Keilir

Erlendur Magnússon, fyrrum bóndi Kálfatjörn, var fróður maður langt út fyrir sína sveit. Magnús Ágústsson frá Halakoti sagði Erlend hafa verið menntaðan mann þótt hann hafi ekki verið menntamaður.
Magnús Jónsson, fv. minjavörður í Hafnarfirði (frá Litlabæ), lýsti einhverju sinni næsta umhverfi Kálfatjarnar og þá Ólafur ErlendssonErlendi um leið: „Margir halda að túnin á Ströndinni séu aðeins einhverjir skæklar eða útnárar, en það er nú rétt einn misskilningurinn enn. Tún kirkjustaðarins, Kálfatjarnar, eru enginn smáskiki. Sízt er þó hægt að tala um ræktað tún í nánd við eyðibýlið Breiðagerði, en við „sjáum í gegnum fingur“ í því máli og teljum þetta allt vera samfellt og enda á túnunum umhverfis Halakot. Kálfatjörn var prestsetur til 1919 en árið eftir fluttust þangað ung hjón, bæði fædd í þessum margumtalaða hreppi, en það voru þau Erlendur Magnússon og Kristín Gunnarsdóttir, systir Ingvars kennara og umsjónarmanns Hellisgerðis í Hafnarfirði.
Erlendur var með afbrigðum vandaður maður til orðs og æðis. Hann hélt þeim fagra sið að lesa húslestur að morgni þá sunnudaga sem ekki var messað í kirkjunni. Var það aðeins nefnt að lesa en lögð virðing og allt að því lotning í það orð í þessu sambandi.
Hjón úr Hafnarfirði voru þar í kaupavinnu sumrin 1929, ’30 og ’31. Sagt er, að í vætutíð komi helzt þurrviðrisstund um helgar, er svo sé þegar þurrviðri er, þá geri oft skúr um helgar. Sumarið 1930 var fremur votviðrasamt. En svo nánast um mánaðamótin ág./sept. á sunnudagsmorgni, stendur allt heimilisfólkið á Kálfatjörn úti á hlaði undir skafheiðríkum himni í norðangolu. Svo mikið hafði rignt undanfarið að segja mátti að bæði tún og hey lægi undir skemmdum. Kaupakonan víkur þá snarlega að Erlendi og segir: „Jæja, á ekki að fara að breiða!?“ Erlendur hikar lítið eitt, þar til hann segir: „Ja, við skulum nú koma inn fyrst. Ég ætla að lesa.“
Þannig hugsaði kirkjubóndinn á Kálfatjörn þá. Guðdómurinn skyldi ganga fyrir og fá sitt fyrst.“
Norðurkot Sigrún Jónsdóttir, leiðsögumaður og mikil áhugakona um svæðið, lýsti nærtækustu staðháttum að Kálfatjörn á sagnakvöldi í Kálfatjarnarkirkju árið 2006: „Gegnt kirkjunni í vestur var prestsetrið til margra ára og eftir að það var aflagt eða frá 1920 bjó Erlendur Magnússon, oddviti og útvegsbóndi og Kristín Gunnarsdóttir og börn þeirra á Kálfatjörn. Heimili þeirra var opið prestum og öllum kirkjugestum til ýmissa verka. Systkinin tóku síðan við og tóku á móti gestum og gangandi alla sína búskapartíð eða þar til að Kálfatjarnarhúsið brann í nóvember árið 1998. Hlaðan er talin vera yfir 200 ára gömul og steinhleðslan einstök, tvöföld þ.e. ytri og innri steinhleðsla og loftbil á milli. Hún hefur haldist vel fyrir utan eitt hornið en upphaflega bakkaði olíubíll á það og síðan einhverjir aðrir og við það riðlaðist hleðslan. Erlendur smíðaði kvist á þakið og fjós við sem nú hefur verið rifið. Hlaðan var í notkun alla tíð fram til ársins 1999. Ólafur Erlendsson telur að tréverkið þ.e. bitarnir inni í hlöðunni séu úr Jamestown en það skip rak á hafi úti fyrir Ameríku í 3 ár áður en það strandaði við Þórshöfn nálægt Höfnum árið 1881.
Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti 1998, sem fyrr sagði.“
Eftirfarandi skrif um Vatnsleysuströndina eru úr óbirtu handriti Erlendar Magnússonar. Þau lýsa vel áhuga hans og viðhorfi til Strandarinnar:
Kálfatjörn „Vatnsleysuströnd liggur frá Keilisnesi að innan og að Vogastapa að sunnan, en Vatnsleysustrandarhreppur nær frá Hvassahrauni og að Vogastapa og er 16 km langur. (Á) Vogavík er allgóð höfn. Ingólfur Arnarson landnámsmaður gaf Steinunni frænku sinni þetta land alt sem nú er Vatnsleysustrandarhreppur, en hún gaf honum fyrir heklu bláa og kvað kaup skildi heita og sagði að síður myndi rift verða. Hún bjó að Hvassahrauni. Á seinni hluta 19. aldar mun hreppurinn hafa verið fólksflestur eða um 700 manns. Var þá sjávarútvegur í blóma sem jafnan hefur verið aðalatvinnuvegur hreppsbúa og sóttu þangað menn til róðra úr nærliggjandi héruðum allt norðan úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Nú eru rúm 310 manns í hreppnum og sjávarútvegur minni en landbúnaður meiri en var. Gengur nú bíll með mjólk til Reykjavíkur, einnig egg og jarðarávöxt. Alifuglarækt er töluverð og garðrækt mikil. Landið er erfitt til notkunar, utantúns skiftast á móar og grýtt moldarflög með berum klöppum á milli. Sauðfjárbeit er allgóð í heiðinni er nær til fjalls og kölluð er Strandarheiði. Er það gamalt hraun sem er gróið upp en víða blásið aftur. Hvergi er skógargróður nema lítið eitt í Vogaheiði sem liggur upp af Vogunum, en lynggróður og mosagróður er mikill. Gjár eru margar og slæmar (djúpar) í heiðinni og er hún því ill yfirferðar þeim sem ókunnugir eru. Helstu gjárnar eru Hrafnagjá, Klifgjá og Grindarvíkurgjá. Efst í landi Strandarinnar (Kálfatjarnarlandi) er Keilir – hann er leiðarvísir á miðum við sunnanverðan Faxaflóa. Útgerðin er mest á opnum vélbátum (trillum), einnig altaf eitthvað á mótorbátum. Úti fyrir landi eru víða mikil sker og lendingar slæmar.
BakkiByggðin er öll með sjónum og mest syðst. Skiftist hún í hverfi. Flest yngri húsin eru úr steinsteypu, en hin eldri úr timbri. Kálfatjarnarhúsið er elsta húsið – er það nú um 100 ára. Kirkjustaðurinn er á Kálfatjörn og var prestssetur til 1920 að það var lagt til Garða á Álftanesi. Síðasti prestur var séra Árni Þorsteinsson, klerkur góður. Næstur á undan honum var sálmaskáldið séra Stefán Thorarensen. Hann stofnaði barnaskóla á Ströndinni 1860 og var það með fyrstu barnaskólum á landinu. Margt góðra manna hefur verið á Ströndinni og margir nýtir menn komið þaðan, einkum sjómenn (og skipstjórar) eins og t.d. Einar Stefánsson, skipsstjóri á Dettifossi, og Jón Bjarnason, vélstjóri á Gullfoss, enda hafa Strandaringar verið orðlagðir sjómenn og fiskimenn. Í Reykjavík eru margir handiðnaðarmenn fæddir og uppaldir á Ströndinni. (2 eru nú við nám í Háskóla Íslands). Félagskapur er talsverður á Ströndinni. Þar eru meðal annars: Kristniboðsfélag kvenna, Kvennfélag, Barnastúka, Ungmennafélag, Góðtemplarastúka, lestrarfélag ágætt, Búnaðarfélag, Útgerðarfélag og fleiri.
Engar ár eða lækir eru á Ströndinni, en vatn er þar nóg núorðið, því djúpir brunnar hafa verið grafnir en áður verið vont með vatn sem nafn sveitarinnar bendir til. Útsýni af Ströndinni er fagurt og sjóndeildarhringurinn víður. Fjallgarðar Reykjaness og Snæfellsness blasa við bryddir geislaskrúði morgunsólarinnar og kvöldsólarinnar – og óvíða mun fegurra sólarlag en á ströndinni.“
Erlendur Magnússon lýsti í skrifum sínum bæði búskapar- og atvinnuháttum á Ströndinni, gömlum þjóðleiðum og öðru því sem þá hefur þótt nokkuð hversdagslegt, en verður nú að teljast stórmerkilegt.

