Vaktarabærinn

Framkvæmdum við endurgerð Vaktarabæjarins, næstelsta timburhúss Grjótaþorpsins, lýkur á næstu tveimur mánuðum að sögn Þorsteins Bergssonar, framkvæmdastjóra Minjaverndar.
VaktarabaerinnReykjavíkurborg keypti húsið árið 2008 og afsalaði því til Minjaverndar sem hefur haft veg og vanda af framkvæmdunum sem hófust fyrir nokkrum árum. Vaktarabærinn, sem stendur við Garðastræti 23, var byggður á árunum 1844 til 1848. Húsið, sem er friðað, var upphaflega byggt sem pakkhús við gamla Vaktarabæinn, sem var torfbær. Vaktarabærinn dregur nafn sitt af Guðmundi vaktara Gissurarsyni, sem bjó þar. Húsinu var breytt úr pakkhúsi í íbúðarhús um árið 1886. Þá keyptu hjónin Sesselja Sigvaldadóttir og Stefán Egilsson húsið og bjuggu þar ásamt börnum sínum, sem öll fæddust í húsinu. Þeirra á meðal voru tónskáldið ástsæla Sigvaldi Kaldalóns og bróðir hans stórsöngvarinn Eggert Stefánsson. Þorsteinn segir að búið hafi verið í húsinu til ársins 1960 en síðan þá og þar til framkvæmdir við endurgerð þess hófust hafi það verið í niðurníðslu og meðal annars notað sem málningarskúr. Hann segir enn óvíst hvað gert verður við húsið að loknum endurbótum. Ýmsar hugmyndir séu uppi, ein sé sú að leigja húsið ferðamönnum. Elsta timburhús Grjótaþorpsins er hús Innréttinganna við Aðalstræti 10. Það var reist árið 1764.

Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, bls. 1.

Vaktarabærinn

Vaktarabærinn.

Kópavogsþingstaður

Við Þinghól á Kópavogsþingsstað eru tvö upplýsingaskilti frá Sögufélagi Kópavogs; annað er um Kópavogsfundinn 1662 og hitt um þingstaðinn. Á fyrrnefnda skiltinu má lesa eftirfarandi texta:
Kopavogsthingstadur-22„Árið 1660 hófst breyting stjórnskipunar konungsríkisis Danmerkur til einveldis. Vald konungs jókst, erfðaréttur konungsættarinnar var lögbundin og afnumin voru viss réttindi aðalsins. Áður var koungur kjörinn á stéttaþingum.
Friðri III. Danakonungur var hylltur á Alþingi 1649, árið eftir að hann tók ríki. Þegra hann varð einvaldur 1661 skyldi staðfesta nýja eiða í löndumhans. Í þeim erindagjörðum kom Henrik Bjelke, aðmíráll og hirðstjóri á Íslandi, sumarið 1662.
Borist höfðu bréf til landsins þá um vorið um að sendir skyldu fulltrúar á Alþingi til að hylla Friðri III. sem erfðakonung. Ekki var minnst á einveldishyllingu í þeim bréfum.

Kopavogsthingstadur-23

Hingaðkoma Bjelkes hirðstjóra tafðist um þrjár vikur, þinghaldi var lokið við Öxará þegar skip hans kom að landi í Skerjafirði. Eiðarnir voru því ekki undirritaðir á Alþingi. Fyrsta verk Bjelkes 12. júlí 1662 var að senda valdsmönnum bréf; þeirra var vænst við Bessastaði 26. júlí. Daginn eftir, sem var sunnudagur, skyldu eiðarnir undirritaðir.
Árni Oddsson lögmaður setti þing í Kópavogi mánudaginn 28. júlí 1662, degi of seint. Ástæða tafarinnar liggur ekki fyrir, en vísbendingar eru um að Árni og Brynjólfyr Sveinsson biskup hafi mótmælt til varnar fornum réttindum landsins. „Var þann dag heið með sólskini“ segir í Vallholtsannál.
Á Kópavogsfundinum 28. júlí 1662 var Friðrik III. hylltur sem „einn Absolut sauverejn og erfðaherra“ þannig varð hann hvort tveggja einvaldskonungur og erfðakonungur. Undir eðana rituðu 109 menn; báðir biskuparnir, báðir lögmennirnir, 42 prestar og prófastar, 17 sýslumenn, 43 lögréttumenn og bændur, svo og landþingsskrifari, klausturhaldari og bartskeri.

