika sunnan undir Sundvörðuhrauni. Þetta eru 10 tóftir, auk hlaðinnar refagildru, en tvær tóftanna eru uppi á hraunbrúninni. Þetta eru allmikil mannvirki, misstór en stærsta rústin er um það bil 4 x 1,5 m á stærð. Engar heimildir hafa fundist um þessar rústir og hafa því verið uppi getgátur um tilvist þeirra. Þær fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.

Brauðstígur

Gengið um Brauðstíg í Eldvörpum.

Þegar komið var að gatnamótum ofan við sauðfjárvarnargirðingu þótti ástæða til að staldra við. Þvergatan til vinstri nefndist Brauðstígur. Hann fór fólk frá Húsatóftum uppí Eldvörp til að baka brauð við hverahitann.
Skriðdrekaslóði liggur víða ofan á hinni gömlu þjóðleið Árnastígs. Síðan hefur honum verið haldið við með akstri annarra ökutækja. Þó má sumsstaðar sjá gömlu götuna til hliðar við slóðann. Á a.m.k. tveimur stöðum eru hlaðnar brýr á henni.

Árnastígur liggur yfir mjóa apalhrauntungu úr Sundvörðuhrauni og inn á slétt helluhraun Eldvarpahrauns.Fallegar hraunæðar, hraunreipi, katlar og önnur fyrirbæri varða leiðina upp fyrir suðaustanverð Sundvörðuhraunið. Sundvörðuna, hár hraunstöpull í austanverðu hrauninu, var mið sjómanna fyrrum, en vestan við Stekkjartúnskamp við Arfadalsvík eru klettabásar, nefndir Sölvabásar.

Skipsstígur

Við Árnastíg. Þorbjarnarfell fjær.

Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni. Í örnefnaskrá segir að „þegar þær bar í háan hraunstand [Sundvörðuna í Sundvöðruhrauni] í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.“ Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Síðasta varðan (nú sýnileg) á Árnastíg er skammt ofan við golfvöllinn. Hægra megin við hana liðast gamla gatan um móann áleiðis að lágri hraunbrekku á vinstri hönd. Lengra til hægri eru þrjár hlaðnar refagildrur. Búið er að rjúfa þakið á einni þeirra, en hinar tvær hafa fengið að halda sér eins og þær voru upphaflega byggðar.
Í stað þess að troða á væntumþykjanlegum grasflötum og grínum golfarana var ákveðið að fylgja striðdrekaslóðanum til austurs og nálgast gamlar hlaðnar refagildrur úr þeirri áttinni. Um er að ræða þrjár slíkar á tiltölulega litu svæði ofan Húsatófta. Vel má enn sjá lögun þeirra og notkunarforn,þrátt fyrir að þær sems líkar hafi ekki verið brúkaðar lengi.

Árnastígur

Árnastígur.

Gengið var að Húsatóptum (-tóftum, -tóttum) um Baðstofu (vatnsforðabúaðargjá Staðhverfinga og Hústóftinga). Hlélaust hefði gangan tekið u.þ.b. 2 klst, en með því að staldra við og skoða það er markverðast getur talist, s.s. jarðfræðifyrirbæri, jurtir, þjóðsögukennda staði og sjáanlegar minjar,tók ferðin tekið nálægt 4 klst.

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Húsatóptir, þar sem golfvöllur Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Staður, sem hverfið dregur nafn sitt af. Árið 1703 voru Húsatóptir konungsjörð og lá til Viðeyjarklausturs. „Selstöðu hefur jörðin lángvaranlega haft þar sem heitir á Selsvöllum, er þángað bæði lángt og erfitt að sækja.“ Hjáleigur voru Kóngshús og Garðhús. Árið 1936 var jörðin seld „með fleiri kóngsjörðum þetta ár, fyrir 630 ríkisdali í silfri til þáverandi landseta. Höfðu Viðeyingar hér áður útræði (1847).

Húsatóftir

Baðstofa.

Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóftalandi. Til endurgjalds áttu Húsatóftir þangfjörutak á Stað. Kaupstaður var á Húsatóptum og var lent við Kóngshellu. Jörðin fór í eyði 1946. Fimm tómthúsbýli voru byggð í landi Húsatópta á árunum 1906-1934; Dalbær (1906-46), Vindheimar (1911-34), Blómsturvellir (1914-22), Hamar (til 1930) og Reynistaður (1934-38). Vel má sjá móta fyrir öllum þessum býlum í vesturjaðri golfvallarins sunnan Húsatópta.
Árið 1703 var túnið á Húsatóptum mjög spillt af sandi og „enn hætt við meiri skaða“. Engvar öngvar og mestallt landið hraun og sandi undirorpið. Árið 1840 var hins vegar önnur lýsing gefin af Húsatóptum: „Mörgum þykir fallegt á bæ þessum því þar eru stór tún, slétt og fögur, þegar í blóma standa, eru þau og allvel ræktuð.“

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

„Bærinn stóð spottakorn frá sjó, á háum og víðsýnum fleti“, segir í sóknarlýsingu. Á túnkorti frá 1918 eru sýndar tvær húsaþyrpingar, en tvíbýli var á Húsatóptum. Tóftir gömlu bæjanna eru þar sem nýrra íbúðarhúsið stendur nú, uppi á brekkunni ofan vegarins. Annars eru tóftir fyrir austan húsið og hins vegar um 15 m vestan þess. Tóftirnar eru enn greinilegar að hluta, en sléttað hefur verið fyrir golfvellinu allt umhverfis þær.
„Frá þeim tíma [þ.e. verslunarinnar] er gólfið þar í bæjardyrunum steinlagt með tígulsteini. Er líklegt að Kaupmannshúsin hafi verið rifin þegar verzlunin lagðist niður, en svo aftur byggður bóndabær í „tóptum“ þeirra, og fengið þar af nafnið, sem hann hefur nú“, segir Brynjúlfur Jónsson í grein frá árinu 1903.

Húsatóptir

Húsatóptir – sjá má torfbæinn v.m.

Íbúðarhús úr steini var byggt á bæjarhólnum 1930, en fram að því hefur verið þar toftbær. Hús voru byggð 1777 með „binding úr torfi og grjóti að utan en göflum úr timbri“. Einnig var þar íbúðarhús beykisins, byggt 1779, „með veggjum úr torfi og grjóti, enm þaki úr timbri“.

Eldra íbúðarhúsið er nú stendur að Húsatóptum, byggt 1930, stendur neðar og vestar en tóftirnar. Það hýsir nú golfskála Grindvíkinga. Tóftirnar fast austan við núja íbúðarhúsið eru á hól. Þær eru tveggja hólfa, en á milli hólfanna er steyptur pallur. Um 20 m norðaustan við tóftirnar eru leifar húss eða kálgarðs.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.

„Hjáleigan Kóngshús stóð niður við Húsatóptarvör“, segir í Sögu Grindavíkur. Fast vestan Tóptarvarar er stór klöpp, sem á standa rústir sjóhúss. Er líklegt að hjáleigan hafi verið á svipuðum stað. Klöppin er alltaf upp úr sjó, en getur verið mikið umflotin á flóði. Hún er grasi gróin að hluta. Ekki eru aðrar tóftir á klöppinni en steypurústin, en sunnan í klöppinni standa tveir fúnir timburstaurar úr sjó.
Barlestarsker er beint niður af Húsatóptum, millli Þvottaklappa og Garðsfjöru, í Vikinu. Skerið er skerjatangi syðst í Garðsfjörunni. Ef tekið er mið af klöppinni með steyptu rústinni er Tóptarklöpp austan við hana, en Barlestarsker sunnan við hana. Þau eru tvö. Þar munu verslunarskipin hafa tekið barlest. Í öðru Barlestarskerinu var festarbolti gegnt öðrum í Bindiskeri í Vatnstanga í landi Staðar.
Keðja mun hafa legið þvert yfir víkina milli festarboltanna og voru verslunarskipin á dögum kóngsverslunarinnar svínbundin við keðjuna, þar sem þau lágu á víkinni. Svínbundið var þegar skip var bundið bæði aftan og framan langsum á keðjuna, þannig að hlið lægi að henni.

Staður

Kengur í Bindiskeri.