Sólsetur

Sólsetur á Vatnsleysuströnd.

FERLIR lagði í lok marsmánaðar (2010) land og jökul undir fót og hélt að eldsupptökum gosstöðva á Fimmvörðuhálsi.
EldurGosið kom reyndar upp á Hruna í Goðalandi, en ekki á hálsinum sjálfum. Fetuð voru spor á Mýrdalsjökli upp í allt að 1.504 m.h.y.s., framhjá gígopi Kötlu og inn á berangurshálsinn millum Mýrsdalsjökuls og Eyjafjallajökuls. Leiðangursstjóri var Kári Björnsson, fumlaus með öllu, enda ekki lagt að sækja það (sonur Björns Hróarssonar, jarð- og hellafræðings [Extreme Iceland]).
Um var að ræða gos er varð á sprungurein á tiltölulega afmörkuðu svæði. Gosið er að mörgu leyti líkt bæði Heymeyjargosinu (1973) og Surtseyjargosinu (1963), a.m.k. er um samskonar frumstætt „sjávarhraun“ að ræða að mati jarðfræðings af frönskum ættum er var með í för. Samferða var einnig enskur fasteignasali, sem af einhverri ástæðu hafði sérstakan áhuga á eldstöðinni – hvað s.s. það táknar til lengri framtíðar er litið…
Annars var megintilgangur ferðarinnar að líta á og heyra í þessari nýfæddu systureldstöð þeirra fjölmörgu eldri er enn má sjá á Reykjanesskaganum.

Fimmvörðuháls

Á Fimmvörðuhálsi.

 

 

Skagagarður

Var genginn með Jóni Ólafssyni, fyrrverandi og margfróðum skólastjóra í Gerðaskóla í Garði. Fylgdi hann hópnum frá Kirkjubóli, um Garðskaga að Vatnagörðum. Lýsti hann staðháttum við Kirkjuból er Kristján skifari var brenndur þar inni 1551 eftir að áður hafði verið kveðið á um að “jörðin og öxin” geymdu best þá Jón Arason biskup og syni, Björn og Ara.
Dóttir Jóns fékk flokk manna tikirkjubol-21l að sækja að Kristjáni og mönnum hans eftir að fréttist af ferðum þeirra á Romshvalanesi. Höfðust þeir þá við að Kirkjubóli. Bónda var gefinn kostur á að ganga úr, sem og hann þáði, áður en eldur var borinn að bænum. Voru innimenn síðan handteknir er þeir reyndu útgöngu, hver á fætur öðrum. Þolinmæði aðsóknarmanna var lítil. Drápu þeir einhverja þar sem nú heitir Draughóll (á mörkum Garðs og Sandgerðis). Þar eru gamlar heimildir (Fornbréfasafnið) um leturstein því tengdu. FERLIR hefur leitað steinsins, en Draughól hefur verið raskað verulega frá því sem var. Varnarherinn hafðist þar að um á stríðsárunum hinum síðari og eru ummerki eftir hann á svæðinu. Við Draughól er letursteinn með áletrun, er gæti verið sá er nefndur var, en sá hefur sömu áletrun og Sveinbjörn Rafnsson lýsir þar árið 1817. Steinninn var myndaður, líkt og aðrar sýnilegar minjar á Reykjanesi.

Árnarétt

Árnarétt.

Gengið var um Hafurbjarnastaði, rættið ábúanda og litið á staðsetingu fornmannagrafreitsins, sem þar er. Í kumli þar fannst m.a. kona með keltneska skartgripi. Staðfestir það þá kenningu að sumar konur landnámsmanna hafa verið af keltneskum uppruna, en segir lítið um keltneskt landnám hér á landi (a.m.k. ekki enn sem komið er).
Jón lýsti m.a. Skagagarðinum mikla og tilgangi hans, einu elsta og mesta mannvirki hér á landi. Þegra komið var að Garðskaga opnaði Ásgeir Hjálmarsson á Garðskaga Byggðasafnið fyrir FERIRsfólkinu og gekk með því um safnið, sagði frá munum og mönnum og framtíðaráformum safnsins. Þá var komið við í enn einni fjárborginni á Reykjanesi, Útskálaborg, gengið um Helgustaði og yfir síkin að Vatnagörðum, sem er eina ófallna kotið frá tímum Milljónafélagsins.
Í bakaleiðinni var gengið yfir heiðina þar sem afvelta hrútur nauð góðs af ferðinni.
Veðrið var í einu orði sagt frábært. Gangan tók 3 klst og 11 mínútur.