Kopavogsthingstadur-24

„Og að þessum eiðum unnum og aflögðum gerði lénsherrann herra Henrich Bjelke heiðarlegt gestaboð og sæmilega veizlu öllum þar saman komnum, og stóð hún fram á nótt með trómetum, fíólum og bumbum; fallstykkjum var þar og skotið, þremur í einu, og svo á konungsskipi, sem lá í Seilunni; rachetter og fyrværk gekk þar þá nótt, svo undrum gegndi“, segir í Fitjaannál.
Á þinginu voru undirritaðar bænaskrár til konungs um að fá að halda fornum lögum og réttindum, áréttuð fátækt landsins og nýju álögum hafnað. Ekki var minnst á einveldi í bænaskránum.
Með Kópavogsfundi minnkaði vald Alþingis. Konungur tók í ríkari mæli til sín löggjafarvaldið og styrkur embættismanna konungs á Bessastöðum jókst.“
Kopavogsthingstadur-25Á síðarnefnda skiltinu má lesa eftirfarandi texta: „Land Kópavogsbæjar var áður í Seltjarnarneshreppi hinum forna. Mörk hans voru á milli Kollafjarðar og Skerjafjarðar og allt til fjalla.
Frá gildistöku lögbókarinnar Járnsíðu 1271 var sett í landi Kópavogs hreppaþing og þriggja hreppa þing fyrir Seltjarnarneshrepp, Álftaneshrepp og líklega Mosfellssveit.
Á þingstaðnum í Kópavogi gengu dómar sýslumanna í héraði og var þar dómstigið fyrir neðan Öxarárþing. Dómabækur Gullbringusýslu, þ.m.t. Kópavogsþings, eru nokkrar til í Þjóðskjalasafni, sú elsta frá 1696.
Eldri vitnisburðir um Kópavogsþing en sjálfar dómabækurnar eru féinir til. Elstu þekktu rituðu heimildir eru frá 1523. Þá fékk Hannes Eggertsson hirðstjóri forvera sinn Týla Pétursson dæmdan og tekinn af lífi eftir ránsferð Týla og Kopavogsthingstadur-26flokks hans um Bessastaðagarð í átökum um völd og embætti.
Þann 5. apríl 1574 gaf Friðrik II. Danakonungur út opið bréf um að Alþingi skyldi flutt á þingstaðinn í Kópavogi. Þessi tilskipun var, líkt og margar aðrar, hundsuð af Íslendingum.
Síðustu aftökurnar í Kópavogi fóru fram 15. nóvember 1704. Þá var hálshöggvinn Sigurður Arason og drekkt Steinunni Guðmundsdóttur frá Árbæ fyrir morðið á manni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni (sjá meira HÉR).
Þjófnaðarmál frá 1749 er síðasti þekkti dómurinn á Kópavogsþingi. Þing var sett í Reykjavík árið 1751 og þar með lýkur sögu þinghalds í Kópavogi þar til embætti bæjarfógetans í Kópavogi var stofnað 1955. Lægra dómsstigið var á ný í Kópavogi og Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði settur.“

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

 