Boltinn í Barlestarskeri var stór, fleygmyndaður með auga í efri endanum. Hann var lengi notaður sem hestasteinn á hlaðinu á Húsatóptum, en er nú sagður vera í garði húss í Járngerðarstaðahverfi. Festarboltinn á Bindiskeri er enn á sínum stað. Í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1903 segir „að skipin hafi verið bundin á þrjá vegu við járnbolta, sem festir voru í klappir. Tveir af þeim voru í Húsatóptalandi, en einn í Staðarlandi. Jón bóndi Sæmundsson á Húsatóptum lét, nálægt 1850, taka upp báða þá boltana, sem í hans landi voru og færa heim til bæjar. Var annar hafður sem hestasteinn“.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Búðarhella er upp af Kóngshellu. Næstur er Búðasandur er tekur við af Garðsfjöru allt frá Tóptarvör. Danska verslunarhúsið stóð á litlum hól, u.þ.b. 80 m upp af Tóptarvör. Ennþá sést móta fyrir grunni þess. Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Stóðu höndlunarhúsin niður við sjó nálægt Hvirflunum, en kaupmenn bjuggu heima á Húsatóptum.“ Á innri klöppinni (ofan við Kónshellu), sem er mun hærri, hafði krambúðin síaðst staðið. Þar stóð enn fisksöltunarhús Húsatóptarmanna er þar var róið 1865 og 1866. Þar á klöppini var aflanum skipt eftir róðra og gjört að fiskinum. Líklega er hóllinn, sem talað er um hóll sá, sem sumarbústaðurinn Staðarhóll stendur nú. Fast sunnan við hann er Búðasandur.
Verslun var í Grindavík áður, en hætt var við hana snemma á 18. öld. Höfnin var rétt við prestsetrið Stað, við hólma, sem hjallur var á. Skipin lágu milli hans og Barlestarskers. Verslunarhúsin stóðu á Búðartanga, en nú er tanginn að mestu brotinn af brimi. Þegar grafið var þar fyrir löngu fannst þar lóð, 100 pund að þyngd, sem bar merki Kónsghöndlunar. Þar finnast enn krítarpípur ef vel er leitað. Búðin var byggð 1779, einnig eldhús með múraðri eldstó og Gamla pakkhúsið (sennilega eldri verslunarbúð).

Staður

Staður og Húsatóftir í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Verslun var tekin upp á ný í Grindavík árið 1664, en hafði fram til 1639 verið í Járngerðarstaðalandi. Kaupmenn „fluttu sig um set vestur í Arfadal í landi Húsatópta. Þar var ráðist í umtalsverðar framkvæmdir og á uppdrætti, sem Kristófer Klog gerði af Grindarvíkurhöfn árið 1751 má sjá verslunarhús niðri við ströndina. Þau stóðu skammt frá svonefndum Hvirflum, sem heita Búðarsandur…“, segir í Sögu Grindavíkur.
Á uppdrættinum sést tvílyft hús, talið vera krambúðin, sem reist var 1731, og minna hús sambyggt við austurendann. Þetta hús mun hafa staðið fram undir lok 18. aldar, en 1779 hafði ný krambúð verið byggð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Kaupsigling var í Staðarvík til 1745, en eftir það var aðeins siglt til Básenda, þó ennþá væri verslað í húsunum í grindavík. Árni Jónsson keypti húsin á Búðasandi 1789, krambúð, eldhús og „gamla pakkhús“, en hann varð gjaldþrota 1796 og lagðist þá verslun alveg af í Grindavík. Verslunarhúsin voru rifin 1806.
Í Arfadal, neðan við túnið á Húsatóptum, eru pípuklettar. Neðan þeirra, með sjávargötu frá Húsatóptum, er lítill klettur (gróinn hóll), sem Pústi heitir. Þar hvíldu menn sig gjarnan, er sjófang var borið heim. Nú er Pústi í golfvellinum.
Út undir Hvirflum eru klettar, sem heita Háavíti og Lágavíti. Í þeim eru mörg grjótbyrgi, og var fiskur þurrkaður a þeim, áður en söltun kom til. Í hrauninu fast norðan við þjóðveginn eru margir greinilegir grjóthlaðnir hleðslugarðar. „Þá notuðu m.a. Skálholtsmenn til að herða fisk sinn“, segir Þorvaldur Thoroddsen í Ferðabók sinni.