Draughóll

Áletrun á steini við Draughól.

Tjarnarhnúkur

Gengið var á Ölkelduhálsi frá stað skammt austan við Kýrgil að miklum gjall- og klepragíg efst á Tjarnahnúk. Þaðan var haldið til norðausturs niður með Álftatjörn og Kattartjörnum að Súlufelli og síðan til vesturs um dalina inn að Ölfusvatnslaugum áður en gengið var til baka að upphafsstað.
Tjarnahnuksgigur-2ISOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr Jarfræðikort af Suðvestur-landi. Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er bent á 40 áhugaverða staði, m.a. þá sem nú var ætlunin að skoða.
Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.
FeldspatEftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt. Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. 

Sulufell

Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.“
Álftavatn er stórt vestan Kyllisfells. Kattartjarnarhrygg var fylgt áleiðis að Súlufelli austan Kattartjarna.
Súlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan.
Olfusvatnslaugar-1Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum. Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum.

Olfusvatnslaugar-2

Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.“

Olfusvatnsa

Gengið var til vesturs ofan og framhjá Djáknapolli um neðsta hluta Tindagils, inn eftir Þverárdal og Ölfusvatnsá síðan fylgt upp að laugunum.
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.“
KyrgilKristján Sæmundsson, jarðfræðingur, segir að
Ölfusvatnslaugar heiti svo en ekki Hagavíkurlaugar sem stundum sést. Þegar Hagavík (jörðinni) var skipt úr Ölfusvatni (jörðinni) fékk Hagavík vesturhlutann með laugunum. Þá fór að sjást skrifað „Hagavíkurlaugar“. Ölfusvatnslaugar eru sérstakar fyrir hrúðrið, bungulaga með gosstrokk niður úr, gos þó löngu hætt.
Iillfært er upp úr Kýrgili nema fremst. Hár hnúkur fast sunnan við Kýrgil næst Hengli, en skarð á milli, heitir Kýrgilshnúkur. Hann er gamall gígur. Þar er grágrýtisflákinn (ísaldarhraun) upprunninn sem myndar Bitru og endar í Hamrinum ofan við Hveragerði.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Heimildir:
http://isor.is/ -Jarðfræðikort af Suðvesturlandi.
-Kristján Sæmundsson, 2010.

Ölfusvatnslaugar

Ölfusvatnslaugar.

Hafnarfjörður

Á skilti milli húsanna Hverfisgötu 43 og 45 í Hafnarfirði er upplýsingaskilti um „Vitann við Vitastíg„. Vitinn sést reyndar ekki frá skiltinu, en á því er eftirfarandi texti:

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að vestanverðu.

„Þrátt fyrir að Hafnarfjörður hafi verið ein helsta höfn landsins á Suður- og Vesturlandi í gegnum aldirnar var lengi vel ekku um nein öryggistæki að ræða þar utan þess að á helgaskeri úti fyrir höfninni voru varúðarmerki í einhverri mynd allt frá aldamótunum 1800. Árið 1900 brugðust stjórnvöd við þessu og létu reisa tvo vita í Hafnarfirði, annan niðri við höfnina en hinn hér efst uppi á háhrauninu ofan við bæinn. Árið 1910 sendi stjórnarráðið bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi og fór þess á leit að kaupstaðurinn tæki að sér resktur vitanna, að öðrum kosti yrðu þeir fjarlægðir. Varð það úr og frá ársbyrjun 1911 tók kaupstaðurinn við rekstri beggja vitanna. Hafnarfjarðarbær fékk vitana afhenta án endurgjalds gegn skilyrðum um viðhald og rekstur þeirra og að á þeim logaði ljós frá hálfri stundu fyrir sólarlag til hálfrar stundar eftir sólaruppkomu frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Tveimur árum síðar, árið 1913, var ákveðið að færa neðri vitann að Fiskakletti og etta sama ár var efri vitinn hækkaður allnokkuð þar sem hin nýreista Fríkirkja við Linnetsstíg skyggði á hann.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að austanverðu.

Olíugeymsla beggja vitanna var við Fiskaklettsvitann og þurfti að bera olíu þaðan, í brúsum, upp að efri vitanum á hverjum degi. Í vitunum voru olíulampar og á bak við logann var silfurhúðaður kúptur spegill sem kastaði ljósgeislunum frá sér en framan við lampann var dregin rauð rúða, því vitaljósin áttu að vera rauð. Þar sem ljósunum bar saman úr vitunum tveimur var innsiglingarleiðin inn í Hafnarfjarðarhöfn.

Árið 1931 voru gerðar miklar breytingar á rekstri vitanna sem fólust meðal annars í því að neðri vitinn, sá sem staðið hafði við Fiskaklett, var rifinn og í efri vitann var settur svokallaður blossviti sem var gasljós með mislitum hornum. Þetta varð til þess að ekki var lengur þörf á daglegri umsjón með vitunum og var þá Gísla Jónssyni vitaverði sagt upp störfum en han hafði gegnt því starfi frá árinu 1900, í rúm 30 ár. Eftir það var það hlutverk hafnsögumanna að þjónusta vitann, allt til ársins 1979 þegar vitinn var lagður niður og leiðarmerki tekin í notkun í hans stað. Í dag er vitinn í eigu Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar og nýtur hann verndar samkvæmt lögum um menningarminjar.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – hús við Hverfisgötu og vitinn á háahrauninu ofar.

Hellisgerði

Við innganginn í Hellisgerði í Hafnarfirði er skilti með eftirfarandi upplýsingum:

Hellisgerði

Fjarðarhellir í Hellisgerði.

„Sögu Hellisgerði má rekja aftur til miðvikudagsins 15. mars árið 1922. Þá hélt Guðmundur Einarsson framkvæmdarstjóri trésmiðjunnar Dvergs framsögu á fundi er hann nefndi „Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?“

Hellisgerði

Hellisgerði 2024.

Í framsögunni svaraði hann spurningunni játandi með að koma upp skemmti- og blómagarði sem yrði Magna til sóma og bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var stofnuð nefnd innan félagsins sem hafði það hlutverk að finna heppilegan stað fyrir garðinn. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hið svokallaða „Hellisgerði“ á milli Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar værið kjörið fyrir garðinn. Þar var vísir að trjálundi en C. Zimsen verslunarstjóri hafði látið girða af svæði í kringum Fjarðarhelli um aldamótin.