Arnarsetur

Gengið um Arnarseturshraun og Skógfellahraun með áherslu á nálægð við Arnarsetur, gígsvæðið. Ætlunin var að kíkja í nokkra hella á svæðinu, s..s. Arnarseturshelli, Hnappinn (Geirdal) og Hestshelli, auk þess sem tilgangurinn var að leita eftir áður óþekktum hellaopum í hraununum.
Hrauntröð í ArnarsetriÞegar komið var upp í megingíg Arnarseturs var tilvalið að staldra við og rifja upp uppruna og þróun sköpunarverksins. Miðað við að elsta berg á Íslandi (myndaðist í hraungosi) geti verið um sextán milljón ára gamalt verður Reykjanesskagi að teljast ungabarn á þeim mælikvarða því talið er að elsta grunnbregið á Skaganum geti verið um tvö hundruð þúsund ára gamalt, þ.e. Stapinn og Rosmhvalanesið. Hraunin eru hins vegar allflest frá sögulegum tíma eða yngri en tólf hundruð ára. Tímatal jarðfræðinnar og þróun grundvallast á grágrýti frá síðasta hlýskeiði, móbergsmyndunum frá síðasta jökulskeiði og hraunum frá nútíma. Það merkilegasta við  Reykjanesskaga er að hann er a) úthafshryggur á þurru landi, b) eldstöðvakerfi án „megineldstöðvar“, c) þverbrotabelti, d) gosmyndanir undir jökli, e) móbergshryggir og -stapar, f) gosmyndanir undir berum himni og g) sprunguhraun og dyngjur. Eins og sjá má er ekki af svo fáu að státa á ekki stærra landssvæði.
Hús í ArnarsetriOg þá svolítið um aldur og tilurð hraunanna á sögulegum tíma. Arnarseturshraunið rann árið 1226 líkt og Stampahraun utar á Skaganum. Þó eru nokkur hraunanna eldri, s.s. Afstapahraun frá því um 900 og Svínahraun frá árinu 999 eða 1000. Árið 920 kom upp gjóskulag í gosi á Reykjanesi, en staðsetning þess er óviss. Þannig háttar til að nýrri hraun hafa runnið að hluta til yfir þau eldri og stundum sveipað upprunastað þeirra slæðu.
Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru framangreind gos frá 10. öld, svonefndir Bláfjallaeldar. Goshrinan hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000. Í þessum gosum mynduðust feiknarmikil hraun.
Samkvæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á InnandyraReykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200–300 ár. Miðgosið á Reykjanesskaga er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum. Þá náði gossprungan í Trölladyngju og eru eldarnir stundum nefndir við hana. Árið 1188 gaus enn og þá mynduðust Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun. Óvíst er hversu sú goshrina stóð lengi yfir, en ætla má að hún hafi verið fremur stutt.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni. Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga. Á þessu tímabili er vitað skv. öskulagarannsóknum, að gosið hafi árið 1223. Það var undan Reykjanesi og er staðsetningin óviss. Árið 1225 gaus einnig undan Reykjanesi, en staðsetningin er einnig óviss.