Húsatóftir

Nónvörður.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum.
Sagan segir að „þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.“ Hefur það orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á Nónhól skammt vestar, í Staðarlandi.
Árnastígur er sunnan við Klifgjá, vestast í jarði hennar, austan við túnið á Húsatóptum, vel rudd braut um apalhraun. Gamli vegurinn milli Staðarhverfis og Keflavíkur lá um Árnastíg og Klifgjá, þar norð-austur af er Þórðarfell. Um gjána lá svokallað Klif, snarbratt niður í hana. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta, segir í örnefnaskrá.

Árnastígur

Gengið um Árnastíg norðanverðan.

Syðsti hlutinn var bæði kallaður Staðar- og Tóptarvegur. Norðan Stapafells, kom gatan inn á svonefndan Járngerðarstaðaveg (Skipsstíg) á landamerkjum Njarð- og Grindvíkinga. Leiðin er um 16 km löng.
Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Þangggarðar voru suðaustan við bæjarhlaðið þar sem nú eru gamlar veggtóftir. Þar var þurrt þang geymt til vetrarins. Var því hlaðið þar upp og tyrft yfir það eins og hey. Á veturna var það svo notað til eldiviðar. Þangið var skorið í fjörunni, helst þegar stórstreymt var, og reitt á hestum upp á sjávarbakkann til verkunar. Þegar sterkur álandsvindur var, þá var þang of skorið „undir straum“, vafið um það gömlum netariðli ogmeð flóði fleytt í efsta flóðfar og þaðan reitt á hestum á þurrkvöll. Þá var breitt úr þanginu eins og heyi til þurrkunar. Nú var nauðsynlegt að rigndi vel á þangið, svo úr færi selta. Næst var þangið þurrkað vel, bundið í bagga eins og hey og flutt í geymslur til vetrarins. Oftast var þungu þangi hlaðið í bing í eldhúsinu og brennt á hlóðum. Vel þurrt þang logaði vel, með snarki og neistarflugi, en heldur þótti það léttur eldiviður. Kom sér þá vel að hafa „rekaspýtu í augað“.

Árnastígur

Upphaf Árnastígs við Húsatóftir.

Skipadalur er neðst í túninu. Þangað munu vertíðarskipin til forna hafa verið sett í vertíðarlok. Golfskálinn stendur í raun í Skipadal. Þar er nú sléttað malarplan. Skammt vestar er Húsatóptarbrunnurinn, sem enn sést móta fyrir.
Baðstofa er djúp gjá ofan Tófta þar sem Staðhverfingar fengu í velþóknun heimamanna að sækja sér ferskst vatn um langa tíð. Það er nú helst notað til handa sandverfu- og silungsrækt og fyrrum laxeldisstöð neðan og austan Tófta.
Þegar komið var að golfvellinum á Húsatóptum mátti sjá Þorbjarnarfellið (243 m.y.s.) í norðaustri, en það var ágætt kennileiti alla gönguna.
Frábært veður.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Braggi