Hellisgerði

Hellisgerði.

Haustið 1922 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta félaginu í té hið umbeðna garðstæði endurgjaldslaust. Það skilyrði fylgdi þó samþykkt bæjarstjórnar að skemmtigarðurinn yrði opinn almenningi á sunnudögum á sumrin og að ef eigi yrði búið að griða svæðið af og hefja ræktun þar innan tveggja ára, missti félagið rétt sinn til landsons. Vorið eftir var búið að girða Hellisgerði af og þann 24 júní var haldin þar útiskemmtun sem hafði þann tilgang að afla fjár til starfseminnar og kynna fyrir bæjarbúum. Við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði fyrir hönd bæjarfélagsins og óskaði þeim velfarnaðar í starfinu. Skemmtunin þótti takast svo vel að ákveðið var að halda Jónsmessuhátíð árlega til fjáröflunar. Til skemmtunar voru ræðuhöld, lúðrablástur, söngur og dvöl í gerðinu sjálfu.

Síðasta Jónsmessuhátíðin í Hellisgerði var haldin árið 1960.

Hellisgerði

Hellisgerði.

Í Skipulagsskrá fyrir garðinn kemur fram að tilgangur hans var fyrst og fremst þvíþættur. Í fyrsta lagi að vera skemmtigarður, þar sem bæjarbúar áttu kost á að njóta ánægju og hvúldar í tómstundum sínum. Í öðru lagi að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt og í þriðja lagi að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar.

Hellisgerði

Í Hellisgerði.

Vorið 1924 hófst ræktun í Hellisgerði og var þá Ingvar Gunnarsson kennari ráðinn forstöðumaður. Upphafleg stærð garðsins var um 4000 m2 en árið 1960 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta Magna í té 6000 m2 land til viðbótar við Hellisgerði. Óhætt er að segja að enginn enn maður hafi ráðið eins miklu um útlit og rekstur Hellisgerðis frá upphafi og Ingvar Gunnarsson en að honum látum var Sigvaldi Jónsson garðyrkjumaður ráðinn forstöðumaður en eftirmaður hans vera Svavar Kjærnested. Eftir að starfsemi Magna og Garðráðs lagðist niður hefur umsjón og eftirlit Hellisgerðis verið í höndum garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.“

Hellisgerði

Hellisgerði.

Kálfatjörn

Eftirfarandi, „Suður með sjó„, er byggt á óbirtu handriti er Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn (f: 1892) skyldi eftir sig. Um er að ræða handrit á stílabókarblöðum er urðu eftir undir berum himni er eyðibýlið Norðurkot var flutt með nútímatækjum yfir að Kálfatjörn. (Svo virðist sem að hér sé um að ræða erindi, sem Erlendur hélt af gefnu tilefni um leiðina milli Innnesja og Útnesja (Reykjavíkur og Njarðvíkur).
BrunnurÁrtalsins er ekki getið, en Erlendur, sem manna fróðastur var um Kálfatjörn og nágrenni, lést árið 1975). Norðurkot var einn fyrsti barnaskólinn á Vatnsleysuströnd (næst á eftir Brunnastaðaskóla) og þar var Erlendur kennari um skeið. Eftir að skólinn lagðist af sem og ábúðin á jörðinni var þar innan dyra safnað saman ýmsum persónulegum munum og minjum fólksins, sem hafði búið á svæðinu. Ekki virðist hafa verið lögð rækt við varðveislu þessa því vindur, vatn og vegfarendur áttu greiða leið að gögnunum. Sumt var borið á aðra bæi, en sumt annað varðveitt á staðnum.
FERLIR kom stílabókinni, að afritun lokinni, á sinn stað, en hvort einhver áhugasamur hefur fangað hana til frekari varðveislu skal ósagt látið. Áhugi „þarlendra“ á sögulegum og áþreifanlegum menningarverðmætum sínum virðist hafa verið takmarkaður – hingað til a.m.k.
(Eftirfarandi er endurritað sbr. handritað blaðsíðutal (1-11) ásamt athugasemdum, sem á það eru skráðar).

„Leiðin suður með sjó – þ.e. vegurinn frá Innnesjum til Suðurnesja, liggur hvorki um fjöll né fyrnindi. Í meir en 10 aldir var hún farin af ríðandi en þó fremur af gangandi fólki, og var ein af fjölförnustu leiðum landsins og á því sögu s.a.s. í hverju fótmáli. Enn þá á fólk heima suður með sjó – aldrei fleira en nú – kemur sunnan með sjó og fer suður með sjó. Ingólfur Arnarson lét ýmsa hafa af landnámi sínu til búsetu þ.á.m. Steinunni frændkonu sína í Hvassahrauni og allt land þar fyrir sunnan að hún greiddi með heklu flekkóttri og kvað kaup skyldu kallast. Árni Óla telur að Steinunn hafi búið í Hólmi í Leiru, en Eyvindi fóstra sínum og frænda gaf hún land frá Hvassahrauni að Vogastapa. Hann bjó að Stóru-Vogum. Hrolleifur í Heiðarbæ vildi hafa jarðabítti við Eyvind og skoraði hann á hólm er hann vildi ekki öðru vísi láta [merkt við]. Fluttist Eyvindur að Heiðarbæ og bjó þar lengi. Fluttist síðar suður á Nes og bjó á Bæjar(Býjar)skerjum.
Fjárskjól– Ketill Gufa kemur og við sögu Suðurnesja. Hann bjó skamman tíma á Gufuskálum í Leiru, en Steinunn í Hólmi þoldi hann ekki í nábýli við sig og kvað þar skyldu verstöð vera á Gufuskálum. Þaðan var stutt á fiskimið og gott á land að leggja fisk til herslu, (sem var algengasta verkunaraðferðin í þá daga).
Fljótlega verður fjölfarið austan úr sveitu og suður með sjó.  Skipti á land- og sjávarafurðum var fólkinu nauðsyn. Vorferðirnar voru aðallega um Jónsmessuleytið og hélst svo fram á 2. áratug þessarar aldar að austanbændur fjölmenntu þá suður með sjó með afurðir sínar og til kaupa á fisk[meti] í staðinn.
Skal nú lagt upp í ferð suður með sjó og ferðin hafi á Skólavörðuholtinu sem kennt er við vöröuna sem nú er horfin illu heilli. – Við höldum suður yfir Eskilhlíðina og ofan í Fossvog. Ef þetta er um lestirnar eru þarna mörg tjöld, margir ferðamenn með fjölda hesta, margir þeirra á leið suður með sjó, aðrir að koma þaðan. Þetta er góður áningarstaður, grasivaxinn dalur með straumlygnum læk með krystaltær[u] vatni til svölunar mönnum og málleysingjum.
Við förum yfir Kópavogshálsinn og síðan yfir Kópavogslækinn, sem ekki getur nú kallast vatnsfall, þótt allmikill geti hann orðið í leysingum eins og t.d. þegar börnin frá Hvammkoti drukknuðu og Matthías orti um sín [fögru] eftirmæli. Í stórstraumsflóðum fellur sjórinn langt upp í lækinn.
Nú tekur við Arnarneshálsinn, sem er lægri og styttri en Kópavogshálsinn. Sunnan við hann er Arnarneslækurinn sem rennur út í Skerjafjörð eins og fyrrnefndir lækir. Norðan við lækinn stóð bærinn Arnarnes, en sunnan við hann tóku við allstór mýri, sem nú er löngu ræktuð og að sumu leyti byggð eins og hálsarnir, sem báðir eru þéttsetnir húsum. Fyrrum var mikill mór tekinn upp í Arnarnesmýri, því þar var mótak allgott og nærtækt.