Þorbjörn kallast á við ArnarseturÁ árunum 1226-27 urðu nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, Klofningahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og hraunið undir fótum vorum; Arnarseturshraun. Sandvetur fylgdi í kjölfarið af völdum mikils öskugoss við Reykjanestá og féll þá svokallað Miðaldalag, sem oft er miðað við þegar aldursgreina á hraun eða mannvistarleifar. Öskulagið er svart og fínkornað. Harðindi og mikið mannfall fylgdu í kjölfarið.
Skömmu síðar, eða árið 1231 gaus undan Reykjanesi. Einnig árið 1238 og 1240, en í öllum tilvikum er staðsetning óviss.
Engin hraun frá 14. öld hafa fundist á Reykjanesskaga. Hins vegar gaus á 15. öld, eða árið 1422 og þá út undan Reykjanesi. Eyja myndaðist og stóð í nokkur ár. Síðan leið og beið. Skaginn svaf rólega um aldir eða allt til 1783. Þá gaus á Reykjaneshrygg suðvestur af Eldey. Nýey reis úr sjó en hvarf fljótt aftur. Eldey, sem varð til á fyrri hluta 13. aldar, er einu verulegu ummerkin eftir jarðeldana utan við Reykjanesið, enn sem komið er a.m.k.
Í Arnarsetri urpu fyrrum ernir að sögn Bjarna Sæmundssonar. Út frá megingígnum er falleg hrauntröð og mikilfenglegHrauntröð í Arnarsetri kvikutjörn.
Gengið var eftir fyrirfram ákveðinni leið, þ.e. um svæði, sem FERLIR hafði ekki skoðað sérstaklega í fyrri ferðum um svæðið. Og eins og svo oft áður fannst svolítið merkilegt – áður óþekkt. Þegar tiltekið svæði með ótrúlegum hraunmyndunum var skoðað mjög nákvæmlega kom skyndilega í ljós „hús“. Hlaðið hafði verið fyrir hellisop. Utan við opið hafði verið flórað og innan við opið voru manngerð þrep. Slétt gólf er í hellinum og loftið braggalaga. Þarna hafa einhverjir kunnáttumenn gert sér athvarf um tíma. Fyrirhleðslan var mosavaxin og í hraungambranum fyrir framan opið voru hvergi ummerki eftir nýlegar mannaferðir. Ekki er ósennilegt að einhverjir í vegavinnuflokknum, sem gerði gamla Grindavíkurveginn á árunum 1913-1918, hafi átt þarna hlut að máli. Flokkurinn var á þessum slóðum árið 1916. Húsið er þó allnokkurn spöl frá hlöðnu vegavinnubúðunum á Gíghæð.
Hið smáa í Arnarsetri er líka fallegtÞegar gengið er um hinar stórbrotnu hrauntraðir og djúpu kvikutjarnir Arnarseturs mátti glögglega gera sér grein fyrir hversu feikilega fallegt og merkilegt þetta landssvæði er, bæði út frá jarðfræðilegum forsendum og ekki síður út frá nærtækum náttúruverðmætum. Eins og síðar kemur fram í tilvitnaðri umfjöllun Björns Hróarsson, jarð- og hellafræðings hefur Arnarsetri verið raskað verulega – og er þá hóflega tekið til orða. Staðreyndin er einfaldlega sú, ef tekið er mið af framangreindu, að svæðið sem heild (eldstöð frá sögulegum tíma) gæti hafa orðið eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna á gjörvöllum Reykjanesskaganum. Fyrir skammsýni (eða af þekkingaleysi) hefur þessari náttúrperlu verið raskað verulega. Eftir standa á hrauntraðirnar og kvikutjarnirnar fyrrnefndu, sem og hellarnir, sem nú verður lýst nánar.
Í bókinni „Íslenskir hellar“ (2006) segir höfundurinn, Björn Hróarsson m.a. eftirfarandi um Arnarseturshraun, Hnapp (Geirdal) og Arnarseturshelli:
Arnarseturshellir„Arnarseturshraun (100 m.y.s.) hefur runnið frá miklum gígum þar sem heitir Arnarsetur og eru skammt austan við Grindavíkurveg, norðan Vatnsheiðar. Þar hefur gosið á stuttri gígaröð með aðeins þremur gígum, sem nú eru mjög skemmdir af efnistöku. Hraun rann til allra átta út frá Arnarsetri. Til norðurs nær hraunið að Snorrastaðatjörnum en til suðurs langleiðina að Svartsengi. Grindavíkurvegur liggur umhraunið langleiðina frá Reykjanesbraut að Svartsengi. Arnarseturshraun er um 22 ferkílómetrar að flatarmáli og talið allt að hálfur rúmkílómetri. Talið er að hraunið hafi runnið skömmu fyrir árið 1230.“
Um Arnarseturshelli segir Björn: „Gígurinn sjákfur við Arnarsetrið er stórbrotinn. Einnig annar stærri skammt austar. Hellirinn er norðan við gíginn. Frá honum liggur stígur til vesturs norðan við Arnarstetrið. Op hellisins er stórt. Botninn er sléttur og gott rými inni í hellinum. Hann er opinn til beggja enda og um 30 metra langur. Þegar jarðföll og rásir sunnan við hann eru taldar með er heildarlengdin um 75 metrar.“
Hnappur, eða Geirdalur, er miðja vegu milli Arnarseturshellis og Hestshellis til norðurs. „Geirdal er fHnappurjölbreytilegur hellir og margslunginn. Þótt hann virðist ekki langur við fyrstu sýn er heildarlengd hans 213 metrar. Lítið er um skraut en hellirinn hefur þó upp á margt að bjóða. Inngangan er í gegnum þröngt, djúpt, op. Þegar niður er komið er hægt að velja um efri og neðri hæð. Efri hæðin lokast fljótt en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfosso. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega og er þar mikill salur. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring. Upp úr einni af þessum rásum er annað op á hellinum.
Hnappsnafnið er þannig til komið að þegar hellamennirnir Ingi Óskarsson og Frímann Grímsson könnuðu hellin héldu þeir lengi vel að þeir væru fyrstu mennirnir þar inn. Skyndilega heyrði Ingi hvar Frímann bölvaði ógurlega, sá hann beygja sig og taka upp tölu, trúlega af skyrtu. Eftir tölunni gáfu þeir félagar hellinum nafn sitt. Jóhann Geirdal kortlagði hellinn ásamt fleirum 1984. Einhver þeirra félaga hefur líklega týnt hnappi þeim sem Frímann fann og nefndi hellinn eftir.“
Hestshellir er fast við Grindavíkurveginn að austanverðu. „Hellirinn liggur undir veginn. Miklar hleðslur eru við munnann og mynda þær reglulegar dyr. Hellirinn er hæstur og víðastur fremst, en lækkar og þrengist eftir því sem innar dregur. Hvergi er hátt til lofts í hellinum, lofthæðin er víðast hvar innan við einn metri. Hellirinn kvíslast í margar áttir, innarlega eru tvö op lítil op til yfirborðs er bera birtu inn. Inn við hellisbotn er töluvert um útfellingar og víða í hellinum myndar hraunið sérkennileg form. Heildarlengd hellisins er um 200 metrar.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Arnarsetur