Friðþór Eydal skrifaði um „Herbragga – minjar um merka húsagerð“ í Bændabæaðið árið 2013:
Braggi-21„Síðari heimsstyrjöldinni hefur verið lýst sem mesta umbrotatíma í sögu þjóðarinnar. Skyndileg opnun markaða í Bretlandi og Bandaríkjunum fyrir allar útflutningsafurðir þjóðarinnar á margföldu verði og atvinna sem skapaðist við það og fjölbreytt umsvif erlends herliðs í landinu hleypti af stað gríðarlegum efnahagslegum uppgangi. Umskiptin þóttu kærkominn eftir langvarandi stöðnun og kreppu og grunnur varð lagður að nútímavæðingu og velmegun þjóðarinnar.
Fjölmennt herlið bandamanna flutti til landsins ógrynni tækja og búnaðar og skildi ýmislegt eftir að styrjöldinni lokinni sem landsmenn nýttu á margvíslegan hátt. Nýstárlegar bifreiðar og stórvirkar vinnuvélar ollu byltingu í samgöngum og framkvæmdatækni og stór hverfi tunnulaga bárujárnsskála báru vitni um hugvitsamlegar lausnir í gerð bráðabirgðahúsnæðis til íbúðar og atvinnustarfsemi. Þótt herbúðirnar hyrfu flestar fljótt af sjónarsviðinu gengu fjölmargir skálar sem landsmenn nefndu bragga í endurnýjun lífdaga. Er af því merk saga sem snertir ýmsa þætti atvinnu- og byggingarsögu landsins á árunum eftir stríð og allt fram á þennan dag.
Víða um land má enn sjá bragga sem nýttir hafa verið með fjölbreyttum hætti og af mikilli hugkvæmni sem atvinnuhúsnæði í bæjum og útihús til sveita. Í nokkrum héruðum má segja að vart sé það býli sem ekki státi af gömlum bragga sem enn er í fullri notkun. Þetta er einkum áberandi í Eyjafirði og víðar á Norðurlandi. Gamlir braggar eru þó ekki bara braggar heldur eru þeir af nokkrum mismunandi gerðum og stærðum frá mismunandi framleiðendum í Bretlandi og Bandaríkjunum sem áhugavert er að skilgreina. Sjálfberandi bogaform er einkar hagkvæmt byggingarform semfremstu arkitektar og hönnuðir hafa löngum hagnýtt til fjölbreyttra nota enda mjög sterkt miðað við efnismagn. Formið hentar vel af þessum sökum við gerð bráðabirgðahúsnæðis og skýla, enda ódýrt og auðvelt í flutningi og uppsetningu og er t.d. víða notað í uppblásnum neyðarspítölum.
braggi-22Breski Nissen-bragginn var hannaður í fyrri heimstyrjöldinni af norskættuðum Kanadamanni, Peter Norman Nissen, sem starfaði í verkfræðisveit breska hersins í Frakklandi. Hönnunin var einföld – bogin bárujárnsklæðning á stálbogum með langböndum úr tré. Gaflar voru úr timbri eða steinhleðslu með gluggum og dyr á öðrum endanum. Gólfið var gert úr tréflekum og innri klæðning úr bárujárni eða trétexi. Efniviðurinn var auðveldur í flutningi og uppsetning fljótleg með ófaglærðu vinnuafli. Nissen-braggar voru framleiddir í stórum stíl fyrir breska herinn í báðum heimsstyrjöldum. Algengustu íbúðarskálarnir voru 16 x 36 fet að grunnfleti og hýstu 14 hermenn. Stærri skálar, 24 og 30 fet á breidd voru notaðir sem spítalar, mötuneyti, samkomusalir og skemmur. Stærri braggaskemmur, 35×90 fet að grunnmáli, voru notaðar í margvíslegum tilgangi, t.d. sem vörugeymslur og verkstæði.
Bandaríkjamenn kynntust bröggum Nissens í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöldinni og hófu eigin framleiðslu skömmu áður en Bandaríkin tóku að sér hervernd Íslands árið 1941. Bandaríkjaher tók við breskum herbúðum eftir því sem þær losnuðu og reisti fleiri skála úr bresku efni en þegar bandarískum hersveitum tók að fjölga árið 1942 tóku braggar af bandarískri gerð að berast til landsins. Bandaríkjamenn framleiddu fyrstu braggana nánast óbreytta og nefndu Quonset eftir flotabækistöðinni Quonset Point Naval Air Station í Rhode Island þar sem hönnun og framleiðsla fór fram í fyrstu á vegum Bandaríkjaflota.
Bráðlega braggar-23komu fram endurbættar gerðir sem voru 16, 20 og 24 fet á breidd. Breskir íbúðarbraggar og fyrstu bandarísku braggarnir þekkjast á tunnulagi, þ.e. innhvelfdum boga við jörðu, en endurbættir braggar af Quonsetgerð á lágum beinum veggjum. Aðrar gerðir hvelfast frá fótstykkinu.