Gamla gatan

Í gamla daga voru stórar þúfur hlaðnar sem vörður við veginn [götuslóðann] sem lá eftir mýrinni endilangri. Komu þær sér oft vel fyrir vegfarendur. Syðst í mýrinni var Hraunsholtslækur, mjór en nokkuð niðurgrafinn og djúpur og því víðsjáll í myrkri a.m.k. fyrir ókunnuga. Þegar kemur yfir Hraunsholtið tekur við Garðahraun – nú oft nefnt Hafnarfjarðarhraun.
Yfir það liggur vegurinn niður í Hafnarfjörð þann eina með því nafni af landsins mörgu fjörðum og ber vissulega nafn með rentu. Þar er stutt sigling um og út og var það ómetanlegt hagræði á dögum seglskipanna. Inni í höfninni var hið bezta lægi, ágætur akkerisbotn, þéttur djúpur leirbotn. Hafnarfjörður var mikið notaður fyrir [vetrar]lægi á skútuöldinni.
Yfir hraunið lá vegurinn niður í plássið, slétt svæði undir háuum kambi hraunsins þar sem framrennsli þess hafði stanzað. Plássið liggur niður að höfninni. Þar var athafnasvæði ferðamanna, bæði af sjó og landi og þar kom fyrsta bátabryggja Hafnfirðinga – Brydesbryggjan. Nú hefur allt þetta svæði og suður fyrir læk verið fyllt upp og þar er nú umferðargata. Við það fór lending og smábátauppsátur margra Hafnfirðinga. Af plássinu lá vegurinn með sjóum eftir mölinni yfir lækinn – Hafnarfjarðarlækinn – sem var aðalvatnsból byggðarinnar og þar tóku skipin [sjómenn] vatn og fluttu á tunnum út í skipin.
Þótt lækurinn í Hafnarfirði sé ekki stór á hann samt merka sögu. Þar var reist fyrsta vatnsaflsrafstöð á Íslandi og timburverksmiðja af dugnaðariðjuhöldinum Jóhannesi Reykdal. Vegurinn lá svo yfir lækinn og ofan við mölina neðan við Hamarskot og svo skáhalt upp og suður yfir Hamarinn og niður hjá bænum Hellu og á mölina er þar tók við suður fyrir Flensborg. Malarsvæði þetta sem er botn fjarðarins var kallað Bankinn þótt þarna væri um langan aldur skipum lagt á þurrt til að hreinsa af þeim slí og annan gróður. Ofan við mölina var tjörn og umhverfis hana mýri. Þar var mótak. Einhverntíma hefur þar vaxið skógur. Það sýndu sverir lurkar sem komu upp úr mógröfunum.
Rétt sunnan við Flensborg komum við að litlum læk, Ásbúðarlæk. Eru þá talin vatnsföll á leiðinni frá Rvík suður með sjó.
Gamla Þegar yfir lækinn kemur, liggur vegurinn til suðurvesturs ofan við bæina Ós, oftast nefndur Óseyrarós, stundum Flensborgarós eða Ásbúðarós því upp af honum var býlið Ásbúð.
Beggja vegna við ósinn var uppsátur þeirra er heima áttu sunnan til í firðinum. Var þar alltaf margt báta. Í ósinn sjálfan voru á haustin sett þilskip, sem flutu vel inn í hann um flóð en voru svo rétt á þurru um fjöru. Þar var gert við þau eftir því sem þurfa þótti og aðstaða leyfði. Einn þeirra, sem að þeim smíðum vann var Óli norski – sérkennilegur [dugnaðar]karl, krypplingur og hafði kikinn herðakistil. Hann mun hafa verið skipstjóra lærður enda sagði hann stundum – Mig getur allt – til sjós og lands.
En höldum nú áfram suður með sjó – Vegur lá suðvestur með Óseyrartúni og meðfram Hvaleyrartjörn þar sem nú er skipasmíðastöðin Bátalón og yfir Hvaleyrina meðfram hinu fallega Hvaleyrartúni, yfir Hvaleyrarsand inn í Hellnahraunið þar sem nú er Sædýrasafnið. Þá er farið suður yfir suður yfir Kapelluhraun ofan við Hraunabæina og suður yfir Almenninginn svonefnda – þ.e. hraunið milli Hraunabæja og Hvassahrauns. Í Almenningi er mikið skógarkjarr. Þar var gert til koma áður fyrr og þar var rifið hrís og lyng til eldiviðar á Bessastöðum og víðar, margir hestburðir á ári hverju og var furða hvað það entist. Nú er Almenningur að gróa upp bæði að grasi og skógi. – Í Almenningi er Gvendarbrunnur, hraunhola með grasbala í kring. Í henni er alltaf einhver vatnslögg. – Flestir stoppuðu við Gvendarbrunn og margir skáru fangamark sitt í grasið.
VarðaÞau voru orðin æðimörg. – Þau gömlu greru og hurfu en eönnur ný komu í staðinn. Eftir að upphlaðni vegurinn kom um hraunið 1912 tók af alla umferð hjá Gvendarbrunni.