 

Kapella

Flestar minjar á Reykjanesskaganum eru ómerktar og lítt aðgengilegar. Við Kapelluna í Kapelluhrauni standa hins vegar tvö upplýsingaskilti, reyndar með misvísandi fróðleik. Skiltin voru þrjú, en eitt hefur verið fjarlægt.
SkiltiÁ öðru skiltinu, frá Byggðasafni Hafnarfjarðar, stendur m.a.: „Snemma á 13. öld var höfðingi í borginni Nikómedíu í Litlu-Asíu, þar sem nú er Izmid í Tyrklandi. Átti hann forkunnarfríða dóttur er Barbara hét. Hún var í æsku lokuð inni í turni einum til að forðast biðla en þrátt fyrir einangrunina tókst Origeneses kirkjuföður að komast inn til hennar og fyrir fortölur hans tók hún kristna trú. Barbara lét aldrei af trú sinni, þrátt fyrir pyntingar sem að stærstum hluta voru gerðar að kröfu föður hennar, sem vildi snúa henni aftur til heiðinnar trúar. Að lokum var hún leidd fyrir dómara og dæmd til lífláts í ofsóknum á kristna menn.
Hún varð snemma kaþólskur dýrlingur, aðallega ákölluð við óvænta hættu, eldsvoða, sprengingar og þess háttar. Hérlendis lá því beint við að ákalla hana í sambandi við jarðelda og hraunflóð.
Kapella þessi er á skrá yfir friðlýstar fornminjar og er talið að hún sé frá kaþólskum tíma en ekki hefur hún verið aldursgreind nánar. Hraunið umhverfis kapelluna hefur verið kallað Kapelluhraun eða Nýjahraun og er talið að það hafi runnið einhvern tímann á tímabilinu 1100-1300. Kapellan er rétt við gamla krákustíginn, sem ruddur var fljótlega eftir að hraunið rann og hefur verið alfaraleið út á nes öldum saman.
KapellanÁrið 1950 var rústin rannsökuð af þeim dr. Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, Gísla Gestssyni, safnverði, Jóhanni Briem, listmálara, og dr. Jóni Jóhannessyni. Fundust þá nokkrir munir í rústinni og ber þar helst að nefna hluta af líkneski heilagrar Barböru. Líkneskið var úr grágulum leirsetini og var einungis um3.3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5.5 cm heilt. Þar sem hraunið sem kapellan stendur er yngra en landnám var það vel við hæfi að einmitt heilög Barbara fannst þarna, sem e.t.v. stendur í sambandi við bæn um það, að svona hrikalegt hraunrennsli endurtaki sig ekki. Styttan sem fannst við rannsóknina er varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands, en þessi hérna er eftirlíking, svipuð en lítið eitt stærri.
Kapella þessi er alveg við gamla veginn og hefur því líklega einnig verið eins konar sæluhús. Menn hafa farið inn til að biðja bæn sína, en líka til að hvílast eða leita skjóls í vondum veðrum.“
Á hinu skiltinu er svipaður texti, styttri. Þar segir að hraunið hafi runnið á 14. öld, en nú hefur verið staðfest skv. áreiðanlegustu aldursgreiningum að hraunið rann árið 1151.
Á bls. 7 í 32. tbl. Fjarðarpóstsins, 24. árg. 2006 (www.fjardarposturinn.is) er fjallað um „Menningardag Evrópu“, sunnudaginn 3. september. Áætlað er skv. umfjölluninni að hafa dagskrá við „kapelluna“ í Kapelluhrauni kl. 14.00 þennan tiltekna dag. Í umfjölluninni segir m.a.:
„Álverið í Straumsvík stendur á hrauni sem ber nafnið Kapelluhraun. Hraunið á upptök sín í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Talið er að hraunið hafi komið upp í eldgosi árið 1151, svokölluðum Krýsuvíkureldum.
Hraunið dregur nafn sitt af Kapellunni, rúst af litlu húsi skammt suður af Reykjanesbraut gegnt álverinu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapelluna árið 1950 ásamt fleirum. Kapellutóftin snýr því sem næst í austur-vestur og er 240 cm löng og um 220 cm breið. Húsið hefur verið reist við götu sem rudd var gegnum hraunið og lá út á Reykjanes. Vegna mikillar efnistöku í kringum kapelluna er gatan nú að mestu horfin í nágrenni kapellunnar en smá bútur sést þó sunnan rústarinnar. Í kapellunni fundust nokkrir gripir. Þar á meðal brot af rafperlu, leirkersbrot, látúnslauf, kríptarpípuleggur, skeifubrot og naglar. Merkasti fundurinn var þó líkneski af heilagri Barböru. Staðsetning rústarinnar við veginn og fundur líkneskisins í rústinni benti að mati Kristjáns Eldjárns til þess að þarna hefði staðið vegakapella á kaþólskum tíma.
Líkneskið er tálgað úr grágulum leirsteini. Aðeins efri hluti þess fannst og er sá hluti 3,3 Kapellacm á hæð en talið að líkneskið haf upphaflega verið um 5,5 cm. Andlit heilagrar Barböru er nokkuð máð en hún er með mikið hrokkið hár niður á herðar og sveigur er um yfir ennið. Í vinstri endi heldur Barbara á einkenni sínu, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna, sprengingum og þess háttar. Hún var verndardýrlingur stórkotaliðs, ferðamanna og síðar málmiðnaðarmanna. Barbara kann því að hafa þótt duga vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna. Þá er athyglisverð sú staðreynd að álver skyldi byggt við hlið kapellu verndardýrlings málmiðnaðarmanna.Â
Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætluðum vegfarendum til bænagerðar. Krossar hafa verið reistir á víðavangi í sama tigangi. Í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíkna og Borgarfjarðar eystri, stóð lengi kross þars em menn, sem áttu leið um skriðurnar, áttu að lesa faðirvorið.“
Í lok greinarskrifanna er lýst hinum „evrópska menningardegi“ sem og tilgangi hans, sem reyndar skiptir kapelluna í Nýjahrauni litlu máli.