Stórir skálar sem Bandaríkjaher reisti hér á landi sem vöruskemmur og verkstæðishús voru af tveimur gerðum, báðar 40×100 fet að grunnmáli. Slíkar skemmur þjónuðu einnig ýmsum öðrum tilgangi líkt og hjá Bretum, t.d. sem samkomuhús. Bandaríkjafloti reisti fyrst skemmur með háum beinum veggjum og lágu bogadregnu þaki sem líktust ráðhúsinu í Reykjavík í útliti. Þessi gerð var efnismikil og rúmfrek í flutningi og leysti jafnstór gerð Quonset-bragga, sem var helmingi efnis- og fyrirferðarminni í flutningi, hana fljótt af hólmi. Allmargar skemmur af báðum gerðum eru enn í notkun á nokkrum stöðum á landinu ásamt breskum bogaskemmum sem þó eru mun algengari.
Meginliðsafli bandaríkjahers hélt af landi brott árið 1943 og 1944. Liðsveitir sem eftir sátu til stríðsloka höfðu flestar braggi-24aðsetur á Keflavíkurflugvelli og Bretar á Reykjavíkurflugvelli. Breska og bandaríska herliðið reisti alls um 12.000 bragga af öllum stærðum og gerðum í landinu auk um 1.000 smærri bygginga úr timbri og steini sem einkum þjónuðu sem eldhús og böð. Bandaríkjaher tók við vörnum landsins af Bretum árið 1942 ásamt flestum mannvirkjum þeirra og bar ábyrgð á uppgjöri leigusamninga við landeigendur og að skila lóðum í upprunalegt horf.
Braggarnir leystu brýnan húsnæðisvanda að nokkru leyti Húsnæðisskortur var viðvarnandi í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri og lánaði bandaríkjaher bæjaryfirvöldum nokkur yfirgefin braggahverfi til þess að leysa úr brýnasta vandanum árið 1943. Bandamenn höfðu hvorki not fyrir mannvirkin annarsstaðar né mannafla til niðurrifs og sömdu stjórnvöld um að ríkisstjórnin keypti öll mannvirki Bandaríkjahers nema á Keflavíkurflugvelli og Miðsandi í Hvalfirði vægu verð gegn því að annast niðurrif og bæta landspjöll.
Voru samsvarandi samningar gerðir um eftirstöðvar breskra eigna braggi-26og Sölunefnd setuliðseigna falið að annaðist sölu eignanna og standa straum af kostnaði við landlögun og bótagreiðslur. Í erindisbréfi til nefndarmanna lagði Björn Ólafsson fjármálaráðherra áherslu á að vel væri gengið frá landinu og afmáð eftir því sem best væri unnt öll ummerki um herstöðvar og landinu komið í sómasamlegt horf.

Margir braggar standa enn Óhægt þótti fyrir Sölunefndina sjálfa að annast framkvæmdir og bæta skemmdir vítt og breitt um landið. Var samið við kaupendur á landsbyggðinni, sem aðallega voru sýslufélög og sveitarstjórnir, um að þær önnuðust landbætur og skuldbindingar vegna landeigna sem nefndinni báru. Innkaupsverð smærri Nissen-bragga var 100 krónur en margir voru í slæmu ástandi og ekki hæfir til endursölu. Útsöluverð samskonar bragga hjá Sölunefndinni var 1.000 krónur en vandaðri bandarískir braggar voru mun dýrari og vöruskemmur seldust fyrir 6.000 – 12.000 krónur.
braggi-28Braggarnir þóttu henta vel til íbúðar í skamman tíma en einkum fyrir atvinnustarfsemi og sem útihús til sveita þar sem fjölmargir þeirra gengu í endurnýjun lífdaga og standa margir enn nærri 70 árum síðar.

Ísland er ekki eina landið þar sem þessar stríðsminjar fengu nýtt hlutverk, en bragga er t.d. víða að finna í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hérlendis fengu braggarnir þó fljótt á sig hálfgert óorð sökum allt of langrar notkunar gamalla bráðabirgðaherbúða sem íbúðarhúsnæðis efnaminna fólks í höfuðborginni. Hlutfallslegur fjöldi og fjölbreytt nýting braggaefnis til endurbóta og tengingar við önnur byggingarform hérlendis verður þó að teljast nokkuð sérstök ef ekki einstök í húsagerðarlist.
Erlendis eru dæmi um að braggar hafi verið varðveittir í tengslum við byggðasöfn, hernaðarsöfn eða söfn um sögu húsagerðarlistar en hérlendis hefur varðveislan einungis ráðist af notagildi. Með endurnýjun húsakosts líður senn að því að þessar lifandi stríðsminjar og merkileg dæmi um útsjónarsemi í húsagerð landsmanna hverfi af sjónarsviðinu.“

Heimild:
-Bændablaðið, 19. árg., 15. tbl. 2013, bls. 22 – Friðþór Eydal, höfundur bóka um hernámsárin og fyrrum upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.

Braggar

Braggar við Keflavíkurflugvöll.