– Skammt norður af Gvendarbrunni er, eða var öllu heldur, Rauðhóll – allhár og mikill um sig, en hefur verið tekinn í ofaníburð í vegi og lóðir og til fyllingar í húsgrunna að ógleymdum Reykjavíkurflugvelli sem að mestu er gerður úr Rauðhól sem segja má að sé nú orðinn eins mikið niðurgrafinn eins og hann var [stóð] upp úr áður. – Vestur-suðvestur af Gvendarbrunni er svonefndur Smalaskáli – hrauntunga með helli í og horfir munninn gegnt Gvendarbrunni. Við munnan eru hleðslur nokkrar enda er þetta gömul fjárgeymsla Hraunamanna. Sunnan við Smalaskála er fjárborg – Óttarstaðaborg, hlaðin af Kristrúnu á Óttarsstöðum og fjármanni hennar. Nú er skammt til hreppsmarka [seinasta bæjar] í Vatnsleysustrandarhreppi – Hvassahrauns – alkunnur bær fyrir gestrisni og greiðasemi um aldaraðir enda lá það vel við til að fá hvíld og hressingu eftir gönguna frá Hafnarfirði suður með sjó. Austan og ofan við bæinn er hraunið allhátt. Þar er hóll með vörðu á og heitir Skyggnir enda er frá honum víðsýni til allra átta. – Suður frá Hvassaahrauni heita [Siggudagur] og Látur. Þaðan var útgerð fyrrum. Þarna kemur ferskt vatn undan hrauninu sem blandast sjó og myndast tjarnir í hraunlágunum þegar að fellur [og gæti í þeim sjávarfalla]. – Þá erum við komin í Afstapahraunið. Neðan ogs unnan við það er Kúagerði – alkunnur áningarstaður, en nafnið dregið af kúahögum Vatnsleysulenda, enda er þetta einn af fáum gróðurblettum á þessum slóðum. Þar var bær ekki alls fyrir löngu. Hann reisti Einar nokkur kallaður lóni – enda frá Lónakoti – hafði áður verið í siglingum. Einar reri einn á báti og sóttust strákar eftir því að vera með honum því að Einar var barngóður. Þegar krakkarnir hlýddu honum ekki nógu fljótt sagði Einar og brýndi raustina: Þið verðið að læra að hlíða strákar – það eru hörð sjólögin. – Var þetta síðan haft að orðtaki. Sunnan við Kúagerði heitir Akurgerði –dálítið graslendi alveg við Vatnsleysuvíkurbotninn.
Gamla – Frá Afstapahrauni liggur vegurinn eftir Ströndinni ofan við byggðina alla leið á Vogastapa. Ofan við hann liggur Strandarheiðin frá Afstapahrauni að innan að Grindavíkurhrauni að sunnan. Innstu bæir á ströndinni eru Vatnsleysurnar og Flekkuvík. Fyrir sunnan hana gengur Keilisnesið út í sjó. Eftir því og upp á heiðina liggur hæðarhryggur, Stefánsvörðuhæð, því Stefán bóndi Pálsson á Stóru-Vatnsleysu hlóð þar vörðu, ágætlega gerða og hefur henni verið haldið við af þeim feðgum frá Litlabæ, Jóni Helgasyni og Magnúsi syni hans sem klöppuðu nafnið á hana. Frá vörðunni er mjög víðsýnt, því þaðan sést allur fjallahringurinn frá Snæfellsjökli og út að Garðskagatá.
Byggðin á Ströndinni er nokkuð samfelld en þó skipt Innströnd, Miðströnd og Suðurströnd að Bieringstanga, sem dregur nafn af Bireing, sem þar hóf útgerð og athafnasemi. Frá tanganum er nokkurt óbyggt bil suður að Vogum sem nú er pláss í miklum uppgangi.
Á Vatnsleysuströnd hefur alltaf verið nokkur landbúnaður og sjást menjar þess enn í dag, þar sem eru selin mörgu á Strandarheiðinni og stekkirnir, sem [fylgdu] s.a.s. hverju byggðu bóli. Byggðin er meðfram sjónum eða skamt frá ströndinni og vegur lá milli bæjanna og leiðarinnar. Kirkjustaður Vatnsleysustrandar er á Kálfatjörn og þar var prestsetur frá öndverðri kristni og til ársins 1919 er síðasti presturinn, sr. Árni Þorsteinsson andaðist [eyða] (vantar sem innskot prestatalið frá Kálfatjörn, sem var í kassanum) því árið 1907 hafði brauðið verið lagt niður með lögum og sameinað Görðum á Álftanesi.
Sunnan við Vogana liggur vegurinn um svonefnt Reiðskarð upp á Vogastapa, sem áður hét Kvíguvogabjarg. Vegurinn upp skarðið var brattur, en ekki langur. Reiðskarð mun heita svo af því að það var eina leiðin með hesta upp á Stapann. Gönguleiðir voru um Kvennagönguskarð, Brekkuskarð og Rauðastíg, sem þótti illfært en var þá stundum farinn um fjöru til að stytta sér leiðina um Vogasand, því að fjöruborð er þarna allmikið. Undir Stapanum stóðu bæirnir Brekka og Stapabúð. Á þeim – og syðstu bæjunum í Vogunum, Suðurkoti og Bræðraparti, var fyrrum talsverð gestnauð og mikil gestrisni líkt og áður er sagt frá um Hvassahraun. –
Reiðskarð Upp af Reiðskarði liggur vegurinn suðvestur yfir Stapann – fram hjá Grímshól, sem er á Vogastapa þar sem hann er hæstur.
Þarna – hjá Grímshól er Vogastapi hæstur, lækkar aflíðandi. Til landsins er er standberg í sjó fram. Vegur liggur suðvestur niður Grynnriskoru, í gömlum ritum nefnd Kolbeinskora – Þar eru mörk milli Vatnsleysustrandar og Njarðvíkurhrepps. – Úr Grynnriskoru var farið yfir hæðarbungu og yfir í Dýpriskoru, sem skerts lítið undir?? Stapann. Bilið milli Skoranna heitir Hörsl?? Á því eru 3 smáhæðir, sem eru kallaðar Grynnsta-hörsl? Miðhörsl og Dýpsta hörsl og voru notaðar fyrir mið úti á fiskislóðum. Nú er aflíðandi halli niður að Stapakoti í Innri-Njarðvík. Við veginn má sjá garð hlaðinn í Kross úr grjóti og torfi. Þetta mannvirki eins og mörg önnur slík voru byggð til þess að útigangsfénaður gæti haft þar skjól hvaðan, sem vindurinn blés.
Enda þótt all-langt sé á (leiðar)enda þess vegar, sem kallað er “suður með sjó” skal hér látið látið staðar numið.“