Stytta

Málið er að saga og hlutverk kapellunnar í Kapelluhrauni (Nýjahrauni) ofan við Straumsvík er mikilvæg, bæði vegna staðsetningarinnar og þeir atburða er síðar gerðust í nágrenni við hana (hefndin á drápi Jóns Arasonar Hólabiskupi við Skálholt árið 1550). Þá er hún ekki síður vitnisburður og staðfesting á hinni fornu leið, sem um hana lá yfir hraunið, frá Vestari-Brunabrúninni að hinni Austari, eins og segir í örnefnalýsingum. U.þ.b. 10 metra millikafli leiðarinnar sést enn suðvestan við kapelluna. Hins vegar er kapellan sjálf tiltölulega nýtt mannvirki, reist á gömlum grunni. Af myndum og uppdrttum Kristján Eldjárns (frá 1950) að dæma var kapellan, ferköntuð, niðurgrafin og hálffallin í kafi í mosavöxnu hrauninu.
Núverandi kapella er endurhlaðin með breyttu lagi (sporöskulaga), en á sama gólffleti og sú sem þar var fyrir. Best hefði farið á því að láta þessa tilteknu kapellutóft óhreyfða, eins og hún var, en ekki endurhlaða hana með þessu hæpna tilgátulagi. Með því varð, og verður, hún í augum „meðvitaðra“ óekta og miklu mun minna áhugaverðari en ella.
Hvort þessi tilltekna nútímalega (frá sjöunda áratug 20. aldar) „kapelluuppgerð“ getur talist sannur táknrænn vitnisburður um sögulega „menningararfleifð“ á evrópskan mælikvarða skal ósagt látið. Líklegra hefði hin sandorpna kapella á Hraunssandi, frá sama tíma, er Kristján Eldjárn og félagar grófu upp skömmu fyrir 1950, orðið miklu mun áhugaverðari minnisvarði (óhreyfður) um það sem var og þjónað miklu mun betur betur tilgangi tilefnisins. Hún er einnig táknræn fyrir það virðingarleysi, sem fornleifunum hefur til langs tíma verið sýnt.
Efni greinarinnar framangreindu er bæði áhugavert og erindissinnað og er því birt hér bæði til fróðleiks og uppfyllingar öðrum lýsingum á sömu mannvistarleifum á vefsíðunni.

Heimild:
-Fjarðarpósturinn, 32. tbl. 24. árg 2006, bls. 7. Grein Kristins Magnússonar, fornleifafræðings.

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni og kafli Alfaraleiðarinnar.

Arnarfell
FERLIR átti leið um Krýsuvíkursvæðið eins og svo oft áður. Um var að ræða 900. FERLIRsferðina. Nú átti kvikmyndatöku myndarinnar FooF (Flags of our Fathers) að vera lokið við Arnarfell. Tækifærið var notað til að gaumgæfa svæðið betur og í rólegheitum – og það með nákvæmari rannsóknaraugum en áður hafði gefist tóm til.
ArnarfellÞegar komið var á svæðið birtist vörður, annar enn og aftur, en sennilega í síðasta sinn. Hann gerði komumönnum kunnugt um að ekki mætti ganga um Arnarfellssvæðið og það þótt kvikmyndatökum væri lokið og búið að flytja mest af hafurtaskinu, sem henni fylgdi, á brott. Auk þess væri ekkert merkilegt að sjá á svæðinu. FERLIRsþátttakendum var skemmt, en stóðust ekki mátið, skiptust á lögmætum og réttlátum skoðunum við vörðinn, sem að lokum gafst upp, sneri sér undan, bandaði frá sér með hendinni og sagði: „Farið’i þá að fuckings fjallinu“.

Arnarfell

Búðir við Arnarfell.