Handritið er óundirritað, en við samanburð á ritun hliðstæðra og jafnvel sömu upplýsinga má sjá að þær eru skráðar með eigin hendi Erlendar. Ummerki eru um brunaleifar á handritinu, en eins og kunnugt er brann húsið á Kálfatjörn, fyrrum heimili Erlendar árið 1988.
Enn þann dag í dag má sjá hluta leiðarinnar, sem Erlendur lýsir í framangreindu handriti, s.s. um norðanverða Arnarneshæð, um Hellnahraunið þar sem nú er golfvöllur að hluta og framkvæmdarsvæði, austan við Brunann, spotti við kapellluna í Kapelluhrauni, um Brunaskarð ofan Gerðis, Alfaraleiðin ofan Hraunabæjanna, Almenningsleiðin um Vatnsleysuströnd, Reiðskarð og Stapagötuna á Vogastapa. Skógfellavegur frá Vogum til Grindavíkur, Skipsstígur og Árnastígur frá Njarðvíkum og Prestastígur frá Höfnum til Grindavíkur má enn feta um gróin hraunin – klappaða í berghelluna. Þá má enn sjá Sandgerðisveginn milli Grófarinnar og Sandgerðis og bæði Efri- og Neðrileið (Garðstíg) milli Grófarinnar og Garðs. Auk þessa sér enn fyrir Fuglavíkurleiðinni og Hvalsnesleiðinni milli Grófarinnar og framangreindra staða.
Gamla Ljóst er að víða hafa hinar gömlu þjóðleiðir, fótfetungar horfinna kynslóða, verið eyðilagðar bæði af vanþekkingu og vangá. Oft hefði verið lítið mál að hliðra nýrri vegum spölkorn án vandkvæða og þar með varðveita gömlu leiðirnar sem áþreifanlegan minnisvarða um þar sem var og nú má telja til hluta af arfleifðar eftirlifandi kynslóða. Hún sem og afkomendur þeirra munu hafa gott af því að verða meðvituð með með augljósum hætti hvernig og við hvaða aðstæður forfeður og -mæður þeirra komu þeim til manns (og kvenna).
Hinar gömlu alfaraleiðir eru hluti af sögðu svæðisins, líkt og verstöðvar, sel eða aðrar búskaparminjar er undirstrika tilvist fólksins fyrr á öldum – fólksins, sem kom okkur til þessa lífs.
Þegar horft er á vinnuvélarnar í Hellnahrauni sunnan Hafnarfjarðar skafa ofan af hraunhellunni og þar með afmá forna þjóðleið um hraunið, þegar horft er á hús byggð þvert á leiðirnar þar sem má vænta ómældrar umferðar framliðinna um ókomna tíð og raska þannig heimildisfriði nýbúanna, þegar horft er á óþarfa jarðrask í nálægð nýrra þjóðvega og þegar horft er upp á algert meðvitundarleysi ungra sérfræðinga nýrra úrræða um minjar gamalla tíma verður ekki hjá því komist að undirmeðvitundinni sárni. Margir fá fyrir hjartað þegar þeir horfa upp á óþarfa rask á ósnortu umhverfi. Sama gildir um þá, sem sjá og þekkja til gamalla mannvirkja í landslaginu er öðrum virðist hulið – og allrar þeirra sögu sem þær fela í sér, jafnvel þótt jarðlægar séu.
Þegar haldnar eru sérstakar menningarhátíðir í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er áherslan einkum lögð á „hoppukastala“ og sölutjöld. Hvernig væri að horfa að hluta til á og gefa þátttakendum, hvort sem um er að ræða heimafólki eða gestum þess, a.m.k. svolitla innsýn í aðdraganda og forsögu þess að viðkomandi samfélag hafi orðið til og getað dafnað með þeim hætti, sem raunin er. Sá þáttur hlýtur bæði óneitanlega og óhjákvæmilega að vera hluti af „menningu“ þess svæðis, sem er jú jafnan megintilefni fagnaðarins.
Heimild:
-Suður með sjó – Erlendur Magnússon frá Kálfatjörn (f: 1892, d: 1975) – óbirt handrit.

Norðurkot flutt til nýrra heimkynna

Norðurkotshúsið flutt af grunni.

Hvassahraun
Girðingu austan Hvassahrauns var fylgt til norðurs frá Skyggni. Skammt undan hólnum er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos.
Girðingin, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar.

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um. Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður.
Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum. Ofan hans eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra. Handan Markakletts var komið að nokkrum fallegum spegilsléttum tjörnum inn á milli Kindinhárra kletta. Við eina tjörnina var, að því er virtist, elliær sækind. Tókst að taka ljósmynd af kindinni með því að læðast að henni og koma að óvörum. Vel mátti sjá sauðasvipinn á henni ef vel var að gáð. Þegar hún varð mannaferða var stökk hún áleiðis til sjávar og hvarf sjónum.
Skammt austar eru háir klettar, Réttarklettar. Gróið er í kringum þá. Umhverfis eru hlaðnir garðar og mótar fyrir tótt norðan við klettana. Hlaðinn stekkur er utan í garði austan þeirra. Ekkert nafn virðist vera á þessu svæði því það virðist ekki vera til á kortum. Heimild er til um kot fyrrum á þessu vsæði, Svínakot. Í örnefnalýsingu fyrir Lónakot segir m.a. um þetta svæði: „Úr Söndugrjóti lá landamerkjalínan í Markhól eða Hól, sprunginn, með Markhólsþúfu. Þar er enga áletrun að finna. Frá norðurtúngarðshliði lá Sjávargatan vestur með sjónum.
Gata þessi vestur með sjónum var gerð fær hestvagni eftir 1920 og eftir henni ekið með reka af fjörunum. Lónakotsvör var vestan og neðan vesturtúngarðsins, en mun sjaldan hafa verið notuð nema að sumri til. Hér nokkru vestar var Brimþúfa, þúfa uppi á kletti. Niðri í fjörunni var Mávahella, þar sátu mávarnir og skarfarnir [og] viðruðu sig. Vestan var strýtumyndaður hóll, nefndist Nípa. Þar upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól og Nípurétt, tóft réttar við hellisskúta syðst í lægðinni. Nokkru lengra vestur voru klettastrýtur, nefndust Réttarklettar.  Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól.“
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Ef fé hefur verið haldið þarna mátti draga þá ályktun að þar hlyti að vera einhver fjárskjól auk þessa vestan á nesinu. Þegar vel var skyggnst mátti greina hleðslu á hól í suðri. Stígur virtist liggja í þá áttina. Honum var fylgt og var þá komið að miklum hleðslum fyrir skúta, fjárhelli. Skútinn var í hárri hraunkvos og var vel gróið í kring. Ekki var að sjá merki mannaferða í eða við skútann, sem er vel hár og rúmgóður.
Sjávargötunni var fylgt til austurs, yfir hraunhaft, framhjá Nípu og áfram áleiðis að Lónakoti.
Tækifærið var notað og mannvistarsvæðið rissað upp.
Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Bláfjöll

Í Sveitarstjórnarmál 1980 fjallar Kristján Benediktsson um „Bláfjallafólkvang„.

Bláfjallafólkvangur

Bláfjallafólkvangur – kort.

„Hinn 31. janúar 1973 samþykkti náttúruverndarráð stofnun fólkvangsins, og með auglýsingu í Stjórnartíðindum tveimur mánuðum síðar má segja, að hann hafi verið orðinn að raunveruleika. Þau sveitarfélög, sem í upphafi stóðu að Bláfjallafólkvangi, voru Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Selvogur. Síðar bættust í hópinn Hafnarfjörður, Garðabær og Keflavík.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir vel legu Bláfjallafólkvangs og veginn á skíðasvæðin, sem tengist Austurveginum víð Sandskeið. Austurhornið er Vífilfell. Þaðan liggur línan eftir háhrygg fjallgarðsins í Kerlingahnúk á Heiðinni há. Hæsti punkturinn á fjallshryggnum er Hákollur, 702 metrar, og er hann beint upp af Kóngsgili. Frá Kerlingahnúk liggja mörkin um Litla-Kóngsfell, Stóra-Bolla og í Heiðmerkurgirðinguna við Kolhól.
Síðan eru mörkin um Heiðmerkurgirðingu að punkti, sem skerst af línu, sem dregin er milli Stríps og Stóra-Kóngsfells. Síðan liggja mörkin um Sandfell, norðvestur af Rjúpnadölum, í koll Vífilfells.

Bláfjöll

Bláfjöll – Drottning.

Innan Bláfjallafólkvangs er mikið um hraun og eldstöðvar margar. Víða í hraununum eru op og hellar og vissara að fara með gát um þau svæði og fylgja merktum gönguleiðum.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell við Bláfjöll.

Eldborg er friðlýst náttúruvætti rétt við veginn. Hún er falleg eldstöð, sem mikið hraun hefur komið frá. Vegurinn frá brekkubrúninni norðan Rauðuhnúka og upp á skíðaslóðirnar liggur mestan part á Eldborgarhrauni.
Skammt frá Eldborginni eru tvö fell, Stóra-Kóngsfell (596 m), þar sem fjallkóngar skipta leitum, og Drottningarfell, sem bæði er lægra og minna um sig. Hvergi hef ég séð nákvæma stærðarmælingu af Bláfjallafólkvangi. Ekki mun fjarri lagi að áætla, að hann sé 70—80 km2.“

Heimild:
-Sveitarstjórnarmál 01.02.1980, Bláfjallafólkvangur, Kristján Benediktsson, bls. 7-8.

Bláfjöll

Gengið um Bláfjallasvæðið.

Þingvallavegur

„Lagning gamla Þingvallavegarins hófst árið 1886 og var að fullu lokið árið 1891. Þessi þjóðvegur gegndi því hlutverki í rúmlega 40 ár að greiða mönnum leið yfir langa og oft torsótta heiði, þegar farartækin voru eigi önnur en fætur manna thingvallavegurinn gamli-901og hesta, og síðar á bifreiðum, en telja verður því lokið eftir alþingishátíðina árið 1930.
Vegurinn liggur austan við Seljadalinn, en áður lá leiðin um þann dal. Eftir dalnum rennur Seljaá. Þar sem Seljaá beygir meðfram Borgarhólum, hefur verið byggð brú yfir ána. Við Háamel hefur sæluhús  verið byggt úr tilhöggnu grjóti. Austan við Morldabrekkur mótar fyrir tóftum. Það eru leifar elsta sæluhússins á heiðinni sem kunnugt er um. Það sæluhús var lagt niður og nýja sæluhúsið byggt á Háamel, á sama tíma og vegurinn var lagður, sem fyrr segir.
Verkstjóri við lagningu Þingvallavegarins var Erlendur Zakaríasson, en hann og bróðir hans Árni, voru þekktir vegaverkstjórar á síðustu áratugum 19. aldar og fram á fyrstu áratugi þeirrar tuttugustu.
Einar Finnsson járnsmiður frá Meðalfelli í Kós hafði lært vegalagningu í Noregi. Hann byggði brúna á Seljaá og ræsin á veginum eru hans handverk. Sigurður Hannesson, bróðir hins kunna landspósts, Hans Hannessonar, hlóð vörðurnar og sæluhúsið. Þessir menn hafa báðir hlaðið sér veglega minnisvarða, sem enn standa að mestu óhreyfðir.
Vörður, brýr, veggir og vegræsi gamla Þingvallavegarins heyra undir listaverk hagleiksmanna og hvort mun það ekki í verkahring komandi kynslóða að vernda þau sem slík um aldur og ævi?
Þegar leið að alþingishátíðinni 1930, var farið að huga að veginum milli Reykjavíkur og Þingvalla. Þá þótti sýnt, að vegurinn myndi ekki bera uppi þá umferð sem ætla mátti að yrði milli þessara höfuðstaða. Því varð að ráði að leggja annan veg um Mosfellsdal og Mosfellsheiði norðanverða. Þeirri vegagerð lauk svo um vorið 1930 áður en hátíðin hófst. Umferð var þá þannig hagað, að frá Reykjavík var farið um nýja veginn um Mosfellsdal, en gamla veginn að austan.
Þegar alþingishátðinni var lokið, var hlutverki gamla Þingvallavegarins líka lokið. Honum var ekki lengur haldið við, þörfin fyrir hann var ekki nein orðin, þar sem nýrri vegurinn var framtíðarleiðin.“

Heimild:
-Safn til sögu Reykjavíkur – Reykjavík, miðstöð þjóðlífs, samgönguleiðir til Reykjavíkur að fornu og nýju, bls. 79-97.

Mosfellsheiði

Gamli Þingvallavegurinn.