Vörðurinn hafði þá a.m.k. lært eitthvað af útlendingunum, þótt ekki væri nema eitt notadrjúgt orð.
Hinum nýlagða vegslóða var fylgt að Arnarfelli. Í honum er talsvert efni, sem þarf að fjarlægja, sem og í athafnaplaninu við þjóðveginn. Forvitnilegt var að sjá „álagasteininn“, sem minnst hefur verið á áður, er jarðýtan bilaði þegar komið var að honum. Hann stendur upp úr planinu að norðvestanverðu og er hann það eina sem minnnir á, og mun minna á umhverfið, sem þarna var. Munnmæli herma að þarna undir steininum hafi andast vegfarandi er leið átti þar um fyrr á öldum. Auðvitað ber eftirlifendum að sína slíkum stöðum virðingu, og það jafnvel þótt þeir sjái oft sjálfir um að minna á sig þegar ástæða þykir til.
ArnarfellÁlagasteinn þessi var við gömlu þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er tekin var undir planið einhverra hluta vegna því það hefði mátt að ósekju vel vera skammt austar við veginn. Þá hefði þjóðleiðin gamla fengið að halda sér. Eflaust hefur bæjarstjóri Hafnfirðinga gefið henni auga er hann átti erindi í Krýsuvík nýlega.
Þegar komið var á athafnasvæðið kom í ljós að undir það síðasta hafði neðrihluti norðausturhlíðarinnar verið grafin meira og minna út með skotgröfum. Allt gróðurendið var orpið holum og náðu þær upp á fellsöxlina að austanverðu. Gróðurinn hafði verið sviðinn, en þó ekki það mikið að hann gæti náð sér upp að nýju þarna í skjólinu neðst í fellinu, en uppgröfturinn gerir það að verkum að svæðið verður aldrei samt á eftir. Og það jafnvel þótt torfbútar væru til staðar til yfirlagningar. Þarna þarf að slétta út hlíðina að hluta og sá í hana að nýju. Við það mun hún fá annað útlit en verið hefur. Áður hafði FERLIR verið kynnt að ekki yrði grafið með slíkum hætti í umhverfið svo sú yfirlýsing gekk a.m.k. ekki eftir.
Ofar í hlíðinni, þar sem skotbyrgðið var og nú hafði verið fjarlægt, utan steypusletta og -brota hingað og þangað, var mikið traðk á umtalsverðu svæði.
Arnarfell
Stígur hafði verið gerður upp fellsöxlina og sumsstaðar höggvið í bergið til að auðvelda gönguna. Efst var mikið traðk, einkum þar sem gróðurinn er viðkvæmastur. Búð var að flytja svolítinn áburð upp á toppinn, en greinilega átti eftir að lagfæra umtalsvert rask á miðju fellinu. Eríksvarðan hafði verið látin í friði – að mestu.
Ljóst er að talsverð vinna verður að koma svæðinu í samt lag á nýjan leik. Hins vegar má segja að raskið hefði getað verið meira og verra í svo umfangsmiklu verki sem kvikmyndatakan var því ef hún hefði átt að endurskapa raunveruleikann væri svæðið í heild alls ekki svipur hjá sjón.
FERLIR tók myndir af Arnarfellssvæðinu áður en kvikmyndatakan hófst. Það eru því til ágætar heimildir um hvernig svæðið leit út áður. Nú voru teknar myndir af svæðunum, sem verst urðu úti – áhorfendum til fróðleiks. Þær má einnig sjá á myndarsíðu vefsíðunnar.
Frábært veður í fögru og sagnaríku umhverfi.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Stefánsvarða

Gengið var frá Stefánsvörðu á Stefánsvörðuhólum áleiðis niður að Borgarkoti vestan Keilisness. Skammt norðan vörðunnar var komið að tvískiptum gömlum stekk, Borgarkotsstekk, í graslægð. Á bökkunum sáust leifar af gömlum garði. Norðaustan við stekkinn eru gróin svæði, en nokkuð uppblásin.

Borgarkot

Breiðufit – girðingasteinar ofan Borgarkots.

Gengið var norðnorðvestur í átt að Helgahúsi ofan við Breiðufit (Réttartanga). Á leiðinni var gengið þvert á gamla stógripagirðingu. Enn má sjá steinaröðina liggja þar til austurs og vesturs. Í hvern steinn eru klöppuð tvö göt; annað ofan á og hinn á hliðina. Í götin voru reknir trétappar og á tappana strengd bönd. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Skammt austan þess, norður undir grasi grónum klapparhól, var fallegt vatnsstæði, Vatnssteinar (Vaðssteinar). Í því var vatn. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól. Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Norðar er Borgarkot. Það mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau, að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot. Þarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir. Minnkaveiðimenn munu hafa rutt honum að mestu um koll, en þó sést enn móta vel fyrir honum á kambinum. Neðan tóttanna er Borgarkotsvörin, en ofan við hana lá dauður háhyrningur – nægt kjöt í margar grillveislur.

Borgarkot

Vatnssteinar – vatnsstæði við Borgarkot.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn ruddu síðar um koll.
Ofan við Borgarkotstúnið er varða á hól. Beint upp af henni, sunnan girðingar, sem þar er, er hlaðin refagildra.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á þetta svæði því bæði gleymdust skriffæri til uppdráttagerðar og gps-tækið til að staðsetja vatnsstæðin sem og refagildruna. Samt sem áður var gerður bráðabirgðauppdráttur af svæðinu með aðstoð bíllykils og pappaspjalds. Þarna er greinlega um að ræða stórlega vanmetið svæði. Miklar minjar eru við Borgarkot og einnig allt í kring.
Veður var frábært – hiti, sól og þægilegur andvari. Gangan tók u.þ.b. klukkustund.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.